Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2020 Stórhöfði

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 28. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Eystri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra EG. heild ehf., Stórhöfða 17, og Flísabúðin hf., Stórhöfða 21, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Eystri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. nóvember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur 4. mars 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Eystri vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi. Kom fram í bókuninni að velferðarsvið borgarinnar hafi leitað eftir því að koma fyrir smáhýsum á völdum stöðum í borginni sem búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga þeirra. Í breytingunni fólst að koma fyrir allt að þremur smáhýsum á nýrri lóð. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 12. mars 2020 og var tillagan auglýst til kynningar frá 31. s.m. til og með 12. maí s.á. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 10. júní s.á. var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt athugasemdum sem bárust á kynningartíma tillögunnar auk þess sem umsögn skipulagsfulltrúa frá 5. s.m. var lögð fram. Var tillagan samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 25. maí 2020. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. september 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar annars vegar á því að skipulagsbreytingin samrýmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og hins vegar að málsmeðferð tillögunnar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði og markmið skipulagslaga nr. 123/2010. Umdeild lóð sé á miðsvæði, Höfðar – Keldur (M4), nánar tiltekið M4b. Í skilmálum aðalskipulags segi: „Fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði eru leyfð. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum og hótelum, nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi.“ Sambærilegan texta sé að finna í umfjöllun um hverfisskipulag Grafarvogs, en þar sé sérstaklega gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á reit 4c. Sambærileg heimild sé ekki fyrir hendi vegna reits 4b.

Í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé miðsvæði skilgreint sem „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis“, sbr. b-lið greinarinnar. Í gr. 4.3.1. sé fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Meginviðfangsefni þess sé stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skuli í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun, eftir því sem við eigi. Meðal þeirra málefna sé blöndun byggðar og íbúaþróun, sbr. b- og d-liði greinarinnar, og sé þar m.a. átt við blöndun íbúða við aðra landnotkun, t.d. þar sem blanda eigi íbúðum og verslunar-, menningar- og þjónustustarfsemi í þéttbýli. Gæta skuli sérstaklega að búsetuhagsmunum íbúa, svo sem með því að blanda ekki íbúðum við starfsemi sem ætla megi að valdi nágrönnum óþægindum, t.d. vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar. Staðsetning nýrra íbúða eða starfsemi hamli ekki starfsemi sem fyrir sé á svæðinu. Af þessu megi sjá að samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé einungis gert ráð fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu.

Smáhýsin séu ótvírætt ætluð til íbúðar og ekki skipti máli þótt um tímabundið úrræði sé að ræða. Vissulega kunni búseta hvers og eins skjólstæðings að vera tímabundin en búseta í smáhýsunum og úrræðið sem slíkt sé varanlegt, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 79/2019. Hin kærða deiliskipulagsbreyting sé því ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, svo sem áskilið sé í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga.

Samráðsferli við gerð skipulags sé lögmælt. Ákvæði 41. gr. skipulagslaga um auglýsingu skipulags endurspegli markmiðsákvæði d-liðar 1. gr. laganna um að tryggja að samráð sé haft við almenning og hagsmunaaðila við gerð og breytingu deiliskipulags, þannig að almenningi gefist kostur á að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalds. Í þessu tilviki hafi alls 19 athugasemdir borist einkum frá eigendum og rekstraraðilum í nágrenninu og af þeim hafi 18 verið neikvæðar og ein hlutlaus. Af hálfu fyrirtækja á svæðinu hafi m.a. verið bent á að breytingin geti rýrt verðgildi eigna og haft neikvæð áhrif á rekstur. Íbúðarbyggð í umhverfi þeirrar þjónustu sem veitt sé á svæðinu henti svæðinu illa. Reynsla af sambærilegum smáhýsum við Grandagarð gefi ekki fögur fyrirheit um snyrtilega umgengi og þrifnað. Eigendur og rekstraraðilar á reit 4b hafi byggt upp starfsemi sína og fjárfest í fasteignum á svæðinu með hliðsjón af gildandi deiliskipulagsskilmálum frá árinu 2002 um „að á nýjum lóðum sé gert ráð fyrir verslunar-, skrifstofu- og þjónustustarfsemi. Ekki er gert ráð fyrir nýrri íbúðarbyggð.“

Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn, þegar frestur til athugasemda sé liðinn, taka tillöguna til umræðu þar sem afstaða sé tekin til athugasemda sem borist hafi. Í umfjöllun skipulagsfulltrúa hafi einungis að litlu leyti verið tekin afstaða til framkominna athugasemda. Umfjöllunin beri þess skýr merki að ekki sé um að ræða raunverulegt samráðsferli heldur liggi niðurstaðan fyrir. Svör við athugasemdum byrji á að vísa til þess að ekki sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu og síðar tekið fram að ef heimila eigi uppbyggingu íbúðarbyggðar til frambúðar þurfi að skoða það heildstætt. Þessar staðreyndir séu síðan hunsaðar til að komast að niðurstöðu sem virðist fyrirfram ákveðin um að heimila íbúðarbyggð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé reiturinn sem um ræði á skilgreindu miðsvæði, M4, en um svæðið segi m.a. að öllu jöfnu sé ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Skilgreining þessi samræmist þeirri landnotkun sem sé á svæðinu í dag, en þar sé blönduð starfsemi verslana, létts iðnaðar o.fl. Í gildandi deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir nýrri íbúðarbyggð á reitnum, en ljóst sé að heimild sé í aðalskipulagi til að skilgreina sérstakar heimildir fyrir íbúðarhúsnæði í deiliskipulagi og hafi það verið gert með tillögu þessari. Sé því deiliskipulagsbreytingin í fullu samræmi við skilmála aðalskipulags á svæðinu.

Málsmeðferð tillögunnar hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, en tillagan hafi verið kynnt með lögboðnum hætti og athugasemdum svarað. Þó ekki hafi verið fallist á athugasemdir þýði það ekki að kröfum skipulagslaga um samráð hafi ekki verið fylgt.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt deiliskipulagssvæði á miðsvæði merktu M4b. Kemur fram í kaflanum Landnotkun-skilgreiningar (bindandi stefna) að á svæðinu sé fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði séu leyfð. Að öllu jöfnu sé þar ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er afmörkuð lóð við Stórhöfða þar sem heimilað er að byggja allt að þrjú smáhýsi. Af gögnum málsins liggur fyrir að smáhýsin eru ætluð sem búsetuúrræði. Rúmast því umrædd deiliskipulagsbreyting innan heimilda aðalskipulags.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Afstaða var tekin til athugasemda sem borist höfðu í samræmi við 3. mgr. 41. gr. sömu laga og skipulagstillagan ásamt svörum við athugasemdum samþykkt í borgarráði. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni lögmæltri yfirferð Skipulagsstofnunar. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð hennar hafi verið lögum samkvæmt.

Kærendur hafa m.a. vísað til þess að breytingin geti rýrt verðgildi eigna á svæðinu og haft mjög neikvæð áhrif á rekstur. Íbúðarbyggð í umhverfi þeirrar þjónustu sem veitt sé henti svæðinu mjög illa. Í umsögn skipulagsfulltrúa var bent á ástæður að baki breytingunni, m.a. að smáhýsin séu hluti af hugmyndafræðinni „Húsnæði fyrst“ fyrir heimilislausa einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Með því sé verið að mæta óskum íbúa varðandi staðsetningu húsnæðis og stuðla að öruggu húsnæði fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda. Liggja því málefnaleg rök að baki umdeildri breytingu. Þá verður að gera ráð fyrir að borgaryfirvöld grípi til viðeigandi ráðstafana valdi notkun smáhýsanna ónæði eða vandamálum gagnvart nærliggjandi starfsemi. Jafnframt var í umsögn skipulagsfulltrúa vakin athygli á að skv. 51. gr. skipulagslaga eigi fasteignareigandi rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi geti hann sýnt fram á tjón vegna breytinga á skipulagi. Úrlausn um það álitaefni er hins vegar ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Eystri.

8/2021 Dunhagi

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 27. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 8/2021, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. janúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Tómasarhaga 32, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir á grundvelli hennar verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin fresti gildistöku hins umþrætta deiliskipulags á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 15. október 2020 var staðfest samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. s.m. um nýtt deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Auglýsing um deiliskipulagið birtist í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember s.á. Hin kærða skipulagsákvörðun felur í sér heimild til niðurrifs og uppbyggingar á Dunhaga 18-20, auk bílskúrsréttinda á þremur lóðum.

Kærendur taka fram að þeir hafi orðið þess varir að framkvæmdir væru hafnar í húsinu á grundvelli byggingarleyfis sem samþykkt hefði verið 12. janúar 2021. Telji þeir deiliskipulagið ógilt og að þær röksemdir og sjónarmið sem færð séu fram geti ekki leitt til annars en að kröfugerð kærenda verði tekin til greina. Af þeim sökum hafi kærendur brýna hagsmuni af því að framkvæmdir verði þegar stöðvaðar eða gildistöku deiliskipulagsins frestað á meðan mál þetta sé til meðferðar fyrir nefndinni, enda feli deiliskipulagið í sér heimild til gífurlegrar uppbyggingar á lóðinni við Dunhaga 18-20.

Af hálfu borgaryfirvalda kemur fram að engin byggingar- eða framkvæmdaleyfi hafi verið gefin út. Séu einhverjar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir hafnar geti byggingarfulltrúi eftir atvikum stöðvað þær. Gildistaka deiliskipulags, eða deiliskipulagsbreytingar, feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ljóst sé því að hagsmunir kærenda knýji ekki á um slíka frestun.  Reykjavíkurborg fari því fram á að kröfum kærenda sé hafnað.

Af hálfu framkvæmdaraðila er tekið fram að allar þær framkvæmdir sem ráðist hafi verið í að Dunhaga 18-20 falli undir minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar séu byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Lúti þær að öryggi hússins og næsta nágrennis, sem og viðhaldi innanhúss að Dunhaga 18-20. Í ljósi þess sé farið fram á að ósk kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. ákvörðun um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis, eftir atvikum með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Þar af leiðandi er að jafnaði ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Að teknu tilliti til þess sem rakið hefur verið verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda, enda fara þær ekki fram á grundvelli hins kærða skipulags, og verður henni hafnað.

Rétt er þó að benda á að fyrir liggur að byggingaráform hafa verið samþykkt á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Kæra málsins tekur þó ekki til nefndra byggingaráforma en kjósi kærendur að koma að kæru vegna þeirra geta þeir gert kröfu að nýju um stöðvun framkvæmda. Kærufrestur vegna byggingaráforma, líkt og annarra ákvarðana, er einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti verða kunnugt um þau, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Í ljósi framkominna skýringa borgarinnar og leyfishafa skal einnig á það bent að telji kærendur um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir að ræða geta þeir beint kröfu um beitingu þvingunarúrræða til byggingarfulltrúa. Ákvörðun hans þar um er jafnframt kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, eftir atvikum hvort sem er af kærendum eða framkvæmdaraðila.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda er hafnað.

130/2020 Kerhraun

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 130/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. nóvember 2020 um að synja beiðni um breytingu Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarhúss að Kerhrauni C 103/104, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. nóvember 2020 að synja beiðni um breytingu aðalskipulags sveitarfélagsins vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps 22. apríl 2020 var tekin fyrir beiðni kæranda um að skráning á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhraun C 103/104 yrði breytt í íbúðarhús. Var umsókninni synjað með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð í landi Klausturhóla samkvæmt deiliskipulagi. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2020, sem með úrskurði uppkveðnum 14. ágúst s.á. í máli nr. 33/2020 hafnaði ógildingarkröfu kæranda. Hinn 28. október 2020 sótti kærandi um breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104. Var með umsókninni óskað eftir því að skipulagi lóðarinnar yrði breytt úr frístundalóð í landbúnaðarsvæði. Á fundi skipulagsnefndar 11. nóvember s.á. var erindi kæranda tekið fyrir og lagt fyrir sveitarstjórn að hafna beiðninni. Hinn 18. s.m. var umsókn kæranda hafnað á fundi sveitarstjórnar með vísan til þess að lóðin væri staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipulagða frístundabyggð. Væru engar forsendur fyrir því að skilgreina staka lóð sem landbúnaðarland.

Kærandi bendir á að umsóknin varði óverulega breytingu á aðalskipulagi, auk þess sem hún sé í samræmi við fyrri breytingar sveitarfélagsins í sambærilegum málum. Það sé ómálefnalegt að mismuna kæranda með þessum hætti og ekki í samræmi við 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sveitarfélagið bendir á að í 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingar á aðalskipulagi séu háðar samþykki sveitarstjórnar og samþykki Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun feli í sér synjun á umsókn um breytingu aðalskipulags en samkvæmt skýrum ákvæðum skipulagslaga hafi úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að endurskoða slíka ákvörðun. Því beri að vísa málinu frá nefndinni. Til vara er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Að baki ákvörðuninni séu bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér synjun á beiðni um breytingu Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

120/2020 Neðan Sogsvegar

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 120/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 um að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Neðan-Sogsvegar 4, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps 14. október 2020 var tekin fyrir athugasemd lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A varðandi breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots. Gerð var athugasemd við að byggingarreitur innan lóðar nr. 4 nái yfir svæði sem standi töluvert hærra en bústaður á lóð nr. 4A. Bygging þar geti verið veruleg ógnun við friðhelgi þeirra auk þess að vera sjónmengun. Var óskað eftir því að viðkomandi deiliskipulagsbreyting yrði felld úr gildi og nýtt deiliskipulag unnið sem tæki tillit til athugasemda varðandi byggingarreit. Lagði skipulagsnefnd til að óveruleg breyting yrði unnin á deiliskipulagi og byggingarreitur lóðar nr. 4 minnkaður. Á fundi sveitarstjórnar 21. október 2020 var samþykkt að gera óverulega breytingu á deiliskipulaginu. Var skipulagsfulltrúa falið að ljúka málinu á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skyldi niðurstaða sveitarstjórnar og skipulagsbreytinga grenndarkynnt lóðarhafa lóðar nr. 4 og honum gefinn kostur á andmælum.

Kærandi telur að óviðkomandi aðilar séu að ganga freklega á eignarrétt hans að ástæðulausu. Erfiðara verði að skipta upp lóðinni í tvær aðskildar lóðir. Verði settar hömlur á byggingarreitinn rýri það verðgildi eignarinnar umtalsvert. Skipulagsnefnd hafi farið fram úr sínum valdheimildum með því að samþykkja athugasemdir lóðarhafa lóðar nr. 4A án röksemda. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að byggja á umdeildu svæði. Það svæði sem standi hærra en húsið á lóð nr. 4A sé hóll og því óheppilegt sem byggingasvæði. Lóðarhafar þeirrar lóðar hafi ekki rétt á að krefjast skerðingar á byggingarreitnum.

Sveitarfélagið bendir á að deiliskipulagsbreyting vegna breyttrar legu byggingarreits hafi ekki verið kláruð þar sem ákveðið hafi verið að bíða með grenndarkynningu þar til niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála lægi fyrir. Hin kærða ákvörðun hafi því ekki tekið gildi og enn eigi eftir að grenndarkynna fyrirhugaðar breytingar skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Því verði ekki séð að um kæranlega ákvörðun sé að ræða, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar frá 21. október 2020, um að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4, er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur liður í málsmeðferð deiliskipulagsbreytingar. Ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður henni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagsbreytingin og öll málsmeðferð hennar lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

62/2020 Garðarsbraut, Húsavík

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 21. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2020, kæra vegna synjunar byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 á endurskoðun og endurgreiðslu sorphirðugjalda sem lögð voru á vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2020, er barst nefndinni 15. s.m., kærir Bjarkarkot ehf. þá ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 að synja um „endurgreiðslu og niðurfellingu sorphirðugjalda“ sem lögð voru á kæranda vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 23. ágúst 2020 og 30. nóvember s.á.

Málavextir: Hinn 13. maí 2020 sendi kærandi sveitarstjóra Norðurþings bréf þar sem þess var óskað að álagning sorphirðugjalds vegna eignar hans Garðarsbrautar 12, fastanúmer 215-2556, 228-6800 og 228-6801, yrði endurskoðuð og gjaldið endurgreitt fyrir tímabilið 1. mars 2018 til og með 1. maí 2020. Mun kærandi starfrækja gistiþjónustu í húsnæðinu.

Á fundi byggðarráðs Norðurþings 11. júní 2020 var erindi kæranda tekið fyrir og eftirfarandi bókað: „Byggðarráð felur sveitarstjóra að taka saman minnisblað og leggja fyrir ráðið að viku liðinni. Sveitarstjóra er falið að svara erindunum og tjá íbúðareigendum að sveitarfélagið sjái sér ekki fært að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda.“ Með tölvupósti 16. s.m. var kæranda tilkynnt niðurstaða málsins og var vísað til þess að samkvæmt lögum, reglugerðum og samþykktum væru lögð gjöld á alla íbúðareigendur í Norðurþingi, þar með talin sorphirðugjöld, enda væri húsnæðið skráð sem íbúðarhúsnæði. Væri hins vegar tilefni til þess að eign yrði skráð sem atvinnuhúsnæði breyttust álögð gjöld til samræmis við lög, reglugerðir og samþykktir þannig að sorphirðugjöld væru ekki innheimt og þar með á ábyrgð eiganda húsnæðisins að kaupa slíka þjónustu. Var jafnframt tekið fram að óskaði eigandi Garðarsbrautar 12 eftir því að fasteignin yrði skráð sem atvinnuhúsnæði og fengi þar með felld niður sorphirðugjöld á vegum sveitarfélagsins væri sjálfsagt að verða við þeirri beiðni og skyldi hún berast skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings á tiltekið netfang.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi eignast húsnæðið að Garðarsbraut 12 í upphafi árs 2018 og hafi ætlunin verið að gera upp íbúðirnar og leigja út til ferðamanna í skammtímaleigu. Hafi Norðurþing bent kæranda á að heppilegast væri að skrá húsnæðið sem íbúðarhúsnæði þar sem auðveldara væri að selja íbúðirnar í sitthvoru lagi og að hver íbúð hefði sitt fastanúmer. Fljótlega eftir að kærandi hafi komið að rekstri húsnæðisins hafi honum orðið það ljóst að sorpmálum væri mjög ábótavant. Sorpílátum hafi verið illa sinnt. Þau hafi verið losuð sjaldan og gjarnan innsigluð þar sem ekki hafi verið hægt að fylgjast með réttri flokkun. Til að koma í veg fyrir áframhaldandi sóðaskap og óþægindi hefði verið óskað eftir því að sveitarfélagið fjarlægði sorpílátin þar sem tíðni losunar og stærð ílátanna hentaði ekki þeirri starfsemi sem væri í húsnæðinu. Sveitarfélagið hefði fjarlægt sorpílátin, eins og óskað hefði verið eftir, og hætt allri þjónustu við húsnæðið. Hefði kæranda ekki verið bent á að bærinn gæti komið til móts við þarfir eigenda í sorphirðumálum og hefði kærandi ekki haft vitneskju um slíkt. Hann hefði því óskað eftir því að Íslenska gámafélagið (ÍGF), sem sjái um sorphirðu fyrir sveitarfélagið, útvegaði stórt sorpílát og tæki að sér losun þess eftir pöntunum. ÍGF hafi verið greitt fyrir leigu á sorpíláti og losun á sorpi síðan í mars árið 2018. Í maí 2020 hafi kæranda þótt kostnaður við sorphirðu orðinn óvenju hár og við nánari skoðun hefði komið í ljós að sveitarfélagið hefði innheimt gjöld fyrir sorphirðuþjónustu allt frá því að óskað hefði verið eftir því við sveitarfélagið að þjónustu við Garðarsbraut 12 yrði hætt, sem það hefði og gert.

Hinn 13. maí 2020 hefði kærandi sent sveitarfélaginu formlegt bréf þar sem þess hefði verið óskað að sorphirðugjöld fyrir fasteignir með fastanúmerin 215-2556, 228-6800 og 228-6801 yrðu endurgreidd yfir tiltekið tímabil og þau felld niður í kjölfarið þar sem kostnaður sveitarfélagsins vegna þjónustu við sorphirðu vegna húsnæðisins væri enginn. Hefði beiðnin verið tekin fyrir á fundi byggðarráðs Norðurþings hinn 11. júní 2020 og henni hafnað.

Í 1. gr. gjaldskrár Norðurþings um meðhöndlun og förgun sorps árið 2020 sé tilgreind upphæð árlegs þjónustugjalds vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í Norðurþingi til þess að standa undir kostnaði við sorphirðu. Í 3. gr. gjaldskrárinnar segi að gjöld fyrir meðhöndlun og urðun úrgangs skuli innheimt með fasteignagjöldum. Í 8. gr. samþykktar nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í Norðurþingi frá 3. júlí 2017 komi fram að sveitarstjórn sé heimilt að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar að setja gjaldskrá og innheimta sorphirðugjöld til að standa straum af öllum kostnaði við sorphirðu. Þar komi einnig fram að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði fyrir veitta þjónustu. Jafnframt segi í ákvæðinu að gjöld miðist við stærð og fjölda íláta, magn úrgangs og tíðni sorphirðu.

Í máli þessu sé tekist á um hvort þjónustugjöldum við sorphirðu samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins sé beitt eins og um fasteignaskatt sé að ræða. Sorphirðugjöld vegna Garðarsbrautar séu sannanlega hærri en sem nemi rekstrarkostnaði sveitarfélagsins við þjónustuna, auk þess sem gjöldin séu augljóslega ekki miðuð við stærð, fjölda, magn úrgangs eða tíðni sorphirðu vegna eignarinnar. Engu máli skipti hvort húsnæðið sé skráð sem íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði þar sem kostnaður við þjónustuna hafi ekki lent á sveitarfélaginu. Sorphirðugjöldin séu ekki ætluð til annars en að standa undir rekstrarkostnaði við sorphirðu.

Verði að gera ríka kröfu á ríki og sveitarfélög um að þau sinni upplýsingagjöf og leiðbeiningaskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en sveitarfélaginu hefði verið í lófa lagið að benda á að sorphirðugjöld yrðu eftir sem áður innheimt vegna fasteignanna óháð því hvort kærandi þæði þjónustu af hálfu sveitarfélagsins eða ekki. Sveitarfélaginu beri að tryggja jafnræði á milli eigenda fasteigna og að einstaka aðilar greiði ekki hærri gjöld en sanngjarnt sé hverju sinni. Því beri að líta til meðalhófs við ákvarðanir sínar, taka mið af reglum varðandi sorphirðu og innheimta ekki þjónustugjöld fyrir þjónustu sem hafi ekki verið veitt í tvö og hálft ár.

Sveitarfélaginu sé ekki stætt á því að leggja gjöld á fyrirtækið vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna þess fyrir tímabilið 1. mars 2018 og út árið 2020 þar sem engin þjónusta hafi þá verið veitt og enginn kostnaður fallið á sveitarfélagið. Greitt hafi verið samviskusamlega fyrir losun á því sorpi sem fallið hafi til á tímabilinu. Ekki sé verið að reyna að komast hjá því að greiða fyrir losun og urðun á því sorpi sem til falli. Umrætt húsnæði sé skráð sem íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði. Öllum tilmælum sveitarfélagsins í þá veru að fyrirtækið breyti skráningu húsnæðisins í atvinnuhúsnæði, til þess eins að bæta sveitarfélaginu upp tekjumissi í gegnum þjónustugjöld við sorphirðu, sé alfarið hafnað.

Málsrök Norðurþings: Sveitarfélagið bendir á að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skuli sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélagi. Hafi sveitarfélagið á því tímabili sem hér um ræði byggt á samþykkt sinni nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu frá 3. júlí 2017, sem sæki lagastoð í framangreint ákvæði laga nr. 55/2003 og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Árlega hafi sveitarfélagið samþykkt gjaldskrá vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Gjaldskrá fyrir árið 2018 hafi verið samþykkt af sveitarstjórn 29. nóvember 2017, gjaldskrá fyrir árið 2019 hafi verið samþykkt 13. desember 2018 og gjaldskrá fyrir árið 2020 hinn 4. desember 2019. Í öllum tilvikum hafi gjaldskrárnar tekið gildi 1. janúar viðkomandi ár. Krafa kæranda nái til áranna 2018, 2019 og 2020. Kærandi hafi keypt þær þrjár íbúðir sem um ræði með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018. Fyrir vikið hafi álagningarseðill ársins 2018 verið sendur á fyrri eiganda en aðrir innheimtuseðlar á kæranda. Samkvæmt kaupsamningi skyldi gefa út afsal 15. febrúar 2018 og verði að leggja til grundvallar að eigi síðar en þá hafi kæranda verið kynntur álagningarseðill vegna fasteignagjalda. Afsali hafi ekki enn verið þinglýst. Kæranda hafi verið sendir álagningarseðlar vegna 2019 hinn 7. febrúar það ár og vegna 2020 hinn 10. febrúar það ár. Kærandi hafi hingað til greitt umrædda álagningu fasteignagjalda athugasemdalaust, eða allt þar til 14. maí 2020.

Kærandi geti ekki búið til nýjan kærufrest með því að krefjast endurgreiðslu á þegar greiddum sorphirðugjöldum. Kærufresturinn byrji að líða þegar gjöldin séu lögð á. Sé það í síðasta lagi þegar álagningarseðill vegna gjaldanna sé sendur til viðkomandi gjaldanda. Samkvæmt 2. mgr. 4. laga nr. 130/2011 hafi kærufrestur vegna sorphirðugjalda runnið út 10. mars 2018 vegna gjalda það ár, 9. mars 2019 vegna gjalda það ár og 11. mars 2020 vegna gjalda það ár. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi verið lögð fram 10. júlí 2020.

Í kæru komi kröfugerð ekki skýrt fram. Orðalagið í kæru verði ekki skilið öðruvísi en svo að það sé álagningin sem verið sé að kæra, en ekki synjun á endurgreiðslu. Þannig segi í upphafsorðum niðurstöðukafla kærunnar: „Norðurþingi er ekki stætt að leggja gjöld á Bjarkarkot ehf. vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna fyrirtækisins …“ Sé litið svo á að kröfugerðin lúti að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna endurgreiðslu, þá blasi við að yrði sú ákvörðun felld úr gildi þá breytti það engu um réttarástandið, álagningin stæði eftir sem áður. Kærandi hafi þannig ekki lögvarða hagsmuni af slíkri niðurstöðu sem væri í reynd ekkert annað en lögfræðileg álitsgerð.

Við ákvörðun gjaldskrár vegna þjónustugjalda sé sveitarfélögum veitt ákveðið svigrúm til að haga gjaldtökunni með almennum hætti og þurfi þau ekki að sýna fram á að gjaldið samsvari kostnaði gagnvart hverjum einstökum viðtakanda þjónustunnar. Sérstaklega komi fram í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Norðurþing hafi, eins og önnur sveitarfélög, valið þessa leið við gjaldtöku og ákvarðað samræmt gjald vegna meðhöndlunar úrgangs á allar íbúðir í sveitarfélaginu. Ekki sé hægt að útiloka að eigendur einstakra íbúða geti rökstutt að kostnaður við þjónustuna gagnvart þeim sé lægri en þau gjöld sem greidd séu. Nægilegt sé að sveitarfélagið sýni fram á almenna, gagnsæja og sanngjarna álagningu gjalda og að gjaldtöku sé ekki þannig hagað að hagnaður sé af starfseminni að jafnaði.

 

Eftirfarandi sé samantekt úr bókhaldi sveitarfélagsins vegna sorphirðu þess árin 2015 til 2019:

Ár                   Tekjur*                       Gjöld              Niðurstaða

2015                59.621.844                  84.431.826      24.809.982

2016                59.958.717                  70.178.809      10.220.092

2017                62.178.687                  56.092.237      -6.086.450

2018                57.217.959                  61.694.150        4.476.191

2019                58.187.505                  70.906.279      12.718.774

Nettó             297.164.712                343.303.301     46.138.589

*Sorphirðugjald og sorpeyðingargjald

 

Árið 2017 hafi tekjur orðið aðeins hærri en bein útgjöld vegna sorphirðu sveitarfélagsins. Þótt sveitarfélagið telji að það hefði getað rökstutt óbreytta gjaldtöku hafi verið ákveðið að lækka gjöldin árið 2018 vegna þessa, þannig að bein útgjöld við starfsemina væru meiri en allar tekjur vegna hennar. Áætlun 2020 geri ráð fyrir tapi af starfseminni.

Sveitarfélagið hafi beinlínis lögbundna heimild til að ákveða fast gjald á hverja fasteignar-einingu miðað við þjónustustig. Skráning eigna kæranda sem íbúða skilgreini þjónustustig og skyldur sveitarfélagsins í þessum efnum. Kæranda hafi verið veitt sama þjónusta og sama þjónustustig og öðrum íbúðareigendum. Ekki sé hægt að bera ábyrgð á því hvort aðrir en þeir sem dvelji í íbúð noti sorpílát sem tilheyri þeirri íbúð og hver séu viðbrögð íbúðareigenda við slíku. Tíðari tæmingar eða notkun annarra íláta séu á ábyrgð hvers fasteignareigenda. Íbúðareigandi virðist ekki hafa snúið sér til sveitarfélagsins árið 2018 heldur samið beint við þjónustuaðila sveitarfélagsins um aðra tilhögun. Ekki fáist séð að kostnaðurinn hafi tekið nokkrum breytingum við þessa aðgerð kæranda.

Áréttað sé að það standist ekki viðurkennd lagasjónarmið að ætla sveitarfélagi að reikna út kostnað við hverja staka íbúð fyrir sig, heldur sé nægilegt að deila allri gjaldtöku á eignir með sama þjónustustig með gagnsæjum og sanngjörnum hætti. Það sé gert og þrátt fyrir það nægi heildartekjur ekki til að standa straum af öllum kostnaði við að veita þjónustuna. Sé gjaldtakan þannig á allan hátt innan ramma þeirra reglna sem gildi um þjónustugjöld.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að sveitarfélagið hafi um árabil ekki þurft að þjónusta Garðarsbraut 12 vegna losunar sorps, en hafi engu að síður innheimt gjöld af kæranda fyrir þjónustuna. Ljóst sé að Norðurþing innheimti gjald sem eigi ekki rétt á sér og sé bent á að í lögum nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda segi í 8. gr. um endurgreiðslu oftekins fjár að stjórnvöldum beri að hafa frumkvæði að endurgreiðslu þegar þeim verði ljóst að ofgreitt hafi verið.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu sorphirðugjalda á kæranda vegna eigna hans að Garðarsbraut 12 fyrir árin 2018, 2019 og 2020 og synjun á kröfu hans um endurgreiðslu þeirra gjalda. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Þó skal kæru ekki sinnt skv. 2. mgr. nefndrar 28. gr. ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Hin kærðu gjöld voru lögð á með álagningarseðlum, dags. 7. febrúar 2018, 7. febrúar 2019 og 10. febrúar 2020. Leitaði kærandi til sveitarfélagsins með ósk um endurgreiðslu 13. maí 2020 og 15. júlí s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra máls þessa með bréfi, dags. 10. s.m., sem póstlagt var þann dag. Meira en ár var þá liðið frá því að álagning vegna sorphirðu árið 2019 var tilkynnt kæranda með álagningarseðlum og einnig frá því að hún var tilkynnt fyrri eiganda með sama hætti vegna sorphirðu 2018. Kærandi eignaðist fasteignir þær sem um ræðir með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018, og var afsal gefið út honum til handa 15. febrúar s.á., en þá fer almennt fram uppgjör gjalda milli aðila. Var einnig liðið meira en ár frá því tímamarki þegar kæran var móttekin. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kæru kæranda vegna álagningar þessara ára því ekki sinnt og þeim kröfum hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður við úrlausn þessa atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við meðferð máls þessa hefur sveitarfélagið upplýst að það hafi fellt niður sorphirðugjöld vegna ársins 2020, en það hafi ekki fordæmisgildi gagnvart álagningu fyrri eða síðari ára. Hefur úrskurðarnefndin undir höndum álagningarseðla, dags. 2. október 2020, þar sem fram kemur að álagning sorphirðugjalds á kæranda vegna fasteigna hans hafi verið felld niður. Eftir niðurfellingu gjaldanna hefur álagning ársins 2020 ekki lengur réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um lögmæti gjaldtöku þess árs. Verður kröfum kæranda hvað það ár varðar því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem áður greinir óskaði kærandi eftir endurskoðun álagningar sorphirðugjalda með bréfi, dags. 13. maí 2020, en því erindi var synjað af byggðarráði 11. júní s.á. Synjun um endurupptöku máls bindur á það enda að nýju og er því stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Kæra til nefndarinnar var póstlögð 10. júlí s.á og hún því nægilega snemma framkomin hvað varðar ákvörðun um synjun á endurgreiðslu sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019, sem ekki hafa verið felld niður, og verður sá hluti málsins því tekinn til efnismeðferðar.

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum. Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þó er mælt fyrir um það í 2. mgr. 24. gr. laganna að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tl. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ljóst er að þegar beiðni kæranda um endurupptöku barst Norðurþingi voru allir þeir tímafrestir er tilgreindir eru í 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðnir. Í athugasemdum við 2. mgr. 24. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skilyrði hennar séu sett m.a. til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd. Er og tekið fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

Við mat á því hvort endurupptaka eigi mál ber að líta til eðlis þess hverju sinni og málsatvika allra, sem og þeirra sjónarmiða sem leiða má af skilyrðum ákvæðanna um tímafresti. Eiga fyrrgreind sjónarmið einnig við um rétt til endurupptöku máls sem leiða má af ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins þótt þær reglur kunni að vera rýmri en gert er ráð fyrir í ákvæðum stjórnsýslulaga. Þau rök voru færð fyrir synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda um endurskoðun að það „sjái sér ekki fært“ að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda án þess að rakið væri af hvaða orsökum það væri. Í tilkynningu til kæranda var þó tekið fram að um álagningu á alla íbúðareigendur væri að ræða en álögð gjöld myndu breytast yrði eign skráð sem atvinnuhúsnæði, en til þess þyrfti að koma fram beiðni íbúðareiganda. Af nefndum gögnum verður hins vegar hvorki ráðið að afstaða hafi verið tekin til þess hvort álagningin hefði t.d. byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, né að fram hafi farið mat á því hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að endurskoða álagninguna, sbr. 2. mgr. sama lagaákvæðis. Í þessu sambandi skal tekið fram að undir meðferð kærumáls þessa leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá sveitarfélaginu um númer og birtingu gjaldskráa þeirra sem nefnd álagning byggðist á, en skv. 4. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skal láta birta í B-deild Stjórnartíðinda gjaldskrár vegna gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs, s.s. sorphirðu. Fengust þau svör að ekki yrði séð að gjaldskrár þær sem um ræðir hefðu fengið númer en vísað til þess að þær hefðu verið birtar opinberlega á vef Norðurþings. Þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að umræddar gjaldskrár hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Með hliðsjón af framangreindu var því fullt tilefni til þess fyrir sveitarfélagið að leggja sérstakt mat á og taka afstöðu til þess hvort vafi um lögmæti álagningar hinna umdeildu gjalda ætti að leiða til endurskoðunar álagningarinnar, þrátt fyrir þann tíma sem liðinn væri frá henni. Er því óhjákvæmilegt að fella úr gildi synjun byggðarráðs á beiðni kæranda um endurskoðun og endurgreiðslu álagðra gjalda vegna áranna 2018 og 2019. Hins vegar verður öðrum kröfum kæranda vísað frá úrskurðarnefndinni, eins og áður er komið fram.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 um að synja um endurskoðun og endurgreiðslu álagningar sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019 á kæranda vegna Garðarsbrautar 12, Húsavík.

Öðrum kröfum kæranda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

88/2020 Ásvallagata

Með

Árið 2021, föstudaginn 8. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2020, er barst nefndinni 30 s.m., kæra eigendur, Ásvallagötu 23, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt eru gerðar kröfur um að framkvæmdin uppfylli öll lög og reglugerðir, að haft verði nákvæmara eftirlit, að gengið verði frá húsi kærenda eins og það hafi upphaflega verið, að skoðað verði hvort byggingarstjóri hafi tilheyrandi starfsleyfi og tryggingar og að kærendur séu upplýstir ef breytingar verði á fyrirhuguðum verklokum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. október 2020.

Málavextir: Hinn 7. nóvember 2006 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi sem fólst m.a. í því að gera þaksvalir og aðkomurými úr gleri á húsinu nr. 21 við Ásvallagötu, en byggingarleyfið var síðan endurnýjað á árinu 2009. Gerð var breyting á leyfinu árið 2010 sem fólst m.a. í því að breyta þakgerð á þaksvölum úr glerþaki í bárujárnsþak. Þá var aftur gerð breyting á leyfinu árið 2017 sem fólst m.a. í því að samþykkja reyndarteikningar af þaksvölum vegna lokaúttektar. Leyfishafar festu kaup á fasteigninni að Ásvallagötu 21 í júní 2018, en frágangi vegna framkvæmda á þaksvölum mun þá ekki hafa verið lokið.

Með bréfi, dags. 19. maí 2020, sendu kærendur minnisblað til byggingarfulltrúa vegna framkvæmdanna þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum vegna þeirra. Kom þar m.a. fram að íbúar í húsi kærenda hafi orðið varir við leka í íbúðum sínum sem þeir telji að megi rekja til framkvæmdanna. Gerðu kærendur ýmsar kröfur í minnisblaðinu, þ. á m. að ef fyrirhugað væri að leyfa breytingar á verklokum yrðu þeir upplýstir um það. Hinn 1. júlí 2020 sóttu leyfishafar um byggingarleyfi fyrir breytingum á þaksvölum hússins og kom þar fram að einungis væri um útfærslubreytingar að ræða. Breytingar hafi verið gerðar á hliðarveggjum aðliggjandi húsa en séu alfarið innan lóðarmarka Ásvallagötu 21. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. s.m. var bókað að sótt væri um leyfi til að breyta áður samþykktu byggingarleyfi vegna lokaúttektar sem fælist í því að gaflar yrðu klæddir á húsinu. Var umsóknin samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi fyrst fengið fregnir af samþykki um­deilds byggingarleyfis þegar þeir hafi haft samband við byggingarfulltrúa 10. september 2020. Því sé kæran lögð fram innan kærufrests.

Samþykki umsóknarinnar hafi komið kærendum á óvart þegar tekið sé tillit til þess að þeir hafi sent minnisblað til byggingarfulltrúa 19. maí 2020 þar sem skilmerkilega hafi verið gerð grein fyrir fjölmörgum göllum við framkvæmd þaksvalanna. Í umsókninni komi fram að ekki sé um stækkun að ræða heldur einungis útfærslubreytingu. Hið rétta sé að svalirnar hafi breikkað um 180 cm, 90 cm hvoru megin, frá þeim áformum sem hafi verið grenndarkynnt og þau samþykkt. Í umsókninni segi einnig að allar breytingar séu innan lóðarmarka Ásvallagötu 21, en hið rétta sé að til standi að klæða gaflinn á Ásvallagötu 23. Svalagólfið muni ná upp að húsgafli húss kærenda og svalirnar séu 4-5 m2 stærri en á fyrri teikningum. Að kærendum óspurðum hafi verið byggt ofan á þak þeirra og göt boruð í vegg og bárujárn, sem gæti hafa valdið leka og geti valdið leka í framtíðinni.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli bera breytingar sem þessar undir nágranna sem eigi hagsmuna að gæta áður en samþykki sé veitt. Hagsmunir kærenda séu miklir en vatnstjón hafi nú þegar orðið í þremur íbúðum vegna leka frá svölum. Teikningarnar, sem sýni að gólf svalanna endi upp við gafl, hafi aldrei verið bornar undir kærendur. Fjölmargir sérfræðingar séu sammála um að svalagólf sem endi við samskeyti húsa feli í sér aukna hættu á vatnsleka, en á þeim teikningum sem kynntar hafi verið fyrir kærendum og þeir samþykkt hafi 90 cm þakkantur verið á húsi Ásvallagötu 21, á milli svalanna og gaflsins á húsi kærenda. Þegar áður samþykktar teikningar séu bornar saman við þær teikningar sem nú hafi verið samþykktar sjáist greinilega að um umtalsverða stækkun sé að ræða. Þá sé eldvörnum ábótavant þar sem þak hafi verið hækkað með forsköluðum timburvegg á milli húsanna, en einnig sé forskalaður timbur­­­veggur, þ.e. timbur með vírneti og steypu, yfir steyptum eldvarnarvegg milli húsanna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Ljóst megi vera að kærendum hafi verið kunnugt um framkvæmdina allt frá því fyrst hafi verið leitað leyfis þeirra vegna fram­kvæmdarinnar. Hafi kærendur verið meðvitaður um framkvæmdirnar, sbr. nýlegt erindi þeirra til byggingarfulltrúa.

Árið 2010 hafi þaki yfir svölum samkvæmt byggingarlýsingu verið breytt úr glerþaki í hefðbundið bárujárnsþak. Sótt hafi verið um samþykki fyrir reyndarteikningum af þaksvölum vegna lokaúttektar sem varði útfærslu þaksvala á árinu 2017. Með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið sótt um samþykki fyrir nýrri útfærslu á þaki svalanna þar sem byggt sé glerhýsi ofan á þær. Samkvæmt uppdráttum sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn sé breytingin innan þeirra stærðarmarka sem samþykktar hafi verið árið 2017 og því sé ekki um að ræða stækkun. Kærð stækkun hafi í raun átt sér stað fyrr eða á árinu 2017.

Fram komi í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á því hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlun sveitarfélagsins. Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu byggingarleyfis. Fram komi að sé framkvæmd í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn ákveðið að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skilyrði fyrir slíkri málsmeðferð sé að framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Ekkert deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði og því gildi nefnd 44. gr. skipulagslaga. Byggingarfulltrúi hafi metið það svo að ekki væri þörf á aðkomu skipulags­fulltrúa.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærendur hafi sent kæruna að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæra hafi verið send 76 dögum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vefsvæði Reykjavíkurborgar og því sé kærufrestur liðinn. Kærendur hafi fylgst grannt með hinum umdeildu framkvæmdum og verið í tíðum samskiptum við starfsmenn byggingarfulltrúa vegna þeirra. Fyrir liggi tölvupóstur frá starfsmanni byggingarfulltrúa 9. september 2020 til annars leyfishafa þar sem fram komi að einn eigenda Ásvallagötu 23 óski eftir upplýsingum um stöðu byggingarleyfis. Það sé því ljóst að kærendur hafi verið upplýstir um hina kærða ákvörðun þann dag og hafi raunar verið  upplýstir um hana allt frá þeim tíma sem hún hafi verið birt. Þá komi fram í byggingarsögu að aðilar á vegum kærenda hafi óskað 22. júlí 2020 eftir afriti allra gagna sem varði framkvæmdina.

Málsmeðferð byggingarleyfisins hafi á allan hátt verið lögmæt. Hin kærða ákvörðun feli í sér óverulega breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi sem snerti hagsmuni kærenda ekki á nokkurn hátt, enda séu þær allar innan lóðarmarka og hafi engin nábýlisréttarleg áhrif á kærendur. Skerði breytingin í engu hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp, innsýn eða aðra hagsmuni. Rúmist sú breyting að öllu leyti innan ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í þessu samhengi sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að í hinni kærðu ákvörðun felist samþykki fyrir stækkun svalanna um 180 cm. Hið rétta sé að stærð svala sé óbreytt, fari hvorki yfir lóðarmörk né byggingarreit hússins og sé í samræmi við áður útgefið byggingarleyfi. Eina breytingin felist í smávægilegum frágangi sem engum sé sýnileg öðrum en leyfishöfum. Bent sé á að ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kærendur vísi til, eigi við um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi, en um það sé ekki að ræða í máli þessu.

Þá sé bent á að breytingin ein og sér væri í öllu falli ekki byggingarleyfisskyld á grundvelli gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda væri þá um að ræða endurnýjun þakkants og veggklæðningar þar sem sambærilegt efni og frágangur væri notaður og samþykkt hafi verið í upphaflegu byggingarleyfi auk þess sem útliti byggingarinnar væri svo til ekkert breytt. Slíkar framkvæmdir einar og sér væru einfaldlega ekki byggingarleyfisskyldar. Kærumálið muni ekki leysa úr ágreiningi um hvort rekja megi leka til frágangs á þaki sem leyfishafar leitist nú við að lagfæra. Sú deila hafi ekkert með forsendur byggingarleyfisins að gera. Kærendur vilji að framkvæmdirnar séu gerðar á þeirra forsendum og í samráði við þá. Það hafi ekkert með lögmæti byggingarleyfisins að gera heldur varði það hvort rekja megi rakatjón til þeirra framkvæmda sem þegar hafi átt sér stað. Hvað sem öðru líði sé bent á að ákvæði um grenndarkynningu byggingarleyfisskyldra framkvæmda sé einfaldlega ekki ætlað að vernda hagsmuni af þessum toga og væri það í andstöðu við markmið laga að fallast á sjónarmið kærenda. Vettvangurinn fyrir úrlausn deilu milli leyfishafa og kærenda sé ekki þetta kærumál.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Fundargerð byggingarfulltrúa, sem m.a. hafði að geyma hina kærðu ákvörðun, mun hafa verið birt á heimasíðu borgarinnar í kjölfar afgreiðslufundar hans 14. júlí 2020. Sá birtingarmáti telst ekki til opinberrar birtingar í skilningi 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur birting fundargerðar byggingarfulltrúa því ekki markað upphaf kærufrests í máli þessu, enda er ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild um að slík birting teljist vera opinber birting. Ekkert liggur fyrir um að kærendum hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun meira en mánuði áður en kæra barst úrskurðarnefndinni 30. september 2020. Verður því við það að miða að kæran hafi borist innan lögmælts kærufrests. Hið kærða byggingarleyfi snertir framkvæmdir á þakfleti hússins að Ásvallagötu 21, sem er sambyggt húsi kærenda, og er ekki útilokað að ákvörðunin geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra eins og atvikum er háttað. Verða þeir því taldir eiga kæruaðild í máli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21, en upphaflegt byggingarleyfi til að gera þaksvalir og aðkomurými er frá árinu 2009. Ágreiningur í málinu lýtur m.a. að því hvort byggingarleyfið feli einungis í sér útfærslubreytingu vegna frágangs, líkt og kemur fram í byggingarleyfinu, eða hvort um stækkun á umræddum svölum sé að ræða, eins og kærendur halda fram.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulagi liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að grenndarkynning felist í því að skipulags­nefnd kynni leyfisumsóknina nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Þó er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda.

Líkt og rakið var í málavöxtum var með umsókn hins kærða byggingarleyfis sótt um leyfi vegna breytinga sem gerðar höfðu verið á hliðarveggjum aðliggjandi húsa. Á samþykktum uppdráttum hins kærða byggingarleyfis kemur fram að um sé að ræða útfærslubreytingar sem gerðar hafi verið eftir að reyndarteikningar hússins voru samþykktar árið 2017. Hins vegar verður af samanburði teikninga sem samþykktar voru árið 2017 og samþykktra teikninga vegna umþrætts byggingarleyfis ráðið að svalirnar hafa breikkað og ná nú að gafli húss kærenda að Ásvallagötu 23 auk þess sem svalahandrið hefur færst utar. Er því ljóst að ekki er einungis um útfærslubreytingu að ræða, svo sem kemur fram bæði í umsókn um byggingarleyfi og á samþykktum uppdráttum. Hin kærða ákvörðun heimilar stækkun svalanna auk þess sem þær ná að gafli húss kærenda. Bar því samkvæmt fyrrnefndri 44. gr. skipulagslaga að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina áður en byggingarfulltrúi tók afstöðu til hennar.

Að öllu framangreindu virtu verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21.

133/2020 Skaftafell Hveragerði

Með

Árið 2021, föstudaginn 8. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis frá 10. desember 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins Skaftafells, Heiðmörk 23, og byggingu nýs húss á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Borgarhrauni 34, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins Skaftafells, Heiðmörk 23, og byggingu nýs húss á lóðinni. Er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði vísað til skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 21. desember 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 2. október 2020, sótti eigandi hússins Skaftafells á lóðinni Heiðmörk 23 um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins og byggingu nýs húss á lóðinni. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 6. s.m. var lagt til að tillagan yrði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 8. október s.á. var tillaga skipulags- og mannvirkjanefndar samþykkt. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 1. desember s.á. og kom þar fram að engar athugasemdir hefðu borist á kynningartíma. Samþykkti meirihluti nefndarinnar að leggja til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og á fundi bæjarstjórnar 10. desember 2020 samþykkt meirihluti bæjarstjórnar niðurrif hússins og byggingu nýs húss á lóðinni Heiðmörk 23.

Kærandi tekur fram að hann sé bæjarfulltrúi og sitji í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fyrir bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði. Hann telji að meðferð meirihluta bæjarstjórnar á málinu samrýmist ekki góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og að málið hafi ekki verið kannað til hlítar áður en ákvörðun hafi verið tekin. Þá standi húsið sem heimilað sé að rífa innan reits sem njóti hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðis 2017-2029. Tilgangur hverfis­verndarinnar sé að varðveita byggðamynstur og götumynd.

Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að fyrirhuguð bygging fari að óverulegu leyti út fyrir byggingarlínur núverandi húss nema á baklóð og mænishæð sé nokkurn vegin sú sama og núverandi húss. Falli nýja húsið vel að formi og hlutföllum núverandi byggðar í hverfinu og sé því í samræmi við skilmála aðalskipulags um hverfisvernd.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Þau rök sem kærandi tiltekur í kæru sinni, m.a. um verndun götumyndar og hverfisvernd, lúta að skipulagsmarkmiðum sem skipulagsyfirvöldum sveitarfélags er falið að móta samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Teljast skipulagshagsmunir vera almannahagsmunir sem veita einstaklingum ekki almenna kæruaðild að stjórnsýslurétti en skipulagsákvarðanir, svo sem um hverfisvernd, geta eftir atvikum snert lögvarða hagsmuni einstaklinga eða lögaðila með þeim hætti að þeim yrði játuð kæruaðild.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 700 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhugað niðurrif og byggingaráform taka til og er íbúðarbyggð þar á milli. Verður því ekki séð að hin kærða ákvörðun sé til þess fallin að raska persónulegum lögvörðum hagsmunum kæranda, svo sem grenndarhagsmunum.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda í máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

131/2020 Fífuhvammur

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 6. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir.

Mál nr. 131/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp  til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 7. október 2019, sótti eigandi Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 gróðurhús ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð var fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulagsráð erindið og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs. Hinn 4. desember s.á. samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa.

Kærendur benda á að hin fyrirhugaða bygging sé á lóðamörkum lóðar kærenda og lóðar Fífuhvamms 25. Hún samrýmist ekki götumynd og auki skuggamyndun á lóð kærenda, einkum í garði, og takmarki þannig nýtingarmöguleika þeirra. Útgáfa byggingarleyfisins fari í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni hin fyrirhugaða framkvæmd lækka verðmæti eignarinnar. Framkvæmdir séu nú þegar hafnar og því mikilvægt að ákvörðun verði tekin sem fyrst um að stöðva framkvæmdirnar.

Leyfishafi vísar til þess að umrætt gróðurhús sé í dag lokað með frágengnu þaki, gluggum og hurðum auk þess að vera vatnshelt og vindhelt. Þá sé búið að einangra þak og opna á milli inn í íbúðina. Bygging gróðurskálans sé nánast lokið og mannvirkið tilbúið til notkunar.

Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að gróðurhúsið hafi í för með sér óveruleg grenndaráhrif. Fordæmi sé að finna fyrir byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs í götunni. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Að því virtu telur sveitarfélagið að hafna eigi framkominni stöðvunarkröfu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Af fyrirliggjandi gögnum má að sjá bygging gróðurskálans er langt á veg komin og var það raunar skömmu eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Þegar litið er til nefndra atvika, framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Ber framkvæmdaaðili enda af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi til bráðabirgða.

98/2020 Lindarbær

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2020, kæra á ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 17. september 2020 um að synja beiðni um skiptingu jarðarinnar Lindarbæjar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Lindarbæjar, Ölfusi, þá ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 17. september 2020 að synja beiðni um skiptingu nefndrar jarðar. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar. Þess er jafnframt krafist að viðurkennt verði að ekki hafi þurft að gera deiliskipulag vegna skiptingar jarðarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 16. nóvember 2020.

Málavextir: Hinn 11. maí 2020 sendi kærandi tölvupóst til skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss þar sem kom fram að hann hygðist selja íbúðarhúsið á jörð sinni Lindarbæ og því þyrfti að skipta upp jörðinni. Óskaði hann eftir leiðbeiningum um framhaldið og munu kærandi og skipulags- og byggingarfulltrúi hafa fundað um málið 13. s.m. Á fundi skipulags- og umhverfis­nefndar 20. s.m. var erindi kæranda tekið fyrir og bókað að umrætt svæði væri „skilgreint sem landbúnaðarland“ og muni lögbýlisréttur fylgja öðrum skikanum eftir skiptingu. Lagði nefndin til að erindinu yrði vísað til tæknisviðs til frekari úrvinnslu. Mun kærandi í kjölfarið hafa verið upplýstur um að gera þyrfti deiliskipulag til að fá landinu skipt. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa til kæranda 19. júní s.á. kom fram að það væri regla hjá sveitarfélaginu að áskilja gerð deiliskipulags ef skipta ætti lóðum sem væru á íbúðarsvæðum samkvæmt aðalskipulagi. Hinn 23. júlí s.á. var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar tekin fyrir deiliskipulagstillaga kæranda sem gerði ráð fyrir að jörðinni yrði skipt í tvær lóðir. Var lagt til að tillagan yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundinum var jafnframt tekin fyrir beiðni kæranda um að fá að skipta jörðinni í tvennt og stofna nýjar lóðir. Var bókað að samþykkt yrði að stofna lóðirnar þegar deiliskipulagið hefði tekið gildi.

Með ódagsettu bréfi til sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og skipulagsfulltrúa gerði kærandi ýmsar athugasemdir við meðferð málsins hjá sveitarfélaginu. Var í bréfinu jafnframt lögð fram málamiðlunartillaga um að málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar héldi áfram en að árituð lóðablöð yrðu send til Þjóðskrár Íslands ásamt eyðublaði um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. september 2020 var erindi kæranda tekið fyrir. Bókað var að kærandi vildi fá að „stofna lóðir áður en deiliskipulagið tekur gildi.“ Synjaði nefndin þeirri beiðni á þeim grundvelli að ekki yrði samþykkt skipting á ódeiliskipulögðu landi sem ætlað væri til uppbyggingar fyrr en deiliskipulagið hefði tekið gildi. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 24. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ekki hefði þurft að gera deiliskipulag til að stofna nýja lóð heldur hefði nægt að skila lóðablöðum ásamt eyðublaði um skráningu nýrra landeigna til fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands. Kærandi hafi mótmælt því að gera deiliskipulag en honum hafi verið stillt upp við vegg og hann síðan látið undan þrýstingi. Sveitarfélagið hafi vísað til þess að krafa um deiliskipulag væri regla hjá þeim en aldrei hafi verið vísað til þess hvar sú regla komi fram þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Deiliskipulagsferlið hafi tekið langan tíma þrátt fyrir loforð um að málið myndi fara „hratt og vel“ í gegn. Brotið hafi verið gegn meðalhófsreglunni með þvingun um gerð deiliskipulags samkvæmt ósýnilegri reglu. Kærandi hafi lagt fram málamiðlunartillögu en enginn viðbrögð fengið. Skipulagsfulltrúi hafi upplýst kæranda um að nefnd regla sé hvergi skrifuð. Það geti ekki staðist að munnleg regla sé nægileg til að velja þyngstu hugsanlegu leiðina. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. september 2020 hafi komið fram í fyrsta sinn að nefndin geri kröfu um deiliskipulagsgerð. Því sé kæran miðuð við þá ákvörðun. Sérfræðistofnanir, þ. á m. landbúnaðarráðuneytið og Skipulags­stofnun, séu sammála um að óeðlilegt sé að áskilja deiliskipulag í þessu tilfelli.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að óljóst sé að hvaða stjórnvaldsákvörðun kæran beinist. Óumdeilt sé að í málinu hafi kærandi látið vinna deiliskipulagstillögu sem hlotið hafi samþykki á vettvangi sveitarfélagsins og tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2020. Einnig liggi fyrir að Þjóðskrá Íslands hafi staðfest stofnun nýrrar fasteignar. Kærandi virðist telja að hann hafi að óþörfu verið neyddur til að deiliskipuleggja land í tilefni þess að hann vildi skipta landi sínu í tvær lóðir. Þessu sé alfarið mótmælt. Skipulags- og umhverfisnefnd hafi tekið erindi kæranda fyrir á fundi sínum 23. júlí 2020 þar sem uppdráttur deiliskipulagstillögu kæranda hafi legið fyrir, en hann sé dagsettur 16. júní s.á. Í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitar­stjórnar komi til. Byggt sé á því að skipulags- og umhverfisnefnd hafi verið fullheimilt að gera kröfu um deiliskipulag svo að forsendur lægju fyrir áður en uppskipting fasteignar kæranda væri heimiluð. Slíkt felist beinlínis í skipulagsvaldi sveitarfélaga. Kærandi hafi nýtt sér heimild 38. gr. skipulagslaga til að gera tillögu að deiliskipulagi. Mestu máli skipti að skipulagsferli málsins sé lokið og stofnun lóða komin á leiðarenda. Hvort tveggja sé í þágu kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann sé í raun að kæra ákvörðun sem aldrei hafi verið tekin. Skipulagsnefnd hafi tekið erindi hans fyrir þrisvar sinnum og á fyrstu tveimur fundunum komi hvergi fram krafa um deiliskipulagsgerð. Það hafi ekki verið fyrr en á fundi nefndarinnar 17. september 2020 sem fram hafi komið synjun á því að stofna lóðir án deiliskipulags. Þar komi afstaða nefndarinnar um deiliskipulagsgerð fyrst fram og því eigi að miða kærufrest við það. Þá sé ekki hægt að ætlast til þess að almenningur viti af kærufresti. Þó nefndinni hafi hugsanlega verið fullheimilt að gera deiliskipulag að forsendu fyrir afgreiðslu umsóknar hans þá hafi hún ekki gert það formlega.

———-

Eftir að kæra barst í máli þessu tók gildi deiliskipulag Lindarbæjar með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2020. Með skipulaginu var jörð kæranda skipt í tvær lóðir og byggingarreitur fyrir íbúðarhús markaður á hvorri lóð fyrir sig.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Þó er einungis unnt að skjóta ákvörðunum sem binda enda á mál til æðra stjórnvalds skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málum eða að leggja fyrir stjórnvald að taka slíka ákvörðun með tilteknu efni. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að viðurkennt verði að ekki hafi þurft að ráðast í deiliskipulagsgerð vegna umsóknar hans um stofnun tveggja lóða.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar frá 17. september 2020 að synja beiðni kæranda um skiptingu jarðarinnar Lindabæjar áður en deiliskipulagstillaga kæranda tæki gildi. Í fundargerð nefndarinnar er beiðni kæranda synjað en jafnframt tekið fram að samþykkt verði að stofna mætti lóð þegar deiliskipulagið hefði tekið gildi. Sú ákvörðun nefndarinnar sneri að meðferð máls um stofnun nýrrar lóðar en fól ekki í sér lyktir þess. Telst hin kærða ákvörðun því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

84/2020 Sæbraut

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 30. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2020, kæra vegna heimilaðrar viðbyggingar að Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Sæbraut 8, Seltjarnarnesi, „málsmeðferð vegna viðbyggingar við Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi.“ Verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 21. ágúst 2019 um breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns vegna lóðarinnar Sæbrautar 6 og ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. júní 2020 um að samþykkja byggingaráform um viðbyggingu við húsið að Sæbraut 6 og að krafist sé ógildingar nefndra ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 27. október 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness 3. júlí 2019 var tekin fyrir umsókn um stækkun bílskúrs við húsið að Sæbraut 6 og var kynning eigenda fyrir nágrönnum lögð fram á fundinum. Var málið afgreitt með svofelldum hætti: „Grenndarkynning fór fram og bárust engar athugasemdir. Nefndin samþykkir að vísa málinu til byggingarfulltrúa sem auglýsir deiliskipulagsbreytinguna sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.” Var ákvörðunin staðfest í bæjarráði 11. júlí 2019 og í bæjarstjórn 21. ágúst s.á.

Samkvæmt gögnum máls fékk tillagan hins vegar málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags­laga. Auglýsing til kynningar á tillögu um breytingu á deiliskipulagi svæðisins vegna Sæbrautar 6 var birt á vef Seltjarnarnesbæjar og í Lögbirtingablaðinu 2. ágúst 2019 og í Fréttablaðinu 3. s.m. Var tekið fram að hún væri aðgengileg á bæjarskrifstofu sem og á vef sveitarfélagsins og fæli í sér stækkun byggingarreits á lóðinni Sæbraut 6 og hækkun nýtingarhlutfalls. Frestur til að gera athugasemdir var frá 3. ágúst til 3. september 2019 en engar athugasemdir bárust. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2020.

Hinn 5. júní 2020 samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir viðbyggingu hússins að Sæbraut 6 í samræmi við umsókn eigenda. Var heimilað að byggja við núverandi bílskúr suðvestan megin við húsið og útisturtu/gufu á baklóð. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,25 í 0,29 og stærð húss úr 214 m² í 244 m².

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að grenndarkynning vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi ekki farið fram skv. skipulagslögum nr. 123/2010 heldur hafi eigandi Sæbrautar 6 sjálfur séð um að ganga í hús og safna undirskriftum. Gögnin sem hann hafi lagt fram hafi verið ófullnægjandi og ekki kynnt fyrir öllum eigendum Sæbrautar 8. Enginn af eigendum þess húss hafi ritað samþykki sitt á þennan uppdrátt en skipulags- og umferðar­nefnd hafi ekki kannað hverju það sætti við samþykkt málsins. Við nánari skoðun sé ekki um að ræða stækkun á bílageymslu eins og kynnt hafi verið, heldur stækkun á íbúðarrými. Kærendur séu ósammála því að þetta sé óveruleg breyting sem snerti eingöngu hagsmuni bæjarins og eiganda Sæbrautar 6. Í bréfi til bæjarstjóra Seltjarnarness, dags. 21. júlí 2020, hafi verið óskað eftir því að inngangur í viðbygginguna yrði færður þar sem hann myndi valda ónæði gagnvart fasteign kærenda, en því erindi hafi ekki verið svarað.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að kærunni beri að vísa frá sökum þess að kærufrestir séu liðnir. Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu stjórnvalds­ákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um kærufrest fari samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kæran snúi að því að tillaga um breytingu á deiliskipulagi hafi ekki verið réttilega kynnt kærendum. Í síðasta lagi við birtingu deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. janúar 2020 hafi kærendum verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um kæruefnið. Kæran sé dagsett 14. september s.á. Á þeim tímapunkti hafi eins mánaðar kæru­frestur verið löngu liðinn.

Verði talið að kæran lúti að einhverju leyti að afgreiðslu byggingarfulltrúa vegna samþykktra byggingaráforma hafi kærufrestir allt að einu verið liðnir þegar kæra í máli þessu hafi komið fram. Byggingarfulltrúi hafi samþykkt aðaluppdrætti að breytingunum 5. júní 2020 en kæran sé sem fyrr segi dagsett 14. september s.á. Eins mánaðar kærufrestur vegna stjórnvaldsákvarðana á grundvelli mannvirkjalaga hafi því einnig verið löngu liðinn þegar kæran hafi komið fram.

Engir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð sveitarfélagsins sem kærendur haldi fram. Um breytingu á deiliskipulagi sé fjallað í 43. gr. skipulagslaga þar sem komi fram að verulegar breytingar séu auglýstar skv. 1. mgr. ákvæðisins en óverulegar breytingar megi grenndarkynna skv. 2. mgr. þess. Ekki sé um það deilt að breytingingarnar hafi ekki verið verulegar. Sé í því samhengi bent á að samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni nemi stækkun til vesturs (breikkun) 80 cm út fyrir núverandi byggingarreit. Stækkun til suðurs, í átt að gangstétt, nemi frá 0-200 cm út fyrir samþykktan byggingarreit. Mörg dæmi væru í næsta nágrenni um að byggingarhlutar húsa næðu út fyrir byggingarreit og væru dæmi um að byggingarhlutar næðu allt að lóðarmörkum. Sú tillaga sem lögð hafi verið fram um breytingu á deiliskipulagi vegna Sæbrautar 6 hafi þar að auki verið kynnt af hálfu húseigenda. Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum við auglýsingu tillögunnar. Það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar, þegar fram­kvæmdir hafi verið hafnar, sem slíkar athugasemdir hafi borist.

Í kynningu hafi komið fram að óskað hafi verið eftir „að byggja við núverandi bílskúr suð-vestanmegin við hús og útisturtu/gufu á baklóð.“ Engin þörf hafi verið á því að taka sérstaklega fram hver nýting eldri byggingar yrði í kjölfar breytingarinnar. Sé nýtingin enda innan gildandi skipulags og engin þörf sé á að grenndarkynna slíka nýtingu. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 sé gert ráð fyrir að í íbúðarhverfum geti verið atvinnustarfsemi svo fremi að hún valdi ekki verulegum óþægindum, nánar tiltekið að starfsemin fari fram innan hefðbundins dagvinnutíma, starfsemi hvers rekstraraðila valdi ekki ónæði og að notkun gangi ekki verulega á afnot íbúa í nálægum húsum af sameiginlegum bílastæðum. Í gildandi deiliskipulagi sé vísað til gildandi aðalskipulags varðandi landnotkun. Það megi því ljóst vera að engin þörf hafi verið á breyttri landnotkun vegna þeirrar nýtingar sem tilgreind sé á aðaluppdrætti.

Óljóst sé hvort því sé haldið fram í kæru að grenndarkynna hafi átt staðsetningu aukainngangs. Staðsetning hans á baklóð sé hefðbundin, krefjist ekki mikillar uppbyggingar fyrir aðgengi og ekki verði séð að rask geti orðið af honum. Hafi inngangurinn óveruleg grenndaráhrif og ekki meiri en almennt megi búast við í þéttbýli.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í athugasemdum með nefndri grein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort skilyrði séu til að víkja frá kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Í þeim tilfellum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Auglýsing um gildistöku umdeildrar deiliskipulagsbreytingar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2020 að undangenginni almennri auglýsingu skipulagstillögunnar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga sem felur í sér meginreglu um málsmeðferð breytinga á deiliskipulagi. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar eða hinn 15. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 17. september 2020 eða rúmum sjö mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður ekki talið að nefndur dráttur geti talist afsakanlegur eða önnur atvik séu fyrir hendi í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga svo að málið verði tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Fyrir liggur að kærendum var kunnugt um hið kærða byggingarleyfi seinni hluta júlímánaðar 2020, sbr. fyrirliggjandi tölvubréf frá þeim til yfirvalda Seltjarnarnesbæjar frá 22. júlí s.á. Þar var og tekið fram að tveir kærenda hafi átt fund með sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs bæjarins um málið hinn 25. júní 2020. Voru framkvæmdir að Sæbraut 6 þá þegar hafnar. Var eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar því liðinn þegar kæra í málinu barst. Verður með hliðsjón af framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga einnig að vísa þessum hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.