Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2021 Bergstaðastræti

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 121/2021, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 9. júlí 2021 á fyrirspurn um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 14. júlí 2021 kærir eigandi Bergstaðastrætis 81, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 9. júlí s.á. á fyrirspurn um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. ágúst 2021.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 29. janúar 2021 var lögð fram fyrirspurn kæranda, dags. 21. s.m., þar sem falast var eftir áliti skipulagsfulltrúa á hugmynd um að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og lögð fram að nýju ásamt umsögn skipu­lags­fulltrúa, dags. 1. febrúar s.á. Í umsögninni kom fram að ekki væri fallist á erindið þar sem það samræmdist ekki markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Erindið var tekið fyrir af skipulagsfulltrúa 5. febrúar s.á. þar sem tekið var neikvætt í það, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi sendi skipulags- og samgönguráði málskot dags. 12. febrúar 2021, sem tók erindið fyrir á fundi 31. mars s.á. Ekki var fallist á erindið. Í kjölfarið lagði kærandi fram breytta fyrirspurn, dags. 2. júní s.á. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. s.m. og var því vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 9. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dagsettri sama dag. Neikvætt var tekið í erindið, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Er það sú afgreiðsla sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að tilvísun umsagnaraðila til Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 skjóti skökku við. Skipulagsfulltrúi nefni að í aðalskipulaginu sé almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum, sérstaklega í miðborginni. Kærandi bendi á að samkvæmt skipulaginu sé Bergstaðastræti 81 á svæði 1 samkvæmt bíla- og hjólastæðastefnu. Á svæði 1 skuli eitt stæði fylgja hverri íbúð við endurnýjun byggðar og við nýbyggingar. Í húsinu séu tvær íbúðir og því ættu tvö stæði að fylgja lóðinni. Þá komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa annars vegar að stefna aðalskipulags sé að fækka bílastæðum í miðborginni, en hins vegar að neikvætt sé að almennum bílastæðum á borgarlandi myndi fækka um eitt stæði. Þá hljómi rök skipulagsfulltrúa um að framkvæmdin sé ekki æskileg eins og persónuleg skoðun en ekki skipulagslegar forsendur. Að lokum hafi sömu hverfisverndarákvæði og nú gildi um garðveggi og girðingar verið í gildi þegar aðrir bílskúrar á svæðinu hafi verið reistir. Með hliðsjón af jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé farið fram á að afstaða skipulagsfulltrúa verði endurskoðuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem hin kærða afgreiðsla feli ekki í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls og sé hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar á erindi kæranda, dags. 2. júní 2021, um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti í Reykjavík. Erindið var lagt fram sem fyrirspurn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar og óskaði kærandi eftir afstöðu skipulagsfulltrúa um fyrirhugaða byggingu bílgeymslu. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Um gerð mannvirkja, þ. á m. bílgeymsla, fer að lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Eftir atvikum þarf til að koma byggingarleyfi veitt af byggingarfulltrúa í samræmi við kröfur 1. mgr. 9. gr. laganna. Ganga þarf úr skugga um að framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og var umsagnar skipulagsfulltrúa leitað. Erindi kæranda hefur hins vegar ekki komið til afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samkvæmt áðurgreindum lögum fer með vald til að veita eða synja umsókn um byggingarleyfi. Verður því litið svo á sem umsögn skipulagsfulltrúa um fyrirspurn kæranda hafi verið liður í undirbúningi mögulegrar stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. sömu laga. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.