Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2021 Birkiland

Árið 2021, föstudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 14. maí 2021 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Birkilands vegna lóðar nr. 15.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. maí 2021, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Vogatunga27 sf., eigandi Birkilands 15, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútu­staðahrepps frá 14. s.m. að synja um óverulega breytingu á deiliskipulagi vegna nefndrar lóðar. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi óskaði eftir flýti­meðferð málsins og var þeirri beiðni hafnað 1. júní 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 27. maí 2021.

Málavextir: Deiliskipulag vegna Birkilands í landi Voga III, Skútustaðahreppi, tók gildi með aug­lýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2007. Fól það í sér að stofnaðar voru 30 frí­stunda­húsa­lóðir úr landi jarðarinnar ásamt þjónustusvæði, alls 17 ha að flatarmáli. Kærandi öðlaðist umráð einnar lóðar­innar, Birkilands 15, með lóðarleigusamningi hinn 4. júlí 2011. Breytingar á deiliskipulagi Birkilands tóku gildi með aug­lýsingum þar um í B-deild Stjórnar­tíðinda 6. september 2013 og 25. mars 2020. Í auglýsingu vegna síðari breytingarinnar kom fram aðhún væri gerð til að atvinnu­rekstur yrði heimilaður á einni lóð í samræmi við gildandi lóða­rleigusamninga.

Kærandi sótti hinn 4. nóvember 2020 um deiliskipulags­breytingu til þess að heimilt yrði að leigja út „frístundahús/frístundaeiningar“ á lóð hans Birkilandi 15. Í umsókninni var breytingunni m.a. lýst með þeim hætti að hún tæki til „atvinnureksturs sem varðar landnotkun“. Var umsókninni synjað á fundi sveitarstjórnar Skútu­staða­­hrepps 14. maí 2021 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu sveitar­­stjórnar á umleitan hans um breytingu á deiliskipulagi og afgreiðslan verið ómálefnaleg. Rök kæranda að baki beiðninni hafi ekki­­­ verið hrakin eða jafnvel ekki tekin fyrir. Gengið sé á rétt hans til atvinnu­starf­semi og jafnræðis ekki gætt. Þá hafi hann þegar orðið fyrir efna­hags­legum skaða af drætti málsins.

Málsrök Skútustaðahrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að deiliskipulag á svæðinu hafi verið gert að frumkvæði landeigenda og að samkvæmt lóðarleigusamningum hafi frá upphafi verið gert ráð fyrir heimild til gistireksturs á lóðum nr. 1 og 2. Forsendur þeirrar heimildar hafi verið staðsetning lóðanna í jaðri svæðisins. Ekki sé heimild til útleigu í lóðar­leigu­­­­samningi Birkilands 15 enda hafi ekki verið gert ráð fyrir gistirekstri á þeirri lóð. Yrði gisti­­­­rekstur heimilaður sé staðsetning lóðarinnar til þess fallin að gera megi ráð fyrir aukinni umferð gestkomandi, sem væri forsendubrestur gagnvart öðrum lóðarhöfum sem fjárfest hafi í lóðum í Birkilandi. Þá sé vísað til ákvæða reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtana­­hald.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar umsóknar kæranda um deiliskipulags­breytingu sem fæli í sér að á lóð hans Birkilandi 15 í landi Voga III, Skútustaðahreppi, yrði heimilt að leigja út „frístundahús/frístundaeiningar“.

­­­­­Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélaga er í höndum sveitarstjórna samkvæmt skipulags­lögum nr. 123/2010 og annast þær og bera ábyrgð á gerð og breytingu deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna er hægt að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt en einstakir aðilar eiga almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda.

Samkvæmt 11. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga er landnotkun skilgreind með þeim hætti að í henni felist ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, frístundahús, iðnað, verslun, útivist og landbúnað. Í 1. mgr. 28. gr. sömu laga kemur og fram að í aðalskipulagi sé sett fram stefna sveitarstjórnar m.a. varðandi landnotkun. Nánar er tilgreint í 2. mgr. ákvæðisins að í aðalskipulagi sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags, m.a. varðandi land­notkun og takmarkanir á landnotkun.

­­Tveir skipulagsuppdrættir fylgja Aðalskipulagi Skútustaðarhrepps 2011-2023, annars vegar sveitarfélagsuppdráttur og hins vegar þéttbýlisuppdráttur. Á þéttbýlis­­uppdrætti sem jafnframt sýnir hluta „sveitaruppdráttar“ er Birkiland í landi Voga III sýnt sem frístunda­byggð. Slíkt hið sama má lesa úr greinargerð aðalskipulagsins en þar er Birkiland tilgreint í töflu yfir frístunda­svæði og að jafnframt liggi fyrir deiliskipulag vegna 30 lóða. Líkt og að framan greinir var skipulag svæðisins sem frístundabyggð staðfest árið 2007. Svæðið Birkiland er samkvæmt framan­sögðu innan skilgreindrar frístundabyggðar. Samkvæmt h-lið gr. 6.2. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 er frístundabyggð skilgreind sem svæði fyrir frístundahús, tvö eða fleiri, og nærþjónustu sem þeim tengist, þ.m.t. orlofshús og varanlega staðsett hjólhýsi. Föst búseta sé óheimil í frístundabyggðum.

Í hinni kærðu ákvörðun er m.a. vísað til þess að atvinnurekstur á lóð Birkilands samrýmist ekki ákvæðum skipulagsreglugerðar um frístundabyggð án þess að þar sé vísað til ákvæða laga eða reglugerða þar að lútandi. Í rökstuðningi sveitarfélagsins til úrskurðar­nefndarinnar var hins vegar vísað til reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtana­hald varðandi skilgreiningu á því hvenær gistirekstur teldist til atvinnurekstrar. Gildissvið reglu­gerðarinnar er nánar afmarkað í 1. gr. hennar þar sem m.a. kemur fram að reglugerðin gildi um sölu gistingar á gististöðum. Reglugerðin mælir því fyrir um rekstur gististaða en ekki hefð­bundin afnot og ráðstöfunarrétt rétthafa fasteignar, svo sem til leigu fasteignar um lengri eða skemmri tíma. Þá var í rökstuðningi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar vísað til stað­setningar lóðar kæranda í sumarhúsabyggðinni sem gerði það að verkum að gististarfsemi á lóðinni gæti fylgt aukið ónæði gagnvart öðrum sumarhúsaeigendum á svæðinu. Bjuggu því efnisrök að baki synjun sveitarfélagsins um framangreinda breytingu á deiliskipulagi, en á það skal hins vegar bent að gildandi landnotkun umrædds svæðis kemur ekki í veg fyrir útleigu „frístundahúss/frístundaeininga“ á lóð kæranda.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið liggja ekki fyrir neinir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leiða eigi til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda af þeim sökum því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úr­skurðar­nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 14. maí 2021 um að synja um óverulega breytingu á deiliskipulagi Birkilands vegna lóðar nr. 15.