Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

85/2022 Andakílsárvirkjun

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 25. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2022, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2022 um að framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. júlí 2022, er barst nefndinni 1. ágúst s.á., kærir landeigandi að Fitjum í Skorradal, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2022  að framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað þar til virkjunarleyfi Andakílsárvirkjunar hefði verið gefið út, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 11. ágúst 2022.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 8. ágúst og 6. september 2022.

Málavextir: Andakílsárvirkjun í Borgarfirði og Skorradalshreppi hóf rekstur árið 1947. Heildarframleiðslugeta virkjunarinnar er 8 MW. Hinn 20. desember 2021 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning framkvæmdaraðila um framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 2.02 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að tími væri kominn á viðhald og endurbætur mannvirkja við Andakílsárlón sem og viðhald á lóninu sjálfu. Ekki hefði verið sinnt viðhaldi á lónrýmd nægilega vel og setmagnið í lóninu væri því orðið mikið.

Samkvæmt greinargerð framkvæmdaraðila felst fyrirhuguð framkvæmd í byggingu varnarstíflu sunnarlega í lóni virkjunar til að mögulegt verði að tæma nyrðri hluta lónsins af vatni. Varnarstíflan myndi leiða rennsli að yfirfalli virkjunar. Að auki felst í framkvæmdinni viðhald og endurnýjun stíflumannvirkja. Núverandi jarðvegsstífla yrði fjarlægð og ný stífla byggð í staðinn sem þyrfti að vera um 2,5 m hærri en sú sem fyrir er eða steypt stífla. Ráðast á í nokkrar viðgerðir á steyptu inntaksstíflunni og styrkingu hennar. Þá felst í framkvæmdinni mokstur á uppsöfnuðu seti úr lóni virkjunar sem og flutningur og haugsetning á seti og efni sem mokað yrði úr lóninu. Gert er ráð fyrir að efnistaka úr lóninu verði á bilinu 50.000-115.000 m3 af seti á yfir 2,5 ha svæði. Að lokum felst í framkvæmdinni niðurrif á varnarstíflu að viðhaldi og mokstri loknum. Áður en það yrði gert þyrfti að draga úr rennsli um lónið.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Borgarbyggðar, Skorradalshrepps, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar. Þá sendi Veiðifélag Skorradalsvatns inn umsögn að eigin frumkvæði. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 1. júlí 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að grundvöllur ákvörðunar um matsskyldu byggi á ófullnægjandi gögnum sem gefi Skipulagsstofnun ekki réttar forsendur til að byggja ákvörðun sína á. Virkjunarleyfi skorti með þeim heimildum og hömlum sem fylgi slíku leyfi. Mat á einstaka framkvæmdaþáttum virkjunaraðila sé ómarktækt án þeirrar heildarmyndar sem felist í útgefnu virkjunarleyfi. Horfa þurfi betur á eðli og staðsetningu tilkynntra framkvæmda, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Einkum beri að horfa til samlegðaráhrifa og álagsþols náttúrunnar vegna nýtingar framkvæmdaraðila á náttúruauðlindum í Skorradal við ákvörðun um matsskyldu á tilteknum framkvæmdum hans.

Skipulagsstofnun telji að áhrif á landslag verði „minniháttar“ vegna nýrra stíflumannvirkja. Ekki liggi fyrir afstaða vegna annarra áhrifa. Í virkjunarleyfi lægi fyrir hver efnisgerð stíflna sé og hvort hækka megi stíflu og hve mikið, eða þá alls ekki. Stífluhæð geti haft bein áhrif á landbrot og lífríki almennt. Hæðin sé mikilvæg fyrir sveiflugetu mannvirkisins á vatnsyfirborði og þar með á orkuframleiðslugetu orkuversins. Augljóslega þurfi að meta áhrif 2,5 m hækkunar stíflumannvirkja á fleiri þætti en landslag.

Framkvæmdaraðili gefi í skyn að efnismagn, sem mokað yrði upp úr lóninu og komið fyrir sem næst framkvæmdasvæðinu með landmótun, verði allt að 115.000 m3 í fyrsta skrefi. Þennan þátt þurfi að skoða í mati á umhverfisáhrifum svo hægt sé að áætla heildarefnismagn yfir tiltekinn árafjölda og fyrirkomulag landslagsmótunar yfir lengri tíma. Þá séu fullyrðingar um að breytingar á vatnsborði Skorradalsvatns og Andakílsár verði innan þeirra heimilda sem framkvæmdaraðili hafi til að starfrækja virkjunina alfarið byggðar á greinargerð hans sjálfs. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið mið af ítarlegum og gagnlegum umsögnum sem hafi borist, m.a. frá Skorradalshreppi þar sem sýnt sé fram á að viðhlítandi heimildir séu ekki fyrir hendi.

Eitt af mikilvægum markmiðum laga nr. 111/2021 sé að gefa almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til umsagna um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sbr. c-lið 1. gr. laganna. Á meðan virkjunarleyfi sé ekki til vegna Andakílsárvirkjunar verði að gera þá kröfu að allar framkvæmdir vegna hennar fari í mat á umhverfisáhrifum.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að það sé ekki hlutverk hennar að taka afstöðu til lögmætis heimilda til reksturs virkjunarinnar heldur hvort fyrirhugaðar framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar feli ekki í sér heimildir til framkvæmda eða nýtingar og komi það í hlut leyfisveitanda að taka afstöðu til þess hvort lagalegur grundvöllur sé fyrir veitingu leyfa. Skipulagsstofnun hafi leitað umsagnar Orkustofnunar um málið auk þess sem óskað hafi verið sérstaklega eftir upplýsingum um fyrirliggjandi leyfi til reksturs virkjunarinnar. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun sé stofnuninni  m.a. falið að fylgjast með framkvæmd opinberra leyfa sem gefin séu út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja. Þá hafi Orkustofnun það hlutverk að veita virkjunarleyfi og hafa eftirlit með að fyrirtæki starfi eftir skilyrðum laga, reglugerðum og öðrum heimildum, sbr. raforkulög nr. 65/2003. Í hinni kærðu ákvörðun sé að finna ítarlega umfjöllun sem lúti að eðli og staðsetningu framkvæmdar. Þar segi m.a. að taka skuli mið af samlegð með öðrum framkvæmdum og einnig að líta beri til álagsþols náttúrunnar.

Skipulagsstofnun leggi áherslu á að úrlausnarefnið sé hvort umrædd framkvæmd sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. orðalag 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat áætlana og framkvæmda. Við mat á því þurfi að skoða gögn málsins með heildstæðum hætti og leggja mat á innbyrðis vægi þeirra. Ákvörðunin taki ekki til breytingar á tilhögun reksturs virkjunarinnar. Samkvæmt framkvæmdaraðila sé framkvæmdum við stíflumannvirki ætlað að bæta öryggi þeirra. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að hækkun á stíflunni sé minniháttar. Áhrifin á þennan umhverfisþátt séu að mestu tímabundin á meðan framkvæmdum standi og á meðan gróður sé að ná sér á strik eftir haugsetningu. Þá taki stofnunin eðli málsins samkvæmt mið af hækkuninni sem forsendu og leggi hana til grundvallar þegar hún meti hvort framkvæmdin geti verið umtalsverð með tilliti til lífríkis og vatnafars og annarra umhverfisþátta.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að breytingar á vatnsborði Skorradalsvatns og Andakílsár verði innan þeirra heimilda sem framkvæmdaraðili hafi til að starfsrækja virkjunina. Skipulagsstofnun horfi til þess sem fram komi í svari framkvæmdaraðila til stofnunarinnar, dags. 22. júní 2022, vegna umsagnar Skorradalshrepps frá 17. maí s.á. Í svarinu sé m.a. vikið að miðlunarleyfi sem virkjunin hafi fengið á sínum tíma og hámarksvatnshæð samkvæmt leyfinu sem og vatnshæðarmörkum sem framkvæmdaraðili hafi sett sér til að minnka álag á náttúru og umhverfi. Skipulagsstofnun hafi skoðað umsagnir í málinu vel, m.a. umrædda umsögn Skorradalshrepps. Ákvörðun stofnunarinnar hvíli á þeirri forsendu að breytingar á vatnsborði Andakílsár verði innan þeirra heimilda sem framkvæmdaraðili hafi. Ákvörðunin breyti engu um heimildir framkvæmdaraðila til að starfrækja virkjunina. Verði niðurstaða leyfisveitanda sú að framkvæmdaraðili hafi ekki viðhlítandi heimildir komi til skoðunar hvort tilkynna þurfi fyrirhugaðar framkvæmdir til Skipulagsstofnunar að nýju.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili upplýsir að sérstöku virkjunarleyfi sé ekki til að dreifa vegna Andakílsárvirkjunar, enda hafi virkjunin verið byggð og starfsemi hafin áður en áskilnaður um slíkt leyfi hafi verið lögfestur. Fyrirhuguð framkvæmd snúi að viðhaldi virkjunarinnar og því beri við mat á því hvort að fram skuli fara mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 einungis að horfa til þeirrar framkvæmdar. Hvort virkjunarleyfi liggi fyrir eða ekki eigi því ekki að hafa áhrif við mat á því hvort umhverfisáhrif teljist umtalsverð. Yfirfallið við lónið ráði því hve hátt vatnsborð lónsins geti náð og yfirfallið verði áfram í sömu hæð og áður. Vatnshæð lónsins muni ekki aukast við hækkun stíflumannvirkjanna. Endurgerð jarðvegsstíflu í inntakslóni Andakílsárvirkjunar muni því ekki hafa áhrif á rekstrarhæð lónsins og sveiflun muni ekki breytast við endurbætur og hugsanlega hækkun á stíflunni.

Fram kemur af hálfu framkvæmdaaðila að rannsóknir séu enn í gangi um hversu mikið og hvar sé best að fjarlægja set í lóninu og hvernig beri að ganga frá lónsbotninum á sem bestan máta. Því  sé nákvæmur rúmmetrafjöldi sets sem verði fjarlægður ekki ljós, en áætlað sé að fjarlægðir verði allt að 115.000 m3. Samkvæmt bergmálsmælingum sem gerðar hafi verið árið 2020 sé áætlað að heildar setmagnið í lóninu sé allt að 170.000 m3. Aðeins verði fjarlægt það setmagn sem þurfi til þess að endurheimta rýmd lónsins, sem hafi minnkað mjög undanfarna áratugi vegna uppsöfnunar sets, og til þess að tryggja að aurburður berist ekki inn í vélar virkjunarinnar. Ekki sé fyrirhugað að ráðast í álíka framkvæmdir á næstu áratugum eftir að þessu ljúki. Landmótun og val svæða muni fara fram í samstarfi við landeigendur í kringum lónið. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu eðlilegar, nauðsynlegar og tímabærar viðhaldsaðgerðir til þess að tryggja áframhaldandi rekstur Andakílsárvirkjunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að fyrirhugaðar framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Verður fyrst tekin afstaða til aðildar kæranda að málinu.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún sé eigandi jarðarinnar Fitja í Skorradal að hálfu. Jörðin eigi veiðirétt í Skorradalsvatni. Friðlýst svæði sé innan jarðarinnar við ósa Fitjaár. Sem landeigandi sé kærandi aðili að veiðifélagi Skorradalsvatns. Í landi Fitja sé auk þess stórt leiguland frístundabyggðar sem liggi að Skorradalsvatni og hafi allar breytingar til hækkunar eða lækkunar á yfirborði vatnsins áhrif á leigutaka.

Bærinn að Fitjum liggur suðaustan við Skorradalsvatn og er langur vegur þaðan að inntakslóni Andakílsárvirkjunar. Jörðin Fitjar er í umtalsverðri fjarlægð frá framkvæmdarsvæðinu og því er sjónrænum áhrifum eða öðrum grenndaráhrifum því ekki til að dreifa gagnvart kæranda. Til þess er þá helst að líta að aðgerðir sem hafa áhrif á vatnsstöðu Skorradalsvatns geta haft áhrif á lífríki vatnsins, þ.m.t. skilyrði til fiskveiði. Verður þá að athuga, sem greint er frá af hálfu framkvæmdaaðila, að rennslisstýringu frá Skorradalsvatni verði á framkvæmdatíma haldið innan þeirra heimilda sem virkjunin hafi nú þegar til vatnsmiðlunar. Við það er miðað að hvorki verði breytingar á vatnshæðarsveiflu í Skorradalsvatni né á svonefndu keyrslulíkani í tengslum við framkvæmdina. Í hinni kærðu ákvörðun er af hálfu Skipulagsstofnunar ályktað, á þessum grundvelli, að áhrif á vatn og lífríki í Skorradalsvatni og Andakílsá ofan virkjunar séu líkleg til að vera sambærileg því sem gera hafi mátt ráð fyrir við rekstur virkjunarinnar. Verður með vísan til þessa að telja að kærandi eigi ekki slíka lögvarða hagsmuni af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra, að henni verði játuð aðild að málinu.

Af hálfu kæranda hefur verið gagnrýnt að ekki sé fyrir hendi virkjunarleyfi fyrir Andakílsárvirkjun. Nefndin tekur ekki afstöðu til þessa nema með því að benda á athugasemdir Skipulagsstofnunar sem raktar eru hér að framan. Málsmeðferð ákvörðunar um matsskyldu lýtur að því fyrst og fremst að upplýsa um hvort umtalsverð umhverfisáhrif hljótist af fyrirhugaðri framkvæmd, eins og henni er lýst, en ekki því hvort framkvæmdaraðili hafi fullnægjandi heimildir að opinberum rétti eða einkarétti, til þeirra framkvæmda sem hann hyggst ráðast í. Þá er ljóst að komi til útgáfu leyfis til umræddrar framkvæmdar mun reyna m.a. á hvort henni sé rétt lýst í umsókn.

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2022 um að framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum er vísað frá úrskurðarnefndinni.

152/2022 Arnarnesvegur, 3 áfangi

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 24. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 152/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. nóvember 2022, um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra 34 íbúar við Jakasel, Jórusel, Klyfjasel og Torfufell í Reykjavík, 11 íbúar við Dorfakór, Drangakór, Fjallakór, Gnitakór og Kleifakór í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. nóvember s.á. að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málavextir: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra sem staðfesti hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur síðan þá farið fram í áföngum en framkvæmdir eru fyrirhugaðar við 1,3 km langan vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík.

Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Tillaga um deiliskipulag vegna 3. áfanga Arnarnesvegar innan marka Reykjavíkurborgar var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. júní 2022 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi ráðsins 7. júlí s.á. Þá var á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 30. maí s.á. samþykkt tillaga um deiliskipulag vegna sömu framkvæmdar innan sveitarfélagsmarka Kópavogs og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 14. júní s.á. Deiliskipulagið öðlaðist gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 28. október 2022.

Á fundi skipulagsráðs 14. nóvember 2022 var umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmda­leyfi fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar samþykkt með tilvísun í 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest á fundi bæjarráðs 17. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 22. s.m. Auglýsing hins kærða framkvæmdaleyfis birtist í Lögbirtingablaði 5. desember s.á.

 Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda er á það bent að forsendur vegna 3. áfanga Arnarnesvegar hafi breyst verulega frá því úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hafi legið fyrir árið 2003. Varhugavert sé að matið hafi ekki verið uppfært þegar svo langur tími sé liðinn og jafn umfangsmikla framkvæmd sé um að ræða. Framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist á svæðinu. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breyting á útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breið­holts­braut skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Þá hafi lögbundið samráð við íbúa hafi ekki verið virt og athugasemdum þeirra vegna matskýrslu ekki verið svarað á fullnægjandi hátt.

 Málsrök framkvæmdaraðila: Af hálfu Vegagerðarinnar er bent á að ekki séu færð fram rök fyrir kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Kærendur hafi einungis fært fram rök fyrir kröfu sinni um ógildingu hins umdeilda framkvæmdaleyfis en sá rökstuðningur hafi ekki innihaldið sjónarmið sem mæli með því að þörf sé á að stöðva fyrirhugaðar framkvæmdir þegar í stað. Slíkt sé undantekningarregla og verulega íþyngjandi. Málsmeðferð Kópavogsbæjar hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög og því sé engin ástæða til að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan efnisatriði málsins séu til úrlausnar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kæru­stjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildar­ákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi framkvæmdaleyfis vegna 3. áfanga Arnarnesvegar. Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og þess að um er að ræða framkvæmd sem virðist afturkræf verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

2/2023 Gjaldtaka vegna umsóknar um byggingarlóð

Með

Árið 2023, föstudaginn 20. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2023, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss frá 2. febrúar 2022 um innheimtu afgreiðslugjalds vegna umsóknar um úthlutun lóðar í Þorlákshöfn.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Gást ehf. þá ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss að taka byggingar-leyfisgjald fyrir umsóknir um byggingarlóðir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða gjaldið auk kostnaðar og vaxta.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá innviðaráðuneytinu 3. janúar 2023.

Málavextir: Kæra vegna gjaldtöku Sveitarfélagsins Ölfuss á umsóknir um byggingarlóðir barst innviðaráðuneytinu 2. febrúar 2022. Meðferð málsins dróst hjá ráðuneytinu, en þegar málið kom þar til nánari athugunar var það framsent 3. janúar 2023 hvað snertir gjaldtöku þessa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með vísan til 59. gr. mannvirkjalaga og 52. gr. skipulagslaga.

Hinn 18. nóvember 2021 auglýsti Sveitarfélagið Ölfus til umsóknar lóðir við Vesturberg í Þorlákshöfn með fresti til 2. desember s.á. og skyldi úthlutun fara fram 9. s.m. Greint var frá því að tekið yrði gjald fyrir hverja umsókn, en hvorki var tiltekin fjárhæð þess né vísað í gjaldskrá. Úthlutun lóða dróst nokkuð en þeim var loks úthlutað á fundi afgreiðslunefndar byggingarfulltrúa 27. desember 2021. Kærandi fékk ekki úthlutaðri lóð, en um miðjan janúar 2022 sendi sveitarfélagið innheimtukröfu til allra umsækjanda um lóðirnar sem auglýstar voru 18. nóvember 2021 að fjárhæð 7.471 kr., merkt „byggingaleyfisgjald“. Var gjalddagi settur 30. desember 2021 og eindagi 31. janúar 2022. Var kærandi meðal þeirra sem krafinn var um gjaldið.

 Málsrök kæranda: Í kæru eru gerðar athugasemdir við hvernig staðið var að úthlutun lóða við Vesturberg í Þorlákshöfn. Kemur úthlutun lóðanna ekki til umfjöllunar í máli þessu en það varðar einungis álagningu hins svonefnda byggingarleyfisgjalds sem tekið var fyrir vinnu við yfirferð umsókna um lóðaúthlutanir. Kærandi bendir á að engin skýring hafi fylgt kröfu um greiðslu þess, en hann hafi að auki ekkert svarbréf fengið við umsókn sinni um lóð. Þá bendir hann á að ef sveitarfélagið innheimti sama gjald fyrir allar þær 1.118 umsóknirnar sem bárust við lóðaúthlutina muni tekjur af gjaldinu nema um 8,4 m. kr. sem hann telji meiri en nemi kostnaði sveitarfélagsins við meðferð umsókna um lóðirnar.

 Málsrök sveitarfélags: Sveitarfélagið vísar til þess að í auglýsingu um úthlutun lóða í Þorlákshöfn hafi verið tekið fram að gjald yrði tekið fyrir hverja umsókn. Fjölmargar umsóknir hafi borist um lóðirnar og hafi kærandi verið í þeim hópi sem ekki fengu úthlutað lóð. Var honum sent bréf 30. desember 2021 og tilkynnt að umsókn hans um úthlutun lóðar hafi verið synjað um leið og hann hafi verið upplýstur um að lagt yrði á hann afgreiðslugjald að fjárhæð 7.471. kr. Um kerfisvillu hafi verið að ræða þegar gjaldið hafi verið nefnt byggingarleyfisgjald í heimabanka kæranda, en um hafi verið að ræða gjald vegna vinnu við yfirferð umsókna um úthlutun lóða. Hafi þetta verið leiðrétt.

Umrædd gjaldtaka byggi á gjaldskrá nr. 366/2019 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Sveitarfélaginu Ölfusi sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 23. apríl 2019. Gjaldskráin sé sett með stoð í IX. kafla laga um mannvirki nr. 160/2010 og 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í grein 5.4.14 í gjaldskránni sé kveðið á um afgreiðslugjald nefndar að fjárhæð kr. 6.664. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga samkvæmt 8. gr. gjaldskrárinnar hafi fjárhæð gjaldsins við innheimtu af kæranda verið kr. 7.471. eins og framlögð kvittun kæranda sýni. Þá segi í grein 13.1 í reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Ölfusi frá 14. febrúar 2019, sem í gildi voru þegar umræddar lóðir voru auglýstar til úthlutunar, að gjöld tengd lóðarveitingu skuli greidd samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins og að heimilt sé að krefjast staðgreiðslu á gjöldum við útdrátt. Hafi sú krafa komið fram í fyrrnefndri auglýsingu um úthlutun lóða. Nýjar úthlutunarreglur hafi tekið gildi 2. desember 2021 og séu þar samskonar ákvæði í grein 13.1.

Gjaldið sé hóflegt afgreiðslugjald, u.þ.b. 30% af tímagjaldi fyrir vinnu samkvæmt gjaldskránni, sbr. grein 1.2. Eins og fram hafi komið í kæru hafi borist mikill fjöldi umsókna um þær lóðir sem um ræði og hafi starfsfólk sveitarfélagsins þurft að fara gaumgæfilega yfir hverja og eina umsókn til að kanna hvort þær uppfylltu skilyrði úthlutunarreglna sveitarfélagsins. Gjaldið nemi þannig ekki hærri fjárhæð en sem nemi kostnaði við að veita þjónustu vegna hverrar umsóknar. Að mati sveitarfélagsins sé öllum skilyrðum og reglum um þjónustugjöld því fullnægt að því er umrætt gjald varði.

Þá færir sveitafélagið fram þau sjónarmið að úthlutun lóða í eigu sveitarfélagsins sé ekki meðal lögbundinna hlutverka sveitarfélaga og hafi Hæstiréttur staðfest að slík úthlutun teljist í senn vera stjórnvaldsákvörðun og gerningur á sviði einkaréttar þar sem ráðstafað sé heimildum eiganda fasteignar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 151/2010. Að mati sveitarfélagsins verði að hafa þetta eðli lóðaúthlutana í huga við mat á því svigrúmi sem það hafi til að innheimta afgreiðslugjald vegna umsókna um úthlutun. Með vísan til þessa telur sveitarfélagið að hin kærða ákvörðun, um innheimtu afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá vegna umsókna um lóðaúthlutun, hafi verið lögmæt og að hafna beri kröfu kæranda um að fella hana niður.

 Niðurstaða: Í málinu er deilt um lögmæti afgreiðslugjalds Sveitarfélagsins Ölfuss vegna umsóknar um úthlutun lóðar í Þorlákshöfn. Kærandi krefst þess að umrædd gjaldtaka verði felld úr gildi gagnvart sér og að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða gjaldið ásamt kostnaði og vöxtum.

 Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í máli. Verður því lögmæti hinnar umræddu gjaldtöku tekið til skoðunar, en það er ekki hlutverk nefndarinnar að taka ákvörðun um endurgreiðslu gjaldsins.

Að meginstefnu til er fjár vegna lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga aflað með skattheimtu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafa sveitarfélög þó einnig m.a. tekjur af leyfisgjöldum eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, sbr. og 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Með 51. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er sveitarstjórnum heimilað að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingafulltrúa. Þá er í sveitarstjórn heimilt skv. 1. mgr. 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að innheimta framkvæmdaleyfisgjald fyrir framkvæmdir sem afla þarf framkvæmdaleyfis fyrir, svo og fyrir eftirlit með framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum. Gjaldið má ekki nema hærri upphæð en nemur kostnaði við undirbúning og útgáfu leyfisins og eftirlits, svo sem vegna nauðsynlegrar aðkeyptrar þjónustu. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sveitarstjórn skuli setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. og 2. mgr. og birta hana í B-deild Stjórnartíðinda.

Gjaldskrá nr. 366/2019 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Sveitarfélaginu Ölfusi var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. apríl 2019. Í 5. gr. hennar er kveðið á um álagningu afgreiðslugjalds við móttöku umsóknar um byggingarleyfi, framkvæmdaleyfi og skipulagsbreytingar. Það gjald sem um er deilt í máli þessu varðar kostnað vegna stjórnsýslu lóðaúthlutunar. Verður um heimild fyrir álagningu þess ekki vísað til téðrar gjaldskrár, en um úthlutun lóða af hálfu sveitarfélaga er hvorki fjallað í lögum nr. 160/2010 né lögum nr. 123/2010.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið vísað til greinar 13.1. í reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Ölfusi frá 14. febrúar 2019, þar sem mælt er fyrir um að gjöld tengd „lóðarveitingu“ skuli greidd samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins. Heimilt sé að krefjast staðgreiðslu á gjöldum við útdrátt, hafi sú krafa komið fram í auglýsingu um úthlutun lóðar. Þá hefur af hálfu sveitarfélagsins verið bent á að við mat á svigrúmi sveitarfélags við töku afgreiðslugjalds sem þessa verði að athuga að úthlutun lóðar teljist í senn vera stjórnvalds-ákvörðun og gerningur á sviði einkaréttar þar sem ráðstafað sé heimildum eiganda fasteignar.

Í úrskurði þessum hefur umfjöllun úrskurðarnefndarinnar einvörðungu byggst á valdheimildum samkvæmt lögum nr. 160/2010 og 123/2010. Um þýðingu þessara annarra sjónarmiða fyrir hinni kærðu álagningu kann kærandi að geta leitað álits innviðaráðuneytisins, skv. XI. kafla sveitarstjórnarlaga. Í ljósi þessa mun nefndin endursenda málið til þess ráðuneytis til þóknanlegrar meðferðar sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er málinu vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Vísað er frá nefndinni kæru á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss frá 2. febrúar 2022, um innheimtu afgreiðslugjalds vegna umsóknar um úthlutun lóðar í Þorlákshöfn.

146/2022 Ásvellir

Með

Árið 2023, föstudaginn 20. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 146/2022, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 28. september 2022 um að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu að Ásvöllum 35 og ákvörðunum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 23. nóvember og 21. desember 2022 um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 1 og Ásvöllum 35.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 22. desember 2022, kæra eigendur, Blikaási 6, og eigandi, Erluási 1, Hafnarfirði, öll áform og kæranlegar ákvarðanir sem tengist byggingu knatthúss, bílastæða, fjögurra æfingavalla og tengdra framkvæmda upp við mörk friðlands Ástjarnar. Þá er gerð krafa um ógildingu framkvæmda- og byggingarleyfa á lóðinni Ásvellir 3–5.

Málskot kærenda til nefndarinnar verður að skilja svo að krafist sé ógildingar á ákvörðunum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar um samþykkt byggingaráforma, annars vegar á lóð Ásvalla 1 frá 23. nóvember 2022 og hins vegar á lóð Ásvalla 3–5 frá 21. desember s.á. Þá sé krafist ógildingar á þeirri afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 28. september 2022 um að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu á síðarnefndri lóð. Loks er þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 10. janúar 2023 fór eigandi, Blikaási 4, Hafnarfirði, fram á að vera á meðal kærenda í málinu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. janúar 2023.

Málavextir: Í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025 kemur fram að íþróttafélagið Haukar hafi byggt upp fjölbreytta aðstöðu til íþróttaiðkunar á íþróttasvæði sínu að Ásvöllum sem sé u.þ.b. 16 ha að flatarmáli. Með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars 2020 um breytingu á aðalskipulaginu var landnotkun eins hektara svæðis á vesturmörkum þess breytt í íbúðarbyggð sem sameinaðist íbúðarbyggð Valla. Deiliskipulag Ásvalla, íþrótta- og útivistarsvæði Hauka er frá árinu 2004 og hefur því verið breytt í tvígang. Með breytingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2021 var skilgreind ný lóð vestan íþróttamiðstöðvar „innan íþrótta- og útivistarsvæðis undir íbúðir til að stuðla að fjölbreyttari landnotkun á svæðinu.“ Þá var byggingarreitur fyrir fjölnota knatthús færður nyrst á lóð Ásvalla „til að stuðla að betri nýtingu lóðar og svo byggingin raski sem minnst núverandi íbúðarbyggð í nágrenninu.“

Íþróttasvæði Hauka liggur að friðlandsmörkum Ástjarnar sem friðlýst var árið 1978 samkvæmt heimild í þágildandi lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd. Verndarsvæðið var síðar stækkað árið 1996 með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið með skírskotun til 26. gr. sömu laga. Í aðalskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar kemur fram að flatarmál friðlandsins Ástjarnar sé 28,5 ha og fólkvangsins Ásfjalls sé 56,9 ha. Fyrri áform um knatthúsið fólu í sér að það yrði staðsett fyrir miðju íþróttasvæðisins, að hluta á fyrrgreindri lóð fyrir íbúðarbyggð, og að önnur skammhliða þess myndi snúa að fólkvanginum. Í kjölfar breytinga á skipulagi er nú gert ráð fyrir húsið verði nyrst á lóð Ásvalla, vestan megin við íþróttahúsið, og að önnur langhliða þess verði meðfram mörkum friðlandsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun barst stofnuninni 16. mars 2021 tilkynning frá Hafnarfjarðarkaupstað um fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 10.03 í 1. viðauka laganna. Leitaði stofnunin umsagnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, Hafrannsóknarstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs, Minjastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu frá 13. júlí s.á. kom m.a. fram að fyrirhuguð framkvæmd kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum og skyldi því háð mati á umhverfisáhrifum.

Hinn 25. nóvember 2021 barst Skipulagsstofnun matsáætlun um uppbyggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum samkvæmt 21. gr. laga um um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, sbr. lið 10.01 í 1. viðauka laganna og fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmdin skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Hafnarfjarðarkaupstaður lagði hinn 4. maí 2022 fram umhverfismatsskýrslu um uppbyggingu á svæðinu til kynningar og athugunar Skipulagsstofnunar, sbr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Framkvæmdin og skýrslan voru auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 2. júní s.á. og Fjarðarfréttum 8. s.m. og kom þar fram að allir gætu kynnt sér skýrsluna og lagt fram athugasemdir. Umhverfismatsskýrslan lá til kynningar hjá stofnuninni frá 2. júní til 15. júlí 2022 og var einnig aðgengileg á vefsíðu hennar. Umsagna var leitað hjá áðurgreindum stjórnvöldum ásamt Orkustofnun og Veðurstofu Íslands og bárust umsagnir frá þeim öllum og fleirum, þ. á m. frá þremur kærendum.

Í umhverfismatsskýrslu kom fram að í mati á umhverfisáhrifum væru til skoðunar þrír valkostir. Valkostur A væri fyrirhuguð uppbygging samkvæmt skipulagi sem gerði ráð fyrir að knatthús væri staðsett nyrst á athugunarsvæðinu og æfingarsvæði staðsett sunnan við núverandi gervigrasvöll. Syðst á svæðinu væri gert ráð fyrir þremur æfingavöllum sem væru sameiginlegir báðum valkostum. Þá væri íbúðarbyggð staðsett við núverandi íþróttamiðstöð Hauka en félli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Valkostur B væri fyrri hugmynd um uppbyggingu og fæli í sér staðsetningu mannvirkja samkvæmt eldra deiliskipulagi frá árinu 2010. Ef valkostur B yrði fyrir valinu yrði ekki úr frekari uppbyggingu íbúða. Núllkostur fæli í sér óbreytt ástand og að ekki yrði af framkvæmdum. Kom fram að núllkostur væri notaður sem grunnviðmið til að meta áhrif framkvæmda á umhverfið og að með honum kæmi ekki til þeirra áhrifa sem aðrir valkostir hefðu í för með sér. Helstu áhrifin fælust í sjónrænum áhrifum vegna knatthúss, raski á eldhrauni og áhrifum á fuglalíf við Ástjörn sem hefði sýnt sig að væri viðkvæmt fyrir framkvæmdum.

Í niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 23. september 2022 kom m.a. fram að það væri mat stofnunarinnar að verið væri að taka áhættu með því að reisa stórt knatthús steinsnar frá viðkvæmri náttúru, líkt og ráðgert væri, yrði kostur A fyrir valinu og að með hliðsjón af mögulegum áhrifum á Ástjörn og lífríki hennar væri valkostur B betri kostur.

Kærð ákvörðun í málinu er í samræmi við téðan valkost A, en hluti þess svæðis sem knatthús samkvæmt valkosti B hefði getað risið á er nú lóð fyrir íbúðarhús, þ.e. Ásvellir 3–5.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að þær framkvæmdir sem fari fram á Ásvöllum brjóti gegn reglum um friðlýsingar. Samkvæmt 2. gr. auglýsingar um friðlýsingu Ástjarnar frá 1978 sé óheimilt að breyta náttúrulegu vatnsborði Ástjarnar. Þá sé samkvæmt 5. gr. auglýsingarinnar bannað að skerða gróður, trufla dýralíf og skaða varp. Þetta ákvæði eigi við óháð því hvaðan skerðingin eða truflunin komi. Hún geti verið upprunninn innan marka friðlandsins, frá mörkum þess eða jafnvel utan þess.

Fara kærendur fram á að framkvæmdir annars vegar að Ásvöllum 1 vegna knatthúss, bílastæða og fjögurra æfingavalla og hins vegar að Ásvöllum 3–5 vegna íbúðarhúsa verði stöðvaðar á meðan málið sæti efnismeðferð. Málefni beggja lóðanna séu samhangandi og ljóst sé að ef áfram verði haldið með íbúðabyggðina verði endanlega búið að útiloka annan þeirra tveggja valkosta sem lagt var mat á í ferli umhverfismats. Ljóst sé að framkvæmdir við byggingu knatthússins að Ásvöllum 1 séu hafnar. Verði þeim framhaldið muni það hafa óafturkræf áhrif á svæðið, friðlandið og fólkvanginn. Byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir knatthúsið og því sé í reynd óheimilt að hefja framkvæmdir á svæðinu og breyti þar engu um þó byggingaráform hafi verið samþykkt. Uppi séu álitamál um lögmæti hinna kærðu ákvarðana sem gætu haft áhrif á gildi þeirra. Verði framkvæmdum haldið áfram sé kæran í reynd markleysa. Verulegum hagsmunum kærenda væri stefnt í hættu og erfitt yrði að ráða bót á tjóni þeirra ef ákvörðun byggingarfulltrúa um mannvirkið yrði síðar felld úr gildi.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Bæjaryfirvöld telja engar forsendur fyrir því að stöðva framkvæmdir. Byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir mannvirki sem sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag, álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir og nauðsynleg gögn sem fylgja þurfi byggingarleyfisumsókn. Við undirbúning, málsmeðferð og ákvörðun um byggingu knatthúss á Ásvöllum hafi öllum lögum og reglum sem við eigi verið fylgt, svo sem skipulagslögum nr. 123/2010, skipulagsreglugerð nr. 90/2013, lögum og reglugerðum um umhverfismat, lögum um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012, lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 og lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

 Athugasemdir Byggingarfélags Gylfa og Gunnars: Af hálfu byggingaraðila Ásvala 3–5 er farið fram á að ekki verði fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem væri mjög íþyngjandi aðgerð sem hefði verulegan kostnað í för með sér. Jarðvegsframkvæmdir séu hafnar og fyrstu sökklar verði steyptir innan skamms. Samkvæmt deiliskipulagi sé heimilt á lóðinni Ásvellir 3–5 að byggja 100-110 íbúðir. Deiliskipulagið hafi fengið meðferð í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og sé kærufrestur vegna þess sé löngu liðinn.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka fyrri sjónarmið og benda á að vinnuvélum hafi fjölgað og byggingarframkvæmdum við knatthús sé fram haldið á svæðinu án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Þá liggi ekki fyrir umsögn Umhverfisstofnunar, sem sé þó áskilin samkvæmt 54. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013, en sveitarfélagið hafi reynt að virða að vettugi skyldu til að leita umsagnar stofnunarinnar um bygginguna.

Vettvangsferð: Formaður úrskurðarnefndarinnar ásamt starfsmanni nefndarinnar kynntu sér staðhætti á vettvangi 12. janúar 2023.

Niðurstaða: Sótt var um leyfi til byggingar knatthúss að Ásvöllum 1 hinn 30. október 2022. Í fundargerð afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 23. nóvember 2022 kemur fram í A-hluta fundargerðarinnar um byggingarleyfi að lagðar séu inn teikningar dags. 26. október 2022 vegna byggingar knatthúss á Ásvöllum. Er eftirfarandi bókað: „Erindið er samþykkt í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010.“ Þá er tekið fram að við afgreiðslu hafi legið fyrir samantekt byggingarfulltrúa vegna afgreiðslu á byggingarleyfisumsókn fyrir knatthúsi Hauka á Ásvöllum, þar sem fjallað er m.a. um umhverfissjónarmið, friðlýsingu Ástjarnar og markmið náttúruverndarlaga. Verður með þessu að álíta að á fundinum hafi verið tekin ákvörðun sem kærð verði til nefndarinnar.

 Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærendur eru eigendur fjögurra fasteigna í Áslandshverfi í Hafnarfirði. Standa fasteignir þeirra ofar í landi en fyrirhuguð mannvirki, en um leið í nokkurri fjarlægð frá þeim.

Fasteignir kærenda eru að lágmarki í 600 m fjarlægð frá áformaðri íbúðarbyggð að Ásvöllum 3–5. Munu mannvirkin verða í sjónlínu frá flestum húsum kærenda, þótt þau verði ekki mjög áberandi með hliðsjón af staðháttum. Ekki verður séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif vegna aukinnar umferðar verði teljandi ef nokkur vegna þeirra. Að þessu virtu verður kröfu um ógildingu hinna kærðu ákvarðana um afgreiðslu framkvæmdaleyfis og samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 3–5 vísað frá úrskurðarnefndinni.

Að áliti nefndarinnar er ekki unnt að útiloka grenndaráhrif gagnvart sumum kærenda vegna byggingar knatthúss að Ásvöllum 1 enda er þar um að ræða stórt mannvirki sem verður áberandi í byggðinni, en áætlað er að það verði um 12.000 m2 að flatarmáli og 23,8 m á hæð. Að virtum staðháttum verður ekki talið að grenndaráhrif útsýnisbreytinga vegna knatthússins séu með þeim hætti að þau geti varðað hagsmuni eigenda að Erluási 1 og Blikaási 6 umfram aðra og verður kröfu þeirra því vísað frá nefndinni. Á hinn bóginn er ekki unnt að útiloka að grenndaráhrif hins umdeilda knatthúss verði slík að varðað geti í verulegu hagsmuni eigenda að Blikaási 4 og 9 og verður þeim því játuð kæruaðild í máli þessu.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur leyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar 23. nóvember 2022 voru samþykkt byggingaráform vegna knatthúss Hauka að Ásvöllum 1. Byggingarfulltrúi hefur upplýst úrskurðarnefndina um að aðaluppdrættir hafi þó ekki verið áritaðir á fundinum og séu af þeim sökum ekki aðgengilegir á vefsíðu bæjarins. Þar sem efni ákvörðunar byggingarfulltrúa um samþykki áformanna liggur ekki fyrir verður ekki talið að unnt sé að miða upphaf kærufrests við þá dagsetningu. Af þeirri ástæðu og þar sem byggingarleyfi hefur ekki verið gefið út og framkvæmdir samkvæmt því af þeim sökum ekki hafnar verður kæra eiganda Blikaáss 4 talin nægilega snemma framkomin til þess að taka beri hana til efnismeðferðar.

——

Úrskurðarnefndinni er kunnugt um að framkvæmdir séu hafnar við jarðvinnu að Ásvöllum 1 vegna knatthússins en hefur ekki fengið upplýsingar frá Hafnarfjarðarkaupstað um hvort gefið hafi verið út leyfi til þeirra framkvæmda sérstaklega.

Líkt og fram kemur í málavöxtum nýtur Ástjörn og svæði í kringum hana friðlýsingar. Í 54. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 kemur fram að ef starfsemi eða framkvæmdir, sem leyfis-skyldar séu samkvæmt öðrum lögum, geti haft áhrif á verndargildi friðlýsts svæðis skuli taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis og leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögunum kom fram um 53. gr. þess, nú 54. gr. laganna, sbr. 27. gr. laga nr. 109/2015, að greininni væri ætlað að tryggja að tekið yrði tillit til verndargildis friðlýsts svæðis þegar teknar væru ákvarðanir um starfsemi eða framkvæmdir utan svæðisins sem gætu haft áhrif inn á það. Þar geti t.d. verið um að ræða mengun, breytingar á vatnsflæði eða vatnsborði, áhrif á lífverur á friðlýsta svæðinu, útbreiðsla framandi tegunda, hávaði eða annars konar truflun. Taki greinin til ákvarðana um leyfi samkvæmt öðrum lögum og leiði af henni að verndargildi hins friðlýsta svæðis sé eitt af þeim atriðum sem skylt sé að leggja til grundvallar mati á því hvort leyfi skuli veitt. Þá segir þar ennfremur að gert sé ráð fyrir að umsagnar Umhverfisstofnunar sé leitað áður en ákvörðun er tekin.

Í umhverfismatsskýrslu hinnar kærðu framkvæmdar er áhrifum af fyrirhugaðri framkvæmd lýst og kemur fram í samantekt í skýrslunni að hún sé líkleg til að hafa óveruleg til talsvert neikvæð áhrif á landslag og ásýnd. Það eigi við um báða valkosti, A og B. Þá er m.a. tilgreint að helstu áhrifin séu sjónræn vegna knatthússins, áhrif á fuglalíf við Ástjörn og vegna rasks á eldhrauni. Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar eru áhrif þeirra á jarðmyndanir taldar verða talsvert neikvæðar, en þó tekið fram að stofnunin telji að þar sem hraunið á Ásvöllum sé mikið raskað þá hafi það að mestu glatað verndargildi sínu. Þá telur stofnunin að framkvæmdirnar séu líklegar til að hafa neikvæð áhrif á fuglalíf á og við Ástjörn. Áhrif af völdum knatthússins, valkostar A, verði varanleg en áhrif af völdum valkostar B ráðist af því hvert umfang æfinga á sama svæði verði. Skipulagsstofnun telji áhrif valkostar A á fuglalíf talsvert neikvæð en áhrif valkostar B óverulega neikvæð. Með vísan til þessa og þó einkum áhrifa á fuglalíf, verður að mati nefndarinnar talið að nægileg rök séu framkomin til að álíta að framkvæmdin geti haft áhrif á verndargildi hins friðlýsta svæðis við Ástjörn þannig að skylt sé að taka tillit til hennar og um leið leita lögskyldrar umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt skv. 54. gr. laga um náttúruvernd.

Fyrir úrskurðarnefndina hafa verið lögð samskipti milli Hafnarfjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar. Af þeim verður ráðið að 10. október 2022 vakti Umhverfisstofnun athygli bæjaryfirvalda á skyldu til þess að afla umsagnar um hina kærðu framkvæmd, skv. 54. gr. laga um náttúruvernd, áður en bæði framkvæmda- og byggingarleyfi væru veitt fyrir henni. Af hálfu bæjarins var bent á fyrri aðkomu stofnunarinnar, þ.e. við matsferli framkvæmdar sem og að grein yrði gerð, við ákvörðun um leyfisveitingar, fyrir afstöðu bæjarins gagnvart áliti Skipulagsstofnunar og umhverfismatsskýrslu. Leiddi þetta til frekari samskipta og óskaði Hafnarfjarðarkaupstaður eftir umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 5. og 12. desember 2022, með vísan til 54. gr. laga um náttúruvernd og voru stofnuninni sendir aðaluppdrættir knatthússins og samantekt byggingarfulltrúa um afgreiðslu byggingarleyfisins. Hinn 21. s.m. óskaði stofnunin eftir að fá send drög að byggingarleyfi og benti á að henni hefðu aðeins verið  send framangreind gögn. Var því svarað til með því að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út né heldur lægju fyrir drög að því.

Fyrir liggur að umsagnar Umhverfisstofnunar skv. 54. gr. laga um náttúruvernd var ekki leitað fyrr en 5. desember 2022, en hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 1 er frá 23. nóvember s.á. Verður að telja þetta verulegan annmarka við meðferð málsins, en þegar lög áskilja að álitsumleitan fari fram áður en ákvörðun er tekin hefur í stjórnsýslurétti verið talið að um verulegan annmarka á meðferð máls geti verið að ræða, sé þess eigi gætt. Verði réttaráhrifum þess annmarka eftir atvikum jafnað til þess að lögbundinnar umsagnar hafi ekki verið aflað, enda hafi hún þá engin réttaráhrif haft á úrlausn máls.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun frá 23. nóvember 2022 um samþykki byggingaráforma knatthúss að Ásvöllum 1 haldin slíkum annmörkum að fella verður hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 23. nóvember 2022 um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 1.

Kröfu um ógildingu ákvarðana byggingafulltrúa um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 3–5 frá 21. desember 2022 er vísað frá nefndinni. Kröfu um ógildingu afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa frá 28. september 2022 um samþykki framkvæmdaleyfis á sömu lóð er vísað frá nefndinni.

92/2022 Nónsmári

Með

Árið 2023, föstudaginn 20. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2022, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. júlí 2022 um að hafna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Nónsmára 17 og 915.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Nónhæð ehf. þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. júlí s.á. að hafna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Nónsmára 1–7 og 9–15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 19. september 2022.

Málavextir: Árið 2018 voru samþykktar breytingar á Aðalskipulagi Kópavogs 2012–2024 þar sem landnotkun fyrir Nónhæð var breytt úr samfélagsþjónustu og opnu svæði í íbúðarbyggð og opið svæði. Samhliða var deiliskipulagi svæðisins breytt og heimilað að byggja þar allt að 140 nýjar íbúðir í þremur 2–4 hæða fjölbýlishúsum. Tók breytt deiliskipulag gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. maí 2018. Kærandi lagði fram fyrirspurn, dags. 10. júní 2020, um heimild fyrir auknu byggingarmagni og fjölgun íbúða á Nónhæð. Á fundi skipulagsráðs Kópavogs 7. september s.á. var bókað að ekki væri hægt að fallast á fyrirspurn kæranda að svo stöddu þar sem hún samræmdist ekki gildandi aðalskipulagi varðandi fjölda íbúða.

Nýtt aðalskipulag fyrir Kópavog tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. desember 2021. Með hinu nýja aðalskipulagi var leyfilegum heildarfjölda íbúða á Nónhæð breytt í 150. Á fundi skipulagsráðs Kópavogs 17. janúar 2022 var tekin fyrir umsókn kæranda frá 11. s.m. um breytingu á deiliskipulagi fyrir Nónsmára 1–7 og 9–15. Í breytingunni fólst að á lóðinni Nónsmára 1–7 myndi íbúðum fjölga úr 55 í 60 og á lóðinni Nónsmára 9–15 úr 45 í 50 eða samtals um 10 íbúðir. Leyfilegur fjöldi hæða húsa nr. 1 og 9 myndu aukast úr tveimur hæðum í þrjár og hæðum húsa númer 5, 7, 13 og 15 myndi fjölga úr fjórum í fimm. Byggingarmagn á lóðunum færi úr 15.600 m2 í 17.300 m2 og nýtingarhlutfall úr 0,5 í 0,6. Bílastæðum neðanjarðar myndi fjölga úr 82 í 104, en ofanjarðar fækka úr 125 í 122. Var afgreiðslu umsóknarinnar frestað.

Á fundi skipulagsráðs 31. janúar 2022 var umsóknin tekin fyrir að nýju og samþykkt að auglýsa tillöguna á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var jafnframt lögð fram bókun frá einum nefndarmanni þar sem sagði: „Undirrituð samþykkir að fyrirliggjandi tillaga að breyttu deiliskipulagi verði auglýst. Í ljósi þess að ítarlegt samráð við íbúa næsta nágrennis fór fram á síðasta kjörtímabili, og lauk með málamiðlun, mun ég þó ekki samþykkja breytinguna komi fram andstaða frá þeim sem áttu hlut að máli á þeim tíma.“ Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar sem staðfesti á fundi sínum 8. febrúar s.á. að auglýsa tillöguna. Við afgreiðslu málsins var lögð fram bókun bæjarfulltrúa þar sem sagði: „Ítarlegt íbúasamráð átti sér stað þegar deiliskipulag við Nónhæðina var í undirbúningi. Mikilvæg forsenda í sátt á milli lóðarhafa og íbúa var að lækka húsin um eina hæð. Nú óskar lóðarhafi eftir því að hækka húsin aftur. Undirrituð telur að virða eigi íbúalýðræði og þá sátt sem gerð var á milli aðila máls.“ Tóku tveir bæjarfulltrúar til viðbótar undir bókunina. Tillagan var auglýst með athugasemdafresti til 6. apríl s.á. auk þess sem lóðarhöfum nærliggjandi lóða var send tilkynning þar sem vakin var athygli á breytingartillögunni.

Tillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 2. maí 2022 ásamt innsendum athugasemdum. Var málinu vísað til umsagnar skipulagsdeildar og afgreiðslu þess frestað. Á fundi skipulagsráðs 16. s.m. var erindið lagt fram að nýju ásamt umsögn skipulagsdeildar, dags. 13. s.m., og var afgreiðslu málsins frestað. Skipulagsráð tók málið til afgreiðslu á fundi sínum 30. s.m. þar sem lögð var fram uppfærð umsögn skipulagsdeildar, dags. sama dag. Skipulagsráð hafnaði breytingartillögunni og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Létu tveir nefndarmenn bóka í fundargerð: „Sú afgreiðsla skipulagsráðs að hafna fjölgun íbúða við Nónsmára 1–7 er athyglisverð. Sýnt hefur verið fram á að hækkun húsanna norðanvert úr tveimur í þrjár hæðir (eins og er í Arnarsmára 36–40) og inndreginni fimmtu hæð að hluta veldur aðliggjandi byggð nánast engum neikvæðum áhrifum. Skipulag er ekki meitlað í stein og rétt að benda á að nýtt aðalskipulag gengur út á að þétta byggð og nýta innviði þar sem það er hagkvæmt. Því skýtur það skökku við að hafna breytingu á deiliskipulagi sem þjónar markmiðum Aðalskipulagsins. Að vísa í mótmæli og fundi með þeim sem voru andsnúnir þeirri breytingu að skilgreiningu landsins yrði breytt úr stofnanasvæði í íbúabyggð hefur í raun ekkert vægi hvað þessa ósk varðar. Ekkert samkomulag var gert við mótmælendur á sínum tíma eftir fjölda funda. Breyting sú sem kynnt var gerir húsin mun betri en áður og svokallað borgarlandslag enn betra.“ Bæjarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsdeildar á fundi 21. júlí 2022.

 Málsrök kæranda: Umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi hafi verið tekin til efnislegrar meðferðar og samþykkt hafi verið að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. bókun bæjarstjórnar á fundi 8. febrúar 2022. Með því að samþykkja að auglýsa tillöguna hafi bæjaryfirvöld samþykkt hana fyrir sitt leyti. Sú niðurstaða sé augljós þegar litið sé til ákvæðis 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga þar sem fram komi að séu engar athugasemdir gerðar við auglýsta tillögu sé ekki skylt að taka hana aftur til umræðu í sveitarstjórn heldur skuli senda hana Skipulagsstofnun. Sveitarstjórn sé bundin af auglýstri tillögu og geti ekki horfið frá henni nema fram komi athugasemdir sem gefi tilefni til að endurskoða ákvörðun sveitarstjórnar. Leiði af eðli máls að á þessu stigi verði tillögu aðeins hafnað á grundvelli athugasemda sem reistar séu á málaefnalegum grunni og sýni fram á skerðingu á lögvörðum hagsmunum sem telja verði að gangi framar hagsmunum umsækjandans.

Við meðferð málsins hafi verið vísað til málamiðlunar sem sögð er að hafi orðið milli bæjaryfirvalda og nágranna Nónhæðar þegar ákvarðanir hafi verið teknar um breytt deiliskipulag íbúðarbyggðar á svæðinu. Því hafi jafnvel verið haldið fram að um bindandi samkomulag hafi verið að ræða sem standi í vegi fyrir því að deiliskipulagi svæðisins verði breytt í framtíðinni, jafnvel þótt forsendur aðalskipulags hafi breyst. Þetta fái ekki staðist enda hafi sveitarstjórn enga heimild að lögum til að afsala sér skipulagsvaldi í hendur nágranna eða afmarkaðs hóps íbúa líkt og virðist hafa átt sér stað.

Sett sé spurningarmerki við bókun eins fulltrúa skipulagsráðs á fundi þess 31. janúar 2022 þar sem segi að í ljósi þess að ítarlegt samráð við íbúa næsta nágrennis hafi farið fram á síðasta kjörtímabili og lokið með málamiðlun, myndi fulltrúinn ekki samþykkja breytinguna kæmi fram andstaða frá þeim sem hefðu átt hlut að máli á þeim tíma. Í þessari yfirlýsingu hafi fulltrúinn tekið fyrir fram afstöðu með þeim sem kynnu að lýsa andstöðu við tillöguna, óháð því hvort þeir ættu lögvarinna hagsmuna að gæta eða hvort athugasemdir þeirra væru reistar á málefnalegum grundvelli. Þessi framgangur sé í andstöðu við þær skyldur sem hvíli á kjörnum fulltrúum um að gegna starfi sínu af alúð og samviskusemi, sbr. 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og um sjálfstæði í starfi, sbr. 25. gr. sömu laga. Að fá íbúðum á afmörkuðu svæði neitunarvald eigi ekkert skylt við íbúalýðræði. Ekki sé kunnugt um að nágrönnum hafi verið fengið slíkt íhlutunarvald við þær breytingar sem hafi verið gerðar að undanförnu á skipulagi í Kópavogi, til dæmis svonefndra Traðarreita eystri og vestari, eða á Fannborgarreit og í Hamraborg.

Forsendur aðalskipulags hafi breyst og á bls. 52 í greinargerð Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 segi meðal annars: „Íbúðir, atvinna í Smára (Smárahverfi). Áætlað er að svæðið verði fullbyggt fyrir árið 2030. Svæðið hefur verið deiliskipulagt og uppbygging er komin vel á veg. Heildaríbúðarfjöldi í Smáranum (201 Smári og Nónhæð) er áætlaður um 700 í Smára og um 150 á Nónhæð. (Nónhæð er utan þróunarsvæðisins.).“ Augljóst sé að þetta ákvæði væri merkingarlaust ef ekki fælist í því heimild til handa lóðarhafa eða framkvæmdaraðila til þess að fjölga íbúðum á svæðinu frá því sem áður hafi verið í deiliskipulagi þess, en erindi kæranda hafi einmitt lotið að því að fá deiliskipulagi svæðisins breytt til samræmis við nýtt aðalskipulag. Í gildandi deiliskipulagi Nónhæðar sé heildarfjöldi íbúða 140 í samræmi við þágildandi viðmið aðalskipulags og hafi því við gerð deiliskipulagsins verið fallið frá því að beita heimildum aðalskipulags um vikmörk sem heimili fjölgun eða fækkun íbúða frá tilgreindu viðmiði. Þegar viðmiðið hafi verið fært upp í 150 íbúðir í nýju aðalskipulagi hafi það falið í sér nýja heimild fyrir 10 íbúðum sem þýði í raun 9–12 íbúðir miðað við vikmörk –10/+20%.

Samkvæmt ákvæði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skuli gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og sé aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Af því leiði að laga eigi deiliskipulag að aðalskipulagi þegar svo sé ástatt sem í máli þessu. Það leiði einnig af þessari breytingu á aðalskipulagi að ekki sé lengur hægt að líta til málamiðlunar sem kunni að hafa komist á um deiliskipulag svæðisins, enda hafi sú málamiðlun dregið dám af þágildandi aðalskipulagi svæðisins. Því séu forsendur brostnar fyrir þeirri málamiðlun sem sögð sé hafa náðst um breytt deiliskipulag Nónhæðar 2017.

Brotið hafi verið gegn andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en kærandi eigi ríkra hagsmuna að gæta og því hefði borið að gefa honum kost á að koma að andmælum, einkum þegar fyrir hafi legið að meirihluti skipulagsráðs vildi hafna tillögunni. Einnig hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. þar sem stjórnvaldi beri að velja vægasta úrræðið sem fyrir hendi sé til að ná því markmiði sem að sé stefnt. Í stað þess að synja erindinu hafi borið að kanna hvort sníða mætti af tillögunni þá agnúa sem bæjaryfirvöld teldu vera á henni að óbreyttu. Reglu um rökstuðning þar sem ákvarðanir skulu vera rökstuddar í samræmi við málmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins við meðferð þeirra hafi ekki verið fylgt. Ákvörðun bæjarráðs um að synja umsókninni hafi ekki verið studd neinum rökum og ekki sé vísað til umsagnar skipulagsdeildar sem sé að jafnaði gert þegar tekin sé afstaða til erinda um gerð deiliskipulags eða breytinga á því. Jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt við meðferð málsins. Nágrönnum hafi verið fengið vald til að hafna skipulagstillögu á meðan ekki hafi verið hlustað á háværar og um margt réttmætar athugasemdir íbúa annarra svæða, sbr. t.d. nefnda Traðarreiti, Fannborgarreit og Hamraborg. Þá hafi ekki verið gætt jafnræðis gagnvart framkvæmdaraðilum þar sem gerðar hafi verið breytingar á öðrum deiliskipulögðum svæðum í nágrenni Nónhæðar til hagsbóta fyrir lóðarhafa, t.d. Hlíðarsmára 5–6, Holtasmára 1 og í deiliskipulagi Glaðheima. Bæjarráð hafi ekki tekið afstöðu til framkominna athugasemda og þar með ekki kannað réttmæti þeirra. Málið hafi því ekki verið rannsakað í samræmi við lög og því hafi rannsóknarregla stjórnsýsluréttar ekki verið uppfyllt auk þess sem meðferð þess hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Umsögn skipulagsdeildar hafi hvorki komið til umfjöllunar í skipulagsráði né í bæjarstjórn eða bæjarráði en hún hafi verið lögð fram á fundi skipulagsráðs 16. apríl, 16. maí og 30. maí 2022. Þá hafi engin umfjöllun farið fram á fundi bæjarráðs 21. júlí s.á. þar sem afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest og erindinu hafnað, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga þar sem segi að þegar frestur til athugasemda sé liðinn skuli sveitarstjórn taka tillöguna til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Í þeirri umfjöllun skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Þessi málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við lög og eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

 Því sé ranglega haldið fram í umsögn skipulagsdeildar að hækkun byggingarreits úr 4 hæðum í 5 sé ekki í samræmi við hæðir aðliggjandi íbúðarbyggðar og umhverfisþátturinn borgarlandslag sé því metinn neikvæður á hverfið í heild. Á skipulagssvæðinu sé heimiluð blönduð byggð, meðal annars allt að 12 hæða háar byggingar, auk þess sem handan Smárahvammsvegar sem liggi að byggingarsvæði kæranda að austanverðu sé röð sex hæða húsa. Þá sé fyrirhuguð 5. hæð inndregin sem dragi mjög úr áhrifum hennar á umhverfið. Þessi ábending skipulagsdeildar hafi einungis varðað 5. hæð sem sé einungis lítill hluti tillögunnar. Gæta hefði átt meðalhófs og gefa kæranda kost á að breyta tillögunni hvað varðaði mögulega 5. hæð í stað þess að hafna tillögunni í heild. Að öðru leyti hafi í niðurstöðu skipulagsdeildar verið komist að þeirri niðurstöðu að áhrif umræddrar fjölgunar íbúða væru ýmist engin eða óveruleg auk þess sem því hafi verið hafnað að samráð eða samkomulag um fyrra skipulag ætti að standa í vegi fyrir umræddum breytingum. Þá hafi því verið hafnað að tillagan væri ekki nægilega rökstudd. Hefði umsögn skipulagsdeildar átt að leiða til þess að erindi kæranda hefði verið samþykkt en hvorki skipulagsráð né bæjarráð hafi fært fram nein rök fyrir þeirri niðurstöðu að hafna erindinu. Niðurstaða skipulagsdeildar hafi verið að skerðing á hagsmunum nágranna yrði ýmist engin eða óveruleg.

 Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að með þeirri ákvörðun að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi hafi ekki falist samþykki sveitarfélagsins á breytingunni. Ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 feli í sér andmælarétt þeirra sem telji sig eiga hagsmuna að gæta vegna fyrirhugaðra deiliskipulagsákvarðana. Auglýsing á tillögu að breytingu á deiliskipulagi sé jafnframt þáttur í rannsókn máls af hálfu sveitarfélagsins. Skipulagslög geri ráð fyrir því að tillaga að breytingu á deiliskipulagi sé tekin til umræðu í bæjarstjórn þegar frestur til athugasemda sé liðinn að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar sem taki afstöðu til athugasemda sem borist hafi og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.

Á kynningartíma skipulagstillögunnar hafi borist 31 athugasemd. Framkomnar athugasemdir og sjónarmið hafi gefið tilefni til að endurskoða tillöguna og hefði það leitt til þess að skipulagsráð hafnaði breytingunni sem bæjarráð hafi svo staðfest á fundi 21. júlí 2022. Ákvörðunin hafi meðal annars byggt á niðurstöðu umsagnar skipulagsdeildar þar sem fram hafi komið mat á því hvernig breytingartillaga félli að aðliggjandi byggð og yfirbragði Nónhæðar í heild hvað varðaði stærð, hlutföll, umferð, bílastæðaþörf, útsýni og skuggamyndun. Mat skipulagsdeildar hefði verið sú að tillagan, sem hafi falið í sé hækkun byggingarreits úr 4 hæðum í 5, hafi ekki verið í samræmi við hæðir aðliggjandi byggðar sem leiða myndi til þess að umhverfisþátturinn borgarlandslag væri neikvæður varðandi hverfið í heild. Þá hafi það verið mat skipulagsdeildar að tillagan myndi leiða til þess að aukinn skuggi félli á núverandi byggð við Arnarsmára 36-40 og því væru umhverfisáhrif af breytingartillögu fyrir Nónsmára 9-15 neikvæð.

Sú fullyrðing kæranda að brotið væri gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að nágrönnum hafi verið fengið vald til að hafna tillögunni sé rangt. Ákvörðunin hafi verið tekin í samræmi við ákvæði skipulagslaga og stjórnsýslulaga og hafi skipulagsvaldið verið í höndum bæjarstjórnar í samræmi við 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga en ekki nágranna. Í skipulagsvaldinu felist meðal annars heimild til að samþykkja eða hafna breytingu á deiliskipulagi að loknu heildarmati. Ákvörðun um að hafna tillögunni byggi á ákvæðum skipulagslaga sem veiti sveitarfélaginu ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggðina á Nónhæð 1–7 og 9–15. Þá sé því hafnað að meint málamiðlun við nágranna Nónhæða hafi haft áhrif á ákvörðun um að hafna tillögu kæranda sem og að íbúum á afmörkuðu svæði hafi verið fengið neitunarvald.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda kom fram að yfirlýsingar fulltrúa í skipulagsráði um að viðkomandi myndi ekki samþykkja breytinguna kæmi fram andstaða frá þeim sem hefðu átt hlut að máli á þeim tíma þegar skipulag svæðisins hafi verið til umfjöllunar svo og sambærileg bókun fulltrúa í bæjarstjórn á fundi bæjarstjórnar 8. febrúar 2022 hafi verið ómálefnalegar og gert auglýsingu umræddrar tillögu að marklausri sýndarmennsku. Gögn málsins sýni að fullyrðingar Kópavogsbæjar um að meint málamiðlun við gerð skipulags svæðisins á fyrri stigum hafi ekki haft áhrif á niðurstöðuna standist ekki skoðun. Umrædd málamiðlun hafi ráðið úrslitum um afstöðu einstakra fulltrúa í skipulagsráði og bæjarstjórn og þannig í raun ráðið úrslitum um afgreiðslu málsins.

Í málatilbúnaði sveitarfélagsins sé þess hvergi getið að í kærunni hafi verið bent á að aðalskipulagi hafði verið breytt þar sem fjölgun íbúða hafi verið heimiluð á svæðinu. Hefðu bæjaryfirvöld þurft að færa fyrir því sérstök rök að ekki bæri að líta til breytts aðalskipulags í málinu, sérstaklega þegar þess sé gætt að aðalskipulag gangi framar deiliskipulagi, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Fullyrðingar um að niðurstaða málsins hafi byggst á niðurstöðu umsagnar skipulagsdeildar fáist ekki staðist enda hafi hvergi verið vísað til þeirrar umsagnar við afgreiðslu málsins auk þess sem umrædd umsögn hafi ekki falið í sér neina tillögu um niðurstöðu þess.

Niðurstaða: Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og geta þær með því haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Sveitarstjórnir annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Við beitingu þessara ákvæða ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Við töku ákvarðana um skipulagsmál ber sveitarstjórn sem endranær að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Þá eru sveitarstjórnir jafnframt bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað og heimild til að breyta deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Eins og fram hefur komið var í eldra aðalskipulagi sem og gildandi deiliskipulagi Nónhæðar gert ráð fyrir uppbyggingu 140 íbúða á umræddum reit. Árið 2020 óskaði kærandi eftir að deiliskipulagi Nónhæðar yrði breytt þannig að byggingarmagni og íbúðafjölda svæðisins yrði breytt og þar yrði heimilt að byggja 150 íbúðir í stað 140, líkt og gildandi deiliskipulag kvað á um. Var erindi kæranda hafnað þar sem breytingin samræmdist ekki gildandi aðalskipulagi.

Í lok árs 2021 var Aðalskipulag Kópavogs 2019–2040 samþykkt og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. desember s.á. Samkvæmt hinu nýja aðalskipulagi er heimilt að byggja 150 íbúðir á Nónhæð. Í greinargerð aðalskipulagsins eru reitirnir 201 Smári og Nónhæð tilteknir sem hluti af uppbyggingarsvæðum bæjarins. Á þessum tveimur reitum sé uppbygging komin vel á veg og gert sé ráð fyrir um 700 íbúðum í 201 Smára og um 150 á Nónhæð. Þá kemur fram að reiknað sé með að svæðið verði fullbyggt um eða fyrir 2030. Er þannig stefnt að því í aðalskipulagi að þær heimildir sem þar er kveðið á um varðandi byggingu íbúða verði fullnýttar fyrir árið 2030. Þá er þétting byggðar eitt af yfirlýstum meginmarkmiðum aðalskipulagsins. Sú breyting sem gerð var á aðalskipulagi hvað varðar íbúðarfjölda á hinu umdeilda svæði Nónhæðar úr 140 í 150 er því í samræmi við erindi kæranda frá 10. júní 2020.

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 30. maí 2022 og hafnað með fimm atkvæðum gegn tveimur. Kom engin rökstuðningur fram við ákvörðunina. Málinu var á fundinum vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 21. júlí s.á. var niðurstaða skipulagsráðs staðfest með eftirfarandi bókun: „Bæjarráð staðfestir með 4 atkvæðum afgreiðslu skipulagsráðs og hafnar erindinu.“ Einn fulltrúi í bæjarráði sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Hin kærða synjun á umsókn kæranda var ekki rökstudd að öðru leyti, en við meðferð málsins höfðu bæði nefndarmenn í skipulagsráði sem og fulltrúar í bæjarstjórn bókað í fundargerð að virða bæri málamiðlun og sátt sem gerð hefði verið við íbúa svæðisins við eldri deiliskipulagsbreytingu. Í málsrökum Kópavogsbæjar vegna kærumáls þessa er því hins vegar hafnað að meint málamiðlun við nágranna Nónhæðar hafi haft áhrif á ákvörðun um að hafna tillögu kæranda. Er þar vísað til þess að ákvörðunin hafi byggt á mati skipulagsdeildar þar sem meðal annars hefði komið fram að umhverfisáhrif af breytingartillögu fyrir Nónsmára 9–15 væru neikvæð. Í málsrökum bæjarins er þó ekki fjallað um að í umsögn skipulagsdeildar kom einnig fram að ekki væri um veruleg umhverfisáhrif að ræða á núverandi byggð af fyrirhuguðum breytingum að Nónsmára 1–7, þar sem hvorki félli skuggi á byggð né væri um útsýnisskerðingu að ræða.

Vegna sjónarmiða um meint vanhæfi eins nefndarmanns í skipulagsráði við meðferð máls þá athugast að slík störf kalla oftlega á að fulltrúar tjái sig um og taki afstöðu til margvíslegra málefna og verður að játa þeim tilhlýðilegt svigrúm til þess. Um leið verða nefndarmenn að gæta að því að ummæli þeirra séu ekki til þess falin að óhlutdrægni þeirra verði dregin í efa. Afstaða nefndarmannsins til tillögu að breyttu deiliskipulagi byggði á fyrri umfjöllun um svæðið innan skipulagsráðs, en með henni var litið hjá þeim breytingum sem síðan höfðu verið gerðar á aðalskipulagi.

Að gættum tilvitnuðum ákvæðum skipulagslaga, þeirri breytingu sem gerð hafði verið á aðalskipulagi Kópavogs fyrir Nónhæð sem og fyrirliggjandi umsögn skipulagsdeildar í tilefni af framkomnum athugasemdum við kynningu skipulagstillögunnar hefði verið rík ástæða fyrir skipulagsráð og bæjarráð að færa fram rökstuðning fyrir þeirri afstöðu að synja um skipulagsbreytinguna. Hins vegar er ekki að finna slíkan rökstuðning í bókunum skipulagsráðs eða bæjarráðs við afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum ágöllum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

 Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. júlí 2022 um að hafna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Nónsmára 1–7 og 9–15.

83/2022 Laxá í Kjós

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 17. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 83/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. júní 2022, um að áminna Veiðifélag Kjósarhrepps vegna fráviks sem skráð var við eftirlit í fiskeldisstöð þess.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Veiðifélag Kjósarhrepps þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. júní s.á. að áminna veiðifélagið vegna fráviks sem skráð var við eftirlit í fiskeldisstöð þess 1. september 2021. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 26. ágúst 2022.

Málavextir: Fyrsta vettvangsheimsókn Umhverfisstofnunar í fiskeldisstöð Veiðifélags Kjósarhrepps í Brynjudal fór fram 1. september 2021. Í eftirlitinu var skráð frávik frá 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem starfræktur var rekstur fiskeldis án starfsleyfis. Í bréfi stofnunarinnar til veiðifélagsins, dags. 27. s.m., var óskað eftir tímasettri áætlun um úrbætur vegna fráviksins í samræmi við 58. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit og að áætlunin bærist stofnuninni eigi síðar en 19. október s.á. Með tölvupósti til Umhverfisstofnunar 19. október s.á. upplýsti veiðifélagið að til stæði að sækja um rekstrarleyfi og óskaði eftir fresti til 31. desember s.á. til að skila umbeðnum gögnum. Var fallist á beiðni um frest með bréfi, dags. 22. s.m., en jafnframt tekið fram að yrði frávikum ekki lokið eða ef áætlun um úrbætur gengi ekki eftir myndi stofnunin halda áfram með eftirfylgni þaðan sem frá var horfið.

Veiðifélagið sótti um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar 3. janúar 2022 og var umsókn um starfsleyfi framsend Umhverfisstofnun 4. s.m. Með tölvupósti frá 1. febrúar s.á. var veiðifélagið upplýst um að gögn vantaði í umsóknina en því var svarað með tölvupósti 6. apríl s.á þar sem fram kom að erfiðlega gengi að senda umbeðin gögn vegna smæðar stöðvarinnar. Með tölvupósti 12. s.m. óskaði Umhverfisstofnun eftir því að veiðifélagið fyllti út nánar tilteknar áætlanir og skilaði til stofnunarinnar. Var erindið ítrekað með tölvupósti 5. maí s.á. og óskað eftir upplýsingum um hvenær umræddum gögnum yrði skilað. Fengi stofnunin ekki viðbrögð við póstinum innan tveggja vikna yrði beiting þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 7/1998 tekin til skoðunar. Með bréfi, dags. 10. júní s.á., var veiðifélaginu gefinn frestur til 24. s.m. til að skila inn tímasettri áætlun um úrbætur eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Jafnframt var tilkynnt um áform stofnunarinnar um að áminna veiðifélagið á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 7/1998. Var jafnframt upplýst um heimildir til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt kröfum stofnunarinnar, meðal annars með því að leggja á dagsektir eða stöðva starfsemi. Með bréfi, dags. 29. s.m., var veiðifélaginu veitt áminning á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 7/1998 auk þess sem gefinn var frestur til 8. ágúst s.á. til að skila inn tímasettri áætlun um úrbætur eða koma sjónarmiðum á framfæri sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umbeðnum gögnum var skilað inn 7. ágúst s.á. og 17. s.m. var staðfest að umsókn um starfsleyfi væri fullnægjandi og að eftirfylgnimáli vegna þvingunarúrræða væri lokið. Veiðifélag Kjósarhrepps fékk útgefið starfsleyfi frá Umhverfisstofnun 8. desember s.á.

Málsrök kæranda: Í kæru greinir að Veiðifélag Kjósarhrepps hafi staðið fyrir seiðaeldi í uppeldisaðstöðu í Brynjudal í Kjós, sem sé takmörkuð í sniðum og fari fram í 40 m2 húsnæði með tíu eldiskerum. Árlega séu þar ræktuð um 10.000 laxaseiði. Frárennsli frá stöðinni renni niður um 100 m langan skurð sem þjóni stöðinni sem settjörn og þaðan út í Brynjudalsá. Veiðifélagið hafi haft leyfi frá heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis fyrir framleiðslu á allt að 25.000 árs gömlum seiðum sem gefið hafi verið út 4. nóvember 2004. Við eftirlit Umhverfisstofnunar í fiskeldisstöð veiðifélagsins 1. september 2021 hafi engar athugasemdir verið gerðar við rekstur stöðvarinnar aðrar en að stöðin væri rekin án starfsleyfis.

Umhverfisstofnun hafi innheimt gjald að upphæð kr. 246.000 vegna kostnaðar við móttöku starfsleyfisumsóknar, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu. Í framhaldi hafi veiðifélaginu borist tölvupóstur frá stofnuninni 1. febrúar s.á. þar sem því hafi verið haldið fram að fjölmörg atriði skorti í umsóknina sem þyrfti að senda inn, þ.e. senda þyrfti inn áætlun vegna rekstrarstöðvunar, varanlegrar og tímabundinnar, áætlun vegna meðhöndlunar úrgangs, neyðaráætlun, áhrif losunar á umhverfið, yfirlit yfir losun frá eldinu, fóðurnotkun og annað. Formaður veiðifélagsins hafi svarað með tölvupósti 6. apríl s.á. þar sem bent var á að veiðifélagið ætti erfitt með að leggja fram umbeðnar upplýsingar.

Á Umhverfisstofnun hvíli rík leiðbeiningarskylda sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 7. gr. segi að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Umhverfisstofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart veiðifélaginu vegna umsóknar þess um starfsleyfi og því beri að ógilda áminningu stofnunarinnar. Að áliti kæranda hafi verið litið framhjá þeim upplýsingum sem lágu fyrir hjá stofnuninni eftir úttektina 1. september 2021 þar sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við rekstur eða ástand eldisstöðvarinnar aðrar en þær að starfsleyfi skorti. Ekki hafi verið teknar gildar þær upplýsingar um reksturinn sem komu fram í tölvupósti til stofnunarinnar 6. apríl 2022 og hafi verið farið fram á að fyllt væri út sérútbúið eyðublað sem greinilega væri ætlað mun stærri rekstraraðilum og umfangsmeiri starfsemi. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar veiðifélagsins til stofnunarinnar um að eyðublöð sem þessi ættu ekki við um þá starfsemi sem rekin væri af veiðifélaginu þá hafi stofnunin haldið að sér höndunum með útgáfu starfsleyfis án frekari leiðbeininga eða tillagna.

Kröfur Umhverfisstofnunar um útfyllingu eyðublaðanna ætti sér ekki lagastoð og telja yrði að veiðifélagið hefði þegar lagt fram allar þær upplýsingar um rekstur eldisstöðvarinnar og þannig tryggt að allar nauðsynlegar upplýsingar hafi þegar komi fram um starfsemina sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 Málsrök Umhverfisstofnunar: Bent er á að Veiðifélag Kjósarhrepps starfi í samræmi við lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, lög nr. 58/2006 um fiskrækt, reglugerðir sem settar hafi verið samkvæmt þeim lögum sem og samþykktum félagsins sjálfs. Félagið stundi fiskrækt eftir því sem þörf krefji, til þess að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra. Veiðifélög sem taki fisk og kleki út til að viðhalda stofni í ánum eða auka við hann þurfi starfsleyfi Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og rekstrarleyfi Matvælastofnunar samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Við meðferð umsóknar um starfsleyfi hafi leiðbeiningarskyldu verið sinnt á fullnægjandi hátt að áliti Umhverfisstofnunar. Þegar rekstraraðilar fiskeldis sæki um starfsleyfi í þjónustugátt Matvælastofnunar séu veittar ítarlegar leiðbeiningar um umsóknarferlið. Þá séu ítarlegar leiðbeiningar á þeim eyðublöðum sem rekstraraðila var bent á að fylla út um hvaða upplýsingum þurfi að skila og hvernig. Þá hafi stofnunin sent kæranda ýmsa tölvupósta með leiðbeiningum auk þess sem honum hafi verið leiðbeint í símtölum um þau gögn sem ætti að skila og hvar ætti að skila umsókninni.

Samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Afgreiðsla leyfisumsóknar samkvæmt lögum nr. 7/1998 geti reynst umfangsmikil. Mikilvægt sé að afla nauðsynlegra gagna til að taka efnislega rétta ákvörðun áður en unnt sé að gefa út starfsleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 eigi rekstraraðilar að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina komi fram í umsókn um starfsleyfi. Það sé svo Umhverfisstofnunar að meta hvort þær upplýsingar séu fullnægjandi. Þetta komi einnig fram í 6. mgr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Í greininni sé þó ekki að finna tæmandi talningu á því hvaða upplýsingar geti þurft til.

Í tilviki kæranda hafi stofnunin talið að ekki hefðu verið lögð fram nægjanleg gögn og upplýsingar til þess að vinna starfsleyfið. Ýmsar ástæður séu fyrir því að stofnunin fari fram á að rekstraraðilar skili upplýsingum á ákveðnu formi. Starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi byggist á fjölmörgum gögnum og oft flóknum upplýsingum og telji stofnunin að sá háttur sem hafður sé á auðveldi yfirsýn yfir þau gögn sem til þurfi og tryggi að allar upplýsingar berist stofnuninni sem nauðsynlegar séu. Þetta einfaldi málið fyrir stofnunina sem og umsóknaraðila. Núverandi fyrirkomulag sé útfærsla á leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar þannig að rekstraraðili geti nálgast allar upplýsingar um eftir hverju sé óskað á einum stað. Þetta sé til þess fallið að tryggja að allar upplýsingar séu lagðar fram og lágmarki frekari beiðnir til rekstraraðila um gögn og upplýsingar.

Í 58. gr. reglugerðar nr. 550/2018 komi fram að eftirlitsaðili skuli hafa eftirlit með atvinnurekstri, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka til að tryggja að farið sé að skilyrðum fyrir viðkomandi starfsemi. Komi fram frávik skuli eftirlitsaðili krefja rekstraraðila um úrbætur sem eftirlitsaðilinn telji nauðsynlegar og fullnægjandi. Kærandi hafi stundað starfsleyfisskylda starfsemi án starfsleyfis. Að mati stofnunarinnar sé það alvarlegt frávik sem beri að taka föstum tökum. Kærandi hafi ekki brugðist við þegar óskað var upplýsinga sem nauðsynlegar hafi verið til þess að bæta úr frávikinu og hafi stofnunin því talið rétt að bregðast við sem fyrst og beita þeim úrræðum sem hún hefur skv. lögum nr. 7/1998.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. júní s.á. að áminna Veiðifélag Kjósarhrepps vegna fráviks sem skráð var við eftirlit í fiskeldisstöð þess 1. september 2021, þar sem veiðifélagið stundaði starfsleyfisskylda starfsemi án starfsleyfis.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Fyrir liggur að með bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 17. ágúst 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um starfsleyfi væri fullnægjandi og var honum sent málslokabréf vegna eftirfylgnimálsins 18. s.m. Þá fékk kærandi útgefið starfsleyfi frá Umhverfisstofnun 8. desember s.á.

Í 60. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er Umhverfisstofnun veitt heimild til að veita aðila áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstofunar samkvæmt lögunum. Ef aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests í kjölfar áminningar hefur stofnunin heimild til að ákveða dagsektir sbr. 61. gr. laganna og stöðvunar starfsemi til bráðabirgða sbr. 63. gr. Hefur áminningin ekki ítaráhrif eða frekari réttarverkan eftir að fyrirmælum og úrbótum hefur verið sinnt.

Samkvæmt framangreindu hefur máli því er varðaði frávik í starfsemi kæranda og áminning Umhverfisstofnunar sneri að, verið lokið með útgáfu starfsleyfis til handa kæranda. Að teknu tilliti til framangreinds verður ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfu sína þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

135/2022 Reynimelur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 11. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 135/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 22. september 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 2. desember 2022, kærir íbúi Reynimels 64, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. janúar 2023.

Málsatvik og rök: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 10. desember 2021 var umsókn um breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel lögð fram. Umsóknin fólst í að heimilt yrði að fjölga íbúðum úr þremur í fjórar, þaksvalir yrðu heimilaðar á tveggja hæða hluta nýbyggingar og skuli þær vera inndregnar um að minnsta kosti 2 m frá útbrún þaks neðri hæðar ásamt því að heimilt sé að gera að hámarki 120 m2 kjallara innan byggingareits. Umsókninni var vísað til skipulags- og samgönguráðs, sem tók erindið fyrir á fundi sínum 15. s.m. Á fundinum var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var tillögunni vísað til borgarráðs. Borgarráð samþykkti að auglýsa tillöguna 6. janúar 2022. Erindið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. mars s.á. að lokinni auglýsingu og var vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. september s.á. var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til afgreiðslu, en ráðið samþykkti erindið á fundi sínum 14. s.m. og vísaði erindinu til borgarráðs, sem samþykkti erindið á fundi sínum 22. s.m. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember s.á.

Af hálfu kæranda er bent á að samþykki hans vegna stoðveggjar sem hann telji að breyting á deiliskipulagi krefjist liggi ekki fyrir. Þá sé breyting á deiliskipulaginu í mótsögn við höfnun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur á sambærilegri tillögu árið 2018 og að alvarlegur formgalli sé á tillögunni.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu um frestun réttaráhrifa verði hafnað. Marg úrskurðað sé hjá nefndinni að gildistaka deiliskipulags feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. laga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana sé eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 123/2010 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Að jafnaði sé því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varði gildi deiliskipulagsákvarðana.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimild til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

58/2022 Hnútuvirkjun

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður, Jón Ólafsson haffræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 27. apríl 2022 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra Landvernd landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Eldvötn samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Ungir umhverfissinnar, Þverárfélagið ehf. eigandi jarðarinnar Þverár í Skaftárhreppi, A eigandi bústaðarins Seljalands í Skaftárhreppi og B eigandi jarðarinnar Hruna í Skaftárhreppi þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 27. apríl 2022 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærendur gerðu jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 7. júlí 2022 var þeirri kröfu hafnað.

Með bréfi, dags. 12. september 2022, fóru kærendur jafnframt fram á að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skaftárhreppi 5. júlí 2022 og 10. ágúst s.á.

Málavextir: Fyrirhuguð virkjunaráform í Hverfisfljóti við Hnútu í Skaftárhreppi eiga sér nokkra forsögu. Á árinu 2006 lögðu ábúendur og eigendur jarðarinnar Dalshöfða fram fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu 2,5 MW rennslisvirkjunar í Hverfisfljóti við Hnútu í Skaftárhreppi, en framkvæmdasvæðið er innan merkja þeirrar jarðar. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun var kærð til umhverfisráðherra sem með úrskurði uppkveðnum 7. desember 2007 komst að öndverðri niðurstöðu. Í framhaldi af því lagði framkvæmdaraðili fram tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar þar sem fyrirhugað var að reisa 15 MW virkjun og hinn 29. maí 2008 féllst stofnunin á framlagða matsáætlun. Framkvæmdaraðili lagði fram frummatsskýrslu til athugunar hjá Skipulagsstofnun í september 2017 vegna áforma um allt að 9,3 MW virkjun og í kjölfarið aflaði stofnunin umsagna um skýrsluna og auglýsti opinberlega.

Í desember 2019 lagði framkvæmdaraðili fram matsskýrslu um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og óskaði eftir áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum í samræmi við ákvæði samnefndra þágildandi laga nr. 106/2000. Í matsskýrslu kemur m.a. fram að framkvæmdin muni hafa áhrif á tvö svæði sem heyri undir sérstaka vernd skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sé þar um að ræða annars vegar Skaftáreldahraun og hins vegar Lambhagafossa. Í samantektarkafla um heildaráhrif virkjunarinnar er vísað til þess að hún muni stuðla að öruggari og öflugri raforkuafhendingu á svæðisvísu og þar með almannahag sem réttlæti röskun á eldhrauni, en þar að auki er bent á að umfang þess hrauns sem raskist og hafi verndargildi nemi broti af heildarumfangi Skaftáreldahrauns. Framkvæmdin sé ekki innan hálendislínu og verði skerðing óbyggðra víðerna innan hennar óveruleg. Lítil áhrif verði á skipulagða ferðamennsku, en uppbygging aðkomuvegar veiti tækifæri til opnunar svæðisins fyrir aðra og fjölbreyttari hópa ferðamanna. Uppbygging virkjunar skapi tækifæri í atvinnulífi sveitarfélagsins.

Að lokinni frekari gagnaöflun Skipulagsstofnunar lá álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fyrir 3. júlí 2020. Í áliti sínu kemst hún að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Er framkvæmdinni lýst þannig að hún feli í sér allt að 9,3 MW virkjun með 800 m langri og 1–3 metra hárri stíflu, 2,3 km langri þrýstipípu, um 6,6 km löngum aðkomuvegi, um 750 m2 stöðvarhúsi og aðrennslis- og frárennslisskurðum. Er það m.a. niðurstaða stofnunarinnar að virkjunin muni hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun, sem hafi hátt verndargildi á lands- og heimsvísu og hafi umtalsverða sérstöðu. Jarðminjar á svæðinu njóti sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. laga um náttúruvernd, en ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun hraunsins. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa verulega neikvæð áhrif á jarðmyndanir, landslag og víðernisupplifun og talsverð neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Þá skírskotar Skipulagsstofnun til þess að allir virkjunarkostir 10 MW og stærri sæti heildstæðri greiningu og mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þá er bent á að umfang virkjunarinnar sé að mestu sambærilegt fyrri áformum um 15 MW virkjun. Um sé að ræða framkvæmd sem að mati stofnunarinnar muni hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og að tilefni hefði verið til að meta virkjunina með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.

Í áðurgildandi Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010–2022 var umrætt svæði skipulagt sem iðnaðarsvæði og þar gert ráð fyrir 40 MW virkjun. Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. febrúar 2022 tók gildi breyting á greindu aðalskipulagi sem felur í sér að gert er ráð fyrir 9,3 MW virkjun á svæðinu með nánar tilgreindum skipulagsskilmálum vegna virkjunarframkvæmdar. Þá er legu iðnaðarsvæðis hnikað til á skipulagsuppdrætti auk þess sem legu aðrennslis- og veituganga er breytt til samræmis við mat á umhverfisáhrifum og grunnhönnun. Í greinargerð skipulagsins er jafnframt að finna umhverfisskýrslu í samræmi við áðurgildandi lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. mars 2022 tók gildi deiliskipulag virkjunar í Hverfisfljóti við Hnútu. Í skipulaginu eru settir fram skilmálar fyrir framkvæmdaþætti fyrirhugaðrar virkjunar og aðra mögulega framkvæmdaþætti sem falla innan skipulagssvæðisins. Er gerð grein fyrir starfsemi sem tilheyri framkvæmdinni, legu framkvæmdar, lóðarmörkum, efnistökusvæðum og frágangi á framkvæmdasvæðinu. Þá er í greinargerð skipulagsins að finna umhverfisskýrslu og kemur þar fram að umfjöllunin byggi að miklu leyti á þeim upplýsingum sem komið hefðu fram í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Með umsókn til skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps, dags. 5. apríl 2022, sótti framkvæmdaraðili um leyfi fyrir allt að 9,3 MW vatnsaflsvirkjun í Hverfisfljóti. Í greinargerð er fylgdi umsókninni kom m.a. fram að framkvæmdinni væri skipt upp í nokkra framkvæmdaþætti. Framkvæmdatími til að fullgera virkjunina væri áætlaður um 30–36 mánuðir og áætluð gangsetning virkjunarinnar væri um áramótin 2024/2025. Á fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 25. apríl 2022 var umsóknin tekin fyrir og samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi sveitarstjórnar 27. apríl s.á., einnig með þremur atkvæðum gegn tveimur. Meirihluti sveitarstjórnar bókaði að virkjunin myndi bæta tekjumöguleika sveitarfélagsins til framtíðar, gefa af sér græna orku með sjálfbærni að leiðarljósi og bæta öryggi á afhendingu raforku. Jafnframt var bókað að framkvæmdin samræmdist aðgerðaráætlun stjórnvalda varðandi orkuskipti á landinu. Hinn 12. maí 2022 gaf skipulags- og byggingarfulltrúi út framkvæmdaleyfi í samræmi við umsóknina, með vísan til nefndrar samþykktar sveitarstjórnar. Á fundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps 9. ágúst s.á. var þessu til viðbótar samþykkt bókun um áhrif Hnútuvirkjunar á atvinnulíf í sveitarfélaginu, bætt orkuöryggi, aukið aðgengi að ferðamannastað o.fl.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu ákvörðun Skaftárhrepps haldna verulegum form- og efnisannmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar. Við málsmeðferðina hafi verið brotið gegn skipulagslögum nr. 123/2010, þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Fyrir liggi að sveitarstjórn hafi hvorki tekið saman greinargerð um afgreiðslu hins kærða framkvæmdaleyfis né gert grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar eða rökstutt hvers vegna gengið hafi verið gegn áliti stofnunarinnar. Þegar af þeirri ástæðu beri að ógilda framkvæmdaleyfið, enda augljóst að brotið hafi verið gegn þýðingarmiklum lagaákvæðum. Sérstaklega rík ástæða hafi verið fyrir sveitarstjórn að gera grein fyrir þessu þar sem álit fagaðila hafi verið afar neikvæð.

Áhersla sé lögð á að skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga beri að leggja álit Skipulagsstofnunar til grundvallar. Með lögum nr. 96/2019 hafi verið gerð sú breyting á lögum nr. 106/2000 að í stað þess að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar beri leyfisveitanda að leggja álitið til grundvallar. Breytingin sé í samræmi við breytingu á 8. gr. tilskipunar 2011/92/ESB sem gerð hafi verið með tilskipun 2014/52/ESB. Fram komi í greinargerð í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 96/2019 að lögð sé enn meiri áhersla en áður á hlutverk Skipulagsstofnunar í málsmeðferð vegna mats á umhverfisáhrifum vegna þeirrar faglegu þekkingar sem stofnunin búi yfir. Í samræmi við ákvæðið sé álitið bindandi fyrir leyfisveitendur nema til komi algjörlega sérstök og málefnaleg rök sem styðji aðra niðurstöðu. Ef álitið væri ekki bindandi fyrir sveitarstjórnir myndi það ekki þjóna neinum tilgangi og væri hlutverk Skipulagsstofnunar með því að engu orðið.

Ekkert liggi fyrir um hvort málið hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þar sem enginn eiginlegur rökstuðningur sé fyrirliggjandi. Sá rökstuðningur sem finna megi í bókun fundargerðar sveitarstjórnar frá 27. apríl 2022 uppfylli ekki kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning ákvörðunar. Vísað hafi verið til bættra tekjumöguleika sveitarfélagsins, en í því sambandi sé bent á að ferðaþjónusta og útivist sé helsta tekjulind þess og muni umrædd virkjun hafa verulega neikvæð áhrif á þá þjónustu, eins og fram komi í áliti Skipulagsstofnunar. Þá geti fjárhagslegar ástæður ekki talist gild rök þegar framkvæmd varði 61. gr. laga um náttúruvernd, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 52/2018. Þá sé órökstutt með öllu hvernig umrædd virkjun tengist orkuskiptum, en hleðslustöðvar fyrir rafbíla verði tengdar almenna raforkukerfinu. Loks haldi ekki rök um bætt raforkuöryggi, en unnið hafi verið að betrumbótum á raflínum af hálfu Landsnets og RARIK auk þess sem engin tilraun sé gerð til að útskýra hvernig virkjunin ætti að geta verið óhult fyrir áföllum eða náttúruhamförum. Vísað sé til þess sem fram komi í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 46/2016 að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar sé til fyrirhugaðrar framkvæmdar þeim mun strangari kröfur séu gerðar til rökstuðnings. Jafnframt sé vísað til úrskurða í máli nr. 95/2016 og máli nr. 46/2021.

Fyrirhuguð framkvæmd muni liggja um eldhraun sem óumdeilt sé að falli undir 61. gr. laga um náttúruvernd, en í 3. mgr. lagagreinarinnar segi að forðast beri að raska vistkerfum og jarðminjum sem talin séu upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um frummatsskýrslu framkvæmdarinnar hafi verið bent á að Skaftáreldahraun hafi hátt verndargildi bæði á landsvísu og heimsvísu og að ekki sé eðlilegt að meta rask á hrauni eða tap á verndargildi hrauns með því að gefa það upp sem prósentur af heildarflatarmáli, í þessu tilfelli öllu Skaftáreldahrauni eins og gert hafi verið í frummatsskýrslunni. Undir það hafi verið tekið í áliti Skipulagsstofnunar. Jafnframt hafi Landvernd og fleiri tekið undir þau sjónarmið. Horfa verði til þess hvernig heildarásýnd svæðisins breytist með fyrirhuguðum framkvæmdum. Framkvæmdin muni einnig raska fossum sem njóti verndar skv. b-lið 2. mgr. 61. gr. laga um náttúruvernd þar sem rennsli um Lambhagafossa verði ekkert a.m.k. fjóra mánuði á ári. Ekki séu í húfi brýnir almannahagsmunir sem réttlæti framkvæmdina.

Um túlkun á brýnni nauðsyn í skilningi 61. gr. laga um náttúruvernd sé m.a. vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 52/2018, en þar hafi nefndin talið að styrkari staða fyrirtækis á raforkumarkaði teldist ekki til brýnnar nauðsynjar. Nefndin hafi einnig talið að það að stuðla að auknu raforkuöryggi teldist málefnalegt markmið sem félli innan þess svigrúms til mats sem sveitarstjórn hefði við mat á brýnni nauðsyn. Kærendur telji að jafnvel þótt það geti talist málefnalegt markmið þá feli bætt raforkuöryggi á svæðinu ekki í sér brýna nauðsyn í skilningi 61. gr. laga um náttúruvernd m.a. í ljósi þess hversu vel raforkuöryggi sé tryggt á því svæði sem um ræði. Í gögnum Landsnets frá árinu 2021 megi sjá að heildar straumleysismínútur á öllu Suðurlandi hafi aðeins verið 0,09. Skaftárhreppur sé tengdur byggðalínu til austurs og vesturs og raforkuöryggi með því betra sem gerist á landinu. Þá geri frummatsskýrsla ráð fyrir að áin verði vatnslítil fyrstu fjóra mánuði ársins og því óvíst hversu mikla raforku virkjunin muni ná að framleiða yfir hávetur. Að lokum sé bent á að nýlega hafi verið lagðir strengir í jörð á svæðinu og þar með hafi raforkuöryggi verið bætt enn frekar frá því sem áður hafi verið.

Framkvæmdin komi til með að skerða landslagsheildir, ásýnd og víðerni. Horfa þurfi til þess að í landsskipulagsstefnu segi í gr. 1.4.1 að mannvirkjagerð vegna orkuvinnslu og -flutnings skuli taka mið af áherslu landsskipulagsstefnu á sjálfbæra nýtingu orkulinda og verndun víðerna og náttúru miðhálendisins. Meiri háttar mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýri ekki víðerni eða landslagsheildir hálendisins. Umrædd framkvæmd muni ganga á verndargildi víðernis svæðisins, breyta ásýnd þess og gera megi ráð fyrir að náttúruupplifun breytist töluvert. Jafnvel þótt fyrrgreint ákvæði landsskipulagsstefnu eigi við um miðhálendi Íslands verði að telja að sambærileg sjónarmið eigi við um áhrifasvæði fyrirhugaðrar virkjunar í Hverfisfljóti vegna nálægðar þess við miðhálendið og Vatnajökulsþjóðgarð og yfirbragð þess sem óraskaðs svæðis, eins og fram komi í umsögnum Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og áliti Skipulagsstofnunar.

Verulegt áfok sé í Skaftárhreppi og muni virkjunin skapa nýja uppsprettu vegna mikils aurburðar í Hverfisfljóti. Vatnabúskap svæðisins sé stefnt í hættu þegar virkjunin sé í rekstri. Sérstaklega sé hætt við að grunnvatn verði fyrir áhrifum snemma á vorin þegar allt vatn úr ánni verði nýtt í virkjunina, en vatnafar á svæðinu hafi orðið fyrir miklum áhrifum af náttúru- og mannavöldum á undanförnum árum. Um þetta sé vísað til skýrslunnar „Vatnafar í Eldhrauni – Náttúrulegar breytingar og áhrif veitumannvirkja“ frá Veðurstofu Íslands. Rannsaka þurfi betur áhrif virkjunarinnar á grunnvatnsstöðu í Þverá, Fossálum og Vatnamótum en það hafi ekki verið gert í matsskýrslu. Þá hafi kærendur hagsmuna að gæta sem landeigendur vegna fiskgengdar og veiði, en undanfarin ár hafi vatnsleysi á svæðinu hamlað fiskgengd. Einnig hafi ekki verið rannsakað til hlítar áhrif breytts rennslis árinnar og breytts aurframburðar á mikilvægt fuglasvæði á Brunasandi.

Virkjunin hafi ekki hlotið virkjunarleyfi frá Orkustofnun, en slíkt leyfi þurfi að vera til staðar þegar framkvæmdir hefjist.

Sú virkjun sem hér um ræði hafi fallið í biðflokk í Rammaáætlun II og það hafi haldist óbreytt í tillögum að rammaáætlun. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun séu í biðflokki þeir virkjunarkostir sem sé talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli sjónarmiða, sem fram komi í 4. mgr. 3. gr. laganna, hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Fram komi í 2. mgr. sömu greinar að stjórnvöldum sé ekki heimilt að veita leyfi tengd orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem séu í biðflokki. Framangreind lög eigi við alla virkjunarkosti, 10 MW og stærri, og eigi því ekki við um umrædda virkjun sem sé 9,3 MW. Það sé þó varhugavert að sami virkjunarkostur og hafi lent í biðflokki í rammaáætlun skuli nú vera kominn með framkvæmdaleyfi. Um sé að ræða mjög óeðlilegt undanskot og hafi Skipulagsstofnun tekið undir það sjónarmið í áliti sínu. Framkvæmdin gangi þvert á markmið umhverfislöggjafarinnar í heild sinni og sérstaklega tilgang rammaáætlunar og laga nr. 48/2011.

Ákvæði 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 byggi á reglum Evrópuréttar og hafi verið innleidd í íslenskan rétt vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sé þess krafist að úrskurðarnefndin leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á þeim atriðum sem lúti að framangreindum lagaákvæðum. Verði úrskurðarnefndin að beita ákvæðum laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið eins og þau gildi berum orðum um úrskurðarnefndina þótt hún sé þar ekki nefnd á nafn. Það beri nefndinni að gera samkvæmt lögjöfnun eða með öðrum hætti.

Málsrök Skaftárhrepps: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað og bendir á að umhverfisáhrif Hnútuvirkjunar verði lítil sem engin eftir að framkvæmdum ljúki. Ekkert land fari undir lón, ekki muni safnast framburður í farvegi eða í kring og því muni ekkert landrof verða sem skapi áfok. Rennsli minnki svolítið á virkjuðum kafla, en að öðru leyti muni rennslissveiflur vera með sama hætti og þær hafi verið síðustu árhundruð. Framkvæmdin fari ekki inn fyrir miðhálendismörk auk þess sem hvorki verði raskað sérstæðri landslagsheild né muni ásýnd óraskaðs lands breytast að neinu leyti. Þá hafi framkvæmdaraðili breytt virkjunaráformum sínum í talsvert miklu frá upphafi, til að koma til móts við óskir, ábendingar og athugasemdir. Fyrri áform hafi gengið út á að stífla Hverfisfljót nokkurn veginn á fossbrún Lambhagafossa og hefði þá myndast talsvert inntakslón, þar sem hefði orðið nokkur aursöfnun. Leitast verði við að halda raski í lágmarki á byggingartíma, að frágangur að verktíma loknum verði til fyrirmyndar og muni eftirlitsaðili fylgja því fastlega eftir samkvæmt samkomulagi sem gert verði milli leyfishafa og leyfisveitanda áður en framkvæmdir hefjist. Vegur að virkjanastað muni verða um 30% hluta í sandorpnu hrauni, 30% í götuslóða eftir hross, sauðfé og göngufólk og síðan í túni og óræktuðu landi.

Vegna tilvísunar til þess að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að raska hrauni og fossum, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, er tekið fram að Skaftárhreppur telji að brýn nauðsyn standi til þess að virkja fallvötn skynsamlega og í takti við umhverfið. Virkjanir af þessari stærð séu að öllu leyti heppilegar þar sem þær valdi lágmarksraski, styrki raforkuöryggi og búi til sjálfbæra og græna orku. Hverfisfljót sé eitt þeirra vatnsfalla í Skaftárhreppi sem falli vel til sjálfbærrar nýtingar til raforkuframleiðslu með lágmarksraski og ásýndarbreytingu. Hvað varði aðra kosti þá dugi heimarafstöðvar allt að 200 kW skammt, vindorkunýting sé ekki fýsilegur kostur að svo stöddu og virkjun sjávarfalla sé fjarlægur möguleiki. Afhendingaröryggi raforku í sveitarfélaginu sé það næst lakasta á landinu á eftir Vestfjörðum. Hæglega geti einhverskonar áfall átt sér stað, t.d. rof á byggðalínu vegna náttúruhamfara, en við þær aðstæður sé afmarkaður eyjurekstur raforkukerfis lífæð samfélagsins. Það sé eitt af hlutverkum sveitarstjórna hvers tíma að búa samfélagi sínu sem best skilyrði til þess að eflast og dafna á sem sjálfbærastan hátt.

Því sé alfarið hafnað að lög hafi verið brotin við meðferð málsins. Gert sé ráð fyrir fyrirhuguðum virkjunaráformum í gildandi Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010–2022 og í deiliskipulagi, en athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi verið lagðar til grundvallar við endanlega afgreiðslu við breytingu á aðalskipulagi og á deiliskipulagi. Með nýju svæði fyrir athafna- og iðnaðarstarfsemi við Hnútu í aðalskipulagi og lýsingu á helstu einkennum virkjunar í mati á umhverfisáhrifum sé sett fram stefna sem stuðli að markvissri þróun fyrir íbúa á svæðinu til framtíðar. Markmið breytingar á aðalskipulagi sé að auka raforkuöryggi á svæðinu og framleiða rafmagn til sölu á almennum markaði. Þá gildi einnig markmið aðalskipulagsins um iðnaðarsvæðið, sem séu m.a. að auka atvinnusköpun á öðrum sviðum en ferðaþjónustu og að raforkuvinnsla nýtist til fjölbreyttrar atvinnu­uppbyggingar í sveitarfélaginu. Fyrirhuguð framkvæmd hafi verið í formlegu matsferli síðan árið 2006 með hléum og fyrir liggi matsskýrsla frá desember 2019. Í henni sé m.a. fjallað um áhrif á ásýnd svæðisins, á jarðmyndanir, gróður, lífríki og samfélag. Þá sé í skýrslunni að finna umfjöllun um mótvægisaðgerðir.

Kostir virkjunar fyrir sveitarfélagið séu augljósir. Framkvæmdin muni m.a. skapa fjölmörg störf á byggingartíma virkjunarinnar, en að honum loknum verði varanleg störf tvö til þrjú auk afleiddra starfa. Loftlínur á þessu svæði séu orðnar gamlar og þar að auki fulllestaðar. Erfitt geti verið að þjónusta rafmagnsbíla með hleðslustöðvum ef ekki komi til aukið rafmagn á svæðinu. Vegalagning muni falla vel inn í landslagið og bæta aðgengi að svæðinu. Muni virkjunin skapa það öryggi í raforkumálum sem nauðsynleg sé fyrir svæðið og tryggja að eðlileg uppbygging geti átt sér stað.

Skipulagsstofnun hafi lagt áherslu á að vísa ætti virkjanaáformum í endurskoðun aðalskipulags. Sveitarstjórn hafi hins vegar ákveðið að flýta málinu í ljósi hinnar brýnu nauðsynjar sem áður hafi verið rakin, en eyjurekstur raforkukerfis sé algerlega nauðsynlegur öryggisventill fyrir afhendingaröryggi raforku. Þá hafi Skipulagsstofnun vísað til þess að Skaftáreldahraun hafi umtalsverða sérstöðu og verndargildi þess væri hátt bæði á lands- og heimsvísu. Vissulega sé hraunið stórt og sérstakt en Hnútuvirkjun verði á svæði sem nánast enginn hafi komið á. Með tilkomu virkjunar verði hægt að skoða Skaftáreldahraunið mun betur með nýjum vegum, en það hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustu auk þess sem aðgengi viðbragðsaðila að hálendi Skaftárhrepps og Vatnajökli batni. Það séu almannahagsmunir að byggð haldist í blóma í Skaftárhreppi og unnt sé að taka við auknum ferðamannastraumi og vinna að frekari uppbyggingu atvinnulífs. Hvað varði athugasemdir Skipulagsstofnunar um óbyggð víðerni sé bent á að þrátt fyrir nálægð virkjunarinnar við miðhálendi liggi áhrifasvæði framkvæmdarinnar ekki innan þess, heldur sé það alfarið innan eignarmarka jarðarinnar Dalshöfða sem sé býli í ábúð á skilgreindu landbúnaðarsvæði.

Lítið rennsli verði að vetri til í farveginum milli stíflu og frárennslis frá stöðvarhúsi vegna þess að virkjunin muni nýta vatnið. Stærð virkjunar sé ákvörðuð út frá vetrarrennsli þannig að það dugi til að halda nær fullri raforkuframleiðslu. Lítið rennsli sé því ekki til marks um litla raforkuframleiðslu heldur fremur um að verið sé að nýta tiltækt vatnsmagn. Lagning jarðstrengja milli Prestbakka og Hnappavalla í Öræfasveit muni án efa bæta afhendingaröryggi raforku til Öræfasveitar, en það sé önnur saga. Jafnvel þó ætlunin sé að stöðva rekstur virkjunar þegar aurburður sé hvað mestur í Hverfisfljóti þá verði engu að síður mögulegt að keyra virkjunina á sama tíma ef þörf krefji. Þannig komi mikill aurburður ekki í veg fyrir að hægt sé að tryggja raforkuframleiðslu á svæðinu.

Áhrif virkjunar á aurburð í Hverfisfljóti séu mjög takmörkuð. Á sumrin, þegar aurburður sé hvað mestur, verði rennsli árinnar margfalt á við það sem hægt verði að veita til virkjunar og renni megnið af vatninu og aurburðinum þá um sinn náttúrulega farveg eins og áður. Áhrif á stærð uppfokssvæða verði takmörkuð við breytt vetrarrennsli í farvegi milli stíflu og stöðvarhúss, en tæplega sé hægt að tala um ný uppfokssvæði í því samhengi enda farvegurinn víðast hvar þröngur á umræddum kafla. Ekkert miðlunarlón verði sem skapað geti aursöfnun og ný uppfokssvæði heldur sé um rennslisvirkjun að ræða sem hleypi jafnt vatnsrennsli og aurburði niður farveginn jafn óðum. Vandséð sé hvernig virkjunin eigi að geta haft áhrif á grunnvatnsrennsli neðar á vatnasviðinu. Vatn verði leitt úr farveginum neðan ármóta við Eiríksfellsá og skilað aftur neðan Lambhagafossa, en leiðin eftir farveginum sé um 2,5 km að lengd og fallhæðin tæpir 130 m. Telja verði mjög ólíklegt að verulegur leki sé til grunnvatns beint úr farvegi Hverfisfljóts á nákvæmlega þessum hluta hans, svo mikill að það geti haft áhrif á grunnvatnsrennsli niður í byggð, í um 10 km fjarlægð. Til samanburðar megi geta þess að farvegur Hverfisfljóts ofan mælistaðar við Hnútu séu röskir 60 km að lengd, þar af séu meira en 40 km huldir jökli.

Í kæru sé vísað til skýrslu Veðurstofu Íslands um náttúrulegar breytingar og áhrif veitumannvirkja á vatnafar í Eldhrauni. Skemmst sé frá því að segja að veitumannvirki tengd Hnútuvirkjun verði ekki sambærileg þeim sem hafi haft áhrif á vatnafar á Skaftársvæðinu. Þau muni ekki skerða möguleika vatnsins til þess að renna út í hraunið umhverfis farveginn frá því sem nú sé.

Breytingar hafi orðið á vatnafari Hverfisfljóts síðustu ár og áratugi. Hverfisfljót hafi runnið í gljúfrið í Bárðarskarði síðan um Skaftárelda, en fram yfir síðustu öld hafi það líka runnið vestur fyrir Hnútu þegar mikið hafi verið í, en hafi ekki gert það síðustu áratugi. Langholtsfoss, sem hafi verið um 10 m á hæð, hafi horfið árið 2010 og þar myndast gljúfur. Það gæti hafa haft áhrif á vatnafar Þverárvatns en það viti þó enginn. Í kringum árið 1990 hafi varnargarðar verið settir upp á vegum Landgræðslu ríkisins vestan við Hverfisfljót til móts við túnin á Dalhöfða og innar. Þá sé farvegur Hverfisfljóts alltaf að grafa sig neðar og sjáist töluverður munur á síðustu 30 árum.

Mælingar sýni að rennsli Hverfisfljóts við Hnútu sé 91% til 98% af rennsli fljótsins við brú á þjóðvegi 1. Hlutfallið sé hæst þegar leysingar séu ofan Hnútu en lægst í þurrviðri að vetri til og endurspegli viðbótin þá innrennsli grunnvatns í farveginn milli staðanna. Erfitt sé að sjá hvernig þetta samhengi eigi að raskast með tilkomu virkjunar.

Varðandi ummæli Skipulagsstofnunar um að umfang fyrirhugaðrar 9,3 MW virkjunar séu að mestu sambærileg fyrri áformum um 15 MW virkjun sé bent á að fyrri áform hafi gengið út á að stífla Hverfisfljót nokkurn veginn á fossbrún Lambhagafossa og hefði myndast talsvert inntakslón við það á flæðunum ofan við fossana. Um hafi verið að ræða rennslisvirkjun með möguleika á að nýta rennslissveiflur í Hverfisfljóti. Líklega hefði orðið nokkur aursöfnun í inntakslóni. Núverandi áform gangi hins vegar út á mun minna inntakslón í tiltölulega þröngum farvegi Hverfisfljóts, skammt neðan ármóta Hverfisfljóts og Eiríksfellsár. Möguleikar á aursöfnun í inntakslóni verði mjög takmarkaðir og að sama skapi verði engir miðlunarmöguleikar. Ákvörðun um að uppsett afl virkjunar verði 9,3 MW byggi á greiningu á rennslisgögnum sem hafi leitt í ljós að með því að miða virkjað rennsli við 9,5 m3/s sé tryggt að virkjunin nái að halda fullum afköstum nær allt árið. Það feli í sér hagkvæmni.

Einnig bendi sveitarfélagið á að það sé skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi að öll leyfi þurfi að vera til staðar þegar framkvæmdir hefjist, þ.m.t. virkjanaleyfi.

Að lokum vísar sveitarfélagið til álits Orkustofnunar, dags. 10. ágúst 2022, sem stofnunin veitti í tilefni af fyrirspurnum skipulagsnefndar sveitarfélagsins um áhrif virkjunarinnar á afhendingaröryggi raforku og væntanleg orkuskipti. Í svari stofnunarinnar kemur fram að almennt sé talið að orkuframleiðsla innan ákveðins svæðis geti haft jákvæð áhrif á afhendingaröryggi raforku innan svæðisins og jafnvel út fyrir það í gegnum byggðalínu sem svæðið tengist. Íslenska raforkukerfið sé samtengt og því megi segja að hægt sé að nýta alla raforku til orkuskipta á landsvísu óháð framleiðslustað. Ef gert sé ráð fyrir um 70% aflnýtingu á hinni fyrirhuguðu 9,3 MW virkjun þá yrði raforkuframleiðslan um 57 milljónir kWH á ári sem samsvari ársnotkun um 23.000 rafbíla eða rúmlega 10% fólksbíla í umferð á Íslandi.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka málsrök sín um að álit Skipulagsstofnunar hafi ekki verið lagt til grundvallar við veitingu framkvæmdaleyfisins því greinargerð hafi vantað. Breyti þar engu um að sveitarstjórn hafi fjallað um málið í aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagi, en lögum samkvæmt sé greinargerð nauðsynleg. Hverfisfljótið eigi sér enga hliðstæðu og sé gönguleiðin frá Miklafelli, um Hnútu og niður fyrir Lambhagafossa sem opin bók um áhrif elda og ísa. Sé áréttað að náttúrugersemar muni eyðileggjast með virkjuninni, en um áhrif á umhverfið sé vísað til kæru og álits Skipulagsstofnunar. Sérstöðu, mótunarsögu og virði þessa einstaka svæðis verði gjörspillt með áformuðum framkvæmdum.

Bent sé á að virkjunina eigi að tengja inn á tengivirki við Prestbakka og þar með inn á almenna raforkunetið. Virkjunin muni því ekki auka framboð raforku að neinu ráði í Skaftárhreppi meira heldur en á landinu öllu, nema að Skaftárhreppur aftengist almenna netinu. Rök sveitarfélagsins hvað varði sjálfbæra þróun innan þess séu því haldlaus. Raforkuöryggi í Skaftárhreppi sé með því besta á landinu eins og frammistöðuskýrslur Landsnets sýni fram á. Ef sú ólíklega staða kæmi upp að netið myndi rofna frá báðum áttum þá væri í þeim tilvikum nærtækara, hagkvæmara og umhverfisvænna að koma upp varaaflstöð þar sem rafmagn væri geymt á rafhlöðum. Ótækt sé að halda því fram að öll samfélög á landinu þurfi virkjun til að tryggja eyjakeyrslu. Í öllu falli þyrfti að fara fram valkostagreining á mögulegri varaaflstöð eða frekari raforkuvinnslu þar sem Hnútuvirkjun sé langt því frá að vera eini kosturinn. Þar að auki hyggi Landsvirkjun á stækkun Sigöldustöðvar um 65 MW, en sú aukning muni fara inn á almenna netið og berast tengivirkinu við Prestbakka beint. Tenging við almenna netið veiti næga raforku og takmarkist af afhendingargetu en ekki raforkuframleiðslu.

Fullyrðingar sveitarfélagsins um aukna atvinnumöguleika á svæðinu séu órökstuddar og rangar, en ekki verði um aukna atvinnumöguleika að ræða þar sem raforkan fari inn á almenna netið og framboðsaukning á raforku því ómarktæk. Vatnsaflsvirkjanir séu margar mannlausar og eftirlit með þeim geti verið fjarstýrt hvar sem er á landinu. Ekkert atvinnuleysi sé í Skaftárhreppi, þvert á móti hafi þurft að „flytja inn“ vinnuafl. Þá muni virkjunin hafi neikvæð áhrif á undirstöðuatvinnugrein sveitarfélagsins, þ.e. náttúrutengda ferðaþjónustu og útivist. Hvað varði málsrök um orkuskipti ökutækja sé bent á þá staðreynd að hleðslustöðvar séu tengdar almenna raforkukerfinu. Jafnvel þó allur bílafloti landsmanna yrði rafvæddur yrði það einungis 3–5% aukning á raforkunotkun landsmanna samkvæmt skýrslu Rafbílasambands Íslands. Orkuskipti ökutækja séu því vel framkvæmanleg án Hnútuvirkjunar. Sveitarfélagið hafi hvorki skilning á inntaki náttúruverndar né skerðingu víðerna en ljóst sé að nálægð fyrirhugaðra virkjunarmannvirkja verði langt innan 5 km fjarlægðar í skilgreiningu laga nr. 60/2013 um náttúruvernd á víðernum. Þar af leiðandi muni virkjunin hafa bein áhrif til þess að rýra víðerni innan miðhálendis Íslands. Að lokum sé bent á ósamræmi í umsögn sveitarfélagsins og deiliskipulagi varðandi rennslislón. Í deiliskipulagi komi fram að gert sé ráð fyrir rennslislóni en í umsögninni sé því haldið fram að ekkert lón verði til staðar.

Málsrök leyfishafa: Við meðferð málsins barst nefndinni minnisblað verkfræðistofu sem tekið var saman fyrir leyfishafa. Þar kemur m.a. fram að aur verði veitt jafn óðum um veitumannvirki og eftir atvikum um virkjun enda ekki um miðlun vatns eða aurburðar að ræða. Á vetrum þegar nær allt vatn fari um virkjun sé hverfandi aurburður í Hverfisfljóti. Á sumrum þegar aurburður sé hvað mestur verði rennsli árinnar margfalt á við það sem hægt verði að veita til virkjunar og renni megnið af vatninu og aurburðinum þá um náttúrulegan farveg. Ekkert miðlunarlón verði við virkjunina sem geti skapað aursöfnun og ný uppfokssvæði.

——-

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 27. apríl 2022 að veita framkvæmdaleyfi fyrir Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti. Verður fyrst tekin afstaða til aðildar kærenda að málinu en óskað var nánar skýringa um hagsmuni þeirra, umfram það sem greint var frá í kæru og bárust þær með bréfi, dags. 9. janúar 2023.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Þverárfélagið ehf. á jörðina Þverá, sem liggur að jörðinni Dalshöfða um Skaftáreldahraun. Um tveir kílómetrar eru frá framkvæmdasvæðinu að landi jarðarinnar. Hins vegar eru 10-15 kílómetrar þaðan heim að bænum á Þverá. Telja eigendur félagsins að töluverð sjónmengun verði vegna fyrirhugaðrar virkjunar, annars vegar frá „rörinu“ sem muni liggja frá framkvæmdasvæðinu og hins vegar frá „ljósaborginni“ sem muni sjást frá jörðinni. Af þessu tilefni má athuga að gert er ráð fyrir því að þrýstipípa virkjunarinnar verði að mestu grafin niður og mun hún því naumast verða greinileg, þótt unnt verði að sjá önnur mannvirki virkjunarinnar úr fjarlægð. Þar sem hins vegar er um verulega fjarlægð að ræða að meginframkvæmdasvæði virkjunarinnar verður ekki talið að þessir hagsmunir séu svo verulegir að játuð verði kæruaðild vegna grenndar.

Af hálfu félagsins hefur jafnframt verið vísað til þess að „vatn úr fljótinu fari undir hraunið og komi í ána Þverá.“ Sjóbirtingur sé í ánni og geti fiskrækt og veiði orðið fyrir „hnjaski“, ef rennsli í ánni minnki. Þessi meintu áhrif fá ekki hald í áliti Skipulagsstofnunar frá 3. júlí 2020 um mat á umhverfisáhrifum virkjunar í Hverfisfljóti. Þar segir að áhrif á vatnafar felist fyrst og fremst í skertu rennsli á þeim hluta Hverfisfljóts sem verði virkjaður. Ekki sé að vænta áhrifa vegna vatnssöfnunar eða breytingu á grunnvatni og uppsprettum þar sem gert sé ráð fyrir rennslisvirkjun án miðlunar. Áhrif á vatnafar séu staðbundin og að mestu leyti bundin við fyrstu fjóra mánuði ársins. Afleidd áhrif á fisk verði engin þar sem áin sé ekki fiskgeng á framkvæmdasvæðinu. Telur nefndin ekki efni, á þeim grundvelli, til að þetta veiti aðild að málinu.

Þá kemur fram af hálfu félagsins að í gegnum tíðina hafi gerst að Hverfisfljót hafi hlaupið í Þverá og að það muni frekar gerast ef fyrirstaða eða lón sé í fljótinu. Hvorki í matsskýrslu framkvæmdar né áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina er vikið að þessari áhættu. Virðist enda langsótt að varnargarðar og stíflumannvirki á þessu svæði geti haft afgerandi áhrif um flóðastefnu þannig að aukin hætta verði á því að vatni verði veitt inn á land Þverár við þessar aðstæður. Verður því ekki heldur játuð aðild á þessum grundvelli.

Að endingu telur félagið að rök standi til þess að játa því aðild vegna þess að það eigi á hættu að þegar lónið tæmist verði mikið „drullu- og sandfok“ yfir jörðina. Vegna þessa má athuga, sem segir í niðurstöðum álits Skipulagsstofnunar, að vegna mikils aurburðar þurfi að loka fyrir inntak virkjunarinnar og hleypa öllu rennsli framhjá inntaki hennar um tveggja mánaða tíma á ári hverju. Jafnframt verði seti skolað reglulega burt frá inntaksmannvirkjum. Þá verði inntaksmannvirki hönnuð með það fyrir augum að skola aur aftur út í farveg árinnar neðan stíflu. Er í deiliskipulagi virkjunarinnar auk þessa mælt fyrir um bann við haugsetningu sets frá virkjuninni, í samræmi við álitið. Í ljósi þess að hönnun og útfærsla mannvirkja sem ætlað sé að veita aur hjá virkjuninni liggur ekki að öllu leyti fyrir, er að mati nefndarinnar rétt að játa Þverárfélaginu aðild að málinu.

Kærandi A á sumarbústaðinn Seljaland sem stendur á lóð í landi þeirrar jarðar í hlíðinni nokkru austan við Dalshöfða. Kemur fram af kæranda hálfu að vegagerð að virkjuninni muni á löngum kafla eiga sér stað í landi Seljalands. Muni vegurinn liggja í túnfæti Seljalands, um 100 m frá bæjardyrum, og fyrirsjáanlega lækka jörðina mjög í verði og rýra lífsgæði ábúenda. Einnig verði áfok af framkvæmdunum. Þessir hagsmunir eru ekki skýrðir nánar í neinu verulegu og er A ekki meðal eigenda jarðarinnar Seljalands. Þótt ekki sé útilokað að A verði fyrir einhverjum áhrifum af framkvæmdum vegna aukinnar umferðar um veg sem liggur að vísu nokkuð frá lóð hennar verða þeir ekki taldir svo verulegir að henni verði játuð kæruaðild.

Að endingu kemur fram að B eigi jörðina Hruna á Brunasandi. Bæjarhús þeirrar jarðar eru í um 13–14 km fjarlægð frá meginframkvæmdasvæði virkjunarinnar. Fram kemur að veiðiréttur í Eldvatni fylgi þeirri jörð, en það renni saman við Hverfisfljót og að fiskgengd gæti raskast. Þá er gefið yfirlit um hlunnindamat í fasteignabók. Af þessu tilefni vísast til þess sem áður segir um áhrif á fiska í umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar. Þá er greint frá landamerkjum jarðarinnar og að þau liggi að Dalshöfða á Brunasandi norðan þjóðvegar, án þess að gefin sé nánari skýring á grenndarhagsmunum. Verður ekki álitið að B njóti kæruaðildar að málinu vegna grenndar á grundvelli þessa.

——-

Undirbúningur að virkjun Hverfisfljóts í Skaftárhreppi við Hnútu hefur staðið um nokkurt skeið svo sem áður er rakið. Var upphaflega gert ráð fyrir að uppsett afl virkjunar yrði 2,5 MW, en í tillögu að matsáætlun frá árinu 2008 vegna mats á umhverfisáhrifum samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum var ráðgert að reisa 15 MW virkjun. Í frummatsskýrslu leyfishafa frá september 2017 er greint frá áformum um að reisa 9,3 MW virkjun. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sem lá fyrir 3. júlí 2020, tók mið af þeirri framkvæmd.

Kærendur telja hina fyrirhuguðu virkjanaframkvæmd í mótsögn við markmið umhverfislöggjafar þar sem hún hafi áður verið í biðflokki í rammaáætlun samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna er með þeirri áætlun mótuð stefna um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Í 3. mgr. lagagreinarinnar er gildissvið áætlunarinnar m.a. bundið við virkjunarkosti sem hafi uppsett rafafl 10 MW eða meira og fellur hin kærða framkvæmd því ekki undir áætlunina.

Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 48/2011 segir að það horfi til einföldunar að miða við ákveðin stærðarmörk og að gildandi stjórnsýsluferlar hverju sinni nægi til að tryggja þá hagsmuni sem frumvarpinu sé ætlað að vernda þegar um sé að ræða smærri virkjanir. Að áliti nefndarinnar vekja þessi viðmið um stærðarmörk uppsetts afls virkjunar spurningar um staðlaða aðferðarfræði við flokkun virkjunarkosta. Þrátt fyrir framangreint verður þó ekki talinn ágalli á hinu kærða framkvæmdaleyfi að breytt áform um uppsett afl virkjunarinnar, sem gerð er nánari grein fyrir í matsskýrslu framkvæmdar, hafi leitt til þess að hún félli utan gildissviðs verndar- og orkunýtingaráætlunar.

——-

Kærendur hafa í máli þessu haldið því fram að þörf sé á áliti EFTA-dómstólsins við úrlausn málsins. Í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um heimildir dómara til að afla ráðgefandi álits EFTA- dómstólsins vegna mála sem rekin eru fyrir héraðsdómstólum, Félagsdómi og Hæstarétti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum kemur fram að í 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sé kveðið á um lögsögu EFTA-dómstólsins til þess að gefa ráðgefandi álit um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Segir svo að EFTA-ríkjunum sé veitt heimild í ákvæðinu til að takmarka rétt dómstóla sinna til að leita álits sem þessa við þá dómstóla sem kveði upp úrlausnir sem sæti ekki málskoti samkvæmt lögum. Þá er tekið fram að sú leið sé valin að leggja til að héraðsdómstólum verði veitt þessi heimild til jafns við Hæstarétt. Loks að taka verði tillit til þess að Félagsdómur kveði upp endanlega dóma á sínu sviði en á vettvangi hans geti reynt á atriði sem lúti að skýringu EES-reglna.

Hvorki er í nefndum lögum né frumvarpi vikið að úrskurðarnefndum, þótt allnokkrar væru starfandi á þeim tíma, eða heimildum þeirra. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á fót með lögum nr. 130/2011, sem tóku gildi 1. janúar 2012. Á sama tíma fóru fram viðamiklar lagabreytingar, sbr. einkum lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Löggjafinn breytti hins vegar ekki lögum nr. 21/1994 af því tilefni. Verður ekki séð af framangreindu að úrskurðarnefndin geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og þykir rétt að árétta í því sambandi að úrskurðum nefndarinnar verður skotið til dómstóla, sem eftir atvikum geta leitað slíks álits samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1994.

——-

Í 11. gr. laga nr. 106/2000 er fjallað um álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum en slíkt mat er veigamikill þáttur í rannsókn máls þegar leyfi er gefið út vegna matsskyldra framkvæmda. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í álitinu skal m.a. gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja því til grundvallar, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á athugasemdum og umsögnum við frummatsskýrslu. Eru þannig gerðar kröfur um form og efni álits stofnunarinnar í þeim tilgangi að renna styrkari stoðum undir síðari ákvarðanir á grunni þess. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða áskilja frekari mótvægisaðgerðir en fram komi í matsskýrslu skuli stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim.

Meðal þess sem tilgreint er í áliti Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er hvaða gögn lágu fyrir við meðferð málsins, m.a. matsskýrsla framkvæmdaaðila og umsagnir og athugasemdir er bárust vegna frummatsskýrslu ásamt viðbrögðum framkvæmdaaðila við þeim. Er álitið að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglna um mat á umhverfisáhrifum og m.a. greint frá því að í henni hafi komið fram og verið skoðaðir aðrir kostir um staðsetningu aðkomuvegar og útfærslu virkjunar auk þess sem bæði aflmeiri og aflminni virkjun hafi komið til skoðunar á fyrri stigum. Nánar er greint frá þessum valkostum í álitinu.

Í álitinu er fjallað um áhrif framkvæmdanna á ólíka umhverfisþætti og þeim gefin vægiseinkunn. Í niðurstöðu er ályktað að Hnútuvirkjun muni hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun, sem hafi hátt verndargildi á lands- og heimsvísu og hafi umtalsverða sérstöðu. Hvers kyns rask á hrauninu rýri verndargildi þess og sé því ekki sé hægt að horfa til stærðar hraunsins og hlutfallslegs rasks þess eins og gert sé í matsskýrslu. Svæðið njóti sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og þótt ákveðin óvissa sé fyrir hendi um hve stór hluti þess sé sandorpinn eða gróinn hafi svæðið sérstakt verndargildi umfram flest önnur hraun vegna jarðsögulegs mikilvægi þess og hafi ekki verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að hrauninu verði raskað.

Fram kemur að horfa þurfi til þess að framkvæmdirnar séu innan Kötlu-jarðvangs sem hafi hlotið viðurkenningu UNESCO sem jarðvangur (e. Global Geopark). Einnig liggi fyrir að Núpahraun verði fyrir talsverðu raski, en það njóti einnig sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir verði verulega neikvæð og skoða þurfi vel í skipulagsgerð og áður en leyfi verði veitt hvort það rask á hraunum sem þeim fylgi sé ásættanlegt. Þá vísar stofnunin til þess að samkvæmt Landsskipulagsstefnu 2015–2026 skuli sérkennum miðhálendisins og náttúrugæðum viðhaldið m.a. með verndun víðerna og landslagsheilda. Sambærileg sjónarmið eigi við um áhrifasvæði virkjunar í Hverfisfljóti sem sé neðan miðhálendismarkanna.

Fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa verulega neikvæð áhrif á jarðmyndanir, landslag og víðernisupplifun og talsverð neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Áhrif á vatnafar felist aðallega í skertu rennsli á 2,5 km löngum kafla, einkum frá miðjum desember fram í apríl þegar rennsli á þeim kafla verði hverfandi. Bent sé á að Lambhagafossar njóti verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013. Að lokum telji Skipulagsstofnun nauðsynlegt að í deiliskipulagi og leyfum til virkjunarinnar verði sett skilyrði um að set, sem safnist ofan stíflu, skuli komið aftur út í farveg árinnar en ekki haugsett utan hans með tilheyrandi hættu á sandfoki. Skipulagsstofnun telur loks að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun á Skaftáreldahrauni, þ.e. brýna almannahagsmuni, sem vísað hafi verið til í skýringum með 61. gr. laga nr. 60/2013. Í ljósi sérstöðu hraunsins verði að gera kröfu um að sýnt sé fram á það með afdráttarlausari hætti í skipulagsgerð vegna framkvæmdaáformanna og áður en komi til leyfisveitinga.

—–

Fjallað er um framkvæmdaleyfi í skipulagslögum nr. 123/2010. Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laganna skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, en jafnframt skal hún ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga. Þar að auki hafa 14. gr. sömu laga, sem og 13. gr. laga nr. 106/2000, þýðingu þegar um matsskylda framkvæmd er að ræða. Í 2. mgr. beggja þessara lagagreina er fjallað um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Lengst af voru þessar lagagreinar samhljóða um að við leyfisveitingu bæri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar.

Með lögum nr. 96/2019 var lögum nr. 123/2010 og lögum nr. 106/2000 breytt og er nú kveðið á um að leyfisveitanda beri að leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar til grundvallar. Jafnframt er kveðið á um að taka skuli saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að þetta skuli gert í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, en í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er kveðið á um að í slíkri greinargerð skuli gera grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu er vikið frá niðurstöðu álitsins. Einnig skuli leyfisveitandi taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni er til ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Í athugasemdum með þeirri grein frumvarps þess er varð að lögum nr. 96/2019 kemur fram að þessi breyting á orðalagi um að álit Skipulagsstofnunar sé lagt til grundvallar við ákvörðun, sé í samræmi við breytingu á 8. gr. tilskipunar 2011/92/ESB sem gerð hafi verið með tilskipun 2014/52/ESB. Fyrir þá breytingu hafi sagt: „Í tengslum við málsmeðferð við veitingu leyfis ber að taka mið af niðurstöðum samráðs og þeim upplýsingum sem teknar hafa verið saman skv. 5., 6. og 7. gr.“ en nú segi: „Við málsmeðferð við veitingu leyfis fyrir framkvæmd ber að taka viðeigandi tillit til niðurstaðna úr samráði og þeirra upplýsinga sem teknar hafa verið saman skv. 5. til 7. gr.“

Í 18. gr. breytingarlaga nr. 96/2019 er kveðið á um lagaskil og skulu matsskyldar framkvæmdir hlíta málsmeðferð samkvæmt eldri lögum ef tillaga að matsáætlun hefur borist Skipulagsstofnun fyrir gildistöku laga nr. 96/2019, svo sem hér hagar til. Samkvæmt 2. mgr. 13. laga nr. 106/2000 var því sveitarstjórn skylt að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Sambærilegt lagaskilaákvæði var ekki sett í tengslum við áðurgreinda breytingu á skipulagslögum og bar því að leggja álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu, í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sem gilti við samþykkt hins kærða framkvæmdaleyfis. Það verður þó ekki séð að í þessu hafi falist sú efnisbreyting að hafi þýðingu við úrlausn þessa máls, svo fremi að báðum ákvæðum sé fullnægt.

Þótt að álit Skipulagsstofnunar skuli lagt til grundvallar með þessum hætti er það ekki bindandi í þeim skilningi að leyfisveitandi geti ekki vikið frá athugasemdum eða ábendingum sem þar eru settar fram, enda sé það gert með fullnægjandi rökstuðningi. Það er í samræmi við þá verkaskiptingu sem löggjafinn hefur ákveðið, þ.e. að sveitarstjórnir hafi vald til að annast gerð skipulagsáætlana og veiti framkvæmdaleyfi, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, en Skipulagsstofnun hafi í samræmi við 4. gr. sömu laga eftirlit með framkvæmd þeirra laga auk þess að framfylgja ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum.

Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar. Kemur þar til skoðunar málsmeðferð við hina kærðu leyfisveitingu, m.a. að teknu tilliti til þess mats á umhverfisáhrifum sem fram fór sem hluti af undirbúningi hennar. Er ljóst að skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda eru ríkar við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum og er í lögum kveðið á um ákveðna málsmeðferð og skilyrði þess að leyfi verði veitt. Auk skipulagslaga og laga nr. 106/2000, sem áður eru nefnd, ber að líta til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, svo og til ýmissa verndarákvæða í lögum, eftir því sem við á, s.s. í lögum nr. 60/2013, lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum sem og lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

——

Með umsókn til skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps, dags. 5. apríl 2022, sótti framkvæmdaraðili um leyfi fyrir allt að 9,3 MW vatnsaflsvirkjun í Hverfisfljóti. Umsókninni fylgdi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og var tekin afstaða til helstu atriða í álitinu í umsókninni. Var þar einkum vísað til umfjöllunar sveitarstjórnar Skaftárhrepps við meðferð deiliskipulags sem og skilmála deiliskipulagsins, sem víkja m.a. að hönnun mannvirkja og að því að set sem safnist saman ofan stíflu skuli komið aftur í farveg árinnar en sé ekki haugsett. Í greinargerð sem fylgdi umsókninni kom m.a. fram að framkvæmdin væri áfangaskipt á 30–36 mánuði og væri áætluð gangsetning virkjunar um áramótin 2024/2025. Þar var sett fram nánari lýsing á umfangi framkvæmdar jafnframt því að byggt var á og fjallað um aðalskipulag og deiliskipulag framkvæmdarinnar. Þá var þar greint frá niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á þá áhrifaþætti sem skilgreindir voru í matsferlinu og dregin saman áhrif þeirra með því að gefa þeim svonefnda vægiseinkunn. Þar kom m.a. fram að mikil áhersla væri lögð á ítarlegt framkvæmdaeftirlit þannig að raski á eldhrauni yrði haldið í algjöru lágmarki. Þetta ætti einkum við gerð aðkomuvegar að stöðvarhúsi, en einnig gerð stöðvarhússins sjálfs, frárennsliskurðar og hluta af þrýstipípu.

Á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 25. apríl 2022 var tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Hnútuvirkjun. Á fundinum var bókað að lagt væri til við sveitarstjórn að leyfið yrði veitt samkvæmt framlögðum gögnum og gefið út skv. reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Jafnframt var bókað að framkvæmdaraðila væri bent á nauðsyn þess að taka tillit til vegabóta á heimreið frá þjóðvegi að Dalshöfða. Tillaga skipulagsnefndar Skaftárhrepps um veitingu hins kærða leyfis var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 27. apríl 2022. Enginn sérstakur rökstuðningur eða greinargerð fyrir samþykkt leyfisins virðist hafa legið fyrir við undirbúning málsins hjá sveitarstjórn. Í fundargerð sveitarstjórnar við umfjöllun um málið er að finna bókun meirihluta sveitarstjórnar þar sem segir: „Sveitarstjórn Skaftárhrepps telur að virkjun í Hverfisfljóti muni bæta tekjumöguleika sveitarfélagsins til framtíðar, bæði með beinum og óbeinum hætti, hvort sem er með störfum á uppbyggingartíma eða til framtíðar. Jafnframt muni virkjunin gefa græna orku sem aflað er innan sveitarfélagsins á ábyrgan hátt og með sjálfbærni að leiðarljósi. Virkjunin mun einnig bæta öryggi á afhendingu raforku í sveitarfélaginu. Framkvæmd þessi samræmist aðgerðaráætlun stjórnvalda varðandi orkuskipti á landinu en í henni er stefnt að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldsneytis“. Í bókun minnihluta sveitarstjórnar var lagst gegn veitingu leyfisins, en efni þeirrar bókunar verður ekki rakið hér. Hið útgefna framkvæmdaleyfi, dags. 12. maí 2022, vísar til og tekur upp efni þessara bókana jafnframt því að vísað er til umsóknar um framkvæmdaleyfi, en hefur ekki að geyma sjálfstæðan rökstuðning. Þar er auk þess engin afstaða tekin til annarra leyfisveitinga.

Það gerðist síðar, á fundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps 9. ágúst 2022, að samþykkt var ný bókun um Hnútuvirkjun, í tilefni af umsögn sveitarfélagsins í kærumáli þessu. Líta verður svo á að í bókuninni komi fram fyllri rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þar var lögð áhersla á að til yrðu, að framkvæmdum loknum, varanleg tvö til þrjú störf, auk afleiddra starfa tengdum viðhaldi mannvirkja o.fl. Þá var rakið að raforkunotkun í sveitarfélaginu fari vaxandi. Segir þar í dæmaskyni frá að býli í 20 tonna kjötframleiðslu auk nokkurrar ferðaþjónustu þurfi að fjárfesta í 80 kW varaaflsstöð til að geta haldið fullum afköstum í rafmagnsleysi. Þá megi einnig benda á að hraðhleðslustöð fyrir rafmagnsbíla taki 150 kW. Á þessu sjáist að smávirkjanir, allt að 200 kW, séu engan veginn nægar til að tryggja það raforkuöryggi sem þurfi „hér á milli sanda“ komi til langvarandi straumleysis auk þess að vandséð sé hvar slíkar smávirkjanir ættu að vera. Síðan segir: „Ljóst er að virkjunarframkvæmd sem þessi, eins og aðrar slíkar, hafa raskanir í för með sér, einkum á framkvæmdatíma og þær breyta ásýnd lands, slíkt á einnig við um smávirkjanir. Þessi framkvæmd við Hnútu hefur hins vegar afar jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og raforkuöryggi í Skaftárhreppi, ásamt möguleika á eyjurekstri raforkukerfisins, komi til einhverskonar áfalla í dreifikerfi raforku. Jafnframt má reikna með jákvæðum áhrifum á ferðaþjónustuna, þar sem bætt aðgengi mun skapast að einstakri náttúruperlu innan Skaftárhrepps. Þar er um að ræða gljúfur Hverfisfljóts í Bárðarskarði, stórbrotin náttúruundur sem myndast hafa frá Skaftáreldum árið 1783. Gljúfur sem alfarið eru utan framkvæmdasvæðis virkjunarinnar.“

Í málsrökum sveitarfélagsins fyrir úrskurðarnefndinni kemur fram að athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi verið lagðar til grundvallar við endanlega afgreiðslu aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags fyrir umrætt svæði. Í deiliskipulagi fyrir framkvæmdasvæðið, dags. í október 2021, sem samþykkt var í sveitarstjórn 20. janúar 2022, er greint frá matsskýrslu framkvæmdar og áliti Skipulagsstofnunar. Þar er áhrifasvæði virkjunarinnar lýst sem og staðháttum á skipulagssvæðinu. Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins er fjallað um áhrif á nánar tilgreinda umhverfisþætti og lýst mögulegum mótvægisaðgerðum. Loks eru settir skilmálar í deiliskipulaginu fyrir fyrirhugaða framkvæmdaþætti virkjunarinnar. Varða þeir útfærslu framkvæmda og hönnun mannvirkja, útskolun á seti sem safnist í stíflu, efnistökuáætlun, endurheimt lands, landmótun og frágang, hönnun vega, vernd garðhleðslna, umhverfisstjórnunaráætlun og frágang vinnubúða, stöðvarhúss og tengdra mannvirkja. Fram kemur að skilmálar þessir byggi á áliti Skipulagsstofnunar og hafi verið settar í deiliskipulagið samkvæmt ábendingu stofnunarinnar, þar sem mikilvægt hafi verið talið að skilyrði sem sett væru fram í álitinu ættu sér stoð í skipulagsákvæðum deiliskipulagsins.

Að áliti nefndarinnar verður ekki hjá því litið að við undirbúning eða útgáfu hins kærða leyfis var ekki tekin saman sérstök greinargerð um afgreiðslu framkvæmdaleyfisins þar sem álit Skipulagsstofnunar væri beinum orðum lagt til grundvallar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, en sveitarfélaginu bar jafnframt, svo sem áður er rakið, að taka rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar, skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Verður skortur á sérstakri greinargerð þessari þó ekki látinn valda ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis einn og sér heldur verður litið til efnislegs innihalds viðkomandi fundargerðar sveitarstjórnar, sbr. einnig það sem áður er rakið um efni rökstuðnings. Til þess er þá að líta að eigi verður ráðið af hinni kærðu ákvörðun hvort sveitarstjórn hafi við útgáfu framkvæmdaleyfis kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kannað hvort framkvæmdin væri sú sem lýst sé í matsskýrslu. Þá voru þeir skilmálar sem settir voru í deiliskipulagi ekki teknir upp í hinni kærðu ákvörðun né nokkur tilvísun gerð til fyrri meðferðar málsins eða lýsingu framkvæmdar í leyfisumsókn.

Lögbundin skylda til rökstuðnings er mikilvægur þáttur í málsmeðferð leyfisveitingar vegna framkvæmdar sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum, enda til þess fallin að stuðla að því að markmið b-liðar 1. gr. skipulagslaga verði náð, sem og markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sem talin eru upp í 1. gr. þeirra laga. Verður því að telja þetta til verulegs annmarka við meðferð þessa máls.

——

Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn, við útgáfu framkvæmdaleyfis, ganga úr skugga um að gætt hafi verið að ákvæðum laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga. Í 61. gr. laga nr. 60/2013 er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Nær verndin m.a. til eldhrauna, gervigíga og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sem og fossa og nánasta umhverfis þeirra að því leyti að sýn að þeim spillist ekki, sbr. 2. mgr. ákvæðins, en í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Þá beri áður en leyfi er veitt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir, en svo hagar til hér.

Í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 3. júlí 2020, er rakið svo sem áður segir, að Hnútuvirkjun muni hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun, sem hafi hátt verndargildi á lands- og heimsvísu og hafi umtalsverða sérstöðu. Hvers kyns rask á hrauninu rýri verndargildi þess og sé því ekki hægt að horfa til stærðar hraunsins og hlutfallslegs rasks þess eins og gert sé í matsskýrslu. Svæðið njóti sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. laga um náttúruvernd og þótt ákveðin óvissa sé fyrir hendi um hve stór hluti þess sé sandorpinn eða gróinn hafi svæðið sérstakt verndargildi umfram flest önnur hraun vegna jarðsögulegs mikilvægi þess og hafi ekki verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að hrauninu verði raskað.

Samkvæmt matsskýrslu eru í raun öll mannvirki virkjunarinnar staðsett á eldhrauni. Tekið er fram um leið að útlit hraunanna sé mismunandi, en Núpahraun, þar sem gert sé ráð fyrir inntaksmannvirkjum virkjunar og stórum hluta þrýstipípu og slóðar meðfram henni, sé til að mynda grasi gróið. Fyrirhugaður aðkomuvegur að virkjuninni muni liggja í austanverðum jaðri Skaftáreldahrauns, meðfram Hverfisfljóti. Hraunið á því svæði sé ýmist sandorpið eða gróið mosaþembu. Þá kemur fram í matsskýrslu að virkjun rennslis Hverfisfljóts muni valda rennslisskerðingu í fljótinu og verði ummerki helst sýnileg um hávetur þegar lítið vatn er í fljótinu og gæti því haft neikvæð áhrif á ásýnd Lambhagafossa.

Í umhverfisskýrslu í greinargerð deiliskipulags fyrir Hnútuvirkjun er leitast við að greina nánar frá áhrifum framkvæmda á eldhraun. Þar er m.a. greint frá því að framkvæmdir við virkjunina muni hafa staðbundin bein og varanleg neikvæð áhrif á eldhraun. Í framhaldi er þessum áhrifum lýst nánar, bæði á Núpahraun og þó einkum Skaftáreldahraun, þar sem lagður verði aðkomuvegur með farvegi Hverfisfljóts. Tekið er fram að horfa verði á staðbundin áhrif og rýna í eiginleika og ásýnd hraunsins, sem að hluta til hafi látið á sjá vegna aurburðar. Á vegarkafla frá fyrirhuguðu brúarstæði og að svæði þar sem girðing þveri hraunið muni aðkomuvegur falla ágætlega inn í umhverfið og hafa minni áhrif á ásýnd hraunsins. Frá girðingunni að fyrirhuguðu stöðvarhúsi sé ásýnd hraunsins líkara því sem Skaftáreldahraun sé þekkt fyrir. Á þeim kafla muni vegurinn hafa áhrif á ásýnd hraunsins á mjög afmörkuðu svæði.

Þar sem fyrirhugaður aðkomuvegur komi til með að liggja samsíða farvegi Hverfisfljóts og ekki svo langt frá hraunkantinum, muni vegurinn hafa áhrif á heildarmynd hraunsins í nálægð árinnar. Af sömu ástæðu, það er að fyrirhugaður aðkomuvegur muni liggja samsíða farvegi Hverfisfljóts og ekki svo langt frá hraunkantinum, muni vegurinn hafa minni áhrif á heildarmynd hraunsins. Stöðvarhús og frárennslisskurður verði síðan í jaðri Eldhrauns. Þrátt fyrir að umfang rasks verði mjög lítið í samhengi við stærð hraunbreiðunnar er talið að um verði að ræða verulega neikvæð en staðbundin áhrif á jarðmyndanir. Framkvæmdirnar muni hins vegar hafa óveruleg áhrif á gildi þess á heimsvísu vegna lítils umfangs. Þá muni áhrif framkvæmdanna á ferðaþjónustu vera talsvert neikvæð vegna röskunar óbyggðs víðernis, en um leið nokkuð jákvæð vegna bætts aðgengis að Hverfisfljóti eða Lambhagafossum sem sé áningarstaðar ferðamanna.

Í umhverfisskýrslunni segir jafnframt að vatnsaflsvirkjanir séu í eðli sínu orkukostur úr endurnýjanlegri auðlind, sem afli raforku án loftmengunar, þótt næsta umhverfi verði fyrir áhrifum vegna röskunar á landi og árfarvegum. Þótt eldhraun verði fyrir áhrifum, hafi framkvæmdaraðili uppi áform um að draga úr þeim og felist það einkum í því að lágmarka vegagerð og efnistöku í eldhrauni. Samhliða fyrirhugaðri virkjun muni RARIK styrkja dreifikerfi raforku á svæðinu og þá aukist skammhlaupsafl í 19kV dreifikerfi frá Prestbakka með tilkomu virkjunar sem bæti spennugæði á svæðinu. Framkvæmdaraðili telji þannig, svo sem segir í deiliskipulaginu, að virkjun Hverfisfljóts stuðli að því að raforkuafhending verði öruggari og öflugri á svæðisvísu komi til bilana í kerfinu á öðrum stöðum og stuðli framkvæmdin þannig að ríkum almannahag.

Í bókun meirihluta sveitarstjórnar Skaftárhrepps, frá 27. apríl 2022, sem áður er frá greint, voru færð fram sjónarmið sem eru í sömu átt og færð voru fram við skipulagsgerðina og varða það hvort réttlætanlegt sé að raska náttúruminjum vegna virkjunarinnar, þótt ekki sé vísað beinum orðum til laga nr. 60/2013. Vísað er til þess að virkjunin muni gefa græna orku sem aflað sé innan sveitarfélagsins á ábyrgan hátt og með sjálfbærni að leiðarljósi. Virkjunin muni einnig bæta öryggi á afhendingu raforku í sveitarfélaginu og að hún samræmist aðgerðaráætlun stjórnvalda varðandi orkuskipti á landinu, þar sem stefnt sé að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldsneytis. Álykta má að þetta séu þeir almannahagsmunir sem sveitarstjórn telur að réttlæti þá röskun á náttúruminjum sem leiðir af byggingu virkjunarinnar. Hefur sveitarstjórn einnig í viðbótarbókun bent á jákvæð áhrif á ferðaþjónustu, með aðgengi um veg að ferðamannastað, þ.e. gljúfrum Hverfisfljóts í Bárðarskarði.

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 er Skipulagsstofnun ekki falið að leggja sjálfstætt mat á það hvort skilyrði um brýna nauðsyn framkvæmda sé hverju sinni uppfyllt. Það mat er á verksviði leyfisveitanda, sem skylt er að leggja réttan grundvöll að slíku mati, þ.m.t. með öflun lögboðinna umsagna, eftir því sem við á. Játa verður sveitarstjórn nokkuð svigrúm við mat á því hvað teljist til brýnna hagsmuna almennings skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 og verður talið að málefnalegt geti verið að líta með heildstæðum hætti til þeirra sjónarmiða sem færð voru fram við undirbúning hins kærða leyfis um aukið raforkuöryggi, aukna framleiðslu rafmagns, aukin atvinnutækifæri og bætt aðgengi að ferðamannastað. Um leið verður að gera þá kröfu að beiting þessara sjónarmiða sé málefnaleg og forsvaranleg. Þarf með því að rökstyðja þá brýnu nauðsyn sem til er að dreifa og að hún sé þá þyngri á metunum en þeir hagsmunir sem rýrna og lagagreinin slær vörð um. Má af þessu tilefni benda á það sem komið hefur fram í úrskurðum úrskurðarnefndarinnar, að það liggur í hlutarins eðli að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar er til fyrirhugaðrar framkvæmdar sem sveitarstjórn hyggst leyfa, þeim mun strangari kröfur verður að gera til þess að hún taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar skortir nokkuð á að rökstuðningar sveitarstjórnar sé fullnægjandi um hvort brýna nauðsyn beri til hinnar kærðu framkvæmdar. Þannig er ekki rakið nægilega með hvaða hætti Hnútuvirkjun muni bæta raforkuöryggi innan hreppsins, en skilja má rökstuðning sveitarstjórnar þannig að með henni verði minni þörf á varaaflsstöðvum hjá stærri fyrirtækjum eða bændum. Helst er að sækja upplýsingar hér um til greinargerðar með deiliskipulagi, þar sem segir að spennugæði muni batna, en í umsögn sem sveitarfélagið aflaði frá Orkustofnun, dags. 10. ágúst 2022, segir einvörðungu að „almennt sé talið“ að orkuframleiðsla innan ákveðins svæðis geti haft jákvæð áhrif á afhendingaröryggi raforku innan svæðis og jafnvel út fyrir það í gegnum byggðalínu sem svæðið tengist. Hér má einnig nefna að staðhæft er að nýr vegur að stöðvarhúsi Hnútuvirkjunar muni bæta aðgengi að ferðamannastað, en ekki er vikið að því hvort vegurinn muni bera slíka almenna umferð eða yfirleitt vera opinn fyrir henni. Hvað loks snertir þjóðfélagslegt mikilvægi aukinnar framleiðslu rafmagns þá virðast slíkir hagsmunir í máli þessu geta haft nokkra en þó naumast afgerandi þýðingu við mat á brýnni nauðsyn skv. 61. gr. laga nr. 60/2013, en þá væri um leið eðlilegt að lagt yrði mat á það hversu hagkvæmur virkjanakostur Hverfisfljót við Hnútu er og þá eftir því sem mögulegt er í samanburði við aðra möguleika eða valkosti á landsvísu.

Nefndin mælist til þess að komi beiðni um framkvæmdaleyfi fyrir Hnútuvirkjun að nýju til meðferðar hjá Skaftárhreppi að tekið verði mið af þessum ábendingum.

——

Í greinargerð sinni um afgreiðslu framkvæmdaleyfis skal leyfisveitandi taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni er til ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Í áliti Skipulagsstofnunar í máli þessu er greint frá því að afla þurfi virkjunarleyfis Orkustofnunar skv. 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003, til að reisa og reka ný raforkuver. Með þessu er mögulegt að sett verði skilyrði í virkjunarleyfi sem geti lotið að sömu þáttum og fjallað verði um í framkvæmdaleyfi og ber framkvæmdaraðili áhættu af þeirri hættu sem með því er fyrir hendi um árekstur skilmála ólíkrar leyfisveitingar.

Við málsmeðferð umsóknar um virkjunarleyfi er m.a. tekið mið af ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923 varðandi miðlun vatns og stíflumannvirki auk þess að heimilt er að binda virkjunarleyfi skilyrðum sem lotið geta m.a. að landnýtingu og umhverfisvernd sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 65/2003. Slík skilyrði geta verið ákvörðuð með hliðsjón af fyrirliggjandi umhverfismati og nauðsynlegum framkvæmdum sem virkjun tengjast að vegnum öðrum hagsmunum og samfélagslegum þáttum, einnig að teknu tilliti til þess hvort umhverfisáhrifin eru umtalsverð vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar eða ekki. Þá hafa hér þýðingu umhverfismarkmið sett á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en gögn málsins bera ekki með sér að ástand vatnshlota hafi verið metin né heldur að gætt hafi verið ákvæða 16.–18. gr. laganna, eftir því sem við eigi.

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. vatnalaga ber að afla leyfis Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu er 1.000 m2 eða stærra við hæstu vatnsstöðu. Samkvæmt matsskýrslu verður fyrirhugað inntakslón Hnútuvirkjunar á rekstrartíma um 2,5 ha og 3,5 ha í flóðum og því vel yfir þessum mörkum. Í matsskýrslu segir að vísu að Hnútuvirkjun sé rennslisvirkjun án miðlunar, en inntakslóni er þó auðsjálega ætlað að hægja á straumhraða og miðla vatni ýmist til virkjunar eða í farveg Hverfisfljóts, svo sem nánar er lýst í matsskýrslu. Standa því haldbær rök til þess að inntakslónið falli undir þessa málsgrein, en tilgangur hennar er fyrst og fremst að fyrirbyggja flóðahættu vegna mögulegs stíflurofs og auka þannig öryggi almennings og forða tjóni, svo sem segir í greinargerð með 51. gr. frumvarps til laga um breytingu á vatnalögum nr. 15/1923, sem síðar varð að lögum nr. 132/2011.

Í lokamálslið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 15/1923 segir að ef framkvæmd vatnsmiðlunar er liður í virkjun fallvatns til raforkuframleiðslu þá skuli miðlunarleyfið talið hluti af virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum og skuli þá leita leyfis í samræmi við þau lög. Sama skilnings gætir í 49. gr. vatnalaga, sem varðar rétt landeiganda til orkunýtingar, þar sem m.a. segir í 2. mgr. að um leyfi til að virkja vatnsfall fari samkvæmt raforkulögum.

Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 er tilgreint hvaða gögn skuli fylgja umsókn um framkvæmdaleyfi og er þar m.a. í 5. tl. málsgreinarinnar mælt fyrir um að fyrir þurfi að liggja samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmd kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaraðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um. Í hinu kærða leyfi er eigi tekið fram að sækja skuli um virkjunarleyfi. Þess má þó geta að í leyfisumsókn, dags. 5. apríl 2022, sagði að sótt yrði um virkjunarleyfi til Orkustofnunar. Nefndin hefur leitað upplýsinga hjá Orkustofnun um hvort svo hafi verið gert og kom fram í svari stofnunarinnar 22. nóvember 2022 að engin slík umsókn hefði þá borist.

Með þessu var fyrirmælum reglugerðar um framkvæmdaleyfi ekki gætt við ákvörðun um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis sem verður að telja til annmarka.

——

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður að telja að hin kærða ákvörðun að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu sé háð þeim annmörkum að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 27. apríl 2022 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kæru A, eiganda bústaðarins Seljalands í Skaftárhreppi og kæru B, eiganda jarðarinnar Hruna í Skaftárhreppi.

97/2022 Aflífun hunds

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2022, kæra á ákvörðun sveitarfélagsins Fjallabyggðar frá 19. ágúst 2022 um að aflífa hundinn X. 

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál, dags. 26. ágúst 2022, er barst nefndinni 29. s.m. kærir A, þá ákvörðun sveitarfélagsins Fjallabyggðar frá 19. ágúst 2022, að aflífa hund hennar. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá sveitarfélaginu Fjallabyggð 22. september 2022.

 Málavextir: Hinn 18. ágúst 2022 barst lögreglunni á Norðurlandi eystra símtal frá lækni á Siglufirði um að hann hafi verið að annast bitsár á hendi manns eftir hund og um töluverða áverka væri að ræða. Að sögn þess er fyrir árásinni varð, fyrir lögreglu, hafði hundurinn verið í taumi en mikill órói verið í honum. Þegar árásarþoli hafi gengið út af bensínstöð þar sem atvikið átti sér stað hafi hundurinn rifið sig lausan frá umráðamanni og stokkið á hann og bitið. Hann hafi fengið þrjú sár, tvö á handarbak og annað í lófa. Í framhaldinu hafði varðstjóri lögreglu samband við deildarstjóra tæknideildar hjá Fjallabyggð,  sem ber ábyrgð á eða fer með verkefni hundaeftirlitsmanns á Siglufirði sem tjáði varðstjóra að tveir starfsmenn frá sveitarfélaginu myndu fara með lögreglu og fjarlægja hundinn af heimilinu.

Lögregla hafði samband við skráðan eiganda hundsins og tjáði honum að samkvæmt reglum um hundahald í Fjallabyggð yrði að fjarlægja hundinn af heimilinu og koma í vörslu hundaeftirlitsmanns og síðan yrði metið hvort hundurinn yrði aflífaður. Var hundurinn síðan sóttur af varðstjóra og starfsmönnum Fjallabyggðar. Fram kemur  í skýrslu lögreglu að starfsmenn sveitarfélagsins kváðust þekkja til hundsins og sögðu hann stórhættulegan. Nágrannar hundsins þyrðu ekki að hengja föt út á snúru og börn ekki leika sér nálægt þar sem það væru allir hræddir við hann.

Starfsmenn sveitarfélagsins sögðu varðstjóra að fara ætti með hundinn til dýralæknis á Akureyri og þá yrði tekin ákvörðun um afdrif hans. Hundurinn hafi verið mjög æstur og að beiðni starfsmanna Fjallabyggðar var settur á hann múll og hundurinn síðan vistaður í búri. Samkvæmt lögregluskýrslu var aðili á heimili hundsins  spurður að því hvort þau vildu kveðja hann ef svo færi að hann yrði svæfður og svaraði heimilismaðurinn  því neitandi. Samkvæmt lögregluskýrslu fékk dýralæknir sem tók á móti hundinum á dýralæknaþjónustu á Akureyri fyrirmæli frá yfirmanni sínum um að skoða ekki hundinn ein. Yfirmaðurinn hafiþekkt til hundsins þar sem hún þjónusti Fjallabyggð í ormahreinsun og að hann væri styggur, óútreiknanlegur og hugsanlega hættulegur. Í framhaldi hafi verið tekin ákvörðun um að lóga hundinum með vísan til 10. gr. reglna um hundahald í Fjallabyggð og þeirri ákvörðun framfylgt. Lögregla hafði síðan samband við skráðan eiganda hundsins sem óskaði eftir að rætt yrði við dóttur hans, sem væri eigandi hundsins, og var henni í því samtali m.a. bent á að kæra mætti ákvörðun um aflífun hundsins, en „reglurnar væru svona“ og hundurinn yrði aflífaður. Óskaði kærandi eftir að fá að sjá hundinn og var henni bent á að síma til dýralæknisins. Hundurinn var deyfður þegar hann kom á dýralæknaþjónustuna og síðar um kvöldið var hann aflífaður.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur að umræddan dag, þegar hundurinn hafi bitið í handlegg eldri manns, hafi hundurinn verið sérstaklega spenntur og kátur. Foreldrar kæranda hafi komið heim daginn áður eftir mánaðarlanga dvöl erlendis og hundurinn hafi ætíð verið háður þeim. Um sé að ræða 9 ára gamlan fjölskylduhund sem hafi alla tíð verið hluti af heimilisfólkinu og alvanur börnum og gamalmennum án þess að nokkuð hafi komið upp á. Hann gelti eins og kyn hans eigi til en hafi almennt verið vinalegur, án skapgerðarbresta og ekki sýnt af sér árásargirni í garð fjölskyldumeðlima né gesta á heimili fjölskyldunnar. Engar kvartanir hafi borist kæranda vegna hundsins nema einu sinni þar sem starfsmaður Fjallabyggðar hafi beðið kæranda um að hreinsa upp hundaskít í eigin garði sem hafi verið vel sýnilegur vegna snjófargs.

Meginreglur stjórnsýsluréttar hafi ekki verið virtar við meðferð málsins og ekki hafi verið farið eftir samþykkt um hundahald í Fjallabyggð nr. 631 frá 2. júlí 2012. Í samþykktinni sé kveðið á um að lögreglustjóri og hundaeftirlitsmaður taki ákvörðun um hvernig farið skuli með hunda sem teknir hafi verið í vörslu. Ljóst sé að enginn starfandi hundaeftirlitsmaður sé í Fjallabyggð og að ekki liggi fyrir hvort að lögreglustjóri hafi verið á vakt þetta kvöld eða hvort almennur lögreglumaður hafi átt þátt í umræddri ákvörðun. Að auki hafi ákvörðunin verið tekin með stuttum fyrirvara án þess að kannað hafi verið hver væri skráður eigandi hundsins þar sem ekki var haft samband við hana út af málinu. Einnig hafi hundurinn verið fjarlægður út af heimilinu og aflífaður á svo stuttum tíma að ólíklegt sé að náðst hefði að framkvæma einhvers konar skapgerðarmat eða atferlisskoðun sem réttlætti ákvörðunina. Hafi þar af leiðandi ranglega verið staðið að ákvörðuninni.

Brotið hafi verið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf. Um hafi verið að ræða íþyngjandi ákvörðun og hafi ekki verið gætt að því að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn bæri til. Þá hafi fjölskyldunni ekki gefist tækifæri til að kveðja hundinn og andmælaréttar skv. 13. gr. stjórnsýslulaga ekki verið gætt. Hefði kæranda verið veittur sá réttur hefði hann verið nýttur til þess að krefjast skapgerðarmats og/eða atferlisskoðunar á hundinum.

Að öllu þessu virtu og ekki síst því að aldrei var haft á fullnægjandi hátt samband við sjálfan eiganda hundsins, hafi skort lagastoð fyrir fyrirvaralausri aflífun hans og verulegir annmarkar verið á meðferð málsins.

Málsrök sveitarfélags Fjallabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt lögregluskýrslu hafi eigandi hundsins verið upplýstur um það strax hvaða afleiðingar bit hundsins gæti haft. Var honum tjáð að til þess gæti komið að hundinum yrði lógað. Eiganda hundsins hafi jafnframt verið boðið að kveðja hundinn, færi svo að hann yrði aflífaður, sem hann kaus að gera ekki. Eins og fram komi í lögregluskýrslunni hafi hundurinn verið æstur og eigendur hans verið beðnir um að setja hann í búr og hafa á honum múl. Hið sama hafi verið upp á teningnum þegar komið var með hundinn til dýralæknis.

Kærandi sé ekki skráður eigandi hundsins og eigi því enga lögvarða hagsmuni af úrlausn þess, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Skráður eigandi hundsins sé faðir kæranda sem sótt hafi um leyfi til hundahalds 6. janúar 2014 og fengið útgefið leyfisbréf 16. s.m. og að auki fengið útgefið tryggingarskírteini vegna hundsins. Sé því ljóst að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni.

Það mat Fjallabyggðar að nauðsyn bæri að aflífa hundinn hafi byggt á mati dýralæknis sem kannaðist við hundinn og taldi hann stórhættulegan. Ráðlagði hún vakthafandi dýralækni að gera ekki tilraun til þess að nálgast hann eða eiga við hann nema að einhver hefði á honum fullkomna stjórn. Samkvæmt 10. gr. samþykktar um hundahald í Fjallabyggð sé það í höndum lögreglustjóra og hundaeftirlitsmanns að taka ákvörðun um hvernig fara skuli með hunda sem talin er hætta af og hunda sem ráðist hafa á fólk. Ljóst sé að um alvarlega árás hafi verið að ræða eins og fram komi í lögregluskýrslu og hafi læknir á Siglufirði tilkynnt málið til lögreglu og tekið fram að um töluverða áverka hafi verið að ræða. Eftir samráð við lögreglu og dýralækni var það ákvörðun Fjallabyggðar að aflífa hundinn.

Kæra málsins virðist byggð á þeim misskilningi að kærandi sé eigandi hundsins og að mikið sé gert úr því að hvorki hafi verið haft við hana samráð né samband meðan á ferlinu stóð. Slíkt sé þó skiljanlegt í ljósi þess að kærandi sé ekki skráður eigandi hundsins samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafi verið fram í málinu og séu einu gögnin sem til séu í fórum Fjallabyggðar um eignarhald hundsins og  styðjast beri við. Eins og gögn málsins beri með sér hafi strax verið haft samband við skráðan eiganda hundsins. Það sé því ekki rétt að eigandi hundsins hafi ekki verið upplýstur um það hvað stæði til og hugsanlegar afleiðingar þess að hundurinn hafi bitið eða að eigandi hundsins hafi ekki verið viðstaddur þegar hundurinn var fjarlægður. Að sama skapi fáist það vart staðist að eigandi hundsins hafi ekki haft tækifæri til að koma að andmælum eða gæta hagsmuna sinna.

Því sé sérstaklega mótmælt að deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar hafi ekki haft umboð til þess að taka ákvörðun um að aflífa hundinn og ljóst sé af gögnum málsins að haft var samband við lögreglustjóra í gegnum allt ferlið. Þá hafi bæði almennir lögreglumenn sem og löglærður fulltrúi embættisins á Norðurlandi eystra komið að málinu. Í lögregluskýrslu sé vísað til „E.Þ“ sem sé væntanlega löglærður fulltrúi við embættið.

Fjallabyggð hafnar ásökunum þess efnis að í ferlinu hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga, enda sé skýr heimild í 10. gr. samþykktar um hundahald í Fjallabyggð að aflífa hunda sem talin er stafa hætta af sem og hunda sem ráðist hafi á menn eða skepnur, að höfðu samráði við dýralækni. Í gildandi samþykkt um hundahald í Fjallabyggð megi finna reglur í 10. og 11. gr. um það hvernig skuli fara að í málum sem þessu og ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til þess að ætla að eitthvað hafi verið athugasamt við vinnslu þess innan stjórnsýslu Fjallabyggðar.

Með vísan til alls þessa telur Fjallabyggð að vísa beri málinu frá nefndinni en að öðrum kosti að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Þann 4. október sl. barst úrskurðarnefnd beiðni þess efnis að T, fái að taka við sem aðili máls af dóttur sinni D. Fram kom að D, dóttir T, hafi verið einungis 17 ára þegar hún eignaðist hundinn og hafi faðir hennar því verið skráður fyrir tryggingum og gjöldum vegna hundsins. D hafi þó ávallt verið skráður eigandi hundsins hjá dýralækni. Kröfur T, voru þær sömu og í upprunalegri kæru til nefndarinnar, þ.e. að ákvörðun um að aflífa þegar í stað hundinn K, verði felld úr gildi.

Kærandi bendir á að hann sé fæddur og uppalinn í Rúmeníu og tali ekki íslensku. Þar af leiðandi hafi hann ekki skilið allt sem fram hafi farið í samskiptum hans við yfirvöld þann 19. ágúst s.l. Hann kannist ekki við að fjölskyldunni hafi verið boðið að kveðja hundinn ef til aflífunar kæmi. Hann hafi staðið í þeirri trú að til stæða að geyma hundinn, framkvæma atferlismat á honum og í framhaldinu yrði ákvörðun tekin eftir að fjölskyldunni gæfist kostur á að koma sínum sjónarmiðum að.

Kærandi hafi sérstaklega óskað eftir því eins og fram komi í lögregluskýrslu að lögregla ræddi við dóttur sína, sem verið hafi raunverulegur eigandi hundsins. Einnig komi fram í skýrslunni að hún hafi sérstaklega spurt hvort að þau gætu eitthvað gert til þess að koma í veg fyrir aflífun og var henni tjáð að þau gætu kært ákvörðunina. Skömmu síðar hafi hins vegar verið búið að aflífa hundinn. Þau samskipti sem kærandi  hafi átt við yfirvöld voru því eftir að búið var að fjarlægja hundinn af heimilinu og sennilega um það leyti sem verið var að aflífa hann. Ástæða þess að óskað var eftir því að lögregla ræddi við dóttur hans var að hann skildi ekki allt sem fram fór í samskiptum sínum við yfirvöld. Var honum ekki boðinn túlkur á nokkrum tímapunkti.

Ítrekað sé að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið fylgt. Þá komi fram í skýrslu dýralæknaþjónustunnar að starfsmenn hafi ekki haftsérmenntun til að framkvæma atferlismat. Eins og fram komi í skýrslunni hafi hundurinn verið mjög stressaður og hræddur. Komið hafi verið með hann til dýralæknis um kl. 21 að kvöldi. Á þeim tíma hafi hundurinn verið í vörslu starfsmanna Fjallabyggðar í 1-2 tíma, í búri með ól, múl og taum. Dýralæknir hafi tekið skýrt fram við varðstjóra hjá lögreglunni að ekki hafi verið hægt að framkvæma skoðun á hundinum, en samt sem áður hafi verið búið að aflífa hann þegar dóttir hans hringdi kl. 22.11 sama kvöld.

Áréttað sé að ekki hafi verið kvartað undan hundinum sem hafi verið vænn fjölskylduhundur í 9 ár. Frekar virðist sem einhverskonar orðrómur hafi orðið til þess að hundurinn hafi verið stimplaður „stórhættulegur“. Því veki það furðu að sveitarfélagið hafi ekki beint kvörtun til eigenda á einhverjum tímapunkti með áskorun um úrbætur svo sem um hlýðninámskeið eða annað. Í greinargerð dýralækna segi að dýralæknir hefði hitt hundinn í aðeins eitt skipti við ormahreinsanir og þar hafi hann sýnt af sér ógnandi hegðun. Í lögregluskýrslu er þetta skráð sem svo að yfirmaður vakthafandi dýralæknis hafi sagst „þekkja“ hundinn þar sem hún þjónustaði Fjallabyggð með ormahreinsun og fleira og að þessi hundur væri styggur, óútreiknanlegur og hugsanlega hættulegur. Það fylgdi þó ekki sögunni hvort að þetta eina skipti við ormahreinsun hafi verið þegar hundurinn var ungur eða hvort að um nýlegt atvik væri að ræða.

Kærandi ítrekar að lagastoð fyrir fyrirvaralausri aflífun hundsins hafi skort og að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins og því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar heilbrigðisyfirvalda Fjallabyggðar að aflífa hund kæranda.

Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Ljóst er að umræddur hundur hefur nú þegar verið aflífaður. Úrskurðarnefndin telur engu að síður, eins og atvikum er hér háttað, að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar.

Samþykkt um hundahald í Fjallabyggð nr. 631 frá 2 júlí 2012, á sér stoð í þáverandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. núverandi 59. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um heimild heilbrigðisnefndar og heilbrigðisfulltrúa til að knýja á um framkvæmdir samkvæmt lögunum, reglugerð og samþykktum sveitarfélaga með ákveðnum þvingunar-úrræðum. Hins vegar geymir lagagreinin ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um aflífun dýra. Í 65. gr. laga nr. 7/1998 er sett kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga.

Við meðferð þessa máls var óskað breyttrar aðildar að málinu, þ.e. að skráður eigandi hundsins, tæki við aðild þess af dóttur sinni sem verið hafi raunverulegur eigandi hundsins. Var fallist á þetta af hálfu nefndarinnar.

Í 10. gr. samþykktar um hundahald í Fjallabyggð eru sett fyrirmæli um hvernig fara skuli með hættulega hunda, en til þeirra teljast hundar sem „hætta stafar af“ og hundar sem „ráðast á menn og skepnur“. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal tilkynna slíka hunda til lögreglu þegar í stað, fjarlægja þegar í stað og færa í vörslu hundaeftirlitsmanns. Séu hundar teknir í vörslu skulu lögreglustjóri og hundaeftirlitsmaður taka ákvörðun um það hvernig með þá skuli farið. Síðan segir: „Heimilt er að afturkalla leyfi og fyrirskipa aflífun hættulegs hunds, að höfðu samráði við dýralækni.“ Í 11. gr. samþykktarinnar er kveðið á um að sé óskráður hundur eða hættulegur hundur fjarlægður, skuli honum komið í vörslu hundaeftirlitsmanns sem skuli sjá um geymslu og fóðrun hunda á kostnað eiganda fram að afhendingu, nema um sé að ræða hund sem skuli aflífaður skv. 10. gr.

Svo sem greinir hér að framan var umræddur hundur tekinn af hundaeftirlitsmanni úr vörslu skráðs eiganda í framhaldi tilkynningar læknis um töluverða áverka eftir bit. Var þetta gert í samráði við skráðan eiganda hundsins, svo sem rakið er í lögregluskýrslu. Var þessi málsmeðferð samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar um hundahald, en boðað var um leið að tekin yrði ákvörðun um hvort hundurinn yrði aflífaður svo sem þar er gert ráð fyrir. Við þetta hefur kærandi gert athugasemd. Hann hefur borið fyrir sig takmarkaða kunnáttu í íslensku. Hann hafi talið að til stæði að geyma hundinn, að framkvæmt yrði svokallað atferlismat á honum og í framhaldi tekin ákvörðun eftir að fjölskyldunni gæfist kostur á að koma sínum sjónarmiðum að. Þessum viðhorfum lýsti kærandi hvorki fyrir lögreglu né starfsmönnum Fjallabyggðar svo séð verði af málsgögnum. Þá er ekkert bókað í lögregluskýrslu um hvort tungumálaörðugleikar hafi hamlað samskiptum. Af þessu tilefni má taka fram að ekki er tiltekið í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 að sveitarfélagi beri að bjóða þjónustu túlks við samskipti sín við íbúa.

Í bæði skýrslu lögreglu og skýrslu dýralækna, sem liggja fyrir í málinu, kemur fram að það hafi verið sameiginleg ákvörðun lögreglustjóra og hundaeftirlitsmanns að aflífa hundinn svo sem gert er ráð fyrir í samþykktinni. Verður að telja að deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar hafi haft stöðuumboð til þess að taka slíka ákvörðun, en fram hefur komið af hálfu sveitarfélagsins að hann beri ábyrgð á hundaeftirliti. Í samþykktinni er gert ráð fyrir því að haft sé samráð við dýralækni í tengslum við slíka ákvörðun.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að skylt hafi verið að framkvæma svokallað skapgerðarmat á hundinum. Í þessu sambandi hefur af hálfu kæranda verið vísað til þess sem segir í áðurnefndri skýrslu dýralækna að starfsmenn dýralæknaþjónustunnar á Akureyri hafi ekki þá sérmenntun sem þurfi til að framkvæma slíkt mat né geti tekið ákvörðun um það hvort aflífa skuli hundinn. Eina skoðunin sem hefði verið hægt að gera við hundinn á þessum tímapunkti hefði verið almenn heilsufarsskoðun, en þá hefði einhver þurft að taka hundinn úr búri og halda við hann, sem enginn hafi treyst sér til. Fyrir þessum sjónarmiðum um beitingu skapgerðarmats er engin stoð í samþykkt um hundahald í Fjallabyggð. Til samanburðar er heimilt af stjórnvöldum að krefjast skapgerðarmats, með tilliti til þess sem vitað er um eðli viðkomandi hundategundar, þegar sótt er um leyfi til að flytja inn hund, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 935/2003 um innflutning gæludýra og hundasæðis. Þar er hins vegar um aðrar aðstæður að ræða sem ekki verður jafnað til atvika þessa máls.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að dýralæknir sá sem tók á móti hundinum á dýralæknaþjónustu á Akureyri hafi fengið fyrirmæli frá yfirmanni sínum um að skoða ekki hundinn ein. Vitað var að hann hafði bitið mann fyrr um daginn en fram kemur að yfirmaðurinn þekkti til hundsins þar sem hún þjónusti Fjallabyggð í ormahreinsun og hann væri styggur, óútreiknanlegur og hugsanlega hættulegur. Þetta fær frekara hald í skýrslu dýralæknanna þar sem kemur fram að af þessum ástæðum hafi verið ákveðið að eiga ekkert við hundinn en gefa honum róandi lyf. Var starfsmanni sveitarfélagsins greint frá þessu í símtali og sýnist af atvikum að þetta hafi haft þýðingu við ákvörðun um að lóga hundinum. Verður að telja að með þessu hafi átt sér stað fullnægjandi samráð við dýralækni í skilningi tilvísaðrar samþykktar.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Andmælaréttur málsaðila grundvallast einkum á þeim rökum að honum sé veitt færi á því að gæta hagsmuna sinna áður en ákvörðun er tekin svo og að mál sé nægilega upplýst undir meðferð þess. Fram kemur í skýrslu lögreglu að kæranda gafst færi á því þegar hundurinn var sóttur heim til hans að tjá sig um bit það sem varð kveikja málsins. Fram kom að hann sagðist ekki skilja af hverju hundurinn hafi bitið. Að mögulega hafi hundinum stafað ógn af manninum og hundurinn viljað verja eigendur sína. Þá hafi hundurinn verið stressaður undanfarið vegna fjarveru eigenda. Fékk kærandi með þessu möguleika á því að tjá sig um atvik málsins um leið og honum var gerð grein fyrir reglum um hundahald í Fjallabyggð sem gera verður ráð fyrir að hann hafi þekkt til sem handhafi leyfis til hundahalds. Fram kemur að honum hafi verið boðið að kveðja hundinn, yrði tekin ákvörðun að lóga honum, sem hann hafi afþakkað. Þessu til viðbótar hringdi lögregla í kæranda síðar þennan sama dag og ræddi við hann og dóttur hans í framhaldi þess að ákvörðun var tekin um að lóga hundinum. Voru þar ítrekuð fyrri sjónarmið af hálfu dóttur kæranda um ástæður þess að hundurinn hafi bitið, sem áður er rakið, en leiddu ekki til þess að ákvörðun yrði endurskoðuð.

Álíta verður með vísan til framangreinds að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. og andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af rannsóknarreglunni leiðir að stjórnvöld verða að líta til allra atvika í viðkomandi máli, sem nauðsynlegt er að upplýsa, til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun og lögum samkvæmt. Það ræðst síðan af eðli stjórnsýslumáls og þeirri réttarheimild sem er grundvöllur ákvörðunar, hvaða upplýsinga þarf að afla til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Þá verður ekki séð að tilvísun til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga hafi þýðingu enda skýr heimild í samþykktinni um hundahald til að láta aflífa hættulega hunda. Til greina hefði komið að fresta því uns unnt væri að skoða hundinn nánar og jafnvel leita frekari sjónarmiða, sbr. 2. mgr. 18. gr. stjórnsýslulaga, enda ljóst að engin hætta stafaði af hundinum eftir að hann hafði verið fangaður í búr. Verður að álíta, engu að síður, af gögnum málsins að leiðbeiningum um kæruheimild hafi verið áfátt þar sem ekki hafi verið gerð bending um að unnt hefði verið að óska frestunar réttaráhrifa fyrir kærustjórnvaldi. Getur þetta þó ekki talist til ógildingarannmarka við meðferð málsins, þar sem vandséð er að þetta hefði getað leitt til annarrar niðurstöðu.

Af framangreindu verður að álíta að ákvörðun sveitarfélagsins Fjallabyggðar sem tekin var í samráði við lögregluna um að láta lóga umræddum hundi á þeim grundvelli að hann væri hættulegur, hafi verið í samræmi við valdheimildir 10. gr. samþykktar um hundahald í Fjallabyggð. Verður því ekki fallist á kröfu um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarfélags Fjallabyggðar frá 19. ágúst 2022 um að aflífa skuli hund kæranda þegar í stað.

89/2022 Völlur 1

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2022, kæra á ákvörðun byggðarráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir dánarbú A, eiganda 60% eignarhluta í jörðinni Bakkavelli, þá ákvörðun byggðarráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 25. ágúst 2022.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 7. ágúst 2022 og 8. september s.á.

Málavextir: Hinn 26. ágúst 2021 samþykkti byggðarráð Rangárþings eystra tillögu að deiliskipulagi fyrir Velli 1. Tillagan tekur til 22 ha svæðis jarðarinnar þar sem gert er ráð fyrir 21 lóð undir frístundahús. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir aðkomu að frístundabyggðinni frá þjóðvegi 261 og vegi 262 (Vallarvegur). Lóðirnar eru u.þ.b. 6.700 fm. til 14.700 fm. að stærð og gert er ráð fyrir að hámarksstærð húsa sé 150 fm., en auk þess er heimilt að byggja gestahús að hámarki 35 fm. og geymsluskúr að hámarki 15 fm. Gert er ráð fyrir að þrjú bílastæði séu við hverja lóð og eru götuheiti og húsnúmer sýnd á uppdrætti. Deiliskipulagið hlaut meðferð samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagið öðlaðist gildi við birtingu í B-deild stjórnartíðinda 21. desember 2021.

Með tölvupósti til skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra 9. júní 2022 var fyrir hönd eigenda jarðarinnar Bakkavallar athygli vakin á því að hafin væri lagning vega fyrir nýrri frístundabyggð sem rísa ætti í landi Vallar 1. Liggja merki þessara jarða saman. Kom fram í tölvubréfinu að vegalagningin næði að hluta til inn á land Bakkavallar. Óskað var eftir upplýsingum um hvort gefið hefði verið út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum og ef svo væri að þær yrðu stöðvaðar tafarlaust.

Skipulags- og byggingarfulltrúi svaraði erindinu 10. s.m. og upplýsti að lögð hefði verið fram umsókn um framkvæmdaleyfi og yrði hún tekin fyrir á næsta fundi skipulagsnefndar. Með tölvubréfi 11. s.m. vakti kærandi máls þessa athygli skipulags- og byggingarfulltrúa á því að um væri að ræða framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd. Fór hann þess á leit að nýju að framkvæmdirnar yrðu tafarlaust stöðvaðar, þar sem hluti þeirra væri á hans landareign, sbr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með tölvubréfinu fylgdi staðfest afrit Sýslumannsins á Suðurlandi af landskiptagerð frá árinu 1963 og loftmynd af landamerkjum.

Ekki verður séð að brugðist hafi verið við beiðni kæranda og héldu framkvæmdir áfram við umræddan veg. Kærandi óskaði í framhaldi eftir að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við skipulagsnefnd áður en umsókn um framkvæmdaleyfið yrði tekin fyrir. Hinn 24. júní 2022 fór kærandi ásamt fulltrúum sveitarfélagsins í vettvangsferð þar sem landamerki Vallar 1 og Bakkavallar munu hafa verið skoðuð. Í kjölfar þeirrar ferðar óskaði skipulags- og byggingarfulltrúi, samkvæmt beiðni kæranda, eftir því að verkfræðistofa mældi upp hnit tiltekinnar landamerkjalínu svo unnt væri að bera hana saman við heimildarskjöl.

Á fundi skipulagsnefndar 20. júní 2022 var tekin fyrir umsókn eigenda jarðarinnar Vallar 1 um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundahúsabyggð jarðarinnar, en afgreiðslu málsins var frestað. Staðfesti byggðarráð þá afgreiðslu á fundi 23. s.m., en á fundi ráðsins 7. júlí s.á. var umsóknin samþykkt með vísan til fyrirliggjandi gagna. Skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 8. s.m. og með tölvubréfi s.d. Í ákvörðuninni kemur fram að samkvæmt mælingu verkfræðistofu séu taldar yfirgnæfandi líkur á að sumarhúsalóðirnar séu í landi Vallar 1 og á þeim grunni hafi verið ákveðið að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna vegagerðarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að allt frá því honum hafi orðið kunnugt um deiliskipulagstillögu sem Rangárþing eystra hafi auglýst 25. mars 2021 hafi ítrekað verið reynt að vekja athygli sveitarfélagsins á að deiliskipulagið byggði ekki á réttum landamerkjum. Væri óljóst við hvaða landamerki sveitarfélagið styddi ákvörðun sína. Hafi sveitarfélaginu fyrst borist athugasemd þess efnis í tölvubréfi í kjölfar þess að deiliskipulag var auglýst. Í viðhengi með tölvubréfinu hafi verið landskiptagerð frá 1963 og hafi verið óskað eftir leiðréttingu á landamerkjum m.t.t. hennar. Sveitarfélagið hafi í engu skeytt um þessar athugasemdir og hafi tillagan verið samþykkt óbreytt. Einnig liggi fyrir staðfesting sýslumannsfulltrúa á Suðurlandi um að fyrrgreind landskiptagerð sé rétt og að þeir staurar sem eftir séu af landamerkjagirðingu frá 1963 auk gagna sem kærandi sjálfur lét vinna fyrir sig. Því sé ljóst að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi miðað við röng landamerki við töku hinnar kærðu ákvörðunar og haft að engu fyrirliggjandi landamerkjagirðingu frá árinu 1963.

Á deiliskipulagsuppdrætti komi fram að nánar tilgreind verkfræðistofa hafi mælt umrædd landamörk. Hafi stofan upplýst kæranda um að það væri ekki rétt heldur hafi verk hennar falist í að setja upp greinargerð og uppdrátt fyrir Völl 1. Við þá vinnu hafi verið stuðst við mælingu frá 2008. Engar mælingar hafi verið unnar af verkfræðistofunni í tengslum við málið. Sökum þessa telji kærandi að með verkbeiðni sinni til Mannvits hafi skipulags- og byggingarfulltrúi miðað við röng landamerki og því hafi verkfræðistofan ekki skilað frá sér réttum mælingum. Með því að virða að vettugi mikilvæg gögn sem varpað geti réttri mynd á landamerki hafi réttur landeiganda lotið í lægra haldi fyrir fjárhagslegum hagsmunum sveitarfélagsins.

Málsrök Rangárþings eystra: Af hálfu sveitarfélagsins er kröfum kæranda hafnað. Hinn 26. ágúst 2021 hafi byggðarráð Rangárþings eystra samþykkt tillögu að deiliskipulagi fyrir Velli 1. Tillagan hafi tekið til u.þ.b. 22 ha svæðis innan jarðarinnar þar sem gert væri ráð fyrir 21 lóð undir frístundahús. Deiliskipulagið hafi hlotið meðferð skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og öðlast gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2021. Hafi kærandi ekki látið reyna á gildi deiliskipulagsins, hvorki fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála né dómstólum, en fulltrúum kæranda hafi verið kunnugt um deiliskipulagstillöguna áður en hún var samþykkt.

Kæra á framkvæmdaleyfi eigi sér rót í ágreiningi um landamerki og sé tæpast á valdi úrskurðarnefndarinnar að skera úr deilum um eignarrétt að landi heldur eigi slíkar deilur undir dómstóla. Við meðferð málsins hafi fulltrúar kæranda verið í samskiptum við sveitarfélagið. Kærandi hafi lagt fram loftmynd og afrit af landskiptagerðinni frá 1963 og farin hafi verið vettvangsferð á ágreiningssvæðið 24. júní 2022. Hafi sveitarfélagið nýtt sér þjónustu verkfræðistofu til að færa eldri landskiptalínur inn á loftmynd. Að því loknu hafi skipulags- og byggingarfulltrúi yfirfarið gögnin og komist að þeirri niðurstöðu að umræddar vegaframkvæmdir væru innan landamerkja Vallar 1. Hafi sveitarfélagið þ.a.l. uppfyllt lágmarkskröfur um rannsókn málsins. Ekki hafi því verið efni til að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi af þeirri ástæðu. Áréttað er að framkvæmdaleyfið hafi eingöngu falið í sér heimild til vegalagningar í eignarlandi Vallar 1. Ekki hafi verið gefið út samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir raski á eignarlandi annarra en umsækjanda leyfisins. Það sé á ábyrgð leyfishafa að halda framkvæmdum innan landamerkja síns lands, en ekki sveitarfélagsins. Nákvæm greining á landamerkjum geti þó verið vandkvæðum bundin fyrir alla hlutaðeigandi. Engu að síður hafni sveitarfélagið útleggingum kæranda á landamerkjum.

Athugasemdir landeigenda Vallar 1: Landeigandi Vallar 1 bendir á að hjá Sýslumanninum á Suðurlandi liggi fyrir gögn um landamerki milli Bakkavallar og Vallar 1. Umdeild feitletruð lína á loftmynd sé hin rétta og beri að styðjast við hana ásamt landamerkjabók frá árinu 1963. Þessi skipting hafi verið staðfest af skipulagsyfirvöldum Rangárþings eystra og nánar tilgreindri verkfræðistofu. Skipulagsyfirvöld Rangárþings eystra hafi staðfest umrætt deiliskipulag og svo hafi Skipulagsstofnun einnig gert. Ítrekað sé að deiliskipulagið sé að öllu leyti innan landamerkja Vallar 1 og að framkvæmdaleyfi til vegagerðar sé til staðar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Í viðbótarathugasemdum sínum áréttar kærandi áður fram komin sjónarmið og vísar til sjónarmiða um hvernig túlka skuli heimildir í landamerkjadeilum. Þá hafnar hann því að málið snúist um eignarrétt að landi og eigi því ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið rétta sé að málið varði útgáfu framkvæmdaleyfis. Þau gögn sem sveitarfélagið hafi byggt á við veitingu leyfisins hafi verið ófullnægjandi. Þeir viðmiðunarpunktar sem  stuðst hafi verið við séu úr lausu lofti gripnir og í engu samhengi við það sem fram hafi komið í málinu af hans hálfu. Sveitarfélagið hafi verið fullmeðvitað um deilur um  landamerki og hefði átt að stöðva framkvæmdirnar þar til frekari gagna yrði aflað. Með því að skeyta engu um þetta og veita framkvæmdarleyfi hafi kæranda verið fyrirmunað að leita réttar síns áður en vegurinn hafi verið lagður. Með því hafi sveitarfélagið brotið gegn form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggðarráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í frístundabyggð á jörðinni Völlum 1 í samræmi við deiliskipulag. Í málinu er uppi ágreiningur um hvort heimilaðar vegaframkvæmdir fari inn á land kæranda en ágreiningur er milli eigenda jarðanna Vallar 1 og Bakkavallar um landamerki jarðanna.

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að sá sem óskar framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skal kveða á um í reglugerð. Eru þau gögn talin upp í 1.-6. tl. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og varða afstöðumynd, hönnunargögn o.fl. Þá er tekið fram í 3. tl. 2. mgr. 7. gr. að skila þurfi lýsingu á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum. Jafnframt skal tilgreina framkvæmdatíma, hvernig fyrirhugað sé að standa að framkvæmd og fleira sem máli skiptir.

Á fundi byggðarráðs 23. júní 2022 lá fyrir beiðni um útgáfu hins umdeilda framkvæmdaleyfis og var afgreiðslu málsins frestað. Hinn 7. júlí 2022 tók byggðarráð umsóknina til umfjöllunar að nýju og var hún samþykkt með vísan til fyrirliggjandi gagna.

Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi er tiltekið að áður en umsókn um framkvæmdaleyfi er afgreidd skuli leyfisveitandi meta hvort framlögð gögn lýsi framkvæmdinni á fullnægjandi hátt, hönnunargögn séu fullnægjandi og framkvæmdin sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og einnig mat á umhverfisáhrifum ef við á. Þau gögn sem bárust nefndinni bera með sér að við umsóknina hafi einungis verið vísað til fyrirliggjandi gagna og að með því hafi einkum verið átt við gildandi deiliskipulag viðkomandi svæðis, þar sem vegir og lega þeirra er sýnd. Með þessu lágu fyrir fullnægjandi gögn fyrir sveitarfélagið til þess að taka afstöðu til umsóknarinnar um framkvæmdaleyfi með hliðsjón af eðli framkvæmdarinnar.

Ágreiningur um eignarréttindi eða efni þinglýstra réttinda verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, þar á meðal ágreiningur sem kann að stafa af óvissu um afmörkun lóða. Slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir dómstóla. Hér skal þó athugað að af undirbúningi málsins er ljóst að forsenda útgáfu hins kærða leyfis var að umsækjandi hefði fullnægjandi eignarheimild yfir því landi sem leyfið náði til. Það er í samræmi við almennar reglur um eignarréttindi að ekki verður veitt eða gefið út leyfi til framkvæmdar nema fyrir liggi fullnægjandi heimild eða samþykki landeiganda. Fyrir liggur deiliskipulag viðkomandi svæðis sem var umsókninni til grundvallar. Tekið skal fram af þessu tilefni að beinum eða óbeinum eignaréttindum verður ekki ráðstafað með deiliskipulagi. Var sveitarfélaginu því rétt að leggja mat á framkomin sjónarmið kæranda um það hvort eignarheimildir hans girtu fyrir útgáfu hins kærða leyfis, eins og málum var hagað. Var kæranda gefinn kostur á því að koma á framfæri slíkum sjónarmiðum, sem var í samræmi við andmælareglu 13. gr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir liggur mat sveitarfélagsins á þessum sjónarmiðum sem fela í sér afstöðu til legu landamerkja og leiddu til þess að hið kærða leyfi var gefið út.

Með vísan til alls framangreinds eru ekki efni til að fallast á kröfu um ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggðarráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1.