Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

131/2022 Kvistaland

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. október 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfis vegna lóðarinnar nr. 26 við Kvistaland.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. nóvember 2022, er barst nefndinni 18. s.m., kæra eigendur, Kvistalandi 22 og eigendur, Kvistalandi 24, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. október 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kvistaland 26. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. og 24. janúar 2023.

Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að árið 2021 voru kynntar bráðabirgðabyggingar á lóðinni Kvistalandi 26. Voru þær kynntar íbúum með þeim hætti að byggingarnar væru víkjandi þegar endurbótum á leikskólabyggingu á lóðinni væri lokið. Var þá í gildi deiliskipulag Kvistalands sem samþykkt var af borgarráði 29. ágúst 2019 þar sem mænishæð upprunalegs húss að Kvistalandi 26 var í kóta 27,54. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar var grenndarkynnt frá 27. maí 2022 til og með 27. júní s.á. og bárust athugasemdir við tillöguna, þ. á m. frá kærendum. Á fundi borgarráðs 13. október 2022 var tillagan samþykkt með nokkrum breytingum í tilefni af framkomnum athugasemdum. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2022. Í breytingunni er m.a. gert ráð fyrir að bráðabirgðabyggingarnar standi, leikskólabygging á lóðinni verði stækkuð og mænishæð hækkuð úr kóta 27,54 í 29,00 ásamt því að lögun byggingarreits breyttist og stækkaði.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja að Reykjavíkurborg hafi vegið að rétti þeirra til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt. Hafi það verið gert með þeim hætti að kynna fyrir íbúum bráðabirgðabyggingu sem sé 1,46 m hærri en núverandi byggingar. Þegar byggingarnar hafi verið kynntar íbúum hafi legið að baki loforð um að þær væru aðeins til bráðabirgða og yrðu fjarlægðar eftir notkun. Þá hafi byggingarnar verið reistar utan gildandi skipulags, en þegar ákveðið hafi verið að halda byggingunum á svæðinu hafi það verið leyst með þeim hætti að breyta deiliskipulaginu til þess að laga það að byggingunum. Með nýja deiliskipulaginu sé mænishæð bygginga við Kvistaland 26 hækkuð um 1,46 m sem auki verulega á skuggamyndun. Bent sé á að umdeild skipulagsbreyting sé skilgreind sem „breyting á deiliskipulagi Fossvogs-hverfis–einbýlishús“. Ljóst sé að Reykjavíkurborg telji umrædda lóð falla undir skilgreininguna á einbýlishúsi og ætti því að vera bundin þeirri mænishæð sem gildir um önnur einbýlishús á svæðinu.

 Þá eru gerðar athugasemdir við að Reykjavíkurborg hafi reist steyptan vegg á lóðamörkum með timburgrindverki ofan á. Velta kærendur fyrir sér hvort heimilt sé að reisa slíkan vegg á lóðamörkum. Að lokum gera kærendur athugasemdir við stjórnsýslu málsins á þá leið að athugasemdum þeirra vegna grenndarkynningar hafi hvorki verið getið í gerðarbók umhverfis- og skipulagsráðs né heldur svar þeirra við svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum þeirra.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Áréttað er að sú breyting sem um ræði fjalli um heildar-uppbyggingu á umræddri lóð leikskólans sem samþykkt hafi verið í borgarráði 29. ágúst 2019. Einnig var breyting vegna tímabundinnar kennslustofu fyrir Kvistaland 26, sem samþykkt hafði verið hinn 26. nóvember 2021, innlimuð í umþrætt skipulag. Deiliskipulagstillagan hafi sætt þeirri kynningu og umfjöllun sem kveðið sé á um í skipulagslögum nr. 123/2010. Í samræmi við það hafi umhverfis- og skipulagsráð samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir við tillögu þá sem um ræði á fundi sínum 5. október 2022 og vísað málinu til borgarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi sínum 13. s.m. Hafi sú afgreiðsla verið í samræmi við lög og venjubundna málsmeðferð.

Kærendur hafi sent athugasemdir við grenndarkynninguna með bréfi, dags. 20. júní 2022, sem hafi verið innan athugasemdafrests sem gefin hafi verið upp. Eftir að frestinum lauk hafi allar ábendingar og athugasemdir verið teknar saman og hafi skipulagsfulltrúi lagt fram svör við þeim á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. október 2022. Eftir að svör skipulagsfulltrúa hafi verið lögð fram á umræddum fundi hafi kærendur sent bréf til skipulagsfulltrúa dags. 26. október 2022 þar sem fleiri athugasemdum hafi verið komið á framfæri. Þær athugasemdir hafi ekki verið teknar inn í málið þar sem athugasemdafresti var lokið og málið komið í lokameðferð á skipulagsstigi. Sé það ekki skylda sveitarfélaga að taka inn athugasemdir sem berist löngu eftir að frestur sé liðinn sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Er því vísað á bug að stjórnsýsla við málsmeðferðina hafi ekki verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga og stjórnsýslulaga.

Heildarhækkun á mæniskóta sé 1,46 m og sé hún óháð gólfkóta. Hækkun á gólfkóta um 10 cm sé komin til vegna endurbóta sem nauðsynlegar séu á núverandi gólfi leikskólans. Sé litið til skýringarmynda á uppdrætti sem sýni skuggavarp eftir breytingar sjáist að aukið skuggavarp sé næst lóðamörkum við leikskólann sem komi ekki til með að hafa áhrif á íverusvæði við einbýlishús að Kvistalandi 22 og 24.

Sá veggur sem reistur hafi verið á lóðamörkum leikskólans og borgarlandsins sé vegna mikils landhalla á lóðamörkunum sem valdi fallhættu fyrir þau börn sem noti rampann til að komast í kennslustofur. Þá sé timbrið aðeins tímabundin lausn en samkvæmt umsókn um byggingar-leyfi verði timbrinu skipt út og sett létt stálgrind í staðinn. Núverandi veggur hafi verið reistur þegar tímabundnu kennslustofurnar voru settar upp. Áætlað sé að framkvæmdir fari af stað á þessu ári og verði þá grindverkinu skipt út.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekuð eru framkomin sjónarmið og á það bent að þær athugasemdir sem kærendur sendu skipulagsfulltrúa 26. október 2022 hafi verið svar við bréfi sem þeim hafi borist 13. september s.á. Var þar um að ræða svör við þeim athugasemdum sem kærendur gerðu við deiliskipulagstillöguna. Hafi því bréfið frá 26. október verið sent til að andmæla þeirri niðurstöðu.

Niðurstaða: Upphaflegt heildarskipulag fyrir Fossvogshverfi var samþykkt í borgarráði 6. febrúar 1968. Í skipulaginu er gert ráð fyrir leikskólabyggingu á lóðinni Kvistalandi 26 og var hún reist árið 1971 og stækkuð árið 1995. Breytingin á deiliskipulagi lóðarinnar sem samþykkt var í borgarráði 13. október 2022 er breyting á deiliskipulagi vegna heildaruppbyggingar á lóð leikskólans sem samþykkt var í borgarráði 29. ágúst 2019. Leikur ekki vafi á því að gert hefur verið ráð fyrir leikskólabyggingu á lóðinni frá upphafi.

Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulags-ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Í hinni umþrættu deiliskipulagsbreytingu felst m.a. breyting á lóðamörkum fyrrnefndrar lóðar til suðurs, lögun byggingarreits fyrir leikskólabygginguna breytist og stækkar, mænishæð skólahússins er aukin, en allar byggingar eru áfram ein hæð. Að auki var innlimuð í deili-skipulagsbreytinguna eldri breyting vegna tímabundinnar kennslustofu sem samþykkt hafði verið í borgarráði hinn 26. nóvember 2021. Verða breytingar þessar sem einungis taka til einnar lóðar taldar það óverulegar að fara hafi mátt með þær samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og grenndarkynna breytingartillöguna. Eru greindar breytingar jafnframt þess eðlis að þeim fylgja óveruleg grenndaráhrif gagnvart fasteignum kærenda, svo sem vegna skuggavarps.

Var breytingartillagan grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga með lög-boðnum fjögurra vikna athugasemdafresti og komu kærendur að athugasemdum sínum við tillöguna innan þess frests. Að lokinni grenndarkynningu var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og samgönguráðs 5. október 2022 þar sem skipulagsfulltrúi lagði fram umsögn, dags. 13. september s.á., þar sem reifaðar voru fram komnar athugasemdir, tillaga að svörum við þeim og tillögur að breytingum á hinni kynntu tillögu með hliðsjón af athugasemdum sem borist höfðu. Á fundinum voru þessar tillögur skipulagsfulltrúa samþykktar, sú niðurstaða skráð í gerðarbók sem síðar var staðfest af borgarráði. Tók skipulagsbreytingin síðan gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni yfirferð Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kærenda af þeim sökum hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 13. október 2022 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfis vegna lóðarinnar nr. 26 við Kvistaland.

126/2022 Skólabraut

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 17. ágúst 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði vegna lóðarinnar nr. 10 við Skólabraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Skólabraut 8, Þórey Einarsdóttir og Gunnar Páll Ólafsson, Skólabraut 12, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnes­bæjar frá 17. ágúst 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og að­liggjandi útivistarsvæði vegna lóðarinnar nr. 10 við Skólabraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 30. janúar 2023.

Málavextir: Á lóðinni Skólabraut 10 á Seltjarnarnesi er þriggja hæða hús sem byggt var árið 1950. Frá árinu 1964 hefur vistheimili verið þar starfrækt. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag fyrir Val­húsa­hæð og aðliggjandi útivistarsvæði frá árinu 2017. Hinn 7. apríl 2022 samþykkti skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarnesbæjar að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipu­laginu vegna Skólabrautar 10 í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í tillögunni fólst að fjölga íbúðum á lóðinni úr einni í níu og breyta bílastæðaskilmálum fyrir lóðina. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi sínum 27. apríl s.á. Deiliskipulagstillagan var auglýst með athugasemdafresti frá 12. maí 2022 til og með 23. júní s.á. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 12. júlí 2022 var deiliskipu­lags­breytingin samþykkt. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu 17. ágúst s.á. Breytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. október 2022.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrirhugaðar séu verulegar breytingar á Skólabraut 10, en auk fjölgunar íbúða verði komið fyrir lyftuhúsi og garði lóðarinnar breytt í bílastæði. Kynningu á deiliskipulagsbreytingunni hafi verið afar ábótavant. Samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafi tillagan verið auglýst í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og á heimasíðu bæjaryfirvalda. Því hefði ekki verið þörf á sérstakri grenndarkynningu eða frekari tilraunum til að upplýsa íbúa. Eftirgrennslan kærenda hafi leitt í ljós að enginn íbúa Skólabrautar og Kirkju­brautar eða aðrir hlutaðeigandi hagsmunaaðilar hafi orðið var við auglýsingu um fyrirhugaðar breytingar, enda hefði hún birst aðeins einu sinni í hvoru blaðinu.

Í deiliskipulagsbreytingunni sé gerð undantekning frá þeirri meginreglu að gera ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hverja lóð. Níu bílastæði verði á lóð hússins, eitt fyrir hverja íbúð. Um leið megi gera ráð fyrir að öðrum bílum, sem annað hvort tilheyri íbúum eða gestum þeirra, verði lagt í götuna en þar séu ekki mörg bílastæði. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu bæjar­yfirvalda komi fram að um ríflega 40% fjölgun íbúða í götunni sé að ræða. Fjölgun bílastæða sé því ekki í neinu samræmi við fjölgun íbúða.

Við Skólabraut standi Mýrarhúsaskóli, Valhúsaskóli og Tónlistarskóli Seltjarnarness. Á hverjum degi fari um götuna tugir barna. Þá séu íbúðir fyrir eldri borgara einnig við götuna. Sú aukna bílumferð sem eigi eftir að fylgja umræddum breytingum hafi neikvæð áhrif á umferðar­öryggi skólabarna og eldri borgara. Engin tilraun virðist hafa verið gerð til að kynna fyrir­hugaðar breytingar á húsinu og afleiðingar þeirra á umferðaröryggi fyrir þeim sem málið varði, þ.e. íbúum hverfisins, skólastjórnendum og foreldrafélaginu og gefa þeim kost á að bregðast við. Engin svör hafi borist frá bæjaryfirvöldum um hvort gerð hefði verið viðunandi greining á áhrifum af fjölgun íbúða og aukningu á bílaumferð í „fjölförnustu og viðkvæmustu“ götu bæjarins. Samkvæmt erindisbréfi skipulags- og umferðarnefndar sé það á ábyrgð nefndarinnar að leitast við að ná því grundvallarmarkmiði að tryggja að ákvarðanir hennar og vinna séu fyrst og fremst í þágu allra íbúa sveitarfélagsins og setja ávallt almannahagsmuni ofar sér­hagsmunum.

Þá hafi ekki verið farið eftir leiðbeiningum Skipulagsstofnunar þar sem fram komi með afgerandi hætti að sveitarstjórn skuli vekja sérstaka athygli þeirra sem ætla megi að deiliskipu­lagsbreyting varði, t.d. með dreifibréfi eða kynningarfundi. Fordæmi séu fyrir því að halda slíka fundi.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að nokkuð umfangsmikil starfsemi hafi verið á Skólabraut 10, þ.e. vistheimili þar sem hafi búið allt að 18 einstaklingar auk starfsmanna og gesta. Síðustu samþykktu aðaluppdrættir hússins geri eingöngu ráð fyrir einu bílastæði á lóðinni. Húsið sé skráð 500,7 m2 að stærð. Raunveruleg bílastæðaþörf hússins hafi því verið nokkuð meiri en eitt bílastæði. Til að tryggja að breytt notkun hússins og fjölgun íbúða leiði ekki af sér verulega breytingu á notkun almennra bílastæða í götunni geri deili­skipulagsbreytingin ráð fyrir því að hverri íbúð fylgi eitt bílastæði innan lóðar. Ekki sé gert ráð fyrir að fleiri en einn bíll fylgi hverri íbúð að jafnaði þar sem um litlar íbúðir sé að ræða. Því muni breytingin ekki koma til með að auka álag á almenn bílastæði í götunni. Þá hafi fjölgun íbúða í húsinu ekki þær afleiðingar að umferðaröryggi minnki við götuna þar sem umtalsverð starfsemi hafi verið í húsinu fyrir. Hafi því ekki verið talin þörf á sérstakri umferðargreiningu vegna breytingarinnar.

Auglýsingar um kynningu tillögunnar hafi verið birtar í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Lögbirtingarblaðinu 12. maí 2022 líkt og lög geri ráð fyrir. Að auki hafi kynning tillögunnar verið auglýst á vefsíðu sveitarfélagsins. Auglýsing tillögunnar hafi því verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Ábendingar kærenda um að auka mætti við kynningu í tilvikum sem þessum, s.s. með sérstökum tilkynningum til þeirra sem eigi mestra hagsmuna að gæta, verði hafðar í huga við kynningu mála í framtíðinni. Sá háttur sem hafður hafi verið í því tilviki sem hér um ræði, þ.e. auglýsing skipulagstillögu, sé hugsaður til að ná til sem flestra sem mögulega eigi lögvarða hagsmuni af slíkri breytingu. Sveitarfélaginu þyki miður að kynningin hafi farið fram hjá hagsmunaaðilum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að árið 1995 hafi vistmenn á Skólabraut 10 verið 12 talsins og farið fækkandi síðan. Nú búi fimm vistmenn í húsinu. Síðustu 15 árin hafi aðeins einn vistmaður verið á bíl. Áður hafi tveir til þrír starfsmenn verið á vakt að staðaldri, en nú séu þeir einn til tveir. Þá séu gestakomur ekki margar. Því hafi bílastæðaþörfin ekki verið ýkja mikil. Á lóðinni sé innkeyrsla sem sé u.þ.b. 31 metri á lengd og fjórir metrar á breidd. Vel hafi verið hægt að koma bílum fyrir á lóðinni. Að staðaldri hafi eitt bílastæði verið notað í götunni af þeim eina vistmanni sem sé á bíl, en starfsfólk og gestir hafi notað bílastæðin á lóðinni. Ekki sé hægt að telja starfsemi í húsinu umfangsmikla. Engin greining hafi farið fram á bílastæðaþörf vegna deiliskipulagsbreytingarinnar. Það séu því aðeins getgátur bæjar­yfirvalda að ekki sé gert ráð fyrir að fleiri en einn bíll muni fylgja hverri íbúð að jafnaði og að breytingin komi ekki til með að auka álag á almenn bílastæði í götunni. Þá hafi engin umferðar­greining verið gerð og því sé að sama skapi ekki hægt að fullyrða um að umferðaröryggi skerðist ekki. Mikill umferðarþungi sé á götunni og skólayfir­völd brýni ítrekað fyrir foreldrum að haga akstri þannig að umferð teppist sem minnst og öryggi barna sé ekki ógnað.

Auglýsing um deiliskipulagsbreytinguna hefði birst aðeins einn dag, m.a. í fjölmiðlum þar sem krafist sé áskriftar. Engar athugasemdir hafi borist vegna auglýsingarinnar þar sem enginn hafi orðið hennar var en þess megi geta að allir þeir sem kærendur hefðu talað við séu á móti þessari deiliskipulagsbreytingu. Þegar bæjarbúar hafi komist að umræddri breytingu fyrir tilviljun hafi verið óskað eftir því við bæjaryfirvöld að staldra við og íhuga málið í samráði við bæjarbúa. Bæjar­­­yfirvöld hafi hins vegar ekki orðið við þeirri ósk. Ljóst sé að bæjaryfirvöld taki hagsmuni fjár­festa, sem séu eigendur Skólabrautar 10, og hafi óskað eftir umræddri deiliskipulags­breytingu, umfram hagsmuni íbúa, skólabarna og næstu nágranna sem þurfi að búa við verulega skertar aðstæður ef af breytingum verði.

Kærendur ítreki að sveitarfélagið hafi ekki farið eftir leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um breytingar á deiliskipulagi en í þeim komi m.a. fram að verulega breytingu deiliskipulags skuli auglýsa í Lögbirtingablaði og með áberandi hætti, t.d. í dagblaði sem er sé dreift á landsvísu. Auk lögboðinnar kynningar sé mælt með því að sveitarstjórn veki sérstaka athygli þeirra sem ætla megi að breytingin varði, t.d. með dreifibréfi eða kynningarfundum. Setja megi spurningarmerki við auglýsingarnar sem birtar hefðu verið í smáauglýsingum Atvinnublaðs Morgunblaðsins og smáauglýsingum Fréttablaðsins en ekki sé hægt að telja að þær hafi birst með áberandi hætti. Engin kynning hafi farið fram en bæjaryfirvöld sendi annað slagið upplýsingar til bæjarbúa með skilaboðum í síma, tölvupósti og dreifibréfum sem borin séu í hús varðandi ýmislegt, t.d. hátíðahöld, og því ættu bæjaryfirvöld að geta gert slíkt hið sama þegar mikið liggi við.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 17. ágúst 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistar-svæðis vegna lóðarinnar nr. 10 við Skólabraut.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulagsáætlana. Við ákvarðanir um deiliskipulag ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulags­valdi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Þessu valdi eru settar skorður með kröfu um samræmi við aðal­skipulagsáætlanir, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna og er sveitarstjórn jafnframt bundin af megin­reglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga skal fara með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða með því fráviki að ekki er skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Sú undantekning er gerð í 2. mgr. 43. gr. sömu laga að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins, skuli fara fram grenndarkynning.

Tillagan að umræddri deiliskipulagsbreytingu var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga frá 12. maí til 23. júní 2022. Að loknum auglýsingartíma samþykkti skipulags- og umferðarnefnd deiliskipulagsbreytinguna og var hún send til Skipulagsstofnunar, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 41. gr. laganna, sem taldi ekki ástæðu til að taka málið til athugunar, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 42. gr. laganna. Var málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Ekki kemur fram í ákvæðum laganna að grenndarkynna þurfi breytingu á deiliskipulagi þegar hún er auglýst með almennum hætti.

­­Í Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 kemur fram að byggð á Seltjarnarnesi sé almennt fremur lágreist og einkennist af einnar til tveggja hæða sérbýli, sérhæðum í þriggja til fjögurra hæða húsum og tiltölulega fáum fjölbýlishúsum. Um íbúðarsvæði segir að eldri hverfi Seltjarnarness séu að stærstum hluta fullmótuð og fullbyggð. Í skilmálum um íbúðarbyggð kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á yfirbragði og byggðamynstri þeirra íbúðarsvæða sem þegar séu byggð, svo sem meginlínum í hæð húsa og þéttleika byggðar. Allar breytingar er varði viðhald húsa og lóða skuli unnar með það að leiðarljósi að bæta umhverfi og yfirbragð byggðar. Samkvæmt aðalskipulaginu er lóðin Skólabraut 10 á íbúðarsvæði ÍB-1 og byggðin fastmótuð. Þar séu hæðir, einbýlis- og raðhús. Nýtingarhlutfall lóða á íbúðar­svæðum sé allt að 0,6.

Fjallað er um lóðir íbúðarhúsa við Skólabraut í sérstökum kafla í skilmálum deiliskipulags fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði. Með hinni kærðu ákvörðun var skilmálum þessum breytt þannig að íbúðum fjölgaði úr 19 í 27. Þá var skilmálum um bílastæði breytt vegna Skólabrautar 10 og gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð innan lóðar í stað tveggja. Samkvæmt greinargerð á deiliskipulagsuppdrætti verða gerðar breytingar á innra fyrirkomulagi og ásýnd hússins, en allar breytingar taki mið af núverandi burðarkerfi þess og þar með verði grunnflötur byggingarinnar ekki stækkaður. Þá verði gerðar svalir fyrir íbúðir á 2. hæð á norður- og suðurhlið og nýtt stigahús byggt með lyftu og inngangi á austurhlið. Einnig verði gerðar breytingar á þakformi 3. hæðar sem verði einhalla sem lækki til norðurs. Á þaki 2. hæðar verði þaksvalir. Samkvæmt framansögðu fer hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki í bága við gildandi aðalskipulag og stefnu þess, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Fjallað er um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir í 1. mgr. að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á ásýnd, útsýni, hljóðvist og loftgæði eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Áætla skal áhrif af t.d. umferð, hávaða og umfangsmiklum mann­virkjum, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Sé um breytingu á deiliskipulagi að ræða skal gera grein fyrir áhrifum hennar á umhverfið með nýju umhverfismati ef við eigi, sbr. gr. 5.8.5.2. í reglugerðinni.

Ljóst er að andlag umhverfismats deiliskipulags er breytilegt eftir efni og umfangi skipulagsins. Við umrædda breytingu fjölgar íbúðum í götunni um átta sem er aukning um 40%. Verður að telja að tilefni hafi verið til að gera grein fyrir áhrifum breytingarinnar á umferð í greinargerð deiliskipulagsins. Ekki verður séð að slíkt mat hafi farið fram við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Í málsrökum sveitar­félagsins er vísað til þess að umtalsverð starfsemi hefði verið fyrir í húsinu og því ekki talið að fjölgun íbúða hefði þær afleiðingar að umferðaröryggi myndi skerðast. Aðaluppdrættir hússins gerðu ráð fyrir einu bílastæði á lóðinni og hafi sveitarfélagið talið að raunveruleg bílastæðaþörf hefði verið nokkuð meiri. Til að tryggja að breytt notkun hússins og fjölgun íbúða myndi ekki leiða af sér breytingu á notkun almennra bílastæða í götunni gerði deiliskipulagsbreytingin ráð fyrir því að hverri íbúð fylgdi eitt bílastæði innan lóðarinnar. Ekki sé gert ráð fyrir að fleiri en einn bíll fylgi hverri íbúð að jafnaði þar sem um litlar íbúðir sé að ræða. Taka verður undir sjónarmið sveitarfélagsins um að áhrif breytingar-innar á umferðaröryggi séu óveruleg.

Þrátt fyrir framangreindan ágalla á málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar verður hann ekki talinn þess eðlis að ógildingu varði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 17. ágúst 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði vegna lóðarinnar nr. 10 við Skólabraut.

16/2023 Hlíðarhvammur

Með

Árið 2023, mánudaginn 17. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 16/2023, kæra vegna stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag kærir A stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. febrúar 2023.

Málsatvik og rök: Í kæru eru rakin samskipti kæranda við stjórnvöld Kópavogsbæjar frá árinu 2013 til og með 12. ágúst 2022. Samskiptin má rekja til deilna vegna tveggja bílastæða sem gerð voru inn á lóð Hlíðarhvamms 7 árið 2009. Við þá framkvæmd fækkaði almennum bílastæðum í götunni. Kærandi telur að um „óleyfisframkvæmd“ hafi verið að ræða og hefur bent bæjaryfirvöldum á að með henni hafi ekki létt á bílastæðavanda í götunni og hafi bílastæðin auk þess sjaldan verið notuð sem geymsla fyrir farartæki.

Fyrir liggur bréf byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til kæranda dags. 5. ágúst 2022, þar sem vísað er til mæliblaðs frá 2013, sem sýni fram á að gert hafi verið ráð fyrir bílastæðum á umræddum stað og því sé ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Hefur bréfið með þessu fyrst og fremst að geyma ábendingu um efni mæliblaðs.

Af hálfu Kópavogsbæjar hefur því verið hafnað við að eigendur að Hlíðarhvammi 7 hafi í heimildarleysi útbúið bílastæði á lóð sinni og nýtt þannig þann hluta götunnar sem liggi samsíða innkeyrslunni. Hafi bílastæðin á lóð nr. 7 verið útbúin árið 2009 og sagað hafi verið úr gangstéttarkanti og það verk unnið af starfsfólki Kópavogsbæjar, á kostnað lóðarhafa. Þá er bent á að ekki liggi fyrir ákvörðun í málinu sem sætt geti kæru.

Hlíðarhvammur sé ódeiliskipulagt svæði og bílastæðin sem kvartað sé undan standi inni á lóð, íbúa að Hlíðarhvammi 7. Samkvæmt útgefnu mæliblaði sé gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni. Mæliblaðið sé gefið út 4. júlí 2013 og skoðist sem hluti lóðarleigusamnings sem endurnýjaður hafi verið í júlí 2020.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Af gögnum málsins má ráða að kæranda hefur verið kunnugt um gerð hinna umdeildu bílastæða frá árinu 2009. Þegar samskipti aðila eru rakin sést að síðast barst svar til kæranda frá byggingarfulltrúa 5. ágúst 2022. Kæra þessi barst úrskurðarnefndinni 24. janúar 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að í málinu liggi fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Einnig er litið til þess að rúmir fimm mánuðir liðu frá því að svar bars frá byggingarfulltrúa þar til kæra barst nefndinni. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

149/2022 Naustabryggja

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson vara­formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2022, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur­borgar frá 30. nóvember 2022 um að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. desember 2022, kærir Lóðafélag Naustabryggju 21–29 og 41–57 þá ákvörðun umhverfis- og skipulags­ráðs Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2022 að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. febrúar 2023.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en frá árinu 2017 hefur húsfélag Naustabryggju 31–33 og Reykjavíkurborg átt í nokkrum samskiptum vegna bílastæða fyrir hreyfihamlaða fyrir hús nr. 31–33 við Naustabryggju. Hinn 24. nóvember 2019 fór félagið fram á að skilyrðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða yrði fylgt og a.m.k. þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðal-inngangi stigaganga í húsi á lóð Naustabryggju 31–33. Með bréfi byggingarfulltrúa til hús-félagsins, dags. 22. janúar 2020, var bent á að fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Myndi embættið því ekki aðhafast frekar vegna málsins. Var sú afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem felldi hana úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 28. ágúst 2020 í máli nr. 15/2020. Vísaði nefndin m.a. til þess að ákvæði gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð um fjarlægð bílastæða fyrir hreyfihamlaða frá aðalinngangi væri ekki uppfyllt. Engu gæti breytt í því efni þótt fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda gæti deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingarreglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skyldu samþykktir aðaluppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Í kjölfar úrskurðarins var embætti byggingarfulltrúa í samskiptum við kæranda máls nr. 15/2020 og lagði til að gert yrði bílastæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi við norðausturhorn hússins nr. 31–33 við Naustabryggju, en þeirri tillögu var hafnað af hálfu húsfélagsins þar sem bílastæðið fullnægði ekki kröfum byggingarreglugerðar. Með tölvupósti byggingarfulltrúa 5. mars 2021 kom fram að honum þætti ljóst að krafa kæranda fæli í sér að gerð yrðu bílastæði á aðliggjandi lóð, Nausta­bryggju 35–57, og hún minnkuð sem því næmi. Ekki væri mögulegt að verða við þeirri kröfu án samþykkis viðkomandi lóðarhafa og embættið myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 14. september 2021, í máli nr. 39/2021. Með hliðsjón af þeim úrræðum skipulagslaga sem stæðu Reykjavíkurborg til boða, þ. á m. að breyta deiliskipulagi, heimila skiptingu lóða og ráðast í eignarnám, féllst úrskurðarnefndin ekki á með borgaryfirvöldum að ómöguleiki væri fyrir hendi.

 Á fundi skipulagsfulltrúa 11. febrúar 2022 var tekin fyrir tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna lóðarinnar Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19 og 31–33 og aðliggjandi borgarlands. Í tillögunni fólst að skilgreind yrðu tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða, eitt á borgarlandi og annað innan umræddrar lóðar. Samþykkti skipulagsfulltrúi að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi fyrir hagsmunaaðilum að Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19, 21, 29, 31–33, 55 og 57. Tillagan var auglýst til kynningar 7. mars 2022 og var athugasemdafrestur veittur til 4. apríl s.á. Á kynningartíma bárust sjö athugasemdir, þ. á m. ein frá kæranda í máli þessu. Tillagan var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 23. nóvember 2022 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. s.m. Var tillagan samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt um stjórn Reykjavíkur­borgar og fundarsköp borgarstjórnar. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2022.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir honum þó svo að aðkoma að öðru því bílastæða sem hér um ræði sé eingöngu um aðkomulóð sem sé einkalóð kæranda. Þá hafi málið aðeins verið kynnt fyrir hluta þeirra fasteignaeigenda sem um ræði, en eigendur fasteigna í Naustabryggju 41–53 hafi ekki verið gert viðvart um fyrirhugaða deiliskipulagsbreytingu þrátt fyrir að eiga aðild að kæranda og þar með eignaraðild að áðurnefndri aðkomulóð. Eðli málsins samkvæmt verði umrætt bílastæði ekki nýtt fyrir aðra en fasteignaeigendur Naustabryggju 21–29 og 41–57.

Bílastæðið sé staðsett á gangstíg sem sé mikilvæg tenging milli hverfisins og sjávar. Áhersla sé lögð á að umræddum gangstíg verði haldið sem slíkum. Einnig sé bent á að aðkoma að sorptunnum hússins nr. 21 við Naustabryggju sé um umræddan gangstíg og því skipti máli að hann sé vel greiðfær. Enn fremur sé því mótmælt að fyrir nokkru hafi verið sett upp skilti fyrir umrætt bílastæði og það merkt með málningu áður en tillagan hafi verið borin upp við hlutaðeigandi og þar með áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Kærandi hafi sjálfur komið fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða inni á sinni einkalóð og öðrum húsfélögum hverfisins ætti sömuleiðis að vera slíkt í lófa lagið. Þá sé samkvæmt deiliskipulagi gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í bifreiðakjallara undir húsunum nr. 31–33 við Naustabryggju en þeim húsum fylgi sömuleiðis bílastæði ofanjarðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að tillagan hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir kæranda þar sem hún var ekki talin hafa áhrif á hagsmuni hans. Kærandi hafi engu að síður komið að athugasemdum við tillöguna og geti hann þar af leiðandi ekki borið fyrir sig að hafa ekki haft tækifæri til að tjá sig um hana.

Aðkoma að því bílastæði sem sé á borgarlandi sé í gegnum aðkomulóð og sé hún m.a. í þágu kæranda, en lóðin sé einnig aðkomulóð fyrir Naustabryggju 21–29 og 55–57. Gert sé ráð fyrir að hreyfihamlaðir geti almennt nýtt stæðið, enda verði það ekki sérmerkt neinni lóð til afnota. Ekki sé hægt að líta svo á að það sé á hendi lítils hluta handhafa aðkomulóðarinnar að koma í veg fyrir að aðrir aki um lóðina eða að leita þurfi samþykkis allra eigenda fyrir slíkri umferð. Umferð vegna stæðisins verði mjög óveruleg og hafi staðsetning þess og notkun ekki áhrif á hagsmuni kæranda svo nokkru varði. Ekki sé heldur fallist á að staðsetning þess skerði tengingu milli hverfisins og sjávar þar sem sú gönguleið sé órofin og hindrunarlaus.

 Athugasemdir húsfélags Naustabryggju 31–33: Húsfélag Naustabryggju 31–33 bendir á að uppsetning bílastæðis á borgarlandi hafi verið leið Reykjavíkurborgar til að uppfylla skilyrði í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Stæðið sé í dag nýtt oftar en ekki af sama ökumanni og hafi reiturinn verið nýttur reglulega til þess að leggja áður en stæðið hafi verði merkt fyrir hreyfi­hamlaða. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tvívegis úrskurðað húsfélaginu í vil varðandi þá skyldu Reykjavíkurborgar að uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar um bílastæði hreyfihamlaðra.

Síðastliðin sex ár hafi íbúar Naustabryggju 31–33 reynt að benda Reykjavíkurborg á hand­vömm við útgáfu byggingarleyfis sem hafi gert það að verkum að húsið hafi verið byggt við einkalóð kæranda. Húsfélagið hafni því að borgaryfirvöld uppfylli fyrrgreinda skyldu sína með því að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða annars staðar en á lóð Naustabryggju 17, Naustabryggju 31–33 og Tangabryggju 6–12. Fallist úrskurðarnefndin á sjónarmið kæranda sé staðan sú að Naustabryggju 31–33 sé í raun eyland í þessu hverfi. Síðastliðin sex ár hafi íbúum verið óheimilt að nota lóðina fyrir framan húsið til að sinna viðhaldi sem krefjist notkunar vinnupalla og annarra vinnuvéla sem eðli málsins samkvæmt þurfi athafnasvæði og aðkomu. Þá uppfylli bílastæði á lóð milli Tangabryggju 12 og Naustabryggju 31–33 eftir sem áður ekki skilyrði um fjarlægð frá aðalinngangi Naustabryggju 31.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar málsrök úr kæru og bendir á að uppsetning bílastæðis fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi felist beinlínis í sér ólögmæta eignaupptöku þar sem aðkoma að því stæði sé í gegnum einkalóð hans. Bílastæðið sé á miðjum gangstíg og ef bifreið sé lagt í það geti verið erfitt eða jafnvel ómögulegt að aka barnavagni eftir stígnum. Þá bendi lausleg athugun til að víðast hvar sé lengra frá bílastæði fyrir hreyfihamlaða að útidyrum en fjarlægð frá því bílastæði sem verði milli Naustabryggju 31–33 og Tangabryggju 12 og aðalinngangi Naustabryggju 31.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra fyrir Naustabryggju 31–33. Í breytingunni felst að á skipulags-uppdrætti eru skilgreind tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða, annars vegar á borgarlandi og hins vegar innan lóðarinnar Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19 og 31–33.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur kærandi fundið að því hvernig staðið var að grenndarkynningunni þar sem tillagan hafi ekki verið kynnt fyrir honum þrátt fyrir að aðkoma að bílastæði á borgarlandi sé í gegnum einkalóð hans. Með hliðsjón af þeim aðstæðum verður að fallast á með kæranda að Reykjavíkurborg hefði borið að grenndarkynna fyrir honum deiliskipulagstillöguna. Aftur á móti verður ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum vegna þessa þar sem hann kom að athugasemdum við kynningu tillögunnar og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. nóvember 2022. Verður að öðru leyti ekki annað séð en að málsmeðferðin hafi verið í samræmi við skipulagslög.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 123/2010. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna og er skv. 43. gr. heimilt að breyta deiliskipulagi. Sveitarstjórn hefur mat um það hvernig deiliskipulagi eða breytingu á því skuli háttað svo fremi það mat byggi á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum.

Eins og rakið er í málavöxtum var undanfari hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar úrskurðir úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 15/2020 og 39/2021, en í málunum voru felldar úr gildi ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík um að hafna kröfum húsfélags Naustabryggju 31–33 um að tryggt yrði aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða í samræmi við ákvæði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 18. nóvember 2022 segir að með deili-skipulags­breytingunni sé verið að svara fyrrgreindum niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar um að tryggja skuli án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31–33. Lágu því efnis- og skipulagsrök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar af þeim sökum hafnað.

Rétt þykir að benda á að deiliskipulag getur ekki haft áhrif á bein eða óbein eignarréttindi en sé sýnt fram á að gildistaka skipulagsáætlana  hafi haft í för með sér fjártjón getur sá sem telur sig hafa orðið fyrir því  átt rétt á bótum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Úr slíkum ágreiningi verður hins vegar ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur­borgar frá 30. nóvember 2022 um að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra.

139/2022 Kuggavogur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 139/2022, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 24. október 2022 um álagningu skipulagsgjalds vegna stæðis í bílageymslu í húsinu að Kuggavogi 3, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 9. desember 2022, kærir eigandi íbúðar, F2511050, að Kuggavogi 3, Reykjavík, ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 24. október 2022 um álagningu skipulagsgjalds vegna stæðis í bílageymslu sem tilheyrir fasteign hans. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að hið kærða skipulagsgjald, sem kærandi hafi þegar greitt, verði endurgreitt með dráttarvöxtum frá 1. desember 2022.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 31. janúar 2022.

Málavextir: Hinn 15. mars 2022 óskaði byggingaraðili Kuggavogs 3 eftir brunabótamati fyrir 16 íbúðir í húsinu. Var íbúð kæranda, F2511050, metin til brunabóta af hálfu Þjóðskrár Íslands 24. s.m. og byggingaraðila og kæranda tilkynnt um nýtt brunabótamat íbúðarinnar með bréfi, dags. 28. s.m.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sendi kæranda bréf, dags. 12. september 2022, þar sem hann var upplýstur um skyldu húseiganda til að brunatryggja húseign sína samkvæmt lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar vegna matshluta 05 239-9337, sem væri bílageymsla fasteignarinnar. Kom fram að ef ekki bærist svar innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi stofnunin reikna brunabótamat án skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga hjá stofnuninni. Þá yrði skipulagsgjald, 0,3% af brunabótamatsfjárhæð innheimt af Fjársýslu ríkisins í samræmi við 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi óskaði eftir að bílastæðið yrði metið til brunabóta hinn 23. s.m. og var brunabótamatið ákvarðað samdægurs af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Skipulagsgjald var í kjölfarið lagt á og gefinn út reikningur, dags. 24. október 2022, með gjalddaga 1. nóvember s.á. Kærandi skilaði samdægurs inn útfylltu eyðublaði með beiðni um breytingu á skipulagsgjaldi til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Með tölvupósti 7. nóvember s.á. upplýsti starfsmaður Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kæranda að um væri að ræða skipulagsgjald af bílastæðahúsi sem væri önnur nýbygging og annar matshluti. Skipulagsgjald félli á þá byggingu þegar byggingarfulltrúi hefði tilkynnt hana tilbúna eða tekna í notkun, en slíkt gerðist ekki alltaf á sama tíma og íbúðin væri tilbúin til virðingar. Í þeim tilvikum þyrfti að greiða af báðum nýbyggingum og ekki á sama tíma. Þá kom fram í lok tölvupóstsins: „[Á] heimasíðunni https://uua.is/ má finna kæruheimild til Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála ef þú vilt láta reyna á þetta.“ Með tölvupósti, dags. 14. s.m. óskaði kærandi eftir útskýringum á því hvort skilja hefði átt tölvupóstinn frá 7. nóvember sem svar við beiðni um endurmat á álagninu skipulagsgjalds. Tölvupóstinum var svarað samdægurs af starfsmanni stofnunarinnar þar sem sagði: „Þetta er þannig að fyrst er sett brunabótamat á íbúðina hjá þér og þá þarftu að greiða skipulagsgjald af henni. Síðan seinna er sett brunabótamat á bílgeymslu sem þú átt í sameign með öðrum og þá þarftu að greiða skipulagsgjald [af] þínum hlut þar.“ Kærandi svaraði tölvupóstinum samdægurs þar sem fram kom að þar sem stofnunin hefði bent honum á kæruheimildir yrði hann að túlka það sem svo að um hafi verið að ræða svar við beiðni um endurmat.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hvergi í lögum og reglugerðum sé vísað til þess að skipulagsgjald skuli lagt á hvern matshluta fyrir sig, enda myndi það hafa í för með sér töluverða breytingu á innheimtu skipulagsgjalds. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vísi til þess að í kjallara hússins við Kuggavog sé bílakjallari sem sé sameiginlegur með öllum stigagöngum hússins. Bílakjallarinn sé ekki með sérstakt fasteignanúmer heldur deili fasteignanúmeri með íbúðinni og því haldi sú fullyrðing ekki vatni að bílakjallarinn sé önnur bygging en íbúðarhluti hússins. Um sömu byggingu sé að ræða og því sé skipulagsgjaldið í andstöðu við lög og reglugerðir um skipulagsgjald sem taki skýrt fram að gjaldið skuli einungis leggja á einu sinni. Skipulagsgjald sem lagt hafi verið á í maí hafi verið án allra fyrirvara og ekki tekið fram að um væri að ræða fyrstu greiðslu af tveimur eða fleiri og hafi kærandi því ekki mátt búast við fleiri greiðslum tengdum skipulagsgjaldi.

 Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Bent er á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli metin brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar lauk eða eftir að hún hafi verið tekin í notkun. Eigandi beri ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. sömu laga annist Húsnæðis- og mannvirkjastofnun virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og sé heiti þeirrar gerðar brunabótamat. Markmið brunabótamats sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma er virðing fari fram. Matið taki til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geti af eldi og miðist við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Nánar sé kveðið á um tilhögun brunabótamats í reglugerð nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu.

Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats, sbr. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemi a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Skipulagsgjald verði fyrst lagt á og innheimt þegar brunabótamat liggi fyrir.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald skuli Fasteignamat ríkisins, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar eða stofnverðs þar sem það eigi við, þegar virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hafi farið fram eða stofnverð tilkynnt og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.

Fasteignin Kuggavogur 3, F2511050, samanstandi af tveimur matshlutum. Matshluta 01 239-3267 (íbúðareign) og matshluta 05 239-9337 (stæði í bílageymslu). Ekki hafi verið hægt að virða bílakjallarann til brunabótamats á sama tíma og íbúðareignina þar sem hann hafi ekki verið fullbúinn á þeim tíma. Þrátt fyrir orðalag ákvæðis um að einungis skuli greiða skipulagsgjald einu sinni beri að líta til þess að um eina álagningu sé að ræða á einni og sömu fasteign kæranda sem megi segja að hafi í för með sér að álagning skipulagsgjaldsins birtist í tveimur greiðslum þar sem bílakjallari, sem sé hluti fasteignarinnar, hafi ekki verið fullbúinn þegar þáverandi eigandi fasteignarinnar hafi óskað eftir upphaflegu brunabótamati. Það sé mat stofnunarinnar að ekki sé tækt að túlka orðalag ákvæðisins með svo bókstaflegum hætti líkt og kærandi vilji meina. Slík túlkun fæli í sér að kærandi komist hjá því að greiða hluta skipulagsgjaldsins, þ.e. því sem tilheyri matshluta 05 239-9337 (stæði í bílageymslu) fasteignarinnar miðað við það tímamark þegar brunabótavirðing hafi átt sér stað. Þessi framkvæmd sem feli í sér að matshlutar fasteigna séu virtir til brunabóta þegar þeir séu fullbúnir og teknir í notkun hafi viðgengst áralangt athugasemdalaust en valdi því að skipulagsgjaldið í heild sinni falli í gjalddaga á mismunandi tímapunktum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Skýrlega komi fram í 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að greiða skuli skipulagsgjald í eitt skipti. Skipulagsgjald teljist til opinberra álagðra gjalda sem séu íþyngjandi ákvörðun sem ekki sé heimilt að leggja á nema með stoð í lögum. Ákvæði sem varði opinber gjöld skuli ætíð túlka þröngt og í hag skattgreiðanda. Alvarleg athugasemd sé gerð við þá rúmu túlkun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á jafn skýrum ákvæðum og varði skipulagsgjöld. Ekki verði séð að hægt sé að túlka orðalag íþyngjandi ákvæðis með svo rúmum hætti né sé hægt að túlka það á annan hátt en svo að um sé að ræða gjald sem greiða skuli í eitt skipti. Stofnuninni beri sem ríkisstofnun að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og sinna leiðbeiningarskyldu sinni. Á greiðsluseðli, dags. 28. mars 2022, hafi þess hvergi verið getið að um væri að ræða fyrri greiðslu af tveimur og stofnunin hafi ekki upplýst hann um að skipulagsgjald yrði innheimt í tveimur hlutum. Kærandi hafi því mátt vænta þess, með vísan til skýrra lagaheimilda, að um væri að ræða skipulagsgjald sem greitt væri í eitt skipti og því um fullnaðargreiðslu að ræða. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi sem ríkisstofnun borið að sjá til þess að borgarar séu upplýstir um að greiðsla skipulagsgjald kunni að vera greidd í fleiri en einum hluta.

Í umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar komi fram að kæranda hafi verið send áskorun, dags. 12. september 2022, þar sem upplýst hafi verið um skyldu húseigenda til að brunatryggja húseign sína vegna matshluta 05 239-9337. Hvergi hafi hins vegar komið fram að um væri að ræða annan matshluta eignarinnar en þann sem þá þegar hafði verið brunatryggður og skipulagsgjald greitt af. Kærandi hafi þurft að ganga eftir því með símhringingum að fá upplýsingar um af hverju hann væri að fá umrædda áskorun, enda hefði hann staðið í þeirri meiningu að brunabótamat hafi þá þegar verið sett á fasteignina. Honum hafi verið leiðbeint um að fylla út umsókn á vefsíðu Þjóðskrár, F-503 Beiðni um fyrsta brunabótamat, og láta koma fram að um bílastæði væri að ræða. Samkvæmt umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi kærandi óskað eftir brunabótamati fyrir bílastæðið en í raun hafi kærandi verið að senda stofnuninni upplýsingar til leiðréttingar á áskoruninni, dags. 12. september 2022, enda hefði hann tekið fram í athugasemdum að brunabótamat hafi nú þegar verið lagt á fasteignina.

Með greiðsluseðli til kæranda, dags. 24. október 2022 hafi borist reikningur vegna skipulagsgjalds á stæði í bílageymslu. Þar sem þá þegar hafi verið búið að greiða skipulagsgjald af eigninni hafi hann fylgt leiðbeiningum sem hann hafi fengið símleiðis frá stofnuninni og fyllt út eyðublað um endurmat á skipulagsgjaldi. Í stað þess að fá ákvörðun vegna umsóknar á endurmati hafi hann fengið óljósan tölvupóst. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um frekari skýringar og upplýsingar um hvort væri að ræða ákvörðun í tengslum við umsókn um endurmat hafi engin svör fengist né efnisleg ákvörðun. Kæranda hafi ekki verið ljóst að um kæranlega ákvörðun væri að ræða þegar fyrrgreindur tölvupóstur barst honum. Um sé að ræða fjöleignarhús með bílakjallara undir húsinu og því vandséð hvernig hægt sé að skilgreina það sem tvær sjálfstæðar nýbyggingar líkt og vísað hafi verið til í tölvupóstsamskiptum við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Á engum tímapunkti hafi stofnunin upplýst um að ekki væri hægt að virða bílakjallarann til brunabótamats á sama tíma og íbúðareignina né að um tvo matshluta væri að ræða sem greitt yrði skipulagsgjald af í tveimur hlutum. Kærandi hafi verið í góðri trú um að öll gjöld hefðu verið greidd og ótækt sé að hann beri hallann af óvönduðum vinnubrögðum sem gangi í berhögg við vandaða stjórnsýsluhætti og stjórnsýslulög.

 Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berist að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Hin umdeilda ákvörðun var send kæranda með tölvupósti 7. nóvember 2022, en kæra barst nefndinn 9. desember s.á. Orðalag hinnar kærðu ákvörðunar var nokkuð óljóst að efni auk þess sem leiðbeiningar um kæruheimild uppfylltu ekki skilyrði 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki var tilgreindur kærufrestur. Með vísan til þessa verður að teljast afsakanlegt að kæra þessi hafi borist nefndinni að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Í 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna skal húseigandi óska eftir brunabótamati eigi síðar en 4 vikum eftir að nýtt hús er tekið í notkun.

Fasteign kæranda að Kuggavogi 3, F2511050, skiptist samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í tvær matseiningar, annars vegar íbúð á hæð og hins vegar stæði í bílageymslu. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá var sá matshluti fasteignarinnar sem telst til íbúðar á hæð skráður á byggingarstig 6 hinn 28. mars 2022. Stæði í bílageymslu, sem er hinn matshluti umræddrar fasteignar, var skráður á byggingarstig 6 hinn 12. september s.á.

 Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar er skylt að meta vátryggingarskyldar húseignir eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu þeirra lauk eða þær hafa verið teknar í notkun. Bar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun því skylda til að virða íbúðarhluta fasteignar kæranda til brunabóta innan fjögurra vikna eftir að byggingarfulltrúi tilkynnti að byggingu lauk, sem og gert var. Þar sem ákvæði 3. mgr. 17. gr. laga nr. 123/2010 kveður á um að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hefur farið fram var skipulagsgjald þá þegar lagt á þann hluta fasteignarinnar sem búið var að virða til brunabóta. Sá matshluti fasteignar kæranda, sem er stæði í bílageymslu, var ekki skráður fullgerður fyrr en tæpum sex mánuðum síðar og var þá fyrst hægt að virða þann hluta fasteignarinnar til brunabóta. Í kjölfarið féll skipulagsgjald þess matshluta í gjalddaga.

Fasteign kæranda skiptist í tvo matshluta sem hvor um sig ber sjálfstætt brunabótamat og mynda saman stofn sem skipulagsgjald fasteignarinnar er reiknað út frá. Þar sem byggingu matshlutanna tveggja lauk ekki á sama tíma var ekki hægt að virða fasteignina til brunabóta í heild sinni þegar íbúðin, þ.e. fyrri matshlutinn, taldist fullbúin. Þrátt fyrir að í 2. mgr. 17. gr. laga nr. 123/2010 komi fram að einungis skuli greiða skipulagsgjald í eitt skipti af nýbyggingum sem virtar séu til brunabóta er ekki hægt að fallast á þá túlkun að sé byggingu mannvirkis lokið í áföngum beri einungis að greiða skipulagsgjald af þeim hluta sem fyrst sé virtur til brunabóta. Þrátt fyrir að innheimta skipulagsgjalds fyrir umrædda fasteign hafi farið fram í tveimur hlutum verður ekki talið að gjaldið hafi verið innheimt oftar en einu sinni í skilningi 2. mgr. 17. gr. laga nr. 123/2010 enda hafði þá einungis verið greitt skipulagsgjald af hluta fasteignarinnar.

Í tilkynningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til kæranda um brunabótamat, dags. 28. mars 2022, eru matshlutar fasteignar hans skýrt aðgreindir í annars vegar matseiningu 01-0407, íbúð á hæð, og hins vegar matseiningu 05-B131, stæði í bílageymslu. Í tilkynningunni er gildandi brunabótamat íbúðar tilgreint kr. 43.900.000, en að eldra brunabótamat hafi verið kr. 0. Gildandi brunabótamat fyrir stæði í bílageymslu er hins vegar tilgreint kr. 0, sem er óbreytt frá eldra brunabótamati. Þá er á reikningi fyrir skipulagsgjaldi, sem var innheimt í kjölfarið, tekið fram að um sé að ræða skipulagsgjald fyrir íbúð. Hefði kærandi þannig mátt gera sér það ljóst að einungis var búið að virða hluta fasteignar hans til brunabóta.

Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því þegar hann greiddi skipulagsgjald af þeim matshluta fasteignarinnar sem telst til íbúðar að þá ætti eftir að greiða skipulagsgjald af hinum matshluta hennar, sem er stæði í bílageymslu, leiðir það ekki til þess að honum sé ekki skylt að inna af hendi þá greiðslu. Þá verður að telja að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki verið upplýstur sérstaklega um að greiðsla skipulagsgjalds af íbúðarhluta fasteignarinnar væri ekki fullnaðargreiðsla þykir það ekki geta haft á gildi ákvörðunarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu kæranda um ógildingu og endurgreiðslu hins kærða skipulagsgjalds hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 24. október 2022 um álagningu skipulagsgjalds vegna stæðis í bílageymslu í húsinu að Kuggavogi 3, Reykjavík.

142/2022 Eima í Ölfusi

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 142/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 25. október 2022 um að synja umsókn kæranda um gerð deiliskipulags í landi Eimu í Ölfusi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hellisbraut 42, Reykhólum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 25. október 2022 að synja umsókn hans um nýtt deiliskipulag í landi Eimu í Ölfusi. Verður að skilja málsskot kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 18. janúar 2023.

Málavextir: Samkvæmt fasteignaskrá er landið Eima í Ölfusi 66,8 ha að stærð og er skráður eigandi þess Selvogur ehf. sem er í eigu kæranda. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Í lok maí 2021 mun kærandi hafa leitað til skipulagsfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss vegna mögulegrar uppbyggingar á svæðinu. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 23. september s.á. var lagt fram erindi kæranda um að land hans yrði skilgreint sem frístundabyggð í nýju aðalskipulagi sem væri í vinnslu hjá sveitarfélaginu. Var málinu vísað til nefndar um heildarendurskoðun aðalskipulags og tekið fyrir á fundi hennar 19. nóvember s.á. Bókað var í fundargerð að umrætt svæði nyti hverfisverndar og stefna sveitarfélagsins væri sú að unnið yrði deiliskipulag af öllu svæðinu áður en frekari uppbygging yrði leyfð.

Kærandi sendi inn tillögu að deiliskipulagi til sveitarfélagsins sem tekin var fyrir á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 19. október 2022. Tillagan náði til svæðis á landi kæranda um 28 ha að stærð og samkvæmt henni væri heimilt að skipta svæðinu í fjórar lóðir þar sem byggð yrðu mannvirki í samræmi við gr. 3.2.1. í greinargerð þágildandi aðalskipulags. Í fundargerð var m.a. vísað til heimilda væntanlegs aðalskipulags og þess að heimildir deiliskipulagstillögunnar væru „rýmri en þær sem gilda, bæði í eldra aðalskipulagi, sem landeigandinn virðist horfa til, sem og í nýju aðalskipulagi.“ Taldi nefndin ákjósanlegra að á svæðinu yrði gert deiliskipulag fyrir fjögur stök frístundahús á sérlóðum í samræmi við heimildir í væntanlegu aðalskipulagi, en samkvæmt þeim mætti byggja fjögur frístundahús á landi af þeirri stærð sem um ræddi. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu nefndarinnar með bréfi, dags. 21. október 2022. Á fundi bæjarstjórnar 25. s.m. var fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 19. s.m. lögð fram til staðfestingar. Var afgreiðsla nefndarinnar um deiliskipulag í landi Eimu staðfest.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi lagt fram nokkrar tillögur sem hafi tekið mið af þágildandi Aðalskipulagi Ölfuss 2010–2022. Sveitarfélagið hefði hafnað tillögunum með vísan til þess sem koma skyldi í væntanlegu aðalskipulagi. Lögum samkvæmt beri sveitarfélaginu að taka tillögur kæranda, fullvinna þær og gera að sínum, en það hafi ekki verið gert. Sveitarfélagið hafi þannig misbeitt valdi sínu og sniðgengið lög þar um. Allt aðrar forsendur fyrir landnotkun séu í aðalskipulagi því sem nú hafi tekið gildi heldur en kærandi hafi reiknað með er hann keypti landið árið 2015. Óskiljanlegt sé að opinberir aðilar vinni eftir öðrum gögnum en séu í gildi á hverjum tíma. Fara beri eftir gildandi aðalskipulagi sem og lögum, þar til önnur hafi tekið gildi, en ekki eftir geðþótta embættismanna. Þá hafi sveitarfélagið rukkað kæranda fyrir meðferð málsins þótt það hafni tillögum hans og það sé hlutverk sveitarfélagsins að sjá um deiliskipulagsvinnu.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að í öllum samskiptum starfsmanna og kæranda hefði komið fram að deiliskipulagstillögur þær sem kærandi hefði skilað inn hefðu ekki verið í samræmi við þágildandi Aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2010–2022. Málinu hafi því verið beint í þann farveg að kanna vilja nefndar um heildarendurskoðun aðalskipulags, sem hafi verið í vinnslu á þeim tíma, til að heimila tillögur kæranda. Þær hafi hins vegar ekki hlotið hljómgrunn nefndarinnar.

Í þágildandi Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2010–2022 hafi verið gert ráð fyrir því að unnið yrði deiliskipulag af allri byggðinni áður en frekari uppbygging yrði leyfð á svæðinu. Í tengslum við skipulagið væri gert ráð fyrir því að fornminjar yrðu skráðar og mörkuð frekari stefna um varðveislu þeirra. Samkvæmt núgildandi Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2020–2036 séu miklar minjar um byggð í Selvogi og að unnin hafi verið minjaskráning. Sveitarfélagið stefni að því að vinna deiliskipulag, rammahluta aðalskipulags eða gera svæðið að verndarsvæði í byggð sem taki m.a. á verndun umhverfis, byggðar og hugsanlegri framtíðar uppbyggingu.

Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit. Í kæru sé því haldið fram að sveitarfélaginu beri að taka tillögur kæranda um deiliskipulag til frekari vinnslu, fullvinna þær og gera að sínum. Sú fullyrðing sé þó ekki rétt þar sem skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögum og ljóst að deiliskipulagstillaga verði ekki samþykkt fari hún í bága við gildandi aðalskipulag.

Kæranda hafi verið leiðbeint um hvað koma þyrfti til svo að deiliskipulag yrði samþykkt og sveitarfélagið hafi því fullnægt leiðbeiningaskyldu sinni. Deiliskipulagstillagan hafi hvorki verið í samræmi við þágildandi né núgildandi aðalskipulag. Þá hafi gögn sem kærandi hafi lagt fram ekki verið nægilega skýr og glögg til að uppfylla skilyrði laga og reglugerða um deiliskipulag. Einnig hafi deiliskipulagið gert ráð fyrir mun meira byggingarmagni en heimilt hafi verið á svæðinu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til skipulagslaga nr. 123/2010 máli sínu til stuðnings og að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli ákvæða þeirra laga. Sveitarfélagið vitni í „væntanlegt aðalskipulag“, sem ekki sé í gildi, og til þess að aðeins megi byggja á landinu óskiptu. Kærandi reyni að verja hagsmuni sína í samræmi við lög, sbr. 1. gr. skipulagslaga, og hafi leitast við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við sveitarfélagið, þ.e. að það sinni skyldum sínum þar um. Þá hafi sveitarfélagið ítrekað lýst því yfir að það ætli að deiliskipuleggja svæðið, líklega vegna þess að það geti enginn annar gert. Sveitarfélagið komi sér hins vegar ekki að verki, heldur dragi kæranda á fullyrðingum þar um og gefi honum ekki formlegt leyfi skv. 38. gr. skipulagslaga. Einnig hafi sveitarfélagið ekki gefið út lýsingu skv. 37. gr. laganna eða vísað til undanþága þar um. Samkvæmt 3. gr. og 12. gr. skipulagslaga sé skýrt að sveitarfélagið eigi að annast gerð skipulags og eigi að leita eftir tillögum íbúa og hagsmunaaðila. Einnig beri sveitarfélaginu að greiða allan kostnað af gerð deiliskipulags, sbr. 18. gr. skipulagslaga.

Þá séu þekktar minjar í námunda við svæðið, en þó utan lands Eimu í eigu kæranda, og rústir á landinu við sjávarkamb muni verða óhreyfðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 25. október 2022 um að synja umsókn kæranda um gerð deiliskipulags í landi Eimu í Ölfusi.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra í máli þessu barst 16. desember 2022 og var kærufrestur því liðinn. Kæranda var á hinn bóginn ekki leiðbeint um kæruheimild og kærufrest í tilkynningu sveitarfélagsins, dags. 21. október 2022, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af því þykir afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnismeðferðar með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Sveitarstjórnir annast gerð skipulags skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvæði 1. mgr. 38. gr. laganna mælir fyrir um að sveitastjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur landeigandi óskað eftir því við sveitastjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi á sinn kostnað. Aðilar eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til að knýja fram slíka skipulagsákvörðun gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitastjórn hins vegar að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, svo sem varðandi rökstuðning ákvörðunar.

Deiliskipulagstillaga kæranda náði til þess hluta lands Eimu sem liggur ofan Selvogsvegar að Suðurstrandarvegi. Mun svæðið vera um 28 ha að stærð. Svo sem rakið hefur verið fól tillagan í sér heimild til að skipta svæðinu í fjórar lóðir og að þar yrðu reist mannvirki í samræmi við gr. 3.2.1. í greinargerð þágildandi Aðalskipulags Sveitarfélagsins Ölfuss 2010–2022. Þá var á skipulagsuppdrættinum tafla úr greinargerð aðalskipulagsins um heimildir til uppbyggingar á lóðum í landbúnaðarlandi eftir lóðarstærð. Samkvæmt henni var heimilt á lóðum 0,5–3 ha að flatarmáli að byggja íbúðarhús, gestahús og bílskúr í samræmi við nýtingarhlutfallið 0,05. Á landspildum 2–20 ha að flatarmáli var heimilt að byggja eitt íbúðarhús, eitt frístundahús auk annarra bygginga, m.a. til landbúnaðarnota, í samræmi við nýtingarhlutfallið 0,05. Á landspildum yfir 25 ha að flatarmáli var heimild fyrir fjórum íbúðarhúsum og fjórum frístundahúsum auk annarra bygginga, m.a. til landbúnaðarnota. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni voru þrjár lóðanna rúmur hektari að flatarmáli og ein 23,9 ha. Í tillögunni kom ekki annað fram um uppbyggingu hverrar lóðar að öðru leyti en að sýndur var rúmur byggingarreitur á þeim öllum.

Skipulagsyfirvöld í sveitarfélaginu hafa vísað til þess að beita ætti heimildum aðalskipulags samkvæmt fyrrgreindri töflu á hverja skilgreinda lóð. Því hefði nefndin túlkað deiliskipulagstillöguna á þann hátt að á lóðunum þremur, sem voru rúmur hektari að flatarmáli, væri heimilað samkvæmt töflu aðalskipulagsins að byggja eitt einbýlishús og eitt gestahús á hverri lóð. Á stærri lóðinni, afganginum af upprunalandinu, væri heimilað samkvæmt töflu aðalskipulagsins að byggja þrjú einbýlishús og þrjú frístundahús.

Í þágildandi aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2010–2022 var landið Eima skilgreint sem landbúnaðarsvæði, en á slíkum svæðum var heimilt að byggja frístundahús og íbúðarhús, sem ekki tengdust búrekstri á landbúnaðarsvæðum bújarða, án þess að breyta þyrfti aðalskipulagi og fór fjöldi húsa eftir stærð landsins, sbr. fyrrnefnda töflu þar um. Þá kom fram í aðalskipulaginu að ný íbúðar- og/eða frístundasvæði yrðu ekki stærri en 25 ha innan hverrar jarðar. Svæðið sem deiliskipulagstillagan tók til naut einnig hverfisverndar samkvæmt aðalskipulaginu og kom þar fram um Selvog að gert væri ráð fyrir því að unnið yrði deiliskipulag fyrir alla byggðina áður en frekari uppbygging yrði leyfð á svæðinu. Aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2020–2036 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 5. desember 2022 og hefur það að geyma uppbyggingarheimildir á umræddu svæði.

Í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga kemur fram að skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Umrædd deiliskipulagstillaga fól í sér heimildir til uppbyggingar umfram heimildir samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2010–2022 og var auk þess ekki í samræmi við þá stefnu sveitarfélagsins um að unnið yrði deiliskipulag fyrir alla byggðina áður en frekari uppbygging yrði leyfð á svæðinu. Við meðferð umsóknar um deiliskipulag verður einnig að telja málefnalegt að líta til þeirrar stefnu sem mörkuð hafði verið í væntanlegu aðalskipulagi sem tók gildi hinn 5. desember 2022.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 25. október 2022 að synja umsókn kæranda um gerð deiliskipulags í landi Eimu í Ölfusi.

151/2016 Eftirlitsgjöld Isavia

Með

Árið 2023, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2016, vegna kröfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um afturköllun eða endurupptöku máls nr. 151/2016.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, benti Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja úrskurðarnefndinni á að endurupptökuúrskurður hennar í máli nr. 151/2016, sem kveðinn var upp 8. febrúar 2023, væri byggður á röngum forsendum. Krafðist heilbrigðiseftirlitið þess að úrskurðurinn yrði afturkallaður eða endurupptekinn.

Málavextir: Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2023, í endurupptökumáli nr. 151/2016, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fella bæri úr gildi eftirlitsgjöld með starfsemi Isavia ohf. að hluta. Nánar tiltekið hafi gjöld verið oftekin vegna eftirlits með flugstöðvarbyggingu annars vegar og vegna eftirlits með land-mótun/jarðvegstippum hins vegar. Hvað flugstöðvarbyggingu varðaði vísaði nefndin af þessu tilefni til gr. 7.2. í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit.

Sama dag og úrskurður var kveðinn upp barst úrskurðarnefndinni tölvupóstur frá lögmanni Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja þar sem athugasemd við úrskurðinn var komið á framfæri þess efnis að ekki hafi verið tekin afstaða til reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti hvað varðar eftirlit með flugstöðinni, en í starfsleyfi Isavia ohf. komi fram að samgöngumiðstöð sé starfsleyfisskyld starfsemi skv. reglugerð nr. 941/2002.

Í kjölfar tölvupóstsins ræddu þeir nefndarmenn sem sátu í téðu máli framangreindar athugasemdir og tjáðu Isavia ohf. og Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja að til greina kæmi að afturkalla ákvörðun nefndarinnar hvað varðaði eftirlit með flugstöðvarbyggingu, sbr. kafla I í niðurstöðu nefndarinnar, með vísan til 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var aðilum málsins með bréfi, dags. 16. febrúar 2023, gefinn kostur á að koma að athugasemdum við nefndina hvað þetta varðaði.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja telur endurupptökuúrskurð nefndarinnar í máli nr. 151/2016 efnislega rangan þar sem ekki hafi verið tekið tillit til reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir við úrlausn málsins. Því sé tilefni að annað hvort afturkalla ákvörðunina með vísan til 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kveða upp nýjan úrskurð hvað þennan þátt varði eða að endurupptaka málið á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Nefndin hafi aðeins byggt niðurstöðu sína varðandi ágreining um nauðsynlega tíðni eftirlitsheimsókna heilbrigðiseftirlitsins á reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit, en skv. gr. 7.2. í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 786/1999 séu alþjóðaflugvellir og flugvellir með eldsneytisafgreiðslu þar tilgreindir í eftirlitsflokki 3. Samkvæmt töflu A í reglugerðinni sé meðaltíðni skoðana fyrir starfsemi í eftirlitsflokki 3 einu sinni á ári. Munur á eftirliti með mengunarvörnum flugvalla með og án eldsneytisafgreiðslu liggi í því að flugvellir án eldsneytisafgreiðslu fari í flokk 4 með eftirlitstíðni annað hvert ár. Ástæðan sé fyrst og fremst sú að flugvellir með eldsneytisafgreiðslu séu með fastan afgreiðslubúnað, þ.e. niðurgrafna olíutanka og lagnir til og frá afgreiðslustöð og olíuskiljur. Flugvellir án eldsneytisafgreiðslu séu hins vegar þjónaðir af olíuflutningabílum og séu því ekki með fastan búnað. Hins vegar eigi að vera olíuskiljur á áfyllingarplönum. Því megi ekki rugla saman eftirliti með þessum mengunarvörnum og eftirliti með hollustuháttum skv. reglugerð nr. 941/2002.

Samkvæmt reglugerð nr. 75/2016 um kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugvelli samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008 eru alþjóðaflugvellir á Íslandi fjórir, þ.e. Reykjavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Keflavíkur-flugvöllur. Eins og gefi að skilja sé umfang og starfsemi þessara flugvalla gjörólíkt þótt allir flokkist þeir sem alþjóðaflugvellir og hefðu meðaltíðni um skoðun einu sinni á ári. Eftirlit með flugvöllum með eða án eldsneytisafgreiðslu hafi því ekkert með eftirlit með flugstöðinn að gera.

Um samgöngumiðstöðvar á flugvöllum gildi reglugerð nr. 941/2002, sbr. viðauka 1. Starfsleyfi fyrir flugstöðina hafi verið fellt inn í heildarstarfsleyfi fyrir Isavia ohf. Umfang rekstrarins á Keflavíkurflugvelli feli óhjákvæmilega í sér umfangsmeira eftirlit en með öðrum og minni rekstri. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 geti sveitarfélög gert ríkari kröfur en lágmarkskröfur reglugerða mæli fyrir um. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja ákveði umfang eftirlitsins miðað við gildandi lög, reglugerðir og faglegt mat á aðstæðum og sveitarfélögin setji gjaldskrá fyrir heilbrigðiseftirlit í sínu umdæmi, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, sbr. þágildandi 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Ákvæði reglugerðarinnar geti því ekki verið fortakslaus varðandi tíðni eftirlitsheimsókna, enda sé um mjög umfangsmikla starfsemi að ræða í flugstöðinni. Eðlilegt sé að fleiri eftirlitsheimsóknir séu nauðsynlegar til þess að heilbrigðiseftirlitið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Einnig sé vísað til núgildandi 54. gr. laga nr. 7/1998 þar sem kveðið sé skýrar að orði en áður. Tíðni eftirlitsheimsókna hafi verið metin miðað við umfangið, þ.m.t. fjölda farþega sem um flugstöðina fari á degi hverjum. Þegar starfsleyfið hafi verið gefið út hafi verið gert ráð fyrir að farþegafjöldi væri yfir 3 milljónir á ári. Samkvæmt nýjustu upplýsingum Isavia ohf. geri spár ráð fyrir að farþegafjöldi sem fari um flugstöðina árið 2023 verði um 7,8 milljónir en skv. ársskýrslu Isavia ohf. fyrir árið 2015 komi t.a.m. fram að heildarfjöldi farþega það ár hafi verið um 4,9 milljónir.

Í úrskurði nefndarinnar hafi ekki verið litið til reglugerðar nr. 941/2002 varðandi áætlun heilbrigðiseftirlitsins á tíðni eftirlitsferða í flugstöðina. Flugstöðin sé ekki aðeins alþjóðaflugvöllur, heldur einnig samgöngumiðstöð, sem sé starfsleyfisskyld samkvæmt fylgiskjali 1 með reglugerð nr. 941/2002. Í starfsleyfi fyrir starfsemi Isavia á Keflavíkurflugvelli, gefið út 21. ágúst 2015, hafi komið fram að m.a. nái leyfið til starfsemi sem háð sé leyfi heilbrigðiseftirlits skv. reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002. Í 63. gr. komi fram að reglubundið eftirlit skuli háð mati eftirlitsaðila.

Flugstöðin sé stærsta samgöngumiðstöð landsins eða rúmir 73.000 m2 að gólfflatarmáli. Til samanburðar megi nefna að verslunarmiðstöðin Smáralind sé um 62.000 m2. Í flugstöðinni sé hins vegar mun fjölþættari og flóknari rekstur. Vegna stærðar flugstöðvarinnar og umfangsmikillar starfsemi telji heilbrigðiseftirlitið ómögulegt að skoða alla eftirlitsþætti í einni ferð á ári. Því hafi verið metið nauðsynlegt að fara í fjórar ferðir á ári til þess að fara yfir öll þau atriði sem skylt sé að hafa eftirlit með. Eftirlitsferðir og athuganir hafi verið tíðari undanfarin ár vegna breytinga og byggingarframkvæmda í flugstöðinni, en ekki hafi verið tekið aukaeftirlitsgjald vegna þess, þrátt fyrir heimild þar um, sbr. 4. mgr. 63. gr. reglugerðar nr. 941/2002.

Í reglubundnu eftirliti sé farið yfir fylgni við innri eftirlitsáætlanir, þrif á almenningsrýmum, þ.m.t. salernum, loftræsikerfi, meindýravörnum, sóttvörnum, sjúkrastofu, gæðum neysluvatns, ástandi neysluvatnslagna, tóbaksvörnum, efnavörum, öryggismálum, leiktækjum, meðferð úrgangs, flokkun, sorpgeymslu o.s.frv. Ekki sé hægt að taka alla þessa þætti út í einni ferð. Þar sem ekki hafi verið litið til reglugerðar nr. 941/2002 telur heilbrigðiseftirlitið rétt að úrskurðinn verði afturkallaður eða endurupptekinn í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga þar um.

———-

Isavia ohf. var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í endurupptökuúrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 151/2016 frá 8. febrúar 2023 var fjallað um eftirlit með flugstöðvarbyggingu í kafla I í niðurstöðu nefndarinnar. Var þar byggt á reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. Í kafla 3.1. í starfsleyfi Isavia ohf., sem fjallar um starfsleyfisskyldan rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er þó ekki vísað til þeirrar reglugerðar, heldur reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, varðandi starfsleyfisskyldan rekstur í flugstöðinni.

Bæði reglugerð nr. 786/1999 og nr. 941/2002 eiga sér stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 1. málsl. gr. 2.1. reglugerðar nr. 786/1999 gildir reglugerðin um mengunarvarnareftirlit með atvinnurekstri og athöfnum sem geta haft í för með sér mengun og nær til allrar mengunar ytra umhverfis hér á landi, í lofthelgi, mengunarlögsögu og farkostum sem ferðast undir íslenskum fána, að svo miklu leyti sem lög nr. 7/1998 eiga við eða reglugerðir settar samkvæmt þeim. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 941/2002 gildir reglugerðin um framkvæmd hollustuverndar og heilbrigðiseftirlit samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998. Þá gildir reglugerðin um vöktun og rannsóknir, eftirlit með meindýravörnum, gæludýrahaldi og opnum svæðum.

Að mati nefndarinnar getur eftirlit með flugstöð fallið undir báðar reglugerðirnar. Hjá því verður þó ekki litið að í 3. kafla starfsleyfis Isavia ohf., sem ber heitið „Hollustuhættir og heilnæmi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar“, er vísað til reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Þá fjallar sá kafli starfsleyfisins m.a. um þrif innanhúss og eftirlit með meindýravörnum, sem eiga efnislega undir reglugerð nr. 941/2002, en ekki reglugerð nr. 786/1999. Að lokum eru samgöngumiðstöðvar starfsleyfisskyldar skv. fylgiskjali 1 með reglugerð nr. 941/2002, en telja verður mun nærtækara að líta á flugstöðvarbygginguna sjálfa sem samgöngumiðstöð heldur en alþjóðaflugvöll, sbr. gr. 7.2. í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 786/1999.

Verður samkvæmt framansögðu fallist á að endurupptökuúrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á röngum lagagrundvelli hvað niðurstöðu í kafla I varðar. Er ákvörðun nefndarinnar því ógildanleg og verður afturkölluð skv. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er varðar eftirlit með flugstöðvarbyggingu. Verður álagt eftirlitsgjald vegna flugstöðvarbyggingarinnar því tekið til úrskurðar að nýju.

Fjallað er um reglubundið eftirlit í þágildandi 63. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að tíðni eftirlits skuli háð mati eftirlitsaðila og í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi skuli vera reglubundið og eftir ákveðinni áætlun, eftir því sem kostur er. Heilbrigðisfulltrúi fer með eftirlit í umboði heilbrigðisnefndar skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Í endurupptökuúrskurði nr. 151/2016 frá 8. febrúar 2023 var komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrði litið hjá skýrum fyrirmælum reglugerðar nr. 786/1999 um tíðni eftirlitsferða og því hafi Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja verið óheimilt að áætla fjórar eftirlitsferðir í flugstöðina á árinu 2015. Engum sambærilegum ákvæðum um tíðni eftirlitsferða er fyrir að fara í reglugerð nr. 941/2002. Tíðni þeirra var ákveðin í eftirlitsáætlun eftir heildstætt mat á umfangi hinnar starfsleyfisskyldu starfsemi í flugstöðinni. Þykir mat heilbrigðiseftirlitsins um nauðsyn fjögurra eftirlitsferða á ári, sem hver um sig tók 15 klst., málefnalegt og ekki úr hófi.

 Úrskurðarorð:

Afturkölluð er niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í endurupptökuúrskurði nefndarinnar í máli nr. 151/2016 frá 8. febrúar 2023 hvað varðar eftirlit með flugstöðvarbyggingu Leifs Eiríkssonar, sbr. kafla I í niðurstöðu nefndarinnar.

Hafnað er ógildingu vegna eftirlitsgjalds hvað varðar eftirlit með flugstöðvarbyggingu Leifs Eiríkssonar.

30/2023 Laufásvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 31. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 30/2023, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. febrúar 2023, kærir eigandi, Laufásvegi 19, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 að samþykkja byggingarleyfisumsókn til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. febrúar 2023, kæra eigendur, Laufásvegi 19, og eigandi, Laufásvegi 22, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu og stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Verður það mál, sem er nr. 31/2023, sameinað kærumáli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkrafna kærenda.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. desember 2022 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í matshluta 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkt á fundi sínum 15. s.m. að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Laufásvegi 14, 17, 18, 18a, 19, 20, 22 og 25, Skálholtsstíg 6 Þingholtsstræti 30 og 34. Umsóknin var grenndarkynnt 29. desember 2022 með athugasemdafrest til 30. janúar 2023. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. febrúar s.á. var grenndarkynningin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 16. s.m. og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt Reykjavíkurborgar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars s.á. var byggingarleyfisumsóknin samþykkt.

Kærendur telja framkvæmdina ólögmæta með öllu. Eignarlóð baki Laufásvegar 19 sé í eigu íbúa að Laufásvegi 19 og hafi þeir hvorki samþykkt framkvæmdirnar né gefið leyfi fyrir búsetu. Kærendur hafi talsverðar áhyggjur af þeim mikla umgangi og ónæði sem hljótist af því að hafa 14–16 manns í bílskúrunum á baklóðinni, sem aldrei hafi verið hugsaðar sem búsetuúrræði. Ákvörðunin muni skerða verulega möguleika íbúanna á að selja íbúðir sínar nema á skertu verði.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að byggingarleyfið hafi verið grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leyfið sé í samræmi við aðalskipulag og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við reglur skipulaglaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða samþykki byggingarleyfisumsóknar felur í sér heimild til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 á lóð nr. 19 við Laufásveg. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur ekkert byggingarleyfi verið gefið út. Í ljósi framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturkvæmar framkvæmdir verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Rétt er þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á lóð nr. 19 við Laufásveg.

115/2022 Neðstaberg

Með

Árið 2023, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2022, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2022 vegna viðbyggingar á lóðinni nr. 7 við Neðstaberg í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Lágabergi 4, Reykjavík, afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí s.á. vegna viðbyggingar á lóðinni nr. 7 við Neðstaberg í Reykjavík. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að fram fari grenndarkynning áður en byggingarfulltrúi taki afstöðu til málsins að nýju.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. október 2022 svo og 17. janúar og 28. febrúar 2023.

Málavextir: Samkvæmt gögnum sem kærandi hefur lagt fram í máli þessu vakti hann í október 2020 athygli Reykjavíkurborgar á framkvæmdum við húsið að Neðstabergi 7, en lóð hans liggur að þeirri lóð. Mun starfsmaður byggingarfulltrúa hafa haft samband við eigendur hússins þar sem fram hafi komið að verið væri að reisa pall og skjólvegg, mögulega tímabundið, en til stæði að sækja um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu.

Í framhaldi átti kærandi í tölvupóstsamskiptum við Reykjavíkurborg vegna málsins og var honum tjáð að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar og að eiganda yrði gert að sækja um byggingarleyfi. Í mars 2021 benti kærandi borginni á að framkvæmdir væru í gangi við viðbygginguna og að búið væri að loka henni. Óskaði kærandi upplýsinga um hvort búið væri að samþykkja byggingarleyfi og kom fram í svari borgarinnar 30. apríl s.á. að svo væri ekki. Þá hefði fyrirspurn eigenda hússins um 45 m² byggingu milli húss og bílskúrs fengið neikvæða umsögn þar sem áformin samræmdust ekki deiliskipulagi og yrði eigendum gert að fjarlægja bygginguna. Frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað milli kæranda og Reykjavíkurborgar í framhaldinu vegna málsins.

Hinn 14. september 2021 móttók byggingarfulltrúinn í Reykjavík tilkynningu um framkvæmd er fælist í byggingu 36,3 m² viðbyggingar að Neðstabergi 7, í samræmi við þágildandi h-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Tók byggingarfulltrúi erindið fyrir á afgreiðslufundi sínum 5. október s.á. og frestaði afgreiðslu þess. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. maí 2022 var erindið lagt fram að nýju og það samþykkt. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkur-borg mun ekki hafa verið gefið út byggingarleyfi, en leyfið staðfest með bréfi.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi verið í samskiptum við starfsmenn Reykjavíkurborgar í tvö ár vegna viðbyggingar að Neðstabergi 7. Hafi framkvæmdir ekki verið grenndarkynntar og því hafi ekki verið hægt að koma að formlegum athugasemdum. Ekki hafi verið hægt að samþykkja framkvæmdina án nokkurs fyrirvara. Kærandi hafi fyrst frétt af samþykkt byggingarfulltrúa 5. október 2022, en hafi staðið í þeirri trú fram að þeim tíma að málið væri í biðstöðu. Viðbyggingin sé of há og of nálægt lóð kæranda. Njóti sólar aldrei við mörk umræddra lóða, ekki einu sinni þegar hún sé hæst á lofti. Hafi þetta áhrif á nýtingu svæðisins, en það hafi verið nýtt til grænmetisræktunar allt frá árinu 1983. Einnig sé friðhelgi einkalífs kæranda raskað, en tveir gluggar séu á þeirri hlið byggingarinnar er snúi að lóð hans. Ekki sé í lagi að viðbyggingin hafi að mestu verið reist áður en leyfi hafi fengist fyrir henni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er gerð krafa um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem staðfesting byggingarfulltrúa á að framkvæmdir séu í samræmi við þágildandi h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til nefndarinnar. Einnig hafi kærufrestir skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið liðnir þegar kæran hafi borist nefndinni. Tilkynntar framkvæmdir séu því marki brenndar að eingöngu sé verið að kanna hvort þær uppfylli ákvæði laga og reglugerða. Ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða þar sem tekin sé ákvörðun um réttindi og skyldur borgarans heldur sé byggingarfulltrúi að fara yfir gögn og staðfesta að þau séu í samræmi við þau skilyrði sem sett séu fram.

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulaga. Hinn 4. maí 2022 hafi tekið gildi Hverfisskipulag Breiðholts og séu hinar umþrættu framkvæmdir í samræmi við heimildir þess, en Neðstaberg sé innan skilmálaeiningar 6.3.21. Ekki þurfi að grenndarkynna framkvæmdir þegar svo sé.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hann hefði sótt um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina ef vinna við gerð hverfisskipulags hefði ekki verið í gangi. Samkvæmt byggingar-reglugerð nr. 112/2012 þurfi ekki leyfi nágranna fyrir glugga á húsvegg sem snúi að lóð hans. Þá þurfi ekki að grenndarkynna erindi sem séu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Við hönnun viðbyggingarinnar hafi verið miðað við hún myndi ekki varpa meiri skugga í garð kæranda en þegar sé af bílskúr á lóðinni. Skuggavarp á lóð kæranda sé frá bílskúr og húsi á lóð leyfishafa.

 Niðurstaða: Hinn 14. september 2021 móttók byggingarfulltrúinn í Reykjavík tilkynningu um framkvæmd að Neðstabergi 7 í samræmi við þágildandi h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt ákvæðinu var heimilt að reisa allt að 40 m² einnar hæðar viðbyggingu við mannvirki án byggingarleyfis væri hún innan byggingarreits. Þá var það skilyrði skv. gr. 2.3.5. að framkvæmdir og breytingar sem undanþegnar væru byggingarleyfi væru í samræmi við deiliskipulag.

Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. október 2021 og afgreiðslu þess frestað, en fyrir lágu athugasemdir um m.a. framlagða aðaluppdrætti og að framkvæmdin væri ekki í samræmi við gildandi skipulag. Þegar byggingarfulltrúi samþykkti erindið 17. maí 2022 höfðu verið gerðar breytingar á byggingarreglugerðinni og fyrrgreind heimild h-liðar verið felld brott. Jafnframt hafði Hverfisskipulag Breiðholts tekið gildi. Í bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 23. s.m., er ber yfirskriftina „Tilkynning um samþykkt á byggingaráformum“ er greint frá afgreiðslu á hinni tilkynntu framkvæmd. Óskaði úrskurðarnefndin nánari skýringa á þessu og kom fram í svari Reykjavíkurborgar að á afgreiðslufundum væru samþykkt áform, hvort sem um væri að ræða leyfi, heimild eða tilkynningu. Að þessu virtu verður að líta svo á að í þessari samþykkt byggingarfulltrúa hafi í raun falist ákvörðun hans um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. sömu laga.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 9. október 2022, en 5. s.m. barst kæranda svar Reykjavíkurborgar við fyrirspurnum sínum um að samþykkt hefði verið leyfi fyrir framkvæmdinni. Telst kæran því móttekin innan lögbundins kærufrests.

Í 11. gr. mannvirkjalaga er mælt fyrir um samþykkt byggingaráforma og samkvæmt 13. gr. sömu laga er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Lóðin Neðstaberg 7 er á svæði þar sem í gildi er Hverfisskipulag Breiðholts, skilmálaeining 6.3.21, en skipulagið tók gildi 4. maí 2022, með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda þar um. Samkvæmt skipulaginu er heimilt að byggja viðbyggingar við öll einbýlishús í skilmálaeiningunni, svo sem raunin er hér. Má hver viðbygging ekki vera stærri en 40 m² á einni hæð, nema annað sé tekið fram. Í skilmálum fyrir umrædda lóð er einnig sett það skilyrði að viðbyggingin sé innan takmarkaðs byggingarreits. Samkvæmt skipulaginu er þar um að ræða byggingarreiti fyrir minni viðbyggingar við m.a. sérbýlishús. Séu þeir rúmir og ekki sé gert ráð fyrir að þeir séu fullnýttir heldur sýni mögulegt svæði fyrir minni viðbyggingar og stakstæðar byggingar. Þá er tekið fram í skilmálum að útfærsla á staðsetningu smærri viðbygginga eigi sér stað á hönnunarstigi og fylgja skuli viðeigandi leiðbeiningum hverfisskipulags þegar heimildir séu nýttar. Í leiðbeiningum fyrir einbýlishús og viðbyggingar er m.a. tekið fram að huga þurfi að skuggavarpi við hönnun viðbygginga og lágmarka útsýnisskerðingu. Jafnframt að skila skuli skuggavarpsútreikningum á sumarsólstöðum og við jafndægur þegar sótt sé um leyfi. Þá eigi í hönnunargögnum m.a. að gera grein fyrir því hvaða áhrif viðbyggingin hafi á útsýni og birtu hjá nágrönnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var hvorki skilað inn útreikningum á skugga-varpi né gerð grein fyrir áhrifum byggingarinnar á útsýni og birtu hjá nágrönnum við meðferð málsins, eins og ofangreindar leiðbeiningar kveða á um. Þá hafi ekki heldur verið óskað eftir þessum gögnum af hálfu borgarinnar þar sem viðbyggingin „snýr í norður og hefur ekki áhrif á birtu í garði“. Telja verður það annmarka á meðferð málsins að þessara gagna hafi ekki verið aflað.

Fram kemur á samþykktum aðaluppdráttum fyrir Neðstaberg 7 að viðbyggingin er norðan við bílskúr á lóðinni og nær mörkum lóðar kæranda en bílskúrinn. Af því má ráða að áhrif viðbyggingarinnar á útsýn og birtu hjá kæranda geti orðið nokkur, m.a. með auknu skuggavarpi á lóð hans. Í ljósi þess að annað verður ekki séð en að samþykkt framkvæmd sé í samræmi við heimildir gildandi skipulags um stærð og staðsetningu innan byggingarreits lóðarinnar þykir nefndur annmarki á meðferð málsins þó ekki svo verulegur að leiða skuli til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Þá þykir rétt að vekja athygli á að leiði skipulag til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, á sá er getur sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi afgreiðsla byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2022 vegna viðbyggingar á lóðinni nr. 7 við Neðstaberg í Reykjavík.

129/2022 Sjókvíaeldi í Fossfirði

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 29. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 129/2022, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. október 2022 um að endurnýja rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Fossfirði með 1.500 tonna hámarkslífmassa.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnarlax ehf. þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. október 2022 að endurnýja rekstrarleyfi kæranda fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Fossfirði með 1.500 tonna hámarkslífmassa. Er þess krafist að ákvörðuninni verði breytt þannig að útgefið rekstrarleyfi heimili 3.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma, en að öðru leyti standi rekstrarleyfið óbreytt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 16. desember 2022.

Málavextir: Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fiskeldis Fjarðarlax í Fossfirði, einum innfjarða Arnarfjarðar, frá 5. maí 2011 var fjallað um áform um 1.500 tonna framleiðslu á laxi að meðaltali á ári. Í ákvörðuninni voru rakin áform félagsins um eldi á laxi í þremur fjörðum á suðurfjörðum Vestfjarða: Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Í Fossfirði væri áætlunin að framleiða að meðaltali 1.500 tonn af laxi á ári. Eldið yrði byggt upp í tveimur þrepum og væri fyrirhugað að setja 500.000 laxaseiði í Fossfjörð „á komandi sumri“, en átt var við sumarið 2012. Var ætlunin að slátrun á þessum fiski yrði lokið haustið 2013. Vorið 2014 væri fyrirhugað að setja út 1.000.000 laxaseiða, sem áætlað væri að skiluðu sér í 4.500 tonna framleiðslu árin 2015/2016, en hámarkslífmassi í firðinum yrði 3.000 tonn, skömmu áður en slátrun hæfist.

Í bréfi Fjarðalax ehf. til Skipulagsstofnunar, dags. 10. febrúar 2011, vegna tilkynningar um fyrirhugað 1.500 tonna framleiðslu á laxi á ári í Arnarfirði til ákvörðunar um matsskyldu, kom fram lýsing á áformum félagsins. Það hefði keypt annað félag og hygðist nota rekstrarleyfi þess til laxeldis í Tálknafirði og Patreksfirði, 1.500 tonn í hvorum firði, en til þess að tryggja umhverfisvænan og sjálfbæran rekstur til langs tíma væri forsenda að hafa þrjá aðskilda firði til umráða, til að tryggja ásættanlegan hvíldartíma fjarðanna. Fram kom að þegar lokið væri við að slátra úr öllum kvíum í Arnarfirði yrðu eldiskvíar fjarlægðar og fjörðurinn hvíldur í 3–9 mánuði. Var með þessu leitast við að tryggja stöðuga framleiðslu afurða til að fullnýta framleiðslutæki í laxavinnslu. Á hverju þessara þriggja svæða yrði framleiðsla áþekk og lífmassi á hverjum stað yrði í hámarki á þriggja ára tímabili í kynslóðaskiptu fiskeldi. Í greindu bréfi var gefið svofellt yfirlit til skýringar:

Hinn 1. febrúar 2012 gaf Fiskistofa út rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi í Fossfirði. Í leyfinu var mælt fyrir um heimild til að framleiða allt að 1.500 tonn af laxi árlega og tekið fram að ársframleiðsla væri miðuð við almanaksár. Þetta var í samræmi við þágildandi 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, þar sem sagði að skylt væri í rekstrarleyfi að kveða á um leyfilegt framleiðslumagn.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 18/2015, sem kveðinn var upp 11. júní 2015, var deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að samþykkja breytt starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, til framleiðslu á laxi í sjókvíum í Fossfirði. Fól breytingin það í sér að umfang starfseminnar breyttist úr framleiðslu á allt að 1.500 tonnum af laxi á ári í allt að 3.000 tonn á einu almanaksári með þeim takmörkunum að hámarksframleiðsla á hverjum þremur árum skyldi samtals vera undir 4.500 tonnum og lífmassi á hverjum tíma ekki vera yfir 3.000 tonnum í einu. Það var álit nefndarinnar, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að þessar breytingar fælu ekki í sér heimild til framleiðsluaukningar og var um það m.a. vísað til upphaflegrar umsóknar Fjarðalax ehf. og ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu frá 5. maí 2011.

Árið 2016 sameinuðust Fjarðalax ehf. og Arnarlax ehf. undir nafni þess síðarnefnda. Hið sameinaða félag hafði uppi áform um að leggja niður starfsemina í Fossfirði og sameina framleiðsluheimildir þess leyfis við aðrar framleiðsluheimildir félagsins í Arnarfirði. Með því yrðu heimildirnar hagnýttar á öðrum kvíastaðsetningum í firðinum. Kemur þetta fram í bréfaskiptum milli félagsins og Matvælastofnunar sem lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina. Með bréfi Matvælastofnunar, dags. 3. apríl 2017, var kæranda bent á að slíkar breytingar yrðu ekki gerðar án aðkomu Skipulagsstofnunar vegna laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og formlegrar umsóknar um breytingu á rekstrarleyfi.

Hinn 28. október 2020 var rekstrarleyfi fiskeldis í Fossfirði endurútgefið vegna aðilaskiptanna árið 2016, án þess að gildistíma leyfisins væri breytt sem var áfram 1. febrúar 2022, sbr. leyfisnúmer FE-1087. Í Arnarfirði hefur kærandi jafnframt annað rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi með 10.000 tonna hámarkslífmassa á nokkrum framleiðslusvæðum, en leyfið var gefið út af Matvælastofnun 6. maí 2016 og er leyfisnúmerið FE-1105.

Skipulagsstofnun barst tilkynning frá kæranda 27. nóvember 2020 um fyrirhugaða tilfærslu á eldisstarfsemi og eldissvæðum hans í Arnarfirði í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka. Fram kom í tilkynningunni að áform stæðu til þess að framleiðsla í Fossfirði myndi færast og verða á eldissvæðinu við Haganes. Þá væri áætlað að breyta legu eldissvæðanna við Haganes, Steinanes og Hringsdal í Arnarfirði. Tilgangurinn með breytingunni væri sá að mögulegt yrði að snúa eldissvæðunum þannig að hægt væri að staðsetja eldiskvíar betur innan þeirra og með því að tryggja betri eldisskilyrði með jafnari straumum og betra súrefnisflæði.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 5. júní 2021, var rakið að sjókvíaeldi félagsins í Arnarfirði væri kynslóðaskipt og yrði á þremur skilgreindum sjókvíaeldissvæðum, þ.e. svæðum A, B og C. Eldissvæði við Haganes, Steinanes og Fossfjörð væru öll innan sjókvíaeldissvæði A. Framkvæmdin fæli ekki í sér breytingu á framleiðslumagni, hvíld, eða hámarkslífmassa og væru helstu áhrifin fólgin í tilflutningi þess eldis sem fram hefði farið í Fossfirði yfir á svæði við Haganes, sem myndi leiða til aukins umfangs á því svæði. Var framkvæmdin því ekki álitin háð mati á umhverfisáhrifum.

Við meðferð þessarar tilkynningar hjá Skipulagsstofnun var ekki vikið að framleiðsluheimildum en gert ráð fyrir því að þær yrðu óbreyttar við sameiningu starfs- og rekstrarleyfa félagsins. Þess skal þó getið að í umsögn Matvælastofnunar til Skipulagsstofnunar, dags. 10. febrúar 2021, var þeirri afstöðu lýst að gildandi rekstrarleyfi Arnarlax í Arnarfirði veittu fyrirtækinu „samanlagt heimild fyrir 11.500 tonnum af laxi í firðinum, en ekki 13.000 tonnum.“ Með þessu áleit stofnunin að rekstrarleyfi kæranda í Fossfirði bæri að endurskoða með þeim hætti að það heimilaði 1.500 tonna lífmassa.

Sú endurskoðun sem með þessu var vísað til réðst af lögum nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Með þeim var gerð sú breyting á 10. gr. laga um fiskeldi, nr. 71/2008, að í rekstrarleyfi skyldu koma fyrirmæli um stærð fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa. Um leið var fellt brott að kveða skyldi á um leyfilegt framleiðslumagn í rekstrarleyfi. Hugtakið lífmassi var skilgreint svo að það væri margfeldi af fjölda og meðalþyngd eldisdýra á tilteknu eldissvæði í sjó eða landeldi, sbr. 22. tl. 3. gr. laganna. Hinn 3. júní 2020 tók svo gildi ný reglugerð um fiskeldi, nr. 540/2020, og í 2. mgr. 25. gr. hennar er mælt fyrir um skyldu Matvælastofnunar til að endurskoða rekstrarleyfi þannig að leyfilegur hámarkslífmassi sé tilgreindur í rekstrarleyfi. Við slíka endurskoðun skal stofnunin tryggja að samræmis sé gætt við hámarksframleiðslumagn gildandi rekstrarleyfa að öðru óbreyttu.

Þeirri afstöðu Matvælastofnunar til lífmassa leyfisins í Fossfirði, sem kom fram við matsferli vegna ráðgerðrar sameiningar rekstrarleyfa kæranda í Arnarfirði, var mótmælt með bréfi kæranda til stofnunarinnar, dags. 10. febrúar 2021. Þar sagði að til þess að framleiða allt að 4.500 tonn yfir þriggja ára tímabil eða 1.500 tonn á ári að meðaltali þyrfti lífmassi að vera um 4.100 tonn. Var í bréfinu gefið yfirlit þar sem gert var ráð fyrir að seiði yrðu sett út að vori og eldislota stæði yfir í þrjú ár að meðtöldum hvíldartíma milli kynslóða. Með framleiðslu á 4.350 tonnum yfir þriggja ára tímabil færi lífmassi því hæst í 4.100 tonn.

Af bréfi kæranda til Matvælastofnunar, dags. 2. júní 2021, verður ráðið að á fundi stofnunarinnar með kæranda 20. maí 2021 hafi komið fram ábending um að ekki lægi fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna 4.100 tonna hámarkslífmassa í Fossfirði. Af hálfu kæranda var því svarað með vísan til áðurnefndrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 5. maí 2011, um eldi á 1.500 tonnum af laxi í sjókvíum í Fossfirði, þar sem gerð hafi verið framleiðsluáætlun sem hafi falið í sér 4.500 tonna framleiðslu á þriggja ára tímabili en til þess þyrfti leyfilegur hámarkslífmassi að fara hæst í 4.100 tonn.

Hinn 9. júní 2021 sótti kærandi um sameiningu rekstrarleyfa kæranda í Arnarfirði og tilfærslu eldisstarfsemi og eldissvæða félagsins. Um hámarkslífmassa stöðvar kom fram að hann yrði 10.000 tonn, sbr. leyfisnúmer FE-1105, auk hámarkslífmassa samkvæmt leyfisnúmeri FE-1087 sem Matvælastofnun ætti eftir að tilgreina. Í bréfi Matvælastofnunar til félagsins, dags. 11. janúar 2022, kom fram að flutningur lífmassa frá Fossfirði á eldissvæðið við Haganes, sem óskað hafi verið eftir, sé „ófær, með þeim hætti sem sótt sé um.“ Var vísað til þess að einungis eitt eldissvæði væri í Fossfirði og því ekki unnt að vera með eldi laxa á mismunandi svæðum og ala þar samtímis margar kynslóðir laxa. Það væru því ekki sömu forsendur til að ná fram framleiðslumagni sem næmu 1.500 tonnum árlega.

Í bréfi Matvælastofnunar, dags. 11. janúar 2022, var rakið að umsókn kæranda gerði ráð fyrir að færsla lífmassa næði einungis til eins af þremur eldissvæðum hins stærra rekstrarleyfis, FE-1105. Ekki hafi farið fram nein sundurliðun á leyfilegum lífmassa hvers eldissvæðis um sig. Því væri ekki grundvöllur fyrir útgáfu breytts rekstrarleyfis, þar sem eingöngu væri tiltekinn leyfilegur lífmassi allra eldissvæða rekstrarleyfisins. Matvælastofnun myndi því auglýsa breytingu á rekstrarleyfi FE-1105, þannig að hámarkslífmassi yrði 11.500 tonn og tilgreint yrði jafnframt hámarksframleiðslumagn í tonnum á ári á hverju sjókvíaeldissvæði um sig. Var með þessu gert ráð fyrir að 1.500 tonna framleiðsluheimild myndi bætast við eldissvæði A (Haganes og Steinanes) þannig að þar næmi framleiðsluheimildin 6.500 tonnum, en á svæðum B og C yrði framleiðslan áfram takmörkuð við 5.000 tonn.

Með bréfi kæranda, dags. 17. janúar 2022, voru gerðar athugasemdir við þessa boðuðu niðurstöðu. Skylt væri að tilgreina framleiðsluheimildir í lífmassa og því stæði ekki heimild til þess að binda leyfi jafnhliða skilyrðum um framleiðslumagn. Því var haldið fram að starfs- og rekstrarleyfi í Fossfirði heimili að lágmarki 3.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma. Með því væri heimilt að framleiða 4.500 tonn á þriggja ára tímabili. Þá var vísað til þess að málsmeðferð við sameiningu leyfanna tveggja hefði dregist og meðalþyngd á fiski í Fossfirði væri orðin svo mikil að ekki væri hægt að flytja hann á önnur eldissvæði, eins og gert hefði verið ráð fyrir í upphafi. Því væri fallið frá umsókn um sameiningu leyfanna á þessum tímapunkti, en óskað eftir að fallist yrði á breytta legu eldissvæða sem um var fjallað í ákvörðun Skipulagsstofnunar. Jafnframt var í bréfinu óskað eftir því að rekstrarleyfi kæranda í Fossfirði, FE-1087, yrði endurnýjað með 3.000 tonna hámarkslífmassa, en afstaða Matvælastofnunar til þeirrar beiðni er kæruefni þessa máls.

Hinn 21. mars 2022 óskaði Matvælastofnun eftir umsögn matvælaráðuneytisins um það með hvaða hætti bæri að fara eftir 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020 við endurskoðun þeirra rekstrarleyfa þar sem stærð fiskeldisstöðvar tæki mið af leyfilegu framleiðslumagni. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 18. maí 2022, var m.a. vísað til þess að Matvælastofnun yrði við „umbreytingu rekstrarleyfa að horfa á hvert rekstrarleyfi heildstætt og gæta þess að þær breytur sem í raun geta haft áhrif á hámarkslífmassann sé haldið stöðugum þegar ákvarðað er hvernig umbreytingunni skuli háttað.“

Með bréfi, dags. 25. ágúst s.á., boðaði Matvælastofnun fyrirhugaða niðurstöðu vegna umsóknar um endurnýjun rekstrarleyfisins í Fossfirði. Kom þar fram að með hliðsjón af umsögn matvælaráðuneytisins frá 18. maí 2022 yrði að taka mið af allri starfsemi kæranda á því hafsvæði sem um ræddi, þ.e. Arnarfirði, við afmörkun á lífmassa fiskeldisins. Var í bréfinu m.a. vísað til framkvæmdar við endurnýjun annars rekstrarleyfis kæranda í Arnarfirði, FE-1105, en þar hafði jafnt hlutfall verið milli framleiðslu og lífmassa. Að framkomnum andmælum kæranda, hinn 19. október 2022, endurnýjaði Matvælastofnun rekstrarleyfi kæranda í Fossfirði og er tilgreint í leyfinu, er hefur leyfisnúmerið FE-1204, að hámarkslífmassi megi vera 1.500 tonn.

Samtímis þessari beiðni um breytingu á rekstrarleyfinu í Fossfirði hafði Matvælastofnun til meðferðar beiðni kæranda um breytingu á rekstrarleyfi FE-1105. Fallist var á beiðni um færslu og breytta afmörkun eldissvæðanna við Haganes, Steinanes og við Hringsdal, með breytingu á því leyfi, dags. 16. maí 2022, í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar, dags. 5. júní 2021. Samhliða því voru ákvæði leyfisins um framleiðslumagn felld brott. Tekið hafði verið fram í leyfinu að það gæfi heimild til 10.000 tonna framleiðslumagns og hámark framleiðslu á hverju hinna þriggja sjókvíaeldissvæða væri 5.000 tonn. Eftir stóðu óröskuð fyrirmæli um að hámarkslífmassi leyfisins væri 10.000 tonn.

Þá má greina frá því að kærandi hefur uppi áform um að breyta afmörkun eldissvæða sinna við Hlaðsbót, Tjaldanes, Hringsdal og Kirkjuból í Arnarfirði, svo sem sjá má í matsskyldufyrirspurn félagsins frá 1. september 2022. Í fyrirspurninni greinir að megintilgangur breytinganna sé að eiga kost á því að snúa kvíasamstæðum þvert á straumstefnu og tryggja þannig jafnari strauma og betra súrefnisflæði um eldiskvíarnar og skapa rými til að færa eldiskvíar til innan eldissvæðanna ef bregðast þarf við vegna uppsöfnunar lífrænna efna undir kvíunum. Þá kemur fram að meira rými skapi sveigjanleika á að fjölga kvíum í þeim tilgangi að minnka þéttleika eldisfisks í hverri kví. Gott súrefnisflæði og minni þéttleiki í kvíum bæti velferð fisksins.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að Matvælastofnun hafi skert framleiðsluheimildir hans með útgáfu hins kærða leyfis þar sem ákvæði þess um hámarkslífmassa samrýmist ekki framleiðslumagni fyrra leyfis um heimild til að framleiða 1.500 tonn af laxi árlega eða 4.500 tonn á þriggja ára tímabili. Skilja verði framleiðslumagn sem meðaltal ársframleiðslu slátraðra tonna af óslægðum eldisfiski úr kví einnar kynslóðar, sbr. 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Til að fullnýta 4.500 tonna framleiðsluheimild á þriggja ára tímabili, þ.e. fyrir eina kynslóð af laxi, verði hámarkslífmassi að vera um 4.100 tonn. Því hafi Matvælastofnun borið að tilgreina a.m.k. 3.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma.

Við hina kærðu ákvörðun hafi Matvælastofnun borið að hafa hliðsjón af gildandi umhverfismati frá 2015 þar sem gert sé ráð fyrir 3.000 tonna hámarkslífmassa sjókvíaeldis í Fossfirði á hverjum tíma. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi skuli stofnunin leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar við útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis og verði ekki séð að hin kærða ákvörðun samræmist þeim áskilnaði.

Þá hafi starfsleyfi kæranda í Fossfirði að geyma heimild fyrir 3.000 tonnum af lífmassa í eldi og feli ákvörðun Matvælastofnunar í sér skerðingu á þeim heimildum. Túlkun Matvælastofnunar á framleiðslumagni og lífmassa sé ekki í neinu samræmi við fyrri framkvæmd stofnunarinnar. Til að mynda hafi stofnunin heimilað útsetningu á yfir 600.000 seiðum í október 2020 sem hafi endurspeglast í 3.008 tonna lífmassa í september. Kærandi hafi því haft réttmætar væntingar til þess að lífmassi rekstrarleyfisins yrði miðaður við a.m.k. 3.000 tonn á hverjum tíma.

Í kæru er gerð krafa um að formaður nefndarinnar víki sæti við meðferð málsins vegna fyrri starfa í Stjórnarráðinu, sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 1. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. sömu laga.

Málsrök Matvælastofnunar: Stofnunin bendir á að frá fyrstu útsetningu seiða í Fossfirði hafi verið litið svo á að þágildandi rekstrarleyfi hafi tilgreint framleiðslu sem meðaltalsframleiðslu á ári. Ekki sé ljóst hvernig þessi túlkun framleiðsluheimildar hafi komist á og hvorki hafi fundist nein skjöl þar sem slík ákvörðun hafi verið tekin né rökstuðningur fyrir henni.

Fiskeldi takmarkist af þeim lífmassa sem réttlætanlegt sé að ala á hverju hafsvæði miðað við burðarþol, sbr. 6. gr. b. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, og áhættumati erfðablöndunar, sbr. 6. gr. a. í sömu lögum. Heimilaður lífmassi hvers rekstrarleyfis takmarki réttindi annarra aðila til sjókvíaeldis á sama svæði sem nemi heimildinni. Við breytingu rekstrarleyfa sé því ekki hægt að beita samskonar aðferð á öll svæði heldur þurfi að meta hvert leyfi fyrir sig með tilliti til aðstæðna. Ógjörningur sé að líta á starfsemi kæranda í Arnarfirði öðrum augum en að þar sé samlegð í rekstri.

Hin kærða ákvörðun skerði ekki hámarksframleiðslumagn kæranda í Fossfirði heldur sé kæranda enn heimilt að framleiða 1.500 tonn árlega svo framarlega sem lífmassi fari ekki yfir 1.500 tonn hverju sinni. Samræmi sé á milli eldra leyfis og þess nýja í samræmi við áskilnað 2. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Samanlagður heimilaður lífmassi kæranda í Arnarfirði verði því 11.500 tonn, sem tryggi getu til 11.500 tonna framleiðslu á ári. Aukning heimilaðs lífmassa í Arnarfirði úr 11.500 tonnum í 13.000 tonn myndi gera kæranda kleift að framleiða 13.000 tonn árlega.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 18/2015 hafi það verið frumforsenda niðurstöðu nefndarinnar að breyting á heimiluðum lífmassa samkvæmt starfsleyfi hefði ekki leitt til framleiðsluaukningar. Matvælastofnun taki undir það viðmið, enda megi breyting heimildar rekstrarleyfis úr framleiðslumagni í lífmassa ekki leiða til þess að önnur möguleg starfsemi á svæðinu skerðist, sem hún mundi gera ef fallist yrði á kröfur kæranda. Þá vísar stofnunin til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 36/2022, þar sem fjallað hafi verið um ólíkar valdheimildir Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar, sem sé skylt að halda sig innan valdmarka sinna samkvæmt þeim lögum sem þær starfi eftir.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru ítrekuð sjónarmið um að við endurútgáfu rekstrarleyfis beri að miða við forsendur leyfisins í upphafi, en í Fossfirði hafi verið ráðgert að framleiða árlega að meðaltali 1.500 tonn af laxi og hafi verið áætlað að hámarks lífmassi yrði 3.000 tonn. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 5. maí 2011, komi fram að fyrirhugað sé að setja út 1.000.000 laxaseiði vorið 2014 sem skili sér í 4.500 tonna framleiðslu árin 2015 og 2016, en hámarks lífmassi verði 3.000 tonn. Skýr tengsl séu því á milli 4.500 tonna framleiðslu á þriggja ára tímabili og 3.000 tonna hámarks lífmassa yfir eldistímann. Í eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar, dags. 9. maí 2022, hafi engar athugasemdir verið gerðar þrátt fyrir að lífmassi hafi þennan sama dag farið í tæp 1.782 tonn. Eldisferill í kynslóðaskiptu eldi eru þrjú ár og því sé nauðsynlegt að miða við meðaltal ársframleiðslu. Framleiðsluheimildir flestra ef ekki allra rekstrarleyfa vegna kynslóðaskipts eldis hafi verið ákveðnar sem meðaltal ársframleiðslu einnar kynslóðar og árið 2015 hafi sá skilningur verið endurspeglaður í þágildandi reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi.

Rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í Fossfirði hafi verið gefið út fyrir þann fjörð einan þótt gert hafi verið ráð fyrir samlegð með fiskeldisstarfsemi í Patreksfirði og Tálknafirði. Með breytingarlögum nr. 49/2014 hafi ákvæði um sérstök sjókvíaeldissvæði verið innleitt í lög nr. 71/2008 um fiskeldi og hafi Matvælastofnun afmarkað slík svæði í Arnarfirði þannig að Fossfjörður hafi verið tilgreindur sem hluti af sjókvíaeldissvæði A í Arnarfirði. Að öðru leyti hafi rekstrarleyfið í Fossfirði engin tengsl við önnur rekstrarleyfi í Arnarfirði eða önnur eldissvæði í Arnarfirði. Eigi þetta sérstaklega við um tilgreint framleiðslumagn.

Kærandi hafi ítrekað komið því á framfæri að ala þurfi 3.000 tonna lífmassa af eldisfiski til að framleiða 4.500 tonn fyrir hverja kynslóð. Hámarkslífmassi fyrir 1.500 tonnum heimili einungis útsetningu á um 375.000 seiðum sem skili á bilinu 1.600 til 1.750 tonnum að hámarki á kynslóð. Raunveruleg skerðing sé því veruleg. Framtíðaráform um rekstur eða sameiningu rekstrarleyfa hafi ekkert með lögbundna umbreytingu framleiðsluheimildar að gera. Markmið laga nr. 71/2008 sé m.a. að leyfi séu nýtt til fullnustu, en aðferðarfræði Matvælastofnunar stríði gegn því markmiði.

Mat á burðarþoli alls Arnarfjarðar nemi 20.000 tonnum af hámarkslífmassa á hverjum tíma. Í firðinum séu tveir rekstrarleyfishafar, annars vegar kærandi sem hafi leyfi fyrir 11.500 tonna hámarkslífmassa og hins vegar Arctic Sea Farm ehf. með 4.000 tonna hámarkslífmassa. Eftir standi því 4.500 tonn af hámarkslífmassa óráðstöfuð miðað við burðarþol fjarðarins og því geti skortur á burðarþoli ekki verið ástæða fyrir skerðingu á leyfilegum hámarkslífmassa í Fossfirði. Þá séu ekki takmarkanir á eldi frjórra laxa í Arnarfirði samkvæmt útgefnu áhættumati erfðablöndunar þannig að skerðing hámarkslífmassa geti heldur ekki byggt á því.

Kæranda hafi verið úthlutað framleiðslumagni samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 71/2008 um úthlutun eldissvæða og lífmassa, þar sem horft hafi verið á tímaröð umsókna. Þrátt fyrir það virðist stofnunin telja sér stætt á að horfa til seinni tíma uppboðsreglu eldissvæða og hámarkslífmassa samkvæmt breytingalögum nr. 101/2019 við breytingu á rekstrarleyfi kæranda, en ekki verði betur séð en að stofnunin sé með því að beita uppboðsreglunni með ólögmætum afturvirkum hætti.

Matvælastofnun byggi ákvörðun sína á hugleiðingum um mögulegan ávinning kæranda af samlegð vegna breyttra magnviðmiða og ætluð áhrif hennar á hugsanleg réttindi þriðja aðila. Leiða megi líkum að því að verðmæti lífmassa sé grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar Matvælastofnunar. Slíkt verðmætamat komi til skoðunar við hið nýlega útboðsfyrirkomulag eldissvæða og lífmassa, en sé í engu samræmi við þær lagareglur sem gildi um endurnýjun rekstrarleyfis árið 2022 sem upphaflega hafi verið gefið út 2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. október 2022 að endurnýja rekstrarleyfi kæranda fyrir kynslóðaskipt sjókvíaeldi í Fossfirði með 1.500 tonna hámarkslífmassa.

Í kæru er því haldið fram að formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, Arnór Snæbjörnsson, hafi komið að meðferð málsins hjá því ráðuneyti sem fer með fiskeldismál og er þess krafist að hann víki sæti við meðferð málsins með vísan til 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, sem þar er kveðið sé á um að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls „á kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi“. Tekið er fram í töluliðnum að „það sama [eigi] við um starfsmann sem fer með umsjónar- eða eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að.“

Nefndin tók þessa kröfu fyrir á fundi sínum fyrr í dag. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga og var það niðurstaða hennar, kunngjörð með bréfi til kæranda dagsettu sama dag, að ekkert hefði komið fram um það að formaður hafi áður tekið efnislega afstöðu til ágreiningsefnis kærumálsins og því væri honum óskylt að víkja sæti við meðferð málsins.

—–

Í máli þessu er deilt um ákvörðun framleiðsluheimildar við endurnýjun rekstrarleyfis fiskeldis. Hafa þar þýðingu breytingar á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. lög nr. 101/2019, sem fólu í sér að rekstrarleyfi skyldu hafa að geyma fyrirmæli um stærð og framleiðslumagn fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa, en áður var miðað við framleiðslumagn. Voru nánari fyrirmæli um þessa framkvæmd sett í 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi og sagði þar að Matvælastofnun skyldi tryggja „að samræmis væri gætt við hámarksframleiðslumagn gildandi rekstrarleyfa að öðru óbreyttu.“

Af þessum lagagrundvelli, umsögn Matvælastofnunar og sjónarmiðum aðila má ráða að við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi legið fyrir og verið litið til stjórnsýsluframkvæmdar sem tíðkast hafi um nokkurn tíma og verið almenn kunn meðal fiskeldisfyrirtækja. Um hana er fjallað með almennum hætti í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar, útgefinni í janúar 2023, um stjórnsýslu sjókvíaeldis. Til skýringarauka má greina frá því að þar er í kafla 6.4, um endurskoðun og afturköllun leyfa, sagt frá því að þar sem enginn umbreytingastuðull hafi verið settur fram við þessa breytingu hafi ekki verið fyllilega ljóst við hvað skyldi miðað. Fram að því hafi verið mismunandi hvort ákvæði um hámarkslífmassa eða framleiðslumagn hafi verið í rekstrarleyfum fiskeldis.

Í skýrslunni er bent á að þegar leyfi sem hafa verið endurskoðuð frá því lögunum var breytt séu skoðuð komi í ljós að mismunandi stuðull hafi verið notaður við umbreytinguna. Dæmi séu um að stuðull milli framleiðslumagns og lífmassa hafi verið 0,8 á móti 1 þannig að fyrirtæki sem verið hafi með leyfi fyrir hámarksframleiðslu upp á 10.700 tonn hafi fengið heimild til að vera með 12.200 tonn af lífmassa. Önnur leyfi hafi ekki breyst heldur farið úr sama framleiðslumagni í sama hámarkslífmassa (~1:1). Ekki hafi því verið fullt samræmi við umbreytingu leyfanna. Eru í framhaldi gerðar ábendingar sem varða mikilvægi þess að við notkun á stuðlum við umbreytingu úr framleiðslumagni í hámarkslífmassa sé horft til gagna úr fiskeldi. Hafi reynsla af sjókvíaeldi hér við land síðastliðin þrjú ár verið sú að stuðull milli framleiðslumagns og lífmassa sé 0,9‒1,3 á móti 1.

Í bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 25. ágúst 2022, sem var undanfari hinnar kærðu ákvörðunar, er vísað til bréfaskipta stofnunarinnar við matvælaráðuneytið sem varðaði túlkun 25. gr. reglugerðar um fiskeldi. Hafði stofnunin, að því virðist í tilefni af ágreiningsefni þessa úrskurðarmáls, óskað eftir leiðbeiningum um hvort horfa bæri á hvert rekstrarleyfi sérstaklega, án samhengis við önnur rekstrarleyfi hvers umsækjanda og breyttra aðstæðna að öðru leyti, eða hvort meta yrði aðstæður heildstætt, þannig að horft væri til allrar starfsemi hvers aðila og möguleika hans á að gæta „samræmis“ milli svæða, svo sem það var orðað.

Í leiðbeiningum ráðuneytisins í bréfi, dags. 18. maí 2022, er komist svo að orði að líta skuli til „textafræðilegrar merkingar“ orðanna „að öðru óbreyttu“ í 2. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020, þannig að notast verði við ákveðinn stuðul sem geri að verkum að samræmi sé milli framleiðslumagns og hámarkslífmassa, en allt annað en sá stuðull verði aftur á móti að „haldast óbreytt.“ Þá er fjallað sérstaklega um þær aðstæður þegar unnt er „með auðveldum hætti“ að færa fisk milli kvía og þar með stilla lífmassa af eins og best hentar hverju sinni. Séu slíkar aðstæður uppi, þá verði að „halda þeirri breytu stöðugri“ við þá umbreytingu. Er um leið vísað til þess að áhættumat og burðarþol sé gefið út fyrir tiltekin hafsvæði. Þá er vikið að því að aukinn sveigjanleiki verði í framleiðslu í eldi í sjókvíum við að framleiðendur geti hagað framleiðslu sinni „á þann veg að þeir hámarki nýtingu lífmassa“, sem „getur leitt til hærri framleiðslu en lífmassa“.

Leiðbeiningar sem þessar um stjórnarframkvæmd geta ráðuneyti látið í té í krafti yfirstjórnarheimilda, sbr. 12. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands, þótt þau séu ekki bindandi með sama hætti og stjórnvaldsfyrirmæli, enda tilgangur þeirra annar og getur verið, svo sem hér hagaði til, að skýra ákvæði slíkra fyrirmæla. Í áðurnefndu bréfi Matvælastofnunar, dags. 25. ágúst 2022, kemur fram að stofnunin hafi haft hliðsjón af þessum leiðbeiningum með því að taka mið af „allri starfsemi“ kæranda „á því hafsvæði sem hér um ræðir“. Væri samanlögð heimild til ársframleiðslu kæranda í Fossfirði því 1.500 tonn. Var einnig vísað til þess að kærandi hefði í öðru rekstrarleyfi sínu í Arnarfirði, allt síðan árið 2016, haft heimild til að framleiða árlega 10.000 tonn af laxi á sex öðrum staðsetningum í Arnarfirði þar sem lífmassi væri um leið afmarkaður við 10.000 tonn.

—–

Í hinu kærða rekstrarleyfi eru ákvörðuð hnit eldissvæðisins og tekið fram að hámarkslífmassi sé 1.500 tonn. Skylt er skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008 að tilgreina hvort sjókvíaeldi sé kynslóðaskipt og er tekið fram að svo sé. Með kynslóðaskiptu eldi er átt við eldi einnar kynslóðar innan sama sjókvíaeldissvæðis. Fram hefur komið í málinu að rekstrarleyfið í Fossfirði heyrir til sama sjókvíaeldissvæðis og tvær aðrar staðsetningar kæranda í firðinum, þ.e. við Haganes og Steinanes, en á sjókvíaeldissvæðum er gert ráð fyrir að til sé að dreifa einum árgangi eldisfisks hverju sinni og samræming sé við útsetningu seiða og hvíld svæðis, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 540/2020.

Þær heimildir sem kærandi hefur til eldis í Arnarfirði samkvæmt leyfi FE-1105 getur hann hagnýtt á alls sex staðsetningum sem heyra til þriggja sjókvíaeldissvæða. Hann getur því sett sér framleiðsluáætlun við hagnýtingu leyfisins, sem tekur mið af forsendum um stærð seiða við útsetningu, en séu seiði stærri við útsetningu getur dregið úr afföllum og eldistími í sjó styst sem leitt getur til þess að nýting lífmassa verði „hámörkuð“, svo sem komist er að orði í leiðbeiningum ráðuneytisins frá 18. maí 2022. Engum sambærilegum aðstæðum er til að dreifa við nýtingu leyfisins í Fossfirði sem bundið er við eina staðsetningu. Til skýringar um þetta má athuga framleiðsluáætlun kæranda í Arnarfirði samkvæmt leyfi FE-1105 sem frá segir í fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdar til Skipulagsstofnunar, dags. 1. september 2022. Þar má sjá af neðanfelldu línuriti (mynd 3.1) hvernig áætlað er að haga kynslóðaskiptu eldi félagsins samkvæmt leyfinu á þremur sjókvíaeldissvæðum þannig að lífmassi verði nýttur á skipulegan hátt án þess að framleiðslan í heild yfirstígi á nokkrum tíma viðmiðun hámarkslífmassa, 10.000 tonn.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar um hámarkslífmassa rekstrarleyfisins í Fossfirði var byggt á leiðbeiningum matvælaráðuneytisins um framkvæmd 25. gr. reglugerðar nr. 540/2020 þar sem mælst var til þess að notast yrði við „ákveðinn stuðul“ sem geti gert að verkum að samræmi sé milli framleiðslumagns og hámarkslífmassa, en „allt annað“ en sá stuðull skuli „haldast óbreytt“. Af hálfu Matvælastofnunar var stuðst við stuðulinn 1:1 sem var til að gæta samræmis við annað leyfi kæranda í sama firði. Á það verður engu að síður að fallast með kæranda að framleiðsluheimildir hans í Fossfirði tóku í reynd verulegum breytingum með þessu, enda óumdeilt að litið var á framleiðsluheimild rekstrarleyfisins bæði í upphafi og í framkvæmd þannig að um væri að ræða meðaltalsheimild í kynslóðaskiptu fiskeldi í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi. Til að gæta fulls samræmis við hámarksframleiðslumagn hefði því verið rétt að ákvarða hámarkslífmassa hins kærða leyfis á þeim grundvelli sem kærandi hefur fært sjónarmið fyrir gagnvart Matvælastofnun og síðar úrskurðarnefndinni.

Þessi niðurstaða er byggð á þeirri forsendu að einungis sé mögulegt að hagnýta framleiðsluheimild hins kærða leyfis á einni staðsetningu í Fossfirði. Engu hagræði verði komið við til þess að bæta nýtingu framleiðsluheimildarinnar með kynslóðaskiptu eldi á öðrum staðsetningum eða eldissvæðum, enda standi engin heimild til slíkra ráðstafana í hinu kærða leyfi. Af þessu tilefni má vísa til leiðbeininga ráðuneytis þar sem segir að í sumum tilvikum séu landfræðilegar aðstæður þannig að unnt sé með auðveldum hætti að færa fisk milli kvía og þar með stilla lífmassa af eins og best hentar hverju sinni. Þá skuli halda „þeirri breytu stöðugri“ þegar framleiðslumagni sé breytt í hámarkslífmassa. Leitast er við að útskýra þetta nánar í framhaldi, þar sem segir: „Hugsa má þetta þannig að þegar verið er að ákvarða hver hámarkslífmassinn skuli vera, þá verður að halda þeirri breytu stöðugri að hægt sé að færa starfsemina úr firðinum og vera með kynslóðaskipt eldi. Það er ekki fyrr en þeirri breytu er haldið stöðugri sem hægt er að umbreyta framleiðslumagni yfir í lífmassa. Fær þessi nálgun aukinheldur stoð í því að hvoru tveggja burðarþol og áhættumat er gefið út á tiltekin hafsvæði.“

Við athugun á gögnum máls þessa vekur athygli að hinn 27. nóvember 2020 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugaða tilfærslu eldisstarfsemi og eldissvæða í Arnarfirði skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, sem m.a. fól í sér sameiningu rekstrarleyfa kæranda í firðinum. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna var það niðurstaða stofnunarinnar, kunngjörð 4. júní 2021, að sú framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 9. s.m. sótti kærandi um tilfærslu eldisstarfsemi og eldissvæða félagsins í Arnarfirði og fól umsóknin m.a. í sér að rekstrarleyfið í Fossfirði yrði sameinað inn í leyfi FE-1105. Hefur ekkert komið fram í gögnum málsins sem bendir til annars en mögulegt sé að sameina leyfi félagsins í Arnarfirði, verði eftir því sótt, en kærandi féll frá þeim áformum vegna tímabundinna ástæðna sem greint er frá í málavöxtum. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti rökstuðningi Matvælastofnunar í hinni kærðu ákvörðun verður að álíta að heimilt sé að taka tillit til allrar starfsemi kæranda í Arnarfirði við ákvörðun lífmassa rekstrarleyfis hans í Fossfirði.

Af hálfu kæranda hafa verið færð fram rök fyrir því að við hina kærðu ákvörðun hafi verið litið til ákvæðis IX til bráðabirgða við lög um fiskeldi nr. 71/2008, sbr. 1. gr. laga nr. 59/2021, þar sem mælt er fyrir um að úthluta skuli opinberlega því magni í lífmassa sem heimilt geti verið að ala og er umfram heimildir í leyfum til fiskeldis, eins og þeim er ráðstafað með ákvæðum laganna, eins og þau voru eftir gildistöku laga nr. 101/2019 um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Hefur ákvæðið að geyma fyrirmæli sem ætlanin er að tryggja að ekki sé gengið á slíkan lífmassa við breytingu á rekstrarleyfum í viðkomandi firði eða hafsvæði. Með því að ekki verður séð beinum orðum að Matvælastofnun hafi byggt á þessu ákvæði laganna, verður ekki tekin afstaða til þess hvort það hefði getað haft þýðingu fyrir hina kærðu ákvörðun, auk þess sem með þessu ákvæði er ekki fjallað um breytingu rekstrarleyfi úr framleiðslumagni í hámarkslífmassa.

Með vísan til alls framangreinds er ekki fallist á kröfu kæranda um að breyta hinni kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin mælist um leið til þess að Matvælastofnun veiti kæranda leiðbeiningar um hvernig standa megi að sameiningu rekstrarleyfa hans til fiskeldis í Arnarfirði, enda standi vilji hans til þess að hagnýta lífmassa þann sem tilgreindur er í rekstrarleyfi fiskeldis í Fossfirði með þeim hætti. Vakin er athygli á því að beiðni um þetta kann að þurfa bera undir Skipulagsstofnun til mats á því hvort sæta skuli mati á umhverfisáhrifum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. október 2022 um að endurnýja rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Fossfirði með 1.500 tonna hámarkslífmassa er óröskuð.