Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2021 Starfsleyfi Álfsnes

Árið 2021, föstudaginn 24. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2021, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis til reksturs skotvalla í Álfsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2021, er barst   nefndinni sama dag, kærir Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis þá ákvörðun Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 að gefa út starfsleyfi til félagsins til reksturs skotvalla í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg verði gert að veita nýtt starfsleyfi með rýmri opnunartíma svæðisins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 9. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 8. febrúar 2021 sendi Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis umsókn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um endurnýjun starfsleyfis fyrir starfsemi félagsins á skotvelli þess í Álfsnesi ásamt greinargerð, dags. 5. s.m. Hinn 15. s.m. sendi heilbrigðis­eftirlitið beiðni til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir, um umsögn um það hvort starfsemin í Álfsnesi væri í samræmi við skipulag. Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. febrúar 2021, barst heilbrigðis­eftirlitinu 3. mars s.á. Í henni kemur fram að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið en samkvæmt aðalskipulagi sé það skilgreint sem hafnar- og iðnaðarsvæði. Í ljósi þeirrar óánægju sem íbúar í nágrenni hafi látið í ljós og þeirra ábendinga sem borist hafi vegna hávaða telji skipulags­fulltrúi nauðsynlegt að setja strangari skilyrði um starfsemina, s.s. um opnunartíma og notkun á blýhöglum, samhliða því að kanna til hlítar nýjar staðsetningar fyrir starfsemina á höfuðborgar­svæðinu. Að lokinni kynningu starfsleyfisumsóknarinnar samþykkti heilbrigðis­eftirlitið að gefa út starfsleyfi til tveggja ára, eða til 4. maí 2023. Tilkynning um útgáfu þess ásamt greinar­gerð um útgáfuna, afriti af starfsleyfi og starfsleyfisskilyrðum var birt á vefsvæði heilbrigðis­eftirlitsins 21. maí 2021.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að mikil þörf sé fyrir svæði eins og hér um ræði. Mikilvægt sé að til séu svæði þar sem veiðimenn geti æft skotfimi til að tryggja að þeir verði færar skyttur. Mikil afturför væri ef veiðimenn hrektust aftur í yfirgefnar námur eða önnur opin svæði í nágrenni borgarinnar til að æfa sig. Þá sé það öryggismál að slík æfingasvæði séu opin. Umrætt svæði henti sérstaklega vel til skotæfinga og fyrir liggi að samkvæmt skipulagi sé ekkert íbúðarsvæði nálægt umræddu skotsvæði. Í umsókn sinni hafi kærandi sótt um óbreyttan opnunartíma enda hafi félagið talið að ekkert hefði breyst frá því núverandi starfsleyfisreglur hefðu verið samþykktar til 12 ára. Óbreyttur opnunartími sé grunnforsenda fyrir rekstri svæðisins.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi heilbrigðisnefnd það hlutverk að veita starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda starfsemi, sbr. viðauka IV við lögin, og setja starfseminni ramma í starfsleyfisskilyrðum um hvað geti talist ásættanleg umhverfisáhrif út frá m.a. starfseminni og staðsetningu. Skipulagsyfirvöld móti skipulag og landnotkun í skipulagi, sem ákvarði með því á hvaða svæðum tiltekin starfsemi sé heimil. Meti heilbrigðiseftirlitið í umsóknarferli hvort tiltekin starfsemi sé í samræmi við skipulag og beri að leita umsagnar, eftir atvikum skipulagsfulltrúa og/eða byggingarfulltrúa, um það hvort starfsemin sé í samræmi við skipulag, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir. Ekki sé heimilt að gefa út starfsleyfi nema fyrir liggi jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa og/eða byggingarfulltrúa. Helstu umhverfisáhrif umræddrar starfsemi séu hávaði og ónæði frá starfseminni fyrir nágranna og útivistarfólk, en auk þess hafi notkun á blýhöglum í för með sér mengunarhættu í umhverfinu. Það sé hlutverk heilbrigðiseftirlitsins að setja starfseminni mörk í starfsleyfi til að lágmarka þessi umhverfisáhrif.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að veita starfsleyfi til kæranda til reksturs skotvalla í Álfsnesi með þrengri skilyrðum en í fyrra starfsleyfi. Gerir kærandi þá kröfu að heilbrigðiseftirlitinu verði gert að gefa út nýtt starfsleyfi með rýmri opnunartíma skotæfingasvæðis félagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun eða breytir efni ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin kvað upp fyrr í dag úrskurð í kærumáli nr. 92/2021, þar sem ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021, um að gefa út starfsleyfi til handa kæranda máls þessa til reksturs skotvalla í Álfsnesi, var felld úr gildi. Liggur því nú fyrir að hin kærða ákvörðun í máli þessu hefur ekki lengur réttarverkan að lögum og hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.