Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2023 Gufunesvegur

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 14. mars 2023, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 1/2023, kæra vegna „vanefnda Reykjavíkurborgar“ varðandi aðkomu og aðgengi að húsum á lóð Gufunesvegar 34.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. janúar 2023, kærir Loftkastalinn ehf., lóðarhafi Gufunesvegar 34, „[vanefndir] Reykjavíkurborgar“ varðandi aðkomu og aðgengi að húsum á lóð Gufunesvegar 34. Gerir kærandi þá kröfu að úrskurðarnefndin leggi fyrir borgaryfirvöld að framkvæma nánar tilgreindar aðgerðir í tengslum við aðkomu og aðgengis að húsum á lóð Gufunesvegar 34.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. janúar 2023.

Málavextir: Í janúar 2018 keypti kærandi af Reykjavíkurborg þrjár húseignir, ásamt lóðarréttindum og byggingarrétti, í Gufunesi. Við kaupin var um eina lóð að ræða en með deiliskipulagi, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 1. mars 2019, var lóðinni skipt í tvennt. Hinn 29. september s.á. var gefið út framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1. Skaut kærandi þeirri samþykkt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hann taldi m.a. að hæð götu við lóð hans gengi gegn skipulagi svæðisins. Var kröfu hans um ógildingu leyfisins hafnað af nefndinni með úrskurði uppkveðnum 1. desember 2020 í máli nr. 79/2020. Fór kærandi í tvígang fram á endurupptöku málsins en þeim beiðnum var báðum synjað. Vegna síðari endurupptökubeiðni kæranda skilaði Reykjavíkurborg umsögn, dags. 2. mars 2022, þar sem m.a. kom fram að verið væri að skoða frekari lausnir í samráði við kæranda.

Kærandi og Reykjavíkurborgar funduðu saman hinn 1. september 2022 um breytta hæðarlegu gatna í kringum Gufunesveg 34 og við Þengilsbás. Í kjölfarið voru drög að hæðarblaði útbúin og þau send til kæranda. Hinn 30. s.m. gerði kærandi athugasemdir við drögin og fór fram á að annað hvort yrði athugasemdunum svarað með útskýringum og rökstuðningi eða að boðnar yrðu ásættanlegri úrlausnir við hverri og einni athugasemd. Starfsmaður skrifstofu framkvæmda og viðhalds Reykjavíkurborgar svaraði athugasemdunum 18. nóvember s.á. Í tölvupósti til borgarritara 8. desember 2022 lýsti kæranda yfir vonbrigðum með svörum Reykjavíkurborgar við athugasemdum hans. Kom og fram að kærandi væri fús til að gera lokatilraun til að leita sátta í málinu og færi í því ljósi fram á einhver jákvæð viðbrögð frá borgaryfirvöldum fyrir 15. desember s.á., en að öðrum kosti myndi hann leita annarra leiða við að ná fram rétti sínum.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi í fjögur ár reynt að fá til baka þá eign sem keypt hafi verið árið 2018. Það sé hreinn ásetningu hjá Reykjavíkurborg að „leiðrétta ekki aðkomur og lóð um hús þar sem þau standa að hluta utan lóðar.“ Gerð sé krafa um að borgaryfirvöld skrásetji og merki inn í skipulag í samræmi við fullyrðingar í svarbréfi borgarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. mars 2022, en þar hafi verið fullyrt að ekkert skert aðgengi væri að neinu húsnæði á svæðinu. Merktar verði innkeyrslur að malbikuðum bílastæðum sem hafi verið við húsin frá 1984 og snúi út að Gufunesvegi. Þinglýstur verði umferðarréttur um göngugötu að innkeyrsluhurð og leyfi til að afferma og fylla á í göngugötu. Umferðarréttur og aðkoma haldist óskert að húsum þar sem innkeyrsluhurð, gönguhurð og gluggar séu á lóðamörkum Gufunesvegar 34 og Þengilsbási 1. Ekki hafi verið gefinn upp hæðarkóti á Þengilsbás 1 í fjögur ár frá skipulagi þrátt fyrir að gefa skuli upp hæð 1. hæðar samkvæmt skipulagsreglugerð.

Þá sé þess krafist að staðið verði við ummæli í svarbréfi Reykjavíkurborgar um hönnun gangstétta í tengslum við fráveitukerfi. Borgaryfirvöld bendi oft á að um þróunarsvæði sé að ræða en það gefi ekki afslátt á því að fara að lögum og reglugerðum. Borginni beri að fara að reglum um bil milli bygginga, en kærandi muni ekki breyta veggjum á núverandi húsum í eldvarnarveggi og göngugata sé of þröng samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá sé þess krafist að Reykjavíkurborg stækki lóð svo að hús standi innan lóðar, að vatnsinntök fyrir Gufunesveg 36 eða Þengilsbás 3, sem lögð séu inn á lóð Þengilsbás 1, verði fjarlægð og að merkt verði aðkoma að bílakjallara á sama stað.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði. Ekki sé neinni kæranlegri ákvörðun til að dreifa í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en svo virðist sem kærandi sé að fara fram á að úrskurðað verði um skyldu Reykjavíkurborgar til tiltekinna athafna eða aðgerða. Um slíka skyldu sé úrskurðarnefndin ekki bær til að kveða á um.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur sig hafa kæruheimild í máli þessu þar sem Reykjavíkurborg hafi látið líta svo út í fjögur ár að verið sé að lagfæra gögn svo þau standist eignarrétt og lóðarétt kæranda, en gögn málsins sýni fram á allt annan veruleika. Borgaryfirvöld hafi þóst vera að vinna að lausn málsins en kæranda hafi verið það ljóst 16. desember 2022 að sú stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að tryggja ekki að aðkomur og innkeyrslur myndu verða í samræmi við eignarrétt og lóðarrétt kæranda. Vísað sé til c-liðar 1. gr., 53. og 55. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.2.1, 5.3.2.2. og 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

Eins og greinir í málavöxtum er tilefni kæru þessa máls ágreiningur milli kæranda og Reykjavíkurborgar um hæðarlegu gatna í kringum Gufunesveg 34. Til að koma til móts við kröfur kæranda um breytta hæðarlegu lögðu borgaryfirvöld fram drög að hæðarblaði, en kærandi féllst á ekki þau drög. Lýsti hann yfir vilja til að ná sáttum í málinu og fór af því tilefni fram á að „einhver jákvæð viðbrögð“ kæmu frá borginni fyrir 15. desember s.á., en það er sá dagur sem kærandi tilgreinir sem dagsetningu hinnar kærðu ákvörðunar. Er og ljóst að umræddur ágreiningur er einkaréttarlegs eðlis sem framangreind kæruheimild tekur ekki til. Verður ekki séð af framangreindri atburðarás eða gögnum málsins að öðru leyti að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

147/2022 Heiðarbrún

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 14. mars 2023, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 147/2022, kæra á stjórnsýslulegri meðferð Grímsness- og Grafningshrepps við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna lóðanna Heiðarbrúnar 2–10 og Tjarnholtsmýri 1–15 á jörðinni Bjarnastöðum 1.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 21, desember 2022, er barst nefndinni 23. s.m., kæra eigandi lóðanna Tjarnholtsmýri 5 og Heiðarbrúnar 6 og 8 og eigandi lóðarinnar Heiðarbrúnar 4, stjórnsýslulega meðferð Grímsness- og Grafningshrepps við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna lóðanna Heiðarbrúnar 2–10 og Tjarnholtsmýri 1–15 á jörðinni Bjarnastöðum 1. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 27. janúar 2023.

Málsatvik og rök: Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008–2020 var jörðin Bjarnastaðir 1 á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð. Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveit bs. 12. ágúst 2020 var tekin fyrir umsókn um breytingu á aðalskipulagi, en breytingin fól það í sér að lóðirnar Heiðarbrún 2–10 yrðu skilgreindar sem landbúnaðarsvæði. Mæltist skipulagsnefndin til þess að umsóknin yrði samþykkt og að málsmeðferð yrði í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti sveitarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum 21. ágúst 2020. Í október sama ár tók sveitarstjórn fyrir tillögu um breytt aðalskipulag og deiliskipulag vegna lóðarinnar Heiðarbrúnar 10, en í breytingunni fólst að landnotkun myndi breytast úr frístundasvæði í landbúnaðarsvæði. Gerðu kærendur í kjölfarið athugasemdir við að breytingin tæki einungis til einnar lóðar en ekki alls svæðisins eins og upphaflega hefði verið gert ráð fyrir. Á fundi sveitarstjórnar 3. febrúar 2021 var tillagan tekin fyrir að nýju og samþykkt að vísa henni til heildarendurskoðunar aðalskipulags sem stóð þá yfir. Hinn 13. desember 2022 staðfesti Skipulagsstofnun Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 og tók það gildi 29. s.m. við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Í nýju aðalskipulagi er umrætt svæði merkt sem L3, landbúnaðarsvæði.

Kærendur telja að málsmeðferð sveitarfélagsins uppfylli ekki form- og efnisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnsýsluréttarins. Málsmeðferðin hafi verið ómálefnaleg vegna náinni vintengsla fyrrverandi sveitarstjóra og lóðareiganda Heiðarbrúnar 10. Reynt hafi verið að breyta aðalskipulagi fyrir þann eiganda einan en aðrir lóðareigendur, þ. á m. kærendur, hafi fengið neitun á umsókn þeirra án rökstuðnings. Kærendur hafi keypt lóðir sínar í trausti þess að aðalskipulag og deiliskipulag myndi halda og að hámark væri á byggingarmagni á lóðum. Með fyrirliggjandi breytingum sé búið að færa einum lóðareiganda aukið byggingarmagn og samþykkja breytta landnotkun, en það geti kærendur ekki sætt sig við. Áðurgildandi skipulag hafi heimilað léttan landbúnað en ekki stórbúskap. Samþykkt hafi verið tiltekin flokkun, L3, sem heimili rúmar byggingarheimildir, landbúnað og minni háttar atvinnustarfsemi, sem jafnvel sé ótengd landbúnaði. Kærendur hefðu aldrei keypt lóðir sínar ef fyrir hefði legið að hægt hefði verið að breyta landnotkun svæðisins á þann hátt sem gert hafi verið. Engin rök séu fyrir umræddum breytingum nema þau að verið sé að hygla einum lóðareiganda. Breytingarnar hefðu aldrei átt að ná fram að ganga nema með samþykki allra lóðareigenda Heiðarbrúnar 2–10. Sé þess krafist að hinar ólögmætu samþykktir á aðalskipulagi verði felldar úr gildi, en í því felist að skilgreining á flokkuninni L3 fyrir landbúnaðarsvæði falli niður.

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er gerð krafa um frávísun málsins en til vara að kröfum kærenda verði hafnað, enda hafi málsmeðferð sveitarfélagsins að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Heildarendurskoðun aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps, sem sé lokið og hafi tekið gildi í samræmi við fyrirmæli skipulagslaga, sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. laganna. Engar aðrar ákvarðanir er varði skipulagsmál á svæðinu hafi tekið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

 Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Eins og fram kemur í málavöxtum var Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 staðfest af Skipulagsstofnun 13. desember 2022 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hið kærða aðalskipulag til endurskoðunar samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga. Þá hefur hvorki nýtt deiliskipulag verið samþykkt fyrir svæðið né breyting verið gerð á gildandi deiliskipulagi Bjarnastaða við Heiðarbrún frá árinu 2005, en fallið var frá deiliskipulagstillögu vegna lóðarinnar Heiðarbrúnar 10. Með hliðsjón af því og gögnum málsins að öðru leyti verður ekki séð að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

86/2022 og 87/2022 Stóra Drageyri, Bakkakot

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 7. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 6. júlí 2022 að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðinni Stóru Drageyri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Skógræktin þá ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 6. júlí 2022 að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðinni Stóru Drageyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Skógræktin þá ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 6. júlí 2022 að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðinni Bakkakoti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 87/2022, sameinað máli þessu þar sem um sama málsgrundvöll er að ræða og sami kærandi stendur að þeim, enda þykja hagsmunir hans ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 9. september 2022.

Málavextir: Jarðirnar Stóra Drageyri og Bakkakot eru í eigu ríkissjóðs Íslands, en Skógræktin fer með umráð og nýtingu þeirra. Bakkakot hefur verið í umsjón Skógræktarinnar frá árinu 1964 og Stóra Drageyri frá árinu 1971. Sumarið 2022 hóf Skógræktin undirbúningsframkvæmdir á jörðunum fyrir gróðursetningu, en þær voru stöðvaðar 4. júní 2022 af lögreglu. Með bréfi dags. 27. s.m. var Skógræktinni tilkynnt um að hreppsnefnd Skorradalshrepps hefði á fundi sínum 11. s.m. staðfest stöðvun framkvæmda, þar sem ekki hefði verið aflað framkvæmdaleyfis, en um væri að ræða leyfisskyldar framkvæmdir.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 21. júní 2022 var fjallað um sjónarmið Skógræktarinnar sem þá lágu fyrir. Skógræktin sótti um framkvæmdaleyfi vegna gróðursetningar á jörðunum tveimur með bréfum til sveitarfélagsins, dags. 27. og 28. s.m. Í umsókn um framkvæmdaleyfi vegna Stóru Drageyrar kom fram að rækta ætti fjölnytjaskóg með blönduðum trjátegundum á 188,7 ha lands. Helstu markmið skógræktarinnar væru kolefnisbinding, jarðvegsvernd og nytjar auk þess sem skógurinn myndi nýtast til útivistar. Í umsókn vegna Bakkakots kom fram að til stæði að gróðursetja 50.000 birkiplöntur í gróðureyjar á 36 ha svæði. Tilgangurinn væri að stuðla að og efla endurheimt birkiskógavistkerfis, en birkitrén myndu sá sér út með tímanum.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 5. júlí s.á. var báðum þessum umsóknum hafnað með vísan til þess að þær samræmdust ekki Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010–2022. Hreppsnefndin staðfesti þá afgreiðslu á fundi 6. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að skógræktarsvæði þau sem umsóknir kæranda nái til sé flokkað til landbúnaðarnota í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010–2022 og að skógrækt teljist til slíkra nota samkvæmt þeirri víðtæku skilgreiningu landbúnaðar sem skipulagið byggi á. Af umfjöllun á bls. 82 í greinargerð aðalskipulags hreppsins megi telja ljóst að græn lína sem sýnd sé á aðalskipulagsuppdrætti innan landamerkja Stóru Drageyrar og Bakkakots sýni mörk skógræktarsvæða sem fyrir hendi hafi verið á jörðunum við gerð aðalskipulagsins árið 2010. Hvorki komi fram í greinargerðinni né á uppdrættinum að skógrækt á landbúnaðarlandi utan þeirra marka sé óheimil eða að frekari skógrækt á jörðum þar sem skógrækt hafi verið fyrir sé óheimil.

Væri túlkun Skorradalshrepps á aðalskipulaginu talin rétt að þessu leyti fæli það í sér að Skógræktinni hefði verið heimildarlaust að stunda gróðursetningu skóga á skógræktarjörðum í umráðum stofnunarinnar í sveitarfélaginu nema á þeim svæðum sem þegar hafi haft skóg að geyma í upphafi gildistíma skipulagsins árið 2010. Slíkt færi gegn þeim markmiðum um skógrækt sem lýst sé í greinargerð með aðalskipulaginu og eigi sér enga stoð í skipulags-gögnum. Hafi það verið ætlun Skorradalshrepps að takmarka þannig hina lögbundnu starfsemi Skógræktarinnar í sveitarfélaginu hefði slíkt þurft að koma skýrlega fram.

Náttúrufyrirbærið votlendi hafi hvorki verið skilgreint í skipulags- og byggingarlögum né skipulagsreglugerð. Í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd sé ekki heldur að finna skilgreiningu votlendis. Vísað sé til votlendis í a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna sem fjalli um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Í umfjöllun aðalskipulags um votlendi á bls. 15 komi fram að í gróðurfarsúttekt Náttúrufræðistofnunar árið 1999 segi að votlendissvæðið við ósa Fitjaár, um einn km2, sé eina óraskaða votlendið í Skorradalshreppi og teldist vera einstök mýrargerð og því verðmæt ekki einungis fyrir Skorradal heldur allt Borgarfjarðarhérað.

Samkvæmt áðurgildandi 6. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem vísað sé til í greinargerð með aðalskipulagi, sé hverfisvernd skilgreind sem ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja. Fjallað sé um hverfisvernd á bls. 99–102 í aðalskipulaginu. Undir yfirskriftinni „Innsti hluti Skorradals og heiðarlönd sunnar Fitjaár og votlendi 3 ha að flatarmáli eða stærri, ofan 300 m y s“ komi fram: „Um er að ræða hluta svæðis nr. 238 á Náttúruminjaskrá 1996, sem er utan áforma um friðland Vatnshorns. Að auki er allt land Efstabæjar, Fitja og Bakkakots sunnan Fitja hverfisverndað, auk alls Fitjakirkjulands. Svæðið er að stórum hluta heiðarland með votlendisflákum, ríkt af fuglalífi og með mikið útivistargildi. Að auki er lagt til að votlendissvæði sem eru 3 ha eða stærri njóti verndar. Hverfisvernd neðan 300 mys er ætlað að stuðla að endurheimt birkiskógarvistkerfis, en ofan 300 mys er vistkerfisvernd votlendis. Búfjárbeit er heimil utan friðunargirðingar á Botnsheiði. Skógrækt er heimil í samræmi við reglur í kafla 5.1. Svæði má ekki spilla með frekara jarðraski.“

Sú landspilda Stóru Drageyrar sem hafi á aðalskipulagsuppdrætti fengið merkingu hverfisverndar sé öll undir 300 m hæð yfir sjó og geti því ekki fallið undir lýsingu hverfisverndar. Þá verði ekki séð að unnt sé að líta á umrædda spildu sem votlendi undir neinum kringumstæðum, hvað þá sem eitt samfellt votlendi. Hverfisvernd geti einungis komið til álita á votlendissvæðum 3 ha eða stærri í 300 m y.s. eða hærra. Merking hverfisverndar á jörðinni Stóru Drageyri hljóti að hafa ratað inn á aðalskipulagsuppdrátt vegna misskilnings eða mistaka. Því til stuðnings sé vert að benda á umfjöllun í V. kafla aðalskipulags á bls. 78–79 í greinargerð þar sem fjallað er um landnotkun allra jarða í Skorradalshreppi samkvæmt aðalskipulagi 2010 – 2022 og hvernig hún hafi breyst frá eldra skipulagi. Í umfjöllun um Stóru Drageyri sé í engu vikið að hverfisvernd á jörðinni eða mannvirkjum hennar, ólíkt því sem gert sé í lýsingu landnotkunar á Bakkakoti, Efri-Hreppi, Efstabæ, Fitjakirkjulandi, Fitjum, Haga, Háafelli, Hálsi, Litlu Drageyri, Mófellsstöðum, Sarpi og Vatnshorni. Í umfjöllun um allar þessar jarðir sé hverfisverndar getið og til hvers hún skuli ná. Skipulagsuppdráttur stangist þannig á við greinargerð skipulagsins hvað þetta varði.

Bakkakot sé staðsett í innsta hluta Skorradals og svæði það er umsókn kæranda hafi lotið að sé í yfir 300 m hæð. Fram hafi komið í greinargerð með umsókninni að ekki yrði „jarðunnið eða gróðursett í votlendi sem hverfisvernd gildi um ofan 300 metra hæðarlínu í landi Bakkakots, enda er það gegn stefnu Skógræktarinnar að raska votlendi.“ Framsetning greinargerðar um hverfisvernd og hvaða hömlur á landnýtingu henni sé ætlað að setja sé nokkuð óskýr en þó hljóti skógrækt að teljast heimil á hverfisverndarsvæðum innst í Skorradal, nema í votlendi. Þá verði ekki séð að fyrir hendi hafi verið lagaheimild til að leggja á eignarhöft með hverfisvernd votlendis. Hverfisvernd hafi einungis falið í sér heimild til að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja. Hvorki verði séð að endurheimt vistkerfis votlendis né endurheimt vistkerfis birkiskóga geti fallið þar undir.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu Skorradalshrepps er tekið fram að skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli við umsókn um framkvæmdaleyfi fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Í Aðalskipulagi Skorradals-hrepps 2010–2022 komi fram að skógrækt umfram 20 ha sé háð framkvæmdaleyfi, einkum m.t.t. brunavarna.

Á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags sé skógræktarsvæði afmarkað á jörðinni Stóru Drageyri. Óumdeilt sé að framkvæmdaleyfisumsókn varðaði skógrækt utan þess svæðis. Aðalskipulagi hafi verið breytt þar sem áform landeigenda hafi staðið til þess að auka skógrækt, sbr. t.d. aðalskipulagsbreytingu vegna Dagverðarness. Það samrýmist því illa jafnræðisreglu og stefnu aðalskipulags að talið yrði heimilt að stækka skógræktarsvæði innan sveitarfélagsins án breytingar á aðalskipulagi.

Aðalskipulagið vísi til þess að skógrækt sé sérstakur „landnotkunarþáttur“, sbr. skipulagsuppdrátt og t.d. gr. 4.4. á bls. 55. Það sé í samræmi við gr. 4.3. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998 hafi verið gert ráð fyrir að skógræktarsvæði yrðu tilgreind með tvennu móti, þ.e. á óbyggðum svæðum þegar um væri að ræða skógræktarsvæði önnur en nytjaskógrækt á bújörðum, sbr. gr. 4.13., og á landbúnaðarsvæðum, sbr. gr. 4.14. Í síðarnefnda ákvæðinu hafi verið tekið fram að gera skuli sérstaklega grein fyrir ræktuðum svæðum, uppgræðslusvæðum og skógræktarsvæðum innan landbúnaðarsvæða. Bæði eldri og núgildandi skipulagsreglugerðir geri ráð fyrir sérstakri afmörkun skógræktar-svæða út frá landnotkunarflokkum.

Í aðalskipulagi sé fjallað um reglur um skógrækt innan landbúnaðarsvæða og tekið mið af þeirri löggjöf sem í gildi hafi verið við gildistöku skipulagsins. Umfjöllunin feli í sér stefnu sveitarfélagsins og beri að skýra hana sem fyllri reglur til viðbótar þeim reglum sem gildandi löggjöf á hverjum tíma kveði á um. Frá gerð aðalskipulagsins hafi komið til ný löggjöf, m.a. á sviði náttúruverndarmála og á sviði laga um mat á umhverfisáhrifum. Reglur aðalskipulagsins beri að skýra í ljósi núgildandi löggjafar.

Í bréfi Skorradalshrepps til kæranda, dags. 5. júlí 2022, hafi verið tilkynnt um höfnun umsóknar kæranda. Umrædd tilkynning feli ekki í sér fullnaðarrökstuðning eða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem máli hafi skipt vegna synjunar umsóknarinnar. Í samskiptum fulltrúa Skorradalshrepps við kæranda hafi m.a. verið bent á þann kost að óska eftir aðalskipulagsbreytingu og nauðsyn þess að fyrirhuguð skógrækt yrði endurskoðuð með tilliti til almennra ákvæða aðalskipulags og viðeigandi reglna. Vísað hafi verið til þess að fyrirliggjandi umsókn samræmdist ekki aðalskipulagi, en í svo almennri tilvísun felist ekki tæmandi talning á ástæðum þess að umsókn hafi verið hafnað.

Umsóknir kæranda hafi falið í sér skógrækt á svæðum sem ekki séu afmörkuð sem skógræktarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Texti aðalskipulags á bls. 82 um að skógræktarsvæði við gildistöku aðalskipulags séu afmörkuð verði skilinn á þann hátt að það beri að gera grein fyrir nýjum skógræktarsvæðum með breytingu aðalskipulags, standi til að leggja ný svæði undir skógrækt.

Á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags sé gerð grein fyrir hverfisverndarsvæði á því svæði innan Bakkakots sem umsóknin nái til, nánar til tekið í tungunni milli Villingadalsár og Hestadalsár. Svæðið sé hverfisverndað þar sem votlendi sé að finna. Skipulagsuppdrátturinn feli í sér verndun svæðisins, hvað sem líði skýrleika texta greinargerðar aðalskipulags. Í kafla 5.14 í aðalskipulagi komi fram að innsti hluti Skorradals og heiðarlönd sunnan Fitjaár og votlendi 3 ha að flatarmáli eða stærri, ofan 300 m y.s. falli undir hverfisvernd. Einnig komi fram að um sé að ræða hluta svæðis nr. 238 á Náttúruminjaskrá 1996, sem sé utan áforma um friðland Vatnshorns. Að auki sé allt land Efstabæjar, Fitja og Bakkakots sunnan Fitjaár hverfisverndað, auk alls Fitjakirkjulands. Svæðið sé að stórum hluta heiðarland með votlendisflákum, ríkt af fuglalífi og með mikið útivistargildi.

Skógræktaráætlun fyrir Stóru Drageyri hafi gert ráð fyrir plöntun annarra tegunda en birkis. Á svæðinu sé votlendi og öll málsmeðferð þurfi því að taka tillit til verndunar svæðisins skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna njóti votlendi sérstakrar verndar og skv. 2. mgr. ákvæðisins beri að forðast að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun. Áður en leyfi sé veitt skuli leyfisveitandi leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Ekkert slíkt mat liggi fyrir og því hafi sveitarfélaginu verið heimilt að vísa til aðalskipulags um höfnun á framkvæmdaleyfinu. Staða svæðis samkvæmt hverfisvernd og/eða skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 leiði til þess að framkvæmdaleyfisumsókn vegna skógræktar á slíku svæði verði að skoða í ljósi laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og hafi ekki komið til greina skv. 25. gr. þeirra laga.

Skógræktaráætlun Skógræktarinnar feli í sér viðbót við það skógræktarsvæði sem þegar sé fyrir á jörð. Jafnframt liggi hluti nýs skógræktarsvæðis að eldra skógræktarsvæði. Stærð nýs skógræktarsvæðis og eldra svæðis sé samanlagt yfir 200 ha. Það sé því álitamál hvort tilkynningarskylda geti komið til vegna þessa. Með vísan til tilgangs umhverfismatslöggjafar og ákvæða aðalskipulags Skorradalshrepps um reglur um skógrækt standi rök til þess að þegar nýskógrækt liggi að eldra skógræktarsvæði og heildarstærð svæðanna sé yfir 200 ha beri að tilkynna áformin til Skipulagsstofnunar.

Reglur aðalskipulags um skógrækt hvíli á því að framkvæmdaleyfisumsóknir séu gerðar í samræmi við lög sem séu í gildi á hverjum tíma. Þannig verði að skýra ákvæði reglna í kafla 5.1. í aðalskipulagi með tilliti til gildandi löggjafar um náttúruvernd, umhverfismat framkvæmda og ákvæða skipulagslaga og skipulagsreglugerðar. Fyrirliggjandi umsókn geri ekki grein fyrir því hvernig skógræktaráætlun uppfylli stefnu aðalskipulags skv. kafla 5.1, þar sem segi að gera þurfi skógræktaráætlun fyrir nýskógrækt og skuli þær taka mið af vistkerfi, jarðmyndunum, sjónrænum áhrifum, brunavörnum, varðveislu menningarminja og sérkenna í landslagi. Umrædd atriði þurfi að liggja fyrir svo framkvæmdaleyfisumsókn verði afgreidd. Samkvæmt skýrslu Minjastofnunar frá 2019 um aðalskráningu fornminja í Skorradal (Niðurdalur) sé á skógræktarsvæðinu að finna fornminjar eða a.m.k. í nágrenni þess. Nýskógrækt hafi áhrif á stöðu annarra fasteigna og vegfarendur. Þá sé mikilvægt að staða brunavarna vegna nýskógræktar sé ígrunduð.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að árin 2013–2021 hafi verið gróðursett að Stóru Drageyri utan þess svæðis sem merkt sé sem skógrækt á aðalskipulagsuppdrætti. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þessa skógrækt þrátt fyrir að framkvæmdir hafi verið vel sýnilegar. Þá er gerð athugasemd við tilvísun Skorradalshrepps til jafnræðisreglu. Í henni felist ekki að stjórnvaldi sé skylt að endurtaka óréttmæta eða ólögmæta ákvörðun við afgreiðslu máls. Enga þýðingu hafi hvernig mál Dagverðarness hafi verið afgreitt.

Hin kærða ákvörðun hafi hvað Stóru Drageyri varðar einungis verið reist á því að skógræktarsvæði væri utan afmörkunar skógræktar í landi Stóru Drageyrar og að hluti svæðisins væri með hverfisvernd votlendis. Hvað varði Bakkakot hafi verið byggt á því að skógræktarsvæði væri utan afmörkunar skógræktar í landi Bakkakots og að um hverfisvernd væri að ræða ofan 300 m y.s. Við úrlausn um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar geti því einungis þessi atriði komið til skoðunar en ekki aðrar og nýjar forsendur fyrir synjun framkvæmdaleyfis.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á umsóknum um framkvæmdaleyfi til skógræktar. Aðalskipulag Skorradalshrepps 2010–2022 tók gildi með samþykki hreppsnefndar 15. október 2013 og birtist í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m. Svo sem tekið er fram í aðalskipulaginu var það sett samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. einnig 1. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Samkvæmt tölul. 1.04 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er nýræktun skóga sem tekur til 200 ha eða stærra svæðis í flokki B, þ.e. framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli umhverfismati. Þær framkvæmdaleyfisumsóknir sem deilt er um í máli þessu varða annars vegar 36 ha og hins vegar 188,7 ha svæði og eru framkvæmdirnar því ekki háðar umhverfismati.

 Jarðirnar Bakkakot og Stóra Drageyri eru á landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Skorradalshrepps. Í aðalskipulaginu segir að skilgreining á landbúnaði hafi breyst í áranna rás og sé nú t.d. viðurkennt að skógrækt sé landbúnaður. Í reglugerð nr. 400/1998 kemur fram í gr. 4.14.2 að sérstaklega skuli gera grein fyrir ræktuðum svæðum, uppgræðslusvæðum og skógræktarsvæðum innan landbúnaðarsvæða í aðalskipulagi og er sérstakur kafli í aðal-skipulagi hreppsfélagsins um reglur um skógrækt innan landbúnaðarsvæða. Þar er tekið fram að skógrækt umfram 20 ha sé háð framkvæmdaleyfi, einkum með tilliti til brunavarna.

Í reglugerð nr. 400/1998 er skipulagsáætlun skilgreind í gr. 1.3. sem áætlun sem geri grein fyrir markmiðum og ákvörðunum viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og lýsi forsendum þeirra ákvarðana. Skipulagsáætlun sé sett fram í greinargerð og á uppdrætti, sbr. einnig gr. 3.1.1. Þá er skipulagsuppdráttur skilgreindur sem uppdráttur sem sýni fyrirhugaða notkun lands í samræmi við þá stefnumörkun sem kynnt sé í skipulagsgreinargerð, sbr. einnig gr. 5.1.2.

Í skýringum á skipulagsuppdrætti aðalskipulags Skorradalshrepps er skógrækt afmörkuð með grænni línu. Leita má nánari skýringa í greinargerð aðalskipulagsins, en þar segir í kafla 5.1. sem varðar landbúnaðarsvæði að „[s]kógræktarsvæði, eins og þau voru í upphafi gildistíma 2010–2022, eru sýnd á aðalskipulagsuppdrætti með grænni línu á landbúnaðarsvæðum.“ Þrátt fyrir að skilja megi þetta sem svo að einungis sé um lýsingu á því ástandi sem uppi var við setningu aðalskipulags, sem sé ekki bindandi til framtíðar, verður ekki hjá framangreindum ákvæðum reglugerðar nr. 400/1998 litið, sem öll miða að því að skipulagsáætlanir og -uppdrættir sýni fyrirhugaða eða framtíðarnotkun lands. Þá má athuga að á sama stað í aðalskipulagi Skorradalshrepps verður eigi séð að lögð sé merkjanleg áhersla á nýræktun skóga innan landbúnaðarsvæða, en fremur horft til endurheimtar og verndar birkiskógavistkerfa, sem og umhirðu þegar ræktaðra skóga.

Hinar kærðu ákvarðanir byggjast m.a. á því að um sé að ræða svæði sem séu utan afmörkunar um fyrirhuguð skógræktarsvæði á landbúnaðarsvæðum samkvæmt aðalskipulagi. Á aðal-skipulagsuppdrætti er skógrækt merkt með grænni línu og eru þau svæði sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir utan þeirrar afmörkunar. Var hreppsnefnd Skorradalshrepps því rétt að hafna umsóknum um framkvæmdaleyfi með vísan til þess að fyrirhuguð skógrækt samræmdist ekki aðalskipulagi.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felldar verði úr gildi ákvarðanir hreppsnefndar Skorradalshrepps um að hafna umsóknum um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðunum Stóru Drageyri og Bakkakoti.

136/2022 Rannsóknarmastur

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 7. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 11. nóvember 2022 um að synja um heimild til uppsetningar rannsóknarmasturs í landi Sigmundarstaða í Borgarbyggð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra Hafþórsstaðir ehf., eigandi jarðarinnar Hafþórsstaða og eigendur jarðarinnar Sigmundarstaða, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 11. nóvember 2022 að synja um heimild til uppsetningar rannsóknarmasturs í landi Sigmundarstaða í Borgarbyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, staðfest verði að mastrið samrýmist aðalskipulagi sveitarfélagsins og að viðurkennt verði að heimilt sé að gefa út byggingarleyfi án grenndarkynningar. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að heimilt sé að gefa út byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu á grundvelli gildandi aðalskipulags og að framkvæmdin krefjist hvorki breytts aðalskipulags né gerðar deiliskipulags.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð með bréfi dags. 30. desember 2022.

Málavextir: Hinn 13. september 2022 sendu kærendur máls þessa tilkynningu til byggingarfulltrúa Borgarbyggðar um uppsetningu rannsóknarmasturs í landi Sigmundarstaða í Borgarbyggð, með vísan til gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fram kom m.a. að hæð mastursins yrði allt að 98 m og að miðað væri við að mælingar stæðu í allt að 12 mánuði. Að því loknu yrði mastrið fjarlægt.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. s.m. var málinu frestað og var bókað að byggingarfulltrúi óskaði eftir áliti skipulags- og byggingarnefndar en um ódeiliskipulagt svæði væri að ræða. Var erindið tekið fyrir á fundi nefndarinnar 7. október s.á. Taldi meirihluti nefndarinnar framkvæmdina í samræmi við skipulag og önnur ákvæði byggingarreglugerðar og samþykkti erindið. Minnihluti nefndarinnar taldi að ekki væri heimilt að samþykkja framkvæmdina þar sem ekki væri deiliskipulag. Á fundi sveitarstjórnar 12. s.m. var erindinu vísað aftur til frekari umræðu í skipulags- og byggingarnefnd. Í fundargerð var bókað að sveitarstjórn teldi vafa leika á heimild í aðalskipulagi fyrir því að reisa rannsóknarmastur.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 4. nóvember 2022 var fært til bókar að byggingarfulltrúa væri falið að synja um heimild til framkvæmdarinnar þar sem ekki væri fjallað um rannsóknarmöstur í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 og ekki væri deiliskipulag á svæðinu. Jafnframt að tekin yrði afstaða til slíkra mannvirkja við heildarendurskoðun aðalskipulags og væri frjálst að gera tillögu að breytingu á aðalskipulagi og samhliða breytingu deiliskipulags svæðisins. Kæranda var tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með tölvupósti sama dag. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 10. s.m. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. s.m. var málið tekið fyrir á ný og erindinu synjað þar sem framkvæmdin væri ekki í samræmi við skilmála aðalskipulags, auk þess sem ekki væri deiliskipulag í gildi á svæðinu.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á ákvæði 3. mgr. gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 en þar segir að hafi byggingarfulltrúi ekki gert athugasemdir við tilkynnta framkvæmd innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar teljist hún staðfest og sé þá heimilt að hefja framkvæmdir. Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um greinina segi að móttaka tilkynningar teljist vera sá tími þegar formkröfur ákvæðisins hafi verið uppfylltar. Tilkynningin hafi verið send byggingarfulltrúa ásamt öllum nauðsynlegum gögnum 13. september 2022. Athugasemdir við framkvæmdina hafi ekki borist fyrr en 4. nóvember s.á. með synjun skipulags- og byggingarnefndar, eða 7-8 vikum eftir móttöku tilkynningarinnar.

Í synjun skipulags- og byggingarnefndar sé byggt á því að framkvæmdin samrýmist ekki aðalskipulagi þar sem ekki sé gert ráð fyrir rannsóknarmöstrum og að ráðast þyrfti í aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingu til að heimila framkvæmdir. Þetta fáist ekki staðist. Jörðin, þar sem fyrirhugað sé að reisa mastrið, sé skilgreind sem landbúnaðarsvæði í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 og dæmi séu um heimildir til áþekkra framkvæmda á slíkum svæðum, m.a. til að setja upp fjarskiptasenda og endurvarpsstöðva og reisa vindmyllur með hámarks rafafl 25 kW og vatnsaflsvirkjanir allt að 200 kW. Þá séu framkvæmdir afturkræfar, framkvæmdasvæðið ekki á náttúruminjaskrá eða skilgreint sem hverfisverndarsvæði né gott ræktarland.

Verði álitið að rannsóknarmastrið samræmist aðalskipulagi séu ekki þörf á grenndarkynningu þar sem framkvæmdin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og kærenda, enda sé hún langt inni í eignarlandi kærenda, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en það hafi verið upphaflegt mat sveitarstjórnar Borgarbyggðar að hennar þyrfti ekki  við, sbr. bókun á fundi 9. september 2021. Verði ekki fallist á að ákvæðið eigi við sé óskað eftir því að erindið verði grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. laganna.

Í Borgarbyggð séu þegar álíka rannsóknarmöstur á ódeiliskipulögðum svæðum. Sem dæmi megi nefna mastur á Stórholti. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála og virðist sem önnur og strangari málsmeðferð hafi verið viðhöfð við undirbúning að uppsetningu þess masturs.

Málsrök Borgarbyggðar: Sveitarfélagið álítur að umrædd framkvæmd sé háð útgáfu byggingarleyfis. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé óheimilt að hefja framkvæmdir við mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Aðeins minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum séu heimilaðar á grundvelli tilkynningar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Vegna sjónarmiða kærenda um að heimilt sé að hefja framkvæmdir, þar sem byggingarfulltrúi hafi ekki gert athugasemdir innan þriggja vikna frá því að tilkynning um hana barst embættinu, er bent á hún hafi ekki haft að geyma nákvæma lýsingu á framkvæmdinni. Þá sé áskilið í gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð að viðkomandi framkvæmd skuli vera í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði byggingarreglugerðar. Ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir Sigmundarstaði og eigi ákvæðið því ekki við. Þá sé í leiðbeiningum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar með grein þessari tekið fram að tilkynning veiti aldrei heimild til framkvæmda ef um leyfisskylda framkvæmd sé að ræða.

Hin fyrirhugaða framkvæmd sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Borgarfjarðar 2010-2022 og því séu ekki lagaskilyrði til þess að víkja frá meginreglunni um að framkvæmdir séu háðar byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Fyrirhugað sé að reisa mastrið á skilgreindu landbúnaðarsvæði, en fram komi í aðalskipulaginu að byggingar sem tengist annarri starfsemi en landbúnaði séu ekki heimilaðar á slíkum svæðum. Framkvæmdum á landbúnaðarjörðum sé lýst með tæmandi hætti í aðalskipulagi, þ.m.t. hversu öflugar og háar vindmyllur heimilt sé að reisa. Hámarkshæð fyrir vindmyllur sé 25 m, en auk þess sé fyrirhugaður rannsóknarstaður langt yfir 300 m y.s. þegar tekið sé tillit til hæðar mastursins. Uppsetning á 98 m háu mastri sé ekki sambærileg uppsetningu á fjarskiptasendum eða endurvarpsstöðvum.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram meginreglan um að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Undantekningu sé að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem heimilt sé að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar sé hin fyrirhugaða framkvæmd í samræmi við aðalskipulag eða í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Með vísan til þeirra takmarka sem gildi um framkvæmdir á landbúnaðarjörðum samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins séu ekki lagaskilyrði til þess að grenndarkynna framkvæmdina á grundvelli 44. gr. skipulagslaga þar sem hún sé í verulegu ósamræmi við aðalskipulagið. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í framkvæmd talið að almennt skuli sýna varfærni við beitingu undantekningarheimildar 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 99/2022. Leggja eigi sömu sjónarmið til grundvallar í máli þessu, enda feli hin fyrirhugaða framkvæmd í sér framkvæmdir á grónu landi þar sem gert sé ráð fyrir að koma 12 akkerum í jörðu, auk grunnplötu.

Því sé hafnað að kærendur njóti ekki jafnræðis eða að sveitarfélagið hafi brotið með öðrum hætti gegn 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kæru sé vísað til masturs á Stórholti á Holtavörðuheiði. Það mastur standi á 5.000 m2 viðskipta- og þjónustulóð. Sveitarfélaginu sé einnig kunnugt um uppsetningu á mastri við Hvamm í Norðurárdal, en það sé áfast gám sem standi á jörðinni á grundvelli stöðuleyfis. Þessi tilvik séu því ósambærileg.

Loks verði að hafna aðal- og varakröfum kærenda þar sem í þeim felist krafa um að úrskurðarnefndin taki nýja stjórnvaldsákvörðun í málinu, en til þess hafi hún ekki heimild að lögum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að uppsetning rannsóknarmasturs gangi ekki auðsýnilega í berhögg við aðalskipulag og geti ekki verið í andstöðu við stefnu aðalskipulags, þótt þess sé ekki beinlínis getið. Rangt sé auk þess að fyrirhugaður rannsóknarstaður sé langt yfir 300 m h.y.s. þegar tekið sé tillit til þess að mastrið sé 98 m á hæð. Framkvæmdasvæðið sé í milli 200-300 m hæð. Í aðalskipulaginu komi fram að „landbúnaðarsvæði ofan 300 m. h.y.s. skulu óbyggð mannvirkjum“. Orðalagið vísi til hæðar svæðisins yfir sjávarmáli, ekki að viðbættri framkvæmdinni. Þá sé ítrekað að um sé að ræða eignarland kærenda,  framkvæmdin hafi ekki í för með sér varanlegt rask og sé tímabundin.

Í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir annars konar en um leið sambærilegum möstrum og er athugasemdum sveitarfélagsins um greinarmun á þeim og rannsóknarmastri hafnað. Kærendur hyggist reisa mastur en ekki byggingu. Möstur séu mannvirki sem falli undir gildissvið mannvirkjalaga en þau teljist hvorki til bygginga í skilningi laganna, né aðalskipulags Borgarbyggðar. Þá sé mastrið ekki tengt atvinnustarfsemi. Það verði sett upp í rannsóknartilgangi og engin atvinnustarfsemi verði í tengslum við það fyrr en síðar með byggingu vindmyllu, komi til þess.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar frá 4. nóvember 2022 um að synja um heimild til uppsetningar rannsóknarmasturs. Tilkynnt var um framkvæmdina til byggingarfulltrúa með vísan til gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt þeirri grein er það byggingarfulltrúa að leggja mat á hvort tilkynnt mannvirkjagerð samræmist skipulagi. Verður því litið svo á að kærð sé sú ákvörðun byggingar-fulltrúa frá 11. nóvember 2022 að synja erindi kærenda um uppsetningu rannsóknarmasturs í landi Sigmundarstaða.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en brestur heimild til þess að taka afstöðu til viðurkenningarkrafna kærenda. Verður því aðeins tekin afstaða til ógildingarkröfu þessa máls.

—–

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Er og tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar.

Í gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð er fjallað með tæmandi hætti um mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi, en skuli tilkynnt leyfisveitanda. Samkvæmt h-lið 1. mgr. greinarinnar telst til þessa m.a. „rannsóknarmastur ætlað til mælinga, sett upp tímabundið og ekki lengur en til tveggja ára“. Kveðið er á um að slík mannvirkjagerð skuli „vera í samræmi við deiliskipulag“ og önnur ákvæði reglugerðarinnar, eins og við eigi hverju sinni. Í 2. mgr. greinarinnar segir að byggingarfulltrúi staðfesti móttöku tilkynningar, að mannvirkjagerð falli undir 1. mgr. og að hún samræmist skipulagi. Í 3. mgr. segir að ekki sé heimilt að hefja mannvirkjagerð án staðfestingar leyfisveitanda. Hafi byggingarfulltrúi þó ekki gert athuga-semdir við tilkynnta framkvæmd innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar teljist hún stað-fest og sé þá heimilt að hefja framkvæmdir.

Tilkynning um uppsetningu rannsóknarmasturs barst byggingarfulltrúa Borgarbyggðar 13. september 2022. Hún var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. s.m. Var málinu frestað og óskaði byggingarfulltrúi álits skipulags- og byggingarnefndar um erindið, en ekki lá fyrir samþykkt deiliskipulag af svæðinu. Með þessu mátti byggingarfulltrúa vera ljóst, innan þriggja vikna frá því  að honum barst tilkynning um hina kærðu framkvæmd, að vafi gæti leikið á því hvort umrætt mastur félli undir undanþáguákvæði gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð. Hefði byggingarfulltrúa þá verið rétt að tilkynna kærendum um þörf á nánari rannsókn málsins samtímis því að leitað yrði álits skipulagsnefndar sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Var enginn reki að þessu gerður en í kæru segir að kærendur hafi engar athugasemdir fengið við erindi sínu fyrr en 4. nóvember 2022 þegar þeim var tilkynnt um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar. Hefur þessu ekki verið mótmælt af sveitarfélaginu né hafa fyrir nefndina verið lögð gögn sem sýna mundu hið gagnstæða.

Samkvæmt 3. mgr. gr. 2.3.6. er ekki heimilt að hefja mannvirkjagerð án staðfestingar leyfisveitanda. Hafi byggingarfulltrúi þó ekki gert athugasemdir við tilkynnta framkvæmd innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar teljist hún staðfest og sé þá heimilt að hefja framkvæmdir. Í máli þessu var hin umdeilda framkvæmd tilkynnt 13. september 2022. Var hinn þriggja vikna frestur byggingarfulltrúa því löngu liðinn þegar hann synjaði framkvæmdinni staðfestingar þann 11. nóvember s.á. Með vísan til þessa standa rök til þess að hin umrædda tilkynning teljist nægjanlega tilkynnt á þessum tíma og að kærendum sé heimilt að hefja ráðgerðar framkvæmdir, enda sé hin tilkynnta framkvæmd samrýmanleg skilyrðum greinarinnar.

Fyrirmæli gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð tilgreina sem áður segir með tæmandi hætti þær framkvæmdir og breytingar sem eru undanþegnar byggingarleyfi, en sett er það skilyrði að þær séu í samræmi við deiliskipulag. Greinin felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga um byggingarleyfisskyldu og verður því að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu. Jörðin Sigmundarstaðir er á ódeiliskipulögðu svæði og því var ekki unnt samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins að undanþiggja umræddar framkvæmdir byggingar-leyfi.

Með vísan til alls framangreinds verður kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar um að synja um heimild til uppsetningar rannsóknarmasturs í landi Sigmundarstaða hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 11. nóvember 2022 um að synja um heimild til uppsetningar rannsóknarmasturs í landi Sigmundarstaða.

Sérálit Þorsteins Þorsteinssonar: Ég er sammála meirihluta nefndarinnar um að misbrestur hafi orðið á tilkynningu byggingarfulltrúa til kærenda, en með vísan til 3. mgr. gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð er ótvírætt að heimilt hafi verið að ráðast í framkvæmdir við mastrið þegar liðnar voru þrjár vikur frá móttöku tilkynningar án þess að viðbrögð hefðu borist frá sveitarfélaginu. Því tel ég að ógilda beri ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja um heimild til uppsetningar rannsóknarmasturs í landi Sigmundarstaða.

117/2022 Trippadalur

Með

Árið 2023, föstudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2022, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2021, um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu tveggja nýrra reiðleiðatenginga í Trippadal.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2022, er barst nefndinni 11. s.m., kærir Vega- og landeigendafélagið Græðir, þá ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir lagningu tveggja nýrra reiðleiðatenginga í Trippadal. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Kröfu um stöðvun framkvæmda var hafnað með úrskurði uppkveðnum 6. janúar 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 29. desember 2022.

Málavextir: Með umsókn, dags. 14. desember 2021, sótti framkvæmdaraðili um leyfi til lagningar tveggja nýrra reiðleiðatenginga í Trippadal. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar var umsóknin samþykkt á grundvelli þess að hún væri í samræmi við rammaskipulag Austurheiða, en ekki er til staðar deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Framkvæmdaleyfið var gefið út 22. desember s.á.

Kærendur reisa kröfu sína um að veiting framkvæmdaleyfis verði felld úr gildi á þeim grundvelli að skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar hafi ekki fylgt því sem lög og reglugerðir kveði á um við undirbúning og útgáfu hins umþrætta framkvæmdaleyfis. Heimilaðar hafi verið framkvæmdir sem nái yfir einkaveg í eigu félagsmanna kæranda, án vitundar og samþykkis þeirra aðila sem lögðu veginn um 1960 og hafi séð um veghald hans síðan. Reykjavíkurborg vísar til þess að reiðleiðirnar sem framkvæmdaleyfi var gefið út fyrir séu á borgarlandi og hafi því ekki verið talin ástæða til þess að leita samþykkis félagsmanna kæranda.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður sér hafa verið alls ókunnugt um að umþrættar framkvæmdir stæðu til fyrr en þær voru hafnar 27. september 2022. Í kynningu tillagna að Rammaskipulagi Austurheiðar 6. maí 2020 hafa umþrættar reiðleiðir ekki verið kynntar eins og látið sé líta út fyrir sé kynningarmynd merkt 6. maí 2020 skoðuð í dag á netinu. Virðist því sem þar sé bætt inn mun nýrri gögnum.

Í umþrættu framkvæmdaleyfi komi fram að í aðalskipulagi Reykjavíkur sé stígalegan fyrir reiðleiðina sýnd á svæði sem beri heitið OP15 Austurheiðar. Sú fullyrðing sé röng og nánari upplýsingar fáist ekki þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Einnig sé ekki gerð grein fyrir framkvæmdinni í aðalskipulaginu né fjallað þar á ítarlegan hátt um umfang, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað það sem við eigi, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Sökum þessa verði að ganga út frá því að framkvæmdaleyfið sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Ef svo væri hefði þá borið að grenndarkynna það samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Að athuguðu máli á vettvangi framkvæmdanna þá hafi þær verið bundnar við Almannadal og efnisflutninga með vörubílum um Mjódalsveg með tilheyrandi raski, skemmdum og hindrunum á umferð og umferðaröryggi. Nefnt framkvæmdaleyfi sé með öllu skilmálalaust hvað varði Almannadal og Mjódalsveg, sem sé einbreiður og varasamur einkavegur, sem liggi eftir dalnum og sé aðkomuleiðin að frístundaspildum í Almannadal.

Vegurinn hafi verið lagður sem einkaframkvæmd af landeigendum á eigin kostnað um 1960. Sé því ljóst að um einkaveg sé að ræða í skilningi 9. gr. vegalaga nr. 80/2007. Reykjavíkurborg sé ekki aðili í því lögbundna félagi sem skapaði eignarréttindi með lagningu vegarins og sé því ekki einn af eigendum einkavegarins. Hafi Reykjavíkurborg því ekki óhindraðan umferðarrétt um einkaveginn Mjódalsveg í Almannadal og þar af síður ráðstöfunarrétt. Breytir engu að ekki sé minnst á Mjódalsveg í verklýsingaþætti. Skortur á því sé eitt af mörgu sem gefi tilefni til að ógilda framkvæmdaleyfið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Ekki er gerð athugasemd við það sem kærendur vísa til um að Mjódalsvegur hafi verið lagður af landeigendum á sínum tíma og að um einkaframkvæmd hafi verið að ræða. Hins vegar sé það óumdeilt að vegurinn sé á borgarlandi og hafi félagsmenn kæranda ekki lagt fram nein gögn þess efnis að þeir hafi óskorað vald yfir nýtingu vegarins eða geti hindrað nauðsynlegar framkvæmdir í borgarlandinu umhverfis veginn. Eigi það við jafnvel þó slíkar framkvæmdir kunni að hafa einhver áhrif á hann s.s. að hann sé þveraður með reiðleiðum. Á svæðinu sé stór hesthúsabyggð og þurfi notendur hennar aðgang að landinu rétt eins og kærendur.

Það sé vissulega rétt að reiðleiðin sé ekki sýnd á aðalskipulagsuppdrætti, en samkvæmt aðalskipulagi skuli gera grein fyrir nýjum reiðleiðum í deiliskipulagi. Það liggi hins vegar ekki fyrir deiliskipulag af svæðinu, en reiðleiðin sé sýnd á rammaskipulagi sem kynnt hafi verið fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og sé stígagerð almennt heimil á svæðum sem skilgreind séu sem opin svæði.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Áréttaðar eru áður framkomnar ábendingar um að reiðleiðir þær sem deilt sé um séu ekki sýndar á aðalskipulagsuppdrætti og ekki sé til deiliskipulag fyrir svæðið. Einnig hafi það rammaskipulag sem vísað sé til sem grundvöll leyfisins aldrei verið kynnt. Fullyrðingum um að eigendur einkavegar hafi ekki óskorað vald yfir nýtingu og/eða geti hindrað það sem kallað séu nauðsynlegar framkvæmdir eigi ekki við, sbr. lög nr. 80/2007. Þá eigi ekki heldur við „hvar staðsetning einstakra landspildna við Mjódalsveg sé“. Uppbyggðir allt að 5 metra breiðra reiðvega sem lagðir séu uppá og yfir einkavegi og nauðsynlegt veghelgunarsvæði hafi áhrif og flokkist sem skemmdir á vegi og hlutverki hans.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 17. desember 2021 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu reiðleiðatenginga í Trippadal.

Við útgáfu framkvæmdaleyfis ber sveitarstjórn að fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2010 um framkvæmdaleyfi.

Meginreglan er sú að framkvæmdaleyfi skuli gefið út á grundvelli deiliskipulags, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laga nr. 123/2010. Heimilt er þó að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags, ef í aðalskipulaginu er gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað á ítarlegan hátt um umfang, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað það sem við á samkvæmt 5. mgr. 13. gr. laga nr. 123/2010.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030, sem í gildi var þegar hið kærða leyfi var gefið út, er ekki fjallað um reiðleiðatengingar í Trippadal. Í umfjöllun um svæði OP15, Austurheiðar, kemur einungis fram að „stefnt er að frekari stígagerð og bættum tengslum milli útivistarsvæða í grenndinni og uppbyggingu dvalar“. Á hinn bóginn er í aðalskipulaginu gert ráð fyrir að gerð verði grein fyrir nýjum reiðleiðum í deiliskipulagi.

Á grundvelli þessa verður að telja að skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar hafi verið óheimilt að gefa út hið kærða framkvæmdaleyfi. Verður þar ekki talið hafa þýðingu að gert hafi verið ráð fyrir reiðvegi þessum í rammaskipulagi, en slíkt skipulag hefur ekki lögformlega stöðu og getur því ekki bundið hendur sveitarfélaga við deiliskipulagsgerð eða skipað réttindum manna og skyldum með bindandi hætti, líkt og á við um aðal- og deiliskipulag. Þá virðist ekki unnt að telja hina kærðu framkvæmd til stígagerðar eins og henni er lýst í hinu kærða leyfi, enda væri ákvæði aðalskipulagsins um deiliskipulagsgerð reiðleiða þá þýðingarlaust.

Vegna sjónarmiða sem hafa komið fram í málinu verður að benda á að ágreiningur um eignarréttindi verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, þar á meðal ágreiningur sem kann að stafa af óvissu um umráðarétt yfir vegum. Slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir dómstóla.

Með vísan til framangreinds verður að telja að hið kærða framkvæmdaleyfi sé haldið slíkum annmarka að fella verði það úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 17. desember 2021 um útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu tveggja nýrra reiðleiðatenginga í Trippadal.

111/2022 Frostaskjól

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 2. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. júní 2022, um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir KR-svæðið – Frostaskjól 2-6, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 3. október 2022, kæra húsfélögin Meistaravöllum 33 og 35 þá ákvörðun borgarráðs frá 30. júní 2022 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir KR-svæðið – Frostaskjól 2-6. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjarvíkurborg 13. október 2022.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 14. janúar 2022 var lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir KR-svæðið. Markmið tillögunnar var að bæta aðstöðu íþróttafélagsins til íþrótta- og félagsstarfsemi með byggingu íþrótta- og þjónustubygginga. Auk þess fólust í tillögunni áform um byggingu íbúða á jöðrum lóðarinnar. Tillagan var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 9. febrúar s.á. og lagt til að tillagan yrði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 10. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 2. mars til og með 13. apríl 2022 og bárust athugasemdir á kynningartíma.

Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 22. apríl 2022 þar sem því var vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 19. maí s.á. var málinu vísað að nýju til skipulags- og samgönguráðs. Tók ráðið erindið fyrir á fundi 22. júní s.á. og var bókað að það væri samþykkt sbr. umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 19. maí s.á. Á fundi borgarráðs 30. júní 2022 var lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. s.m., sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. s.m. að nýju deiliskipulagi fyrir KR-svæðið ásamt fylgiskjölum og bókað „samþykkt“.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. ágúst 2022 var málið tekið fyrir og lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 19. s.m., þar sem ekki var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda en bent á að áður þyrfti að laga og/eða skýra heimilaða hámarkshæð ljósamastra íþróttavallarins. Var málinu vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 1. september s.á. var málið tekið fyrir að nýju og lagðir fram lagfærðir uppdrættir og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. sama dag. Var bókað að umsögn skipulagsfulltrúa væri samþykkt. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2022.

 Málsrök kærenda: Bent er á að gert sé ráð fyrir 100 íbúðum auk atvinnuhúsnæðis á jarðhæð fyrirhugaðs húss og að bílastæðaþörf verði í samræmi við bílastæðastefnu borgarinnar. Til samanburðar séu samtals 25 íbúðir í fjölbýlishúsinu að Meistaravöllum 31, 33 og 35. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í niðurstöður og umræður úr samgöngumati þar sem komi fram markmið borgarinnar að beita samspili aðgerða sem dragi úr kostum þess að nota einkabíl og að skapa hvata til að nýta aðra ferðamáta. Þetta sé í samræmi við alls óljósa huglæga stefnu Reykjavíkurborgar að breyta lífsvenjum íbúa. Ekki sé hægt að ætla annað en að bílastæðum muni fækka mjög, sé tekið tillit til væntanlegs íbúafjölda í þeim 100 íbúðum sem fyrirhugaðar séu, sem og starfsmanna og viðskiptavina fyrirhugaðs atvinnuhúsnæðis. Auk hinna 100 nýju íbúða fylgi allt að 5.000 m2 atvinnuhúsnæði með fjölda starfsfólks á opnunartíma og tilheyrandi umferð og bílastæðaþörf bæði starfsfólks og viðskiptavina. Þá muni umferð í tengslum við stækkun áhorfendasvæðis KR stóraukast.

Samkvæmt skipulaginu komi hæð bygginga til með að verða að hámarki 18,9 m án þess þó að fram komi hvort slík hæð eigi við eina byggingu eða þær allar. Til samanburðar sé hæð fjölbýlishússins að Meistaravöllum 31, 33 og 35, 15 m. Myndir af fyrirhuguðum byggingum gefi ranga mynd af umhverfinu, öll hlutföll séu röng og misvísandi og vart komi annað til greina en verið sé að beita blekkingum. Þá sé ljóst miðað við samþykkta hæð bygginga á svæðinu að skuggavarpsteikningar séu villandi og hreinlega rangar sem augljóslega megi sjá með samanburði við hæð þeirra fjölbýlishúsa sem fyrir séu. Þau gögn og upplýsingar sem liggi að baki hinu samþykkta deiliskipulagi séu með öllu ófullnægjandi og gefi íbúum og íbúðareigendum í næsta nágrenni engar haldbærar eða raunhæfar upplýsingar um umfang, áhrif og afleiðingar hinna samþykktu breytinga svæðisins. Þá sé ljóst að hagsmunir Knattspyrnufélags Reykjavíkur hafi einir verið hafðir að leiðarljósi.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að um sé að ræða endurskoðun á eldra deiliskipulagi fyrir Frostaskjól. Deiliskipulagið sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 18. janúar 2022 en þar hafi komið fram endurskoðuð stefna um íbúabyggð. Með nýju aðalskipulagi hafi landnotkunarflokki skilgreinds svæðis innan skipulagsins, KR-svæði-Kaplaskjólsvegur (VÞ30), verið breytt úr íþróttasvæði/opið svæði í íbúðarbyggð og verslun og þjónustu. Meginmarkmið breytingarinnar hafi verið að efla Vesturbæinn sem sjálfbært hverfi með fjölbreyttri verslun, þjónustu, atvinnustarfsemi og mannlífi. Markmiðið sé einnig að tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis í samræmi við megin markmið húsnæðisstefnu aðalskipulagsins og fjölbreytt framboð íbúðarhúsnæðis og búsetuforma. Stuðlað sé að bættri nýtingu svæða innan borgarinnar, sbr. markmið aðalskipulagsins um uppbyggingu þéttrar og blandaðrar byggðar, sjálfbærri borgarþróun og bættum borgarbrag.

Hinu endurskoðaða deiliskipulagi hafi verið ætlað að fylgja eftir og bæta aðstöðu til íþrótta- og félagsstarfsemi á lóð KR með byggingu íþrótta- og þjónustubygginga. Auk þess væru áform um að auka fjölbreytni svæðisins með byggingu íbúða á jöðrum lóðarinnar í samræmi við markmið aðalskipulags. Í nýju deiliskipulagi hafi svæðinu verið breytt í tvær lóðir þar sem á annarri lóðinni eru íbúðar- og þjónustubyggingar að Kaplaskjólsvegi og Flyðrugranda og á hinni lóðinni væru byggingar að meginhluta fyrir íþróttastarfsemi.

Unnið hafi verið samgöngumat fyrir svæðið sem hafi tilgreint þann fjölda bílastæða sem æskilegur sé samkvæmt viðmiðum borgarinnar í reglum um bíla- og hjólastæði. Með réttu væri stór hluti svæðisins skilgreindur sem íþróttasvæði og yrði þannig á vissum tíma mikill fjöldi gesta þar. Yfirleitt væri um að ræða viðburði sem stæðu yfir í nokkrar klukkustundir og sköpuðu talsverða umferð. Ljóst væri að við slíkar aðstæður gæti umferð við og um svæðið og næsta nágrenni orðið umtalsverð og reynt á afkastagetu innviða. Samgöngumatið skilgreini og leggi til að umsjónaraðilar KR og Reykjavíkurborg hefðu til taks áætlun sem miðaði að því að stjórna umferð og notkun innviða svæðisins þegar stærri viðburðir færu fram. Gestir gætu verið hvattir til að nýta sér vistvæna ferðamáta til að nálgast viðburði og að vel væri skilgreint hvar mögulegt væri að leggja ökutækjum í borgarlandi.

Ekki sé fallist á það að uppdrættir og önnur gögn séu ekki nægilega upplýsandi. Tiltekið sé á hverjum uppdrætti hversu háar byggingar megi vera. Á teikningum í kafla um skilmálaútlit og í skilmálasneiðingum á uppdrætti hafi verið sett fram hámarksvegghæð hvers byggingarhluta fyrir sig og einnig settir niður gólfkótar sem eigi að mæla út frá. Hvað skuggavarp varði þá gætu íbúar í borg ávallt átt von á að nánasta umhverfi þeirra taki breytingum sem geti haft í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðar aukningu eða aðrar breytingar. Til að koma til móts við áhyggjur íbúa á svæðinu sem verði fyrir auknu skuggavarpi hafi verið ákveðið að draga úr hæðarkótum, hámark salarhæða lækkað og hámarksvegghæð lækkuð úr 19,5 m í 18,9 m. Breytingin muni draga aðeins úr skuggavarpi inn á þær lóðir sem verði fyrir mestu áhrifunum.

Framsetning deiliskipulagsuppdráttar hafi verið í samræmi við gr. 5.8.5. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Deiliskipulagið hafi verið auglýst samkvæmt 41. gr. skipulagslaga og málsmeðferðin verið í samræmi við málsmeðferðarreglur laganna og stjórnsýslulög. Fyrir utan lögformlegt kynningarferli samkvæmt skipulagslögum hafi einnig verið send bréf til íbúa í nágrenni svæðisins á kynningartíma þar sem bent hafi verið á að skipulagið væri í auglýsingu og athugasemdafrestur tilgreindur. Að auki hafi verið haldinn opinn fjölmennur kynningarfundur fyrir íbúa á auglýsingartíma.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Ekki sé hægt að fallast á að bætt aðstaða til íþrótta- og félagsstarfsemi á lóð KR felist í því að minnka stórlega svæði til slíkrar iðkunar og starfsemi. Þessi hluti Reykjavíkur sé mjög fjölbreyttur og hafi um áratuga skeið verið eitt þéttbyggðasta svæði borgarinnar. Ekki sé hægt að fallast á það að með byggingu íbúða á jöðrum lóðarinnar aukist fjölbreytni svæðisins. Svör borgarinnar varðandi bílastæði bæti engu við fyrir utan að leggja áherslu á að gestir geti verið hvattir til að nýta sér vistvæna ferðamáta. Framsetning uppdrátta og önnur gögn séu langt frá því að vera upplýsandi, útlitsmyndir fyrirhugaðra íbúðarhúsa gefi ranga mynd af hæð þeirra. Mikið hafi verið gert úr því að dregið hafi verið úr hæð bygginga úr 19,5 m í 18,9 m til að koma til móts við áhyggjur íbúa á svæðinu. Um sé að ræða 60 cm samsvari lengd handleggs frá olnboga að fingurgómum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. júní 2022 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir KR-svæðið – Frostaskjól 2-6. Með deiliskipulaginu er svæðinu skipt upp í tvær lóðir, annars vegar lóð 1 fyrir íþróttamannvirki og hins vegar lóð 2 fyrir íbúða- og þjónustubyggingar við Flyðrugranda og Kaplaskjólsveg. Á lóð 1 er gert ráð fyrir nýbyggingum tengdum íþrótta- og félagsaðstöðu að hámarki 26.600 m2 en á lóð 2 allt að 100 íbúðum og atvinnu- og þjónustustarfsemi að hámarki 15.000 m2, þar sem hámarkshæð bygginga verði fjórar hæðir eða 18,9 m.

Með nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 var landnotkun innan hins kærða skipulagssvæðis breytt úr opnu svæði í verslunar-, þjónustu- og íbúðarbyggð. Markmið breytingarinnar var að efla Vesturbæinn sem sjálfbært hverfi með fjölbreyttri verslun, þjónustu, atvinnustarfsemi og mannlífi og að tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis í samræmi við markmið húsnæðisstefnu aðalskipulagsins og stuðla að bættri nýtingu svæða innan borgarinnar í samræmi við markmið aðalskipulags um uppbyggingu þéttrar og blandaðrar byggðar. Í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram að svæðið sé einn af uppbyggingarreitum fyrir nýja íbúðarbyggð þar sem gera megi ráð fyrir 50 íbúðum eða fleiri og að byggingar innan svæðisins geti verið allt að fimm hæðir. Í greinargerð aðalskipulagsins segir enn fremur að stefna og viðmið þess um þéttleika byggðar og byggingarmagn gefi einvörðungu til kynna mögulega hámarksnýtingu svæða. Endanleg ákvörðun um magn bygginga, fjölda íbúða, hæðir húsa og þéttleika á einstökum svæðum sé ávallt tekin við gerð deiliskipulags með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggðar að undangengnu kynningar- og samráðsferli, mati á umhverfisáhrifum og með sérstöku tilliti til þeirra viðmiða og ákvæða sem sett séu fram í köflum 3.6.1–3.6.4 aðalskipulagsins. Í þeim köflum er m.a. vikið að atriðum sem snerta umhverfisgæði sem taka þurfi mið af við endanlegt mat á umfangi uppbyggingar, ákvörðun um hæðir húsa og byggingarform í deiliskipulagi. Þá er t.a.m. tekið fram að við endanlega ákvörðun um byggingarmagn og fjölda íbúða í deiliskipulagi eigi að leggja til grundvallar niðurstöður úr samgöngumati og mati á áhrifum uppbyggingar á umferð á nærliggjandi götum. Liggur ekki annað fyrir en að umdeilt deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag svo sem áskilið er í 7. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar var unnið samgöngumat og er til þess vísað í greinargerð deiliskipulagsins. Þar kemur fram að lagt hafi verið mat á umferðarsköpun og væri hún ekki talin hafa umtalsverð áhrif á afkastagetu nærliggjandi gatnakerfis, þ.e. götur og gatnamót. Uppbyggingin var talin skapa um 4.000 ferðir daglega og að um helmingur þeirra yrði farinn á bíl. Vegna staðsetningar og notkunar svæðisins væru tækifæri til að styðja við aukna hlutdeild vistvænna ferðamáta. Þá er í greinargerð deiliskipulagsins lagðar til grundvallar reglur Reykjavíkurborgar varðandi hjóla- og bílastæði og samkvæmt þeim forsendum væri þörfin 174 bílastæði og 368 hjólastæði. Í samgöngumati var gert ráð fyrir að mögulegt sé að meta samnýtingu bílastæða, innleiðingu deilibílaþjónustu, samgöngusamningum notenda og aðgengi að almenningsvögnum til minnkunar á bílastæðaþörf. Ef allir möguleikar væru nýttir þá væri þörfin metin 120 bílastæði á reitnum. Verður að telja að framsetning deiliskipulagsins hvað varðar bílastæðafjölda sé í samræmi við kröfur b-liðar gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Fjallað er um skuggavarp í 1. mgr. b-liðar í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð. Þar kemur fram að við ákvörðun um fjarlægð milli einstakra byggingarreita skuli taka tillit til sólarhæðar og skuggavarps eftir því hver notkun bygginganna sé. Þá er fjallað um skýringarmyndir og önnur fylgiskjöl deiliskipulagstillögu í gr. 5.5.4. og kemur þar fram að ef skýringaruppdrættir fylgi skuli vísa til þeirra í deiliskipulagi og að skýringaruppdrætti, svo sem skuggavarpsteikningar, sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags.

Með hinu kærða skipulagi fylgja skuggavarpsteikningar sem sýna skuggavarp á jafndægrum og sumarsólstöðum kl. 10:00, 13:30 og 17:00. Gerð var athugasemd við skuggavarpsteikningar skipulagstillögunnar á kynningartíma hennar þar sem ekki væru sýndar skuggavarpsteikningar af fyrirhuguðum byggingum eftir kl. 17:00 á kvöldin. Í svörum skipulagsfulltrúa kom fram að slík teikning hefði verið unnin en ekki hefði verið talin ástæða til að setja hana í kynningargögn. Með svörum skipulagsfulltrúa var sýnd teikning af skuggavarpi kl. 19:00 í júní. Var það mat skipulagsfulltrúa að ekki væri þörf á að sýna skuggavarp kl. 19:00 í mars og september þar sem sólin væri nánast sest um það leyti og því þegar orðið dimmt. Í kjölfar kynningar skipulagstillögunnar var hámarksvegghæð íbúðarhúsnæðis, sem snýr m.a. að fasteignum kærenda, lækkuð úr 19,5 m í 18,9 m til að draga úr skuggavarpi.

Áhrif umrædds deiliskipulags á skuggavarp hafa verið könnuð í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar. Af gögnum málsins verður ráðið að heimilaðar framkvæmdir í hinu kærða deiliskipulagi muni hafa í för með sér grenndaráhrif vegna skuggavarps en telja verður að skipulagsyfirvöld hafi nokkurt svigrúm við mat á því hvert ásættanlegt skuggavarp sé hverju sinni. Þá var hámarksvegghæð lækkuð til að koma til móts við athugasemdir íbúa og draga úr skuggavarpi. Að framangreindu virtu verður ekki talið að grenndarhagsmunum kærenda hafi verið raskað með þeim hætti að réttur þeirra hafi verið fyrir borð borinn í skilningi c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna deiliskipulagsákvarðana geta eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs frá 30. júní 2022 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir KR-svæðið – Frostaskjól 2-6.

120/2022 Gerðatún Efra

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 2. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 120/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar frá 5. október 2022 um að samþykkja afgreiðslu framkvæmda- og skipulagsráðs frá 20. september s.á. á tillögu að deiliskipulagi Gerðatúns Efra.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra Heiðarhús ehf. og landeigendur Gerða 1 og 2 þá ákvörðun bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar frá 5. október 2022 um að samþykkja afgreiðslu framkvæmda- og skipulagsráðs frá 20. september s.á. á tillögu að deiliskipulagi Gerðatúns Efra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir bæjarstjórn að samþykkja deiliskipulagstillöguna eins og hún liggi fyrir.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 21. nóvember 2022.

Málavextir: Hinn 16. febrúar 2022 var á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar tekin fyrir og samþykkt beiðni kærenda um heimild til að vinna deiliskipulagstillögu fyrir þrjú fjölbýlishús á reit á milli Melbrautar og Valbrautar, þ.e. Gerðatún Efra, í Garði í Suðurnesjabæ. Á fundi 17. mars s.á. samþykkti ráðið tillögu kærenda og lagði til við bæjarstjórn að hún yrði auglýst og kynnt skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 6. apríl 2022. Tillagan var auglýst til kynningar frá 21. s.m. til 3. júní s.á. og bárust 13 athugasemdir á kynningartíma ásamt undirskriftarlista 146 íbúa sem jafnframt lögðust gegn henni. Vegna athugasemdanna skiluðu kærendur inn greinargerð, dags. 25. júlí 2022, með svörum við framkomnum athugasemdum. Tillagan var lögð fram á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs 4. ágúst s.á. og samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram með kærendum í samræmi við umræður á fundinum. Hinn 20. september s.á. tók ráðið tillöguna fyrir að nýju og færði til bókar að fjölmargar athugasemdir hefðu borist og að flestar þeirra „snúast um hæð húsa, of mikinn fjölda íbúða, aukna umferð og sé þannig í nokkru ósamræmi við yfirbragð núverandi byggðar sem sé gróið einbýlishúsahverfi.“ Lagði ráðið til að tekið yrði tillit til framkominna athugasemda og að kærendum yrði gert að gera breytingu á tillögunni þannig að húsin yrðu einungis á einni hæð og með færri íbúðum. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 5. október 2022.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að tillaga þeirra að deiliskipulagi Gerðatúns Efra standist öll þau skilyrði sem kveðið sé á um í skipulagslögum nr. 123/2010 og eftir atvikum öðrum lögum og reglugerðum. Þar að auki geti ákvörðun Suðurnesjabæjar, um að hafna í reynd fyrirliggjandi tillögu og gera kærendum að breyta henni þannig að húsin verði einungis á einni hæð og íbúðum fækki, ekki talist málefnaleg eða réttmæt.

Sveitarfélagið fari óumdeilanlega með skipulagsvaldið í sveitarfélaginu, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, en því valdi verði þó ekki beitt af handahófi eða eftir geðþótta hverju sinni. Sveitarfélagið hafi sett fram stefnu um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í gildandi Aðalskipulagi Garðs 2013–2030. Samkvæmt aðalskipulaginu sé það yfirlýst stefna sveitarfélagsins að fjölga íbúðum á svæðinu og þétta byggð og hafi verið byggt á þeirri stefnu við gerð deiliskipulagstillögunnar. Rúmist tillagan því óhjákvæmilega innan heimilda aðalskipulags í samræmi við ákvæði 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Þrátt fyrir að tillagan hafi verið unnin í samræmi við stefnu sveitarfélagsins í skipulagsmálum hafi bæjarstjórn kosið að hafna henni. Ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd heldur hafi einungis verið vísað til afgreiðslu framkvæmda- og skipulagsráðs frá fundi þess 20. september 2022. Í fundargerð sé þó tæplega að finna eiginlegan rökstuðning heldur sé þar einungis vísað til athugasemda íbúa við tillöguna og hún sögð í „nokkru ósamræmi við yfirbragð núverandi byggðar sem sé gróið einbýlishúsahverfi.“ Á hinn bóginn sé hvorki vísað til form- eða efnisgalla né útskýrt hvort eða hvernig tillagan samræmist eða samræmist ekki gildandi aðalskipulagi.

Ekki verði betur séð en að umræddar athugasemdir beinist gegn þéttingu byggðar á svæðinu. Nánar tiltekið sé um að ræða almennar athugasemdir sem beinist í raun að stefnu sveitarfélagsins eins og hún birtist t.a.m. í gildandi aðalskipulagi, en hvergi hafi komið fram að tillagan gangi gegn lögvörðum og einstaklingsbundnum hagsmunum umsagnaraðila eða að hún brjóti gegn lögum, reglugerðum eða fyrirliggjandi skipulagsáætlunum. Horfa verði til þess að aðalskipulagið hafi öðlast gildi árið 2015 og því sé frestur íbúa til að gera athugasemdir við skipulagið og þá stefnu sem þar birtist því augljóslega löngu liðinn. Það geti vart talist málefnaleg stjórnsýsla að hafna tillögu með vísan til athugasemda nágranna þrátt fyrir að tillagan hafi verið sniðin að skipulagsstefnu bæjarins. Því til viðbótar hafi sveitarfélagið horft alfarið fram hjá þeim svörum sem skipulagshöfundar og ráðgjafar kærenda hafi tekið saman í greinargerð, dags. 25. júlí 2022, vegna athugasemda íbúa. Af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins leiði að bæjarstjórn hafi verið skylt að taka greinargerðina til skoðunar og taka afstöðu til þeirra sjónarmiða sem þar birtast.

Bent sé á að enginn sérstakur stíll sé ráðandi í byggingum á svæðinu í kringum Gerðatún Efra. Húsin séu nokkuð fjölbreytt og hæð þeirra mismunandi. Í næsta nágrenni skipulagssvæðisins séu t.a.m. nokkur rismikil tveggja hæða hús. Hæðarmæling með yfirflugi hafi verið framkvæmd og hafi hún leitt í ljós að hæðir nokkurra bygginga í nágrenninu séu fyllilega sambærilegar við fyrirhugaðar byggingar kærenda. Mikilvægt sé að íbúðir séu fjölbreyttar að stærð og gerð til þess að unnt sé að tryggja þéttingu byggðar og samfélagslega sjálfbærni. Því til viðbótar geri síðasta samþykkta deiliskipulag í námunda við umrætt skipulagssvæði, þ.e. deiliskipulag ofan Garðbrautar og neðan Melbrautar, ráð fyrir því að hús séu einnar eða tveggja hæða. Þar af leiðandi sé byggðamynstur með blöndu af einnar og tveggja hæðar húsum viðurkennt í þessum hluta bæjarins. Brjóti hin kærða ákvörðun því einnig gegn jafnræðisreglum stjórnsýsluréttarins.

Athugasemdum um ætlaða umferðaraukningu og -hraða hafi verið svarað í greinargerð skipulagshöfunda og ráðgjafa kærenda frá 25. júlí 2022. Þar að auki hafi verið lögð fram málefnaleg tillaga um að breyta einstefnugötu í tvístefnu þannig að umferð dreifist betur, en ekki verði séð að bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til þess frekar en annarra sjónarmiða sem lögð hafi verið fram við meðferð málsins af hálfu kærenda.

Málsrök Suðurnesjabæjar: Sveitarfélagið bendir á að skýrt hafi komið fram í afgreiðslu framkvæmda- og skipulagsráðs á fundi ráðsins 20. september 2022 að greinargerð og svör skipulagshöfunda við framkomnum umsögnum og athugasemdum hafi verið lagðar fram sem hluti af málsgögnum og um þær fjallað. Sé því fullyrðingum kærenda um að ekkert tillit hafi verið tekið til greinargerðar þeirra hafnað. Þá rekur sveitarfélagið atvik málsins í umsögn sinni og bendir m.a. á fjölda þeirra sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillöguna.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Gerð er athugasemd við að í umsögn Suðurnesjabæjar sé ekki gerður reki að því að svara sjónarmiðum kærenda. Aðeins sé vísað til athugasemda frá íbúum og að fjöldi einstaklinga hafi ritað nafn sitt á undirskriftarlista gegn deiliskipulagstillögunni. Hvergi sé rökstutt hvernig umræddir einstaklingar eigi sérstaka og lögvarða hagsmuni að gæta af ákvörðuninni. Þá sé ekki rökstutt hvers vegna athugasemdirnar hafi vegið þyngra heldur en sjónarmið kærenda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti afgreiðslu skipulagsyfirvalda Suðurnesjabæjar að breyta auglýstri deiliskipulagstillögu fyrir Gerðatún Efra á þann veg að fyrirhuguð fjölbýlishús yrðu einungis á einni hæð og með færri íbúðum. Á auglýsingatíma hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar komu fram þó nokkrar athugasemdir auk þess sem 146 manns skrifuðu nafn sitt á undirskriftarlista þar sem deiliskipulagstillögunni var mótmælt. Flestar athugasemdirnar sneru að fjölda íbúða, aukinni umferð og því að fyrirhugaðar byggingar samræmdust ekki þeirri byggð sem fyrir væri á svæðinu.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og getur þannig haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Sveitarstjórnir annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Við beitingu þessara ákvæða ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Við töku ákvarðana um skipulagsmál ber sveitarstjórn sem endranær að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað og heimild til að breyta deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga. Samkvæmt 12. mgr. 7. gr. laganna skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag.

Hin umdeilda deiliskipulagstillaga er innan svæðis ÍB5 samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs 2013-2030. Gerir aðalskipulagið ráð fyrir mögulegri fjölgun íbúða á því svæði án þess þó að sú fjölgun sé nánar tilgreind. Í greinargerð aðalskipulagsins er fjallað um að núverandi byggð í sveitarfélaginu sé lág auk þess sem þar kemur fram að markmið aðalskipulagsins sé meðal annars að skapa aðlaðandi umhverfi til búsetu í sérbýli fyrst og fremst og styrkja byggðamynstur m.a. með þéttingu byggðar. Nánara fyrirkomulag byggðar skuli útfært í deiliskipulagi. Á þeim svæðum sem teljast til íbúðarsvæða skv. aðalskipulagi er almennt gert ráð fyrir að byggð séu 1-2 hæða sér- eða fjölbýli en ekki er tiltekið sérstaklega hvers konar byggingar séu heimilar á svæði ÍB5. Sú byggð sem fyrir er á svæði ÍB5 eru almennt einbýlishús á einni hæð en einnig er þó þar að finna hús á tveimur hæðum.

Skipulagslögum er ætlað að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að veitt sé tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. c- og d-lið 1. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum segir meðal annars: „Í d-lið, sem er nýmæli, er kveðið á um að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana. Með þessari breytingu er lögð áhersla á að við gerð skipulags sé almenningi gefið tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós. Skipulagsákvarðanir sveitarfélaga geta varðað íbúa mjög miklu og nauðsynlegt er að sjónarmið þeirra komi fram við gerð skipulags þannig að þau liggi ljós fyrir áður en sveitarfélög samþykkja viðkomandi skipulagsáætlun. Í frumvarpi þessu er lögð áhersla á að auka aðkomu almennings að gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt er. Með því er ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélögin þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun um skipulagsáætlun.“ Var sveitarstjórn heimilt að breyta hinni auglýstu deiliskipulagstillögu að kynningu lokinni með hliðsjón af framkomnum athugasemdum íbúa á svæðinu sem lágu fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þess ber og að gæta að aðalskipulag setur deiliskipulagi skorður en í deiliskipulagi er að öðru leyti m.a. teknar ákvarðanir um byggðamynstur, húsagerðir og íbúðafjölda innan heimilda aðalskipulags, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar frá 5. október 2022 um að samþykkja afgreiðslu framkvæmda- og skipulagsráðs frá 20. september s.á. á tillögu að deiliskipulagi Gerðatúns Efra.

17/2023 Stóri Grámelur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 23. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 17/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 15. júní 2022 að samþykkja nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 29. janúar 2023, kæra eigendur landareignarinnar Hagavíkur C, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 15. júní 2022 að samþykkja nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi hvað varðar þann hluta hverfisverndar HV6 sem nær inn í land Hagavíkur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 17. febrúar 2023.

Málsatvik og rök: Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 16. febrúar 2022 að auglýsa tillögu að nýju aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032. Á kynningartíma gerðu kærendur athugasemdir við hverfisvernd á Stóra-Grámel í landi Hagavíkur C. Sveitarstjórn féllst ekki á athugasemdir kærenda. Aðalskipulagið var samþykkt af sveitarstjórn 15. júní 2022, staðfest af Skipulagsstofnun 13. desember s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.

Af hálfu kærenda er bent á að aðalskipulagið hafi ekki verið staðfest af ráðherra og eigi því undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engin þörf sé á hverfisvernd á svæðinu þar sem engin ógn stafi af svæðinu og engar framkvæmdir ráðgerðar. Þá séu lagaákvæði um hverfisvernd svo almenn og óljós að ekki ætti að vera hægt að leggja á skyldur eða kvaðir á grundvelli þeirra. Að lokum hafi rökstuðningur ákvarðana verið rýr og svör frá sveitarfélaginu borist seint.

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er farið fram á frávísun málsins með vísan til 52. gr. laga nr. 123/2010.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag.

Kærendur hafa bent á að ráðherra hafi ekki staðfest aðalskipulagið og eigi málið því undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður að skilja 52. gr. laga nr. 123/2010 sem svo að ákvarðanir sem annaðhvort eru staðfestar af Skipulagsstofnun eða af ráðherra verði ekki bornar undir nefndina, enda eru engar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 123/2010 sem bæði Skipulagsstofnun og ráðherra þurfa að staðfesta.

Samkvæmt framangreindu brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

25/2023 Sóltún

Með

Árið 2023, föstudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 25/2023, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2022, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Sóltún.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20 febrúar 2023, kæra Íbúasamtök Laugardals, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðar nr. 2-4 við Sóltún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hinn 24. nóvember 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðar nr. 2-4 við Sóltún. Samkvæmt breytingartillögunni var lóðinni skipt í tvennt, nr. 2 og nr. 4. Breytingar vegna lóðar nr. 2 fólust meðal annars í að tvær álmur voru lengdar til að bæta við hjúkrunarrýmum, fimmtu hæðinni var bætt við að hluta og kjallari stækkaður. Á lóð nr. 4 var meðal annars formi byggingarreits breytt, notkun breytt úr hjúkrunarheimili í íbúðir og hæðar heimild aukin úr 4 hæðum í 5, með 6. hæð að hluta.

Kærendur vísa til þess að samþykkt viðbygging við Sóltún 2 muni skerða aðgengi og dagsbirtu í almenningsgarði sem afmarkist af byggingum við Sóltún og Miðtún. Athugasemdir íbúa og ítrekuð erindi frá íbúasamtökunum hafi ekki verið tekin til greina við skipulagsvinnuna.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bíður deiliskipulagið afgreiðslu Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu.

 

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

105/2022 Hestur og Kiðjaberg

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 22. febrúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 17. ágúst 2022, um að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests vegna lóðar nr. 8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. september 2022, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Biskupsgarður ehf. eigandi Kiðjabergs lands 1, lnr. 201276, og Robert Kaatee, eigandi u.þ.b. 3% eignarhluta í jörðinni Hesti, lnr. 168251, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 17. ágúst 2022, að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests vegna lóðar nr. 8. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. 12. október 2022.

Málavexir: Jörðin Hestur, lnr. 168251, er að meirihluta til í eigu samnefnds einkahlutfélags en lítill hluti er í eigu annars kærenda. Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. 9. júní 2021 var lögð fram umsókn einkahlutafélagsins um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi jarðarinnar sem fólst í breytingu á lóðarmörkum og á byggingarreit. Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita er byggðasamlag nokkurra sveitarfélaga, þ.m.t. Grímsnes- og Grafningshrepps, sem hefur það hlutverk að annast lögbundin verkefni byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Á fundi nefndarinnar var mælst til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að hún samþykkti umsóknina og að málið fengi málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um óverulega breytingu á deiliskipulagi og yrði grenndarkynnt. Á fundi sveitarstjórnarinnar 16. júní 2021 var samþykkt að grenndarkynna umsóknina.

Greind tillaga að breytingu á deiliskipulagi var grenndarkynnt 22. júní 2021 með athugasemdafresti til 22. júlí s.á., sem framlengdur var til 29. s.m. Athugasemdir við tillöguna bárust á kynningartímanum, þ. á m. frá eiganda Kiðjabergs lands 1, öðrum kærenda í máli þessu, sem mótmælti breytingunni. Á fundi sveitarstjórnar 1. september 2021 var var málið tekið fyrir að nýju og samþykkt að fresta afgreiðslu þess vegna framkominna athugasemda og var skipulagsfulltrúa falið að annast samskipti við umsækjanda um framgang og lausn málsins.

Á fundi skipulagsnefndar 13. júlí 2022 var á ný lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi jarðarinnar Hesti vegna lóðar nr. 8 og kom fram að hún væri lögð fram eftir grenndarkynningu. Athugasemdir hefðu borist við tillöguna sem lagðar væru fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum. Mæltist nefndin til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að deiliskipulagsbreytingin yrði „samþykkt eftir auglýsingu“. Við afgreiðslu málsins hefði verið lagt fram þinglýst afsal og uppdráttur frá árinu 1979 sem tæki til aðliggjandi lóðar. Þá væri lagt fram vinnuskjal skipulagsfulltrúa þar sem lögð hefðu verið saman gögn frá 1979 og framlögð deiliskipulagsbreyting. Taldi nefndin ekki ástæðu til að bregðast við athugasemdum varðandi fjarlægð frá lóðamörkum til vestur og var bókað að skilgreindur byggingarreitur væri innan takmörkunar gr. 5.3.2.12. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 auk þess sem um 40 m svæði innan jarðarinnar Hests væri á milli umræddrar lóðar og næstu lóðar í landi Kiðjabergs.

Á fundi sveitarstjórnar 17. ágúst 2022 var bókað um framlagningu fundargerðar skipulagsnefndar frá 13. júlí s.á. Fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar að lögð hafi verið fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi jarðarinnar Hests eftir grenndarkynningu sem fælist í breytingu á lóðarmörkum og nýrri legu byggingarreits á lóð nr. 8. Athugasemdir hefðu borist við grenndarkynninguna sem lagðar hefðu verið fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum. Var deiliskipulagið samþykkt á fundinum með tillögu um að þeim sem athugasemdir gerðu við grenndarkynningu málsins yrðu send uppfærð gögn til skoðunar og þeim kynnt niðurstaða skipulagsnefndar og sveitarstjórnar. Með bréfi, dags. 29. ágúst s.á., var þeim sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynninguna tilkynnt um niðurstöðu sveitarstjórnar. Auglýsing um deiliskipulagsbreytinguna var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. september s.á.

 Málsrök kærenda: Kærendur álíta að í hinu kærða deiliskipulagi sé búið að hagræða lóðarmerkjum austan megin við lóð 8 á kostnað lóðarmarka vestan megin með því að fara inn á „einskismannsland“ við mörk fasteignar þeirra, Kiðjaberg land 1. Ný lóðamerki lóðar nr. 8 vestan megin samræmist ekki „línu lóðamerkja“ norðan megin. Enn og aftur sé verið að hagræða með því að fara inn á einskismannsland við landamæri Kiðjabergs lands 1.

 Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekki séu fyrir hendi annmarkar á málsmeðferð þess sem leitt geti til ógildingar á ákvörðunni. Öll málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem um hafi verið að ræða óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi hafi 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 átt við og því nægilegt að grenndarkynna breytinguna í samræmi við ákvæði 44. gr. laganna. Slíkt hafi verið gert og hafi sveitarfélagið tekið tillit til þeirra athugasemda sem bárust.

Því sé mótmælt að lóðarmörkum austan megin við lóð nr. 8 hafi verið hagrætt á kostnað landamæra vestan megin með því að fara inn á „einskismannsland“ við landamæri Kiðjabergs. Með hinu kærða deiliskipulagi séu engar frekari breytingar gerðar á mörkum lóðarinnar að óskiptu landi Hest frá núverandi legu lóðarinnar samkvæmt eldra deiliskipulagi frá 1997. Í eldra deiliskipulagi hefði verið gert ráð fyrir lóð nr. 8, en þá hafi lóðarmörkin verið teiknuð niður að Hvítá, en með hinu nýja skipulagi hafi lóðin verið afmörkuð betur auk þess sem gert sé ráð fyrir stærri byggingarreit. Þá hafi lóð nr. 8 ekki verið stofnuð formlega og vandséð að hægt sé að hagræða lóðarmörkum óstofnaðrar lóðar. Gera megi ráð fyrir því að lóðin verði stofnuð úr upprunalandi jarðarinnar Hests, sem téð óskipt land á milli Hests og Kiðjabergs taki einnig til. Þá verði eignarheimildum að jafnaði ekki breytt með deiliskipulagi og sé stofnun lóðarinnar í samræmi við deiliskipulag í öllum tilfellum háð samþykki landeigenda upprunajarðar Hests.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu Hests ehf. er fjallað um gildi heimilda vísað sé til í kæru og að hvaða marki hafi verið litið til þeirra við undirbúning deiliskipulagsins.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir séu að hluta eigendur jarðarinnar Hests og þar með umræddrar lóðar nr. 8. Þeir mótmæli breyttri línu vestan megin þar sem farið sé inn á „einskismannsland“ sem skilji að jarðirnar Hest og Kiðjaberg land 1. Ný lóðarmerki lóðar nr. 8 vestan megin samræmist ekki línu lóðamerkja norðan við lóðir nr. 2, 4 og 6 í gildandi skipulagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 17. ágúst 2022 að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Hests sem fól í sér breytingu á lóðamörkum og breytta legu og stærð byggingarreits á spildu í frístundabyggð jarðarinnar, en auglýsing um samþykktina var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. september s.á.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulagsákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Nýtt Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2022. Er umrætt svæði í skilgreindri frístundabyggð og er það óbreytt frá Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008–2020 sem var í gildi við málsmeðferð hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar. Í greinargerð þágildandi aðalskipulags kemur m.a. fram að nýtingarhlufall á sumarhúsalóðum skuli ekki fara yfir 0,03 og að miða skuli við að fjarlægð húss frá vatnsbakka sé að jafnaði 50 m hið minnsta. Um frístundabyggðina á Hesti kemur og fram að vestast á svæðinu, næst Hvítá þurfi að huga vandlega að staðsetningu sumarhúsa vegna flóðahættu.

Deiliskipulag frístundabyggðar í landi Hests er frá árinu 1997 og var þar gert ráð fyrir 135 lóðum á svæðinu, þ. á m. lóð nr. 8, suðvestast í byggðinni. Á mörkum jarðanna Kiðjabergs og Hests, frá Hvítá og að Hestsvatni, voru mörk frístundabyggðarinnar til vesturs sýnd með beinni línu sem náði þó ekki að vatninu. Níu lóðir í byggðinni áttu greind mörk til vesturs og var lóð nr. 8 neðst á svæðinu með mörk til suðurs að Hvíta. Var það eina lóðin sem átti mörk að ánni. Austurmörk lóðarinnar sneru að ódeiliskipulögðu svæði. Deiliskipulaginu fylgdi eignaskiptasamningur frá árinu 1987 og má af honum ráða að lóð nr. 8 ásamt öðru óskiptu landi hafi tilheyrt óskiptri sameign þáverandi eigenda jarðarinnar Hests.

Á uppdrátt hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er ritað að „[á]rið 2021 var gerð deiliskipulagsbreyting á lóðinni þar sem lóðamörkum var breytt og byggingarreitur stækkaður.“ Fyrir liggur að þrátt fyrir þessa tilvísun hafa ekki verið gerðar aðrar breytingar á deiliskipulagi sem varða lóð nr. 8 en sú sem kærð er í máli þessu. Á uppdrættinum eru ný mörk lóðarinnar sýnd og má ráða að lóðinni er ekki lengur ætlað að liggja að Hvítá. Þrátt fyrir að uppdrátturinn gefi takmarkaða sýn á svæðið í heild má sjá að í vesturátt, þ.e. í átt að Kiðjabergi, eru mörk frístundasvæðisins sýnd sem bein lína, innan marka Hests. Ekki verður ráðið af uppdrættinum að vesturmörkum lóðarinnar hafi verið breytt líkt og kærendur hafa haldið fram. Á milli frístundabyggðarinnar og næstu lóðar, þ.e. Kiðjabergs lands 1, er ódeiliskipulagt svæði í landi Hests. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að með þessu séu um 40 m á milli umdeildrar lóðar og fyrrnefndrar næstu lóðar. Þá hefur byggingarreitur lóðar nr. 8 verið stækkaður, til suðurs og vesturs. Er reiturinn í kjölfarið 15 m frá vesturmörkum lóðarinnar í stað 25 m áður og því nær lóð annars kærenda sem því nemur.

Í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga er tekið fram að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á gildandi deiliskipulagi á sinn kostnað. Ákvæði þetta eða önnur ákvæði skipulagslaga og laga nr. 160/2010 um mannvirki gefa ekki tilefni til þeirrar ályktunar að skipulagsvaldi sveitarstjórna séu takmörk sett vegna eignarhalds á landi. Hins vegar ber stjórnvöldum skv. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga eftir föngum að leita eftir sjónarmiðum og tillögum þeirra er hagsmuna eiga að gæta varðandi mörkun stefnu við gerð skipulagsáætlana. Á ákvæði þetta ekki síst við um þá sem ætla má að eigi land það sem skipulag tekur til. Ekki liggur fyrir að slíkt samráð hafi verið haft við annan af tveimur eigendum jarðarinnar Hests, annan kærenda í máli þessu, við undirbúning að umræddri breytingu á deiliskipulagi og verður að telja það til annmarka á málsmeðferð skipulagsins, eins og á stóð.

Eins og hér stendur sérstaklega á þykir þó þessi annmarki ekki eiga að ráða úrslitum um gildi umdeildrar skipulagsákvörðunar. Til þess er að líta að um óverulega breytingu er að ræða á skipulagi jafnframt því að kærandi á tiltölulega litla eignarhlutdeild í því landi sem um ræðir. Þá eru framkvæmdir á grundvelli deiliskipulags síðar meir, þ.e. möguleg stofnun umþrættrar lóðar eða mannvirkjagerð á henni, eftir atvikum háðar samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum þeirra laga sem við eiga hverju sinni.

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Af hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu má ráða að hún feli það í sér að lóðin er minnkuð frá fyrri áformum og byggingarreitur lóðarinnar rýmkaður talsvert. Skilmálar eldra deiliskipulags um landnotkun, nýtingarhlutfall, útlit og form bygginga haldast óbreyttir. Þá er breytingin í samræmi við gildandi aðalskipulag. Að því virtu verður hin umdeilda breyting talin það óveruleg að heimilt hafi verið að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Líkt og fram kom í málavöxtum var tillaga að hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu grenndarkynnt, m.a. fyrir öðrum kærenda í máli þessu. Afgreiðslu málsins var frestað vegna framkominna athugasemda og ekki lagt fyrir á ný fyrr en að lokinni nánari athugun skipulagsfulltrúa. Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. 13. júlí 2022 var tekin afstaða til framkominna athugasemda. Gerði sveitarstjórn þær að sínum og sendi með tilkynningu um niðurstöðu hennar á fundi 17. ágúst s.á. Deiliskipulagið var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. september 2022, eða innan árs frá samþykkt tillögunnar í samræmi við gr. 5.8.2. og 5.9.5. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Deiliskipulag getur hvorki myndað né fellt niður bein eða óbein eignarréttindi, svo sem lóðarréttindi, sem byggjast á heimildarskjölum hverju sinni. Þinglýstar heimildir um lóðarréttindi, hvort sem um eignarland eða leigulóð er að ræða, eru stofnskjöl slíkra réttinda. Breyting á mörkum lóðar nr. 8 samkvæmt deiliskipulagi getur því ekki skapað öðrum eignarréttindi umfram þinglýstar heimildir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og með hliðsjón af því að um er að ræða stjórnvaldsákvörðun sem veitir skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda til að móta byggð einstakra svæða verður ekki talið að slíkir annmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun að varði ógildingu hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 17. ágúst 2022 um að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar nr. 8 í frístundabyggð jarðarinnar Hests.