Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2022 Ásætuvarnir

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 29. september, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2022, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 um að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 1. maí 2022, kærir eigandi Efri-Tungu II og eigandi helmings hlutar í Efri-Tungu, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi Arctic Sea Farm ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að fyrirhuguð framkvæmd verði háð mati á umhverfisáhrifum. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 2. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir náttúruverndarfélagið Laxinn lifi sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar með kröfu um ógildingu hennar. Verður það mál, sem er nr. 42/2022, sameinað kærumáli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 31. maí 2022.

Málavextir: Á árinu 2016 sættu fyrirhugaðar framkvæmdir Arctic Sea Farm ehf. vegna sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði mati á umhverfisáhrifum, sbr. álit Skipulagsstofnunar þar um frá 23. september 2016. Í desember 2017 veittu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun framkvæmdaraðilanum starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir þeirri starfsemi, en með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumálum nr. 3/2018 og 4/2018, uppkveðnum 27. september 2018 og 4. október s.á., voru þau leyfi felld úr gildi, m.a. vegna skorts á umfjöllun um valkosti og samanburði á umhverfisáhrifum þeirra. Í kjölfar þess lagði framkvæmdaraðili til meðferðar hjá Skipulagsstofnun skýrslu um valkosti sem viðbót við matsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdanna og lá álit stofnunarinnar vegna valkostagreiningarinnar fyrir 16. maí 2019. Í ágúst sama ár gáfu Umhverfisstofnun og Matvælastofnun út að nýju starfsleyfi og rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis framkvæmdaraðila í Patreksfirði og Tálknafirði.

Skipulagsstofnun barst tilkynning 14. janúar 2022 frá framkvæmdaraðila um fyrirhugaða notkun ásætuvarna í fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að ásætur á nótum í kvíum skapi bæði aukið lífrænt álag og álag á búnað ásamt því að háþrýstiþvottur á nótum til að losa ásætur skapi streitu, skaða og jafnvel afföll á eldisfiskum. Til að lágmarka umhverfisáhrif og bæta dýravelferð sé því óskað eftir því að í starfsleyfi verði heimilað að nota umhverfisvænar ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Valin hafi verið sæfivaran Netwax E5 Greenline sem hafi markaðsleyfi frá Umhverfisstofnun. Vegna fyrirspurnarinnar leitaði Skipulagsstofnun umsagna Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Ákvörðun Skipulags­stofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 31. mars 2022. Var niðurstaða stofnun­arinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Um lögvarða hagsmuni kæranda í máli nr. 41/2022 vísar sá kærandi til þess að hann sé eini eigandi Efri Tungu II og eigandi helmings hlutar í jörðinni Efri Tungu, en síðarnefnda jörðin nái að sjó. Hin kærða ákvörðun lúti að því að heimila Arctic Sea Farm ehf. að nota eitraða koparoxíð ásætuvörn á fiskeldiskvíar sem framkvæmdaraðili hyggist staðsetja 400 m utan við netlög fasteignar kæranda án þess að þurfa að undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Jörðin Efri-Tunga njóti umfangsmikillar verndunar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Hafnarvaðallinn, Tungurif, leirurnar og skeljasandsfjörur séu viðkvæm svæði sem beri uppi fjölskrúðugt lífríki og þ.m.t. æðarvarp sem teljist til hlunninda jarðarinnar. Hagsmunir kæranda byggja á eignarrétti hans að jörðinni Efri Tungu og lúta í máli þessu einkum að því að jörðin verði ekki fyrir tjóni vegna umhverfisáhrifa. Nái fyrirhuguð framkvæmd framkvæmdaraðila fram að ganga, þ.e. að staðsetja sjókvíaeldi beint út af Örlygshöfn og mála kvíarnar með koparoxíð ásætuvörn, sé fyrirséð að kærandi þurfi algjörlega að hverfa frá áætlunum sínum um vistvæna ferðaþjónustu og vinnuaðstöðu á Gjögrum í Örlygshöfn. Kærandi hafi því beinna, sérstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn kröfu sinnar.

Allur sá úrgangur og uppsöfnuð efni frá eitraðri koparoxíð ásætuvörn berist því beint upp á land og inn í vistkerfi Örlygshafnar, en engar rannsóknir hafi verið gerðar í sambandi við þá mengun sem hér um ræði. Á öryggisblaði á vef Umhverfisstofnunar fyrir Netwax E5 Greenline sé með afgerandi hætti gert grein fyrir því hversu eitrað efnið sé mannfólki. Umsögn Hafrannsóknastofnunar, sem hafi hvað mesta sérfræðiþekkingu á þeim málaflokki sem snúi að umræddri efnanotkun, sé algjör áfellisdómur á ákvörðun Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun og tilteknir umsagnaraðilar hafi við málsmeðferðina brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem þeim hafi mátt vera ljóst að skoða þyrfti sérstaklega þau svæði sem þær eitranir sem um ræði gætu haft áhrif á og hvert úrgangur gætu mögulega borist. Bent sé að upphaflegar áætlanir eldisfyrirtækja á þessu svæði standist greinilega ekki og heldur ekki það mat á umhverfisáhrifum sem sé grundvöllur leyfisveitinga.

Af hálfu kæranda í máli nr. 42/2022 er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar reist á þeim sjónarmiðum sem rakin eru í umsögn Hafrannsóknastofnunar 24. febrúar 2022. Þar komi fram sérfræðilegt mat stofnunarinnar þess efnis að hin tilkynnta breyting skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Undir þetta mat sé tekið og því byggt að hin kærða ákvörðun sé röng að efni til og ekki reist á forsvaranlegu mati Skipulagsstofnunar á fyrirliggjandi gögnum málsins, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá sé jafnframt byggt á því að í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram komi í umsögninni, og hníga í andstæða átt við niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar, hafi ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að ákvörðuninni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og ekki færð fullnægjandi rök fyrir henni í samræmi við 22. gr. sömu laga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun telur að hafna eigi kröfu um ógildingu hinnar kærðu matsskylduákvörðunar. Í ljósi kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að framkvæmd framkvæmdaraðila verði háð mati á umhverfisáhrifum sé bent á að eins og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála séu úr garði gerð þá falli það ekki undir valdsvið hennar að taka nýja ákvörðun.

Í tilviki sjókvíaeldis eigi í matsskyldufyrirspurn að greina frá leirum og sjávarfitjum í nágrenni við eldissvæði, enda njóti vistkerfin verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki hafi verið greint frá nálægð vistkerfanna í greinargerð framkvæmdaraðila og hafi hún heldur ekki komið fram við meðferð Skipulagsstofnunar. Að því leyti hafi verið annmarki á málsmeðferðinni. Stofnunin telji þó að niðurstaða ákvörðunarinnar hefði verið sú sama hafi upplýsingar um verndarsvæðin legið fyrir. Fjallað hafi verið um nálægð eldissvæðis við Sandodda í Patreksfirði við leirur í áliti Skipulagsstofnunar um 14.500 tonna eldisaukningu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði hinn 16. maí 2019. Í álitinu hafi verið vísað til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem segi að íslenskar rannsóknir hafi bent til þess að fiskeldi innan fjarða hagi lítil áhrif á fjörulífríki þar sem lífræn mengun sé nánast eingöngu undir sjókvíum og í næsta nágrenni. Upplýsingar um leirur og sjávarfitjar hefðu ekki breytt niðurstöðu stofnunarinnar en hefðu þó leitt til þess að stofnunin hefði bent á að ástæða væri til að kveða sérstaklega á um vöktun á leirum og sjávarfitjum í starfsleyfi. Því sé unnt að bæta úr framangreindum annmarka á meðferð málsins þegar komi til leyfisveitinga.

Áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar kunni fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Styrkur kopars í seti í Patreksfirði og Tálknafirði hafi mælst á bilinu 26,9-45,4 mg/kg, sbr. vöktun á eldissvæðum Arctic Sea Farm ehf. við Hvannadal og Kvígindisdal árið 2019 sem og á eldissvæðum Arnarlax ehf. við Eyri árin 2018 og 2020 og Laugardal árið 2019. Styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lágur eða mjög lág gildi samkvæmt reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, en þar séu sett umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Þá sé bent á að í umsögn Náttúrufræðistofnunar komi fram að eftirlit með mögulegri uppsöfnun á kopar í botnseti sé hluti af almennum vöktunaráætlunum á botnseti sem Umhverfisstofnun samþykki og sé forsenda starfsleyfis. Slík vöktun sé hafin á öllum eldissvæðum og hafi einnig verið stunduð hjá öðrum rekstraraðilum sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Niðurstöður vöktunar hafi hingað til ekki bent til þess að óæskileg uppsöfnun kopars eigi sér stað. Rétt sé að geta þess að Skipulagsstofnun hafi verið með vöktunaráætlun framkvæmdaraðila frá febrúar 2019 fyrir tímabilið 2019–2025 og kynnt sér hana vel. Lögð sér áhersla á að umdeild framkvæmd feli ekki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldis, nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana skuli tilkynningarskyldar framkvæmdir, sem tilgreindar séu í flokki B í 1. viðauka við lögin, háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér „umtalsverð umhverfisáhrif“ vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Með tilliti til lýsingar á framkvæmdinni, sem fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila, efnis umsagnar Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, telji Skipulagsstofnunin að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Gögn málsins bendi ekki til kynna að koparoxíð hafi áhrif á lýðheilsu manna eða að uppsöfnun eiturefna í sjávargróðri sé mikill áhættuþáttur með tilliti til þeirrar framkvæmdar sem kæran lúti að.

Umsagnir umsagnaraðila séu ekki bindandi gagnvart Skipulagsstofnun en stofnunin hafi litið heildstætt á gögn málsins og lagt innbyrðis mat á þau. Hafrannsóknastofnun hafi fært fram rök fyrir því að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hafi svarað þeirri umsögn með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 9. mars 2022. Að virtu því svari og því sem fram komi í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar, auk umsagna annarra umsagnaraðila, telji Skipulagsstofnun að umsögn Hafrannsóknastofnunar gefi ekki tilefni til að ætla að framkvæmdin sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð áhrif. Ekki sé tekið undir með kæranda að Hafrannsóknastofnun sé sú stofnunin sem hafi mestu sérfræðiþekkingu með tilliti til efnanotkunar, en bent sé á að skv. 48. gr. efnalaga nr. 61/2013 annist Umhverfisstofnun eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerðar sem settar séu samkvæmt þeim lögum. Að lokum sé bent á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 16/2021, sem hafi varðar notkun eldisnóta með ásætuvörn í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði, hafi ekki verið gerð athugasemd við það að Skipulagsstofnun hafi ekki farið eftir umsögn Hafrannsóknastofnunar.

Þótt Skipulagsstofnun hafi ekki lagt umsögn Hafrannsóknastofnunar til grundvallar eða byggt á þeim sjónarmiðum sem þar hafi komið fram þá þýði það ekki sjálfkrafa að ófullnægjandi grundvöllur hafi verið lagður að hinni kærðu ákvörðun og því hafi verið farið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi sé bent á að í úrskurði úrskurðarnefndar í máli nr. 16/2021, þar sem um hafi verið að ræða sambærilega framkvæmd, hafi úrskurðarnefndin ekki gert athugasemd við að Skipulagsstofnun hafi ekki lagt umsögn Hafrannsóknastofnunar til grundvallar í megindráttum.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir hinni kærðu ákvörðun í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Þegar niðurstöðukafli ákvörðunarinnar sé virtur sé ljóst að rökstuðningur stofnunarinnar fullnægi þeim kröfum sem komi fram í 1. og 2. mgr. 22. gr. laganna. Auk þess sé bent á að í framangreindum úrskurði hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að stofnunin hefði rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti, en sem fyrr segi hafi verið um sambærilega framkvæmd að ræða og rökstuðningur að mestu leyti sambærilegur þeim rökstuðningi sem komi fram í hinni kærðu ákvörðun.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili telur að hafna eigi kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu matsskylduákvörðunar með vísan til jafnræðisreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila sé nákvæmlega eins að formi og efni til og matsskyldufyrirspurnin í máli nr. 16/2021 og þegar af þeirri ástæðu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun, enda fæli önnur niðurstaða í sér mismunun sem færi gegn jafnræði borgaranna.

Úrskurðarnefndinni séu settar verulega þröngar skorður við ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Sýna þurfi fram á að ógildingarreglur stjórnsýsluréttar eigi við um ákvörðunina, að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð eða efnislegri niðurstöðu sem og að ríkar ástæður séu fyrir ógildingu. Engin slík sjónarmið eigi við í þessu máli. Skipulagsstofnun hafi lagt mat á þá þætti sem máli hafi skipt um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni og við það tekið viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ásætuvarnir er innihaldi koparoxíð hafi verið notaðar um árabil þó öðru hafi verið haldið fram af kæranda og Hafrannsóknastofnun. Hin umrædda ásætuvörn sé umhverfisvæn vara sem hlotið hafi markaðsleyfi Umhverfisstofnunar og vottanir í yfir 90 löndum. Nær engin áhætta sé af notkun efnisins með réttum hætti og staðreyni allar mælingar það. Vaktanir bendi til þess að ásætuvörnin hafi engin óafturkræf áhrif á dýralíf, en hafi aftur á móti í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis þegar komi að dýraheilbrigði og velferð. Þá verði að sjálfsögðu brugðist við leiði vaktanir og mælingar í ljós uppsöfnun kopars í botnseti. Skipulagsstofnun hafi talið rétt að í starfsleyfi kæmu fram skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráð við Umhverfisstofnun skyldi vera háttað, sem og hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi svo heimilt væri að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Hafi því fullt tillit verið tekið til athugasemda og sjónarmið sem fram komi í umsögn Hafrannsóknastofnunar, en sjónarmið Skipulagsstofnunar séu bæði lögmæt og efnisleg rétt.

Samkvæmt mælingum á straumum liggi sterkur straumur á 30-50 m dýpi inn fjörðinn að sunnanverðu, þ.e. 90-135°, og út að norðanverðu. Það sé í samræmi við dýptarlínur á svæðinu en eðliseiginleikar efnis á hreyfingu séu að fylgja þeim fyrirstöðum sem þeir verði fyrir. Það séu því ekki beinir sjávarstraumar inn í Gjögrabót eða inn Hafnarvaðalinn þó svo að sjávarfalla gæti þar. Sterkir straumar og lega sjávarbotns sjái til þess að það sem falli frá leiti frekar niður í dýpið austan og norðan við kvíastæðin. Einnig séu kvíastæði í meira en 500 m fjarlægð frá stórstraumsfjöru við Örlygshöfn sem sé yfir mörkum þess fjarlægðar sem áhrifa eldis gæti á sjó eða botn. Þá megi telja ljóst að áhrif muni ekki gæta á dýralíf þar sem sýnt hafi verið fram á að kopar frá umræddum ásætuvörnum safnist ekki fyrir í holdi eða lifur eldisfiska sem lifi í mesta návígi við efnið.

Viðbótarathugasemdir kæranda í máli nr. 41/2022: Kærandi bendir á að Skipulagsstofnun hafi staðfest afgerandi annmarka í allri málsmeðferðinni þegar ekki á nokkurn hátt hafi verið litið til þess svæðis í Patreksfirði sem njóti hvað víðtækastar verndar. Telji stofnunin að annmarkinn skipti ekki neinu máli þar sem áður hafi verið skoðuð nálægð við leirur við Sandodda. Kærandi bendi á afgerandi munur sé á svæðunum með tilliti til verndunarákvæða og að svæðin séu ekki landfræðilega sambærileg á nokkurn hátt. Önnur matsskylduákvörðun sem varði Arnarlax ehf. hafi ekkert gildi í þessu máli þar sem þar hafi ekki verið sama nálægð við verndað svæði. Vegna þeirra ummæla framkvæmdaraðila að kopar frá ásætuvörnum safnist ekki fyrir í holdi eða lifur eldisfiska bendi kærandi á að eldislax hafi mjög stuttan líftíma, hrærist ekki í botnfalli eða gróðri og nærist ekki á þeim lífverum sem safni sérstaklega í sig koparoxíð.

Framkvæmdaraðili leggi til í máli sínu algjörlega samhengislaus straumakort og tilvísun í straumrás við Kvígindisdal sem sé staðsett 4 km innar í firðinum. Ekki sé sýnt eða vitnað í haföldukort umhverfismats sem sannarlega sýni á hvaða hátt vestan- og norðvestanáttir standi beint af væntanlegum kvíastæðum rakleitt inn í Örlygshöfn. Þar sem fyrirhuguð kvíastæði muni þvera aðrennslileið sjávar inn í Örlygshöfn þá segi það sig sjálft hvaða leið úrgangurinn muni berast undan öflugum sjávarföllum. Straumakerfi Patreksfjarðar sé vitanlega drifið af sjávarföllum þar sem hafstraumar renni ekki í gegnum fjörðinn.

Í stöðuskýrslu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar til Umhverfisstofnunar frá 2014 um gerðir árósa og strandlóna segi að víða skorti rannsóknir á vistkerfum árósa og strandlóna. Séu þau svæði því mjög viðkvæm fyrir allri mengun og illa leikin víða í Evrópu. Sú fullyrðing framkvæmdaraðila að nær engin áhætta sé af notkun umræddra ásætuvarna með réttum hætti og að hún hafi engin óafturkræf áhrif á dýralíf sé ekki rökstudd á nokkurn hátt. Hafrannsóknastofnun dragi þessar fullyrðingar réttilega í efa, en um sé að ræða stærstu rannsóknastofnun landsins á sviði hafs- og vatnarannsókna. Þá sé bent á að í skýrslu MATÍS um ásætuvarnir sem unnin hafi verið árið 2013 komi fram að notkun á koparoxíði á kvíapokum sæti mikilli gagnrýni og hafi víða verið bönnuð vegna neikvæða áhrifa á umhverfið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Kærandi í máli nr. 41/2022 er eigandi jarðarinnar Efri-Tungu II og helmings hlutar í jörðinni Efri-Tungu, en báðar jarðirnar eru í Örlygshöfn í Patreksfirði. Var hann talinn hafa lögvarða hagsmuni í kærumáli nr. 180/2021, en þar var kærð sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á eldissvæðum og hvíldartíma sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú framkvæmd sem um var að ræða í því máli fól m.a. í sér færslu á eldiskvíum sem staðsettar yrðu út af Örlygshöfn. Taldi úrskurðarnefndin að ekki væri hægt að útiloka að kærandi yrði fyrir áhrifum af sjókvíaeldinu umfram aðra vegna nándar landareigna hans við umrætt eldissvæði sem og með hliðsjón af hinum sérstöku landfræðilegu aðstæðum á svæðinu. Í þessu máli er ekki um slíka tilfærslu á eldissvæði að ræða heldur lýtur ákvörðunin að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð. Ekki verður talið að áhrif af þeirri notkun varði hagsmuni kæranda svo verulega að hann teljist eiga þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi honum kæruaðild. Verður kröfu umrædds kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um er að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi er náttúruverndarsamtök sem uppfyllir skilyrði kæruaðildar skv. lögum nr. 130/2011 og verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Í tilkynningu framkvæmdaraðila um fyrirhugaða framkvæmd skal leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Þá skal í tilkynningu, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 19. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati í samræmi við 20. gr. laganna. Þar er í 1. mgr. kveðið á um skyldu stofnunarinnar til að leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni. Þá segir í 2. mgr. lagagreinarinnar að sé niðurstaða stofnunarinnar sú að tilkynningarskyld framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati geti Skipulagsstofnun þá sett fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif. Þá verður að líta svo á að Skipulagsstofnun beri að rökstyðja niðurstöðu sína með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laganna, en vægi hvers þáttar er, eðli málsins samkvæmt, breytilegt eftir því hvaða framkvæmd um ræðir hverju sinni.

Í tilefni af tilkynningu framkvæmdaraðila um matsskyldu á fyrirhugaðri framkvæmd leitaði Skipulagsstofnun umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Tálknafjarðarhrepps, Umhverfisstofnunar og Vesturbyggðar. Í umsögn Fiskistofu er tekið fram að stofnunin hafi ekki yfir að ráða sérþekkingu á áhrifum mögulegra mengunarvalda, en bendir þó á að það kunni að vera breytilegt hver áhrifin verða m.t.t. staðsetningar og umfangs notkunar. Því sé tæplega hægt að vísa til fyrri afgreiðslu Skipulagsstofnunar vegna notkunar ásætuvarna. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða vísar til þess í sinni umsögn að litaðar nætur hafi lengi verið notaðar í fiskeldi og að fylgjast þurfi með uppsöfnun á kopar í botnseti. Ekki sé þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Í umsögn Matvælastofnunar er tekið fram að breytingin muni hafa í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis hvað varði dýraheilbrigði og -velferð. Stofnunin telji mikilvægt að sett verði skilyrði um viðmiðunarmörk fyrir kopar í starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er bent á að niðurstöður vöktunar hjá öðrum rekstraraðilum sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði hafi hingað til ekki bent til þess að óæskileg uppsöfnun kopars eigi sér stað. Ef fylgt sé réttum viðmiðum um mengunarhættu af völdum efnanna og tryggt sé að fullnægjandi vöktun sé til staðar þá muni mat á umhverfisáhrifum litlu bæta við. Jafnframt bendir stofnunin á að vegna umfangs sjókvíaeldis á þessum slóðum hjá fleiri en einum rekstraraðila séu uppsprettusvæði kopars frá ásætuvörnum allnokkur og mikilvægt að horfa á möguleg sammögnunaráhrif. Í umsögn Tálknafjarðarhrepps lýsti sveitarfélagið yfir áhyggjum af því að nota ætti mengandi efni eins og kopar í kvíum í Tálknafirði, taldi að vöktun þyrfti að vera fullnægjandi og erfitt væri að sjá að notkun koparlitaðra nóta hefði ekki umhverfisleg áhrif á lífríki fjarðarins. Vesturbyggð taldi í sinni umsögn að miðað við fyrirliggjandi gögn, mælingar og fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar í sambærilegu máli ætti framkvæmdin ekki að vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun greinir frá því í umsögn sinni að samkvæmt grunnsýnatöku framkvæmdaaðila við Hvannadal og Kvígindisdal árið 2019 hafi styrkur kopars reynst á bilinu 26,9–45,4 mg/kg þurrefnis sem sé innan umhverfismarka II, þ.e. lág gildi, skv. B-hluta í fylgiskjali reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Þá bendir stofnunin á að verði starfsleyfisskilyrðum breytt þannig að notkun ásætuvarna verði heimil verði einnig ákvæði um endurskoðun á heimildinni ef mælingar sýna fram á aukningu yfir viðmiðunarmörkum auk þess sem kveðið verður á um reglubundnar mælingar á styrk kopars í botnseti í vöktunaráætlun og þær mótvægisaðgerðir sem rekstraraðili skal grípa til ef styrkur kopars í botnseti mælist yfir viðmiðunarmörkum. Nótapokar verði þvegnir í þvottastöð á landi þar sem gera megi ráð fyrir því að mest af koparnum falli til og tekið sé á þar. Að gefnum forsendum, m.a. um að starfsemi muni uppfylla skilyrði í breyttu starfsleyfi, þá telji stofnunin að áhrif framkvæmdar á umhverfi liggi ljós fyrir og umhverfismat sé ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á áhrifin.

Þá skilaði Hafrannsóknastofnun umsögn um fyrirhugaða framkvæmd og taldi að hún skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Vísaði stofnunin til þess að í fyrirspurn framkvæmdaraðila væri ekki gerð nægjanleg grein fyrir framkvæmdinni, umhverfisáhrifum sem hún kynni að hafa í för með sér eða mótvægisaðgerðum. Gerð sé athugasemd við fullyrðingu um að ásætuvörnin sé umhverfisvæn vara, en samkvæmt þeim áhættuflokkum sem hún falli í sé efnið mjög eitrað í vatni/sjó með langvarandi áhrifum. Gera þurfi grein fyrir eiginleikum þess koparoxíðs sem eigi að nota, m.a. með tilliti til leysni þess, oxunarstigs og eituráhrifa fyrir lífríki, og bera saman við aðra valkosti. Fram þurfi að koma hversu mikill kopar losni út í umhverfið m.t.t. fjölda eldiskvía og annarra umhverfisþátta, en samkvæmt viðmiðum Evrópusambandsins losni 80% af þeim kopar sem notaður sé í ásætuvarnir út í umhverfið. Af tilkynningu framkvæmdaraðila megi ráða að þvottur neta fari fram í sjó og á landi, en það fari gegn skilyrðum Umhverfisstofnun í breyttu starfsleyfi framkvæmdaraðila um að koparhúðaðar nætur skyldu þvegnar einungis á landi en ekki sjó. Ekki sé í tilkynningunni fjallað um möguleg áhrif uppsöfnunar kopars undir og við eldiskvíar á botndýralíf eða annað líf í firðinum. Þótt kopar safnist ekki upp í lífkeðjum þá virki hann staðbundið sem eitur á t.d. þörunga og ýmsa hryggleysingja. Í Noregi séu uppi áhyggjur af þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem leiði af notkun kopars sem ásætuvarnar og séu nú taldar líkur á að sum eldissvæði í Noregi nái ekki fram umhverfismarkmiðum vegna langvarandi losunar kopars til umhverfisins frá eldissvæði. Sterk vísindaleg þekking liggi fyrir um afdrif og þráláta virkni kopars og annarra þungmálma nærri losunarstöðum og hefði verið ákjósanlegt að fjalla um þau áhrif í tilkynningunni.

Framkvæmdaraðili kom að frekari athugasemdum vegna umsagna Tálknafjarðarhrepps, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Í svari við umsögn Hafrannsókna­stofnunar er m.a. lýst fyrirkomulagi sem talið er af framkvæmdaaðila að verði ákveðið í starfsleyfi, þar sem tilgreind verði umhverfisviðmið og að vöktun fari fram með botnsýnatökum og efnagreiningu sem muni gera kleift að stöðva notkun ásætuvarna ef vart verður uppsöfnunar. Þá verði nætur þrifnar í landi og litaðar aftur fyrir næstu notkun. Þegar komi að þvotti í sjó þá verði þvegið með lágþrýstingi sem losi ekki koparinn eins og háþrýstiþvottur. Jafnframt er vísað til þess, sem segir í umsögn Matvælastofnunar, að framkvæmdin sé líkleg til að hafa í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis hvað varði dýraheilbrigði og -velferð.

Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar er vísað til þess að framkvæmdin sem um ræði feli ekki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldis, nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Að mati stofnunarinnar kunni áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Vísað er til þess að styrkur kopars í Patreksfirði og Tálknafirði á eldissvæðum Arctic Sea Farm við Hvannadal og Kvígindisdal árið 2019, sem og á eldissvæðum Arnarlax við Eyri árin 2018 og 2020 og Laugardal 2019, hafi mælst á bilinu 26,9-45,3 mg/kg, en styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lág eða mjög lág gildi samkvæmt reglugerð nr. 796/1999 um mengun vatns þar sem finna megi umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Telur stofnunin rétt að í starfsleyfi séu skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráði við Umhverfisstofnun skuli vera háttað sem og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo heimilt sé að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Með tilliti til umsagnar Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægis­aðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, telur Skipulagsstofnun að framkvæmdin sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Þeir þættir sem falli undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa kalli ekki á að framkvæmdin sæti mati á umhverfisáhrifum.

Svo sem henni var skylt að gera aflaði Skipulagsstofnun umsagna umsagnaraðila á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir þá lögbundna skyldu er stofnunin ekki bundin af þeim umsögnum sem henni berast heldur ber henni að taka sjálfstæða ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga. Getur stofnunin því komist að öndverðri niðurstöðu en þeirri sem umsagnaraðili eða -aðilar telja rétta, en við slíkar aðstæður verður þó að gera ríkari kröfur til rannsóknar málsins og rökstuðnings niðurstöðunnar. Að virtum gögnum málsins er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi lagt viðhlítandi og sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Var sú niðurstaða studd fullnægjandi rökum með hliðsjón af fyrirliggjandi reynslu og vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum leyfisveitenda.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 um að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

53/2022 Miðbær Stykkishólms

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólms frá 9. desember 2021 um að samþykkja deiliskipulag miðbæjar Stykkishólms – reitur austan Aðalgötu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. maí 2022, kærir eigandi, Víkurgötu 5, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólms frá 9. desember 2021 að samþykkja deiliskipulag miðbæjar Stykkishólms – reitur austan Aðalgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en ella að sá hluti deili­skipulagsins sem lúti að tilfærslu á mörkum lóðanna Víkurgötu 3 og 5 verði felldur úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 1. júlí 2022.

Málavextir: Að undangenginni málsmeðferð lýsingar á deiliskipulagi miðbæjar Stykkishólms vegna reits austan Aðalgötu samþykkti skipulags- og byggingarnefnd 3. maí 2021 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 12. s.m. Tillagan var auglýst 19. s.m. með athugasemdafresti til 30. júní s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Var málið tekið að nýju fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 19. júlí s.á. þar sem nefndin lagði til að bæjarstjórn myndi samþykkja deiliskipulagstillöguna með nánar tilgreindum breytingum og bókaði jafn­framt um svör við innsendum athugasemdum. Á fundi bæjarstjórnar 26. ágúst 2021 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á fundi sínum 8. nóvember s.á. frekari breytingar á tillögunni og á fundi bæjarstjórnar 9. desember s.á. var bókað um að tillagan væri óbreytt í grundvallaratriðum og þyrfti því ekki að auglýsa hana á nýjan leik skv. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Staðfesti bæjarstjórn jafnframt fyrirliggjandi svör við efni athugasemda og umsagna. Deiliskipulagstillagan var send Skipulagsstofnun til yfirferðar og með bréfi stofnunarinnar, dags. 10. mars 2022, gerði hún ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt skipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda, en benti á atriði sem þyrfti að lagfæra og skýra. Deiliskipulagið tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl 2022.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann og fyrri eigendur Víkurgötu 5 hafi nýtt aðkomu að húsinu sem standi á lóðinni um áratugaskeið, s.s. til að leggja bifreiðum sínum. Hindrun á þau afnot feli í sér skerðingu á eignarréttindum hans sem grundvallist á sjónarmiðum um hefð.

Eigandi Víkurgötu 3 hafi stækkað geymsluskúr sem standi á horni við innkeyrsluna að Víkur­götu 5, en eftir þá stækkun standi geymsluskúrinn í 50 cm fjarlægð frá lóðamörkum Víkurgötu 3. Þegar kærandi hafi mótmælt stækkun geymsluskúrsins hafi þáverandi skipulagsfulltrúi sagt í svari við athugasemdum að tekið yrði tillit til mótmælanna í komandi deiliskipulagsgerð. Þrátt fyrir það hafi í tillögu að hinu kærða deiliskipulagi verið gert ráð fyrir að lóð Víkurgötu 3 myndi stækka um 1,5 m út frá geymsluskúrnum. Kærandi hafi mótmælt því en tillagan hafi verið samþykkt óbreytt. Afleiðingarnar séu þær að áratugagömul aðkoma að húsinu á lóð Víkurgötu 5 sé farin og ásýnd hússins gjörbreytt. Gangi þetta gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig sé vísað til gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem kveðið sé á um þá skyldu að viðhafa samráð við eigendur aðliggjandi lóða þegar tillaga að deiliskipulagi eða deiliskipulagsbreytingu taki til svæðis sem liggi að lóðamörkum.

Stykkishólmsbær hafi ekki aflað sér nægjanlegra gagna varðandi aðkomu að Víkurgötu 5 áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt. Í húsakönnun fyrir deiliskipulagið sé í umfjöllun um Víkurgötu 5 að finna mynd frá árinu 1906 sem virðist sýna aðkomuna að húsinu. Sömuleiðis sé til fjöldi ljósmynda og myndband frá u.þ.b. árinu 1968 sem sýni mjög greinilega aðkomuna að húsinu eins og hún hafi verið. Á fundi þeim þar sem farið hafi verið yfir athugasemdir við deiliskipulagstillöguna hafi þáverandi skipulagsfulltrúi sagt að lóðarmörk Víkurgötu 5 væru óljós enda hafi lóðaleigusamningurinn ekki verið endurnýjaður frá árinu 1921. Fullt tilefni hafi verið til þess að skoða nánar notkun lóðarinnar eins og hún virðist hafa verið samfellt í 117 ár. Þessi yfirsjón sveitarfélagsins uppfylli ekki kröfur um rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslu­laga, með tilheyrandi tjóni fyrir kæranda.

Athygli veki að fyrirtækið sem hafi smíðað nýjan geymsluskúr á lóð Víkurgötu 3 sé í eigu formanns skipulags- og byggingarnefndar. Hann hafi vikið af fundi þegar ákvörðun hafi verið tekin um að grenndarkynna umsóknina, en hafi svo verið viðstaddur á þeim fundi þegar umsóknin hafi verið samþykkt. Viðveran stangist á við 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga en for­maðurinn sé vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins eða úrlausn þess skv. 5. mgr. 3. gr. sömu laga. Hann hafi einnig verið viðstaddur þegar umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á þaki og stækkun hússins að Víkurgötu 3 hafi verið samþykkt. Þá telji kærandi að viðvera bæjarstjóra, sem sé sonur húseiganda Víkurgötu 3, á þeim fundum þar sem byggingar­leyfisumsókn geymsluskúrsins hafi verið tekin fyrir stangist einnig á við 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslu­laga. Teljist hann því vanhæfur skv. 2. mgr. 3. gr. sömu laga. Líta verði til þessara sjónarmiða við heildarmat á lögmæti hins samþykkta deiliskipulags.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Sveitarfélagið telur að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ólögfestar reglur stjórnsýsluréttarins. Engar forsendur séu fyrir því að ógilda skipulagið, hvorki í heild né að hluta.

Mörk lóðar nr. 3 við Víkurgötu séu alveg skýr enda sé til nýlegur lóðarleigusamningur með hnitsettum mörkum. Í lóðarleigusamningi Víkurgötu 5 sé lóðinni lýst og mörk hennar liggi því líka fyrir. Nokkur óvissa sé um nákvæma staðsetningu lóðarmarkanna þar sem mörkin séu ekki hnitsett í samningum en fyrir liggi lengd, breidd og stærð og að lóðin sé ferhyrnd. Við gerð og afgreiðslu hins kærða deiliskipulags hafi því verið skýrt að aðkoma að lóð nr. 5 tilheyrði hvorki þeirri lóð né lóð nr. 3. Hafi því ekki verið þörf á að rannsaka það atriði betur. Þar að auki sé sveitarfélaginu heimilt við gerð deiliskipulags að breyta lóðamörkum standi til þess lögmæt og málefnaleg sjónarmið og skipulagslegar forsendur. Jafnvel þó svo lóð kæranda næði yfir umrædda aðkomu væri sveitarfélaginu engu að síður heimilt að breyta því með gerð skipulags, en réttarstöðunni yrði þó ekki breytt nema með samningum við kæranda eða með eignarnámi. Bent sé á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé ekki til þess bær að skera úr um eignaréttarlegan ágreining.

Landspilda á milli lóða Víkurgötu 3 og 5 sé í eigu sveitarfélagsins og tilheyri hvorugri lóðinni. Með hinu kærða skipulagi sé umræddu landi skipt á milli lóðanna með þeim hætti að meiri hluti þeirrar spildu verði eftirleiðis innan lóðar nr. 5. Geri deiliskipulagið því ráð fyrir að lóð kæranda stækki úr tæplega 390 m2 í 467 m2 eða rúmlega 77 m2, en auglýst tillaga hafi gert ráð fyrir aðeins minni stækkun. Lóð nr. 3 stækki líka eða úr 497 m2 í 514 m2 eða um 17 m2. Með deiliskipulaginu sé því verið að koma til móts við sjónarmið kæranda og hafi því meðalhófs­reglan ekki verið brotin.

Byggingarleyfi eiganda lóðar nr. 3 við Víkurgötu fyrir stækkun á geymsluskúr sé ekki til umfjöllunar í kærumáli þessu enda hafi leyfið ekki verið kært. Engin ástæða sé til að fjalla um málsmeðferð leyfisins eða meint vanhæfi einstakra nefndarmanna. Þó til sanns vegar megi færa að með byggingu skúrsins hafi verið þrengt að aðkomu að Víkurgötu 5, miðað við það sem áður hafi verið, sé jafnframt bent á að byggingin hafi verið alfarið reist innan lóðar nr. 3. Svæðið sem kærandi hafi haft til umráða hafi því hvorki verið skert með byggingunni né deiliskipu­laginu. Þá eigi kærandi enga kröfu að lögum að því svæði yrði haldið ónotuðu til að tryggja rýmri aðkomu að lóð hans.

 Athugasemdir eiganda Víkurgötu 3: Af hálfu eiganda lóðar nr. 3 við Víkurgötu er bent á að hin kærða ákvörðun hafi verið gerð að frumkvæði sveitarstjórnar og teljist vera stjórnvalds­fyrirmæli. Jafnframt hafi það ekki einkenni stjórnvaldsákvörðunar enda feli setning skipu­lagsins ekki í sér afgreiðslu á erindi einstaks eða einstakra lóðarhafa. Af þessari ástæðu eigi tilvísanir kæranda til rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslu­réttarins ekki við, heldur beri einungis að taka til skoðunar hvort fylgt hafi verið málsmeðferðarreglum skipulagslaga nr. 123/2010 við meðferð málsins. Hið kærða deili­skipulag geri ráð fyrir að lóð kæranda stækki um 20% miðað við þinglýstan lóðarleigusamning en með þeirri ráðstöfun verði tryggð við­unandi aðkoma að lóðinni. Skipulagsáætlun skeri ekki úr ágreiningi varðandi eignarrétt en með deiliskipulagi sé hægt að ákveða nýja lóðarskiptingu óháð eignarhaldi eða því hvort lóðarmörk séu óumdeild eða ekki, sbr. 5. tl. 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga um heimild sveitarstjórnar til að taka lóð eða lóðarhluta eignarnámi. Bent sé á að gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi ekki við í málinu þar sem lóð kæranda sé að öllu leyti innan skipulagssvæðisins. Þá eigi meint vanhæfi nefndarmanna vegna afgreiðslu á byggingarleyfisumsóknum ekkert skylt við hina kærðu ákvörðun. Þar að auki komi hæfisreglur stjórnsýslulaga ekki til álita í máli þessu þar sem kærð ákvörðun sé ekki stjórnvaldsákvörðun.

 Niðurstaða: Heimild til að skipuleggja landnotkun innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ber sveitarstjórn skv. 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð deiliskipulags. Við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðal­skipulags auk þess sem deiliskipulag skal rúmast innan heimilda þess, sbr. 2. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. nefndra laga. Við skipulagsgerð ber enn fremur að fylgja mark­miðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, málsmeðferðarreglum laganna og öðrum efnisreglum skipulagsréttar. Sveitarstjórn er einnig bundin af skráðum og óskráðum megin­reglum stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum mark­miðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga var tekin saman lýsing fyrir deiliskipulag miðbæjar Stykkishólms vegna svæðis austan Aðalgötu. Tillaga að hinu kærða deiliskipulagi var auglýst í samræmi 41. gr. laganna og að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til þeirra athugasemda sem bárust við tillöguna, þ. á m. athugasemda kæranda. Að lokinni samþykkt bæjarstjórnar og lögboðinni yfirferð Skipulags­stofnunar tók skipulagið gildi við birtingu í B-deild Stjórnar-tíðinda 27. apríl 2022. Var formleg málsmeðferð deiliskipulagsins því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Skipulagslög áskilja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. c- og d-lið 1. gr. laganna. Það samráð fer fyrst og fremst fram á grundvelli málsmeðferðarreglna sem mælt er fyrir um í skipulagslögum, en sem áður segir var þeim reglum fylgt við gerð deili­skipulagsins. Þá segir í 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að ef tillaga að deili­skipulagi tekur til svæðis sem liggur að lóðamörkum, landamörkum eða sveitarfélagamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands, lóðarhafa eða viðkomandi sveitarfélag áður en tillaga er samþykkt til auglýsingar. Greint reglugerðarákvæði á ekki við í máli þessu þar sem lóð kæranda er innan skipulagssvæðisins. Þá liggur fyrir að kærandi kom athugasemdum sínum að á auglýsingartíma og lágu því sjónarmið hans fyrir þegar hið kærða deiliskipulag var samþykkt. Var og komið til móts við athugasemdir kæranda að nokkru en á það skal bent að í því samráði sem skipulagslög áskilja felst ekki að fallist sé alfarið á framkomnar athugasemdir.

Ágreiningur þessa máls lýtur aðallega að afmörkun lóða Víkurgötu 3 og 5 í hinu kærða deili­skipulagi, en kærandi telur að með því sé brotið á rétti sem hann hafi öðlast fyrir hefð til aðkomu að Víkurgötu 5. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um afmörkun lóða, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en skipulagsáætlun ein og sér getur hvorki ráðstafað né hróflað við eignarréttindum nema að undangengnum samningi eða eignarnámi, séu talin skilyrði til þess, sbr. 50. gr. skipulagslaga. Þá þykir rétt að benda á að ágreiningur um bein eða óbein eigna­réttindi verður ekki leiddur til lykta fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum fyrir dómstólum.

Að lokum verður ekki talið að mögulegt vanhæfi formanns skipulags- og byggingarnefndar eða bæjarstjóra sveitarfélagsins vegna afgreiðslu á byggingarleyfisumsóknum eiganda Víkur­götu 3 hafa þýðingu við úrlausn kærumáls þessa enda um aðrar og óskyldar ákvarðanir að ræða.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfum kæranda þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Stykkishólms frá 9. desember 2021 um að samþykkja deiliskipulag miðbæjar Stykkishólms – reitur austan Aðalgötu.

45/2022 Furugerði

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21 í Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Reykjavíkur­borgar á erindi vegna fjölgunar bílastæða við Furugerði 2 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er móttekið var 10. maí 2022, kærir eigandi, Hlyngerði 1, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Reykjavíkurborgar á erindi kæranda frá 6. september 2020. Er þess farið á leit að lagt verði fyrir borgina að taka umrætt erindi þegar í stað til meðferðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. júní 2022.

Málavextir: Hinn 6. september 2020 sendi kærandi erindi til Reykjavíkurborgar og benti m.a. á að íbúar neðri hæðar hússins að Furugerði 2 hefðu stækkað bílastæði við vestanvert húsið. Rúmaði það nú tvo til þrjá bíla í stað eins áður. Lægi bílastæðið alveg upp að lóðarmörkum Hlyngerðis 1 og hlytist af þessu ónæði. Ekki virtist hafa verið aflað leyfis fyrir framkvæmdinni og væri þess krafist að Reykjavíkurborg nýtti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæðið yrði fært í fyrra horf. Með svarpósti 7. s.m. var kæranda tilkynnt að erindið hefði verið framsent til skilmálaeftirlits byggingarfulltrúa til frekari skoðunar og svara og með tölvupósti 22. septem­ber s.á. var kærandi upplýstur um að eigendum hefði verið sent bréf vegna málsins.

Í framhaldinu átti kærandi í töluverðum tölvupóstsamskiptum við borgina vegna málsins og fór m.a. fram á það við embætti byggingarfulltrúa að það beitti þeim úrræðum sem það hefði, þ.m.t. dagsektum, til að knýja á um að lóðin yrði færð í fyrra horf. Hinn 5. maí 2021 barst kæranda svohljóðandi tölvupóstur: „Embætti byggingarfulltrúa barst ábending, dags. 6. september 2020, vegna áður gerðs bílastæðis við Furugerði 2. Kvartandi fer fram á að embætti byggingarfulltrúa beiti dagsektum þar til lóðin verður færð í fyrra horf. Lóðarhafar höfðu þá um sumarið fjarlægt gróður og hellulagt í norðvesturhorni á lóð sinni. Í kjölfarið var lóðarhöfum sent bréf og óskað skýringa. Í skýringum kom fram að lóðarhafar hefðu einungis verið að laga lóðina hjá sér þ.m.t. helluleggja, smíða palla og fjarlægja gróður. Embætti byggingarfulltrúa tilkynnti lóðarhöfum í framhaldinu að óheimilt væri [að] nýta svæðið sem bílastæði á lóð án þess að sækja um það til skipulagsfulltrúa. Embætti byggingarfulltrúa telur umrædda framkvæmd lóðarhafa, þ.e. að fjar­lægja gróður og helluleggja innan lóðar, ekki byggingarleyfisskylda. Í ljósi þess og með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins mun embætti byggingarfulltrúa ekki beita svo íþyngjandi úrræðum sem farið er fram á, en bendir á að hægt er að hafa samband við Bílastæða­sjóð varðandi meint stöðubrot bifreiðar. Telst málinu lokið af hálfu byggingarfulltrúa.“

Kærandi hafði í kjölfar þessa samband við Bílastæðasjóð og með tölvupósti 8. júlí 2021 var honum greint frá því að farið yrði í eftirlit á svæðið á næstu dögum. Óskaði kærandi nánari upplýsinga um framvindu málsins með tölvupóstum 28. s.m., 6. og 28. september og 15. október s.á. og í svarpósti 20. október 2021 kom m.a. fram að eftirlit hefði farið fram. Jafnframt var bent á að mál af þessum toga og úrræði við þeim væru í heildstæðri skoðun á sviðinu, t.d. varðandi aðkomu skilmálaeftirlits/ byggingarfulltrúa þar sem valdsvið Bílastæðasjóðs væri afar takmarkað hvað þetta varðaði. Væri þess óskað yrði kærandi upplýstur um málið þegar frekari fregnir bærust. Með tölvupósti kæranda til Bílastæðasjóðs 18. nóvember 2021 var frekari upplýsinga óskað og erindið síðan ítrekað 31. mars 2022. Með svarpósti 4. apríl s.á. var kæranda tilkynnt að erindið hefði verið framsent til eftirlitsdeildar skilmálaeftirlitsins. Ítrekaði kærandi erindi sitt með tölvupóstum í apríl og maí 2022 og með tölvupósti 10. maí s.á. var kærandi upplýstur um að málið væri í skoðun í samvinnu við Bílastæðasjóð og vonast væri til að afstaða lægi fyrir innan fárra daga. Sama dag barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu og 17. júní s.á. óskaði kærandi enn upplýsinga frá borginni hvenær vænta mætti þess að málinu yrði lokið. Hinn 27. s.m. barst kæranda eftirfarandi svar: „Eftirlitsdeild USK hefur tekið málefni Furugerðis 2 til skoðunar að því er varðar bílastæði á baklóð. Niðurstaða Eftirlits­deildarinnar er að umrætt bílastæði á baklóð er ekki í samræmi við samþykktar heimildir, en lóðar­blað hefur ekki verið uppfært til samræmis við samþykkt byggingarfulltrúa frá 22. nóvember 1984. Þar af leiðir eru einu stæðin sem samþykkt eru fyrir framan húsið. Eftirlitsdeild USK mun í framhaldinu upplýsa eiganda Furugerðis 2 um afstöðu eftirlitsins. Eigandi getur ákveðið að uppfæra lóðarblað og fá þannig bílastæði á baklóð samþykkt, en þarf þá að fella brott bíla­stæði fyrir framan hús. Eftirlitsdeild USK þakkar ábendinguna og mun áfram vinna að úrlausn málsins.“

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi ákveðið að kæra ekki ákvörðun frá 5. maí 2021 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í ljósi þess að fram kæmi í henni að Bílastæðasjóður myndi taka á málinu. Tæplega tvo ár séu síðan erindið hafi fyrst verið sent til umhverfis- og skipulagssviðs. Frá því að kærandi hafi beint erindi sínu til Bílastæðasjóðs sé liðið meira en eitt ár. Enn bóli ekkert á svari og af fundargerðum byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa sé ekki að sjá að erindið hafi verið tekið til meðferðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Eftirlitsdeild byggingarfulltrúa hafi afgreitt kæruefnið og eigi kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök lóðarhafa Furugerðis 2: Af hálfu lóðarhafa er bent á að erindi kæranda eigi ekki undir verksvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé verið að kæra ákvörðun heldur óska eftir áliti nefndarinnar á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Slík mál heyri undir ráðu­neyti sveitarstjórnamála en ekki úrskurðarnefndina sem einungis sé falið það hlutverk að endurskoða úrskurði á sviði umhverfis- og skipulagsmála. Sé því mótmælt að nefndin taki afstöðu til málsins.

Lóðarhafar hafi ráðist í að laga lóðina framan við íbúð sína í fullu samráði við sameiganda hússins. Úr sér vaxinn gróður hafi verið fjarlægður og svæðið hellulagt. Í engu hafi verið átt við gangstétt né gangstéttarkant í eigu borgarinnar að öðru leyti en að lagfæra gangstéttina með fylliefnum vegna frostskemmda. Því sé mótmælt að lóðarhafar hafi þurft að óska eftir sérstöku samþykki kæranda fyrir endurbótunum. Samráð hafi hins vegar verið haft við kæranda þegar gróðurinn hafi verið fjarlægður og hellur lagðar. Í raun hafi kærandi óskað eftir því að úr sér vaxinn gróður á lóðarmörkum yrði fjarlægður. Liggi fyrir að lóðarhafar hafi á engan hátt gerst brotlegir og skýri það ef til vill að borgin hafi ekkert aðhafst í málinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að enn hafi ekki verið tekin ný ákvörðun í tilefni af erindi hans. Liggi heldur ekkert fyrir um hvenær það verði gert. Hvað sem því líði verði að líta svo á að í hinni breyttu afstöðu Reykjavíkurborgar felist afturköllun fyrri ákvörðunar. Sú ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda með tölvupósti starfsmanns eftirlits­deildar 5. maí 2021 þar sem kröfu um beitingu dagsekta hafi verið hafnað. Hafi borgin nú fallist á að þau rök sem færð hafi verið fram fyrir þeirri ákvörðun eigi ekki lengur við. Kærandi eigi því vissulega lögvarða hagsmuni af því að tekin sé ný afstaða til þeirrar kröfu og eigi með sama hætti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir úrskurðarnefndinni. Þá sé málavaxtalýsingu lóðarhafa Furugerðis 2 mótmælt sem rangri, þ.á m. þeirri staðhæfingu að samráð hafi verið haft við kæranda áður en ráðist hafi verið í stækkun bílastæðisins.

 Viðbótarathugasemdir Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að afstaða sveitarfélagsins sé enn sú sama.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla á erindi kæranda frá 6. september 2020 hafi dregist óhæfilega af hálfu Reykjavíkurborgar, þ.e. nánar tiltekið krafa hans um að borgin nýti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæði við Furugerði 2 verði fært í fyrra horf. Skilja verður erindið svo að í því felist m.a. beiðni um að borgin beiti þvingunar-úrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og á því úrlausn um fyrrnefnt álitaefni undir úrskurðar­nefndina, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ákvörðun um beitingu þvingunar­úrræða sætir eftir atvikum endurskoðun nefndarinnar.

Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða synjað 5. maí 2021 og ekki liggur fyrir að sú ákvörðun hafi verið afturkölluð. Jafnframt er þó ljóst að mál er varðar bílastæði við Furugerði 2 er enn í skoðun hjá Reykjavíkurborg, en fyrir liggur svar eftirlitsdeildar til kæranda frá 27. júní 2022 um að unnið verði áfram að úrlausn málsins. Hefur úrskurðarnefndin verið upplýst um það í tölvupósti 7. september sl. að eftirlitsdeildin hafi verið með mál kæranda í skoðun með Bílastæðasjóði, en ekki hafi náðst samstaða um að leggja á sektir yrði haldið áfram að leggja bifreiðum á um­­­ræddum hluta lóðarinnar. Stefnt væri að því að senda eiganda bréf í þessum mánuði þar sem gerð yrði krafa um að látið yrði af því að leggja á lóðinni.

Samkvæmt framangreindu verður að telja að Reykjavíkurborg hafi þegar afgreitt erindi kæranda frá 6. september 2020. Hvað sem öðru líður liggur fyrir að lagning bifreiða á umræddri lóð er enn í skoðun hjá eftirlitsdeild byggingarfulltrúa í kjölfar framsendingar erindisins frá Bílastæðasjóði. Í ljósi framvindu málsins þykir rétt að embætti byggingarfulltrúa, sem fyrrgreind eftirlitsdeild er hluti af, taki erindi kæranda vegna meintrar fjölgunar bílastæða á lóð Furugerðis 2 til endanlegrar úrlausnar.   

Úrskurðarorð:

 Embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík er rétt að taka erindi kæranda vegna ætlaðrar fjölgunar bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

25/2022 Illagil

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 16. febrúar 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 152,7 m2 sumarbústað og 30 m2 baðhús á sumarbústaðarlandinu Illagili 17, Grímsnes- og Grafningshreppi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Illagils 17, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 16. febrúar 2022 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir sumarbústað 152,7 m2 að flatarmáli og 30 m2 baðhús á sumarbústaðarlandinu Illagili 17, Grímsnes- og Grafnings­hreppi. Er þess krafist að byggingarleyfisumsóknin verði samþykkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. 8. apríl 2022.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. 16. febrúar 2022 var tekin fyrir umsókn um heimild til að byggja 153,7 m2 sumarbústað og 30 m2 baðhús á sumarbústaðalandinu Illagili 17 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í umsókninni kom fram að húsið yrði timburhús, útveggir yrðu óeinangraðir 202 mm þykkir bjálkar. Húsið yrði reist á steinsteyptum sökklum og steinsteyptri plötu ofan á 100 mm þykkri plasteinangrun. Þak yrði einangrað með 245 mm steinullareinangrun og húsið hitað með gólfhita og lagna­stokkum. Umsókninni var synjað þar sem útveggir hússins uppfylltu ekki ákvæði um leyfilegt hámark U-gildis, sbr. gr. 13.2.2. og 13.3.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að húsin Illagil 17 og 19 verði byggð úr 202 mm þykkum bjálkum, ofan á steypta sökkla og botnplötu. Þak sé hefðbundið einangrað þak­virki. Sökklar og botnplata séu einangruð á hefðbundinn hátt, þ.e. sökklar séu einangraðir með 75 mm þykkri EPS polystyrene og botnplata einangruð með 100 mm þykkri EPS polystyrene einangrun, hvoru tveggja með lambdagildi λ=0,035W/m2°C. Gólfhiti verði ísteyptur í botn­plötu. Veggir séu úr 202 mm þykkum samlímdum grenivið sem sé með eiginþyngd 403 kg/m3. Lambdagildi bjálkanna, samkvæmt upplýsingum frá Austral Plywoods sé λ=0,1154W/m2°C. Um léttan við sé að ræða, en því léttari sem viðurinn sé, því hærri sé einangrunargildið. Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda húsanna noti þeir lambdagildi λ=0,12W/m2°C almennt fyrir bjálkahús sem framleidd séu þar í landi óháð hráefni, sem séu aðallega fura og greni, þannig að upplýsingarnar frá Austral Plywoods séu mjög sannfærandi út frá þeim létta við sem notaður sé í mannvirkin. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun sé einangrunargildi timburs með rúmþyngd á bilinu 400 til 450 kg/m3 λ=0,13W/m2°C. Lóðréttar og láréttar kuldabrýr mannvirkisins séu reiknaðar í samræmi við töflu 3 í orku­ramma Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Gluggar og hurðir sem settar verði í byggingarnar séu hágæðavara frá Finnlandi og sé uppgefið lambdagildi þeirra λ=0,8W/m2°C. Þakvirki sé byggt upp úr sperrum klæddum timbri með hefðbundinni einangrun á milli sperra sem sé áætluð 230 mm.

Við útreikning einangrunargildis, sett upp í forrit Húsnæðis og mannvirkjastofnunar, fáist sú niðurstaða miðað við áður gefnar forsendur að kröfur um einangrunargildi umrædds húss sé 301 W/K. Rauntap í gegnum hjúp og botnplötu sé 226 W/K. Tap í gegnum kuldabrýr sé 44,5 W/K og sé heildarvarmatap því 226+44,5=270,5 W/K, sem sé minna en 301 W/K. Umrætt hús sé því með 89,9% af leyfilegu varmaflæði, þ.e. 11,3% betra en kröfur byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 kveði á um. Varmatap í gegnum útveggi, þ.e. veggi, glugga og hurðir sé skv. sömu reikningum 0,6 W/m2°C sem sé umtalsvert minna en leyfilegt hámark skv. töflu 13.01 í byggingarreglugerð, sem sé 0,85 W/m2°C. Ekki allir byggingarhlutir uppfylli kröfu byggingarreglugerðar um leyfilegt hámark U-gilda. Veggir séu með U-gildi reiknað annars vegar 0,50 W/m2°C, λ=0,1154 W/m2°C, eftir upplýsingum frá Austral Plywoods og hins vegar 0,54 W/m2°C, λ=0,12W/m2°C, eftir upplýsingum frá framleiðanda um almenna notkun þeirra óháð efnisgerð. Eftir sem áður sé vegið meðaltal orkutaps útveggja á bilinu frá 0,57 W/m2°C fyrir λ=0,1154 W/m2°C til 0,60 W/m2°C fyrir λ=0,12 W/m2°C. Bæði gildin séu vel fyrir neðan leyfilegt hámark fyrir vegið meðaltal útveggja sem sé 0,85 W/m2°C.

Niðurstaðan sé því sú að þrátt fyrir að byggingarhlutinn útveggir uppfylli ekki kröfur byggingar­reglugerðar um hámarks U-gildi þá vegi aðrir byggingarhlutir viðkomandi útveggja vel upp á móti því, þar sem meðaltals U-gildi útveggja sé umtalsvert lægra en leyfilegt hámark U-gildis. Húsin uppfylli því fyllilega kröfur byggingarreglugerðar fyrir ný mannvirki með hitastigi Ti≥18°C. Heildar leiðnitap bygginganna leyfi þar að auki að þær megi setja upp á svæðum þar sem orkukostnaður vegna húshitunar sé hár, sbr. gr. 13.3.2. byggingarreglugerðar.

Málsrök Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita: Af hálfu Umhverfis- og tæknisviðs Upp­sveita er bent á að við afgreiðslu umsóknar kærenda hafi verið vísað til gr. 13.2.2. og 13.3.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í töflu 13.01 í gr. 13.3.2. komi fram að leyfilegt hámark U-gildis útveggjar skuli ekki vera hærra en 0,40 W/m2°C. Einnig komi fram að á svæðum þar sem orkukostnaður vegna húshitunar sé hár á íslenskan mælikvarða sé mælt með að leiðnitap sé a.m.k. 10% lægra en fram komi í töflu 13.02.

Leyfilegt hámark U-gildis útveggjar með viðbótareinangrun annarra byggingarhluta geti skv. gr. 13.3.1. verið að hámarki 0,48 W/m2°C þegar búið sé að bæta 20% við U-gildið sem gefið sé í töflu 13.01. Samkvæmt útreikningi hönnuðar sé reiknað U-gildi fyrir útvegg á bilinu 0,50-0,54 W/m2°C ef notuð séu þau λ-gildi sem hönnuður gefi sér og sé það meira en hámarks U-gildið 0,48 W/m2°C. Þar sem útveggir uppfylli ekki lágmarkskröfur um einangrun einstakra byggingarhluta hafi umsókninni verið synjað.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur byggi á því að túlkun Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita brjóti gegn meðalhófs- og jafnræðisreglu. Í gr. 13.3.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 komi fram að U-gildi skuli almennt ekki vera hærra en fram komi í töflu 13.01. Í síðustu línu töflunnar sé fjallað um leyfilegt hámark U-gildis útveggja, þ.e. vegið meðaltal veggja, glugga og hurða, sem eðlilegt sé að skýra þannig að veggur sem sé undir tilgreindu meðaltali sé innan marka byggingarreglugerðar. Annar háttur við skýringu reglugerðarinnar þyrfti að byggja á skýrum túlkunarreglum og rökstuddur með málefnalegum hætti, enda sé sérstaklega vísað til þess sem almenns gildi. Orðalagið beri ekki með sér að reglan sé ófrávíkjanleg heldur sé um viðmiðunarákvæði að ræða.

Hugsunin á bak við viðkomandi kafla reglugerðar nr. 112/2012 sé að hámarks meðalgildi kólnunargildis útveggja sé jafnt og eða minna en 0,85 W/m2°C. Til að mynda mætti byggja hús þar sem allir útveggir séu einvörðungu úr gleri, svo fremi sem meðaltal einangrunargildis útveggja viðkomandi húss sé minna en eða jafnt og 0,85 W/m2°C og myndi þá erindið vera samþykkt.

Kærendum hafi verið synjað um byggingarleyfi fyrir hús með meðaltalseinangrunargildi útveggja á bilinu frá 0,57 til 0,60 W/m2°C en það sé á bilinu 67% til 70% af leyfilegu hámarki meðaltalsvarmatapi útveggja. Hús úr nákvæmlega sömu bjálkum frá sama framleiðanda hafi verið samþykkt og reist í Suðurnesjabæ árið 2017 skv. upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands og af kortavef bæjarins. Í því húsi sé einangrunargildi bjálkanna gefið upp sem 0,49 W/m2°C, sem sé ankannalegt þar sem um nákvæmlega sama efni sé að ræða.

Sé skilningur Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita réttur sé í raun alfarið að bannað að byggja óeinangruð bjálkahús úr þykkum bjálkum á Íslandi sem þó sé heimilt alls staðar í Evrópu og í Vesturheimi. Viðkomandi hús sé finnskt bjálkahús af mjög vandaðri gerð og sé framleitt af finnska framleiðandanum PLUSPUU. Framleiðandinn sé til húsa í Helsinki og sé meðlimur í Green building council of Finland. Viðkomandi hús séu viðurkennd í Finnlandi og í allri Skandinavíu sem heilsárshús og hafi verið samþykkt hérlendis á síðustu árum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds-ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda-mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðar-nefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur að jafnaði ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að umsókn hans um byggingarleyfi verði samþykkt heldur einvörðungu tekin afstaða til þess hvort fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Ágreiningur máls þessa snýst um hvort synjun byggingarfulltrúa á umsókn um byggingarleyfi fyrir finnsku bjálkahúsi hafi verið lögmæt. Í synjun byggingarfulltrúa var vísað til gr. 13.2.2. og 13.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í 2. mgr. gr. 13.2.2. í reglugerðinni kemur fram að fyrir íbúðarhúsnæði og annað fullhitað húsnæði þar sem fólk dvelst, þ.e. lofthiti ≥ 18°C, gildi kröfur í töflum 13.01 og 13.02. Í gr. 13.3.2. reglugerðarinnar er kveðið á um að í nýjum mannvirkjum og viðbyggingum skuli leyfilegt hámark U-gilda einstakra byggingarhluta vera skv. töflu 13.01. Tafla 13.02 fjallar um viðhald og/eða endurbyggingu byggingarhluta og á því ekki við í máli þessu. Í töflu 13.01 er fjallað um leyft hámark U-gildis og kemur þar fram að hámark útveggja fyrir hitastig ≥ 18°C skuli vera 0,40 W/m2K. Þá kemur fram að vegið meðaltal útveggja, þ.e. veggfletir, gluggar og hurðir, skuli vera að hámarki 0,85 W/m2K.

 Óumdeilt er að útveggir hins umdeilda bjálkahúss séu yfir leyfðu hámarki fyrir útveggi, sem er líkt og áður segir 0,40 W/m2 á hverja gráðu K (W/m2K). U-gildi útveggja hins umdeilda húss er á bilinu 0,50–0,54 W/m2K. Vegið meðaltal U-gildis útveggja hins umdeilda húss er á bilinu 0,57–0,60 W/m2K, en það er undir leyfilegu hámarki vegins meðaltals útveggja skv. töflu 13.01, sem er 0,85 W/m2K.

 Í gr. 13.3.1. í reglugerð nr. 112/2012 kemur fram að almennt gildi að við útreikning heildar­leiðnitaps nýbygginga skuli U-gildi byggingarhluta ekki vera hærra en fram komi í töflu 13.01. Heimilt sé þó að U-gildi einstakra byggingarhluta í nýbyggingum sé allt að 20% hærra en fram komi í töflu 13.01, en þá því aðeins að einangrunarþykktir annarra byggingarhluta séu auknar tilsvarandi þannig að heildarleiðnitap mannvirkis haldist óbreytt þrátt fyrir slíka skerðingu einangrunar einstakra byggingarhluta. Verður að túlka grein þessa svo að einstakir byggingar-hlutar geti ekki haft meira en 20% hærra leiðnitap en fram kemur í töflu 13.01. Leyfilegt hámark U-gildis útveggja verður þannig 0,48 W/m2K, að teknu tilliti til undantekningarreglu gr. 13.3.1. reglugerðar nr. 112/2012.

 Hið umdeilda bjálkahús er líkt og áður segir hefur U-gildi veggja á bilinu 0,50–0,54 W/m2K og er því yfir leyfilegu hámarki sem mælt er fyrir um í töflu 13.01. Verður því að líta svo á að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að synja kærendum um byggingarleyfi í máli þessu. Ef aðeins ætti að horfa til vegins meðaltals útveggja, þ.e. veggflatar, glugga og hurða, væri með öllu óþarft að telja sérstaklega upp leyfilegt hámark U-gildis einstakra byggingarhluta. Ber því að líta svo á að uppfylla þurfi bæði kröfur um hámarks U-gildi útveggja sem og hámarks U-gildi vegins meðaltals útveggja.

 Að öllu framangreindu virtu stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Umhverfis- og tækni­sviðs Uppsveita bs. frá 16. febrúar 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 152,7 m2 sumarbústað og 30 m2 baðhús á sumarbústaðarlandinu Illagili 17, Grímsnes- og Grafnings­hreppi.

61/2022 Suðurlandsvegur

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhanns­dóttir prófessor tók þátt í fundinum gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 10. maí 2022 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir tvöföldun Suðurlands­vegar milli Fossvalla og Lögbergsbrekku.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2022, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Waldorfskólinn í Lækjarbotnum ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs­bæjar frá 10. maí 2022 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir tvöföldun Suðurlands­vegar milli Fossvalla og Lögbergsbrekku. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 7. júlí 2022, var stöðvunarkröfunni hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 24. júní 2022.

Málavextir: Hin kærða framkvæmd felur í sér tvöföldun Suðurlandsvegar milli Fossvalla og Lögbergsbrekku og er hluti af þeirri heildarframkvæmd sem felst í breikkun Suðurlandsvegar frá Hólmsá ofan Reykjavíkur að Hveragerði. Sú framkvæmd fór í mat á umhverfisáhrifum og lá fyrir álit Skipulagsstofnunar þar um 9. júlí 2009. Framkvæmdin var áfangaskipt og hófust framkvæmdir við fyrsta áfanga árið 2010, en framkvæmd þess vegkafla sem mál þetta varðar, Fossvellir að Lögbergsbrekku, var boðin út í júní 2021.

Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 7. júní 2021 var umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmda­leyfi fyrir umræddri framkvæmd tekin fyrir og málinu frestað. Á fundi ráðsins 5. júlí s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir hagsmuna­aðilum og umsagnaraðilum að fengnu áliti Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Var hið kærða framkvæmdaleyfi grenndarkynnt 18. ágúst með athugasemdafresti til 17. september 2021. Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 20. september s.á. Athugasemdir bárust og var þeim vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Á fundi skipulagsráðs 4. október s.á. var umsókn Vegagerðarinnar samþykkt með vísan til umsagnar skipulags­deildar, dags. 1. s.m., með þeim takmörkunum að aðeins væri um að ræða lagningu vegarins og að hann yrði tekinn í notkun samhliða síðasta hluta áfangans. Á fundi bæjarstjórnar 12. október 2021 var afgreiðsla skipulagsráðs samþykkt.

Með úrskurði, kveðnum upp 7. apríl 2022 í máli nr. 172/2021, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. október 2021 um að samþykkja umsókn um framkvæmda­leyfi fyrir breikkun Suðurlandsvegar frá Fossvöllum að Lögbergsbrekku. Þar sem hvorki lá fyrir greinargerð bæjarstjórnar um afgreiðslu framkvæmdaleyfisins í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 né rökstudd afstaða hennar til álits Skipulagsstofnunar í samræmi við þágildandi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum var talið að málsmeðferð hins kærða framkvæmdaleyfis væri haldin slíkum ágöllum að ekki væri hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 2. maí 2022 ásamt greinargerð um framkvæmdaleyfi, dags. 29. apríl s.á., í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og minnisblaðs skipulagsdeildar, dags. 28. s.m., um feril málsins. Var umsóknin samþykkt með tilvísun í 13. og 14. gr. skipulagslaga með þeim takmörkunum að aðeins væri um að ræða lagningu vegarins og að hann yrði tekinn í notkun samhliða síðasta hluta áfangans. Var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest í bæjarráði 5. maí s.á. og á fundi bæjarstjórnar 10. s.m. Með vísan til samþykktar bæjarstjórnar gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfið 18. maí 2022.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann reki leik- og grunnskóla í Lækjarbotnum samkvæmt samningi við Kópavogsbæ, en skólinn sé í um 850 m fjarlægð frá Suðurlandsvegi. Ákaflega mikilvægt sé að samgöngur við skólann séu sem greiðastar. Miðað við kært framkvæmda­leyfi verði eingöngu leyfðar hægri beygjur við Suðurlandsveg, en þeir sem þurfi að fara frá skólanum og í átt að höfuðborgarsvæðinu verði að fara í gegnum vegamót við Bláfjalla­veg. Það hafi í för með sér verulega aukinn ferðatíma og kostnað.

Frá því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt fyrra framkvæmdaleyfi úr gildi hinn 7. apríl 2022, í kærumáli nr. 172/2021, hafi sveitarfélagið einungis að litlu leyti bætt úr ágöllum á málsmeðferð og gögnum málsins. Nýtt aðalskipulag hafi tekið gildi þar sem ekki sé lengur gerð krafa um að umrædd framkvæmd sæti deiliskipulagi auk þess sem í skipulags­áætluninni sé aukin áhersla á náttúruvernd, almenningssamgöngur og aðgengi almennings að útivistarsvæðum. Þá hafi verið útbúin greinargerð um hið kærða framkvæmdaleyfi, dags. 29. apríl 2022, sem sé sögð vera í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og nýtt minnisblað skipulagsdeildar, dags. 28. apríl 2022, um feril málsins. Þrátt fyrir framangreint séu enn nokkrir ágallar á málsmeðferðinni og þeim gögnum sem liggja til grundvallar framkvæmda­leyfinu auk þess sem nýir ágallar hafi komið í ljós.

Engin grenndarkynning hafi farið fram á framkvæmdaleyfinu þótt um sé að ræða framkvæmd sem ekki styðjist við deiliskipulag, en í slíkum tilfellum beri skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að grenndarkynna framkvæmd. Aðstæður hafi breyst frá fyrra framkvæmdaleyfi og því sé ekki hægt að vísa til grenndarkynningar sem fram hafi farið vegna eldra leyfis. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga sé það meginregla að gera skuli deiliskipulag á svæði þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar, en sveitarstjórn sé heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. sömu laga að ákveða að veitt verði leyfi án deiliskipulagsgerðar. Slík ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs liggi ekki fyrir. Þá hefur bæjarstjórn heldur ekki tekið ákvörðun um að heimilt sé að veita framkvæmdaleyfið án grenndarkynningar sem í vissum tilvikum væri heimilt að gera, sbr. niðurlag 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Í stað hins lögbundna ferlis hafi skipulagsráð sjálft metið og ákveðið að grenndarkynning væri óþörf. Kærandi hafi verið sviptur möguleikanum á að skoða þau gögn sem lögð séu til grundvallar hinni kærðu leyfisveitingu og koma á framfæri sjónarmiðum sínum.

Ekki liggi fyrir að umsókn Vegagerðarinnar hafi fylgt öll þau gögn sem gerð sé krafa um að fylgi umsókn um framkvæmdaleyfi skv. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Samkvæmt 3. tl. 7. gr. reglugerðarinnar skuli umsókn fylgja lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum. Til grundvallar afgreiðslu hins kærða framkvæmdaleyfis hafi verið umsókn leyfishafa, dags. 27. maí 2021, og betrumbætt umsókn, dags. 8. júlí s.á., en skipulagsráð hafi afgreitt málið 2. maí 2022. Í millitíðinni hafi tekið gildi Aðalskipulag Kópavogs 2019–2040 og því geti umsóknin ekki staðist kröfu fyrrgreinds reglugerðar­ákvæðis um lýsingu á því hvernig framkvæmdin falli að gildandi skipulags­áætlunum. Meðal atriða sem kærandi hafi leitast við að fá sveitarfélagið til að taka tillit til séu einmitt atriði sem aðalskipulagið kalli á, þ. á m. tenging Lækjarbotnasvæðis sunnan Suðurlands­vegar við svæðið norðan vegarins í námunda við fyrirhuguð undirgöng undir veginn fyrir umferð á hestum.

Þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi ekki legið fyrir starfsleyfi Vegagerðarinnar eða þess verktaka sem unnið hafi við framkvæmdina, heldur hafi einungis legið fyrir drög að slíkum starfsleyfum með ráðgerðum gildistíma til 30. júní 2022. Gögn málsins bendi til þess að bæði sveitarfélagið og Vegagerðin telji ekki þörf á starfsleyfi fyrir Vegagerðina eða verktakann vegna framkvæmda þeirra á fjarsvæði vatnsbóla skv. 47. gr., sbr. 45. gr., heilbrigðissamþykktar nr. 555/2015 um verndarsvæði vatnsbóla innan Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarness, Kópa­vogs, Garðarbæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar og/eða að áðurnefnd drög að starfsleyfi væru úrelt í ljósi nýs aðalskipulags. Eigi fyrra tilvikið við sé byggt á því að vöntun á viðkomandi starfsleyfum fari í bága við skilyrði 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja „samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem fram­kvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaaðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um.“ Eigi síðara tilvikið við sé ekki tekið mið af því að nýtt skipulag hafi tekið gildi frá því að sótt hafi verið um umrætt framkvæmda­leyfi. Gerð sé krafa um að sveitarfélagið geri grein fyrir stöðu framkvæmda­svæðisins m.t.t. vatnsverndar og þar með stöðu svæðisins gagnvart framangreindri samþykkt nr. 555/2015, enda sé greinargerð gildandi aðalskipulags og skipulagsuppdráttar þess óskýr varðandi þetta atriði.

Kærandi hafi á fyrri stigum málsins gert þá kröfu að skoðað yrði að færa tengingu ráðgerðrar heimreiðar af Suðurlandsvegi austar heldur en tillögur Vegagerðarinnar hefðu gert ráð fyrir, svo og að gert yrði ráð fyrir gangandi og hjólandi umferð og almenningssamgöngum undir Suðurlandsveg nærri núverandi afleggjara. Vegagerðin hafi hafnað því að aðrar leiðir en tenging vestan við náttúruvættið Tröllabörn standist kröfur um umferðaröryggi. Að mati kæranda hafi stofnunin ekki lagt fram viðhlítandi gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu auk þess sem hún hafi ekki kannað með viðhlítandi hætti aðra möguleika á vegtengingu eða möguleika á að koma til móts við hugmyndir kæranda um undirgöng. Bæði Vegagerðin og Kópavogsbær hafi ekki undirbúið ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfisins nægilega vel með hliðsjón af kröfum stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls, sbr. m.a. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi verið greindar þarfir kæranda og annarra varðandi vegtengingu Lækjarbotna­svæðisins en þegar þær þarfir hafi komið í ljós vegna athugasemda kæranda hafi viðbrögðin verið ófullnægjandi. Þá hafi rökstuðningur ekki staðist kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga. Slíkt hafi verið nauðsynlegt þar sem ákvörðunin hafi farið í bága við fyrri umsögn kæranda, sbr. til hliðsjónar ákvæði 5. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær vísar til þess að við endurtekna meðferð hins kærða framkvæmdaleyfis hafi ekki verið talin þörf á að grenndarkynna umsóknina að nýju. Hafi það mat verið byggt á þeim forsendum að um væri að ræða sömu umsókn og þar af leiðandi sömu gögn sem legið hefðu til grundvallar. Þá hefðu ekki verið liðnir 12 mánuðir frá þeirri grenndar­kynningu sem fram hefði farið vegna fyrra framkvæmdaleyfis auk þess sem búið hefði verið að svara innsendum athugasemdum og sjónarmiðum. Þá sé gerð grein fyrir framkvæmdinni í Aðalskipulagi Kópavogs 2019–2040 og því jafnframt til staðar heimild til að falla frá grenndar­kynningu, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þó svo að meginreglan sé sú að skipulagsyfirvöldum sé ætlað að gera deiliskipulag innan marka síns sveitarfélags sé ekki þar með sagt að þeim sé almennt óheimilt að heimila framkvæmdir á svæðum þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir. Þá sé bent á að fyrirhugað sé að deiliskipuleggja svæðið. Sé vinna nú þegar hafin og muni liggja fyrir áður en síðari áfangi framkvæmdarinnar verði samþykktur.

Framkvæmdin sé í fullu samræmi við matsskýrslu framkvæmdarinnar frá árinu 2009. Samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sé gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli sé lokið við gildistöku laganna eigi eldri ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda við þegar komi að leyfisveitingum. Hafi leyfishafa því ekki verið skylt að óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort tilefni væri til endurskoðunar á greindri matsskýrslu áður en framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000, enda framkvæmdir hafnar samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 772/2021 um framkvæmdaleyfi.

Öll gögn sem lög og reglur kveði á um hafi legið fyrir við meðferð og ákvarðanatöku framkvæmda­leyfisins, þ. á m. áhættumat vegna vatnsverndar, gildandi starfsleyfi, umsagnir lögbundinna umsagnaraðila, athugasemdir hagsmunaaðila o.fl. Þá hafi jafnframt verið bætt úr þeim ágöllum sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi talið vera á fyrri máls­meðferð. Þeirri staðhæfingu kæranda að samráð hafi verið ófullnægjandi sé hafnað. Ítarlegt samráð hafi átt sér stað og þá sérstaklega við kæranda. Tillögum, kröfum og athugasemdum hans hafi verið svarað með málefnalegum rökum. Bent sé á að skipulagsvald, afgreiðsla leyfis­umsókna og eftirlit með framkvæmd skipulagsáætlana og leyfisskyldum framkvæmdum sé í höndum sveitarstjórnar innan marka sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Skylda til samráðs feli ekki í sér að skylt sé að fallast á allar kröfur hagsmunaaðila, en allar athugasemdir séu teknar til skoðunar og þeim svarað. Umrædd framkvæmd komi ekki í veg fyrir mögulega framtíðaruppbyggingu á landi bæjarins í grennd við framkvæmdina sem sé í fullu samræmi við aðalskipulag. Þá sé bent á að gefið hafi verið út framkvæmdarleyfi fyrir gerð hliðarvegar sem ætlað sé að þjóna tengingu við veginn sem liggi að Waldorfskóla. Hafi því verið komið til móts við athugasemdir kæranda að hluta til.

 Athugasemdir Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar er bent á að umferð á leið frá Waldorfskóla að höfuðborgarsvæðinu fari í gegnum vegamót við Bláfjallaveg, en aksturstími frá skólanum að vegamótunum sé 2-3 mínútur. Ekki sé unnt að þvera 2+2 veg án þess að þrengja hann niður í eina akrein í hvora átt en með tilliti til umferðaröryggis og greiðra sam­gangna sé það ekki ákjósanlegt. Framkvæmdir Vegagerðarinnar á grundvelli mats á umhverfis­áhrifum frá árinu 2009 hafi miðast við þann framkvæmdakost sem einna minnst áhrif hafi á umhverfið og því mislæg vegamót ekki byggð, a.m.k. ekki að svo stöddu, enda ekki þörf fyrir þau miðað við umferðarmagn, aðliggjandi skipulag byggðar og að teknu tilliti til kostnaðar. Við breikkun og endurbyggingu Suðurlandsvegar sé umferðaröryggi í hávegum haft við alla hönnun og útfærslu mannvirkis. Liður í því sé að loka fyrir þveranir sem til staðar séu í dag og leita annarra lausna við tengingar. Þá sé bent á að gangnalausnir séu mikilli óvissu háðar og dýrar í framkvæmd.

Vegagerðin hafi lagt til lausn á vegtengingu að Waldorfskóla sem sé tenging um vegamót við Geirland með nýjum hliðarvegi um Lækjarbotnaland. Fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að sú framkvæmd sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en í þeirri ákvörðun sé ítarlega fjallað um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að leggja hliðarveginn. Hafi nú verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir þeim vegi. Röksemdir kæranda með vísan til laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og friðlýsingar náttúruvættisins Tröllabarna falli því um sjálft sig ef tekið sé mið af ákvörðun Skipulagsstofnunar, en haft hafi verið samráð við Skipulagsstofnun, Skógræktar­félag Kópavogs, Minjastofnun Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Enginn umsagnaraðila hafi andmælt þeirri framkvæmd.

Fyrri umsókn um framkvæmdaleyfi hafi verið grenndarkynnt fyrir kæranda í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi hann komið að athugasemdum sínum. Hafi kærandi því fengið tækifæri til að tjá sig um hina fyrirhuguðu framkvæmd. Sveitarfélaginu hafi verið heimilt að falla frá grenndarkynningu umsóknar Vegagerðarinnar um hið kærða framkvæmda­leyfi þar sem engin efnisleg breyting hafi verið frá fyrri umsókn. Skipulagslög kveði einungis á um skyldu til að endurtaka grenndarkynningu ef byggingar- eða framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út innan árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar, sbr. 4. mgr. 44. gr. laganna, en að öðru leyti mæli lögin ekki fyrir um að endurtaka þurfi grenndarkynningu. Því sé mótmælt að aðstæður hafi breyst vegna gildistöku Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040, en eldri umsókn hafi tekið mið af þeirri skipulagsáætlun sem og eldra aðalskipulagi. Fyrirkomulag vegamóta á uppdrætti sýni mislæg vegamót við Lækjarbotna og Bláfjallaveg, en ekki sé gert ráð fyrir slíkum vegamótum við Waldorfskóla heldur sé gert ráð fyrir annars konar lausnum.

Með hliðsjón af ákvæðum skipulagslaga og vegalaga nr. 80/2007 og reglugerðum settum sam­kvæmt þeim lögum telji Vegagerðin að ekki hafi verið skylt að grenndarkynna umrædda fram­kvæmd. Í því sambandi sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 72/2011. Þar hafi nefndin talið að grenndarkynning framkvæmdaleyfis ætti einvörðungu við um framkvæmdir sem að öllu jöfnu væru háðar deiliskipulagi en ráðið yrði af 28. gr. vegalaga og gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sjá nú gr. 4.1.2. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013, sbr. gr. 5.3.2.5., að utan þéttbýlis réðist gerð þjóðvegar í aðalskipulagi að fengnum tillögum Vegagerðarinnar um legu þeirra. Þar sem gerð væri grein fyrir þjóðvegi 1 í viðkomandi aðalskipulagi væri ekki þörf á grenndarkynningu. Þar að auki eigi undanþágu­ákvæði 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, um heimild til að falla frá grenndarkynningu ef gerð sé grein fyrir framkvæmd og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi, við í málinu þar sem hvort tveggja sé gert í gildandi aðalskipulagi.

Því sé hafnað að leyfisumsókn hafi ekki fylgt tilskilin gögn en framkvæmdalýsing hafi verið lögð fram með fyrri umsókn um framkvæmdaleyfi. Kærandi rökstyðji ekki hvernig framkvæmda­lýsingin samrýmist ekki gildandi skipulagsáætlunum eða staðháttum. Þá sé því hafnað að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið undirbúin í samræmi við kröfur stjórnsýslu­réttarins. Framkvæmdaleyfið sé í samræmi við matsskýrslu frá árinu 2009, leyfið hafi verið grenndarkynnt árið 2021 og fundað hafi verið með forsvarsmönnum kæranda um fyrirhugaðar framkvæmdir. Í greinargerð bæjarstjórnar Kópavogs með hinu kærða framkvæmdaleyfi sé listað upp á hvaða gögnum útgáfu framkvæmdaleyfisins grundvallist.

Kærandi eigi ekki lögvarinn rétt á tiltekinni gerð vegtengingar eða vegamóta. Framkvæmdar­aðili og leyfisveitandi sem fari með skipulagsvaldið ákveði hvernig tengingu verði viðkomið með tilliti til vegtæknilegra sjónarmiða, umferðaröryggis og skipulagsáætlana. Ákvæði 5. mgr. 61. gr. laga um náttúruvernd sé sérákvæði þar sem um sé að ræða skyldu til sérstaks rök­stuðnings ef raska eigi jarðminjum gegn áliti lögbundinna umsagnaraðila, en slíkum aðstæðum sé ekki fyrir að fara í þessu máli. Þá sé bent á að starfsleyfi sé ekki gefið út fyrr en leyfi til framkvæmda liggi fyrir. Því sé ekki óeðlilegt að starfsleyfi hafi ekki verið gefið út þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin og því fari framkvæmdin ekki í bága við 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að ekki sé fjallað um umdeilda fram­kvæmd í Aðalskipulagi Kópavogs 2019–2040 með þeim hætti að ekki þurfa að grenndarkynna hana vegna undanþáguákvæðis 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þannig sé í skipu­laginu ekki fjallað um tengingu við Waldorfskóla líkt og nú sé ráðgert auk þess sem þær fram­kvæmdir sem mestu máli skipta í sambandi við þá tengingu séu ótímasettar og óvissar. Allt aðrar áherslur séu í nýju aðalskipulagi varðandi stígagerð, almenningssamgöngur og aðgengi að náttúru en í eldra skipulagi. Bent sé á að við meðferð málsins hafi engin ákvörðun verið tekin um að grenndarkynna ekki með vísan til 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, en samkvæmt orðalagi 1. mgr. 44. gr. verði að liggja fyrir ákvörðun sveitarstjórnar um að veita framkvæmda­leyfi án deiliskipulags. Því sé hafnað að samráð Vegagerðarinnar við kæranda hafi verið full­nægjandi

Niðurstaða: Fyrir liggur að svæðið sem hið kærða framkvæmdaleyfi tekur til hefur ekki verið deiliskipulagt auk þess sem leyfið var ekki grenndarkynnt fyrir kæranda. Að skipulagsrétti gildir sú meginregla að gera skal deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en víkja má frá þeirri skyldu með grenndarkynningu að uppfylltum frekari skilyrðum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 44. gr. laganna. Í 5. mgr. 13. gr. sömu laga er að finna sambærilega reglu um grenndarkynningu framkvæmda­leyfis, en þar er jafnframt kveðið á um heimild til að falla frá grenndarkynningu ef gerð sé grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Í samræmi við 28. gr. vegalaga nr. 80/2007 er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir legu þjóðvega í aðalskipulags­áætlunum sveitarfélaga og hefur því ekki tíðkast hér á landi að gera deiliskipulag vegna lagningar og endurbóta á þjóðvegum í dreifbýli. Í Aðalskipulagi Kópavogs 2019–2040 er gert ráð fyrir vegaframkvæmdinni á sveitarfélagsuppdrætti og í greinargerð skipulagsins er að finna umfjöllun um framkvæmdina, þ. á m. um hvar og hvers konar gatnamót verði á umræddum vegkafla. Að því virtu verður að telja að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að falla frá grenndarkynningu framkvæmdaleyfisins, en fyrra framkvæmdaleyfi sem var grenndarkynnt var sama efnis og umdeilt framkvæmdaleyfi. Þótt betur hefði farið á að bókað hefði verið um á hvaða grundvelli fallið væri frá grenndarkynningu varðar það ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þar að auki kom kærandi að athugasemdum vegna grenndarkynningar sömu framkvæmdar á árinu 2021 og lágu því sjónarmið hans fyrir áður en hið kærða leyfi var afgreitt, auk þess sem gögn málsins bera með sér að frekara samráð við kæranda hafi einnig farið fram.

Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum og lá álit Skipulagsstofnunar þar um fyrir hinn 9. júlí 2009. Svo sem rakið var í málavöxtum felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. október 2021 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir breikkun Suðurlandsvegar frá Fossvöllum að Lögbergsbrekku, en sú niðurstaða byggðist á því að málsmeðferðin vék frá ákvæðum skipulagslaga og laga nr. 106/2000 varðandi afgreiðslu á og umfjöllun um leyfisumsókn vegna framkvæmdar sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum. Í kjölfar úrskurðarins tók bæjarstjórn Kópavogs saman greinargerð um framkvæmdaleyfið þar sem finna má ítarlega afstöðu hennar til mats á umhverfisáhrifum og álits Skipulagsstofnunar. Hefur því verið bætt úr þeim ágalla sem úrskurðarnefndin taldi vera á afgreiðslu fyrra framkvæmdaleyfis og kemur því ekki til álita að ógilda hina kærðu ákvörðun á þeim grundvelli.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi er fjallað um hvaða gögn skuli fylgja framkvæmdaleyfisumsókn. Þar á meðal er kveðið á um að umsókn skuli fylgja lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Þrátt fyrir að lýsing framkvæmdarinnar hafi verið gerð í júní 2021, áður en nýtt aðalskipulag tók gildi í desember s.á., getur það ekki varðað ógildingu ákvörðunarinnar þegar litið er til þess að framkvæmdin er í samræmi við gildandi aðalskipulag. Þá skal skv. 5. tl. áðurnefnds reglugerðarákvæðis einnig fylgja með leyfisumsókn fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaaðili er með í umsóknarferli eða hyggist sækja um. Kærandi hefur gert athugasemd við að ekki hafi legið fyrir starfsleyfi Vegagerðarinnar eða þess verktaka sem muni sjá um framkvæmdina sam­kvæmt heilbrigðis-samþykkt nr. 555/2015 um verndarsvæði vatnsbóla innan Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðarbæjar og Hafnarfjarðar­kaupstaðar, heldur hafi einungis legið fyrir drög að slíku starfsleyfi. Af orðalagi fyrrgreinds 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglu­gerðar nr. 772/2012 er ljóst að ekki þurfa öll tilskilin leyfi að liggja fyrir áður en framkvæmda­leyfi er gefið út heldur getur eftir atvikum verði nægilegt að fyrir liggi umsóknarferli eða upp­lýsingar um áform um leyfisumsókn. Verður það því ekki talinn annmarki á málsmeðferð hins kærða framkvæmdaleyfis að ekki hafi legið fyrir útgefið starfsleyfi á grundvelli fyrr­greindrar heilbrigðissamþykktar.

Þá hefur kærandi gert athugasemd við undirbúning hins kærða framkvæmdaleyfis með hliðsjón af kröfum stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls og vísar í því sambandi til þess að ekki hafi aðrir möguleikar á vegtengingu verið kannaðir með viðhlítandi hætti að teknu tilliti til þarfa kæranda. Af því tilefni skal á það bent að lega og vegtengingar hins umdeilda vegarkafla ráðast ekki af hinu kærða framkvæmdaleyfi heldur af Aðalskipulagi Kópavogs 2019–2040 í samræmi við ákvæði vegalaga og skipulagslaga, en sú skipulagsáætlun getur ekki sætt endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. maí 2022 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar milli Fossvalla og Lögbergsbrekku.

30/2022 Álalind

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhanns­dóttir prófessor tók þátt í fundinum gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2022, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. og 26. maí 2021 um að gefa út lokaúttektarvottorð vegna hússins á lóð Ála­lindar 14 annars vegar og bílageymslu Álalindar 14-16 hins vegar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. apríl 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Álalindar 14 og lóðar- og bílageymslufélag Álalindar 14–16 þær ákvarðanir byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. og 26. maí 2021 að gefa út lokaúttektarvottorð vegna hússins á lóð Álalindar 14 annars vegar og bílageymslu Álalindar 14–16 hins vegar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. maí 2022.

Málavextir: Frá árinu 2019 hafa kærendur átt í töluverðum samskiptum við byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar vegna hússins á lóð Álalindar 14 og bílageymslu Álalindar 14–16 í tengslum við ófullnægjandi frágang og aðra ágalla sem þeir telja vera á mannvirkjunum. Hinn 6. maí 2021 gaf byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar út lokaúttektarvottorð vegna hússins að Álalind 14 og 26. s.m. gaf hann út lokaúttektarvottorð vegna bílageymslu Álalindar 14–16. Eru það hinar kærðu ákvarðanir í máli þessu.

Með bréfi, dags. 10. júní 2021, sendu kærendur bréf til byggingarfulltrúa og óskuðu eftir því að lokaúttektarvottorðin yrðu dregin til baka og var það erindi ítrekað 14. júlí s.á. Mun erindinu ekki hafa verið svarað af byggingarfulltrúa og af því tilefni óskuðu kærendur eftir því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun beitti sér fyrir því að byggingarfulltrúi svaraði erindi þeirra. Með tölvupósti starfsmanns stofnunarinnar 7. september s.á. kom fram að óskað hefði verið eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa vegna málsins. Einnig var bent á að skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar væru á grund­velli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og færi um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Með bréfi, dags. 29. s.m., taldi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að gögn málsins gæfu ekki tilefni til íhlutunar af hálfu stofnunarinnar á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki. Þá var kærendum bent á að hægt væri að óska eftir því að byggingarfulltrúi skoðaði málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. sömu laga og tæki byggingarfulltrúi ákvörðun á grundvelli þess lagaákvæðis gæti sú ákvörðun eftir atvikum verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með bréfi kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 14. október 2021, var óskað eftir að byggingar­fulltrúi skoðaði málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki. Var í bréfinu vísað til þess að samkvæmt umboðsmanni Alþingis væri útgáfa vottorðs um lokaúttekt stjórnvaldsákvörðun auk þess sem bent var á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í máli nr. 54/2019 fallist á kröfu húsfélags um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu lokaúttektarvottorðs.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þótt hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki beinst að þeim þá komi kærendur fram fyrir hönd eigenda vegna sameiginlegra mála. Lokaúttektarvottorðin varði verulega hagsmuni eigenda og eigi kærendur að því leytinu aðilar málsins. Þá sé bent á að byggingarfulltrúa hafi vanrækt að upplýsa kærendur um rétt til að óska eftir rökstuðningi hinna kærðu ákvarðana og um kæruheimild, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar sem hafi skert mögu­leika kærenda á að gæta hagsmuna félagsmeðlima sinna. Ákvarðanirnar hafi byggst á ófull­nægjandi og röngum upplýsingum frá byggingarstjóra og þess félags sem hafi byggt mann­virkið, en það félag beri ábyrgð sem eigandi fyrir lokaúttekt, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Við útgáfu vottorðanna hafi verið fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að draga í efa óhlutdrægni byggingarfulltrúa, sbr. 5. og 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Kópavogsbæ: Sveitarfélagið bendir á að í bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til kærenda, dags. 29. september 2021, hafi stofnunin talið að málið væri í réttum farvegi og því væri ekki tilefni til íhlutunar af hennar hálfu. Í sama bréfi hafi kærendum verið leiðbeint um kæruleiðir. Kæra í máli þessu hafi borist sjö mánuðum síðar og sé því of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa málinu frá. Verði ekki fallist á frávísun málsins sé bent á að það hafi verið mat byggingar­fulltrúa að mannvirkið uppfyllti ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglugerð nr. 112/2012 við lokaúttekt og að það samræmdist hönnunargögnum að undanskilinni einni athugasemd vegna bílageymslu. Ef íbúar hafi athugasemdir við ástand fast­eignarinnar eða frágang þá beri þeim að beina þeim að þáverandi eiganda og seljanda hússins og viðkomandi byggingarstjóra. Þá sé því hafnað að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur til að gefa út hið kærða lokaúttektarvottorð.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar í bréfi þess, dags. 29. september 2021, hafi lotið að kærurétti eftir að byggingarfulltrúi tæki ákvörðun á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki, en í bréfinu hafi ekki verið minnst á lokaúttektarvottorð. Byggingarfulltrúi hafi haft mörg tækifæri til að vekja athygli kærenda á rétti til að kæra útgáfu vottorðs um lokaúttekt en það hafi hann ekki gert. Þar með hafi hann brugðist leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslu­lögum nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Svo sem fram kemur í málavöxtum gaf byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar út vottorð um lokaúttekt 6. maí 2021 vegna hússins að Ála­lind 14, auk þess sem að hann gaf út vottorð um lokaúttekt 26. s.m. vegna bílageymslu Álalindar 14–16. Af gögnum málsins má ráða að kærendum var kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir ekki síðar en 14. maí s.á. annars vegar og 10. júní s.á. hins vegar. Verður að miða við að kærufrestir hafi byrjað að líða við þau tímamörk og voru kærufrestir því löngu liðnir þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 5. apríl 2022.

 Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl.1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Tiltekið er í athugasemdum við 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslu­lögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar málsins séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé um slíkt að ræða sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Á það við í máli þessu þar sem hagsmunir kærenda og byggingaraðila fara ekki saman. Þá er tekið fram í athugasemdum við 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kæru­frestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst.

Af fyrirliggjandi samskiptum milli kærenda og byggingarfulltrúa er ekki að sjá að kærendum hafi verið leiðbeint um rétt þeirra til að kæra ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest. Sinnti sveitarfélagið því ekki leiðbeiningarskyldu sinni í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 20. gr. sömu laga. Aftur á móti verður að líta til þess að í september 2021 upplýsti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kærendur í tvígang um kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var í fyrra skiptið upplýst um að stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki væru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar en í síðari skiptið að ákvörðun byggingarfulltrúa sem tekin væri á grundvelli 56. gr. sömu laga væri kæranleg til nefndarinnar. Þá sendu kærendur byggingar­fulltrúa bréf í október 2021 þar sem þeir bentu byggingarfulltrúa á að útgáfa vottorðs um loka­úttekt væri stjórnvaldsákvörðun og vísuðu til kærumáls hjá úrskurðarnefndinni þar sem slíkt vottorð hefði hlotið efnismeðferð nefndarinnar. Var þeim þá í lófa lagið að gera reka að því skjóta málinu til nefndarinnar og verður því ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki séð að veigamiklar ástæður séu fyrir því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

66/2022 Breikkun Reykjanesbrautar

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 20. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 66/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. mars 2022 um að samþykkja að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir tvö­földun Reykjanes­brautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála, dags. 30. Júní 2022, er barst nefnd­inni sama dag, kærir einn eigenda Óttarsstaða, Hafnar­firði, þá ákvörðun bæjar­stjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. mars 2022 að samþykkja að veitt verði fram­kvæmda­leyfi fyrir tvöföldun Reykja­nesbrautar frá Krýsu­víkurvegi að Hvassahrauni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að fram­kvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki til­efni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. júlí 2022.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum vegna breikkunar Reykja­nesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni í Hafnarfirði lá fyrir 21. desember 2021. Með umsókn til Hafnar­fjarðar­kaup­staðar hinn 18. febrúar 2022 sótti Vegagerðin um fram­kvæmda­­leyfi fyrir tvöföldun á um 5,6 km kafla Reykja­nesbrautar sem nær frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur ásamt tengdum framkvæmdum. Umsóknin var lögð fram og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. mars 2022. Skipulags­fulltrúa var falið að gefa út framkvæmda­leyfi og málinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn. Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 9. mars 2022 var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs sam­þykkt. Skipulags­fulltrúi gaf út leyfi vegna framkvæmd­anna 24. maí s.á. og var auglýsing þar um birt í Frétta­blaðinu og Lögbirtingablaðinu 1. júní 2022.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Í 52. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 14. septem­ber 2022 gerðist að bæjarstjórn Hafnar­fjarðar­kaupstaðar, samþykkti afgreiðslu skipu­­lags- og byggingarráðs frá 8. s.m. þar sem lögð var fram tillaga um að fella niður fram­kvæmda­­­leyfi Vega­gerðarinnar vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar sem samþykkt hafði verið á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. mars 2022, og staðfest í bæjarstjórn 9. s.m. Fram kemur að ástæða þessa hafi verið sú að greinargerð skv. 14. gr. skipulags­laga hefði ekki legið fyrir við afgreiðslu málsins.

Með þessu er ekki lengur í máli þessu til að dreifa gildri stjórn­valds­ákvörðun sveitarstjórnar sem skjóta má til úrskurðarnefndar­innar. Verður málinu því vísað frá nefndinni. Er um leið ekki tilefni til að reifa sjónarmið kæranda eða þeirra stjórnvalda sem að málinu koma.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

179/2021 Fjósatunga

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 179/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 23. september 2021 um að samþykkja deiliskipulag Fjósatungu-frístundabyggðar í Þingeyjarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur spildunnar Grjótárgerðis, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 23. september 2021 að samþykkja deiliskipulag Fjósatungu-frístundabyggðar í Þingeyjarsveit.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka málið fyrir að nýju. Þá er þess krafist að lagt verði fyrir sveitarstjórn og eftir atvikum landeiganda að minnka umfang byggingarmagns og að gera sérstaka grein fyrir því hvernig tryggt verði að fráveita valdi ekki mengun í landi Grjótárgerðis. Um kröfur þessar vísast nánar til umfjöllunar um málsrök hér á eftir.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Þingeyjarsveit 23. desember 2021 og 24. júní 2022.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 26. mars 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal, en áður hafði verið auglýst til kynningar lýsing á skipulagsverkefninu og umsagna leitað um hana. Á fundinum kom fram að samkvæmt lýsingunni hefði verið gert ráð fyrir að skipuleggja allt að 60 ha svæði fyrir 60 frístundalóðir, en síðar hefði verið ákveðið að skipuleggja það í tveimur áföngum þar sem fyrirliggjandi minjaskráning næði aðeins til suðurhluta þess. Fyrri áfangi deiliskipulagsins næði því frá aðkomuvegi upp með Grjótá í suðri og að gili sem lægi niður miðja hlíðina í norðri. Þá væri fallið frá því að halda opinn kynningarfund, m.a. í ljósi aðstæðna.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 25. júní 2020, að loknum kynningartíma tillögunnar og umfjöllun skipulags- og umhverfisnefndar um umsagnir og athugasemdir er bárust við hana. Tók sveitarstjórn undir svör nefndarinnar og samþykkti tillöguna að teknu tilliti til athugasemda/umsagna og svara nefndarinnar. Hinn 27. ágúst s.á. samþykkti sveitar­stjórn að taka hluta jarðarinnar úr landbúnaðarnotum í samræmi við gildandi aðalskipulag og fyrirliggjandi gögn. Með tölvupósti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til sveitarfélags­ins 13. nóvember 2020 var fallist á breytta landnotkun með vísan til 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004.

Skipulagsstofnun mun hafa verið send tillagan 16. mars 2021 til meðferðar. Í svarbréfi stofnunarinnar voru gerðar nokkrar athugasemdir við tillöguna, m.a. um að afla þyrfti frekari umsagna. Í framhaldi var uppfærð tillaga send stofnuninni. Með bréfi Skipulagsstofnunar til sveitar­félagsins, dags. 24. júní 2021, var síðan greint frá því að þar sem auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins hefði ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athuga­semda­fresti við tillöguna hefði lokið teldist deiliskipulagið ógilt, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Um leið var vikið að nokkrum atriðum sem huga þyrfti nánar að við skipu­lags­gerðina en tekið fram að ekki væri um formlega yfirferð stofnunarinnar að ræða.

Á fundi sveitarstjórnar 24. júní 2021 var skipulagsfulltrúa falið að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu-frístundabyggðar. Var sú ákvörðun tekin á fundinum með afbrigðum þar sem málið hafði ekki verið á dagskrá fundarins. Tillagan var auglýst til kynningar 2. júlí s.á. og veittur frestur til 13. ágúst 2021 til að koma að athugasemdum en einnig var leitað umsagna um tillöguna. Umsagnir bárust frá Veðurstofu Íslands, Vegagerðinni og Minjastofnun Íslands sem gerðu ekki athugasemdir við tillöguna og töldu tvær síðarnefndu stofnanirnar jafn­framt að tekið hefði verið tillit til þeirra ábendinga og athugasemda er fram hefðu komið í fyrri umsögnum þeirra um deiliskipulag frístundabyggðarinnar. Einnig barst umsögn frá Heil­brigðis­­­eftirliti Norðurlands eystra er gerði ekki athugasemdir við fyrirhuguð áform enda yrði haft samráð við heilbrigðisfulltrúa áður en kæmi til framkvæmda vegna fráveitu. Jafnframt komu kærendur máls þessa á framfæri athugasemdum við tillöguna.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 16. september 2021 var erindið tekið fyrir og athuga­semdum og umsögnum er borist höfðu við tillöguna svarað. Hinn 23. s.m. var tillagan sam-þykkt á fjarfundi sveitarstjórnar, en ekki voru gerðar breytingar á tillögunni á fundinum þrátt fyrir orðalag í þá átt í bókun fundarins. Í framhaldi var Skipulagsstofnun send tillagan til lögboðinnar yfirferðar. Með svarbréfi stofnunarinnar, 27. október s.á., tilkynnti Skipulags­stofnun að hún hefði ákveðið að taka deiliskipulagið ekki til athugunar með vísan til 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Tók skipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnar­tíðinda 12. nóvember 2021.

Hið umdeilda deiliskipulag tekur til um 38 ha skipulagssvæðis þar sem gert er ráð fyrir 44 lóðum fyrir frístundahús. Innan hvers byggingarreits er heimilt að reisa eitt frístundahús á einni hæð, með nýtanlegu risi og stakstæðu geymsluhúsi. Hámarks­byggingarmagn innan lóðar er 300 m². Gert er ráð fyrir hreinsivirki fráveitu innan lóða og mögulegt er að nokkrar frístunda­lóðir sameinist um eitt hreinsivirki.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að jörðin Fjósatunga liggi að og umlyki spildu þeirra, Grjótárgerði. Þar séu enn engar byggingar. Muni áform samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi hafa bein og mikil áhrif á nýtingu frístundalóðar þeirra vegna gríðarlegs þéttleika og byggingar­magns sem gert sé ráð fyrir í nefndu deiliskipulagi.

Málsmeðferð hinnar umdeildu ákvörðunar hafi verið áfátt og ekki í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Samkvæmt boðaðri dagskrá hafi ekki verið gert ráð fyrir því að tillagan með breytingum yrði tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 24. júní 2021. Því hafi gögn er málið varði ekki fylgt fundarboði til sveitarstjórnarfulltrúa og ekki sé fært til bókar í fundargerð fundarins að gögn málsins hafi verið lögð fram eða gerð aðgengileg á honum. Það verði því ekki séð að málið hafi fengið raunverulega umfjöllun í sveitarstjórn, svo sem gera verði kröfu um. Sveitar­stjórn verði að fjalla um málið í þeim búningi sem það sé lagt fyrir sveitarstjórnarfund til afgreiðslu. Ekki verði frá þessu hvikað með vísan til ákvæða í samþykktum um stjórn sveitar­félagsins sem heimili að taka mál á dagskrá með afbrigðum, en um sé að ræða undanþágu­heimild. Tryggja verði að kjörnir fulltrúar hafi raunhæfan möguleika á að taka mál til efnis-legrar umræðu á grundvelli gagna sem skuli liggja fyrir við afgreiðslu málsins.

Kröfur sem gera beri til deiliskipulags hafi ekki verið virtar og óljóst sé hvaða áhrif skipulagið muni hafa á hagsmuni kærenda, einkum hvað varði umfang byggingarmagns, áhrif frá fráveitu og fleira. Meta þurfi hvort stærð húsa og umfang byggðar muni mynda þéttbýli en ekki frístundabyggð. Skorti mikið á að deiliskipulagið taki til svæðis sem myndi heildstæða einingu, sbr. 37. gr. skipulagslaga.

Skylt sé að gera tæmandi grein fyrir fráveitukerfi, sbr. gr. 5.3.2.15. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Óljóst sé hversu margar rotþrær verði og hvar þær verði settar upp. Í deiliskipulaginu skuli gera grein fyrir legu einstakra rotþróa og leggja þurfi mat á lyktarmengun er frá þeim kunni að stafa, m.a. með tilliti til ríkjandi vindátta. Þá sé ekki vafi á að húsin austan hitaveitu-lagnar muni skerða útsýni til norðurs frá landareign kærenda og muni einnig hafa áhrif á innsýn og hljóðvist. Ásýndarmyndir og skuggavarpsmyndir, sbr. gr. 5.5.4. í skipulagsreglugerð, hafi hvorki fylgt skipulagsgögnum né sniðmyndir húsa. Ætla megi að mænishæð húsa geti orðið allt að 8,5 m þegar mælt sé frá yfirborði lands neðan kjallara. Gefi skipulagsgögn ekki glögga mynd af leyfilegu umfangi bygginga og grenndaráhrifum þeirra.

Sveitarfélagið hafi ekki sinnt þeirri rannsóknarskyldu að beina fyrirspurn til Skipu­lags­stofnunar um hvort framkvæmdin sé af þeirri stærðargráðu að hún skuli sæta mati á um­hverfis­­áhrifum. Sé í þessu sambandi vísað til liða 1.01 og 12.05 í 1. viðauka við þágildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Eðlilegt sé að líta á 60 frístundahús sem ígildi orlofs-þorps. Málið hafi því ekki verið nægilega rannsakað eða upplýst áður en tekin hafi verið ákvörðun. Af gr. 5.3.2.19. í skipulagsreglugerð verði ekki annað ráðið en að leita þurfi umsagnar Skipulagsstofnunar hvað þetta varði áður en hægt sé að afgreiða deiliskipulag frá sveitarfélaginu og það taki gildi.

Þá sé skipulagsáætlunin ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins, en fyrirhuguð áform séu langt umfram eðlilegt umfang frístundabyggðar í sveitar­félaginu. Til að nýtingarhlutfall lóðar fari ekki yfir hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt aðalskipulagi þurfi lóð að vera a.m.k. 6.000 m² að flatarmáli, en þó nokkur dæmi séu um að vikið sé frá þessu. Fyrir vikið sé byggðin talsvert þéttari en heimilt sé í aðalskipulagi. Því sé mótmælt að frávik séu innan skekkjumarka.

Sveitarfélaginu hafi verið skylt að hafa samráð við kærendur að eigin frumkvæði áður en hin endanlega deiliskipulagstillaga hafi verið samþykkt af sveitarstjórn til auglýsingar. Slíkt sam­ráð hafi ekki verið viðhaft, en tilkynningar um einstakar afgreiðslur sveitarfélagsins feli ekki í sér samráð. Skírskotað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 152/2021 hvað þetta varði. Af forsendum hans verði ráðið að til að unnt sé að hverfa frá samráði að frumkvæði sveitarfélagsins þurfi að vera hægt að útiloka að samráð hefði getað haft áhrif á útfærslu deiliskipulagstillögu, ekki sé nægjanlegt að það sé líklegt. Alls ekki sé útilokað að breytingar hefðu orðið aðrar og meiri í ferli málsins ef haft hefði verið samráð við kærendur, til að mynda um mænishæð húsa, byggingarmagn og fráveitumál.

Árið 2012 hafi verið gerð breyting á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2012-2022 varðandi stærð lóða á umræddu svæði. Litið hafi verið svo á að um minniháttar breytingu á aðalskipulaginu væri að ræða en hún hafi í raun verið meiriháttar og með þessu sé verið að skapa farveg til að koma meiriháttar breytingu á skipulagi gegnum lögbundið ferli með „skemmri skírn“.

Málsrök Þingeyjarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að kröfum kærenda verði hafnað. Tillaga að deiliskipulagi Fjósatungu-frístundabyggðar hafi verið tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar undir afbrigðum í samræmi við samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Allir sveitarstjórnarmenn hafi aðgang að málsgögnum í fundargátt. Í ljósi þess að tillagan hafði áður verið samþykkt til gildistöku í júní 2020 og ekki hefðu átt sér stað grundvallarbreytingar á henni megi telja víst að sveitarstjórnarmönnum hafi verið tillagan fullkunnug og afgreiðslan hafi verið eðlileg og rökrétt.

Í deiliskipulaginu komi fram að frágangur hreinsivirkis skuli vera vandaður og engin mengun stafa af honum. Einnig að samráð skuli haft við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra vegna útfærslu á fráveitu. Jafnframt sé í skipulaginu settar kvaðir sem gildi gagnvart kærendum, m.a. um umferðarrétt um land Fjósatungu, vatnsöflunarrétt og rétt til að koma fyrir rotþró utan landareignar. Þótt um mikla umbreytingu á nýtingu lands sé að ræða sé fyrirhuguð uppbygging ekki til þess fallin að hafa verulega neikvæð áhrif á aðliggjandi jarðir. Í skipulaginu sé tekið tillit til þarfa nágranna og annarra hagsmunaaðila eftir fremsta megni. Hið umdeilda deili­skipulag byggi á skilmálum gildandi aðalskipulags. Brugðist hafi verið við athugasemdum sem borist hafi við tillöguna og hún verið uppfærð samkvæmt þeim.

Vísað sé til 3. og 4. gr. þágildandi laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana sem og til 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Frístundabyggð af því tagi sem hér um ræði falli ekki undir lög nr. 106/2000 eða lög nr. 105/2006. Ekki sé um orlofsþorp að ræða heldur hefðbundna frístundabyggð og falli áformin hvorki undir lið 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 né lið 1.01 í viðaukanum, um endurskipulagningu landareignar í dreifbýli, en sá liður taki til landbúnaðar, skógræktar eða fiskeldis. Að auki hafi verið gert ráð fyrir frístunda­byggð í landi Fjósatungu í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar frá árinu 2010 og því sé ekki um endurskipulagningu lands að ræða sem feli í sér breytta landnotkun.

Umfang byggingarmagns í deiliskipulaginu sé ekki óeðlilegt með hliðsjón af þróun sem hafi átt sér stað víðsvegar um land. Frístundahús hafi undanfarin ár orðið betri að gæðum og hugsuð sem heilsárshús án fastrar búsetu. Stærðartakmörk frístundahúsa hafi verið felld út við uppfærða byggingarreglugerð árið 1998. Sem viðmið megi nefna að í deiliskipulagi frístundabyggðarinnar Hálönd við Akureyjarbæ sé heimild fyrir allt að 200 m² byggingarmagni og 8 m þakhæð. Fleiri fordæmi megi finna í næsta nágrenni, t.d. í deiliskipulagi frístundabyggðanna í Lundi og Skógum í Fnjóskadal.

Með breytingu sem gerð hafi verið á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar árið 2012 hafi lágmarks­stærð lóða verið minnkuð úr 1 ha í 0,5 ha með tilliti til byggingarhæfni landsins, en sú breyting og málsmeðferð vegna hennar sé ekki til umfjöllunar í kærumálinu og verði því ekki fjallað nánar um hana.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka fyrri sjónarmið sín og telja að röksemdir sveitarfélagsins hafi ekki áhrif á málsástæður þeirra. Ekki hafi verið hægt að nýta sér heimild til að taka mál á dagskrá sveitarstjórnarfundar með afbrigðum þar sem enga brýna nauðsyn hafi borið til að knýja málið í gegnum sveitarstjórn án þess að fulltrúum hennar gæfist tóm til að yfirfara breytingar eða rifja málið upp. Ráða megi að oddviti sveitarstjórnar hafi óskað eftir að taka málið á dagskrá með afbrigðum án þess að færa fyrir því nein rök. Ekkert sé fram komið í málinu um að ekki hafi verið hægt að setja það á dagskrá með tveggja daga fyrirvara svo sem beri að gera. Aðferðin sé ekki óþekkt til að koma málum gegnum sveitarstjórn án nægilegrar skoðunar og greiningar. Beri fundargerð með sér að sex af sjö fulltrúum sveitarstjórnar hafi mætt á fundinn en enginn varamaður. Útilokað sé að sveitarstjórnarmönnum hafi gefist færi á að kynna sér málið. Gera verði kröfu um að ítrustu málsmeðferðarreglum sé fylgt við meðferð skipulags­mála.

Málsrök lóðarhafa: Lóðarhafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Þingeyjar­sveitar frá 23. september 2021 að samþykkja deiliskipulag Fjósatungu-frístunda­byggðar í Fnjóskadal. Tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðar ákvörðunar til endurskoðunar í samræmi við hlutverk nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en tekur ekki nýja ákvörðun eða breytir efni ákvörðunar.

Svo sem áður er rakið óskaði oddviti eftir því á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 24. júní 2021 að bæta við einu máli á dagskrá með afbrigðum, þ.e. tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu, og var það samþykkt samhljóða af fundarmönnum. Var málið tekið fyrir undir sérstökum dagskrárlið og skipulagsfulltrúa falið að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar að nýju. Telja kærendur að ekki hafi verið heimilt að taka málið til umfjöllunar með þeim hætti á fundinum og að sá annmarki eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Mælt er fyrir um boðun og auglýsingu funda í 15. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Skal fundarboð berast sveitarstjórnarmönnum eigi síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund og skulu fundarboði fylgja dagskrá fundarins og þau gögn sem eru nauðsynleg til að sveitarstjórnarmenn geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna á sveitarstjórnarmaður rétt á að tekið verði á dagskrá sveitarstjórnarfundar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess. Mál sem ekki er tilgreint á útsendri dagskrá sveitarstjórnarfundar verður þó ekki tekið til afgreiðslu á viðkomandi fundi án samþykkis 2/3 hluta fundarmanna, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í þáverandi samþykkt um stjórn sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar nr. 641/2019, nú samþykkt um stjórn og fundarsköp Þingeyjarsveitar nr. 975/2022, er í 3. mgr. c-lið 16. gr. sett samskonar heimild til að taka mál á dagskrá þótt þess sé ekki getið í fundarboði.

Í ljósi þess hvernig atvikum var hér sérstaklega háttað verður að telja að oddvita hafi verið heimilt á fundi sveitarstjórnar 24. júní 2021 að óska eftir því að taka fyrir tillögu að deili­skipulagi frístundabyggðarinnar með afbrigðum. Gátu enda sveitarstjórnarmenn synjað þeirri tillögu, en hún var samþykkt af öllum sveitarstjórnarmönnum á fundinum og var því fullnægt kröfu 1. mgr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga sem og 3. mgr. c-liðar 16. gr. samþykktar nr. 641/2019 um að 2/3 viðstaddra sveitarstjórnarmanna samþykki það afbrigði. Þá samþykktu allir aðal­menn tillögu að deiliskipulaginu á fundi sveitarstjórnar 23. september 2021.

Í skipulagslögum nr. 123/2010 er lögð áhersla á samráð við almenning og hagsmunaaðila við skipulagsgerð og skv. 3. mgr. gr. 5.2.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er mælt fyrir um að ef tillaga að deili­skipulagi eða tillaga að breytingu á því tekur til svæðis sem liggur að lóðamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Fyrir liggur að skipulagssvæðið liggur að og umlykur spildu kærenda og hefði borið að kynna þeim tillögu að deiliskipulagi áður en sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna. Ekki verður séð að það hafi verið gert og verður að telja það til annmarka á málsmeðferðinni.

Hjá því verður þó ekki litið að kærendur komu að athugasemdum sínum í málinu hvort tveggja við þá tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar sem aldrei tók gildi sem og við sam-þykkta tillögu. Fjallað var um athugasemdir kærenda á fundum skipulags- og umhverfisnefndar og þeim svarað efnislega og samþykkti sveitarstjórn greindar afgreiðslur. Verður að öllu virtu því ekki talið að annmarkinn hafi verið svo verulegur að varði ógildi deiliskipulagsákvörðunar­innar. Á það skal bent að það felst ekki í skyldu sveitarfélags til samráðs að fallist verði á allar þær athugasemdir sem koma fram, en sveitarstjórnum er að lögum ætlað víðtækt vald til ákvarðana um skipulag, sem eftir atvikum geta haft í för með sér röskun á einstökum fasteigna­réttindum að viðlagðri bótaskyldu.

Mælt er fyrir um í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skv. 3. mgr. 3. gr. laganna annast sveitarstjórnir gerð deiliskipulagsáætlana í sínu umdæmi, sbr. 38. gr. sömu laga. Við gerð skipulagsáætlana ber m.a. að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Að gættum þessum markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum. Þá er m.a. áskilið að innbyrðis samræmi sé á milli skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Fjallað er um svæði fyrir frístundabyggð í kafla 4.6. í greinargerð Aðalskipulags Þingeyjar­sveitar 2010-2022, þ.m.t. um frístundabyggð í Fnjóskadal. Kemur fram í kafla 4.6.1. með síðari breytingu að svæði F-23 í landi Fjósatungu sé skilgreint sem frístundabyggð. Lóðir skulu eigi vera minni en 0,5 ha og hámarksfjöldi frístundahúsa ekki fleiri en 60. Leyfilegt er að koma upp þjónustu innan svæðisins og skal fjöldi húsa og stærð einstakra lóða útfærð í deiliskipulagi. Fram kemur til samræmis við þetta, í greinargerð deiliskipulags Fjósatungu, að gert sé ráð fyrir 44 frístundalóðum á skipulagssvæðinu. Verða 20 lóðir staðsettar á svæði með aflíðandi halla syðst á svæðinu en 24 lóðir í hlíðinni sunnan bæjarstæðis. Þær skulu samkvæmt greinargerð vera að lágmarki 0,5 ha að stærð og innan hvers byggingarreits er heimilt að reisa eitt frístunda­hús ásamt geymsluhúsi. Samkvæmt skipulagsuppdrætti eru lóðir á skipulagssvæðinu misstórar, en samkvæmt athugun nefndarinnar eru 10 lóðir stærri en 6.000 m², 16 lóðir eru frá 5.500 til 6.000 m² að stærð og 18 lóðir eru minni en 5.500 m². Engin lóð er minni en 5.000 m².

Í lok kafla 4.6. í aðalskipulagi segir að við gerð deiliskipulags á sumarhúsasvæðum skuli miða hámarksnýtingarhlutfall lóða við um það bil 0,05. Þar að auki verði í deiliskipulagi ákvæði um byggingarskilmála og fleira. Í deiliskipulagi Fjósatungu er mælt fyrir um að hámarks­byggingar­magn innan hverrar lóðar sé 300 m². Grunnflötur aðalhæðar frístundahúss skuli að hámarki vera 160 m² og að lágmarki 50 m². Þakform frístundahúsa sé frjálst og skuli hámarks­hæð byggingar vera 6,0 m frá gólfkóta aðalhæðar. Þar sem aðstæður leyfi vegna landhalla sé heimilt að hafa kjallara undir frístundahúsum. Hámarksgrunnflötur geymsluhúss sé 30 m² og hámarkshæð 4 m.

Með þessu gerir deiliskipulagið ráð fyrir að nýtingarhlutfall minnstu frístundalóðanna sé rétt undir 0,06 en í flestum tilfellum 0,05-0,055. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið staðhæft að þessi frávik séu innan marka enda sé talan 0,05 sett sem viðmið óháð aðstæðum og forsendum. Þótt fallast megi á að ákveðið svigrúm sé með þessu fyrir hendi hvað nýtingarhlutfall lóða varði er það mat nefndarinnar að heilt yfir litið feli það í sér verulegt frávik frá stefnu aðalskipulags.

Í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar er stefnt að því að fráveitumálum verði þannig fyrir komið að ekki valdi skaða á umhverfinu og rotþrær, eftir því sem við verði komið, samnýttar. Jafnframt að fráveitumál séu í samræmi við mengunarvarnareglugerðir.

Í 9. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitu segir að þegar land er skipulagt sem frístundabyggð skuli landeigandi eða félag í frístundabyggð þar sem það á við koma á fót fráveitu eða gera samning við starfandi fráveitu að höfðu samráði við sveitarstjórn. Í 16. gr. reglugerðar nr. 789/1999 um fráveitur og skolp segir með líkum hætti að í hverfi íbúðarhúsa, frístundahúsa, atvinnuhúsnæðis og þar sem fram fer umfangsmikið tómstundastarf skuli komið á sameiginlegu fráveitukerfi, sbr. þó 3. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar, en þar segir: „Þar sem lagning safnræsa þykir ekki álitlegur kostur annaðhvort vegna þess að það hefur ekki umhverfisbætandi áhrif eða það hefur í för með sér óhóflegan kostnað skal nýta önnur kerfi sem vernda umhverfið jafn vel.“ Þá er tekið fram í gr. 5.3.2.15. í skipulagsreglugerð að gera skuli grein fyrir veitum og helgunarsvæðum þeirra, ofan jarðar og neðan, á uppdráttum og/eða í greinargerð.

Við meðferð málsins leitaði sveitarfélagið umsagnar Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, en umsagnir þess lágu einnig fyrir við fyrri meðferð tillögu að deiliskipulagi frístunda-byggðarinnar. Í umsögn eftirlitsins, dags. 20. maí 2021, var lögð áhersla á að gerð yrði grein fyrir fráveitu og staðsetningu hreinsivirkja í deiliskipulagi með það að markmiði að frárennsli ylli sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, s.s. með sameiginlegum hreinsivirkjum, sbr. lög nr. 9/2009. Í greinargerð hins umþrætta deiliskipulags kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir hreinsivirki fráveitu innan frístundalóða og að mögulegt sé að nokkrar frístundalóðir sameinist um eitt hreinsivirki. Samráð skuli haft við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra vegna útfærslu fráveitu. Þá skuli fráveitukerfi vera í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 og reglugerð nr. 798/1999. Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins, dags. 16. september 2021, kom fram að eftirlitið hefði kynnt sér meðfylgjandi deiliskipulagstillögu þar sem fram kæmi að gert væri ráð fyrir að þyrpingar frístundalóða sameinuðust um eitt hreinsivirki fráveitu. Ekki væru gerðar athugasemdir við fyrirhuguð áform enda yrði haft samráð við heilbrigðisfulltrúa áður en kæmi að fráveituframkvæmdum á svæðinu.

Skipulagsskilmálar eru bindandi ákvæði í deiliskipulagi um útfærslu skipulags og er gerð krafa um það í gr. 5.5.2. í skipulagsreglugerð að þeir séu skýrir og greinargóðir. Af skilmálum deiliskipulagsins verður ekki með öllu ráðið hvernig fyrirkomulagi fráveitu skuli háttað á skipulagssvæðinu, en aðeins kemur fram að mögulegt sé að nokkrar frístundalóðir sameinist um eitt hreinsivirki. Telja verður að ríkt tilefni hafi verið til að kveða á um fráveitumál með skýrari hætti en gert var, sérstaklega þegar litið er til umfangs skipulagssvæðisins og fyrirhugaðra áforma.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma og umhverfismati áætlunarinnar, sbr. þágildandi lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, nú laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Lög nr. 105/2006 giltu um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem mörkuðu stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar voru í þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 3. gr. laganna. Af hálfu kærenda er til þess vísað að fyrirhuguð áform gætu fallið undir lið 1.01 og 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 og að meta hefði átt hvort framkvæmdirnar skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Hafi sveitarstjórn hvorki upplýst eða rannsakað málið nægilega með því að beina ekki fyrirspurn til Skipulagsstofnunar hvað þetta varði. Í svörum sveitarfélagsins við athugasemdum kærenda varðandi matsskyldu framkvæmdarinnar kom fram að framkvæmdin félli hvorki undir lög nr. 105/2006 né lög nr. 106/2000.

Meðal þeirra hlutverka sem Skipulagsstofnun var falið í 4. gr. laga nr. 106/2000 var að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu yfirfór stofnunin hvort tveggja hið kærða deiliskipulag sem og deiliskipulag það sem taldist ógilt, þótt ekki væri um formlega yfirferð á síðargreinda skipulaginu að ræða. Taldi stofnunin hvorki ástæðu til að vekja athygli á hugsanlegri matsskyldu framkvæmdarinnar, né gerði hún athugasemd við svar sveitarfélagsins um hugsanlega matsskyldu hennar. Gaf afgreiðsla Skipulagsstofnunar á tillögunni því ekki tilefni fyrir sveitarfélagið að rannsaka málið frekar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvað matsskyldu varðar. Þá má benda á að skv. 25. gr. laga nr. 111/2021 er óheimilt að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir lögin fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar liggur fyrir eða ákvörðun sömu stofnunar um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati. Sambærilegan áskilnað er hins vegar ekki að finna vegna deiliskipulagsgerðar og stóð það því ekki í vegi fyrir birtingu þegar samþykkts deiliskipulags.

Uppbygging frístundabyggðar er til þess fallin að hafa nokkur áhrif á umhverfið svo og grenndaráhrif, svo sem vegna umferðaraukningar, útsýnisskerðingar o.fl. Í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð segir að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á vistkerfi, auðlindir, landslag, ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga o.fl. umhverfisþætti eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Í 2. mgr. segir að áætla skuli áhrif af landmótun, skógrækt, umferð, hávaða, umfangsmiklum mannvirkjum, svo sem háhýsum, ásamt fleiri atriðum sem talin eru þar upp. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Jafnframt skuli því lýst hvernig skipulagið samræmist markmiðum skipulagsreglugerðar, sbr. gr. 1.1., og markmiðum deiliskipulags, sbr. gr. 5.1.1.

Að framangreindu virtu hvílir sú skylda á sveitarstjórnum við gerð deiliskipulags að gera grein fyrir umhverfisáhrifum þess, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, sbr. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, eftir því sem mælt er fyrir um í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð um umhverfismat skipulags. Aftur á móti er ljóst að þær kröfur sem gerðar eru til umhverfismats deiliskipulags eru breytilegar eftir efni þess og umfangi, enda segir í 1. mgr. nefnds reglugerðarákvæðis að meta skuli líkleg áhrif af þar tilgreindum atriðum eftir því sem efni skipulags gefur tilefni til. Í greinargerð hins umdeilda deiliskipulags er gerð nokkur grein fyrir áhrifum skipulagsins á umhverfið. Þar segir að ekki sé verið að ganga á land sem verðmætt sé til landbúnaðar eða henti vel til ræktunar, þar sem byggingar og vegir séu að mestu staðsett í hlíð og mólendi. Þá sé hæð bygginga takmörkuð og útlit þannig ákvarðað að sem best falli að umhverfinu. Loks muni fráveitukerfi uppfylla skilyrði viðeigandi reglugerða. Með þessu var á nokkurn hátt gerð grein fyrir umhverfis- og grenndaráhrifum í greinargerð, þótt umfjöllun hefði mátt vera ítarlegri.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að annmarkar séu fyrir hendi á hinni kærðu ákvörðun einkum hvað varðar skilmála deiliskipulagsins um nýtingarhlutfall og fráveitu.  Þykja greindir annmarkar þess eðlis að ekki verði hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 23. september 2021 um að samþykkja deiliskipulag Fjósatungu-frístundabyggðar í Þingeyjarsveit.

67/2022 Hofsbót

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 1. febrúar 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrar frá 2. júní 2022 um að veita byggingar­leyfi fyrir fjölbýlishúsi á lóðinni nr. 2 við Hofsbót.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2022, er barst nefndinni 1. júlí s.á., kæra eigendur tveggja íbúða að Hofsbót 4, Akureyri, þá ákvörðun bæjar­stjórnar Akureyrar frá 1. febrúar 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Akureyrar frá 2. júní 2022 um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á lóðinni nr. 2 við Hofsbót. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 11. ágúst 2022.

Málavextir: Lóðin Hofsbót 2 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag miðbæjar Akureyrar, sem samþykkt var í bæjarstjórn Akureyrar 6. maí 2014 og tók gildi 22. júlí s.á. Með skipulaginu var gert ráð fyrir að reisa mætti á lóðinni fjögurra hæða hús sem verið gæti 1.482 m2. Á fundi skipulagsráðs Akureyrar 15. september 2021 var tekið fyrir erindi þar sem óskað var eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð Hofsbótar 2. Óskað var eftir heimild til að vera með íbúðir á hæðum 2, 3 og 4 þannig að fjöldi íbúða yrði allt að 16 talsins en ekki 6 eins og gert hafi verið ráð fyrir. Skipulagsráð tók jákvætt í erindið og samþykkti að deiliskipulagsbreyting yrði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að tillagan yrði grenndarkynnt skv. 44. gr. sömu laga. Ekkert varð af framangreindri deiliskipulagsbreytingu.

Á fundi skipulagsráðs 10. nóvember 2021 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna lóðarinnar Hofsbótar 2. Umsóknin fól í sér að heimilt yrði að byggja fimm hæða hús sem yrði 1.636 m2, en þágildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir að heimilt væri að byggja fjögurra hæða hús sem væri 1.482 m2. Þá var gert ráð fyrir að byggingarreitur á norður- og suðurhlið stækkaði lítillega. Skipulagsráð tók jákvætt í erindið og lagði til við bæjarstjórn að breyting á deiliskipulagi yrði auglýst skv. 41. gr. laga nr. 123/2010. Bæjarstjórn samþykkti erindið á fundi sínum 16. nóvember 2021.

Tillagan var auglýst í Dagskránni 24. nóvember 2021 og í Lögbirtingablaðinu 29. s.m. með athugasemdafresti til 11. janúar 2022. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá nokkrum kærendum. Málið var tekið fyrir að nýju í skipulagsráði 26. s.m. Á fundinum var lagt til að í ljósi athugasemda væri lagt til við bæjarstjórn að fimmta hæð fyrirhugaðrar byggingar yrði felld út úr tillögunni. Þá var skipulagsfulltrúa falið að útbúa drög að umsögn um efni athugasemda. Bæjarstjórn samþykkti tillögu skipulagsráðs á fundi 1. febrúar s.á. Á fundi skipulagsráðs 23. s.m. var óskað eftir að gerðar yrðu minniháttar breytingar á auglýstri deiliskipulagstillögu. Óskað var eftir að skýrar kæmi fram að gert væri ráð fyrir íbúðum á 2.-4. hæð til samræmis við kynnt gögn, að ekki væri gerð krafa um að allar íbúðir hefðu glugga á a.m.k. tveimur hliðum með þeim rökum að í öllum íbúðum yrði loftræsibúnaður með varma-endurvinnslu og að ekki yrði áfram gert ráð fyrir inndreginni hæð að vestanverðu. Skipulagsráð lagði til að bæjarstjórn samþykkti breytingarnar sem gert var á fundi bæjarstjórnar 1. mars 2022. Auglýsing um samþykkt bæjarstjórnar var birt í Dagskránni, á heima- og Facebook síðu Akureyrar 23. s.m. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 7. apríl s.á., gerði stofnunin ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulag yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda og var auglýsingin birt þar 8. s.m.

Á fundi byggingarfulltrúa 2. júní 2022 samþykkti hann byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á lóð nr. 2 við Hofsbót í samræmi við framlagðar teikningar, dags. 31. maí 2022. Byggingarleyfi var gefið út á sama fundi.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að á fundi skipulagsráðs Akureyrar 15. september 2021 hafi verið tekin fyrir beiðni um að gerð yrði breyting á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Hofsbótar 2. Skipulagsráð hafi heimilað umsækjanda að útbúa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs. Það skilyrði hafi verið sett að breyting­in yrði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og yrði grenndarkynnt skv. 44. gr. sömu laga. Fjallað sé um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi í 43. gr. laga nr. 123/2010, en þar segi að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deili­skipulagi, sem sé það óveruleg að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Ákveðið hafi verið að fara með tillöguna eftir 2. mgr. 43. gr. nefndra laga, en tillagan hafi aldrei verið grenndarkynnt fyrir kærendum þrátt fyrir skýra kröfu skipulagsráðs Akureyrar um að svo skyldi gert. Skipulagsyfirvöldum hafi verið kunnugt um grenndarhagsmuni kærenda og því hafi borið að kynna tillöguna fyrir þeim sérstaklega og leita sjónarmiða þeirra. Í ljósi þess að tillagan hafi ekki verið grenndarkynnt hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum laga nr. 123/2010, rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og gegn andmælarétti kærenda. Verði að líta til þess að borgarar megi almennt treysta því að verði skipulagi breytt þá verði þeim gert það kunnugt með grenndarkynningu.

Á fundi bæjarstjórnar hafi verið samþykkt breyting á deiliskipulagi og að sú breyting yrði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 123/2010. Með hliðsjón af eðli og umfangi umþrættra framkvæmda sé ámælisvert að kærendum hafi aldrei verið kynntar breytingar á deiliskipulagi með formlegri grenndarkynningu, þeim ekki gefinn kostur á að tjá sig um framkvæmdina og að kærendur hafi ekki borist teikningar og önnur fyrirliggjandi gögn. Verulega hafi skort á kynningu og samráð í skipulagsferlinu. Spurningum kærenda og annarra hagsmunaaðila hafi verið svarað seint og ítrekuðum óskum um afrit af teikningum og öðrum gögnum hafi ekki verið svarað. Með tilliti til þess að grenndarkynningu sé ætlað að veita hagsmunaaðilum andmælarétt auk þess sem hún sé liður í rannsókn máls leiða ágallar á grenndarkynningu til þess að ógilda verði hina kærðu ákvörðun.

Afstaða byggingar sem veitt hafi verið byggingarleyfi fyrir að Hofsbót 2 sé með þeim hætti að hún hafi mikil grenndaráhrif gagnvart fasteignum kærenda, m.a. að því er varði útsýni, skugga­varp og innsýn. Þessi frávik geti ekki talist svo óveruleg að hagsmunir kærenda skerðist í engu. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 123/2010 geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skuli láta fara fram grenndarkynningu. Ef um sé að ræða óverulega breytingu á deili­skipulagi þá skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Fjallað sé um framkvæmd grenndarkynningar í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 123/2010 og komi þar fram að grenndarkynning felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta leyfis­umsókn og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Hið kærða byggingarleyfi hafi verið veitt án undangenginnar grenndarkynningar líkt og mælt sé fyrir um í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga í ljósi ágalla á breytingu deiliskipulagsins.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á frávísun málsins. Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi tekið gildi með auglýsingu í Stjórnartíðindum 8. apríl 2022. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar sem um sé að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunarinnar. Kæra sé dagsett 30. júní 2022 og hafi verið móttekin af úrskurðarnefndinni 1. júlí s.á. Því sé ljóst að kæra hafi borist þegar kærufrestur hafi verið liðinn.

Málsástæða sem varði byggingarleyfi vísi til ákvörðunar skipulagsráðs dags. 21. september 2021 að fara í grenndarkynningu á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Af því hafi ekki orðið þar sem umsækjandi hafi óskað eftir umfangsmeiri breytingum. Umrædd grenndarkynning hafi því aldrei farið fram. Þar sem málsástæða kærenda byggi á framan­greindri ákvörðun, sem aldrei hafi orðið af, verði að vísa málinu frá, enda sé málatilbúnaður kærenda ekki reistur á réttum lagalegum grunni eða réttri endanlegri stjórnsýslulegri ákvörðun í málinu.

Málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi útgáfa byggingarleyfis verið í samræmi við deili­skipulagsbreytinguna. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hafi verið auglýst til kynningar í samræmi við 43. gr. laga nr. 123/2010 og hafi kærendur átt þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar og hafi tveir af þremur kærendum sent inn athugasemdir. Skipulagsráð hafi gert breytingar á tillögunni til að verða við innsendum athugasemdum. Sam­þykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdum og svörum við þeim hafi verið send til Skipulagsstofnunar til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. laga nr. 123/2010. Stofnunin hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna og hafi hún tekið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2022. Hafi máls­meðferðin því verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 123/2010. Hið umdeilda byggingar­leyfi hafi verið í samræmi við hið breytta deiliskipulag og verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 123/2010 og laga nr. 160/2010 um mannvirki.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að ekki hafi verið fallið frá samþykktri grenndarkynningu. Grenndarkynna hafi átt fyrir eigendum Hofsbótar 4 og Strand­götu 3, 4, 7, 9 og 11 eins og fram komi í opinberum gögnum Akureyrarbæjar.

Séu kynningargögn af 3. hæð skoðuð sjáist að Hofsbót 2 nái aðeins inn fyrir Hofsbót 4. Raunin sé sú að Hofsbót 2 muni ná 2-3 m út fyrir Hofsbót 4 þar sem kynningargögn sýni grunnmynd 1. hæðar Hofsbótar 4, samanborið við grunnmyndir 3. og 4. hæðar. Sýna ætti grunnmyndir af öllum hæðum og hvernig þær mætist. Þetta hafi veruleg áhrif þar sem húsin leggist alveg hvort að öðru. Þrátt fyrir að byggingarreitur hafi aðeins verið stækkaður lítillega séu áhrifin gríðarleg fyrir nágranna. Óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvernig vesturhlið hússins ætti að vera en þær upplýsingar hafi ekki komið fram í kynningargögnum.

Eigendur Hofsbótar 4 hafi verið með bráðabirgðaleyfi til að loka fyrir glugga á norðurhlið hússins í yfir 30 ár. Kærendum hafi verið tilkynnt að verið væri að gera tímabundnar ráðstafanir en engir tímafrestir hafi verið nefndir. Þá megi benda á að grunnur hafi verið tekinn áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærfrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þá kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með auglýsingu þar um sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2022 og rann kærufrestur vegna hennar út 9. maí s.á., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var kærufrestur vegna deiliskipulagsbreytingarinnar því liðinn er kæra í máli þessu, dags. 30. júní 2022, barst nefndinni hinn 1. júlí s.á. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar því vísað frá nefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga.

Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júní 2022 og var gefið út þann sama dag. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir. Líkt og áður hefur komið fram er lóðin Hofsbót 2 á deiliskipulögðu svæði og á 1. mgr. 44. gr. laga nr. 123/2010 því ekki við í máli þessu. Var því ekki þörf á að grenndarkynna hið umdeilda byggingarleyfi.

Samþykkt byggingaráforma og útgefið byggingarleyfi skal vera í samræmi við skipulags­áætlanir viðkomandi svæðis, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Deiliskipulag miðbæjar Akureyrarbæjar, líkt og því var breytt með samþykki bæjarstjórnar Akureyrar 1. mars 2022 heimilar fjögurra hæða hús með hámarksbyggingarmagni sem nemur 1.525 m2 með nýtingarhlutfallinu 3,10. Leyfilegt er að vera með 10 íbúðir á hæðum tvö til fjögur. Hið kærða byggingarleyfi heimilar fjórar íbúðir á 2. hæð, fjórar á 3. hæð og tvær á 4. hæð. Heildarbyggingarmagn er samkvæmt leyfinu 1.525 m2 og nýtingarhlutfall 3,08. Er hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag umrædds svæðis.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrar frá 1. febrúar 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrarbæjar er vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Akureyrar frá 2. júní 2022 um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á lóðinni nr. 2 við Hofsbót er hafnað.

183/2021 Laugavegur

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 183/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. nóvember 2021 um að synja umsókn um leyfi til að byggja bílageymslu neðanjarðar á lóðinni Laugavegi 178.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Dyrhólmi hf., einn eigenda fasteignarinnar að Laugavegi 178, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. nóvember 2021 að synja umsókn um leyfi til að byggja bílageymslu neðanjarðar á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. mars 2022.

Málavextir: Í október 2008 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir byggingu bílastæðageymslu neðanjarðar á lóðinni Laugavegi 178. Ekki varð þó af byggingu hennar. Á árinu 2020 var samþykkt deiliskipulag sem náði m.a. til Laugavegar 178 þar sem gert var ráð fyrir því að bílastæðum á lóðinni myndi fækka. Deiliskipulagið var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 1. desember 2020. Kærandi sótti um endurnýjun byggingarleyfis fyrir byggingu bílastæðageymslu neðanjarðar á umræddri lóð 16. febrúar 2021. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 23. nóvember s.á. var umsókninni synjað með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulags­fulltrúa, dags. 19. nóvember 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ástæða þess að hann hafi í hyggju að byggja bílastæðageymslu neðanjarðar á lóð sinni sé að samkvæmt deiliskipulagi, sem síðar var fellt úr gildi, myndi kærandi glata að lágmarki 15 bílastæðum á lóðinni. Umrætt deiliskipulag hefði gert ráð fyrir nýrri aksturstengingu við Laugaveg á lóðamörkum Laugavegar 176 og 178, en sú breyting myndi hafa veruleg áhrif á nýtingu lóðarinnar og líklegt væri að fleiri bílastæði myndu glatast. Fyrir liggi að Borgarlínan muni liggja meðfram lóð kæranda eins og fram komi í um­sögn skipulagsfulltrúa og bílastæðum á lóðinni muni fækka verulega. Verðmæti fasteignarinnar að Laugavegi 178 muni rýrna að öllu óbreyttu. Með tilheyrandi fækkun bílastæða vegna Borgarlínu muni bílastæði í bílageymslu neðanjarðar að öllum líkindum ekki leiða til fjölgunar bílastæða á lóðinni, a.m.k. ekki umtalsvert.

Margvísleg atvinnustarfsemi sé rekin í fasteigninni og hin kærða ákvörðun hafi áhrif á marga leigutaka og starfsmenn þeirra. Eigi að vera hægt að stunda atvinnustarfsemi á lóðinni með viðunandi hætti í framtíðinni sé nauðsynlegt að byggja bílastæðageymslu. Verðmæti fasteignarinnar lækki verulega séu einungis örfá bílastæði sem starfsmenn og viðskiptamenn hafi aðgang að og því séu hagsmunir kæranda af því að byggja bílageymslu neðanjarðar veru­legir. Ekki þýði að hefja undirbúning að framkvæmdum þegar bílastæði á lóðinni hafi þegar glatast með tilkomu Borgarlínu. Ekki hafi verið tekið tillit til þessa né afstaða tekin til þess hvort framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Því hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði ekki séð hvaða hagsmunir séu hlunnfarnir með því að heimila byggingu bílageymslunnar.

Ekki sé málefnalegt að byggja synjun á umsókn um byggingarleyfi á þeirri staðreynd að ekki sé til staðar deiliskipulag fyrir lóðina. Byggingarfulltrúa sé heimilt að veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé almenna reglan sú að grenndarkynning fari fram. Hvorki sé vísað til fyrrnefndrar lagagreinar í umsögn skipulagsfulltrúa né í ákvörðun byggingarfulltrúa. Þá geri gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 jafnframt ráð fyrir að hægt sé að veita byggingarleyfi þótt deiliskipulag sé ekki til staðar. Sveitarstjórnir fari með skipulagsvaldið og beri ábyrgð og annist gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felist tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þar af leiðandi standist ekki skoðun að synja umsókn kæranda með vísan til þess að ekki sé til staðar deiliskipulag fyrir lóðina. Það brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins enda fái sjónarmiðið ekki stoð í lögum og því ekki málefnalegt. Þvert á móti gangi lög út frá því að veita megi byggingarleyfi án þess að deiliskipulag sé til staðar.

Kærandi sé sammála því að af aðalskipulagi megi almennt ráða að ekki sé gert ráð fyrir fjölgun bílastæða. Hins vegar byggi sú stefnumörkun eðlilega á því að útþenslu byggðar verði hætt, sbr. bls. 130 í A-hluta Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og að byggð verði þétt, sem varði einkum bílastæði ofanjarðar. Á bls. 154 í aðalskipulaginu komi fram að lögð verði áhersla á að bílastæði í miðborginni og á lykilþróunarsvæðum verði neðanjarðar, inni í byggingum eða með þeim hætti að sem minnst röskun verði á götumyndinni. Almenn viðmið sé að finna á bls. 155 í aðalskipulaginu en þar segi: „1 bílastæði að hámarki á 50 m2 atvinnuhúsnæðis.“ Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að byggingarmagn Laugavegs 178 sé 6.377 m2 sem skili í samræmi við framangreint 127,5 bílastæðum, ólíkt þeim fjölda sem komi fram í umsögninni. Hin umsótta bílageymsla falli vel að markmiði aðalskipulagsins og geri borginni kleift að fækka bílastæðum ofanjarðar enn frekar, þétta þar með byggð og skapa m.a. rými fyrir Borgarlínu. Þá geri aðalskipulag jafnframt ráð fyrir aukningu byggingarmagns á svæðinu og fjölgun íbúða. Því sé vanhugsað að synja um byggingu bílageymslna neðanjarðar til að mæta aukinni þéttingu byggðar á svæðinu.

Reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík eigi ekki við um byggingu bílageymslu neðanjarðar, en hvorki sé um að ræða nýbyggingu né endurnýjun byggðar, sbr. gildissvið reglnanna sem sé skilgreint á þann hátt á bls. 1 í reglunum. Óháð gildissviði og efni reglnanna sé vandséð hvernig bílageymsla neðanjarðar falli ekki að reglunum og falli ekki að markmiðs­skýringu aðalskipulags og reglnanna. Hin kærða ákvörðun sé því ekki byggð á málefnalegum sjónarmiðum, í andstöðu við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar þess efnis. Skipulagslög gildi um aðalskipulag sveitarfélaga og gerðar séu mun meiri kröfur til málsmeðferðarreglna aðalskipulags heldur en framangreindra reglna. Ekki verði séð hvaða lagastoð liggi að baki reglunum en fyrir liggi í öllu falli að hvergi sé vísað til þeirra í 44. gr. skipulagslaga. Skýrt sé að reglurnar séu einungis til viðmiðunar, sbr. bls. 154 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þær verði því ekki lagðar til grundvallar sem réttarheimild fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þá kveði reglurnar á um að þegar „uppbygging fellur undir þessar skilgreiningar skal vinna sam­göngumat þar sem meðal annars er áætlað hvernig endurskoða megi heildarfjölda bílastæða.“ Ekkert samgöngumat hafi farið fram enda gildi reglurnar ekki um bílageymslu á lóðinni Laugavegi 178.

Brotið hafi verið gegn réttmætum væntingum kæranda, sem m.a. séu verndaðar af 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Skipulagsfulltrúi hefði árið 2008 veitt jákvæða umsögn fyrir byggingu bílastæðageymslunnar og því hefði kærandi haft réttmætar væntingar til þess að umsókn hans yrði samþykkt. Kærandi hafi greitt lóðarleigu fyrir bílastæðageymsluna í fjölmörg ár en hún sé innheimt með fasteignagjöldum. Sjá megi af álagningarseðlum að fjárhæðin sem kæranda hafi verið gert að greiða sé vegna bílastæðageymslu að stærð 794,2 m2 í samræmi við samþykkta byggingarleyfisumsókn árið 2008. Kærandi hefði verið í miklum samskiptum við byggingarfulltrúa við gerð nýju umsóknarinnar en ekki verið tjáð að umsóknin hlyti ekki hljómgrunn.

Þá brjóti hin kærða ákvörðun ennfremur gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem komi ávallt til athugunar þegar tekin sé íþyngjandi ákvörðun og stjórnvald hafi val á milli tveggja eða fleiri kosta við úrlausn máls. Um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun og hagsmunir kæranda verulegir af því að byggja bílastæðageymslu neðanjarðar. Byggingin sé í samræmi við stefnu borgarinnar um að bílastæði séu neðanjarðar og falli að markmiði reglna um fjölda bíla- og hjólastæða. Hægt sé að ná markmiði Reykjavíkurborgar með öðru og vægara móti en að hafna umsókninni. Samkvæmt 44. gr. skipulagslaga hefði verið hægt að grenndarkynna umsóknina.

Jafnframt hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslurétta, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Bygging bílageymslna neðanjarðar hafi verið samþykkt á nærliggjandi lóðum. Sem dæmi megi nefna deiliskipulag fyrir Laugaveg 168-176 og deiliskipulag Skipholtsreits. Kærandi þurfi því að bera hallan af því að ekki sé fyrir hendi deiliskipulag sem heimili byggingu bílageymslu. Þá hafi einnig verið brotið gegn andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, og því beri að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að byggingarleyfi frá 7. október 2008 hafi verið samþykkt í tíð eldri laga og fyrir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Kærandi byggi á því að í deiliskipulagi sem fellt hafi verið úr gildi hafi verið gert ráð fyrir að bílastæðum kæranda myndi vera fækkað um 15 bílastæði á lóð. Borgaryfirvöld geti ekki byggt ákvarðanir sínar á gögnum sem hafi verið felld úr gildi. Þótt um sé að ræða endurnýjun á byggingarleyfi sé umræddum byggingaráformum hafnað á þeim grundvelli að aðalskipulag og reglur um fjölda bíla- og hjólastæða hafi myndað það regluverk sem umrætt svæði falli undir í dag. Í málinu hafi 13 ár liðið frá veitingu byggingarleyfis fyrir bílageymslu á lóðinni og margt geti breyst í regluumhverfinu á þeim tíma.

Lóðin Laugavegur 178 sé staðsett á svæði þar sem borgaryfirvöld hafi sett sér stefnu í Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um hvernig bílastæðamálum skuli háttað á svæðinu, ásamt því að útfæra það nánar í reglum um fjölda bíla- og hjólastæða. Ekki séu forsendur fyrir að heimila fjölgun bílastæða á lóðinni þar sem það stangist á við framangreinda stefnu. Þá sé það ekki í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar fyrri málsrök sín og bendir jafnframt á að í greinargerð Reykjavíkurborgar sé vísað til þess að bygging bílageymslu neðanjarðar sé ekki í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar án þess að það sé rökstutt með nokkrum hætti.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. nóvember 2021 um að synja umsókn um leyfi til að byggja bílageymslu á lóðinni Laugavegi 178. Í umsókninni er gert ráð fyrir 34 bílastæðum í geymslu neðanjarðar og 115 bílastæðum á lóð, eða samtals 149 bílastæðum. Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Undantekningu frá framangreindri meginreglu um gerð deiliskipulags þegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar er að finna í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. skipulagslaga, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Fyrir liggur að umsókn um byggingarleyfið var synjað án undan­farandi grenndarkynningar.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi var synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 19. nóvember 2021. Í umsögninni kemur fram að bílastæðum á lóðinni myndi fjölga talsvert með tilkomu bílageymslunnar. Samkvæmt talningu á loftmynd séu um 80 bílastæði á lóðinni í dag auk þess sem 20 stæði sem tilheyri lóðinni séu undir þakskyggni innan marka lóðar­innar við Skipholt 35. Þá kemur fram að Laugavegur 178 sé í góðum tengslum við almennings­samgöngur borgarinnar, en framan við húsið sé biðskýli strætisvagna sem fimm vagnaleiðir fari um Laugaveg/Suðurlandsbraut og Kringlumýrarbraut. Gert sé ráð fyrir að Borgar­línan muni fara um efri hluta Laugavegar og að samkvæmt frumdrögum fyrir fyrstu lotu hennar sé gert ráð fyrir Borgarlínustöð við gatnamót Laugavegar og Hátúns, beint norðvestan við Laugaveg 178. Ekki sé í gildi deiliskipulag og því séu engar heimildir til staðar sem heimili byggingu bílageymslu af þeim toga sem umsóknin sýndi. Þá er vísað til þess að stefna Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 sé almennt sú að ekki skuli fjölga bílastæðum frá núverandi aðstæðum og að bíla- og hjólastæðareglur Reykjavíkurborgar séu í gildi. Samkvæmt reglunum sé Laugavegur 178 skilgreindur innan svæðis 1 enda vel staðsettur m.t.t. aðgengis að almenningssamgöngum og göngu- og hjólastígum. Á svæði 1 sé stefnt sérstaklega að breyttum ferðavenjum. Heildarbyggingarmagn á lóðinni sé um 6.377 m2. Miðað við reglurnar ættu bílastæði á lóðinni að vera á bilinu 32-85. Enn frekari fjölgun bílastæða úr um 100 í 149 sé ekki í samræmi við stefnu borgarinnar. Var því tekið neikvætt í erindið.

Áðurnefndar reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík voru samþykktar í skipulags- og samgönguráði 19. desember 2018 og í borgarráði 10. janúar 2019. Í reglunum kemur fram að þær lýsi kröfum um bíla- og hjólastæði innan lóða í Reykjavík vegna nýbygginga og/eða endurnýjunar byggðar og séu hluti af bíla- og hjólastæðastefnu aðalskipulags Reykjavíkur­borgar. Reglurnar skuli leggja til grundvallar við gerð hverfis- og deiliskipulags og við umsókn byggingarleyfa. Ekki var gerð breyting á stefnu um bíla- og hjólastæði í þágildandi Aðal-skipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eftir að reglurnar voru samþykktar og verður því að leggja reglur aðalskipulagsins til grundvallar í máli þessu. Þess má þó geta að tilvísun til reglnanna er að finna á bls. 116 í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040.

Samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 var umrædd lóð á miðsvæði M2b – Holt-Laugavegur. Á bls. 51 og 208 í aðalskipulaginu kemur fram að gert sé ráð fyrir allnokkurri þéttingu byggðar á svæðinu, ekki síst í því skyni að skapa heildstæðari götumyndir. Fjallað er um stefnu varðandi bíla- og hjólastæði á bls. 154-155 í aðalskipulaginu. Fram kemur að markmið skipulagsins sé m.a. að skilyrði og kröfur um bíla- og hjólastæði taki mið af stöðu viðkomandi svæðis í borginni, staðsetningu, gerð og hlutverki svæðis. Áhersla sé lögð á að bílastæði í miðborginni og á lykilþróunarsvæðum verði neðanjarðar, inni í byggingum eða með þeim hætti að sem minnst röskun verði á götumyndinni. Þá segir ennfremur að reglur um bíla- og hjólastæði eftir svæðum í Reykjavík séu almenn viðmið fyrir viðkomandi svæði. Mögulegt sé að víkja frá þeim til hækkunar eða lækkunar við gerð hverfis- og/eða deiliskipulags og skuli það rökstutt sérstaklega. Þetta geti átt við um sérhæft húsnæði, svo sem skóla og hótel, og annað húsnæði þar sem erfitt sé að sjá bílastæðaþörfina fyrir. Frávikum frá almennum viðmiðum skuli halda í lágmarki, sérstaklega á svæði 1 og tilgreindum þróunarsvæðum.

Laugavegur 178 fellur innan svæðis 2 samkvæmt framangreindum bílastæðareglum þágildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Reglur fyrir svæði 2 kveða á um eitt bílastæði að hámarki fyrir 50 m2 atvinnu­húsnæðis. Samkvæmt upplýsingum í fasteignaskrá er byggingar-magn á Laugavegi 178, að undanskilinni bílageymslu sem samþykkt var árið 2008, 5.583 m2. Miðað við reglur þágildandi aðalskipulags var því heimild fyrir 112 stæðum á lóðinni. Umrædd umsókn um byggingarleyfi, þar sem gert er ráð fyrir 149 bílastæðum, var því ekki í samræmi við þágildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Var því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulags­laga um að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag ekki fullnægt, sbr. einnig 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Með hliðsjón af framangreindu er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. nóvember 2021 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu neðanjarðar á lóðinni Laugavegi 178.