Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

77/2023 Hamrabrekkur

Árið 2023, miðvikudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2023, beiðni um að úrskurðað verði um hvort bygging tveggja kofa á lóð Hamrabrekkna 11, Mosfellsbæ, sé háð byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. júní 2023, fór eigandi lóðarinnar Hamrabrekkna 10, Mosfellsbæ, fram á að tekin yrði afstaða til þess hvort bygging tveggja kofa á lóðinni Hamrabrekkum 11 sé háð byggingarleyfi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Mál þetta er tekið til meðferðar skv. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málavextir: Hinn 20. júní 2023 sendi kærandi Mosfellsbæ erindi þess efnis að lóðinni Hamra­brekkum 11 hefði verið raskað og hún hækkuð. Verið væri að byggja smáhýsi sem kærandi taldi skerða útsýni sitt auk þess sem þau væru of há og fyrir utan byggingarreit. Erindinu var svarað 21. s.m. og kom þar fram sú afstaða bæjaryfirvalda að svæðið hefði verið skoðað og að viðkomandi mannvirki væru ekki byggingarleyfisskyld.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til f-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um minniháttar mannvirkjagerð sem sé undanþegin byggingarheimild og -leyfi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi gefið út leiðbeiningar um greinina, þar sem komi m.a. fram að eigandi beri ábyrgð á að ekki sé gengið á rétt nágranna, sbr. gr. 2.3.9.

Upphaflega hafi undanþága frá byggingarleyfi verið hugsuð vegna skúra undir garðverkfæri. Skiljanlegt sé að heimilt sé að gera minniháttar kofa án þess að þurfa að undirgangast flókið umsóknarferli. Í gr. 2.3.5. sé sérstaklega tiltekið að mesta hæð þaks megi eingöngu vera 2,5 m frá yfirborði jarðvegs. Í þessu felist almenn forvörn gegn áhrifum á nágranna sem minnki þörf á grenndarkynningu. Ekki ætti að þurfa að ráðast í miklar jarðvegsframkvæmdir undir slík smáhýsi og því ekki réttlætanlegt að landslag sé hækkað. Undanþágu frá meginreglu beri að túlka þröngt. Mikið rask á frístundalóðum án leyfa sé vafasamt og geti spillt náttúrufegurð. Hinir umdeildu kofar séu augljóslega ekki garðskúrar og virðist frekar vera til íveru. Mesta hæð yfir jarðvegi sé umtalsvert meiri en 2,5 m.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að starfsmaður á vegum bæjarins hafi skoðað umrætt svæði í kjölfar ábendingar kæranda. Mat starfsmannsins hafi verið að hvorugt smáhýsanna væri stærra en 15 m2 og að hæð þeirra væri ekki meiri en 2,5 m frá jarðvegi. Þá hafi hann talið hýsin fjær lóðarmörkum en 3 m og að eðlilegt væri að uppbygging á svæðinu hefði áhrif á ásýnd þess.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2010 sé hvorki kveðið á um að einungis megi reisa eitt hýsi á hverri lóð né að jarðvegsvinna megi ekki eiga sér stað. Nauðsynlegt hafi verið að hækka jarðveg þar sem hýsin standi í nokkrum halla. Þá séu þau innan byggingarreits lóðarinnar.

Lóðin Hamrabrekkur 11 sé á svæði fyrir frístundabyggð samkvæmt Aðalskipulagi Mosfells­bæjar 2011-2030. Á lóðinni standi 32,5 m2 sumarhús, byggt árið 2004, en auk þess sé bygging 97,5 m2 frístundahúss á lóðinni langt komin. Smáhýsin standi innan byggingarreits umræddrar lóðar. Lóðin sé rúmir 4.500 m2 og byggingarreitur hennar sé rúmlega 2.100 m2. Ekki sé í gildi deiliskipulagsáætlun fyrir svæðið.

Málsrök eiganda Hamrabrekkna 11: Af hálfu eiganda Hamrabrekkna 11 er farið fram á frávísun málsins, annars vegar þar sem kröfur kæranda séu það óljósar að málið sé ekki tækt til úrskurðar og hins vegar þar sem aðeins stjórnvaldsákvarðanir verði kærðar til úrskurðar­nefndarinnar, sbr. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Að öðru leyti er tekið undir málsrök Mosfellsbæjar.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnarefna á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Verður samkvæmt ákvæðinu að vera til staðar sérstök kæruheimild í lögum, sé ekki um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skal leita niðurstöðu úrskurðarnefndar, sbr. 59. gr., leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. 9. gr. laganna. Ljóst er af erindi kæranda að hann fer fram á að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort hin umdeildu mannvirki séu háð byggingarleyfi, en hefði nefndin talið óljóst í hverju kæra hefði falist hefði borið að rannsaka það sérstaklega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki fallist á frávísunarkröfu eiganda Hamrabrekkna 11.

Fjallað er um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir í 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Þar kemur fram að óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.

Í samræmi við framangreint er fjallað um minniháttar mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2010. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem taldar eru upp í stafliðum a-f séu undan­þegnar byggingarleyfi. Þær séu einnig undanþegnar byggingarheimild og tilkynningarskyldu skv. gr. 2.3.6., enda séu þær í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðar þessarar sem við eiga hverju sinni.

Hin umdeildu smáhýsi standa á lóðinni Hamrabrekkum 11, Mosfellsbæ. Ekki er í gildi deili­skipulag fyrir svæðið, en 1. mgr. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar gerir samræmi við deili­skipulag að skilyrði fyrir þeim undanþágum frá skyldu til öflunar byggingarheimildar og -leyfis sem þar eru taldar upp. Verður því ekki talið að f-liður 1. mgr. gr. 2.3.5. eigi við í máli þessu. Eru hin umdeildu smáhýsi því byggingarleyfisskyld skv. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Umdeild smáhýsi á lóðinni Hamrabrekkum 11, Mosfellsbæ, eru byggingarleyfisskyld.