Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2021 Leynir 2 og 3

Með

Árið 2021, mánudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. nóvember 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Leyni 2 og 3 í Rangárþingi ytra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir aðilar, sem flestir munu vera eigendur eigna, en í sumum tilvikum ábúendur, í næsta nágrenni jarðanna Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. nóvember 2020 að samþykkja deiliskipulag fyrir Leyni 2 og 3. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 17. mars og 19. júlí 2021.

Málavextir: Jarðirnar Leynir 2 og 3 eru í ofanverðri Landsveit sunnan við Landveg, vegnúmer 26. Eru jarðirnar samtals um 33,5 ha að stærð og samliggjandi. Svæðið hefur að stærstum hluta verið ræktað og nýtt til landbúnaðar. Á Leyni 2 hefur verið starfrækt tjald­svæði, en einnig munu vera á jörðinni íbúðarhús, skemma og þjónustuhús, en jörðin Leynir 3 er óbyggð. Samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 er umrætt svæði á fjar­svæði vatnsverndar.

Áform um uppbyggingu jarðanna hafa áður komið til kasta úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en 18. desember 2020 kvað nefndin upp úrskurð í máli nr. 53/2020 og felldi úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. maí s.á. þess efnis að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi nefndra jarða skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Taldi nefndin að rökstuðningi stofnunarinnar væri áfátt og að ekki yrði af ákvörðuninni ráðið að stofnunin hefði séð til þess að nægjanlega væri upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ekki yrðu af framkvæmdinni umtalsverð umhverfisáhrif. Skírskotaði nefndin í þessu sambandi sérstakalega til þeirra áhrifa sem ófullnægjandi fráveita gæti haft á grunnvatn.

Samhliða málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hefur verið unnið að breytingum á skipulagsáætlunun á svæðinu vegna fyrrgreindra áforma. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 8. júlí 2019 var samþykkt að veita heimild til gerðar deiliskipulags og staðfesti byggðarráð þá afgreiðslu 25. s.m. Lýsing skipulagsáforma, dags. 3. júlí 2019, var kynnt í ágúst og september s.á. og bárust athugasemdir. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 9. september 2019 var lýsingin tekin fyrir að nýju, m.a. vegna þess að gerðar hefðu verið breytingar á áformum framkvæmdaraðila frá fyrri lýsingu. Var bókað að ekki væru gerðar athugasemdir við fyrirliggjandi lýsingu, dags. 6. september 2019, og lagt til að hún yrði send til umsagnar að nýju og kynnt. Staðfesti sveitarstjórn greinda bókun 12. s.m. Tók lýsingin hvort tveggja til breytinga á aðalskipulagi Rangárþings ytra og deiliskipulags fyrir umrætt svæði.

Skipulagslýsingin var auglýst til kynningar frá 18. september til 2. október 2019, en einnig mun hún hafa verið kynnt umsagnaraðilum og þeim er áður höfðu komið að athugasemdum. Bárust fjölmargar athugasemdir á kynningartíma tillögunnar er lutu m.a. að mögulegri mengunarhættu vegna fyrirhugaðar uppbyggingar. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. október s.á. og var þá m.a. fært til bókar að rétt væri að vinna við gerð tillögu að deiliskipulagi tæki mið af framkomnum athugasemdum og ábendingum, sér í lagi hvað varðaði fráveitumál og mengunarvarnir.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 11. nóvember 2019 var samþykkt að auglýsa fyrir­liggjandi tillögu að deiliskipulagi til kynningar. Jafnframt var samþykkt að halda íbúafund til samráðs og kynningar á fyrirliggjandi áformum. Kom og fram að fjallað hefði verið um framkomnar athugasemdir og ábendingar og að gerðar hefðu verið breytingar frá kynningu lýsingar. Samþykkti sveitarstjórn greinda afgreiðslu 14. s.m. og var íbúafundur haldinn 21. nóvember 2019. Með bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarfélagsins, dags. 10. janúar 2020, var bent á að gera þyrfti betur grein fyrir nánar tilteknum atriðum, svo sem um hvar siturþrær yrðu staðsettar. Einnig þyrfti að afla umsagnar Minjastofnunar Íslands um tillöguna.

Tillaga að deiliskipulagi var auglýst til kynningar, samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Rangárþings ytra, frá 20. maí 2020 til 1. júlí s.á. Sem fyrr bárust fjölmargar athugasemdir er lutu m.a. að mengun grunnvatns. Í kjölfarið óskaði sveitarfélagið eftir afstöðu vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps, sem leitaði álits Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR). Lá álitið fyrir 7. september s.á. og var niðurstaða þess sú að vatnsbólum og vatnsbólasvæðum sveitarfélagsins í Tvíbytnulæk nálægt Lækjar­botnum og í Kerauga stafaði ekki hætta af mengun frá Leyni eða af fyrirhugaðri uppbyggingu þar. Hvað varðaði einkavatnsból í frístundabyggðinni niður með Klofalæk þá væri staðan nú þegar sú að huga þyrfti að vatnsveitu og sameiginlegu vatnsbóli ofan byggðarinnar. Með auknum umsvifum í Leyni yrði þetta brýnna en áður.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og umferðarnefndar 9. nóvember 2020. Kom fram að nefndin hefði fjallað um framkomnar athugasemdir og ábendingar og send yrðu svör til þeirra er gert hefðu athugasemdir. Jafnframt var eftirfarandi fært til bókar: „Skipulagsnefnd telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til endanlegrar afgreiðslu.“ Á fundi sveitarstjórnar 12. s.m. var bókun nefndarinnar samþykkt samhljóða. Tillagan var send Skipulagsstofnun til lögbundinnar afgreiðslu og með bréfi stofnunarinnar til sveitarfélagsins, dags. 9. desember 2020, kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins þegar nánar tilgreind gögn hefðu verið uppfærð. Í kjölfarið voru gerðar breytingar á tillögunni, t.a.m. varðandi fráveitu.

Auglýsing um gildistöku hins umdeilda deiliskipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2021. Samkvæmt greinargerð þess nær það yfir hluta jarðanna Leynis 2 og 3 og tekur til um 15 ha verslunar- og þjónustusvæðis. Áformar landeigandi að efla rekstur tjaldsvæðisins og koma jafnframt á fót gisti- og veitingarekstri, auk uppbyggingar frístundasvæðis. Mann­virki verða á einni hæð og hámark byggingarmagns vegna nýbygginga allt að 4.490 m2, en heildarbyggingarmagn 4.935 m2. Meðal annars er gert ráð fyrir því að tjaldsvæðið stækki til suðurs og að reist verði allt að 200 m2 þjónustuhús, en núverandi þjónustuhús verði fjarlægt. Einnig er gert ráð fyrir allt að 800 m2 móttökuhúsi þar sem einnig verður veitingastaður, verslun og starfsmannaaðstaða. Heimilt verður að byggja allt að 45 gestahús og við hvert þeirra kúluhús. Stærð gestahúsa er annars vegar allt að 20 m2 og hins vegar allt að 60 m2. Hámarksstærð kúluhúsa er 30 m2. Leyfilegur fjöldi gesta á tjaldsvæðinu er 60 manns og fjöldi gistirúma í gestahúsum samtals 180.

 

Í greinargerð deiliskipulagsins kemur jafnframt fram að á svæðinu verði þrjár til fjórar rotþrær. Lagnakerfi leiði skólp að felli- og fleytiþróm og úr þeim fari skólpið út í siturlagnir þar sem hreinsun skólps fari fram í siturbeðum. Þykk jarðlög séu á staðnum sem nýtist við gerð siturbeðanna. Verði siturbeð hönnuð samkvæmt norskum leiðbeiningum um jarðvegs­hreinsun húsaskólps og leiðbeiningum Umhverfisstofnunar. Frágangur verði í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Eftir því sem við verði komið verði allt grávatn veitt í sérlögnum úr í jarðveg, í samráði við heilbrigðiseftirlit. Einnig er fyrirvari um að heimilt sé að nota hefðbundin skólphreinsivirki ef í ljós komi að aðstæður henti ekki fyrir náttúrulega jarðvegshreinsun og fyrirvari um vöktunaráætlun varðandi virkni fráveitu.

Auglýsing um breytingu á aðalskipulagi Rangárþings ytra var birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. janúar 2021. Í henni felst m.a. að gerð er breyting á landnotkun 15 ha svæðis úr landbúnaðarlandi í verslunar- og þjónustusvæði þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu fyrir ferðaþjónustu. Einnig er gert ráð fyrir nýju vatnsbóli fyrir Leyni og e.t.v. fleiri jarðir. Þá er m.a. tekið fram að frárennsli verði tengt hreinsivirkjum sem samanstandi af rotþróm og siturbeðum sem hönnuð verði samkvæmt norskum leiðbeiningum um jarðvegs­hreinsun húsaskólps og leiðbeiningum Umhverfisstofnunar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að meirihluta þeirra hafi verið játuð kæruaðild í máli nr. 53/2020 fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeir kærendur sem bæst hafi við séu allir nema einn eigendur fasteigna í næsta nágrenni við fyrirhugaða uppbyggingu og hafi sömu hagsmuna að gæta og aðrir kærendur. Einn kæranda sé bóndi að Flagbjarnarholti, sem sé staðsett utan vatnsverndarsvæðisins, en aðild hans helgist af því að hann sæki neysluvatn sitt úr Lækjarbotnaveitu.

Eigi kærendur það sammerkt að hafa komið sér upp heimili, starfsemi eða sumarhúsi á umræddu svæði og fjárfest þar í eignum og innviðum til framtíðar. Hafi þeir talið að svæðið myndi haldast í nokkuð óbreyttri mynd, þ.e. sem kyrrlátt landbúnaðarsvæði, og verði þeir fyrir töluverðu ónæði og tjóni gangi áætlanir eftir. Með fyrirhuguðum skipulagsáformum sé verið að fórna hagsmunum þeirra í þágu tiltekins aðila. Við meðferð málsins hafi að engu leyti verið hugað að hagsmunum umhverfisins eða gætt að stöðu svæðisins sem vatnsverndar­svæðis.

Meðferð og afgreiðsla sveitarfélagsins sé haldin verulegum annmörkum. Uppbygging af þeirri stærðargráðu sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu eigi ekki heima innan vatnsverndarsvæðis og hafi sveitarfélagið ekki metið aðra valkosti með tilliti til staðsetningar. Það sé í andstöðu við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og meðalhófs- og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.

Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins komi fram að valkostir hafi verið einskorðaðir við jarðirnar Leyni 2 og 3 og fyrirhugaða uppbyggingu landeiganda. Metnir séu tveir kostir, núllkostur og valinn kostur. Umhverfisskýrsla aðalskipulagsbreytingarinnar sé sett fram með sama hætti. Ófullnægjandi hafi verið að bera aðeins saman fyrrgreinda kosti. Skylt hafi verið að meta aðra valkosti, einkum með tilliti til staðsetningar, skv. f-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 og 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Jafnframt hafi verið skylt að rökstyðja í deiliskipulaginu ástæður þess að ákveðið hafi verið að láta uppbygginguna fara fram að Leyni 2 og 3, sbr. h-lið 2. mgr. 6. gr. laganna 105/2006. Einnig skorti á að gerð sé grein fyrir mótvægisaðgerðum, sbr. g-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006. Sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 133/2019. Í því máli hafi verið hafnað að ógilda fyrir­liggjandi deiliskipulag vegna svínabús. Í forsendum nefndarinnar hafi m.a. verið vísað til þess að önnur staðsetning hafi verið könnuð og ráða mætti ástæður staðarvalsins af umhverfis­skýrslu deiliskipulagsins. Hvorugt hafi verið gert í máli því sem hér sé til skoðunar en það sé verulegur annmarki á hinu umdeilda deiliskipulagi sérstaklega með hliðsjón af því að mat á raunhæfum valkostum sé lykilþáttur í umhverfismati áætlana.

Mat á vægi umhverfisáhrifa í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. laga nr. 105/2006. Borið hafi að horfa á uppbygginguna heildstætt með tilliti til líklegra umhverfisáhrifa, sbr. einkum 2. tl. b-liðar 1. mgr. 10. gr. Þá sé í engu vikið að líkum, tíðni eða varan­leika hugsanlegra umhverfisáhrifa, þá einkum með tilliti til grunnvatns­mengunar og hættu fyrir heilbrigði manna og umhverfi, svo sem slys, sbr. 1. og 4. tl. b-liðar ákvæðisins. Í dag sé enn ríkara tilefni til að rannsaka samlegðaráhrif fyrirhugaðra framkvæmda heldur en þegar úrskurður nefndarinnar hafi verið kveðinn upp, en ekki sé að sjá að framkvæmdaraðili ætli sér að fjalla um samlegðaráhrif við matsskylduferlið sem nú sé að hefjast.

Horfa verði til fyrirliggjandi upplýsinga um svæðið og framkvæmdina. Um stórfellda fram­kvæmd sé að ræða með tilheyrandi fráveitu og umferð. Umrætt svæði sé á fjarsvæði vatnsverndar og að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna sé það mjög viðkvæmt fyrir allri uppbyggingu og auknum umsvifum. Mengun á grunnvatni svæðisins hafi í för með sér mengun á aðal­vatnsbólum sveitarfélagsins, enda liggi fyrir samkvæmt nýlegum rannsóknum að aðrennslis­tími grunnvatnsins að aðalvatnsbólunum sé mjög skammur. Hann sé raunar svo skammur að uppbygging af þessu tagi, með sambærilegum aðrennslistíma að vatnsbóli, væri óheimil á höfuðborgarsvæðinu, enda væri þá um skilgreint grannsvæði að ræða, sbr. 3. gr. vatnsverndar­samþykktar höfuðborgarsvæðisins nr. 555/2015.

Hætta á grunnvatnsmengun felist ekki aðeins í stórfelldri losun skólps og grávatns ásamt öðrum auknum umsvifum heldur jafnframt þeirri stórauknu umferð sem muni verða um svæðið og bílstæðum á svæðinu fyrir hartnær hundrað bifreiðar. Í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir aðkomu um Stóru-Vallaveg, en um sé að ræða mjóan sveitarveg sem ekki sé á þjónustuskrá Vegagerðarinnar og í slæmu ástandi. Sé augljós slysa- og mengunarhætta með þessari aðkomu sem samrýmist jafnframt á engan hátt annarri umferð á svæðinu. Í skýrslu ÍSOR, dags. 7. september 2020, sé tekið fram að hraunið á svæðinu sé lekt, grunnt sé niður á grunnvatns­borðið og úrkoma og ofanvatn hverfi nánast öll í hraunið og til grunnvatnsins. Grunnvatn svæðisins sé því viðkvæmt fyrir öllum umsvifum, hvort sem um sé að ræða framkvæmdir og byggð, umferð eða landbúnaðarnotkun.

Innan vatnsverndarsvæðisins sé nú þegar fiskeldisstöð í landi Fellsmúla, fjöldi sumarhúsa og önnur mannvirki sem veiti frárennsli út í svæðið og virðist fiskeldistöðin losa beint út í Minnivallalæk. Sérfræðingar hafi verið þeirrar skoðunar að vatnsverndarsvæðið væri komið að þolmörkum árið 2017, m.a. með tilliti til fyrirliggjandi byggðar og fiskeldisins. Hafi þeir lagt til að hætt yrði að nýta Kerauga sem framtíðarvatnsból sveitarfélagsins, svo sem m.a. hafi komið fram í minnisblaði, dags. 13. febrúar 2017, sem lagt hafi verið fram á fundi vatnsveitu sveitarfélagsins. Nú sé áformuð hækkun á losunarmörkum fiskeldisins og stórfelld upp­bygging innan svæðisins. Auglýsing um deiliskipulag á Stóru-Völlum, hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2021, en áformin hafi legið fyrir í nokkurn tíma. Um sé að ræða uppbyggingu með heildar­byggingarmagn upp á 19.800 m2. Stóru-Vellir séu mjög nálægt fyrirhuguðum framkvæmdum að Leyni 2 og 3 og sé fiskeldið nokkra tugi metra þar frá. Stórfelld uppbygging og aukning á starfsemi sé þannig fyrirhuguð á mjög afmörkuðu svæði sem allt falli innan fjarsvæðis vatnsverndar.

Jafnframt sé hið umdeilda deiliskipulag, sem og breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins, ósamrýmanlegt markmiðum Aðalskipulags Rangárþings ytra 2016-2028 og Landsskipulags­stefnu 2015-2026 um vatnsvernd. Í aðalskipulaginu sé lögð áhersla á nægt framboð neyslu­vatns og að vatnsgæði verði tryggð til framtíðar. Þá sé tekið fram að engar framkvæmdir sem geti ógnað brunnsvæðum verði leyfðar á grann- eða fjarsvæðum vatnsbóla. Einnig að mörk vatnsverndarsvæða verði endurskoðuð þegar betri gögn liggi fyrir um gæði vatnsbóla og aðrennslissvæði þeirra.

Áhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar á hagsmuni kærenda séu veruleg og standi deiliskipulagið óbreytt séu þau óafturkræf með þeim afleiðingum að hagsmunir þeirra teljist fyrir borð bornir í skilningi c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Grenndaráhrifin séu m.a. almenn röskun á friðsæld svæðisins, ónæði og hávaðamengun. Megi færa röksemdir fyrir því að verðmæti fasteigna kærenda muni rýrna. Áhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar á einka­vatnsból kærenda séu hins vegar þess eðlis að þeir geti ekki gætt hagsmuna sinna með bótakröfum eða öðrum úrræðum.

Af minnisblaði ÍSOR sé erfitt að álykta annað en að brýnt sé fyrir kærendur og aðra að huga að breytingum á neysluvatnsöflun sinni. Gríðarlegir hagsmunir felist í aðgangi að hreinu neysluvatni og minnsti vafi í þeim efnum sé til þess fallinn að vekja upp áhyggjur. Vandséð sé að kærendur geti ráðist í breytingar í samræmi við niðurstöðurnar án aðkomu sveitarfélagsins. Í málinu liggi ekkert fyrir um að sveitarfélagið hafi tekið þetta atriði til skoðunar eða hafið undirbúning að aðgerðum þessu tengdu. Af svörum sveitarfélagsins virðist mega þvert á móti ráða að kærendur beri ábyrgð á sínum eigin vatnsbólum þrátt fyrir að það séu skipulags­breytingar sveitarfélagsins í þágu einkaaðila sem valdi umræddum áhrifum. Þá hafi sveitar­félagið ekki haft samband við hlutaðaeigandi aðila á svæðinu eða kynnt aðrar útfærslur eins og óskað hafi verið eftir, m.a. með erindi, dags. 26. janúar 2021. Eins og málið horfi við kærendum hafi hagsmunir landeiganda af fyrirhugaðri uppbyggingu verið í forgrunni hjá sveitarfélaginu við meðferð málsins og að engu eða mjög takmörkuðu leyti verið hugað að hagsmunum kærenda. Vegi samþykkt deiliskipulagsins svo verulega að réttaröryggi kærenda að ógildingu varði.

Sveitarfélaginu hefði verið rétt, þegar eftir móttöku umrædds minnisblaðs, að rannsaka nánar áhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar á einkavatnsból innan áhrifasvæðisins. Í minnsta falli hefði sveitarfélagið átt að hafa samráð við hagsmunaaðila á svæðinu og gera þeim grein fyrir stöðu málsins og hvernig sveitarfélagið hygðist bregðast við. Sé hér um sjálfstæðan ógildingar­annmarka að ræða, enda brotið gegn rannsóknareglu stjórnsýsluréttarins og vegið freklega að réttaröryggi kærenda.

Sú forsenda deiliskipulagsins að aðalvatnsbólum sveitarfélagsins stafi ekki hætta af fyrir­hugaðri uppbyggingu sé röng. Minnisblað ÍSOR sé í ósamræmi við nýlegar rannsóknir. Tilgreind rennslisstefna grunnvatns sé röng og straumhraði verulega vanáætlaður. Megin­forsenda minnisblaðsins sé áætlaður aðrennslistími grunnvatnsins frá uppbyggingarsvæðinu að vatnsbólunum, en sá tími sé byggður á útreikningum frá árinu 2008 á straumhraða grunn­vatns og síunareiginleikum hraunsins. Í niðurlagi minnisblaðsins sé tekið fram að straumhraði grunnvatns til suðvesturs frá Leyni sé 10 m á dag. Í öðrum nýlegum rannsóknum, sem einnig hafi verið framkvæmdar af ÍSOR, sé rakið að straumhraði grunnvatns að Kerauga hafi verið mest 74 m á dag og að meðaltali 50 m á dag. Virðist straumhraði grunnvatns í átt að aðalvatnsbóli sveitarfélagsins því vera að meðaltali fimmfalt meiri og í sumum tilvikum sjöfalt meiri heldur en lagt sé til grundvallar samkvæmt minniblaði ÍSOR. Þær niðurstöður hafi verið byggðar á ferilefnarannsóknum, en minnisblaðið á eldri forsendum og upplýsingum sem standist ekki í ljósi nýlegra rannsókna. Ennfremur sé vandséð að niðurstaða minnis­blaðsins sé í samræmi við endanlegar niðurstöður annarra rannsókna um að hætta að nýta Kerauga sem aðalvatnsból sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið hafi byggt ákvörðun sína um samþykkt deiliskipulagsins á forsendum sem séu rangar og sé ákvörðunin því efnislega röng. Athugasemdum hafi verið svarað á grundvelli rangra forsenda. Hafi áhrif deiliskipulagsins að þessu leyti verið rannsökuð með ófull­nægjandi hætti og rangar og ófullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir þegar deiliskipulagið hafi verið samþykkt. Þá sé umfjöllun í deiliskipulaginu um jarðlög röng og ekki rannsökuð með fullnægjandi hætti og sé í því sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 53/2020.

Fyrir hendi sé ósamræmi milli heimilda deiliskipulags og aðalskipulags varðandi útfærslu fráveitumála á svæðinu og ekki liggi enn fyrir hvað framkvæmdaraðili hyggist gera. Vegi framangreind óvissa gegn réttaröryggi kærenda, enda sé útfærsla fráveitu­mála einn helsti óvissuþátturinn í tengslum við umrædda framkvæmd. Þá sé fyrirséð, ef breytingar eigi sér stað varðandi fráveitumál, að nauðsynlegt sé að gera breytingar á nýlega samþykktu aðalskipulagi og deiliskipulagi. Slíkar tíðar breytingar á skipulagsáætlunum, sem ætlað sé að skapa form­festu, vegi einnig að réttaröryggi kærenda.

Sveitarstjórn hafi ekki samþykkt deiliskipulagstillöguna heldur hafi hún samþykkt að fela Skipulagsstofnun endanlega afgreiðslu hennar. Það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að sam­þykkja deiliskipulagið, sbr. orðalagið „endanleg afgreiðsla“ í bókun um málið. Um sambæri­legt mál megi vísa til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 49/2019. Jafnframt hafi sveitarstjórn ekki tekið til umræðu þær breytingar á tillögu deiliskipulagsins sem gerðar hafi verið í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar, en það sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Um efnislegar breytingar hafi verið að ræða að hluta sem orðið hafi til þess að ósamræmi hafi skapast á milli aðalskipulags og deiliskipulags. Við þær aðstæður hafi verið nauðsynlegt að taka athugasemdirnar og breytingarnar til umræðu.

Málsrök sveitarfélagsins: Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að annmarkar hafi verið á málsmeðferð skipulagsyfirvalda. Sé því harðlega mótmælt að sveitarstjórn hafi ekki samþykkt skipulagsáætlunina, en hún hafi staðfest afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar. Eðli málsins samkvæmt felist í því að tillagan sé samþykkt. Einnig sé því hafnað að ósamræmi sé á milli heimilda deiliskipulags og aðalskipulags varðandi útfærslu fráveitumála, en væri það fyrir hendi þá væri það með engu móti þess eðlis að það eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í svörum sveitarfélagsins við athugasemdum er borist hafi á kynningartíma tillögunnar hafi m.a. verið tekið fram að auknum umsvifum fylgdi ávallt ásýndarbreyting og aukin umferð, en stefna sveitarfélagins væri að hamla sem mest vélknúna umferð um svæðið. Fyrirhugað væri að hlúa að þeim lágstemmda takti sem einkenndi svæðið. Samþætti skipulagið vel þær kröfur sem ferðamenn leituðu eftir og einnig væri þess gætt að umhverfis- og ásýndaráhrif yrðu takmörkuð. Lögbundnu ferli hefði verið fylgt, nema hvað beðið hefði verið með að auglýsa tillöguna þar sem beðið hefði verið ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmdin væri matsskyld. Sú stefnumörkun er fram kæmi í landsskipulagsstefnu væri ágætlega fylgt. Um lágreista byggð væri að ræða og landi hefði þegar verið raskað. Nú þegar væri allmikil byggð á skilgreindu fjarsvæði vatnsverndar, t.d. frístundabyggð. Frárennslismál yrðu að vera í góðu horfi á slíkum svæðum sem öðrum í sveitarfélaginu. Jafnframt hafi verið vísað til niðurstöðu ÍSOR um hættu af mengun frá Leyni. Stór hluti byggðar á Suðurlandi sé á forsögulegu hrauni sem njóti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Svæðinu hafi nú þegar verið raskað, m.a. með landbúnaði, og einnig hafi það verið grætt mikið upp.

Þegar Skipulagsstofnun hafi staðfest deiliskipulagið hafi hún ekki haft úrskurð í máli nr. 53/2020 undir höndum, en stofnunin hafi staðfest að það hefði þó ekki breytt neinu um staðfestingu skipulagsins. Lögð sé áhersla á að sveitarfélagið muni að öllu leyti fylgja lögum um hvort framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum og verði ekki gefin út leyfi til framkvæmda fyrr en því ferli sé lokið.

Kærendur vísi til þess að þeir hafi komið sér fyrir á kyrrlátu landbúnaðarsvæði og ætti deiliskipulagið ekki að hafa nein áhrif á hagsmuni þeirra hvað það varði með vísan til staðhátta og efnis hins kærða deiliskipulags. Sveitarstjórnir hafi víðtækt vald í skipulags­málum innan marka sveitarfélagsins og sé í því sambandi vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 439/2012.

Því sé alfarið hafnað að neysluvatnsöryggi á svæðinu sé stefnt í hættu vegna fyrirhugaðra áforma. Vatnsbólum sveitarfélagsins í Tvíbytnulæk nálægt Lækjarbotnum og Kerauga stafi ekki hætta af mengun frá Leyni eða af fyrirhugaðri uppbyggingu þar. ÍSOR hafi staðfest þann skilning, en um sé að ræða óháða ríkisstofnun sem starfi á grundvelli laga nr. 86/2003. Hlutverk hennar sé að vinna að verkefnum og rannsóknum á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála eftir því sem stjórn stofnunarinnar ákveði. Hafi kærendur með engu móti hnekkt niðurstöðu ÍSOR sem lögð hafi verið til grundvallar niðurstöðu sveitarfélagsins. Hvað varði áhrif á vatnsból í frístundabyggðinni niður með Klofalæk sé ljóst að huga þurfi að vatnsveitu og sameiginlegu vatnsbóli ofan byggðarinnar og sé vísað til bókunar skipulags- og umferðarnefndar þegar deiliskipulagið hafi verið samþykkt. Því sé alfarið hafnað að tilvist fjarsvæðis vatnsverndar geti leitt til þess að fella beri deiliskipulagið úr gildi. Einnig að sveitarfélagið hafi með einhverjum hætti brotið gegn skyldu til að kanna aðra mögulega valkosti. Slíkt eigi ekki við hér en fyrir liggi að farið hafi verið mjög vel yfir málið.

Málsrök lóðarhafa: Lóðarhafi bendir á að fyrir hendi sé starfsleyfi fyrir tjaldsvæði á jörðinni Leyni 2. Því hafi verið leitað til sveitarfélagsins um að breyta landnotkun á hluta svæðisins og sé breytingin í samræmi við raunverulega notkun landsins frá árinu 2009. Framkvæmda­svæðið liggi ofan á Þjórsárhrauni sem runnið hafi fyrir 8.600 árum. Hekla hafi spúið vikri yfir hraunið og fyllt glufur þess ásamt foksandi sem hafi verið mönnum til trafala í gegnum tíðina. Ofan á vikri og sandi sé þunnur lífrænn jarðvegur sem hafi að mestu leyti byggst upp á síðustu 100 árum eftir að landið þar hafi verið nánast örfoka. Lítið sé um yfirborðsrennsli vatns. Grunnvatn í Landsveit sé fremur viðkvæmt fyrir mengun. Þjórsárhraun sé lekt og hver ný rotþró valdi ákveðnu álagi á umhverfi sitt. Mengun berist með grunnvatnsstraumi til ákveðinnar áttar, þynnist og dvíni með tíma og fjarlægð frá upprunastað. Á Íslandi séu reglur um afmörkun grann- og fjarsvæða háðar aðstæðum án fastbundinna viðmiða. Í minnisblaði ÍSOR komi fram að í íslenskum reglugerðum séu ekki tiltekin tímamörk hversu lengi sýklar lifi í aðrennsli vatnsbóls en í nágrannalöndum sé miðað við 50-400 daga. Samkvæmt útreikningum ÍSOR megi ætla að grunnvatnið hreinsi sig af sýklamengun á 2.000 m kafla í jarðvegi. Hér sé vísað til niðurstöðu minnisblaðsins um hættu á mengun.

Á framkvæmdasvæðinu sé gerð krafa um tveggja þrepa hreinsun skólps. Þeirri kröfu verði ekki mætt með hefðbundinni rotþró og siturbeði þar sem persónueiningafjöldi sé yfir 50. Endanleg útfærsla fráveituhreinsunar verði gerð á hönnunarstigi. Þar sem allt bendi til þess að á svæðinu séu þykk jarðlög sé kostur að nýta þau til hreinsunar skólps, þ.e. með jarðvegs­hreinsun. Sú leið sem lagt sé upp með í skólphreinsun bjóði upp á að hægt verði að hafa hreinsikerfi á nokkrum stöðum innan framkvæmdasvæðis. Þessi leið sé ódýrari en að kaupa tilbúna hreinsistöð. Ef nánari könnun á aðstæðum sýni að ekki séu nægilega þykk jarðlög til staðar þá verði keypt hreinsistöð. Notast yrði við eina miðlæga stöð, þ.e. hefðbundin skólphreinsivirki, og að henni þyrfti að leiða allt skólp frá svæðinu. Þetta kalli á lagnakerfi og viðamikla dælingu. Öll hönnun á hreinsivirkjum, sama hvaða aðferð verði notuð, verði unnin í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

Stefnt verði að því að afrennslisvatn verði hreinsað það vel með jarðvegshreinsun að ekki hljótist mengunarhætta grunnvatns af og muni hönnuðir taka mið af staðsetningu fram­kvæmdasvæðis innan fjarsvæðis vatnsverndar. Staðsetning hreinsivirkja taki mið af hæðar­legu og rennslisstefnu lagnakerfis. Frágangur verði með þeim hætti að tryggt verði að kröfur reglu­gerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, með síðari breytingum, verði uppfylltar.

Nánast allt svæðið sé ræktað land og samkvæmt vistgerðarkortlagningu Náttúrufræðistofnunar Íslands sé svæðið skilgreint sem tún og akurlendi. Framkvæmdin valdi engum áhrifum á vistkerfi sem njóti verndar eða á náttúrulegan gróður, en hafi töluverð áhrif á ræktað land og minnki véltækt land. Ekkert yfirborðsvatn sé á svæðinu fyrir utan Klofalæk sem renni á jaðri svæðisins á um 160 m kafla. Verndargildi árinnar sé miðlungs. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu ekki í næsta nágrenni við lækinn og mjög ólíklegt sé að mengun gæti borist í hann bæði vegna fjarlægðar framkvæmdasvæðisins frá læknum og vegna þykktar jarðvegs. Fyrirhugað framkvæmdasvæði sé skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði og áfram verði ræktað svæði til staðar fyrir fugla í ætisleit. Það minnki en verði samt sem áður 20 ha. Ekki sé talið að nokkuð rask verði á mikilvægi búsvæði fugla vegna framkvæmdarinnar.

Áhrif á öryggi hafi verið talin óveruleg. Í aðalskipulagi sveitarfélagsins komi fram að verndarákvæði fjarsvæða séu samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Ekki sé vitað um sprungur eða misgengi og ekki sé fyrirhugað að geyma eða nota efni sem geti mengað grunnvatn. Dregið verði úr áburðarnotkun þar sem ræktað land minnki. Frárennsli verði samkvæmt kröfum og leiðbeiningum Umhverfisstofnunar og Heilbrigðis­eftirlits Suðurlands. Umferð um vegi í sveitinni verði meiri en engin slys eða óhöpp hafi verið skráð í námunda við svæðið síðustu 10 ár. Nýjar vegtengingar verði bornar undir Vegagerðina og þess gætt að gróður eða byggingar skerði ekki sjónsvið við vegamót. Ekki hafi verið talið líklegt að umrædd framkvæmd myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og væri því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta áður framkomnar athugasemdir sínar. Hafi þeir sýnt fram á að réttmætur vafi sé fyrir hendi varðandi áreiðanleika skýrslu ÍSOR frá september 2020, en sveitarfélagið hafi með engu móti reynt að varpa ljósi á þennan þátt málsins eða útskýra af hverju málatilbúnaður kærenda sé rangur að þessu leyti. Verði því að leggja til grundvallar röksemdir kærenda varðandi áreiðanleika niðurstaðna ÍSOR. Þá hafi Skipulagsstofnun ekki staðfest hið kærða deiliskipulag, líkt og fram komi í greinargerð sveitarfélagsins, heldur aðalskipulagið. Með ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 19. mars 2021 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að áform rekstraraðila fiskeldis í Fellsmúla um að hækka losunarmörk væru ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hjólhýsi á svæðinu hafi verið tengd fráveitukerfinu og hafi einn kærenda gert athugasemdir við þetta. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi tekið málið fyrir og í svörum byggingarfulltrúa hafi komið fram að hjólhýsi og heilsártjöld (kúluhús) hafi verið fjarlægð, en enn séu kúluhús á svæðinu. Sé þetta enn eitt atriðið sem valdi kærendum áhyggjum af þróun mála verði af fyrirhugaðri uppbyggingu, enda virðist fyrirmælum opinberra aðila ekki hafa verið fylgt. Þá séu kærendur með öllu mótfallnir breytingunni á aðalskipulaginu.

—–

Færðar hafa verið fram frekari athugasemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar.

—–

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. nóvember 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Leyni 2 og 3, er felur í sér áform um uppbyggingu ferðaþjónustu á jörðunum. Byggja kærendur aðild sína á því að eiga fasteignir, þar sem munu vera vatnsból, í næsta nágrenni við fyrirhugaða uppbyggingu. Einn kærenda er hins vegar bóndi að Flagbjarnarholti, sem er staðsett utan vatnsverndarsvæðisins, en í kæru segir að aðild hans helgist af því að hann sæki neysluvatn sitt úr Lækjarbotnaveitu. Um kæru­aðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda kæranlegri stjórnvaldsákvörðun geti kært til úrskurðar­nefndarinnar þá ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Vatnsbólið í Lækjar­botnum er rekið af vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps sem er í eigu þeirra sveitarfélaga. Um vatnsveitur sveitarfélaga gilda lög nr. 32/2004 sama heitis og kemur fram í 1. gr. að í þéttbýli skuli sveitarfélög starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja eftir því sem kostur er. Verður ekki séð að umræddur kærandi geti byggt aðild sína umfram aðra á því að vatnsból sveitarfélagsins geti mögulega spillst vegna þeirrar framkvæmdar sem hið kærða deiliskipulag tekur til, enda verður að telja að þar sé fyrst og fremst um hagsmuni allra í sveitarfélaginu að ræða, þ.e. almannahagsmuni. Þá mun sveitarfélaginu áfram vera skylt að lögum að starfrækja vatnsveitu til að fullnægja vatnsþörf almennings í sveitar­félaginu, þ. á m. kæranda. Verður kæru nefnds kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni, en að öðru leyti er málið tekið til efnismeðferðar.

Fjallað er um deiliskipulagsáætlanir í VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010, m.a. um gerð þeirra, auglýsingu og samþykkt. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 9. nóvember 2020 tekið fram að nefndin hefði fjallað um framkomnar athugasemdir og ábendingar og send yrðu svör til þeirra er gert hefðu athuga­semdir. Jafnframt var eftirfarandi fært til bókar: „Skipulagsnefnd telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athuga­semdum og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til endanlegrar afgreiðslu.“ Á fundi sveitarstjórnar 12. s.m. var bókað að tillaga væri um að sveitarstjórn staðfesti bókun nefndarinnar og var það samþykkt samhljóða.

Samhliða gerð hins umdeilda deiliskipulags var gerð breyting á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028. Var m.a. landnotkun á umræddu svæði breytt úr landbúnaði í verslun og þjónustu og samþykkti viðkomandi ráðherra lausn landsins úr landbúnaðar­notum. Unnin var sameiginleg lýsing á skipulagsverkefninu og auglýsingar um tillögu að breytingu á aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi voru birtar saman í fjölmiðlum og í Lögbirtinga­blaði. Á fyrrgreindum fundi skipulags- og umferðarnefndar var samþykkt tillaga að breytingu á aðalskipulagi og lagt til að tillagan yrði afgreidd skv. 2. mgr. 32. gr. skipulags­laga og send Skipulagsstofnun. Ber öll afgreiðsla málsins það með sér að áform sveitarfélagsins stóðu hvort tveggja til að gera breytingu á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í landi Leynis 2 og 3, sem og að ráðast í gerð deiliskipulags vegna framkvæmdanna. Sá annmarki er á málsmeðferð sveitarstjórnar að ekki kemur fram með skýrum hætti í bókun hennar hvort deiliskipulagstillagan sé samþykkt. Með hliðsjón af því að „endanleg afgreiðsla“ Skipulags­stofnunar á deiliskipulagi er lögboðin yfirferð hennar á formi og efni þess sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn, sbr. 42. gr. skipulagslaga, og þegar litið er til alls framangreinds verður þó að telja að fyrir liggi með nægilega skýrum hætti jákvæð afstaða sveitarstjórnar til hinnar umdeildu tillögu og verður málinu því ekki vísað frá með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 9. desember 2020, kom Skipulagsstofnun á framfæri athugasemdum sínum við hið kærða deiliskipulag. Ekki er að sjá að sveitarstjórn hafi tekið til umræðu greindar athugasemdir, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Á þær var hins vegar fallist að því marki sem nauðsyn bar til og voru gerðar breytingar á skipulags­áætluninni, sbr. fyrirmæli fyrrgreinds lagaákvæðis. Verður því, eins og atvikum er hér háttað, ekki talið að greindur annmarki leiði til ógildingar og var málsmeðferð að öðru leyti vegna hins kærða deiliskipulags í samræmi við lög að formi til.

Í hnotskurn snýst efni máls þessa um það hvort sveitarstjórn hafi við skipulagsákvörðun sína rannsakað og upplýst með fullnægjandi hætti áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á umhverfi sitt, einkum að teknu tilliti til þeirrar mengunarhættu sem kærendur telja að grunnvatni, og þar með vatnsbólum, á svæðinu stafi af framkvæmdunum.

Mælt er fyrir um í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skv. 3. mgr. 3. gr. laganna er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 38. gr. laganna. Við beitingu þessa skipulags­valds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Að gættum þessum markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum. Við matið geta togast á andstæð sjónarmið þess sem hagnýta vill eign sína með ákveðnum hætti og annarra þeirra sem láta sig málið varða, en í d-lið nefndrar 1. gr. kemur fram það markmið laganna að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að almenningi sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana.

Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er kveðið á um viðfangsefni og efnistök deiliskipulags og í gr. 5.3.2.15. segir m.a. að staðsetja skuli vatnsból, afmarka vatnsverndarsvæði og setja skilmála til að tryggja að vatnsból mengist ekki. Umrætt skipulagssvæði er á fjarsvæði vatnsverndar samkvæmt aðalskipulagi Rangárþings ytra og liggur á Þjórsárhrauni, líkt og vikið var að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 18. desember 2020 í máli nr. 53/2020. Þar var felld úr gildi sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3 væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í úrskurðinum var tekið fram að framkvæmdasvæðið hvíldi á 2-5 m djúpum jarðvegi ofan á leku hrauni á brotabelti þar sem kortlagðar hefðu verið jarðskjálftasprungur.

Meðal meginmarkmiða aðalskipulags Rangárþings ytra er að marka stefnu um þjónustu við ferðamenn. Annað meginmarkmið er að standa vörð um vernd grunnvatns sem neysluvatns fyrir íbúa og atvinnustarfsemi. Í greinargerð aðalskipulagsins segir um fyrra markmiðið að stefnt sé að því að ferðaþjónusta styrkist og eflist og að mikilvægt sé að auka gistirými á svæðinu í samræmi við fjölgun ferðamanna. Um það síðara er m.a. tekið fram að áhersla verði á að tryggja vatnsgæði til framtíðar og að meðal leiða til þess sé að engar framkvæmdir sem ógnað geti brunnsvæðum verði leyfðar á grann- eða fjarsvæðum þeirra. Jafnframt segir í greinar­­gerðinni að Kerauga teljist brunnsvæði í sveitarfélaginu og er gert ráð fyrir því að það verði meðal framtíðarvatnsbóla fyrir svæðið. Er stefnt að því að ráðast í stærri samveitu og þá er helst horft til þess að virkjað verði við Kerauga/Lækjarbotna, Geldingalæk og Vatnagarðslæk.

Hið umdeilda deiliskipulag gerir ráð fyrir náttúrulegri jarðvegshreinsun, líkt og gert var í áætlunum framkvæmdaraðila sem tilkynntar voru Skipulagsstofnun til matsskylduákvörðunar á grund­velli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fela áformin í sér að skólp fari úr felli- og fleytiþróm út í siturlagnir þar sem hreinsun skólpsins fer fram í siturbeðum og að þykk jarðlög nýtist við uppbyggingu siturbeðanna. Komi í ljós að aðstæður henti ekki fyrir náttúru­lega jarðvegshreinsun skólps er settur sá fyrirvari að heimilt sé að nota hefðbundin skólphreinsivirki. Kærendur telja fyrirvara þennan, sem ekki er að finna í aðalskipulagi Rangárþings ytra, leiða til ósamræmis milli heimilda skipulagsáætlana um útfærslu fráveitumála og sé því ekki fullnægt skilyrði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana. Á það verður ekki fallist. Deiliskipulag er skipulagsáætlun sem byggð er á stefnu aðalskipulags og kveður nánar á um útfærslu þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Verður ekki séð að fyrir­vari sá sem um ræðir fari í neinu gegn almennri stefnu sveitarfélagsins um fráveitur. Þótt í aðal­skipulagi, eins og því var breytt, sé greint frá að um jarðvegshreinsun skólps verði að ræða er jafnframt tekið fram að hreinsun frárennslis og frágangur kerfis verði í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, sem óumdeilt er að hefðbundin skólphreinsivirki falla undir.

Fjarsvæði vatnsbóla er á vatnasvæði þess, en liggur utan þess lands sem telst til brunnsvæða og grannsvæða vatnsbóla, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Skal á fjarsvæðum gæta fyllstu varúðar í meðferð nánar tilgreindra efna þar sem vitað er um sprungur eða misgengi. Getur heilbrigðinefnd gefið út frekari fyrirmæli varðandi umferð á viðkomandi svæðum, svo og um byggingu sumarhúsa og annarra mannvirkja. Ákvæðið eitt og sér girðir ekki fyrir eða leggur bann við mannvirkjagerð á slíkum svæðum, en heilbrigðis­nefnd hefur ekki nýtt sér heimild reglugerðarákvæðisins til að gefa út frekari fyrirmæli þar um.

Við meðferð málsins var leitað umsagna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sem veitti umsögn vegna lýsingar skipulagsáforma, sem og við tillögu að deiliskipulagi. Í umsögn sinni, dags. 2. júlí 2020, fór heilbrigðiseftirlitið m.a. fram á upplýsingar um hönnun fráveitumannvirkja áður en til framkvæmda kæmi og benti jafnframt á að slík mannvirki væru starfsleyfisskyld sam­kvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti- og mengunarvarnir. Á kynningartíma tillögunnar bárust fjölmargar athugasemdir þar sem fyrirhugaðri uppbyggingu var mótmælt, m.a. með vísan til þess að uppbyggingin væri á viðkvæmu svæði, og þá sérstaklega með tilliti til vatnsverndar, og að nýtingu Kerauga og Lækjarbotna væri stefnt í hættu. Óskaði sveitarfélagið álits vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps vegna framkominna athugasemda og var ákveðið að leita álits ÍSOR. Var niðurstaða þess álits, sem fram kom í minnisblaði, dags. 7. september 2020, sú að vatnsbólum og vatnsbólasvæðum sveitarfélagsins í Tvíbytnulæk nálægt Lækjarbotnum og í Kerauga stafaði ekki hætta af mengun frá Leyni eða af fyrirhugaðri uppbyggingu þar. Hvað varðaði einkavatnsból í frístundabyggðinni niður með Klofalæk væri staðan nú þegar sú að huga þyrfti að vatnsveitu og sameiginlegu vatnsbóli ofan byggðarinnar. Með auknum umsvifum í Leyni yrði þetta brýnna en áður.

Var vísað til fyrrgreinds álits í svörum sveitarfélagsins við framkomnum athugasemdum við skipulagstillöguna. Kærendur telja að nefnt álit sé haldið ágöllum, en litið hafi verið til eldri rannsókna sem stangist á við aðrar nýlegar rannsóknir. Um er að ræða rannsóknir sem voru framkvæmdar af sama sérfræðingi af hálfu ÍSOR, þ.e. árin 2008 og 2016. Segir í álitinu að í beiðni sveitarfélagsins komi fram að í framkomnum athugasemdum um vatnsvernd hefði verið bent á þessar rannsóknir. Um straumhraða og síunareiginleika hraunsins var vísað til rannsóknar frá árinu 2008 en einnig var tekið fram að ferilefnaprófanir, sem rannsóknir á árinu 2016 lutu að, sýndu fram á að þessir útreikningar á rennslishraða grunnvatnsins væru nærri lagi. Þá er í álitinu tekið fram að aðrennslistími grunnvatns að vatnsbóli sé ekki tiltekinn í reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn en meðal nágrannaþjóða séu mismunandi viðmið af ýmsum ástæðum. Hérlendis séu ekki fastbundin viðmið en sérfræðingar ÍSOR miði við 50 daga aðrennslistíma í sinni ráðgjöf. Í rannsókn sama sérfræðings hjá ÍSOR frá desember 2016 kemur fram að skemmsti aðrennslistími frá Minnivallalæk í Kerauga sé 70 dagar en 77 dagar í dæluhús við Tvíbytnulæk og 100 dagar við Lækjarbotna. Títtnefndur sérfræðingur tók ennfremur þátt í því samstarfi og samvinnu sem lauk með þeim rannsóknum sem fram fóru og um var fjallað á fundi vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps á árinu 2017 sem kærendur hafa vísað til. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að þessu virtu ekki dregin önnur ályktun en að fullnægjandi upplýsingar um þetta efni hafi legið fyrir sveitarstjórn á þessu stigi málsins, þ.e. við gerð og samþykkt deiliskipulagsins. Hvað varðar athugasemdir kærenda um að aðkoma að svæðinu sé um veg sem beri ekki fyrirhugaða umferð skal á það bent að um stuttan kafla er að ræða og að leitað var umsagnar Vegagerðarinnar um deiliskipulagið sem gerði ekki athugasemdir við fyrirætlanirnar en kom með ábendingar og skilyrði um sjónlengdir o.fl. Var málið að öllu virtu nægjanlega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og með umhverfismati áætlunar, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Í samræmi við framangreint var unnin umhverfisskýrsla vegna hins kærða deiliskipulags, en kærendur hafa m.a. vísað til þess að samanburður valkosta hafi verið ófullnægjandi, einkum með tilliti til staðsetningar og bent á f- og h-liði 2. mgr. 6. gr. laganna í þessu sambandi. Auk þess hafi ekki verið gerð grein fyrir mótvægisaðgerðum, sbr. g-lið sama ákvæðis. Þá hafi mat á vægi umhverfisáhrifa ekki verið í samræmi við 10. gr. nefndra laga, en þar eru talin upp í tveimur stafliðum og nokkrum töluliðum þar undir þau viðmið sem taka skal mið af þegar metið er hvort líklegt er að umhverfisáhrif skipulags- og framkvæmda­áætlana verði veruleg. Telja kærendur að ekki hafi með fullnægjandi hætti verið litið til b-liðar 1. mgr. 10. gr. um eiginleika áhrifa og þeirra svæða sem fyrir þeim verða hvað varðar samlegð og sammögnun áhrifa, sbr. 2. tl. b-liðar, auk þess sem ekki hafi verið litið til hverjar líkur, tíðni og varanleiki áhrifa yrðu, sér í lagi vegna grunnvatnsmengunar og hættu fyrir heilbrigði manna og umhverfi, sbr. 1. og 4. tl. nefnds b-liðar.

Tekið er fram í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 að umhverfisskýrsla skuli hafa að geyma þær upplýsingar sem sanngjarnt sé að krefjast, að teknu tilliti til þeirrar þekkingar sem er til staðar, þekktra matsaðferða, efnis og nákvæmni áætlunarinnar og stöðu hennar í stigskiptri áætlana­gerð. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er talið upp í nokkrum stafliðum hvað fram skuli koma í umhverfisskýrslu. Samkvæmt f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr. skal m.a. koma fram skilgreining, lýsing og mat á líklegum verulegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar. Þá skulu koma fram upplýsingar um fyrirhugaðar aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða vega upp á móti verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar, sbr. g-lið, og yfirlit yfir ástæður þess að kostirnir, sem um er að ræða, voru valdir og lýsing á því hvernig matið fór fram, sbr. h-lið. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 105/2006 segir um nefnda lagagrein að við framsetningu áætlunar hverju sinni þurfi sá sem ábyrgð beri á áætlanagerðinni að taka afstöðu til þess hvort og að hve miklu leyti ástæða er til að setja umhverfismat áætlunarinnar fram í sérstakri umhverfisskýrslu eða hvort æskilegra sé talið að fjalla um umhverfismatið í sjálfri áætluninni, en það sé ábyrgðaraðili áætlunarinnar sem meti slíkt. Gögn áætlunarinnar þurfi þó ávallt að lágmarki að innihalda þau efnisatriði sem tilgreind séu í stafliðum í 2. mgr.

Í frumvarpinu segir enn fremur um gildissviðsákvæði laganna að sú áætlanagerð sem tilgreind sé í 1. mgr. þess sé ávallt háð umhverfismati. Tilskipun 2001/42/EB gefi kost á að einstök ríki lögleiði tilskipunina með þeim hætti að þær áætlanir sem eingöngu taki til lítilla landsvæða eða feli í sér óverulegar breytingar frá eldri áætlunum séu ekki ávallt háðar umhverfismati, heldur sé tekin ákvörðun um það í hverju tilviki fyrir sig hvort slík áætlun skuli háð umhverfismati. Hér á landi gætu þau ákvæði væntanlega fyrst og fremst varðað deili­skipulags­­áætlanir, auk óverulegra breytinga á aðalskipulagsáætlunum. Ekki þyki æskilegt að lögleiða tilskipunina með þeim hætti. Í stað þess verði, eftir því sem efni og umfang tillögunnar gefi tilefni til, gerð grein fyrir umhverfisáhrifum hennar í þeirri skipulagstillögu sem hljóti kynningu og umfjöllun í samræmi við skipulags- og byggingarlög. Umfang umhverfismats muni ávallt fara eftir eðli og umfangi þeirrar áætlunar sem í hlut á og því eigi kröfur um umhverfismat áætlana sem taki til lítilla landsvæða eða feli í sér óverulegar breytingar ekki að vera verulega íþyngjandi fyrir þann sem að viðkomandi áætlanagerð standi.

Loks segir í almennum athugasemdum með áðurgreindu frumvarpi að nokkur munur sé á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Það eigi við um nákvæmni matsins, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Umfang umhverfismats áætlunar ráðist af tvennu, annars vegar af umfangi þeirrar stefnu sem sett sé fram í áætluninni og hins vegar af því hvaða þættir umhverfisins séu teknir til skoðunar. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, borið saman við það sem á við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram.

Ljóst þykir af því sem rakið hefur verið að sá sem ábyrgð ber á áætlanagerð hefur visst svigrúm við umhverfismat hennar og að það fari eftir eðli máls hverju sinni hvaða áherslur eru við gerð umhverfisskýrslu skv. 6. gr. laga nr. 105/2006. Sama á við um þegar metið er skv. 10. gr. laganna hvort líklegt er að umhverfisáhrif áætlana verði veruleg, enda hlýtur það að velta á eðli máls hver þeirra viðmiða sem talin eru upp í ákvæðinu eigi helst við. Þá skal tekið fram að málsmeðferð vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem falla undir lög nr. 106/2000 fer fram á nokkrum stigum. Eftir atvikum fer fram mat á umhverfisáhrifum hennar eða tekin er ákvörðun um matsskyldu, aðalskipulag getur sætt breytingum, deiliskipulag verið gert auk þess sem ýmis leyfi getur þurft til viðkomandi framkvæmdar og/eða starfsemi.

Í umhverfisskýrslu hins kærða deiliskipulags er að finna mat á því hvort þeir valkostir sem settir eru fram til að ná markmiðum áætlunarinnar muni hafa jákvæð, engin, óveruleg eða neikvæð eða óviss áhrif á tiltekna umhverfisþætti. Kemur þar fram að valkostirnir séu ein­skorðaðir við jarðirnar Leyni 2 og 3 og fyrirhugaða uppbyggingu og svo við núverandi ástand, þ.e. núllkost. Er niðurstaðan sú að uppbygging í samræmi við deiliskipulag muni hafa óveruleg áhrif á metna umhverfisþætti en jákvæð áhrif á samfélag. Um umhverfisþáttinn öryggi segir að aukin umferð verði en engin slys eða óhöpp hafi verið skráð í námunda svæðisins síðastliðin 10 ár. Svæðið sé á fjarsvæði vatnsverndar. Ekki sé vitað um sprungur eða misgengi. Sé ekki fyrirhugað að geyma eða nota efni sem mengað geti grunnvatn og eru slík efni talin upp í dæmaskyni. Dregið verði úr áburðarnotkun þar sem ræktað land minnki. Áhrif á öryggi sé því talið óverulegt.

Svo sem áður segir kemur fram í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 53/2020 að þekktar jarðskjálftasprungur séu á svæðinu. Sú staðhæfing í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins að ekki sé vitað um sprungur eða misgengi orkar því tvímælis jafnvel þótt rétt kunni að reynast að slíkt fyrirfinnist ekki á deiliskipulagssvæðinu sjálfu. Það er þó ekki ógildingarástæða þegar haft er í huga að ekki eru gerðar sömu kröfur við deiliskipulagsgerð og matsskylduákvörðun vegna sömu framkvæmdar, en þetta er meðal þeirra atriða sem líta ber til við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka við lög nr. 106/2000.

Ekki er minnst á möguleg áhrif á umhverfisþætti vegna fráveitu í umhverfisskýrslu deili­skipulagsins og er ekki heldur gerð sérstök grein fyrir samlegðaráhrifum, t.d. vegna mögu­legrar mengunar grunnvatns. Á liðnum árum hafa ýmsar framkvæmdir verið á svæðinu og virðast rannsóknir á möguleg áhrif þeirra á grunnvatn hafa farið fram hverju sinni, s.s. vegna fiskeldis og kjúklingabús. Frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar auk þeirrar sem hér um ræðir. Fyrir liggja skýrslur og rannsóknir um þetta efni þar sem bent er á að huga þurfi að vatnsvernd á svæðinu og hefur það efni verið kynnt fyrir sveitarfélaginu og stjórn vatnsveitu á svæðinu. Til þess er að líta að landnotkun, s.s. vatnsból, er ákveðin í aðalskipulagi, sbr. v-lið í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð, og á það einnig við um takmörkun á landnotkun, svo sem vegna vatnsverndarsvæðis vatnsbóla sem heilbrigðisnefnd sveitarfélags hefur ákvarðað, sbr. g-lið í gr. 6.3. í sömu reglugerð. Þau viðmið sem kærendur hafa vísað til og finna má í 2. tl. b-liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 105/2006 eiga því fremur við um aðalskipulagsgerð en deiliskipulagsgerð þegar metið er hvort umhverfisáhrif þeirra áætlana eru veruleg hvað varðar grunnvatn og/eða vatnsvernd. Í umhverfisskýrslu aðalskipulagsbreytingar eru áhrif á heilsu og öryggi metin óveruleg, rétt eins og í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins. Í umhverfisskýrslu aðalskipulags­breytingarinnar er vísað til þess að gert sé ráð fyrir að frágangur á fráveitu verði með fullnægjandi hætti skv. reglugerð nr. 798/1999 og eigi því ekki að vera hætta á mengun vegna hennar. Sömuleiðis sé vatnsból fyrir starfsemina starfsleyfisskylt. Þá er í greinargerð deiliskipulagsins settur sá fyrirvari sem áður greinir að reynist fyrirætlan um fráveitu ekki tæk vegna aðstæðna sé heimilt að nota hefðbundin skólphreinsivirki. Verður því ekki séð að nauðsyn hafi borið til að greina frá frekari mótvægisaðgerðum, sbr. g-lið 6. gr. laga nr. 105/2006. Hvað varðar mismunandi staðarvalkosti framkvæmdarinnar er rétt að benda á að landfræðilegt umfang deiliskipulagssvæðisins, sbr. f-lið nefndrar 6. gr., er 15 ha sem verður að telja lítið. Gerð var grein fyrir núll-kosti og er ekkert í máli þessu sem bendir til þess að lóðarhafi eigi raunhæfa möguleika annars staðar en í landi sínu til þeirra framkvæmda sem hann hefur að markmiði. Á þessu stigi undirbúnings framkvæmda, sem ekki eru meiri að umfangi en raun ber vitni, verða ekki gerðar ríkari kröfur til þess aðila sem ábyrgð ber á umhverfismati deiliskipulagsáætlunarinnar um að skilgreina frekari valkosti eða lýsa nánar ástæðum þess hver þeirra var valinn.

Að framangreindu virtu og að teknu tilliti til stöðu deiliskipulagsins í stigskiptri áætlanagerð, umfangs þess svæðis sem það tekur til og þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er, er það niður­staða úrskurðarnefndarinnar að umhverfismat deiliskipulagsins, þótt það sé haldið minniháttar ágöllum, hafi uppfyllt skilyrði 6. og 10. gr. laga nr. 105/2006 með ásættanlegum hætti.

Eins og áður er rakið fór málsmeðferð fram samhliða samkvæmt lögum nr. 106/2000 og samkvæmt skipulagslögum. Heimild til gerðar deiliskipulags var samþykkt um mitt árið 2019 og ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugaðar framkvæmdir skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 15. maí 2020. Tillaga að deiliskipulagi var auglýst frá 20. s.m. til 1. júlí s.á. og var hún samþykkt 12. nóvember s.á. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins þegar nánar tilgreind gögn hefðu verið uppfærð, sem var og gert 15. desember 2020. Þremur dögum síðar, eða 18. s.m., felldi úrskurðarnefndin matskylduákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi. Deiliskipulagið var svo birt 28. janúar 2021 og tók þá gildi. Málsmeðferð deiliskipulagsins var því lokið að öllu öðru leyti en því að birting þess hafði ekki farið fram í B-deild Stjórnartíðinda þegar matsskyldu­ákvörðun Skipulagsstofnunar var felld úr gildi. Í áðurnefndum lögum er kveðið á um að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir framkvæmd sem fellur undir fyrri lögin fyrr en álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir eða ákvörðun sömu stofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Sambærilegan áskilnað er hins vegar ekki að finna vegna deili­skipulagsgerðar og verður því ekki talið að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar 18. desember 2020 hafi staðið í vegi fyrir birtingu þegar samþykkts deiliskipulags.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun um deiliskipulag hvorki talin haldin þeim form- né efnisannmörkum að ógildingu varði. Verður enda ekki talið að hagsmunir kærenda verði fyrir borð bornir í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga þótt samráð við þá samkvæmt sömu lögum hafi ekki leitt til ásættanlegrar niðurstöðu að þeirra mati. Verður í því sambandi að benda á að af gögnum málsins verður ráðið að það sé ekki nýnæmi að huga þurfi að vatnsveitu og sameiginlegu vatnsbóli ofan þeirrar frístundabyggðar þar sem kærendur eiga fasteignir, en jafnframt er rétt að taka fram að skv. 51. gr. skipulagslaga getur sá sem sýnir fram á tjón vegna skipulags eftir atvikum átt rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Slík bótaákvörðun á hins vegar ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Loks þykir rétt að leggja áherslu á að skv. 14. gr. skipulagslaga og 13. gr. laga nr. 106/2000 er óheimilt að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum liggur fyrir eða ákvörðun sömu stofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Á það ekki einungis við um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga nr. 160/2010 um mannvirki heldur einnig um starfsleyfi sem heilbrigðisnefnd veitir fyrir fráveitu, en við síðast greindu leyfisveitinguna er m.a. hugað að því að grunnvatn spillist ekki og getur eftir atvikum þurft að líta til þess hvort fyrirhugað fráveitukerfi hefur í för með sér annars konar mengun, sbr. eftir atvikum reglugerð nr. 1400/2020 um mengaðan jarðveg.

 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist nokkuð vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Kæru kæranda að Flagbjarnarholti er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. nóvember 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Leyni 2 og 3.

135/2021 Miðbær Akureyri

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 25. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 135/2021, kæra á ákvörðun Akureyrarbæjar frá 18. maí 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

 

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur og íbúar að Hofsbót 4, Tryggingaréttur ehf., eigandi skrifstofuhúsnæðis að Hofsbót 4, S.Á.Á. fasteignir, eigandi skrifstofuhúsnæðis að Hofsbót 4,  eigandi íbúðar að Strandgötu 3, svo og eigandi íbúðar að Strandgötu 3, þá ákvörðun Akureyrarbæjar frá 18. maí 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er þess krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar verði frestað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 19. ágúst 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar 26. júní 2019 var lagt til að hefja vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar. Tillaga að breytingu nefnds skipulags var auglýst 10. mars 2021 skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010 með fresti til að gera athugasemdir til 21. apríl s.á. Á fundi bæjarstjórnar 18. maí 2021 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar samþykkt og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. júlí 2021. Samkvæmt auglýsingunni felur breytingin í sér þær breytingar helstar „að Glerárgata verður áfram 2 + 2 vegur í núverandi legu en með þrengingu og veglegri gönguþverun, afmarkað er pláss fyrir nýjan hjólastíg eftir Skipagötu, byggingarreitir eru aðlagaðir að breytingum á Glerárgötu og Skipagötu, heimiluð hæð hluta húsa hækkar og þakform breytist. Gert er ráð fyrir að hluti Skipagötu verði einstefna til suðurs og að það sama muni gilda um Hofsbót frá Skipagötu að Strandgötu.“

Kærendur krefjast stöðvunar réttaráhrifa skipulagsins þar til leyst hefur verið efnislega úr hinni kærðu ákvörðun. Reglur grenndar- og nábýlisréttar valdi því að umrædd deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt og geri kærendur athugasemdir við þann fjölda íbúða og þéttingu byggðar sem fyrirhuguð sé, sem og fækkun bílastæða. Deiliskipulagsbreytingin muni hafa áhrif á alla íbúa Hofsbótar 4 og alla starfsemi í húsinu. Deiliskipulagsbreytingin sé enn fremur ekki í samræmi við stefnu aðalskipulags Akureyrar og sé því ólögmæt, sbr. 7. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga.

Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að engar lóðir innan þess svæðis sem deiliskipulagsbreytingin nái til hafi verið tilkynntar sem lausar með auglýsingu. Engar lóðir hafi því verið veittar á skipulagssvæðinu. Þar af leiðandi hafi hvorki verið veitt byggingarleyfi né leyfi fyrir framkvæmdum á því svæði sem hið breytta deiliskipulag taki til og séu engar framkvæmdir fyrirhugaðar í bráð á vegum sveitarfélagsins. Ekki sé uppfyllt skilyrði um að framkvæmdir séu hafnar eða yfirvofandi og því beri úrskurðarnefndinni að hafna stöðvunarkröfu kærenda. Bæjaryfirvöld taki enn fremur fram að breyting á deiliskipulagi miðbæjar sé í fullu samræmi við aðalskipulag og sé ekki haldið þeim annmörkum sem leiða ættu til ógildingar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags eða breytingar á því felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar geta kærendur hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar er hafnað.

36 og 42/2021 Dalsbraut 32 til 36

Með

Árið 2021, föstudaginn 20. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. mars 2020 um að breyta deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga, vegna lóðanna nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2021, sem barst nefndinni 19. s.m., kæra 9 eigendur Lerkidals 52-60, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. mars 2020 að breyta deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga, vegna lóðanna nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem móttekin var 6. apríl 2021, skutu sömu aðilar ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 30. mars 2020 um að samþykkja umsóknir um leyfi fyrir byggingu þriggja 15 íbúða fjölbýlishúsa á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut til úrskurðarnefndarinnar. Verður greint kærumál, sem er nr. 42/2021, sameinað kærumáli þessu þar sem kæruefni þeirra eru samofin og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að ógildingar hinna kærðu ákvarðana.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu leyfum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 21. apríl 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 15. apríl 2021.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 7. janúar 2020 var samþykkt að grenndar­kynna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi tillögu þess efnis að heimila stækkun mannvirkja sem næmi 106 m2 á hverri lóð og að íbúðum í hverju húsi yrði fjölgað úr 11 í 15. Breytingartillagan var grenndarkynnt 14. janúar 2020 með athugasemdafresti til 15. febrúar s.á. og var m.a. grenndarkynnt fyrir þáverandi þinglýstum fasteignareigendum Lerkidals 52-60 sem höfðu á þeim tíma selt fasteignirnar til kærenda. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt með vísan til þess að engar athugasemdir hefðu borist. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 3. mars s.á. og tók deiliskipulags­breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl s.á.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. mars 2020 voru samþykkt byggingaráform fyrir þremur fjölbýlishúsum á lóðunum Dalsbraut 32, 34 og 36 í samræmi við samþykktar breytingar á deiliskipulagi svæðisins og voru byggingarleyfi gefin út 18. júní s.á.

Í desember 2020 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna bílastæða lóðanna Dalsbrautar 32-36 grenndarkynnt fyrir kærendum. Telja kærendur sig þá hafa orðið varir við að breyting hefði orðið á deiliskipulagi svæðisins vegna nefndra lóða. Í kjölfarið áttu nokkrir kærenda í samskiptum við bæði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna heimilaðra framkvæmda á nefndum lóðum. Hinn 15. mars 2021 upplýsti byggingar­fulltrúi kærendur um að starfsmenn embættisins hefðu skoðað byggingu á staðnum og að byggt væri í samræmi við aðaluppdrætti. Jafnframt var kærendum bent á að hægt væri að fylgja málinu eftir með kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áður en þeir hafi fest kaup á fasteignum sínum hafi þeir kynnt sér skipulag svæðisins. Þegar tillaga að umþrættri deiliskipulagsbreytingu vegna Dalsbrautar 32-36 var grenndarkynnt hafi kærendur verið búsettir að Lerkidal 52-60, átt þar lögheimili og hafið greiðslu útsvars til Reykjanesbæjar í samræmi við þá skráningu. Þrátt fyrir það hafi þeim ekki verið grenndarkynnt framangreind tillaga sem sveitarstjórn Reykjanesbæjar hafi samþykkt 3. mars 2020 og því ekki fengið tækifæri til að mótmæla umræddum breytingum. Ekki sé að sjá að breyting á aðalskipulagi og útgáfa byggingarleyfis hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda líkt og lög mæli fyrir um. Kærendur verði fyrir tjóni vegna breytinganna sem felst í skertu útsýni og innsýn í garða frá íbúðum með svölum sem snúi að Lerkidal. Leiði það til lækkunar á verðgildi húsanna og fara kærendur fram á að byggingum verði breytt til sam­ræmis við fyrra skipulag eða kærendum bætt það tjón sem þeir hafi orðið fyrir.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu Reykjanesbæjar er vísað til þess að framkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag og að málsmeðferð hafi öll verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Við framkvæmd grenndarkynningar hafi íbúar í nærliggjandi húsum fengið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum. Þá séu skipulags- og hönnunargögn gild og sett fram í samræmi við skilyrði laga og reglna. Óskert útsýni sé ekki bundið í lög og eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi þeirra sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á slíkum hags­munum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærufrestur til nefndarinnar sé liðinn og vísa beri málinu frá. Þá hafi deiliskipulagsbreytingin hvorki haft í för með sér breytingu á hæð umræddra húsa né breytingu á afstöðu þeirra til nærliggjandi húsa. Breytingin hafi varðað viðbót við breidd húsanna sem hafi lítil áhrif á nærliggjandi lóðir.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka þá málsástæðu sína að ástæða þess að engar athugasemdir hafi borist við umþrætta deiliskipulagsbreytingu sé að hún hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir íbúum Lerkidals 52-60 líkt og skylt sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2020. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 8. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deili­skipulags­ákvörðun frá opinberri birtingu hennar en kæra vegna umdeildrar deiliskipulags­breytingar barst úrskurðarnefndinni 19. mars 2021.

Umsóknir um hin kærðu byggingarleyfi voru samþykktar 30. mars 2020 og á grundvelli þeirra samþykkta voru byggingarleyfi gefin út 18. júní s.á. Samkvæmt skoðunarskýrslum fóru áfangaúttektir á sökklum húsanna fram í ágúst 2020. Samkvæmt gögnum málsins voru framkvæmdir langt á veg komnar og uppsteypu húsanna að mestu lokið er leyfin voru kærð. Samkvæmt þessu mátti kærendum þegar á haustmánuðum 2020 vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingum á umræddum lóðum. Þegar kæra vegna byggingarleyfanna barst úrskurðar­­nefndinni 6. apríl 2021 var því eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 liðinn.

Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin bárust kærur í máli þessu úrskurðarnefndinni að liðnum eins mánaðar kærufresti og verða kröfur kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana ekki teknar til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningar­ákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga getur sá sem sýnir fram á tjón vegna skipulags eftir atvikum átt rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Slík bótaákvörðun á hins vegar ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

58/2021 Leirvogstungumelur

Með

Árið 2021, föstudaginn 20. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Endurupptekið var mál nr. 58/2021, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til svæði hans á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, fór kærandi í máli nr. 58/2021, Vaka hf., eigandi lands á Leirvogstungu–melum, fram á endurupptöku málsins en úrskurður í því var áður kveðinn upp 8. júlí 2021.

Málavextir: Með bréfi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis til kæranda, dags. 18. júlí 2018, kom fram að í ljós hafi komið í eftirlitsferð á landsvæði í eigu kæranda að þar væri fjöldinn allur af númerslausum bifreiðum og að svæðið væri óþrifalegt. Ekki hafi verið sótt um starfsleyfi fyrir þessari starfsemi, engar mengunarvarnir hafi verið til staðar og svæðið sé skilgreint sem óbyggt svæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Var því farið fram á að lóðin yrði hreinsuð fyrir 18. ágúst 2018.

Kærandi sótti um starfsleyfi fyrir geymslusvæði fyrir bifreiðar og tæki á Leirvogstungumelum 2. desember 2019. Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar gerði athugasemd við uppsöfnun bifreiða í niðurníðslu, gáma og aðra lausamuni á lóðinni og við slæma umgengni sem henni fylgir. Óskað var eftir úrbótum fyrir 17. febrúar 2020.

Á fundi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis 19. maí 2020 kom fram að ábendingar hafi borist um slæma umgengni kæranda og eftirlit hafi leitt í ljós að það ætti við rök að styðjast. Nefndin bókaði að heilbrigðiseftirlitinu væri falið að setja málið í forgang. Á fundi bæjarráðs Mosfells­bæjar 20. s.m. var bókað að þrátt fyrir loforð kæranda um hreinsun á svæðinu hafi ekki verið brugðist við athugasemdum sveitarfélagsins og sé úrbóta krafist tafarlaust. Farið var fram á að heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis brygðist hart við og beitti tiltækum heimildum til að sjá til þess að brotum kæranda yrði hætt tafarlaust. Á fundi heilbrigðisnefndar 16. júní s.á. var umsókn kæranda um starfsleyfi hafnað og kæranda veittur lokafrestur til 1. september 2020 til að hreinsa öll svæði. Með bréfi kæranda, dags. 14. s.m., var óskað eftir fresti til að ljúka hreinsun svæðisins til 31. október s.á. Erindið var tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar 15. september s.á. Á fundinum kom fram að í eftirlitsferð 3. s.m. hafi komið í ljós að mikið væri búið að taka til en tiltekt væri enn ekki lokið. Var fallist á að framlengja lokafrest til 31. október 2020. Á fundi heilbrigðisnefndar 29. s.m. var framkvæmdastjóra falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda skv. XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ef ekki væri búið að fjarlægja allan úrgang af svæðinu 1. nóvember 2020.

Hinn 16. nóvember 2020 óskaði kærandi enn eftir fresti til hreinsunar, nú til 10. desember s.á. og var fallist á þá beiðni hans. Farið var í eftirlitsferð 12. janúar 2021 og kom í ljós að tiltekt var ekki lokið á svæði 1 en svæði 2-4 væru orðin hér um bil hrein. Á fundi heilbrigðisnefndar 19. s.m. bókaði nefndin að framkvæmdastjóra væri falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda skv. XVII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kæranda var kynnt framan­greind bókun með bréfi, dags. 26. s.m., og um möguleika á að koma andmælum að. Kærandi andmælti fyrirhugaðri áminningu með bréfi, dags. 9. febrúar s.á., og óskaði eftir fresti til 31. maí s.á. til að klára hreinsun á svæðinu endanlega. Kæranda var veitt formleg áminning með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, og tilkynnt um að frekari þvingunaraðgerðir væru fyrirhugaðar og til skoðunar væri að leggja á dagsektir. Á fundi heilbrigðisnefndar 7. apríl 2021 var ákveðið að leggja dagsektir á kæranda frá og með 1. maí 2021 þar til svæðið á Leirvogstungumelum hafi verið hreinsað af öllum úrgangi. Upphæð dagsekta var ákveðin 20.000 kr. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina næsta dag. Við skoðun á svæðinu 28. s.m. var niðurstaðan sú að hreinsun væri ekki lokið og ekki væri ástæða til að fresta álagningu dagsekta.

Úrskurður í málinu var kveðinn upp 8. júlí 2021 þar sem ógildingarkröfu kæranda var hafnað en eftir uppkvaðninguna fór kærandi fram á endurupptöku málsins eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á það bent að ekki sé rétt að andmæli hafi ekki borist frá honum vegna áminningarinnar, dags. 24. febrúar 2021. Þeim hafi verið komið á framfæri símleiðis 25. s.m. við framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, þar sem málið hafi verið rætt í 11 mínútur og fyrirhuguðum dagsektum harðlega mótmælt. Kærandi hafi verið að losa efni statt og stöðugt af svæðinu frá síðustu vettvangsferð, dags. 12. janúar 2021.

Einnig hafi verið reynt að fá fund með formanni heilbrigðiseftirlitsins án árangurs, fyrst 26. febrúar 2021, en þá hafi formaður bent kæranda á að hafa samband við framkvæmdastjóra. Ítrekað hafi verið 3. mars s.á. að óskað væri eftir fundi með formanni en ekki framkvæmda­stjóra. Formaðurinn hafi svarað á þann veg að hann hefði það fyrir reglu að hitta ekki aðila eina sem óski eftir því vegna heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Senda ætti erindið á framkvæmda­stjóra og nefndin myndi svo taka erindið fyrir á fundi. Ekki hafi verið boðið upp á fund með formanni og öðrum með honum né fjarfund eins og tíðkist.

Ákvörðun heilbrigðisnefndar frá 7. apríl 2021 byggi á úttekt sem fram hafi farið 12. janúar s.á. Nefndin hafi því ekki kynnt sér aðstæður áður en ákvörðun hafi verið tekin en miklar breytingar hafi orðið á svæðinu frá þeim tíma. Ákvörðunin hafi því verið tekin að óathuguðu máli sem sé í andstöðu við góða og vandaða stjórnsýsluhætti.

Forsaga málsins sé sú að hreinsunarstarf á lóð kæranda hafi staðið yfir frá því um vorið 2020. Mörg hundruð tonn hafi verið flutt af svæðinu og kærandi verið í góðu samstarfi við framkvæmdastjóra heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Vegna þess hve umfangsmikið verkið hafi verið hafi það tekið þennan tíma þó vonir hafi staðið til að hægt yrði að ljúka því fyrr. Hafi kærandi því ekki setið auðum höndum heldur unnið í verkinu allan tímann. Sé ákvörðunin bæði íþyngjandi og tekin að óathuguðu máli. Hafi kærandi unnið verkið eins hratt og kostur hafi verið en það hafi reynst tímafrekara en áætlanir hafi gert ráð fyrir. Sé það í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti að ekki hafi verið veittir nægjanlegir tímafrestir til að klára verkið áður en þvingunaraðgerðum hafi verið beitt. Lágmark sé að rannsaka málið áður en slíkar ákvarðanir séu teknar en engin skoðun hafi farið fram eftir 12. janúar 2021 þar til nefndin hafi tekið ákvörðun um álagningu dagsekta 7. apríl s.á. Í kjölfar úttektarinnar hafi kærandi sent heilbrigðisnefndinni bréf, dags. 19. s.m., þar sem farið hafi verið yfir stöðuna og framhaldið og bent á að það myndi taka tíma fram á vor að klára málið endanlega.

Með bréfi heilbrigðisnefndarinnar, dags. 26. janúar 2021, hafi kæranda verið send bókun nefndarinnar frá 59. fundi hennar 19. s.m. Í bréfinu sé vísað til skoðunar á svæðinu 12. s.m. og bréfs kæranda frá 19. s.m. Hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hreinsun á svæðinu hafi ekki verið lokið hyggist heilbrigðiseftirlitið hefja þvingunarferli skv. XVII. kafla laga um hollustu­hætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum. Sé til skoðunar að veita fyrirtækinu formlega áminningu samkvæmt 60. gr. laganna. Kærendum hafi verið gefinn kostur á að koma andmælum að innan tveggja vikna.

Kærandi hafi sent andmæli með bréfi, dags. 9. febrúar 2021, þar sem bent hafi verið á að stjórnvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess gætt að ekki verði farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Þar hafi einnig verið bent á að frá því að farið hafi verið í vettvangsferð 12. janúar 2021, væri búið að tæma átta gáma og að því yrði haldið áfram. Þar var einnig lagt til að kærandi fengi frest út 31. maí s.á. til að klára að fjarlægja efni í gámum sem framkvæmdastjóri teldi til úrgangs sem kærandi sé ósammála. Einnig hafi verið lagt til að á þessu tímabili færi framkvæmdastjóri heilbrigðisnefndarinnar í eftirlitsferð fyrir fundi nefndarinnar svo hægt væri að halda fulltrúum nefndarinnar upplýstum um stöðu málsins.

Þegar nefndin hafi haldið fund 7. apríl 2021 hafi ekki verið farin vettvangsferð síðan 12. janúar s.á. en svæðið hafi tekið miklum breytingum á þeim tíma og sé til fyrirmyndar í dag. Því hafi verið tekin mjög íþyngjandi ákvörðun með því að setja á dagsektir án þess að kynna sér stöðuna á lóð kæranda. Slíkt standist ekki stjórnsýslulög. Framkvæmdastjóri heilbrigðisnefndar Kjósar­svæðis hafi viðurkennt að svæðið hafi tekið miklum breytingum frá því í janúar þegar farið hafi verið í vettvangsferð 28. apríl 2021. Hafi kærandi óskað eftir því að dagsektir yrðu felldar niður fyrir 1. maí s.á. en framkvæmdastjórinn sagðist ekki hafa heimild til þess, það yrði að bíða næsta fundar nefndarinnar. Sá fundur yrði hins vegar ekki haldinn áður en kærufrestur rynni út.

Ákvörðun um beitingu dagsekta sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds. Við það mat þurfi sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins svo sem um meðal­hóf, rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið. Við mat á því hvort beita eigi þvingunaraðgerðum, svo sem dagsektum, geti komið til álita ýmis sjónarmið, svo sem hversu íþyngjandi aðgerða sé krafist af þeim sem úrræðin beinist að, hvort og með hvaða hætti þær tengist meintum lögbrotum, hversu mikilvæga almannahagsmuni sé verið að tryggja og hversu langur tími sé liðinn frá atburði þar til ætlunin sé að grípa til aðgerða af hálfu stjórnvalda. Með vísan til þess sem að framan rakið sé á því byggt að rannsókn málsins hafi verið haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Málsrök heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis: Af hálfu heilbrigðisnefndarinnar er bent á að kærandi hafi hafið starfsemi á svæðinu án þess að óska eftir starfsleyfi líkt og fyrirtækinu hafi borið að gera. Á það hafi verið bent með bréfi, dags. 18. júlí 2018. Kærandi hafi starfrækt óleyfilegt geymslusvæði á Leirvogstungumelum án starfsleyfis í a.m.k. þrjú ár og fyrir liggi að félagið muni ekki fá heimild fyrir slíka starfsemi að óbreyttu skipulagi. Hlutverk heilbrigðis­nefndar sé að hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem falli undir lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og veita starfsleyfi á grundvelli laganna. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki sinnt kröfum um úrbætur og ekki staðið við þá fresti sem honum hafi verið settir til úrbóta. Með þessa stöðu í huga hafi verið eðlilegt næsta skref af hálfu heilbrigðisnefndar að grípa til þeirra þvingunarúrræða sem löggjöfin geri ráð fyrir að beitt sé í slíkum tilvikum. Áminning hafi verið veitt og þegar legið hafi fyrir að það hafi ekki leitt til tilætlaðs árangurs hafi verið gripið til þess ráðs að leggja á dagsektir frá 1. maí 2021 að upphæð 20.000 kr. þar til staðfesting á að hreinsun svæðisins hafi verið lokið liggi fyrir. Kæranda hafi verið í lófa lagið í nokkuð langan tíma að ljúka hreinsun og hafi hann sjálfur gert ráð fyrir að hreinsun yrði lokið 31. maí 2021, sem ekki hafi gengið eftir frekar en fyrri fyrirætlanir kæranda í þessum efnum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að andmæli hafi verið sett fram símleiðis við framkvæmdastjóra heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Símtalið hafi staðið yfir í rúmar 11 mínútur og hafi einungis tekið svo langan tíma þar sem kærandi hafi mótmælt aðgerðunum harðlega. Kærandi hafi reynt að fá fund með formanni heilbrigðisnefndar eftir að hafa talað við framkvæmdastjóra nefndarinnar. Það hafi verið framkvæmdastjóri heilbrigðis­nefndar sem hafi mælt með því að fá fund með formanni nefndarinnar.

Heilbrigðisnefnd hafi borið að taka ákvarðanir byggðar á réttum upplýsingum. Það hafi ekki verið gert í þessu tilfelli þar sem vettvangsferð hafi ekki verið farin á svæðið frá 12. janúar 2021 þar til ákvörðun hafi verið tekin. Í vettvangsferð 28. apríl s.á. hafi framkvæmdastjóri heilbrigðisnefndar viðurkennt að mikil hreinsun hafi átt sér stað frá síðustu vettvangsferð. Kærandi hafi á þeim tíma haldið því fram að hreinsun væri lokið og að enginn úrgangur væri á svæðinu enda hafi þá allt verið fjarlægt sem mengunarhætta hafi stafað af.

Varðandi athugasemdir um að kærandi hafi fengið ríflega fresti hafi kröfur nefndarinnar tekið að breytast þegar liðið hafi á árið 2020. Þáverandi framkvæmdastjóri nefndarinnar hafi sagt að verulegt magn bíla, gáma og brotajárns hafi verið á svæðinu. Allir bílar sem kærandi hafi geymt á svæðinu vegna starfsemi félagsins hafi verið fjarlægðir, brotajárn hafi verið fjarlægt og sé einungis smíðaefni eftir á svæðinu. Gámar í eigu Vöku séu á svæðinu og telji kærandi fulla heimild fyrir því. Líkt og fyrri framkvæmdastjóri heilbrigðisnefndar hafi sagt hafi landeigandi eitthvert svigrúm til að geyma hluti á sínu landi. Kærandi sé eigandi 64 ha lands á þessu svæði. Það sem hafi bæst við kröfur heilbrigðisnefndar sé t.d. að fjarlægja skyldi hluta af gömlum eikarbát, sem sé í eigu kæranda og muni hann nota það efni til að skreyta umhverfið þegar fram í sæki. Ekki sé um úrgang að ræða. Þá hafi Covid-19 einnig haft áhrif á tímalengd verkefnisins. Í ljósi þess hafi í raun verið með ólíkindum hversu vel hafi gengið að hreinsa svæðið. Taka hefði átt tillit til þess.

Ef kærandi hefði aðeins brugðist við tilmælum heilbrigðisnefndar væri skiljanlegt að leggja á dagsektir. Staðreyndin sé hins vegar sú að mikið verk hafi verið unnið á tímabilinu eftir að núverandi framkvæmdastjóri hafi tekið við og hreinsun lokið að hans mati. Það breyti því ekki að framkvæmdastjóri kæranda hafi gefið það út að haldið verði áfram að gera svæðið snyrtilegra með fækkun gáma o.fl. Frá síðustu vettvangsferð í apríl hafi enn fleiri hlutir verið fjarlægðir af svæðinu eins og áætlað hafi verið. Ekkert af því efni hafi verið úrgangur og sé enginn úrgangur á svæðinu.

Þá komi á óvart að sjá yfirlýsingu um að kærandi fái ekki starfsleyfi þar sem fordæmi sé fyrir sambærilegum aðstæðum á lóð við hliðina á lóð kæranda. Mosfellsbær sé eigandi þeirrar lóðar og leigi lóðina út en notkun þeirrar lóðar lúti sömu skipulagsforsendum og lóð kæranda. Engar athugasemdir hafi borist frá heilbrigðisnefnd við útgáfu starfsleyfis á þeirri lóð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar heilbrigðisnefndar Kjósar­svæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til land kæranda á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi. Svo sem áður er komið fram var kröfum kæranda hafnað með úrskurði kveðnum upp 8. júlí s.á. Með bréfi, dags. 4. ágúst s.á., fór kærandi fram á endurupptöku málsins með vísan til þess að viðbótarathugasemdir hans hefðu ekki ratað inn í úrskurð nefndarinnar frá 8. júlí 2021.

Fjallað er um endurupptöku máls í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. nefndrar greinar kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Í ljósi þess að viðbótar­athugasemdir kæranda hafa bæði að geyma athugasemdir um málsatvik sem og ný málsrök þykir rétt að fallast á endurupptökubeiðni kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs er umráða­mönnum lóða skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Í 2. mgr. nefndrar greinar kemur fram að heilbrigðisnefnd fari með eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutist til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Í 3. mgr. er kveðið á um að nefndinni sé heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og loks er tekið fram í 4. mgr. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun. Óumdeilt er í máli þessu að kærandi hefur ekki gilt starfsleyfi á þessum tiltekna stað, þ.e. á Leirvogstungumelum, samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnu­rekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 skal atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum. Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 kemur jafnframt fram að afrit af gildandi deiliskipulagi eða gildandi aðalskipulagi sé deiliskipulag ekki til staðar skuli fylgja starfsleyfisumsókn. Umrætt svæði er skilgreint sem óbyggt svæði í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 og ekki hefur verið gert deiliskipulag fyrir svæðið. Var því rétt að hafna umsókn kæranda um starfsleyfi að óbreyttu skipulagi.

Fjallað er um þvingunarúrræði í XVII. kafla laga nr. 7/1998. Samkvæmt 60. gr. laganna er heilbrigðisnefnd heimilt að veita áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt þeim lögum, reglugerðum eða samþykktum sveitar­félaga. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Kærandi fékk fyrst áskorun þess efnis að fjarlægja númerslausar bifreiðar af landsvæði sínu með bréfi, dags. 18. júlí 2018. Heilbrigðisnefnd bókaði á fundi sínum 29. október 2020 að framkvæmdastjóra væri falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda. Í millitíðinni voru haldnir fjöldi funda með kæranda og eftirlitsferðir farnar á svæðið. Frestir til úrbóta voru margoft framlengdir, oftast að frumkvæði kæranda, jafnvel þótt tekið hafi verið fram að um lokafrest hafi verið að ræða. Á fundi heilbrigðisnefndar 19. janúar 2021 var framkvæmdastjóra aftur falið að hefja þvingunar­ferli samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis sendi kæranda bréf, dags. 26. janúar 2021, þess efnis að þar sem hreinsun væri ekki lokið þrátt fyrir margítrekaða fresti stæði til að veita kæranda formlega áminningu samkvæmt 60. gr. framangreindra laga. Kæranda var veitt formleg áminning með bréfi dags. 24. febrúar s.á. Í því bréfi var tekið fram að til stæði að beita frekari þvingunarúrræðum og væri til skoðunar að leggja á dagsektir skv. 61. gr. laga nr. 7/1998. Fullreynt væri að veita frekari fresti og var í því samhengi bent á að frá því að umsókn kæranda um starfsleyfi hafi verið hafnað 16. júní 2020 hafi verið veittir þrír frestir til að ljúka hreinsun svæðisins og enginn þeirra staðist.

Af framangreindri atburðarrás er ljóst að heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis fylgdi málsmeðferðar­reglum 60. og 61. gr. laga nr. 7/1998 við álagningu dagsekta. Fyrst var veitt áminning skv. 60. gr. ásamt fresti og dagsektum að lokum beitt skv. 1. mgr. 61. gr. þegar ljóst var að kærandi varð ekki við fyrirmælum.

Ekki verður fallist á með kæranda að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda fékk kæranda ítrekað frest til að sinna hreinsun umrædds svæðis. Þá var gætt að andmælarétti kæranda á öllum stigum málsins.

Kærandi hefur vísað til þess að lóð við hlið lóðar hans hafi starfsleyfi, þrátt fyrir að vera einnig á óbyggðu svæði skv. aðalskipulagi. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Jafnræðisreglan veitir ekki tilkall til neins þess sem ekki samrýmist lögum. Hafi efni ákvörðunar stjórnvalds verið ólögmætt getur aðili í sambærilegu máli ekki borið fyrir sig þá ákvörðun og krafist sambæri­legrar úrlausnar. Hið sama á við hafi stjórnvald látið hjá líða að beita tiltekinni réttarreglu. Hefur starfsleyfi aðliggjandi lóðar því ekki þau áhrif á mál þetta að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga þykir rétt að dagsektir frá 7. maí 2021 til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til landsvæði kæranda á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi.

Dagsektir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun frá 7. maí til og með 20. ágúst 2021 falla niður.

33/2021 Blesugróf

Með

Árið 2021, föstudaginn 20. ágúst kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 33/2021, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. febrúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóða nr. 30 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Sýrfell ehf., lóðarhafi lóða nr. 30 og 32 við Blesugróf, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóða nr. 30 og 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. apríl 2021.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Blesugrófar frá árinu 2005 sem tekur m.a. til lóðanna Blesugrófar 30 og 32. Í skipulagsskilmálum deiliskipulagsins kemur fram að leyfilegt nýtingar­hlutfall á lóð sé 0,4. Þá segir að sé kjallari undir húsi, að hluta til eða öllu leyti, hækki leyfilegt nýtingar­hlutfall í 0,45 og að hámarksbyggingarmagn á lóð sé 300 m2. Hinn 7. júlí 2006 tók gildi breyting á deiliskipulaginu sem fól í sér að fellt var niður það skilyrði að hámarks­byggingar­magn á lóð væri 300 m2. Kom fram í greinargerð með breytingunni að ekki væri talið nauðsyn­legt að takmarka stærðir húsa við 300 m2. Á árinu 2014 fékk kærandi úthlutað lóðum nr. 30, 32 og 34 við Blesugróf og gerði svo á árinu 2017 lóðarleigusamninga við Reykjavíkur­borg. Í lóðarleigusamningi Blesugrófar 30 er því lýst í 1. gr. að lóðin sé 608 m2 og gert sé ráð fyrir einbýlishúsi, um 290 m2 að heildarflatarmáli. Í lóðarleigusamningi Blesugrófar 32 kemur fram í 1. gr. samningsins að lóðin sé 741 m2 og gert sé ráð fyrir einbýlishúsi um 300 m2 að flatarmáli.

Á afgreiðslufundi skipulagfulltrúa 25. september 2020 voru lögð fram drög að deiliskipulags­breytingu fyrir Blesugróf nr. 30 og 32. Í breytingunni fólst að nýtingarhlutfall Blesugrófar 30 fór úr 0,4 í 0,477 miðað við 290 m2 byggingarmagn og að heimilt yrði að grafa frá hliðum húss sem næmi ¼ af lengd langhliðar þess. Þá fólst í breytingunni að nýtingarhlutfall Blesugrófar 32 fór úr 0,4 í 0,404 miðað við 300 m2 byggingarmagn og að heimilt yrði að grafa frá hliðum húss sem næmi ¼ af lengd langhliða þess. Aðrir skilmálar héldust óbreyttir. Jafnframt kom fram í breytingar­tillögunni að ástæða breytingarinnar væri „uppgefið byggingar­magn í lóðarleigu­samningi.“ Á fundi skipulags- og samgönguráðs 4. nóvember 2020 var samþykkt að auglýsa tillöguna með vísan til 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst til kynningar frá 24. nóvember 2020 til og með 7. desember 2020. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. janúar 2021 og því vísað til umsagnar verkefna­stjóra ásamt innsendum athugasemdum. Deiliskipulagstillagan var svo samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs 27. s.m. og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 4. febrúar 2021. Tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. febrúar 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi telur sig ekki getað unað þeirri málsmeðferð er leiddi til hinnar kærðu ákvörðunar. Ekki hafi verið haft samráð við hann við vinnslu deiliskipulags­breytingarinnar og þær gerðar þrátt fyrir mótmæli þar um. Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemd lóðarhafa komi m.a. fram að ekki hafi þótt ástæða til að leita sérstaklega til hans eftir aðstoð við deiliskipulagsbreytinguna. Lóðarhafi hafi viljað fá tækifæri til að gæta sinna hagsmuna og réttar. Það orðalag að ekki hafi verið þörf á „aðstoð“ hans sé lítilsvirðing við réttláta málsmeðferð. Skipulagsfulltrúi og starfsmaður hans sem unnið hafi að skipulaginu séu báðir vanhæfir í þessu máli. Dómsmál sé í gangi, m.a. vegna afgreiðslu þeirra, og því ekki eðlilegt að þeir taki það upp hjá sjálfum sér að breyta deiliskipulaginu án samráðs við kæranda sem lóðarhafa.

Aðrir möguleikar til að samræma skipulag og lóðarleigusamninga hafi ekki verið skoðaðir, s.s. að auka leyfilegt byggingarmagn í samræmi við lóðarleigusamninga eða auka möguleika á að heimila kjallara. Þá hefði einnig mátt heimila hús á tveimur hæðum líkt og heimilað var á lóðinni Blesugróf 34. Ekki hafi verið lagt mat á það hvernig hið aukna byggingarmagn á einni hæð kæmist fyrir innan skilgreinds byggingarreits. Þegar gerð hafi verið athugasemd við auglýsingu hafi henni verið svarað með skætingi um að lóðarhafa hafi mátt vera „ljós stærð byggingarreita innan lóðanna þegar hann skrifaði undir lóðarleigusamninga þar sem skýrt var kveðið á um hámarks byggingarmagn.“ Þetta séu ekki gild rök.

Nýr skilmáli um að heimilt sé að grafa frá hliðum húss sem nemi ¼ af lengd langhliða þess sé mjög óskýr. Í svari við athugasemdum þar um segi að rétt hafi þótt „að árétta inntak skilmála gildandi deiliskipulags og svo húsið falli sem best að lóðinni/landinu og umhverfinu, að öll lóðin verði ekki sléttuð og grafið inn í landið, að ekki verði grafið frá húsinu allan hringinn þar sem það stendur í halla.“ Svarið fjalli aðallega um hvað sé óheimilt samkvæmt skilningi skipulagsfulltrúa. Verið sé að lauma inn nýju óljósu skilyrði um hvað ekki megi gera. Engin snið hafi verið gerð eða byggingamassar sýndir og því ekkert sem gefi til kynna hvað sé verið að ákveða. Þá sé í hinni kærðu ákvörðun vísað í úrelt ákvæði deiliskipulags Blesugrófar frá árinu 2005 þegar sagt sé að hámarksbyggingarmagn á lóð sé 300 m2. Á þetta hafi verið bent í athugasemdum kæranda við auglýsta tillögu en í svari skipulagsfulltrúa hafi sama ranga tilvísun verið gerð. Nú hafi þessi vitleysa ratað inn í nýtt óljóst skipulag.

Deiliskipulagsbreytingin og allt ferlið við vinnslu hennar beri merki um mikla fljótfærni og yfirgang. Tilgangur hennar sé að hafa áhrif á dómsmál sem lóðarhafi hafi höfðað gegn Reykjavíkurborg vegna vanefnda hennar á lóðaúthlutun og lóðarleigusamningum Blesugrófar 30, 32 og 34.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi mátt vera það ljóst frá árinu 2017 að lóðar­leigusamningar hafi ekki verið í samræmi við þágildandi deiliskipulag. Hin kærða ákvörðun feli í sér einfalda skilmálabreytingu til samræmis við skilmála lóðarleigusamninga og ekki þurfi sérstakt samráð um það. Deiliskipulagsbreyting Blesugrófar 2006 hafi falið það í sér að skilmáli um hámarksbyggingarmagn hafi verið tekinn út en sú breyting komi hinni kærðu ákvörðun ekki við þar sem hámarksbyggingarmagn hafi verið tilgreint í lóðarleigusamningum. Ekki hafi þótt ástæða til að skoða aðra möguleika við deiliskipulagsgerðina. Þeir skilmálar sem koma fram í deiliskipulagi Blesugrófar frá 2005 séu þeir skilmálar sem hafi verið í gildi þegar lóðar­leigu­samningar voru undirritaðir árið 2017.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi í nokkur ár reynt að fá að byggja samkvæmt lóðarleigusamningum en að lokum hafi honum verið sá eini kostur fær að höfða dómsmál gegn Reykjavíkurborg. Í miðjum málarekstrinum taki borgin það upp hjá sjálfri sér að breyta deiliskipulaginu til þess að þvæla málið. Það skjóti skökku við að borgin telji sig ekki þurfa að skoða aðra möguleika. Það hafi áður verið mat skipulagsfulltrúa að skipulag Blesugrófar væri frekar gallað. Borgin hafi komist að því að raunveruleg götuhæð væri hærri en hönnun hennar hafi sagt til um. Þar sem gólfkóti á fyrstu hæðum beggja lóðanna hafi verið fastsettur í deiliskipulaginu verði aðkoma að húsunum mjög brött niður á við en slíkt geti gert hreyfihömluðum erfitt um vik. Ómögulegt sé að vera með bílastæði fyrir framan ætlaða bílskúra sem uppfylli kröfur um hámarkshalla á bílastæðum fyrir hreyfihamlaða. Það eitt ætti að leiða til þess að borgin skoði aðra möguleika. Á árinu 2018 hafi verið lögð fram deiliskipulagstillaga sem hafi þótt til mikilla bóta. Hægt hefði verið að ljúka þeirri vinnu í góðri sátt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur að breyta deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóða kæranda Blesugrófar nr. 30 og 32. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var leyfilegt nýtingarhlutfall lóðanna breytt og kveðið á um heimild á báðum lóðum til að grafa frá hliðum húsa sem nemur ¼ af lengd langhliða þeirra.

Sveitarstjórn annast gerð skipulags innan marka sveitarfélags eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsgerð sveitarfélaga er tæki þeirra til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags og fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Þá er sveitarstjórn einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitar­stjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Tillagan að umdeildri deiliskipulagsbreytingu var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð deili­skipulags­breytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Fyrir liggur að tilgangur hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var aðallega að samræma skipulagsskilmála við það byggingarmagn sem kveðið er á um í lóðarleigusamningum um­ræddra lóða sem telja verður ívilnandi fyrir kæranda. Í deiliskipulagsbreytingunni er vísað til þess að gildandi skipulagsskilmálar kveði á um að hámarksbyggingarmagn á lóð væri 300 m2 en sú takmörkun var hins vegar felld úr gildi 7. júlí 2006. Allt að einu liggur fyrir að hámarks­nýtingar­hlutfall umræddra lóða var hækkað með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu frá því sem kveðið var á um í gildandi deiliskipulagi. Þá felur deiliskipulagsbreytingin í sér að heimilt verður á báðum lóðum að grafa frá hliðum húsa sem nemur ¼ af lengd langhliða þeirra. Sú breyting er ekki rökstudd í deiliskipulagstillögunni en í umsögn skipulagsfulltrúa við inn­sendum athugasemdum kemur fram að rétt hafi þótt að árétta inntak skilmála gildandi deiliskipulags svo „húsið falli sem best að lóðinni / landinu og umhverfinu, að öll lóðin verði ekki sléttuð og grafið inn í landið, að ekki verði grafið frá húsinu allan hringinn þar sem það stendur í halla.“ Þrátt fyrir að skipulagsfulltrúi hafi ranglega talið að um gildandi skilmála væri að ræða verður að virtu svari hans að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri breytingu að takmarka gröft frá langhliðum húsanna, sem og að baki því að leitast við að samræma skipulag svæðisins við gildandi lóðaleigusamninga.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 4. febrúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóða nr. 30 og 32.

80/2021 Stórikriki

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 12. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 80/2021 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 15. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis vegna lóðarinnar nr. 59 við Stórakrika.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Stórakrika 57, Mosfellsbæ,  þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfells­bæjar frá 15. maí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis vegna lóðarinnar nr. 59 við Stórakrika. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 8. júlí 2021.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 10. maí 2019 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Krikahverfis vegna lóðarinnar Stórakrika 59 með vísan til 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í breytingunni fólst að lóðinni yrðu breytt úr lóð fyrir einbýlishús í lóð fyrir parhús. Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 15. s.m. og var tillagan í kjölfarið auglýst til kynningar 24. júní s.á. á vefsíðu sveitarfélagsins og í Fréttablaðinu. Var athugasemdafrestur til 6. ágúst s.á. Skipulagsfulltrúi tók tillöguna fyrir á afgreiðslufundi sínum 14. s.m. og bókaði að tillagan skoðist samþykkt með vísan til þess að engar athugasemdir hafi borist, sbr. 41. gr. skipulagslaga. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. nóvember 2019.

Kærendur telja að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi við meðferð hinnar kærðu deiliskipulags-breytingar ekki gætt lögbundinna ákvæða skipulagslaga og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um samráð og kynningu á skipulagsáætluninni fyrir almenning og lóðarhafa nærliggjandi lóðar. Sveitarstjórn beri að sjá til þess að þeir sem geti haft hagsmuni af breytingu á skipulagi fái tilkynningu um það á fullnægjandi hátt, t.d. með dreifibréfi. Grenndarkynna hafi átt deiliskipulagstillögunni þar sem bæjarstjórn hafi litið á breytinguna sem óverulega skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Þá hafi ekki verið gætt að ákvæði 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga og gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð og því hafi ekki verið fullnægjandi að auglýsa breytinguna í Fréttablaðinu á lítt áberandi hátt. Það sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en strax og kærendum hafi orðið kunnugt um deiliskipulags-breytinguna í október 2020 hafi þeir leitast við að fá sveitarfélagið til að fella  ákvörðunina úr gildi. Það að bæjarstjórn hafi ekki farið að lögum við meðferð málsins leiði til þess að veigamiklar ástæður séu fyrir hendi til að kæran verði tekin til meðferðar. Það hafi fyrst verið í tölvupósti skipulagsfulltrúa 10. mars 2021 sem kærendum hafi verið leiðbeint um að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á frávísun málsins þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Um sé að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu og hafi því kærufrestur í öllu falli liðið 13. desember 2019. Ljóst megi vera að löggjafinn hafi litið svo á að með opinberri birtingu eigi ákvörðun að vera almenningi kunn. Það myndi því skjóta skökku við ef fallist yrði á að afsakanlegt væri að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr. Jafnvel þótt fallist yrði á það liggi fyrir að kærendum hafi í öllu falli verið kunnugt um ákvörðunina síðla árs 2020. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli kæru ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því ákvörðun var tilkynnt aðila. Í þessu tilviki var hin kærða ákvörðun birt opinberlega 13. nóvember 2019 og því meira en ár frá því hin lögmælta opinbera birting fór fram. Þá sé því hafnað að með tölvupósti skipulagsfulltrúa 10. mars 2021 hafi kærendum verið leiðbeint um að hægt væri að kæra deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar þar sem um hafi verið að ræða leiðbeiningar um kæruheimild vegna útgáfu byggingarleyfis.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda verð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. nóvember 2019. Tók kærufestur því að líða 14. nóvember, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst 7. júní 2021, eða um 18 mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt skýrum fyrirmælum 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

112/2021 Traðarreitur eystri

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 112/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

 

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 5. júlí 2021 kærir íbúi að Digranesvegi 38, Kópavogi, ásamt fleiri íbúum í nágrenninu, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2021. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi. Krafa um að réttaráhrifum deiliskipulagsins verði frestað á meðan á málsmeðferð  fyrir nefndinni standi barst 7. júlí s.á og krafa um stöðvun framkvæmda barst 20. s.m. Verður nú tekin afstaða til síðarnefndra krafa kærenda

Málsatvik: Hinn 9. júní 2021 tók gildi breyting á deiliskipulagi fyrir Traðarreit eystri sem nánar tiltekið afmarkast af Álftröð í austur, Digranesvegi í suður, lóðarmörkum Kópavogsskóla í vestur og Hávegi í norður. Í auglýsingu í B-deildar Stjórnartíðinda kemur fram að „[s]tærð skipulagssvæðisins er um 9.000 m2 og á því standa nú 8 íbúðarhús með samtals 12 íbúðum sem byggð voru á árunum 1952 til 1955. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að byggðar verði allt að 180 íbúðir í tveggja til fjögurra hæða fjölbýlishúsum með kjallara og inndreginni þakhæð. Gert er ráð fyrir allt að 200 m2 atvinnuhúsnæði á jarðhæð með aðkomu frá Álftröð.“

Kærendur telja sveitarfélagið ekki hafa farið eftir gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem m.a. sé fjallað um samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila í gegnum skipulagsferlið. Kópavogsbær hafi hunsað athugasemdir íbúa sem tengist t.d. fjölda íbúða, hæð húsa og öryggi skólabarna. Þá fari samþykkt bæjarins á deiliskipulagi Traðarreits eystri gegn þeim markmiðum sem sett hafi verið fram í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 um að halda í yfirbragð gamalla og rótgróinna hverfa með tilliti til aðliggjandi byggðar, götumyndar, hönnunar húsa og hlutfalla.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til 1. mgr. 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála þar sem fram komi að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en kæranda sé þó heimilt að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Kærð sé deiliskipulagsákvörðun sem feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til þess sérstakt leyfi í formi framkvæmda- eða byggingar­leyfis. Engin slík leyfi hafi verið veitt og framkvæmdir því hvorki hafnar né yfirvofandi að svo stöddu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar og stöðvun framkvæmda á grundvelli hennar er hafnað.

110/2021 Patreksfjörður og Tálknafjörður

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 2. júní 2021 um að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. þannig að heimilað sé að nota eldisnætur sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 2. júní s.á. að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. þannig að heimilað sé að nota eldisnætur sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 9. júlí 2021.

Málavextir: Arnarlax ehf. hefur leyfi til reksturs sjókvíaeldis á 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Í starfsleyfi félagsins sem gefið var út 28. ágúst 2019 var kveðið á um að ekki væri heimilt að losa þau efni sem talin séu upp í listum I og II í viðauka reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, en á lista II er kopar m.a. talinn upp. Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar 14. nóvember 2018 gerði stofnunin athugasemd við að notaðar væru eldisnætur sem innihéldu koparoxíð. Hinn 3. maí 2019 samþykkti stofnunin úrbótaáætlun félagsins með skilyrðum vegna umrædds fráviks. Hinn 30. október 2020 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á starfsleyfi félagsins til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að félagið hygðist sækja um breytingu á starfsleyfi svo heimilt yrði að nota eldisnætur með ásætuvörn sem innihéldi koparoxíð. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 14. janúar 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 16/2021.

Umhverfisstofnun gaf út breytt starfsleyfi 2. júní 2021 þar sem heimilað er að nota eldisnætur sem litaðar eru með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að stjórnvöld hafi ekki lagt fullnægjandi grundvöll að því að heimila notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í starfsemi leyfishafa. Með því að veita slíka heimild hafi verið farið í bága við fyrirmæli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiði að málsmeðferð stjórnvalda hafi ekki verið í samræmi við þær meginreglur sem lögfestar hafi verið í II. kafla laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Á meðan ekki hafi verið skorið úr um þau álitaefni sem uppi séu í kærumáli þessu, auk kærumáls nr. 16/2021, sé við þessar aðstæður eðlilegt og nauðsynlegt með tilliti til varúðarreglu laga nr. 60/2013, að stöðvaðar verði tímabundið þær framkvæmdir sem heimilaðar séu með hinu kærða leyfi.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 16/2021 hafi ekki frestað málsmeðferð stofnunarinnar vegna leyfisveitingar. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin í kjölfar sjálfstæðs mats sérfræðinga stofnunarinnar á mögulegum umhverfisáhrifum. Ekki sé um nýjung að ræða heldur sé komin reynsla á umrædda starfsemi. Mælingar vegna sambærilegrar starfsemi allt frá árinu 2014 í Arnarfirði sýni fram á að ekki sé líklegt að um verulega mengun verði að ræða. Áréttað sé að stofnunin hafi heimild til þess að endurskoða leyfið ef mælingar á kopar sýni að efnið fari yfir viðmiðunarmörk, sem og að óska eftir endurskoðaðri vöktunaráætlun sé þess talin þörf.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé tekið fram að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt sé kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Samkvæmt 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fresti kæra til æðra stjórnvalds ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði beri með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda. Umhverfisstofnun telji að slíkar ástæður eða rök hafi ekki komið fram. Starfsemi samkvæmt breyttu leyfi sé þegar hafin og gæti frestun réttaráhrifa haft í för með sér umtalsvert tjón fyrir rekstraraðila. Rekstraraðili sé búinn að setja fisk í 12 af 14 kvíum á eldisstaðsetningunni Eyri Patreksfirði, þar sem nótapokarnir séu allir litaðir með koparoxíði. Einnig verði hætta á slysasleppingum ef skipta þurfi nótapokum út fyrir ólitaða poka.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi nefna þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar.

Kærendur tefla fram þeim rökum sem áður greinir að grundvelli og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sé áfátt og að með hliðsjón af varúðarreglu sé nauðsynlegt að framkvæmdir verðir stöðvaðar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er leyfishafi þegar farinn að nýta hið breytta starfsleyfi og nota nótapoka með hinum umdeildu ásætuvörnum. Lög­bundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er þrír til sex mánuðir frá því að gögn máls berast frá viðkomandi stjórnvaldi, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Er úrskurðar í kærumáli þessu, svo og í kærumáli nr. 16/2021, að vænta innan þess tíma. Þegar litið er til gagna málsins verður ekki talið að á meðan á meðferð málanna stendur komi fram slík umhverfisáhrif vegna notkunar ásætu­varnanna að kæruheimild verði þýðingarlaus, en Umhverfisstofnun hefur bent á að hún hafi ákveðnar heimildir fari styrkur kopars yfir viðmiðunarmörk. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva notkun nótapoka með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð á meðan meðferð máls þessa stendur yfir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli ákvörðunar Umhverfis­stofnunar frá 2. júní 2021 um að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. þannig að heimilað sé að nota eldisnætur sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.

109/2021 Innbær á Höfn

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 109/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. maí 2021 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir þéttingu byggðar í Innbæ Hornafjarðar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Hrísbrautar 1, 780 Höfn, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. maí s.á. að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir þéttingu byggðar í Innbæ Hornafjarðar sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2021. Greinargerð barst nefndinni 9. júlí s.á. og kemur þar fram að einnig standi að kærunni þau A, bB, C og D sem séu öll eigendur að húsum sem standi við eða í nálægð við fyrirhugaðar byggingarlóðir. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi. Einnig er þess krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsins verði frestað.

Málsatvik: Hinn 3. júní 2021 tók gildi breyting á deiliskipulagi Innbæjar Hornafjarðar vegna þéttingar byggðar. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda felur breytingin í sér að „[í] deiliskipulaginu er mörkuð stefna um þéttingu byggðar í Innbæ á Höfn þar sem bætt er við 8 nýjum íbúðarlóðum og gert ráð fyrir byggingu einbýlis- og raðhúsa auk gatnagerðar, bílastæða, gangstétta og göngustíga. Deiliskipulagið tekur einnig til 16 þegar byggðra lóða og gerð er grein fyrir heimiluðu byggingarmagni.“

Kærendur telja sveitarfélagið ekki hafa uppfyllt ófrávíkjanlegt skilyrði 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 varðandi vinnu við gerð deiliskipulagstillögunnar. Samkvæmt gr. 5.2.2. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 beri sveitarstjórnum að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu og hafa kynningar og samráð við skipulagsgerðina. Eingöngu hafi verið auglýst lýsing á breytingu á aðalskipulagi varðandi breytingu á opnu svæði í íbúasvæði, en engin slík lýsing verið gerð vegna deiliskipulagsins. Þá hafi texti í skipulags- og matslýsingu með breytingu á aðalskipulagi verið mjög opinn og t.a.m. hafi ekkert komið þar fram um áætlaðan fjölda nýrra lóða. Þetta sé ámælisvert í ljósi þess að alkunna sé að jarðvegsaðstæður á svæðinu séu óstöðugar og að allar líkur séu á að byggingar- og jarðvegsframkvæmdir muni valda tjóni á nærliggjandi fasteignum þar sem byggingarlandið sé mýrlendi. Þá hafi Efla verkfræðistofa mælst til þess í minnisblaði frá 18. mars 2020 að gerðar væru jarðkannanir á fyrirhuguðum byggingarstöðum til að taka af vafa um jarðvegsaðstæður.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. sömu laga. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.

88 og 117/2021 Geldingadalur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2021, kæra vegna leiðigarðs eða leiðigarða við Geldingadali sem byrjað var að reisa 14. júní 2021.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið og stjórnarformaður samtakanna persónulega, gerð leiðigarðs eða leiðigarða við Geldingadali, sem byrjað var að reisa 14. júní 2021. Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu athafnir verði þegar í stað stöðvaðar, að ógiltar verði þær ákvarðanir sem kunni að liggja þeim að baki og ákvörðun verði tekin um endurheimt fyrra ástands eftir því sem aðstæður séu til. Þá er krafist viðeigandi úrræða vegna athafna og athafnaleysis almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Grindavíkurbæjar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu kærendur gerð varnargarða við Geldingadali, sem reistir voru 25. júní 2021. Gera kærendur þá kröfu að ógiltar verði þær ákvarðanir sem kunni að liggja að baki athöfnunum og að ákvörðun verði tekin um endurheimt fyrra ástands eftir því sem aðstæður séu til. Þá er krafist viðeigandi úrræða vegna athafna og athafnaleysis almanna­varna­deildar ríkislögreglustjóra og Grindavíkurbæjar. Verður það kærumál, sem er nr. 117/2021, sameinað máli þessu þar sem um sambærileg kæruefni og sömu aðila er að ræða í báðum málum, en hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 5. júlí 2021.

Málavextir: Eldgos hófst í Geldingadölum á Reykjanesi 19. mars 2021 og þann sama dag var lýst yfir neyðarstigi almannavarna. Hinn 20. s.m. var ákveðið að lækka almannavarnastig úr neyðarstigi í hættustig. Hraun tók að renna úr Geldingadölum í Nátthaga 12. júní s.á. Í kjölfarið ákvað almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að gera leiðigarð til að beina hraunrennsli frá Geldingadölum í Nátthaga til að verja Nátthagakrika fyrir hraunflæði og þar með að vernda innviði vestan við Nátthagakrika. Vinna við garðinn hófst 14. s.m. Gerður var neyðarruðningur til verndar vinnu- og efnistökusvæðum. Í lok þess dags hafði neyðarruðningi verið komið fyrir sem var um 1 m hærri en endir hraunrennslisins. Vinna hófst að nýju 15. s.m. og var unnið var við garðinn til 24. s.m. Degi síðar hófst gerð varnargarða ofan við Nátthaga til þess að tefja fram­gang hraunflæðis og verja Suðurstrandaveg ásamt öðrum mikilvægum innviðum.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er hvað kæruheimild varðar vísað til fullgildingar Íslands á Árósasamningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sbr. þingsályktun nr. 46/139 frá 16. september 2011, og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Vísað sé til skuldbindingar í 3. mgr. 9. gr. samningsins þar sem segi: „Til viðbótar og með fyrirvara um þær endurskoðunarleiðir sem vísað sé til í 1. og 2. mgr. hér að framan skal sérhver samningsaðili tryggja að uppfylli almenningur þau viðmiðunarskilyrði, ef einhver eru, sem mælst er fyrir um í landslögum skuli hann hafa aðgang að stjórnsýslu- og dómstólameðferð til að geta krafist þess að aðgerðir og aðgerðaleysi af hálfu einstaklinga og stjórnvalda, sem ganga gegn ákvæðum eigin landslaga um umhverfið, verði tekin fyrir.“ Þá sé vísað til almennra reglna íslensks stjórnsýsluréttar um kæruheimild til æðra stjórnvalds.

Kærendur telji dómstólameðferð ekki tiltækt úrræði í þessu máli. Ísland hafi valið að fara svokallaða stjórnsýsluleið við fullgildingu Árósasamningsins. Stjórnsýsluákvörðun samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 virðist ekki hafa verið tekin í málinu og njóti því ekki við kæruréttar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. laganna. Ákvarðanir skv. lögum nr. 106/2000 hafi heldur ekki verið teknar sem séð verði að séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Það sama eigi við um athafnir og athafnaleysi.

Um framkvæmdir sé að ræða sem leyfi þurfi til skv. 13. gr. skipulagslaga, en þær hafi ekki verið stöðvaðar af skipulagsfulltrúa Grindavíkurbæjar, svo sem skylt sé að gera skv. 53. gr. laganna þegar framkvæmdir séu hafnar án gilds framkvæmdaleyfis. Engar heimildir sé að finna í lögum nr. 82/2008 um almannavarnir til þeirra athafna eða athafnaleysis sem mál þetta fjalli um. Ekki liggi fyrir að Skipulagsstofnun, eða eftir atvikum Grindavíkurbær, hafi tekið ákvörðun skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, skv. 1., sbr. 2. viðauka laganna um að framkvæmd skuli eða skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þá liggi ekki fyrir að umhverfis- og auðlinda­ráðuneytið hafi tekið ákvörðun þá sem vísað sé til í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um þær athafnir er mál þetta fjalli um, eða hluta þeirra. Í ljósi málsmeðferðar dómsmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, sem rakin hafi verið í máli úrskurðarnefndarinnar nr. 76/2021, sé kæra þessi send nefndinni.

Málsrök Grindavíkurbæjar: Af hálfu Grindavíkurbæjar er byggt á því að hvorugur kærandi njóti aðildarhæfis í málinu. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé meginreglan sú að aðeins þeir sem eigi lögvarða hagsmuni njóti kæruaðildar að málum fyrir nefndinni. Í sömu málsgrein sé að finna sérstaka undanþágu frá þeirri meginreglu. Þannig þurfi umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem hafi a.m.k. 30 félaga, ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni í þeim tilvikum að um nánar tilgreindar ákvarðanir eða ætluð brot gegn þátttökurétti sé að ræða, svo sem nánar sé afmarkað í stafliðum a.-d. í 3. mgr. 4. gr. laganna. Auk þess sé gerð krafa um að það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að. Jafnframt sé það gert að sérstöku skilyrði fyrir aðildarhæfi samkvæmt tilvitnuðu ákvæði að slík hagsmunasamtök gefi út ársskýrslur um starfsemi sína og hafi endurskoðað bókhald. Séu framangreind skilyrði ekki uppfyllt njóti viðkomandi hagsmunasamtök ekki aðildarhæfis fyrir úrskurðarnefndinni á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis.

Kæra í máli þessu virðist byggð á því að sú framkvæmd, sem felist í gerð leiðigarða, sem beini hraunrennsli frá Geldingadölum í Nátthaga og þaðan til sjávar, eigi sér ekki stoð í lögum. Sækja hefði átt um framkvæmdaleyfi og þá hefði Grindavíkurbær átt að stöðva framkvæmdina fyrst ekki hafi verið sótt um leyfi. Í kærunni sé hvergi vikið að því hvaða hagsmunum kæran lúti eða hvaða hagsmuni kærendur hyggist verja með kæru sinni. Kæran virðist aðallega byggð á því að ekki hafi verið farið réttilega eftir skipulagslögum í aðdraganda gerðar leiðigarðanna. Þó ætla megi af nafni félagasamtakanna að náttúruverndarsjónarmið í einhverri mynd hafi verið höfð að leiðarljósi verði ekki hjá því litið að í engu sé fjallað um áhrif á umhverfið eða aðra hagsmuni er kæran lúti að. Því liggi ekki fyrir í málinu að uppfyllt sé það skilyrði aðildarhæfis að það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að.

Samtökin Náttúrugrið sé nýstofnað félag en stofnfundur þess hafi verið haldinn 14. maí 2021. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum þess sé að standa vörð um líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands. Byggt sé á því að skilyrði 4. mgr. 4. gr. laganna um fjölda félagsmanna, endurskoðað bókhald og ársskýrslur séu ekki uppfyllt. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að áskilnaði laganna um fjölda félagsmanna sé uppfyllt. Þess í stað hafi stjórnarformaður félagsins fullyrt í fyrra máli að stofnfélagar væru 34 án þess að sú fullyrðing sé studd gögnum. Hvorki sé hægt að sjá af opinberum skrám né samþykktum samtakanna raunverulegan fjölda félagsmanna eða stofnfélaga við stofnun félagsins. Í áskilnaði laganna um endurskoðað bókhald felist að bókhald skuli vera yfirfarið af löggiltum endur­skoðanda. Engin gögn um bókhald félagsins eða ársskýrslur hafi verið lögð fram til þess að sýnt sé fram á að áskilnaður laganna sé uppfylltur. Þá sé engin tilraun gerð til þess í kæru að færa andlag kærunnar undir einhvern staflið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, sem undan­þágu­aðild hagsmuna­samtaka hvíli á. Sérstaklega megi taka fram, með vísan til niðurstöðu úrskurðar­nefndarinnar í kærumáli nr. 76/2021, að ekki verði séð að hinar kærðu framkvæmdir séu matsskyldar, sbr. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því geti d-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 ekki átt við.

Með vísan til framangreinds líti Grindavíkurbær svo á að undanþáguskilyrði 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 fyrir aðild án lögvarinna hagsmuna séu ekki uppfyllt og kærandinn Náttúrugrið njóti  þ.a.l. ekki kæruaðildar til nefndarinnar. Beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Krafa um frávísun sé jafnframt byggð á því að kæran uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Í kæru sé um rökstuðning vísað til kæru í máli nr. 76/2021 og byggt sé á því að um brot á skipulagslögum sé að ræða. Engin rök sé að finna fyrir því í kæru að umrædd framkvæmd, þ.e. gerð leiðigarða til þess að hefta framgang glóandi hrauns nærri byggð og innviðum, fari gegn þeim hagsmunum sem umrædd samtök hafi sett sér markmið um að vernda, þ.e. líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands. Þá sé hvergi í kærunni getið um málsástæður kæranda til stuðnings stöðvunarkröfunni. Þetta sé ófullnægjandi að mati Grindavíkurbæjar, m.t.t. lagaákvæðisins.

Hinn kærandinn sé formaður stjórnar Náttúrugriða. Ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geri skýra kröfu um að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta eigi aðild að kæru til nefndarinnar. Engin tilraun hafi verið gerð til þess að skýra hagsmuni stjórnarformannsins af stöðvun framkvæmda við gerð leiðigarðs í Geldingadölum sem ætlað sé að varna hraunflæði og verja mikilvæga innviði á Reykjanesi, m.a. Grindavíkurbæ. Beri í það minnsta að vísa málinu frá hvað hann varði.

Jafnframt sé á því byggt að málið heyri ekki undir nefndina, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði í kærumáli nr. 76/2021. Ekki sé til staðar nein kæranleg ákvörðun samkvæmt skipulagslögum og kæruheimild verði ekki byggð á þeim lögum, hvorki vegna athafna Grindavíkurbæjar né athafnaleysis. Þá sé ekki að finna kæruheimild vegna málsins í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd eða lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig rökstuðning nefndarinnar í fyrrnefndum úrskurði. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Málsrök ríkislögreglustjóra: Af hálfu ríkislögreglustjóra er bent á að í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 82/2008 um almannavarnir segi að lögin taki til samhæfðra almannavarnaviðbragða til þess að takast á við afleiðingar neyðarástands sem kunni að ógna lífi eða heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að almannavarnalögum segi að þeim sé ætlað að taka til samhæfðra viðbragða samfélagsins til þess að takast á við afleiðingar almannahættu, sem ógni lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum án tillits til þess af hvaða rótum almannahættan sé runnin. Í 2. mgr. 1. gr. sömu laga segi að markmið laganna sé að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miði að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt sé, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið.

Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að almannavarnalögum komi fram að líkt og í þágildandi lögum sé markmiðið að undirbúa, skipuleggja og grípa til ráðstafana sem miði að því að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt sé, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eignatjóni af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, hernaðaraðgerða eða af annarri hættu og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kunni að verða eða hafi orðið. Í 3. mgr. 6. gr. áðurgildandi laga nr. 94/1962 um almannavarnir, sbr. 3. gr. laga nr. 44/2003, hafi sagt að ríkislögreglustjóri skuli jafnframt stuðla að, fylgjast með og samræma ráðstafanir sem miði að því að draga úr líkum á líkams- og eignatjóni af völdum náttúruhamfara eða af annarri vá, svo sem með gerð varnarvirkja eða með öðrum verndarráðstöfunum. Núgildandi almannavarnarlög nr. 82/2008 hafi tekið við af lögum nr. 94/1962, en í eldri lögum hafi verið að finna ákvæði þess efnis að almannavörnum væri heimilt að leggja varnargarða.

Skýrlega komi fram í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að núgildandi almannavarnalögum, að markmið og gildissvið laganna sé rýmkað frá þágildandi lögum með áherslu á annars vegar fyrirbyggjandi ráðstafanir og hins vegar með gerð viðbragðsáætlana. Það sé því ljóst að það hafi verið markmið og tilgangur löggjafans að rýmka heimildir almannavarna, frá því sem verið hafi kveðið á um í eldri lögum, m.a. með áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir sem geti falist í því að grípa til framkvæmda eða stuðla að því með öðrum hætti að tjón á eignum, munum og lífi sé bjargað eftir fremsta megni, eða því sé ekki stefnt í voða. Það einskorðist ekki við að byggja varnargarða eða leiðigarða vegna eldgosa, heldur geti slíkar aðgerðir verið margskonar og margháttaðar. Ekki hafi staðið vilji til þess að tilgreina nákvæmlega í lögum til hvaða aðgerða almannavörnum sé heimilt að grípa með upptalningu, þar sem slíkt væri til þess fallið að binda hendur almannavarna. Þá hafi ekki verið hægt að sjá fyrir allar aðgerðir sem grípa þurfi til eða vinna að vegna náttúruhamfara eða almannahættu og því ekki fýsilegt að hafa nákvæma upptalningu.

Þessi túlkun sé í samræmi við núgildandi 7. gr. almannavarnalaga þar sem fjallað sé um verkefni ríkislögreglustjóra á sviði almannavarna. Þar segi í 1. mgr. ákvæðisins að ríkislögreglustjóri hafi umsjón með að ráðstafanir séu gerðar í samræmi við stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að almannavarnalögum segi um ákvæðið, að verkefni ríkislögreglustjóra séu hvorki tíunduð til hlítar né nefndar samstarfsstofnanir embættisins. Það sé hættumat, almannavarnastig og viðbragðsáætlanir sem ákvarði með hvaða ráðuneytum og stofnunum embættið starfi hverju sinni. Þá komi og fram að hættumat sé grundvöllur viðbragðsáætlana sem miði að því að koma í veg fyrir og takmarka eftir því sem unnt sé að almenningur verði fyrir líkams- eða eignatjóni.

Sé þetta í samræmi við það sem áður hafi verið rakið um breytingar á almannavarnalögum og þær heimildir sem felist í ákvæðum laga um almannavarnir. Þar með talið að gera varnargarða líkt og kveðið hafi verið á um í eldri lögum. Þær heimildir hafi ekki átt að takmarka með setningu almannavarnalaga nr. 82/2008.

Það hafi verið skilningur samstarfshóps um vernd mikilvægra innviða að hinar kærðu framkvæmdir hafi verið almannavarnaaðgerðir sem séu undir stjórn almannavarnadeildar ríkis­lögreglustjóra, byggðar á heimildum almannavarnalaga. Aðgerðir almannavarna miði alltaf að því að vinna í samræmi við þau markmið sem sett séu fram í 1. gr. almannavarnalaga. Þær aðgerðir sem standi fyrir dyrum í Geldingadölum og Nátthagakrika miði að því að vernda afar mikilvæga innviði í almannaþágu. Um sé að ræða orkuvirkjanir, vegi, samskiptamannvirki og tvö þéttbýl sveitarfélög sem orðið gætu hrauni að bráð ef ekkert sé að gert, þ.e. Grindavíkurbær og sveitarfélagið Vogar á Vatnsleysuströnd. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafi í þessum framkvæmdum verið í samstarfi við yfirvöld sem leita beri til vegna slíkra framkvæmda og verði ekki annað ráðið en að þeir hafi verið samþykkir umræddum ráðstöfunum til að reyna að koma í veg fyrir eða tefja að flæðandi hraun tortími mikilvægum innviðum og heimilum fólks á þeim grundvelli að um almannavarnaástand sé að ræða.

Bent sé á að í 25. gr. almannavarnalaga sé heimild til leigunáms fasteigna í þágu almannavarna. Slíkri heimild hafi ekki þurft að beita þar sem eigandi landsins sé í samstarfi við yfirvöld. Í 2. mgr. 25. gr. segi að heimild skv. 1. mgr. feli enn fremur í sér að gera megi hverjar þær breytingar á viðkomandi fasteignum eða lausafjármunum sem þörf sé á til að þær komi að tilætluðum notum í þágu almannavarna. Fasteign skv. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sé afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgi og þeim mannvirkjum sem varanlega séu við landið skeytt. Í ljósi þess sem að framan sé rakið sé heimild í lögum um almannavarnir til að gera breytingu á fasteignum til að þær komi að tilætluðum notum í þágu almannavarna.

Embætti ríkislögreglustjóra og yfirvöld hafi í ákvarðanatöku sinni haft hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttar, s.s. um meðalhóf og rannsóknarreglu. Í því felist að grípa ekki til úrræða sem hafi verulega íþyngjandi áhrif, ef önnur og viðurhlutaminni úrræði séu í boði. Með þeim aðgerðum sem nú standi yfir, sé verið að reyna að verja afar mikilvæga innviði og heimili fólks. Sé það gert með því að fara í eins lítið rask á náttúru og frekast sé unnt. Sé það með því að grípa snemma inn í ferlið. Þá sé við alla ákvarðanatöku byggt á nýjustu gögnum og upplýsingum vísindamanna um hraunflæði byggt á hermun, um hve lengi eldgosið gæti staðið yfir sem og magni hrauns. Þá hafi einnig verið lagt mat á þá hagsmuni sem séu undir.

Í kæru sé vísað til meginreglna laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en af því tilefni sé tekið fram að unnið hafi verið í samræmi við þær meginreglur sem þar komi fram í II. kafla laganna. Þar megi nefna almenna aðgæsluskyldu 6. gr. um að sýna ítrustu varúð þannig að náttúru verði ekki spillt við framkvæmdir og önnur umsvif sem megi með sanngirni ætlast til að gera skuli. Þá hafi verið lagður vísindalegur grundvöllur að allri ákvarðanatöku, líkt og fram komi í 8. gr. laganna og rakið hafi verið að framan. Þá hafi verið leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum sbr. 9. gr. laganna.

Bent sé á að í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo og breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þó þurfi ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar séu byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. Í 6. gr. laga nr.  106/2000 séu skilgreindar þær framkvæmdir sem kunni að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, þ.e. framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B og flokki C í 1. viðauka laganna. Í 7. gr. sömu laga sé fjallað um aðrar framkvæmdir sem hugsanlega séu matsskyldar.

Það sé mat almannavarna að ekki sé um leyfisskylda framkvæmd að ræða í skilningi skipulags­laga eða laga nr. 106/2000, enda séu varnargarðar vegna yfirstandandi eldgoss þegar unnið sé á almannavarnastigi, ekki nefndir í viðauka 1 með lögum um mat á umhverfisáhrifum. Heimild til umræddra framkvæmda sé þvert á móti að finna í almannavarnalögum. Verði samt sem áður talið að gerð varnargarða vegna yfirstandandi eldgoss falli undir gildissvið skipulagslaga og laga um mat á umhverfisáhrifum þá gildi ólögfest meginregla um neyðarrétt til að bregðast við til varnar mikilvægum innviðum á hættustundu. Þar skipti skjótar ákvarðanatökur verulega miklu máli og það verði að vera svigrúm til að bregðast við á neyðarstundu.

Þá skuli og bent á að í 2. mgr. 28. gr. almannavarnalaga segi að rannsóknarnefnd almannavarna skuli að loknu hættuástandi rannsaka þær viðbragðsáætlanir sem stuðst hafi verið við og viðbrögð viðbragðsaðila. Í IX. kafla almannavarnalaga sé svo að finna frekari ákvæði um hlutverk og rannsóknarheimildir nefndarinnar. Að mati embættis ríkislögreglustjóra sé um að ræða framkvæmdir sem byggi á ákvæðum almannavarnalaga og þá komi til kasta rannsóknarnefndar almannavarna að rannsaka þær framkvæmdir sem ráðist hafi verið í.

Ljóst sé af því sem að framan hafi verið rakið að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sé beinlínis skylt að ráðast í þær fyrirbyggjandi aðgerðir að gera varnar- og leiðigarða til að vernda þá hagsmuni sem taldir séu upp í almannavarnalögum. Skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum nái ekki til þeirra aðgerða sem standi yfir.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Um kæruheimild vísa kærendur í kæru sinni til samnings efnahagsnefndar Evrópu um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, Árósasamningsins, sem fullgiltur var í kjölfar þingsályktunar nr. 46/139 frá 16. september 2011, svo og til laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og laga nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósa­samningsins. Gera kærendur þó ekki athugasemd við að kæru­efnið teljist eiga undir lög nr. 130/2011 þar sem brotið hafi verið gegn lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Ísland hefur tekið á sig ákveðnar skuldbindingar með aðild sinni að Árósasamningnum. Samhliða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu nefnds samnings, og til að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum, hlutu meðferð Alþingis frumvörp sem síðar urðu að fyrrnefndum lögum nr. 130/2011 og lögum nr. 131/2011. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Löggjafinn hefur því tekið afstöðu til þess hvernig uppfylla skuli tilteknar samningsskyldur Íslands skv. Árósasamningnum, þ. á m. hvaða ágreiningur verði borinn undir úrskurðarnefndina. Samkvæmt fyrrnefndri 1. gr. laga nr. 130/2011 þarf að vera til staðar sérstök lögbundin kæruheimild hverju sinni og verður ekki byggt á Árósasamningum eingöngu til að unnt sé að bera mál undir nefndina.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga. nr. 130/2011 geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir eða ætlað brot á þátttökurétti almennings til úrskurðar­nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um tilteknar ákvarðanir og ætlað brot á þátttökurétti er að ræða. Í d-lið nefnds ákvæðis er athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nefnt sérstaklega.

Fjallað er um matsskyldu í III. kafla laga nr. 106/2000. Ekki verður séð að hinar kærðu framkvæmdir eigi undir lögin skv. 5. gr. laganna, sbr. og 1. viðauka við þau, auk þess sem ekki liggur fyrir ákvörðun skv. 6. gr. þeirra um að þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Er rétt í þessu sambandi að benda á að skv. 8. mgr. nefndrar 6. gr. er öllum, þ. á m. kærendum, heimilt að bera fram fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort tiltekin framkvæmd falli í flokk B eða C í 1. viðauka við lögin og skal stofnunin þá leita upplýsinga um framkvæmdina hjá framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og taka ákvörðun um hvort hún eigi undir lagagreinina.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 52. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæruheimild samkvæmt lögunum er því bundin við að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin en í máli þessu liggur fyrir að engin stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdaleyfi. Er því ekki til staðar kæranleg ákvörðun samkvæmt skipulagslögum. Þó skal tekið fram að skv. 1. mgr. 53. gr. laganna skal skipulagsfulltrúi stöðva framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd, sem hafin er án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið fengið, tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar. Í 3. mgr. 53. gr. kemur svo fram að ef 1. og 2. mgr. eigi við geti skipulagsfulltrúi krafist þess að hin ólöglega framkvæmd sé fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Framangreindar ákvarðanir, eða synjun skipulagsfulltrúa um að beita slíkum þvingunarúrræðum, eru eftir atvikum kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar skv. 52. gr. skipulagslaga, svo fremi sem uppfyllt eru skilyrði kæruaðildar fyrir nefndinni, s.s. um að viðkomandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun sem kærð er, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá þykir rétt að benda á að heimild 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar, leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi, er bundin við umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórnaryfirvöld.

Ekki er að finna almenna kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála  í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, heldur eingöngu vegna ákvarðana Umhverfisstofnunar skv. 63. gr., sbr. 91. gr., en engin slík ákvörðun hefur verið tekin í máli þessu. Rétt þykir þó að benda á að skv. 2. mgr. 13. gr. laganna fer Umhverfisstofnun m.a. með eftirlit með framkvæmd laganna, en í því eftirlitshlutverki stofnunarinnar felst m.a. eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. laganna. Hefur stofnunin eftir atvikum heimild til beitingar þvingunarúrræða skv. XV. kafla nefndra laga. Kærendur hafa því þann möguleika að vekja athygli stofnunarinnar á hinum kærðu framkvæmdum.

Kærendur hafa einnig vísað til athafnaleysisbrots þar sem „framkvæmdaraðili hafi ekki sent og Grindavíkurbær ekki fjallað um framkvæmdaleyfisumsókn og að skipulagsfulltrúi Grinda­víkur­bæjar hafi ekki aðhafst til að stöðva óleyfisframkvæmd.“ Enga kæruheimild er hins vegar að finna í skipulagslögum vegna slíks athafnaleysis. Hér þykir þó rétt að benda á að skv. 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum, en kærendum hefur áður verið leiðbeint um þessar almennu yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir. Hins vegar þykir ekki rétt að framsenda kæru þessa til ráðuneytisins þar sem kæruheimild skv. 111. gr. sveitarstjórnarlaga lýtur aðeins að stjórnvaldsákvörðunum, en ekki verður séð að slík ákvörðun hafi verið tekin í máli þessu. Í þessu samhengi er þó sérstaklega bent á að ráðuneytið getur að eigin frumkvæði gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélags, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 112. gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu er ekki til staðar nein sú ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem sætt getur lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar. Kærumáli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.