Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

148/2022 Suðurgata

Árið 2023, föstudaginn 27. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 148/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 7. desem­ber 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 27. desember 2022, kæra eigendur Suðurgötu 45, Hafnarfirði, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 7. desember 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar umræddrar ákvörðunar. Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 24. janúar 2023.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar hinn 7. desember 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Suðurgötu 44. Er þar gert ráð fyrir að núverandi hús á lóðinni verði rifið, í stað þess byggð þrjú hús á einni til þremur hæðum með 15 íbúðum og að nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,91.

 Kærendur vísa til þess að á Suðurgötu sé viðkvæmt samspil þjónustu og íbúðarbyggðar. Gatan sé þröng gata með fáum bílastæðum. Samkvæmt deiliskipulagi frá árinu 2018 sé gert ráð fyrir að núverandi byggingar verði gerðar upp og bílastæði á lóðinni haldist óbreytt.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að meðferð þess hafi verið samkvæmt lögum og reglum áður en endanleg ákvörðun var tekin.

 Niðurstaða: Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefur ekki enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga 123/2010, en kærufrestur ákvarðana sem sæta opinberri birtingu telst frá birtingu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Hefur deiliskipulagsbreytingin ekki öðlast gildi og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er vísað frá úrskurðarnefndinni.