Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

166/2021 Reykjabakki

Árið 2021, mánudaginn 27. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 166/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 11. nóvember 2021 um að fresta afgreiðslu deiliskipulags í landi Reykjabakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 18. nóvember 2021, kærir eigandi, Högnastíg, Flúðum, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 11. nóvember 2021 að fresta afgreiðslu deiliskipulags í landi Reykjabakka. Er þess krafist að „afgreiðsla skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, dags. 18. október 2021, á deiliskipulagstillögu kæranda í landi Reykjabakka L166812 verði felld úr gildi hvað varðar vegtengingu Reykjabakka L166812.“ Til vara er þess krafist að „afgreiðsla skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, dags. 18. október 2021, á deiliskipulagstillögu kæranda í landi Reykjabakka L166812 verði felld úr gildi.“

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 17. desember 2021.

Málsatvik og rök: Kærandi leigir spildu úr landi Reykjabakka, Hrunamannahreppi, en spildan ber heitið Reykjalaut. Á árinu 2020 hófst undirbúningur að deiliskipulagi fyrir spilduna, en ekkert slíkt var í gildi fyrir svæðið. Deiliskipulagstillaga var auglýst frá 14. júní til 27. ágúst 2021 og var sérstök kynning send lóðarhöfum aðliggjandi lóða. Bárust athugasemdir, dags. 5. september 2021, frá eiganda aðliggjandi lands Grafarbakka II spilda 1. Á fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 13. október 2021 var deiliskipulagstillagan tekin til umræðu, auk þeirra athugasemda sem bárust. Var mælst til þess að sveitarstjórn myndi fresta afgreiðslu málsins. Þá var því beint til málsaðila að semja við landeiganda aðliggjandi lands Grafarbakka II spilda 1 um það landsvæði sem fyrirhugað væri að þyrfti að fara undir veg til að tengja lóð Reykjalautar við Hrunaveg með fullnægjandi hætti. Á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps 18. nóvember s.á. var málið tekið fyrir og samþykkt að fresta afgreiðslu þess. Tekið var undir afstöðu skipulagsnefndar um að málsaðilar deiliskipulagssvæðisins myndu semja við landeiganda um það landsvæði sem þyrftu að fara undir veg.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann líti svo á að með bréfi, dags. 18. október 2021, hafi skipulagsnefnd tekið ákvörðun um að fallast á deiliskipulagstillögu kæranda með þeirri breytingu að vegtenging Reykjabakka yrði felld á brott og landið þess í stað tengt við Hrunaveg í gegnum aðliggjandi jörð Grafarbakka II.

 Af hálfu hreppsyfirvalda er bent á að það hafi verið fyllilega í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti að fresta afgreiðslu málsins og gefa þannig kæranda svigrúm til að afla samþykkis eigenda aðliggjandi jarða fyrir aðkomu að svæðinu. Með þeirri afgreiðslu á þessu stigi sé t.a.m. mun betur gætt að meðalhófi en með því að taka endanlega ákvörðun um að synja eða samþykkja umrædda deiliskipulagstillögu.

 —–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 18. nóvember 2021 að fresta afgreiðslu deiliskipulags í landi Reykjabakka. Ákvörðun um frestun afgreiðslu máls er liður í málsmeðferð deiliskipulagstillögu, en telst ekki vera ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Hefur enda deiliskipulagstillaga kæranda hvorki verið samþykkt né hefur henni verið synjað. Þegar af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni. Vilji kærandi ekki una því að máli hans sé frestað getur hann beint því til sveitarstjórnar að taka lokaákvörðun í málinu og er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Dragist úr hófi að taka slíka ákvörðun skal á það bent að einnig er hægt að kæra þann drátt á afgreiðslu máls til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.