Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2021 Naustabryggja

Árið 2021, þriðjudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 um að hafna kröfu húsfélags Naustabryggju 31-33 um að borgaryfirvöld tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 22. mars 2021 kærir húsfélag Naustabryggju 31-33, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 að hafna kröfu húsfélagsins um að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Er þess krafist að viðkomandi stjórnvald komi upp bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. apríl 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 í Reykjavík. Byggingarfulltrúa barst tölvupóstur frá kæranda 10. janúar 2018, þar sem spurt var um hvort verk fengi lokaúttekt ef ákvæði um frágang, fjölda og stærð bílastæða fyrir hreyfihamlaða væri ekki fullnægt. Einnig var spurt hvort verktaki fengi leyfi fyrir slíkri framkvæmd, þar sem fyrir lægi að lóð aðalinngangs byggingar væri á einkalóð annarra en þeirra sem byggju í umræddri byggingu og hvort eða hvernig væri þá unnt að uppfylla skilyrði lokaúttektar um stæði fyrir hreyfihamlaða. Erindinu var svarað að hluta til með tölvupósti starfsmanns skipulagsfulltrúa 15. s.m. á þann veg að kæranda hefði í tvígang verið sendir tölvupóstar með fylgigögnum er vörðuðu svæðið.

Hinn 22. febrúar 2019 barst Reykjavíkurborg annað erindi frá kæranda þar sem vakið var máls á því að bygging Naustabryggju 31-33 og annar frágangur stangaðist á við byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem engin aðkoma væri fyrir hreyfihamlaða. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með tölvupósti 7. mars 2019, þar sem meðal annars var vísað til teikningar af bílakjallaranum á lóð Naustabryggju 17-19 og 31-33 og Tangabryggju 6-8, 10 og 12-12A, en þar komi fram að í kjallaranum séu fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða og önnur átta bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu á lóð fyrir utan bílageymslu sem tilheyri húsunum.

Með tölvupósti til skipulagsfulltrúa 20. júní 2019 fór kærandi fram á það við borgaryfirvöld að gildandi deiliskipulagi yrði breytt þannig að Naustabryggja 31-33 fengi afnot af bílastæðum norðan við húsið og stæði fyrir hreyfihamlaða yrði merkt hið fyrsta ásamt því að tryggja aðkomu neyðarbíla. Erindinu var svarað af hálfu skipulagsfulltrúa 12. september s.á. þar sem skipulagslegar aðstæður voru skýrðar. Í svarpósti skipulagsfulltrúa kom meðal annars fram að ef óskað væri eftir afstöðu skipulagsfulltrúa um hvort mögulegt væri að breyta deiliskipulagi þyrfti að senda fyrirspurn þess efnis í gegnum rafræna Reykjavík.

Hinn 5. nóvember 2019 sendi kærandi borgaryfirvöldum erindi að nýju og var því svarað með tölvupósti yfirverkfræðings byggingarfulltrúa 20. nóvember 2019 og fylgdi í viðhengi öryggis- og lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna umræddrar byggingar ásamt umsókn um byggingarleyfi og afgreiðslu hennar í fundargerð. Byggingarfulltrúi svaraði jafnframt erindinu með tölvupósti sama dag. Þar kom meðal annars fram að ekki yrði annað séð en að gerð væri góð grein fyrir algildri hönnun og aðkomu fyrir alla á samþykktum teikningum. Með tölvupósti 24. nóvember 2019 til Reykjavíkurborgar áréttaði kærandi kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 þess efnis að skilyrðum byggingarreglugerðar væri fylgt og a.m.k. þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðalinngangi þessara tveggja stigaganga. Erindinu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa 25. nóvember s.á. Ítrekaði hann að embættið hafi ekki komið að gerð deiliskipulags svæðisins. Kröfur um bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingar­reglugerð væru uppfylltar í bílastæðakjallara. Vissulega væri erfitt að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða við götu nálægt aðalinngögnum hússins vegna staðsetningar lóðarmarka til norðurs, en bæði væru merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðinni og við næstu götur. Þau væru þó vissulega ívið lengra frá aðalinngöngum en kveðið væri á um í byggingarreglugerð. Því yrði ekki breytt á meðan lóðarmörkin við norðurhlið húsanna nr. 31-33 við Naustabryggju væru eins og raun bæri vitni samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Með tölvupósti sem var sendur af hálfu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til byggingarfulltrúa 21. janúar 2020 var þess óskað að tekin yrðu saman þau svör sem veitt hafi verið vegna fyrirspurna kæranda og honum sent heildstætt lokasvar vegna ítrekunar hans á því að ófullnægjandi svör hafi borist við erindi hans. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. s.m., voru samskipti borgaryfirvalda og kæranda reifuð og í niðurstöðu bréfsins var eftirfarandi tekið fram: „Ítrekað er að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en eins og áður hefur komið fram er kröfum um bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar fullnægt í bílakjallara hússins, en auk þeirra eru stæði fyrir hreyfihamlaða á lóð. Kröfu þinni um að Reykjavíkurborg tryggi, án tafar, aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31-33 er því hafnað.“ Var og tilkynnt að embættið muni ekki aðhafast frekar vegna málsins og kæranda bent á að afgreiðsla erindis hans væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þessi afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefndina.

Með úrskurði nefndarinnar, dags. 28. ágúst 2020, var ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 felld úr gildi, þar sem 2. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð um fjarlægð bílastæðanna frá aðalinngangi var ekki uppfyllt. Engu gæti breytt í því efni þótt fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda geti deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingarreglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skuli samþykktir aðaluppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Í kjölfar úrskurðarins var embætti byggingarfulltrúa í samskiptum við kæranda og lagði til í tölvupósti dags. 2. september 2020 m.a. að gera bílastæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi við norðausturhorn hússins nr. 31-33 við Naustabryggju. Kærandi hafnaði þeirri tillögu með tölvupósti, dags. 24. s.m., þar sem bílastæðið yrði enn of langt frá aðalinngangi Naustabryggju 33, fyrirkomulagið væri ekki í samræmi við væntingar sem hafa mætti til aðgengis að þjónustu til aðalinngangs fjölbýlishúss, tillagan þrengdi að umferð gangandi og hjólandi um svæðið og að breidd gönguleiðar frá bílastæði fyrir utan Naustabryggju 17 að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33 fullnægi ekki kröfum byggingarreglugerðar.

Með tölvupósti 5. mars 2021 kom fram að byggingarfulltrúa þætti ljóst að krafa kæranda fæli í sér að gerð yrðu bílastæði á aðliggjandi lóð Naustabryggju 35-57 og hún minnkuð sem því næmi. Ekki væri mögulegt að verða við þeirri kröfu án samþykkis viðkomandi lóðarhafa og embættið myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Er það sú ákvörðun sem er til umfjöllunar í máli þessu.

Málsrök kæranda: Bent er á að Reykjavíkurborg beri að tryggja aðgengi bæði að aðalinngangi Naustabryggju 31 og Naustabryggju 33, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála frá 28. ágúst 2020 í máli nr. 15/2020. Tillaga byggingarfulltrúa sé hins vegar þeim annmarka háð að yrði hún að veruleika yrði fjarlægð frá bílastæði fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 um 20 m en frá bílastæðinu að aðalinngangi Naustabryggju 33 um 40 m. Samkvæmt gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð megi fjarlægðin hins vegar ekki vera meiri en 25 m og yrði hún því í lengra lagi fyrir Naustabryggju 31 en myndi ekki uppfylla skilyrði reglugerðarinnar vegna Naustabryggju 33. Tillögunni sé því harðlega mótmælt og óskað eftir því að Reykjavíkurborg geri nýja tillögu sem sé í samræmi við úrskurðarorð framan­greinds úrskurðar og uppfylli kröfur byggingarreglugerðar.

Í nútímasamfélagi verði sífellt mikilvægara að eiga greitt aðgengi að ýmiskonar þjónustu heim að dyrum sem byggi í mörgum tilvikum á aðgengi bifreiða. Sem dæmi megi nefna heim­sendingu á matvöru eða aðgang að leigu- eða deilibifreiðum. Það geti ekki verið markmið Reykjavíkurborgar að nýjar íbúðir séu skipulagðar með þeim hætti að íbúar þurfi ávallt að gefa upp annað heimilisfang en þeirra eigið þegar þeir sæki sér slíka þjónustu. Þá telji kærandi að í þessu tilviki gangi það í reynd ekki upp þar sem gönguleið frá bílastæði fyrir utan Nausta­bryggju 17 uppfylli ekki kröfur byggingarreglugerðar um breidd gönguleiðar.

Tillaga borgarinnar þrengi aðgengi og umferð gangandi. Um sé að ræða gangstétt og þrátt fyrir að hún sé mikið nýtt sem bílastæði af íbúum nærliggjandi húsa sé um að ræða mikilvæga tengingu fyrir gangandi yfir á gangstétt norðan megin á milli húsanna Naustabryggju nr. 53 og 55 og út á bryggju eða til austurs meðfram bílskúrum fyrir utan Naustabryggju 57. Aðra hvora af þessum leiðum þurfi til dæmis að fara til þess að nota almenningssamgöngur og eigi leiðin að liggja um samfellda gangstétt þurfi að fara bryggjuleiðina því hvorki liggi samfelld gangstétt meðfram götunni sunnan megin, meðfram Naustabryggju 21-29, né norðan megin, meðfram Naustabryggju 57. Ekki sé ásættanlegt að Reykjavíkurborg geri húsfélaginu að velja með þessum hætti á milli hagsmuna gangandi í hverfinu og að skilyrði byggingarreglugerðar séu uppfyllt.

Þá sé gerð athugasemd við að breidd gönguleiðar á milli bílastæðis Naustabryggju 31-33 fyrir utan Naustabryggju 17 að aðalinngöngum hússins, sem liggi á milli lóða Naustabryggju 31 og 33 annars vegar og Naustabryggju 21 hins vegar, sé aðeins 90 cm á breidd en ekki 180 cm eins og gerð sé krafa um skv. gr. 6.2.3. í byggingarreglugerð, sem fjalli um algilda hönnun aðkomu að byggingum. Um þetta vísist einnig til greinar 6.2.1. í reglugerðinni um jafnt aðgengi að byggingum. Lítið pláss sé þar til að fara um með barnavagn eða kerru. Þá verði færðin enn verri yfir vetrartímann og á sumrin þurfi ekki mikið út af að bregða í snyrtingu á trjágróðri á aðliggjandi lóð til þess að leiðin verði ófær fyrir barnavagna. Leiðin frá bílastæði Nausta­bryggju 17 að bakdyrum Naustabryggju 31 og 33 uppfylli ekki heldur skilyrði reglugerðarinnar í gr. 6.2.4. þar sem þrep séu á þeirri leið. Líta verði til þessa við úrlausn málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að eins og fram komi í ákvörðun byggingar­fulltrúa frá 5. mars 2021 sé ljóst að krafa húsfélagsins í málinu feli í sér að gerð yrðu bílastæði inni á aðliggjandi lóð, Naustabryggju 35-57, og hún minnkuð sem því nemi, auk þess sem bílastæðakrafa á þeirri lóð yrði þá ekki uppfyllt þar sem stæðum myndi fækka. Ekki sé heldur mögulegt að verða við kröfu kæranda án samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir og sé Reykjavíkurborg ekki kunnugt um að kærandi hafi aflað slíks samþykkis. Það sé því ljóst að ekki sé hægt að verða við kröfu kæranda í málinu sökum ómöguleika.

Einnig sé vafaatriði gegn hverjum krafa um aðgerðir ætti að snúa, en húseiganda beri skv. ákvæðum kafla 2.7 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Sé ekki framkvæmt í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga eða byggingarreglugerðar hafi byggingar­fulltrúi heimildir til að beita þvingunarúrræðum.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða skv. mannvirkjalögum nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og sé tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræða verði að meta í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína, en mögulega eigi kærandi bótarétt gagnvart byggjanda hússins. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þurfi ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Reykjavíkurborg telji að ekki sé gengið í þeim mæli gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum að það réttlæti það inngrip sem kærandi fari fram á í málinu. Rétt sé að minna á að Reykjavíkurborg hafi lagt til að útbúið yrði bílastæði fyrir hreyfihamlaða við austurenda hússins en kærandi hafi hafnað þeirri tillögu. Bílastæðið sem byggingarfulltrúi hafi boðist til að gera yrði 13 m frá einum inngangi, 28 m frá þeim næsta og 44 m frá þeim þriðja. Embættið telji að sú ráðstöfun feli í sér fullnægjandi aðgang að inngöngum hússins fyrir hreyfihamlaða í ljósi aðstæðna og að ekkert hafi komið fram sem réttlæti þvingunaraðgerðir eða breytingar á deiliskipulagi sem óhjákvæmilega myndu bitna á aðliggjandi lóð kæranda og fela í sér verulegt inngrip í hagsmuni íbúa þar. Deiliskipulagsgerð sé heldur ekki á forræði byggingarfulltrúa.

Reykjavíkurborg telji enn fremur að hafna beri kröfu kæranda sökum tómlætis. Húsið hafi verið tekið í notkun árið 2016, en það sé ekki fyrr en tveimur til þremur árum síðar að athugasemdir hafi borist frá húsfélaginu varðandi umrædd bílastæði.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ekki sé fallist á að um tómlæti sé að ræða í máli þessu. Bent sé á að fyrstu íbúar hússins hafi flutt inn í desember árið 2016, en Naustabryggja 31-33 hafi verið eina fullbyggða einingin á þeim tíma. Lokaúttekt sé dagsett í janúar 2018. Fyrirsvars­maður kæranda hafi átt fund með starfsmanni Reykjavíkurborgar undir lok árs 2017 eða snemma árs 2018 ásamt fundi með byggingarfulltrúa. Á þeim fundum hafi komið fram að deiliskipulag reitsins væri annkanalegt og að skipulag þyrfti að skoða betur. Margir tölvupóstar hafi einnig verið sendir um ágreiningsefnið til borgaryfirvalda. Eftir fund með formanni skipulags- og samgönguráðs og lögfræðingi Reykjavíkurborgar hafi sjónarmiðum kæranda verið hafnað. Að lokum hafi málið verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem hafi kveðið upp úrskurð árið 2020.

Ekki skipti máli hvaða embættismenn stjórnkerfis Reykjavíkurborgar fari með tilteknar valdheimildir. Í upphafi hafi verið tekin ákvörðun hjá borgaryfirvöldum um útgáfu byggingar­leyfis og deiliskipulag verið samþykkt. Þá þegar hafi legið fyrir að skilyrði 6. kafla byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 væru ekki uppfyllt. Það hafi ekki verið fyrr en úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn sem Reykjavíkurborg leggi til lausn sem uppfylli ekki heldur ákvæði um fjarlægðir stæða fyrir hreyfihamlaða frá aðalinngöngum umrædds húss.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindi kæranda um að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að Naustabryggju 31-33 fyrir hreyfihamlaða þannig að upp­fyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur í úrskurði uppkveðnum 28. ágúst 2020 áður komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 2. mgr. gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar um hámarksfjarlægð bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða frá aðalinngangi nefnds húss séu ekki uppfyllt. Fyrirkomulagi bílastæða á umræddu svæði hefur ekki verið breytt síðan framangreindur úrskurður var kveðinn upp.

Kærandi krefst þess að viðkomandi stjórnvald hlutist til um að útbúin verði bílastæði fyrir hreyfi­­­hamlaða í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að úrskurða um lögmæti ákvarðana stjórnvalda. Það fellur utan valdsviðs nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir stjórnvald að taka ákvörðun með tilteknu efni enda er það vald falið sveitarfélögum með lögum. Verður því ekki tekin afstaða til framangreindrar kröfu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda sé hafnað sökum tómlætis. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi hefur haldið máli sínu á lofti frá árinu 2017 með eðlilegum hraða. Þá féll úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 15/2020 kæranda í vil 28. ágúst 2020 og hefur kærandi síðan þá farið reglulega fram á úrbætur og viðbrögð frá borgaryfirvöldum. Verður því ekki fallist á málsástæðu Reykjavíkurborgar að um tómlæti af hálfu kæranda sé að ræða í máli þessu.

Af hálfu borgaryfirvalda hefur því verið haldið fram að ómögulegt sé að koma fyrirkomulagi bílastæða fyrir hreyfihamlaða í löglegt horf. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð deiliskipulagsáætlana. Þá hafa sveitarstjórnir heimild til að breyta deiliskipulagi líkt og mælt er fyrir um í 43. gr. laganna. Einnig má benda á að sveitarstjórn getur heimilað skiptingu lóða skv. 48. gr. eða ráðist í eignarnám skv. 50. gr. laganna. Engu breytir um þessar heimildir þótt byggingarfulltrúi fari ekki persónulega með þær enda tilheyrir embætti byggingarfulltrúa stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Fjallað er um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög í X. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna kemur fram að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Rétt þykir í þessu samhengi að benda á að skv. 1. mgr. 15. gr. laganna ber eigandi mannvirkis ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið eftir kröfum mannvirkjalaga og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Hönnuðir bera svo ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að hönnun þeirra sé faglega unnin og mannvirkið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar í mannvirkja­lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 23. gr. nefndra laga. Til hins ber að líta að staðsetningu bílastæða fyrir hreyfihamlaða við Naustabryggju verður ekki breytt nema að undangenginni deiliskipulagsbreytingu sem sveitarstjórn annast og ber ábyrgð á eins og að framan greinir.

Samkvæmt framansögðu hefur Reykjavíkurborg ýmsar leiðir til að koma fyrirkomulagi bíla­stæða fyrir hreyfihamlaða í lögmætt horf. Verður því ekki fallist á með borgaryfirvöldum, a.m.k. að svo stöddu, að ómöguleiki sé fyrir hendi, þar sem framangreind úrræði hafa ekki verið fullreynd.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 að hafna kröfu húsfélags Naustabryggju 31-33 að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfi­hamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.