Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2022 Móhóll

Árið 2022, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík.  Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 28. september 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja frístundahús og frístandandi geymslu á lóðinni Móhól 7, Hvalfjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðanna Móhóls 13, 14, 9 og 10 og spildunnar Móhólsmela, í Hvalfjarðarsveit,  þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 28. september 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja frístundahús og frístandandi geymslu á lóðinni Móhól 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 8. júlí 2022.

Málavextir: Árið 2007 var deiliskipulagi Ölvers og Móhóls í Hvalfjarðarsveit breytt og meðal annars var bætt við átta nýjum lóðum fyrir frístundabyggð, Móhóll 4-15. Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt í sveitarstjórn 20. mars 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 1. júní 2007.

Lóðin Móhóll 7 var stofnuð í fasteignaskrá 27. maí 2008 og fékk hún landnúmerið L216474 og fasteignarnúmer F2334158. Við stofnun lóðarinnar var hún upphaflega skráð 3.000 m2 en stærð hennar var leiðrétt 4. júní s.á. og staðfest af þáverandi Fasteignamati Ríkisins 14. s.m. þannig að lóðin var skráð 3.136 m2. Stofnskjal lóðarinnar var innfært í þinglýsingarbók sýslumanns 19. september s.á. Upphaflegir landeigendur seldu lóðina með kaupsamningi og afsali, dags. 6. febrúar 2018, sem þinglýst var 8. s.m. Leyfishafi eignaðist Móhól 7 með afsali, dags. 10. október 2018, sem þinglýst var 14. s.m. Byggingarfulltrúi Hvalfjarðarsveitar samþykkti byggingaráform og gaf út byggingarleyfi 28. september 2021 fyrir byggingu frístundahúss og frístandandi geymslu á lóðinni Móhóli 7.

 Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í kjölfar kaupa þeirra á lóðinni Móhólsmelum og lóðunum Móhól 13, 14, 9 og 10 árið 2021 hafi komið í ljós ósamræmi milli þinglýstra gagna og upplýsinga og afstöðu eigenda lóða um staðsetningar þeirra. Lóðin Móhólsmelar sé samkvæmt fasteignaskrá 36 ha, en á svæðinu hafi verið unnið deiliskipulag sem geri ráð fyrir lóðunum Móhól 1-15. Stofnskjal vegna lóðarinnar Móhóls 7 sé dagsett 23. maí 2008 og því hafi verið þinglýst en ekki liggi fyrir að neinn uppdráttur af mörkum lóða hafi fylgt þinglýsingu. Með kaupsamningi og afsali, dags. 6. febrúar 2018, hafi þáverandi eigendur lóðanna Móhóll 7 og 8 selt lóðirnar og samkvæmt samningnum séu landnúmer lóðanna tilgreind 216474 og 216475 og þær sagðar vera 3.000 og 4.000 m2 samkvæmt uppdrætti. Lóðunum hafi svo verið afsalað til núverandi eiganda 10. október 2019.

Kærendur hafi orðið þess varir sumarið 2021 að eigandi Móhóls 7 og 8 byggði á því að staðsetning lóðanna færi eftir deiliskipulagstillögu frá árinu 2006, en ekki á deiliskipulagstillögu frá 2005 sem sé þinglýst með fyrsta afsali um lóðirnar. Haft hafi verið samband við sveitarfélagið vegna lóðanna og óskað eftir afriti af uppdrætti sem hefði átt að fylgja stofnskjali um staðsetningu þeirra. Var sveitarfélagið einnig upplýst um að þinglýst skjöl, þ.e. deiliskipulagstillaga frá 2005, sýndi lóðina Móhól 7 á öðrum stað en deiliskipulagið frá 2006. Haft hafi verið samband við sveitarfélagið að nýju 3. maí 2022 og þá hafi kærendur fengið upplýsingar um að eigandi Móhóls 7 hefði fengið útgefið byggingarleyfi haustið 2021. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem kærendur hefðu fengið upplýsingar um byggingarleyfið þrátt fyrir að hafa verið í samskiptum við sveitarfélagið fyrr á árinu.

Útgáfa umrædds byggingarleyfis byggi ekki á fullnægjandi heimildum á sviði skipulags- og mannvirkjalöggjafar auk þess sem byggingarleyfið varði svæði sem þinglýst gögn staðfesti ekki að tilheyri eiganda Móhóls 7. Honum hafi verið sent erindi þar sem lögð var fram tillaga um lagfæringu á lóðarmálum til samræmis við þinglýst gögn þannig að eigandi fengi fullgilt stofnskjal fyrir lóð nyrst á svæðinu sem væri staðsett sem næst þeirri tilgreiningu sem þinglýsti deiliskipulagsuppdrátturinn frá 2005 sýni. Sveitarfélaginu hafi verið ljóst eða mátt vera ljósir þeir annmarkar sem væru á eignarheimild eiganda lóðarinnar og „skorts á staðsetningu hennar“. Skilyrði útgáfu byggingarleyfis, sbr. gr. 2.3.7. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé að fyrir liggi gögn sem sýni fram á eignarheimildir. Ekki hafi legið fyrir uppdráttur staðfestur af þinglýstum eigendum um afmörkun lóða, sbr. stofnskjal, og hafi lóðirnar verið stofnaðar án lögformlegrar staðsetningar af hálfu landeigenda. Stærð lóðarinnar hafi verið breytt úr 3.000 m2 í 3.136 m2. Einn kærenda hafi fyrir útgáfu byggingarleyfisins upplýst sveitarfélagið um að hann teldi þinglýst gögn sýna að lóðin Móhóll 7 væri á öðrum stað en þinglýstur lóðarhafi teldi lóðina vera. Sú staða hefði átt að leiða til höfnunar byggingarleyfis eða í öllu falli frekari rannsóknar máls og andmælaréttar kærenda, áður en ákvörðun væri tekin.

Þinglýst eignarhald á Móhól 7 segi ekkert til um staðsetningu og afmörkun lóðarinnar. Staðfesting á eignarhaldi sé því ekki nægjanlegt gagn í skilningi gr. 2.3.7. byggingarreglugerðar. Sveitarfélagið hafi verið í óvissu um staðsetningu lóðarinnar þar sem ekki hafi legið fyrir hnitsettar eða stafrænar útgáfur af deiliskipulagi svæðisins frá 2006. Það, að sveitarfélagið hafi haft upp á slíkum teikningum árið 2021, geti ekki með neinum hætti verið ígildi eða komið í staðin fyrir þá lögbundnu kröfu að landeigandi þurfi að staðfesta afmörkun lóða úr eignarhaldi hans.

 Athugasemdir Hvalfjarðarsveitar: Sveitarfélagið vísar til þess að á þeim tíma sem lóðin Móhóll 7 hafi verið stofnuð hafi 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 kveðið á um  að eigandi skuli gefa út stofnskjal fyrir hverja lóð eða heildarsafn lóða sem myndaðar séu í Landskrá fasteigna og að í stofnskjali skuli koma fram heiti landeignar, landnúmer lóða/-r, landnúmer þess lands sem lóðir eru teknar úr og fastanúmer hverrar lóðar eða jarðar sem hefði beina tilvísun í þá skika sem henni tilheyri. Ákvæðið hafi einnig kveðið á um að í stofnskjali eigi að koma fram afmörkun lóðar á uppdrætti sem staðfestur hafi verið af skipulagsyfirvöldum. Þessu hafi verið breytt með lögum nr. 83/2008 þar sem nú sé gerð krafa um að uppdráttur skuli vera hnitsettur en breytingin hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 2009 og því hafi ekki þurft hnitsettan uppdrátt við stofnun lóðarinnar Móhóls 7. Þrátt fyrir að það hafi ekki verið skylda sé skipulagsuppdráttur fyrir þann hluta deiliskipulagssvæðisins sem Móhóll 7 sé á, svæði A, hnitsettur að hluta. Var umræddur skipulagsuppdráttur sendur með stofnskjali lóðanna í þinglýsingu á sínum tíma og hafi fulltrúi sýslumannsins á Vesturlandi staðfest það. Skipulagsuppdrátturinn sé hins vegar í svo stóru broti að uppdrátturinn hafi ekki verið skannaður inn með stofnskjalinu auk þess að hann hafi verið geymdur sér en ekki í þinglýsingarbókinni sjálfri.

Aðkoma sveitarfélagsins að lóðarstofnuninni hafi einskorðast við það að stofna lóðina í þar til gerðum hugbúnaði og afhenda eiganda hennar að því loknu lóðarnúmer sem þurfti að koma fram í stofnskjalinu og svo afhenda þáverandi Fasteignamati ríkisins skráninguna til yfirferðar. Lóðin Móhóll 7 hafi verið formlega stofnuð í kerfinu „BYGGING“ af byggingarfulltrúa 27. maí 2008. Byggingarfulltrúi hafi tekið við áætluðum stærðum lóðanna frá eigendum til að byrja með og stofnað lóðirnar miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Fasteignamat ríkisins hafi að því loknu yfirfarið skráninguna og óskað eftir leiðréttingu á stærð lóðarinnar þar sem hún hafi ekki verið rétt samkvæmt deiliskipulaginu. Stærð lóðarinnar hafi verið lagfærð 4. júní s.á. og stofnun hennar þá staðfest af starfsmanni Fasteignamats ríkisins. Í kjölfarið hafi stofnskjal lóðarinnar verið sent í þinglýsingu og það verið innfært í þinglýsingarbók 19. september s.á. Frá þeim degi hafi lóðin Móhóll 7 verið skráð 3.136 m2 í landeignaskrá.

Ranglega sé haldið fram að ekki liggi fyrir staðfesting frá landeiganda um staðsetningu lóða við Móhól. Fyrir liggi hnitsett deiliskipulagsbreyting frá árinu 2006 sem útbúin hafi verið að undirlagi og í nafni þáverandi landeigenda. Þegar deiliskipulagsbreytingin hafi verið lögð fram hjá sveitarfélaginu hafi þáverandi landeigendur staðfest staðsetningu nýrra lóða sem fengu nöfnin Móhóll 4-15. Þá hafi deiliskipulagsuppdrátturinn verið lagður inn til þinglýsingar með stofnskjali lóðanna.

Rétt sé að með kaupsamningi og afsali um lóðirnar Móhóll 7 og 8 frá árinu 2018 hafi verið þinglýst uppdrætti samkvæmt deiliskipulagstillögu frá árinu 2005. Það hafi hins vegar ekkert vægi við mat á því hvort staðið hafi verið rétt að stofnun lóðanna við Móhól. Uppdrátturinn hafi ekki formlegt gildi og í umræddum kaupsamningi og afsali sé vísað til þess að lóðirnar Móhóll 7 og 8 séu með landnúmerið 216474 og 216475 og fastanúmer 233-4158 og 233-4159 sem séu réttu auðkennin samkvæmt Landskrá fasteigna. Fyrrum landeigendur hafi selt fleiri lóðir við Móhól frá stofnun þeirra og enginn vafi hafi verið á stærð eða staðsetningu þeirra lóða. Þar á meðal sé lóðin Móhóll 12 sem eigi lóðarmörk að Móhól 7. Óumdeilt sé að lóðin Móhóll 7 sé staðsett í samræmi við hnit- og málsett deiliskipulag sem þinglýst hafi verið með stofnskjali hennar og miðað við skráningu hennar í dag.

Staðsetning lóða við Móhól sé óumdeild. Þáverandi landeigendur lóða við Móhól hafi lagt fram deiliskipulagstillögu hjá sveitarfélaginu til staðfestingar. Þar hafi komið fram hnit í fjórum hornum lóðanna Móhóll 5 og 6 en þess utan séu aðrar lóðir nákvæmlega málsettar. Þá hafi deiliskipulagsuppdrátturinn fylgt með til þinglýsingar. Lóðin Móhóll 7 eigi lóðarmörk að Móhól 6 og því séu tvö horn lóðarinnar hnitsett. Mælingarmaður á vegum byggingarfulltrúa sveitarfélagsins hafi farið á vettvang til að mæla út fyrir leyfilegri staðsetningu mannvirkis á Móhól 7 og í framhaldi hafi verið sótt um byggingarleyfi. Að mælingu lokinni hafi byggingarfulltrúi gefið út leyfið þar sem umsóknin og framlögð fylgigögn hafi uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um útgáfu þess.

Treysta verði því sem þinglýst hafi verið hjá sýslumanni varðandi eignarhald lóða og sveitarfélagið sé ekki til þess bært að meta hvaða skjöl séu fullnægjandi um eignarhald. Haustið 2021 hafi sveitarfélagið áttað sig á að til staðar var hnitsett deiliskipulagsáætlun en erfitt sé að sjá það á því eintaki sem finna megi skannað inn á skipulagssjá Skipulagsstofnunar. Það hefði verið óeðlilegt ef sveitarfélagið hefði ekki stuðst við slík gögn um stofnun og staðsetningu lóðarinnar sem stafað hafi frá landeigendum sjálfum. Landeigendur hafi með gerð deiliskipulagsins staðfest afmörkun umræddra lóða gagnvart sveitarfélaginu með skýrum og lögformlega fullnægjandi hætti og á þeim grundvelli hafi sveitarfélagið gefið hið kærða byggingarleyfi út til þinglýsts eiganda lóðarinnar Móhóls 7. Þá hafi deiliskipulagsuppdrættinum verið þinglýst með stofnskjali lóðarinnar.

 Málsrök leyfishafa: Bent er á að málið varði einkaréttarlegan ágreining sem eigi rætur að rekja til deiliskipulags svæðisins sem um ræði, Móhóls í Hvalfjarðarsveit. Gildandi deiliskipulag svæðisins sé upprunalega frá 1997 en gerðar hafi verið breytingar á því árið 2006. Þá hafi m.a. verið bætt við 8 lóðum fyrir frístundabyggð. Með breytingunum hafi fylgt uppdráttur af svæðinu þar sem gerð var grein fyrir hinum nýju lóðum og þær merktar lóðanúmerum á uppdrættinum, þar á meðal lóðir nr. 7 og 8. Lóð nr. 7 hafi verið skráð 3.136 m2 en lóð nr. 8 4.400 m2. Breytingarnar hafi verið samþykktar 8. mars 2006 og feli í sér gildandi deiliskipulag. Árið 2008 hafi landeigendur stofnað lóðirnar Móhól 4 og Móhól 7-15 en svo virðist sem stofnskjalið hafi verið háð nokkrum annmörkum. Uppdráttur sem hafi átt að fylgja stofnskjalinu hafi ekki fundist sem og að lóðarstærðir sem tilgreindar voru í skrám Fasteignamats ríkisins hafi ekki verið í fullu samræmi við þær stærðir sem tilgreindar séu í gildandi deiliskipulagi. Í útprentuninni sé lóðin Móhóll 7 skráð 3.000 m2 og Móhóll 8 skráð 4.000 m2. Ljóst sé samkvæmt núgildandi skráningu að stærð þeirra lóða og annarra lóða sem voru stofnaðar á sama tíma sé í samræmi við tilgreiningu deiliskipulags frá 2006 þar sem lóð nr. 7 sé 3.136 m2 og lóð nr. 8 sé 4.400 m2.

Árið 2018 hafi lóðirnar Móhóll 7 og 8 verið seldar og í kaupsamningi og afsali hafi verið vísað til landnúmeranna 216474 og 216475 og tiltekið að samkvæmt uppdrætti mældust þær 3.000 m2 og 4.000 m2. Á uppdrætti sem fylgt hafi kaupsamningnum væru lóðir 7 og 8 nyrstar á svæðinu, norðan við lóðir nr. 6 og 9. Þá hafi lega svæðisins einnig verið önnur en í gildandi deiliskipulagi. Við þennan uppdrátt sé hins vegar að athuga að lóðir nr. 7 og 8 voru tilgreindar 4.000 m2 að stærð hvor en ekki 3.000 m2 og 4.000 m2 sem hafi verið í ósamræmi við kaupsamning. Árið 2019 hafi leyfishafi keypt lóðirnar Móhól 7 og 8. Í afsali hafi verið vísað til landeignanúmeranna 216474 og 216475 og stærðir lóðanna tilgreindar sem 3.136 m2 og 4.400 m2. Árið 2021 hafi kærendur keypt lóðir á svæðinu og í kjölfarið hafi sprottið upp ágreiningur sem leyfishafi átti sig ekki á enda hafi þeim mátt vera ljóst hvaða lóðir með tilgreindum landeignanúmerum þau hafi keypt.

Bent er á að byggingarleyfið hafi verið gefið út 28. september 2021 en kæran hafi borist 30. maí 2022. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Kærendur hafi staðið í mikilli rannsóknarvinnu tengdu þessu máli auk þess að eiga nokkrar lóðir á umræddu svæði og hafi því augljóslega orðið vör við framkvæmdir leyfishafa löngu fyrir þann tímapunkt sem kærendur haldi fram að sé sá tímapunktur sem þeir hafi orðið varir við hið útgefna byggingarleyfi. Þá hafi þeim í öllu falli mátt vera kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins löngu áður. Verði því að telja að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst.

Kærendur byggi málatilbúnað sinn á því að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis hafi ekki verið uppfyllt og vísi til gr. 2.3.7. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem kveðið sé á um að umsókn um byggingarheimild fylgi gögn sem sýni fram á eignarheimildir. Umsókn leyfishafa hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis, þar á meðal gögn sem sýndu fram á eignarheimildir. Sömu landeignarnúmer hafi fylgt lóðunum frá stofnun þeirra árið 2008 og lóðirnar verið í samræmi við gildandi deiliskipulag.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að umfjöllun Hvalfjarðarsveitar um verklag við stofnun lóða sé villandi varðandi aðkomu sveitarfélagsins við stofnun lóða á þessum tíma. Ljóst sé að sveitarfélagið hafi átt að gæta að afmörkun lóða, þ.e. á grundvelli hnitaskrár og uppdrátta. Engin hnitaskrá hafi legið fyrir vegna lóðanna við Móhól sbr. stofnskjal lóðanna, dags. 23. maí 2008, og að enginn uppdráttur af lóðunum hafi verið staðfestur af sveitarfélaginu. Ágallar á aðkomu sveitarfélagsins við lóðastofnunina séu grunnurinn að því að síðari aðkoma Fasteignamats ríkisins og þinglýsingastjóra séu einnig ófullnægjandi. Órökrétt sé að vísa til þess að deiliskipulagsuppdrátturinn vegna Móhóla hafi falið í sér afmörkun lóðanna þar sem ósamræmi er um stærð lóða samkvæmt stofnskjalinu annars vegar og deiliskipulagsuppdrættinum hins vegar.

Misskilnings gæti um fyrirkomulag þinglýsingar. Afhending Fasteignamats ríkisins til þinglýsingar felist í því að stofnunin hafi staðfest skráningu byggingarfulltrúa í Landsskrá fasteigna en það sé hins vegar landeigandi sem færi stofnskjal til þinglýsingar ásamt staðfestum uppdrætti eða hnitaskrá. Þá verði ekki séð að staðfesting frá sýslumanni breyti stöðu málsins. Skjal sem finnist lagt til hliðar á skrifstofu sýslumanns hafi ekki verið þinglýst ef það komi ekki fram í opinberri þinglýsingaskráningu. Þinglýsing felist í slíkri skráningu en ekki stimplun skjalsins.

Umfjöllun sveitarfélagsins staðfesti það sem fram hafi komið í kæru að því hafi verið ljósir annmarkar á afmörkun umræddrar lóðar og þar af leiðandi hafi þinglýsingarvottorð um eignarhald hennar verið háð óvissu um það hvaða land fylgdi lóðinni. Því falli málið undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar þar sem óvissa sé um afmörkun, staðsetningu og stærð lóðarinnar sem þinglýsingarvottorðið snúi að. Fullyrðingar leyfishafa um að kærendur hafi fengið upplýsingar um hið kærða byggingarleyfi fyrr en gerð hafi verið grein fyrir í kæru séu rangar. Slíkt sé ekki stutt neinum gögnum og engar þær aðstæður hafi verið til staðar að þeir hafi mátt vita af byggingarleyfinu fyrr.

 Viðbótarathugasemdir Hvalfjarðarsveitar: Á þeim tíma sem lóðin Móhóll 7 hafi verið stofnuð hafi 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 ekki gert kröfu um að í stofnskjali væri kveðið sérstaklega á um stærð lóðar, heldur aðeins að hún væri afmörkuð á uppdrætti sem hafi verið staðfestur af skipulagsyfirvöldum. Draga megi það í efa að skilgreining stærða lóða við Móhól í fylgiskjali með stofnskjali lóðarinnar hafi nokkurt lögformlegt gildi eitt og sér eða geti með nokkrum hætti gengið framar þeim deiliskipulagsuppdrætti sem óumdeilanlegt sé að var til staðar þegar lóðin var stofnuð. Þannig hafi hlutverk lista sem hafi verið fylgiskjal stofnskjals vegna lóðanna Móhóls 4 og 7-15 einungis verið að tilgreina landnúmer þeirra lóða sem myndaðar voru við gerð skjalsins en hlutverk skipulagsuppdráttarins hafi verið að afmarka lóðirnar og þar með að ákveða stærðir þeirra. Uppdrátturinn hafi óumdeilanlega einnig verið fylgiskjal stofnskjalsins og hluti þess þegar það var afhent til þinglýsingar af landeigendum, sbr. dagbókarfærslu sýslumanns. Umræddur listi sem hafi ekki verið staðfestur af skipulagsyfirvöldum geti aldrei gengið framar þeim ákvörðunum sem komi fram um lóðarstærðir í hinu samþykkta deiliskipulagi sem telja verði hluta stofnskjals framangreindra lóða. Ákvæði 20. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 hafi kveðið á um sömu skilyrði fyrir þinglýsingu stofnskjals fasteignar og 14. gr. laga nr. 6/2001. Samkvæmt því hefði ekki átt að þinglýsa stofnskjalinu ef deiliskipulagsuppdrátturinn hefði ekki fylgt með því til þinglýsingarstjóra og hann metið stofnskjalið og fylgiskjöl þess fullnægjandi lögum samkvæmt.

Einkennilegt sé að halda því fram að enginn uppdráttur af lóðunum hafi verið staðfestur af sveitarfélaginu enda liggi fyrir í málinu deiliskipulagsuppdráttur, hnitsettur að hluta auk frekari málsetninga, sem staðfestur hafi verið af sveitarstjórn. Stærð lóðarinnar sé í samræmi við uppgefna stærð hennar í margumræddum deiliskipulagsuppdrætti og við útgáfu byggingarleyfisins hafi lóðin Móhóll 7 verið skráð 3.136 m2 að stærð, í samræmi við deiliskipulagsuppdrátt sem óumdeilanlega hafi verið hluti stofnskjals lóðarinnar frá stofnun hennar árið 2008. Verði því ekki séð að óvissa ríki um stærð og staðsetningu lóðarinnar. Tilvísun kæranda til afsals sem gert hafi verið um lóðina árið 2018 hafi ekkert gildi hvað þetta varði.

 —–

Aðilar hafa gert frekari grein fyrir atvikum málsins sem verður ekki rakið nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 28. september 2021 en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 30. maí 2022, eða rúmum átta mánuðum eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa lá fyrir. Kærendur byggja á því að þeim hafi ekki verið kunnugt um heimilaða byggingu frístundahúss á lóðinni Móhóll 7 fyrr en 3. maí 2022.

Samþykkt eða útgáfa byggingarleyfis sætir ekki opinberri birtingu og er að jafnaði aðeins tilkynnt umsækjanda leyfis. Leiðir af því að ekki er unnt að miða kærufrest þriðja aðila, sem kann að eiga hagsmuna að gæta, við dagsetningu ákvörðunar byggingarfulltrúa. Samkvæmt upplýsingum frá Hvalfjarðarsveit hófust framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi ekki fyrr en vorið 2022. Þá voru kærendur ekki upplýstir af sveitarfélaginu um hið umdeilda byggingarleyfi fyrr en í maí s.á. Verður upphaf kærufrests í máli þessu því miðað við þann tíma sem kærendur halda fram að þeim hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun enda liggja ekki vísbendingar fyrir um að þeim hafi mátt vera kunnugt um hana fyrr. Telst kæran því hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

 Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir frístundahúsi og frístandandi geymslu á lóðinni Móhól 7 í Hvalfjarðarsveit. Sú lóð er skráð í landeignaskrá með landeignanúmerið L216474 og í fasteignaskrá með fasteignarnúmerið F2334158. Lóðin er afmörkuð á gildandi deiliskipulagsuppdrætti frístundabyggðar í landi Hafnar, Ölvers og Móhóls, í samræmi við  breytingar á upphaflegu deiliskipulagi sem tóku gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. maí 2007.

Fyrir liggur að leyfishafi er eigandi lóðarinnar Móhóls 7 samkvæmt afsali, dags. 10 október 2019, sem þinglýst var 14. s.m. Þinglýsingum fylgir ákveðinn áreiðanleiki að lögum og verður að styðjast við þær við töku stjórnvaldsákvarðana hverju sinni á meðan þeim hefur ekki verið hnekkt. Þinglýsingastjórar hafa eftir atvikum heimildir til að endurskoða úrlausnir sínar í þinglýsingarmálum og heyrir ágreiningur um efni þinglýstra réttinda undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Var byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar því rétt að samþykkja umsókn þinglýsts eiganda fyrrgreindrar lóðar um byggingarleyfi enda voru byggingaráform í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Ágreiningur um eignarréttindi eða efni þinglýstra réttinda verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, þar á meðal ágreiningur sem kann að stafa af óvissu um afmörkun lóðar. Slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir dómstóla. Rétt þykir að taka hér fram að beinum eða óbeinum eignaréttindum verður ekki ráðstafað með deiliskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 28. september 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja frístundahús og frístandandi geymslu á lóðinni Móhól 7.