Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

107/2021 Eyrarkláfur

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 28. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. júní 2021, um að uppsetning kláfs í hlíðum Eyrarfjalls á Ísafirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 1. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Eyrarkláfur ehf., þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. júní s.á. að uppsetning kláfs í hlíðum Eyrarfjalls á Ísafirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 12. ágúst 2021.

Málavextir: Hinn 20. janúar 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða uppsetningu kláfs upp á Eyrarfjall á Ísafirði samkvæmt 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 10.20 í 1. viðauka laganna.

Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kemur m.a. fram að fyrirhugað sé að setja upp kláf með byrjunarstöð í þéttbýlinu á Ísafirði neðan Eyrarfjalls, með einu millimastri á Gleiðarhjalla í hlíðum fjallsins og endastöð uppi á fjallinu. Í fyrsta áfanga sé gert ráð fyrir uppsetningu tveggja kláfa sem muni ganga hvor á móti öðrum. Framkvæmdin felist jafnframt í gerð bílastæða og því að lagfæra aðkomuveg að byrjunarstöðinni. Í öðrum áfanga sé fyrirhugað að byggja veitingahús ofan á Eyrarfjall í tengslum við endastöðina. Í þriðja áfanga sé fyrirhugað að byggja sjálfbærar gistieiningar eða hótel. Áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda sé utan vatnsverndarsvæða en hætta geti verið á mengun grunn- og yfirborðsvatns á framkvæmda- og rekstrartíma. Helstu áhrifaþættir framkvæmda á framkvæmdatíma séu framkvæmdir við möstur og stýrishús kláfsins ofan Hlíðarvegar og á toppi Eyrarfjalls, sem og möguleg olíumengun á svæðinu. Á rekstrartíma séu áhrifaþættir ásýnd kláfsins upp fjallið. Helsti áhrifaþáttur framkvæmda á vatnafar sé möguleg mengun ef olíuslys eigi sér stað. Unnið verði eftir verklagi til að lágmarka mengun af völdum óhappa.

 Með bréfum, dags. 22. janúar 2021, óskaði Skipulagsstofnun eftir umsögnum frá Ísafjarðarbæ, Minjastofnun Íslands, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Isavia, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og Vinnueftirlitinu. Umsagnir bárust í febrúar, apríl og maí 2021. Í umsögnum Ísafjarðarbæjar og Minjastofnunar kemur fram að þau telji framkvæmdina ekki háða mati á umhverfisáhrifum. Af hálfu Ísafjarðarbæjar er þó tekið fram að ekki sé nægilega gerð grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á heilsu og öryggi og er náttúruvá, s.s. snjóflóð og grjóthrun, nefnd í því sambandi. Í umsögnum Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Isavia, Náttúrufræðistofnunar, Veðurstofu og Vinnueftirlitsins er ekki tekin afstaða til matsskyldu, en í umsögnum Náttúrufræðustofnunar og Veðurstofunnar eru þó gerðar ýmsar athugasemdir og bent á atriði sem þurfi að rannsaka frekar eins og rakið er hér á eftir. Í umsögn Umhverfisstofnunar er tekið fram að hún telji framkvæmdina háða mati á umhverfisáhrifum.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar, dags. 11. febrúar 2021, segir að ljóst sé að mestu umhverfisáhrifin verði þau að kláfurinn muni breyta ásýnd Eyrarhlíðar og Eyrarfjalls séð frá Ísafjarðarbæ. Gera megi ráð fyrir að vélarhljóð sem tengist keyrslu á kláfinum upp og niður muni valda hljóðmengun á stóru svæði, en ekki sé minnst á þennan þátt í lýsingu. Þetta þurfi að kanna betur. Í lýsingu sé margtekið fram að ekki verði lagður vegur upp á Eyrarfjall, flutningur á efni verði með þyrlu eða lyftukláfi. Ljóst sé að grafa þurfi fyrir undirstöðum burðastaura og mannvirkja á Gleiðarhjalla og á Eyrarfjalli og hafi Náttúrufræðistofnun því spurt hvernig þessu verði háttað án vinnuvéla. Óljóst sé hvernig vatn og rafmagn verði flutt upp á Eyrarfjall. Þá sé mikilvægt að jarðfræði Eyrarfjalls verði rannsökuð vel með tilliti til þessara framkvæmda. Vistgerðir tilgreindar í matsskyldufyrirspurn teljist ýmist hafa hátt eða mjög hátt verndargildi. Telji stofnunin mörgum mikilvægum atriðum ósvarað um framkvæmd verksins og grunnrannsóknum ábótavant er varði náttúrufar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 12. febrúar 2021, kemur fram að þegar um sambærilegar framkvæmdir hafi verið að ræða hafi verið hvatt til þess að farið yrði varlega þegar um sé að ræða varanlegar breytingar á fjöllum eða landslagi sem setji sterkan svip á sitt nánast umhverfi. Slíkar framkvæmdir geti haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér vegna varanlegra breytinga á landslagi. Ekki sé um nauðsynlegar framkvæmdir að ræða til að tryggja öryggi íbúa og þar sem um sé að ræða nýjung í mannvirkjagerð telji Umhverfisstofnun að mat á umhverfisáhrifum sé rétti vettvangurinn til að skoða umhverfisáhrif slíkra framkvæmda.

Í umsögn Veðurstofunnar, dags. 11. febrúar 2021, er tekið fram að kláfurinn opni aðgengi að skíðaleiðum þar sem hætta sé á að skíðafólk setji af stað snjóflóð. Í reglugerð nr. 636/2009 um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum segi í 11. gr. að „lyftumöstur og togvír stólalyftna og kláfa skulu þola ástreymingsþrýsting hönnunarflóðs, sbr. leiðbeiningar Veðurstofunnar“. Það þurfi að hafa í huga við hönnun kláfsins. Í reglugerðinni segi einnig að „sé talin hætta á snjóflóðum innan skipulagðra skíðasvæða skal rekstraraðili gera áætlun um daglegt eftirlit og tímabundnar öryggisaðgerðir“. Ef reka eigi kláfinn að vetri til fyrir skíðafólk þurfi að liggja fyrir áætlun um hvernig snjóflóðahætta verði metin á þessum skíðaleiðum og viðbúnað vegna hættunnar. Þá þurfi að huga að því hvernig brugðist verði við ef bilun verði í kláfnum og koma þurfi fólki niður af fjallinu án hans. Í umsögninni kemur einnig fram að umfjöllun um veður hefði mátt vera bitastæðari. Þannig komi ekki fram hvernig stuðst verði við þær veðurmælingar sem nefndar séu eða hverjar séu veðurfarslegar takmarkanir á uppbyggingu og rekstri. Ljóst sé að þótt kláfurinn verði ekki í notkun að vetrarlagi þurfi vírar, staurar og byggingar að þola það veðurfar sem sé á svæðinu að vetri til.

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna umsagna sem hann og gerði með ódagsettum bréfum. Vegna umsagnar Veðurstofunnar kemur fram af hálfu framkvæmdaraðila að kláfurinn sé ekki ætlaður skíðafólki, enda nánast ómögulegt að fara á skíðum frá Eyrarfjalli þar sem endastöð kláfsins verði. Í dag gangi fólk þó upp á Gleiðarhjalla og skíði niður hlíðina en það sé utan ábyrgðarsviðs framkvæmdaraðila. Að öðru leyti verði fylgt öllum viðbragðsáætlunum og aðgerðum þeirra sem hafi með snjóðflóð og snjóðflóðahættu að gera á svæðinu. Kláfurinn verði útbúinn neyðardrifi samhliða aðaldrifi, öryggisbremsum og rafstöðum í báðum stöðvarhúsum til notkunar í neyðartilfellum og auk þess verði gert ráð fyrir neyðargistingu með samanbrotnum rúmum í endastöð. Hafi verið litið til veðurfars aftur í tímann til að gera sér grein fyrir hvað byggingar þurfi að þola og verði farið ítarlega yfir þau atriði ef verkfræðivinna hefjist.

Svör framkvæmdaraðila vegna umsagnar Náttúrufræðistofnunar eru á þá lund að hönnunarferli vegna stærðar og útlits stöðva sé í gangi. Leitað hafi verið eftir hljóðmælingum frá sambærilegum kláfum erlendis og séu þeir nánast hljóðlausir, en drifbúnaður sé í steyptum kjallara og þar af leiðandi sé engin hljóðmengum frá honum. Millistaur verði byggður á kletti og verði burðarankeri í klettinn og steyptar undirstöður. Settir verði upp bráðabirgðastaurar sem haldi uppi vír fyrir vinnulyftu sem verði síðan fjarlægðir eftir að kláfurinn sé kominn í notkun. Þær vinnuvélar sem verði hugsanlega fluttar upp á fjallið fari með þyrlu. Þá verði settur upp burðarvír sem muni bera uppi háspennulínu og háþrýstivatnslögn þar sem vatn verði tekið frá vatnsveitu bæjarins og dælt upp í geymslutank sem komið verði fyrir inni í lyftuhúsi uppi á fjallinu.

Vegna umsagnar Umhverfisstofnunar tekur framkvæmdaraðili fram að það sé einlægur vilji þeirra sem að framkvæmdinni standi að verkið verði unnið með sem minnstu raski á fjallinu, náttúru og gróðri. Með það að leiðarljósi hafi þessi gerð af kláfi orðið fyrir valinu og verði einungis einn staur settur niður á klett á miðri leið. Framkvæmdin komi til með að skapa 25-30 varanleg störf ásamt afleiðustörfum, þjónustu og tekjum fyrir sveitarfélagið. Muni framkvæmdin efla ferðaþjónustu svæðisins. Um sé að ræða afturkræft verk þar sem engar varanlegar breytingar verði gerðar á landslagi eða fjallinu. Verkið sé í hönnunarferli og verði í því stuðst við sambærilegar framkvæmdir erlendis.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 2. júní 2021. Kemur fram í henni að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli framkvæmdar, svo sem stærð og umfangi framkvæmdarinnar í heild, mengunar og hættu á slysum, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun taki undir með Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun um að gera megi ráð fyrir því að helstu áhrif framkvæmdarinnar felist í breytingum á landslagi. Skipulagsstofnun telji að fjalla þurfi nánar um mismunandi valkosti bygginga, m.a. stærð þeirra og útlit og greina nánar og meta hugsanleg ásýndaráhrif af fyrrnefndum byggingum, sem og öðrum fyrirhuguðum mannvirkjum, eins og Umhverfisstofnun bendi á í umsögn sinni. Skipulagsstofnun telji ekki útilokað að skíðafólk muni nýta sér kláfinn þótt viðkomandi renni sér ekki niður brekkur beint frá endastöð. Þar sem ljóst sé að fyrirhugað sé að hafa kláfinn í rekstri um helgar yfir vetrartímann þegar þannig viðri sé ástæða til, með hliðsjón af ábendingum Veðurstofunnar og í ljósi þeirrar sérfræðiþekkingar sem stofnunin búi yfir, að fram fari nánari greining og mat á hættu á snjóflóðum á hugsanlegum skíðaleiðum og á því hvort að hætta kunni að vera á því að farþegar með kláfnum setji af stað snjóflóð. Þrátt fyrir að fyrirhugaðar framkvæmdir séu að miklu leyti afturkræfar hvað varði ásýndaráhrif telji Skipulagsstofnun að horfa beri til þess að mannvirkin komi til með að standa í langan tíma. Verulegar ásýndarbreytingar kunni að verða á Eyrarfjalli með tilkomu fyrirhugaðra framkvæmda og ljóst að þær kunni að hafa áhrif á marga og kalli þessar staðreyndir á nánari greiningu og mat á umfangi áhrifa á ásýnd fjallsins.

Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna kynni fyrirhuguð framkvæmd að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum. Skyldi hún því háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að ein aðalástæðan fyrir vali þessarar tegundar kláfs sé sú að slíkur kláfur sé vel til þess fallinn að raska sem minnstu. Verði settur einn staur á leiðinni upp og komi hann beint á topp Gleiðarhjalla og verði endastöð uppi á fjallsbrún. Verði með engu móti séð að kláfurinn komi til með að valda grjót- eða snjóflóðum. Hafi komið fram að hann verði ekki starfræktur á veturna fyrir skíðafólk þar sem það sé nánast útilokað að renna sér á skíðum frá þeim stað þar sem endastöð verði. Það verði engir slóðar, vegir eða skurðir gerðir í hlíðum Eyrarfjalls, þar sem rafmagn og vatn verði flutt upp samhliða burðarvírum kláfsins. Verði ásýndaráhrif í lágmarki og hönnun mannvirkja með þeim hætti að þau falli vel að landslagi.

Nefna megi fyrirhugaðan kláf í Skálafelli sem sé með allt öðrum hætti ef horft sé til ásýndar og gerðar kláfs, en þar verði um að ræða 14 staura í hlíðum Skálafells, auk vegslóða.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar veki furðu þar sem enginn umsagnaraðila segi beint að þeir telji að kláfurinn þurfi að gangast undir mat á umhverfisáhrifum þótt eðlilega komi fram ýmsar spurningar ásamt ábendingum. Umrædd framkvæmd verði innan marka Ísafjarðarbæjar sem telji ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en jafnframt að framkvæmdin muni hafa nokkuð jákvæð hagræn áhrif á norðanverða Vestfirði.  

 Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er tekið fram að ástæða þess að stofnunin telji framkvæmdina háða mati á umhverfisáhrifum sé fyrst og fremst möguleg áhrif hennar á ásýnd og landslag. Ráðist það af því að fyrirhugað sé að koma fyrir umfangsmiklum mannvirkjum í hlíð og á toppi fjalls nálægt þéttbýli sem ásamt kláfhúsi kunni að vera sýnileg víða úr Ísafjarðarbæ, en fyrir liggi að útlit byrjunar- og endastöðva sé á hönnunarstigi. Í umsögnum Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar sé þeirri afstöðu lýst að fyrirhuguð mannvirki muni breyta ásýnd Eyrarhlíðar og Eyrarfjalls séð víða að og þannig leiða til varanlegra breytinga á landslagi. Skipulagsstofnun taki undir mat þessara fagstofnana. Þá sé ljóst að mannvirkin komi til með að standa í langan tíma og að framkvæmdirnar kunni að hafa áhrif á marga, eins og rakið sé í hinni kærðu ákvörðun.

Ekki sé útilokað að skíðafólk nýti sér kláfinn þótt viðkomandi renni sér ekki niður brekkur beint frá endastöð, enda séu áætlanir uppi um að hafa kláfinn í rekstri um helgar yfir vetrartímann ef veður leyfi. Eins og fram komi í svörum framkvæmdaraðila vegna umsagnar Veðurstofunnar frá 12. febrúar 2021 gangi skíðafólk upp á Gleiðarhjalla og skíði niður hlíðina. Í stað þess að ganga verði möguleiki á að fólkið taki kláfinn upp. Með þetta í huga, sem og efni umsagnar Veðurstofunnar, og þá að virtri þeirri sérfræðiþekkingu sem stofnunin búi yfir, telji Skipulagsstofnun að það sé ekki stætt á því fyrir framkvæmdaraðila að byggja á því að kláfurinn sé ekki ætlaður fyrir skíðafólk. Af umsögn Veðurstofunnar verði ráðið að það sé hætta á að skíðafólk setji af stað snjóflóð.

Ekki sé hægt að bera saman uppbyggingu kláfs í Skálafelli, sem matsskylduákvörðun stofnunarinnar frá 20. júlí 2018 hafi lotið að, og fyrirhugaðan kláf í hlíðum Eyrarfjalls. Aðalmunurinn sé sá að fyrirhugaðar framkvæmdir í hlíðum Eyrarfjalls og uppi á fjallinu séu í „mikilli nálægð við þéttbýlið“ á Ísafirði og séu því líklegar til að hafa áhrif á margt fólk, sbr. i-lið 3. tl. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Líta beri einnig til þess að fjallið sé að langmestu leyti óraskað og fyrirhuguð mannvirki því líkleg til þess að hafa áhrif á upplifun íbúa og ferðafólks. Það eigi ekki við um framkvæmdirnar í Skálafelli þar sem skíðasvæði hafi verið rekið í um 60 ár og ýmis mannvirki hafi verið fyrir á svæðinu. Megi þar nefna fimm skíðalyftur, auk tveggja húsa og fjarskiptamasturs uppi á fjallinu.

Lögð sé áhersla á að umsagnir umsagnaraðila séu ekki bindandi gagnvart Skipulagsstofnun eins og úrskurðarnefndin hafi oft tekið fram í úrskurðarframkvæmd sinni. Megi t.d. vísa til úrskurðar frá 15. október 2015 í máli nr. 46/2014 Laxeldi í Eyjafirði þar sem segi: „Úrskurðarnefndin leggur hins vegar áherslu á að Skipulagsstofnun er ekki bundin af umsögnum sem aflað er sem hluta af rannsókn máls samkvæmt fyrirmælum í lögum heldur leggur hún sjálfstætt mat á innbyrðis vægi þeirra umsagna sem leitað er eftir.“ Skipulagsstofnun hafi lagt með heildstæðum hætti mat á efni umsagna umsagnaraðila og annarra gagna í málinu og síðan tekið með sjálfstæðum hætti afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Í umsögn Umhverfisstofnunar komi m.a. fram að mat á umhverfisáhrifum sé rétti vettvangurinn til að skoða umhverfisáhrif framkvæmda af þessu tagi. Í niðurlagi umsagnarinnar segi síðan svo: „Að teknu tilliti til ofangreindra atriða telur Umhverfisstofnun líklegt að umrædd framkvæmd gæti haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.“ Með þessi orð í huga séu framangreind orð kæranda ekki rétt varðandi það að enginn umsagnaraðila segi beint að þeir telji að kláfurinn þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn Ísafjarðarbæjar, dags. 8. apríl 2021, komi fram að ekki sé talið að eðli framkvæmdarinnar hafi neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag Ísafjarðarbæjar. Jafnframt að framkvæmdin muni hafa nokkuð jákvæð áhrif á norðanverða Vestfirði. Ítrekað sé að engar framkvæmdir verði í hlíðum Eyrarfjalls og þar af leiðandi engar breytingar á landslagi. Eins og fram hafi komið verði einn staur á Gleiðarhjalla. Byrjunarstöð verði niður undir byggð þar sem leyft sé að byggja og fyrir neðan varnarlínu. Þá verði kláfurinn ekki skíðalyfta og verði bannað að fara með skíðabúnað upp og niður. Því banni verði framfylgt af starfsmanni sem verði í kláfnum í hverri ferð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. júní 2021 að uppsetning kláfs í hlíðum Eyrarfjalls á Ísafirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. flokki B, sbr. lið 10.20 í 1. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka. Undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða sem skipta mismiklu máli vegna þeirrar framkvæmdar sem til skoðunar er hverju sinni. Jafnframt segir í nefndri 3. mgr. 6. gr. að Skipulagsstofnun skuli rökstyðja niðurstöðu sína um matsskyldu með hliðsjón af viðmiðum í 2. viðauka og að ef stofnunin ákveði að framkvæmd sé ekki matsskyld sé henni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar. Um síðastnefnd atriði, sem skeytt var við lögin með breytingalögum nr. 96/2019, segir í frumvarpi til þeirra laga að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varði framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja ákvörðun sína á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem henni berist frá öðrum, til dæmis stofnunum og almenningi.

Löggjafinn hefur ákveðið að metið verði hverju sinni hvort járnbrautir, sporvagnar, lestir í lofti og neðanjarðar, svifbrautir og ámóta brautir af sérstakri gerð sem notaðar eru eingöngu eða aðallega til fólksflutninga séu líklegar til að valda svo umtalsverðum áhrifum að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram, sbr. tl. 10.20 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Ber við það mat að líta til þeirra viðmiða sem fram koma í 2. viðauka laganna og lúta að eðli framkvæmdar og staðsetningu, auk gerðar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar um að þeir þættir sem falla undir eðli framkvæmdarinnar, staðsetningu eða eiginleika áhrifa hennar, kölluðu á að framkvæmdin undirgengist mat á umhverfisáhrifum, skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd og áfangaskiptingu hennar er lýst, auk þess sem fjallað er um umhverfisáhrif hennar eins og þeim er lýst af framkvæmdaraðila og um afstöðu umsagnaraðila. Þá er í ákvörðuninni einnig vikið að skipulagi á svæðinu og leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum fjallar stofnunin um eðli framkvæmdarinnar og staðsetningu auk þess að fjalla um eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar.

Hvað varðar eðli framkvæmdar og staðsetningu rekur Skipulagsstofnun í ákvörðun sinni að um sé að ræða nokkuð umfangsmiklar framkvæmdir þegar á heildina sé litið. Samanstandi þær af byggingu byrjunarstöðvar við þéttbýlismörk á Ísafirði, uppsetningu um 1.400 m langra kláfvíra og burðarmasturs um miðja vegu upp Eyrarfjall og síðan byggingu endastöðvar, veitingasalar og hótels fyrir um 60-70 gesti á toppi fjallsins. Séu framkvæmdirnar að mestu leyti á óröskuðu svæði í hlíðum Eyrarfjalls og uppi á fjallinu í mikilli nálægð við þéttbýlið á Ísafirði. Þar sem hönnun mannvirkja liggi ekki fyrir, m.a. bygginga á toppi Eyrarfjalls, s.s. veitingastaðar og hótels, sé ekki hægt að átta sig á ásýndarbreytingum sem gætu orðið með tilkomu þeirra. Bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun telji að helstu umhverfisáhrifin verði að fyrirhuguð mannvirki muni breyta ásýnd Eyrarhlíðar og Eyrarfjalls séð víða að og þannig leiða til varanlegra breytinga á landslagi. Skipulagsstofnun taki undir með framangreindum stofnunum og telji að fjalla þurfi nánar um mismunandi valkosti bygginga, m.a. stærð þeirra og útlit og greina nánar og meta hugsanleg ásýndaráhrif af fyrrnefndnum byggingum, sem og öðrum fyrirhuguðum mannvirkjum. Einnig telji Skipulagsstofnun ekki útilokað að skíðafólk muni nýta sér kláfinn þótt viðkomandi renni sé ekki niður brekkur beint frá endastöð. Þar sem ljóst sé að fyrirhugað sé að hafa kláfinn í rekstri um helgar yfir vetrartímann þegar þannig viðri sé ástæða til, með hliðsjón af ábendingum Veðurstofunnar, að fram fari nánari greining og mat á hættu á snjóflóðum.

Skipulagsstofnun bendir einnig á að áhrif framkvæmdar beri að skoða í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa einkum með tilliti til stærðar og fjölbreytileika áhrifa, m.a. fjölda fólks sem verði líklega fyrir áhrifum, hverjar líkur séu á áhrifum, tímalengdar og afturkræfni áhrifa. Eyrarfjall og Gleiðarhjalli séu áberandi kennileiti á Ísafirði og þrátt fyrir að framkvæmdirnar séu að miklu leyti afturkræfar hvað varði ásýndaráhrif telji stofnunin að horfa beri til þess að mannvirkin komi til með að standa í langan tíma. Verulegar ásýndarbreytingar kunni að verða með tilkomu fyrirhugaðra framkvæmda og ljóst að þær muni hafa áhrif á marga. Kalli þessar staðreyndir á nánari greiningu og mat á umfangi áhrifa á ásýnd fjallsins.

Við undirbúning ákvörðunar sinnar aflaði Skipulagsstofnun umsagna Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar, Náttúrufræði­stofnunar, Minjastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Isavia, Ísafjarðar­bæjar og Vinnueftirlitsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gafst framkvæmdaraðila tækifæri til andsvara. Í umsögn Umhverfis­stofnunar kom fram að hún teldi að mat á umhverfisáhrifum væri rétti vettvangurinn til að skoða umhverfisáhrif slíkra framkvæmda, eins og um er deilt. Skipulagsstofnun tók undir þau sjónarmið, sem og sjónarmið á sömu lund sem fram komu hjá Náttúrufræðistofnun og vörðuðu ásýndarbreytingar. Komst Skipulagsstofnun þannig að niðurstöðu um það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum að rannsökuðu máli. Er í þessu sambandi rétt að árétta að þótt Skipulagsstofnun sé ekki bundin af þeim umsögnum sem hún aflar frá sérfræðistofnunum við lögbundna meðferð máls er henni heimilt að vísa til þeirra umsagna til stuðnings niðurstöðu sinni.

Skipulagsstofnun lagði áherslu á að breytingar yrðu á ásýnd svæðis sem að mestu væri óraskað og að það hefði víðtæk áhrif, en ekki væri á þessu stigi hægt að segja til um ásýndaráhrif þar sem hönnun mannvirkja lægi ekki fyrir. Framkvæmdaraðili hefur ákveðið forræði á framkvæmd sinni sem hann kynnti sem áfangaskipta án þess að öll hönnunargögn væru til staðar vegna síðari áfanga. Með áðurnefndum breytingalögum nr. 96/2019 var tveimur málsliðum bætt við ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um þær upplýsingar sem framkvæmdaraðili þyrfti að leggja fram þegar hann tilkynnti framkvæmd til Skipulagsstofnunar til matsskyldu. Segir í athugasemdum frumvarps til breytingalaganna að um innleiðingu sé að ræða á tilskipun 2014/52/ESB en í 26. gr. aðfaraorða hennar segði að þær upplýsingar sem framkvæmdaraðili skuli leggja fram eigi að fjalla um lykilþætti framkvæmdarinnar þannig að viðeigandi stjórnvald geti tekið ákvörðun um matsskyldu. Er því ljóst að þrátt fyrir að ekki sé þörf á því að full hönnun liggi fyrir vegna allra þátta fyrirhugaðrar framkvæmdar verður að gera þá kröfu að fyrir liggi nægar upplýsingar miðað við aðstæður til að hægt verði að komast að niðurstöðu um hvort framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð áhrif. Þá verður að gera meiri kröfur um upplýsingar um frágang og hönnun framkvæmdar eftir því sem staðhættir gefa tilefni til. Í þessu sambandi bendir úrskurðarnefndin einnig á að óvissa um þessi atriði getur ekki leitt til þess að mat á umhverfisáhrifum fari ekki fram. Var Skipulagsstofnun því rétt að láta framkvæmdaraðila bera halla af því að óvíst væri hvaða ásýndaráhrif yrðu af framkvæmd hans, eins og hann tilkynnti hana til Skipulagsstofnunar. Að þessu virtu tók stofnunin tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga með því að vísa til hönnunar framkvæmdarinnar, sbr. i-lið 1. tl., og umfang umhverfisáhrifa hennar, sbr. i-lið 3. tl.

Eitt þeirra viðmiða sem líta skal til við mat á því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif er hætta á stórslysum og/eða náttúruhamförum sem varða framkvæmdina, þ.m.t. af völdum loftslagsbreytinga, samkvæmt vísindalegri þekkingu, sbr. vi-lið 1. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Vísaði Skipulagsstofnun til þess að slysahætta kynni að vera fyrir hendi ef farþegar með kláfnum hygðust skíða niður af Eyrarfjalli, m.t.t. snjóflóða, og að leggja þyrfti mat á þessi hugsanlegu áhrif. Teldi stofnunin enda ekki útilokað að skíðafólk nýtti sér kláfinn þótt viðkomandi renndi sér ekki niður beint frá endastöð, en af hálfu framkvæmdaraðila hafði verið bent á að nánast ómögulegt væri að að fara á skíðum niður Eyrarfjall frá þeim stað þar sem endastöð kláfsins yrði. Í athugasemdum sínum af tilefni umsagnar Veðurstofunnar benti framkvæmdaraðili auk þess á að í dag gengi skíðafólk upp á Gleiðarhjalla og skíðaði niður hlíðina. Enn fremur að fylgt yrði viðbragðsáætlun vegna snjóflóða og snjóflóðahættu. Í ljósi viðbragða framkvæmdaraðila er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hefði mátt rökstyðja frekar niðurstöðu sína að þessu leyti, en í viðbótarathugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar tekur framkvæmdaraðili fram að starfsmaður, sem verði um borð í kláfnum í hverri ferð, muni ganga úr skugga um að enginn taki skíðabúnað um borð. Það verður þó ekki séð að sá ágalli hafi haft áhrif á niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskyldu hinna umþrættu framkvæmda, enda var áhersla stofnunarinnar fyrst og fremst á þá ásýndarbreytingu sem af framkvæmdinni yrði og upplýsa þyrfti betur um í mati á umhverfisáhrifum hennar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hina kærðu matsskylduákvörðun, lagt viðunandi mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með ásættanlegum hætti.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. júní 2021 um að uppsetning kláfs í hlíðum Eyrarfjalls á Ísafirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

166/2021 Reykjabakki

Með

Árið 2021, mánudaginn 27. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 166/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 11. nóvember 2021 um að fresta afgreiðslu deiliskipulags í landi Reykjabakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 18. nóvember 2021, kærir eigandi, Högnastíg, Flúðum, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 11. nóvember 2021 að fresta afgreiðslu deiliskipulags í landi Reykjabakka. Er þess krafist að „afgreiðsla skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, dags. 18. október 2021, á deiliskipulagstillögu kæranda í landi Reykjabakka L166812 verði felld úr gildi hvað varðar vegtengingu Reykjabakka L166812.“ Til vara er þess krafist að „afgreiðsla skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, dags. 18. október 2021, á deiliskipulagstillögu kæranda í landi Reykjabakka L166812 verði felld úr gildi.“

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 17. desember 2021.

Málsatvik og rök: Kærandi leigir spildu úr landi Reykjabakka, Hrunamannahreppi, en spildan ber heitið Reykjalaut. Á árinu 2020 hófst undirbúningur að deiliskipulagi fyrir spilduna, en ekkert slíkt var í gildi fyrir svæðið. Deiliskipulagstillaga var auglýst frá 14. júní til 27. ágúst 2021 og var sérstök kynning send lóðarhöfum aðliggjandi lóða. Bárust athugasemdir, dags. 5. september 2021, frá eiganda aðliggjandi lands Grafarbakka II spilda 1. Á fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 13. október 2021 var deiliskipulagstillagan tekin til umræðu, auk þeirra athugasemda sem bárust. Var mælst til þess að sveitarstjórn myndi fresta afgreiðslu málsins. Þá var því beint til málsaðila að semja við landeiganda aðliggjandi lands Grafarbakka II spilda 1 um það landsvæði sem fyrirhugað væri að þyrfti að fara undir veg til að tengja lóð Reykjalautar við Hrunaveg með fullnægjandi hætti. Á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps 18. nóvember s.á. var málið tekið fyrir og samþykkt að fresta afgreiðslu þess. Tekið var undir afstöðu skipulagsnefndar um að málsaðilar deiliskipulagssvæðisins myndu semja við landeiganda um það landsvæði sem þyrftu að fara undir veg.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann líti svo á að með bréfi, dags. 18. október 2021, hafi skipulagsnefnd tekið ákvörðun um að fallast á deiliskipulagstillögu kæranda með þeirri breytingu að vegtenging Reykjabakka yrði felld á brott og landið þess í stað tengt við Hrunaveg í gegnum aðliggjandi jörð Grafarbakka II.

 Af hálfu hreppsyfirvalda er bent á að það hafi verið fyllilega í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti að fresta afgreiðslu málsins og gefa þannig kæranda svigrúm til að afla samþykkis eigenda aðliggjandi jarða fyrir aðkomu að svæðinu. Með þeirri afgreiðslu á þessu stigi sé t.a.m. mun betur gætt að meðalhófi en með því að taka endanlega ákvörðun um að synja eða samþykkja umrædda deiliskipulagstillögu.

 —–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 18. nóvember 2021 að fresta afgreiðslu deiliskipulags í landi Reykjabakka. Ákvörðun um frestun afgreiðslu máls er liður í málsmeðferð deiliskipulagstillögu, en telst ekki vera ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Hefur enda deiliskipulagstillaga kæranda hvorki verið samþykkt né hefur henni verið synjað. Þegar af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni. Vilji kærandi ekki una því að máli hans sé frestað getur hann beint því til sveitarstjórnar að taka lokaákvörðun í málinu og er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Dragist úr hófi að taka slíka ákvörðun skal á það bent að einnig er hægt að kæra þann drátt á afgreiðslu máls til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

114/2021 Giljasel

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefáns­son varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. júní 2020 um að gefa út byggingarleyfi fyrir skjólgirðingu á lóðinni Giljaseli 8 og ákvörðun hans frá 9. júní 2021 um að synja um beitingu þvingunar­úrræða vegna girðingarinnar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júlí 2021, kæra eigendur, Giljaseli 6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. júní 2020 að gefa út byggingarleyfi fyrir skjól­­­girðingu á lóðinni Giljaseli 8. Er þess krafist að byggingarleyfið verði fellt úr gildi, en byggingar­áform voru ­samþykkt 10. desember 2019. Þá ber málskot kærenda með sér að einnig sé kærð ákvörðun frá 9. júní 2021 um synjun byggingarfulltrúa um beitingu þvingunarúrræða vegna sömu girðingar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. ágúst 2021.

Málavextir: Kærendur sendu byggingarfulltrúanum í Reykjavík tölvupóst 9. maí 2019 vegna framkvæmda á lóðinni Giljaseli 8. Kom þar fram að settir hefðu verið upp girðingastaurar og að tveir þeirra væru innan við 1,8 m frá mörkum lóðanna Giljasels 6 og 8. Þá fylgdi mynd með í viðhengi. Kærendur töldu líklegt að nýta ætti staurana sem undirstöður fyrir skjólgirðingu og tóku fram að þeir hefðu ekki veitt leyfi fyrir slíkum framkvæmdum.

 Eigendur Giljasels 6 og 8 höfðu hinn 9. janúar 2019 gert með sér samkomulag í því skyni að jafna ágreining sem risið hafði árið áður. Varðaði samkomulagið m.a. skjól­girðingu á „aftari/efri hluta garðs“ Giljasels 8. Eigendur síðarnefndu lóðarinnar sóttu hinn 22. októ­ber 2019 um ­­leyfi fyrir áður gerðum breytingum á lóð og byggingu sólstofu. Til stuðnings um­sókn sinni lögðu þeir fram áðurnefnt sam­komulag. Byggingafulltrúi samþykkti byggingar­áform­in 10. desember s.á. og tók m.a. fram að um væri að ræða samþykki á áður gerðri fram­kvæmd sem gerð hefði verið án byggingar­leyfis. Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er m.a. um að ræða viðarklædda skjólgirðingu ofan á steyptum stoðvegg á vesturhlið lóðarinnar Giljasels 8, þ.e. á framhlið hennar meðfram Giljaseli, að horni lóðarinnar á mörkum hennar gagnvart lóðinni Giljaseli 6. Skjól­girðingin á umræddri hlið er hæst 1,80 m við mörk áðurgreindra lóða.

Hinn 18. apríl 2021 sendu kærendur byggingarfulltrúa tölvupóst þar sem fram kom að ekkert svar hefði borist við fyrra erindi þeirra frá árinu 2019 og að skjólgirðing hefði verið sett upp á meðan þeir hefðu verið „úti á landi frá s.l. fimmtudegi“. Töldu þeir heildarhæð stoðveggjar og skjól­girðingar vera um 2,5 m. Óskuðu kærendur eftir upp­lýsingum um það hvort veitt hefði verið leyfi fyrir framkvæmdinni. Degi síðar sendi byggingar­fulltrúi kærendum afrit af áðurnefndu sam­komulagi eigenda lóðanna. Kærendur svöruðu um hæl að þar væri um aðra framkvæmd að ræða. Í kjölfarið upplýsti byggingar­fulltrúi kærendur um að skilmálaeftirlit embættisins myndi taka erindið til skoðunar og bregðast við eftir atvikum. Kærendur höfðu á ný samband 7. og 16. maí s.á. og kom m.a. fram í síðarnefnda tölvupósti kærenda að þeir hefðu ekki veitt leyfi fyrir skjólgirðingu og að ljóst mætti vera að fjarlægja þyrfti þann hluta girðingarinnar sem væri nær lóðamörkum en hæð hennar. Hinn 9. júní 2021 greindu borgaryfirvöld kærendum frá því að byggingar­­leyfi fyrir framkvæmdunum hefði verið gefið út 30. júní 2020, að á samþykktum aðal­upp­drætti frá 10. desember 2019 væri gert ráð fyrir umræddum skjólvegg í suðausturhorni lóðarinnar og að í ljósi þess myndi embætti byggingar­­fulltrúa ekki aðhafast frekar vegna málsins.

Málsrök kærenda: Kærendur telja girðinguna búa til blint horn sem geri þeim erfiðara að sjá öku­­­­tæki og gangandi vegfarendur er þau aki út úr bílastæði sínu. Ekki hafi verið farið eftir gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um girðingar á lóðum. Kærendur hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá Reykjavíkurborg til að hlutast til um málið. Þeir ­­hafi ekki veitt leyfi fyrir skjól­girðingu við lóðamörk og álits þeirra hafi ekki verið leitað. Kærendur hafi sent inn ótal fyrir­spurnir, hringt í tugi skipta og gert allt sem í þeirra valdi standi til að fá upplýsingar um stöðu málsins hjá byggingarfulltrúa, en hann hafi ýmist ekki svarað, svarað seint eða tekið ákvarðanir á skjön við reglur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­­mála nr. 130/2011 sé liðinn en byggingarleyfi hafi verið samþykkt 30. júní 2020. Til vara er gerð krafa um að kröfu kærenda verði hafnað þar sem að á grundvelli samkomulags lóðarhafa lóðanna tveggja og samþykkis Reykjavíkurborgar sé búið að reisa girðingu í kringum nær alla lóðina Giljasel 8. Samkomu­lag eigenda lóðanna vegna stoðveggjar á lóðamörkum hafi legið fyrir þegar byggingar­­­­leyfi hafi verið gefið út. Veggurinn sem kæran snúi að liggi meðfram borgarlandi en við enda veggjarins sé staur, á lóðamörkum Giljasels 6 og 8. Staurinn sé 9 cm breiður, alls 0,0039% af heildarlengd umræddra lóðamarka. Með hliðsjón af meðalhófi verði ekki séð að staurinn hafi slík áhrif að fella skuli byggingarleyfið úr gildi og að skjólveggurinn verði rifinn.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar vísa til þess að skjólgirðingin sem um ræði liggi að ­­­­mörkum lóðar þeirra og lóðar kærenda en ekki á milli lóðanna. Þá sé steypti stoðveggurinn í sömu hæð og veggur sem tilheyri kærendum á lóð þeirra, eða 1,3 m að hæð. Engin breyting sé á hæð í landslagi lóðar. Stoðveggurinn sem snúi að gangstétt á borgarlandi sé 1,7 m frá gang­stéttinni. Áður hafi verið trjágróður á milli lóðanna sem hafi náð allt að 2,5 m hæð.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur taka fram að tilgreint samkomulag á milli kærenda og leyfishafa nái ekki til umræddrar skjólgirðingar heldur til girðingar á öðrum stað á ­­­­mörk­um lóðanna. Kærendur hafi kært ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar 29 dögum eftir að þeim hafi verið tilkynnt um ákvörðun um byggingarleyfi og að hún væri kæranleg til nefnd­arinnar. Í fundargerð byggingarfulltrúa frá 10. desember 2019 komi m.a. fram að skilyrði fyrir samþykki byggingarleyfis séu m.a. að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðar­hafa að­liggj­andi lóða. Þess hafi ekki verið gætt.

Þá hafi kærendur aldrei heyrt að það sé í lagi að brjóta reglur vegna þess að brotið sé bara 0,0039%. Afgreiðsla embættismanna borgarinnar á innsendum erindum þeirra hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Frá því að framkvæmdir leyfishafa hófust sumarið 2018 hafi kærendur reynt að fá leiðsögn starfsmanna byggingarfulltrúa en fálæti þeirra verið algert og starfsmenn borgarinnar ítrekað brugðist eftirlitsskyldu sinni gagnvart framkvæmdum leyfis­­­hafa. Það sé ósatt að umræddur skjólveggur skyggi jafn mikið á útsýni og limgerði hafi áður gert. Kærendur hafi þegar lent í því að sjá ekki börn á rafskutlum sem komi eftir Giljaseli í suður­­­átt þrátt fyrir að ekið væri varlega út af bílastæðinu. Til að tryggja öryggi þurfi að taka niður hluta skjól­­girðingarinnar.

Niðurstaða: Byggingaráform vegna nýs sólskála við hús á lóðinni Giljaseli 8 ásamt áður gerðum breytingum á lóðinni voru samþykkt með áritun byggingarfulltrúa á aðaluppdrætti 10. desember 2019. Í máli þessu er deilt um lögmæti hluta þeirrar skjólgirðingar sem sýnd er á uppdráttunum, þ.e. þess hluta hennar sem reist var við húsið að framanverðu, meðfram gangstétt götunnar, og nær að lóðamörkum Giljasels 6 og 8. Gera borgaryfirvöld kröfu um frávísun málsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kæru­frestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hags­muna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta.

Kærendur höfðu samband við byggingarfulltrúa 9. maí 2019 með tölvupósti og kom þar fram að búið væri að setja upp girðingarstaura. Vísuðu kærendur til samtals við byggingar­fulltrúa frá því um þremur vikum fyrr og greindu frá því að erindi þeirra væri hið sama og áður, „að óska eftir því að byggingarfulltrúi Reykjavíkur­borgar hlutist til um framkvæmdir eigenda Gilja­sels 8“. Þá lýstu kærendur því yfir að framkvæmdirnar væru ekki gerðar með þeirra sam­þykki og að mikilvægt væri að staurarnir yrðu fjarlægðir. Samkvæmt gögnum málsins var ekki um frekari samskipti að ræða á milli kærenda og byggingar­­fulltrúa á árunum 2019 eða 2020 og höfðu kærendur ekki samband við byggingar­fulltrúa á ný fyrr en með tölvupósti 18. apríl 2021, þar sem þeir greindu frá því að skjól­girðing hefði verið sett upp nokkrum dögum fyrr, þegar þeir hefðu verið úti á landi. Óskuðu þeir jafnframt eftir upplýs­ingum um það hvort leyfi hefði verið veitt fyrir framkvæmdinni. Í kjölfar ítrekunar á beiðni um upp­lýs­ingar, að undan­gengn­um frekari samskiptum við borgaryfirvöld, fengu kærendur hinn 7. maí s.á. upplýsingar um að byggingarleyfi hefði verið gefið út 30. júní 2020.

Við mat á upphafi kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina er horft til þess að kærendur höfðu frumkvæði að því að hafa sam­band við byggingarfulltrúa á vormánuðum ársins 2019, þegar þeir kveðast hafa orðið varir við fram­kvæmdir, án þess að erindi þeirra væri þá svarað, en fyrir liggur að á því tíma­marki höfðu umrædd byggingaráform ekki verið samþykkt. Ekki liggur annað fyrir en að kærendur hafi leitað til byggingarfulltrúa um leið og þeim hafi verið ljóst að verið væri að reisa skjólgirðingu á vormánuðum 2021. Að því virtu verður talið að kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun 7. maí 2021, en kæra í málinu barst úrskurðar­nefndinni 8. júlí s.á. Var kærufrestur þá liðinn sam­kvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Einnig var 8. júlí 2021 kærð ákvörðun byggingarfulltrúa frá 9. júní s.á. um að synja um beitingu þvingunarúrræða og er kæra á þeirri ákvörðun því fram komin innan kærufrests.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­með­ferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslu­lögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undan­tekningar­tilvikum.

Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kærenda heldur einnig eigenda Giljasels 8. Ekki verður þó framhjá því litið hve seint kærendum var leiðbeint um kæruleið og kærufrest í samskiptum sínum við borgaryfirvöld. Fyrir liggur að kærendur upp­lýstu byggingarfulltrúa þegar á árinu 2019 um að umræddur hluti skjólgirðingar á lóðinni Gilja­seli 8 yrði í óþökk þeirra. Þá ítrekuðu þeir þá afstöðu sína 18. apríl 2021 en var ekki leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrr en 9. júní s.á., en kæra í málinu barst nefndinni 8. júlí 2021. Í ljósi þess að kærendur voru ekki upplýstir um tilurð umdeilds byggingarleyfis fyrr en 7. maí 2021, þeim var ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest skv. 7. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga fyrr en 9. júní s.á. og að kæra í málinu barst án ástæðulauss dráttar eftir það tímamark verður með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslu­laga að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Verður sá þáttur málsins sem varðar kæru á umræddu byggingarleyfi því tekinn til efnismeðferðar.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Seljahverfis, skilmálar fyrir keðjuhús við Giljasel, Gljúfrasel og Grjótasel, frá árinu 1974. Þrátt fyrir að í heiti skipulagsins sé vikið að keðjuhúsum við göturnar má ráða að ekki sé aðeins um tvíbýlishús að ræða á skipulagssvæðinu og má á mæliblöðum og uppdrætti með skilmálunum sjá að ekki eru öll húsin keðjuhús. Samkvæmt skilmálunum bar byggingaraðilum að sýna fyllstu aðgát og tillitssemi gagnvart nágranna­lóðar­höfum sínum við allar framkvæmdir en ekki er sérstaklega kveðið á um hæðir skjólgirðinga í skilmálum eða skýringabók deiliskipulagsins.

Í gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er kveðið á um að hæð girðinga á lóðum skuli vera í samræmi við skipulagsskilmála og afla skuli byggingarleyfis nema framkvæmdirnar séu undanþegnar slíku leyfi. Þá sé girðing eða skjólveggur á mörkum lóða alltaf háður sam­þykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar og leita skuli samþykkis áður en hafist sé handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Í gr. 2.3.5. er mælt fyrir um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarleyfum. Samkvæmt e-lið ákvæðisins á það m.a. við um skjólveggi og girðingar sem eru allt að 1,8 m á hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m og girðingar eða skjólveggi sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og ekki hærri en sem nemi fjarlægðinni að lóðarmörkum.

Samkvæmt ótvíræðu orðalagi 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð eru girðingar eða skjól­veggir á mörkum lóða alltaf háðar samþykki beggja lóðarhafa en svo var ekki í tilfelli um­ræddrar girðingar. Verður af þeim sökum að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi,­ en að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verður það þó eingöngu fellt úr gildi að því leyti sem skjólgirðingin liggur á lóðarmörkum kærenda.

Þá er jafnframt í málinu deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2021 um að synja um beitingu þvingunar­úrræða vegna girðingarinnar.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því hlutverki felst eftir atvikum heimild til að beita þvingunarúrræðum þeim sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerðar ef ekki sé fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingar­framkvæmd­ina. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingar­fulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starf­semi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almanna­hagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðis­­hagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lög­varinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklings­­hagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hlið­sjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum laga­heimildum, og fylgja þarf megin­reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að mál­efnaleg sjónarmið búi þar að baki.

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að í ljósi þess að byggingarleyfi hefði verið gefið út og að á sam­þykktum aðaluppdrætti frá 10. desember 2019 væri gert ráð fyrir umræddum skjólvegg í suð­austur­horni lóðarinnar myndi embætti byggingarfulltrúa ekki aðhafast frekar. Þá kom og fram í skýringum borgaryfirvalda að með hliðsjón af meðalhófi fengist ekki séð að staur á mörkum umræddra lóða hefði slík áhrif að fella beri byggingarleyfið úr gildi og ógilda þá ákvörðun byggingarfulltrúa að beita ekki þvingunarúrræðum.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri mats­kenndu ákvörðun að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða þótt hún kunni að snerta hags­muni þeirra, enda verður ekki talið að almannahagsmunum hafi verið raskað með hinni umdeildu girðingu. Fyrir liggur að leyfishafar reistu girðinguna í góðri trú að fengnu byggingar­leyfi og verður ekki séð að hún fari í bága við gildandi deiliskipulag. Þá eru kærendum önnur úr­ræði til­tæk til að gæta sinna hagsmuna, svo sem áður er komið fram. Kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar um synjun á beitingu þvingunarúrræða vegna umdeildrar skjól­girðingar er því hafnað.­­­­­­

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. desember 2019 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir skjólgirðingu á lóðinni Giljaseli 8 er felld úr gildi að því er varðar þann hluta skjólgirðingarinnar sem liggur á lóðamörkum Giljasels 6 og 8.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2021 um að synja kröfu þeirra um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólgirðingar á lóðinni Giljaseli 8.

99/2021 Bakkabraut

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon. fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mýrdalshrepps frá 7. júní 2021 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Bakkabraut 6A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi fasteignarinnar að Bakkabraut 6A, Vík í Mýrdal, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mýrdalshrepps frá 7. júní 2021 að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir nánar tilgreindum breytingum á fasteigninni Bakkabraut 6A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mýrdalshreppi 20. ágúst 2021.

Málavextir: Bakkabraut 6A er hús á tveimur hæðum sem skráð er í fasteignaskrá sem tvær íbúðir. Í júní 2017 leitaði kærandi til byggingarfulltrúa vegna fyrirhugaðra breytinga á efri hæð hússins. Óskaði hann eftir upplýsingum um hvort sækja þyrfti um byggingarleyfi vegna breytinganna. Þáverandi byggingarfulltrúi fór fram á frekari teikningar og upplýsingar um hvernig skráningin á húsinu yrði í kjölfar breytinganna. Upplýsti kærandi byggingarfulltrúa um hvað fælist í hinum fyrirhuguðu breytingum og að margt væri óákveðið um breytingar á neðri hæð hússins. Ljóst væri að auka þyrfti lofthæðina með því að grafa út og „mögulega síkka niður“ útveggina með því að steypa undir þá. Grafa þyrfti meðfram húsinu og athuga með byggingarfulltrúa hvað húsið þyldi mikla lækkun jarðvegs fyrir utan og innan.

Hinn 18. september 2017 sendi kærandi „umsókn um samþykki fyrir breytingu á fyrirkomu­lagi“ á neðri hæð hússins með tölvupósti til byggingarfulltrúa. Meðfylgjandi voru teikningar og skjal þar sem fyrirhuguðum breytingum var nánar lýst. Byggingarfulltrúi sendi kæranda tölvupóst 18. desember s.á. þar sem fram kom að hann gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á neðri hæð hússins en að hann þyrfti að fá ítarlegri gögn til að geta skráð breytingarnar í fasteignaskrá og að vinna þyrfti eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið ef skipta ætti því upp í nokkrar fasteignir. Kærandi upplýsti með tölvupósti til byggingarfulltrúa 27. ágúst 2018 að til stæði að hefja framkvæmdir á neðri hæð hússins. Fram kom að hann hafi fengið munnlegt samþykki fyrir því að hefja framkvæmdir, en hann teldi sig ekki hafa fengið formlegt samþykki. Óskaði hann eftir því að erindið yrði tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd. Í kjölfarið svaraði byggingarfulltrúi með eftirfarandi hætti: „Ein ástæða þess að málið hefur ekki verið sérstaklega tekið til afgreiðslu í skipulagsnefnd er að ég er ekki alveg viss um að þessar framkvæmdir séu þess eðlis að skipulagsnefnd þurfi sérstaklega að fjalla um þær.“ Samkvæmt upplýsingum frá kæranda stóðu yfir framkvæmdir á neðri hæð hússins frá september 2018 til apríl 2019. Í september 2019 óskaði núverandi byggingarfulltrúi eftir burðarþols- og lagnateikningum fyrir íbúðina á neðri hæð hússins.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa tölvupóst 31. janúar 2020 þar sem fram kom að hann sækti „formlega um að fá samþykki til að láta hanna og teikna breytingar“ á efri hæð hússins og var fyrirhuguðum breytingum nánar lýst. Byggingarfulltrúi upplýsti kæranda 28. febrúar 2020 um að fyrirhugaðar breytingar væru byggingarleyfisskyldar og að hann þyrfti því að sækja um leyfi. Þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu þyrfti að leggja fram umsókn um byggingarleyfi fyrir skipulagsnefnd. Kærandi sendi umsókn um byggingarleyfi, ásamt greinargerð um fyrirhugaðar breytingar á efri hæð hússins, með tölvupósti til byggingarfulltrúa 12. mars 2020. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 16. s.m. og var byggingar­fulltrúa falið að framkvæma grenndarkynningu þegar aðaluppdráttur hefði borist. Bókun nefndarinnar var staðfest í sveitarstjórn 19. s.m. Grenndarkynning fór fram 20. maí 2021 og var frestur til að gera athugasemdir til 18. júní s.á. Á fundi skipulagsnefndar 13. ágúst 2021 var ekki fallist á athugasemdir sem bárust á grenndarkynningartíma. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 20. s.m. og samþykkti „fyrir sitt leyti útgáfu byggingar­leyfis“. Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um þessa afgreiðslu með tölvupósti 22. ágúst 2020 og tók fram að byggingarleyfi yrði gefið út samkvæmt skilyrðum „núverandi byggingar­reglugerðar“. Næsta skref væri að senda inn rafræna umsókn um byggingarleyfi og vísaði byggingarfulltrúi til leiðbeininga um ferlið.

Hinn 7. september 2020 sendi kærandi rafræna umsókn um byggingarleyfi. Í henni var fyrir­huguðum breytingum á efri hæð lýst nánar. Byggingarfulltrúi sendi kæranda athugasemdir vegna umsóknarinnar 20. s.m. þar sem m.a. sagði: „Breytingar gerðar á neðri hæð voru gerðar af eiganda án leyfis og verður að meðhöndla og tilkynna þær sem hluta af nýrri framkvæmd.“ Kærandi sendi byggingarfulltrúa uppfærða aðaluppdrætti 12. desember 2020 og svaraði hann erindinu 11. febrúar 2021 þar sem m.a. kom fram: „Lofthæð í íbúð á jarðhæð merkt 0101 er minni en 2,50 m að innanmáli, sjá 6.7.2. gr. byggingarreglugerð nr. 112/2012.“

Hinn 26. febrúar 2021 sendi kærandi inn uppfærðar teikningar og greinargerð með svörum við athugasemdum byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi gerði frekari athugasemdir með bréfi, dags. 26. mars 2021, sem lutu m.a. að því að undanþága samkvæmt 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ætti ekki við og því væri gerð krafa um 2,5 m lofthæð í samræmi við gr. 6.7.2. í reglugerðinni. Kærandi skilaði inn greinargerð frá verkfræðingi, dags. 15. apríl 2021, þar sem m.a. var fjallað um lofthæð neðri hæðar hússins. Byggingarfulltrúi sendi kæranda athugasemdir með tölvupósti 7. júní 2021 þar sem ítrekað var að framangreind undanþága ætti ekki við í tilviki kæranda og því væri gerð krafa um 2,5 m lofthæð. Sagði svo eftirfarandi: „Vinsamlegast breyttu hönnuninni í samræmi við gildandi byggingarreglugerð.“ Þá kom einnig fram að þar sem kærandi hefði ekki fengið samþykki frá lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna stoðveggjar á lóðamörkum þyrfti að finna aðra lausn fyrir bílastæði.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ráðist hefði verið í endurbætur á fasteigninni sumarið 2017 í samráði við þáverandi byggingarfulltrúa, en ekki hefði tekist að skila inn teikningum af neðri hæð hússins til skipulags- og byggingarnefndar áður en hann hætti störfum haustið 2018. Hugmyndin hefði verið að gera neðri hæðina íbúðarhæfa á ný með því að lækka gólfið í íbúðinni, en lofthæðin hefði aðeins verið um tveir metrar. Ekki hefði komið til greina að hækka hæðarskil þar sem búið hefði verið á efri hæðinni og lofthæð þar rúmir tveir metrar. Haldið hefði verið fyrirkomulagi íbúðar á neðri hæðinni í megindráttum, en því þó breytt til að fullnægja nútímakröfum um hollustu, öryggi og eldvarnir, eins og kveðið sé á um í gr. 9.2.5. og 12.1.12. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Einnig hefði verið stuðst við gr. 6.1.5. í sömu reglugerð og leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við þessa grein. Þá hefði verið litið til gr. 12.8 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 vegna aldurs hússins.

Athugasemd um lofthæðina á seinni stigum umsóknar, sem sé í raun það eina sem standi í vegi fyrir því að framkvæmdir fari á næsta stig, sé ekki samkvæmt góðri stjórnsýslu þar sem byggingarfulltrúi hefði vitað af umræddri lofthæð frá upphafi umsóknar. Hálft ár hefði liðið þar til athugasemdin barst. Í greinargerð verkfræðistofu hefði komið fram að ekki væri hægt að verða við kröfum um aukna lofthæð og það rökstutt ítarlega. Einnig hefðu verið færð rök fyrir því að byggingarfulltrúa væri heimilt að falla frá ítrustu kröfum um lofthæð, með vísan til viðeigandi greinar í byggingarreglugerð og leiðbeininga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þá hefði slökkvilið í Vík ekki gert athugasemdir við brunavarnir við yfirferð á teikningunum, þar með talið vegna íbúðar á neðri hæð. Byggingarfulltrúi virðist ekki meðvitaður um framangreindar leiðbeiningar um breytingar á mannvirkjum byggðum í gildistíð eldri byggingarreglugerða. Tillaga hans um að hafa núverandi gólfbita sýnilega sé ekki raunhæf og skapi önnur vandamál. Að hækka hæðarskil um 20 cm sé stórmál og jafngildi því að rífa þyrfti efri hæð hússins og byggja aftur upp frá grunni. Einnig þyrfti að eyðileggja stóran hluta af nýlegri framkvæmd, þ.e. rífa þyrfti frágang á útveggjum og lofti íbúðar á neðri hæð.

Í 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð og í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkja-stofnunar við sömu grein sé fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess og segi þar svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar.“ Þetta sé undirstrikað betur í leiðbeiningum stofnunarinnar en þar segi svo: „Lofthæð þegar byggðra mannvirkja var í eldri byggingarreglugerðum að lágmarki 2,40 m en er í gildandi byggingarreglugerð 112/2012 að lágmarki 2,50 m. Í slíkum tilvikum er ekki ætlast til þess að lofthæðinni sé breytt enda er það oft ógerningur.“ Í gr. 78.4 í byggingarreglugerð frá 1998 segi: „Í þakherbergjum og kvist­herbergjum má meðalhæð vera 2,20 m enda sé lofthæðin 2,40 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis í íbúðarhúsnæði. Í öðrum herbergjum nýrra íbúða skal lofthæð vera a.m.k. 2,50 m en við endurgerð eða breytingu eldri húsa má lofthæð fara niður í 2,20 m enda sé meðallofthæð íbúða a.m.k. 2,30 m.“

Málsrök Mýrdalshrepps: Sveitarfélagið bendir á að kærandi hafi ekki getað vísað til neinna skriflegra gagna um samþykki fyrri byggingarfulltrúa fyrir umræddum framkvæmdum. Honum hafi verið leiðbeint um að hann þyrfti að senda skriflega lýsingu á fyrirhuguðum fram­kvæmdum áður en leyfi yrði gefið út á grundvelli umsóknar um byggingarleyfi. Í október 2019 hefði kærandi lagt fram ófullnægjandi teikningar. Í ágúst 2020 hefði skipulagshlutinn verið afgreiddur og byggingarfulltrúi óskað eftir því að skjöl um byggingarleyfið yrðu lögð fram. Fyrstu hönnunargögn, sem hefðu verið lögð fram í desember 2020, hefðu ekki sýnt hæðar­mælingar. Vísað hefði verið til kjallaraíbúðarinnar sem núverandi íbúðar og hefði verið gerð athugasemd við það. Frekari hönnunargögn hefðu verið lögð fram í desember 2020 og þeim síðan breytt í janúar 2021. Þau hefðu sýnt „hæð á milli hæða“ sem ekki hefði áður verið sýnd. Byggingarfulltrúi hefði í kjölfarið sett fram athugasemdir sínar um það tiltekna atriði.

 Umræddar breytingar á húsinu hafi án nokkurs vafa átt að vera í samræmi við gildandi mannvirkjalög. Vinnan við að dýpka kjallarann hefði átt sér stað árið 2020. Rökin fyrir því að lofthæð eigi á árinu 2020 að taka mið af byggingarreglum frá árinu 1998 en ekki af núverandi reglum standist ekki. Að auki vísi eigandi hússins til undantekninga frá reglunum frá 1998, þótt húsinu hefði í raun verið breytt árið 2020 til samræmis við reglurnar sem gilt hafi 1998. Fyrir liggi að húsinu verði breytt mjög mikið og tilgangur breytinganna sé augljóslega ekki sá að endurreisa eldri byggingu. Þar sem verkið í kjallaranum hafi verið unnið ólöglega séu engar úttektir eða skýrslur tiltækar og því ómögulegt að sannreyna gæði eða veruleika fullyrðinga eiganda varðandi þá vinnu sem unnin hafi verið. Samkvæmt síðasta bréfi frá verkfræðingi séu bitarnir undir gólfi efri hæðar lagðir óreglulega þótt þeir séu merktir sem hér um bil 700 mm á teikningu. Það veki spurningar um veruleika eldvarna og byggingarheiðarleika. Reglugerð varðandi hljóðeinangrun milli hæða verði að gilda þar sem byggingin verði fjölhæðarhús. Ef undanþága verði gerð í kjallaranum þurfi hún einnig að ná til efri hæðar og verði þá öll byggingin undanþegin núgildandi reglum. Þar sem gólfbitarnir séu úr timbri sé óraunhæft að halda því fram að erfitt sé að breyta eða skipta þeim út.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að Bakkabraut 6A sé ríflega aldargamalt hús. Í maí árið 2020 hefði Minjastofnun samþykkt hönnunargögn vegna fyrir­hugaðra breytinga og ekki gert athugasemdir. Breytingar á íbúð neðri hæðar hússins hefðu verið gerðar í embættistíð fyrri byggingarfulltrúa, sem samþykkt hefði breytingar á lofthæð úr 2,0 m í 2,3 m, enda hefði hann verið meðvitaður um undanþágur í byggingarreglugerð vegna aldurs hússins. Tölvupóstsamskipti staðfesti þetta. Húsið hefði verið byggt sem tvílyft tvíbýlishús, báðar hæðir skráðar og þær notaðar sem íbúðarhúsnæði. Neðri hluti hússins hafi alltaf verið skilgreindur og notaður sem íbúðarhúsnæði, þó seinni ára notkun hefði breyst, enda húsið illa einangrað og kaldara niðri en uppi. Tilgangur breytinga hefði því sannarlega verið sá að færa neðri hæðina í það horf að hún uppfyllti nútímakröfur um öryggi og hollustuhætti.

Húsið sé friðað sökum aldurs þess og kærandi hafi því leitað álits Minjastofnunar á kröfu byggingarfulltrúa um 2,5 m lofthæð á neðri hæð. Minjastofnun hafi sent kæranda umsögn, dags. 2. september 2021, þar sem segi að ekki sé fallist á kröfu byggingarfulltrúa um aukna lofthæð þar sem það hefði í för með sér mikið rask á grunngerð og hlutföllum hins friðaða húss. Minjastofnun bendi á að byggingarfulltrúi hafi heimildir í lögum til að falla frá ítrustu kröfu um lofthæð í friðuðu húsi og bendi á fordæmi þar sem slík heimild hafi verið nýtt. Álykta verði sem svo að það sé lögbundið að hlíta fyrirmælum Minjastofnunar, þar sem leita verði samþykkis hennar til að breyta svo gömlu húsi, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2012. Í því felist að óheimilt sé að raska húsinu, spilla því eða breyta, rífa eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna. Minjastofnun hafi heimilað breytingar á húsinu samkvæmt uppdráttum arkitekts frá apríl 2020. Kærandi vísi til 2. mgr. í fyrrnefndu bréfi Minjastofnunar, en í gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi m.a.: „Gæta skal að ákvæðum laga um menningarminjar vegna umsóknar um breytingu á þegar byggðu mannvirki sem fellur undir þau lög.“ Þá segi í gr. 6.1.5. og 9.2.5 m.a: „Ef sértökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar.“ Minjastofnun álykti eftirfarandi: „Krafa um aukna lofthæð á neðri hæð Bakkabrautar 6A muni hafa í för með sér mikið rask á grunngerð og hlutföllum hins friðaða húss sem Minjastofnun getur að öllu óbreyttu ekki fallist á.“ Minjastofnun hafi vegið og metið og tekið faglega afstöðu til sérstakra erfiðleika við að verða við kröfum byggingarfulltrúa. Niðurstaða Minjastofnunar sé skýr og í henni felist að ákvörðun byggingarfulltrúa teljist brot á minjalögum.

 Niðurstaða: Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir breytingum á efri hæð hússins að Bakkabraut 6A en í kjölfar athugasemda byggingarfulltrúa bætti hann við umsóknina þegar gerðum breytingum á neðri hæð þess. Á milli kæranda og byggingarfulltrúa áttu sér stað tölvupóstsamskipti þar sem byggingarfulltrúi gerði athugasemdir við umsóknina og kærandi brást við þeim athugasemdum.

Í hinni kærðu afstöðu byggingarfulltrúa, sem barst kæranda með tölvupósti 7. júní 2021, var vísað til ákvæða byggingarreglugerðar um lofthæð og kom þar fram eftirfarandi: „Vinsamlegast breyttu hönnuninni í samræmi við gildandi byggingarreglugerð.“ Þá sagði enn fremur að kærandi hefði ekki fengið samþykki nágranna fyrir stoðvegg á lóðamörkum og því yrði hann að finna aðra lausn. Ekki kom fram í ákvörðuninni að um synjun á byggingarleyfi væri að ræða og ber hún fremur merki þessi að vera leiðbeiningar byggingarfulltrúa til kæranda, enda var þar ekki leiðbeint um kæruheimild í samræmi við 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá liggja ekki fyrir neinar bókanir embættisins um afgreiðslu málsins.

Með hliðsjón af málavöxtum og fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að umrædd byggingarleyfisumsókn kæranda hafi fengið lokaafgreiðslu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að dragist áframhaldandi meðferð málsins úr hófi er unnt að kæra slíkan drátt til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

90/2021 Engjavegur

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 um að samþykkja leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7, Ísafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2021, er barst nefndinni 21. s.m., kæra eigendur Engjavegar 9, Ísafirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 19. júlí og 3. desember 2021.

Málavextir: Vorið 2020 ákváðu eigendur húsanna að Engjavegi 7 og 9 að smíða sólpalla við hús sín. Þegar framkvæmdir hófust við sólpall á Engjavegi 7 töldu eigendur Engjavegar 9 að líklega þyrfti byggingarleyfi fyrir þeim palli. Höfðu þeir því samband við byggingarfulltrúa 20. júlí 2020 og óskuðu eftir að hann skoðaði framkvæmdirnar. Var það mat byggingarfulltrúans eftir skoðun að framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld. Með umsókn, dags. 31. júlí 2020, sóttu eigendur Engjavegar 7 um leyfi fyrir nýjum dyrum og verönd við suðvesturenda hússins. Hinn 18. september s.á. var erindið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og bárust athugasemdir frá eigendum Engjavegar 9. Á fundi skiplags- og mannvirkjanefndar 14. apríl 2021 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókun gerð: „Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur tillit til athugasemda eigenda Engjavegar 9. Breytingar skulu gerðar á sólpalli svo þær samræmist byggingarreglugerð.“ Eigendur Engjavegar 7 skiluðu inn nýjum uppdrætti að sólpallinum 16. apríl s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. maí s.á. var umsókn þeirra um byggingarleyfi síðan samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Til grundvallar ákvörðun byggingarfulltrúa var m.a. minnisblað hans, dags. 29. mars 2021, þar sem eigendur Engjavegar 7 höfðu áritað samþykki sitt fyrir breytingum á umræddum sólpalli svo hann samræmdist byggingarreglugerð.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn byggingarreglugerð og að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafi verið við grenndarkynningu vegna málsins. Gerðar hafi verið athugasemdir við að skjólveggur við pallinn væri of hár miðað við að standa í 80-90 cm fjarlægð frá lóðamörkum. Hæð veggjarins væri þar 180 cm og enn meiri meðfram götunni. Skjólveggurinn myndi auka á snjósöfnun á bílastæði kærenda og minnka útsýni á götuna þegar bakkað væri út úr bílastæðinu. Framkvæmdin væri ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar varðandi hæð skjólveggjar og hæð á verönd/svölum. Byggingarfulltrúi hefði haft samband í desember s.á. og viljað halda fund með eigendum húsanna tveggja þar sem afdrif sólpalla beggja húsa yrðu rædd. Hefði þetta verið í fyrsta skipti sem þeirra sólpallur hefði blandast inn í málið. Kærendur hafi ekki séð tilgang með þessum fundi þar sem sólpallurinn að Engjavegi 7 væri byggingarleyfisskyldur.

Þegar eigandi Engjavegar 7 hefði haldið áfram með byggingu sólpallsins hefðu kærendur haft samband við byggingarfulltrúa 18. maí 2021 og óskað upplýsinga um hvort búið væri að veita leyfi fyrir framkvæmdunum. Þar sem engin svör hefðu borist hefðu kærendur farið á skrifstofu sveitarfélagsins 20. s.m. og hitt byggingarfulltrúann, sem hefði upplýst að búið væri að samþykkja framkvæmdirnar eftir einhverjar breytingar og að þau þyrftu að rífa sinn pall. Byggingarfulltrúinn hefði neitað að afhenda teikningar og gögn um leyfið og bent á að hægt væri að nálgast þetta á netinu. Í kjölfarið hefðu kærendur sent bréf á alla starfsmenn umhverfis- og eignasviðs þar sem þau hefðu óskað eftir teikningum, afriti af byggingarleyfi og fundargerð, en engin svör hefðu borist. Þeim hefði borist tölvupóstur frá byggingarfulltrúa 26. maí s.á. með loftmynd, sem að mati kærenda væri sama loftmynd og fylgt hefði með upphaflegu byggingar­leyfis­umsókninni og hafnað hefði verið af umhverfis- og skipulagsnefnd. Stuttu síðar hefði þeim borist annað bréf þar þeim hefði verið gefinn 20 daga frestur til að rífa sólpall sinn eða færa hann 1,8 m inn á lóðina. Óskað hefði verið eftir málsettum teikningum sem hið kærða byggingarleyfi byggðist á en engin svör hefðu borist. Viti kærendur ekki hvaða breytingar hefðu verið gerðar sem leitt hefðu til þess að leyfið var veitt.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Sveitarfélagið bendir á að ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita byggingarleyfi fyrir umræddum sólpalli hafi grundvallast á heildstæðu mat á atvikum og aðstæðum. Horft hafi verið til þeirra athugasemda sem fram hafi komið við grenndarkynningu og til undirritaðrar yfirlýsingar eigenda Engjavegar 7 þess efnis að sólpallurinn yrði færður í það horf að hann uppfyllti byggingarreglugerð. Skjólveggir sem snúi að lóðamörkum gagnvart Engjavegi 9 hefðu verið lækkaðir niður í 120 cm en þeir stæðu í 120 cm fjarlægð frá lóðamörkunum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að teikningarnar sem byggingarleyfið byggi á séu ófullnægjandi. Einungis sé um að ræða loftmynd þar sem lína hafi verið færð til en engar málsettar teikningar. Byggingarfulltrúi hafi ekki svarað erindi þeirra um að fá málsettar teikningar. Þá geti það varla talist viðurkennt verklag að eigendur Engjavegar 7 hafi undirritað yfirlýsingu um að byggingaráformum yrði breytt á þann hátt að þau stæðust byggingar­reglugerð. Byggður hefði verið skúr við hlið bílskúrs þeirra sem hvergi sé að finna á teikningum, girðingar við götu og bílskúrsplan séu mun hærri en gert sé ráð fyrir á teikningum og ekki hafi verið upplýst um hvaða breytingar hafi verið gerðar frá upphaflegum teikningum. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt skyldum sínum sem eftirlitsaðili með framkvæmdinni þar sem hún sé nokkuð mikið frábrugðin teikningum og hafi kærendur vakið athygli hans á því.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að samþykkja byggingarleyfi fyrir sólpalli á lóðinni Engjavegi 7 og þá sérstaklega að því er varðar hæð skjólveggjar sem liggur samhliða lóðamörkum nefndrar lóðar og lóðar kærenda nr. 9 við Engjaveg.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru taldar upp minniháttar framkvæmdir sem ekki séu háðar byggingarleyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Í f-lið greinarinnar er tekið fram að skjólveggir og girðingar sem séu allt að 1,8 m að hæð og ekki nær lóðamörkum en 1,8 m séu undanþegnar byggingarleyfi. Enn fremur girðingar eða skjólveggir sem séu nær lóðar­mörkum en 1,8 m og séu ekki hærri en sem nemi fjarlægðinni frá lóðamörkum.

Samkvæmt lóðarleigusamningi fyrir lóðina Engjaveg 7 er bílskúrinn að Engjavegi 9 byggður yfir mörk lóðanna tveggja en þau eru í 5,4 m fjarlægð frá húsinu að Engjavegi 7. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hinn umdeildi skjólveggur í 4,2 m fjarlægð frá húsinu að Engjavegi 7 og því 1,2 m frá lóðamörkum. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa var hið kærða byggingarleyfi samþykkt á þeim grundvelli að leyfishöfum væri heimilt að byggja skjólvegg sem væri 1,2 m á hæð og stæði í 1,2 m fjarlægð frá mörkum lóðanna tveggja. Verður því að telja að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við fyrrgreint ákv. gr. 2.3.5 í byggingar­reglu­gerðinni. Ber því að hafna kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Fram hefur komið að kærendur telji að umræddur skjólveggur á lóðinni Engjavegi 7 sé í raun allt að 2,2 m á hæð við bílastæði. Samkvæmt 8. gr. laga um nr. 160/2010 um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Telji kærendur að sólpallurinn sé ekki í samræmi við byggingarleyfi geta þeir leitað til byggingarfulltrúa, sbr. framangreint ákvæði, og krafist íhlutunar hans svo mannvirkið verði í samræmi við veitt byggingar­leyfi. Afgreiðsla slíks erindis er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í kærumáli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun frá sveitar­félaginu.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 um að samþykkja leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7, Ísafirði.

175/2021 Eskiás

Með

Árið 2021, föstudaginn 17. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 175/2021, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðabæjar frá 15. ágúst 2019 og 2. september 2021 um að samþykkja tillögur að breytingum á deiliskipulagi Ása og Grunda.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2021, er barst nefndinni 5. s.m., kæra Lyngás 13 ehf., eigandi fasteignar á lóð með sama heiti, og Akralind ehf., eigandi Lyngáss 15, Garðabæ þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 2. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grunda og Ása sem birt var í B-deild Stjórnar­tíðinda 8. nóvember s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að bæjar­yfirvöldum verði gert að hafa samráð við kærendur og að breyting á deiliskipulagi Ása og Grunda, að því er varði Lyngás og Stórás, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019 verði felld úr gildi eða tekin til endurskoðunar. Þess er þar að auki krafist að framkvæmdir við Eskiás verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 14. desember 2021. Þá liggja fyrir gögn úr fyrra máli kærenda nr. 72/2021 fyrir nefndinni sem kveðinn var upp úrskurður í 22. október s.á., en það mál varðaði m.a. breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda.

Málsatvik og rök: Í auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019 vegna samþykktar bæjarstjórnar Garðabæjar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda, að því er varðar Lyngás og Stórás, kom m.a. fram að breytingin tæki til svæðis sem afmarkaðist af Lyngási til norðurs, Ásabraut til vesturs og suðurs og Stórási til austurs og að gert væri ráð fyrir nýrri götu sem myndi bera heitið Eskiás. Á fundi bæjarstjórnar Garða­bæjar 2. apríl 2020 var samþykkt að veita leyfi til framkvæmda fyrir gatnagerð ásamt lagningu veitu­mann­virkja í Eskiás og var tiltekið að framkvæmdin væri í samræmi við fyrrgreint deili­skipulag svæðisins. Leyfið var gefið út daginn eftir, en kæru á leyfinu var vísað frá sem of seint fram kominni í máli kærenda nr. 72/2021 fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 18. febrúar 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Fól breytingartillagan í sér að hæðir húsa við Eskiás 2, 4 og 6 yrðu lækkaðar um eina hæð og heimilað að fjölga íbúðum í öðrum húsum sem næmi fækkun íbúða vegna lækkunarinnar. Hámarkshæðir annarra húsa yrðu óbreyttar en byggingarreitir lóða nr. 8 og 10 breyttust þannig að þar yrðu lokaðir innigarðar. Heildarfjöldi íbúða yrði óbreyttur, eða 276 íbúðir. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 10. mars s.á. með athuga­semda­­fresti til 21. apríl s.á. og bárust athugasemdir frá kærendum. Tillagan var sam­þykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 2. september s.á. og birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 8. nóvember 2021.

Kærendur krefjast þess að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða við Eskiás á meðan málið sé rýnt nánar á vettvangi úrskurðarnefndarinnar þar sem deili­skipulags­breytingin fari gegn lögvörðum hagsmunum þeirra og miklu varði að umrædd fram­kvæmd gangi ekki fram með þeim hætti að verkið teljist orðið vel á veg komið.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað. Einungis hafi verið gefin út byggingarleyfi á lóðunum við Eskiás 1 og 2 en útgáfa þeirra byggi í grundvallaratriðum á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið haustið 2019. Lóðirnar liggi ekki að lóðum kærenda og engin augljós ástæða geti verið til að stöðva framkvæmdir sem byggi á leyfum sem gefin hafa verið út á grundvelli lögformlegs deiliskipulags. Þá sé bæjar­yfir­völdum ekki kunnugt um að útgáfa byggingarleyfanna hafi sætt kæru til úrskurðarnefndar  umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafn­framt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttar­áhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kæru­stjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildar­ákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri megin­reglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvarðana. Gildistaka deiliskipulags eða breytingar á því felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttar­áhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulags­ákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda stöðvun framkvæmda. Komi til þess að byggingaráform eða leyfi til framkvæmda verði sam­þykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar, sem kærendur telji ástæðu til að kæra til nefndar­innar, geta þeir hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið. Ekki verður ráðið af kæru í málinu að kærð séu þau byggingaráform sem sam­þykkt hafa verið á svæðinu og þegar hefur verið úrskurðað vegna kæru kærenda á framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar á svæðinu svo sem áður er rakið. Í ljósi atvika málsins er þó rétt að benda á að telji kærendur fram­kvæmdir eiga sér stað án tilskilinna geta þeir eftir atvikum beint því til byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum samkvæmt mannvirkjalögum.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda er hafnað.

98/2021 Eyrartún

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 16. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 28. maí 2021 um að verða ekki við beiðni um að færa ærslabelg á Eyrartúni á Ísafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júní 2021, er barst nefndinni 25. s.m., kærir eigandi Túngötu 5, Ísafirði, þá ákvörðun skipulags- og mann­virkjanefndar Ísafjarðarbæjar að verða ekki við beiðni hans um að færa ærslabelg á Eyrartúni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 12. ágúst 2021.

Málavextir: Árið 2017 óskaði hverfisráð Eyrar og efri bæjar, Ísafirði, eftir því að keyptur yrði ærslabelgur sem settur yrði upp á „túnið við gamla sjúkrahúsið, vinstra megin við húsið, í skotin við trén“. Beiðni hverfisráðsins var kynnt bæjarráði 13. nóvember 2017 og var henni vísað til frekari úrvinnslu í umhverfis- og framkvæmdanefnd og íþrótta- og tómstundanefnd. Var fundargerð hverfisráðsins lögð fram til kynningar í umhverfis- og framkvæmdanefnd 21. s.m. og íþrótta- og tómstundanefnd 6. desember s.á. Íbúar Túngötu 12 og Eyrargötu 3 leituðu til tæknideildar Ísafjarðarbæjar 5. september 2018 vegna óánægju með fyrirhugaða staðsetningu ærsla­belgsins. Voru íbúarnir óánægðir með að þeim hefði ekki verið tilkynnt um fyrirhugaða uppsetningu leiktækisins og að ekki hefði farið fram grenndarkynning. Eftir samráð bæjarins við forstöðumann Safnahússins var ærslabelgurinn færður af Túngötu 10 og inn á Eyrartún. Kærandi lagði fram beiðni til skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 19. maí 2021, um að umræddur ærslabelgur yrði fluttur á annan stað. Ekki hefði verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni, hvorki til skipulags- og mannvirkjanefndar né til Minjastofnunar. Samkvæmt svari frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun væri um mannvirki að ræða og bæri umhverfis- og eignasviði að breyta deiliskipulagi eða að lágmarki að láta fara fram grenndar­kynningu. Synjaði skipulags- og mannvirkjanefnd beiðni kæranda á fundi hinn 27. maí s.á. á þeim grundvelli að staðsetning ærslabelgsins væri í samræmi við deiliskipulag. Var kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu í tölvupósti daginn eftir.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að með ákvörðun sinni um að staðsetja svokallaðan ærslabelg á Eyrartúni og færa hann nær Túngötu 5 hafi verið brotið gegn andmælarétti íbúa í nærumhverfi framkvæmdarinnar enda hafi ekki farið fram grenndarkynning. Í kjölfar athuga­semda íbúa við Túngötu 12 og Eyrargötu 3 hafi belgurinn verið færður í 48,35 m fjarlægð frá þeim húsum en hin nýja staðsetning sé hins vegar einungis í 39,39 m fjarlægð frá húsi kæranda og því hafi ekki verið gætt jafnræðis við framkvæmdina. Ekki hafi verið hugað að umferðaröryggi eða aðgengi og séu börn ítrekað að skjótast milli kyrrstæðra bifreiða á leið sinni til og frá ærslabelgnum og legið hafi við stórslysum. Ekki hafi verið fengið leyfi hjá Minjastofnun fyrir framkvæmdinni á Eyrartúni, eins og beri að gera samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012, en bæði sé Eyrartún friðhelgað svæði og njóti hverfisverndar. Krefst kærandi þess að framkvæmd við ærslabelginn verði dæmd ólögleg og til vara að belgurinn verði fluttur á annan stað með að lágmarki sömu fjarlægðarmörkum og ákvörðuð hafi verið gagnvart íbúum Túngötu 12 og Eyrargötu 3.

 Málsrök Ísafjarðarbæjar: Sveitarfélagið telur að vísa beri kærunni frá. Rétt sé að Eyrartún falli undir hverfisvernd en í henni felist ekki lögformleg friðun heldur sé með hverfisvernd verið að leitast við að varðveita gömul hús sem hafi verndargildi. Það sé á hendi sveitarstjórnar að taka ákvörðun um hverfisvernd með skipulagsáætlunum og að henni sé ekki ætlað að koma í veg fyrir uppbyggingu og þróun í hverfum. Minjastofnun hafi eftirlit með friðuðum húsum og minjum en Eyrartún sé ekki friðað í heild sinni heldur einungis lóð safnahússins, húsið sjálft og friðlýstar minjar bæjarhólsins. Þá hafi Minjastofnun verið upplýst um breytingar á deiliskipulagi svæðisins í nóvember 2018 og engar athugasemdir hafi borist vegna þessa.

Framkvæmdin hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og staðsetning belgsins sé á skipulögðu leiksvæði. Ærlsabelgurinn sé hvorki byggingarleyfisskyldur, sbr. lög um mann­virki nr. 160/2010, né framkvæmdaleyfisskyldur m.t.t. reglugerðar 771/2012 um framkvæmda­leyfi og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Kærandi hafi fest kaup á fasteigninni að Túngötu 5 árið 2018 og hafi honum mátt vera ljóst að svæðið hefði verið nýtt sem gæsluvöllur og bolta­völlur í áratugi. Þá sé jafnræðisreglunni ekki ætlað að tryggja jafna fjarlægð frá leiktækjum heldur að gætt sé jafnræðis á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði, kynþætti, litarhætti o.fl.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að umræddur ærslabelgur sé ekki staðsettur að Túngötu 10, líkt og sveitarfélagið haldi fram, heldur á Eyrartúni. Komið hafi fram í svari frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að ærslabelgurinn teljist mannvirki í skilningi laga um mannvirki og því hafi sveitarfélaginu borið að láta fara fram grenndarkynningu.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndina heimild til þess að leggja fyrir stjórnvöld að taka tilteknar ákvarðanir. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að flytja umdeildan ærslabelg á annan stað með að lágmarki sömu fjarlægðarmörkum og ákvörðuð hafi verið gagnvart íbúum Túngötu 12 og Eyrargötu 3.

 Í máli þessu er deilt um staðsetningu svonefnds ærslabelgs sem er uppblásinn dýna ætluð fyrir börn til leikja. Hann er staðsettur á Eyrartúni og er 164 m2 að stærð. Ærslabelgnum var upphaflega ætlaður staður á lóðinni Túngötu 10 en hann var síðan færður inn á Eyrartún í kjölfar athugasemda íbúa.

Samkvæmt Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 telst Eyrartún opið svæði til sérstakra nota og fellur túnið undir hverfisvernd. Í gildandi deiliskipulagi Eyrarinnar á Ísafirði er Eyrartún skilgreint sem leiksvæði og almenningsgarður og gert er ráð fyrir sparkvelli næst gæsluvelli, þar sem ærslabelgurinn er nú staðsettur. Verður að telja að staðsetning ærslabelgsins sé í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gilda lögin um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofanjarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. þó 2. mgr. Lögin gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði. Í 1. mgr. 9. gr. laganna segir að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Jafn­framt segir þar að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar skuli undanþiggja byggingarleyfi. Í 60. gr. laganna er tekið fram að ráðherra setji að tillögu Mannvirkjastofnunar og í samráði við hagsmunaaðila reglugerðir sem nái til alls landsins þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd laganna. Í reglugerðinni skuli kveðið á um tiltekin atriði sem talin eru upp í þrettán tölusettum liðum. Í 10. töluliðnum segir að í reglugerðinni skuli kveðið á um frágang leiksvæða, íþróttasvæða og annarra opinna svæða.

Í samræmi við framanritað er í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði um opin svæði í gr. 7.2.5. og kemur þar fram að til opinna svæða teljist leiksvæði, íþróttasvæði og önnur manngerð svæði sem séu opin almenningi. Við frágang búnaðar allra opinna svæða skuli þess gætt að öryggi og aðgengi notenda sé sem best tryggt. Þá segir í gr. 7.1.6. um dvalar- og leiksvæði innan lóða eða opinna svæða við mannvirki að slík svæði skuli henta til útivistar, hvíldar og leikja og skuli staðsett og gerð með tilliti til skjóls, sólar og birtuskilyrða, hljóðvistar og annarra umhverfis­áhrifa. Öryggi fólks skuli tryggt á öllum dvalar- og leiksvæðum. Um kröfur til öryggis dvalarsvæða og opinna svæða gildi ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar og eftir því sem við eigi ákvæði reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leiktækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Með ákvæðum þeim sem að framan eru rakin eru settar reglur um frágang útivistarsvæða á vegum sveitarfélaga og felst í þeim krafa um að minni háttar mannvirki á slíkum svæðum sem ekki hafi umtalsverð umhverfisáhrif skuli fullnægja kröfum um öryggi og aðgengi notenda. Það felst síðan í lögbundnu eftirlitshlutverki sveitarfélaga að gæta þess að þessar kröfur séu uppfylltar. Af þessum sérákvæðum, er taka til leiksvæða og leiktækja, leiðir að leiktæki það sem hér um ræðir er ekki háð byggingarleyfi enda er fyrrgreindum  reglugerðarákvæðum ætlað að gæta sambærilegra hagsmuna og búa að baki byggingarleyfisskyldu.

Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kveður sú regla á um að við úrlausn mála skuli stjórnvald gæta samræmis og jafnræðis milli aðila. Í reglunni felst að almennt sé óheimilt að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum viðhorfum. Verður hins vegar að telja að staðsetning hins umdeilda ærslabelgs brjóti ekki gegn jafnræðisreglu, en hann er staðsettur u.þ.b. 10 m nær húsi kæranda en húsum þeim er hann hefur bent á í því sambandi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 28. maí 2021 um að verða ekki við kröfu hans um að ærslabelgur á Eyrartúni verði færður.

128/2021 Hraungata

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 16. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrr­verandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 2. júlí 2021 um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna stoðveggjar á lóðinni Hraun­götu 10.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Hraungötu 8, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 2. júlí 2021 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna stoðveggjar á lóðinni Hraungötu 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 14. nóvember 2021. Þá liggja fyrir gögn úr fyrra máli kærenda fyrir nefndinni sem úrskurðað var í hinn 24. júní s.á. vegna sama stoð­veggjar.

Málavextir: Árið 2017 keyptu kærendur lóðina Hraungötu 10, en sú lóð er nú nr. 8 við sömu götu. Ein hlið lóðarinnar á sameiginleg lóðamörk gagnvart lóð nr. 10 og hafa verið steyptir veggir þar á milli innan hvorrar lóðar. Á árinu 2016 voru samþykkt byggingaráform og gefið út byggingarleyfi vegna framkvæmda á síðarnefndu lóðinni sem tók til húsbyggingar og lóðarfrágangs. Vottorð vegna lokaúttektar var gefið út 25. júní 2021.

Kærendur sendu fyrirspurn til sveitarfélagsins 17. maí 2019 þar sem þeir spurðust fyrir um lög­­mæti steinsteypts veggjar á lóðinni Hraungötu 10 og í kjölfarið áttu sér stað viðræður á milli kærenda og fulltrúa sveitarfélagsins. Með bréfi til bæjarverkfræðings Garðabæjar, dags. 7. október 2019, gerðu kærendur kröfu um að veggurinn, eða hluti hans, yrði fjarlægður til að koma mætti á lögmætu ástandi. Í tölvupósti frá starfsmanni tækni- og umhverfissviðs Garða­bæjar 22. febrúar 2021 kom m.a. fram að sveitarfélagið teldi umdeildan vegg í samræmi við reglu­gerð, þar sem leitað hefði verið samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða, en jafnframt var lögð fram sáttatillaga varðandi frágang á lóðamörkum. Kærðu kærendur þá afgreiðslu bæjar­yfir­valda til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem hinn 24. júní s.á. lagði fyrir byggingar­­fulltrúa Garðabæjar að svara, án ástæðulauss dráttar, erindi kærenda frá 7. október 2019.

Í bréfi byggingarfulltrúa Garðabæjar til kærenda, dags. 2. júlí 2021, kom fram að umræddur stoðveggur hefði verið reistur á grundvelli byggingarleyfis sem væri í samræmi við gildandi deiliskipulag og að um væri að ræða löglega og leyfisskylda framkvæmd samkvæmt ákvæðum III. kafla laga um mannvirki nr. 160/2010. Því gætu ekki talist vera fyrir hendi skilyrði til að grípa til aðgerða til að knýja fram úrbætur eða breytingar á samþykktum stoðvegg á lóðinni við Hraungötu 10 skv. 55. eða 56. gr. þeirra laga. Er fyrrgreind ákvörðun byggingarfulltrúa hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur telja umræddan vegg vera burðarvegg fyrir svalir en ekki stoð­vegg og þ.a.l. ólögmætan. Þeir hafi ítrekað beint því til Garðabæjar að kanna málið, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þótt talið yrði að veggurinn væri stoðveggur þá væri hann allt að einu ólögmætur þar sem breyta hefði þurft deiliskipulagi. Veggurinn hafi mikil áhrif á notkun lóðar þeirra auk þess sem veggurinn sé utan byggingar­reits. Þrátt fyrir að skilyrði hafi verið um samþykki eigenda Hraungötu 8 hafi eigendur Hraun­götu 10 reist vegginn og bæjaryfirvöld ekki gert athugasemdir við hann þrátt fyrir að hafa ekki séð slíkt samþykki. Það samkomulag sem bærinn vísi til sé ekki samkomulag um umræddan vegg „heldur samþykki fyrir lóðamörkum og lóðamörk eru á lóðamörkum en ekki 1,45 metrum fyrir innan lóðamörk“. Af þeim sökum liggi ekki fyrir samþykki og sé veggurinn þ.a.l. ólögmætur. Þá verði „að telja vegginn ólögmætan jafnvel þó samþykki sem bærinn vísar til sé samþykki fyrir umræddum vegg sem er þó ekki ef tekið er mark á orðalagi samþykkisins“. Í samþykkinu sé ekkert minnst á vegginn og sé þess vegna ekki samþykki fyrir honum. Bæjar­yfirvöld hafi fyrst séð samþykkið í janúar 2020 og kærendur fyrst séð það í mars s.á. og hafi það því ekki gildi gagnvart þeim. Til þess að skjalið hefði eitthvert opinbert gildi og gildi gagnvart þriðja aðila, þ.e. öðrum en þeim sem komu að skjalinu, hefði þurft að þinglýsa því.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að á samþykktum teikningum hússins á lóðinni Hraungötu 10 komi skýrlega fram að gert sé ráð fyrir steyptum stoðvegg fyrir verönd og að veggurinn snúi að lóðinni Hraungötu 8. Í málinu liggi fyrir undirrituð yfirlýsing fyrrum eiganda Hraun­götu 8 um að hann hafi kynnt sér teikningar og samþykki framkvæmdir við mörk lóðanna. Ekki sé unnt að túlka yfirlýsinguna á annan hátt en sem skýra yfirlýsingu um sam­þykki á frágangi og framkvæmdum á lóðamörkum, þ.m.t. fyrir umræddum stoðvegg sem sé nær lóða­mörkum en 1,8 m. Byggingarfulltrúi hafi gefið út vottorð um lokaúttekt mannvirkisins sam­kvæmt 16. gr. og 36. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Með útgáfu vottorðsins hafi verið stað­fest að mann­virkið uppfylli ákvæði laganna og hafi að öllu leyti verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunar­gögn. Það sé skýr afstaða byggingarfulltrúa að um sé að ræða stoðvegg en ekki burðarvegg fyrir svalir. Þar sem stoðveggurinn hafi verið reistur samkvæmt samþykktum teikningum, útgefnu byggingarleyfi og í samræmi við gildandi deili­skipulag sé ekki annað unnt en að leggja til grundvallar að um sé að ræða lögmæta framkvæmd. Því geti ekki talist vera fyrir hendi nein þau skilyrði sem fram komi í 55. gr. og 56. gr. laga um mann­virki hvað varði stöðvun framkvæmda eða aðgerðir til að knýja fram úr­bætur. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfum kærenda um að gera eigendum Hraun­götu 10 að fjarlægja umræddan vegg eða hluta hans byggi á lögmætum forsendum á sama hátt og samþykkt byggingarleyfi mann­virkisins.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu eigenda Hraungötu 10 er tekið fram að veggurinn muni alltaf teljast stoðveggur þar sem hann sé reistur á sér sökklum sem séu ekki tengdir sökklum íbúðar­húss á lóðinni. Þá breyti engu hvort burður verandar sé fenginn út frá stoðveggnum eða súlum sem yrðu reistar undir veröndina og myndu ekki snerta vegginn. Fyrri eigandi Hraungötu 8 hafi kynnt sér lóðarteikningar og skrifað undir yfirlýsingu þess efnis. Hvort fyrri eigandi hefði átt að upplýsa nýja eigendur um þau samþykki sem hann sem lóðareigandi hafi skrifað undir verði að útkljá á öðrum vettvangi. Stoðveggurinn virðist mun hærri á mynd kærenda þar sem ekki hafi verið settur jarðvegur upp að honum í rétta hæð. Mælingamaður hafi mælt alla hæðar­kóta og verk­takar séð um að fylla að stoðveggnum sem nú sé í réttri hæð. Í ljós hafi komið að stoðveggur á Hraungötu 8 „hætti skyndilega“ og nái grjóthleðslan því ekki nógu hátt til að uppfylla útgefna hæðarkóta á lóðamörkunum. Ekki sé hægt að horfa fram hjá því að gífur­legur hæðarmunur sé á lóðunum Hraungötu 8 og 10. Hvort sem á síðarnefndu lóðinni verði stoð­veggur með verönd eða svalir yrði gólfplata og handrið í sjónlínu íbúa fyrrnefndu lóðar­innar. „Ef til vill mætti kalla þetta galla í skipulagi og hefur hönnuðum skipulags Urriða­holts yfirsést þessi gríðarlegi hæðarmunur.“ Stæði húsið á Hraungötu 8 hærra sem næmi 1 m væri stoð­­veggurinn ekki vanda­mál því að þá væri horft yfir hann. Að mati íbúa Hraungötu 10 sé stoð­­veggurinn ekki vandamálið heldur hæðarmunur lóðanna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja hinn umdeilda vegg ekki vera staðsettan í sam­ræmi við teikningar. Samkvæmt mælingum þeirra sé hann 1.146 mm frá lóðamörkum en ekki 1.450 mm og auki það enn frekar á ólögmæti veggjarins.

Niðurstaða: Eins og að framan greinir hafa kærendur, eigendur Hraungötu 8, átt í samskiptum við bæjaryfirvöld Garðabæjar frá árinu 2019 vegna steypts veggjar á lóðinni Hraungötu 10, sem samkvæmt gögnum málsins var reistur samhliða byggingu hússins, en lóðirnar eiga sam­eigin­leg lóðamörk. Stendur veggurinn innan lóðarmarka Hraungötu 10, nærri mörkum lóðar kærenda.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því felst m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 55. gr. laganna er kveðið á um að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Þá er í 56. gr. laganna fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingar­lýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt mannvirkjalögum er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að þeim lögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðal­­hófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- eða heilbrigðishagsmunum, sbr. 1. gr. laga nr. 160/2010. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lög­varinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklings­bundinna hagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis, líkt og endranær, að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Í hinni kærðu ákvörðun um að grípa ekki til þvingunarúrræða vegna umdeildrar framkvæmdar var m.a. vísað til þess að stoðveggurinn væri lögmætur, byggður á grundvelli byggingar­leyfis út­gefnu af byggingarfulltrúa 7. apríl 2016, að uppfylltum öllum skilyrðum skv. 13. gr. og 14. gr. laga um mannvirki og gr. 2.4.4., 2.4.7. og 2.4.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á samþykktum teikningum væri gert ráð fyrir steyptum stoðvegg fyrir verönd sem snúi að lóð kærenda Hraungötu 8. Fyrir lægi undirrituð yfirlýsing fyrri eiganda þeirrar lóðar um að hann hefði kynnt sér teikningar og samþykki framkvæmdir við mörk lóðanna. Verði yfir­­lýsingin ekki túlkuð á annan hátt en að hún sé skýr yfirlýsing um samþykki á frágangi og framkvæmdum á lóðamörkum og þ.m.t. fyrir umræddum stoðvegg, sem sé nær lóða­mörkunum en 180 cm. Geti því ekki verið fyrir hendi skilyrði til að grípa til aðgerða skv. 55. eða 56. gr. laga um mannvirki.

Með hliðjón af greindum atvikum verður að telja að efnisleg rök hafi búið að baki þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa að synja beiðni um beitingu þvingunar­úrræða, en um­ræddur stoðveggur var reistur samkvæmt samþykktu byggingarleyfi sem ekki hefur verið hnekkt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörð­unar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun frá sveitar­félaginu.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 2. júlí 2021 um að synja kröfu þeirra um að stoðveggur á lóðinni Hraungötu 10 verði fjarlægður í heild eða að hluta.

113/2021 Frummatsskýrsla

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 14. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2021 um að hafna að taka til meðferðar frummatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar á laxi í sjókvíum í Arnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnarlax ehf. þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. s.m. að hafna því að taka til meðferðar frummatsskýrslu kæranda vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðslu­aukningar á laxi í sjókvíum í Arnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin leggi fyrir Skipulagsstofnun að taka til afgreiðslu án frekari tafa frummatsskýrslu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 19. ágúst 2021.

Málavextir: Kærandi leggur stund á sjókvíaeldi. Hinn 5. júlí 2018 lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð framleiðsluaukning á laxi í sjókvíum kæranda í Arnarfirði um 4.500 tonn skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Skilaði kærandi Skipulags­stofnun tillögu að matsáætlun 19. júní 2019 og frummatsskýrslu 18. júlí s.á. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 12. október 2020, kom m.a. fram að þar sem ekki hefði verið tekin ákvörðun um að fallast á tillöguna lægi ekki fyrir matsáætlun í skilningi þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Af þeim sökum væru ekki forsendur til að taka frummatsskýrslu kæranda til meðferðar á grundvelli 10. gr. sömu laga. Kærði kærandi afgreiðslu Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði, uppkveðnum 25. mars 2021 í máli nr. 116/2020, lagði fyrir stofnunina að taka til afgreiðslu án frekari tafa fyrirliggjandi tillögu kæranda að matsáætlun og frummatsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar á laxi í sjókvíum kæranda í Arnarfirði.

Í apríl og maí 2021 hafði kærandi samband við Skipulagsstofnun vegna málsins og fékk hann þau svör að verið væri að vinna að viðbrögðum við áðurnefndum úrskurði úrskurðar­nefndarinnar. Með bréfum Skipulagsstofnunar til kæranda, dags. 4. júní 2021, var honum tilkynnt að tillaga að matsáætlun yrði tekin til meðferðar á grundvelli 8. gr. laga nr. 106/2000 og 17. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Þá væri því hafnað að taka frummatsskýrsluna til meðferðar þar sem matsáætlun væri forsenda fyrir slíkri málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. sömu laga, en hún lægi ekki fyrir. Er greind höfnun Skipulagsstofnunar hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. 1. mgr. 10. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skuli Skipulagsstofnun innan tveggja vikna frá móttöku frummats­skýrslu leggja mat á það hvort hún uppfylli kröfur sem gerðar séu í 9. gr. laganna og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. Ákvæðið, sem sé skýrt og afdráttarlaust, leggi þá skyldu á Skipulagsstofnun að leggja mat á framangreind atriði innan skilgreinds tímafrests. Hins vegar veiti ákvæðið stofnuninni heimild til að hafna frummatsskýrslu uppfylli hún ekki efniskröfur, en henni sé þó hvorki skylt né nauðsynlegt að hafna skýrslunni og megi bæta úr þeim ágöllum á þessu stigi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laganna. Tímafresturinn sé settur vegna hagsmuna framkvæmdar­­aðila og verði höfnun á frummatsskýrslu að eiga sér stað innan tveggja vikna frá því að stofnunin hafi tekið við skýrslunni.

Höfnun Skipulagstofnunar fari gegn úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2020. Kærandi fái ekki skilið hvernig stofnunin geti hunsað niðurstöðu nefndarinnar og talið að hún geti hafnað því að taka frummatsskýrslu kæranda til formlegrar afgreiðslu. Því sé hafnað að hægt sé að misskilja úrskurðinn með þeim hætti. Það sé einnig skýrt í úrskurðinum að hin grófu og alvarlegu brot gegn tímafrestum í lögum um mat á umhverfisáhrifum hafi haft áhrif á niðurstöðu nefndarinnar. „Afgreiðsla“ sé skilgreindur þáttur í ferli við mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 1. mgr. 4. gr. a í lögum nr. 106/2000. Feli niðurstaða úrskurðar­nefndarinnar ekki í sér þann möguleika að hafna því að taka frummatsskýrslu til afgreiðslu. Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og sé það ekki á valdi Skipulagsstofnunar að hafna því að taka til afgreiðslu frummatsskýrslu kæranda í samræmi við úrskurð nefndarinnar.

Ólögmætur dráttur á afgreiðslu á tillögu að matsáætlun séu ekki lögmæt rök fyrir höfnun. Um sé að ræða heimild til að taka íþyngjandi ákvörðun sem túlka verði þröngt. Skipulagsstofnun verði við mat sitt á því hvort nauðsynlegt sé að beita heimildinni að gæta að hagsmunum kæranda og rökstyðja nauðsynina með fullnægjandi hætti, en það hafi ekki verið gert. Þegar hin kærða ákvörðun hefði verið tekin hefðu verið liðin nærri tvö ár frá því að tillaga að matsáætlun hefði verið lögð fram hjá stofnuninni og rúmar tíu vikur frá fyrrnefndum úrskurði úrskurðar­nefndarinnar.

Alvarleg og óafsakanleg brot Skipulagsstofnunar gagnvart kæranda geti ekki orðið réttmætur grundvöllur undir réttindaskerðingu hans. Brot á lögbundnum frestum séu, og verði að vera, á ábyrgð og áhættu stofnunarinnar en ekki kæranda eða framkvæmdaraðila almennt. Fjögurra vikna frestur Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 til að taka ákvörðun um tillögu að matsáætlun sé óundanþægur og settur vegna hagsmuna framkvæmdar­­aðila. Fresturinn sé því hvorki þýðingarlaus fyrir framgang mats á umhverfis­áhrifum né ætti hann að vera það. Virði stjórnvald frest að vettugi geti slík brot ekki orðið til þess að skerða eða hafa af borgurunum þá réttarvernd eða réttindi sem lögmæt málsmeðferð hefði tryggt.

Réttindi þau sem Skipulagsstofnun leitist við að takmarka eða hafa af kæranda séu mikilvæg atvinnuréttindi sem varin séu af stjórnarskrá og verði þau ekki takmörkuð nema með heimild í lögum. Við mat á réttarstöðunni verði að horfa til stöðu málsins 4. júní 2021. Einnig sé vísað til upplýsinga um stjórnsýsluframkvæmd Skipulagsstofnunar og yfirlýsingar hennar um að stofnunin væri m.a. meðvituð um að heimildin til að hafna frummatsskýrslu væri valkvæð og bundin við mat stofnunarinnar hverju sinni. Einnig að Skipulagsstofnun væri ljóst að henni bæri að taka með form­legum hætti afstöðu til þess hvort hafna bæri frummatsskýrslu innan tveggja vikna. Komi sömu sjónarmið fram í forsendum fyrri úrskurðar nefndarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé alvarleg og ámælisverð. Vanvirðing stofnunarinnar við fresti og hagsmuni framkvæmdaraðila, sem og úrskurð úrskurðarnefndarinnar, megi hvorki verða látin óátalin né hún samþykkt af hálfu nefndarinnar.

Kæranda varði miklu að framgangur mats á umhverfisáhrifum verði með þeim hætti sem lög nr. 106/2000 áskilji. Hagsmunir kæranda af því að viðhalda frummatsskýrslu hafi aukist við setningu laga nr. 59/2021 um breytingu á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi og hafi heimild Skipulagsstofnunar til að hafna skýrslunni takmarkast að sama skapi, enda hafi ákvörðun um höfnun orðið meira íþyngjandi en áður. Skipulagsstofnun hafi verið skylt að leggja mat á og rökstyðja sérstaklega nauðsyn þess að hafna frummatsskýrslunni út frá reglum stjórnsýsluréttar um meðalhóf og að teknu tilliti til hagsmuna kæranda. Hafi stofnuninni borið að færa fram rök fyrir því að henni væri nauðsynlegt að taka hina íþyngjandi ákvörðun þar sem lögmætu markmiði, sem að væri stefnt, yrði ekki náð með öðru og vægara móti. Lögmætt markmið málsmeðferðar við mat á umhverfisáhrifum sé að Skipulagsstofnun ljúki mati á umhverfis­áhrifum skv. 11. gr. laga nr. 106/2000. Til að henni hefði verið heimilt að hafna frummats­skýrslunni hefði stofnuninni verið nauðsynlegt að færa fram rök fyrir því að ekki yrði unnt að ljúka mati á umhverfisáhrifum nema hafna skýrslunni. Það hafi Skipulagsstofnun ekki gert og blasi við að ekki sé eða hafi verið nauðsynlegt að hafna frummatsskýrslunni til að ljúka mati á umhverfisáhrifum, sbr. fyrri umfjöllun og með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar. Ef ómöguleiki eða lög hefðu staðið í vegi fyrir því hefði það ekki getað orðið niðurstaða nefndarinnar.

Einu rökin sem Skipulagsstofnun setji fram fyrir ákvörðun sinni séu að það sé „forsenda“ fyrir því að taka frummatsskýrslu til afgreiðslu skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 að áður hafi verið lokið við málsmeðferð á tillögu að matsáætlun. Sömu rök hafi verið færð fram fyrir úrskurðarnefndinni í fyrra kærumáli en nefndin hafi hafnað sjónarmiðum stofnunarinnar að þessu leyti.

Þá hafi Skipulagsstofnun borið að veita kæranda andmælarétt áður en ákvörðunin hafi verið tekin. Hafi kærandi óskað eftir því við stofnunina að fá að koma að sjónarmiðum sínum áður en tekin yrði ákvörðun um „viðbrögð“ við úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Brot gegn andmælarétti kæranda séu því óafsakanleg.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun er ósammála túlkun kæranda á 1. mgr. 10. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og telur að stofnunin geti hafnað því að taka frummatsskýrslu til athugunar/meðferðar þótt liðnar séu tvær vikur frá því að tekið hafi verið við skýrslunni. Tímafresturinn sé formregla, en ekki efnislegt skilyrði. Skipulagsstofnun geti ekki tekið frummatsskýrsluna til meðferðar skv. 10. gr. þar sem fyrri stigum umhverfismats framkvæmdarinnar sé ekki lokið. Lög nr. 106/2000 séu skýr hvað þetta varði, málsmeðferð skv. 8. gr. ljúki með ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun og frummatsskýrsla verði eingöngu tekin til meðferðar að lokinni málsmeðferð skv. 8. gr. laganna. Ekki sé tekið undir það að hafi frummatsskýrslu, sem uppfylli ekki grundvallarskilyrði laga, ekki verið hafnað innan tveggja vikna þá verði það til þess að stofnunin þurfi að taka hana til meðferðar, eða sé það yfirhöfuð heimilt.

Því sé vísað á bug að Skipulagsstofnun sé að hunsa niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2020 eða að ákvörðun hennar brjóti gegn niðurstöðunni. Ekki sé verið að misskilja umræddan úrskurð og lesa verði hann með heildstæðum hætti. Á bls. 7 í úrskurðinum segi að stofnunin hafi ekki heldur hafnað því að taka frummatsskýrsluna til meðferðar þar sem hún uppfylli ekki lagaskilyrði og verði að hafa þessi orð í huga þegar niðurlag á bls. 8 og úrskurðarorð séu virt. Fyrirmæli úrskurðarnefndarinnar feli ekki í sér að taka skuli frummatsskýrsluna til frekari meðferðar án þess að höfnun komi til greina. Undir orðið „afgreiðsla“ geti fallið bæði samþykki og höfnun. Vegna tilvísunar kæranda í a-lið 1. mgr. 4. gr. a í lögum nr. 106/2000 þá sé þar talað um afgreiðslu matsáætlunar en ekki frummatsskýrslu. Enn fremur falli undir afgreiðslu á matsáætlun synjun Skipulagsstofnunar, samþykki hennar og samþykki hennar með skilyrðum, sbr. orðalag 2. mgr. 8. gr. laganna.

Skipulagsstofnun beri að taka mið af þeim kröfum sem leiði af lögmætisreglunni. Verði ákvarðanir hennar að eiga sér stoð í lögum og megi ekki fara gegn þeim. Það leiði af orðalagi 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 að matsáætlun sé forsenda þess að stofnunin geti tekið frummatsskýrslu til meðferðar skv. 10. gr. laganna. Af ákvæðum 8. gr. sömu laga leiði að tillaga að matsáætlun verði ekki að matsáætlun í skilningi laga nr. 106/2000 fyrr en Skipulags­stofnun hafi tekið ákvörðun um að fallast á hana. Hafi stofnunin ekki heimild til að virða þetta lögbundna fyrirkomulag að vettugi og geti meðalhófsregla stjórnsýsluréttar eða þær kröfur sem leiði af henni ekki leitt til þess að vikið sé frá skýrum lagaákvæðum. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um að fallast á matsáætlun. Framangreind rök, sem höfnun Skipulagsstofnunar byggist á, séu í samræmi við eftirfarandi orð í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 116/2020: „[…] enda er ljóst að teldi stofnunin matsáætlun vera forsendu þess að hún gæti tekið frummats­skýrsluna til meðferðar samkvæmt 10. gr. laga nr. 106/2000 bar henni að hafna skýrslunni með þeim rökum.“ Þegar málsmeðferð vegna tillögu að matsáætlun sé lokið með ákvörðun Skipulagsstofnunar geti málsmeðferð vegna frummatsskýrslu hafist. Hafi ráðgjafa kæranda verið sendur tölvupóstur 22. júní 2021 með leiðbeiningum um atriði sem þyrfti að laga áður en matsáætlun yrði send til umsagnaraðila, en ekki hafi borist svör við þeim tölvupósti.

Því sé vísað á bug að úrskurðarnefndin hafi hafnað rökum Skipulagsstofnunar um að áður en frummatsskýrsla verði tekin til afgreiðslu hafi áður verið lokið við málsmeðferð á tillögu að matsáætlun. Þegar niðurstöðukafli úrskurðarins sé virtur með heildstæðum hætti verði ekki séð að nefndin hafi með berum orðum eða með beinum hætti tekið afstöðu til umræddra raka. Sé hér vísað til áðurtilvitnaðra orða í úrskurði nefndarinnar og eftirfarandi ítrekað sem fram komi í úrskurðinum: „Hefur stofnunin ekki heldur hafnað því að taka frummatsskýrslu hans til meðferðar þar sem hún uppfylli ekki lagaskilyrði.“

Loks hafni Skipulagsstofnun því að andmælaréttur kæranda hafi verið brotinn. Höfnunin hafi byggst á því að skilyrði í tilteknum ákvæðum laga nr. 106/2000 hafi ekki verið uppfyllt. Við þær aðstæður hafi ekki borið að gefa kæranda kost á að tjá sig áður en ákvörðunin hafi verið tekin, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar rökstuðning í kæru og telur að Skipulagsstofnun hafi ekki hrakið sjónarmið sín. Í forsendum og úrskurðarorðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2020 hafi falist að hafnað væri sjónarmiðum stofnunarinnar um að það væri lagaskilyrði fyrir því að frummatsskýrsla yrði tekin til afgreiðslu að málsmeðferð skv. 8. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum væri lokið. Orðalag úrskurðarnefndarinnar sem kærandi vísi til, um að stofnunin hefði ekki heldur hafnað því að taka frummatsskýrslu hans til meðferðar þar sem hún uppfyllti ekki lagaskilyrði, verði ekki skilið með þeim hætti sem Skipulagsstofnun kjósi að gera. Það er, að henni hefði staðið til boða eftir uppkvaðningu úrskurðarins að hafna því að taka til afgreiðslu frummatsskýrslu með vísan til þeirra sjónarmiða að matsáætlun væri forsenda fyrir því að frummatsskýrsla yrði tekin til meðferðar skv. 10. gr. laga nr. 106/2000. Hefði þessi möguleiki enn verið fyrir hendi hefðu forsendur úrskurðarnefndarinnar verið á þá leið, en þær hefðu ekki verið það. Í úrskurðinum komi fram að stofnuninni hafi borið að hafna skýrslunni með þessum rökum en hefði úrskurðarnefndin enn talið að Skipulagsstofnun gæti hafnað skýrslunni hefði hún tekið fram að stofnunin gæti eða bæri að hafna skýrslunni á þeim grundvelli. Á þessu sé augljós munur.

Nýti Skipulagsstofnun sér ekki heimild 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 til að hafna frummatsskýrslu innan tveggja vikna frá móttöku hennar falli réttur stofnunarinnar til að ljúka málsmeðferð skv. 1. mgr. 10. gr. niður og beri eftir það tímamark að taka frummatsskýrsluna til afgreiðslu í samræmi við lög nr. 106/2000. Um það hvernig sú málsmeðferð verði fari eftir atvikum. Við blasi að hægt yrði að vinna hana frekar með vísan til þeirra sérstöku aðstæðna sem þá væru uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. sömu laga og samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar um heimild málsaðila til að laga og bæta úr stjórnsýsluerindi á meðan á málsmeðferð standi.

 Skipulagsstofnun byggi eingöngu á því að hún telji það vera formskilyrði fyrir því að frummatsskýrsla sé tekin til afgreiðslu að matsáætlun liggi fyrir. Sú staðhæfing sé hins vegar röng og í andstöðu við efni 1. mgr. 10. gr. laganna. Það sé í samræmi við meginreglu stjórnsýslulaga að erindi til stjórnvalda verði almennt ekki vísað frá vegna formgalla eða annarra galla og séu mjög rúmar heimildir í stjórnsýslurétti til að laga, breyta og bæta úr málatilbúnaði við meðferð máls. Á þeim grunni byggi m.a. ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000. Í þessu sambandi sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá 8. janúar 2020 í máli nr. 9989/2019. Byggi forsendur fyrrnefnds úrskurðar úrskurðarnefndarinnar á þessum sjónarmiðum og séu þau í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga.

Í umsögn sinni svari Skipulagsstofnun almennt ekki athugasemdum kæranda efnislega. Hvað sjónarmið stofnunarinnar um andmælarétt varði sé bent á að úrlausnir stjórnvalda um réttindi og skyldur snúist almennt um túlkun á lögum, þ.e. hver sé réttur þess sem leiti eftir úrlausn samkvæmt lögum. Sjónarmið aðila lúti því oft að því hvernig túlka beri ákvæði laga hverju sinni og við slíkar aðstæður geti opinber aðili ekki fyrirfram talið að þau séu augljóslega óþörf. Sú afstaða að sjónarmið kæranda skipti ekki máli fyrir úrlausn á réttindum hans hjá stofnuninni séu ekki góður vitnisburður um starfshætti hennar.

 Niðurstaða: Mælt var fyrir um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda í IV. kafla þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í 8. gr. laganna var fjallað um málsmeðferð vegna matsáætlunar, sem skilgreind var í lögunum sem áætlun framkvæmdaraðila byggð á tillögu hans um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skyldi áherslu í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð frummatsskýrslu. Fram kom í 9. gr. sömu laga að hygði framkvæmdaraðili á framkvæmd eða starfsemi sem háð væri mati á umhverfisáhrifum skyldi að lokinni málsmeðferð skv. 8. gr. unnin skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar. Skýrslan, er nefndist frummatsskýrsla, skyldi unnin af framkvæmdaraðila og skyldi gerð og efni hennar vera í samræmi við matsáætlun, sbr. 8. gr. Samkvæmt 10. gr. laganna skyldi Skipulagsstofnun innan tveggja vikna frá því að hún tæki á móti frummatsskýrslu meta hvort skýrslan uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru í 9. gr. og væri í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. laganna.

Ferlinu við mat á umhverfisáhrifum var lýst í 4. gr. a í lögum nr. 106/2000. Samanstóð það af nánar tilgreindum þáttum sem taldir voru upp í stafliðum a-f. Í a-lið var tiltekin gerð og afgreiðsla matsáætlunar, í b-lið gerð frummatsskýrslu framkvæmdaraðila, í c-lið kynning og samráð um frummatsskýrslu, í d-lið gerð matsskýrslu, í e-lið athugun Skipulagsstofnunar á matsskýrslu og álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og loks í f-lið að álitið væri lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda. Ákvæðið kom inn með breytingalögum nr. 96/2019 og í athugasemdum með frumvarpi með nefndum lögum sagði m.a. að lagt væri til að í 4. gr. a yrði ferli mats á umhverfisáhrifum skilgreint. Tillagan væri í samræmi við nýtt ákvæði g-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, eins og henni hefði verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB. Tilgangur ákvæðisins væri að setja fram með skýrum hætti hvað fælist í ferli mats á umhverfisáhrifum. Til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar þyrftu lög um mat á umhverfisáhrifum annað hvort að innihalda tiltekið ákvæði sem tilgreindi allt ferli mats á umhverfisáhrifum eða ferlið að koma með öðrum hætti skýrt fram í lögunum. Þrátt fyrir að lög um mat á umhverfisáhrifum væru nú þegar talin uppfylla ákvæði tilskipunarinnar væri talið til bóta að setja ferli mats á umhverfisáhrifum fram sem skilgreiningu þar sem hvert skref ferlisins væri tiltekið sérstaklega með stafliðum og endaði á að álit Skipulagsstofnunar væri lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda.

Að framangreindu virtu má ljóst vera að frummatsskýrsla verður ekki tekin til afgreiðslu fyrr en að Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um tillögu að matsáætlun, enda skal gerð og efni frummatsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun skv. 9. gr. laga nr. 106/2000. Eðli málsins samkvæmt verður skýrslan því ekki tekin til athugunar fyrr en stofnunin hefur lokið afgreiðslu sinni á tillögu að matsáætlun, en fallist Skipulagsstofnun á tillöguna með skilyrðum verða þau hluti af matsáætlun. Breytir þar engu um hvort frummatsskýrslu hafi þegar verið skilað áður en ákvörðun stofnunarinnar um tillögu að matsáætlun lá fyrir. Þá verður ekki séð að lagarök hnígi til þess að Skipulagsstofnun hafi verið óheimilt að hafna því að taka frummatsskýrslu til meðferðar ef meira en tvær vikur liðu frá móttöku hennar þrátt fyrir að 1. mgr. 10. gr. laganna hafi gert ráð fyrir þeim fresti. Er í þessu sambandi rétt að benda á að almennt hafi tafir á afgreiðslu mála ekki áhrif á gildi stjórnvaldsákvörðunar.

 Kærandi telur loks að Skipulagsstofnun hafi borið að veita honum andmælarétt áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Hafi hann sérstaklega óskað eftir því að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en tekin yrði ákvörðun í málinu. Hefur stofnunin í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar skírskotað til þess að höfnunin hefði byggst á því að ákveðin skilyrði laga nr. 106/2000 hefðu ekki verið uppfyllt og við þær aðstæður hefði ekki borið að gefa kæranda kost á að tjá sig áður en ákvörðunin væri tekin, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Andmælaregla 13. gr. stjórnsýslulaga kveður á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Er megintilgangur andmælareglunnar að gefa aðila máls færi á að gæta réttar síns og hagsmuna við stjórnsýslumeðferð mála með því að leiðrétta rangfærslur, benda á atriði sem geta verið honum til hagsbóta og leggja fram ný gögn sem þjóna þessum tilgangi. Stjórnvaldi ber hins vegar almennt ekki skylda til að gefa málsaðila sérstakt færi á að tjá sig um lagagrundvöll málsins eða vangaveltur um túlkun einstakra reglna sem á kann að reyna áður en ákvörðun er tekin. Skal og á það bent að sú afstaða Skipulagsstofnunar að ekki væru forsendur til að taka frummatsskýrslu til meðferðar þar sem ekki lægi fyrir matsáætlun í skilningi laga nr. 106/2000 var kæranda ljós, enda lá hún fyrir í fyrra kærumáli. Verður því ekki talið að brotið hafi verið á andmælarétti kæranda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2021 um að hafna að taka til meðferðar frummatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar á laxi í sjókvíum í Arnarfirði.

102/2021 Matsáætlun

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 14. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2021 um að hafna að taka til meðferðar tillögu að matsáætlun, sem og frummatsskýrslu, vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs eldis á 11.500 tonnum af regnbogasilungi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Hábrún hf. þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. s.m. að hafna því að taka til meðferðar tillögu kæranda að matsáætlun, sem og frummatsskýrslu, vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs eldis á regnbogasilungi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin leggi fyrir Skipulagsstofnun að ljúka afgreiðslu á frummatsskýrslu en til vara að afgreiða tillögu að matsáætlun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 19. ágúst 2021.

Málavextir: Kærandi leggur stund á sjókvíaeldi á Vestfjörðum. Hinn 20. ágúst 2018 sendi hann Skipulagsstofnun fjórar tillögur að matsáætlun vegna fyrirhugaðs eldis á samtals 11.500 tonnum af regnbogasilungi á fjórum eldissvæðum í Ísafjarðardjúpi, í samræmi við þágildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Með svarbréfi til kæranda, dags. 13. september s.á., benti stofnunin á að rétt væri að horfa á áformin sem eina framkvæmd. Skilaði kærandi inn nýrri tillögu 19. október 2018 til samræmis við það og óskaði þess að framkvæmdin myndi sæta mati á umhverfisáhrifum, án undangenginnar málsmeðferðar skv. 2.-5. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Kom Skipulagsstofnun að athugasemdum sínum við tillöguna með bréfi, dags. 18. desember s.á.

Hinn 24. maí 2019 skilaði kærandi tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og óskaði eftir því að unnið yrði samtímis að matsskýrslu og starfsleyfi Umhverfisstofnunar vegna fyrirhugaðrar framleiðslu, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 106/2000. Mun Skipulagsstofnun hafa veitt Umhverfisstofnun frest til 29. s.m. til að skila inn umsögn vegna framkominnar beiðni. Með tölvupósti kæranda til Skipulagsstofnunar 25. júní 2019 var þess óskað að tillagan yrði tekin til meðferðar þannig að samþykkja mætti hana svo hægt væri að skila inn frummatsskýrslu vegna fyrirhugaðs eldis. Í svarpósti Skipulagsstofnunar 2. júlí s.á. kom fram að stofnunin hefði ekki getað fjallað um erindi kæranda frá 24. maí 2019 vegna verkefnaálags og manneklu. Jafnframt var bent á lið b (ll) í 24. gr. nýsamþykktra laga nr. 101/2019 um breytingu á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en nefnd lög voru samþykkt á Alþingi 20. júní 2019 og tóku gildi 19. júlí s.á. Meðal breytinga var að Hafrannsóknastofnun myndi ákveða skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði, sem auglýst yrðu opinberlega og úthlutað af ráðherra, sbr. nú 4. gr. a í lögum nr. 71/2008. Í bráðabirgðaákvæðum liða a-c í 24. gr. laga nr. 101/2019 var að finna ákvæði um lagaskil og kom fram í b-lið að um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem metin hefðu verið til burðarþols, og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum væri lokið fyrir gildistöku ákvæðisins eða frummatsskýrslu hefði verið skilað fyrir gildistöku þess til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, færi eftir eldri ákvæðum laganna. Með tölvupósti kæranda til Skipulagsstofnunar 9. ágúst 2019 var þess óskað að tillaga hans að matsáætlun yrði afgreidd í samræmi við þau lög sem hefðu verið í gildi þegar tillagan hefði verið send stofnuninni.

Kærandi sendi Skipulagsstofnun frummatsskýrslu 30. ágúst 2019. Í meðfylgjandi bréfi var tekið fram að stofnuninni hefði borið að taka ákvörðun um tillögu kæranda að matsáætlun innan fjögurra vikna frá því að tillagan hefði borist, að fenginni umsögn leyfisveitenda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000. Málsmeðferð skv. 8. gr. hefði verið lokið 21. júní 2019 og því væri frummatsskýrsla send stofnuninni og þess óskað að hún yrði tekin til efnislegrar meðferðar í samræmi við ákvæði 10. gr. laga nr. 106/2000. Skipulagsstofnun svaraði kæranda með bréfi, dags. 24. september s.á., og benti m.a. á að matsáætlun væri forsenda þess að stofnunin gæti tekið frummatsskýrslu til meðferðar, en ekki lægi fyrir matsáætlun í skilningi laga nr. 106/2000. Af þeim sökum væru ekki forsendur til að taka frummatsskýrslu til meðferðar á grundvelli 10. gr. þeirra laga. Þá væri ekki grundvöllur til að halda áfram með málsmeðferð samkvæmt lögunum hefði frummatsskýrslu ekki verið skilað fyrir gildistöku laga nr. 101/2019.

Með tölvupósti kæranda til Skipulagsstofnunar 30. mars 2021 var þess farið á leit að stofnunin afgreiddi erindi hans frá 30. ágúst 2019, ella að hún lyki afgreiðslu á tillögu að matsáætlun. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 4. júní 2021, kom m.a. fram að fyrir lægi að áform kæranda féllu ekki undir bráðabirgðaákvæði b-liðar 24. gr. laga nr. 101/2019. Jafnframt væru áformin ekki komin á það stig að þau gætu hlotið málsmeðferð á grundvelli laga nr. 106/2000, enda lægi ekki fyrir hvar og hvernig eldissvæðin yrðu afmörkuð innan Ísafjarðardjúps. Eðli málsins samkvæmt væru ekki forsendur til að meta áhrif framkvæmdar þegar svo mikil óvissa væri uppi um staðsetningu og tilhögun hennar. Þar af leiðandi væri því hafnað að taka tillögu kæranda að matsáætlun til meðferðar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000. Þá væri afstaða Skipulagsstofnunar óbreytt varðandi frummatsskýrslu kæranda og væri því hafnað að taka hana til meðferðar skv. 10. gr. sömu laga.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að endanlegri og fullbúinni tillögu að matsáætlun hafi verið skilað inn til Skipulagsstofnunar 24. maí 2019. Í samræmi við 2. mgr. 8. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi stofnuninni borið að taka afstöðu til tillögunnar innan fjögurra vikna frá þeim tíma, en það hafi hún ekki gert. Hafi stofnunin getað samþykkt tillöguna, með eða án skilyrða, eða hafnað henni með formlegri og rökstuddri ákvörðun þar sem gerð væri grein fyrir því hverju væri ábótavant og leiðbeiningar veittar um frekari vinnslu tillögunnar. Einnig hafi stofnunin átt þann kost að víkja frá umræddum fresti að fullnægðum skilyrðum 21. gr. sömu laga, en um undanþágu sé að ræða sem túlka beri þröngt.

Lög nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengist fiskeldi hafi á engan hátt breytt lögum nr. 106/2006 og hafi Skipulagsstofnun verið skylt að ljúka umfjöllun um tillögu að matsáætlun í samræmi við síðargreindu lögin. Á sama tíma og það hafi ekki verið gert hafi stofnunin leiðbeint þremur öðrum fyrirtækjum um hver réttarstaða þeirra væri samkvæmt lögum nr. 101/2019 og að þeim væri nauðsynlegt að bæta úr vanköntum á framlögðum frummatsskýrslum áður en þau lög tækju gildi. Þegar Skipulagsstofnun hafi sent kæranda tölvupóst 2. júlí 2019 hafi starfsmenn stofnunarinnar vitað að ekki væri búið að birta lögin í A-deild Stjórnartíðinda. Stofnunin og fiskeldisfyrirtæki hafi því enn verið bundin af leyfisveitingarreglum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og laga nr. 106/2000.

Þrátt fyrir eftirrekstur af hálfu kæranda hafi Skipulagsstofnun ekki hirt um að ljúka með formlegum hætti meðferð sinni á tillögunni. Tillagan hafi þar með orðið endanleg ef horft sé til orðalags 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000, sem leggi á herðar Skipulagsstofnunar skyldu til athafna, þ.e. til að koma með tillögur, sem og rökstudda ákvörðun, telji stofnunin tillögu að matsáætlun ábótavant. Þegar hvorki séu gerðar athugasemdir eða settar fram tillögur innan lögbundins afgreiðslufrests né leitað heimildar til að víkja frá frestinum verði með gagnályktun frá 2. mgr. 8. gr. að líta svo á að tillagan sé samþykkt.

Hinn 30. ágúst 2019 hafi frummatsskýrsla, byggð á tillögu að matsáætlun, verið send Skipulagsstofnun og skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 hafi stofnuninni borið að meta innan tveggja vikna hvort skýrslan uppfyllti kröfur 9. gr. laganna. Aðeins í þeim tilvikum að skýrslan uppfyllti ekki skilyrði ákvæðisins hafi Skipulagsstofnun getað hafnað því að taka frummatsskýrsluna til athugunar. Jafnframt hafi Skipulagsstofnun borið að leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu hennar.

Útgáfa rekstrarleyfis bíði þess að Skipulagsstofnun ljúki lögboðinni málsmeðferð. Hafi stofnunin tekið sér vald sem hún hafi ekki að lögum, en hafi á sama tíma ekki gætt að því að fara að lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það sé ekki Skipulagsstofnunar að meta hvaða fyrirtæki fái leyfi til sjókvíaeldis á hafsvæðum sem metin hafi verið til burðarþols. Af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2020 megi ráða að Skipulagsstofnun hefði haft eða mátt hafa vitneskju um það snemma í meðferð þess máls að ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála hefði af einhverjum ástæðum ákveðið að birting laga nr. 101/2019 færi ekki fram fyrr en 18. júlí 2019. Breyting á leyfisfyrirkomulagi laga um fiskeldi hafi ekki breytt skyldu Skipulagsstofnunar til að ljúka meðferð á tillögum að matsætlunum sem stofnuninni hefðu borist. Dráttur á framlagningu frummatsskýrslu sé ekki kæranda að kenna heldur sé orsök hans neitun Skipulagsstofnunar á að afgreiða tillögu að matsáætlun þegar eftir því hafi verið leitað.

Þegar löggjafinn fari þá leið að mæla fyrir um ákveðinn frest sem stjórnvöld hafi til að afgreiða mál verði að miða við að til grundvallar slíkri lagasetningu liggi tiltekið mat löggjafans um að rétt sé að lögbinda afgreiðslutíma málanna vegna eðlis þeirra og hagsmuna þeirra sem í hlut eigi. Sé í þessu sambandi vísað til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 5376/2008 og 3744/2003. Geti annir í stjórnsýslunni almennt ekki réttlætt að vikið sé frá lögbundnum afgreiðslufresti og mikilvægt sé að afgreiðslu sé hraðað eins og unnt sé í málum sem varði hagsmuni aðila sem hefji atvinnustarfsemi.

Virði Skipulagsstofnun ekki lögbundinn frest til að afgreiða tillögu að matsáætlun sem framkvæmdaraðili hafi unnið í samræmi við lög og í samráði við stofnunina verði að líta svo á að stofnunin sé bæði bundin af tillögunni, sem og af frummatsskýrslu á henni byggðri. Að öðrum kosti hefði það enga þýðingu haft að taka upp í lög nr. 106/2000 ákvæði í 21. gr. þeirra þar sem stofnuninni sé gert mögulegt að lengja afgreiðslufresti að höfðu samráði við framkvæmdaraðila sé mál umfangsmikið. Sömu sjónarmið eigi við um varakröfu kæranda.

 Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er lögð áhersla á að skv. 2. mgr. 8. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum beri stofnuninni að taka ákvörðun um tillögu að matsáætlun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi tillaga berist, að „fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila.“ Þegar tillaga að matsáætlun hafi borist Skipulagsstofnun 24. maí 2019 hafi verið liðnir rúmlega fimm mánuðir frá því að stofnunin hafi farið yfir hana og gert athugasemdir. Hafi stofnunin þá átt eftir að fara yfir tillöguna að nýju til að gæta þess að hún uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru til hennar. Það hafi því ekki legið fyrir hvort tillagan væri fullnægjandi. Einnig hafi stofnunin átt eftir að leita umsagna um tillöguna hjá leyfisveitendum og framkvæmdaraðili hafi mögulega átt eftir að svara framkomnum umsögnum. Með hliðsjón af framangreindu og miklum fjölda mála sem beðið hafi afgreiðslu Skipulagsstofnunar á þessum tíma hafi ekki verið mögulegt að afgreiða tillöguna fyrir 21. júní 2019. Samkvæmt 21. gr. nýlegra samþykktra laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana skuli Skipulagsstofnun kynna framkvæmdaraðila álit sitt um matsáætlun innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn hafi borist. Fram komi í greinargerð með frumvarpi að nefndum lögum að það hafi verið erfiðleikum bundið fyrir Skipulagsstofnun að uppfylla þá stuttu tímafresti sem mælt hefði verið fyrir um í lögum nr. 106/2000. Það hafi m.a. helgast af óraunhæfum tímamörkum og hafi tímafrestir verið endurskoðaðir með það að markmiði að þeir yrðu raunhæfir.

Bréf þau sem kærandi kveði Skipulagsstofnun hafa sent öðrum fyrirtækjum hafi verið send aðilum sem lagt hafi fram drög að frummatsskýrslu vegna sjókvíaeldis, en í tilviki kæranda hafi ekki verið búið að taka ákvörðun um matsáætlun. Atvik í umræddum málum hafi ekki verið sambærileg máli kæranda. Hafi ritun bréfanna verið í samræmi við hlutverk stofnunarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000.

Þótt ákvörðun hafi ekki legið fyrir innan þess tímafrests sem tilgreindur sé í 8. gr. laga nr. 106/2000 leiði það ekki til þess að Skipulagsstofnun hafi fallist á tillöguna. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði ljúki máls­meðferð með formlegri ákvörðun stofnunarinnar um samþykki, með eða án athugasemda, eða synjun. Því sé hafnað að Skipulagsstofnun sé bundin af tillögu að matsáætlun og frummats­skýrslu sem byggð sé á henni, enda mæli lög nr. 106/2000 ekki fyrir um slíkt fyrirkomulag.

Matsáætlun sé forsenda þess að Skipulagsstofnun geti tekið frummatsskýrslu til meðferðar skv. 10. gr. laga nr. 106/2000. Af ákvæðum 8. gr. sömu laga leiði að tillaga að matsáætlun verði ekki að matsáætlun í skilningi laganna fyrr en stofnunin hafi tekið ákvörðun um að fallast á hana. Slík ákvörðun hafi ekki verið tekin og af þeim sökum hafi ekki verið forsendur fyrir Skipulagsstofnun til að taka frummatsskýrslu kæranda til meðferðar.

Áform kæranda séu ekki komin á það stig að þau geti hlotið málsmeðferð á grundvelli laga nr. 106/2000, enda liggi ekki fyrir hvar og hvernig eldissvæði verði afmörkuð innan Ísafjarðardjúps. Eðli máls samkvæmt séu ekki forsendur til að meta áhrif framkvæmdar þegar svo mikil óvissa sé uppi um staðsetningu og tilhögun hennar. Hvað varði tilvísun kæranda til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2020 sé bent á að áform þess fyrirtækis, sem þar hafi verið fjallað um, feli í sér aukningu á eldi innan núverandi svæðis, en í tilviki kæranda sé um ný svæði að ræða. Þá hafi Skipulagsstofnun ekki haft vitneskju um hvenær breytingalög nr. 101/2019 yrðu birt í A-deild Stjórnartíðinda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir m.a. á að afgreiðslufrestir sem Skipulags­stofnun sé bundin af lögum samkvæmt séu settir vegna hagsmuna framkvæmdar­aðila, en ekki vegna hagsmuna stofnunarinnar. Í tillögu kæranda að matsáætlun hafi verið ítarleg lýsing á fyrirhuguðu fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og m.a. greint frá framkvæmda- og áhrifasvæði, leyfum og áætlunum, eldissvæðum og umhverfisþáttum. Skipulagsstofnun hafi haft drögin til skoðunar og meðferðar í tæpar átta vikur. Hafi kærandi tekið fullt tillit til þeirra athugasemda sem stofnunin hafi gert við tillöguna. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið neina formlega og rökstudda ákvörðun um að hafna tillögunni og hafi því verið bundin af henni og matsáætlun sem á henni byggi. Geti kærandi ekki borið hallan af því að stofnunin hafi ekki farið að lögum.

Á Skipulagsstofnun hvíli leiðbeiningarskylda gagnvart framkvæmdaraðilum hafni stofnunin tillögu að matsáætlun. Hljóti starfsmenn hennar að hafa gert sér grein fyrir því í maí og júní 2019 að verið væri að breyta lögum um fiskeldi og að sú breyting gæti haft áhrif á hverjir ættu möguleika á því að fá nýjar eða auknar heimildir til fiskeldis á hafsvæðum sem þegar hefðu verið metin til burðarþols. Hefði stofnuninni borið að gæta þess sérstaklega að öll fyrirtæki sem lagt hefðu fram tillögur að matsáætlun sætu við sama borð og væru upplýst um stöðu sína að samþykktum nýjum lögum. Stofnunin hefði engin samskipti haft að fyrra bragði við kæranda eftir 24. júní 2019 og hefði ekki skoðað hvort tillagan væri fullnægjandi. Skipulagsstofnun hefði hins vegar verið í miklum samskiptum við önnur fiskeldisfyrirtæki.

Sú fullyrðing að áform kæranda hefðu ekki verið komin á það stig í maí 2019 að þau gætu hlotið málsmeðferð á grundvelli laga nr. 106/2000 sé órökstudd. Skipulagsstofnun hafi ekki síðan 18. desember 2018 gert athugasemdir við tillögur kæranda að matsáætlun, en þær hafi verið fábrotnar og bætt hafi verið úr þeim.

Kærandi hafi allt frá upphafi málsmeðferðarinnar verið með skýrar hugmyndir um það hvar fyrirtækið hygðist koma fyrir eldiskvíum á hafsvæði þar sem það væri með eldi fyrir, þótt það væri utan núverandi eldissvæðis. Hafi eldissvæðin fjögur ávallt verið afmörkuð í gögnum kæranda.

 Niðurstaða: Kæra í máli þessu lýtur að þeirri afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2021 að hafna því að taka til meðferðar tillögu kæranda að matsáætlun, sem og frummatsskýrslu, vegna fyrirhugaðs eldis á regnbogasilungi í sjókvíum á fjórum eldissvæðum í Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir sjókvíum í Hestfirði, Hnífsdal, Naustavík og Drangsvík á Snæfjallaströnd.

Í afgreiðslu sinni vísaði Skipulagsstofnun m.a. til þess að áform kæranda féllu ekki undir bráðabirgðaákvæði b-liðar 24. gr. laga nr. 101/2019 um breytingu á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Jafnframt var skírskotað til d-liðar 1. mgr. 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fyrirhuguð framkvæmd væri skilgreind sem framkvæmd sem komin væri á það stig að hún gæti hlotið málsmeðferð skv. V. kafla reglugerðarinnar. Einnig vísaði stofnunin til 15. gr. reglugerðarinnar um skyldu framkvæmdaraðila til að leggja fram tillögu að matsáætlun þegar meginþættir framkvæmdar væru orðnir það ljósir að hægt væri að fá yfirlit yfir fyrirhugaða framkvæmd, áhrifasvæði og helstu áhersluþætti matsvinnunnar.

Jafnframt sagði í afgreiðslu Skipulagstofnunar að samkvæmt lögum nr. 101/2019 ákveddi Hafrannsóknastofnun skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði og væri ákvörðun hennar, sem unnin væri á grundvelli heildstæðs faglegs mats, nauðsynleg forsenda þess að hægt væri að ákveða framkvæmdasvæði einstakra leyfisskyldra sjókvíaeldis­framkvæmda og veita leyfi til sjókvíaeldis. Þannig gæti ákvörðun um staðsetningu og afmörkun eldissvæða ekki lengur komið til á grundvelli ákvörðunar einstakra framkvæmdaraðila byggt eingöngu á þeirra framkvæmdamarkmiðum og hagsmunum. Taldi Skipulagsstofnun í ljósi framangreinds að áform kæranda væru ekki komin á það stig að þau gætu hlotið málsmeðferð á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, enda lægi ekki fyrir hvar og hvernig eldissvæði yrðu afmörkuð innan Ísafjarðardjúps. Eðli málsins samkvæmt væru ekki forsendur til að meta áhrif framkvæmdar þegar svo mikil óvissa væri uppi um staðsetningu og tilhögun hennar og því væri því hafnað að taka tillögu að matsáætlun til meðferðar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000. Þá væri óbreytt sú afstaða Skipulagsstofnunar er fram hefði komið í bréfi hennar, dags. 24. september 2019, að hafna því að taka frummatsskýrslu til meðferðar skv. 10. gr. laga nr. 106/2000, en gerður væri sá áskilnaður í þeim lögum að ákvörðun um matsáætlun þyrfti að liggja fyrir áður en frummatsskýrsla yrði tekin til meðferðar.

Lög nr. 71/2008 um fiskeldi, með síðari breytingum, mæla fyrir um þá lagaumgjörð sem gildir um fiskeldi á Íslandi, svo sem um stjórnsýslu þeirra mála og rekstrarleyfi. Líkt og greinir í málavaxtalýsingu voru samþykkt á Alþingi lög nr. 101/2019 um breytingu á fyrrgreindum lögum nr. 71/2008 og tóku þau gildi 19. júlí 2019. Tilvitnað ákvæði b-liðar 24. gr. laga nr. 101/2019, sem nú er ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 71/2008, mælir fyrir um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum. Um móttöku og afgreiðslu umsókna er fjallað í 4. gr. b og er þar fjallað um hlutverk Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar, en fyrrnefnda stofnunin hefur jafnframt með höndum framkvæmd stjórnsýslu laganna og eftirlit með því að ákvæðum þeirra sé framfylgt, sbr. 1. mgr. 4. gr. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar 4. gr. b afhendir umsækjandi Matvælastofnun umsókn um leyfi þegar fyrir liggur ákvörðun, t.d. Skipulagsstofnunar, um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit sömu stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Lög nr. 71/2008 fjalla þannig ekki um málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum heldur er um það fjallað í lögum nr. 106/2000, en á grundvelli þeirra laga, sbr. 2. mgr. 4. gr. þeirra, er Skipulagsstofnun ráðherra til ráðgjafar um eftirlit með framkvæmd laganna, veitir leiðbeiningar samkvæmt þeim, tekur ákvarðanir um matsskyldu, gefur álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir og tekur aðrar þær ákvarðanir sem tíundaðar eru í lögunum.

Um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda var fjallað í IV. kafla laga nr. 106/2000. Samkvæmt 8. gr. laganna, sem var í gildi þegar kærandi skilaði inn tillögu að matsáætlun, bar Skipulagsstofnun að taka ákvörðun um tillögu að matsáætlun innan fjögurra vikna frá því að tillagan barst, að fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila. Gat Skipulagsstofnun fallist á tillöguna með eða án athugasemda en féllist hún ekki á tillöguna skyldi stofnunin rökstyðja ákvörðun sína, gera grein fyrir því sem hún teldi ábótavant og leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu tillögu að matsáætlun. Að lokinni málsmeðferð skv. 8. gr. skyldi framkvæmdaraðili skv. 9. gr. sömu laga vinna frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar og skyldi gerð og efni hennar vera í samræmi við matsáætlun. Skipulagsstofnun skyldi innan tveggja vikna frá því að hún tók á móti skýrslunni meta skv. 10. gr. sömu laga hvort hún uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru í 9. gr. og væri í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. laganna. Var Skipulagsstofnun heimilt að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar í þeim tilvikum þegar hún uppfyllti ekki framangreind skilyrði og skyldi þá leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu skýrslunnar.

Fyrir liggur að kærandi skilaði inn fjórum tillögum að matsáætlun til Skipulagsstofnunar 20. ágúst 2018 og síðan sameinaðri tillögu 24. maí 2019, en þá hafði stofnunin í tvígang á árinu 2018 komið að athugasemdum sínum við fyrri tillögurnar. Í endanlegri tillögu eru m.a. upplýsingar um kvíasvæði og er staðsetning þeirra sýnd á mynd og hnit staðsetninga fyrir hvert kvíastæði tilgreind í töflu. Einnig er þar t.d. að finna framkvæmdalýsingu og upplýsingar er varða mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Hinn 24. september 2019 lá fyrir sú afstaða Skipulagsstofnunar að ekki lægi fyrir matsáætlun í skilningi laga nr. 106/2000 og því væru ekki forsendur til að taka frummatsskýrslu til meðferðar. Einnig að stofnunin teldi ekki grundvöll til að halda áfram með málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 hefði frummatsskýrslu ekki verið skilað fyrir gildistöku laga nr. 101/2019. Var sú afstaða áréttuð í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2021, auk þess sem því var hafnað að taka tillögu að matsáætlun til meðferðar. Var það mat stofnunarinnar að ekki væru forsendur til að meta áhrif framkvæmdarinnar en uppi væri óvissa um staðsetningu og tilhögun hennar. Ekki lægi fyrir hvar og hvernig eldissvæði yrðu afmörkuð innan Ísafjarðardjúps af hálfu Hafrannsóknastofnunar í samræmi við lög nr. 71/2008, sbr. breytingalög nr. 101/2019.

Lögmætisreglan er undirstaða opinberrar stjórnsýslu og felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og megi ekki fara gegn þeim. Þótt ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þurfi að liggja fyrir áður en sótt er um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar hefur Skipulagsstofnun ekki verið falið sérstakt hlutverk skv. lögum nr. 71/2008, hvorki við meðferð og afgreiðslu umsókna né annað. Verður ekki séð að ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 71/2008, sbr. b-lið 24. gr. laga nr. 101/2019, hafi neina þýðingu hvað þetta varðar, enda tekur ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan til meðferðar og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi, en breytir í engu hlutverki Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Það hlutverk felst m.a. í því, svo sem áður segir, að synja eða fallast á matsáætlun með eða án athugasemda, sbr. 8. gr. laganna, eða hafna því að taka frummatsskýrslu til meðferðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra. Var samkvæmt framangreindu þannig ekki heimild fyrir Skipulagsstofnun að lögum til að afgreiða mál með þeim hætti að hafna því að taka þau til meðferðar, heldur bar stofnuninni, m.a. að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn máls o.fl., að taka afstöðu til þess hvort synja eða fallast ætti á matsáætlun kæranda með eða án athugasemda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Fyrir liggur að tillaga framkvæmdaraðila að matsáætlun bíður þess að fyrir liggi upplýsingar um eldissvæðin. Í þessu tilliti er haldlaus tilvísun Skipulagsstofnunar til þess að framkvæmdin væri ekki komin á það stig að geta hlotið málsmeðferð skv. V. kafla þágildandi reglugerðar nr. 660/2015 þar sem eldissvæði afmörkuð af Hafrannsóknastofnun í samræmi við lög nr. 71/2008 lægju ekki fyrir. Markmið mats á umhverfisáhrifum er að meta og bera saman umhverfisáhrif en ekki að kanna hvort framkvæmdaraðila sé raunverulega mögulegt að hefja framkvæmdir á þeim stað sem hann hefur miðað við í matsáætlun og mat lýtur að. Er og ekki loku fyrir það skotið að hann muni síðar geta öðlast rétt til framkvæmda á þeim stað t.d. ef Hafrannsóknastofnun afmarkar eldissvæði með sama hætti og gert er ráð fyrir af framkvæmdaraðila. Hafi framkvæmdaraðili ekki slíkan rétt þegar að framkvæmdum kemur er það hlutverk leyfisveitanda, hér Matvælastofnunar, en ekki Skipulagsstofnunar að meta hvort honum verði synjað um leyfi af þeim sökum. Þá er rétt að benda á að tekið er fram í 15. gr. reglugerðarinnar, sem Skipulagsstofnun vísar til, að í tillögu að matsáætlun skuli eftir því sem við eigi koma fram möguleg staðsetning framkvæmdar. Er því ekki gert að skilyrði að nákvæm staðsetning liggi fyrir. Er rétt að minna á í þessum efnum að framkvæmdaraðili hefur ákveðið forræði á bæði framkvæmd sinni og mati á umhverfisáhrifum hennar, enda er gert ráð fyrir að matsáætlun sé byggð á tillögu hans um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu og að frummatsskýrsla og matsskýrsla séu skýrslur hans um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar, sbr. skilgreiningar 3. gr. laga nr. 106/2000.

Af öllu framangreindu er ljóst að Skipulagsstofnun var óheimilt að lögum að hafna því að taka tillögu að matsáætlun til meðferðar heldur bar henni að taka ákvörðun í samræmi við 8. gr. laga nr. 106/2000 um hvort synja ætti eða fallast á matsáætlun kæranda. Af þessu verður kærandi ekki látinn bera halla og er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu tillögu hans að matsáætlun. Þær tafir eiga sér ekki stoð í lögum og eru því ekki afsakanlegar. Verður því lagt fyrir Skipulagsstofnun að taka til formlegrar afgreiðslu án frekari tafa tillögu kæranda að matsáætlun. Rétt er þó að taka fram að engin lagarök standa til þess að tillaga kæranda teljist samþykkt fái hún ekki afgreiðslu innan lögbundins afgreiðslufrests 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000, enda raska tafir á afgreiðslu mála almennt ekki gildi ákvarðana eða leiða til þess að í þeim töfum verði taldar felast einhverjar heimildir.

Ferlinu við mat á umhverfisáhrifum var lýst í 4. gr. a í lögum nr. 106/2000. Samanstóð það af nánar tilgreindum þáttum sem taldir voru upp í stafliðum a-f. Í a-lið var tiltekin gerð og afgreiðsla matsáætlunar, í b-lið gerð frummatsskýrslu framkvæmdaraðila, í c-lið kynning og samráð um frummatsskýrslu, í d-lið gerð matsskýrslu, í e-lið athugun Skipulagsstofnunar á matsskýrslu og álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og loks í f-lið að álitið væri lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda. Ákvæðið kom inn með breytingalögum nr. 96/2019 og í athugasemdum með frumvarpi með nefndum lögum sagði m.a. að lagt væri til að í 4. gr. a yrði ferli mats á umhverfisáhrifum skilgreint. Tillagan væri í samræmi við nýtt ákvæði g-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni hefði verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB. Tilgangur ákvæðisins væri að setja fram með skýrum hætti hvað fælist í ferli mats á umhverfisáhrifum. Til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar þyrftu lög um mat á umhverfisáhrifum annað hvort að innihalda tiltekið ákvæði sem tilgreindi allt ferli mats á umhverfisáhrifum eða ferlið að koma með öðrum hætti skýrt fram í lögunum. Þrátt fyrir að lög um mat á umhverfisáhrifum væru nú þegar talin uppfylla ákvæði tilskipunarinnar væri talið til bóta að setja ferli mats á umhverfisáhrifum fram sem skilgreiningu þar sem hvert skref ferlisins væri tiltekið sérstaklega með stafliðum og endaði á að álit Skipulagsstofnunar væri lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda.

Að framangreindu virtu má ljóst vera að frummatsskýrsla verður ekki tekin til afgreiðslu fyrr en að Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um tillögu að matsáætlun, enda skal gerð og efni frummatsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun skv. 9. gr. laga nr. 106/2000. Eðli málsins samkvæmt verður frummatsskýrsla því ekki tekin til athugunar fyrr en stofnunin hefur lokið afgreiðslu sinni á tillögu að matsáætlun, en fallist Skipulagsstofnun á tillöguna með skilyrðum verða þau hluti af matsáætlun. Breytir þar engu um hvort frummatsskýrslu hafi þegar verið skilað áður en ákvörðun stofnunarinnar um tillögu að matsáætlun lá fyrir. Verður því hafnað kröfu kæranda um að ógilt verði sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að taka ekki til meðferðar frummatsskýrslu hans.

 

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir Skipulagsstofnun að taka til afgreiðslu án frekari tafa fyrirliggjandi tillögu kæranda að matsáætlun vegna fyrirhugaðs eldis á 11.500 tonnum af regnbogasilungi í sjókvíum kæranda í Ísafjarðardjúpi.

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2021 um að hafna að taka til meðferðar frummatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs eldis á 11.500 tonnum af regnbogasilungi í sjókvíum kæranda í Ísafjarðardjúpi.