Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2023 Grjótháls

Árið 2023, föstudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2023, kæra á útgáfu tveggja byggingarleyfa, annars vegar fyrir niður­­­rifi á hluta þvottaaðstöðu, dags. 2. júní 2023, og hins vegar fyrir byggingu bíla­þvotta­­­stöðvar og þvottabáss, dags. 16. júní 2023, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykja­vík frá 27. september 2022 um að samþykkja greind byggingaráform á lóðinni Grjót­hálsi 8, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2023, er barst nefnd­inni 20. s.m., kæra Bón- og þvottastöðin ehf. og B&Þ rekstrarfélag ehf., Grjóthálsi 10, Reykja­vík, útgáfu byggingarleyfa, dags. 2. og 16. júní 2023, til Löðurs ehf. og Lónseyrar ehf., lóðar­hafa lóðar­innar Grjótháls 8, sbr. ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2022 um að samþykkja­ leyfi til niðurrifs á hluta af þvottaaðstöðu og byggingu bílaþvotta­stöðvar og þvotta­bása á lóðinni. Er þess krafist að leyfin verði felld úr gildi. Þá var þess jafn­framt krafist að framkvæmdir á lóðinni yrðu stöðvaðar til bráðabirgða, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði, uppkveðnum 27. júlí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. júlí 2023.

Málavextir: Lóðarhafi lóðarinnar Grjótháls 8, Lónseyri ehf., sótti hinn 30. ágúst 2022 um leyfi til að rífa þvottaaðstöðu og koma fyrir nýbyggingu fyrir bílaþvottastöð á vegum Löðurs ehf. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 27. september 2022 var samþykkt umsókn um leyfi til niður­rifs og byggingar­leyfi þess efnis gefið út til Löðurs ehf. 2. júní 2023. Á sama afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa var jafnframt samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu bíla­þvotta­stöðvar og þvottabása á sömu lóð og var byggingarleyfi vegna þeirra áforma gefið út til lóðarhafa 16. júní 2023.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir eldsneytissölu og skyldri starfsemi á lóðinni Grjóthálsi 8 en að ólokið sé málsmeðferð tillögu að breyttu deili­skipulagi lóðarinnar sem geri ráð fyrir rekstri bílaþvottastöðvar og auknu byggingar­­­­magni. Byggingarleyfin séu gefin út í tengslum við breytta notkun á lóðinni en séu ekki í sam­ræmi við gildandi deiliskipulag og samræmist ekki ákvæði 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar sem málsmeðferð deili­skipulags­­breytingar sé ekki lokið hafi hagsmunaaðilum á svæðinu ekki gefist kostur á því að tjá sig um breytinguna eða um framkvæmdir á grundvelli hennar, en sú uppbygging sem fyrir­huguð sé fari gegn hagsmunum kærenda og skynsamlegri uppbyggingu á svæðinu. Þá verði ekki séð af fundargerðum Reykjavíkurborgar að bókað hafi verið um samþykki fyrir útgáfu leyfanna. Sé því dregið í efa að staðið hafi verið rétt að útgáfunni. Umræddar stjórnvalds­ákvarðanir séu því í ósamræmi við mannvirkjalög og ógildanlegar samkvæmt meginreglum stjórnsýslu­­­­réttarins. Jafnframt stangist útgáfa leyfanna á við þau gögn sem kærendur hafi fengið að­gang að í lok síðastliðins júnímánaðar, en virðist engu að síður hafa legið til grundvallar leyfunum. Komi þannig fram í umsögn skipulagsfulltrúa frá 15. september 2022 að byggingar­fram­­kvæmdir á lóðinni samkvæmt umsókn séu „ekki innan gildandi skipulags og gera þarf breytingu á deiliskipulagi“. Ekki verði séð að úr þessu hafi verið bætt eða rétt staðið að útgáfu byggingar­­­leyfanna.

Við blasi að hin fyrirhugaða starfsemi muni koma til með að þrengja verulega að lögmætri starf­semi kærenda við Grjótháls 10. Verulega þýðingu hafi fyrir eignar- og atvinnuréttindi þeirra að skipulagi sé þannig háttað að gott aðgengi sé fyrir umferð að lóð kærenda. Bygging mann­virkja og uppbygging starfsemi hafi verið í því trausti að ekki yrði síðar verulega að henni þrengt sem muni augljóslega leiða af verulegri stækkun mannvirkja á næstu lóð, m.a. vegna aukinnar umferðar sem óhjákvæmilega muni verða þar um.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld telja útgáfu hinna kærðu byggingarleyfa að öllu leyti samræmast skilyrðum 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og gr. 2.4.4. í byggingar­reglu­gerð nr. 112/2012. Þá hafi bæði málin fengið formlega afgreiðslu á afgreiðslu­fundi byggingar­­­fulltrúa og staðfestingu borgarráðs áður en leyfi hafi verið gefin út. Umsókn leyfis­hafa um byggingu bílaþvottastöðvar og þvottabáss hafi verið vísað til umsagnar embættis skipulags­­­fulltrúa. Í umsögn hans hafi komið fram að fyrirhuguð bygging stæði út fyrir skil­greindan byggingarreit og hafi verið lagt til að deiliskipulagi yrði breytt. Þess í stað hafi byggingar­­­­reitur verið færður til samræmis við gildandi deiliskipulag og byggingin færð innar á reitinn.

Núgildandi deiliskipulag mæli fyrir um að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,15 en eftir upp­bygg­ingu samkvæmt byggingarleyfi frá 16. júní 2023 sem kært er í máli þessu verði nýtingar­hlut­fall lóðar­­innar 0,142 og rúmist því innan núgildandi deiliskipulags. Samkvæmt deili­skipu­laginu sé lóðin bensínstöðvarlóð og komi fram að á henni sé heimilt að hafa eldsneytissölu og skylda starf­­semi. Það sé mat Reykjavíkurborgar að sala eldsneytis og rekstur bílaþvottastöðvar sé skyld starfsemi og hafi verið bílaþvottastöð á lóðinni, nánar tiltekið á matshluta nr. 06 í ára­raðir. Í tillögu að breyttu deiliskipulagi sem nú sé í auglýsingu sé landnotkun lóðarinnar ekki breytt heldur aðeins skilgreindur nýr byggingarreitur á matshluta nr. 02 til að tryggja að nægi­legt raf­­magn verði til staðar vegna mögulegrar byggingar á þvottastöð, smurstöð eða dekkja­verk­stæði. Verið sé að auka byggingarmagn á lóðinni í heild sinni úr 0,15 í 0,5 en breytingin hafi ekki áhrif á hin kærðu byggingarleyfi.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að þvottaaðstaða á lóðinni nr. 8 við Grjót­­háls eigi sér mun lengri sögu en samsvarandi aðstaða á lóð kærenda og muni uppbygging á lóð­inni ekki þrengja að starfsemi kærenda. Málsástæður þeirra um að hin kærðu byggingar­leyfi eigi sér ekki stoð í skipulagi byggi alfarið á misskilningi af hálfu kærenda. Hin umþrættu byggingar­­leyfi byggi ekki á þeirri tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem kærendur vísi til heldur alfarið á gildandi deiliskipulagi sem hafi verið í gildi í langan tíma. Í umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 15. september 2022, hafi komið fram að nýja þvottastöðin, ásamt yfirbyggða þvotta­­­básnum, samræmdist gildandi deiliskipulagi varðandi skilmála um hámarksnýtingar­hlut­fall en stæði út fyrir skilgreindan byggingarreit á vesturhlið sem færi gegn deiliskipulagi. Í fram­­haldi af umsögninni hafi verið sendir inn lagfærðir uppdrættir til byggingarfulltrúa þar sem mannvirkið hafi verið fært inn fyrir byggingarreit og málinu þar með lokið. Þá hafi kærendur fengið staðfest með tölvupóstum frá byggingarfulltrúa, dags. 28. september 2022, að um­sóknir þeirra um niðurrif á eldra mannvirki og uppbyggingu á nýrri bílaþvottastöð hefðu verið samþykktar á afgreiðslufundi degi fyrr. Að auki komi fram í byggingarleyfunum að af­greiðslan hafi verið staðfest í borgarráði 6. október s.á.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra ákvarðana byggingarfulltrúans í Reykjavík á afgreiðslufundi 27. september 2022 að samþykkja niðurrif á hluta þvottaaðstöðu að Grjót­hálsi 8 og áform um byggingu bíla­­þvottastöðvar og þvottabáss á lóðinni.

Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lög­varða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykja­vík frá 27. september 2022 felur í sér heimild til niðurrifs mannvirkja, en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hags­muni nágranna með þeim hætti að þeir geti átt kæruaðild. Ekki liggur fyrir að niður­rif um­ræddrar þvottaaðstöðu við Grjótháls 8 snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir geti átt aðild að kæru vegna þess byggingarleyfis enda hafa kærendur ekki vísað til slíkra hagsmuna varðandi ákvörðun um niðurrif á lóðinni Grjóthálsi 8. Verður þessum þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Fundargerð fyrrgreinds afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulags­ráðs 5. október 2022 og staðfest á fundi borgarráðs degi síðar. Var afgreiðsla um­deildra byggingaráforma því í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og viðauka 2.4 um embættis­afgreiðslur byggingarfulltrúa við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundar­sköp borgarstjórnar nr. 1020/2019, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 25. október 2019. Hinn 19. júlí 2023, eftir að kæra barst í máli þessu, óskaði leyfishafi eftir því að fyrra erindi hans yrði breytt í þá veru að skipt yrði um aðalhönnuð og að í stað stálgrindahúss yrði ­forsteypt einingahús. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. ágúst s.á. var umsókn leyfishafa um hin breyttu ­byggingaráform samþykkt og verður litið svo á að kæra í málinu lúti að ­samþykkt byggingaráformanna svo breyttum.

­Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrir­­huguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulags­­áætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga og verður útgefið leyfi að vera í sam­ræmi við samþykkt byggingaráform, sbr. 2. tl. ákvæðisins.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2040 er svæðið sem hér um ræðir verslunar- og þjónustu­svæði, VÞ49. Í greinargerð aðalskipulagsins segir að verslunar- og þjónustusvæði séu m.a. svæði sem ætlað sé að þjóna vegfarendum, bensínstöðvarlóðir, þvottastöðvar o.fl. Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Hálsahverfis frá árinu 2000 og hafa verið gerðar allnokkrar breytingar á því, þ. á m. varðandi Grjótháls 8. Samkvæmt deiliskipulaginu er ló­ðin bensín­stöðvarlóð ­og er hámarks­nýtingar­hlutfall hennar 0,15. Í­ greinargerð á uppdrætti deili­skipulagsbreytingar frá 2002 kemur fram ­að landnotkun lóðarinnar sé óbreytt, þ.e. eldsneytis­sala og skyld starfsemi.

Samkvæmt sam­þykktum aðaluppdráttum er hin kærða bygging í samræmi við gildandi land­notkun aðalskipulags Reykjavíkur og deiliskipulag Hálsa­hverfis enda verður talið að bíla­þvotta­stöð rúmist innan framangreindra skilmála um landnotkun og starfsemi á lóðinni. Nýtingar­hlutfall lóðarinnar í kjölfar hinnar umdeildu byggingar verður 0,142 en heimilað nýtingar­hlutfall hennar í gildandi skipulagi er 0,15 og er nýtingarhlutfallið því innan heimilaðs nýtingarhlutfalls í skipulagi. Var hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deili­skipulag svo sem áskilið er í framangreindum ákvæðum laga nr. 160/2010.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið þeim form- eða efnis­annmörkum sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2022, með breytingu, samþykktri 22. ágúst 2023, og útgáfu byggingarleyfis, dags. 16. júní 2023, fyrir byggingu bílaþvottastöðvar og þvottabáss á lóðinni Grjóthálsi 8, Reykjavík.

Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.