Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2022 Bergrúnargata

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 30. júní kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2022, kæra vegna dráttar á afgreiðslu byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar á beiðni um þvingunarúrræði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. apríl 2022, kærir lóðarhafi Ástu-Sólliljugötu 19-21, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar á beiðni hans um þvingunarúrræði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 3. júní 2022.

Málavextir: Með tölvupósti 5. janúar 2021 til byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar vakti kærandi athygli á að frágangur á lóð Bergrúnargötu 9 væri ekki í samræmi við gildandi reglugerðir. Fór kærandi fram á að lóðarhafi yrði látinn fjarlægja ólöglega skjól- og stoðveggi á lóðinni og lagfæra lóðina til samræmis við gildandi reglur. Sendi kærandi byggingarfulltrúa frekari upplýsingar með tölvupósti 29. mars s.á. Þann sama dag var verktaki fenginn til að mæla lóðar­mörk, girðingar og stoðveggi við Bergrúnargötu 7-9 og Ástu-Sólliljugötu 19-21. Með bréfi, dags. 12. október s.á, tilkynnti sveitarfélagið lóðarhafa Bergrúnargötu 9 niðurstöður mælinganna. Var honum gert að leita eftir samkomulagi við kæranda varðandi þætti lóðar­frágangs sem vikju frá gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Var hann jafnframt upplýstur um að ef samkomulag myndi ekki nást að öllu leyti yrði honum gert að leiðrétta framkvæmdir við lóðarmörk til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2022, óskaði kærandi eftir viðbrögðum bæjarráðs Mosfellsbæjar þar sem byggingarfulltrúi hefði ekki brugðist við erindi hans. Á fundi bæjarráðs 3. mars s.á. var samþykkt að vísa erindi kæranda til umsagnar og afgreiðslu byggingarfulltrúa. Byggingar­fulltrúi svaraði kæranda með bréfi, dags. 7. mars 2022, þar sem fram kom að fyrir lægi að á tveimur stöðum væru veggir á lóðamörkum yfir skilgreindum leyfilegum hæðum lóðarblaða. Ekki lægi fyrir samkomulag milli aðila um fráganginn og ekki hefðu verið lögð fram hönnunar­gögn til samþykktar sem sýndu frávik frá lóðarfrágangi beggja lóða miðað við þegar samþykkt hönnunargögn. Ítrekun þess efnis yrði send til lóðarhafa beggja lóða. Með bréfi, dags. 8. s.m. upplýsti kærandi byggingarfulltrúa um að steinhleðsla á lóðarmörkum hefði verið unnin í samráði lóðarhafa og greidd til jafns af hvorum aðila. Engar athugasemdir væru gerðar við hana. Hins vegar væru engar samþykktir á milli lóðarhafa varðandi þau fimm umkvörtunar­atriði sem fram hefðu komið í tölvupósti sem sendur var á byggingarfulltrúa 29. mars 2021.

Byggingarfulltrúi sendi kæranda og lóðarhafa Bergrúnargötu 9 samhljóða bréf, dags. 30. mars 2022, þar sem gerð var athugasemd við lóðarfrágang. Var farið fram á að skilað yrði inn uppfærðum lóðaruppdráttum og undirrituðu samkomulagi nágranna um frágang lóðarmarka fyrir 16. apríl s.á.

 Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að byggingarfulltrúi hafi ekki tekið efnislega á beiðni hans og að kæran taki til athafnaleysis og dráttar á afgreiðslu málsins.

 Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á fyrir liggi að á tveimur stöðum séu veggir á lóðarmörkum yfir skilgreindum hæðum lóðarblaða. Byggingarfulltrúi hafi leið­beint lóðarhöfum um að lóðarmörk skuli vera frágengin í samræmi við útgefin lóðarblöð og samþykkt hönnunargögn eða, ef vikið sé frá þeim gögnum, skriflegri staðfestingu á samráði og samþykki lóðarhafa samliggjandi lóða um frágang á lóðarmörkum. Ekkert lægi fyrir um skriflegt samkomulag milli aðila um frágang en fram hefði komið í samskiptum að grjóthleðsla á milli húsa hefði verið unnin af þeim sameiginlega og kostnaður sömuleiðis greiddur sameiginlega. Þá hafi ekki verið lögð fram hönnunargögn til samþykktar sem sýndu frávik á lóðarfrágangi. Ítrekun hafi verið send lóðarhöfum beggja lóða. Í málinu reyni þó fyrst og fremst á einkaréttarlega hagsmuni lóðarhafa og kæranda en ekki almannahagsmuni. Ekki liggi fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun byggingarfulltrúa um hvort aðhafst yrði meira í málinu, s.s. með beitingu þvingunarúrræða.

Þá sé á það bent að kröfugerð kæranda gangi gegn heimildum úrskurðarnefndarinnar. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hlutverk úrskurðar­nefndarinnar sé að taka lögmæti ákvörðunar til endurskoðunar en ekki að taka nýja ákvörðun í máli eða breyta efni ákvörðunar. Byggingarfulltrúi hafi ekki tekið ákvörðun í máli þessu og því sé ekki til staðar ákvörðun sem hægt sé að leggja mat á. Þá bresti úrskurðarnefndina heimild til að leggja tilteknar athafnir fyrir byggingarfulltrúa líkt og krafa sé gerð um. Er þess krafist að málinu verði vísað frá.

 Málsrök lóðarhafa: Lóðarhafi Bergrúnargötu 9 bendir á að á lóðamörkum Bergrúnargötu 9 og Ástu-Sólliljugötu 19-21 sé mikil fall- og slysahætta. Líta verði til öryggis- og fallvarna og lágmarka slysahættu. Augljóst hafi verið í upphafi byggingarferlis hvernig lega lóðarinnar væri og að útsýni frá húsi kæranda væri beint að halla á milli lóða. Hvað varði afgreiðslutíma hjá byggingarfulltrúa þá megi ætla að Covid-19 faraldurinn eigi hlut að máli.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Á þessi heimild við um þau kæruatriði í máli þessu sem lúta að kröfu kæranda um beitingu þvingunar­úrræða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki, enda sæta stjórnvalds­ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr. þeirra laga.

Eins og að framan er rakið hófst málið með beiðni kæranda til byggingarfulltrúa hinn 21. janúar 2021. Hefur byggingarfulltrúi átt í samskiptum við kæranda og lóðarhafa Bergrúnargötu 9 vegna málsins og brugðist við vegna hluta umkvörtunarefna kæranda en af gögnum málsins verður ekki séð að hreyfing hafi orðið á málinu frá 30. mars 2022.

Í ljósi greindrar málsframvindu hefur orðið nokkur dráttur á afgreiðslu erindis kæranda, sérstaklega með hliðsjón af því að viðbrögð byggingarfulltrúa virðast einungis hafa snúið að frágangi lóðamarka. Hefur því beiðni kæranda um beitingu þvingunarúrræða frá 5. janúar 2021 hefur ekki verið svarað. Með hliðsjón af samskiptum kæranda og byggingarfulltrúa vegna málsins verður dráttur á afgreiðslu málsins ekki hafa verið ástæðulaus. Hins vegar liggur ekki annað fyrir en að unnt sé nú að taka endanlega afstöðu til umrædds erindis kæranda.

 Úrskurðarorð:

 Byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar skal taka fyrirliggjandi erindi kæranda um beitingu þvingunarúrræða til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

50/2022 Hamarstígur

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 29. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 50/2022, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 26. apríl 2022 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Hamarstíg 26.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. maí 2022, kæra eigendur Hamarstígs 24 Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 26. apríl 2022 að samþykkja leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Hamarstíg 26. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 21. júní 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 13. janúar 2021 var á þar til gerðu eyðublaði lögð fram fyrirspurn til skipulagssviðs/ráðs Akureyrarbæjar um leyfi til að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 26 við Hamarstíg og breyta þaki á húsi lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 27. s.m. var samþykkt að grenndarkynna tillöguna skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar fyrir lægi samþykki eigenda nágrannalóða vegna nálægðar bilgeymslunnar við lóðarmörk. Byggingaráformin voru þó ekki grenndarkynnt fyrr en ári síðar eða með bréfi sviðsstjóra þjónustu- og skipulagssviðs, dags. 28. febrúar 2022. Var frestur til að koma að athugasemdum veittur til 1. apríl s.á. en hann var síðar framlengdur til 7. s.m. vegna uppfærslu á uppdrætti. Kærendur gerðu athugasemdir við grenndarkynninguna og á fundi skipulagsráðs 20. apríl 2022 var málið tekið fyrir að nýju þar sem þær athugasemdir voru lagðar fram ásamt tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við þeim. Samþykkti skipulagsráð „fyrirliggjandi umsókn um byggingaráform“ og tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við framkomnar athugasemdir. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi sent Akureyrarbæ ítarlegar athugasemdir við grenndarkynningu málsins og m.a. bent á að byggingaráformin fælu í sér verulegt skuggavarp og almennt ónæði í rúmlega 70 ára gömlu og rótgrónu hverfi. Eina svar bæjaryfirvalda hafi verið að líkur á skuggavarpi væru taldar hverfandi. Ekki hafi verið farið yfir aðrar athugasemdir og þær aldrei teknar fyrir. Hæðarmunur lóða Hamarstígs 26 og 24 sé 130 cm og með byggingaráformunum sé ráðgert að þriðja hæðin bætist við húsið á lóð Hamarstígs 26. Kærendur muni því horfa yfir þriggja hæða hús til vestur sem að viðbættum hæðarmismun lóðanna yrði um 10 m. Ákvörðunin hafi veruleg áhrif á hagsmuni kærenda vegna færri sólarstunda að vetri og vori þegar sól sé lágt á lofti. Einnig hljótist af þessu verulegt ónæði þar sem hin viðbætta hæð muni vera að stórum hluta úr geri og með hurð út á svalir. Um yrði að ræða þriggja hæða hús í mjög lágreistu og fallegu hverfi.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að líkur á neikvæðum áhrifum vegna aukins skuggavarps séu hverfandi. Húsið á lóð Hamarstígs 26 sé í um 30 m fjarlægð frá húsinu á lóð Hamarstíg 24 og um 14 m frá lóðarmörkum sem teljist vera nokkuð mikið í þéttbýli. Vegna þeirrar fjarlægðar og þeirrar staðreyndar að á báðum lóðunum sé þéttur gróður og tré, sem séu töluvert hærri en fyrirhugaðar byggingar, hafi ekki verið talin þörf á að gera sérstakar skuggavarpsrannsóknir. Þá sé vegna fjarlægðar milli húsanna ekki talið að breytingin feli í sér ónæði fyrir kærendur umfram það sem geti talist eðlilegt í þéttbýli. Til að minnka áhrif af hinum fyrirhugaða bílskúr verði hann hafður í 3 m fjarlægð frá lóðarmökum og innst á lóðinni. Fyrirhuguð byggingaráform séu í góðu samræmi við útlit og gerð húsa í næsta nágrenni og falli vel að þeirri byggð sem fyrir sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar lóðarhafa Hamarstígs 26 til bæjaryfirvalda Akureyrarbæjar vegna tiltekinna byggingaráforma á lóðinni. Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa umdeild byggingaráform á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Hið kærða samþykki skipulagsráðs á umdeildum byggingaráformum að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun varðandi umrædd byggingaráform í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð erindis lóðarhafa Hamarstígs 26. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

181/2021 Sænska húsið

Með

 

Árið 2022, föstudaginn 24. júní, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 181/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 1. desember 2021 um að samþykkja byggingaráform „Sænska hússins“ á lóðinni Smáratúni 1, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Smáratúns 6, Selfossi, ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 1. desember 2021 um að samþykkja byggingaráform „Sænska hússins“ á lóðinni Smáratúni 1, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 12. janúar 2022.

Málavextir: Lóðin Smáratún 1 á Selfossi er á ódeiliskipulögðu svæði. Tillaga að áformuðum breytingum á lóðinni var kynnt nágrönnum 2. – 31. desember 2020, en lóðin mun hafa staðið auð um langt skeið. Í tillögunni var m.a. fjallað um afmörkun byggingarreits, nýtingarhlutfall, hámarksfjölda hæða auk þess sem aðkoma að lóðinni var skilgreind. Að lokinni kynningunni, sem vísað var til sem grenndarkynningar, fjallaði skipulagsnefnd um tillöguna 13. janúar 2021 og tók bæjarstjórn málið fyrir á fundi 20. s.m. þar sem afgreiðslu málsins var frestað. Skipulagsnefnd tók málið aftur fyrir á fundi 10. mars s.á. þar sem staðfest var að umbeðin gögn hafi borist nefndinni og að breytingar hafi verið gerðar á tillögunni í kjölfar athugasemda sem borist hefðu. Bæjarstjórn tók málið aftur fyrir 19. s.m. og samþykkti tillöguna. Framangreind afgreiðsla var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 21. september s.á. í máli nr. 132/2021 var kærumálinu vísað frá þar sem engin kæranleg ákvörðun hefði verið tekin í málinu. Hvorki hafi staðið til að breyta deiliskipulagi né veita byggingar- eða framkvæmdaleyfi og því hafi kynning sveitar­félagsins ekki verið eiginleg grenndarkynning í skilningi skipulagslaga nr. 123/2010.

Með ódagsettri umsókn var sótt um byggingarleyfi fyrir endurbyggingu svonefnds Sænska húss í „sem upprunalegustu mynd“ á lóðinni Smáratúni 1. Í framkvæmdalýsingu kom fram að Sænska húsið stæði á lóðinni Austurvegi 33 en um væri að ræða fjölbýlishús á tveimur hæðum með hálfniðurgröfnum kjallara. Húsið á lóðinni Smáratúni 1 yrði staðsteypt, einangrað að utan, klætt með standandi báruklæðningu og með hefðbundnu kraftsperruþaki. Vísaði byggingar-fulltrúi erindinu til skipulags- og byggingarnefndar á afgreiðslufundi sínum 15. september 2021. Nefndin tók málið fyrir á fundi 22. s.m. og samþykkti í samræmi við 44. gr. laga nr. 123/2010 að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir eigendum tólf fasteigna við Eyrarveg og Smáratún. Tólf athugasemdir bárust og lutu þær m.a. að stærð og útliti byggingar, mænisstefnu, nýtingarhlutfalli, bílastæðafjölda og málsmeðferð sveitarfélagsins. Farið var yfir athugasemdirnar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 3. nóvember 2021 og samþykkt að ekki væri tilefni til að gera breytingar á tillögunni. Jafnframt var bókað að lagt yrði til við bæjarstjórn að samþykkja svör við athugasemdum og byggingaráform. Á sama fundi var byggingarlóðinni Smáratúni 1 úthlutað til byggingaraðila og var honum tilkynnt um það með úthlutunarbréfi, dags. 4. s.m. Svör við athugasemdum vegna grenndarkynningar voru send þeim sem gerðu athugasemdirnar með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 9. nóvember 2021. Á fundi bæjarstjórnar 1. desember s.á. var áðurgreind tillaga skipulags- og byggingarnefndar frá 3. nóvember s.á. samþykkt. Á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 8. desember s.á. voru byggingaráform um að reisa fimm íbúða fjölbýlishús samþykkt með fyrirvara um að skilað yrði greinargerðum hönnuða varðandi eldvarnir og frávik frá algildri hönnun.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að gengið sé þvert gegn vilja þeirra íbúa sem hafi fengið að taka þátt í seinni grenndarkynningu og að ámælisvert sé að ekki hafi öllum íbúum við Smáratún verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum við grenndarkynninguna. Húsið passi ekki á nokkurn hátt inn í götumyndina og standi skáhallt og þvert á önnur hús í götunni. Einnig sé ámælisvert að ekki hafi verið gætt jafnræðis við úthlutun lóðarinnar Smáratúns 1, líkt og fram komi í bókun á fundi skipulags- og byggingarnefndar 3. nóvember 2021. Oft hafi verið spurst fyrir um eða sótt um lóðina en þau svör hafi borist að hún hafi ekki verið föl. Þá hafi vilyrðishafi sent bæjarráði 18. nóvember 2021 beiðni um að breyta nafni lóðarhafa og fengið þá beiðni samþykkta.

Málsrök Árborgar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að kærumál þetta megi rekja til áform byggingaraðila um að flytja hið svonefnda Sænska hús, sem standi við Austurveg 33 á Selfossi, á auða lóð að Smáratúni 1 eða endurbyggja húsið á lóðinni í upprunalegri mynd og starfrækja í því hótel. Bent sé á að skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 geti sveitarstjórn veitt byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skuli skipulagsnefnd sveitarfélags láta fara fram grenndarkynningu, líkt og gert hafi verið í þessu tilviki. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna felist grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem talið er að geti átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.

Bæði skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn Árborgar hafi farið vandlega yfir athuga­semdir sem borist hafi frá íbúum. Að mati Árborgar séu athugasemdirnar þess eðlis að þær standi ekki í vegi fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum sem felist í flutningi eða endurbyggingu Sænska hússins á lóðinni Smáratúni 1, en framkvæmdirnar samræmist aðalskipulagi, skil­greindri landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Umrædd lóð sé á skilgreindu mið­svæði í aðalskipulagi og jafnvel þó lóðin tilheyri Smáratúni þá standi hún einnig við Kirkjuveg, þar sem bæði sé atvinnu- og þjónustustarfsemi. Að mati sveitarstjórnar séu því skilyrði til þess að heimila framkvæmdina án deiliskipulagstillögu geti hagsmunir nágranna ekki staðið í vegi fyrir henni.

Málsrök kæranda virðist aðallega byggjast á huglægri afstöðu hans um að húsið verði of stórt auk þess sem það samræmist ekki götumynd Smáratúns. Bent sé á að húsið verði ekki hærra en önnur hús í götunni eins og sjá megi t.d. á afstöðumyndum sem sendar hafi verið til nágranna við grenndarkynningu. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að útsýni hans skerðist umfram það sem eðlilegt þyki í þéttbýli og ekkert bendi til þess að sólarbirta minnki á hans eign. Samkvæmt byggingaráformum verði húsið um 300 m2 en lóðin sé um 600 m2 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Nýtingarhlutfallið verði því 0,5.

Líta verði til þess að kærandi búi við Smáratún 6, sem sé í u.þ.b. 50 m fjarlægð frá fyrirhuguðu húsi. Lóðin Smáratún 1 standi á horni Smáratúns og Kirkjuvegar. Næsta hús við hliðina á Smáratúni 1 til suðurs sem sé á lóðinni Eyrarvegi 8 snúi einnig út á Kirkjuveg. Þá sé hitt endahúsið við Smáratún, þ.e. á lóðinni Smáratúni 2, með inngang sem snúi að Kirkjuvegi. Fyrirhuguð afstaða hússins sé því ekki í verulegu ósamræmi við heildargötumynd. Lóðin standi nú auð og í órækt og muni hún og umhverfi hennar verða færð til mun betri vegar með framkvæmdunum.

Byggingaráform hafi verið rækilega kynnt fyrir öllum þeim sem geti átt hagsmuna að gæta, bæði með kynningu í desember 2020 og aftur með formlegri grenndarkynningu í september til október 2021. Farið hafi verið yfir allar athugasemdir og ábendingar en að mati sveitarfélagsins séu þær ekki til þess fallnar til að koma í veg fyrir samþykkt áformanna.

Byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út. Það sé í höndum lóðarhafa að uppfylla skilyrði sem sett hafi verið áður en til þess komi. Um afgreiðslu byggingarleyfis fari eftir ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Því sé hafnað að hugsanlegt framsal lóðarréttinda geti valdið ógildingu á samþykki bæjarstjórnar á byggingaráformunum. Ekki hafi verið gengið frá slíku framsali en ef til þess komi þá yrði nýr lóðarhafi ætíð bundinn af fyrirliggjandi skilyrðum um lóðina. Þá sé rétt að geta þess sem fram komi í úthlutunarbréfinu frá 4. nóvember 2021 að lóðarhafa sé óheimilt að framselja lóðar­réttindi fyrr en lóðarleigusamningur hafi verið gerður. Þá sé órökstuddum fullyrðingum um meint ójafnræði við úthlutun lóðarinnar mótmælt en ágreiningur um lóðaúthlutun eigi ekki undir úrskurðarnefndina.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að ranglega sé farið með staðreyndir í umsögn Árborgar þar sem fram komi að kærumálið megi rekja til áforma um að flytja hið svonefnda Sænska hús á auða lóð Smáratúns 1 eða endurbyggja húsið á lóðinni í upprunalegri mynd og starfrækja í því hótel. Upphaflega hafi einungis verið talað um flutning á húsinu en þegar ljóst hafi orðið að það væri ógerlegt hafi verið bætt við að um væri að ræða endur­uppbyggingu í upprunalegri mynd. Hvergi hafi áður verið nefnt að starfrækja ætti hótel í húsinu, hvorki í fyrri kynningu sveitarfélagsins né þeim gögnum sem sveitarfélagið hafi lagt fram við grenndarkynningu. Á teikningum sé gert ráð fyrir fimm íbúðum ásamt geymslum í kjallara.

Í athugasemdum Árborgar sé tekið fram að Smáratún sé íbúðargata en svo komi í ljós að við Kirkjuveg séu bæði íbúðarhús auk atvinnu- og þjónustustarfsemi. Það sé rangt að á þessum stutta hluta Kirkjuvegar standi ekkert hús og einungis eitt hús við Kirkjuveg sem flokkast geti undir atvinnu- og þjónustustarfsemi, þ.e. Kirkjuvegur 8, þar sem rekin sé fasteignasala. Því sé harðlega mótmælt að við Kirkjuveg sé bæði atvinnu- og þjónustustarfsemi sem réttlætt geti byggingu 300 m2 húss á 600 m2 lóð með nýtingarhlutfallinu 0,5. Endurbygging hússins samræmist því ekki aðalskipulagi, skilgreindri landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Einnig komi fram að samkvæmt aðalskipulagi sé Smáratún 1 á svæði fyrir blandaða landnotkun en jafnframt að Smáratún sé íbúðargata. Vandséð sé að skilgreina eina lóð við íbúðargötu sem blandaða landnotkun. Sveitarfélagið reyni að tengja Smáratún 1 við aðliggjandi götu og þá starfsemi sem þar fari fram, t.d. Hótel Selfoss sem standi við Eyrarveg 2 við Ölfusá og veitingastað við Eyrarveg 8.

Í athugasemdum íbúa við grenndarkynningu hafi m.a. komið fram að fyrirhugað hús snúi öfugt við götumynd annarra húsa við Smáratún. Þessu sé svarað með því að tengja fyrirhugað hús við aðra götu og segja að lóðin liggi einnig að Kirkjuvegi og að næsta hús við Smáratún 1 til suðurs, sem sé húsið að Eyrarvegi 8 sem sveitarfélagið ranglega segi að snúi út að Kirkjuvegi. Eyrarvegur 8 snúi að Eyrarvegi þótt inngangur sé frá Kirkjuvegi. Þá snúi Smáratún 2 ekki að Kirkjuvegi heldur Smáratúni eins og önnur hús við götuna og inngangur þess húss sé einnig frá Smáratúni. Fyrirhuguð afstaða sé því í verulegu ósamræmi við heildargötumynd Smáratúns.

Íbúar hafi tekið fram í athugasemdum að bílastæðavandræði væru í Smáratúni vegna fjölda einka- og langferðabíla á svæðinu í tengslum við Hótel Selfoss og kirkjuna. Í svari Árborgar sé ekkert minnst á aukna umferð um miðbæ Selfoss og látið eins og það komi íbúum ekki við þar sem um sérstakt verkefni sé að ræða sem sé til úrlausnar í stærra samhengi og myndi bygging við Smáratún 1 ekki hafa þar úrslitaáhrif. Nú hafi hins vegar komið fram að í húsinu eigi að reka hótel.

Því sé mótmælt að byggingaráformin hafi verið kynnt vel. Fyrri grenndarkynning hafi verið klúður og hafi orðið að endurtaka hana eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála. Síðari grenndarkynning hafi einungis náð til tólf aðila og hvergi hafi þess verið getið að öðrum væri frjálst að tjá sig. Í ljósi þess að nú komi í fyrsta skipti fram að byggja eigi hótel séu framangreindar grenndarkynningar ómarktækar og þurfi að leggja fram nýjar teikningar og umsóknir vegna hótelreksturs við íbúagötuna Smáratún. Efna þurfi til víðtækrar grenndar­kynningar þar sem öllum íbúum Smáratúns verði boðið að tjá skoðun sína.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 1. desember 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir svonefndu Sænska húsi á lóðinni Smáratúni 1 á Selfossi. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki veitir byggingarfulltrúi byggingar­leyfi og skv. 11. gr. sömu laga samþykkir hann byggingaráform. Verður því litið svo á að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúa frá 8. desember 2021 að samþykkja byggingaráform fyrir fimm íbúða fjölbýlishúsi á umræddri lóð.

Lóðin Smáratún 1 er á ódeiliskipulögðu svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Hins vegar er sveitarstjórn eða þeim aðila sem hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála heimilt skv. 44. gr. laganna að veita byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er lóðin Smáratún 1 á svæði með blandaðri landnotkun. Er svæðið þannig bæði íbúðarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði. Hin sam­þykktu byggingaráform heimila að reist verði fimm íbúða fjölbýlishús á lóðinni og verður framkvæmdin því í samræmi við landnotkun svæðisins. Í aðalskipulaginu kemur fram varðandi þéttleika íbúðarsvæða að á Selfossi sé gert ráð fyrir að nýtingarhlutfall íbúðalóða verði á bilinu 0,3-0,45. Þá segir að nýtingarhlutfallið sé til leiðbeiningar og skilgreinist nánar í deiliskipulagi. Lóð Smáratúns 1 er 603,8 m2 og verður brúttóflatarmál fyrirhugaðrar byggingar samkvæmt samþykktum byggingaráformum 413,8 m2 en að frátöldu þakrými verður flatarmálið 275,2 m2. Mun nýtingarhlutfall á lóðinni því verða 0,46 sem telja verður óverulegt frávik frá framan-greindri leiðbeiningu aðalskipulags, en þar að auki er ekki að sjá að nýtingarhlutfallið skeri sig úr í samanburði við nýtingarhlutfall íbúðalóða í næsta nágrenni. Þá bera gögn málsins ekki með sér að fyrirhuguð bygging verði í ósamræmi við byggðamynstur svæðisins. Var því heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina.

Líkt og fram kemur í málavöxtum var byggingarleyfisumsóknin grenndarkynnt með fjögurra vikna athugasemdafresti, sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kom kærandi að athuga­semdum sínum við grenndarkynninguna og tók bæjarstjórn, að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingarnefndar, afstöðu til framkominna athugasemda. Svör við athuga­semdum voru send þeim sem gerðu athugasemdir við grenndarkynninguna þrátt fyrir að þau svör hafi þá ekki verið afgreitt af bæjarstjórn. Sá ágalli hróflar þó ekki við gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Að öðru leyti var meðferð málsins í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Að framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir að benda á að samkvæmt hinum samþykktu byggingaráformum stendur til að byggja fimm íbúða fjölbýlishús á umræddri lóð. Hefur ekki verið veitt leyfi til að byggja eða breyta notkun fyrirhugaðs fjölbýlishúss í hótel, eins og fram kemur í umsögn sveitarfélagsins, en verði slíkt leyfi veitt er það eftir atvikum kæranlegt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Árborgar frá 8. desember 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir fimm íbúða fjölbýlishúsi á lóðinni Smáratúni 1, Selfossi.

44/2022 Frakkastígur

Með

 

Árið 2022, föstudaginn 24. júní, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021, um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 3. maí 2022, kærir Húsfélagið Laugavegi 49A þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og þannig auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Laugavegar 47 sömu ákvörðun byggingarfulltrúa og gerir kröfu um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er nr. 54/2022, sameinað máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. maí 2022.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 12. október 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu á austurhlið hússins að Frakkastíg 9, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og þar með auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55. Á samþykktum uppdráttum er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni sunnan megin við húsið.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að verið sé að loka á aðgengi að lóð Laugavegar 49A frá Frakkastíg með heimilaðri viðbyggingu og staðsetningu bílastæða. Laugavegur 49A hafi notast við aðgengi frá Frakkastíg í áratugi og því hafi myndast hefðarréttur. Frakkastígur 9 hafi áður verið íbúðarhúsnæði en hafi verið breytt í veitingastað fyrir 15 gesti árið 2018. Nú eigi að breyta honum í veitingastað fyrir 55 gesti þar sem boðið verði upp á áfengi til kl. 23:00 á virkum dögum og til kl. 03:00 um helgar. Opnunartíminn feli í sér brot á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem tilgreini Frakkastíg 9 á svæði með takmarkaðar miðborgarheimildir. Staðurinn eigi einungis að hafa heimild til að vera opinn til kl. 23:00 um helgar, nema þá með sérstakri undanþágu.

Á teikningu séu sýndar svalir á jarðhæð hússins að Frakkastíg 9 sem snúi að hluta að lóð Laugavegar 49A og þar muni fara fram veitingasala utanhúss og vínveitingar verði leyfðar að nóttu til. Þetta muni hafa rask og truflun í för með sér fyrir íbúa Laugavegar 49A. Viðbyggingin muni skyggja verulega á garð þeirra og rýra notagildi hans. Líklega sé ekki farið eftir gr. 9.7.5 í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 um löglegt bil milli húsa m.t.t. brunavarna. Teiknaður sé brunastigi til „bráðabirgða“ á austurgafl húss Frakkastígs 9 sem hafi áhrif á notkunarmöguleika húss Laugavegar 49A og auki á brunahættu. Samkvæmt upplýsingum sem aflað hafi verið frá fasteignasala muni framkvæmdirnar hafa talsverð neikvæð áhrif á verðgildi nefnds húss.

Þá hafi árið 2014 komið upp ágreiningur milli eiganda Frakkastígs 9 og annars kærenda þessa máls, eiganda Laugavegar 47, um umferðarrétt hins síðarnefnda um lóð Frakkastígs 9. Með dómi Hæstaréttar frá 5. febrúar 2015 í máli nr. 76/2015 hafi umferðarréttur kærandans um lóð Frakkastígs 9 verið staðfestur, en um sé að ræða einu aðkomuna að bílastæðum hússins, vöru- og sorpgeymslu. Hið kærða byggingarleyfi feli í sér tvö bílastæði sem gangi út í umferðar­rétt Laugavegar 47. Augljóst megi vera að ólögmætt sé að samþykkja byggingarleyfi sem gangi á þann rétt og samþykkta uppdrætti hússins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 sé lóðin Frakkastígur 9 á landnotkunarsvæði M1A og þannig innan svæðis í miðborginni þar sem gildi almennar vínveitingarheimildir. Í gildandi deili­skipulagi fyrir reit 1.173.0 komi fram að heimilt sé að byggja útbyggingu innan byggingarreits á lóð Frakkastígs 9 og að heimilað nýtingarhlutfall fyrir lóðina sé 0,7. Nýtingarhlutfall verði 0,67 með hinni umþrættu viðbyggingu og þannig innan heimilda deiliskipulags. Því hafi ekki borið að grenndarkynna framkvæmdina. Byggingin sé öll í einu brunahólfi og uppfylli bruna­varnar­kröfur. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort eigandi Laugavegar 49A hafi umferðarrétt um lóð Frakkastígs 9. Það falli undir verksvið dómstóla en ekki úrskurðar­nefndarinnar að skera úr um bein eða óbein eignarréttindi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem heimilar viðbyggingu húss sem stendur á lóðinni Frakkastíg 9 í Reykjavík, en á samþykktum uppdráttum má sjá að gert er ráð fyrir tveimur bílastæðum sunnan megin við húsið.

Með dómi Hæstaréttar 5. febrúar 2015 í máli nr. 76/2015 var fallist á þá kröfu annars kærenda þessa máls, eiganda Laugavegar 47, að hann yrði settur með beinni aðfarargerð inn í umferðarrétt að bílastæðum, vörugeymslu og sorpgeymslu að lóð Laugavegar 47 um lóð Frakkastígs 9. Þá var einnig staðfestur réttur kærandans til að nota bílastæði sem tilheyra húsinu en liggja að hluta til á lóð Frakkastígs 9. Samkvæmt greindum dómi Hæstaréttar liggur fyrir að kærandinn hefur umferðarrétt um lóð Frakkastígs 9 og rétt til að nota bílastæði sem að hluta liggja á þeirri lóð. Ljóst er að þau tvö bílastæði sem fyrirhugað er að verði sunnan megin við húsið að Frakkastíg 9 muni skerða óbeinan eignarrétt umrædds kæranda. Telja verður að samþykki hans hefði því þurft að liggja fyrir hinum umdeildu byggingaráformum áður en byggingarleyfis­umsóknin var samþykkt, en af gögnum málsins verður hvorki séð að leitað hafi verið eftir því samþykki né að samráð hafi verið við hann haft. Að framangreindu virtu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað í flokk II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.

52/2022 Hrísateigur

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 52/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna Hrísateigs 15 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. maí 2022, er barst nefnd­inni sama dag, kærir einn eigenda Hrísateigs 15, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn hans um samþykkt byggingar­áforma að Hrísateig 15. Er þess krafist að afgreiðslu umsóknarinnar verði lokið.

Málsatvik og rök: Hinn 20. september 2021 sóttu eigendur Hrísateigs 15 um leyfi til breytinga á húsinu sem fólust í áformum um að stækka stofur allra íbúða til suðurs, lengja svalir á 1. og 2. hæð, einangra húsið að utan og klæða það með bárujárni. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslu­­fundum byggingarfulltrúa 28. september og 12. október s.á. þar sem henni var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa Umsóknin var enn á dagskrá afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 15. desember s.á. þar sem afgreiðslu hennar var frestað með vísan til umsagnar skipulags­full­trúa frá 10. desember 2021. Í umsögninni kom m.a. fram að um væri að ræða mikla breytingu þar sem hutföll og ásýnd hússins breytist mikið og að umsókn kæranda væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Byggingarleyfisumsókninni var síðan synjað á afgreiðslufundi byggingar­­fulltrúa 7. júní 2022 með vísan til greindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi bendir á að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingar­leyfis sé á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010.

Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr álitaefninu.

Niðurstaða: Í­­­ máli þessu hefur kærandi krafist þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík ljúki afgreiðslu um­sóknar hans um byggingarleyfi „án frekari frestunar og tafa.“ Fyrir liggur að umsókninni var synjað á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 7. júní 2022.

Í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimild til að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er kæruheimild þessi undan­tekning frá almennu ákvæði 2. mgr. 26. gr. laganna um að einungis þær ákvarðanir sem binda endi á mál verði bornar undir kærustjórnvald. Verður að telja að tilgangur kæruheimildarinnar sé að gera málsaðila kleift að knýja fram málalyktir í máli sínu, sem er til meðferðar hjá stjórn­valdi, dragist afgreiðsla þess óhæfilega. Þar sem fyrir liggur að kröfu kæranda um að afgreiðslu umsóknar hans verði lokið hefur verið fullnægt á hann ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að knýja fram afgreiðslu málsins og fá úr því skorið hvort dráttur sá sem varð á afgreiðslu málsins hafi verið óhæfilegur eða hvort málefnalegar ástæður hafi búið að baki þeim drætti. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að framangreind ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðar­nefndar­innar og sætir þá málsmeðferð erindis kæranda í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kæru­frestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

168/2021 Bergstaðastræti

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 168/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 um að synja umsókn um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. janúar 2022.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 29. janúar 2021 var lögð fram fyrirspurn kæranda, dags. 21. s.m., þar sem falast var eftir áliti skipulagsfulltrúa á hug­mynd um að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. febrúar s.á. Í umsögninni kom fram að ekki væri fallist á erindið þar sem það samræmdist ekki markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Erindið var tekið fyrir af skipulagsfulltrúa 5. febrúar s.á. þar sem tekið var neikvætt í það, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi skaut málinu til skipulags- og samgönguráðs 12. febrúar 2021, sem tók erindið fyrir á fundi 31. mars s.á. Ekki var fallist á erindið. Í kjölfarið lagði kærandi fram breytta fyrirspurn, dags. 2. júní s.á. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. s.m. og var því vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 9. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dagsettri sama dag. Neikvætt var tekið í erindið, með vísan til umsagnarinnar. Sú afgreiðsla var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála en með úrskurði í máli nr. 121/2021, uppkveðnum 15. september 2021, var málinu vísað frá þar sem umsögn skipulagsfulltrúa væri liður í undirbúningi mögulegrar stjórnvaldsákvörðunar en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls.

Í kjölfar framangreinds úrskurðar sótti kærandi um byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 26. október 2021 var umsókn kæranda lögð fram. Málinu var frestað og sent til skipulags­fulltrúa til umsagnar og/eða grenndarkynningar. Skipulagsfulltrúi afgreiddi erindið á afgreiðslu­fundi sínum 15. nóvember 2021 og tók neikvætt í erindið, með vísan til umsagnar sinnar frá sama degi. Umsókn kæranda var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. s.m., með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að ýmsar tilvitnanir skipulagsfulltrúa í umsögn hans til aðalskipulags skjóti skökku við. Vísað sé til þess að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum, sérstaklega í miðborginni, og að eðlilegt megi telja að færri bílar tilheyri hverri íbúð í þéttri miðborgarbyggð en í öðrum hverfum borgarinnar. Bent sé á að á bls. 155 í aðalskipulaginu segi m.a. um bíla- og hjólastæðastefnu að á svæði 1 sé að hámarki eitt bílastæði á íbúð við endurnýjun byggðar/ný­byggingu. Umrædd lóð sé á svæði 1 og í húsinu séu og hafi alltaf verið tvær íbúðir. Samkvæmt framansögðu ættu því tvö bílastæði að fylgja lóðinni. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í markmið um að fækka stæðum en þar segi einnig að „[n]ýr bílskúr á lóðinni krefðist þess að ný innkeyrsla yrði gerð frá götu. Almennum bílastæðum á borgarlandi (götu) myndi þar með fækka um a.m.k. eitt þar sem innkeyrslan yrði staðsett. Ekki sé æskilegt að fjölga sér­afnota­stæðum/innkeyrslum í miðborginni á kostnað sameiginlegra bílastæða og er almennt ekki tekið jákvætt í slíkt.“ Rökin séu mótsagnarkennd þar sem vísað sé til markmiða aðalskipulags um fækkun bílastæða í miðborginni en þar næst sé fækkun bílastæða orðin neikvæð. Þá hljómi orðin „[e]kki er æskilegt að“ og „ekki er almennt tekið jákvætt í“ eins og persónuleg skoðun en ekki skipulagslegar forsendur.

Varðandi bílgeymslur á öðrum lóðum sem kærandi hafi vísað til segi í umsögn skipulagsfulltrúa að það sé rétt að þær hafi verið samþykktar á síðustu áratugum en ekki sé um að ræða erindi sem hafi verið samþykkt eftir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 þegar aðrar áherslur og önnur markmið hafi verið í gildi. Þá segi að ekki hafi verið tekið jákvætt í að brjóta upp garðveggi á þessu svæði til að koma fyrir bílastæðum eða bílskúrum. Kærandi bendi á að í kaflanum Borgar­vernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé sérstaklega fjallað um hverfisvernd innan Hring­brautar, en þar segi m.a. um markmið: „Svipmót húsa, á tilgreindum verndarsvæðum, sem verða nánar afmörkuð í hverfisskipulagi, varðandi ytra byrði, veggáferð, gluggagerðir og þak verði sem minnst raskað og endurbygging miðist sem mest við upphaflega gerð hússins – sama gildi t.a.m. um afmörkun lóða, svo sem garðveggi og girðingar.“ Líkt og fram komi í markmiðakafla aðal­skipulagsins 2010-2030 um hverfisvernd þá hafi heftið Húsvernd í Reykjavík upphaflega fylgt með aðalskipulaginu 1996-2016 og svo aftur með aðalskipulagi 2001-2024. Í heftinu segi í kafla 2 um húsvernd: „Áhersla er lögð á varðveislu staðbundinna sérkenna í húsagerð og skipulagi, einkum þar sem um er að ræða hverfi, hverfishluta og götumyndir með sterkan heildarsvip. Á þeim svæðum þar sem lögð er til verndun byggðar vegna sérstöðu svæðis eða byggðamynsturs, er lögð áhersla á varðveislu heildarinnar. Grindverk og girðingar eru stór hluti af sérkennum eldri hverfa Reykjavíkur. Leitast skal við að viðhalda þeim eins og framast er unnt í upprunalegri mynd, og endurnýja í sömu eða svipaðri mynd ef nauðsyn krefur.“

Af framangreindu sé ljóst að nákvæmlega sömu ákvæði um hverfis- og húsvernd giltu nú og þegar þær bílgeymslur sem byggðir hafi verið í götunni á þessari öld og kærandi hafi vísað til í fyrirspurn sinni. Auðvelt sé að tryggja góðan frágang stoðveggjar og setja t.d. upp innkeyrsluhlið að götu í takt við vegginn til að tryggja samhengi. Bílgeymslur á lóðum nr. 77 og nr. 83 að Bergstaðastræti hafi verið samþykktir árið 2006 þegar sömu húsverndarákvæði hafi verið í gildi og í dag. Þá hafi bygging bílgeymsla ekki þótt vera í ósamræmi við markmið aðalskipulags, sem hafi verið þau sömu og nú. Út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sé óskað eftir því að niðurstaða Reykjavíkurborgar verði endurskoðuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að umsókn kæranda hafi verið synjað vegna neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 15. nóvember 2021. Í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að þegar mannvirki sé háð byggingarleyfi skv. 9. gr. þá skuli byggingar­fulltrúi ganga úr skugga um að fyrirhuguð mannvirkjagerð sé í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði. Sambærileg skylda hvíli á byggingarfulltrúa skv. 5. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar komi fram að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa ef vafi leiki á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Ekkert deiliskipulag sé á svæðinu sem um ræði og því hafi skipulagsfulltrúi skoðað erindið með tilliti til þess hvort mögulegt yrði að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar, þ.e. hvort fyrirhuguð mannvirkjagerð væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika og hvort hún væri í samræmi við stefnu aðalskipulags Reykjavíkur.

Í kaflanum Borgarvernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 komi fram að Bergstaðastræti 81 tilheyri hverfisverndarsvæði. Þar komi fram þau markmið að vernda eigi og varðveita heildar­yfirbragð gamla bæjarins, þ.m.t. svipmót húsa varðandi ytra byrði og þá einnig garðveggi sem svip sinn setji á svæðið. Neikvæð umsögn skipulagsfulltrúi hafi m.a. byggst á því að ný bílgeymsla, niðurgrafinn að hluta, með tilheyrandi uppbroti á garðvegg lóðarinnar við Bergstaðastræti, gæti ekki samrýmst þessum markmiðum aðalskipulagsins.

Jafnræðis skuli gætt með því að tryggja að sambærileg mál fái sambærilega afgreiðslu. Reykjavíkur­borg hafni því að aðstæður sem byggingarleyfi frá árinu 2006 á lóðum Bergstaða­strætis nr. 83 og 77 séu sambærilegar þeim sem nú séu uppi. Heftið Húsvernd í Reykjavík hafi verið fylgiskjal með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og stefnan sem þar hafi komið fram hafi einungis verið leiðbeinandi. Með kaflanum Borgarvernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 hafi sú stefnumörkun sem fram hafi komið í Húsvernd í Reykjavík verið færð inn í A-hluta skipulagsins, þ.e. bindandi hluta þess, og þannig gert mun hærra undir höfði en áður. Skipulags­legar aðstæður hafi því breyst frá árinu 2006. Í tilfelli lóðar nr. 77 við Bergstaðastræti hafi verið um að ræða stækkun á þegar gerðri bílgeymslu með innkeyrslu frá Bergstaðastræti sem þegar hafi verið til staðar. Varðandi lóð nr. 83 við Bergstaðastræti sé um að ræða bílgeymslu með innkeyrslu frá Barónsstíg en þegar hafi verið til staðar gat í vegg á lóðarmörkum fyrir bílastæði innan lóðar. Í hvorugum þessara tilvika hafi þurft að fækka almenningsstæðum í götu líkt og yrði tilfellið við gerð nýrrar innkeyrslu á lóð nr. 81.

Samkvæmt uppdráttum frá 14. október 2021, sem umsögn skipulagsfulltrúa byggi á, sé gert ráð fyrir útirými á þaki bílgeymslu. Líkt og fram komi í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 51/2015 vegna Laufásvegs nr. 59 teljist notkun þakflatar óhefðbundin og geti eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar á næstu lóðir. Í úrskurðinum komi fram að leyfi fyrir notkun þakflatar þurfi að eiga stoð í deiliskipulagi, en því sé ekki til að dreifa í máli þessu. Umþrætt erindi hafi af þessum sökum ekki verið tækt til grenndarkynningar. Það sé því álit Reykjavíkurborgar að fyrirhuguð byggingar­áform kæranda samræmist ekki skipulagsáætlunum. Í ljósi þess að skilyrði fyrir samþykkt og útgáfu byggingarleyfis séu m.a. að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010, hafi verið rétt að synja umsókn kæranda og að sú synjun hafi verið byggð á málefnalegum grunni.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Því sé andmælt að skipulagsforsendur hafi breyst frá árinu 2006. Heftið Húsvernd í Reykjavík hafi verið fylgirit með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 og síðar Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og megi ætla að skipulagsyfirvöld hafi fylgt því. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé í kaflanum Borgarvernd fjallað um hverfisvernd innan Hringbrautar. Þar komi fram að ákvæði hverfisverndar séu almenns eðlis og að nauðsynlegt sé að stefna um hverfisvernd verði nánar skýrð í hverfisskipulagi. Síðar segi svo að tillögur um verndun húsaraða og samstæða sé alfarið viðfangsefni hverfis- og deiliskipulags. Hvorki sé til hverfis- né deiliskipulag á viðkomandi svæði. Í markmiðum hverfisverndar innan Hringbrautar sé aftur minnst á að nánari skilgreiningu verði getið í hverfisskipulagi, t.d. hvað varði afmörkun lóða, garðveggi og girðingar. Í aðalskipulagi 2001-2024 hafi komið fram að heftið Húsvernd í Reykjavík skyldi vera leiðbeinandi við gerð deiliskipulags, sem ekki hafi legið fyrir þá frekar en nú. Í framhaldi hafi komið fram að áherslur heftisins, t.a.m. um verndun einstakra svæða, yrði lögð til grundvallar við mótun nánari stefnu um verndun í hverfisskipulagi svæðanna innan Hringbrautar. Það sé ljóst að sömu skilyrði og sama stefna hafi gilt árið 2006 og nú.

Eðlileg þróun borgarumhverfis rýri ekki gildi gagnvart umhverfi eða varðveislu. Bílgeymslur séu að finna um gjörvöll Þingholtin með tilheyrandi götum í steypta garðveggi. Ekki sé hægt að segja að það hafi neikvæð áhrif á fallegar götumyndir hverfisins. Að auki þurfi ávallt að búa til göt í slíka garðveggi til þess að húseigendur einfaldlega komist að húsakynnum sínum. Hvað varði hug­mynd um útirými á þaki bílgeymslu, sem Reykjavíkurborg tilgreini sem neikvæða, sé sú hugmynd algjört aukaatriði í tillögu kæranda og sé hann meira en tilbúinn til þess að falla frá hugmyndum um slíka nýtingu og leggi það hér með til sem útgangspunkt. Við það muni ásýnd bílgeymslunnar lækka sem nemi hæð steyptra handriða þakgarðs í tillögunni eða um 90 cm.

Bent sé á nýlega afgreitt og samþykkt erindi úr sama hverfi, Laufásveg 73. Sú afgreiðsla sé dagsett 18. október 2021, löngu eftir synjun erindis kæranda. Sótt hafi verið um leyfi til að byggja 66 m2 viðbyggingu, nánar tilgreint sem tómstundahús og gróðurhús á lóðamörkum í suðaustur, auk áhaldaskúrs og pergólu á baklóð. Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur segi m.a. að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið og að skoða þurfi erindið út frá byggðamynstri o.fl. Þar segi einnig að garðveggir séu einkennandi fyrir götumyndina og gefi hverfinu sterkan svip. Í því samhengi sé rétt að benda á að á umræddri lóð sé bílgeymsla frá fornu fari og hafi innkeyrslugat veggjar ekki neikvæð áhrif á þessa sterku götumynd, en ekki verði annað skilið en að skipulagsfulltrúi sé sammála því. Í sömu umsögn segi að ekki verði heimilt að nýta þakflöt viðbyggingar sem þak­verönd, slíkt þurfi að eiga stoð í deiliskipulagi. Tillaga kæranda um að falla frá hugmynd um þak­verönd sé í fullu samræmi við þessa umsögn skipulagsfulltrúa. Lega lóðar og afstaða til nágrennis sé svipuð en innkeyrsla að þegar gerðri bílgeymslu sé á vestari hluta lóðar og bílgeymsla kæranda verði mun minni en garðhúsbygging Laufásvegar 73. Á árinu 2008 hafi byggingarfulltrúi sam­þykkt byggingu tvöfaldrar bílgeymslu á austanverðum lóðamörkum þessarar sömu lóðar, Laufás­vegar 73, sem hafi hins vegar ekki verið byggð og sé það enn eitt fordæmið í hverfinu. Að lokum sé bent á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi synjun byggingarfulltrúa Reykjavíkur um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3 með úrskurði upp­kveðnum 1. febrúar 2018 í máli nr. 80/2015. Í niðurstöðu nefndarinnar hafi m.a. verið litið til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingar­fulltrúa skal hann skv. 2. mgr. 10. gr. laganna leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins.

Svo sem greinir í málavöxtum sótti kærandi um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti í Reykjavík, en lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Í umsókn sinni vísaði kærandi til þess að fordæmi væru fyrir því á nokkrum lóðum við götuna að bílgeymslur hefðu verið samþykktar. Í umsögn skipulagsfulltrúa við umsókn kæranda var um skipulagslega stöðu vísað til þess að Bergstaðastræti 81 væri samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 á skil­greindu íbúðarsvæði ÍB12, Skólavörðuholt. Svæðið innan Hringbrautar væri á sérstöku hverfis­verndarsvæði þar sem markmiðið væri m.a. að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðar. Steyptir garðveggir settu einnig svip sinn á margar götur og hefðu mikið umhverfisgildi. Þá vísaði skipulagsfulltrúi til þess að fyrirhuguð bílgeymsla krefðist þess að inn­keyrsla yrði gerð frá götu og þar með myndu almennum bílastæðum á borgarlandi, þ.e. götu, fækka um a.m.k. eitt, en ekki væri æskilegt að fjölga sérafnotastæðum í miðborginni á kostnað sam­eiginlegra bílastæða. Þau dæmi sem kærandi hefði talið upp sem fordæmisgefandi í hverfinu hefðu verið samþykkt fyrir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og að skipulagslegar for­sendur hefðu breyst. Einnig væri ekki tekið jákvætt í að brjóta upp garðvegg á þessu svæði til að koma fyrir bílgeymslu, en dæmi væru um að heimild hefði verið veitt til að útbúa aðgengi að eldri bílgeymslum en ekki nýjum. Samræmdist byggingaráform kæranda þannig ekki markmiðum aðal­skipulags borgarinnar. Í kjölfarið synjaði byggingarfulltrúi umsókn kæranda með vísan til framan­greindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

 Í máli þessu greinir kæranda og Reykjavíkurborg m.a. á um reglur um hverfisvernd sem fram koma í heftinu Húsvernd í Reykjavík og áhrif þeirra reglna á byggingarleyfisumsókn kæranda, en þó var ekki vísað til þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa. Umrætt hefti var fylgirit með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 en í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 kom fram að heftið yrði áfram leiðbeinandi við gerð deiliskipulags. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er í kafla um mark­mið hverfisverndar innan Hringbrautar vísað til þess að umrætt hefti gildi áfram og verði grund­völlur að endurskoðun á afmörkun og skilgreiningum einstakra verndarsvæða í hverfisskipulagi og deiliskipulagi innan Hringbrautar. Hin kærða ákvörðun varðar ekki gerð skipulagsáætlunar heldur synjun á byggingarleyfisumsókn á ódeiliskipulögðu svæði. Verður því ekki séð að reglur umrædds heftis hafi þýðingu við úrlausn þessa kærumáls.

Í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 skilaði skipulagsfulltrúi umsögn um hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist skipulagsáætlunum Reykjavíkurborgar. Var það mat hans að byggingaráformin væru ekki í samræmi við markmið aðalskipulags án þess þó að skýrlega væri greint væri frá hver þau markmið væru. Af þeirri umfjöllun sem finna má í umsögninni verður þó að telja að um hafi verið að ræða það markmið aðalskipulags varðandi hverfisvernd innan Hringbrautar að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðar auk þess almenna leiðarstefs aðalskipulagsins að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum. Þó fallast megi á að skipulagsforsendur séu fyrir því að fækka ekki almennum bílastæðum á borgarlandi verður ekki séð hvernig framkvæmdin, sem fæli í sér fækkun á einu bílastæði, gangi gegn þeirri stefnu aðalskipulags að fækka bílastæðum. Var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar því áfátt hvað það varðar. Aftur á móti verða ekki talin efni til að hnekkja því mati skipulagsfulltrúa að framkvæmdin, sem fæli í sér uppbrot á steyptum garðvegg, nýrri aðkeyrslu og byggingu bílgeymslu, gangi gegn markmiðum aðalskipulags um hverfisvernd svæðisins.

Jafnræðisreglu íslensk stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en 1. mgr. ákvæðisins kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í laga­legu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sam­bærileg mál ber að afgreiða á sambærilegan hátt. Svo sem fyrr greinir vísaði skipulagsfulltrúi til þess í umsögn sinni að þau dæmi sem kærandi hefði tilgreint í umsókn sinni sem fordæmisgefandi fyrir umrædda bílgeymslu hefðu verið samþykkt fyrir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 þegar aðrar áherslur og markmið hefðu verið í gildi, auk þess sem dæmi væru um að heimilað hefði verið að útbúa aðgengi að eldri bílgeymslum en ekki nýjum. Ekki er að öllu ljóst hvaða breyttu áherslur og markmið nýs aðalskipulags ættu að leiða til annarrar meðferðar vegna fram­kvæmdaáforma á borð við þá sem hér um ræðir. Þó verður ekki talið að synjun byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu þar sem að þau dæmi sem kærandi vísaði til í umsókn sinni fólu hvorki í sér brot á garðvegg til að koma fyrir nýrri aðkeyrslu og bílgeymslu né fækkun á bílastæðum fyrir almenning.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærður ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 um að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti.

40/2022 Bíldshöfði

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2022 um að samþykkja byggingarleyfi til að breyta starfsemi í rými í matshluta 03, innrétta kjötverslun og bakarí auk þess að gera flóttaleið og setja útsogsrör á suðurhlið húss á lóð nr. 18 við Bíldshöfða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Höfðasetrið ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2022 að samþykkja byggingarleyfi til breyttrar starfsemi í rými í matshluta 03 og innrétta kjötverslun og bakarí auk þess að gera flóttaleið og setja útsogsrör á suðurhlið húss á lóðinni Bíldshöfða 18. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upp­lýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram­kominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. apríl 2022.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 20. mars 2022 var tekin fyrir umsókn Kjötkompanísins ehf. um leyfi til að breyta starfsemi í rými í matshluta 03 og innrétta kjötverslun og bakarí auk þess að gera fljóttaleið á suðurhlið hússins að Bíldshöfða 18. Var afgreiðslu málsins frestað. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. apríl 2022 var umsóknin samþykkt.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur ákvörðun byggingarfulltrúa ekki samrýmast ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Fyrirsvarsmaður eiganda rýmisins sem hin kærða ákvörðun taki til hafi gengið á milli meðeiganda í fjöleignarhúsinu með samþykkisblað þar sem stæði: „Eigendur rýmis í mhl. 03 þar sem Kjötkompaní ehf. leigir húsnæði að Bíldshöfða 18, 110 Reykjavík samþykkja hér með allar fyrirhugaðar breytingar á rýminu vegna starfsemi Kjöt­kompanísins ehf. í samræmi við teikningar hannaðar af Páli Poulsen hjá Strendingi ehf. þann 28.03.2022.“ Eigendur tíu eignarhluta af fjórtán í matshlutum 02 og 03 hefðu undirritað sam­þykkisblaðið. Á samþykkisblaðinu væri hins vegar eingöngu vísað til þess að verið væri að samþykkja fyrirhugaðar breytingar á rýminu en ekki vikið að ráðstöfunum á ytra byrði hússins sem sé hluti sameignar í skilningi 6. og 8. gr. laga um fjöleignarhús.

Bent sé á að framkvæmdirnar, þar á meðan uppsetning á útsogsröri, hafi ekki verið til umfjöllunar og ákvarðanatöku á húsfundi. Á aðalfundi Húsfélags 02 og 03 Bíldshöfða 18, sem haldinn hafi verið 5. apríl 2022, hafi eingöngu verið bókað af hálfu kæranda undir dagskrár­liðnum önnur mál að hann legðist gegn því að útsogsrör yrði lagt frá starfsrými Kjöt­kompanísins upp fyrir þak. Málið hafi ekki verið rætt frekar.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé gerð krafa um að með byggingar­leyfisumsókn fylgi nauðsynleg gögn, þar með talið eftir atvikum samþykki meðeiganda sam­kvæmt lögum um fjöleignarhús. Ekki hafi verið heimilt að ganga á milli meðeigenda til að afla samþykkis á tilteknu atriði sem lögin geri ráð fyrir að sé gert á löglega boðuðum húsfundi. Meginreglan sé sú að sameiginlegar ákvarðanir eigi að taka á húsfundi, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um fjöleignarhús. Um væri að ræða breytta hagnýtingu á séreign sem hefði sérstök og veruleg óþægindi í för með sér sbr. 27. gr. laga um fjöleignarhús, en staðsetning útsogsrörsins raski hagsmunum kæranda óhæfilega. Hann leigi út eignarhluta sinn sem sé á 3. hæð. Staðsetning útsogsrörsins kunni að valda verulegri sjón-, hávaða- og lyktarmengun fyrir kæranda og þá starfsemi sem rekin sé í eignarhluta hans í skilningi 4. mgr. 27. gr. greindra laga. Hin kærða ákvörðun hafi því verið verulegum annmörkum háð sem leiði til þess að fella beri hana úr gildi.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að umdeilt byggingar­leyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða, athafna- og iðnaðarsvæði. Í byggingar­leyfis­umsókn, sem tekin hafi verið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. mars 2022, hafi breytingar á húsinu vegna útsogsrörs ekki komið fram, heldur einungis lítils­háttar breytingar á bakhlið hússins vegna flóttaleiða. Skoðunarmaður byggingarfulltrúa hafi gert athugasemdir um að gera þyrfti grein fyrir útsogi frá ofni og kallað hafi verið eftir samþykki 2/3 hluta meðeigenda. Samþykkið hafi borist 28. mars s.á. og verið lagt fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. apríl s.á. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt á þeim grundvelli að breytingar teldust ekki verulegar og að samþykki 2/3 hluta meðeigenda nægði fyrir breyting­unni sbr. 3. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, með síðari breytingum.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að sú starfsemi sem hann óskaði leyfis fyrir í hús­næðinu væri í samræmi við aðra verslunarstarfsemi sem þegar væri þar til staðar, svo sem m.a. matsölustaður. Ekki væri séð að með breytingum samþykktum af byggingarfulltrúa hefði hags­munum annarra húseigenda verið raskað með nokkru móti. Með umsókn um byggingarleyfi hefði verið lögð fram samþykkisyfirlýsing 10 húseigenda af 14 og yfirlýsingin því gefin af meira en 2/3 hlutum þeirra. Ekki væri annað ráðið en að þeir sem undirritað hefðu yfirlýsinguna hefðu kynnt sér teikningar að fyrirhuguðum breytingum fyrir undirritun sína. Þá beri yfir­lýsingin með sér að með orðunum „fyrirhugaðar breytingar á rýminu“ væri átt við breytingar á sameigninni. Á teikningu af suðurhlið hússins hafi blasað við að gert væri ráð fyrir útsogsröri auk flóttaleiðar. Ekki lægi fyrir annað en að ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki hafi verið uppfyllt við útgáfu byggingarleyfis. Byggingarfulltrúa hafi ekki borið að hafna beiðni um byggingarleyfi á grundvelli þess að ákvörðun um breytingar á sameign hafi borið að taka á sérstökum löglega boðuðum húsfundi, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús. Ekki geti komið til greina að krefjast þess af byggingarfulltrúa að hann gæti hvort yfir­lýsingar meðeigenda væru gefnar í tengslum við slíkan fund eða ekki. Byggingarleyfið verði þannig ekki ógilt af úrskurðarnefndinni af þessari ástæðu enda beri að leysa úr ágreiningi að þessu leyti fyrir kærunefnd húsamála, sbr. 80. gr. laga um fjöleignarhús eða eftir atvikum fyrir dómstólum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að kæran varði fyrst og fremst það hvort hin kærða ákvörðun samrýmist ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þannig að uppfyllt sé skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Uppsetning útsogsrörs á ytra byrði fjöleignarhússins falli undir 3. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Það sé ekki í samræmi við fyrirmæli laga um fjöleignarhús að gengið sé á milli eigenda með yfirlýsingu til samþykkis eða synjunar sbr. meginreglu 39. gr. laganna um töku ákvarðana á húsfundum. Þá verði ekki séð að yfirlýsingin sem tiltekinn fjöldi meðeigenda undirrituðu hafi tekið til breytinga á sameign utanhúss heldur einungis fyrirhugaðra breytinga á rýminu sjálfu. Lögmætt samþykki hafi því ekki legið fyrir og hin kærða ákvörðun því ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki um samþykki meðeigenda. Þar sem framkvæmdir séu yfir­staðnar sé fallið frá stöðvunarkröfu í málinu. Þá sé einungis gerð krafa um að hið kærða byggingar­leyfi verði fellt úr gildi að því er varðaði uppsetningu á útsogsröri með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar um veitingu byggingarleyfis þar sem heimilað var að breyta notkun rýmis mathluta 03, innrétta kjötverslun og bakarí, gera flóttaleið og setja útsogsrör á suðurhlið húss á lóð Bíldshöfða 18.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt 10. gr. laga um mannvirki skulu með umsókn um byggingarleyfi fylgja hönnunar­gögn og önnur nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Ytra byrði hússins, sem hið kærða leyfi lýtur m.a. að, er í sameign eigenda þess skv. 8. gr., sbr. 6. gr., laga um fjöleignarhús, og þarf því að liggja fyrir samþykki meðeigenda fyrir breytingum á slíkri sameign sem gefið er á löglega boðuðum húsfundi skv. 4. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 59. gr. laganna.

Í athugasemdum við nefnda 39. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um fjöleignarhús segir m.a: „Það skal tekið fram til áréttingar, að ákvarðanir um sameiginleg málefni skal taka á húsfundum þar sem allir eigendur hafa átt þess kost að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðun og atkvæðagreiðslu. Þannig er sá háttur, sem stundum er hafður á, að gengið sé á milli eigenda með plagg eða yfirlýsingu um að einhver sameiginleg málefni, sem eigendum er hverjum í sínu lagi ætlað að samþykkja með undirritun sinni eða synja, ekki í samræmi við fyrirmæli frum­varpsins. Ákvörðun þannig tekin er ekki lögmæt og skuldbindandi nema fyrir þá sem undirritað hafa samkvæmt almennum reglum um skuldbindingargildi loforða og samninga. Gildir einu þótt sá meirihluti hafi samþykkt sem tilskilinn er til viðkomandi ákvörðunar. Þessi háttur getur því aðeins gengið að allir undirriti og samþykki enda er þá kominn á samningur.“

Samkvæmt gögnum málsins lá ekki fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa samþykki meðeigenda fyrir breytingum á sameign, gefið á löglega boðuðum húsfundi, skv. 4. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 59. gr. laganna. Voru því ekki lagaskilyrði fyrir samþykkt hins kærða byggingar­leyfis. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða byggingarleyfi þó einungis fellt úr gildi að því er varðar samþykktar fram­kvæmdir á sameign hússins á lóð Bíldshöfða 18.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2022 að því er varðar leyfi til framkvæmda á sameign hússins á lóð Bíldshöfða 18.

1/2022 Hverfisgata

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. janúar 2022, er barst nefndinni 5. s.m., kærir íbúi, Álfaskeiði 40, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2022, mótteknu næsta dag, kærir íbúi, Álfaskeiði 40, sömu ákvörðun. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 4. janúar 2022, er barst nefndinni næsta dag, kærir íbúi, Mjósundi 16, Hafnarfirði, jafnframt sömu ákvörðun. Af hálfu allra kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Verða tvö síðargreindu kærumálin, sem eru nr. 2/2022 og 3/2022, sameinuð máli þessu enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 10. febrúar 2022.

Málavextir: Á lóð Hverfisgötu 49 í Hafnarfirði er 145,7 m² þríbýlishús, reist árið 1925 sam-kvæmt upp­lýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deili­skipu­­lagið Miðbær Hraun vestur og samkvæmt skilmálum þess var heimilt að byggja bílskúr á lóðinni en hámarks­­byggingar­­­­magn á henni var 175 m². Hinn 23. október 2020 tók gildi breyting á nefndu skipulagi er fól í sér stækkun lóðarinnar úr 289,1 í 512,9 m² til norð­­­austurs. Byggingar­­­­heimildir voru óbreyttar og fór nýtingarhlutfall lóðarinnar við breyt­inguna úr 0,61 í 0,34.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 3. mars 2021 var samþykkt sú afgreiðsla skipulags- og byggingar­ráðs að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Hverfisgötu 49 er gerði ráð fyrir að skilgreindur yrði nýr byggingarreitur norðan við núverandi hús á lóðinni fyrir þriggja hæða einbýlis­hús, allt að 280 m² að heildarflatarmáli. Jafnframt var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingar­fulltrúa 14. apríl s.á. að grenndarkynna tillöguna með vísan til 2. mgr. 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Fór grenndarkynning og auglýsing tillögunnar fram 5. maí 2021 og var veittur frestur til 16. júní s.á. til að skila inn athugasemdum. Bárust athugasemdir við tillöguna á kynningar­tíma, m.a. frá kærendum máls þessa, og á fundi skipulags- og byggingar­ráðs 29. júní 2021 var skipulagsfulltrúa falið að vinna greinargerð vegna framkominna athuga­semda.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs 10. ágúst 2021, þar sem greinar­gerð skipulags­fulltrúa, dags. 26. júlí s.á., var samþykkt og lagt til við umsækjanda að leggja fram upp­færð gögn í samræmi við nefnda greinargerð. Lagði skipulagsfulltrúi m.a. til að í greinar­gerð deiliskipulagsins yrðu sett skýrari ákvæði um uppbrot, hlutföll, þakgerðir og efnisval sem og að byggingarmagn nýbyggingarinnar færi úr 280 í 230 m². Á fundi skipulags- og byggingar­­­ráðs 21. september 2021 voru uppfærð gögn samþykkt og að erindið yrði afgreitt í samræmi við skipulagslög. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 29. s.m. Í framhaldinu var deili­skipu­lagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem með bréfi, dags. 11. nóvember 2021, gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt breytingar­innar þegar stofnuninni hefðu borist lagfærð gögn. Með bréfi, dags. 23. s.m., mun þeim er gert höfðu athugasemdir innan frests hafa verið send greinargerð skipulagsfulltrúa og þeir upp­lýstir um afgreiðslu málsins og kæruheimild. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. desember 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að 17 íbúar nærliggjandi eigna hafi sent Hafnarfjarðar­kaupstað sameiginlegar athugasemdir sínar vegna umræddrar breytingar. Hafi greindar athuga­semdir verið að engu hafðar og hagmunir eiganda Hverfisgötu 49 verið teknir fram yfir hagsmuni eigenda nærliggjandi eigna þrátt fyrir skýra afstöðu þeirra gegn þessari breytingu. Ekki hafi verið færð fram nægileg rök fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á tillögunni áður en hún hafi hlotið samþykki séu langt frá því að vera nægjanlegar til að byggingin falli að núverandi byggð og hafi jákvæð áhrif á götumynd. Þá hafi ekki verið rétt staðið að grenndarkynningu tillögunnar, en hún hafi t.a.m. ekki verið kynnt fyrir íbúum Hverfisgötu 46 sem eigi beinna og augljósra hagsmuna að gæta.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé langt yfir hlutfalli nærliggjandi einbýlishúsalóða og geti því með engu móti fallið að götumyndinni án þess að skaða hana. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið komi m.a. fram að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu. Byggja megi við eldri hús í hverfinu þar sem það sé mögulegt þó þannig að nýtingarhlutfall á einbýlis­húsa­lóðum fari að jafnaði ekki yfir 0,45 og á fjölbýlishúsalóðum yfir 0,70. Nýtingarhlutfall skuli aldrei fara yfir það sem gefið sé upp í töflu með greinargerðinni. Horfa beri til nýtingar­hlutfalls nær­liggjandi lóða en ekki til deiliskipulagsins í heild sinni varðandi fordæmi fyrir svona háu nýtingarhlutfalli. Það hafi verið nánast fullnýtt samkvæmt framangreindum viðmiðum fyrir breytinguna og því ekki heimild til staðar fyrir byggingu af þessari stærðargráðu.

Horft sé fram hjá ákvæði gildandi deiliskipulags um hverfisvernd götumyndar Hverfisgötu 30-62. Þar komi m.a. fram að við byggingu nýrra húsa verði að taka mið af mælikvarða og hlut­föllum byggðarinnar. Einnig sé óheimilt að raska hrauni. Samþykkt tillaga sé ekki nægilega skýr og gefi á engan hátt mynd af því hvernig fyrirhuguð bygging muni falla að nærliggjandi byggð. Skýrari gögn þurfi að liggja fyrir svo unnt sé að meta það og ekki verði séð hvernig sveitar­félagið geti metið slíkt út frá fyrirliggjandi gögnum málsins. Hin umrædda bygging taki á engan hátt mið af mælikvarða nærliggjandi bygginga. Flest nærliggjandi einbýlishús séu 151-175 m² að stærð og því sé 230 m² bygging vel umfram það sem eðlilegt geti talist. Einnig hafi sveitar­félagið engin svör veitt við því hvort raska þurfi hrauni eða hvort sprengt verði upp úr klöpp á lóðinni. Ekki verði séð hvernig byggingin geti rúmast á lóðinni án þess að átt sé við klöppina.

Gert sé ráð fyrir að aðkoma að húsinu verði um Mjósund og að íbúar við Mjósund 16 og Álfa-skeið 40 muni deila aðgenginu með Hverfisgötu 49. Sveitarfélagið hafi að engu áhyggjur um hvort fyrir hendi sé aðgengi fyrir viðbragðsaðila, þjónustuaðila eða íbúa Mjósunds eða Álfa­skeiðs. Til að tryggja öryggi allra íbúa hafi verið nauðsynlegt að fá mat Slökkviliðs höfuð­borgar­­­svæðsins bs. hvað þetta varði áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt. Málið hafi ekki fengið sanngjarna og réttmæta meðferð hjá sveitarfélaginu og gangi þvert á þau viðmið sem séu í gildandi deiliskipulagi.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Hið umdeilda deiliskipulag hafi hlotið meðferð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 enda hafi tillagan geta talist óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi. Sú ákvörðun að grenndar­kynna hana jafnframt hafi verið tekin til að tryggja að breytingin færi ekki fram hjá þeim er byggju í nánasta umhverfi við Hverfisgötu 49. Á fyrri stigum hafi farið fram grenndar­kynning á tillögu sem ekki hafi hlotið brautargengi og því hafi verið talið eðlilegt að ný tillaga yrði einnig grenndarkynnt. Engin skylda sé til að grenndarkynna tillögu sem auglýst sé skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð skipulagsfulltrúa sé fjallað um nýtingarhlutfall og hverfisvernd. Þar komi m.a. fram að fordæmi séu fyrir jafnháu eða hærra nýtingarhlutfalli í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið og sé hærri nýting áætluð á um 42 lóðum. Skilmálar séu almennt hámarksheimildir og leyfi­legt sé að byggja minna. Þá sé ljóst að markmið deiliskipulagsins sé að viðhalda þeim blæ sem einkenni eldri hluta byggðar í Hafnarfirði. Muni endanleg byggingarleyfisumsókn hljóta með­ferð skipulags- og byggingarráðs fyrir útgáfu byggingarleyfis. Hvað aðkomumál varði sé vísað til kafla 4.11. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta áður framkomin sjónarmið sín. Umrædd deiliskipulagsbreyting geti ekki talist óveruleg og því sé alfarið hafnað að rétt hafi verið staðið að grenndarkynningunni. Kynna þurfi tillöguna að nýju fyrir öllum hagsmunaaðilum svo þeir hafi tækifæri til að gera athugasemdir. Hafnarfjarðarkaupstað beri að virða gildandi deili­skipulag og ekki aðlaga það að sínum hentugleika. Kærendur séu með öllu ósammála því að bygging af þeirri stærðargráðu sem fyrirhuguð sé falli að nærliggjandi byggð, sérstaklega í ljósi þess hve hátt nýtingarhlutfall lóðarinnar verði. Mjó­sund sé að öllu jöfnu nýtt sem bílastæði beggja vegna götunnar sem geri hana þrönga og erfiða. Það sé fráleitt að samþykkja umrædda byggingu án þess að nægilegt aðgengi sé tryggt.

——-

Lóðarhafa Hverfisgötu 49 var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins. Kom hann sjónarmiðum sínum á framfæri við úrskurðarnefndina en gerði ekki skriflegar athuga­semdir við kærurnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðar­­­­innar nr. 49 við Hverfisgötu. Á umræddri lóð er 145,7 m² þríbýlishús samkvæmt upp­lýsingum úr fast­­eigna­skrá Þjóðskrár Íslands og samkvæmt skilmálum nefnds deiliskipulags fyrir hina kærðu breyt­ingu var hámarksbyggingarmagn lóðarinnar 175 m² og heimilt að byggja þar bílskúr. Árið 2020 tók gildi breyting á deiliskipulaginu er fól í sér að lóðin var stækkuð úr 289,1 í 512,9 m² og breyttist þá nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,61 í 0,34. Með umþrættri breytingu á deiliskipu­laginu, sem tók gildi 6. desember 2021 og er tilefni kærumáls þessa, var staðsettur byggingar­reitur norðan við núverandi hús á lóðinni og þar gert ráð fyrir þriggja hæða einbýlishúsi, allt að 230 m² að heildarflatarmáli. Felld var út heimild til að byggja bílskúr á lóðinni. Heildarbyggingarmagn á lóð­inni eftir greinda breytingu getur orðið allt að 375,7 m² og leyfilegt nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,73.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitar­stjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, og eru skipulagsyfirvöld þar af leiðandi ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu. Þess ber þó að gæta að innbyrðis samræmi sé á milli gildandi skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Er ákvörðun um samþykkt deiliskipulags eða breytingu á því ákvörðun sem veitir skipu­lags­yfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð ein­stakra svæða.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hún var einnig grenndarkynnt, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Bæjar­stjórn samþykkti tillöguna að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingaráðs þar sem tekin var afstaða til framkominna athugasemda. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Þá var aðilum er gert höfðu athuga­semdir send greinargerð skipulagsfulltrúa sem var samþykkt í bæjarstjórn. Máls­meðferðin var því í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og geta hugsanlegir annmarkar á grenndarkynningu við meðferð málsins ekki leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, enda var sveitarfélaginu ekki skylt að grenndar­kynna breytingartillöguna þótt það hafi kosið að gera það.

Upphafleg tillaga að breytingu á deiliskipulaginu gerði ráð fyrir byggingu 280 m² þriggja hæða einbýlis­húss og að nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,83. Að lokinni kynningu tillögunnar lagði skipulags­fulltrúi til að byggingarmagn yrði minnkað í 230 m² og eftir þá breytingu fór nýtingar­hlutfall lóðarinnar í 0,73. Lagði skipulagsfulltrúi jafnframt til að sett yrðu í greinargerð deili­skipulags­breytingarinnar skýrari ákvæði til að tryggja að mælikvarði nýbyggingar félli betur að þeim hlut­föllum og efnis­vali sem væri að finna í aðliggjandi byggð. Var í framhaldinu bætt við skilmálum í greinar­gerðina um að við hönnun nýbyggingar skyldi taka mið af mælikvarða, efnisvali og gerð mannvirkja í næsta nágrenni lóðar og um það vísað til leiðbeininga sem fram kæmu í aðal­skipu­lagi Hafnar­fjarðar og skilmálum deiliskipulagsins. Nýbyggingin skyldi brotin upp í stærð, hlutföllum og þakformi til að falla vel að nánasta umhverfi lóðar og skyldi efsta brún þaks á ný­byggingu ekki vera hærra en mænishæð núverandi íbúðarhúss á Hverfisgötu 49. Jafn­framt skyldi skoða mismunandi stefnur á mæni nýbyggingar til að draga úr skuggavarpi á að­liggjandi lóðir. Þá er áskilnaður í greinargerðinni um að aðaluppdrætti skuli leggja fyrir skipulags- og byggingarráð áður en byggingarleyfi er samþykkt. Var með þessu að nokkru komið til móts við athugasemdir er bárust við tillöguna, en íbúar eiga ekki skilyrðis­lausan rétt á að sveitarfélagið fari eftir þeim óskum eða athugasemdum sem gerðar eru við tillögu að deili­skipulagi.

Hverfisgata 49 er á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 og er götumynd Hverfisgötu 30-62 hverfisvernduð, sbr. kafla 2.2.23 í aðalskipulaginu. Í almennum ákvæðum hverfisverndarsvæðis segir m.a. að nýbyggingar í þegar byggðum hverfum skuli taka mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar. Þá segir í hverfisverndarákvæði byggðasvæðisins að við byggingu nýrra húsa verði að taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar. Jafnframt sé óheimilt að raska hrauni. Svo sem fyrr segir er umrædd lóð á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Miðbær Hraun vestur og má þar finna sömu skilmála um hverfisvernd. Skipulags­svæðið er frá Austurgötu að miðju Arnarhrauns, á milli Reykjavíkur­vegar og suður að Læk auk húsa á milli Álfaskeiðs og Tjarnarbrautar. Eitt af markmiðum skipu­lagsins er að stuðla að heildstæðu byggða- og götumynstri í grónu hverfi og tryggja að ný­byggingar og viðbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir er. Í almennum skilmálum skipu­lagsins kemur fram að því markmiði verði náð með að virða byggingarstíl núverandi húsa og gæta að því að ný­byggingar og breytingar á eldri húsum falli vel að umhverfi sínu. Áhersla skuli lögð á heildar­mynd og mælikvarða hins byggða umhverfis. Í almennum skilmálum fyrir öll hús kemur m.a. fram að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu. Þá er tekið fram að við byggingu nýrra húsa og viðbygginga skuli taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar, yfirbragði hennar og sérkennum.

Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins er nýtingarhlutfall lóða við Hverfisgötu 37-57 mis­jafnt, eða allt frá því að vera 0,50 á Hverfisgötu 51 í 0,83 á Hverfisgötu 41. Nýtingarhlutfall lóðanna við Hverfisgötu 45, 53 og 55 er 0,57 og á lóð Hverfisgötu 47 er það 0,52. Nýtingar­hlutfall lóðar Hverfisgötu 49 verður sem fyrr segir 0,73 eftir hina umdeildu breytingu. Er því ljóst að nýtingar­hlutfall lóðarinnar er heldur hærra en almennt gerist á næstu lóðum er liggja sömu megin götunnar en sker sig þó ekki úr með afgerandi hætti. Þá er að finna hærra nýtingarhlutfall á nokkrum lóðum hinum megin við Hverfisgötuna, t.d. á lóðum nr. 38 og 40. Einnig verður ekki talið að fyrirhugað hús verði úr hófi stærra borið saman við önnur hús í næsta nágrenni, jafnvel þótt byggingarheimild skipulagsins verði fullnýtt. Að því virtu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi farið gegn áðurnefndum skilyrðum hverfis­verndar um að taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar. Þá verður að telja fyrr­greinda skilmála deiliskipulags­breytingarinnar stuðli að því að fyrirhuguð bygging taki mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar eins og almennir skilmálar aðalskipulags um hverfisvernd mæla fyrir um.

Í greinargerð skipulagsfulltrúa frá 26. júlí 2021, vegna framkominna athugasemda við tillögu að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, eru færð fram þau rök fyrir breytingunni að stefnu­mörkun liggi fyrir um fjölgun eigna í þegar byggðum hverfum og skírskotað hvað það varðar til umfjöllunar í aðalskipulagi Hafnarfjarðar og svæðisskipulaginu Höfuðborgarsvæðið 2040 um þéttingu byggðar. Í greinargerð aðalskipulagsins er tekið fram að þétting íbúðarbyggðar sé möguleg innan eldri hluta Hafnarfjarðar við endurskipulagningu svæða með úrelta starfsemi eða starfsemi sem ekki sé lengur þörf fyrir eða sé betur staðsett annars staðar. Er ljóst að sú heimild fyrir þéttingu byggðar getur ekki átt við um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu, enda felur hún ekki í sér endurskipulagningu svæðisins. Hins vegar segir í aðalskipulaginu að minni þéttingasvæði séu fyrirhuguð á skipulagstímabilinu og breytt skipulag á einstökum lóðum í bænum. Þá er í kjölfarið að finna töflu yfir íbúðarsvæði sveitarfélagsins og segir þar um íbúðarbyggðina Hraun, ÍB4, að ekki sé fyrirhuguð frekari uppbygging nema á einstökum lóðum. Eru hin umdeildu byggingaráform á lóð Hverfisgötu 49 því í samræmi við stefnu aðal­skipulags sveitarfélagsins um þéttingu byggðar og lágu af þeim sökum málefnaleg rök að baki breytingunni. Þá verður ekki talið að framangreindur skilmáli deiliskipulagsins, um að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu, girði fyrir að eignum sé fjölgað heldur að slíkt sé heimilt í undantekningartilvikum með breytingu á skilmálum fyrir einstakar lóðir líkt og í máli því sem hér um ræðir.

Svo sem að framan greinir felst jafnframt í hverfisvernd götumyndar Hverfisgötu 30-62 að óheimilt sé að raska hrauni. Í greinargerð skipulagsfulltrúa kemur fram að nýr byggingarreitur að Hverfisgötu 49 sé um 170 m² að stærð og að innan reitsins skuli auk grunnflatar húss m.a. koma fyrir út­byggingum, stöllum og svölum. Ef allar hæðir hússins verði jafn stórar, þ.e.a.s. rúmlega 90 m² að grunnfleti, sé ljóst að byggingarreitur sé vel rúmur. Ekki er að sjá að frekari afstaða sé tekin til þess hvort hrauni verði raskað en fyrir liggur að leggja skal aðaluppdrætti fyrir skipulags- og byggingarráð áður en byggingarleyfi er samþykkt. Þá er það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og ber því að líta til þess við meðferð umsóknar um byggingar­leyfi hvort hrauni verði raskað.

Af deiliskipulagsuppdrætti og staðháttum verður ráðið að aðkoma að nýbyggingunni sé frá Mjó­sundi og eru tvö bílastæði innan lóðarinnar. Verður ekki annað séð en að hún fullnægi áskilnaði í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um aðkomu neyðarbíla. Er hvað það varðar rétt að benda á að byggingarfulltrúi getur við afgreiðslu umsóknar um byggingar­leyfi metið hvort nauðsynlegt sé að leita umsagnar slökkviliðs, en áskilið er í gr. 9.8.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 að á lóðum skuli vera greið aðkoma fyrir sjúkra- og slökkvibifreiðar. Jafnframt skal sýna á aðaluppdrætti hvernig haga skuli fólks- og vöruaðkomu að húsi og lóð, gáma­stæðum og aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla. Sama skal og koma fram á lóða­uppdráttum, eftir því sem við á. Meðferð byggingarleyfisumsóknar getur því gefið tilefni til nánari athugunar en við skipulagsgerð. Þá kemur fram í greinargerð skipulagsfulltrúa að aðkoma og athafnamöguleikar slökkviliðs og sjúkraflutninga séu alltaf skoðaðir og samþykktir af hálfu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. áður en leyfi fyrir nýbyggingum sé veitt.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að benda á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna deiliskipulags­breytingarinnar geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði.

35/2022 Hlaðbrekka

Með

Árið 2022, mánudaginn 13. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 35/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars 2022, um að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17, Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2022, er barst nefndinni 23. apríl s.á., kæra eigendur Fögrubrekku 18 og 20 þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars s.á. að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er farið fram á að byggingarleyfi verði fellt úr gildi ef það hafi verið gefið út áður en úrskurður nefndarinnar liggi fyrir í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 23. maí 2022.

Málsatvik og rök: Með erindi, dags. 2. febrúar 2021 óskuðu lóðarhafar Hlaðbrekku 17 eftir leyfi til viðbyggingar og breytinga á innra skipulagi húss sem stendur á lóðinni. Að lokinni grenndarkynningu umsóknarinnar var erindinu hafnað á fundi skipulagsráðs 5. júlí 2021 og staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi 15. s.m. Lóðarhafar fóru fram á endurupptöku málsins með bréfi dags. 10. nóvember s.á. og á fundi bæjarráðs 18. s.m. var samþykkt að vísa málinu til skipulagsráðs til nýrrar meðferðar. Á fundi skipulagsráðs 14. mars 2022 var erindi lóðarhafa samþykkt og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsráðs 22. s.m..

Kærendur benda á að við endurupptöku málsins hafi verið lögð fram gögn sem séu röng og tekið hafi verið tillit til röksemda sem ekki væru í samræmi við þau viðmið sem hafa skuli til hliðsjónar við slíkt mat. Alvarlegir misbrestir hafi verið á afgreiðslu málsins, nýtingarhlutfall lóðar sé mun meira en gefið hafi verið upp í umsókn auk þess sem hæð í framlagðri umsókn sé vel rúmum meter hærri en sú lína sem dregin sé milli aðliggjandi húsa og því í andstöðu við þau viðmið sem Kópavogsbær hafi sett. Umbeðnar breytingar á húsinu muni hafa áhrif á útsýni kærenda auk þess að breyta ásýnd götunnar þar sem gatan sé einsleit með húsum byggðum á svipuðum tíma með sambærilega hönnun.

Bæjaryfirvöld benda á að byggingarfulltrúi hafi enn ekki samþykkt byggingaráform fyrir greindri viðbyggingu. Samþykki skipulagsráðs og staðfesting bæjarstjórnar feli ekki í sér endanlega afgreiðslu á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en það sé hlutverk byggingar­fulltrúa sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða þar sem endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. Þá hafi orðið eigendaskipti á húsinu og ekki liggi fyrir hvort nýir eigendur ætli að halda málinu áfram í samræmi við þær teikningar sem hafi verið grenndarkynntar. Samþykkt skipulagsráðs hafi byggt á þeim forsendum að það væri í samræmi við rammahluta gildandi aðalskipulags og að grenndaráhrif væru óveruleg. Þá væri að finna fordæmi í næsta nágrenni hvað varðaði þakform og dvalarsvæði.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja fyrir sitt leyti viðbyggingu og breytingu á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki er það hlutverk byggingarfulltrúa í viðkomandi sveitarfélagi að veita byggingarleyfi vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er slíku leyfi, eftir atvikum að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfis á ódeiliskipulögðu svæði og afgreiðslu skipulagsyfirvalda eins og á við í máli þessu. Byggingarfulltrúi hefur ekki samþykkt eða gefið út slíkt leyfi fyrir viðbyggingu eða breytingum á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Þrátt fyrir að ákvörðun bæjarstjórnar feli í sér afstöðu til beiðni um byggingarleyfi verður sú afstaða ekki talin binda enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda um að ræða lið í málsmeðferða byggingarleyfsumsóknar.

 Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

18/2022 Vallnaholt

Með

Árið 2022, föstudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 14. maí 2021 um að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. mars 2022, kærir Þ. P., arkitekt og löggiltur hönnuður, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múla­þings frá 14. maí 2021 að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar umræddrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 17. mars 2022.

Málavextir: Með tölvupósti 14. maí 2021 kom byggingarfulltrúi Múlaþings þeim leið­bein­ingum á framfæri við umsækjanda um byggingarleyfi vegna Vallna­holts 8 að einungis hönnuðir með samþykkt gæðakerfi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mættu skila inn aðal­upp­dráttum. Höfundur þess uppdráttar er fylgt hefði umsókninni hefði ekki samþykkt gæða­kerfi og væri honum því ekki heimilt að skila inn uppdráttum til leyfisveitanda. Er höfundur uppdráttarins kærandi þessa máls.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi hvorki átt sér stoð í lögum né reglugerð. Ákvörðunin hafi að auki brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 þar sem brotið hafi verið gegn meðal­hófs­reglu og gegn ákvæði um að tilkynna beri um íþyngjandi ákvörðun og benda á kæruleiðir. Byggingar­fulltrúi hafi neitað að taka við einfaldri grunnmynd af herbergjaskipan hússins að Vallnaholti 8.

Í júlí árið 2016 hafi kærandi mælt upp milliveggi og herbergjaskipan í húsinu að Vallnaholti 8, en hönnun hússins hafi ekki verið á hans könnu. Mælingunum hafi hann skilað til húseiganda, sem hafi lagt þær fyrir byggingarfulltrúa þáverandi Fljótsdalshéraðs án þess að athugasemdir væru gerðar. Í febrúar árið 2021 hefði húseigandinn á ný leitað til kæranda og tjáð honum að í einu af rýmum hússins hefði verið bætt við millivegg og hann jafnframt beðið kæranda  um að færa þessa breytingu inn með sama hætti og áður. Kærandi hafi því farið á staðinn með málband og laser fjarlægða­mæli og bætt þessum vegg inn á sama riss og hann hafi áður gert. Sem fyrr hafi kærandi engan hlut átt að því hvar eða hvernig þessum vegg væri komið fyrir heldur aðeins skráð orðinn hlut. Þetta nýja riss hafi ekki hlotið náð fyrir augum byggingarfulltrúa Múlaþings þar sem kærandi hafi ekki verið með skráð gæða­stjórnunar­kerfi. Ekki hafi verið um að ræða hönnun eða forsögn um fram­kvæmdir af hálfu kæranda heldur einungis staðfestingu á einfaldri mælingu með málbandi sem færð hafi verið á A4-örk. Hafi kærandi sem hönnuður ekki komið nærri framkvæmdum í húsinu að Vallna­holti 8. Ekki hafi því verið um að ræða verk sem hafi krafist hönnuðar með gæða­stjórnunar­kerfi eða starfsábyrgðartryggingu. Vegið sé að starfs­heiðri kæranda og langri starfs­reynslu hans með því að dæma hann óhæfan til að fara með einfalt mál­band. Kærandi sé arkitekt og löggiltur hönnuður á eftirlaunum og hafi sagt upp starfs­ábyrgðartryggingu sinni árið 2019 en aldrei komið sér upp gæðastjórnunarkerfi. Kærandi hafi fullan skilning á því að þeir sem stundi hönnun eða séu hönnunarstjórar verði að hafa gæða­stjórnunar­kerfi og ábyrgðar­tryggingu í gildi, en að fara fram á slíkt þegar gamall arkitekt taki upp á því að aðstoða nágranna sína með notkun málbands og skrá annarra manna verk sé of langt gengið. Kærandi vilji ekki sitja uppi með það að mega ekki hafa samskipti við byggingar­full­trúa út af neinu máli, jafnvel þótt þau hafi ekkert með hönnun að gera.

Málsrök Múlaþings: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að taka við gögnum sem séu grunnur að útgáfu byggingarleyfis þegar hönnuður hafi ekki samþykkt gæðastjórnunarkerfi. Málið hafi varðað breytingu á notkun Vallnaholts 8 úr leik­skóla í gistiheimili. Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð krafa um byggingar­leyfi þegar um breytingu á notkun mannvirkis sé að ræða. Engar stórvægilegar breytingar hafi verið gerðar innan­húss en þó einhverjar. Kærandi hafi skilað inn teikningu að húsinu sem hafi verið ófull­gerð. Sveitar­félagið hafi ráðfært sig við Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun um hvort það hefði heimild til að taka við gögnum til skráningar og varðveislu frá hönnuði sem ekki hefði samþykkt gæða­kerfi. Túlkun stofnunarinnar hefði verið sú að samkvæmt reglu­gerð nr. 271/2014 um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra væri ekki skil­yrði að hönnuður hefði gæðastjórnunarkerfi en að viðkomandi gæti þá ekki skilað inn teikningum vegna byggingarleyfis, sbr. gr. 4.6.1. í byggingarreglugerð.

Niðurstaða: Í kærumáli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt áritaðan af kæranda. Sveitarfélagið hefur upplýst að eigandi Vallna­holts 8 hafi í febrúar 2022 fengið byggingarleyfi á grundvelli uppdrátta frá öðrum hönnuði vegna sömu byggingaráforma. Hins vegar verður að líta svo á að hin kærða ákvörðun varði atvinnuréttindi kæranda sem arkitekts og löggilts hönnuðar og hefur hann því lögvarða hags­muni af úrlausn kærumáls þessa.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kæru­frestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Svo sem fyrr er rakið tilkynnti byggingarfulltrúi Múla­þings eiganda Vallnaholts 8 með tölvupósti 14. maí 2021 að kærandi hefði ekki samþykkt gæðakerfi og mætti því ekki skila inn uppdráttum til leyfis­veitanda. Kærandi hefur upplýst að eigandi Vallnaholts 8 hafi „nokkuð fljótt“ upplýst hann um greinda ákvörðun. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 3. mars 2022 og verður að framangreindu virtu talið að lögbundinn kærufrestur hafi þá verið liðinn.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að byggingarfulltrúi Múlaþings hafi hvorki til­kynnt kæranda um hina kærðu ákvörðun né leiðbeint honum um kæruheimild til úrskurðar­nefndarinnar. Þar sem ákvörðunin varðaði ekki aðeins hagsmuni eiganda Vallnaholts 8 af því að fá byggingaráform sín samþykkt heldur jafnframt atvinnuréttindi kæranda bar byggingarfulltrúa að veita honum slíkar leiðbeiningar. Verður því talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu hönnuðir og hönnunar­stjórar hafa gæðastjórnunarkerfi í samræmi við nánari fyrirmæli í reglugerð. Er nánar kveðið á um þá skyldu í gr. 4.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar er í 4. mgr. kveðið á um skyldu hönnuða og hönnunarstjóra til að tilkynna Húsnæðis- og mann­virkja­stofnun um gæðastjórnunarkerfi sitt til samþykktar og skráningar í gagnasafn stofnunar­innar. Þá kemur þar fram að sé gæðastjórnunarkerfi hönnuðar ekki vottað af faggiltri vottunar­stofu skuli Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gera úttekt á gerð þess og virkni. Að öðrum kosti sé leyfisveitanda óheimilt að taka til afgreiðslu gögn sem hönnuðir leggi fram til samþykktar. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki vottað gæðastjórnunarkerfi í samræmi við lög nr. 160/2010 og byggingarreglugerð og var byggingarfulltrúa þegar af þeirri ástæðu rétt að neita að taka til af­greiðslu umræddan uppdrátt sem áritaður var af kæranda. Þá skal bent á að í 6. mgr. gr. 4.1.1. í byggingarreglugerð er kveðið á um að hafi hönnuður ekki lengur full­nægjandi ábyrgðar­tryggingu sé honum ekki lengur heimilt að leggja uppdrætti fyrir leyfis­veitanda, en svo sem greint er frá í kæru sagði kærandi upp ábyrgðartryggingu sinni árið 2019.

Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Múlaþings frá 14. maí 2021 um að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8.