Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2001 Skildinganes

Ár 2001, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2001; kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. maí 2001, að hafna kröfu eigenda Skildinganess 51 í Reykjavík um afturköllun byggingarleyfis fyrir nýbyggingu á lóðinni nr. 49 við Skildinganes.
         

Í málinu er nú upp kveðinn svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júní 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir Brynjólfur Eyvindsson hdl., f.h. S og J, eigenda fasteignarinnar nr. 51 við Skildinganes í Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. maí 2001, um að hafna kröfu kærenda um afturköllun byggingarleyfis fyrir nýbyggingu á lóðinni nr. 49 við Skildinganes í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 5. júní 2001.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt gerðu þeir kröfu um að framkvæmdir, sem hafnar væru við nýbyggingu að Skildinganesi 49, yrðu stöðvaðar á meðan úrskurðarnefndin hefði málið til meðferðar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum hinn 11. júlí 2001.

Málavextir:   Kærendur eru eigendur að einbýlishúsi á lóðinni að Skildinganesi 51, Reykjavík, en það munu þeir hafa byggt á árinu 1974.  Húsið er á einni hæð, eins og áskilið var í skipulagsskilmálum sem í gildi voru á byggingartíma hússins.  Árið 1976 mun hafa komið fram vilji skipulagsyfirvalda til að breyta hæð húsa í nágrenni við fasteign kærenda.  Mótmæltu kærendur þessum áformum með bréfi til borgarverkfræðingsins í Reykjavík, dags. 22. mars 1976, og þá sérstaklega er varðaði lóðina Skildinganes 49, sem verið hefur óbyggð.  Kom ekki til þess að skipulagsskilmálum á svæðinu væri breytt í það sinn.  Breyting var hins vegar gerð á skipulagsskilmálunum í október 1990 og fól hún í sér nokkra rýmkun á heimildum til bygginga á óbyggðum lóðum á svæðinu.  Mun breyting þessi hafa farið framhjá kærendum, enda ekki kynnt þeim.
    
Þegar kærendur kynntu sér fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni að Skildinganesi 49 kom í ljós að samþykkt hafði verið bygging húss á lóðinni, sem þau töldu ganga gegn lögvörðum hagsmunum sínum, auk þess sem það færi í bága við skipulagsskilmála.  Sendu þeir erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur með bréfi, dagsettu 23. apríl 2001, þar sem farið var fram á afturköllun byggingarleyfis nýbyggingar að Skildinganesi 49.  Þeirri beiðni var hafnað, að öðru leyti en því að leyfi fyrir stoðvegg utan byggingarreits var fellt úr gildi.  Vísuðu kærendur málinu þá til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 15. júní 2001, eins og að framan greinir. 

Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð hinn 11. júlí 2001 um að framkvæmdir við byggingu hússins skyldu stöðvaðar.  Eftir að sú niðurstaða var fengin hófst byggingarleyfishafi handa um að gera þær breytingar á hönnun byggingarinnar sem hann taldi bráðabirgðaúrskurð nefndarinnar gefa tilefni til.  Sótti hann um byggingarleyfi fyrir breyttu húsi á lóðinni er kæmi í stað fyrra leyfis. Var nýtt byggingarleyfi samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 27. nóvember 2001, en áður hafði málið hlotið afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 14. nóvember 2001.  Hlaut þessi afgreiðsla staðfestingu borgarstjórnar hinn 6. desember 2001.

Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 13. desember 2001, til lögmanns kærenda, sem úrskurðarnefndinni barst í afriti, er gerð grein fyrir framangreindri afgreiðslu byggingaryfirvalda.  Jafnframt er tekið fram í bréfinu að fyrra byggingarleyfi, sem kæra í máli þessu beindist að, hafi verið fellt úr gildi hinn 14. nóvember 2001.  Er málið nú tekið til úrskurðar með tilliti til þessara breyttu aðstæðna.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur fyrra byggingarleyfi frá 3. apríl 2001, sem um er deilt í máli þessu, verið fellt úr gildi og eru réttaráhrif þess fallin niður.  Einnig eru af sömu sökum fallin niður réttaráhrif samkvæmt úrskurði nefndarinnar frá 11. júlí 2001 um stöðvun framkvæmda sem hafnar voru á grundvelli hins afturkallaða leyfis.  Þykja málsaðilar hér eftir ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti leyfisins.  Er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.