Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/1998 Vatnsendablettur

Með

Ár 1998, þriðjudaginn 29. desember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/1998, kæra J vegna synjunar byggingarnefndar Kópavogs á umsókn um endurnýjun leyfis til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102, Kópavogi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. október 1998, sem barst nefndinni sama dag, kærir Othar Örn Petersen hrl., f.h. J, Vatnsendabletti 102, Kópavogi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 16. september 1998 um að synja umsókn kæranda um endurnýjun leyfis til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102, Kópavogi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. september 1998 og tilkynnt kæranda með bréfi byggingarfulltrúa dags. 28. sama mánaðar.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt leyfi til að hefja framkvæmdir á lóð sinni í samræmi við umsókn sína.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Málavextir:  Kærandi mun hafa keypt fasteignina Vatnsendablett 102, íbúðarhús ásamt bílskúr, í febrúar 1994.  Húsið hafði áður verið sumarbústaður en á árinu 1988 hafði, að sögn kæranda, fengist leyfi til að stækka bústaðinn og breyta honum í íbúðarhús.  Hinn 10. september 1987 hafði verið veitt leyfi til þess að stækka bílskúr á lóðinni úr 21 fermetra í 36 fermetra, en síðar, eða hinn 12. september 1991, var veitt leyfi til þess að stækka skúrinn í 45 fermetra.  Leyfi þessi höfðu hins vegar ekki verið nýtt og höfðu því ekki verið gerðar þær breytingar á skúrnum, sem leyfðar höfðu verið.

Hinn 28. apríl 1998 sótti kærandi um leyfi til  að stækka umræddan skúr í 50 fermetra.  Erindi þessu var vísað til skipulagsnefndar Kópavogsbæjar og kom það til umfjöllunar á fundi nefndarinnar hinn 2. júní 1998.  Taldi nefndin sér ekki fært að afgreiða erindið meðan ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag af svæðinu.  Var þessi niðurstaða staðfest á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 4. júní 1998.

Hinn 8. september 1998 sótti kærandi á ný um leyfi til stækkunar bílskúrsins í 50 fermetra enda hafði fyrra erindi hans ekki komið til endanlegrar afgreiðslu byggingarnefndar.  Var erindi kæranda hafnað á fundi byggingarnefndar hinn 16. september 1998.  Voru færð fram þau rök fyrir þeirri niðurstöðu, að nefndin sæi sér ekki fært að samþykkja erindið þar eð deiliskipulag lægi ekki fyrir.  Ákvörðun þessi var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 22. september 1998 og var kæranda tilkynnt um þessa niðurstöðu í málinu.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að unnt sé að heimila framkvæmdir án þess að deiliskipulag liggi fyrir.  Vísar kærandi til 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og 7. mgr. 43. greinar sömu laga.  Hafi það verið ætlun sveitarstjórnar að bera fyrir sig frestunarheimild ákvæðis 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 hefði þurft að rökstyðja hvers vegna það var gert og tilgreina hvernig umbeðin framkvæmd færi gegn fyrirhuguðu deiliskipulagi.  Ennfremur byggir kærandi á því að í erindi byggingarfulltrúa dags. 28. september 1998 sé ekki að finna rökstuðning fyrir ákvörðun bæjarstjórnar og verði að telja að umrædd afgreiðsla uppfylli ekki kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning sbr. og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Í umræddu erindi sé einungis tekið fram að ekki liggi fyrir deiliskipulag en ljóst sé að slíkt sé ekki nægjanlegt til synjunar útgáfu byggingarleyfis.  Eitthvað meira þurfi til að koma.  Í þegar byggðu hverfi hafi í raun komist á ákveðið „skipulag“ með þeim byggingum og notkun lands, sem heimiluð hafi verið.  Umræddur bílskúr standi á lóð kæranda og á árinu 1991 hafi verið veitt byggingarleyfi til stækkunar hans.  Ekki verði séð að forsendur hafi breyst verulega síðan þá né heldur að fyrirhuguð bygging fari gegn þeirri byggð, sem fyrir sé á svæðinu.  Það séu því engar forsendur til þess að beita umræddri frestunarheimild í máli þessu.  Þá vitnar kærandi til skrifa formanns bæjarráðs Kópavogs um vinnubrögð við skipulag og uppbyggingu Vatnsendasvæðisins máli sínu til stuðnings.  Kærandi telur að fallast beri á kröfu sína þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að ekki séu forsendur til þess að beita ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Málsrök byggingarnefndar:  Í greinargerð byggingarnefndar um kæruefnið dags. 15. desember 1998 er gerð grein fyrir aðdraganda málsins.  Telur byggingarnefnd að kærandi hafi verið upplýstur um efni málsins með afgreiðslu skipulagsnefndar 2. júní 1998.  Rökstuðningur byggingarnefndar sé með tilvísun til afgreiðslu skipulagsnefndar og telji byggingarnefnd hann fullnægjandi.

Nefndin telur ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem fjalli um niðurrif eða breytingar á húsum, ekki eiga við í málinu.  Bæjaryfirvöld hafi fram að þessu heimilað viðbyggingar við svonefnda ársbústaði sem séu hús sem búið sé í allt árið.  Hafi bæjarstjórn samþykkt reglur um byggingarmál í Vatnsendalandi á árinu 1987, þar sem m. a. sé talað um „viðurkennda ársbústaði“, en þessar reglur hafi ekki haft neitt lögformlegt gildi eða tilvísan í lagaheimildir.  Hafi þetta verið gert til þess að stemma stigu við óleyfisbyggingum og ná tökum á ástandi byggingarframkvæmda á svæðinu.

Þá segir í greinargerð byggingarnefndar að 3. tl. til bráðabirgða í lögum nr. 73/1997 fjalli um heimild til einstakra framkvæmda utan skipulags en sveitarstjórn sé ekki skylt að verða við slíku.  Að því er varðar ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 þá taki það til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag sé ekki fyrir hendi.  Þar sé átt við skipulagða byggð frá fyrri tíð þegar deilskipulagsskyldan hafi ekki verið til í lögum.  Byggðin í Vatnsenda sé ekki skipulögð byggð heldur strjál og sundurleit og flest hús þar byggð í óleyfi á eftirstríðsárunum, upphaflega sem sumarhús.  Byggðina verði að skilgreina í samræmi við 2. mgr. 5. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, þar sem leyfðar hafi verið einstakar framkvæmdir. 

Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé skýrt kveðið á um að allt land skuli deiliskipulagt  og hafi verið horfið frá því að vinna eftir fyrrgreindum reglum um byggingarmál í Vatnsendalandi.  Búið sé að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta svæðisins en eign kæranda liggi utan þess hluta.

Fráleitt sé að hægt sé að skilgreina umrædda byggð í samræmi við 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og telji byggingarnefnd sig hafa haft lagaforsendur til þess að synja erindi kæranda.

Að því er varðar tilvitnun í hugleiðingar formanns bæjarráðs fyrir síðustu kosningar  er tekið fram að þar sé hann að fjalla um þegar samþykkt deiliskipulag og væntanlegt deiliskipulag.  Hann sé þar að reifa hugmyndir sínar um framtíðina en ekki samþykktar skipulagsáætlanir bæjaryfirvalda.

Umsögn Skipulagsstofnunar: Úrskurðarnefndin leitaði álits Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Í umsögn stofnunarinnar er á það bent að það sé ekki fortakslaus skylda að til grundvallar byggingarleyfi liggi deiliskipulag, þó það sé meginreglan. Sérstaklega eigi þetta við um minni háttar framkvæmdir eins og stækkun bílskúrs, sem áður hefur verið veitt leyfi fyrir. Er vísað til ákvæða 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í þessu sambandi sbr. 7. mgr. 43. greinar sömu laga.

Þá er á það bent að skv. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri byggingarnefnd að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast.  Telur Skipulagsstofnun að rökstuðningur byggingarnefndar Kópavogs, að nefndin sjái sér ekki fært að samþykkja erindið þar eð deilskipulag liggi ekki fyrir, sé ekki fullnægjandi þar sem deiliskipulagsskyldan sé ekki fortakslaus í þegar byggðum hverfum.  Beri því að leggja fyrir byggingarnefnd Kópavogs að taka málið fyrir að nýju  og færa frekari rök fyrir niðurstöðu sinni, m. a. um það hvaða forsendur það séu á viðkomandi svæði sem leiði til þess að nefndin telji ekki unnt að vísa málinu til skipulagsnefndar og láta fara fram grenndarkynningu sbr. 2. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort byggingarnefnd hafi verið  rétt að synja umsókn um byggingarleyfi á þeirri forsendu að deiliskipulag hafi ekki verið fyrir hendi.  Kemur því m.a. til skoðunar við úrlausn málsins hver sé réttur umsækjanda um byggingarleyfi við slíkar kringumstæður. 

Í eignarréttindum að fasteign felast réttindi til umráða og hagnýtingar eignarinnar, þar á meðal réttur til byggingar mannvirkja á lóð eða landi.  Þessum réttindum eru þó settar ýmsar almennar skorður í lögum, m.a. í skipulags- og byggingarlögum, en með þeim er stjórnvöldum fengið víðtækt vald til þess að taka ákvarðanir um þróun byggðar, landnotkun og gerð og fyrirkomulag einstakra mannvirkja.  Í samræmi við heimildir eignarréttarins og þau markmið, sem sett eru fram í 1. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, verður að telja það meginreglu að veita beri landeiganda eða lóðarhafa byggingarleyfi samkvæmt umsókn enda sé fyrirhuguð framkvæmd í samræmi við gildandi byggingar- og skipulagslöggjöf og skipulag á viðkomandi svæði og raski ekki rétti annarra.

Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var lögfest skylda til að gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Það var þó greinilega ekki ætlun löggjafans að girða með öllu fyrir veitingu byggingarleyfa þar sem deiliskipulag hefur ekki verið samþykkt, enda ljóst að langan tíma getur tekið að ljúka gerð aðal- og deiliskipulags á landinu öllu eftir því sem við á og að er stefnt með nefndum lögum.  Verður þetta m.a. ráðið af ákvæði til bráðabirgða í niðurlagi laganna þar sem fram kemur að sveitarfélögum eru ætluð 10 ár frá gildistöku laganna til þess að ljúka gerð aðalskipulags svo og að sveitarstjórn getur leyft einstakar framkvæmdir án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.  Þá er í 2. mgr. 23. greinar laga nr. 73/1997 sjálfstæð heimild til þess að veita byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum enda þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, en áskilin er þá sérstök málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.

Enda þótt ákvæði 2. mgr. 23. greinar lagan nr. 73/1997 sé að formi til heimildarákvæði verður ekki talið að sveitarstjórn sé í sjálfsvald sett að ákveða hvort veita beri byggingarleyfi á grundvelli heimildarinnar eða ekki.  Er ljóst af ákvæði 7. mgr. 43. greinar laga nr. 73/1997 að byggingarnefnd ber við þessar aðstæður að vísa umsókn til skipulagsnefndar, sem fjalla skal um málið og hlutast til um grenndarkynningu, áður en umsóknin hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar en við þá afgreiðslu ber að líta til réttar umsækjanda og skal þess gætt að sá réttur verði ekki fyrir borð borinn sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1997.

Í máli því sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að samkvæmt gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði.  Þar er þegar fyrir nokkur byggð og hafa einstök hús á svæðinu verið samþykkt til íbúðar, m. a. hús kæranda.  Þá liggur fyrir að áður hafði verið veitt leyfi til stækkunar umrædds skúrs á lóð kæranda en að það byggingarleyfi hafði ekki verið nýtt innan lögmælts frests og því fallið úr gildi.

Það er skoðun úrskurðarnefndarinnar að eins og atvikum er háttað í málinu hafi byggingarnefnd borið að fjalla um umsókn kæranda í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og taka að því búnu rökstudda ákvörðun um erindið sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Sá rökstuðningur skipulagsnefndar og byggingarnefndar, að ekki hafi verið unnt að fallast á erindi kæranda þar sem deiliskipulag lá ekki fyrir, telst ekki fullnægjandi, enda stendur það eitt, að deiliskipulag skorti, ekki í vegi fyrir því að umsókn kæranda hefði getað komið til efnislegrar afgreiðslu og eftir atvikum verið samþykkt.

Þar sem hin kærða ákvörðun var samkvæmt framansögðu ekki studd viðhlítandi rökum  verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi en jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd Kópavogsbæjar að taka umsóknina til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu erindisins í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 16. september 1998 um að hafna umsókn J um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs að Vatnsendabletti 102, Kópavogi er felld úr gildi.  Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu erindis hans í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

35/1998 Hafnarstræti

Með

Ár 1998, miðvikudaginn 16. desember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/1998;  kæra V, eiganda eignarhuta á 1. hæð Hafnarstrætis 20, Reykjavík, vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. september 1998 um að heimila breytingar á innréttingum 3. hæðar hússins.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 13. október 1998 kærir V, Brekkutanga 1, Mosfellsbæ ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. september 1998 um að heimila breytingar á innréttingum 3. hæðar Hafnarstrætis 20, Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 15. september 1998.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.   

Málavextir:  Kærandi er eigandi að tæplega 60 fermetra húsnæði, auk sameignarhluta, á 1. hæð í húsinu nr. 20 við Hafnarstræti í Reykjavík.  Hefur kærandi átt eignarhluta þennan frá árinu 1978.  Eignaskiptasamningur var gerður um eignina hinn 30. nóvember 1978 og var honum þá þinglýst. 

Hinn 5. desember 1996 voru lögð fram á húsfundi drög að nýjum eignaskiptasamningi fyrir eignina. Lýsti kærandi sig mótfallinn fyrirhuguðum breytingum en eigendur 9 eignarhluta, samtals 75,98% eignarinnar, voru breytingunum samþykkir.  Fulltrúar tveggja eignarhluta sátu hjá. Í framhaldi af niðurstöðu fundarins sótti húsfélagið um leyfi fyrir breytingum á húsnæðinu til samræmis við þessi drög en synjað var um leyfi til breytinganna á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 12. desember 1996.  Varð ekki af endurskoðun eignaskiptasamnings fyrir húsið eftir þetta.

Á fundi í húsfélagi Hafnarstrætis 20 hinn 23. júlí 1998 var fjallað um fyrirhugaðar breytingar á 3. hæð hússins.  Mótmælti kærandi þessum breytingum og lýsti þeirri skoðun sinni að þær yrðu ekki gerðar án samþykkis síns, enda væri með þeim verið að færa hluta af sameign hússins undir séreignarhluta eins af eigendum þess.  Jafnframt væri verið að hindra að brunavörnum hússins yrði komið í það lag sem byggingarnefnd hefði krafist. Fyrirliggjandi tillaga var samþykkt á fundinum með atkvæðum allra fundarmanna að frátöldu mótatkvæði kæranda og atkvæði fulltrúa 2,02% eignarhluta, sem sat hjá.  Tillögur þessar að breytingum á  3. hæð komu enn til umræðu á fundi í húsfélaginu hinn 20. ágúst 1998 og voru þá samþykktar af öllum fundarmönnum en  kærandi var ekki á þeim fundi og er ágreiningur um það í málinu hvort hann hafi verið boðaður til fundarins með lögmætum hætti.

Með umsókn dags. 19. ágúst 1998 sótti Hafnarstræti 20 ehf. um byggingarleyfi fyrir umræddum breytingum og var umsóknin samþykkt á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 10. september 1998. Var ákvörðun byggingarnefndar staðfest á fundi borgarráðs hinn 15. september 1998.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að samþykki allra eigenda fasteignarinnar að Hafnarstæti 20 hefði þurft til að samþykkja hefði mátt hina umdeildu breytingu.  Vísar kærandi í þessu efni til 4. mgr. 35. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sbr. 9. tl. 41. gr. sömu laga.  Þá vísar kærandi til 19. gr. laga nr. 26/1994 um þrönga heimild húsfélags til samningsráðstafana um hluta sameignar.  Bendir hann á að ekki hafi verið gengið frá samningi um kaup og sölu á sameign á 3. hæð og telur því að ákvæði 19. gr. fjöleignarhúsalaga eigi ekki við um deiluefnið.

Kærandi telur ennfremur að yfirlýsing umsækjanda um að bæta hugsanlegan kostnað og eignarskerðingu, sem hin umdeilda breyting kunni að leiða til, ekki geta skert þá réttarvernd sem tilvitnuð ákvæði fjöleignarhúsalaga veiti eigendum einstakra eignarhluta.  Hafi ábyrgðaryfirlýsingin ekki leyst byggingarnefnd undan þeirri skyldu að leggja sjálfstætt mat á það hvort umrædd lagaákvæði hefðu átt að hindra framgang umsóknar Hafnarstrætis 20 ehf.  Kærandi kveður það ljóst að samþykkt byggingarnefndar valdi því að þinglýstar hlutfallstölur um sameign breytist.  Telur kærandi að eðlilegast hefði verið og lögum samkvæmt að byggingarnefnd fjallaði ekki um umsóknina fyrr en fyrir lægju nákvæmar upplýsingar um stærð sameignar á 3. hæð fyrir og eftir fyrirhugaðar breytingar, formlega hefði verið gengið frá sölu á sameigninni og nýjum eignaskiptasamningi með réttum hlutfallstölum þinglýst.

Kærandi telur líklegt að breyting á brunavörnum og flóttaleiðum á 3. hæð hússins kalli á breytingar á 1. hæð.  Hefði verið eðlilegra að taka ekki afstöðu til umbeðinna breytinga á 3. hæð fyrr en samþykktar tillögur um heildarlausn á brunavörnum hússins hefðu legið fyrir.  Einnig telur kærandi að eðlilegra hefði verið að þess hefði verið krafist af byggingarnefnd að vesturendi 3. hæðar yrði lagfærður til samræmis við samþykkta teikningu að húsinu eða að einnig hefði verið lögð fram umsókn um breytingar á vesturenda 3. hæðar, sem einnig er í eigu umsækjanda, áður en umsóknin kæmi til umfjöllunar í byggingarnefnd. 

Loks er því haldið fram að byggingarnefnd hafi borið að gefa kæranda kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina áður en ákvörðun var tekin í málinu og hafi byggingarnefnd brotið gegn ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með vanrækslu sinni í þessu efni.

Málsrök byggingarnefndar og byggingarleyfishafa: Í greinargerð byggingarnefndar Reykjavíkur um kæruefni máls þessa er gerð grein fyrir byggingarsögu hússins að Hafnarstræti 20.  Kemur þar fram, að húsið hafi upphaflega verið þrjár hæðir byggt samkvæmt uppdráttum samþykktum í byggingarnefnd þann 22. desember 1977 en fjóða hæðin hafi verið byggð síðar og hafi teikningar að henni verið samþykktar 28. febrúar 1985.  Hafi verið gerður viðauki við eignaskiptasamning eigenda frá 30. nóvember 1977 eftir byggingu fjórðu hæðarinnar og hafi þeim viðauka verið þinglýst 26. janúar 1986.  Hinn 29. apríl 1993 hafi verið samþykkt breyting á innréttingum 2. hæðar, sem haft hafi í för með sér minnkun sameignar, og hafi enginn eigenda mótmælt þeirri breytingu.  Loks hafi verið samþykkt breyting á innréttingum 3. hæðar á fundi byggingarnefndar hinn 10. september 1998 en þær breytingar feli ekki í sér minnkun á sameiginlegu rými á hæðinni heldur einungis tilfærslu þess.  Með þessum breytingum hafi og verið fullnægt kröfum um brunavarnir á hæðinni auk þess sem breytingarnar séu til mikilla bóta fyrir eigendur séreignarhluta á hæðinni án þess að skerða aðgengi eða umferð um sameign í miðrými hússins.  Hafi mikill meiri hluti eigenda hússins verið þessum breytingum meðmæltur en kærandi einn andvígur þeim.  Sé það álit byggingarnefndar að umræddar breytingar falli undir 2. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þar sem áskilið er samþykki 2/3 hluta húseigenda fyrir óverulegum breytingum á sameign.  Þar sem tilskilið samþykki hafi legið fyrir og hvorki hafi verið sýnt fram á að  það hafi verið fengið með ólögmætum hætti né að efnisannmarkar séu á samþykkt byggingarnefndar séu ekki neinar forsendur til niðurfellingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að kærandi geri allt aðrar og strangari kröfur til sameigenda sinna en sjálfs sín.  Þannig hafi hann talið sér heimilt að víkja frá samþykktum teikningum við breytingar á eigin eignarhluta en telji aðra eigendur þurfa samþykki sitt fyrir sambærilegum breytingum.  Þá sé óljóst hvaða hagsmuni kærandi telji sig vera að verja með kæru sinni.  Hafi hann aldrei skilgreint hvaða kröfur hann geri til eignar á 3. hæð hússins né haft uppi kröfur af því tilefni.  Þá sé kærandi bundinn af ályktun húsfundarins hinn 20. ágúst 1998 þar sem hinar umdeildu breytingar hafi verið samþykktar en fyrir liggi viðurkenning kæranda á því að hann hafi verið boðaður til þess fundar.  Ennfremur telur byggingarleyfishafinn að hinar umdeildu breytingar hafi verið minni háttar og því heimilar án samþykkis allra eigenda skv. 2. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús.  Hefði þannig engu máli skipt um þá niðurstöðu þótt kærandi hefði verið á fundinum hinn 20. ágúst 1998 og greitt þar atkvæði gegn tillögu að breytingunum.  Þær málsástæður kæranda sem lúti að brunavörnum hússins telur byggingarleyfishafi óljósar.  Telur leyfishafinn að ekki sé sýnt að breytingarnar á 3. hæð leið til þess að breyta þurfi brunavörnum á 1. hæð með þeim hætti að raskað sé hagsmunum kæranda og séu hugleiðingar kæranda um þetta ekki á rökum reistar.  Loks er tekið fram að eigendur 3. hæðar hafi um árabil einir staðið straum af kostnaði við hæðina og verði svo framvegis.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar kemur fram að einungis sé gert ráð fyrir óverulegum breytingum miðað við það fyrirkomulag sem í raun var fyrir á 3. hæð.  Þá megi ráða af teikningum að heildarflatarmál sameiginlegs rýmis á 3. hæð hafi ekki minnkað frá því sem gert hafi verið ráð fyrir á upphaflegum uppdrætti.  Telur stofnunin að með vísun til 2. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 geti breytingin ekki talist veruleg og því hafi legið fyrir samþykki nægilegs fjölda húseigenda fyrir breytingunni.  Verði að líta til þess að öll þriðja hæðin sé í eigu leyfishafa og að breytingarnar skerði ekki möguleika annarra eigenda hússins til umferðar um það.  Stofnunin telur ekki að bættar brunavarnir í austurenda 3. hæðar kalli á frekari breytingar á 1. hæð en þær bættu brunavarnir í öllu húsinu, sem byggingarnefnd hefur þegar gert kröfur um.  Stofnunin tekur undir ábendingar byggingarfulltrúans í Reykjavík um nauðsyn þess að leggja fram uppdrætti er sýni eignaskiptingu og að gera skráningartöflu af öllu húsinu svo m. a. verði skorið úr um mörk sameignar og séreignar.  Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að ekki beri að verða við kröfum kæranda í málinu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er kærandi eigandi að eignarhluta á 1. hæð Hafnarstrætis 20.  Í þinglesnum sameignar- og eignaskiptasamningi um húseignina dags. 30. nóvember 1977 er eignarhlutfall kæranda í húsinu öllu og lóð þess sagt vera 4,77% en þetta hlutfall mun hafa lækkað við tilkomu 4. hæðar án þess að þinglesnum eignarhlutföllum hafi verið breytt.  Af fundargerðum húsfélagsins verður hins vegar ráðið að eignarhlutfall kæranda í allri húseigninni er nú talið 3,65%.  Í 2. grein áðurnefnds sameignar- og eignaskiptasamnings frá  30. nóvember 1977 er eignarhlutum eigenda nánar lýst og er þar gerð grein fyrir eignarhaldi hverrar hæðar fyrir sig.  Segir þar að kærandi eigi á 1. hæð 58,05 fermetra séreignarhluta og 12,01 fermetra í sameign. Svarar þetta rými samanlagt til 4,77% eignarhluta í heildareigninni. 

Eins og 2. grein samningsins er orðuð er nærtækt að leggja í hana þann skilning að sameiginlegt rými á hverri hæð sé sérstök sameign eigenda hæðarinnar og að sameignarrými tilheyrandi kæranda sé því allt á 1. hæð hússins.  Sé sameign hverrar hæðar þannig sameign sumra sbr. nú 1. tl. 1. mgr. 7. gr. laga um  fjöleignarhús nr.  26/1994.  Í 3. grein sameignar- og eignaskiptasamningins er hins vegar kveðið á um það að húsfélag eignarinnar annist sameiginlegan rekstur hússins og að kostnaði af rekstri og sameiginlegu viðhaldi skuli skipt eftir eignarhlutföllum skv. 1. grein.  Þykir þetta leiða til þess að líta verði á sameign hússins í heild sem sameign allra enda þótt ráða megi af ákvæði 2. greinar samningsins að eigendum séreignarhluta hverrar hæðar hafi verið ætlað aukið forræði á sameign viðkomandi hæðar. 

Af gögnum málsins verður ráðið að sameiginlegu rými í húsinu hefur verið breytt nokkuð frá því sem samþykktir uppdrættir frá 1977 gera ráð fyrir.  Hafa þessar breytingar sumar hverjar verið gerðar með samþykki byggingarnefndar, t. d. á 2. hæð, en aðrar ekki.  Er t.d. ljóst að á 3. hæð höfðu verið gerðar nokkrar breytingar á sameignarrými áður en sótt var um byggingarleyfi það sem um er deilt í máli þessu.  Hafði stigagangur í miðrými hæðarinnar verið breikkaður til vesturs og salernum komið fyrir í norðurenda miðrýmis.  Við þessar breytingar hefur verið gengið á séreignarrými í vesturenda hæðarinnar og hluti þess lagður undir sameignarrými.  Ekki verður séð af málsgögnum að þessar breytingar hafi sætt andmælum kæranda eða annarra eigenda eignarhluta í húsinu. 

Með breytingum þeim, sem sótt var um og leyfðar voru með hinni kærðu ákvörðun, er að hluta til verið að samþykkja þessar áður gerðu breytingar.  Að auki er nokkurt húsnæði, sem áður var hluti sameignarrýmis, sameinað séreignarhluta í austurenda og jafnframt gengið frá eldvarnarveggjum sem skipta hæðinni í tvö aðskilin brunahólf.  Eftir breytingar þessar virðist flatarmál sameignar á hæðinni lítið eitt stærra en var samkvæmt sameignar- og eignaskiptasamningi eigenda frá 1977.  Ekki verður séð að breyting þessi hafi í för með sér óhagræði fyrir húseigendur eða að hún leiði af sér að gera þurfi breytingar á brunavörnum 1. hæðar umfram þær, sem hvort eð er hefði þurft að gera.

Ákvæði 19. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 eiga ekki við í máli þessu enda felst ekki í hinni umdeildu breytingu ráðstöfun húsfélags á grundvelli löggernings en um slíkar samningsbundnar ráðstafanir er fjallað í 19. grein laganna.  Hins vegar er um að ræða breytingar á fyrirkomulagi og afmörkun sameignar frá því sem gert var ráð fyrir á upphaflegum samþykktum uppdráttum og er um slíkar breytingar fjallað í 30. grein laganna.  Samkvæmt 2. mgr. 30. greinar verða slíkar breytingar samþykktar með  atkvæðum 2/3 hluta eigenda, teljist breytingarnar ekki verulegar. 

Breytingar þær, sem heimilaðar voru með hinni kærðu samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur, verða að mati úrskurðarnefndarinnar ekki taldar verulegar.  Við mat á þessu er m.a. haft í huga að mörk sameignar og séreignarhluta í húsinu virðast lengi hafa verið nokkuð á reiki og að ekki hefur verið lokið gerð nýs skiptasamnings um eignina enda þótt augljós þörf hafi verið á gerð hans. Var því heimilt að taka ákvörðun um hinar umdeildu breytingar á húsfélagsfundi með auknum meirihluta atkvæða svo sem gert var. 

Ekki verður fallist á það með kæranda að við meðferð málsins hjá byggingarnefnd hafi verið brotið gegn ákvæði 13. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt enda lágu fyrir byggingarnefnd gögn sem ótvírætt lýsa afstöðu kæranda til málsins, m. a. bókun hans á húsfélagsfundi hinn 23. júlí 1998.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hafna beri kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, V, um að ógilt verði ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. september 1998 um að veita leyfi til breytinga á innréttingum austurenda og miðrýmis 3. hæðar Hafnarstrætis 20, Reykjavík.

32/1998 Skólavörðustígur

Með

Ár 1998,  þriðjudaginn 8. desember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/1998, kæra Háspennu ehf. vegna ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 28. júlí 1998 um að fresta afgreiðslu erindis kæranda um að borgarráð hlutist til um að leyfi til breytinga á fasteigninni Skólavörðustíg 6, Reykjavík verði veitt nú þegar og að teikningar verið síðan afgreiddar á næsta fundi byggingarnefndar Reykjavíkur  og vegna ákvörðunar borgarráðs frá 29. september 1998 um að synja erindi kæranda um endurskoðun fyrri ákvörðunar ráðsins.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 30. september 1998, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ólafur Garðarsson hrl., f.h. Háspennu ehf., ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. júlí 1998 um að fresta afgeriðslu erindis kæranda um að borgarráð hlutist til um að leyfi verið veitt til framkvæmda við breytingar á húsnæði að Skólavörðustíg 6 og ákvörðun borgarráðs frá 29. september 1998 um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku málsins og endurskoðun á fyrri afstöðu.   Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og „að lagt verði fyrir kærða að afgreiða erindi kæranda í samræmi við lög og reglur.“  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Málavextir:  Þann 11. júlí 1997 tók kærandi á leigu húsnæði að Skólavörðustíg 6 í Reykjavík.  Hugðist hann hefja þar rekstur sjálfvirkra happdrættisvéla og hóf undirbúning starfseminnar, m.a. að breytingum á húsnæðinu.  Íbúar að Skólavörðustíg 6b munu hafa haft spurnir af þessum áformum og rituðu af því tilefni bréf til borgarráðs og skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur hinn 24. júní 1997 þar sem þeir mótmæltu fyrirhugaðri starfsemi kæranda á þessum stað.  Var bréf þetta sent borgarráði sem fylgiskjal með bréfi dags. 1. júlí 1997.  Frekari mótmæli bárust með bréfi íbúa að Skólavörðustíg 5 til borgarráðs dags. 23. september 1997 og fylgdu því undirskriftarlistar með mótmælum allmargra verslunareigenda, húseigenda og íbúa við neðri hluta Skólavörðustígs og í næsta nágrenni.  Eru undirskriftir 41 talsins á listunum.

Hinn 30. september 1997 ritaði Gunnar Eydal hrl., skrifstofustjóri borgarstjórnar, minnisblað til borgarráðs þar sem m.a. kemur fram að á svæði því sem hér um ræðir sé leyfð verslun og þjónusta og falli fyrirhuguð starfsemi þar undir.  Eigi að sérgreina þá notkun frekar þurfi ákvörðun borgarráðs, sem þá myndi ná til tiltekinna svæða, en slík stefna hafi ekki verið mörkuð.  Áðurnefnd mótmæli og minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar komu til umræðu á fundi borgarráðs hinn 30. september 1997.  Kom þar fram að ráðið teldi rekstur sjálfvirkra happdrættisvéla, ef fyrirhugaður væri, afar óæskilegan á þessum stað og samþykkti borgarráð að kynna það sjónarmið viðkomandi aðilum. Var framkvæmdastjóra Happdrættis Háskóla Íslands kynnt þessi afstaða með bréfi borgarstjóra dags. 1. október 1997 en H.H.Í. er eigandi þeirra happdrættisvéla sem kærandi hugðist reka á umræddum stað.  Af hálfu H.H.Í. var talið að ráða mætti af bréfinu að misskilnings gætti um eðli reksturs happdrættisvélanna og fordóma í hans garð, sem nauðsynlegt væri að leiðrétta, og var lögmanni H.H.Í., Gesti Jónssyni hrl., falið að svara bréfi borgarstjóra.  Ritaði lögmaðurinn bréf til borgarstjóra  dags. 7. október 1997 þar sem sjónarmið H.H.Í. eru skýrð og m. a. tekið fram að rekstraraðili hafi hvorki í hyggju að hafa vínveitingar á staðnum né að óska leyfis til starfsemi að næturlagi.  Sé því ekki ástæða til þess fyrir hagsmunaaðila í grenndinni að hafa áhyggjur af því að reksturinn trufli aðra starfsemi á svæðinu.  Í bréfinu er og lýst þeirri skoðun að fyrirhugaður rekstur teljist til þeirrar starfsemi sem leyfð sé á svæðinu og því innan þeirra marka sem hagsmunaaðilar þar verði að sætta sig við.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að bréfi lögmannsins hafi verið svarað og hélt kærandi áfram undirbúningi fyrirhugaðrar starfsemi.  Hinn 6. maí 1998 var lögð fram hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík umsókn þinglýsts eiganda fasteignarinnar nr. 6. við Skólavörðustíg þar sem sótt var um leyfi til þess að gera þær breytingar á húsnæðinu, sem kærandi áformaði að gera.  Er á umsóknarblaði tilgreint að sótt sé um leyfi til breytinga á innréttingu, setja hringstiga á milli hæða, nýtt salerni og setja upp skilti.  Á teikningum, sem fylgdu umsókninni, eru umræddar breytingar sýndar, en á teikningunum kemur jafnframt fram að fyrirhugað er að innrétta spilasali á 1. og 2. hæð og koma fyrir 16 spilakössum (happdrættisvélum) í hvorum sal.  Umsókn þessi var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. maí 1998.  Var afgreiðslu málsins frestað og málinu vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar og var umsækjanda tilkynnt þessi ákvörðun með bréfi dags. 13. maí 1998.  Með bréfi byggingarfulltrúa dags. 12. maí 1998 til kæranda var honum tjáð að framkvæmdir við breytingar á eigninni hefðu verið stöðvaðar með vísun til 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem ekki hefði verið samþykkt leyfi til breytinganna.  Var þinglýstum eiganda eignarinnar sent afrit þessa bréfs.

Á fundi borgarráðs hinn 19. maí 1998 var ítrekuð fyrri afstaða ráðsins í málinu og mun kærandi í framhaldi af því hafa óskað eftir fundi með formanni borgarráðs um málið.  Munu forsvarsmenn kæranda eftir þetta hafa átt í viðræðum og bréfaskriftum við fulltrúa borgarinnar um málið en á fundi borgarráðs hinn 28. júlí 1998 var lögð fram umsögn borgarskipulags frá 30. júní 1998 um erindi kæranda.  Samþykkti borgarráð á fundinum að fela Borgarskipulagi að flýta endurskoðun deiliskipulags reitsins og frestaði afgreiðslu erindis kæranda með vísun til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var lögmanni kæranda tilkynnt um þessa ákvörðun með bréf dags. 28. júlí 1998.

Kærandi vildi ekki una þessum málalokum og ritaði lögmaður hans bréf til borgarráðs dags. 9. september 1998, þar sem hann óskaði þess að borgarráð endurskoðaði fyrri afstöðu sína og færði fram rök fyrir erindinu.  Jafnframt beindi lögmaður H.H.Í. rökstuddri áskorun sama efnis til borgarráðs með bréfi dags. 8. september 1998.  Erindi þessi voru tekin fyrir á fundi borgarráðs hinn 29. september 1998.  Var á fundinum lögð fram umsögn borgarlögmanns um erindi lögmannanna dags. 28. september 1998 og var erindunum hafnað með vísun til umsagnarinnar.  Að fenginni þessari niðurstöðu skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með kæru dags. 30. september 1998.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er í fyrsta lagi á því byggt að skilyrði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 séu ekki fyrir hendi og hafi því ekki verið heimilt að fresta afgreiðslu erindis hans með vísan til þess ákvæðis.  Ákvæðið eigi einungis við í þeim tilvikum þar sem deiliskipulag hefur ekki verið samþykkt.  Þó verði ákvæðinu beitt þar sem deiliskipulag er í gildi ef breytingar á því standa yfir eða ef setja á ákvæði um hverfisvernd í deiliskipulag.  Í tilviki því, sem hér um ræðir, sé í gildi deiliskipulag, breytingar á því hafi ekki staðið yfir og aldrei hafi verið á það minnst að setja ætti ákvæði um hverfisvernd í það deiliskipulag, sem fyrir er.   Umrætt ákvæði sé íþyngjandi og beri að skýra þröngt.  Sé ljóst að skilyrði þess að beita megi ákvæðinu hafi ekki verið fyrir hendi.

Í öðru lagi er því haldið fram af hálfu kæranda að ákvæði 6. mgr. 43. gr. l. 73/1997 eigi ekki við um þau tilvik þegar sótt er um óverulegar breytingar innanhúss.  Eigi heimildin einungis við þegar sótt er um leyfi til niðurrifs eða breytinga á húsi að utan.  Vitnar kærandi til nefndarálits umhverfisnefndar Alþingis um ákvæðið þar sem segir að það sé sett að norskri fyrirmynd og vegna tveggja nýgenginna úrskurða umhverfisráðherra um niðurfellingu á synjun byggingarnefndar Reykjavíkur um heimild til niðurrifs á húsum.  Telur kærandi að af lögskýringargögnum verið ráðið að  einungis hafi vakað fyrir löggjafanum að heimila frestun á afgreiðslu umsókna um niðurrif eða verulegar útlitsbreytingar á húsi.

Loks vísar kærandi til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Um kærufrest bendir kærandi sérstaklega á það að óskað hafi verið endurskoðunar á ákvörðun borgarráðs frá 28. júlí 1998 og beðið svars við því erindi en að málinu hafi verið vísað til úrskurðarnefndarinnar þegar í stað eftir að beiðni kæranda um endurskoðun hafði verið hafnað.

Málsrök borgaryfirvalda:   Af hálfu borgaryfirvalda er ágreiningur í máli þessu fyrst og fremst sagður lúta að túlkun á ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Er áréttað að borgaryfirvöld hafi litið svo á að í áformum kæranda hafi falist breyting á notkun húsnæðis eins og ráða megi af málsgögnum og hafi því ekki einungis verið um að tefla óverulegar breytingar innanhúss.  Umrætt húsnæði hafi verið byggt og samþykkt sem verslunarhúsnæði.  Húsið standi við eina aðalverslunargötu borgarinnar og hafi verið nýtt til verslunarreksturs en sú starfsemi falli vel inn í þá götumynd og aðra starfsemi, sem fyrir sé á svæðinu.  Rekstur spilasala verði ekki flokkaður undir almenna verslun, t.a.m. með tilliti til laga nr. 41/1968 um verslunaratvinnu. sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga.  Jafnframt hafi starfsemin það í för með sér að byrgja verði glugga með einhverjum hætti og breyti það yfirbragði hússins og götumyndinni. 

Þá er á það bent, að endurskoðun miðborgarkafla Aðalskipulags Reykjavíkur 1996 – 2016 hafi hafist á árinu 1997 og hafi staðið yfir þegar umsókn um breytingar að Skólavörðustíg 6 hafi borist í maí 1998.  Þessi vinna við endurskoðun aðalskipulags sé nauðsynleg forsenda þess að leggja fram endurskoðað deiliskipulag reitsins.  Verði því að líta svo á að í raun hafi staðið yfir breytingar á deiliskipulagi miðborgarsvæðisins og þar með neðri hluta Skólavörðustígs.

Af hálfu borgaryfirvalda er hafnað þeim sjónarmiðum kæranda að ákvæði 6. mgr. 43. gr. beri að skýra þröngt og með þeim hætti sem kærandi heldur fram.  Ákvæðið taki berum orðum til breytinga á húsi og hefði löggjafanum verið í lófa lagið að orða ákvæðið á annan veg ef ætlunin hefði verið að takmarka heimildina við verulegar útlitsbreytingar eða ytri breytingar.  Bent er á að í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 séu tilgreindar þær breytingar á húsi sem byggingarleyfi þurfi til og séu þar m.a. nefndar breytingar á formi, svipmóti og notkun húss.  Sé fráleitt að ætla að orðalagi 6. mgr. 43. gr. „breytingar á húsi“ sé ætlað að hafa miklu þrengra gildissvið en 1. mgr. gerir ráð fyrir þrátt fyrir að upptalning 1. mgr. sé ekki endurtekin í 6. mgr. Því hafi verið litið svo á að umrædd frestunarheimild 6. mgr. 43. gr. geti einnig tekið til breytinga á notkun húsnæðis.

Loks er áréttað af hálfu borgaryfirvalda að jafnvel þótt einungis væri um að ræða breytingu innanhúss teldist slík breyting falla undir ákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 enda um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir að ræða sbr. 1. mgr. 11. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Telja borgaryfirvöld að samkvæmt framansögðu beri að hafna kröfum kæranda í málinu.

Umsögn Skipulagsstofnunar: Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um álitaefni máls þessa með vísan til e liðar 4. gr. laga nr. 73/1997.  Segir í umsögn stofnunarinnar að starfsemi kæranda sé í samræmi við greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur 1996 – 2016 um miðborg/miðhverfi þar sem leyfð sé blönduð starfsemi.  Þá sé í gildi deiliskipulag fyrir viðkomandi svæði og sé þar gert ráð fyrir skrifstofum, verslun og þjónustu (atvinnuhúsnæði) og íbúðum.  Landnotkun fyrir Skólavörðustíg 6 sé þar ekki þrengd og sé því ekki fyrirhugað að breyta notkun hússins þar sem bæði fyrri notkun og sú fyrirhugaða sé verslun/þjónusta og í samræmi við aðalskipulag og staðfest deiliskipulag.

Þá telur stofnunin að með hliðsjón af tilurð og eðli frestunarheimildar 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga beri ekki að skýra ákvæðið svo rúmt að það taki til óverulegra breytinga innanhúss. Ákvæðið eigi fyrst og fremst við ef gera eigi breytingar á húsum, sem ástæða þyki að vernda, sem breyta kynnu götumynd.  Þó geti það einnig átt við ef um er að ræða breytingar á notkun, sem í grundvallaratriðum væri ólík fyrri notkun húss og um verulegar breytingar á húsnæði.

Telur stofnunin að byggingarnefnd hafi borið að taka afstöðu til umsóknar þeirrar sem um ræðir og afgreiða erindið efnislega.  Séu breytingar þær, sem um var sótt, óverulegar og geti ekki haft áhrif á hugsanlega endurskoðun á deilskipulagi á svæðinu.  Því hafi ekki verið eðlilegt að fresta afgreiðslu erindisins með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eins og gert hafi verið.

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin telur að jafvel þótt áhöld kunni að vera um það hvort kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests skv. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997  sbr. og 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mæli veigamiklar ástæður með því að kæran verði tekin til meðferðar eins og atvikum er háttað í málinu.  Verður málið því tekið til efnisúrlausnar með vísun til 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umsóknir um byggingarleyfi sæta meðferð samkvæmt ákvæðum í IV. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt 4. mgr. 43. greinar laganna skal senda skriflega umsókn um byggingarleyfi til hlutaðeigandi byggingarnefndar ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum eins og nánar greinir í tilvitnuðu ákvæði.  Samkvæmt 2. mgr. 38. greinar sömu laga er það í höndum byggingarnefnda að fjalla um byggingarleyfisumsóknir og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Samkvæmt  2. mgr. 39. greinar laganna skal byggingarnefnd rökstyðja afgreiðslu á erindum, sem henni berast, og skulu ákvarðanir nefndarinnar lagðar fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Í samræmi við þessar málsmeðferðarreglur lagði eigandi fasteignarinnar að Skólavörðustíg 6 umsókn fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 6. maí 1998 um leyfi til breytinga á eigninni vegna fyrirhugaðrar starfsemi kæranda.  Svo sem að framan er rakið var meðferð málsins frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. maí 1998 og því vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar.  Hefur erindið ekki hlotið frekari meðferð hjá embætti byggingarfulltrúa eða í byggingarnefnd.

Erindi það, sem borgarráð tók til meðferðar á fundi sínum hinn 28. júlí 1998, sýnist hafa verið erindi Ólafs Garðarssonar hrl. f.h. Háspennu ehf. til borgarráðs dags. 16. júlí 1998 þar sem þess er óskað að borgarráð hlutist til um að framkvæmdaleyfi verði þegar veitt vegna framkvæmda að Skólavörðustíg 6 og að teikningar verði síðan formlega afgreiddar á næsta fundi byggingarnefndar.  Ekki er unnt að líta á erindi þetta sem umsókn um byggingarleyfi enda hafði slíkri umsókn þá þegar verið beint til byggingarnefndar og var þar til meðferðar.  Hafði byggingarnefnd ekki ályktað um úrlausn málsins til borgarráðs svo sem skylt er skv. ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Af þessum sökum var borgarráði ekki heimilt að afgreiða erindi kæranda með vísun til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem gert var, en að áliti úrskurðarnefndarinnar verður ákvæði þessu einungis beitt þegar til meðferðar er tiltekin umsókn um leyfi til niðurrifs eða breytinga á húsi, sem sætt hefur lögbundinni málsmeðferð.  Svo var ekki í umræddu tilviki.
 
Þar sem ákvörðun borgarráðs frá 28. júlí 1998 um að fresta afgreiðslu erindis kæranda með vísun til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var, samkvæmt framansögðu, í andstöðu við reglur laga nr. 73/1997 um meðferð umsókna um byggingarleyfi, svo og almennar reglur stjórnsýslu um valdmörk og aðgreiningu valds, verður ekki hjá því komist að fella þá ákvörðun úr gildi.  Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að ljúka, án ástæðulauss dráttar, afgreiðslu umsóknar eiganda Skólavörðustígs 6 í samræmi við málsmeðferðarreglur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Með hinni kærðu ákvörðun borgarráðs frá 29. september 1998 var hafnað erindi kæranda frá 9. september 1998 um endurskoðun ákvörðunar ráðsins frá 28. júlí 1998.  Þar sem fyrrnefnd ákvörðun var ógild voru ekki efni til þess að ráðið endurskoðaði hana eða að það tæki nýja ákvörðun í málinu á fundi sínum hinn 29. september 1998 eins og það lá þá fyrir.  Þykir því ekki hafa þýðingu að taka afstöðu til kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna nefndarmanna.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs frá 28. júlí 1998 um að fresta afgreiðslu erindis kæranda um að borgarráð hlutist til um að kæranda verði veitt leyfi til framkvæmda við breytingar á fasteigninni nr. 6 við Skólavörðustíg og að teikningar verði samþykktar á næsta fundi byggingarnefndar.  Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að taka til efnislegrar meðferðar umsókn eiganda Skólavörðustígs 6 frá 6. maí 1998 um breytingar á eigninni, sem frestað var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. maí 1998 og vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar. 

30/1998 Laugavegur

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 12. nóvember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 30/1998; kæra eigenda og íbúa að Laugavegi 53a og Hverfisgötu 70, Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1998 um að veita leyfi til að byggja verslunar-, þjónustu- og íbúðarhús úr steinsteypu á lóðinni nr. 53b í Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 4. ágúst 1998, sem barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra eigendur/íbúar að Laugavegi 53a og Hverfisgötu 70, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1998, sem staðfest var á fundi borgarráðs í umboði borgarstjórnar hinn 14. júlí 1998, um að veita leyfi til byggingar verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúss á lóðinni nr. 53b við Laugaveg í Reykjavík.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá mælast kærendur að auki til þess að nefndin kveði á um einstök atriði er lúta að samráði, skipulagi og uppbyggingu á lóðinni, svo sem um skerðingu sólarbirtu, þakhæð o.fl. Tilmæli þessi telur nefndin falla utan verksviðs síns og er þeim því vísað frá nefndinni.  Kæruheimild er skv. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.   Kærendur gerðu jafnframt kröfu til þess að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi yrðu stöðvaðar.  Var þeirri kröfu kærenda hafnað með úrskurði nefndarinnar hinn 24. september 1998 en framkvæmdir voru þá nýlega hafnar.

Málavextir:  Tillögur að uppbyggingu á lóðinni nr. 53b við Laugaveg í Reykjavík munu fyrst hafa komið til umfjöllunar hjá byggingaryfirvöldum borgarinnar í ársbyrjun 1997 og voru  þær þá m.a. kynntar nágrönnum.  Sættu tillögurnar nokkrum breytingum og voru gerðar breytingar á teikningum af því tilefni.  Hinn 12. janúar 1998 var samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur, með vísun til ákvæðis 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að kynna nágrönnum nýja tillögu að uppbyggingu á lóðinni sem unnin hafði verið á grundvelli fyrri tillagna með hliðsjón af athugasemdum og ábendingum sem þá höfðu komið fram af hálfu nágranna.  Allmargar athugasemdir komu fram við grenndarkynningu hinnar nýju tillögu.  Var fjallað um þessar athugasemdir á fundi skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur hinn 23. mars 1998 ásamt umsögn Borgarskipulags um þær.  Var fyrirliggjandi tillaga að uppbyggingu á lóðinni samþykkt á fundinum með 5 atkvæðum gegn 2 en ítarlegar bókanir voru lagðar fram af hálfu tveggja nefndarmanna þar sem fram komu mismunandi viðhorf til málsins.  Málið var tekið til afgreiðslu á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 9. júlí 1998.  Voru á fundinum lagðar fram athugasemdir vegna kynningar málsins á vegum skipulags- og umferðarnefndar svo og skuggavarpskönnun Jons Kjell Seljeseth ds. 27. desember 1997, umsögn skipulags- og umferðarnefndar dags. 25. mars 1998 og önnur gögn, sem í fundargerð greinir.  Þá var lögð fram umsögn Borgarskipulags dags. 7. júlí 1998 en af þeirri umsögn má ráða að fyrirhuguð bygging á lóðinni hafi verið stækkuð um 42 fermetra frá því sem ráðgert var í þeirri tillögu, sem samþykkt hafði verið í skipulags- og umferðarnefnd.  Var umsókn um byggingarleyfi samkvæmt framlögðum teikningum samþykkt á fundinum og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.   Ákvörðun byggingarnefndar var staðfest á fundi borgarráðs hinn 14. júlí 1998. Með bréfi dags. 15. janúar 1998, höfðu kærendur áður kært ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar frá 15. desember 1997 varðandi uppbyggingu á lóðinni að Laugavegi 53b en þeirri kæru var vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði hinn 25. mars 1998 þar sem ekki var talið að um kæranlega ákvörðun hefði verið að ræða.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að með ákvörðun sinni í málinu hafi borgaryfirvöld brotið gegn ákvæði 3. mgr. 1. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 um markmið laganna.  Þá hafi ekki verið gætt ákvæða 10., 11. og 12. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins hjá byggingaryfirvöldum borgarinnar.  Ennfremur vísa kærendur til 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Telja kærendur að byggingaráform þau, sem samþykkt voru með hinum kærðu ákvörðunum, samræmist ekki aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 þar sem nýtingarhlutfall byggingarinnar sé hærra en gildandi aðalskipulag geri ráð fyrir en við útreikning nýtingarhlutfalls hafi verið óheimilt að undanskilja flatarmál bílgeymslu svo sem gert hafi verið af hálfu arkitekts hússins og byggingaryfirvalda. Vísa kærendur um þetta til ákvæðis 4.3.4. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985.  Telja þeir undanþáguákvæði 3. og 4. málsgreinar ákvæðisins ekki eiga við í því tilviki sem hér um ræðir þar sem svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt. Þá sé fyrirhuguð bílgeymsla að Laugavegi 53b. ekki kjallari samkvæmt skilgreiningu í grein 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og augljóst sé að hún muni draga að sér umferð.   Í nánari rökstuðningi kærenda kemur fram að þeir telji fyrirhugaða byggingu að Laugavegi 53b valda gífurlegum breytingum á umhverfi og muni þær breytingar valda kærendum tjóni.  Hafi byggingin í för með sér stórfellda birtuskerðingu og verulega hljóð- og loftmengun vegna aukinnar umferðar.  Hús kærenda séu hluti þyrpingar íbúðarhúsa í norðvesturhorni reits þess, sem afmarkast af Laugavegi, Frakkastíg, Hverfisgötu og Vitastíg og sé þessi húsaþyrping skilgreind sem jaðarsvæði.  Beri borgaryfirvöldum að tryggja ákveðin gæði íbúðarrýmis þar, m. a. varðandi sólarbirtu, sbr. 2. mgr. greinar 4.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985. Kærendur telja að unnt hefði verið að framfylgja markmiði aðalskipulags um uppbyggingu miðbæjarstarfsemi „án þess að samþykkt sé bygging við Laugaveg 53b sem hefur jafn eyðileggjandi áhrif á umhverfi nágranna og húsið sem byggja skal samkvæmt samþykktum teikningum mun hafa“.  Telja kærendur að markmiðinu hefði mátt ná með því að samþykkja byggingu sem ekki skerti hagsmuni þeirra í jafn ríkum mæli og raun ber vitni.  Hafi ákvarðanir byggingaryfirvalda því verið teknar í andstöðu við meðalhófsreglu skv. ákvæði 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.   Þá telja kærendur að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.  Þannig hafi verið krafist skriflegs samþykkis nágranna fyrir 30 fermetra viðbyggingu við Laugaveg 53a, sem sótt hafi verið um árið 1988, en við ákvörðun um hina umdeildu byggingu nú hafi verið látið nægja að kynna nágrönnum áform um hana en ekki verið áskilið samþykki þeirra.  Sé þó í síðarnefnda tilvikinu um miklu stórfelldari breytingu að tefla en í hinu fyrra.  Að því er varðar rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telja kærendur að byggingaryfirvöld hafi ekki gert þær athuganir á áhrifum hinnar umdeildu byggingar sem skylt hefði verið.  Til dæmis hefði þurft að gera samanburð á skuggavarpi eldri byggingar og hinnar nýju en það hafi ekki verið gert.  Loks gagnrýna kærendur málsmeðferð skipulags- og umferðarnefndar varðandi grenndarkynningu og halda því m. a. fram að skort hafi á samráð og samskipti við nágranna við umfjöllun nefndarinnar um málið. 

Málsrök byggingarnefndar og byggingarleyfishafa:  Í greinargerð skrifstofustjóra byggingarfulltrúa f. h. byggingarnefndar um kæruefnið er fyrst vikið að þeim ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærendur telja að brotið hafi verið gegn.  Telur byggingarnefnd að rannsóknarreglu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið gætt varðandi könnun á skuggavarpi.  Hafi bæði kærendur og Borgarskipulag látið gera könnun á þessum þætti  og sé það niðurstaða Borgarskipulags að sólarljós og birta verði fullnægjandi að fyrirhuguðu húsi byggðu og geti varla talist slæm miðað við hús á baklóð norðan við verslunargötu á miðbæjarsvæði.  Varðandi jafnræðisreglu 11. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er tekið fram að í málatibúnaði kærenda gæti misskilnings um þetta atriði.  Ekki hafi verið talin þörf grenndarkynningar vegna viðbyggingar þeirrar, sem sótt var um leyfi fyrir við Laugaveg 53a á árinu 1988, þar sem afstaða nágranna hafi legið fyrir í formi skriflegs samþykkis þeirra.  Öðru máli hafi gegnt um nýbygginguna að Laugavegi 53b og hafi áform um hana því verið kynnt í samræmi við ákvæði 7. mgr. 43. gr. nýrra skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ekki sé ágreinigur um að löglega hafi verið staðið að þeirri kynningu.  Að því er varðar meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga er á það bent að ákvörðun í málinu hafi verið vandlega undirbúin og er rakin meðferð málsins í skipulags- og umferðarnefnd.  Hafi verið komið verulega til móts við kröfur og athugasemdir nágranna og sé tillagan í samræmi við stefnu skipulagsyfirvalda um miðborg Reykjavíkur samkvæmt aðalskipulagi.

Um þær málsástæður kærenda, sem lúta að 3. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga segir í greinargerð byggingarnefndar að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 sé fyrirhuguð bygging á svæði merktu miðborg/miðhverfi.  Þar segi að „við mat á nýtingarhlutfalli í einstökum athafnahverfum í borginni sé rétt að hafa eftirfarandi töflu til viðmiðunar.  Miðbær 1,5-2,5.  Dæmi:  Kvos og Laugavegur að Hlemmi.“  Nýtingarhlutfall sé í aðalskipulaginu skilgreint sem hlutfall milli gólfflatar og flatarmáls lóðar, sbr. gr. 3.2.6. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og gr. 4.3.4. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985 en þessar reglugerðir hafi verið í gildi þegar byggingarleyfi fyrir Laugavegi 53b var samþykkt.  Sömu skilgreiningu sé að finna í nýrri skipulagsreglugerð.  Aðalskipulagið tiltaki ekki afgerandi hámark nýtingarhlutfalls heldur gefi það til kynna hvaða helstu þætti skuli hafa að leiðarljósi við ákvörðun byggingarmagns á einstökum lóðum og tilgreini viðmiðunartölur í því sambandi.  Sé sá skilningur viðurkenndur að í byggingarleyfi, sem gefið sé út á grundvelli aðalskipulags, megi víkja nokkuð frá meginreglum aðalskipulags um nýtingarhlutfall, enda sé frávikið ekki talið  „verulegt“.  Í 3. mgr. greinar 4.3.4. í skipulagsreglugerð segi að ef notkun kjallara sé þess eðlis að ekki dragi að sér umferð geti byggingarnefnd heimilað að ekki skuli tekið tillit til kjallararýmis þegar nýtingarhlutfall sé reiknað út og í lokamálsgrein greinar 4.3.4. í skipulagsreglugerð sé heimild til að hækka staðfest nýtingarhlutfall ef gert sé ráð fyrir bifreiðageymslum neðanjarðar.  Er hafnað túlkun kærenda á því hvernig skilgreina eigi kjallara en vísað til þess sem segir í 4.4.1. í staðli ÍST 50 en samkvæmt því ákvæði er „brúttóflatarmál byggingar samanlagt brúttóflatarmál allra hæða hennar.  Hæðir geta verið að hluta eða öllu leyti neðanjarðar, ofanjarðar eða í risi, ennig svalir eða þaksvalir.“  Í skráningarreglum Fasteignamats ríkisins og byggingarfulltrúa, sem eru fylgiskjal með reglugerð nr. 471/1997 um eignaskiptayfirlýsingar o.fl., sé að finna orðskýringu fyrir bílageymslu sem sé eftirfarandi: „bílastæði í húsi, sem aðallega er byggt fyrir aðra starfsemi. Þessi stæði eru oftast á neðstu hæð og í lokuðu húsi.  Bílastæði þessi eru fyrst og fremst fyrir viðkomandi hús.“  Í sömu reglugerð segi ennfremur að hverja hæð skuli merkja með hæðarnúmeri.  Númering kjallara sé 00, fyrstu hæðar 01 o.s.frv.  Þegar bygging sé í halla reiknist sá hluti ofanjarðar, sem sé ofan við skurðpunkt jarðvegslínu við gólfkóta jarðhæðar.  Samkvæmt þessum reglum teljist hæðin fyrir bílgeymslu, geymslur og tæknirými í fyrirhugaðri nýbyggingu vera kjallari, enda sé hæðin merkt 00 á teikningum.  Þá er í greinargerðinni vísað til þess að í aðalskipulagi Reykjavíkur sé gengið lengra varðandi staðsetningu bílastæða í húsi en þar segi:  „Fyrirkomulag á lóð getur haft mikil áhrif á umhverfið og er því rétt að taka tillit til þess við ákvörðun um nýtingarhlutfall.  Ef hluti lóðar er gerður að grænu svæði eða almenningstorgi með því að koma hluta bílastæða fyrir neðanjarðar eða inni í viðkomandi byggingu, má auka nýtingarhlutfall sem svarar því gólfflatarmáli sem fer undir bílastæði, þó ekki meira en sem nemur 1/4 hluta af heildargólffleti hússins ofanjarðar. Samþykki fyrir auknu byggingaragni vegna bílastæða innan byggingar er þó háð því að aukið byggingarmagn falli að því byggðamynstri sem fyrir er.“    Í þessu ákvæði felist einhvers konar umbun til húsbyggjanda fyrir það að hafa bílastæði innandyra hvort sem er ofanjarðar eða neðan og ganga þannig á húsrýmið í stað þess að leggja hluta lóðar undir bílastæði.  Þann hluta lóðar, sem annars færi undir bílastæði, sé því hægt að nota til almenningsþarfa eins og gert sé með gerð göngustígs og stéttar fyrir almenning á þeim hluta lóðarinnar að Laugavegi 53b, sem ekki fari undir húsbyggingu, og sé þar um 55,2 fermetra að ræða eða 9,2% lóðarinnar.  Er í greinargerðinni útreikningur á nýtingarhlutfalli fyrir lóðina Laugavegur 53b með hinni nýju byggingu, þar sem stuðst er við tilvitnaða reglu í aðalskipulagi og reiknast nýtingarhlutfall þannig 2,44.  Bent er á að samkvæmt útreikningum hönnuðar á aðaluppdrætti sé nýtingarhlutfall 2,404 og samkvæmt útreikningum Borgarskipulags sé hlutfallið 2,36.  Í öllum tilvikun sé nýtingarhlutfallið innan marka aðalskipulags.  Megi ljóst vera að ákvörðun byggingarnefndar hafi verið tekin eftir ítarlega umfjöllun um málið og að undangenginni grenndarkynningu.  Sé samþykkt byggingarnefndar í samræmi við viðkomandi ákvæði laga og reglugerða og skerði ekki hagsmuni kærenda umfram það sem eðlilegt megi teljast við þéttingu byggðar samkvæmt staðfestu aðalskipulagi.  Séu því ekki forsendur til þess að fella byggingarleyfið úr gildi.

Af hálfu byggingarleyfishafans, HV-Ráðgjafar sf., er vísað til umsagnar  sem úrskurðarnefndinni var send vegna fyrra erindis kærenda sem vísað var frá nefndinni.  Þá segir í greinargerð HV-Ráðgjafar sf. að bygging þeirra sé í samræmi við þær breytingar sem orðið hafi og séu að verða á Laugaveginum og séu þessar breytingar til batnaðar og til þess fallnar að gera Laugaveginn að betri götu.  Mótmælt er fullyrðingum kærenda um að byggingin muni valda gífurlegri skerðingu á umhverfi þeirra og eignum.  Er vísað til fyrirliggjandi gagna um skuggavarp og er það mat byggingarleyfishafa að byggingin hafi ekki meiri áhrif en búast hafi mátt við ef tekið er mið af stærð og legu húsanna norðanmegin við Laugaveginn milli Vitastígs og Frakkastígs.  Varðandi umferð um göngustíg og bílakjallara er bent á að stígurinn og innkeyrsla að bílakjallara séu á lóðinni nr. 72 við Hverfisgötu og hafi eigendur þeirrar lóðar samþykkt þessi áform enda alls ekki augljóst að áhrifin verði jafn eyðileggjandi og látið sé í veðri vaka.  Er í greinargerð byggingaraðilans nánar lýst aðstæðum við Hverfisgötu 70 og bent á að þar sé þegar  mikil umferð bæði vegna nálægðar Hverfisgötu og bílastæða norðan og austan við húsið.  Áhrif bílageymslunnar fyrir Laugaveg 53a séu minni  en fyrir Hverfisgötu 70 vegna legu lóðarinnar.  Einnig sé ólíklegt að fyrirhugaður göngustígur valdi vandræðum enda sé gert ráð fyrir að loka megi honum að næturlagi ef þurfa þyki.  Þá sé hagræði af stígnum fyrir íbúa að Laugavegi 53a.   Vísað er á bug, sem órökstuddum og óréttmætum, ásökunum sem hafðar séu uppi í kærunni um hlutdrægni borgaryfirvalda gagnvart byggingaraðila. Mótmælt er fullyrðingum kærenda um að reisa megi nútímalegt, hagkvæmt verslunarhús á lóðinni þótt byggingarmagn verði minna.  Vegna þess hve lóðir á þessu svæði séu dýrar og þess kostnaðarauka, sem sé því samfara að byggja á þröngum lóðum, sjái byggingaraðilinn ekki möguleika á því að hægt sé að reisa hagkvæmt hús á lóðinni með minna byggingarmagni en samþykkt hafi verið af byggingarnefnd.  Einnig heldur byggingaraðilinn því fram að nauðsynlegt hafi verið að gera ráð fyrir allstórum einingum fyrir verslunarrými og mótmælir staðhæfingum kærenda um hið gagnstæða.  Tekið er undir rök byggingarnefndar fyrir því að bílageymslan teljist kjallararými og því haldið fram að fullyrðingar kærenda um hið gagnstæða séu á misskilningi byggðar.  Loks gerir byggingaraðilinn athugasemdir við tiltekin atriði er varða gagnrýni kærenda á málsmeðferð skipulagsnefndar á málinu.  Varðandi umsögn Skipulagsstofnunar, sem byggingaraðilanum gafst kostur á að tjá sig um, er því haldið fram að í umsögninni sé litið á málið af mikilli einsýni hvað varðar umfjöllun um þörf fyrir bílastæði með vísun til greinar 4.3.8. í þágildandi skipulagsreglugerð.  Er bent á að í 7. málsgrein sama ákvæðis sé heimild til að víkja frá og draga úr kröfum um bílastæði í gömlum hverfum með samþykki skipulagsstjórnar.  Sé augljóst að ef gera ætti slíkar kröfur við nýbyggingar í miðborg Reykjavíkur yrði útilokað að byggja þar ný hús.  Þá beri að taka tillit til þess að þegar byggingaraðilinn keypti lóðina að Laugavegi 53b stóðu á henni hús sem námu 511 fermetrum án þess að nokkur krafa væri um bílastæði fyrir þessi hús.  Að því er nýtingarhlutfall varðar er vísað til þess sem fram kemur í greinargerð skrifstofustjóra byggingarfullrtúa f.h.byggingarnefndar um það atriði en þar sé með óyggjandi hætti sýnt fram á að nýtingarhlutfall fyrirhugaðrar byggingar á lóðinni sé 2,44 en ekki 3,24 eins og haldið sé fram í umsögn Skipulagsstofnunar.  Að auki er bent á að hluti lóðarinnar að Hverfisgötu 72 muni einnig verða notaður undir umræddan göngustíg og stækki þannig það svæði sem notað verði til almenningsþarfa.   Að mati byggingaraðilans væri alls ekki sanngjarnt að vöntun á deiliskipulagi skemmdi fyrir áformum hans, en ekki hefði verið hægt að véfengja að draga mætti bílgeymsluna frá byggingarmagni við útreikning nýtingarhlutfalls, hefði deiliskipulag legið fyrir.  Telur byggingaraðilinn að eftir þann langa aðdraganda sem ákvörðun byggingarnefndar hafi átt sér og eftir allt það sem gert hafi verið til að uppfylla kröfur nágranna og byggingaryfirvalda væri mjög ósanngjarnt og skaðlegt gagnvart honum ef byggingarleyfið yrði dregið til baka.  Máli sínu til áréttingar vísar byggingaraðilinn til bréfs Arnar Sigurðssonar, arkitekts hússins, dags. 3. mars 1998 sem fylgir greinargerð byggingaraðilans en í bréfi þessu er ýmsum sjónarmiðum hans gerð frekari skil.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Leitað var umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar dags. 21. september 1998 segir að samkvæmt staðfestu aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 sé gert ráð fyrir að nýtingarhlutfall miðbæjar geti verið 1,5-2,5.  Miðað við upplýsingar í byggingarlýsingu á samþykktum uppdrætti af fyrirhugaðri byggingu á lóðinni nr. 53b við Laugaveg sé flatarmál lóðarinnar 663,6 fermetrar en heildarflatarmál byggingarinnar 2153 fermetrar.  Því sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 3,24.  Í grein 4.3.4. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sem í gildi hafi verið við umfjöllun byggingarnefndar um byggingarleyfið, segi að sé í deiliskipulagi gert ráð fyrir bifreiðageymslu neðanjarðar geti byggingarnefnd heimilað hækkun á staðfestu nýtingarhlutfalli með hliðsjón af því.  Í greinargerð aðalskipulags sé einnig tekið fram að komi fram tillaga sem borgaryfirvöld geti fallist á, þar sem farið sé verulega fram yfir það nýtingarhlutfall sem aðalskipulag geri ráð fyrir, skuli unnið deiliskipulag og það auglýst samkvæmt skipulagslögum.  Ekki hafi verið samþykkt deiliskipulag af viðkomandi svæði og sé hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016.  Þá segir í umsögn stofnunarinnar að ekki sé fullnægt kröfum þágildandi skipulagsreglugerðar um fjölda bílastæða.  Ættu þau samkvæmt henni að vera 48.  Heimilt hafi verið að víkja frá þessum kröfum í deiliskipulagi en eins og áður sé fram komið hafi ekki verið gert deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Uppfylli hið kærða byggingarleyfi því ekki kröfur skipulagsreglugerðar nr. 318/1985.  Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar, að þar sem hið kærða byggingarleyfi uppfylli ekki skilyrði gildandi aðalskipulags og  kröfur skipulagsreglugerðar um nýtingarhlutfall og lágmarksfjölda bílastæða, beri að fella það úr gildi.

Málsmeðferð:  Vegna misræmis, sem fram kemur í niðurstöðum Skipulagsstofnunar annars vegar og byggingarnefndar Reykjavíkur hins vegar varðandi nýtingarhlutfall og kröfu um fjölda bílastæða, var kærendum gefinn kostur á að tjá sig um framkomin gögn í málinu, m.a. umsögn Skipulagsstofnunar og greinargerðir byggingarnefndar og byggingaraðila.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum við þessi gögn með bréfi dags. 1. nóvember 1998.  Er þar lýst viðhorfi þeirra til framkominna gagna og sjónarmið þeirra áréttuð. Jafnframt gafst byggingarleyfishafa kostur á að tjá sig um sömu gögn en þau voru látin honum í té áður en hann skilaði greinargerð sinni í málinu.
Mál þetta er umfangsmikið og hefur úrskurðarnefndin þurft að hafa frumkvæði að öflun fjölmargra nýrra gagna til að ýmis atriði málsins yrðu upplýst með fullnægjandi hætti.  Varð nefndin af þessum sökum að lengja afgreiðslutíma málsins með stoð í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 og var málsaðilum tilkynnt bréflega um þá ákvörðun nefndarinnar.

Niðurstaða:  Kærendur telja að meðferð málsins hjá borgaryfirvöldum hafi verið andstæð reglum stjórnsýslulaga um rannsókn máls, jafnræði og meðalhóf sem leiða eigi til ógildingar hinna kærðu ákvarðana. 
Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessar málsástæður kærenda. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að undirbúningur þess hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. hvað varðar grenndarkynningu.  Þá er ljóst að af hálfu Borgsarskipulags voru tekin til skoðunar grenndaráhrif fyrirhugaðrar byggingar, m.a. með sjálfstæðri athugun skuggavarps.  Ekki leiðir af samanburði á málsmeðferð byggingarnefndar á árinu 1988 við málsmeðferð nú, að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu þar sem ekki gilda sambærilegar málsmeðferðarreglur fyrir og eftir gildistöku laga nr. 73/1997.  Ekki verður heldur talið að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið gengið svo langt að ákvörðunin teljist augljóslega andstæð meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.   Verða hinar kærðu ákvarðanir því ekki ógiltar á þeim grundvelli að þær fari í bága við tilvitnuð ákvæði stjórnsýslulaga.
Kærendur halda því einnig fram að hin kærða ákvörðun byggingarnefndar sé andstæð ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 enda samræmist ákvörðunin ekki ákvæðum gildandi aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um nýtingarhlutfall.  Telja kærendur að rétt reiknað sé nýtingarhlutfall fyrirhugaðrar byggingar 3,27, sem sé mun hærra en kveðið sé á um í aðalskipulagi fyrir miðbæ en þar sé miðað við nýtingarhlutfallið 1,5 – 2,5 á þessu svæði.   

Vegna málsástæðu kærenda um nýtingarhlutfall hefur úrskurðarnefndin tekið til skoðunar þær réttarheimildir þar sem fjallað er um nýtingarhlutfall og það hvernig þeim verði beitt í máli þessu. Í 10. grein eldri skipulagslaga nr. 19/1964 var kveðið á um að gera skyldi grein fyrir nýtingarhlutfalli á skipulagsuppdrætti og í 13. grein laganna var ákvæði um að setja skyldi reglugerð um gerð skipulagsuppdrátta.  Kemur þar fram að í reglugerð skuli kveðið á um  nýtingarhlutfall.  Skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sem í gildi var þegar byggingarnefnd tók hina kærðu ákvörðun, var sett með stoð í þessum ákvæðum og eru í henni ákvæði um nýtingarhlutfall.  Í 3. kafla nefndrar reglugerðar er fjallað um aðalskipulag og segir í grein 3.3.4.2 að í greinargerð og/eða á uppdráttum skuli gerð grein fyrir þéttleika byggðar, þ.e. því nýtingarhlutfalli, sem heimila má á tilteknum svæðum eða reitum.   Í 4. kafla reglugerðarinnar er fjallað um deiliskipulag  og er þar einnig að finna ákvæði um nýtingarhlutfall. Í grein 4.3.4. segir að í greinargerð og/eða á uppdráttum skuli gerð grein fyrir þéttleika byggðar, þ.e. nýtingarhlutfalli og að með nýtingarhlutfalli sé átt við hlutfallið milli samanlagðs gólfflatar húss annars vegar og lóðarstærðar hins vegar.  Skuli nýtingarhlutfall ákveðið fyrir byggðasvæði, byggðareiti eða einstakar lóðir.  Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé sýnt að fyrirhuguð notkun kjallara sé þess eðlis að ekki dragi að sér umferð geti byggingarnefnd heimilað að ekki skuli tekið tillit til kjallararýmis þegar nýtingarhlutfall sé reiknað út.  Í 4. mgr. ákvæðisins segir að sé í deiliskipulagi gert ráð fyrir bifreiðageymslum neðanjarðar geti byggingarnefnd heimilað hækkun á staðfestu nýtingarhlutfalli með hliðsjón af því.
Samkvæmi 16. gr. núgildandi skipulags- og byggingarlaga  nr. 73/1997, sem í gildi voru er hinar kærðu ákvarðanir voru teknar, skal í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst tólf ára tímabili.  Síðar í ákvæðinu segir að um gerð aðalskipulags gildi jafnframt ákvæði skipulagsreglugerðar.

Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016, sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 18. ágúst 1997, hefur, í samræmi við framangreindar réttarheimildir, að geyma ákvæði um landnotkun og nýtingarhlutfall, sem sett eru fram í sérstökum kafla í greinargerð aðalskipulagsins.  Í inngangi greinargerðar um nýtingarhlutfall segir að í aðalskipulagi sé mikilvægt að móta einfaldan ramma um nýtingarhlutfall byggingarsvæða í borginni, því það hafi áhrif á umferð og gæði umhverfis.  Fyrir deiliskipulögð svæði, svo sem Kvosina gildi það nýtingarhlutfall sem þar sé staðfest.  Nýtingarhlutfall á einstökum lóðum verði þó alltaf breytilegt.  Helstu áhrifaþættir séu umfang húsa og nýtingarhlutfall á aðliggjandi lóðum, svo dæmi séu tekin.  Ef tillaga komi fram sem borgaryfirvöld geti fallist á, þar sem farið sé verulega yfir það nýtingarhlutfall sem aðalskipulag geri ráð fyrir, skuli unnið deiliskipulag og það auglýst samkvæmt skipulagslögum.  Síðar segir að fyrirkomulag á lóð geti haft mikil áhrif á umhverfið og því rétt að taka tillit til þess við ákvörðun um nýtingarhlutfall.  Sé hluti lóðar gerður að grænu svæði eða almenningstorgi með því að koma hluta bílastæða fyrir neðanjarðar eða inni í viðkomandi húsi megi auka nýtingarhlutfall sem samsvarar því gólfflatarmáli sem fer undir bílastæði, þó ekki meira en sem nemur 1/4 hluta af heildargólffleti hússins ofanjarðar.  Samþykki fyrir auknu byggingarmagni vegna bílastæða innan byggingar sé þó háð því að aukið byggingarmagn falli að því byggðamynstri sem fyrir er. Í töflu um nýtingarhlutfall í einstökum athafnahverfum í borginnni er miðað við að nýtingarhlutfall sé 1,5 – 2,5 fyrir miðbæ, dæmi: Kvos og Laugavegur að Hlemmi.

Úrskurðarnefndin telur að í því tilviki sem hér um ræðir verði ekki byggt á reglu  3. mgr. gr. 4.3.4. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sem heimilar að ekki sé tekið tillit til kjallararýmis við útreikning nýtingarhlutfalls, sé fyrihuguð notkun kjallarans þess eðlis að ekki dragi að sér umferð.  Reglu þessari er skipað í 4. kafla um deiliskipulag en deiliskipulag er ekki fyrir hendi í tilviki því, sem hér er til úrlausnar.  Þá er nýting kjallarans bundin rekstri hússins og þeirri starfsemi, sem þar er fyrirhuguð og dregur augljóslega að sér umferð. Reglan tekur ekki til bifreiðageymslunnar þar sem sérregla er um bifreiðageymslur í 4. mgr. greinar 4.3.4. Rétt er þó að draga flatarmál inntaksrýmis í kjallaranum frá við útreikning nýtingarhlutfalls, eða 18,8 fermetra, þar sem í því rými er jafnframt stjórnstöð fyrir snjóbræðslukerfi í götu, óviðkomandi notkun hússins. Heimild 4. mgr. greinar 4.3.4. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985 um hækkun á staðfestu nýtingarhlutfalli vegna bifreiðageymslu neðanjarðar verður ekki beitt í máli þessu þar sem heimildin er berum orðum bundin því skilyrði að deiliskipulag sé fyrir hendi.   Heimildir skipulagsreglugerðar nr. 318/1985 leyfa því einungis að við útreikning nýtingarhlutfalls megi draga 18,8 fermetra frá brúttóflatarmáli byggingarinnar í heild.  Miðað við þessar forsendur reiknast nýtingarhlutfall á lóðinni : (2171,8 – 18,8)/663,6 eða  3,24.

Við umfjöllun um málið í skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur var meðal annars talið skipta máli við útreikning á nýtingarhlutfalli vegna fyrirhugaðrar byggingar að Laugavegi 53b, hvort flokka bæri bílakjallarann sem opið rými eða lokað, þ.e. A eða B rými samkvæmt skilgreiningu í fylgiskjali reglugerðar nr. 471/1997 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í  fjölbýlishúsum. Var því haldið fram af fulltrúa í nefndinni að bílgeymslan teldist ekki til rýmis í flokki A (lokað rými) og yrði hún því ekki reiknuð með í brúttóflatarmáli byggingarinnar í skráningartöflu á aðalteikningum.  Væri stuðst við þetta brúttóflatarmál skráningartöflu við útreikning nýtingarhlutfalls hjá Skipulagsstofnun.  Af þessu tilefni hefur úrskurðarnefndin tekið til skoðunar hvernig flokkun bílgeymslunnar var háttað og hvort líta beri á hana sem opið rými.  Á skráningartöflu hússins dags. 18. júní 1998, sem unnin er af Stefáni Ingólfssyni verkfræðingi er bifreiðageymslan flokkuð sem A rými eða lokað rými.  Tafla þessi lá fyrir byggingarnefnd við afgreiðslu hennar á málinu hinn 9. júlí 1998 og er merkt sem fylgiskjal með númeri málsins hjá byggingarnefnd.  Telur úrskurðarnefndin þessa flokkun í fullu samræmi við skilgreiningu sem fram kemur í grein 4.2. í fylgiskjali með reglugerð nr. 471/1997 en þar er m.a. að finna skilgreiningu á lokuðu og opnu rými.   Til þess að rými teljist opið (B rými) samkvæmt skilgreiningunni þarf útiloft að geta leikið um það óhindrað.  Þessu skilyrði er ekki fullnægt  í því rými sem hér um ræðir enda þótt gert sé ráð fyrir að innkeyrsla til norðurs verði opin og einhver útloftun verði norðantil á vesturhlið þar sem rýmið er ofanjarðar.  Allur innri hluti kjallarans er lokaður á þrjá vegu og þarfnast loftræstingar.  Rými sem þannig er háttað um ber að flokka sem A rými, þ. e. lokað.  Breytir það engu um þessa niðurstöðu þótt upplýst hafi verið nú nýlega að flokkun rýmisins á skráningartöflu hafi verið breytt úr A rými í B rými  hinn 7. ágúst 1998, löngu eftir að málið var endanlega afgreitt í byggingarnefnd.

Af hálfu byggingarnefndar og byggingarleyfishafa er á því byggt að heimild greinargerðar aðalskipulags um umbun fyrir að koma hluta bílastæða fyrir neðanjarðar eða inni í húsi eigi við í málinu og megi því við útreikning nýtingarhlutfalls draga frá flatarmál bílgeymslu þó að hámarki fjórðung annars flatarmáls ofnanjarðar.  Skilja verður reglu þessa svo að umbuna megi húsbyggjanda fyrir það að koma bílastæðum fyrir innanhúss, sem að öðrum kosti væru á lóð hússins.  Áskilið er að í þeirra stað komi grænt svæði eða almenningstorg á lóðinni.  Engu slíku er fyrir að fara í máli þessu.  Ljóst er að ekki hefði verið hægt að hafa bílastæði utandyra á þeim hluta lóðarinnar, sem ekki er lagður undir bygginguna.  Einungis er um að ræða 55,2 fermetra ræmu meðfram norðanverðri vesturhlið hússins.  Er þar gert ráð fyrir tröppum niður í kjallara og upp í inngang á vesturhlið 1. hæðar.  Gert er ráð fyrir göngustíg um svæðið, sem hugsaður er til almennrar umferðar milli Hverfisgötu og Laugavegar en stígur þessi er jafnframt aðkomuleið að áðurnefndum tröppum.  Liggur stígurinn að hluta um aðrar lóðir.  Er ekki á það fallist að stígur  þessi þar sem hann liggur um  lóðina að Laugavegi 53b geti talist almenningstorg eða að aðstæður séu að öðru leyti með þeim hætti að tilvitnaðri heimild aðalskipulags verði beitt í málinu. 

Samkvæmt aðalskipulagi ber, við mat á nýtingarhlutfalli á einstökum lóðum, að líta til ýmissa þátta svo sem fyrirkomulags á lóð svo og umfangs húsa og nýtingarhlutfalls á aðliggjandi lóðum.  Grunnflötur kjallara fyrirhugaðrar byggingar tekur yfir 91,68% lóðarinnar, sem er mun hærra hlutfall en fyrir er á nærliggjandi lóðum ef frá er talinn Laugavegur 59.  Nefndin hefur kynnt sér nýtingarhlutfall lóða við Laugaveg milli Vitastígs og Frakkastígs.  Er nýtingarhlutfall á framlóðum við Laugaveg frá 1,28 á Laugavegi 55 upp í 4,24 á Laugavegi 59 (Kjörgarði) en nýtingarhlutfall þeirrar lóðar hefur algera sérstöðu í reitnum.  Á öðrum framlóðum í þessari götulínu er hlutfallið frá 2,22 upp í 3,38.  Á móti kemur að á baklóðunum nr. 49a, 51b og 53a er hlutfallið miklu lægra eða 1,03, 1,20 og 1,09.   Húsin á umræddum lóðum eru byggð á mismunandi tímum og eru flest þeirra byggð fyrir miðja þessa öld.  Húsið nr. 59 (Kjörgarður) er byggt árið 1961.  Er það hús ekki í götulínu enda munu hafa verið uppi áform um breikkun Laugavegar a.m.k. að hluta á þeim tíma.  Ekki mun þá hafa legið fyrir heildstætt skipulag.  Húsið á lóinni nr 51 er byggt árið 1978 og er nýtingarhlutfall hennar 2,22, hús á lóðunum nr. 61-63 er byggt 1985 og er nýtingarhlutfall þar 2,57 en yngst er húsið er á lóðinni nr. 47, byggt 1988, og er nýtingarhlutfall hennar 3,10.  

Samkvæmt aðalskipulagi 1990 – 2010 skyldi nýtingarhlutfall miðbæjar vera 1,5 – 3,0.  Eins og áður er fram komið er þetta hlutfall 1,5 -2,5 í núgildandi aðalskipulagi 1996 – 2016.  Virðist því hafa verið mótuð sú stefna að draga heldur úr byggingarmagni við uppbyggingu á svæðinu.
Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að nýtingarhlutfall á lóðinni  Laugavegi 53b, sem með fyrirhugaðri nýbyggingu verður 3,24, sé ekki í samræmi við skilmála gildandi aðalskipulags Reykjavíkur 1996 – 2016, þar sem það yrði þá um 30% hærra en efri mörk viðmiðunar. Segir í greinargerð aðalskipulagsins að komi fram tillaga sem borgaryfirvöld geti fallist á, þar sem farið sé verulega yfir það nýtingarhlutfall sem aðalskipulag geri ráð fyrir, skuli unnið deiliskipulag og það auglýst samkvæmt skipulagslögum.  Eftir þessum skilmálum hefur ekki verið farið við undirbúning hinna kærðu ákvarðana. Eru þær því  andstæðar gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur og verður ekki hjá því komist að fella þær úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1998, sem staðfest var í borgarráði 14. sama mánaðar, um að veita leyfi til byggingar verslunar- þjónustu- og íbúðarhúss úr steinsteypu á lóðunni nr. 53b við Laugaveg, er felld úr gildi.

34/1998 Suðurmýri

Með

Ár 1998, föstudaginn 30. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/1998; kæra G, Eiðismýri 26, Seltjarnarnesi vegna ákvörðunar byggingarnefndar Seltjarnarness um að veita Innréttingasmiðjunni sf. leyfi til að byggja fjögur parhús á lóðunum nr. 40-46 við Suðurmýri á Seltjarnarnesi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 8. október sl., sem barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir G, Eiðismýri 26, Seltjarnarnesi ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness frá 9. september 1998 um að veita Innréttingasmiðjunni sf. leyfi til að byggja 4 parhús á lóðunum nr. 40-46 við Suðurmýri á Seltjarnarnesi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness hinn 9. september 1998.  Kærandi  óskar þess „að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skoði framkvæmd bæjarstjórnar Seltjarnarness varðandi byggingu parhúsa við Suðurmýri 40-46 á Seltjarnarnesi.“ Þá er það ósk kæranda „að nefndin beiti þeim ráðum sem hún hefur til að stöðva framkvæmdirnar þar til eðlilegt ferli skipulags hefur farið fram.“  Skilja verður erindi kæranda svo að þess sé krafist að fyrrgreind ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Málsmeðferð:  Bréfi kæranda fylgdu ljósrit tveggja uppdrátta og tveggja blaðsíðna úr skipulags- og byggingarskilmálum með yfirskriftinni Seltjarnarnes – Kolbeinsstaðamýri.  Var því beint til kæranda að útvega nefndinni endurrit þeirra ákvarðana sem kæruefnið tekur til og barst nefndinni ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness frá 9. september 1998, ásamt staðfestingu bæjarstjórnar á henni sama dag, í símbréfi hinn 12. október síðastliðinn.  Við frekari athugun á gögnum málsins kom í ljós misræmi í uppdráttum þar sem kærandi hafði af vangá afmarkað á röngum stað svæði það sem lóðirnar nr. 40-46 við Suðurmýri eru á.  Var honum gefinn kostur á að leiðrétta þessi mistök og jafnframt að skýra nánar greinargerð byggingarskilmála um lóðirnar en í þeim gætir nokkurrar ónákvæmni.

Málið var tekið til umræði á fundi úrskurðarnefndarinnar hinn 21. október 1998.  Eins og málið lá þá fyrir þótti vafi geta leikið á því hvort kærandi ætti aðild að stjórnsýslukæru ákvarðana þeirra sem kærðar eru í málinu.  Var málinu frestað en ákveðið að taka til úrlausnar hvort vísa bæri kærunni frá ex officio vegna aðildarskorts kæranda.

Niðurstaða:  Í erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar rekur kærandi þau atvik sem eru tilefni kærunnar.  Telur hann að með hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar hafi verið brotið gegn deiliskipulagi, sem unnið hafi verið eftir, svo og skipulags- og byggingarskilmálum.  Í hinni kærðu ákvörðun felist, að byggingarmagn á umræddum fjórum lóðum hafi verið aukið umfram skilmála og tvær íbúðir leyfðar á hverri lóð í stað einnar áður.  Þá hafi aðkomu að lóðinni nr. 46 við Suðurmýri verið breytt þannig að hún verði nú frá Eiðismýri í stað Suðurmýrar og sé einnig með þessu vikið frá skipulags- og byggingarskilmálum á svæðinu. Fleiri breytingar leiði af ákvörðun byggingarnefndar svo sem tilfærslu göngustígs og stækkun snúningshauss í vesturenda Eiðismýrar.  Telur kærandi að alvarlega hafi verið brotin lög og reglur hvað varðar afgreiðslu bæjarins á málinu.

Kærandi er eigandi búseturéttar að íbúð í fjölbýlishúsi að Eiðismýri 26 á Seltjarnarnesi.  Frá því húsi og að svæði því, sem lóðirnar nr. 40 – 46 við Suðurmýri eru á, eru um 90 metrar en um 160 metrar í það horn svæðisins sem fjærst er. Kolbeinsmýri liggur frá Suðurmýri til norðurs og hornrétt á Eiðismýri, rúmum 20 metrum fyrir vestan hús það er kærandi býr í.  Sá hluti Eiðismýrar sem er vestan Kolbeinsmýrar er lokaður endi og er þar aðkoma að Eiðismýri 30, sem eru íbúðir aldraðra.  Um þennan enda verður jafnframt aðkoma að þeim tveim íbúðum sem fyrirhugað er að byggja sem parhús á lóðinni nr. 40 við Suðurmýri eftir því sem fram kemur í kærunni.

Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ekki einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar áformaðar byggingar að Suðurmýri 40-46 eða breytta aðkomu að einni þessara lóða.  Telur nefndin ljóst að breytingar þær, sem kæran tekur til, skerði ekki útsýni eða hafi í för með sér svo verulegar breytingar á umferð eða áhrif á umhverfi að snerti lögvarða hagsmuni kæranda miðað við staðsetningu íbúðar hans og afstöðu hennar til hinna umdeildu bygginga.  Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnð, svo sem áskilið er, sbr. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.  Þykir ekki skipta máli um rétt kæranda í þessu sambandi að hann á sæti í umhverfisnefnd Seltjarnarness eins og getið er í kærunni.

Úrskurðarorð:

Kæru G vegna ákvörðunar byggingarnefndar Seltjarnarness frá 9. september 1998, varðandi byggingar á lóðunum nr. 40-46 við Suðurmýri, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

27/1998 Frostaskjól

Með

 

 

Ár 1998, miðvikudaginn 28. október  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/1998; kæra H og J, Frostaskjóli 17, Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 1998 um að heimila Knattspyrnufélagi Reykjavíkur að byggja nýtt íþróttahús á lóð félagsins að Frostaskjóli 2.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 10. júlí 1998, sem barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kæra H og J, Frostaskjóli 17, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 1998 um að veita Knattspyrnufélagi Reykjavíkur leyfi til að byggja nýtt íþróttahús að Frostaskjóli 2.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 7. maí 1998.  Kærendum var tilkynnt um ákvörðunina með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík dags. 10. júní 1998. Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Um kæruheimild vísast  til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Málavextir: Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefur um árabil haft uppi áform um byggingu nýs íþróttahúss á lóð félagsins að Frostaskjóli 2.   Var fyrst sótt um leyfi fyrir þessum framkvæmdum á árinu 1994 og þá kynnt tillaga um að byggja nýtt íþróttahús með sætum fyrir allt að 1200 gesti.  Ekki var fallist á þessi áform.  Á árinu 1995 samþykkti skipulagsnefnd tillögu að byggingu minna húss en ekki kom til þess að byggt yrði eftir þeirri tillögu.  Höfðu tillögur þær sem fram komu á árunum 1994 og 1995 sætt andmælum nágranna við kynningu þeirra og var m. a. bent á það af hálfu nágranna að ekki væri séð fyrir nægum fjölda bílastæða vegna byggingarinnar.  Hinn 27. nóvember 1997 voru enn lagðar fram í byggingarnefnd teikningar að nýrri byggingu á lóðinni. Var þessum teikningum vísað til skipulags- og umferðarnefndar til kynningar og kynnti Borgarskipulag þessa nýju tillögu fyrir nágrönnum með bréfi dags. 30. janúar 1998.  Var í kynningunni meðal annars gerð grein fyrir fjölda og fyrirkomulagi bílastæða vegna byggingarinnar. Var í umræddri tillögu gert ráð fyrir sama fjölda bílastæða á lóðinni og í tillögunum frá 1995 eða 115 stæðum. Bárust enn mótmæli frá nágrönnum vegna bílastæðanna, sem þeir töldu of fá, einkum þegar kappleikir færu fram í húsinu.  Vegna athugasemda nágranna var bílastæðum fjölgað í 155 auk fjögurra stæða fyrir rútur.  Þá var gert ráð fyrir að nýta mætti malarvöll á lóðinni sem stæði fyrir allt að 400 bíla en sérstök úttekt hafði verið gerð á vellinum til þess að meta hvort nýta mætti hann til þessara þarfa.  Voru teikningar þannig breyttar lagðar fyrir byggingarnefnd og samþykktar á fundi nefndarinnar hinn 30. apríl 1998, enda skyldi malarvöllurinn að jafnaði notaður sem bílastæði.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið umdeilda byggingarleyfi uppfylli ekki ákvæði 5. kafla byggingarreglugerðar nr. 177/1992 um bílastæði.  Vísa kærendur til ákvæðis í grein 5.2.3. um að við samkomuhús skuli gera ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði fyrir hver 6 sæti í húsinu.  Þurfi samkvæmt þessu að sjá fyrir 133 stæðum fyrir þau 800 sæti sem verði í nýja íþróttahúsinu og sé þessum skilyrðum ekki fullnægt enda aðeins gert ráð fyrir 115 bílastæðum á lóðinni.  Kærendur telja að ekki verði unnt að nota malarvöllinn á lóðinni sem bílastæði nema í undantekningartilvikum.  Það sé því ekki raunhæft að leysa þörfina fyrir bílastæði á lóðinni með því að ætla þeim stað á malarvellinum eins og að hluta til sé gert í samþykkt byggingarnefndar.  Gera kærendur kröfu til þess að þörfin fyrir aukinn fjölda bílastæða vegna tilkomu nýbyggingarinnar verði leyst með viðunandi hætti.

Eftir að sjónarmið byggingarnefndar og byggingarleyfishafa voru komin fram í málinu var ljóst að misræmi var milli staðhæfinga kærenda í kærunni og annarra fyrirliggjandi gagna um fjölda þeirra bílastæða sem samþykktur hefði verið vegna nýbyggingarinnar.  Var kærendum af þessu tilefni gefinn kostur á að tjá sig um þetta misræmi.  Hafa kærendur nú upplýst að þeim hafi ekki verið kunnugt um þá fjölgun sem gerð var á bílastæðum frá þeirri tillögu, sem kynnt var.  Bera kærendur ekki brigður á upplýsingar byggingarnefndar um endanlegan fjölda bílastæða en árétta að kæran standi allt að einu, enda sé, þrátt fyrir umrædda fjölgun stæða, ekki fullnægt kröfum byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða.  Benda kærendur á að starfsemi sé í líkamsræktarstöð á lóðinni á sama tíma og kappleikja sé að vænta og verði þau stæði sem líkamsræktarstöðinni séu ætluð því ekki jafnframt talin geta þjónað hinu nýja íþróttahúsi.  Þá ítreka kærendur efasemdir sínar um að malarvöllurinn geti komið að notum sem bílastæði.

Málsrök byggingarnefndar og byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur er rakin forsaga málsins og gerð grein fyrir þeim tillögum, sem fram höfðu komið um byggingu nýs íþróttahúss á lóðinni og þeim grenndarkynningum sem byggingaryfirvöld höfðu staðið fyrir.  Er á það bent að kærendur leggi til grundvallar að bílastæði á lóðinni verði einungis 115 en samkvæmt hinum samþykktu uppdráttum verði þau 155 auk fjögurra stæða fyrir rútur og allt að 400 stæðum á malarvellinum.  Vísað er til 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998  sem byggingarnefnd telur  eiga við  í málinu.  Einnig er vísað til reglna um bílastæðagjald sem samþykktar voru í borgarstjórn 15. janúar 1987 svo og til álits Borgarskipulags um málið.  Fallist er á það sjónarmið kærenda að beita beri reglunni um eitt bílastæði fyrir hver sex sæti í íþróttahúsinu þegar það er notað til kappleikja en við aðra notkun beri að miða við eitt stæði fyrir hverja 50 fermetra gólfflatar.  Er sýnt með útreikningum að miðað við venjulega notkun sé fullnægt kröfum gildandi reglugerðar um fjölda bílastæða án þess að gert sé ráð fyrir stæðum á malarvellinum en þegar kappleikir séu í húsinu  vanti 14 eða 28 stæði til að fullnægt sé kröfum um fjölda merktra bílastæða, eftir því hvaða viðmiðun sé notuð við ákvörðun fjölda bílastæða vegna annarrar starfsemi í húsum á lóðinni.  Séu stæði fyrir rútubíla þá ekki meðtalin né heldur þau 400 stæði sem gert sé ráð fyrir á malarvellinum.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að fjöldi bílastæða á lóðinni verði meiri en sá er kærendur leggi til grundvallar í kærunni.  Þá er tekið fram að skólastjóri Grandaskóla hafi veitt KR leyfi til að nota bílastæði skólans á kvöldin og um helgar þegar skólastarf sé ekki í gangi.  Loks er tekið fram að venjulega sæki ekki nema 200 – 300 manns leiki KR í körfubolta og handbolta nema þegar um úrslitakeppni sé að ræða en þá sé vonast til þess að áhorfendur geti orðið 500 – 800.  Ekki sé unnt að reikna með að þetta gerist nema í mesta lagi fimm sinnum á vetri.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar í máli þessu.  Í umsögn stofnunarinnar er vísað til þess að ákvæði 5.2.3. í byggingarreglugerð nr. 177/1992, sem kærendur byggja á, komi fram að sé um samnotkun bifreiðastæða að ræða megi víkja frá kröfum ákvæðisins að mati byggingarnefndar.  Í grein 5.2.5. í sömu reglugerð segi að í gömlum hverfum megi víkja frá kröfum um bifreiðastæði að mati byggingarnefndar og að fengnu leyfi skipulagsyfirvalda.  Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar, að þar sem ákvæði þágildandi byggingarreglugerðar um bílastæði hafi verið frávíkjanleg að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og þar sem byggingar- og skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi að mati stofnunarinnar uppfyllt þessi skilyrði við meðferð umsóknar um hið kærða byggingarleyfi eigi byggingarleyfið að standa óbreytt.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi byggingarnefndar hinn 30. apríl 1998 og staðfest af borgarstjórn hinn 7. maí 1998.  Voru þá enn í gildi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 177/1992 og skipulagsreglugerðar nr. 318/1985 með síðari breytingum að því marki sem ekki fór í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sbr. 1. tl. ákvæða til bráðabirgða í greindum lögum.  Um bílastæði giltu því, eftir því sem við áttu, ákvæði í kafla 4.3.8. í tilvitnaðri skipulagsreglugerð og ákvæði kafla 5.2. í áðurgreindri byggingarreglugerð.  Samkvæmt ákvæði greinar 5.2.3. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum þurfti að koma fyrir 133 bílastæðum vegna 800 sæta í hinu nýja íþróttahúsi en að auki þurfti að sjá fyrir stæðum vegna starfsemi í öðru húsrými á lóðinni, en húsrými þetta er samkvæmt gögnum byggingarnefndar 1.754 fermetrar.  Sé litið til ákvæðis greinar 5.2.2. í tilvitnaðri byggingarreglugerð hefði því þurft 70 bílastæði fyrir þetta húsrými en að lágmarki 35 sé miðað við reglur Reykjavíkurborgar um bílastæðagjald, samþykktar í borgarstjórn 15. janúar 1987.  Sama fjölda stæða, eða 35, þyrfti fyrir umrætt húsnæði sé miðað við reglur nýrrar byggingarreglugerðar nr. 441/1998,  gr. 64.6. Samkvæmt framansögðu skorti nokkuð á að þau 155 almennu bílastæði, sem komið hafði verið fyrir á lóðinni fullnægðu kröfum reglugerða um fjölda bílastæða.  Var því gerð könnun á því hvort nota mætti malarvöll á lóðinni sem bílastæði til að mæta þeirri þörf fyrir fleiri bílastæði sem við blasti.  Í úttekt verkfræðistofunnar Burðar ehf., sem fengin var til þess að annast úttektina, kemur fram að völlurinn geti vel hentað sem bílastæði en tekið fram að yfirborð hans geti þó orðið slæmt yfirferðar við viss veðurfarsleg skilyrði.  Við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar setti byggingarnefnd það skilyrði að malarvöllurinn verði að jafnaði notaður sem bílastæði. Verður að leggja þann skilning í skilyrði þetta að byggingarleyfishafa sé skylt að veita aðgang að malarvellinum til notkunar sem bílastæði þegar þess gerist þörf. Með skilyrði þessu telur úrskurðarnefndin að fullnægt hafi verið kröfum um fjölda bílastæða á lóðinni  og verður því ekki fallist á kröfur kærenda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna og sumarleyfa nefndarmanna.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 1998 um að veita Knattspyrnufélagi Reykjavíkur leyfi til að byggja nýtt íþróttahús að Frostaskjóli 2, Reykjavík.

 

 

28/1998 Hafnarstræti

Með

Ár 1998,  þriðjudaginn 13. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/1998;  kæra V, eiganda eignarhuta á 1. hæð Hafnarstrætis 20, Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 1998 um að heimila breytingar á fyrirkomulagi  miðrýmis og austurenda 1. hæðar og að heimila að settir verði inngangar á  norður- og suðurhlið austurenda.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 24. júlí 1998 kærir V, Brekkutanga 1, Mosfellsbæ ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 1998 um að fella úr gildi teikningar frá 26. febrúar 1998 varðandi austurenda og miðrými 1. hæðar Hafnarstrætis 20, Reykjavík og um að uppdrættir frá 14. nóvember 1996 taki gildi í þeirra stað.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 2. júlí 1998.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.    Vegna framkominnar kröfu um frávísun var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um málsrök gagnaðila.  Komu eftir það fram nýjar málsástæður af hálfu kæranda, sem nefndin taldi rétt að gefa öðrum málsaðilum kost á að tjá sig um.  Vegna þessara atvika og umfangs málsins ákvað nefndin að lengja afgreiðslutíma þess í allt að þrjá mánuði með heimild í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 og var málsaðilum tilkynnt sú ákvörðun nefndarinnar.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að 58,05 fermetra húsnæði, auk sameignarhluta, á 1. hæð í húsinu nr. 20 við Hafnarstræti í Reykjavík. Innangengt er úr húsnæðinu inn í miðrými hússins á 1. hæð.  Í austurenda 1. hæðar er nú biðsalur SVR en upphaflega var ekki skilið milli  miðrýmis og austurenda hæðarinnar.  Þann 14. nóvember 1996 samþykkti byggingarnefnd Reykjavíkur umsókn frá SVR og meðeigendum austurenda 1. hæðar um að afmarka austurendann frá miðrýminu  með tveimur skilveggjum ásamt einfaldri hurð í syðri skilveggnum og koma fyrir nýjum inngöngudyrum á norður- og suðurhlið austurendans.  Kærandi vildi ekki una þessum breytingum sem hann taldi andstæðar hagsmunum sínum.  Kærði hann samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. nóvember 1996 til umhverfisráðherra með kæru dags. 10. desember 1996.  Með úrskurði setts umhverfisráðherra 2. maí 1997 var ákvörðun byggingarnefndar frá 14. nóvember 1996 „um veitingu leyfis til breytinga á miðrými hússins og breytinga á inngönguleiðum í austurhluta 1. hæðar“ felld úr gildi.  Þessi úrskurður var felldur úr gildi í júní 1997 vegna ágalla á málsmeðferð og var kærumálið endurupptekið.  Kvað settur umhverfisráðherra að nýju upp úrskurð í málinu hinn 8. desember 1997.  Var með þeim úrskurði felld úr gildi ákvörðun byggingarnefndar frá 14. nóvember 1996 um að heimila nýjar dyr á norður- og suðurhlið biðsalar (1. hæð austurhluta) Hafnarstrætis 20  en ákvörðunin að öðru leyti látin standa óhögguð.  Í framhaldi af þessari niðurstöðu var inngönguleiðum á norður- og suðurhlið biðsalar lokað en jafnframt var opnað milli biðsalarins og miðrýmis 1. hæðar til þess að fullnægt væri kröfum um öryggi skv. reglugerð um brunavarnir og brunamál.

Þar sem úrskurði setts umhverfisráðherra frá 2. maí 1997 var ekki framfylgt tafarlaust höfðaði kærandi mál á hendur eigendum austurenda 1. hæðar Hafnarstrætis 20 með stefnu þingfestri í héraðsdómi Reykjavíkur hinn 19. júní 1997, þar sem þess var aðallega krafist að þeir yrðu dæmdir til þess, að viðlögðum dagsektum, að færa útveggi í austurenda 1. hæðar og innréttingar og skilrúm í miðrými hússins, þ.m.t. snyrtiaðstöðu, í það horf sem samþykkt teikning frá 22. desember 1977 gerir ráð fyrir.  Þá gerði kærandi kröfur um skaðabætur í málinu.  Af hálfu stefndu var gagnstefnt í málinu og gagnsök þingfest hinn 28. janúar 1998. Var í gagnsökinni krafist ógildingar úrskurðar setts umhverfisráðherra frá 8. desember 1997.  Dómur gekk í máli þessu hinn 29. apríl 1998 og var úrskurður setts umhverfisráðherra frá 8. desember 1997 felldur úr gildi. Tilkynnti kærandi dómhöfum þá þegar að dómi þessum yrði áfrýjað til Hæstaréttar og sendi þeim tilkynningu þess efnis hinn 30. apríl 1998.  Áfrýjunarstefna var síðan gefin út í málinu hinn 5. maí 1998. 

Dagana 3. til 5. maí 1998 breytti byggingadeild borgarverkfræðings húsnæðinu í það horf sem uppdráttur samþykktur af byggingarnefnd hinn 14. nóvember 1996 sýnir.  Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að framkvæmdir þessar hafi verið unnar án samþykkis byggingarnefndar eða byggingarfulltrúa.  Hinn 7. maí 1998 var lögð inn til byggingarnefndar umsókn SVR f.h. eigenda um byggingarleyfi fyrir þessum framkvæmdum.  Umsókn þessi var tekin fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 14. maí 1998 og var málinu þá frestað en byggingarfulltrúa falið að krefja SVR skýringa á framkvæmdum eftir dómsuppkvaðningu héraðsdóms.  Málið var aftur tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 28. maí 1998 og þá samþykkt að óska umsagnar lagastofnunar Háskóla Íslands varðandi ágreining um frestun réttaráhrifa héraðsdómsins vegna áfrýjunar hans. Jafnframt var byggingarfulltrúa falið, með vísan til bréfs SVR 26. maí 1998, að óska skýringa byggingadeildar borgarverkfræðings á þætti hennar í síðustu breytingu á Hafnarstræti 20.  Á fundi borgarráðs hinn 2. júní 1998 var ákvörðun byggingarnefndar um að leita álits lagastofnunar Háskóla Íslands felld úr gildi með þeim rökum að borgarlögmaður hefði flutt málið fyrir dómstólum og engin ástæða væri til breytinga þar á.  Var umsóknin síðan tekin til afgreiðslu á fundi byggingarnefndar hinn 25. júní 1998 þar sem fallist var á erindið og er það sú ákvörðun byggingarnefndar sem kærð er til úrskurðarnefndar í máli þessu.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að það sé meginregla að áfrýjun fresti réttaráhrifum dóms.  Hefur lögmaður kæranda gert ítarlega grein fyrir þessari skoðun í málsgögnum, einkum í bréfi til byggingarnefndar Reykjavíkur dags. 23. maí 1998 þar sem meðal annars er vitnað til nokkurra fræðirita og heimilda um þetta álitaefni.  Telur kærandi að byggingarnefnd hafi ekki átt að leggja niðurstöðu héraðsdóms til grundvallar við ákvörðun sína hinn 25. júní 1998 svo sem gert var, þar sem dóminum hafði þá verði áfrýjað.  Hafi kærandi raunar lýst því yfir þegar eftir uppkvaðningu héraðsdómsins að honum yrði áfrýjað og hafi áfrýjunarstefna verið gefin út svo fljótt sem unnt hafi verið.  Breytingar þær, sem SVR hafi látið gera á húsnæðinu í austurenda 1. hæðar Hafnarstrætis 20 dagana 3. til 5. maí 1998, hafi auk þess verið unnar án heimildar byggingarnefndar. Ennfremur telur kærandi að ranglega hafi verið staðið að rannsókn málsins og að rökstuðningi hafi verið áfátt. Hafi borgaryfirvöld með framferði sínu brotið byggingarlög og grundvallarreglur stjórnsýslu bæði hvað varðar jafnræði, meðalhóf og andmælarétt.  Í bréfi lögmanns kæranda til úrskurðarnefndarinnar dags. 29. september 1998 er áréttað að kærandi telji úrskurðarnefndina bæra að fjalla efnislega um kæru hans.  Kærandi vísar í nefndu bréfi til fyrri málsástæðna en styður kröfur sínar auk þess þar þeim rökum að ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 1998, sem um er fjallað í málinu, beri að fella úr gildi vegna vanhæfis tveggja nefndarmanna í byggingarnefnd.  Telur kærandi að formaður byggingarnefndar, Óskar Bergsson, hafi verið vanhæfur við afgreiðslu málsins þar sem hann hafi starfað og starfi fyrir byggingadeild borgarverkfræðings sem verktaki.  Þá telur kærandi að Árni Þór Sigurðsson, sem tók þátt í afgreiðslu málsins sem aðalmaður í byggingarnefnd, hafi einnig verið vanhæfur þar sem hann hafi verið formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur frá því í septembermánuði 1996 til 7. júní 1998, eða þar til hann tók sæti í byggingarnefnd eftir sveitarstjórnarkosningarnar sl. vor.  Hafi hann því verið forsvarsmaður umsækjanda þegar sótt var um byggingarleyfi það sem ákvörðun var tekin um á fundinum hinn 25. júní sl.  Telur kærandi báða þessa nefndarmenn hafa verið vanhæfa við afgreiðslu þess máls sem um er deilt.

Málsrök byggingarnefndar, byggingarleyfishafa, og húsfélags Hafnarstrætis 20:   Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur um kæruefnið er rakin forsaga málsins og aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar.  Telur byggingarnefnd að heimilt hafi verið að veita hið umdeilda byggingarleyfi enda hafi kærandi ekki vísað til skýrra lagaákvæða varðandi frestun réttaráhrifa dóms héraðsdóms sem bundið hafi hendur byggingarnefndar.  Er vísað til þess álits borgarlögmanns  að dómur héraðsdóms standi þar til niðurstaða Hæstaréttar liggi fyrir og hafi eigendum austurenda Hafnarstrætis 20 því verið rétt að fara í einu og öllu eftir niðurstöðu héraðsdóms.   Af hálfu byggingarnefndar hefur verið staðfest að byggingarnefndarmenn þeir sem kærandi telur hafa verið vanhæfa hafi haft þá stöðu sem kærandi heldur fram, en ekki er fallist á að þeir hafi verið vanhæfir af þeim sökum. 

Í greinargerð borgarlögmanns f.h. SVR er lýst þeirri skoðun borgaryfirvalda að með því að héraðsdómur hafi fellt úr gildi úrskurð setts umhverfisráðherra hafi jafnframt sú ákvörðun sem ráðherrann felldi úr gildi öðlast gildi á ný.  Hafi byggingarnefnd verið sent endurrit héraðsdómsins daginn eftir uppkvaðningu hans og hafi nefndinni borið, með eða án umsóknar, að fella úr gildi þær teikningar sem leggja hafi þurft fyrir nefndina vegna þess úrskurðar sem síðar hafi verið felldur úr gildi með dómi.  Með dómi héraðsdóms hafi því verið staðfest að teikningar sem samþykktar hafi verið hinn 14. nóvember 1996 væru lögmætar og hafi þær því öðlast gildi á ný við uppkvaðningu dómsins.  Í kjölfar dómsins hafi húsnæðinu verið komið í það horf sem þær teikningar hafi gert ráð fyrir.  Bent er á að ekkert banni byggingarnefnd að samþykkja uppdrætti sem séu í samræmi við héraðsdóm.  Úrskurður setts umhverfisráðherra gildi ekki eftir að dómur hafi fellt hann úr gildi.  Tilkynning um áfrýjun, eða áfrýjun, fresti almennt ekki réttaráhrifum dóms. Sé það meginregla í íslenskum rétti að málsskot fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sbr. t.d. 29. gr. stjórnsýslulaga.  Í undantekningartilvikum hafi löggjafinn ákveðið að áfrýjun fresti réttaráhrifum dóms meðan mál er rekið fyrir æðri dómi.  Sé slíka undantekningu að finna í 2. mgr. 5. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.  Réttaráhrif úrskurðar setts umhverfisráðherra hafi gilt þrátt fyrir málsskot til héraðsdóms.  Nú gildi héraðsdómurinn og verði kærandi að hlíta honum  eins og aðrir.  Til þess að fresta réttaráhrifum héraðsdómsins þurfi skýlaus lagafyrirmæli en þau séu engin til staðar varðandi það ágreiningsefni sem hér sé til úrlausnar.  Að mati borgarlögmanns sé það ekki í verkahring úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að úrskurða um réttaráhrif dóma sem áfrýjað hafi verið.  Er þess krafist að öllum kröfum kæranda í málinu verði hafnað.  Varðandi síðar fram komna málsástæðu kæranda um meint vanhæfi tveggja byggingarnefndarmanna er á það bent að ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi gildi ekki um sveitarstjórnarmenn og þá aðra er starfi við stjórnsýslu sveitarfélaga en um þá gildi ákvæði sveitarstjórnarlaga.  Er í þessu sambandi vísað til 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Er tekið fram að Árni Þór Sigurðsson hafi ekki setið í stjórn Strætisvagna Reykjavíkur þegar umrætt mál hafi verið tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 25. júní sl.   Þá er upplýst að Óskar Bergsson sé ekki og hafi ekki verið starfsmaður Reykjavíkurborgar og hafi hann hvergi komið að máli þessu nema sem byggingarnefndarmaður.  Þá orki tvímælis að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fjalli um álitaefni sem heyri undir annað jafn sett stjórnvald, félagsmálráðuneytið, en samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga úrskurði það um ýmis vafaatriði við framkvæmd sveitarstjórnarmála.

Af hálfu meðeigenda SVR að austurenda 1. hæðar, Trítons ehf., Gerpis sf. og Renötu Erlendsson er tekið undir sjónarmið borgarlögmanns f.h. SVR og sömu málsástæður og kröfur hafðar uppi.

Af hálfu húsfélags Hafnarstrætis 20 er því haldið fram að það sé tæpast á valdi úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að leysa úr efnislegum rökum ágreinings kæranda og eigenda austurenda 1. hæðar enda sé það í andstöðu við 116. gr. laga nr. 91/1991 og tilgang þess ákvæðis.  Að leysa úr því hvaða réttaráhrif áfrýjun dóma hafi sé jafnframt tæpast á valdsviði úrskurðarnefndar.  Slíkt sé ekki meðal skilgreindra hlutverka nefndarinnar.  Hafi kæranda borið að leita annarra leiða hafi hann ekki viljað una framkvæmdum eigenda austurenda 1. hæðar sem gerðar hafi verið í samræmi við dóm héraðsdóms.  Með vísan til þessa telji stjórn húsfélagsins að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni.  Verði ekki fallist á frávísun beri nefndinni að fresta afgreiðslu málsins þar til dómur Hæstaréttar sé genginn í málinu.  Að því er varðar málsástæður kæranda um meint vanhæfi tveggja byggingarnefndarmanna er tekið fram að það sé ekki á valdi stjórnar húsfélagsins að taka afstöðu til þeirra atriða enda hafi stjórnin ekki aðstöðu til að leggja mat á aðstæður þessara manna.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Leitað var álits Skipulagsstofnunar um kæruefni málsins.  Í umsögn stofnunarinnar er tekið fram að með dómi héraðsdóms hafi úrskurður umhverfisráðherra verið ógiltur.  Hafi þar með verið fallin úr gildi ógilding ráðherra á ákvörðun byggingarnefndar frá 14. nóvember 1996 og því staðfest heimild byggingarnefndar til að samþykkja að nýju umsókn um byggingarleyfi fyrir sambærilegum framkvæmdum.  Eldra byggingarleyfið hafi hins vegar ekki öðlast sjálfkrafa gildi við dóminn og telur stofnunin því ámælisverð þau vinnubrögð byggingadeildar borgarverkfræðings f.h. Strætisvagna Reykjavíkur að hefja framkvæmdir við breytingar án þess að afla byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum.  Hins vegar telur Skipulagsstofnun að byggingarnefnd hafi verið heimilt að veita hið kærða byggingarleyfi að fenginni niðurstöðu héraðsdóms þrátt fyrir að niðurstöðunni hafði verið áfrýjað til Hæstaréttar.  Verði niðurstaða Hæstaréttar önnur en héraðsdóms geti það leitt til tjóns fyrir framkvæmdaraðila en því hafi byggingarnefnd gert umsækjanda grein fyrir við afgreiðslu málsins hjá nefndinni.

Ekki var leitað umsagnar Skipulagsstofnunar um síðar fram komnar málsástæður kæranda um vanhæfi byggingarnefndarmanna enda um afmarkað lagaatriði að tefla sem ekki þarfnast sérstakrar umsagnar.

Niðurstaða:  Kærandi og eigendur austurenda 1. hæðar Hafnarstrætis 20 hafa um árabil átt í deilum um fyrirkomulag húsnæðis í miðrými og austurenda 1. hæðar. Vísaði kærandi  ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. nóvember 1996 til umhverfisráðherra í desember 1996 með kröfu um ógildingu.   Þar sem fyrri úrskurði setts umhverfisráðherra frá 2. maí 1997 var ekki framfylgt tafarlaust höfðaði kærandi mál fyrir héraðsdómi, sem þingfest var hinn 19. júní 1997, til að fá skorið úr um ágreining málsaðila um fyrirkomulag miðrýmis og austurenda 1. hæðar Hafnarstrætis 20.  Eins og að framan er rakið urðu niðurstöður ráðherra annars vegar og héraðsdóms hins vegar ekki hinar sömu og hefur þetta leitt til þess að réttarstaða málsaðila hefur breyst frá einum tíma til annars.  Ríkir enn óvissa um það hver endanleg niðurstaða verður um ágreining aðila meðan beðið er úrlausnar Hæstaréttar í málinu.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála telur að sá ágreiningur málsaðila sem borinn hefur verið undir dómstóla verði ekki jafnframt og samtímis borinn undir nefndina.  Af þessu leiðir að nefndin tekur ekki afstöðu til þeirra málsástæðna sem hafðar voru uppi fyrir héraðsdómi og nú eru til úrlausnar í Hæstarétti.  Eftir sem áður ber úrskurðarnefndinni að taka til úrlausnar málsástæður er varða undirbúning og málsmeðferð byggingarnefndar er hin kærða ákvörðun var tekin, enda var sú ákvörðun tekin eftir uppkvaðningu héraðsdómsins um ágreining málsaðila og getur gildi hennar ekki komið til úrlausnar á einu dómstigi í Hæstarétti.  Verður því ekki fallist á frávísunarkröfu húsfélags Hafnarstrætis 20 í málinu.

Úrskurðarnefndin fellst á þá skoðun, sem fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar, að eldra byggingarleyfi hafi ekki öðlast sjálfkrafa gildi við dóm undirréttar og þurftu dómhafar því að sækja um leyfi byggingarnefndar fyrir þeim breytingum sem þeir töldu sig eiga rétt á að gera á grundvelli dómsins.  Virðist þetta raunar hafa verið skilningur dómhafanna sjálfra enda sóttu þeir um byggingarleyfi á grundvelli undirréttardómsins með umsókn dags. 7. maí 1998.

Við afgreiðslu byggingarnefndar á umsókninni kom til skoðunar hver væru réttaráhrif áfrýjunar dóms undirréttar í málinu þar sem ekki væri um aðfarardóm að tefla.  Var byggingarnefnd rétt að gaumgæfa þetta álitaefni sérstaklega enda var það forsenda hinnar kærðu ákvörðunar að leggja mætti dóm undirréttar til grundvallar henni.  Á fundi sínum hinn 28. maí 1998 ákvað byggingarnefnd að óska álits lagastofnunar Háskóla Íslands um þetta álitaefni og telur úrskurðarnefndin að sú ákvörðun hafi verið byggingarnefnd heimil á grundvelli rannsóknarreglu og til þess fallin að vanda undirbúning ákvörðunar nefndarinnar.  Þessa ákvörðun felldi borgarráð úr gildi á fundi sínum hinn 2. júní 1998 með vísun til þess að borgarlögmaður hefði flutt þetta mál fyrir dómstólum og að engin ástæða væri til breytinga þar á.  Með þessari ákvörðun var felld úr gildi ákvörðun byggingarnefndar um að leita álits óháðs sérfróðs aðila um mikilsvert álitaefni við afgreiðslu máls og telur úrskurðarnefndin að þessi afskipti borgarráðs hafi verið óheppileg eins og á stóð. 

Enda þótt úrskurðarnefndin telji að æskilegt hefði verið að afla sérfræðiálits óháðs aðila um réttaráhrif áfrýjunar umrædds héraðsdóms er það skoðun nefndarinnar að byggingarnefnd hafi verið unnt að fjalla efnislega um málið eins og það lá fyrir nefndinni.  Var það þá viðfangsefni nefndarinnar að meta hvort heimila ætti eftirá þær breytingar sem gerðar höfðu verið í óleyfi að undirlagi SVR og með atbeina byggingardeildar borgarverkfræðings án þess að fyrir lægi annað en misvísandi staðhæfingar málsaðila um réttaráhrif áfrýjunar.  Þegar málið kom til afgreiðslu byggingarnefndar lá fyrir að dómi héraðsdóms hafði verið áfrýjað til Hæstaréttar.  Ágreiningur málsaðila var því enn til meðferðar fyrir dómstólum þegar byggingarnefnd tók hina umdeildu ákvörðun og telur úrskurðarnefndin að betur hefði samræmst almennum sjónarmiðum um réttaröryggi að raska ekki þeirri réttarstöðu sem orðin var fyrir uppkvaðningu dóms undirréttar meðan beðið væri dóms Hæstaréttar í málinu.  Enda þótt þessi sé skoðun úrskurðarnefndar þykir skorta skýra hemild til þess að nefndin úrskurði um réttaráhrif áfrýjunar héraðsdóms í máli þessu eins og það liggur fyrir nefndinni og verður hin kærða ákvörðun byggingarnefndar því ekki ógilt af ástæðum er varða réttaráhrif áfýjunarinnar.

Af hálfu kæranda hefur því verið haldið fram að vegna stöðu sinnar og tengsla við umsækjanda hafi tveir þriggja byggingarnefndarmanna sem að ákvörðuninni stóðu verið vanhæfir til þátttöku í meðferð málsins. Er úrskurðarnefndin bær að fjalla um þessa málsástæðu enda getur nefndin ekki gegnt hlutverki sínu nema það sé á valdsviði hennar að fjalla um öll þau atriði er varða gerð og undirbúning ákvörðunar sem borin er undir nefndina. Um hæfi byggingarnefndarmanna eru skýr ákvæði í byggingarreglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum sem í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin.  Í grein 2.2.11 í nefndri reglugerð segir að þegar byggingarnefnd fjalli um mál sem varði persónulega hagsmuni einhvers nefndarmanna eða einhvern þeirra sem sitji fundi hennar, s.s. ef hann hafi gert uppdrátt eða sent inn umsókn sem nefndin fjallar um, skuli hlutaðeigandi víkja af fundi meðan málið er afgreitt.  Ákvæði þetta telur úrskurðarnefndin tvímælalaust ná til þátttöku Árna Þórs Sigurðssonar við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar.  Umsókn sú, sem til afgreiðslu var á fundinum, var umsókn Strætisvagna Reykjavíkur dagsett 7. maí 1998.  Árni Þór Sigurðsson var, á þeim tíma er umsóknin var send, formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur og því forsvarsmaður lögaðila þess sem umsóknina sendi.  Verður að telja að ákvæði greinar 2.2.11 taki eðli máls samkvæmt og með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til æðstu stjórnenda lögaðila sem umsókn stafar frá og gildir einu þótt nefndarmaður hafi ekki lengur þessa stöðu þegar umsóknin kemur til afgreiðslu.  Þar sem Árni Þór Sigurðsson var samkvæmt framansögðu vanhæfur til þátttöku í meðferð málsins og tveir nefndarmenn sátu hjá við afgreiðslu þess var byggingarnefnd, með vísun til 2. mgr. greinar 2.2.10 í reglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum, óheimilt að taka málið til afgreiðslu heldur bar að fresta afgreiðslu þess eins og nánar greinir í tilvitnuðu ákvæði.  Byggingarnefnd var samkvæmt þessu ekki bær að taka ákvörðun í málinu og ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Þar sem hugsanlegt vanhæfi Óskars Bergssonar vegna tengsla hans við byggingardeild borgarverkfræðings hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til hæfis hans til þátttöku í afgreiðslu málsins enda tengist hann ekki umsækjandanum, Strætisvögnum Reykjavíkur, með beinum hætti.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu húsfélags Hafnarstrætis 20 um frávísun máls þessa frá úrskurðarnefndinni.  Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 1998 um að fella úr gildi uppdrætti af miðrými og austurenda Hafnarstrætis 20 Reykjavík frá 26. febrúar 1998 og að uppdrættir frá 14. nóvember 1996 taki gildi að nýju, sem staðfest var af borgarstjórn hinn 2. júlí 1998, er felld úr gildi.

30/1998 Laugavegur

Með

Ár 1998, föstudaginn 25. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 30/1998; kæra vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1998 um að veita leyfi til að byggja verslunar-, þjónustu- og íbúðarhús úr steinsteypu á lóðinni nr. 53b í Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 4. ágúst 1998, sem barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra eigendur/íbúar að Laugavegi 53a og Hverfisgötu 70, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1998, sem staðfest var á fundi borgarráðs í umboði borgarstjórnar hinn 14. júlí 1998, um að veita leyfi til byggingar verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúss á lóðinni nr. 53b við Laugaveg í Reykjavík.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá krefjast kærendur þess að framkvæmdir verði stöðvaðar strax og byggingarleyfi hafi verið veitt. Kæruheimild er skv. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 en krafa kærenda um stöðvun framkvæmda er gerð með stoð í 5. mgr. 8. gr. sömu laga.

Málavextir:  Einungis verða hér raktir málavextir að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn um kröfu kærenda um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.

Tillögur að uppbyggingu á lóðinni nr. 53b við Laugaveg munu fyrst hafa komið til umfjöllunar hjá byggingaryfirvöldum í ársbyrjun 1997.  Var fjallað um þessar tillögur á árinu 1997 og þær m. a. kynntar nágrönnum.  Sættu tillögurnar nokkrum breytingum og voru gerðar breytingar á teikningum af því tilefni.  Hinn 12. janúar 1998 var samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur að kynna nágrönnum framlagða tillögu samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Tillögur að uppbyggingu á lóðinni voru síðan samþykktar í skipulags- og umferðarnefnd og urðu þessar tillögur grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar byggingarnefndar.  Þegar kærendur skutu málinu til úrskurðarnefndar hafði byggingarleyfi ekki verið gefið út og framkvæmdir því ekki hafnar.  Af þessu tilefni óskaði úrskurðarnefndin þess að byggingarfulltrúi upplýsti nefndina um það hvenær framkvæmdir við bygginguna mættu hefjast.  Hafa nefndinni nú borist upplýsingar um að framkvæmdir séu hafnar en vegna mistaka í póstafgreiðslu, sem staðfest hafa verið af Íslandspósti hf., varð byggingaraðilanum ekki kunnugt um framkomna kæru eða tilmæli byggingarfulltrúa um að tilkynna sérstaklega um fyrirhugaðar framkvæmdir fyrr en hinn 18. þessa mánaðar. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér hvað líði framkvæmdum á byggingarstað.  Hefur verið unnið að því að hreinsa ofan af klöpp og fleyga fyrir sökklum.  Vinna við uppslátt er ekki hafin.  Framundan er frágangur lagna í grunn, sökkulgerð og frágangur botnplötu sem verður malbikuð.  Þá er ólokið frágangi aðstöðu sem Reykjavíkurborg hefur á lóðinni fyrir hitastýringu snjóbræðslulagna á Laugavegi.

Niðurstaða:  Framkvæmdir þær sem nú eru hafnar að Laugavegi 53b eru unnar samkvæmt formlega gildu byggingarleyfi sem ekki hefur verið hnekkt.  Bíður það efnisúrlausnar nefndarinnar að taka afstöðu til gildis leyfisins.  Að mati úrskurðarnefndar eiga kærendur ekki ríka hagsmuni því tengda að fá stöðvaðar þær framkvæmdir sem unnið kann að verða að fram til þess er efnisúrskurður gengur í málinu.  Framkvæmdir þessar felast aðallega í frágangi lagna í grunn, sökkla og botnplötu, sem jafnframt verður bílastæði.  Telur úrskurðarnefndin að að hluta til myndu framkvæmdir þessar nýtast jafnvel þótt fallist yrði á kröfur kærenda um að hið umdeilda byggingarleyfi verði fellt úr gildi enda verður ekki hjá því komist að ganga með einhverjum hætti frá grunni fyrirhugaðrar byggingar hver sem niðurstaða málsins verður.

Samkvæmt framansögðu hafnar úrskurðarnefndin kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda að Laugavegi 53b.  Hins vegar er áréttað að með bráðabirgðaúrskurði þessum er engin afstaða tekin til aðalefnis málsins og eru framkvæmdir sem unnar eru meðan málið er til úrlausnar hjá nefndinni alfarið á ábyrgð byggingarleyfishafa.  Er það og á hans færi að meta og ákveða að hvaða marki hann kýs að halda áfram framkvæmdum meðan ekki hefur verið úrskurðað um kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis þess sem framkvæmdirnar styðjast við.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir sem hafnar eru á byggingarstað að Laugavegi 53b í Reykjavík verði stöðvaðar meðan beðið er úrskurðar um aðalefni kærumáls þessa.

22/1998 Ingólfsstræti

Með

Ár 1998, miðvikudaginn 7. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/1998; kæra eiganda Ingólfsstrætis 7a vegna byggingarleyfis fyrir viðbyggingu að Ingólfsstræti 7b, Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 25. júní 1998, sem barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir E, Ingólfsstræti 7a, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 1998 um að veita leyfi til þess „að byggja 2. hæð og ris úr timbri í stað steinsteypu, einangra og múrhúða kjallara að utan, setja glugga á suðurvegg kjallara, breyta glugga á norðurhlið stigahúss og að klæða 1. og 2. hæð hússins á lóðinni nr. 7B við Ingólfsstræti að utan með bárujárni.“  Ákvörðun þessi var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 4. júní 1998.  Kærandi krefst þess aðallega að samþykktar teikningar af Ingólfsstræti 7b verði felldar úr gildi en til vara að viðbyggingin verði tekin út af Eldvarnaeftirliti og að byggingaraðila verði sett tímamörk til að ljúka framkvæmdum.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var hún ekki studd neinum gögnum og var kæranda gefinn kostur á að leggja fram nauðsynleg gögn.  Bárust nefndinni gögn í málinu hinn 13. júlí 1998 og var málið þá fyrst tækt til efnislegrar meðferðar.  Við meðferð málsins kom síðar í ljós að breytingar á húsinu nr. 7b við Ingólfsstræti kynnu að fara í bága við gildandi deiliskipulag.  Af þessu tilefni óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum byggingaryfirvalda í Reykjavík og ákvað jafnframt að lengja afgreiðslutíma málsins í allt að 3 mánuði skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Var kæranda tilkynnt þessi ákvörðun með bréfi dags. 14. september 1998.
 
Málavextir:   Húsið að Ingólfsstræti 7b var upphaflega teiknað árið 1923 og var þá gert ráð fyrir að það yrði tvær hæðir og ris en einhverra hluta vegna var húsið ekki byggt í þá hæð.  Umrætt hús stendur á svonefndum Iðnaðarmannareit, sem markast af Ingólfsstræti, Hallveigarstíg, Bergstaðastræti og Skólavörðustíg.  Fyrir svæði þetta var gert deiliskipulag og staðfest á árinu 1989.  Var í því skipulagi gert ráð fyrir að húsið yrði rifið og nýtt hús byggt í þess stað.  Með breytingu á deiliskipulagi, sem staðfest var hinn 30. júní 1994, var fallið frá fyrri áformum og lagt til að húsið fengi að standa áfram og að leyfð yrði ofanábygging samkvæmt teikningu frá 1923 að viðbættri lítils háttar stækkun, sem sótt hafði verið um.  Hinn 13. október 1994 veitti byggingarnefnd Reykjavíkur leyfi til þess að fullgera húsið samkvæmt byggingarleyfi frá 1. ágúst 1923 með smávægilegri hækkun á risi.  Árið 1995 var enn gerð breyting á deiliskipulagi svæðisins.  Var lóðin að Ingólfsstræti 7b þá minnkuð um 18 fermetra vegna breytinga á bílastæðum sunnan lóðarinnar en gangstéttarkvöð á lóðinni jafnframt felld niður.  Skipulagsbreyting þessi var staðfest 2. ágúst 1995. Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 14. september 1995 var minnkun lóðarinnar samþykkt.  Jafnframt var á sama fundi samþykkt breytt innra fyrirkomulag íbúðar á 1. hæð og innrétting íbúðar á  2. hæð og í risi ásamt leyfi fyrir áður gerðri íbúð í kjallara.  Á fundi byggingarnefndar hinn 14. desember 1995 var síðan samþykkt að leyfa að settar yrðu svalir á húsið og að anddyri kjallara yrði stækkað um 6 fermetra.  Í nóvember 1995 hófust framkvæmdir við viðbyggingu við húsið og hafa framkvæmdir við viðbygginguna og lagfæringar á húsinu staðið yfir frá þeim tíma.  Samkvæmt yfirliti um úttektir byggingarfulltrúa hefur verið unnið að verkinu í nóvember 1995 og síðan á vormánuðum 1996 til maíloka.  Framkvæmdir virðast síðan hafa legið niðri um alllangt skeið en hafist aftur í apríl 1997 og þá staðið fram undir lok þess árs. Í desember 1997 var gerð fyrirspurn til byggingarnefndar þess efnis hvort leyft yrði að byggja 2. hæð og ris hússins úr timbri með bárujárnsklæðningu í stað steinsteypu eins og áður hafði verið samþykkt.  Fyrirspurn þessi hlaut jákvæða umsögn og var í framhaldi af því sótt um leyfi fyrir þessum breytingum með formlegum hætti.  Kom málið til meðferðar á fundi byggingarnefndar hinn 8. apríl 1998 en var þá frestað til frekari skoðunar.  Á fundi byggingarnefndar hinn 14. maí 1998 var síðan samþykkt leyfi til að byggja  2. hæð og ris úr timbri með járnklæðningu í stað steinsteypu, ásamt nokkrum minni háttar breytingum.  Er þetta sú ákvörðun, sem kærð er í máli þessu, en af gögnum málsins má ráða að nokkurrar óánægju hefur gætt á undanförnum árum meðal næstu nágranna varðandi áform um viðbyggingu við Ingólfsstræti 7b og það hvernig að framkvæmdum hefur verið staðið.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að ekki hafi verið gætt nægilega vel að eldvörnum við gerð teikninga að breytingum á Ingólfsstræti 7b og við samþykkt þeirra.  Á milli húsanna nr. 7a og 7b við Ingólfsstræti séu rétt um 9 metrar en að bil milli timburhúsa eigi að vera 10 metrar samkvæmt reglugerð.  Ekkert samráð hafi verið haft við eigendur Ingólfsstrætis 7a um þetta atriði.  Þá tekur kærandi fram að aldrei hafi farið fram grenndarkynning vegna breytinganna á Ingólfsstræti 7b.  Telur kærandi að um sé að ræða svo umfangsmiklar breytingar að skylt hafi verið að viðhafa slíka kynningu.  Þá hafi mótmælum íbúa nærliggjandi húsa ekki verið svarað en mótmæli hafi verið send til byggingarfulltrúa.  Loks bendir kærandi á að eigandi Ingólfsstrætis 7b hafi nú í bráðum fimm ár „baslað við að byggja og breyta húsi sínu.“  Séu nágrannar orðnir langþreyttir á hamarshöggum og öðrum hávaða.

Málsrök byggingarnefndar og byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur er á það bent að ákvörðun nefndarinnar frá 14. maí 1998 feli ekki í sér neinar stærðarbreytingar né hækkun á  húsi.  Einungis hafi verið um að ræða breytingar á byggingarlýsingu og efni ofanábyggingar. Löngu hafi verið búið að heimila að byggja 2. hæð og ris ofan á húsið að Ingólfsstræti 7b og hafi áform um þær framkvæmdir verið kynnt í tillögu að deiliskipulagi á árinu 1994, sem staðfest hafi verið hinn 30. júní það ár.  Hafi því ekki þurft að láta fara fram grenndarkynningu vegna þeirrar breytingar á húsinu.  Af hálfu byggingarnefndar er hins vegar fallist á það að svalir á húsinu og stigahús austast á lóðinni séu ekki í samræmi við staðfest deiliskipulag en ábending um þetta kemur fram í umsögn Skipulagsstofnunar í málinu.  Samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti Borgarskipulags frá því í júní 1995 sé ljóst, að áformað hafi verið að breyta byggingarreit hússins þannig að stigahús og svalir yrðu innan marka deiliskipulags.  Jafnframt hafi verið gerð tillaga að breytingu á lóðarmörkum sunnan við húsið.  Kveður byggingarnefnd þennan uppdrátt hafa verið kynntan við auglýsingu á breyttu deiliskipulagi á árinu 1995.  Við endanlegan frágang uppdráttar til staðfestingar hafi hins vegar fallið niður breytingin á byggingarreit hússins og því hafi aðeins verið staðfest breyting á deiliskipulagi varðandi breytt lóðarmörk. Byggingarleyfi, sem veitt hafi verið á fundi byggingarnefndar hinn 14. desember 1995, þar sem leyft hafi verið að setja svalir á húsið, breyta anddyri og stækka kjallaraíbúð, hafi því verið veitt á þeirri röngu forsendu að tillaga Borgarskipulags frá júní 1995 að breyttu deiliskipulagi hafi hlotið staðfestingu.  Hins vegar er á það bent, að unnið hafi verið eftir umræddu byggingarleyfi allt frá útgáfu þess og hafi nágrönnum mátt vera full kunnugt um þær framkvæmdir, sem leyfið tekur til, þegar á árinu 1996.  Kærufrestur vegna þess leyfis sé því löngu liðinn og geti gildi þess því ekki komið til endurskoðunar úrskurðarnefndar í máli þessu.  Að því er varðar fjarlægð milli húsa og eldvarnarkröfur vísar byggingarnefnd til bréfs Eldvarnaeftirlits Reykjavíkur dags. 11. ágúst 1998 þar sem fram kemur að sé tekið tillit til klæðninga húsanna nr. 7a og 7b við Ingólfsstræti sé fjarlægð sem mælist milli þeirra nægileg til að fullnægt sé kröfum byggingarreglugerðar.  Byggingarnefnd fellst á það að umkvörtun kæranda um óhóflega langan byggingartíma  sé réttmæt og hefur byggingarfulltrúi með bréfi dags. 18. ágúst 1998 til byggingarleyfishafa beint tilmælum til hans um að hraða framkvæmdum og að framkvæmdum utanhúss verði lokið eigi síðar en hinn 1. nóvember 1998. 

Byggingarleyfishafanum, Hrafnhildi Hafberg, hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um kæruefni máls þessa með vísun til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Af hennar hálfu hefur ekki verið skilað greinargerð í málinu en munnlega hefur verið lýst fyrir nefndinni sjónarmiðum hennar, sem eru í aðalatriðum hin sömu og sjónarmið byggingarnefndar.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni málsins.  Í umsögn stofnunarinnar eru raktar þær breytingar, sem gerðar hafa verið á stærð og mörkum lóðarinnar að Ingólfsstræti 7b og á deiliskipulagi nærliggjandi svæðis. Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að teikningar þær af Ingólfsstræti 7b, sem samþykktar voru í byggingarnefnd hinn 14. maí 1998, séu ekki í samræmi við staðfest deiliskipulag.  Í umsögninni kemur jafnframt fram að þessar breytingar virðist reyndar þegar hafa verið búið að gera þegar byggingarnefnd fjallaði um Ingólfsstræti 7b á fundi sínum 14. desember 1995 og samþykkti nýjar teikningar.  Þá kemur fram í umsögninni að ekki hafi komið til þess að eigendum Skólavörðustígs 6b væri kynnt áform um stigahús austast á lóðinni að Ingólfsstræti 7b enda þótt slík kynning hafi komið til tals.  Er það álit Skipulagsstofnunar að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Niðurstaða:   Eins og að framan er rakið var með samþykkt byggingarnefndar hinn 14. desember 1995 heimiluð breyting á húsinu nr. 7b við Ingólfsstræti, sem ekki var í samræmi við staðfest deiliskipulag.  Breyting þessi verður að teljast minni háttar og hefði verið hægt að taka um hana ákvörðun að undangenginni málsmeðferð skv. 3. mgr. 19. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964, en kynna hefði átt nágrönnum breytinguna skv. ákvæði 2. mgr. greinar 3. 1. 1. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum.  Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. desember 1995 varðandi stækkun Ingólfsstrætis 7b var að þessu leyti áfátt en fallast verður á það sjónarmið byggingarnefndar að kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé liðinn, sbr. 8. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 með síðari breytingum, sbr. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Á grundvelli umræddrar ákvörðunar var gefið út byggingarleyfi og hefur verið unnið eftir því allt frá því á vormánuðum 1996 án þess að kærandi eða aðrir nágrannar hafi séð ástæðu til þess að bera umrædda  ákvörðun byggingarnefndar undir æðra stjórnvald. Verður, samkvæmt því sem nú var rakið, ekki tekin afstaða í úrskurði þessum til þeirra annmarka sem kunna að hafa verið á áðurnefndri ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. desember 1995.

Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 1998, sem kærð er í máli þessu, tekur einungis til óverulegra útlitsbreytinga auk breytinga á byggingarlýsingu og byggingarefni viðbyggingar þeirrar, sem áður hafði verið leyfð.  Fer þessi ákvörðun ein og sér ekki í bága við staðfest deiliskipulag og var því ekki skylt að kynna nágrönnum hana.  Breyting sú, sem leyfð var á byggingarefni viðbyggingar fer ekki heldur í bága við ákvæði þágildandi byggingarreglugerðar nr. 177/1992 með síðari breytingum, sbr. grein 5. 9. 2., sbr. og reglugerð um brunavarnir og brunamál nr. 269/1978, grein 2. 1. 1. enda verður viðbyggingin klædd bárujárni. Verður því, með vísun til þess sem að framan er rakið, ekki fallist á aðalkröfu kæranda um að samþykktar teikningar af Ingólfsstræti 7b verði felldar úr gildi. Úrskurðarnefndin fellst hins vegar á varakröfu kæranda um að viðbyggingin skuli tekin út af Eldvarnaeftirliti Reykjavíkur þegar frágangi útveggja og þaks er lokið.  Lagaskilyrði skortir til þess að verða við varakröfu kæranda um að byggingaraðila verði sett tímamörk til að ljúka framkvæmdum en vísað er til tilmæla í bréfi byggingarfulltrúa til byggingarleyfishafa dags. 18. ágúst 1998 um verklok utanhúss.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felldar verði úr gildi samþykktar teikningar af Ingólfsstræti 7b.  Lagt er fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að hlutast til um það að fram fari úttekt Eldvarnaeftirlits Reykjavíkur á viðbyggingu við húsið þegar frágangi útveggja og þaks er lokið.  Kröfu kæranda um að byggingaraðila verði sett tímamörk til að ljúka framkvæmdum er hafnað.

24/1998 Mjölnisholt

Með

Ár 1998, miðvikudaginn 23. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/1998, kæra eigenda og umráðamanna eignarhluta í Mjölnisholti 14, Reykjavík vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 31. október 1996 um að veita leyfi til að innrétta gistiheimili á 3. hæð í húsinu.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 15. júní 1998, sem móttekið var af nefndinni hinn 3. júlí sl., kæra Offsetfjölritun hf., M og Eldaskálinn, eigendur og umráðamenn eignarhluta í Mjölnisholti 14, Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 31. október 1996 um að samþykkja breytingar á húsnæði á 3. hæð hússins og heimila að innrétta þar gistiheimili.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 7. nóvember 1996.  Af kærunni verður ráðið að kært sé með vísun til kæruheimildar  4. mgr. 39. gr. l. 73/1997. Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn R um samþykki fyrir rekstri gistiheimilis að Mjölnisholti 14 verði hafnað.

Málavextir: 
Með umsókn um byggingarleyfi dags. 22. maí 1996 sótti R um leyfi til að nýta húsnæði á 3. hæð að Mjölnisholti 14 sem gistiheimili og setja brunastiga á norðurhlið hússins.  Samkvæmt teikningu var um að ræða austurenda 3. hæðar og kemur fram í umsókninni að umrætt húsnæði hafi um alllangt skeið verið nýtt sem gistiaðstaða.  Umsókninni fylgdi samþykki annarra eigenda eignarhluta í húsinu fyrir uppsetningu brunastiga.  Er tekið fram í samþykki eigenda að teikningar af stiganum fylgi bréfi þeirra.  Umsókn þessi var samþykkt á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 31. október 1996 og staðfest í borgarstjórn hinn 7. nóvember 1996.

Í maí 1997 leituðu ótilgreindir eigendur eignarhluta í Mjölnisholti 14 til Húseigendafélagsins með kvörtun vegna reksturs gististaðar á 3. hæð hússins.  Vegna þessarar kvörtunar ritaði Húseigendafélagið bréf til Lögreglustjórans í Reykjavík dags. 12. maí 1997 þar sem farið er fram á það f. h. þeirra aðila sem að kvörtuninni stóðu að upplýst verði hvort talið sé að um brot á ákvæðum laga nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði hafi verið að ræða og hvort gripið hafi verið til aðgerða vegna málsins eða hvort aðgerðir séu fyrirhugaðar.  Afrit af bréfi þessu var sent R.  Hinn 13. maí 1997 ritaði R bréf til byggingarfulltrúans í Reykjavík þar sem m. a. kemur fram að hún hafi skilað inn samþykktum teikningum til lögreglustjóraembættisins með umsókn um starfsleyfi.  Afrit af bréfi þessu var sent til lögreglustjóraembættisins og til Húseigendafélagsins.

Kærendur halda því fram að þeim hafi fyrst orðið kunnugt um tilvist hinnar kærðu ákvörðunar við heimsókn fulltrúa Eldvarnaeftirlits Reykjavíkur hinn 4. júní 1998.  Hafi þeim í framhaldi af eftirgrennslan um málið hjá byggingarfulltrúa verið bent á að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar.

Niðurstaða: 
Hin kærða ákvörðun í máli þessu var tekin á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 31. október 1996. Kærendur kvörtuðu yfir rekstri gistiheimilis í húsinu að Mjölnisholti 14 við Húseigendafélagið í maí 1997 og verður ekki annað ráðið af bréfi Húseigendafélagsins dags. 12. maí 1997 en að kvörtunin hafi verið á því byggð að ekki væri leyfi fyrir rekstri gistiheimilis í húsinu skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði.  Í bréfi R til byggingarfulltrúa dags. 13. júní 1997, sem Húseigendafélaginu var sent afrit af, kemur fram að R byggi á samþykktum teikningum við umsókn um starfsleyfi.  Samkvæmt þessu telur úrskurðarnefndin að við þá athugun sem Húseigendafélagið gerði á málinu fyrir kærendur í maí og júní 1997 hafi orðið ljóst að stuðst var við byggingarleyfi.  Verður að ætla að kærendum hafi mátt vera kunnugt um þær staðreyndir sem athugun Húseigendafélagsins hafði leitt í ljós, m. a. að byggingarleyfi hefði verið gefið út.  Var kærendum í lófa lagið að kynna sér hver afstaða byggingarnefndar væri til nýtingar umrædds húsnæðis sem gistiheimilis svo og hvaða leyfi byggingaryfirvöld hefðu veitt fyrir slíkri nýtingu.  Áttu kærendur þess kost að kæra ákvörðun byggingarnefndar til umhverfisráðherra með stoð í 8. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 með síðari breytingum.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærendur geti ekki nú krafist úrlausnar um gildi hinnar kærðu ákvörðunar rúmu ári eftir að þeim mátti vera kunnugt um að byggingarleyfi hefði verið veitt.  Ber því með vísun til 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sbr. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.  Vegna þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til þess að rekja umsagnir eða málsrök um efni máls en í máli þessu var leitað umsagna Skipulagsstofnunar og byggingarnefndar Reykjavíkur auk þess sem greinargerð var skilað í málinu af hálfu R.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um að ógilt verði samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 31. október 1996 fyrir breytingum á austurenda 3. hæðar að Mjölnisholti 14, Reykjavík er vísað frá úrskurðarnefndinni.