Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/1998 Háreksstaðaheiði

Með

Ár 1998, föstudaginn 31. júlí  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/1998, kæra E, Skjöldófsstöðum II, Jökuldal  vegna útgáfu framkvæmdaleyfis til lagningar vegar um Háreksstaðaheiði.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 11. maí 1998 kærir Jörundur Gauksson hdl. f. h. E ákvörðun hreppsnefndar Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps og Skipulagsstofnunar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Háreksstaðaleið, Hringveg úr Langadal að Ármótaseli. Kæruheimild er samkvæmt 8. grein laga nr. 73/1997. Krefst hann þess að felldar verði úr gildi ákvarðanir hreppsnefndar og Skipulagsstofunar um útgáfu og meðmæli með framkvæmdaleyfinu.  Með bréfi dags. 8. júní 1998 sendi kærandi úrskurðarnefndinni frekari rökstuðning fyrir kröfum sínum.  Jafnframt hefur kærandi með símbréfi hinn 30. þessa mánaðar fallið frá kröfu um ógildingu ákörðunar Skipulagsstofnunar varðandi hið umdeilda framkvæmdaleyfi.  Krefst hann því nú einungis ógildingar ákvörðunar sveitarstjórnar um útgáfu þess.  Krafa kæranda um stöðvun framkvæmda kemur ekki til efnisúrlausnar þar sem framkvæmdaaðili féllst á að halda að sér höndum og hefja ekki framkvæmdir meðan mál þetta væri til úrlausnar hjá nefndinni.  Á fundi úrskurðarnefndarinnar hinn 9. júlí 1998 var ákveðið að neyta heimildar til að lengja afgreiðslufrest í málinu til júlíloka vegna umfangs þess og nauðsynjar frekari gagnaöflunar.  Var umboðsmanni kæranda og fulltrúa Vegagerðarinnar gerð grein fyrir þessari ákvörðun.

Málavextir:  Hinn 31. júlí 1997 tilkynnti Vegagerðin fyrirhugaða framkvæmd við lagningu vegar úr Langadal að Ármótaseli til frumathugunar skipulagsstjóra ríkisins.  Varð niðurstaða skipulagsstjóra sú, að ráðist skyldi í frekara mat á umhverfisáhrifum lagningar umrædds vegar þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að slíkur ávinningur væri af framkvæmdinni eins og hún hefði verið kynnt af Vegagerðinni að umhverfisáhrif hennar yrðu ásættanleg. Skipulagsstjóri fékk lagningu vegarins til annarrar athugunar og lauk umfjöllun sinni um málið með úrskurði hinn 6. mars 1998 þar sem fallist er á lagningu  umrædds vegar úr Langadal að Ármótaseli, Háreksstaðaleið, en jafnframt er í úrskurðinum fallist á endurbyggingu núverandi vegar, hvort tveggja með nánar tilgreindum skilyrðum.  Við úrlausn skipulagsstjóra í málinu lágu fyrir umsagnir viðkomandi sveitarstjórna og opinberra stofnana, sem málið varðar, svo og athugasemdir, m. a. frá landeigendum, og er athugasemd frá kæranda þar á meðal. Með kæru dags. 14. apríl 1998 vísaði kærandi í máli þessu úrskurði skipulagsstjóra til umhverfisráðherra.  Að fengnum umsögnum og athugasemdum hagsmunaaðila kvað ráðherra upp úrskurð í málinu hinn 27. maí 1998 þar sem staðfestur var úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 6. mars 1998 með frekari skilyrðum, sem greinir í úrskurðarorði.

Þegar úrskurður skipulagsstjóra frá 6. mars 1998 lá fyrir ritaði Vegagerðin bréf dags. 31. mars 1998 til Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps þar sem þess er farið á leit með vísan til 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sbr. 27. gr. sömu laga að hreppsnefnd heimili Vegagerðinni lagningu Hringvegar úr Langadal að Ármótaseli samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti, dags. 30. mars 1998, sem sé í samræmi við legu vegarins eins og henni sé lýst í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og skipulagsstjóri hafi samþykkt.  Segir og í bréfinu að Vegagerðin muni hlíta þeim skilmálum sem skipulagsstjóri hafi sett fyrir lagningu vegarins, sbr. 6. kafla, úrskurðarorð, í niðurstöðu skipulagsstjóra.  Varðandi nánari lýsingu er vísað til frummats Vegagerðarinnar á umhverfisáhrifum, dags. í júlí 1997 og frekara mats, dags. í nóvember 1997. Erindi þetta var tekið fyrir á fundi hreppsnefndar hinn 7. apríl 1998 og kom fram tillaga að afgreiðslu málsins sem er svohljóðandi: „Samkvæmt 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða Skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 samþykkir sveitarstjórn Hlíðar- Jökul- Tunguhrepps umbeðið framkvæmdaleyfi á lagningu vegar. Hringvegur Langidalur – Ármótasel.  Þó setur svetarstjórn þau skilyrði. 1.  Í fyrsta lagi að byrjað verði á framkvæmdinni austan Víðidalsár.  2.  Í öðru lagi að ekki verði hafnar framkvæmdir fyrr en viðræðum verður komið á við landeigendur og umráðamenn jarða sem og eigendur Fjallakaffis í Möðrudal.  Sveitarstjóra er falið að koma þessum viðræðum á.  Sveitarstjóra er falið að leita eftir meðmælum skipulagsstofnunar.  Að þeim meðmælum fengnum er Vegagerðinni veitt framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. Grein sömu laga.“  Tillaga þessi var samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2 og var Vegagerðinni tilkynnt þessi niðurstaða með bréfi dags. 15. apríl 1998. Jafnframt mun fundargerð hreppsnefndar þar sem greint er frá þessari niðurstöðu hafa verið send íbúum sveitarfélagsins svo sem venja er í hreppnum.

Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun sveitarstjórnar að veita umrætt framkvæmdaleyfi og skaut málinu því til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 11. maí 1998 eins og að framan greinir.

Málsástæður og lagarök kæranda og Vegagerðarinnar:  Af hálfu kæranda er einkum á því byggt að sú ákvörðun hreppsnefndar að samþykkja framkvæmdaleyfið hafi brotið gegn 12. gr. a. laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum auk þess sem verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð hreppsnefndarinnar.  Í bréfi dags. 8. júní 1998 gerir kærandi frekari grein fyrir málsrökum sínum.  Bendir hann á að þegar um íþyngjandi ákvörðun sem þessa sé að ræða séu gerðar sérstaklega miklar kröfur til vandaðrar málsmeðferðar.  Þá sé ákvörðunin tekin á grundvelli undantekningarákvæðis og hafi því verið þörf enn vandaðri málsmeðferðar en leiði af almennum reglum.  Helstu annmarka á málsmeðferðinni telur kærandi vera þá að ekki hafi verið gætt ákvæða 12. gr. a. laga nr. 63/1993, lögbundinnar umsagnar hafi ekki verið leitað, ákvörðunin sé bundin óljósum skilyrðum, rökstuðning vanti fyrir ákvörðuninni, rannsókn málsins hafi verið áfátt og andmælaréttar ekki gætt.  Gerir kærandi nánari grein fyrir þessum málsástæðum hverri fyrir sig og telur þá annmarka sem á málsmeðferðinni hafi verið eiga að leiða til þess að ógilda beri hana.

Af hálfu Vegagerðarinnar er því haldið fram að við meðferð málsins hafi verið gætt allra þeirra skilyrða sem lög bjóða og hafi því sveitarstjórn haft fullnægjandi grundvöll til að byggja leyfisveitingu sína á.  Ítarlegar rannsóknir hafi farið fram á tveimur stigum í mati á umhverfisáhrifum og hafi hagsmunaaðilar og aðrir tvívegis haft ríflegan tíma til þess að koma sjónarmiðum sínum að.  Hafi því málsatvik og afstaða legið ljós fyrir þegar kom að ákvörðun sveitarstjórnar í málinu og verði ekki séð hvaða frekari rannsókna eða rökstuðnings hafi verið þörf.  Þá er á það bent að gera verði greinarmun á meðmælum og umsögn en ekki sé áskilið í lögum að leita þurfi umsagnar Skipulagsstofnunar við slíka ákvörðun sem hér um ræðir heldur sé áskilið að aflað sé meðmæla Skipulagsstofnunar.  Skýra verði ákvæði 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 73/1997 á þann veg að leita skuli samþykkis eða synjunar Skipulagsstofnunar og skipti því ekki máli hvort afstöðunnar sé leitað fyrirfram.  Auk þess hafi afstaða stofnunarinnar í raun legið fyrir eins og  ráða megi af úrskurði hennar frá 6. mars 1998.  Þá séu skilyrði þau sem sveitarstjórn setti bæði heimil og skýr og muni Vegagerðin að sjálfsögðu hlýta  þeim.

Umsagnir:  Leitað var umsagnar sveitarstjórnar Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps um kæruefnið.  Tekur sveitarstjórn ekki afstöðu til málsins.  Vegagerðinni var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu með vísun til 13. greinar stjórnsýslulaga og skilaði hún greinargerð í málinu eins og að framan er rakið.  Ekki þóttu efni til að leita umsagnar Skipulagsstofnunar í málinu heldur þótti mega styðjast við fyrri umfjöllun stofnunarinnar um málið og fyrirliggjandi samþykki fyrir því að framkvæmdaleyfi verði veitt.

Niðurstaða:  Ekki er fallist á það sjónarmið kæranda að óheimilt hafi verið að veita hið umdeilda framkvæmdaleyfi af þeirri ástæðu  að ekki hafi verið gætt ákvæða 12. gr. a. laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum.  Þegar sveitarstjórn tók umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfið til afgreiðslu lá fyrir niðurstaða annarrar athugunar og úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um vegaframkvæmd þá sem hér um ræðir. Í úrskurðinum felst endanleg niðurstaða skipulagsstjóra í málinu og var sveitarstjórn rétt að leggja þá niðurstöðu til grundvallar við ákvörðun sína í málinu.  Það að úrskurður skipulagsstjóra er kæranlegur og að kærufrestur var ekki liðinn þykir ekki skipta máli enda frestar það ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar að hún sé kæranleg eða hafi sætt kæru sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi byggir og á því að ákvörðun sveitarstjórnar hafi í ýmsum efnum verið áfátt.  Í fyrsta lagi hafi lögbundinnar umsagnar ekki verið leitað sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga en samkvæmt því ákvæði telur kærandi að sveitarstjórn hafi borið að leita álits Skipulagsstofnunar.  Þennan skilning telur úrskurðarnefndin rangan.  Í greindu ákvæði segir að sveitarstjórn geti, við þær aðstæður sem í ákvæðinu greinir, leyft einstakar framkvæmdir að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.  Verður þetta orðalag ekki skilið svo að krafist sé umsagnar Skipulagsstofnunar heldur er með ákvæðinu lögfest að samþykki Skipulagsstofnunar þurfi fyrir leyfi sem sveitarstjórn veitir á grundvelli ákvæðisins. Virðist Skipulagsstofnun leggja þennan skilning í ákvæðið því við afgreiðslu á erindi sveitarstjórnar þar sem farið er fram á meðmæli stofnunarinnar segir aðeins að stofnunin fallist á að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegarins.  Fellst úrskurðarnefndin á þá túlkun sem fram kemur í greinargerð Vegagerðarinnar að skýra verði umrætt ákvæði þannig að leita skuli samþykkis eða synjunar og að það varði ekki ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar í þessu tilviki þótt samþykkisins hafi verið leitað eftirá, sérstaklega með tilliti til þess að afstaða Skipulagsstofnunar lá í raun fyrir í úrskurðarformi þegar ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfið var tekin.

Samkvæmt 3 tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1993 er sveitarstjórn heimilt að binda leyfi sitt skilyrðum.  Þessa réttar neytti sveitarstjórn og setti sem skilyrði að byrjað yrði á framkvæmdinni á tilteknum stað og að viðræður yrðu teknar upp við hagsmunaaðila.  Ekki verður fallist á að þessi skilyrði séu svo óljós að varði ógildingu ákvörðunarinnar.  Skilyrðið um viðræður við hagsmunaaðila virðist hafa verið sett til áréttingar á lögvörðum rétti hagsmunaaðila en samkvæmt vegalögum nr. 45/1994 með síðari breytingum er Vegagerðinni skylt að leita samráðs og samninga við landeigendur sbr. m. a.  44. og 46. grein vegalaga.  Var skilyrði sveitarstjórnar um þetta efni því í raun óþarft.

Með ákvörðun sinni var sveitarstjórn að afgreiða umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi.  Var fallist á umsóknina með minni háttar skilyrðum.  Ekki verður séð að þörf hafi verið sérstaks rökstuðnings við þessa afgreiðslu þegar tillit er tekið til þeirrar ítarlegu umfjöllunar og rökstuðnings sem fyrir lá í úrskurði skipulagsstjóra um málið.  Þá var kæranda unnt að krefjast rökstuðnings með vísun til 21. greinar stjórnsýslulaga ef hann taldi þörf sérstaks rökstuðnings fyrir ákvörðuninni. Verður því ekki fallist á að skortur á rökstuðningi varði ógildingu ákörðunarinnar.

Eins og að framan er rakið var gert ítarlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda.  Telur úrskurðarnefndin að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt að hlutast til um frekari rannsókn málsins við undirbúning ákvörðunar sinnar um veitingu framkvæmdaleyfisins.  Þegar horft er til þess að við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafði hagsmunaaðilum tvívegis verðið gefinn kostur á að koma að athugasemdum og að kærandi hafði neytt réttar síns og komið athugasemdum á framfæri verður ekki talið að þörf hafi verið á að gefa honum sérstaklega kost á að tjá sig um málið áður en ákvörðun sveitarstjórnar var tekin.  Lágu sjónarmið hans fyrir hjá sveitarstjórn enda höfðu henni verið send gögn og niðurstöður matsins svo sem lögskylt er sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 63/1993.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að engir þeir annmarkar séu á ákvörðun sveitarstjórnar Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps um útgáfu framkvæmdaleyfis þess sem um er deilt í málinu að ógildingu varði.  Er því kröfu kæranda hafnað.  Vegagerðin hefur því framkvæmdaleyfi sem heimilar að ráðist sé í framkvæmdir við lagningu Hringvegar úr Langadal að Ármótaseli, Háreksstaðaleið, eins og greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar og er því staðfest  ákvörðun sveitarstjórnar  Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps frá 7. apríl 1998 um útgáfu framkvæmdaleyfis til lagningar Hringvegar úr Langadal að Ármótaseli, Háreksstaðaleið, með þeim skilyrðum sem greinir í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins dags. 6. mars 1998, framkvæmdaleyfinu sjálfu og úrskurði umhverfisráðherra frá 27. maí 1998.

15/1998 Grjótháls

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 9. júlí  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/1998, kæra lóðarhafa að Grjóthálsi 5 og 7-11 vegna byggingarleyfis fyrir veltiskilti á lóð Skeljungs hf. við Vesturlandsveg/ Grjótháls í Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 18. maí, 22. maí og 26. maí 1998 kæra Össur hf., Grjóthálsi 5, Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf., Grjóthálsi 7-11 og Grjótháls ehf. vegna lóðarinnar að Grjóthálsi 5 byggingarleyfi fyrir veltiskilti sem byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum hinn 25. september 1997 og staðfest var af borgarstjórn hinn 2. október 1997. Kærendur, sem fyrst fengu vitneskju um útgáfu hins kærða leyfis í lok apríl og byrjun maí 1998, krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi.  Um kæruheimild er  vísað til 4. mgr. 39. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 sbr. einnig 8. gr. sömu laga. 

Málavextir:  Með umsókn dagsettri 17. september 1997 sótti Skeljungur hf. um leyfi til að reisa veltiskilti á austurenda lóðar félagsins við Vesturlandsveg en lóð þessi liggur milli Vesturlandsvegar og Grjótháls andspænis lóðum kærenda. Samkvæmt uppdrætti, sem fylgdi umsókninni, er um að ræða 8,4 metra hátt burðarvirki og á því þrír skiltisfletir, sem hver um sig er 6,4 metrar á breidd og 4,2 metrar á hæð.  Umsókn þessi var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og í byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 25. september 1997 og staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 2. október 1997.  Engar framkvæmdir hafa enn verið hafnar við uppsetningu fyrirhugaðs skiltis og er svo að skilja að kærendur hafi frétt af áformum um uppsetningu þess af einhverri tilviljun í lok apríl og byrjun maí 1998. Liggur fyrir að þeim var ekki gerð grein fyrir útgáfu byggingarleyfis fyrir skiltinu þegar hún átti sér stað.  Eftir að kærendur fengu fregnir af áformum um uppsetningu skiltisins leituðu þeir upplýsinga um heimildir fyrir uppsetningu slíks skiltis og var þeim gerð grein fyrir útgáfu áðurgreinds byggingarleyfis með bréfum byggingarfulltrúa dags. 24. apríl og 4. og 19. maí 1998.  Með bréfum dags. 29. maí 1998 leitaði úrskurðarnefndin umsagna Skipulagsstofnunar og byggingarnefndar Reykjavíkur um málið og kynnti Skeljungi hf. kæruefnið og gaf félaginu kost á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu.  Var óskað eftir svörum þessara aðila eigi síðar en hinn 16. júní 1998.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að umrætt skilti muni skyggja verulega á húseignir þeirra og að þegar þeim var veitt byggingarleyfi til bygginga á lóðum sínum hafi ekkert komið fram um að búast mætti við mannvirki af þessu tagi á þessum stað.  Af hálfu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf. er þar að auki á það bent að hönnun húss þeirra hafi sérstaklega tekið mið af þeirri starfsemi, sem fram fari í húsinu.  Hafi byggingarnefnd auðvitað verið kunnugt um hönnun og útlit bygginga fyrirtækisins þegar afstaða var tekin til hins umdeilda byggingarleyfis.  Af hálfu Össurar hf. og Grjótháls ehf. er tekið fram, að samkvæmt gildandi skipulagi hafi ekki verið gert ráð fyrir byggingum framan við húseignina að Grjóthálsi 5.  Hafi þetta meðal annars ráðið miklu um staðarval er Össur hf. flutti starfsemi sína á þennan stað.  Kærendur telja að grenndarkynning hefði átt að fara fram áður en umsókn Skeljungs hf. um byggingarleyfi fyrir skiltinu gat komið til afgreiðslu.  Það að grenndarkynning fór ekki fram eigi að leiða til þess að fella beri hið umdeilda byggingarleyfi úr gildi.

Málsrök byggingarnefndar Reykjavíkur og byggingarleyfishafa:  Ekki hefur verið lögð fram greinargerð af hálfu Skeljungs hf. í málinu.  Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur hefur verið lögð fram umsögn um kæruefnið með bréfi dags. 25. júní 1998.  Þar kemur fram að ekki hafi verið venja að viðhafa grenndarkynningu vegna umsókna um skilti.  Er vísað í umsögninni til ákvæða 2. mgr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og því haldið fram að samkvæmt ákvæði þessu sé það á valdi byggingarnefndar að meta hvenær umsókn sé þannig háttað að kynna beri fyrir nágrönnum og þá því aðeins að um sé að ræða breytingar á húsum.  Tekið er fram, að ekki sé fyrir hendi samþykkt deiliskipulag fyrir viðkomandi svæði en samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé lóð Skeljungs á svæði fyrir verslunar- og þjónustumiðstöðvar en lóðir kærenda á svæði merktu iðnaðarsvæði.  Við meðhöndlun málsins hafi verið stuðst við samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur frá 30. 6. 1996.  Þá hafi verið litið til þess að um sé að ræða tiltölulega stóra lóð og mikið rými í kring á svæði fyrir iðnað, verslun og þjónustu.  Eigi fyrri ákvörðun því að standa óbreytt.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefnið er vísað til 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem í gildi voru þegar hið umdeilda byggingarleyfi var veitt.  Þá er einnig vísað til ákvæða 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992.  Er það álit stofnunarinnar að á grundvelli þessara ákvæða hefði byggingarfulltrúanum í Reykjavík borið að hlutast til um að fram færi grenndarkynning samkvæmt tilvitnuðu reglugerðarákvæði áður en hið umdeilda byggingarleyfi var veitt.  Þar sem slík grenndarkynning hafi ekki farið fram beri að fallast á kröfur kærenda um að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Niðurstaða:  Við úrlausn máls þessa ber að fara að efnisreglum byggingarlaga nr. 54/1978 þar sem hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út í gildistíð þeirra laga.  Um er að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd sbr. 1. mgr. 9. gr. þeirra laga og var málsmeðferð byggingarnefndar við það miðuð.  Mannvirki það sem hið umdeilda leyfi tekur til er verulegt að umfangi, 8,4 metra hátt frá jörðu og á því þrír skiltisfletir 6,4 metrar á breidd og 4,2 metrar á hæð.  Er flatarmál hvers skiltisflatar 26,88 fermetrar og samanlagt yfirborð skiltaflatanna þriggja því 80,64 fermetrar.  Flötum þessum er komið fyrir efst á burðarfæti skiltisins og vísa til þriggja átta.  Umlykja fletirnir rými sem er um það bil 74,5 rúmmetrar.  Úrskurðarnefndin telur að enda þótt ekki sé um húsbyggingu að ræða verði mannvirki af þessu tagi  að teljast nýbygging í skilningi ákvæðis 2. mgr. greinar 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og hafi byggingarnefnd því borið að gefa þeim nágrönnum, sem hún teldi hagsmuna eiga að gæta, rétt á að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd með tilskyldum hætti.  Verður ekki fallist á þá þröngu túlkun, sem fram kemur í umsögn byggingarnefndar, að reglur 2. mgr. greinar 3.1.1 í reglugerð nr. 177/1992 eigi einungis við um hús, enda leiðir af eðli máls að annars konar byggingar geta raskað grenndarhagsmunum í jafn ríkum mæli og húsbygging.  Þessi skilningur á sér einnig stoð í ákvæði 1. mgr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 þar sem gerð mannvirkja, sem hafa áhrif á útlit umhverfisins, er háð sömu skilyrðum um leyfi og bygging, niðurrif og breyting húsa.  Telur úrskurðarnefndin að í ákvæðinu komi fram sá vilji löggjafans að umsóknir um heimildir til gerðar mannvirkja, sem áhrif hafa á útlit umhverfis síns, skuli sæta sömu takmörkunum og málsmeðferð og umsóknir um byggingu, niðurrif eða breytingu húsa.  Ákvæði byggingarreglugerðarinnar verði að skýra í samræmi við þennan vilja löggjafans enda hefði ekki verið stjórnskipulega heimilt að skerða með ákvæði í reglugerð þá réttarvernd og það réttaröryggi sem ákvæðum byggingarlaga um byggingarleyfi er ætlað að tryggja.
 
Eins og afstöðu fasteigna kærenda til fyrirhugaðs skiltis er háttað og vegna nálægðar þess og umfangs telur úskurðarnefndin þá eiga hagsmuna að gæta og er það því niðurstaða nefndarinnar að byggingarnefnd hafi borið skylda til að gefa þeim kost á að tjá sig um hinar fyrirhuguðu framkvæmdir eins og áskilið er í 2. mgr. greinar 3.1.1 í byggingarreglugerð nr. 177/1992 áður en leyfi fyrir framkvæmdunum var veitt.

Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur í máli þessu segir að stuðst hafi verið við samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur frá 30. júní 1996, sem staðfest  var af borgarráði hinn 6. ágúst 1996.  Er samþykkt þessi meðal gagna málsins.  Þrátt fyrir það að stuðst hafi verið við samþykkt þessa við afgreiðslu málsins er svo að sjá að nokkuð hafi verið vikið  frá skilmálum hennar.

Á uppdrætti arkitekts af skiltinu dags. 2. september 1997, teikningu nr. A-001, sem árituð er af byggingarfulltrúa 23. september 1997, segir að heildarflatarmál skilta á lóðinni sé 42,89 fermetrar og að flatarmál skilta eftir tilkomu veltiskiltisins sé þar með 5,4 fermetrar á hverja 1000 fermetra lóðar.  Þessar staðhæfingar eru augljóslega rangar því eins og að framan er rakið eru skiltisfletir veltiskiltisins samtals 80,64 fermetrar.  Eru þá ótaldir fletir annarra skilta á lóðinni.  Í reynd er heildarflatarmál skilta á lóðinni eftir tilkomu veltiskiltisins um 96 fermetrar, sem svarar til rúmlega 12 fermetra á hverja 1000 fermetra lóðar, en lóðin er 7942 fermetrar.  Í grein 6.5 í ofangreindri samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur segir um skilti í miðhverfum og á verslunar- og þjónustulóðum að samanlögð stærð skilta skuli ekki fara yfir 8,0 fermetra fyrir hverja 1000 fermetra lóðar.  Er hið umdeilda byggingarleyfi ekki í samræmi við þessa skilmála, sem borgaryfirvöld hafa þó sjálf sett. Þá er svo að sjá að leyfi fyrir veltiskiltinu gangi einnig gegn ákvæðum samþykktarinnar í grein 6.9 um fjarlægð auglýsingaskilta á stöndum frá stofn- og tengibrautum og frá gatnamótum.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið heimilt að afgreiða umsókn Skeljungs hf. um leyfi fyrir umræddu veltiskilti fyrr en að undangenginni grenndarkynningu.  Auk þess fari leyfið gegn samþykktum borgarinnar um skilti og hafi efnislegum skilyrðum því ekki verið fullnægt við útgáfu þess.  Beri því að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi útgefið af byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 25. september 1997, staðfest af borgarstjórn 2. október 1997, þar sem Skeljungi hf. er heimilað að reisa veltiskilti á lóð félagsins við Vesturlandsveg/Grjótháls í Reykjavík, er fellt úr gildi.
      

14/1998 Skútustaðaskóli

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 9. júlí kl. 16:00, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru: formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður, og aðalmennirnir Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/1998; 98050003

Kæra Ólafs Axelssonar hrl. f.h. B, G og K Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi vegna samþykktar byggingarnefndar Skútustaðahrepps frá 16. apríl 1998 á viðbygginu við Skútustaðaskóla, staðfestingar hennar í sveitarstjórn 30. apríl 1998 og eftirfarandi framkvæmda.       

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 1998, sem barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir Ólafur Axelsson hrl. f.h. B,  G  og  K, Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi samþykkt byggingarnefndar Skútustaðahrepps frá 16. apríl 1998 á umsókn Jóns Ó. Ragnarssonar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Skútustaðaskóla, afgreiðslu sveitarstjórnar 30. apríl 1998 á henni, útgáfu byggingarleyfis sama dag og eftirfarandi framkvæmdir.

Um kæruheimild vísast til 39. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærendur krefjast ógildingar hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana og að breytt notkun hússins verði bönnuð. 

Málsatvik:  Helstu málsatvik eru þau að á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 23. mars 1998 var samþykkt að selja J skólahúsið að Skútustöðum.  Hafði húsið verið auglýst til sölu með auglýsingu í Morgunblaðinu hinn 14. febrúar 1998 og var þess m.a. óskað í auglýsingunni að í tilboðum kæmu  fram hugmyndir um  notkun hússins í framtíðinni.  Bárust þrjú tilboð í húsið og var eitt þeirra frá Mývatni ehf., sem kærandinn K er stjórnarmaður í, auk þess sem hann er framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir félagið.  Í tilboði félagsins er tekið fram að meginhugmyndin með kaupum á húsnæðinu sé að færa út starfsemi félagsins í ferðaþjónustu, uppbyggingu hótelrýmis ásamt sýningar- og ráðstefnuaðstöðu. 

Eftir að gengið hafði verið frá sölu skólahússins hófst kaupandi handa við framkvæmdir við endurbætur á eigninni, en hann hyggst reka í henni veitinga- og gistihús.  Sótti hann um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið og var byggingarleyfisumsókn hans samþykkt í byggingarnefnd hreppsins hinn 16. apríl 1998.  Samþykkt byggingarnefndar var staðfest af sveitarstjórn hinn 30. apríl 1998 og var byggingarleyfi gefið út sama dag. 

Þar sem kærendur töldu nýbygginguna og hina breyttu notkun hússins fara í bága við skipulag og skipulagslög  kærðu þeir umræddar stjórnvaldsathafnir til úrskurðarnefndarinnar eins og að ofan greinir.

Með rökstuddum úrskurði, uppkveðnum hinn 12. júní 1998, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um að framkvæmdir við viðbyggingu og breytingar á húsinu yrðu stöðvaðar.  Við meðferð þess þáttar málsins tók Dr. Sigurður Erlingsson prófessor sæti í nefndinni sem varamaður Þorsteins Þorsteinssonar vegna fjarveru Þorsteins. Þorsteinn tók sæti í nefndinni eftir uppkvaðningu téðs úrskurðar og hefur tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um málið frá þeim tíma.

Málsástæður og lagarök kærenda:  Kærendur telja í fyrsta lagi, að ekkert löglegt staðfest skipulag sé í gildi fyrir svæði það sem skólahúsið stendur á.  Skipulag, sem umhverfisráðherra hafi staðfest fyrir Skútustaðahrepp  hinn 31. desember 1997, verði að teljast ólögmætt þar eð það hafi ekki verið réttilega kynnt.  Hafi slíkar breytingar verið gerðar á þeirri skipulagstillögu, sem upphaflega var kynnt, að auglýsa hefði þurft þær sérstaklega.  Þá telja kærendur að umræddar breytingar hafi ekki verið Skipulagsstofnun og ráðherra ljósar við afgreiðslu þeirra á málinu.  Auk þess telja kærendur að breytingarnar hafi ekki haft lagastoð. Ekki hafi verið aflað meðmæla Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997, svo sem þurft hefði við þessar aðstæður. Þá sé ekki vitað til þess að framkvæmdir hafi hlotið staðfestingu Náttúruverndar ríkisins sbr. 3. gr. laga nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í öðru lagi telja kærendur að jafvel þótt gilt skipulag væri fyrir hendi séu slíkir annmarkar á allri meðferð málsins að ekki verði séð að gild leyfi séu fyrir breyttri notkun hússins eða viðbyggingu við það.  Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta notkun hússins.  Þá hafi ekki verði gætt ákvæða laga nr. 73/1997 um að afla meðmæla Skipulagsstofnunar eða viðhafa grenndarkynningu svo sem þurft hefði í umræddu tilviki.  Loks hafi framkvæmdir verið hafnar áður en leyfi sveitarstjórnar hafi verið gefið út.

Málsrök byggingarnefndar, sveitarstjórnar Skútustaðahrepps og byggingarleyfishafa:  Af hálfu sveitarstjórnar er á því byggt að aðalskipulag Skútustaðahrepps, sem staðfest var af ráðherra hinn 31. desember 1997, hafi fullt gildi.  Framkvæmdir þær, sem kæran tekur til séu, í fullu samræmi við umrætt skipulag svo og fyrirhuguð notkun hússins.  Öllum, sem hlut eiga að málinu, hafi mátt vera ljóst að í umræddu húsi væri áformuð breytt notkun frá því sem áður var enda hafi verið auglýst eftir tillögum að notkun hússins þegar það var auglýst til sölu.  Hafi allir tilboðsgjafar haft uppi áform um að nýta húsið í tengslum við ferðaþjónustu og hafi húsið verið selt núverandi eiganda til slíkra nota.  Þessi áform hafi ekki átt að koma kærendum á óvart enda hafi það verið alkunna í hreppnum að Mývatn ehf. hefði hug á að eignast húsið til þess að færa út starfsemi sína í ferðaþjónustu. Þá er á því byggt af hálfu sveitarstjórnar að ekki hafi þurft sérstakt leyfi Náttúruverndar ríkisins í málinu þar eð stofnunin hafi fallist á skipulagsáætlun þá sem eftir sé farið.  Þá sé ekki um að ræða breytta notkun hússins frá því sem gert sé ráð fyrir í gildandi  skipulagi  auk þess sem gistiþjónusta hafi verið rekin í húsinu um áratugi án þess að við það hafi verið gerðar athugasemdir fyrr en nú.    Loks er á því byggt að ekki hafi verið þörf á að gera deiliskipulag af svæðinu þar sem um sé að ræða framkvæmdir á skýrt afmarkaðri lóð til ákveðinna nota. Byggingarleyfishafi hefur munnlega tjáð sig um málið við úrskurðarnefndina og tekur undir sjónarmið byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu.

Umsögn Skipulagsstofnunar:
Í umsögn Skipulagsstofnunar í málinu dags. 3. júní 1998 kemur fram það álit, að enda þótt eðlilegra hefði verið að kynna sérstaklega breytingu þá sem varð á tillögu að aðalskipulagi Skútustaðahrepps varðandi landnotkun umhverfis skólahúsið að Skútustöðum, frá auglýsingu að endanlegri tillögu, sé ekki um slíka annmarka að ræða að leiða eigi til ógildingar á staðfestingu og gildi aðalskipulagsins.  Í húsinu hafi verið rekin ferðamannaþjónusta á sumrin og breytingin því í raun frekar aðlögun að raunverulegri landnotkun  en tillaga um breytta landnotkun. Hins vegar er það skoðun Skipulagsstofnunar að leita hefði þurft meðmæla Skipulagsstofnunar eða láta fara fram grenndarkynningu til þess að fullnægt væri skilyrðum laga um heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að þeir annmarkar hafi verið á gerð og undirbúningi aðalskipulags Skútustaðahrepps að varði ógildingu.  Verður því lagt til grundvallar að í gildi sé aðalskipulag það sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 31. desember 1997.  Eru hinar umdeildu framkvæmdir í samræmi við það. Hefur skipulag þetta hlotið staðfestingu Náttúruverndar ríkisins og var því ekki þörf sérstaks leyfis til hinna umdeildu framkvæmda sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. 

Það verður ekki talið varða ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis, þótt í umsókn um það sé ekki með formlegum hætti sótt um leyfi til að breyta notkun húss. Var gerð grein fyrir þeim áformum, sem umsækjandi hafði um starfsemi í húsinu, undir liðnum „aðrar upplýsingar“ í umsókninni auk þess sem þau áform voru þekkt forsenda umsækjandans við kaup hans á húsinu.

Þá kemur til skoðunar hvort sveitarstjórn hafi borið að leita meðmæla Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 eða láta fara fram grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna sbr. 2. mgr. 23. greinar.  Að því er fyrra atriðið varðar þá telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið þörf á að leita meðmæla Skipulagsstofnunar með umræddum framkvæmdum þar sem fyrir hendi var nýlega staðfest aðalskipulag og samrýmdust áform handhafa hins umdeilda byggingarleyfis um notkun skólahússins að Skútustöðum forsendum skipulagsins um landnotkun.  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps, sem jafnframt gegnir störfum skipulagsnefndar í hreppnum, taldi ekki þörf á að hlutast til um grenndarkynningu þegar leyfi fyrir hinni umdeildu viðbyggingu og breyttri notkun hússins var veitt.  Var það mat sveitarstjórnar að þar sem um langt skeið hefði verið rekið gistiheimili í skólahúsinu að sumri til þá væri ekki um að ræða slíka breytingu að leita þyrfti álits nágranna.  Að því er viðbygginguna varðar hefur verið bent á það af hálfu sveitarstjórnar að hún er ekki í sjónlínu frá byggðinni sunnan þjóðvegarins auk þess sem þjóðvegurinn skilur þá byggð frá því svæði, sem skólahúsið er staðsett á. 

Fallast verður á að ekki hafi verið ástæða til þess að gangast fyrir grenndarkynningu í umræddu tilviki.  Ekkert hús í byggðinni sunnan þjóðvegarins, þar sem hann liggur um land Skútustaða, er innan 150 metra fjarlægðar frá byggingu þeirri, sem kæruefnið lýtur að.  Viðbygging sú sem leyfð var við húsið er að norðanverðu við austurálmu gamla skólahússins og í innhorni þess, en húsið er vinkilbygging.  Viðbyggingin er því í hvarfi  séð úr suðurátt og hefur því ekki í för með sér útlitsbreytingu á skólahúsinu séð frá þjóðveginum eða þjónustusvæði því, sem fyrir er að Skútustöðum sunnan vegarins. Verður ekki fallist á það að kærendur séu nágrannar, sem eigi hagsmuna að gæta, í skilningi 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Kemur þar bæði til fjarlægð eigna þeirra frá hinni umdeildu byggingu og afstaða fasteigna þeirra til viðbyggingarinnar sem að framan er lýst.  Það að einn kærenda hefur haft með höndum ferðaþjónustu að Skútustöðum þykir ekki skipta máli við úrlausn máls þessa, enda þykja atvinnuhagsmunir eða samkeppnissjónarmið ekki hafa átt að leiða til þess að grenndarkynningar væri þörf eins og atvikum er háttað í málinu.  Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt að hlutast til um grenndarkynningu áður en hið umdeilda byggingarleyfi var veitt og hafi henni því verið útgáfa þess heimil.  Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfum kærenda í máli þessu um ógildingu byggingarleyfis og um að breytt notkun umrædds húss verði bönnuð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana og um að breytt notkun skólahússins að Skútustöðum verði bönnuð.

 

12/1998 Laugaból

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 25. júní  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12 /1998

Kæra Ó, Laugabóli II, Mosfellsbæ vegna ákvörðunar byggingarnefndar og sveitarstjórnar Mosfellsbæjar um frestun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 3. maí 1998, er barst nefndinni hinn 8. maí 1998, kærir Ó þá ákvörðun byggingarnefndar Mosfellsbæjar að fresta afgreiðslu umsóknar hans um leyfi til byggingar hesthúss að Laugabóli II, Mosfellsbæ.

Málavextir:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitaði kærandi hinn 15. október 1997 til umboðsmanns Alþingis með kvörtun um að umsókn hans um byggingarleyfi frá því í nóvember 1996 hefði ekki verið svarað af hálfu Mosfellsbæjar.  Við eftirgrennslan umboðsmanns Alþingis um málið kom í ljós, að erindi kæranda hafði verið vísað til skipulagsnefndar og að á fundi hennar í byrjun desember 1996 hafði því verið frestað og ákveðið að óska eftir því að kannaður yrði vilji íbúa í Mosfellsdal fyrir því að hafinn yrði undirbúningur að gerð deiliskipulags.  Jafnframt kom í ljós að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ teldu ekki rétt að veita leyfi til neinna nýbygginga á svæðinu fyrr en deiliskipulag hefði verið samþykkt.  Var það niðurstaða umboðsmanns Alþingis að ljóst væri að sú ákvörðun hefði verið tekin af hálfu Mosfellsbæjar, að afgreiða ekki umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrr en deiliskipulag fyrir Mosfellsdal hefði verið samþykkt. Umboðsmaður Alþingis gerði kæranda ítarlega grein fyrir þessari niðurstöðu sinni með bréfi dags. 26. mars 1998.  Bendir hann kæranda á það í bréfinu að í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kveðið á um það, að telji einhver rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar, sé honum heimilt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar skv. 8. grein laganna innan mánaðar frá því að honum varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Er kæranda bent á að vísa máli sínu til úrskurðarnefndarinnar, enda geti umboðsmaður Alþingis ekki fjallað um kvörtun um málefni, sem skjóta megi til æðra stjórnvalds, fyrr en hið æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu.

Niðurstaða:  Bréf umboðsmanns Alþingis til kæranda ber ekki annað með sér en að það hafi verið sent í almennum pósti. Það er dagsett fimmtudaginn  23. mars 1998 og verður að ætla að það hafi borist kæranda fyrir lok mars.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni í hendur hinn 8. maí 1998.  Kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem kæranda hafði verið gerð grein fyrir í bréfi umboðsmanns Alþingis, var þá liðinn og þykir ekki skipta máli þótt kærubréfið sé dagsett 3. maí 1998, enda var það á ábyrgð kæranda að sjá til þess að það bærist úrskurðarnefndinni með tryggilegum hætti.  Samkvæmt framansögðu og með vísun til  28. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber að vísa máli þessu frá.

Úrskurðarorð: 

Kæru Ó, Laugabóli II, Mosfellsbæ dags. 3. maí 1998, þar sem kærð er ákvörðun byggingarnefndar og sveitarstjórnar Mosfellsbæjar um frestun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi, er vísað frá úrskurðarnefnd.

 

14/1998 Skútustaðaskóli

Með

Ár 1998, föstudaginn 12. júní kl. 14:00, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru; formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður,  Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur, aðalmaður í nefndinni og Dr. Sigurður Erlingsson verkfræðingur, varamaður Þorsteins Þorsteinssonar verkfræðings, en hann tók sæti í nefndinni í neðangreindu máli er það var fyrst tekið þar fyrir vegna fjarveru Þorsteins.

Fyrir var tekið mál nr. 14/1998; 98050003

Kæra Ólafs Axelssonar hrl. f. h. B, G og K Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi á samþykkt byggingarnefndar Skúttustaðahrepps frá 16. apríl 1998 fyrir viðbygginu við Skútustaðaskóla, staðfestingu hennar í sveitarstjórn 30. apríl 1998 og eftirfarandi framkvæmdum.       

Tekin  er til úrlausnar krafa kærenda um stöðvun framkvæmda og um hana kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 1998, sem barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir Ólafur Axelsson hrl. f. h. B, G og K, Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi samþykkt bygggingarnefndar Skútustaðahrepps frá 16. apríl 1998 á umsókn J um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Skútustaðaskóla, afgreiðslu sveitarstjórnar 30. apríl 1998 á henni, útgáfu byggingarleyfis sama dag og eftirfarandi framkvæmdir.

Um kæruheimild vísast til 39. gr. l. nr. 73/1997, sbr. 8. gr. sömu laga.                          
                                             
Kærendur krefjast ógildingar hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana, að framkvæmdir við Skútustaðaskóla verði stöðvaðar og breytt notkun hússins bönnuð. 

Málatvik:  Helstu málsatvik eru þau að á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 23. mars 1998 var samþykkt að selja J skólahúsið að Skútustöðum.  Hafði húsið verið auglýst til sölu með auglýsingu í Morgunblaðinu hinn 14. febrúar 1998 og var þess m. a. óskað í auglýsingunni að í tilboðum kæmu  fram hugmyndir um  notkun hússins í framtíðinni.  Bárust þrjú tilboð í húsið og var eitt þeirra frá Mývatni ehf., sem kærandinn Kristján er stjórnarmaður í, auk þess sem hann er framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir félagið.  Í tilboði félagsins er tekið fram að meginhugmyndin með kaupum á húsnæðinu sé að færa út starfsemi félagsins í ferðaþjónustu, uppbyggingu hótelrýmis ásamt sýninga- og ráðstefnuaðstöðu. 

Eftir að gengið hafði verið frá sölu skólahússins hófst kaupandi handa við framkvæmdir við endurbætur á eigninni, en hann hyggst reka í henni veitinga- og gistihús.  Sótti hann um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið og var byggingarleyfisumsókn hans samþykkt í byggingarnefnd hreppsins hinn 16. apríl 1998.  Samþykkt byggingarnefndar var staðfest af sveitarstjórn hinn 30. apríl 1998 og var byggingarleyfi gefið út sama dag.  Undirbúningur framkvæmda mun hafa hafist 18. apríl 1998 með leyfi byggingarfulltrúa en fyrstu framkvæmdir voru jarðvegsframkvæmdir þar sem meðal annars var grafið fyrir nýrri rotþró, sem var að sögn byggingarfulltrúa skilyrði fyrir áframhaldandi notkun hússins, hver svo sem hún yrði.  Var þessi verkþáttur unninn í samráði við heilbrigðisfulltrúa.

Þar sem kærendur töldu nýbygginguna og hina breyttu notkun hússins fara í bága við skipulag og skipulagslög  kærðu þeir umræddar stjórnvaldsathafnir til úrskurðarnefndarinnar eins og að ofan greinir.

Málsástæður og lagarök kærenda:  Kærendur telja í fyrsta lagi, að ekkert löglegt staðfest skipulag sé í gildi fyrir svæði það sem skólahúsið stendur á.  Skipulag, sem umhverfisráðherra hafi staðfest fyrir Skútustaðahrepp  hinn 31. desember 1997 verði að teljast ólögmætt þar eð það hafi ekki verið réttilega kynnt.  Hafi slíkar breytingar verið gerðar á þeirri skipulagstillögu, sem upphaflega var kynnt, að auglýsa hefði þurft þær sérstaklega.  Þá telja kærendur að umræddar breytingar hafi ekki verið Skipulagsstofnun og ráðherra ljósar við afgreiðslu þeirra á málinu.  Auk þess telja kærendur að breytingarnar hafi ekki haft lagastoð.  Ekki hafi verið aflað meðmæla Skipulagsstofnunar sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 svo sem þurft hefði við þessar aðstæður. Þá sé ekki vitað til þess að framkvæmdir hafi hlotið staðfestingu Náttúruverndar ríkisins sbr. 3. gr. l. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í öðru lagi telja kærendur að jafvel þótt gilt skipulag væri fyrir hendi séu slíkir annmarkar á allri meðferð málsins að ekki verði séð að gild leyfi séu fyrir breyttri notkun hússins eða viðbyggingu við það.  Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta notkun hússins.  Þá hafi ekki verði gætt ákvæða l. nr. 73/1997 um að afla meðmæla Skipulagsstofnunar eða viðhafa grenndarkynnigu svo sem þurft hefði í umræddu tilviki.  Loks hafi framkvæmdir verið hafnar áður en leyfi sveitarstjórnar hafi verið gefið út.

Málsrök byggingarnefndar og sveitarstjórnar Skútustaðahrepps og byggingarleyfishafa:  Af hálfu sveitarstjórnar er á því byggt að aðalskipulag Skútutaðahrepps, sem staðfest var af ráðherra hinn 31. desember 1997 hafi fullt gildi.  Framkvæmdir þær, sem kæran tekur til séu í fullu samræmi við umrætt skipulag svo og fyrirhuguð notkun hússins.  Öllum, sem hlut eiga að málinu, hafi mátt vera ljóst að í umræddu húsi væri áformuð breytt nýting frá því sem áður var enda hafi verið auglýst eftir tillögum að nýtingu hússins þegar það var auglýst til sölu.  Hafi allir tilboðsgjafar haft uppi áform um að nýta húsið í tengslum við ferðaþjónustu og hafi húsið verið selt núverandi eiganda til slíkra nota.  Þessi áform hafi ekki átt að koma kærendum á óvart enda hafi það verið alkunna í hreppnum að Mývatn ehf. hefði hug á að eignast húsið til þess að færa út starfsemi sína í ferðaþjónustu. Þá er á því byggt af hálfu sveitarstjórnar að ekki hafi þurft sérstakt leyfi Náttúruverndar ríkisins í málinu þar eð stofnunin hafi fallist á skipulagsáætlun þá sem eftir sé farið.  Þá sé ekki um að ræða breytta notkun hússins frá því sem gert sé ráð fyrir í gildandi  skipulagi   auk þess sem gistiþjónusta hafi verið rekin í húsinu um áratugi án þess að við það hafi verið gerðar athugasemdir fyrr en nú.    Loks er á því byggt að ekki hafi verið þörf á að gera deiliskipulag af svæðinu þar sem um sé að ræða framkvæmdir á skýrt afmarkaðri lóð til ákveðinna nota. Bygginarleyfishafi hefur munnlega tjáð sig um málið við úrskurðarnefndina og tekur undir sjónarmið byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Í umsögn Skipulagsstofnunar í málinu ds. 3. júní 1998 kemur fram það álit, að enda þótt eðlilegra hefði verið að kynna sérstaklega breytingu þá sem varð á tillögu að aðalskipulagi Skútustaðahrepps varðandi landnotkun umhverfis skólahúsið að Skútustöðum frá auglýsingu að endanlegri tillögu, sé ekki um slíka anmarka að ræða að leiða eigi til ógildingar á staðfestingu og gildi aðalskipulagsins.  Í húsinu hafi verið rekin ferðamannaþjónusta á sumrin og breytingin því í raun frekar aðlögun að raunverulegri landnotkun  en tillaga um breytta landnotkun. Hins vegar er það skoðun Skipulagsstofnunar að leita hefði þurft meðmæla Skipulagsstofnunar eða láta fara fram grenndarkynningu til þess að fullnægt væri skilyrðum laga um heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að þeir annmarkar hafi verið á gerð og undirbúningi aðalskipulags Skútustaðhrepps að varði ógildingu.  Verður því lagt til grundvallar að í gildi sé aðalskipulag það sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 31. desember 1997.  Eru hinar umdeildu framkvæmdir í samræmi við það. Við úrlausn þess hvort orðið verði við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verður að líta til þess að kæra í máli þessu barst nefndinni röskum mánuði eftir að hinar kærðu framkvæmdir hófust.  Samkvæmt úttektum byggingarfulltrúa var frágangi sökkla og lagna í grunn nýbyggingarinnar lokið hinn 2. maí 1998, gólfplata steypt 9. maí og límtrésburðarvirki tekið út 16. maí.  Þeim framkvæmdum, sem að dómi úrskurðarnefndarinnar hefði helst getað skipt máli að fresta, var því lokið þegar kæra barst.  Í ljósi þessa þykja ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda meðan beðið er efnisúrlausnar úrskurðarnefndar í málinu enda verður ekki séð að framkvæmdir við frágang og innréttingar hafi í för með sér þá röskun á hagsmunum kærenda að réttmætt sé að þær verði stöðvaðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við Skútustaðaskóla verði stöðvaðar.

11/1998 Grundarhverfi

Með

Ár 1998, þriðjudaginn 16. júní  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/1998
 
Krafa frá húseigendum við Esjugrund á Kjalarnesi um að ógilt verði nýtt deiliskipulag fyrir Grundarhverfi og að auglýsing um það í B-deild stjórnartíðinda frá 11. maí 1998 verði úrskurðuð ógild.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 16. apríl 1998 kæra  H, Esjugrund 32, BEsjugrund 55 og G, Esjugrund 45 Kjalarneshreppi, breytingar á „Aðal- og deiliskipulagi Kjalarneshrepps“ og krefjast þess að breytingar á skipulagi verði stöðvaðar. Í bréfi kærenda ds. 21. apríl 1998 til úrskurðarnefndarinnar eru aðalkröfur þeirra sagðar vera þær „að gatnakerfi hverfisins verði óbreytt og að miðja hverfisins verði opið vistvænt svæði án umferðar.“  Með bréfi dags. 17. maí 1998 koma sömu kærendur á framfæri nýjum sjónarmiðum „og eða nýrri kæru“ þar sem fram kemur að fallið hafi verið frá fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi en að nýtt deiliskipulag hafi verið auglýst fyrir Grundarhverfi með auglýsingu í „Stjórnartíðindum B“ hinn 11. maí 1998.  Kæra bréfritarar ákvörðun sveitarstjórnar um breytt skipulag og krefjast þess að auglýsing um það verði úrskurðuð ógild þegar í stað.  Ennfremur að engar framkvæmdir verði leyfðar á grundvelli þeirrar auglýsingar.  Til vara krefjast kærendur þess að gildistakan frestist þar til úrskurðir liggi fyrir í kærumálum vegna Grundarhverfis, sem séu til meðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. 

Málsatvik:  Á undanförnum misserum hafa skipulagsmál verið til endurskoðunar í Kjalarneshreppi. Er ljóst af gögnum málsins að þessi endurskoðun hefur verið til umfjöllunar þegar á árinu 1996 en borgarafundur var haldinn um þessi málefni í hreppnum hinn 25. júní það ár.  Var m.a. áformað að breyta deiliskipulagi Grundarhverfis en jafnframt var talið nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á aðalskipulagi hreppsins. Á haustmánuðum 1997 var gerð skipulagstillagna  komin á lokastig.  Var kynning á hinum nýju skipulagstillögum, dags. 14. október 1997, send íbúum í hreppnum og borgarafundur haldinn um þessi málefni hinn 27. sama mánaðar.  Í framhaldi af þessari kynningu komu fram ýmsar athugasemdir einkum varðandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Grundarhverfi.  Var safnað undirskriftum á skjal þar sem mótmælt var tilteknum atriðum í hinni nýju tillögu en síðar kom fram undirskriftalisti þar sem lýst var stuðningi við hið nýja skipulag.  Allmargir af þeim sem áður höfði staðið að mótmælunum drógu þau til baka.  Tillögur hreppsnefndar að skipulagsbreytingunum voru auglýstar 18. desember 1997 og hlutu lögboðna meðferð. Við meðferð málsins var fallið frá að svo stöddu að gera fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi enda höfðu mál skipast svo að þeirra var ekki  lengur talin þörf vegna fyrirhugaðra breytinga á deiliskipulagi Grundarhverfis. Vinnu var hins vegar haldið áfram við gerð þess. Var í ýmsum efnum komið til móts við athugasemdir sem fram komu við kynningu tillagnanna og var nýtt deiliskipulag fyrir Grundarhverfi samþykkt á hreppsnefndarfundi hinn  26. febrúar 1998 og sent Skipulagsstofnun til meðferðar hinn 26. mars 1998. Athugasemdir Skipulagsstofnunar voru sendar sveitarstjóra Kjalarneshrepps hinn 29. apríl  1998 og var auglýsing um hið nýja deiliskipulag fyrir Grundarhverfi birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. maí 1998.  Tveir kærenda, H og B, höfðu ásamt O, Esjugrund 34 áður kært til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 15. apríl 1998 framkvæmdir við jarðvegsskipti, er hafnar höfðu verið á svæði því, sem hið umdeilda deiliskipulag nær til.  Kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð um þá kröfu hinn 19. maí 1998 og var kröfum kærenda í því máli hafnað.

Umsagnir:  Leitað hefur verið umsagnar Skipulagsstofnunar um úrlausnarefni máls þessa.  Vísar stofnunin til umsagna, sem sendar voru sveitarstjórn Kjalarneshrepps um skipulagstillögurnar og þeirra leiðbeininga og ábendinga, sem þar koma fram, en umsagnir þessar eru meðal gagna málsins.  Þá hefur úrskurðarnefndin gefið sveitarstjórn Kjalarneshrepps kost á að tjá sig um kæruefnið og hefur nefndinni borist greinargerð sveitarstjórnar um málið.

Málsrök kærenda og hreppsnefndar Kjalarneshrepps:   Kærendur styðja kröfur sínar í þessu máli þeim rökum, að með umræddum skipulagsbreytingum hafi réttur einstaklinga og hagur heildarinnar verið fyrir borð borinn, sem sé andstætt 1. gr. laga nr. 73/1997. Vísa þeir til framkominna skriflegra mótmæla. Þá hafi sveitarstjórn verið að fara frá og vegna sameiningar hreppsins við Reykjavík hafi hún ekki átt hlut að sveitarstjórnarkoningumun 1998.  Hafi  lýðræðið því verið óvirkt er fjallað var um skipulagsmálin á lokastigi og hafi þær aðstæður ekki verið í samræmi við markmið laganna um áhrif íbúa á umhverfi sitt.  Þá hafi ekki verið tekið eðlilegt tillit til ábendinga sem fram hafi komið.  Í bréfi sínu frá 17. maí 1998 tefla kærendur fram þeim sjónarmiðum, að svo róttæk breyting hafi verið gerð á gatnakerfi Grundarhverfis, að gera hefði þurft breytingar á aðalskipulagi til að slík breyting mætti verða enda sé um að ræða breytingu, sem varði  samgöngu- og þjónustukerfi svæðisins í heild því breytingin tengist næstu hverfum.  Þá hafi auglýsing, sem hangið hafi uppi á skrifstofu hreppsins þegar skipulagstillögurnar voru kynntar, verið mjög villandi.

Af hálfu hreppsnefndar Kjalarneshrepps er áréttað að við endurskoðun skipulags Grundarhverfis hafi verið horft til væntanlegrar þróunar íbúðarbyggðar og í því sambandi gerðar breytingar á gatnakerfi hverfisins. Meðal annars hafi verið hugað að því að koma til móts við þau sjónarmið að flokka götur í viðeigandi flokka en eldra skipulag hafi ekki samræmst nútímakröfum til skipulags hvað þetta varðar. Við þessar breytingar hafi safngata færst þannig að  hún fari nú framhjá fjórum húsum, sem hún ekki gerði áður, en á móti komi að verslunarlóð færist fjær þessum sömu húsum.  Íbúar umræddra húsa hafi mótmælt staðsetningu þessa vegar en eftir að þau mótmæli hafi komið fram hafi verið ákveðið að setja hljóðmön meðfram umræddum vegi og hafi hreppsnefnd talið sæmilega sátt um þá lausn.  Þá er á það bent, varðandi hag heildarinnar, að endurskoðun skipulagsins hafi verið unnin af ágætum fagmönnum og náið samráð haft við íbúa svæðisins, haldnir hafi verið borgarafundir um þessi mál og reynt að taka tillit til sjónarmiða íbúanna eins og hægt hafi verið. Ekki hafi þó verið unnt að samræma öll sjónarmið og sé þá helst átt við nýjan veg út úr hverfinu, sem H hafi alltaf mótmælt. Undirskriftasöfnun hafi farið fram til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum. Mótmælin hafi verið almenn en óljós og hafi mótmælendum því verið sent bréf og þeim boðið að útskýra sjónarmið sín.  Fundir í framhaldi af þessu hafi verið illa sóttir og í ljós hafi komið að þeir sem mótmæltu hafi oft og tíðum ekki verið búnir að kynna sér skipulagið nægilega vel eða jafnvel fengið villandi upplýsingar.  Hafi nokkrir íbúar séð ástæðu til að safna nýjum undirskriftum til stuðnings við skipulagið og hafi margir, sem áður höfðu mótmælt, ritað nöfn sín á stuðningslistann en áður hafi allmargir verið búnir að draga mótmæli sín til baka. Er vitnað til gagna um þetta efni sem úrskurðarnefndinni hafi verið send. Hvað varðar virkni lýðræðis er ítrekað að skipulagið hafi verið unnið í nánu samráði við íbúa og kynningargögn verið send á hvert heimili í sveitarfélaginu. Vegna fyrirhugaðrar sameiningar hafi jafnframt verið unnið að þessum málum í samvinnu við skipulagsyfirvöld í Reykjavík.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var fallið frá fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi fyrir Kjalarneshrepp og er því enn í gildi það aðalskipulag sem fyrir var. Verður að skilja málatilbúnað kærenda á þann veg að þeir krefjist þess nú að hið nýja deiliskipulag fyrir Grundarhverfi, sem samþykkt var af sveitarstjórn hinn 26. febrúar 1998 og auglýst var í B-deild stjórnartíðinda hinn 11. maí 1998, verði fellt úr gildi. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að vel hafi verið staðið að undirbúningi og kynningu deiliskipulagsins.  Á litprentuðu kynningarblaði dags. 14. október 1997, sem sent mun hafa verið á hvert heimili í hreppnum, er skilmerkilega gerð grein fyrir þágildandi og fyrirhuguðu deiliskipulagi Grundarhverfis. Umfjöllun um málið sýnist og hafa verið í alla staði lýðræðisleg og íbúum gefinn kostur á að tjá sig um málefnið, meðal annars á borgarafundum. Úrskurðarnefndin fær ekki annað ráðið af gögnum málsins en að málsmeðferðin öll hafi verið að lögum og hið nýja skipulag auglýst í stjórnartíðindum með lögformlega réttum hætti. Ekki verður fallist á að það skipti máli þótt kjörtímabil hreppsnefndar hafi verið að renna út og að sameining hreppsins við Reykjavík hafði verið ákveðin þegar skipulagsvinnan var komin á lokastig enda verður ekki séð að þær aðstæður hafi á neinn hátt haft áhrif á ákvarðanir þær, sem teknar voru um skipulagsmálin.  Þá er ekki á það fallist að hið nýja deiliskipulag Grundarhverfis feli í sér svo viðamiklar breytingar á samgöngu- og þjónustukerfi svæðisins í heild að koma hefði þuft til breytinga á aðalskipulagi.  Gata sú, sem helst er deilt um í málinu, er skilgreind sem safngata og þykir ekki skipta máli í þessu sambandi þótt á uppdrætti sé framhald hennar sýnt til vesturs út úr hverfinu. Er ekki á það fallist að með umræddum breytingum sé farið gegn staðfestu  aðalskipulagi  fyrir Kjalarneshrepp.  Úrskurðarnefndin telur með vísan til framanritaðs, svo og til fyrirliggjandi gagna, engin rök standa til þess að fallist verði á kröfur kærenda í máli þessu. Ber því að hafna öllum kröfum kærenda í málinu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að nýtt  deiliskipulag fyrir Grundarhverfi á Kjalarnesi, samþykkt af sveitarstjórn hinn 26. febrúar 1998, verði fellt úr gildi og að auglýsing þess 11. maí 1998 í B deild stjórnartíðinda verði úrskurðuð ógild.

20/1998 Dimmuhvarf

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 25. júní  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/1998

Kæra G og L, Dimmuhvarfi 4, Kópavogi vegna byggingarframkvæmda að Dimmuhvarfi 2, Kópavogi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 8. júní 1998 kæra G og L, Dimmuhvarfi 4, Kópavogi framkvæmdir við húsbyggingu á lóðinni nr. 2 við Dimmuhvarf.  Krefjast kærendur þess að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til grenndarkynning hafi farið fram samkvæmt gildandi lögum og venjum og þau fengið tækifæri til að láta álit sitt í ljós á fyrirhuguðum framkvæmdum eins og þær liggi endanlega fyrir til ákvarðanatöku.

Málavextir:  Hinn 9. maí 1997 var lagt fyrir byggingarnefnd Kópavogs erindi félagmálaráðuneytisins varðandi byggingu heimilis fyrir einhverfa á lóð nr. 2 við Dimmuhvarf í landi Vatnsenda.  Erindinu var vísað til skipulagsnefndar.  Var málið tekið fyrir á fundi í skipulagsnefnd og starfsmönnum bæjarskipulags falið að kynna erindið. Eitthvað mun hafa verið fjallað um þetta mál á aðalfundi íbúasamtaka Vatnsenda hinn 26. maí 1997 en ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort þess hafi verið getið í fundarboði. Þá var málið að sögn byggingarfulltrúa kynnt á fundi með stjórn íbúasamtakanna. Hinn 18. júní 1997 var lóðarhöfum aðliggjandi lóða gerð grein fyrir fyrirhugaðri byggingu og starfsemi að Dimmuhvarfi 2 og þeim gefinn kostur á að tjá sig um málið fyrir 1. júlí 1997.  Einhverjar ábendingar komu fram í kjölfar þessa bréfs og mun hafa verið tekið tillit til þeirra að einhverju leyti, meðal annars hvað varðar lóðarmörk. Bæjarráð Kópavogs staðfesti samþykkt skipulagsnefndar bæjarins um breytta útfærslu deiliskipulags varðandi lóðina nr. 2. við Dimmuhvarf á fundi hinn 11. júlí 1997 og var fundargerð bæjarráðs um málefnið staðfest í bæjarstjórn hinn 19. ágúst 1997.  Byggingarnefndarteikningar að fyrirhuguðu húsi að Dimmuhvarfi 2 munu hafa verið samþykktar í október 1997 en framkvæmdir hófust fyrst undir lok maí 1998.  Mótmæltu kærendur þeim þá þegar og vísuðu málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi dags. 8. þessa mánaðar.

Málsrök aðila:  Kærendur telja hinar kærðu framkvæmdir fara í bága við gildandi deiliskipulag.  Þá hafi ekki farið fram grenndarkynning, sem fullnægi lagaskilyrðum, en kynning málsins í bréfi dags. 18. júní 1997 hafi hvorki verið með hefðbundnu sniði né nægum fyrirvara.   Halda kærendur því fram að þeim hafi verið tjáð af starfsmönnum Kópavogsbæjar að síðar færi fram hefðbundin grenndarkynning.

Af hálfu byggingaryfirvalda Kópavogsbæjar er því haldið fram að erindið hafi verið kynnt á fullnægjandi hátt og í ljósi þess að erindið hafi verið samþykkt í skipulagsnefnd og bæjarráði hafi byggingarnefnd ákveðið að ekki væri þörf á að senda málið í frekari kynningu.  Afstaða félagsmálaráðuneytisins sem byggingarleyfishafa hefur ekki borist nefndinni en því hefur verið gerð grein fyrir kærumáli þessu.

Umsagnir:  Hér að framan er getið helstu atriða, sem fram koma í umsögn Kópavogsbæjar um málið.  Fyrir liggur og umsögn Skipulagsstofnunar þar sem lýst er meðferð málsins og fyrirliggjandi skipulagi.  Tekið er fram að ekki hafi farið fram grenndarkynning skv. 2. mgr. 26. gr. sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga en slík grenndarkynning hefði verið nauðsynleg til að unnt væri að falla frá auglýsingu vegna breytingar á deiliskipulagi.  Þar sem hin kærða framkvæmd sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga telji  stofnunin að stöðva beri hina kærðu framkvæmd og fella byggingarleyfið úr gildi.
 
Niðurstaða:  Gildandi deiliskipulag fyrir svæðið þar sem hinar umdeildu framkvæmdir eiga sér nú stað var samþykkt af Skipulagsstjóra ríkisins hinn 31. maí 1994.  Samkvæmt því skipulagi eru  tvær byggingarlóðir sýndar þar sem nú er lóðin Dimmuhvarf 2. Hafa þessar lóðir verið sameinaðar og  gildandi deiliskipulagi þannig breytt án þess séð verði að gætt hafi verið ákvæða skipulags- og byggingarlaga um breytingar á deiliskipulagi, hvort sem litið er til eldri eða núgildandi laga. Framkvæmdir þær, sem kæran tekur til, stríða því gegn ákvæði  2. mgr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem í gildi voru þegar ákörðun um fyrirhugaða byggingu að Dimmuhvarfi 2 var tekin.  Þá eru umræddar framkvæmdir einnig í andstöðu við ákvæði  2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga  nr. 73/1997, sem tekið höfðu gildi þegar leyfi til að hefja framkvæmdirnar var veitt hinn 28. maí 1998.  Kynning sú, sem bæjaryfirvöld í Kópavogi stóðu fyrir í maí og júní 1997, þar sem áform um bygginguna voru kynnt, fullnægði ekki lagaskilyrðum um grenndarkynningu og hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins. Byggingarframkvæmdir þær, sem hafnar eru að Dimmuhvarfi 2, Kópavogi, eru samkvæmt framansögðu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og því andstæðar lögum. Ber því að stöðva þær meðan svo er ástatt.

 
Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við bygginu að Dimmuhvarfi 2 skulu stöðvaðar.  Með vísun til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 er lagt fyrir bæjarstjórn Kópavogs að framfylgja úrskurði þessum þegar í stað.

7/1998 Bergstaðastræti

Með

Árið 1998, föstudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn: Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/1998; 9803000

Ágreiningur milli eiganda efstu hæðar hússins á lóðinni nr. 28A við Bergstaðastræti í Reykjavík við byggingaryfirvöld vegna samþykkta byggingarnefndar Reykjavíkur á teikningum sem varða innra fyrirkomulag í húsinu og um staðfestingu eignaskiptasamnings á grundvelli þeirra.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar og  3. mars 1998, kærir L, eigandi efstu hæðar hússins á lóðinni nr. 28A við Bergstaðastræti í Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. nóvember 1997 um að samþykkja umsókn B, f. h. húsfélags hússins, um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á kjallarararými og kjallarainngangi  á 1. hæð hússins, samkvæmt teikningu verkfræðistofu B og E, dags. 10. september 1997.  Jafnframt er kærð samþykkt  byggingarnefndar frá 25. nóvember 1997 á umsókn hennar um leyfi fyrir áður gerðri íbúð á efstu hæð, samkvæmt teikningum, dags 9.  október 1997, með vísun til kvaðar frá 18. nóvember 1965.

Þess er krafist að framangreindar ákvarðanir byggingarnefndar verði felldar úr gildi ásamt eignaskiptasamningi fyrir húsið, sem staðfestur var af byggingarfulltrúa þann 6. desember 1997, á grundvelli framangreindra teikninga.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978. Með nýjum skipulags- og byggingarlögum  nr. 73/1997 sem tóku gildi hinn 1. janúar 1998 voru byggingarlög nr. 54/1978 felld úr gildi.  Samkvæmt 8. grein hinna nýju laga fjallar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála um ágreining um skipulags- og byggingarmál samkvæmt þeim lögum.

Með bréfi nefndarinnar dags. 12. mars 1998, var framangreint kærubréf, ásamt fylgiskjölum, kynnt byggingarnefnd Reykjavíkur og óskað umsagnar. Sama dag var formanni húsfélagsins að Bergstaðstræti 28A gefinn kostur á að koma að athugasemdum og óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar, skv. e-lið 4. gr. laga nr. 73/1997. Athugasemdir B f. h. húsfélagsins bárust nefndinni 24. mars 1998 og umsögn byggingarnefndar með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. mars 1998. Umsögn Skipulagsstofnunar barst nefndinni í bréfi, dags. 27. apríl 1998.

Málsatvik.  Samkvæmt gögnum málsins eru helstu atvik þessi:
Húsið á lóðinni nr. 28A við Bergstaðastræti, sem byggt er samkvæmt teikningum sem samþykktar voru í byggingarnefnd 16. ágúst 1944, er þrílyft, með kvisti og porti á bakhlið. Smá geymslukjallari er undir hluta hússins og opinn gangur undir neðri hæðina inn á baklóðina. Eigendur hússins, K og J, gerðu samning um skiptingu húseignarinnar 16. maí 1952. Samkvæmt honum átti K 60% í húsinu þ. e. 1. og 2. hæð ásamt kvistherbergi götumegin á efstu hæð og herbergin, sem liggja götumegin sitt hvoru megin við kvistherbergið, en J átti 40% þ. e. 3 hæð ásamt litlu hornherbergi á efstu hæð götumegin nyrst og tvö stór herbergi í vesturhlið. Salerni, gang og bað á efstu hæð áttu báðir jafnt. Kjallari og þvottahús á efstu hæð heyrðu öllu húsinu til. Síðan hafa meðal annars  orðið eftirtaldar breytingar á eignaaðild í húsinu:

Þann  24. maí 1952 selur K Á sinn hluta í efstu hæðinni ásamt sínum hluta úr baði, salerni og þvottahúsi á sömu hæð, ennfremur hluta í lóð og miðstöð er tilheyrir allri eigninni og 4. júlí 1955 selur hann H og F alla 1. hæð hússins, verslunarhæðina, að undanskildum uppgangi til efri hæðar. Með fylgdi hlutdeild í miðstöðvarklefa í kjallara hússins og hlutdeild í eignarlóð og undirgangi frá götu til baklóðar, allt í samræmi við eignarhlutföll í húseigninni allri.

Þann  30. desember 1957 selur J Sl alla 3. hæð hússins, hlutdeild í eignarlóð og undirgangi frá götu til baklóðar í samræmi við eignarhlutfall. Með í kaupunum fylgdi hlutdeild í þvottahúsi á efstu hæð hússins að jöfnum hlutum við aðra íbúa hússins og nyrðri geymslan inn úr meðstöðvarklefa. Hinn 15. desember  1959 selur hann Á sinn hluta í efstu hæðinni. Í afsalinu segir: „en  nánar tiltekið er þetta sá hluti hæðarinnar sem kaupandi tók á leigu hjá mér til lífstíðar með samningi, dags. 18. júlí 1950, þ. e. 2 stofur á móti vestri, lítið herbergi og kompa svo og hluti minn í baðherbergi, salerni og þvottahúsi, og verður kaupandi þannig eigandi allrar efstu hæðar hússins, svo og geymslu og risi. Þá fylgir með í kaupunum hluti minn í sameiginlegri miðstöð fyrir allt húsið svo og hluti minn í lóðinni Bergstaðastræti 28A.“

Þann 9. september 1965 selur Á S eignarhluta sinn á efstu hæð hússins, sem tiltekinn er 4 herbergi, eldhús og bað, ytri og innri forstofa, auk lítils herbergis við hliðina á eldhúsinu (merkt geymsla á teikningu), ennfremur geymsluris (háaloft) hússins svo og hlutdeild í þvottahúsi á hæðinni, sameiginlegum stigauppgangi og miðstöðvarklefa.

Þann 18. nóvember 1965 undirritaði S yfirlýsingu, sem móttekin var til þinglýsingar 29. sama mánaðar.  Í yfirlýsingunni segir:  „í sambandi við skilrúm það, sem ég hef látið setja upp á efsta stigapalli í stigahúsi hússins nr. 28A við Bergstaðastræti, að mér er kunnugt um það, að allt stigahúsið er í sameign hússins. Skuldbind ég mig til þess að fjarlægja skilrúm þetta, ef aðrir sameigendur krefjast þess. Meðan skilrúmið er kosta ég einn viðhald þess hluta stigahússins, sem er innan við skilrúmið.“

Þann 9. október 1969 selur S A efstu hæðina, 4 herbergi, eldhús og bað og innri og ytri forstofu, auk lítils herbergis við hliðina á eldhúsinu (merkt geymsla á teikningu), ennfremur geymsluris (háaloft hússins) svo og hlutdeild í þvottahúsi, sameiginlegum stigauppgangi og miðstöðvarklefa. Í afsalinu segir seljandi að kaupanda sé kunnugt um yfirlýsingu sína frá 18. nóvember 1965 varðandi skilrúm, sem sett var upp á efsta stigapalli, þinglýst 29. nóvember 1965 og taki kaupandi á sig þær kvaðir, sem um ræði í  yfirlýsingunni.

Þann  28. desember 1971 selur A  kæranda og bróður hennar,Skúla Skúlasyni, allan eignarhluta sinn á efstu hæð, nánar tiltekið fjögur herbergi, eldhús og bað, ytri og innri forstofur, ennfremur geymsluris (háaloft) svo og hlutdeild í þvottahúsi á sömu hæð, sameiginlegum stiguppgangi og miðstöðvarklefa og eignarlóð í réttu hlutfalli við eignarhluta hins selda í allri fasteigninni, sem teljist vera 24% allrar eignarinnar. Í afsalsbréfinu segir einnig að kaupendum sé kunnug yfirlýsing S, dags. 18. nóvember 1965, um að allt stigahús sé í sameign og að hann skuldbindi sig til að fjarlægja skilrúm, ef sameigendur krefjist þess. Í afsalsbréfinu er ekki tekið fram að kaupendur taki á sig kvaðir skv. yfirlýsingunni.

Þann 19. júní 1975 selur H Verkfræðiskrifstofu B og E  2. hæðina í húsinu ásamt 1/3 úr þvottahúsi á efstu hæð og 1/4 hluta úr kjallara.

Málsrök kæranda:  Kærandi rökstyður kröfur sínar, með því að ákvörðun byggingarnefndar um að samþykkja umsókn B f. h. húsfélagsins sé ólögmæt, þar sem kjallarinn sé sameign allra eignaraðila hússins samkvæmt samningi þáverandi eigenda hússins um eignaskipti í húsinu frá 16. maí 1952. Breytingarnar séu fólgnar í því að geymslur í kjallara eru innlimaðar í séreignir 2. og 3. hæðar, auk þess sem  skilveggur á milli salernisklefa á 1. hæð og kjallarainngangs hafi verið færður til og salernisklefinn þannig stækkaður um einn fermetra.

Í umsókn sinni dags. 22. október 1997 hafi hún sótt um að fá samþykktar teikningar af fullgildri áður gerðri íbúð á efstu hæð. Í umsókninni hafi hún m. a. farið fram á að fá viðurkennt að grunnflatarmál fremri forstofu í stigaherbergi á hæðinni sé innifalið í séreign hennar eins og kaupsamningur frá 1971 hafi hljóðað upp á. Einnig hafi hún sótt um leyfi fyrir varanlegum skilvegg milli  fremri forstofunnar annars vegar og stiga, stigaops og stigapalls hins vegar. Ósanngjarnt sé að telja fremri forstofuna í sameign, henni hafi ekki verið mótmælt sem séreign fram til þessa, enda nýtist hún engum nema eiganda hæðarinnar og aðrir eigendur hússins eigi ekkert erindi þangað upp. Þegar hún og bróðir hennar, S, hafi fyrst skoðað og siðan keypt efstu hæðina á árinu 1971, hafi fylgt henni innri og fremri forstofa með timburskilvegg, þeim sama sem er þar í dag. Þau hafi því talið að fremri forstofan tilheyrði séreign efstu hæðar, enda hafi íbúðin verið skráð 131 fermetri hjá fasteignamati og fasteignagjald alltaf verið greitt í samræmi við það. Yfirlýsing S sé óljós og hafi hún skilið hana svo, að um væri að ræða hugsanlega tilfærslu á skilveggnum um þá rösku 30 cm, sem nemi syllubreiddinni milli hans og stigahandriðs.

Rökstuðningur byggingarnefndar og athugasemdir B:  Í umsögn byggingarnefndar er mælst til þess að krafa kæranda verði ekki tekin til greina. Það hafi verið ljóst með tilkomu nýrra laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, sem tóku gildi í ársbyrjun 1995, að sækja þyrfti um að fá samþykktar þær breytingar sem gerðar höfðu verið frá því að húsið var byggt árið 1944, þannig að unnt yrði að samþykkja nýja eignaskiptayfirlýsingu. Þrátt fyrir margar tilraunir til að ná samkomulagi um eina sameiginlega umsókn allra eigenda tókst það ekki. Varð því úr að sótt var um breytingarnar í tvennu lagi.
Það sé hins vegar ekki á valdi byggingarnefndar að fella niður þinglýsta kvöð um að fjarlægja beri skilrúm sem sett var upp í rými merktu 04-03 þ.e. á efsta stigapalli hússins, ef aðrir sameigeigendur krefjist.

Í athugsemdum B, formanns húsfélagsins, segir að engar breytingar hafi verið gerðar í kjallara frá því húsið var byggt að því frátöldu að miðstöðvarketill var fjarlægður þegar hitaveita kom í húsið. Tvær geymslukompur, sem hafi verið í kjallara frá upphafi og tilheyri 2. og 3. hæð skv. elstu afsölum, voru í fyrra mældar upp og færðar inn á teikningar, sem gerðar voru vegna eignaskiptasamnings. Hitaveitugrind og inntaksloki eru í inntaksklefa, sem er í sameignarrými merktu 00-03 á teikningu.

Vettvangsganga og málsmeðferð:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 4. maí sl. og skoðaði sérstaklega kjallararými í húsinu og skilrúm, sem afmarkar ytri forstofu að íbúð kæranda á 4. hæð. Í lok vettvangsgöngu afhenti kærandi nefndinni nýja greinargerð í málinu þar sem hún gerir nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum.  Var það álit nefndarinnar að málið þarfnaðist frekari skoðunar og ákvað nefndin á fundi síðar sama dag, með vísun til 4. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, að tilkynna aðilum að fyrirsjáanlegt væri að afgreiðsla málsins tæki lengri tíma en þá tvo mánuði, sem nefndinni eru almennt ætlaðir til að ljúka afgreiðslu máls.  Var málsaðilum tilkynnt þessi ákvörðun nefndarinnar með bréfi dags. 6. maí sl.  Hefur kærandi eftir þann tíma komið nýjum gögnum og upplýsingum á framfæri við nefndina m. a. yfirlýsingum fólks, er áður bjó í húsinu eða þekkti þar til, er bárust nefndinni hinn 3. þessa mánaðar.  Hefur nefndin leitast við að taka þessi nýju gögn til skoðunar enda þótt telja verði þau of seint fram komin.

Niðurstaða:  Á það verður ekki fallist með kæranda að ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur um að samþykkja umsókn húsfélagsins að Bergstaðastræti 28A um leyfi fyrir áður gerðum breytingum í húsinu, samkvæmt teikningu verkfræðistofu B og E hf. dags. 10. september 1997 brjóti í bága við samning um eignaskipti í húsinu frá 16. maí 1952 milli þáverandi eigenda hússins. Teikning þessi sýnir að geymslurými í kjallara hússins hefur verið skipt milli 2. og 3. hæðar og tilfærslu á vegg milli á snyrtingar á 1.  hæð og kjallarinngangs. Telur úrskurðarnefndin þessa breytingu ekki ganga gegn rétti kæranda enda hefur hún  aldrei átt, og ekki heldur aðrir sem áttu efstu hæðina á undan henni, aðra eða meiri hlutdeild í kjallara en óafmarkaða miðstöð eða miðstöðvarklefa í hlutfallslegri sameign samkvæmt afsals- og kaupsamningum um efstu  hæðina, dags. 24. maí 1952, 15. desember 1959, 9. september 1965, 9. október 1969 og 28. desember 1971. Þá er geymsluskiptingin í samræmi við afsals- og kaupsamninga um  2. og 3. hæðina frá 30. desember 1957 og 19. júní 1975.

Athugasemdir verða heldur ekki gerðar við ákvörðun byggingarnefndar um að samþykkja teikningar af áður  gerðri íbúð á efstu hæð dags. 9. október 1997, með vísan til kvaðar frá 18. nóvember 1965 v. forstofu á 4. hæð, enda var það ekki á færi byggingarnefndar að fella úr gildi þinglesna kvöð.  Hins vegar verður ekki annað séð af gögnum málsins en að um alllangan tíma hafi verið litið á eignarhluta  kæranda í húsinu sem fullgilda íbúð eins  og samþykkt væri.  Verður þetta m. a. ráðið af veðbókarvottorði dags. 12. nóvember 1971,  sem er meðal gagna málsins, þar sem eignarhlutinn er sagður vera:  …“4ra herbergja íbúð í risi + herb. merkt geymsla“… Verður og af sama vottorði ráðið að eignarhlutinn hefur verið talinn  viðhlítandi veðtrygging fyrir láni lífeyrissjóðs.  Kann að felast í þessu nokkur viðurkenning á þeim sjónarmiðum kæranda að ytri forstofa sú, er afmarkast af hinu kvaðabundna skilrúmi, teljist til séreignarhluta íbúðarinnar.  Að öðrum kosti hefði tæpast verið unnt að líta á eignarhlutann sem íbúð eins og fyrirkomulagi hans er nú háttað.  Úrlausn um ágreining þann, sem uppi er í málinu um eignarrétt að margnefndri ytri forstofu, á hins vegar ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og verður því ekki úr honum skorið í máli þessu.

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 18. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994  fellur og utan valdsviðs úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að fjalla um ágreining vegna staðfestinga byggingarfulltrúa á eignaskiptasamningum, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 471/1997 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o. fl. í fjöleignarhúsum.  Kröfu kæranda, um að staðfesting byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 1997 á eignaskiptasamningi í fjöleignarhúsinu Bergstaðastræti 28A verði felld úr gildi er því vísað frá.

Með vísun til framanritaðs eru ekki efni til að verða við kröfum kæranda.

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. nóvember 1997, um að samþykkja teikningu af áður gerðum breytingum í kjallara hússins nr. 28A við Bergstaðastræti ásamt tilfærslu á vegg milli snyrtingar á 1. hæð og kjallarainngangs og um að samþykkja teikningu af áður gerðri íbúð á efstu hæð hússins með vísun til kvaðar frá 18. nóvember 1965, skulu óbreyttar standa.
Kröfu kæranda um að staðfesting byggingarfulltrúa á eignaskiptasamningi í húsinu verði felld úr gildi er vísað frá.                                                                                 

10/1998 Þórsgata

Með

Ár 1998, föstudaginn 5. júní kl. 12:00 kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður ad hoc, Þorsteinn Þorsteinsson verkfræðingur, aðalmaður í nefndinni og Jóhannes Rúnar Jóhannsson hdl, varamaður Hólmfríðar Snæbjörnsdóttur lögfræðings, sem vikið hefur sæti í máli þessu.

Fyrir var tekið mál nr. 10/1998:

Kærur eigenda húsnæðis að Óðinsgötu 7 og 9 og  íbúa að Óðinsgötu 8 og 8B og Spítalastíg 8 vegna byggingarleyfis að Þórsgötu 2.                                                                         
 
Í máli þessu er nú kveðinn upp svofelldur:

úrskurður:

Með bréfi dags. 6. apríl 1998 kæra J, A, G og V, eigendur húsnæðis að Óðinsgötu 7, Reykjavík og A og Þ, eigendur Óðinsgötu 9, Reykjavík til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála útgáfu og staðfestingu byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Þórsgötu 2 í Reykjavík, sem samþykkt var í byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 26. mars 1998 og staðfest af borgarstjórn hinn 2. apríl 1998. Krefjast kærendur þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi. Þá kröfðust nefndir kærendur þess jafnframt að framkvæmdir við bygginguna yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en með úrskurði nefndarinnar hinn 12. maí 1998 var þeirri kröfu kærenda hafnað.  Með bréfi dags. 22. apríl 1998 kæra nokkrir íbúar að Óðinsgötu 8 og 8B og Spítalastíg 8 sömu stjórnvaldsákvarðanir og krefjast þess að þær verði felldar úr gildi en auk þess krefjast þau þess að gert verði deiliskipulag fyrir reitinn áður en slík breyting sem um sé að ræða með fyrirhugaðri byggingu komi til greina.  Hefur nefndin ákveðið að sameina kæru ofangreindra kærenda og fjalla um kærur þeirra sem eitt mál.

Málavextir:  Þegar á árinu 1996 var hafinn undirbúningur að nýbyggingu á lóðinni nr. 2 við Þórsgötu í Reykjavík  og leitað eftir leyfi til að rífa þáverandi hús á lóðinni.  Teikningar að nýju húsi lágu fyrir hinn 20. nóvember það ár og var í framhaldi af því hafist handa um að afla byggingarleyfis samkvæmt þeim. Erindi lóðarhafa þar að lútandi var lagt fyrir byggingarnefnd og sætti venjubundinni meðferð sem viðhöfð hafði verið í hliðstæðum tilvikum.  Var meðal annars leitað álits nágranna í grenndarkynningu og bárust mótmæli og athugasemdir við ýmsa þætti er vörðuðu hina fyrirhuguðu byggingu.  Var í einhverjum efnum komið til móts við athugasemdir, sem borist höfðu, m.a. var þakhæð bílgeymslu lækkuð um 20 cm frá því sem upphaflega var áformað.  Þannig breyttar voru teikningar lagðar fyrir byggingarnefnd og voru þær samþykktar af henni hinn 10. júlí 1997 og byggingarleyfi veitt á grundvelli þeirra.  Voru þessar ákvarðanir staðfestar í  borgarráði hinn 18. sama mánaðar. 

Ákvarðanir þessar sættu kæru til umhverfisráðherra og felldi hann hinar kærðu ákvarðanir úr gildi með úrskurði hinn 20. nóvember 1997.  Var það mat ráðuneytisins að fyrirhuguð nýbygging að Þórsgötu 2 hefði það verulegar breytingar í för með sér  á næsta umhverfi  að full þörf hefði verið á að gera deiliskipulag fyrir reitinn samkvæmt þágildandi lögum áður en byggingarleyfið var veitt.  Með vísan til þessa og fleiri atriða sem getið er í úrskurðinum var það álit ráðuneytisins að fyrirhuguð nýbygging væri stærri og meiri og skerti hagsmuni kærenda í ríkara mæli en þeir hefðu mátt ætla með tilliti til aðalskipulags Reykjavíkur 1990-2010 og greinargerðar með því. Þá var það mat ráðuneytisins að nýbyggingin kæmi til með að draga það mikið úr dagsbirtu að suður- og austurgluggum á húsum kærenda að ekki yrði hjá því komist að fella byggingarleyfið úr gildi, sbr. 14. gr. byggingarlaga þar sem segði að byggingarleyfi veitti ekki heimild til framkvæmda, sem brytu í bága við skipulag og ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra.

Eftir að þessi niðurstaða lá fyrir voru gerðar nokkrar breytingar á teikningum hússins, sem einkum miðuðu að því að draga úr birtuskerðingu og þrengslum.  Voru teikningar þannig breyttar lagðar fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur og samþykktar þar að undangenginni tilskilinni málsmeðferð innan stjórnkerfis borgarinnar og grenndarkynningu.  Var byggingarleyfi gefið út hinn 26. mars  og staðfest af borgarstjórn hinn 2. apríl 1998. 

Með kæru dags. 6. apríl 1998 voru þessar ákvarðanir borgaryfirvalda kærðar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Vegna náins skyldleika við arkitekt hinnar umdeildu byggingar vék Ingimundur Einarsson hrl. formaður úrskurðarnefndarinnar sæti í málinu. Þar sem skipaður varamaður formanns í nefndinni, Gunnar Jóhann Birgisson hrl.,  var einnig vanhæfur í málinu vegna setu  í borgarstjórn Reykjavíkur var Ásgeir Magnússon hrl. skipaður formaður ad hoc í málinu með bréfi umhverfisráðuneytisins dags. 14. apríl 1998 samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Þá vék Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur einnig sæti þar sem hún var starfsmaður umhverfisráðuneytisins þegar áðurgreint kærumál tengt sama álitaefni var þar til úrlausnar.  Tók Jóhannes Rúnar Jóhannsson hdl. varamaður hennar því sæti í nefndinni við úrlausn málsins.

Málsástæður og lagarök málsaðila:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að hin umdeilda  nýbygging að Þórsgötu 2 sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Vísa kærendur í þessu efni til álits umhverfisráðuneytisins í úrskurðarformi. Hafi niðurstaða ráðuneytisins meðal annars byggst á því að fyrirhuguð nýbygging að Þórsgötu 2 hafi það verulegar breytingar í för með sér á næsta umhverfi að full þörf hafi verið á að gera deiliskipulag fyrir þann reit sem lóðin er á áður en byggingarleyfið var veitt.  Þá hafi ráðuneytið talið að byggingin væri stærri og meiri og skerti hagsmuni kærenda í ríkara mæli en þeir hefðu mátt ætla með tilliti til aðalskipulags Reykjavíkur 1990-2010 og greinargerðar með því. Telja kærendur að þrátt fyrir smávægilegar breytingar á teikningum byggingarinnar á lóðinni nr. 2 við Þórsgötu eigi forsendur úrskurðar umhverfisráðuneytisins við með sama hætti og áður. Þá telja kærendur að heimild 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 verði að túlka þröngt. Halda þeir því fram að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að binda heimildir til afgreiðslu byggingarleyfisumsókna að undangenginni sérstakri málsmeðferð, þegar um sé að ræða breytingu  á deiliskipulagi, við óverulegar breytingar en veita á sama tíma opna og rúma heimild fyrir afgreiðslu umsókna, þegar um sé að ræða svæði þar sem ekki liggi fyrir deiliskipulag, og þá jafnvel þótt byggingarleyfisumsókn feli í sér veruleg frávik frá þeirri byggð sem fyrir er og verulega breytingu á næsta nágrenni. Að öðrum kosti verði markmiðum skipulags- og byggingarlaga eins og þau séu sett fram í 1. gr. laga nr. 73/1997 ekki náð.  Fái þessi skilningur stuðning í lögskýringargögnum.    Loks byggja kærendur á því að hin umdeilda bygging skerði dagsbirtu og útsýni, auk þess sem stórum hluta lóðarinnar sé lyft og skerði það möguleika þeirra til að njóta útivistar með eðlilegum hætti. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er byggt á því að fyrirhuguð bygging sé í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Nýtingarhlutfall sé innan viðmiðunarmarka og umtalsvert lægra en dæmi séu um á svæðinu.  Skuggamyndun sé óveruleg og einungis að morgni.  Skerðing á útsýni sé ekki meiri en búast megi við í þéttbýli.  Byggingin sé og í samræmi við þá stefnu borgaryfirvalda að byggja upp gömlu borgarhverfin og gæða þau nýju lífi.  Þá hylji  fyrirhuguð bygging ljótleikann, sem nú stafi af brunagaflinum á Óðinsgötu 7.  Af hálfu byggingarleyfishafa er mótmælt þeirri skoðun kærenda að gera hefði þurft deiliskipulag af svæðinu áður en ákvörðun var tekin um að leyfa fyrirhugaða byggingu.  Vísar hann til heimildarákvæðis 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og þess að grenndarkynning hafi verið viðhöfð samkvæmt 7. mgr. 43. gr. sömu laga. Byggingarleyfishafi vísar á bug umkvörtunum kærenda er lúta að dýpt hússins, hæð bílageymslu og frágangi handriðs á þaki hennar.  Þá vísar byggingarleyfishafi til jafnræðisreglu stjónsýslu- og stjórnskipunarréttar.  Af henni leiði að hann eigi rétt til þeirrar nýtingar lóðar sinnar, sem fyrirhuguð bygging feli í sér, sé tekið tillit til þeirrar nýtingar sem leyfð hefði verið á svæðinu, m.a. á lóðum kærenda. Loks fjallar byggingarleyfishafi um úrskurð umhverfisráðherra frá 20. nóvember 1997, sem áður er getið, og telur niðurstöðu hans ranga auk þess sem það, sem í honum segi um deiliskipulag, eigi ekki lengur við vegna tilkomu nýrra laga.

Umsagnir:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagna byggingarnefndar Reykjavíkur og Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Í umsögn byggingarnefndar  dags. 4. maí 1998 er rakin forsaga málsins og meðferð þess hjá viðkomandi stofnunum og nefndum borgarinnar. Mælist byggingarnefnd til þess að kröfum kærenda verði hafnað.  Í umsögn Skipulagsstofnunar dags. 28. apríl 1998 kemur hins vegar fram það álit, að breytingar þær sem gerðar hafi verið á teikningum fyrirhugaðrar byggingar að Þórsgötu 2 séu ekki nægilegar til að uppfylla þær kröfur sem fram komi í forsendum niðurstöðu úrskurðar umhverfisráðherra frá 20. nóvember 1997.  Beri því að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin gekk á vettvang hinn 8. maí 1998 kl. 13:30.  og kynnti sér aðstæður.  Nefndin hafði óskað þess að málsaðilar yrðu viðstaddir og voru þeir flestir á vettvangi og veittu nefndinni upplýsingar og nauðsynlegan aðgang að byggingarstaðnum og  húsum sínum.

Niðurstaða:  Það byggingarleyfi, sem deilt er um í máli þessu, var gefið út á grundvelli nýrra laga um skipulags- og byggingarmál nr. 73/1997, sem tóku gildi hinn 1. janúar 1998.  Fram er komið í málinu að ekkert deiliskipulag liggur fyrir í hverfinu í kring um Þórsgötu 2, sem telst gróið hverfi og löngu uppbyggt. Þegar svo háttar til er kveðið svo á í 2. mgr. 23. gr. laganna að sveitarstjórn geti veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. sömu laga. Í þeirri grein er síðan nánar kveðið á um að skipulagsnefnd skuli í slíkum tilvikum fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en byggingarleyfið hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar og er framkvæmd slíkrar grenndarkynningar nánar lýst í hinu tilvitnaða ákvæði.

Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að farið hafi verið í hvívetna eftir ákvæðum laga nr. 73/1997 við samþykkt og staðfestingu hinna umdeildu ákvarðana, enda hefur meðferð málsins hjá borgaryfirvöldum ekki sætt athugasemdum málsaðila sem slík.

Eins og að framan er rakið voru gerðar nokkrar breytingar á teikningum nýbyggingarinnar að Þórsgötu 2 eftir að umhverfisráðherra hafði með úrskurði sínum hinn 20. nóvember 1997 fellt byggingarleyfi fyrir henni úr gildi.  Miðuðu þessar breytingar að því að koma til móts við sjónarmið nágranna og draga úr vægi þeirra þátta í hönnun byggingarinnar sem helst höfðu verið gagnrýndir.  Þannig var vesturgafl hússins, sem gengur inn fyrir brunagafl Óðinsgötu 7, gerður bogadreginn og sveigður frá því húsi og dregur þetta mokkuð bæði úr skuggamyndun og þrengslum.  Þá var lóðréttur flötur á hliðarvegg bílgeymslu að vestanverðu lækkaður með því að setja fláa á efri brún hans.  Minnkar þetta sjónræn áhrif vegghæðar og færir útivistarsvæði á þaki bílgeymslunnar fjær granneignum.  Loks hefur byggingaraðili lýst því yfir að handrði á brún bílgeymslu verði komið fyrir inni á þakinu verði þess óskað, en gert er ráð fyrir gróðurkeri á þakbrúninni samkvæmt teikningu..  Allar miða þessar breytingar að því að draga úr neikvæðum áhrifum upphækkunar útivistarsvæðisins á bílgeymsluþakinu og er með þeim komið nokkuð til móts við umkvartanir kærenda.

Úrskurðarefndin telur að hin umdeilda bygging eins og hún er nú hönnuð fari ekki í bága við aðalskipulag Reykjavíkur 1990-2010, hvorki uppdrátt né greinargerð.  Er í því sambandi sérstaklega vísað til þess að í greinargerðinni er beinlínis ráðgert að endurbætur á húsum á íbúðarreitum þessa svæðis muni eiga sér stað á skipulagstímanum og að miða skuli við nýtingu á lóðum í næsta nágrenni.  Mátti kærendum með tilliti til þessa vera ljóst að til þess gæti komið að minnstu húsin á svæðinu yrðu látin víkja fyrir nýjum og stærri byggingum.

Enda þótt fallast megi á það með kærendum að beita verði heimildum laga nr. 73/1997 til veitingar byggingarleyfa í þegar byggðum hverfum, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag, af varfærni, er það skoðun nefndarinnar að bygging sú sem hér um ræðir fari ekki út fyrir mörk þeirra heimilda.  Sé litið á reitinn sem afmarkast af Þórsgötu, Óðinsgötu, Freyjugötu og Baldursgötu í heild er nýtingarhlutfall hinnar nýju byggingar í góðu samræmi við forsendur aðalskipulags og veitir að auki eðlilegt svigrúm til endurbyggingar á þeim lóðum á reitnum, sem minnstu húsin standa á. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 1990-2010 segir að nýtingarhlutfall lóða á svæðinu innan Hringbrautar og Snorrabrautar sé víða á bilinu 0,7 – 1,5.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Þórsgötu 2 er samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti um það bil 1,1 með hinni umdeildu byggingu (m.v. bílastæðareglu).  Nýtingarhlutfall á þeim reit sem markast af áðurgreindum fjórum götum var fyrir niðurrif eldra húss á lóðinni um það bil 1,18 en verður, miðað við fyrirliggjandi uppdrætti, um það bil 1,27 eftir byggingu hins umdeilda húss.  Með vísun til þessa er það mat nefndarinnar að hin umdeilda bygging feli ekki í sér verulegt frávik frá þeirri byggð sem er fyrir á reitnum og í  nágrenni hans.  Í því sambandi má nefna að nýtingarhlutfall aðlægs reits norð-austan Þórsgötu er um það bil 1,4.  Í ljósi þessa telur nefndin einnig að gætt hafi verið jafnræðissjónarmiða við hönnun byggingarinnar sé litið til hagsmuna allra lóðarhafa á reitnum og í nágrenni hans.

Varðandi þau rök kærenda, að reglur grenndarréttarins eigi að leiða til þess að fallast verði á kröfur þeirra, er það álit nefndarinnar að við byggingu nýrra húsa í þegar byggðum hverfum megi við því búast að hagsmunir næstu nágranna séu í einhverju skertir. Getur nefndin fallist á að svo sé að því er varðar eigendur íbúðarhússins að Óðinsgötu 9.  Það er hins vegar mat nefndarinnar að sú skerðing sé ekki nægileg ein og sér til þess að valda því að ógilda beri umrætt byggingarleyfi.  Í þessu sambandi verður að líta til þess að hin umdeilda bygging er norðan og austan við húseignir kærenda og skerðir ekki birtu eða útsýni að marki umfram það sem búast mátti við.  Nálægð er heldur ekki meiri en algengt er í þéttbýli og reikna verður með.  Byggingin myndar skjól í norðanátt og hylur háan brunagafl sem þótti til lýta í umhverfinu, m.a. að mati húsadeildar Árbæjarsafns.  Þykja þessi matskenndu atriði, sem bæði fela í sér óhagræði og kosti, ekki geta  leitt til ógildingar byggingarleyfisins ein og sér. 

Að því er varðar kæru íbúa að Óðinsgötu 8 og 8B og Spítalastíg 8 er það álit nefndarinnar að hagsmunir þeirra, af því að fá hinar kærðu ákvarðanir felldar úr gildi, séu svo óverulegir að ekki séu þegar af þeirri ástæðu efni til að fallast á þá kröfu þeirra.  Kröfu þeirra um að gert verði deiliskipulag fyrir reitinn áður en slík byggingarframkvæmd verði leyfð er vísað frá nefndinni, enda hafa kærendur ekki, svo séð verði, sett þá kröfu fram við borgaryfirvöld og ekki liggur fyrir að formleg afstaða hafi verið tekin til slíkrar kröfu þar.  Verður úrskurðarnefndin ekki krafin úrlausnar um álitaefni sem þannig er háttað um.

Að öllu því virtu sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að hafna beri kröfum kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana í málinu og að vísa beri frá kröfu tilgreindra kærenda um gerð deiliskipulags eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum allra kærenda um að fellt verði úr gildi byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Þórsgötu 2, Reykjavík, sem samþykkt var af byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 26. mars 1998 og staðfest af borgarstjórn hinn 2. apríl 1998.  Skulu hinar kærðu ákvarðanir  standa óraskaðar.

Kröfu kærenda að Óðinsgötu 8 og 8B og Spítalastíg 8, um að gert verði deiliskipulag fyrir reitinn áður en slík breyting sem um sé að ræða með fyrirhugaðri byggingu komi til greina,  er vísað frá nefndinni.

11/1998 Jörfagrund

Með

Ár 1998,  þriðjudaginn 19. maí  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/1998
 
Krafa frá húseigendum við Esjugrund um stöðvun jarðvegsframkvæmda á svæði við Jörfagrund í Kjalarneshreppi þar sem fyrirhuguð eru raðhús samkvæmt skipulagi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. apríl 1998, kæra  H, Esjugrund  32, Kjalarnesi, O, Esjugrund 34 og B, Esjugrund 55 jarðvegsframkvæmdir á svæði sem fyrirhugað er undir raðhús við Jörfagrund og leyfi fyrir þeim framkvæmdum.

Þess er krafist að framkvæmdir við jarðvegsskiptin verði stöðvaðar og leyfi fyrir þeim ógilt.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Málsatvik:  Á undanförnum misserum hafa skipulagsmál verið til endurskoðunar í Kjalarneshreppi. Er ljóst af gögnum málsins að þessi endurskoðun hefur verið til umfjöllunar þegar á árinu 1996 en borgarafundur var haldinn um þessi málefni í hreppnum hinn 25. júní það ár.  Var m. a. áformað að breyta deiliskipulagi Grundarhverfis en jafnframt var talið nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á aðalskipulagi hreppsins. Á haustmánuðum 1997 var gerð skipulagstillagna  komin á lokastig.  Var kynning á hinum nýju skipulagstillögum, dags. 14. október 1997, send íbúum í hreppnum og borgarafundur haldinn um þessi málefni hinn 27. sama mánaðar.  Í framhaldi af þessari kynningu komu fram ýmsar athugasemdir einkum varðandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Grundarhverfi.  Var safnað undirskriftum á skjal þar sem mótmælt var tilteknum atriðum í hinni nýju tillögu en síðar kom fram undirskriftalisti þar sem lýst var stuðningi við hið nýja skipulag.  Allmargir af þeim sem áður höfði staðið að mótmælunum drógu þau til baka.  Tillögur hreppsnefndar að skipulagsbreytingunum voru auglýstar 18. desember 1997 og hlutu lögboðna meðferð. Við meðferð málsins var fallið frá að svo stöddu að gera fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi enda höfðu mál skipast svo að þeirra var ekki  lengur talin þörf vegna fyrirhugaðra breytinga á deiliskipulagi Grundarhverfis. Vinnu var hins vegar haldið áfram við gerð þess. Var í ýmsum efnum komið til móts við athugasemdir sem fram komu við kynningu tillagnanna og var nýtt deiliskipulag fyrir Grundarhverfi samþykkt á hreppsnefndarfundi hinn  26. febrúar 1998 og sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu hinn 26. mars sl. Athugasemdir Skipulagsstofnunar voru sendar sveitarstjóra Kjalarneshrepps hinn 29. apríl  1998 og var auglýsing um hið nýja deiliskipulag fyrir Grundarhverfi birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. maí 1998.  Hinn 15. apríl 1998 hóf Hallgrímur Árnason byggingameistari framkvæmdir við jarðvegsskipti á svæði sem ætlað er undir væntanlegar íbúðarbyggingar.  Hafði byggingarmeistarinn fengið munnlega heimild sveitarstjóra Kjalarneshrepps, sem jafnframt er byggingarfulltrúi hreppsins, til þess að hefja þessar framkvæmdir. Lýtur krafa kærenda að því að þessar framkvæmdir verði stöðvaðar og leyfi til þeirra fellt úr gildi. Úrskurðarnefndin hefur leitað umsagna Kjalarneshrepps og Skipulagsstofnunar  um kæruefnið og hafa umsagnir þeirra borist nefndinni.

Málsrök kærenda og hreppsnefndar Kjalarneshrepps:  Kærendur styðja kröfu sína um stöðvun framkvæmda þeim rökum að þær séu ekki í samræmi við staðfest skipulag sem í gildi hafi verið þegar leyfi til þeirra var veitt.  Af hálfu hreppsnefndar Kjalarneshrepps er því haldið fram að framkvæmdir þær sem leyfðar voru séu í samræmi við staðfest aðalskipulag og deiliskipulag sem samþykkt hafi verið af hreppsnefnd hinn 26. febrúar sl. enda hafi verið farið eftir 25. grein laga nr. 73/1997 við samþykkt á því.  Það sé túlkun sveitarstjóra að deiliskipulagið hafi verið samþykkt enda sé ekki gert ráð fyrir því að neinn annar aðili en hreppsnefnd samþykki það.  Hinar umdeildu framkvæmdir fari því ekki í bága við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var fallið frá fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi fyrir Kjalarneshrepp og er því enn í gildi það aðalskipulag sem fyrir var.  Hið nýja deiliskipulag fyrir Grundarhverfi sem nú hefur verið auglýst hafði verið samþykkt af hreppsnefnd Kjalarneshrepps þegar hið umdeilda leyfi til jarðvegsskipta var veitt og telur úrskurðarnefndin að hreppsnefnd hafi eins og á stóð verið heimilt að leggja það til grundvallar við ákvörðun um takmarkað leyfi til framkvæmda.  Samkvæmt ákvæði 25. gr. byggingar- og skipulagslaga nr. 73/1997 þarf ekki að staðfesta samþykkt deiliskipulag og var sveitarstjórn rétt að líta á samþykkt þess sem fullnægjandi grundvöll til að veita leyfi til takmarkaðra framkvæmda.  Samkvæmt  2. mgr. 44. gr. l. nr. 73/1997 má veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast það þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.  Verður að telja að á grundvelli þessarar heimildar og heimildar sama ákvæðis til útgáfu leyfis til jarðvegskönnunar hafi byggingarfulltrúa verið rétt að veita umbeðið leyfi til jarðvegsskipta enda lágu fyrir nauðsynlegar mælingar og útsetningar lóða.   Þá er það álit nefndarinnar að jarðvegsskipti þau, sem kærandi krefst stöðvunar á hafi ekki í för með sér röskun á hagsmunum sem réttlæti stöðvun framkvæmda.  Telur úrskurðarnefndin ljóst, að teldist deiliskipulag það sem framkvæmdirnar miðast við ekki hafa tekið gildi, þá megi með hægu móti færa umrætt svæði til fyrra horfs auk þess sem jarðvegsskiptin kæmu að umtalsverðum notum miðað við það deiliskipulag sem fyrir var.  Að öllu þessu athuguðu telur nefndin ekki efni til að verða við kröfu kærenda um stöðvun hinna umdeildu framkvæmda eða ógildingu leyfis til þeirra.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að leyfi til framkvæmda við jarðvegsskipti á Kjalarnesi sem í kæru greinir verði fellt úr gildi.  Þá er einnig hafnað kröfu kærenda um að umræddar framkvæmdir verði stöðvaðar.