Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/2000 Skógarhlíð

Með

Ár 2000, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2000; kæra tíu íbúa og eigenda íbúða að Eskihlíð 8a, 10a, 12, 12a, 12b, 14 og 14a í Reykjavík, á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. maí 2000 um að veita leyfi til byggingar fimm hæða verslunar- og skrifstofuhúss ásamt bílgeymslu að Skógarhlíð 12 í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 2000, sem barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra tíu íbúar og eigendur íbúða að Eskihlíð 8a, 10a, 12, 12a, 12b, 14 og 14a í Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavík frá 18. maí 2000 um að veita leyfi til byggingar fimm hæða verslunar og skrifstofuhúss ásamt bílgeymslu að Skógarhlíð 12 í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 4. júlí 2000.

Af erindi kærenda verður ráðið að þeir krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en í kærunni vísa kærendur til þess að fyrir úrskurðarnefndinni séu til meðferðar ágreiningsmál um deiliskipulag lóðarinnar að Skógarhlíð 12 og að þeir telji óeðlilegt að staðið sé í miklum framkvæmdum á lóðinni meðan þessar kærur séu til umfjöllunar.

Eftir að athygli kærenda hafði verið vakin á því að ekki væri hægt að líta svo á erindi þeirra að í því fælist krafa um stöðvun framkvæmda ritaði einn kærenda, Þ, Eskihlíð 12b, bréf til úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. ágúst 2000, þar sem áréttað er að fyrir kærendum hafi vakað að krefjast stöðvunar framkvæmda.  Sé þess hér með krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar.
Eftir að krafa kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis kom fram leitaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu byggingarnefndar til kröfunnar auk þess sem byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að neyta andmælaréttar.  Þá var jafnframt leitað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Hafa nefndinni borist greinargerð byggingarnefndar og umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Þá barst úrskurðarnefndinni, hinn 25. september 2000, greinargerð byggingarleyfishafa um kæruna, þar sem jafnframt er sérstaklega fjallað um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Hinn 18. maí 2000 var birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um deiliskipulag fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð í Reykjavík.  Hafði skipulagsgerð þessi átt sér nokkurn aðdraganda, sem ekki þykir ástæða til að rekja við úrlausn um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Allmargir íbúar og eigendur íbúða í þeim fjölbýlishúsum við Eskihlíð, sem næst standa umræddri lóð höfðu gert athugasemdir við deiliskipulag lóðarinnar.  Vildu nokkrir þeirra ekki una ákvörðun borgaryfirvalda um deiliskipulagið og vísuðu ágreiningi um hana til úrskurðarnefndarinnar með kærum sem bárust nefndinni seinni hluta maímánaðar 2000.  Eru kærumál þessi til meðferðar hjá nefndinni.

Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 18. maí 2000 var veitt byggingarleyfi fyrir fimm hæða verslunar- skrifstofuhúsnæði að Skógarhlíð 12.  Mun hafa verið byrjað á framkvæmdum við bygginguna um eða upp úr 20. júní 2000.  Kærendur töldu óeðlilegt að framkvæmdir væru hafnar við byggingu hússins áður en ágreiningsmál um deiliskipulag lóðarinnar væru leidd til lykta.  Einnig gerðu þeir athugasemdir við að framkvæmdir hefðu verið hafnar áður en borgarráð hafði staðfest hina kærðu ákvörðun.  Kærðu þeir útgáfu byggingarleyfis fyrir húsinu til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 7. júlí 2000, en jafnframt virðist hafa vakað fyrir kærendum að fá því framgengt að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.  Krafa um það var þó ekki sett fram í kæru þeirra hinn 7. júlí 2000 og kom sú krafa fyrst fram mánuði síðar eða hinn 7. ágúst 2000.

Málsrök byggingarnefndar:  Í umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúans í Reykjavík f.h. byggingarnefndar er gerð grein fyrir undirbúningi málsins og meðferð skipulagstillögu þeirrar, sem síðar varð að deiliskipulagi umræddrar lóðar.  Er áréttað að fjallað hafi verið um athugasemdir nágranna og fundir haldnir með hagsmunaaðilum og hafi tillögunni verið breytt til þess að koma til móts við sjónarmið þeirra.  Hafi tillagan hlotið lögboðna meðferð og skipulagið verið auglýst svo sem lög standi til.  Í fyrirliggjandi kæru er varði byggingarleyfi hússins séu ekki gerðar neinar efnislegar athugasemdir við leyfið sem slíkt og verði ekki séð að neitt nýtt komi fram í kærubréfinu sem breytt geti ákvörðun byggingarnefndar um að veita hið umdeilda leyfi.  Sé litið til meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði að telja ástæðulaust að stöðva framkvæmdirnar.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að hafnað verði kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda en til vara að heimilað verði að halda áfram þeim framkvæmdum sem ekki séu óafturtækar.  Kröfur byggingarleyfishafa eru í fyrsta lagi studdar þeim rökum að krafa kærenda um stöðvun framkvæmda hafi komið of seint fram og því beri að vísa henni frá.  Verði ekki fallist á framangreint séu ekki fullnægjandi efnisrök til þess að fallast á kröfuna.  Líta beri til hagsmuna aðila en ljóst megi vera að hagsmunir byggingarleyfishafa séu verulegir og stórum meiri en hagsmunir kærenda.  Þá beri einnig að líta til þess hversu líklegt sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Því þurfi að fjalla um það hvaða líkur séu á því að umdeildu deiliskipulagi og/eða byggingarleyfi verði hnekkt.  Er í greinargerð byggingarleyfishafa fjallað ítarlega um þau sjónarmið sem hann telur að leggja verði til grundvallar við mat á lögmæti hinna kærðu ákvarðana.  Verða þessar ástæður raktar við efnisúrlausn málsins.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefni málsins kemur fram að við endanlega afgreiðslu skipulagstillögunnar um Skógarhlíð 12 hafi stofnunin ekki gert athugasemdir við að deiliskipulagið yrði auglýst í Stjórnartíðindum.  Hins vegar hafi stofnunin lagt áherslu á að skv. grein 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 skuli deiliskipulag í þéttbýli að jafnaði ekki ná yfir minna svæði en götureit.  Í  bréfi stofnunarinnar til borgarskipulags dags. 12. maí 2000 hafi eftirfarandi m.a. verið tekið fram:  „Skipulagsstofnun telur að ákvæðið hafi sérstaka þýðingu á því svæði sem hér um ræðir, meðal annars vegna nálægðar við slökkvilið og neyðarakstur sjúkrabifreiða og varðar því öryggismál allra borgarbúa. Stofnunin ítrekar því fyrri ábendingu um að Reykjavíkurborg taki á skipulagi svæðisins í heildstæðara samhengi. Skoða ber nýtingu lóðarinnar í samhengi við landnotkun og umferðarmál almennt á svæðinu, s.s. við Skógarhlíð alla, tengsl við og áhrif á landnotkun við Eskihlíð og allar tengingar gatnamóta.“

Síðan segir í umsögn stofnunarinnar:

„Deiliskipulag Skógarhlíðar 12 var auglýst í Stjórnartíðindum þann 18. maí 2000 og öðlaðist gildi þá þegar. Þann sama dag var umsókn um hið kærða byggingarleyfi samþykkt í byggingarnefnd Reykjavíkur. Af gögnum þeim sem fylgdu umsagnarbeiðni úrskurðarnefndar virðist byggingarleyfið vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag lóðarinnar að Skógarhlíð 12 og uppfylla þannig ákvæði 2. mgr. 43. skipulags- og byggingarlaga. Í gögnum málsins er ekki að finna upplýsingar um samræmi hins kærða byggingarleyfis við ákvæði byggingarreglugerðar.

Skipulagsstofnun telur á grundvelli framlagðra gagna að ekki sé ástæða til að stöðva framkvæmdir sem hafnar eru í samræmi við byggingarleyfi það sem samþykkt var í byggingarnefnd Reykjavíkur þann 18. maí s.l. en ítrekar þá afstöðu sem fram kemur í framangreindum bréfum frá 22. febrúar og 12. maí 2000 að ákvæði greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 hafi sérstaka þýðingu varðandi Skógarhlíð og næsta nágrenni.“

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á það sjónarmið byggingarleyfishafa að vísa beri kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda frá úrskurðanefndinni vegna þess hversu seint hún hafi komið fram.  Verður að skilja meginreglur um heimildir æðra stjórnvalds til frestunar réttaráhrifa á þann veg að kröfu þar að lútandi verði komið að allt frá því mál kemur til meðferðar æðra stjórnvalds og fram til þess að efnisúrskurður gengur í málinu.  Það hvort krafa um frestun réttaráhrifa telst seint fram komin kann hins vegar að hafa áhrif á mat æðra stjórnvalds á því hvort fallist verði á slíka kröfu.

Í máli því sem hér er til úrlausnar eru atvik með þeim hætti að ætla verður að kærendum hafi verið orðið kunnugt um framkvæmdir að Skógarhlíð 12 tveimur til þremur vikum áður en þeir settu fram kæru sína varðandi byggingarleyfið.  Í kærunni var ekki, með ótvíræðum hætti, gerð krafa um stöðvun framkvæmda og var henni ekki komið á framfæri fyrr en mánuði seinna. Verður að skilja ákvæði 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 á þann veg að krafa um stöðvun framkvæmda þurfi að koma afdráttarlaust fram til þess að til álita komi að kveða upp úrskurð um það efni.  Að öðrum kosti væri kröfum um réttaröryggi ekki fullnægt og gengið gegn hagsmunum rétthafa samkvæmt hinni kærðu stjórnvaldsákvörðun.  Verður því að telja að fullnægjandi krafa um stöðvun framkvæmda hafi ekki komið fram í máli þessu fyrr en liðnar voru sex til sjö vikur frá því framkvæmdirnar hófust.

Framkvæmdir þær, sem nú eiga sér stað að Skógarhlíð 12, eru að mestu í grunni fyrirhugaðs húss og eru litlar líkur á því að umtalsverðar framkvæmdir við uppsteypu hússins eigi sér stað fram til þess tíma er vænta má efnisúrskurðar í kærumálum um deiliskipulag lóðarinnar og byggingarleyfi hússins.  Með tilliti til þessa og að virtum hagsmunum aðila, svo og með hliðsjón af því hversu seint krafa kærenda um stöðvun framkvæmda kom fram, fellst úrskurðarnefndin ekki á þá kröfu.  Er byggingarleyfishafa því heimilt að halda áfram framkvæmdum í samræmi við hið umdeilda byggingarleyfi á eigin ábyrgð meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en áréttað er að nefndin er með öllu óbundin af þessari niðurstöðu þegar til efnisúrlausnar málsins kemur.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu húss að Skógarhlíð 12 verði stöðvaðar meðan kærumál um byggingarleyfi hússins er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

22/2000 Helgamagrastræti

Með

Ár 2000, þriðjudaginn 26. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, formaður nefndarinnar, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2000; kæra Ú og V, Helgamagrastræti 10, Akureyri, á ákvörðunum byggingarnefndar Akureyrar frá 5. apríl 2000, sbr. samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar 18. sama mánaðar, um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir þeim hlutum húseignarinnar að Helgamagrastræti 10, sem eru austan eignarinnar, og um að fjarlægja skuli „byggingarhluta I og II“ fyrir 15. júní 2000.  Jafnframt er kærð ákvörðun um að leggja á dagsektir, kr. 50.000 á dag, verði teikningum að breytingum á eigninni ekki skilað inn fyrir 15. maí 2000.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. maí 2000, kærir Óskar Sigurðsson hdl., f.h. Ú og V, til heimilis að Helgamagrastræti 10 á Akureyri, með vísun til 4. mgr. 39. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 73/1997, ákvarðanir byggingarnefndar Akureyrar frá 5. apríl sl., sbr. samþykkt bæjarstjórnar frá 18. sama mánaðar, um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir þeim hlutum húseignarinnar að Helgamagrastræti 10, sem eru austan eignarinnar og um að kærendum beri að rífa „byggingarhluta I og II“. Jafnframt er í bréfi lögmannsins, dags. 19. maí 2000, kærð ákvörðun um að leggja á dagsektir kr. 50.000 á dag, verði teikningum, sem greinir í hinni kærðu ákvörðun, ekki skilað inn fyrir 15. maí 2000.

Kærendur krefjast þess að ákvarðanir þessar verði felldar úr gildi og að staðfest verði að ekki sé heimilt að fjarlægja umrædda hluta byggingarinnar og að byggingarnefnd beri að veita leyfi fyrir þeim.  Þá er þess krafist að framkvæmdir við niðurrif byggingarinnar verði stöðvaðar til bráðabirgða og að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveði upp úrskurð um það atriði þegar í stað.

Við upphaf meðferðar málsins hjá úrskurðarnefndinni samþykkti bæjarlögmaður, f.h. bæjarstjórnar Akureyrar, að kærð ákvörðun um að fjarlægja skuli þá byggingarhluta sem byggingaryfirvöld gera kröfu til, verði ekki látin koma til framkvæmda á meðan málið sé til úrlausnar hjá nefndinni.  Kom því ekki til úrskurðar um kröfu til stöðvunar framkvæmda.
Þá hefur byggingarfulltrúi, með bréfi dags. 14. september 2000, staðfest að fallið hafi verið frá ákvæði í hinni kærðu ákvörðun um dagsektir meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, þar til ný ákvörðun hafi verið tekin.

Málavextir:  Hinn 17. júlí 1984 var öðrum kærenda, Ú, veitt leyfi til að byggja 2ja hæða einbýlishús með kjallara á lóðinni nr. 10 við Helgamagrastræti, ásamt bílskúr norðan við húsið.  Mun byggingu hússins og bílskúrsins hafa verið lokið á árinu 1988.  Þá hafði einnig verið reist steypt girðing og stoðveggir á lóðarmörkum að vestan, sunnan og að hluta til að austan samkvæmt byggingarleyfi sem veitt hafði verið sumarið 1987. Eftir þetta hafa kærendur, án leyfis byggingaryfirvalda, byggt 44,2 m² skála í suðausturhorni lóðarinnar, 17 m² geymslu áfasta við bílskúrinn og framlengt eldhússvalir að lóðarmörkum að austan.  Er lokað rými undir svölunum, sem kærendur kalla austurbyggingu. Munu framkvæmdir þessar hafa verið unnar í áföngum a.m.k. allt frá árinu 1993 fram til haustsins 1997.

Þann 6. maí 1993 birti bæjarlögmaður, f.h. embættis byggingarfulltrúa, öðrum kærenda, Ú, bréf þar sem honum er gert að stöðva ólöglegar framkvæmdir við byggingu, sem þá var steypt upp að verulegu leyti, í suðausturhorni lóðarinnar, þar sem ekki lægi fyrir byggingarleyfi, sbr. ákvæði í gr. 3.4.1. og kafla 3.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og IV kafla byggingarlaga nr. 54/1978.  Athygli hans var og vakin á heimild til að láta rífa niður byggingar eða byggingarhluta sem byggðir væru í óleyfi og var í því sambandi sérstaklega bent á ákvæði í kafla 5.9. í þágildandi byggingarreglugerð um bil milli húsa.  Jafnframt var honum veittur frestur til 17. sama mánaðar til að skila inn fullnægjandi teikningum og samþykki nágranna, ef byggingin væri þannig staðsett á lóð að slíkt væri nauðsynlegt.  Var og tekið fram að engar frekari framkvæmdir mættu eiga sér stað á lóðinni fyrr en samþykki byggingarnefndar lægi fyrir.  Ef ekki yrði orðið við framangreindum fyrirmælum yrði málinu vísað til sýslumannsins á Akureyri, sem færi með málið að hætti opinberra mála.

Kærendur sóttu um leyfi fyrir byggingunni hinn 17. maí 1993 og fylgdu umsókninni uppdrættir ásamt samþykki eigenda húsa á lóðunum nr. 7 og 9 við Holtagötu.  Um svipað leyti munu kærendur hafa hækkað norðurhluta lóðarinnar nr. 8 við Helgamagrastræti, sem er óbyggð og í eigu Akureyrarbæjar, og þökulagt hana 7 metra til suðurs frá fasteign sinni.

Með bréfi, dags. 1. júlí 1993, tilkynnti bæjarlögmaður Ú, f.h. embættis byggingarfulltrúa, að byggingarnefnd hefði móttekið teikningu hans af framkvæmdum á lóðinni nr. 10 við Helgamagrastræti, en áður en til fullnaðarafgreiðslu kæmi óskaði byggingarnefnd eftir að lagt yrði fram samþykki allra lóðarhafa sem ættu lóðir aðliggjandi að lóð hans, þ.m.t. Akureyrarbæjar. Segir í bréfinu að byggingarnefnd vísi slíkri málaleitan til bæjarráðs og líti svo á að það sé ekki í verkahring nefndarinnar að veita slíkt samþykki.

Á árinu 1996 munu kærendur hafa haldið áfram framkvæmdum á lóð Akureyrarbæjar nr. 8 við Helgamagrastræti, skipt þar um jarðveg, steypt stétt og komið þar fyrir leiktækjum og öðrum lausum munum.

Þann 22. ágúst 1997 skrifaði bæjarlögmaður bréf til annars kærenda, V, sem þá var þinglýstur eigandi húseignarinnar á lóðinni nr. 10 við Helgamagrastræti, og vísaði til bréfaskrifta frá árinu 1993.  Í bréfinu segir að eins og þar hafi komið fram hafi vantað upp á að fengið væri samþykki frá Akureyrarbæ vegna skála sem reistur hafi verið syðst og austast á lóðinni.  Umræddur skáli sé á lóðarmörkum og því sé nauðsynlegt að fyrir liggi samþykki bæjarráðs.  Í þessu sambandi sé ítrekað að byggingarefnd hafi ekki forræði á þessum þætti málsins og því nauðsynlegt að bæjarráði sé ritað bréf vegna þessa.  Þá eru gerðar athugasemdir við að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdum á lóð bæjarins sunnan lóðar kærenda og ekki heldur óskað eftir lóðarstækkun til suðurs.

Mánuði síðar, þann 22. september 1997, skrifar bæjarlögmaður, ásamt byggingarfulltrúa, annað bréf til V þar sem vísað er til fyrri bréfa Akureyrarbæjar um ólögmætar byggingarframkvæmdir á lóðinni nr. 10 við Helgamagrastræti.  Í bréfinu segir að við nánari skoðun hafi komið í ljós að byggt hafi verið við húsið í austur frá bílskúr og norður frá útiskála, án þess að sótt hafi verið um leyfi fyrir þeim framkvæmdum.  Þar af leiðandi hafi ekki verið skilað inn teikningum, samþykki nágranna og öðru því sem nauðsynlegt sé lögum samkvæmt.  Eins og henni sé kunnugt hafi byggingarframkvæmdir haldið áfram þrátt fyrir að starfsmenn byggingarfulltrúa hafi munnlega á byggingarstað gert kröfu um að þær yrðu stöðvaðar og að ólöglegir byggingarhlutar yrðu fjarlægðir.  Einnig liggi fyrir að steypa sú sem sem notuð hafi verið í þessa byggingarhluta hafi ekki verið framleidd samkvæmt reglum og leyfum þar um, heldur framleidd á staðnum án alls eftirlits.  Með bréfi þessu sé þess því krafist að allar framkvæmdir við húsið verði stöðvaðar þegar í stað og  jafnframt hafist handa við að fjarlægja þá byggingarhluta sem reistir hafi verið í óleyfi.  Í bréfinu segir ennfremur að þess hafi verið óskað við sýslumanninn á Akureyri að hann veitti embætti byggingarfulltrúa „…atbeina við stöðvun framkvæmdanna og eftir atvikum við kröfu um brottnám hinna ólögmætu byggingarhluta“

Sama dag, 22. september 1997, skrifaði bæjarlögmaður bréf til sýslumannsins á Akureyri þar sem þess er óskað að ólöglegar byggingarframkvæmdir á lóðinni nr. 10 við Helgamagrastræti verði stöðvaðar með atbeina sýslumanns/lögreglu.  Húseigenda verði með formlegum hætti gerð grein fyrir meintum brotum á byggingarlögum og byggingarreglugerð og gerð krafa um að ólögmætir byggingarhlutar verði fjarlægðir.  Jafnframt verði lögreglu falið að hafa eftirlit með því að þau fyrirmæli verði virt af hálfu húseigandans.  Verði þeim fyrirmælum ekki hlýtt muni Akureyrarbær óska eftir því að farið verði með málið að hætti opinberra mála.  Öðrum kærenda, þinglýstum eiganda að húseigninni, var sent afrit af framangreindu bréfi bæjarlögmanns til sýslumanns.

Hvorki verður ráðið af málsgögnum að erindi þetta hafi verið tekið til meðferðar af hálfu sýslumanns né að málinu hafi verið fylgt eftir af hálfu byggingaryfirvalda svo sem þó hafði verið boðað í bréfinu.

Með bréfi til byggingarnefndar, dags. 6. október 1999, óskuðu kærendur eftir að byggingar að Helgamagrastræti 10 og plan þar sunnan við samkvæmt teikningum A og B, dags. í september 1999, fengju að standa og sóttu jafnframt um að fá á leigu hluta eða eftir atvikum alla lóðina nr. 8 við Helgamagrastræti.  Byggingarnefnd tók umsóknina fyrir á fundi sínum 13. október 1999 og samþykkti bókun um að óska umsagnar skipulagsnefndar um erindið og að fram færi grenndarkynning.  Bæjarstjórn samþykkti bókun byggingarnefndar á fundi sínum hinn 19. október 1999 og var kærendum tilkynnt um þessar fyrirtektir með bréfi, dags. 20. sama mánaðar.

Þann 16. nóvember 1999 samþykkti bæjarstjórn eftirfarandi bókun skipulagsnefndar frá 5. sama mánaðar:  „Skipulagsnefnd telur ekki rétt miðað við stöðu málsins að viðhafa grenndarkynningu samkvæmt skipulagsreglugerð.  Slík kynning fer fram þegar fyrirhugaðar eru framkvæmdir sem eru minniháttar breytingar.  Skipulagsnefnd leggur til að bæjarlögmaður kanni viðhorf og sjónarmið nágranna og felur skipulagsstjóra að aðstoða við undirbúning gagna vegna þess.  Niðurstaða könnunar verði lögð fyrir byggingarnefnd.“

Þann 16. mars 2000 sendi bæjarlögmaður bréf til fjölmargra íbúa við Holtagötu og Helgamagrastræti, en bréfið var þó ekki sent kærendum.  Í bréfinu segir orðrétt:  „Bréf þetta er ritað í tilefni af rannsókn máls sem tengist ólögmætum byggingarframkvæmdum við fasteignina Helgamagrastræti 10 á Akureyri, en eins og ykkur er væntanlega mörgum kunnugt hefur verið byggt við fasteignina án þess að aflað væri nauðsynlegra leyfa og þar af leiðandi ekki farið fram grenndarkynning eða gætt annarra þeirra atriða sem skipulags- og byggingarlög gera ráð fyrir.  Umræddar byggingarframkvæmdir voru á sínum tíma stöðvaðar á grundvelli ákvæða í þágildandi byggingarlögum og með atbeina sýslumannsins á Akureyri.  Jafnframt var þá gerð krafa um að óleyfilegir byggingarhlutar yrðu fjarlægðir.  Þar sem ekki var orðið við þeim tilmælum bjó embætti byggingarfulltrúa sig undir að láta framkvæma niðurrif byggingarhlutanna.  En áður en til þess kom barst umsókn frá eiganda Helgamagrastrætis 10 þar sem óskað var eftir leyfi til þess að hinir óleyfilegu byggingarhlutar yrðu samþykktir (eftir á) jafnframt því sem óskað var eftir lóðarstækkun til suðurs, inn á opið svæði í eigu Akureyrarbæjar. … .
Í ljósi þess að hér var ekki um hefðbundna byggingarleyfisumsókn að ræða þótti ekki við hæfi að fram færi grenndarkynning málsins á grundvelli skipulags- og byggingarlaga eins og almennt er þegar sótt er um byggingarleyfi.  Af ákvæðum stjórnsýslulaga um meðferð máls leiði hins vegar að stjórnvaldi beri áður en ákvörðun er tekin að rannsaka mál til hlítar og tryggja þannig eins og kostur sé að sem flest sjónarmið komi fram við afgreiðslu máls og þá ekki síður að þeir sem hagsmuna hafi að gæta fái komið að sjónarmiðum sínum áður en mál er leitt til lykta.  Þetta byggi á þeirri grundvallarreglu að allir þeir sem hafi hagsmuna að gæta séu í þessum skilningi aðilar málsins og hafi á grundvelli þess rétt til, kjósi þeir það, að koma að sínum sjónarmiðum í málinu, upplýsingum, gögnum eða hverju einu sem þeir telji að skipti máli við afgreiðslu málsins. … .
Í samræmi við framanritað er ykkur nú hverju og einu gefinn kostur á því að koma afstöðu ykkar, sjónarmiðum, upplýsingum eða gögnum að í framangreindu máli. … .
Kjósið þið að láta afstöðu, sjónarmið, upplýsingar eða gögn koma fram eruð þið vinsamlegast beðin um að gera það eigi síðar en 31. mars n.k. … .“

Nokkrar athugasemdir bárust og voru þær lagðar fram á fundi byggingarnefndar hinn 5. apríl 2000, er umsókn kærenda um byggingarleyfi kom þar til umfjöllunar.

Þann 18. apríl 2000 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar eftirfarandi bókun úr gerðabók byggingarnefndar frá 5. sama mánaðar:
“Erindi, dags. þann 6. október 1999, frá Ú og V, Helgamagrastræti 10, þar sem sótt er um leyfi fyrir byggingum sem reistar hafa verið án leyfis austan hússins Helgamagrastræti 10.  Einnig er sótt um að fá á leigu hluta af opnu svæði, eða eftir atvikum allt svæðið, sunnan lóðar  Helgamagrastrætis 10, þ.e. lóðina nr. 8 við Helgamagrastræti.  Meðfylgjandi eru teikningar dagsettar í september 1999, undirritaðar af Ú og greinargerð með ljósmyndum.
Erindið var tekið fyrir í byggingarnefnd þann þann 13. október 1999.  Óskað var eftir umsögn skipulagsnefndar á erindinu og að fram færi grenndarkynning.
Með hliðsjón af málsatvikum og þeirri staðreynd að verið væri að sækja um leyfi eftir á, þótti ekki eðlilegt að fram færi formleg grenndarkynning á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.  Hins vegar var ákveðið að fram færi rannsókn málsins þar sem eigendum fasteigna í nágrenni Helgamagrastrætis 10 yrði gefið tækifæri til þess að koma að sjónarmiðum, athugasemdum, gögnum eða öðru því sem þeir kynnu að telja að hefði þýðingu fyrir meðferð málsins.  Alls bárust athugasemdir frá sex eigendum húsa á svæðinu og liggja þær frammi í málinu við afgreiðslu þess.
Áðurnefndar teikningar sem fylgja erindinu og greinargerðinni eru ekki fagteikningar, þá uppfyllir hönnuður ekki skilyrði 3. mgr. 47. gr. skipulags- og byggingarlaga, er því aðeins hægt að líta á framlagðar teikningar sem ófullkomnar skýringarteikningar.
Byggingarnefnd synjar erindinu þar sem það brýtur berlega í bága við deiliskipulag lóðarinnar og skipulags- og byggingarskilmála.  Með samþykkt erindisins yrði nýtingarhlutfall lóðar langt yfir þeim mörkum sem um lóðina og skipulagssvæðið gilda.  Með hliðsjón af þessu, sem og því að umræddar viðbyggingar skerða verulega hagsmuni nágranna, kemur alls ekki til álita að lögð verði til breyting á skipulagsskilmálum eða deiliskipulagi lóðarinnar.  Beiðni um lóðarstækkun er hafnað þar sem skipulag gerir ráð fyrir annarri nýtingu á lóðinni nr. 8.
Umsækjendur hafa með eldri byggingarleyfisumsókn sótt um leyfi fyrir útiskála í suðausturhorni lóðarinnar (merktum III á skýringarteikningu).  Með þeirri umsókn fylgdi leyfi nágranna en fullnægjandi teikningar af byggingunni bárust hins vegar ekki og var byggingarleyfi því ekki veitt en lagt fyrir umsækjendur að leggja fram fullnaðarteikningar í samræmi við gildandi lagaákvæði þar að lútandi.  Umræddar teikningar bárust ekki og er umrædd bygging felld undir þá byggingahluta sem umsækjendum er nú gert að fjarlægja.
Með hliðsjón af þessu getur byggingarnefnd þó fallist á að veita leyfi sitt fyrir þessum hluta viðbygginganna, enda verði lagðar fram fullnægjandi aðalteikningar og sýnt fram á með fagteikningum, prófunum og rannsóknum unnum af hlutlausum löggiltum hönnuði, að burðarvirki þessa byggingarhluta standist reglugerð og staðla.  Skal greinargerð þar að lútandi lögð fyrir byggingarnefnd.  Frestur til þess að skila inn teikningum og greinargerð um prófun og rannsóknir er veittur til til 15. maí n.k.
Sami frestur er gefinn til að skila raunteikningum (aðalteikningum) af húsinu þar sem fyrir liggur, af hálfu umsækjenda, sbr. skýringarteikningu hans, að gerðar hafa verið breytingar á því frá samþykktum aðalteikningum.  Vegna þessa liðar samþykkir byggingarnefnd að beita dagsektum, sbr. 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ásamt síðari breytingum, sem ákvarðast 50.000 kr. á dag frá og með 15. maí n.k. verði teikningum ekki skilað inn.
Með vísan til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ásamt síðari breytingum, er lagt fyrir húseigendur að fjarlægja byggingarhluta I og II á skýringaruppdrætti. Brottnám þeirra skal hafið fyrir 15. maí næst komandi og lokið eigi síðar en 15. júní n.k. jafnframt skal fjarlægja áðurnefnda byggingu merkta III á skýringaruppdrætti, fyrir sama tíma hafi ekki verið sótt um leyfi fyrir henni, og hún verið samþykkt af byggingarnefnd, í samræmi við framanritað.
Hafi framangreindar byggingar, sem ekki er leyfi fyrir, ekki verið fjarlægðar innan framangreinds frests, mun byggingarnefnd fjarlægja þær á kostnað húseigenda á grundvelli 2. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ásamt síðari breytingum.”

Framangreindar ákvarðanir í bókun byggingarnefndar frá 5. apríl 2000, samþykktar í bæjarstjórn 18. sama mánaðar, eru þær ákvarðanir sem kærðar eru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli þessu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að sveitarstjórn hafi ekki haft heimild til þess, á grundvelli 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, að taka ákvörðun um niðurrif mannvirkja sem þegar hafi verið reist.  Í 3. mgr. sömu greinar sé mælt fyrir um sex mánaða frest fyrir sveitarstjórn, frá því henni varð kunnugt um mannvirki sem reist hefðu verið án leyfis, til þess að grípa til svo afdrifaríks úrræðis sem niðurrif mannvirkis sé.  Þessi sex mánaða frestur sé löngu liðinn, enda hafi byggingarfulltrúa verið kunnugt um framkvæmdir á lóð þeirra frá upphafi eða frá árinu 1993.  Það leiði því af ákvæðinu að það eigi undir Skipulagsstofnun en ekki sveitarstjórn, að taka ákvörðun um þær aðgerðir, sem mælt sé fyrir um í ákvæðinu.

Þá halda kærendur því fram að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en hin umdeilda ákvörðun um niðurrif eigna þeirra hafi verið tekin af byggingarnefnd þann 5. apríl 2000 og af bæjarstjórn þann 18. sama mánaðar.  Kærendur hafi sent inn erindi til byggingarnefndar, dags. 6. október 1999, sem hafi lotið að því að fá leyfi fyrir þeim byggingum sem reistar hefðu verið og hefði þeim ekki verið kunnugt um annað en að málið væri í þeim farvegi, enda ekkert verið aðhafst um niðurrif eigna þeirra af hálfu byggingaryfirvalda í sjö ár.  Hafa verði hugfast að hér sé um miklu meira en einfalda afgreiðslu á umsókn um byggingarleyfi að ræða.  Hér sé um að ræða mjög íþyngjandi ákvörðun sem fyrirséð hafi verið að myndi fela í sér verulega skerðingu og eyðileggingu fasteignar kærenda og alvarlegt inngrip í fjölskyldulíf.  Byggingarnefnd hafi því borið, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, að gefa kærendum kost á að tjá sig áður en þessi afdrifaríka ákvörðun var tekin.  Í þessu sambandi sé líka rétt að vekja athygli á að byggingarfulltrúi hafi talið sér skylt á grundvelli stjórnsýslulaga að afla „athugasemda“ frá fjölda fólks, sem ekki verði séð að hafi haft neinna hagsmuna að gæta.

Ennfremur er á því byggt af hálfu kærenda að byggingarnefnd og bæjarstjórn Akureyrar hafi ekki rannsakað málið sjálfstætt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst.  Vissulega hafi verið leitað umsagnar hjá íbúum undir því yfirskini að verið væri að „rannsaka málið“, en aldrei hafi verið leitað eftir umsögn kærenda og hvorki byggingarnefnd eða bæjarstjórn hafi séð ástæðu til að koma á vettvang til að kanna hvernig ætti að standa að niðurrifi á eignum þeirra og hvort það væri yfirhöfuð framkvæmanlegt. Af umræddri rannsóknarreglu hafi leitt skyldu fyrir viðkomandi stjórnvöld, sbr.  meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, að kanna sérstaklega hvort unnt væri að standa að niðurrifi á hluta af eign þeirra eða hvort aðrar leiðir væru færar og þannig unnt að koma í veg fyrir gríðarlega eyðileggingu verðmæta.  Engar aðrar leiðir hafi veið teknar til skoðunar, t.d. hvort unnt væri að beita sektarúrræðum í stað niðurrifs.

Kærendur telja að ákvörðun byggingarnefndar uppfylli ekki þær kröfur um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar sem gildi samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins.  Í rökstuðningi byggingarnefndar sé ekki vikið að því hvernig staðið skuli að niðurrifi og ekki mælt fyrir um hvernig fasteign þeirra eigi að líta út eftir slíka framkvæmd.  Einungis sé vísað til þess að fjarlægja beri „byggingarhluta I og II á skýringaruppdrætti“. Ekkert komi fram um hvar mörk „byggingarhluta II“ og „byggingarhluta III“ séu að mati nefndarinnar og hvernig beri að skilja þetta eða hvort byggingarnefnd vilji að rifinn sé hluti af fasteign þeirra sem líka sé merktur með tölusetningunni „II“ og sé samkvæmt uppdrætti milli bílskúrs og norðurhliðar eignarinnar. Það sé því ekki unnt að átta sig á því hvað byggingarnefnd sé að fara fram á.  Í ljósi þessara annmarka sé einnig ljóst að bókun byggingarnefndar uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 um rökstuðning, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur telja ennfremur að ekki hafi verið unnt að taka ákvörðun um niðurrif á eign þeirra fyrr en skipulagsnefnd hefði fjallað um málið.  Í 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 sé m.a. fjallað um aðkomu skipulagsnefndar að ákvörðunum sem teknar séu samkvæmt þeirri heimild.  Á fundi byggingarnefndar 13. október 1999 hafi verið óskað eftir umsögn skipulagsnefndar og að málið færi í grenndarkynningu.  Rétt sé að taka fram strax að ekki verði séð að nein lagaheimild sé fyrir grenndarkenningu í tilvikum sem þessum, en engu að síður hafi málinu verið vísað til skipulagsnefndar og þá í samræmi við tilgreint ákvæði.  Af því leiði að skipulagsnefnd hafi borið að fjalla um málið áður en það gat hlotið afgreiðslu byggingarnefndar.

Kærendur byggja einnig á því að byggingaryfirvöld á Akureyri hafi sýnt tómlæti.  Þær eignir, sem ákvörðun byggingarnefndar taki til, hafi staðið fullbúnar í rúm sjö ár.  Kærendur hafi byrjað á að setja gluggabil á steyptan vegg á lóðarmörkum eignarinnar og hafi þeim framkvæmdum verið lokið á árinu 1993.  Samþykki nágranna að Holtagötu nr. 7 og 9 fyrir þessum framkvæmdum hafi legið fyrir.  Hið sama gildi um aðrar framkvæmdir á lóðinni, þ.e. þegar eldhússvalir hafi verið framlengdar að lóðarmörkum og þegar geymsla við bílskúr hafi verið byggð.  Ennfremur hafi íbúar við Helgamagrastræti 7, 9, 11, 13, 15 og Holtagötu 3 og 7 lýst því yfir að umræddar framkvæmdir væru þeim ekki til ama á nokkurn hátt.  Byggingarfulltrúa Akureyrar hafi verið fullkunnugt um þessar framkvæmdir frá upphafi, a.m.k. sé ljóst að byggingaryfirvöld hafi búið yfir vitneskju um þetta þegar kærendur hafi sent inn erindi 5. (sic) maí 1993 um leyfi fyrir framkvæmdunum ásamt teikningum og samþykki nágranna.  Þar sem engar athugasemdir hafi verið gerðar eða erindinu hafnað hafi þeir talið að samþykki fyrir byggingunni lægi fyrir.  Það hafi því komið þeim í opna skjöldu þegar bæjarlögmaður hafi lýst því yfir í erindi til þeirra rúmum 4 árum síðar að þeir hefðu ekki aflað samþykkis bæjarráðs.  Af erindi bæjarlögmanns frá 1. júlí 1993 megi hins vegar ráða að það hafi ekki verið hlutverk þeirra að afla slíks samþykkis heldur hafi erindi þeirra verið vísað til bæjarráðs.  Sá skilningur sé líka í samræmi við þá leiðbeiningarskyldu sem hvíli á stjórnvöldum og áréttuð sé nú í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hlutverk byggingarnefnda samkvæmt þágildandi byggingarlögum nr. 54/1978.  Það liggi fyrir að byggingaryfirvöld á Akureyri hafi haft alla möguleika til að grípa til aðgerða um leið og þeim hafi orðið kunnugt um framkvæmdirnar og verði þau einfaldlega að bera hallann af aðgerðarleysi sínu.  Í þágildandi byggingarlögum, sbr. nú skipulags- og byggingarlög, sé að finna úrræði fyrir sveitarstjórnir til að grípa til aðgerða telji þær brotið gegn skipulagi og ákvæðum laganna.  Lögin geri hins vegar ráð fyrir mjög skjótum viðbrögðum í slíkum málum, því um leið og mannvirki hafi verið reist komi til önnur sjónarmið, m.a. um eyðileggingu verðmæta.  Í dómaframkvæmd hafi því verið hafnað að unnt sé að rífa mannvirki, sem þegar hafi verið reist, enda þótt svo kunni að vera að tilskilinna leyfa hafi ekki verið aflað, hafi það í för með sér eyðileggingu verðmæta.  Hér verði líka að hafa í huga að um sé að ræða framkvæmdir í litlu bæjarfélagi, sem ætíð hafi vakið mikla athygli, bæði meðal íbúa bæjarfélagsins sem erlendra ferðamanna.  Byggingaryfirvöld hafi ekki beitt úrræðum 31. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 og hafi þau einhvern tímann haft áform um það sé ljóst að þau hafi fallið frá þeim úrræðum á árinu 1997, þegar þau hafi ekki fylgt eftir hótunum um aðgerðir. Því verði að líta svo á að í því hafi falist að þau samþykktu framkvæmdirnar.  Ekki sé því unnt nú, sjö árum eftir að þessi mannvirki voru reist, að krefjast niðurrifs þeirra.

Kærendur telja að engar forsendur séu til að krefjast niðurrifs á eignum þeirra. Þeir byggingarhlutar, sem ákvörðun byggingarnefndar taki til hafi verið reistir með samþykki nágranna og engar athugasemdir hafi verið settar fram af hálfu íbúa í hverfinu út frá byggingartæknilegum atriðum, svo sem tæknilegum frágangi eða umbúnaði fasteignarinnar.  Sérstök athygli sé vakin á því að við hina svokölluðu „rannsókn máls“ sem farið hafi fram af hálfu byggingarfulltrúa, þar sem kallað hafi verið eftir athugasemdum fjölda íbúa, hafi ekkert komið fram um að fasteign kærenda skerði útsýni eða sé til ama á nokkurn hátt og enginn þeirra, sem leitað hafi verið til, hafi gert kröfu um niðurrif eignarinnar.  Í þessu sambandi sé sérstaklega bent á að ein af meginröksemdum byggingarnefndar fyrir ákvörðun sinni hafi m.a. verið sú að umræddir hlutar fasteignarinnar „skertu verulega hagsmuni nágranna“.  Sú röksemd sé einfaldlega röng og reyndar óskiljanleg í ljósi gagna málsins.  Þá hafi ekki verið sýnt fram á af hálfu byggingarnefndar að eign kærenda sé hættuleg, hvorki fyrir þá eða aðra íbúa í næsta nágrenni.  Þeir byggingarhlutar sem hin kærða ákvörðun taki til myndi eina heild og spilli hvorki yfirbragði götumyndar eða útlit eignarinnar.  Þessir hlutar eignarinnar séu líka mjög hentugir hvað nýtingu varði, t.d. hafi einungis verið dimmt skot á austurhluta lóðarinnar, sem ekki hafi nýst með nokkrum hætti fyrr en gömlu eldhússvalirnar hafi verið framlengdar.  Þá verði ekki séð að geymsla við bílskúrinn geti verið nokkrum til ama, enda hafi hún verið reist með samþykki íbúa að Helgamagrastræti 12.

Rétt sé að benda á að sjónarmið um nýtingarhlutfall lóðar geti ekki réttlætt niðurrif eigna kærenda.  Í því hverfi sem hér um ræði, sem og öðrum eldri hverfum, afmarkist nýtingarhlutfall af lóðarbréfi og sé háð ákvörðun byggingarnefndar hverju sinni.  Af hálfu byggingarnefndar hafi ekki verið gerðar athugasemdir við að nýtingarhlutfall breyttist frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í lóðarbréfi, t.d. hafi byggingarnefnd samþykkt stærri byggingar á lóð kærenda en gert hafi verið ráð fyrir.  Þá hafi byggingarnefnd samþykkt að íbúi við Holtagötu 9 breytti húsi sínu úr því að vera lágreist hús á einni hæð í hús með háu risi.  Einnig hafi nefndin á sínum tíma heimilað byggingu bílskúrs á sömu lóð í einungis 2ja metra fjarlægð frá íbúðarhúsinu að Holtagötu 7.  Þar með hafi verið búið að víkja verulega frá nýtingarhlutfalli þeirrar lóðar miðað við lóðarbréf.  Ennfremur hafi að Holtagötu 9 verið byggt hús yfir setlaug á bílskúrsþaki en engar athugasemdir hafi verið gerðar við það af hálfu byggingarnefndar eða gerð krafa um að sú bygging yrði rifin.  Á lóðunum nr. 7 og 9 við Holtagötu hafi einnig verið reist garðhús, sem séu um 3 metrar á lengd og 2,5 metrar á hæð og séu á lóðarmörkum Helgamagrastrætis 10.  Byggingaryfirvöld hafi ekki amast við því á nokkurn hátt.  Þeim sé líka kunnugt um byggingu, sem reist hafi verið við Strýtuhóla á Akureyri án tilskilinna leyfa.  Í því tilviki hafi byggingaryfirvöld ekki gert kröfu um niðurrif.  Það virðist því sem ekki sé gætt jafnræðis við meðferð mála hjá byggingarnefnd.

Kærendur telja að ekki sé unnt að réttlæta niðurrif umræddra hluta eignarinnar einungis með þeim rökum að þeir samrýmist ekki deiliskipulagi.  Eins og áður hafi verið rakið telji kærendur að byggingarnefnd hafi þegar samþykkt eign þeirra og einnig sé mikilvægt að hafa í huga að fasteignin hafi þegar verið reist og sé orðin hluti af götumyndinni og hafi verið það í mörg ár.  Þá hafi byggingarnefnd hingað til ekki gert athugasemdir við að deiliskipulagi hafi ekki verið fylgt við byggingu mannvirkja í hverfinu.  Það megi því segja að í þessu þegar byggða hverfi hafi í raun komist á ákveðið „skipulag“ með þeim byggingum og notkun lands sem heimiluð hafi verið og látin afskiptalaus.  Fasteign kærenda og þeir hlutar hennar, sem ákvörðun byggingarnefndar taki til, séu á lóð kærenda og hafi verið þar síðan 1993 og fari ekki gegn þeirri byggð sem nú sé á svæðinu.  Ákvörðun byggingarnefndar feli í sér að sá hluti eignarinnar sem eigi að fá að standa sé garðskýlið en það sé eini hluti byggingarinnar sem sjáist frá götu.  Aðra byggingarhluta, sem séu austan við eignina á baklóð og sjáist ekki, vilji byggingarnefnd rífa.  Það verði því ekki séð að neinar skynsamlegar ástæður búi að baki hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar.

Loks telja kærendur að ákvörðun byggingarnefndar um dagsektir sé óskiljanleg og geti ekki staðist.  Rétt sé að vekja athygli á því að algengt sé að menn byggi og bæti við fasteignir sínar án þess að þeir skili inn teikningum eða skili þeim inn síðar.  Slíkt hafi ekki gefið tilefni til dagsekta, a.m.k. ekki svo hárra sem byggingarnefnd hyggist krefja kærendur um, skili þau ekki inn teikningu.  Teikningar séu til af fasteigninni og byggingarnefnd hafi þegar fengið þær í hendur.  Að þeirra mati sé þar um fullkomnar fagteikningar að ræða en ekki „ófullkomnar skýringarteikningar“ eins og byggingarnefnd hafi haldið fram.  Þau leggi það í vald úrskurðarnefndar að meta þessa staðhæfingu byggingarnefndar.

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu Akureyrarbæjar er mótmælt þeirri fullyrðingu kærenda að byggingaryfirvöld hafi skort heimildir til að taka hina kærðu ákvörðun.  Ekki verði séð, hvorki í 3. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, né í öðrum ákvæðum laganna að heimildir sveitarstjórnar til að láta fjarlægja mannvirki séu bundnar ákveðnum tímamörkum.  Tilvitnað ákvæði fjalli ekki um tímamörk sveitarstjórnar heldur veiti það Skipulagsstofnun sjálfstæða heimild til þess að láta fjarlægja mannvirki.  Umrætt ákvæði sé öryggisákvæði og nýmæli í lögum, sett í þeim tilgangi að ýta eftir því að sveitarstjórnir láti fjarlægja ólögleg mannvirki, sbr. ummæli í greinargerð laganna.  Túlkun kærenda á ákvæðinu fái ekki staðist með vísun til 5. mgr. sömu greinar, en þar segi að sveitarstjórn geti ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skuli ólöglega byggingu eða byggingarhluta.

Tvímælis orki hvort kærendur njóti andmælaréttar í máli þessu.  Sveitarfélagi beri fortakslaus skylda til að láta fjarlægja leyfislaus mannvirki og leyfislausar framkvæmdir séu refsiverðar, sbr. 60. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þar sem kærendur hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis áður en byggingarframkvæmdir hófust hafi verið heimilt frá og með sama tíma að stöðva framkvæmdir og rífa mannvirkin.  Andmæli kærenda hafi því ekki getað, lögum samkvæmt, haft nein áhrif á lögbundna ákvörðun byggingaryfirvalda.  Þrátt fyrir það hafi byggingaryfirvöld ítrekað, með bréfum dags. 5. maí 1993, 1. júlí 1993, 22. ágúst 1997 og 22. september 1997, gefið kærendum kost á að bæta úr og skila inn fullnægjandi gögnum án árangurs og í raun án lagaheimildar.  Byggingaryfirvöld hafi því sannanlega gefið kærendum kost að neyta andmælaréttar.

Bæjaryfirvöld telja að málsástæða kærenda sem byggi á meintum brotum byggingaryfirvalda á rannsóknarskyldu sé á misskilningi byggð.  Í skipulags- og byggingarlögum sé fjallað um eftirlit byggingarfulltrúa og honum m.a. veitt heimild til að stöðva framkvæmdir.  Jafnframt sé í lögunum kveðið á um skyldu til að fjarlæga mannvirki sem hafi verið byggð án byggingarleyfis eða brjóti í bága við skipulag.  Rannsóknarskylda byggingaryfirvalda í máli þessu lúti einvörðungu að því, hvort umræddar framkvæmdir kærenda hafi verið án leyfis.  Þar sem þær séu án allra leyfa hafi byggingaryfirvöld ekki átt annarra kosta völ en að stöðva framkvæmdir og krefjast þess að mannvirkin yrðu fjarlægð.  Kærendur hafi ekki sinnt tilmælum byggingaryfirvalda um að fjarlægja umrædd mannvirki og komi sektarúrræði vart til greina þar sem um sé að ræða mannvirki sem ekki megi standa.  Því sé mótmælt að aðstæður hafi ekki verið skoðaðar sérstaklega á vettvangi.  Upplýst sé í gögnum málsins að starfsmenn byggingarfulltrúa hafi farið að Helgamagrastræti 10 og krafist þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar, eftir könnun á því hvort um leyfisskyldar framkvæmdir væri að ræða.  Kærendum hafi borið að afla leyfis fyrir byggingarframkvæmdunum, en á byggingaryfirvöldum hafi hvílt sú skylda að stöðva (fjarlægja) leyfislausar framkvæmdir og/eða taka umsóknina til afgreiðslu.  Ekkert hafi getað komið í veg fyrir hina kærðu ákvörðun nema fullgild umsókn um byggingarleyfi, sem samrýmdist í öllu lagaákvæðum þar að lútandi.  Hluti þess mannvirkis sem standi á lóðinni Helgamagrastræti 10, sé byggður í samræmi við áður útgefið byggingarleyfi.  Einungis sá hluti mannvirkisins sem byggður sé samkvæmt samþykktum teikningum megi standa, annað beri að fjarlægja.  Með vísan til þess, geti vart reynst erfitt að gera sér grein fyrir því hvað beri að fjarlægja.  Kærandi, Ú, hafi skilað inn teikningum í október sl., þar sem óleyfisbyggingarnar séu m.a. sýndar.  Umræddar teikningar hafi legið fyrir á fundi byggingarnefndar 5. apríl 2000 og sé vísað til þeirra að því er varðar þá byggingarhluta, sem beri að fjarlægja. Þessar teikningar eigi einnig að koma að notum við framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar.  Á það sé sérstaklega bent að kærandi, Ú, hafi sjálfur talið teikningarnar „fullkomnar fagteikningar“.  Það liggi í hlutarins eðli, að fasteign kærenda eigi að líta út líkt og útgefið byggingarleyfi geri ráð fyrir, eftir að óleyfishlutarnir hafi verið fjarlægðir.  Kærendur verði sjálf að taka afleiðingum gerða sinna og gera lagfæringar á þeim hluta fasteignarinnar sem muni standa eftir.  Kærendur viti manna best hvað hafi verið byggt í leyfisleysi og ef hin kærða ákvörðun verði staðfest megi búast við að þau sjái sóma sinn í því að fjarlægja óleyfilega hluta fasteignarinnar án ástæðulauss dráttar.  Um sé að ræða viðbyggingar sem byggðar hafi verið í áföngum og því hljóti að vera hægt að fjarlægja þær þar sem ákveðin skil séu milli byggingarhlutanna.

Bent er á að skipulagsnefnd hafi fjallað um mál kærenda 5. nóvember 1999.  Telja verði að afskipti skipulagsnefndar hafi a.m.k. ekki farið í bága við skipulags- og byggingarlög þó að umsókn kærenda hafi ekki þurft að sæta þeirri meðferð.

Í greinargerð Akureyrarbæjar segir ennfremur að mál þetta hafi tekið of langan tíma og í raun megi segja að byggingaryfirvöld hafi í lengstu lög ekki viljað grípa til of íþyngjandi úrræða gagnvart kærendum, s.s. með því að gefa þeim kost á að ,uppfylla skilyrði skipulags- og byggingarlaga.  Byggingaryfirvöld hafi strax á árinu 1993 gert kæranda, Ú, grein fyrir því að honum bæri að stöðva framkvæmdir og hugsanlega að fjarlægja leyfislausar byggingar.  Hann hafi sent bréf 17. maí s.á., þar sem hann hafi lýst því yfir að lokið hafi verið þeim byggingarframkvæmdum, sem sætt hafi athugasemdum í bréfi til hans u.þ.b. tveimur vikum áður.  Framkvæmd kærenda virðist því hafa verið lokið þegar byggingaryfirvöld hafi fengið upplýsingar um gang mála.  Kærendur hafi ekki orðið við tilmælum byggingaryfirvalda um að afla tilskilinna gagna og þegar af þeirri ástæðu hafi þeim mátt vera ljóst að byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum yrði ekki gefið út.  Einhvern tímann á árunum 1993 til 1997 virðist kærendur aftur hafa byrjað byggingarframkvæmdir á lóð sinni, enn og aftur án tilskilinna leyfa.  Þegar byggingaryfirvöld hafi fengið upplýsingar um byggingarframkvæmdirnar, hafi þess strax verið krafist að þær yrðu stöðvaðar og mannvirki fjarlægð.  Einnig hafi verið ítrekað að enn skorti samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða fyrir framkvæmdunum sem lokið hafi verið í maí 1993.  Það sé fjarri sanni að byggingaryfirvöldum hafi frá upphafi verið kunnugt um framkvæmdir kærenda.

Þá segir í greinargerð bæjarins að þó afstætt sé hvað sé stórt eða lítið bæjarfélag þá verði að telja Akureyrarbæ stórt bæjarfélag í því sambandi sem hér um ræði. Þannig hafi byggingaryfirvöldum ekki verið kunnugt um að fasteign kærenda hefði vakið athygli íbúa eða ferðamanna, en þau séu ekki í aðstöðu til að mótmæla slíkum fullyrðingum þrátt fyrir að þau hafi efasemdir um þær.  Með vísun til ofanritaðs sé ljóst að byggingaryfirvöld hafi brugðist við um leið og tilefni hafi gefist til, þrátt fyrir að lögboðin úrræði hafi ekki verið nýtt að fullu.  Ástæður þess séu fyrst og fremst þær að talið hafi verið rétt að gefa kærendum kost á að fjarlægja umrædd mannvirki og/eða skila inn fullnægjandi gögnum.  Biðlund byggingaryfirvalda sé gagnrýnisverð, þrátt fyrir að sjónarmið um meðalhóf séu höfð í huga.

Af hálfu Akureyrarbæjar er því ennnfremur haldið fram að þrátt fyrir að kærendur hafi í engu sinnt tilmælum um að rífa ólöglegar framkvæmdir og byggingaryfirvöld ekki fylgt þeim eftir af meiri hörku, fari því fjarri að ástandið sé orðið lögmætt.  Hér beri einnig að hafa í huga að kærendur hafi sýnt einbeittan ásetning með því að halda framkvæmdum áfram, þrátt fyrir aðvaranir, tilmæli og hótanir um kæru til lögreglu.  Fullyrðing kærenda, þess efnis að byggingarnefnd hafi óskað eftir afstöðu bæjarráðs til framkvæmda kærenda í maí 1993, sé röng.  Í bréfi bæjarlögmanns til kærenda, dags. 5. maí 1993, sé þess m.a. krafist að þau afli samþykkis nágranna.  Þetta sé ítrekað í bréfi til hans, dags. 1. júlí s.á., þar sem segi að byggingarnefnd óski eftir að samþykki allra nágranna verði lagt fram, þ.m.t. Akureyrarbæjar.  Kærendum hafi verið bent á að slíkri málaleitan skuli beina til bæjarráðs.  Hið síðast nefnda túlki kærendur þannig, að byggingarnefnd hafi sent, f.h. kærenda, erindi til bæjarráðs.  Í þessu sambandi sé rétt að taka fram að samþykki Akureyrarbæjar fyrir framkvæmdum sem nágranna, þ.e. lóðareiganda, teljist ekki stjórnvaldsákvörðun.  Kærendur hafi því ekki haft réttmætar ástæður til að ætla, að byggingarnefnd hefði beint erindinu þangað, enda tíðkist ekki að byggingarnefnd afli samþykkis fyrir byggingarframkvæmdum, f.h. byggingaraðila, hjá þriðja aðila.  Með hliðsjón af fyrri bréfaskriftum hafi kærendum jafnframt mátt vera ljóst, að byggingarnefnd gerði þá kröfu að fram samþykki þessara aðila yrði lagt fram.  Kærendur hafi látið hjá líða að afla samþykkis Akureyrarbæjar fyrir byggingarframkvæmdum þrátt fyrir að hafa verið kunnugt um þörfina á slíku.  A.m.k. verði að telja, að kærendur hafi ekki haft réttmætar ástæður til að ætla að samþykkið hafi verið veitt, þar sem byggingarnefndin hafi ekki afgreitt beiðni þeirra.  Einnig megi vísa til þess að hjá kærendum hafi ekki verið innheimt gatnagerðargjöld eða bílastæðagjöld vegna framkvæmdanna, þar sem lögmæti þeirra hafi aldrei verið viðurkennt.  Jafnframt megi benda á þá staðreynd, að kærendur hafi aldrei gert neinn reka að því að umsókn þeirra um stöðuleyfi yrði afgreidd, sem hljóti að benda til þess að þau hafi talið sig eiga eftir að afla samþykkis bæjarráðs.

Af hálfu Akureyrarbæjar er fallist á það með kærendum að skipulags- og byggingarlöggjöf geri ráð fyrir skjótum viðbrögðum yfirvalda, þegar þau fái upplýsingar um ólöglegar framkvæmdir.  Byggingaryfirvöld hafi líka brugðist skjótt við, þótt eftirfylgnin hafi ekki verið nægjanleg í trausti þess að kærendur sinntu tilmælum og fjarlægðu mannvirkin af sjálfsdáðum.  Kærendum hafi strax verið tilkynnt um afstöðu byggingaryfirvalda til umræddra byggingarframkvæmda og því hafi kærendur ekki haft réttmæta ástæðu til að ætla, að fallið yrði frá kröfum um niðurrif.  Þegar af þeirri ástæðu sé kærendum ekkert hald í málsástæðu sem byggi á tómlæti.

Þá er því haldið fram að sjónarmið kærenda sem lúti að eyðileggingu verðmæta byggist ekki á fullgildum rökum enda fari þau í bága við lögbundin úrræði byggingaryfirvalda.  Augljóst sé að ákvæði skipulags- og byggingarlaga væru til lítils gagns, ef sjónarmið um verðmæti réðu úrslitum um lögmæti niðurrifs bygginga.  Eflaust sé rétt að huga að þessu sjónarmiði, sem og öðrum, en þá beri einnig að hafa hugfast að kærendur hafi verið grandsamir um ólögmæti þeirra framkvæmda sem þau réðust í, sem og að þau hafi sýnt einbeittan ásetning.  Þannig hafi kærendur í engu virt bréf byggingaryfirvalda heldur haldið áfram framkvæmdum án leyfis.

Rétt sé að geta þess að þeir byggingarhlutar sem beri að fjarlægja séu á baklóð hússins.  Lögum samkvæmt megi byggingaryfirvöld hvorki gefa út byggingarleyfi vegna framkvæmda kærenda né leyfa þeim að standa.  Hin kærða ákvörðun hljóti því að vera efnislega rétt, enda atvik málsins með þeim hætti að ómögulegt hafi verið að komast að annarri niðurstöðu.  Byggingaryfirvöld hafi ekki fengið í hendur þau gögn frá kærendum, sem staðfesti að gætt hafi verið ákvæða laga og reglna, s.s. um efni, hönnun, brunavarnir o.fl. og hafi því ástæðu til að óttast að byggingarframkvæmdirnar kunni að vera hættulegar.  Hin kærða ákvörðun hafi m.a. verið byggð á nábýlissjónarmiðum og einnig á skipulagssjónarmiðum um nýtingarhlutfall lóða.  Rétt sé að byggingarnefnd hafi á sínum tíma heimilað stærri mannvirki á lóð kærenda en reglur geri ráð fyrir, þó hafi ekki skeikað nema örlitlu.  Slíkt leiði óhjákvæmilega til þess, að frekari byggingarframkvæmdir verði vart samþykktar og endurspeglist það m.a. í ákvörðun byggingarnefndar.  Hafa verði í huga, að forræði í málum sem þessum verði að vera hjá yfirvöldum en ekki einstaklingum/lögpersónum.  Skipulags- og byggingarlög hafi að geyma ákvæði sem eigi að tryggja að sambærileg mál fái sambærilega niðurstöðu.  Byggingaryfirvöld hafi alltaf reynt að gæta þessa með því að grípa til viðeigandi úrræða þegar þau hafi fengið upplýsingar um framkvæmdir sem tæpast standist lög.  Fullyrðingum um annað sé mótmælt.  Byggingaryfirvöldum hafi ekki verið kunnugt um framkvæmdir við Holtagötu 9, fyrr en með bréfi kærenda í apríl sl. og það sé rangt að garðhús á tilgreindum lóðarmörkum sé án byggingarleyfis.  Byggingaryfirvöld telji að háttsemi kæranda, Ú, verði sýnu alvarlegri í ljósi þess að hann sé fagmenntaður á því sviði sem hér um ræði og hafi starfað um tíma á tæknideild Akureyrarbæjar.  Hann hafi því átt að þekkja laga- og reglugerðarumhverfi mannvirkjagerðar nokkuð vel.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 7. september 2000.  Viðstaddir voru kærendur ásamt lögmanni þeirra, svo og byggingarfulltrúinn á Akureyri, starfsmaður bæjarskipulags og bæjarlögmaður.  Nefndarmenn kynntu sér hinar umdeildu viðbyggingar og fengu upplýsingar um gerð þeirra, ástand og nýtingu.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Eftir að úrskurðarnefndinni hafði borist greinargerð Akureyrarbæjar ásamt fylgiskjölum, leitaði nefndin umsagnar Skipulagsstofnunar um álitaefni málsins.  Í umsögn stofnunarinnar, dags. 21. september 2000, er rakinn aðdragandi málsins og helstu málsrök.  Síðan segir í umsögn stofnunarinnar:  „Skipulagsstofnun telur að byggingaryfirvöld á Akureyri hafi sýnt verulegt tómlæti við umfjöllun og aðgerðir vegna óleyfisframkvæmda að Helgamagrastræti 10 í gegnum árin, þar sem ákvörðunum um stöðvun framkvæmda hefur ekki verið fylgt eftir og mörg ár liðið á milli þess sem kærendum eru send bréf vegna framkvæmdanna.  Núgildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 tóku gildi þann 1. janúar 1998. Framkvæmdir þær sem um er fjallað í kæru þessari áttu sér allar stað fyrir það tímamark og giltu ákvæði byggingarlaga nr. 54/1978 og byggingarreglugerðar 177/1992 um þær. Hins vegar er byggingarleyfisumsókn kærenda sem leiddi til hinnar kærðu niðurstöðu lögð fram í tíð núgildandi laga. Því telur Skipulagsstofnun að umsóknin og þeir byggingarhlutar sem sótt er um leyfi fyrir verði að uppfylla kröfur sem gerðar eru í núgildandi lögum og reglugerðum.  Skipulagsstofnun telur að byggingarnefnd Akureyrar hafi borið að ganga úr skugga um að byggingarleyfisumsókn kærenda uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru í núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal skipulagsnefnd fjalla um málið þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir og láta fara fram grenndarkynningu sem felst í því að nágrönnum sem hagsmuna eiga að gæta er kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig.  Ekki er í lögunum gerður greinarmunur á framkvæmdum sem þegar eru byggðar og fyrirhuguðum framkvæmdum hvað skylduna varðar, enda er um að ræða skipulagslega meðferð umsóknar þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir.  Skipulagsstofnun telur því að byggingarnefnd hafi borið að senda byggingarleyfisumsókn kærenda til skipulagsnefndar til faglegrar umfjöllunar og grenndarkynningar, með þeim gögnum sem gerð er krafa um í byggingarreglugerð að skuli fylgja slíkum umsóknum, hafi umsóknin þannig verið tæk til umfjöllunar.

Að lokinni skipulagsumfjöllun skipulagsnefndar í kjölfar grenndarkynningar skv. framangreindum ákvæðum bar byggingarnefnd að taka afstöðu til byggingarleyfisumsóknar kærenda.  Ef byggingarnefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt á grundvelli núgildandi laga og reglugerða um skipulags- og byggingarmál að fallast á umsóknina, hefði í kjölfarið verið unnt að grípa til viðurlaga. Skipulagsstofnun telur slíkt þó vera sjálfstætt mál, sem byggjast verði á efnislegri niðurstöðu umfjöllunar um byggingarleyfisumsókn kærenda, þar sem slík umsókn lá fyrir.

Skipulagsstofnun telur að þar sem byggingaryfirvöld á Akureyri fóru ekki að ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og -reglugerða við umfjöllun um umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir óleyfisframkvæmdum á lóð þeirra verði ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir byggingarnefnd að taka málið upp að nýju.  Í slíkri umfjöllun verði byggingarnefnd að ganga úr skugga um að byggingarleyfisumsókn fylgi þau gögn sem gert er ráð fyrir í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Umsóknin ásamt fullnægjandi gögnum fari svo til skipulagsnefndar, sem láti fara fram grenndarkynningu og taki að því loknu afstöðu til umsóknarinnar út frá skipulagslegum forsendum.  Að slíkri umfjöllun lokinni taki byggingarnefnd efnislega afstöðu til umsóknarinnar.  Í kjölfarið verði svo, eftir atvikum tekin afstaða til beitingar viðurlagaákvæða.“

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hafa kærendur reist umfangsmiklar viðbyggingar við hús sitt að Helgamagrastræti 10 á Akureyri án þess að hafa fengið leyfi byggingarnefndar til þeirra framkvæmda.  Verður helst ráðið af málsgögnum að framkvæmdir þessar hafi staðið yfir með hléum allt frá árinu 1992 og fram til haustsins 1997.  Með framkvæmdum þessum var gróflega brotið gegn ákvæðum þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 um byggingarleyfi o.fl. og gegn ýmsum ákvæðum þágildandi byggingarreglugerðar nr. 177/1992.

Með bréfi bæjarlögmannsins á Akureyri, dags. 22. september 1997, var kærendum formlega tilkynnt um stöðvun framkvæmda og þeim gert að fjarlægja ólögmæta byggingarhluta.  Verður við það að miða að kærendur hafi þá látið af framkvæmdum, svo sem þau halda fram, en ekki verður ráðið af gögnum málsins að gerð hafi verið úttekt á verkstöðu á byggingarstað þegar framkvæmdirnar voru stöðvaðar, svo sem þó hefði verið nauðsynlegt.

Fyrir liggur að sama dag og kærendum var ritað framannefnt bréf sendi bæjarlögmaður sýslumanninum á Akureyri bréf þar sem þess er óskað að sýslumaður ljái atbeina sinn til þess að knýja kærendur til að hlíta fyrirmælum byggingarfulltrúa.  Er jafnframt tekið fram í bréfum bæjarlögmanns til kærenda og sýslumanns, að verði fyrirmælum byggingarfulltrúa ekki hlítt muni verða óskað eftir því að farið verði með málið að hætti opinberra mála.

Í nefndu bréfi bæjarlögmanns til kærenda er ekki getið neinna réttarheimilda, en í bréfi hans til sýslumanns er vísað til 31. greinar þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978, sem við átti um úrræði þau sem byggingarfulltrúi hugðist grípa til gegn kærendum vegna hinna leyfislausu byggingarframkvæmda þeirra.

Í 2. mgr. 31. greinar laga nr. 54/1978 var kveðið svo á að hlítti byggingaraðili ekki fyrirmælum byggingarfulltrúa og lögreglu um stöðvun eða brottnám framkvæmda skyldi fara með málið að hætti opinberra mála.  Þegar ljóst var að kærendur sinntu ekki kröfum um brottnám hinna ólögmætu framkvæmda bar byggingarfulltrúa, sem fyrirsvarsmanni almenningshagsmuna, að hlutast til um að höfðað yrði opinbert mál á hendur kærendum, í samræmi við tilvitnað ákvæði, ef ætlun hans var að knýja fram niðurrif hinna ólöglegu byggingarhluta.  Hefði í slíku máli fengist dómsúrlausn um kröfur byggingaryfirvalda um brottnámið, sbr. c lið 2. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 91/1991.  Með því að láta undir höfuð leggjast að hlutast til um málshöfðun verður að telja að byggingarfulltrúi hafi í raun fallið frá því að beita úrræðum 31. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sérstaklega þegar haft er í huga að honum var einungis heimilt, en ekki skylt, að krefjast niðurrifs samkvæmt ákvæðinu.  Verður því ekki, við úrlausn kærumáls þessa, litið til þeirra ákvarðana, sem teknar höfðu verið um að beita kærendur þvingunarúrræðum haustið 1997.

Með hinni kærðu ákvörðun frá 5. apríl 2000 var byggingarnefnd Akureyrar að afgreiða umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þeim viðbyggingum, sem um er fjallað í málinu.  Þá var jafnframt afgreidd umsókn þeirra um stækkun lóðar.  Ekki er í gildi formlegt deiliskipulag fyrir lóðina að Helgamagrastræti 10 eða aðliggjandi svæði, enda verður skipulags- og byggingarskilmálum fyrir lóðina ekki jafnað til deiliskipulags.  Bar því að fara með umsókn kærenda í samræmi við ákvæði 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og átti skipulagsnefnd að hlutast til um grenndarkynningu vegna umsóknarinnar.  Verður að skilja umrætt ákvæði svo að grenndarkynning skuli fara fram þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi óháð því hvort umsóknin tekur til mannvirkja sem þegar hafa verið byggð eða fyrirhugað er aðbyggja.  Eðli máls samkvæmt á grenndarkynning þó, eftir því sem við á, að fara fram áður en framkvæmdir hefjast, enda verður markmiðum hennar vart náð með öðrum hætti.  Þessa ákvæðis var ekki gætt við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og getur málsrannsókn bæjarlögmanns ekki komið í stað grenndarkynningar í málinu.

Þá skorti á að fyrir byggingarnefnd lægju fullnægjandi uppdrættir og gat umsókn kærenda ekki komið til efnislegrar afgreiðslu án þess að úr því væri bætt.

Þar sem hvorki lá fyrir niðurstaða lögmætrar grenndarkynningar né umsögn skipulagsnefndar eða fullnægjandi gögn til afgreiðslu málsins var ákvörðun byggingarnefndar um að synja umsókn kærenda haldin svo verulegum annmörkum að ógildingu varðar.

Auk synjunar á umsókn kærenda fólst í hinni kærðu samþykkt byggingarnefndar ákvörðun um að beita þvingunarúrræðum, sambærilegum þeim sem áður höfðu verið ákvörðuð en ekki framfylgt.  Líta verður á þessa ákvörðun sem sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun, óháða afgreiðslu byggingarnefndar á umsókn kærenda um byggingarleyfi.  Úrskurðarnefndin telur að ekki hafi verið unnt að taka svo íþyngjandi ákvörðun án þess að gætt væri ákvæðis 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt.  Bar byggingarnefnd að gera kærendum grein fyrir fyrirætlunum sínum um að beita þvingunarúrræðum áður en til þess gat komið að ákvörðun um þau yrði tekin.  Þá fullnægði ákvörðun byggingarnefndar um niðurrif ekki þeim kröfum um skýrleika sem gera verður til stjórnvaldsákvarðana af þessu tagi, en í ákvörðuninni er vísað til merkinga byggingarhluta með rómverskum tölum á uppdrætti, þar sem fyrir eru hliðstæðar merkingar á þversniðum.  Var þessi framsetning til þess fallin að valda misskilningi og óvissu um það hvað fælist í hinni kærðu ákvörðun.  Af framangreindum ástæðum verður ekki hjá því komist að fella ákvörðun byggingarnefndar um niðurrif hinna ólögmætu byggingarhluta úr gildi.

Þegar kærendum var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 19. apríl 2000, var þeim greint frá bókun byggingarnefndar í málinu í heild en bókunin var felld inn í meginmál bréfsins.  Ljóst er að á blaðsíðuskilum í bréfinu hefur fallið niður ein lína og veldur þessi misritun því að ákvörðun byggingarnefndar um að setja kærendum frest til að skila raunteikningum (aðalteikningum) að húsi sínu, að viðlögðum dagsektum, verður illa skiljanleg.  Má og ráða af máltilbúnaði kærenda að þau hafa misskilið þennan lið í hinni kærðu ákvörðun.  Þar sem þessi liður í ákvörðuninni var bundinn tímamörkum og ekki birtur kærendum með fullnægjandi hætti, sbr. 20 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður hann einnig felldur úr gildi.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi í heild sinni en hafna verður þeirri kröfu kærenda að staðfest verði að ekki sé heimilt að fjarlægja umrædda hluta byggingarinnar og að byggingarnefnd beri að veita leyfi fyrir þeim.  Er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að taka umsókn kærenda um byggingarleyfi til afgreiðslu með slíkum hætti.  Hins vegar er lagt fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kærenda um byggingarleyfi til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu hennar í samræmi við gildandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga og að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga.

Úrskurðarnefndin fellst á þá afstöðu byggingarnefndar, sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun, að gera verði fullnægjandi rannsókn á burðarvirkjum og öryggi þeirra byggingarhluta, sem til álita kann að kom að samþykkja, enda samrýmist slíkt skilyrði ákvæði 3. mgr. 41. gr. og 5. mgr. 42. gr. laga nr. 73/1997.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna og sumarleyfa svo og vegna þess að einstök gögn frá kærendum og Akureyrarbæ reyndust misvísandi og olli það töfum við gagnaöflun í málinu.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Akureyrar frá frá 5. apríl 2000 er felld úr gildi í heild sinni.  Hafnað er kröfu kærenda um að staðfest verði að ekki sé heimilt að fjarlægja umrædda hluta byggingarinnar að Helgamagrastræti 10 á Akureyri og að byggingarnefnd beri að veita leyfi fyrir þeim.  Lagt er fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kærenda um byggingarleyfi til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu hennar í samræmi við gildandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga og að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga.

47/2000 Leirvogstunga

Með

Ár 2000, miðvikudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2000; kæra eigenda og íbúa að Leirvogstungu 2, 3, 4, 6 og 7 í Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um að veita leyfi til byggingar hesthúss við Leirvogstungu 5 í Mosfellsbæ og krafa kærenda um að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. ágúst 2000, sem barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hdl., f.h. eigenda og íbúa að Leirvogstungu 2, 3, 4, 6 og 7 í Mosfellsbæ, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um að veita leyfi til byggingar hesthúss við Leirvogstungu 5 í Mosfellsbæ.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar 27. ágúst 2000 gera sömu kærendur kröfu um að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hafi málið til meðferðar.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar hinn 21. júlí 2000.

Eftir að krafa kærenda um stöðvun framkvæmda var komin fram var byggingarleyfishafanum, A, Leirvogstungu 5, Mosfellsbæ, gert viðvart um kröfuna og var honum gefinn kostur á að neyta andmælaréttar og koma að sjónarmiðum sínum í málinu.  Sama dag var jafnframt leitað afstöðu byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ til kröfunnar og óskað upplýsinga frá honum um atbeina hans að gerð uppdráttar og yfirlýsingar um samþykki íbúa og eigenda í Leirvogstungulandi.  Skriflegar athugasemdir bárust frá byggingarleyfishafa hinn 28. ágúst 2000, en með bréfi hinn 29. ágúst 2000 barst svar frá byggingarfulltrúa við fyrirspurn nefndarinnar.
 

Telur úrskurðarnefndin málið nú nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrskurðar 

Málsatvik:  Málsatvik verða hér einungis rakin stuttlega og einvörðungu að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn þess hvort fallast beri á þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar. 

Í ársbyrjun 1999 sótti A, eigandi Leirvogstungu 5, um leyfi til þess að byggja hesthús á lóð sinni.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 27. janúar 1999 og fól nefndin tæknideild bæjarins að vinna frekar að málinu.  Á fundi skipulagsnefndar þann 4. maí 1999 var ákveðið að láta fara fram grenndarkynningu vegna umsóknarinnar.  Voru kærendum sendar teikningar af fyrirhuguðu hesthúsi að Leirvogstungu 5 og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum.  Kom lögmaður kærenda athugasemdum þeirra á framfæri með bréfi, dagsettu 18. október 1999.  Lögðust kærendur gegn því að leyfi yrði veitt fyrir byggingu hesthússins.  Til vara var þess krafist að leyfisveitingu yrði frestað þar til breytt aðalskipulag Mosfellsbæjar lægi fyrir og deiliskipulag á grundvelli þess.  Til þrautavara að leyfið yrði ekki veitt fyrr en fyrir lægi deiliskipulag jarðarinnar á grundvelli gildandi aðalskipulags og til þrautaþrautavara að húsið yrði minnkað, það yrði á einni hæð með steinsteyptri þró fyrir tað, í því yrði engin atvinnustarfsemi og að það yrði ekki tekið í notkun fyrr en frágangi yrði að fullu lokið.  Þá lýstu kærendur því yfir að þeir teldu sig ekki bundna við undirritanir sínar undir ódagsetta yfirlýsingu um að þeir gerðu ekki athugasemdir við fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir og staðsetningu hesthússins samkvæmt uppdrætti, sem þeim hefði verið sýndur, en þessarar yfirlýsingar hafði eigandi Leirvogstungu 5 aflað áður en hann sótti um byggingarleyfi fyrir hesthúsinu.

Eftir þetta var málið til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum í Mosfellsbæ haustið 1999 og fram til vors 2000 en í apríl 2000 var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við nýja tillögu að hesthúsi á suðausturhluta lóðarinnar að Leirvogstungu 5.  Gerði þessi nýja tillaga ráð fyrir minna og lægra húsi en hin fyrri.  Lögmaður kærenda kom athugasemdum þeirra á framfæri með bréfi, dagsettu 2. maí 2000, og voru athugasemdirnar efnislega að mestu hinar sömu og áður höfðu komið fram við fyrri grenndarkynninguna.  Eftir frekari umfjöllun og athugun á málinu ákvað skipulags- og byggingarnefnd á fundi sínum þann 18. júlí 2000 að veita leyfi til byggingarinnar og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar hinn 21. júlí 2000.  Eru það þessar ákvarðanir, sem kærðar eru í málinu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að óheimilt hafi verið að veita hið umdeilda byggingarleyfi án þess að aflað væri meðmæla Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. ákvæða til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Þá telja kærendur að andmælaréttur þeirra hafi verið virtur að vettugi og hafi þeim ekki verið kynnt mikilvæg gögn í málinu, sem ráðið hafi úrslitum um hina kærðu ákvörðun.  Eigi þetta við um bréf byggingarleyfishafa til bæjarverkfræðings Mosfellsbæjar, dags. 24. nóvember 1999, umsögn Skipulagsstofnunar um málsmeðferð og bréf Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., dags. 30. júní 2000.
 
Kærendur byggja einnig á því að við meðferð málsins hafi skipulags- og byggingarnefnd brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi málið ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því.  Er af hálfu kærenda nánar tilgreint í hverju þeir telja rannsókn málsins áfátt.

Kærendur styðja mál sitt ennfremur þeim rökum að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið ákvörðun byggingaryfirvalda í málinu og að ekki hafi verið tekið tillit til sjónarmiða er varða framtíðarskipulag svæðisins.  Einnig hafi ákvörðunin verið tekin á röngum forsendum, þar sem fyrir hafi legið uppdráttur með árituðu samþykki kærenda er sýni aðkomu að hesthúsinu frá reiðvegi, en þennan uppdrátt hafi kærendur aldrei séð eða samþykkt, og hljóti byggingarleyfishafi að hafa ljósritað hann eftirá inn á blað það er kærendur höfðu ritað samþykki sitt á.

Nánar verður gerð grein fyrir málsástæðum kærenda við efnisúrlausn málsins.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er mótmælt staðhæfingum kærenda um að fölsuð gögn hafi verið lögð fyrir byggingarnefnd.  Kveður byggingarleyfishafi uppdrátt þann, sem áritaður er um samþykki kærenda, hafa verið útbúinn af byggingarfulltrúa áður en samþykkis kærenda hafi verið aflað. Þá vísar byggingarleyfishafi á bug staðhæfingum kærenda um að hann hafi haft uppi rangfærslur í málinu og um að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda kærenda.  Rétt hafi verið staðið að málinu í alla staði eins og koma muni í ljós við meðferð þess fyrir úrskurðarnefndinni.

Umsögn byggingarfulltrúa:  Í svari byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, sem einskorðað er við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, kemur fram að ekki eru gerðar athugasemdir við þau skjöl, sem kærendur leggja fram og er vísað til fyrirliggjandi gagna málsins.  Varðandi fyrirspurn framkvæmdastjóra úrskurðarnefndar um tilurð uppdráttar, sem áritaður er um samþykki kærenda, kveðst byggingarfulltrúi hafa upplýst byggingarleyfishafa um þá vinnureglu byggingarfulltrúaembættisins að þegar lagðar væru fram áritaðar yfirlýsingar umsagnaraðila vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda, skyldu undirskriftir í öllum tilfellum vera á sama blaði og hin fyrirhugaða framkvæmd væri teiknuð eða skilgreind, svo ekki færi á milli mála hvað fólk skrifaði uppá.  Kveðst byggingarfulltrúi hafa aðstoðað byggingarleyfishafa við að færa inn á afstöðumynd fyrirhugað hús, staðsetningu, auk texta vegna aðkomu frá reiðstíg að lóðinni.  Hafi byggingarleyfishafa verið skýrt frá því að þessi uppdráttur yrði lagður fyrir skipulagsnefnd að fenginni áritun.  Þá kveðst byggingarfulltrúi hafa ljósritað afstöðumyndina, ásamt texta yfirlýsingar, á A3 blað fyrir byggingarleyfishafa.  Sé fullt samræmi milli þess skjals sem þannig var útbúið og þess sem síðar hafi verið lagt fram með áritunum kærenda.

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru framkvæmdir þegar hafnar við byggingu hesthúss samkvæmt byggingarleyfi því, sem ógildingar er krafist á í máli þessu.

Enda þótt ekki hafi verið tekin efnisleg afstaða til málsástæðna kærenda verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við viðeigandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga og er ekki augljóst að hin kærða ákvörðun sé haldin ágöllum er ógildingu varði. Þá verður ekki séð að kærendur eigi ríka hagsmuni af því að framkvæmdir verði stöðvaðar við byggingu tiltölulega lítils mannvirkis í umtalsverðri fjarlægð frá húseignum þeirra. 

Að þessu virtu fellst úrskurðarnefndin ekki á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Eru framkvæmdir því heimilar, en alfarið á ábyrgð byggingarleyfishafa, meðan krafa kærenda um ógildinu hins kærða byggingarleyfis er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu hesthúss að Leirvogstungu 5, Mosfellsbæ, verði stöðvaðar.

 

51/2000 Mosateigur

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2000; kæra eigenda fjögurra fasteigna við Hringteig og Mosateig á Akureyri á samþykkt umhverfisráðs Akureyrarbæjar frá 30. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi að Mosateigi 10 á Akureyri og á byggingar- og skipulagsskilmálum fyrir íbúðarbyggð á Eyrarlandsholti á Akureyri frá nóvember 1998 og á framkvæmd þeirra.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. ágúst 2000, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kæra eigendur fasteignanna nr. 13, 15 og 17 við Hringteig og nr. 8 við Mosateig á Akureyri samþykkt umhverfisráðs Akureyrarbæjar frá 30. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi að Mosateigi 10 á Akureyri og byggingar- og skipulagsskilmála fyrir íbúðarbyggð á Eyrarlandsholti á Akureyri frá nóvember 1998 og framkvæmd þeirra.  Hin kærða ákvörðun um byggingarleyfi var staðfest á fundi bæjarráðs Akureyrar hinn 6. júlí 2000 og tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 26. júlí 2000.

Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þeir krefjist ógildingar hins kærða byggingarleyfis og að úrskurðarnefndin taki þar að auki til úrlausnar hvort skipulags- og byggingarskilmálar fyrir íbúðarbyggð á Eyrarlandsholti fullnægi skilyrðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 og hverjar séu skyldur skipulags- og byggingaryfirvalda til þess að gæta hagsmuna nágranna, sem þegar hafa byggt eða keypt fasteignir á svæðum þar sem skipulagsskilmálar eru jafn opnir og raunin er í hinu kærða tilviki.  Þá krefjast kærendur þess að framkvæmdir við byggingu hússins að Mosateigi 10 verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Vegna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda var byggingarleyfishafa þegar í stað gert viðvart um kæruna og honum boðið að neyta andmælaréttar.  Jafnframt var óskað umsagnar Akureyrarbæjar um kæruefnið.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. september 2000, reifar Haukur Haraldsson, arkitekt sjónarmið byggingarleyfishafa í málinu og með símbréfi, dags. 14. september, hafa nefndinni borist athugasemdir byggingarfulltrúa um kæruna.  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 7. september 2000, en þann dag var nefndin stödd á Akureyri vegna annars kærumáls.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrlausnar.

Málsatvik:  Í maímánuði 2000 barst byggingarnefnd Akureyrar umsókn lóðarhafa, J, um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi að Mosateigi 10 á Akureyri.  Umrædd lóð er á skipulögðu íbúðarsvæði á Eyrarlandsholti og gilda um byggingar á svæðinu byggingar- skipulags- og úthlutunarskilmálar, samþykktir af bæjarstjórn Akureyrar 1. september 1998.  Í umsókninni fólst m.a. að óskað var heimildar til þess að fara lítillega út fyrir byggingarreit með hluta byggingarinnar á afmörkuðu svæði.  Þar sem um frávik frá samþykktu skipulagi var að ræða ákváðu byggingaryfirvöld að láta fara fram grenndarkynningu á umsókninni, þar sem í henni fælist minni háttar breyting á deiliskipulagi.  Var nágrönnum send kynning á umsókninni og skiluðu þeir athugasemdum, sem einkum lutu að hæð fyrirhugaðrar byggingar en ekki voru gerðar athugasemdir við breytingu á byggingarreitnum, sem verið hafði tilefni grenndarkynningarinnar.  Umhverfisráð tók framkomnar athugasemdir til athugunar á fundi hinn 30. júní 2000, en taldi ekki annmarka á því að veita byggingarleyfi fyrir húsinu og var ákvörðun um að veita leyfið staðfest á fundi bæjarráðs hinn 6. júlí 2000.

Málsrök kærenda:  Kærendur hafa uppi efasemdir um að bæjarstjórn hafi verið heimilt að samþykkja skipulags- og byggingarskilmála fyrir umrætt svæði, sem séu jafn opnir og raun sé á.  Varpa kærendur fram þeirri spurningu, hvort nægjanlegt sé að tiltaka fjölda hæða án þess að tilgreina hámarkshæð, þakform, mænishæð og mænisstefnu.  Vísa kærendur í þessu efni til kafla 5.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þá vilja kærendur fá úr því skorið hverjar séu skyldur skipulags- og byggingaryfirvalda til þess að gæta hagsmuna þeirra sem þegar hafi byggt eða keypt á svæðinu þegar fjallað er um væntanlegar byggingar, sé gengið út frá því að hinir opnu byggingarskilmálar séu heimilir.  Þá krefjast kærendur úrlausnar um það hvort brotið hafi verið gegn lögmætum hagsmunum nágranna með því að heimila byggingu umrædds húss, sem að hluta til sé tveggja hæða, þar sem í skipulagsskilmálunum sé gert ráð fyrir einnar hæðar húsi á umræddri lóð.

Málsrök byggingarfulltrúa f.h. Akureyrarbæjar:  Í umsögn byggingarfulltrúa er vísað til bókunar umhverfisráðs, dags. 30. júní 2000, þar sem fjallað er um framkomnar athugasemdir við grenndarkynningu málsins.  Kemur fram í bókuninni að mesta hæð hins umdeilda húss sé ekki meiri en reikna megi með miðað við hefðbundið húsform einnar hæðar húss.  Hverfið hafi verið skipulagt með tiltölulega stórum lóðum og opnum skilmálum til þess að gefa kost á fjölbreytileika í útliti og formi húsa.  Með vísan til þessa sé ekki ástæða til þess að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er því mótmælt að fyrirhugað hús geti talist tveggja hæða.  Um sé að ræða 14,8 m² pall í stofu, sem sé hluti af innréttingu bókasafns.  Upp á pallinn sé fellistigi og lofthæð á pallinum 1,7 – 2,4 metrar.  Stærð pallsins sé einungis 7,9% alls hússins.  Þá bendir byggingarleyfishafi á að mikill hæðarmunur sé á gólfkóta húss hans og þeirra húsa, sem standi við Hringteig og standi hús hans mun lægra en húsin við Hringteig.  Hafi verið tekið mið af þessum aðstæðum við hönnun hússins að Mosateigi 10.  Loks er á það bent að hefði verið byggt einnar hæðar hús með hefðbundnu húsformi og og algengum þakhalla (30º) hefði mænir þess verið hærri en hæsti punktur hins umdeilda húss verði.  Hefði slík bygging orðið kærendum til muna óhagstæðari en fyrirhugað hús.

Niðurstaða:  Kærendur byggja að hluta til á þeim málsrökum, að óheimilt hafi verið að samþykkja skipulags- og byggingarskilmála án þess að kveða í þeim nánar á um ýmis atriði, sem ráðgert er í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að fram komi í skilmálum deiliskipulags.  Umræddir skipulagsskilmálar voru samþykktir í bæjarstjórn 1. september 1998 og var unnt að kæra ákvörðun bæjarstjórnar um skilmálana innan kærufrests frá þeim tíma.  Skilmálar þessir verða hins vegar ekki lengur bornir undir úrskurðarnefndina þar sem kærufrestur vegna ákvörðunar bæjarstjórnar um þá er löngu liðinn.  Þá verður ekki séð að kærendur hafi leitað úrskurðar bæjarráðs Akureyrar um skilmálana á grundvelli ákvæðis í niðurlagi þeirra um úrskurð um ágreining.  Verður því ekki litið til þeirra málsraka að umræddir skilmálar fullnægi ekki skilyrðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um skipulagsgreinargerð deiliskipulags.

Eftir stendur sú málsástæða kærenda, að hið kærða byggingarleyfi sé andstætt skipulagskilmálum og beri af þeirri ástæðu að fella leyfið úr gildi.  Eins og málið liggur nú fyrir þykir ekki hafa verið sýnt fram á að líklegt sé að hið umdeilda leyfi sé ógildanlegt af þessum ástæðum og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.  Er byggingarleyfishafa því heimilt að halda áfram framkvæmdum á grundvelli hins kærða byggingarleyfis að því marki sem hann kýs meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu íbúðrhúss að Mosateigi 10, Akureyri verði stöðvaðar meðan kærumál um gildi byggingarleyfis fyrir húsinu er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

1/2000 Kringla

Með

Ár 2000, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, formaður nefndarinnar, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2000; kæra H, Malarási 4, Reykjavík á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes og Grafningshrepps frá 1. desember 1999 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar að Kringlu II í Grímsnesi og á ákvörðun um breytingu á svæðisskipulagi Þingvalla-, Grímsness og Grafningshreppa, er varðar landnotkun að Kringlu II og staðfest var af umhverfisráðherra hinn 4. október 1999.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags 17. janúar 2000, kærir H, Malarási 4, Reykjavík ákvörðun sveitarstjórnar Grímsness og Grafningshrepps frá 1. desember 1999 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar að Kringlu II í Grímsnesi og ákvörðun um breytingu svæðisskipulagi Þingvalla-, Grímsness og Grafningshreppa, sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 4. október 1999, varðandi landnotkun að Kringlu II.  Kæran barst nefndinni í símbréfi hinn 17. janúar 2000 en frumrit kærubréfs ásamt fylgiskjölum nokkrum dögum síðar.

Krefst kærandi þess að ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt deiliskipulags frístundabyggðar að Kringlu II verði felld úr gildi, svo og staðfesting ráðherra á nefndri breytingu svæðisskipulags Þingvalla-, Grímsness og Grafningshreppa.

Með símbréfi, dags. 2. maí 2000, krafðist Jón Magnússon hrl., f.h. kæranda þess að framkvæmdir á grundvelli hinna kærðu ákvarðana yrðu stöðvaðar og að þegar í stað yrði kveðinn upp úrskurður um það atriði, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Við eftirgrennslan kom í ljós að ekki voru hafnar framkvæmdir á svæðinu.  Lýsti Ævar Guðmundsson hdl., lögmaður eiganda Kringlu II, því yfir nokkru síðar að af hálfu umbjóðanda hans yrði ekki unnið að neinum framkvæmdum á grundvelli hinna kærðu ákvarðana meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni.  Hefur því ekki komið til þess að kveðinn væri upp úrskurður um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og er ekki til þess vitað að nokkrar framkvæmdir hafi átt sér stað eftir að krafa um stöðvun þeirra var sett fram.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að Kringlu I í Grímsnesi.  Munu eigendur Kringlu I og Kringlu II hafa viljað skipta óskiptu landi í sameign jarðanna en samkomulag ekki náðst um skiptin.  Kveður kærandi ágreining hafa verið um landstærð jarðanna og um það hvaða land tilheyrði hvorum eignarhluta.  Með bréfi, dags. 9. júní 1997, óskaði eigandi Kringlu II eftir því að skiptin yrðu ákvörðuð með landskiptagjörð samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1941.  Var landskiptagjörð gerð um jarðirnar og frá henni gengið af hálfu skiptamanna hinn 16. október 1997.  Er landskiptagjörð þessi samþykkt af sveitarstjórn, jarðanefnd og Bændasamtökum Íslands og staðfest í landbúnaðarráðuneytinu svo sem lög standa til.  Jafnframt var gjörðinni þinglýst.

Kærandi vildi ekki una landskiptagjörð þessari og krafðist yfirmats.  Yfirmatsnefnd komst að þeirri niðurstöðu, að þar sem ágreiningur væri um túlkun afsals fyrir Kringlu I væri henni ekki fært að skipta landinu.  Frestaði yfirmatsnefndin málinu þar til ágreiningur aðila, m.a. um landstærð, hefði verið leystur af þar til bærum aðilum.  Hefur landskiptamálið enga frekari meðferð hlotið fyrir yfirmatsnefndinni.

Eigandi Kringlu II mun hafa leitað eftir leyfi sveitarstjórnar til að skipuleggja svæði fyrir frístundabyggð í landi jarðarinnar.  Var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 12 maí 1998 að heimila að auglýst yrði deiliskipulag svæðisins.  Athugasemdir bárust frá Vegagerðinni og kæranda og voru þær teknar til umfjöllunar í sveitarstjórn á fundi hinn 25. ágúst 1998.  Var afgreiðslu skipulagsins frestað þar til skiptagjörð lægi fyrir, einnig yrði landnýtingu breytt í núgildandi svæðisskipulagi.  Breyting var gerð á landnýtingu svæðisskipulagsins fyrir Kringlu II og hún samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 2. júní 1999.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 7. júlí 1999 var deiliskipulag svæðisins tekið til umfjöllunar og var skipulagið samþykkt með vísun til þess að fyrir lægi landskiptagjörð á jörðunum Kringlu I og Kringlu II, samþykkt af hreppsnefnd Grímsneshrepps 4. nóvember 1997 og þinglýst 4. ágúst 1998.  Óveruleg breyting á skipulaginu var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 1. desember 1999.  Var skipulagið svo búið sent til umsagnar Skipulagsstofnunar.  Með bréfi til sveitarstjóra, dags. 16. desember 1999, tilkynnti Skipulagsstofnun að ekki væri gerð athugasemd við að tilkynning um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er aðallega á því byggt að ekki hafi verið unnt að ganga frá þeim skipulagsbreytingum, sem kæran tekur til, þar sem ágreiningur hafi verið milli eigenda Kringlu I og II um landskipti og landstærð.  Ákvarðanir sveitarstjórnar og Skipulagsstofnunar séu af þessu sökum markleysa.  Landskiptagjörðin frá 16. október 1997 sé markleysa og andstæð lögum, enda hafi yfirmatsnefnd komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að framkvæma landskiptin fyrr en ágreiningur aðila hefði verið til lykta leiddur með dómi eða samkomulagi.  Af þessum ástæðum hafi ekki verið hægt að deiliskipuleggja land Kringlu II svo sem gert hafi verið og séu ákvarðanir sveitarstjórnar um skipulagið ekki reistar á lögmætum grundvelli.

Þá telur kærandi að málsmeðferð sveitarstjórnar hafi verið ólögmæt, m.a. hafi ekki verið gætt andmælaréttar hans og að rökstuðningi hafi verið áfátt.  Bæði hafi skort efnislegar og lagalegar forsendur fyrir hinum kærðu ákvörðunum og hafi ómálefnaleg sjónarmið og sérhagsmunir ráðið gerðum sveitarstjórnar.  Ákvarðanirnar séu andstæðar skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, lögum um landskipti nr. 46/1941, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og sjónarmiðum um jafnræði borgaranna, sbr. 65. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 með síðari breytingum.

Andmæli eiganda Kringlu II:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. maí 2000, rekur Ævar Guðmundsson hdl., fh. J, eiganda Kringlu II, sjónarmið hans í málinu.  Er í bréfinu rakinn aðdragandi að áðurnefndri landskiptagjörð og málsmeðferð í landskiptamálinu og á það bent að yfirmatsnefnd hafi hafnað kröfu kæranda um að ógilda landskiptagjörðina.  Því sé landskiptagjörðin frá 16. október 1997 í gildi og hafi kæranda mátt vera það ljóst.  Allt að einu hafi hann látið hjá líða að bera landskiptagjörðina undir dómstóla og uni henni því í raun.  Ágreiningi eigenda Kringlu I og II hafi því lokið með umræddri landskiptagjörð.

Umsögn sveitarstjórnar:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. maí 2000, gerir sveitarstjórn Grímsness og Grafningshrepps grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Er í bréfinu ítarlega rakin meðferð sveitarstjórnar við undirbúning hinnar umdeildu ákvörðunar um deiliskipulag frístundabyggðar að Kringlu II.  Telur sveitarstjórn að málsmeðferðin hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og að gætt hafi verið stjórnsýslulaga við meðferð málsins eftir því sem við hafi átt.  Svörum vegna athugasemda hafi verið beint til lögmanns kæranda, sem komið hafi athugasemdunum á framfæri og verði að telja að með því hafi andmælaréttar og tilkynningarskyldu verið gætt.  Þá hafi sveitarstjórn verið rétt að leggja til grundvallar ákvörðunum sínum þinglýsta landskiptagerð sem hafi lögformlegt gildi þrátt fyrir ágreining eigenda jarðarhlutanna.  Allvíða í sveitarfélaginu hafi jarðir eða jarðarhlutar verið teknir undir frístundabyggð þar sem hefðbundinn landbúnaður hafi lagst af á undanförnum árum.  Á Kringlu hafi hefðbundinn búskapur ekki verið stundaður um árabil.  Loks er áréttað að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við að gildistaka hins umdeilda deiliskipulags yrði auglýst í Stjórnartíðindum.

Athugasemdir kæranda:  Með símbréfi úrskurðarnefndarinnar hinn 6. júní 2000 var lögmanni kæranda gefinn kostur á að tjá sig um framkomin andmæli eiganda Kringlu I og umsögn sveitarstjórnar.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. ágúst 2000, svarar lögmaður kæranda andmælum eiganda Kringlu II og telur þau ekki breyta neinu um þau kæruefni, sem um sé fjallað í málinu.  Ágreiningur hafi lengi verið milli eigenda Kringlu I og II um landstærð og hafi þetta komið fram við gerð margnefndrar landskiptagerðar.  Þá hafi afgreiðsla yfirmatsnefndar á landskiptamálinu hingað til ekki verið viðunandi en því máli sé ekki lokið.  Loks bendir lögmaðurinn á að nú liggi fyrir að ekkert aðalskipulag sé í gildi fyrir Grímsneshrepp.  Þegar af þeirri ástæðu standist ekki hið umdeilda deiliskipulag, sbr. 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá verði ekki séð hvernig svæðisskipulag verði unnið og frágengið þar sem á skorti að aðalskipulag hafi verið gert.

Niðurstaða:  Auglýsing um staðfestingu umhverfisráðherra á breytingu þeirri á svæðisskipulagi Þingvalla-, Grímsness og Grafningshreppa, sem kærð er í máli þessu, var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. október 1999.  Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar var því liðinn er kæra barst nefndinni hinn 17. janúar 2000, en miða verður upphaf kærufrests við hina opinberu birtingu staðfestingarinnar. Ber því að vísa þessum lið í kærunni frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Leggja verður til grundvallar að hin þinglesna landskiptagjörð hafi gildi meðan henni hefur ekki verið hnekkt.  Kærandi hefur ekki, svo vitað sé, gert reka að því að höfða mál til ógildingar á henni eða leitað annarra leiða til þess að binda endi á ágreining eigenda Kringlu I og II um landstærð og landskipti.  Meðan svo horfir, er óráðið hverra hagsmuna kærandi á að gæta í málinu, en ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr réttarágreiningi eigenda Kringlu I og II um um landskiptin. Vegna þeirrar óvissu, sem ríkir um réttarstöðu kæranda, telur úrskurðarnefndin ekki ljóst að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um gildi hins umdeilda deiliskipulags og verður kröfu hans um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar um samþykkt þess því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur tafist vegna tímafrekrar gagnaöflunar og síðar vegna sumarleyfa.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda í máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

42/2000 Heiðargerði

Með

Ár 2000, föstudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2000; kæra húseigenda að Heiðargerði 74, 78, 88, 90, 92 og 94, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita leyfi til byggingar þakhæðar að Heiðargerði 76, Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2000, sem barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kæra eigendur fasteignanna nr. 74, 78, 88, 90, 92 og 94 við Heiðargerði í Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita leyfi til byggingar 30 m² þakhæðar að Heiðargerði 76.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Hin kærða ákvörðun var tekin af byggingarfulltrúa í umboði byggingarnefndar Reykjavíkur og staðfest í borgarráði hinn 11. júlí 2000.

Þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda var byggingarleyfishafa sent bréf hinn 27. júlí 2000 þar sem honum var gefinn kostur á að neyta andmælaréttar og koma að sjónarmiðum í málinu.  Sama dag var jafnframt óskað umsagna byggingarnefndar Reykjavíkur og Skipulagsstofnunar um kæruefnið.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júlí 2000, andmælir byggingarleyfishafi kröfum og sjónarmiðum kærenda.  Fylgja bréfi þessu gögn er varða málsmeðferð hjá borgaryfirvöldum.  Með bréfi til nefndarinnar, dags. 11. ágúst 2000, sendir byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsögn skrifstofustjóra byggingardeildar um málið ásamt fylgiskjölum.  Meðal gagna, sem lögð eru fyrir nefndina af hálfu byggingarfulltrúa, er bréf hans til byggingarleyfishafa, dags. 8. ágúst 2000, þar sem tilkynnt er að framkvæmdir við stækkun hússins á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði séu stöðvaðar með vísun til þess að iðnmeistarar hafi enn ekki skráð sig á verkið auk þess sem séruppdráttum hafi ekki verið skilað til embættis byggingarfulltrúa.

Úrskurðarnefndin telur málið nú nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka til úrskurðar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Þykir umsögn Skipulagsstofnunar ekki þurfa að liggja fyrir við úrlausn þessa þáttar málsins, en umsögn stofnunarinnar mun verða meðal þeirra gagna sem stuðst verður við þegar afstaða verður tekin til kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsatvik:  Málsatvik verða hér einungis rakin stuttlega og einvörðungu að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn þess hvort fallast beri á þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar. 

Eigandi hússins að Heiðargerði 76 hefur ítrekað sótt um leyfi til að hækka og stækka hús sitt.  Fyrri umsóknum um ofanábyggingu hefur verið hafnað með rökstuðningi frá Borgarskipulagi og byggingarnefnd og byggja þær synjanir í aðalatriðum á því að lóðarnýting sé nú þegar langt umfram það sem almennt gerist í nágrenninu.  Íbúar í næsta nágrenni hafa jafnframt mótmælt fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum, m.a. á grundvelli skuggavarps á þeirra eignir.

Hinn 25. júní 1999 sótti eigandi hússins enn um leyfi til að hækka þak hússins og byggja við þakhæð eins og nánar greinir í umsókninni.  Var málið fyrst tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 8. júlí 1999 og þá vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar.  Var málið til meðferðar hjá nefndum og stofnunum byggingarmála borgarinnar og fór grenndarkynning fram í febrúar og mars 2000 og bárust allmargar athugasemdir frá nágrönnum.  Eftir að umsögn Borgarskipulags um framkomnar athugasemdir lá fyrir var málið tekið fyrir á ný á fundi skipulags- og umferðarnefndar og varð það niðurstaða nefndarinnar að hún gerði ekki athugasemd við að veitt yrði byggingarleyfi á grundvelli kynntra teikninga.  Á grundvelli þessarar umsagnar samþykkti byggingarnefnd síðan að veita leyfi það sem kært er í málinu.

Málsrök byggingarnefndar:  Í umsögn skrifstofustjóra byggingardeildar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, dags. 11. ágúst 2000 segir m.a.

„Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 6. júní 2000 var tekið fyrir og samþykkt erindi Guðmundar Eggertssonar, þar sem sótt er um leyfi til þess að hækka þak yfir syðri hluta hússins og byggja þrjá nýja kvisti á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði.

Erindinu fylgdi m.a. útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar frá 8. maí 2000, að lokinni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. skipulags- og byggingarlaga, ásamt fylgiskjölum og umsögnum Borgarskipulags dags. 5. ágúst og 20. desember 1999 auk bréfs Guðmundar Eggertssonar dags. 17. desember 1999.
Borgarráð í umboði borgarstjórnar samþykkti framangreint á fundi þann 11. júlí 2000.

Við grenndarkynningu erindisins bárust skipulags- og umferðarnefnd sömu athugasemdir nágranna við fyrirhugaðri hækkun þaks á hluta hússins ásamt byggingu þriggja kvista.  Að fenginni umsögn Borgarskipulags við framkomnum athugasemdum bókaði nefndin eftirfarandi:  „Skipulags- og umferðarnefnd gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi á grundvelli kynntra teikninga“. 

Samkvæmt umsögn Skipulags- og umferðarnefndar var erindið í samræmi við staðfest aðalskipulag samkvæmt gr. 11.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sbr. einnig 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og var grenndarkynnt eins og kveðið er á um í gr.12.5 í byggingarreglugerð sbr. einnig 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Að uppfylltum öðrum ákvæðum byggingarreglugerðar og skipulags- og byggingarlaga samþykkti afgreiðslufundur byggingarfulltrúa erindið.

Við kynningu skipulags- og umferðarnefndar á fyrirhugaðri viðbyggingu við húsið á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði gafst nágrönnum þ.á.m. kærendum kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri við nefndina.  Athugasemdir bárust frá mörgum nágranna, sem nefndin fjallaði um áður en tillagan var afgreidd.

Ekki verður séð að neitt nýtt komi fram í kærubréfi, sem breytt geti ákvörðun afgreiðslufundar byggingarfulltrúa um að veita leyfi fyrir ofangreindum framkvæmdum.  Á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður að telja ástæðulaust að stöðva framkvæmdir við verkið, sem unnar eru samkvæmt byggingarleyfi sem veitt er í samræmi við staðfest aðalskipulag.“

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júlí 2000, tekur byggingarleyfishafi fram að teikning sú, sem send hafi verið með sem fylgigagn að breytingum að Heiðargerði 76, sé ekki sú teikning sem samþykkt hafi verið í byggingarnefnd Reykjavíkur og staðfest í borgarráði.  Þá er mótmælt fullyrðingum kærenda um að framkvæmdirnar eyðileggi útsýni, valdi skuggamyndun og auki á umferð.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar um að veita leyfi til stækkunar húss í grónu hverfi.  Fyrir liggur að fyrri umsóknum um hliðstæðar framkvæmdir hefur ítrekað verið synjað, m.a. með vísun til þess hversu hátt nýtingarhlutfall mannvirkja á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði er miðað við nýtingarhlutfall á nærliggjandi lóðum.  Ekki hefur verið sýnt fram á að aðstæður hafi breyst svo að fyrri röksemdir fyrir synjun erindisins eigi ekki lengur við.  Þá liggur fyrir að eigandi Heiðargerðis 76 hóf framkvæmdir án þess að hafa fullnægt skilyrðum um skil sérteikninga og áritanir iðnmeistara og að byggingarfulltrúi hefur af því tilefni stöðvað framkvæmdir við verkið.  Eins og atvikum er háttað og með hliðsjón af því að vafi þykir leika á um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að fallast á þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Ber borgarstjórn, með vísun til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, að hlutast til um að ákvörðun nefndarinnar um stöðvun framkvæmdanna verði framfylgt.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru við byggingu þakhæðar að Heiðargerði 76 í Reykjavík, skulu stöðvaðar meðan kærumál um lögmæti ákvörðunar um leyfi fyrir byggingunni er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

59/1999 Hagasmári

Með

Ár 2000, miðvikudaginn 23. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59, Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/1999, kæra olíufélagsins Skeljungs hf. á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. nóvember 1999 um að breyta deiliskipulagi lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogsdal – Smáralind.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. desember 1999, kærir Árni Á. Árnason, hdl, fyrir hönd Skeljungs hf., samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. nóvember 1999 um að breyta deiliskipulagi á lóðinni Hagasmára 1 í Kópavogi og óskar eftir því að úrskurðarnefndin felli úr gildi það ákvæði samþykktarinnar að gert sé ráð fyrir bensínsölu (sjálfsala) í suðvesturhorni lóðarinnar.  Um kæruheimild vísast til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem og  gr. 10.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Málavextir:  Árið 1994 var Skeljungi hf. úthlutað lóðinni nr. 9 við Hagasmára í samræmi við þágildandi deiliskipulag.  Er lóðin á reit, sem afmarkast af Hagasmára, Smárahvammsvegi, Fífuhvammsvegi og Reykjanesbraut. Samkvæmt deiliskipulaginu var ekki gert ráð fyrir annarri bensínstöð á skipulagsreitnum.  Nýr deiliskipulagsuppdráttur, samþykktur af bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar 24. mars 1998, sýndi heldur ekki neina aðra bensínstöð eða bensínsölu en bensínstöð Skeljungs hf. á nefndum reit.
Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 19. október 1999 var lögð fram að nýju tillaga, sem áður hafði verið auglýst að breyttu deiliskipulagi reitsins, þar sem m.a. var gert ráð fyrir sjálfvirkri bensínsölu (eldsneytisdælum) á lóðinni að Hagasmára 1. Athugasemdir höfðu borist frá kæranda varðandi þann þátt tillögunnar að gert væri ráð fyrir bensínsölu á lóðinni.  Skipulagsnefnd hafnaði bensínsölu á lóðinni en samþykkti tillöguna að öðru leyti með vísun til bókana og var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Nokkur ágreiningur var um umrædda bensínsölu milli skipulagsnefndar og bæjarráðs, en tillagan, sem gerði ráð fyrir bensínsölunni, var að lokum samþykkt af bæjarstjórn hinn 23. nóvember 1999 og birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 10. desember 1999 sem nýtt deiliskipulag fyrir umræddan reit.
Þessi skipulagsbreyting er kærð af Árna Á. Árnasyni hdl., fh. Skeljungs, með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags 21. desember 1999, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Með bréfi til bæjarskipulags Kópavogs, dags 4. október 1999, mótmælir Árni Á. Árnason hdl., fh. Skeljungs hf., fyrirhugaðri breytingu á deiliskipulagi að því er lýtur að bensínsölu á lóðinni nr. 1 við Hagasmára, en breytingin var auglýst í Lögbirtingablaði nr. 94/1999.  Í bréfinu segir m.a:
,,Ljóst er að vegna nálægðar við bensínstöð Skeljungs mun þessi skipulagsbreyting verða til þess að eldsneytissala Skeljungs við Hagasmára 1 (sic) á eftir að minnka verulega. Af því myndi leiða verulegt fjárhagslegt tjón fyrir félagið. Þetta fjárhagslega tjón myndi lýsa sér í minni framtíðartekjum, verð fasteignarinnar myndi lækka og nýtingarmöguleikar skerðast. Ljóst er að ef þetta yrði raunin ætti Skeljungur skaðabótakröfu á hendur Kópavogskaupstað á grundvelli 26. gr. 2. mgr. sbr. og 33. gr 1. mgr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73 frá 1997.”
Ennfremur segir í tilvitnuðu bréfi lögmanns Skeljungs hf.:
,,Skeljungi var upphaflega úthlutuð lóðin Hagasmári 1 (sic) á fundi bæjarráðs Kópavogs þann 16. júní 1994. Á þeim tíma var tekin ákvörðun um byggingu á lóðinni út frá þágildandi deiliskipulagi og var þá ekki gert ráð fyrir hinni nýju bensínstöð að Hagasmára 1 sem nú er fyrirhuguð. Skeljungur hefur nú tekið í notkun á lóðinni nýja bensínstöð og er hér um stærstu stöð félagsins að ræða.”
Í bréfi lögmanns Skeljungs hf. til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. desember 1999, eru höfð uppi sömu málsrök og í mótmælabréfi til bæjarskipulags Kópavogs frá 4. október 1999, en til viðbótar segir þar:
,,Að auki skal hér bent á að 1. gr. 3. mgr. skipulags- og byggingarlaga en telja verður að með samþykki deiliskipulagsins hafi það ákvæði verið brotið en þar segir að markmið laganna sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Telja verður að réttur Skeljungs hafi verið fyrir borð borinn með þessari ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs enda var hún tekin í andstöðu við vilja skipulags-nefndar.”

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að meðferð skipulagstillögunnar frá 7. desember 1999 hafi í einu og öllu verið lögformleg og í samræmi við aðalskipulag Kópavogs 1992-2012, sem staðfest var af umhverfisráðherra 29. apríl 1994.
Í greinargerð bæjarlögmanns Kópavogsbæjar til bæjarráðs frá 4. nóvember 1999, vegna athugasemda Árna Á. Árnasonar hdl. fh. Skeljungs í bréfi frá 4. október 1999 um téða breytingu á skipulagi, segir m.a:
,,Í 33. gr. núgildandi skipulagslaga nr. 73/1997, en ákvæðið er hliðstætt ákvæðum 29. gr. fyrri skipulagslaga, segir að valdi gildistaka því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður var heimilt, eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður og á þá sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði. Í greininni eru síðan nánari fyrirmæli um ákvörðun bóta. Sá sem heldur því fram að hann verði fyrir fjárhagstjóni vegna gildistöku skipulags hefur sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni.
Um það verður ekkert fullyrt á þessu stigi hvort breyting á deiliskipulagi á viðkomandi lóð hafi bótaskyldu í för með sér, en ætla verður sveitarstjórnum svigrúm til breytinga á deiliskipulagi, enda séu ákvarðanir þar að lútandi teknar á skipulagslegum og þjónustulegum forsendum. Eftir sem áður er sveitarstjórn ábyrg skv. 33. gr. skipulagslaga fyrir tjóni sem þriðji aðili verður sannanlega fyrir vegna skipulagsbreytinganna.”

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um álitaefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar segir m.a.  „Hin kærða deiliskipulagsbreyting var til umfjöllunar Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. fyrir gildistöku breytingarinnar. Athugasemd kæranda og umfjöllun sveitarstjórnar um hana lá fyrir við afgreiðslu stofnunarinnar. Skipulagsstofnun gerði í bréfi sínu til Kópavogsbæjar, dags. 2. desember 1999, ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Skipulagsstofnun telur ekki hafa verið brotið gegn skipulags- og byggingarlögum við umfjöllun um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu.“

Niðurstaða:  Fyrir liggur að í deiliskipulagi áðurnefnds reits, sem í gildi var þegar Skeljungi hf. var úthlutað þar lóð undir bensínstöð þann 16. júní 1994, var ekki sýnd á uppdrætti aðstaða til bensínsölu á öðrum stað á skipulagsreitnum.  Virðist félagið hafi gert ráð fyrir að ekki yrði leyfð önnur bensínstöð eða aðstaða til bensínsölu á reitnum. Á umræddum skipulagsreit er landnotkun skilgreind svo að um sé að ræða verslunar- og þjónustusvæði.  Rekstur bensínsölu samrýmist skilgreindri landnotkun svæðisins en ekki verður séð að landnotkun einstakra bygginga eða hluta svæðisins hafi verið þrengd eða kvaðabundin svo sem þó hefði verið heimilt ef það hefði vakað fyrir bæjaryfirvöldum að takmarka heimildir til starfsemi á svæðinu umfram það sem fólst í almennri afmörkun á landnotkun, sbr. 2. mgr. greinar 3.1.4 og 2. mgr. greinar 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Enda þótt sýnd hafi verið staðsetning bensínstöðvar á tilteknum stað á svæðinu á deiliskipulagsuppdrætti þeim, sem í gildi var er kæranda var úthlutað lóð til slíkrar starfsemi, voru engar skorður við því settar í skipulagsskilmálum eða með öðrum hætti að slík starfsemi kynni að verða leyfð síðar á öðrum stað á svæðinu.  Verður ekki talið að með því einu að sýna fyrirhugaða staðsetningu bensínstöðvar á svæðinu hafi bæjaryfirvöld skuldbundið sig til þess að leyfa þar ekki frekari starfsemi af því tagi.

Hafi það vakað fyrir kæranda að tryggja sér einkarétt til bensínsölu á svæðinu gat hann, við úthlutun lóðar sinnar, leitað afstöðu bæjaryfirvalda til óska sinna um að njóta þeirrar samkeppnisverndar, sem hann virðist nú telja sig eiga rétt til.  Hefði þá einnig þurft að huga að hugsanlegri staðsetningu bensínstöðva á nærliggjandi svæðum utan skipulagsreitsins.   Hvorki verður hins vegar séð að kærandi hafi leitað afstöðu bæjaryfirvalda til slíkra samkeppnissjónarmiða né að Kópavogsbær hafi skuldbundið sig til þess að leyfa ekki rekstur bensínsöla annars staðar á svæðinu eða í nágrenni þess.
Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að réttur hans hafi verið fyrir borð borinn þar sem ákvörðun bæjarstjórnar hafi verið tekin í andstöðu við vilja skipulagsnefndar.  Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er það á valdsviði sveitarstjórnar að taka ákvarðanir um skipulagsmál og verður ekki talið að bæjarstjórn hafi verið bundin af áliti skipulagsnefndar við ákvörðun um hina kærðu skipulagsbreytingu. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið gengið gegn lögvörðum rétti kæranda með hinni kærðu ákvörðun um að leyfa bensínsölu (sjálfsala) í suðvesturhorni lóðarinnar að Hagasmára 1 og er sú niðurstaða í samræmi við álit Skipulagsstofnunar í málinu.  Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar aðstöðu til bensínsölu (sjálfsala) á umræddu svæði.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni, tafa við gagnaöflun og  nú síðast vegna sumarleyfa.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Skeljungs hf., um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. nóvember 1999 um að breyta deiliskipulagi lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogsdal – Smáralind að því er varðar fyrirhugaða bensínsölu (sjálfsala) á lóðinni.

39/2000 Klapparstígur

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 3. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2000; kæra H f.h. einkafirmans Louisa, Klapparstíg 40, Reykjavík á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. september 1998 um að veita leyfi til að reisa verslunarhúsnæði úr timbri við suðurhlið og geymslu við vesturhlið 1. hæðar hússins nr. 40 við Klapparstíg í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags 20. júlí 1999, sem barst nefndinni sama dag, kærir H f.h. einkafirmans Louisa, Klapparstíg 40, Reykjavík  ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. september 1998 um að veita leyfi til að reisa verslunarhúsnæði úr timbri við suðurhlið og geymslu við vesturhlið 1. hæðar hússins nr. 40 við Klapparstíg í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 1. október 1998.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst kærandi þess að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.

Vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda óskaði úrskurðarnefndin þegar eftir afstöðu byggingarnefndar til kærunnar en jafnframt var byggingarleyfishafa gefinn kostur á að neyta andmælaréttar.  Umsögn um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda barst frá byggingarnefnd hinn 27. júlí ásamt fylgiskjölum er málið varða.  Sama dag barst nefndinni einnig bréf byggingarleyfishafa ásamt fylgiskjölum. Er  í bréfinu mótmælt kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og rakin sjónarmið byggingarleyfishafa.

Úrskurðarnefndin telur að nú þegar liggi fyrir fullnægjandi málsreifun, málsgögn og rannsókn máls til þess að unnt sé að ljúka efnisúrlausn málsins.  Verður því ekki kveðinn upp sérstakur úrskurður um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, en heimildir byggingarleyfishafa til frekari framkvæmda ráðast af niðurstöðu nefndarinnar um gildi byggingarleyfis þess, sem liggur til grundvallar framkvæmdunum.

Málavextir:  Hús það er stendur á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg er talið hafa verið byggt á árinu 1906.  Í húsinu er nú verslunarrými á 1. hæð en íbúð á 2. hæð.  Í suðvesturhorni lóðarinnar er skúrbygging í eigu kæranda.  Kemur fram í virðingargjörð um eignina frá 14. desember 1918 að skúr þessi er þá fyrir á lóðinni 7,8 metrar að lengd og 4,4 metrar að breidd eða 34,3m² en engar heimildir eru um byggingu skúrsins aðrar en þær að í skrám Fasteignamats ríkisins er byggingarár hans sagt vera árið 1903.  Í virðingargjörð frá 30. desember 1961 er skúr þessi enn á lóðinni, óbreyttur að umfangi, en þess getið að honum hafi verið breytt í skrifstofu og hann lagfærður í samræmi við það.  Af málsgögnum verður ráðið að eftir þennan tíma hafi verið byggt við skúrinn og hann lengdur til austurs.  Er þessi viðbygging talin 18,1m².  Er skúrinn því nú skráður 52,4m² og talinn sérstakur eignarhluti í skrám Fasteignamats ríkisins.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvenær viðbyggingin við skúrinn var reist og verður ekki séð að byggingarleyfis hafi verið aflað fyrir henni.

Með samningum dags. 17. júlí 1990 og 11. september 1990 sömdu þáverandi eigendur allra eignarhluta á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg um skiptingu lóðarinnar þannig að skúrnum skyldi fylgja 42m² lóð frá götu og að skúrnum með suðurmörkum lóðarinnar eins og sýnt er á uppdráttum, sem eru hluti samninga þessara.  Samningum þessum var þinglýst hinn 28. september 1990, án athugasemda, en ekki mun hafa verið leitað heimildar byggingarnefndar eða borgarstjórnar til skiptingar lóðarinnar með þeim hætti sem í samningum þessum greinir.

Með umsókn, sem móttekin var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 22. júlí 1998 sótti núverandi eigandi 1. hæðar hússina að Klapparstíg 40 um leyfi til þess að byggja við hæðina verslunarrými og geymslu eins og nánar greinir í umsókninni.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 30. júlí 1998 og var málinu frestað og vísað til umsagnar Borgarskipulags.  Af hálfu Borgarskipulags var ekki gerð athugasemd við erindið en lagt til að það yrði grenndarkynnt hagsmunaaðilum í nágrenninu.  Á fundi skipulags- og umferðarnefndar  hinn 14. september 1998 var erindið samþykkt án þess að grenndarkynning hefði farið fram en vísað var til samþykkis íbúa við Klapparstíg 38-44, dags. 21. júlí 1998, svo og bréfs Árbæjarsafns, dags. 25. ágúst 1998, og umsagnar Borgarskipulags, dags. 31. ágúst 1998.  Að fenginni umsögn skipulags- og umferðarnefndar, sem að framan greinir, samþykkti byggingarnefnd umsóknina á fundi sínum hinn 24. september 1998 og var sú ákvörðun byggingarnefndar staðfest í borgarstjórn hinn 1. október 1998.

Ekki verður séð að framkvæmdir hafi verðið hafnar við bygginguna fyrr en í júnímánuði árið 2000 en fyrsta úttekt við bygginguna er gerð hinn 12. júní 2000 samkvæmt bókum byggingarfulltrúans í Reykjavík.  Kveðst kærandi ekki hafa vitað um framkvæmdirnar eða byggingarleyfið fyrr en hinn 25. júní 2000 en þann dag ritaði hún byggingarfulltrúa og byggingarleyfishafa ásamt öðrum hagsmunaaðilum bréf þar sem m.a. kemur fram að eigandi skúrsins telji bygginguna of nálægt skúrbyggingunni og lóðarmörkum að henni.  Í bréfinu kveður kærandi sig ekki hafa samþykkt bygginguna og bendir á að grenndarkynning hafi ekki farið fram.  Fer hún fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar og fyrirhuguð bygging endurskoðuð.  Erindi þetta mun kærandi hafa ítrekað við byggingarfulltrúa með bréfum dags. 27. júní og 6. júlí 2000.

Með bréfi dags. 10. júní 2000 hafnaði byggingarfulltrúi kröfu kæranda um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.  Kemur fram í bréfinu að ekki verið séð að sótt hafi verið um leyfi fyrir geymsluskúr kæranda, matshl. 02.  Þá hafi grenndarkynning verið talin óþörf þar sem samþykki allra nágranna, er málið snerti, hafi legið fyrir.  Ekki hafi verið farið fram á leyfi til að skipta lóðinni og verði því að líta svo á að samningur þáverandi eigenda frá 1990 um skiptingu lóðarinnar sé samningur þeirra á milli um sérnotafleti.  Af hálfu eldvarnareftirlits hafi ekki verið gerðar athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd, enda fjarlægð frá húsum á næstu lóðum innan leyfilegra marka.  Ákvörðun byggingarnefndar sé ívilnandi ákvörðun og beri að beita heimildum til afturköllunar slíkra ákvarðana af varfærni, einkum þegar afturköllunin geti orðið til tjóns fyrir leyfishafa sbr. 25, gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Er kæranda í lok bréfsins bent á málskotsheimildir skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að fenginni þessari niðurstöðu skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. júlí 2000, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af  hálfu kæranda er á því byggt að hún sé meðeigandi að sameignarlóð hússins að Klapparstíg nr. 40 og einnig að mannvirki á lóðinni.  Af þessu leiði að þurft hefði samþykki hennar fyrir hinum umdeildu framkvæmdum og að byggingarnefnd hafi ekki verið heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmdunum nema að fengnu samþykki allra lóðarhafa.  Þá hafi grenndarkynning ekki verðið viðhöfð svo sem lögskylt hafi verið.  Loks hafi byggingarnefnd stuðst við röng og ófullnægjandi gögn við meðferð málsins.  Allt leiði þetta til þess að ógilda beri hið umdeilda byggingarleyfi.

Málsrök byggingarnefndar:  Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur um kæruefnið kemur m.a. fram að samkvæmt skrám embættis byggingarfulltrúa sé einungis eitt hús samþykkt á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg, þ.e. verslunar- og íbúðarhús.  Hafi samþykki eigenda þess húss legið fyrir og hafi þau verið borin saman við eigendaskrá Fasteignamats ríkisins á þeim tíma.  Samkvæmt þeim skrám sé að auki skráð geymsla á lóðinni, matshluti 02, sem á þessum tíma hafi verið skráð eign eiganda íbúðar á 2. hæð Klapparstígs 40.  Ekki sé að sjá af gögnum í vörslu embættis byggingarfulltrúa að sótt hafi verið um leyfi fyrir umræddri geymslu, matshl. 02, en á afstöðumynd sem fylgt hafi umsókn sé afmarkað svæði á þeim hluta lóðar, sem geymslan muni standa á.

Þá segir í umsögninni að grenndarkynning hafi verið talin óþörf þar sem samþykki allra nágranna, er málið snerti, hafi legið fyrir.  Ekki hafi verið farið fram á skiptingu lóðarinnar og verði að líta svo á að samningur lóðarhafa frá 1990 um skiptingu lóðarinnar sé samningur þeirra á milli um sérnotafleti.  Við samþykkt byggingarnefndar hafi legið fyrir að eldvarnaeftirlit Reykjavíkur hafi ekki gert athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd enda sé sé fjarlægð frá húsum á næstu lóðum fullnægjandi.  Ákvörðun byggingarnefndar um leyfisveitinguna sé ívilnandi og verði að beita heimild til afturköllunar slíkra ákvarðana af varfærni.  Ekkert nýtt komi fram í kærubréfi sem breytt geti ákvörðun byggingarnefndar um að veita umrætt leyfi en leyfið sé í samræmi við staðfest aðalskipulag.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í bréfi byggingarleyfishafa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. júlí 2000, er því haldið fram að skúr kæranda á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg muni hafa verið byggður í óleyfi.  Megi því efast um rétt eiganda hans til þess að standa gegn eðlilegri þróun annarra bygginga á lóðinni.  Nýbygging sú, sem um sé deilt í málinu sé með fullu leyfi byggingarnefndar og þeirra nágranna, sem embætti byggingarfulltrúa gerði tilkall til að lýstu sig samþykka byggingunni.  Þá skerði byggingin í engu notagildi skúrsins, hefti hvorki aðkomu að honum né rýri notagildi hans eða valdi rýrnun á verðmæti hans.  Valdi krafa kæranda því furðu.  Ekkert tilefni sé til þess að stöðva framkvæmdir við bygginguna enda sé hún nánast fokheld og hafi þegar tekið á sig endanlegt form.  Er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda verði vísað frá en verði framkvæmdir stöðvaðar þá verði lagðar fram fullgildar tryggingar á hálfu kæranda fyrir því tjóni sem leiða kunni af stöðvuninni.  Áskilnaður er gerður um frekari reifun málsins og um framlagningu gagna, gerist þess þörf.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er kærandi eigandi að skúrbyggingu á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg og hefur rétt til umráða yfir hluta lóðarinnar samkvæmt þinglesnum samningum allra eigenda mannvirkja á lóðinni.  Fyrir liggur að við afgreiðslu hins kærða byggingarleyfis í byggingarnefnd lá hvorki fyrir samþykki kæranda né afstaða til umsóknarinnar. Með þessu var gengið framhjá lögvörðum rétti kæranda til að koma að andmælum og til þess að taka þátt í ákvörðun um ráðstöfun sameiginlegra lóðarréttinda í samræmi við ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt það kunni að hafa villt fyrir byggingarnefnd við afgreiðslu málsins að í skrám Fasteignamats ríkisins var skúrinn ranglega skráður eign eiganda íbúðar á 2. hæð og lágu því rangar upplýsingar fyrir nefndinni.  Mátti umsækjandanum vera kunnugt um eignarhald kæranda á skúrnum og réttindi honum tengd samkvæmt þinglesnum heimildum og bar honum að láta byggingarnefnd í té réttar upplýsingar um rétthafa mannvirkja á lóðinni.  Þá lét skipulags- og umferðarnefnd við það sitja að aflað væri samþykkis nágranna í stað þess að hlutast til um grenndarkynningu svo sem áskilið er í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.   Var því ekki gætt lögboðinnar málsmeðferðar við undirbúning málsins, en lagaheimild skortir til þess að leggja samþykki til grundvallar í stað niðurstöðu grenndarkynningar í þeim tilvikum er slíkrar kynningar er þörf.  Loks verður ekki séð að við mat á brunaöryggi hafi verið tekið tillit til staðsetningar skúrsins á lóðinni og nálægðar hans við nýbygginguna þrátt fyrir þá ríku skyldu sem á byggingaryfirvöldum hvílir um að gæta öryggissjónarmiða alveg sérstaklega áður en afstaða er tekin til umsóknar um byggingarleyfi.  Var gerð og undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar samkvæmt framansögðu svo áfátt að ógildingu varðaði.

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í byggingarnefnd hinn 24. september 1998 og staðfest af borgarstjórn hinn 1. október sama ár.  Enda þótt byggingaleyfisgjöld hafi verið greidd hinn 24. september 1999 verður að telja að hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið fallið úr gildi í júní 2000, þegar framkvæmdir hófust, enda nægði greiðsla lögboðinna gjalda, ein og sér, ekki til þess að fullnægt væri skilyrðum greinar 13.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 um útgáfu byggingarleyfis og féll staðfesting borgarstjórnar á hinu kærða byggingarleyfi því úr gildi hinn 1. október 1999, sbr. grein 13.3. í byggingarreglugerð nr. 441/1998.   Þar sem bæði var að umrætt byggingarleyfi var haldið ógildingarannmörkum og að auki fallið úr gildi brast heimild til þeirra framkvæmda, sem hafnar voru í júní 2000. Meðan ekki hefur verið veitt leyfi til hinna umdeildu framkvæmda er óheimilt að halda þeim áfram umfram það sem nauðsyn ber til til þess að tryggja öryggi og koma í veg fyrir skemmdir. Eins og atvikum er háttað þykir hins vegar rétt að gefa byggingarleyfishafa kost á að sækja um byggingarleyfi að nýju.

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi það, sem byggingarnefnd Reykjavíkur veitti hinn 24. september 1998 til viðbyggingar við verslunarhúsnæði á 1. hæð að Klapparstíg 40, er úr gildi fallið.  Gefa skal byggingarleyfishafa kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir viðbyggingunni að nýju.

5/2000 Suðurkot

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 3. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59, Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2000; kæra S og H, eigenda að hluta af landi Suðurkots við Akurgerði og Vogagerði í Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, á málsmeðferð og afgreiðslu hreppsins vegna breytingar á deiliskipulagi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. febrúar 2000 og móttekinni sama dag, kærir Karl Axelsson, hrl., fyrir hönd S, Vogagerði 33, Vogum og H, Suðurgötu 6, Keflavík, málsmeðferð og afgreiðslu Vatnsleysustrandarhrepps vegna breytingar á deiliskipulagi hreppsins, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda þann 7. janúar sl. Kærendur, sem eru eigendur að hluta af landi Suðurkots við Akurgerði og Vogagerði í Vogum, krefjast þess að öll málsmeðferð Vatnsleysustrandarhrepps vegna framangreindrar breytingar á deiliskipulagi verði úrskurðuð ómerk og breytingin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að allar yfirstandandi og/eða fyrirhugaðar framkvæmdir á landi þeirra verði stöðvaðar þar til endanleg niðurstaða er fengin í ágreiningi aðila.

Við upphaf meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefndinni var þeim tilmælum beint til sveitarstjóra Vatnsleysustrandarhrepps að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir á landi kærenda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar á meðan beðið væri efnisúrlausnar nefndarinnar. Var fallist á þessi tilmæli og hafa engar framkvæmdir átt sér þar stað frá því ágreiningi aðila var skotið til úrskurðarnefndar.  Hefur því ekki komið til þess að taka þyrfti kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrskurðar.

Málavextir:  Kærendur eru tveir fjögurra eigenda jarðarinnar Suðurkots í Vatnsleysustrandarhreppi. Þann 13. september 1985 skiptu eigendurnir hluta jarðarinnar á milli sín, en annar hluti er í óskiptri sameign. Við skiptingu landsins lá fyrir skipulagsuppdráttur frá árinu 1960, þar sem fyrirhugaðar götur og lóðir höfðu verið dregnar inn á kort. Að því er ráðið verður af fyrrgreindri skiptayfirlýsingu og skipulagsuppdrætti féllu í hlut kærenda sjö óbyggðar byggingarlóðir á því svæði sem um er fjallað í máli þessu, fjórar við Akurgerði og þrjár við Vogagerði. Í greinargerð lögmanns Vatnsleysustrandarhrepps til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. apríl 2000, kemur fram að allt landsvæðið sem ágreiningur stendur um í máli þessu, bæði í eigu kærenda og sameigenda þeirra, sé u.þ.b. 15.411 m² að stærð og afmarkist af fjöru til vesturs, götunni Vogagerði til austurs og jörðinni Bræðraparti til suðurs.

Þann 16. nóvember 1994 var staðfest nýtt aðalskipulag fyrir hluta Vatnsleysustrandarhrepps 1994 – 2014, og náði það m.a. yfir umþráttað landsvæði og þ.á.m. byggingarlóðir kærenda við Akurgerði og Vogagerði. Var þar gert ráð fyrir íbúðabyggð á eignarlandi kærenda við Akurgerði og Vogagerði, án tilgreiningar á húsagerð. Á fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps þann 24. ágúst 1999 var samþykkt tillaga að óverulegri breyting á aðalskipulaginu, er laut einkum að breyttri landnotkun við Akurgerði, Vogagerði, Stóru-Vogaskóla og Vogatjörn.  Ekki var þó hreyft við fyrri áformum um landnotkun á eignarlandi kærenda, að öðru leyti en því, að gert var ráð fyrir göngustíg meðfram strandlengjunni og frá strandlengjunni að Vogagerði, norðanvert við land kærenda. Hreppsnefnd sendi Skipulagsstofnun tillögu sína, og með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 9. september 1999, féllst Skipulagsstofnun á að umrædd breyting gæti fallið undir ákvæði 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í framhaldi af því sendi umhverfisráðuneytið hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps umrædda tillögu að breytingu á aðalskipulagi og lagði fyrir hana að auglýsa tillöguna í samræmi við ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 73/1997. Var hún höfð til sýnis á skrifstofu hreppsins í 3 vikur, frá 10. október til 1. nóvember 1999 og bárust engar athugasemdir við breytinguna. Breyting á aðalskipulaginu var síðan samþykkt í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps þann 4. nóvember 1999, staðfest af umhverfisráðherra þann 6. janúar 2000 og birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 7. janúar 2000.

Sama dag og hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps samþykkti tillögu að óverulegri breytingu á aðalskipulagi, 24. ágúst 1999, var einnig samþykkt í hreppsnefnd tillaga að deiliskipulagi fyrir það svæði sem breyting á aðalskipulaginu tók til. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni var gert ráð fyrir byggingu raðhúsa á eignarlandi kærenda. Í auglýsingu frá sveitarstjóra Vatnsleysustrandarhrepps, sem birtist í Lögbirtingablaðinu þann 1. september 1999, var lýst eftir athugasemdum við deiliskipulagstillöguna og skyldi athugasemdum skilað á skrifstofu hreppsins innan 6 vikna frá birtingu auglýsingarinnar. Nokkrar athugasemdir bárust við deiliskipulagstillöguna, m.a. frá kærendum sjálfum svo og lögmanni þeirra, sem taldi málsmeðferð hreppsins ólögmæta þar sem við gerð og auglýsingu skipulagstillögunnar væri brotið gegn fyrirmælum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps þann 2. nóvember 1999 voru teknar fyrir þær athugasemdir sem borist höfðu við tillöguna og þeim öllum hafnað. Sama dag samþykkti hreppsnefnd deiliskipulagstillöguna og fól sveitarstjóra að senda hana Skipulagsstofnun, ásamt athugasemdum, umsögn byggingar- og skipulagsnefndar og umsögn hreppsnefndar.  Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda þann 7. janúar 2000.
Af gögnum málsins verður ekki séð að fjallað hafi verið um fyrrgreindar athugasemdir lögmanns kærenda, sem fram komu í bréfi hans til Vatnsleysustrandarhrepps, dags. 11. október 1999, og því engin umsögn hreppsins fyrirliggjandi um þær athugasemdir. Hins vegar er þar að finna nokkur bréf um samskipti lögmanns Vatnsleysustrandarhrepps og lögmanns kærenda, þar sem m.a. er fjallað um kauptilboð hreppsins á landi kærenda og viðbrögð kærenda við því boði, svo og mótmæli kærenda við gerð og auglýsingu fyrrgreindrar tillögu að deiliskipulagi. Viðræður um kaup Vatnsleysustrandarhrepps á eignarlandi kærenda hafa engan árangur borið og hefur sveitarstjóri, með bréfi dags. 15. janúar 2000, óskað heimildar umhverfisráðuneytisins til eignarnáms á landi Suðurkots. 

Málsrök kærenda:  Krafa kærenda er rökstudd með því að öll málsmeðferð Vatnsleysustrandarhrepps við breytingu á deiliskipulagi sé haldin alvarlegum ágöllum og hafi ítrekað verið brotið gegn grundvallarréttindum og hagsmunum kærenda. Í því sambandi benda þeir á að sú breyting á deiliskipulagi, sem auglýst var í Lögbirtingablaðinu þann 1. september 1999, hafi ekki átt sér stoð í þágildandi aðalskipulagi. Því hafi Vatnsleysustrandarhreppur verið að auglýsa breytingu á deiliskipulagi, sem átti að eignast stoð í aðalskipulagi, eins og því myndi hugsanlega verða breytt síðar. Slíka málsmeðferð telja kærendur vafalaust einsdæmi og án efa í algerri andstöðu við ákvæði 25. gr., sbr. 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í öðru lagi benda kærendur á að umrædd breyting á deiliskipulaginu lúti nánast eingöngu að því að breyta landnotum á eignarlóðum kærenda og sameigenda þeirra. M.ö.o. sé verið að breyta einbýlishúsalóðum, sem kærendur höfðu í hyggju að nýta sér og sinni fjölskyldu til framdráttar, í raðhúsalóðir, án þess að nokkur rök hafi verið færð fram um nauðsyn þeirrar breytingar. Telja kærendur að hugsanlega megi finna skýringu þessa í því að hreppsnefnd hafði þá þegar úthlutað til verktaka byggingarrétti á eignarlóðum þeirra, en áður en heimild til breytinga á landnotum lá fyrir og án þess að minnast á það einu orði við landeigendur hvort landið væri falt. Kærendur hafi fyrst með bréfi frá lögmanni hreppsins, dags. 26. ágúst 1999, verið spurðir um vilja til að selja landið, en þá hafi hreppurinn þegar verið búinn að úthluta landi þeirra til verktaka. Þegar í ljós kom að kærendur hefðu athugasemdir fram að færa við málsmeðferð, og hafnað sölu landsins að svo stöddu, hefði eignarnámi verið hótað af hálfu hreppsins.

Í þriðja lagi benda kærendur á að ekkert samráð hafi verið haft við þá við gerð hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu. Telja þeir að slíkt brjóti ekki aðeins í bága við grundvallarreglur skipulagslöggjafarinnar, sbr. t.d. 4. mgr. 1. gr., 4. mgr. 9. gr., 23. gr. og 24. gr. þeirra, sbr. og grein 3.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, heldur gangi slíkt og þvert á lögbundinn rétt þeirra sem eigenda umrædds lands. Þá hafi einnig verið brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins um rétta málsmeðferð og í því sambandi vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 7., 10., 12., 13., 14. og 15. gr. þeirra.

Loks benda kærendur á að land þeirra sé eignarland, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hafi Vatnsleysustrandarhreppi borið, við gerð skipulags á landi þeirra, að gefa þeim kost á að koma að sjónarmiðum sínum og gæta almennt réttar síns. Hreppnum hafi og verið óheimilt að ráðskast með land kærenda í samræmi við deiliskipulagshugmyndir sem ekki hafi átt sér stoð í gildandi aðalskipulagi, og án þess að hafa fengið landið keypt af þeim.

Með vísan til ofanritaðs er það krafa kærenda að sú breyting á deiliskipulagi, sem auglýst var í Lögbirtingablaðinu þann 7. janúar 2000, verði felld úr gildi, sem og öll málsmeðferð vegna hennar.

Kröfur og málsrök Vatnsleysustrandarhrepps:  Jóhannes Karl Sveinsson, hrl., hefur lagt fram greinargerð með kröfum og andsvörum Vatnsleysustrandarhrepps, og er hún dagsett 28. apríl 2000. Er þar vakin á því athygli að kærendur geri kröfu um að málsmeðferð Vatnsleysustrandarhrepps vegna breytingar á deiliskipulagi verði ómerkt og að breytingin verði felld úr gildi. Hins vegar hafi í auglýsingu þeirri, sem kærendur vísi til og birtist í B-deild Stjórnartíðinda frá 7. janúar sl., ekki verið fjallað um breytingu heldur nýtt deiliskipulag. Því geti úrskurðarnefndin ekki að óbreyttu fellt þann úrskurð sem kærendur fari fram á. Þá bendir lögmaðurinn á kæran sé of seint fram komin og vísar þar um til 2. gr. rg. 621/1997 og 10. kafla rg. 400/1998. Kærendum hafi verið kunnugt um þá samþykkt sem kærð er í nóvember sl., og vísar hann í því sambandi til bréfs til þeirra, dags. 3. nóvember 1999. Telur hann að engin lagaheimild sé til þess að miða kærufrest við birtingu á staðfestingu skipulagsins í Stjórnartíðindum.

Loks gerir lögmaðurinn þá kröfu að kröfum kærenda verði hafnað, telji úrskurðarnefndin sér fært að túlka kröfugerð þeirra á þann hátt að hún taki til samþykktar sveitarstjórnar um nýtt deiliskipulag.
 
Rök Vatnsleysustrandarhrepps eru eftirfarandi:
Í gögnum málsins komi fram að unnið hafi verið samhliða að gerð aðalskipulags og deiliskipulags. Hafi það verið gert samkvæmt venju og í samráði við Skipulagsstofnun, enda ekkert í gildandi lögum eða reglugerðum sem banni slíka málsmeðferð. Sé sá háttur eðlilegur þegar um minni sveitarfélög sé að ræða og afmarkaðar breytingar. Að auki hafi kærendur ekki bent á hvaða spjöllum þessi málsmeðferð hafi valdið þeim, enda hafi þeir engar athugasemdir gert við þá breytingu á aðalaskipulagi sem auglýst var. Ef sú yrði hins vegar niðurstaða úrskurðarnefndar að ekki hefði mátt auglýsa og staðfesta deiliskipulagið nema samkvæmt staðfestu aðalskipulagi, er á það bent að aðalskipulag hafi verið í gildi fyrir þennan hluta bæjarins frá árinu 1994, og væri hið umdeilda deiliskipulag ekki andstætt því. Þær óverulegu breytingar sem gerðar hefðu verið á aðalskipulaginu samhliða deiliskipulaginu varði ekki land kærenda eða deiliskipulagið sem slíkt. Því sé ekkert ósamræmi á milli deiliskipulagsins og aðalskipulags fyrir breytingu, og hafi kærendur ekki sýnt fram á slíkt ósamræmi.

Að því er varðar þá málsástæðu kærenda að umrædd breyting á deiliskipulaginu lúti nánast eingöngu að því að breyta landnotum á eignarlóðum þeirra og sameigenda þeirra, er það áréttað af hálfu Vatnsleysustrandarhepps að engin breyting á landnotkun hafi átt sér stað, í skilningi skipulagslaga. Ekki hafi um breytingu á deilskipulagi verið að ræða, enda hafi deiliskipulag ekki áður verið gert á því svæði sem um ræðir, né séruppdráttur skv. 11. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964. Engin ákvörðun hafði verið tekin af byggingaryfirvöldum um annað eða nánara fyrirkomulag á lóðum kærenda en að þar skyldi byggja íbúðarhús. Því hefðu kærendur ekki getað bundið traust sitt við ákveðna byggingargerð á lóðum sínum, þ.e. einbýlishús. Hlutverk deiliskipulagsgerðar skv. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð sé að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags og sé þar sérstaklega tekið fram að heimilt sé að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi. Ýmis atriði, s.s. stærðir lóða, nýtingarhlutfall fyrir notkunarreiti og einstakar lóðir, húsagerð, staðsetning húsa á lóðum o.s.frv., séu ákveðin í deiliskipulagi en ekki aðalskipulagi. Því hafi kærendur sjálfir ekki getað úthlutað neinum lóðum, nema í samræmi við deiliskipulag.

Í greinargerð sinni víkur lögmaðurinn að úthlutun hreppsins á einstökum lóðum og áréttar að ekki þurfi að deila um að sveitarstjórn geti ekki veitt meiri réttindi eða heimildir en hún hafi sjálf yfir að ráða. Lóðarúthlutunin hafi því að sjálfsögðu verið með því fororði að eignar- eða afnotaheimild fengist með samningum eða eignarnámi og að skipulagsáform gengju eftir.

Um þá ábendingu kærenda að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð við þá við undirbúning deiliskipulagsins vísar lögmaðurinn til ákvæða gr. 3.2 í skipulagsreglugerð og 23. gr. sbr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þar sé kveðið á um að skipulagsáform skuli kynnt með áberandi hætti, s.s. auglýsingum, dreifibréfum eða fundum. Ekki sé vikið að því að sérstaklega skuli hafa samráð við eigendur lands sem skipulag taki til. Talsverð almenn kynning hafi átt sér stað á skipulagsáformum hreppsins, auk þess sem lögmælt birting hafi átt sér á opinberum vettvangi. Telur lögmaðurinn ólíklegt að þessi kynning hafi getað farið fram hjá kærendum, en annar þeirra sé búsettur í Vogum. Þá er á það bent af hálfu Vatnsleysustrandarhepps að afstaða kærenda til deiliskipulagsins lægi þegar fyrir og hefði gert það þegar sveitarstjórn tók ákvörðun um að staðfesta skipulagstillöguna í nóvember 1999. Kærendur vilji sjálfir úthluta lóðum til fjölskyldu sinnar, ráða uppbyggingarhraða, gerð húsa o.s.frv.  Hins vegar telji sveitarstjórn nauðsynlegt að hraða uppbyggingu, m.t.t. almannahagsmuna, og hafi því hagað deiliskipulaginu eftir því sem spurn var talin vera eftir húsnæði. Þótt viðhorf kærenda hefði legið fyrir á fyrri stigum málsins, telur lögmaðurinn augljóst að niðurstaða og samþykkt sveitarstjórnar hefði orðið sú sama. Því mætti hér hafa til hliðsjónar þá dómvenju um andmælarétt í stjórnsýslu, að ef fyrir lægi að afstaða málsaðila hefði engin áhrif haft á ákvörðun, leiddi brot gegn slíkum rétti ekki til ógildingar.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um ágreining þann sem hér er um fjallað. Í umsögn stofnunarinnar segir m.a.:

“Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m. s. br. skal deiliskipulag gert á grundvelli aðalskipulags.  Samkvæmt skilgreiningu skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 er deiliskipulagsáætlun byggð á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess fyrir afmörkuð svæði eða reiti innan sveitarfélags. Skipulagstofnun hefur litið svo á að gildandi deiliskipulag verði að vera í samræmi við gildandi aðalskipulag, en að unnt sé að gera og kynna tilllögur að deiliskipulagi einstakra svæða innan sveitarfélags samhliða breytingum á gildandi aðalskipulagi eða gerð nýs aðalskipulags.  Deiliskipulagsáætlun geti hins vegar ekki  tekið gildi nema vera í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Stofnunin telur að samhliða kynning aðal- og deiliskipulagstillagna vegna fyrirhugaðra framkvæmda á tilteknum svæðum geti verið markvissari, meira upplýsandi og stuðlað að betri kynningu fyrir almenningi, og verið betur fallin til að ná markmiði skipulags- og byggingarlaga um réttaröryggi í skipulags- og byggingarmálum, en ef áætlanirnar væru kynntar sín í hvoru lagi, jafnvel með margra mánaða millibili.  Skipulagsstofnun telur það jafnvel geta valdið misskilningi ef breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulag sama svæðis, vegna fyrirhugaðra framkvæmda, er ekki auglýst samhliða.  Það geti leitt til þess að hagsmunaaðilar teldu sig ekki þurfa að gera athugasemd við auglýsta tillögu að deiliskipulagi ef gerðar hefðu verið athugasemdir við auglýsta tillögu að breytingu á aðalskipulagi varðandi sama svæði.  Stofnunin hefur hins vegar lagt ríka áherslu á að ekki sé heimilt að birta auglýsingu um gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nema áður hafi verið birt auglýsing um gildistöku aðalskipulags, sem deiliskipulagið byggir á.

Í hinu kærða tilviki var tillaga að deiliskipulagi fyrir Vogagerði og Akurgerði, Stóru-Vogaskóla og Vogatjörn unnin og kynnt samhliða breytingu á Aðalskipulagi Voga á Vatnsleysuströnd 1994-2014.  Á því svæði var ekki í gildi eldra samþykkt eða staðfest deiliskipulag, heldur var um að ræða nýtt deiliskipulag svæðisins.  Í aðalskipulagsbreytingunni fólst að stofnanasvæði við Akurgerði, sem skilgreint var fyrir íbúðir aldraðra var breytt í  íbúðasvæði, felld var niður íbúðarlóð austan Stóru-Vogaskóla, opnu svæði til sérstakra nota suð-austan leikvallar var breytt í íbúðarsvæði, íbúðarsvæði var breytt í opið svæði til sérstakra nota og nýjir göngustígar skilgreindir.  Í deiliskipulaginu kemur fram nánari útfærsla framkvæmda á svæðinu og tekið sérstaklega fram að skilmálar þess gildi fyrir nýjar íbúðarlóðir við Vogagerði og Akurgerði og byggist m. a. á þeirri ákvörðun að breyta svæði fyrir íbúðir aldraðra í almennt íbúðarsvæði.

Eins og fram kemur í bréfi Skipulagsstofnunar til Vatnsleysustrandarhrepps frá 12. nóvember 1999 gerði stofnunin ekki athugasemd við málsmeðferð sveitarstjórnar vegna deiliskipulagstillögunnar.   Stofnunin telur að ekki beri að fella úr gildi deiliskipulag fyrir Vogagerði og Akurgerði, Stóru-Vogaskóla og Vogatjörn vegna þeirra ágalla sem kærandi telur vera á málsmeðferð.  Stofnunin telur hins vegar brýnt að sveitarstjórnir leiti eftir sem virkastri samvinnu við landeigendur og aðra hagsmunaaðila við skipulagsgerð.”

Niðurstaða:  Í stjórnsýslukæru kærenda til úrskurðarnefndarinnar er þess krafist að öll málsmeðferð Vatnsleysustrandarhrepps vegna breytingar á deiliskipulagi verði úrskurðuð ómerk og að breytingin verði felld úr gildi.  Þrátt fyrir að Vatnsleysustrandarhreppur hafi ekki gert breytingu á deiliskipulagi, þar eð ekkert deiliskipulag lá fyrir á því svæði sem skipulagt var, fer ekki milli mála að kærendur eru að kæra málsmeðferð við undirbúning og gerð þess deiliskipulags sem samþykkt var í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps þann 2. nóvember 1999 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þann 7. janúar 2000.  Við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd eiga ekki að öllu leyti við sömu kröfur um form og efni máls og þegar um dómsmál er að tefla. Því þykir hin ónákvæma kröfugerð kærenda ekki standa því í vegi að úrskurðarnefndin fjalli um málið og felli úrskurð um ágreining aðila.

Í greinargerð lögmanns Vatnsleysustrandarhepps er því haldið fram að kæran sé of seint fram komin og bent á 2. gr. rg. nr. 621/1997 og 10. kafla rg. nr. 400/1998 því til stuðnings. Í tilvitnuðum ákvæðum er kveðið á um að kærufrestur sé einn mánuður frá því kæranda var kunnugt um þá samþykkt sveitarstjórnar sem hann kærir, en þrír mánuðir frá því aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, sé um önnur kæruatriði að ræða en varða samþykkt sveitarstjórnar.
Þann 11. október 1999 ritaði lögmaður kærenda bréf til Vatnsleysustrandarhrepps, þar sem gerðar voru „athugasemdir við deiliskipulagstillögu, sbr. auglýsing í Lögbirtingablaði þann 1. september 1999.”  Athugasemdir kærenda eru efnislega þar hinar sömu og nú í þeirri stjórnsýslukæru sem hér er um er fjallað.
Á fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps þann 2. nóvember 1999 var fjallað um þær athugasemdir sem borist höfðu við tillögu að umræddu deiliskipulagi, að undangenginni umfjöllun í skipulags- og byggingarnefnd hreppsins. Öllum athugasemdum var hafnað og þeim er þær gerðu var send niðurstaðan og bókanir hreppsnefndar og skipulags- og byggingarnefndar með bréfi sveitarstjóra, dags. 3. nóvember 1999. Af gögnum málsins verður ekki séð að fjallað hafi verið um þær athugasemdir sem fram komu í bréfi lögmanns kærenda, dags. 11. október 1999, engin umsögn liggur fyrir um þær athugasemdir né heldur svarbréf sveitarstjórnar. Bar þó sveitarstjórn að fjalla um þær athugasemdir og senda bréfritara umsögn sína um þær, sbr. 1. og 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 1., 2. og 4. mgr. gr. 6.3.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Þann 7. janúar 2000 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing sveitarstjórnar um samþykkt þess deiliskipulags, sem hér er fjallað um. Frá þeim tíma mátti kærendum vera ljóst að athugasemdum þeirra við deiliskipulagstillöguna hafði verið hafnað. Þykir rétt að miða upphaf kærufrests við það tímamark og barst stjórnsýslukæra kærenda því úrskurðarnefnd innan lögmælts kærufrests.

Eins og fram hefur komið samþykkti hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps þann 24. ágúst 1999 tillögu um breytingu á aðalskipulagi hreppsins. Í breytingartillögunni fólst að stofnanasvæði við Akurgerði, skilgreint sem íbúðir aldraðra, var breytt í íbúðarsvæði, felld var niður íbúðarlóð austan Stóru-Vogaskóla, opnu svæði til sérstakra nota suð-austan leikvallar var breytt í íbúðarsvæði, íbúðarsvæði var breytt í opið svæði til sérstakra nota og nýir göngustígar voru skilgreindir.  Tillagan var kynnt fyrir Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra og var fallist á þau sjónarmið sveitarstjórnar að um væri að ræða óverulega breytingu á staðfestu aðalskipulagi.  Málsmeðferð var því hagað skv. 2. mgr. 21. gr. skipulags-og byggingarlaga nr. 73/1997 og tillagan auglýst með fresti til athugasemda til 1. nóvember 1999.  Engar athugasemdir bárust og var tillagan samþykkt af sveitarstjórn þann 4. nóvember 1999 og að því loknu send umhverfisráðherra, sem staðfesti hana sem breytingu á aðalskipulagi hreppsins þann 6. janúar 2000.

Þann 24. ágúst 1999 samþykkti hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps einnig tillögu að deiliskipulagi fyrir sama svæði og breytingu á aðalskipulaginu var ætlað að ná til. Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu þann 1. september 1999 var auglýst eftir athugasemdum við þá deiliskipulagstillögu og rann frestur til athugasemda út þann 13. október 1999.

Auglýsing og kynning á deiliskipulagstillögunni stóð því yfir á sama tíma og hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps leitaði eftir afstöðu Skipulagsstofnunar og ráðherra til þeirrar breytingar á aðalskipulagi, sem vera átti grundvöllur að deiliskipulaginu. Frestur til athugasemda við deiliskipulagstillöguna rann út um svipað leyti og birt var auglýsing sveitarstjórnar um tillögu að breytingu aðalskipulags, og tæpum 3 vikum áður en frestur til athugasemda við aðalskipulagstillöguna rann út.  Þá samþykkti hreppsnefnd deiliskipulagið þann 2. nóvember 1999, en títtnefnda tillögu að breytingu á aðalskipulaginu þann 4. nóvember s.á.  Að því loknu var aðalskipulagstillagan send Skipulagsstofnun til afgreiðslu og síðar umhverfisráðherra til staðfestingar, sbr. 5. mgr. 18. gr. og 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Úrskurðarnefnd telur að málsmeðferð Vatnsleysustrandarhrepps við auglýsingu og samþykkt umdeildrar tillögu að deiliskipulagi hafi verið haldin verulegum ágöllum og til þess fallin að valda ruglingi hjá þeim sem hagsmuni kunnu að eiga. Þykir þá ekki skipta máli hvort tillagan varðaði aðeins að litlu leyti eignarland kærenda eða hvort ósamræmis kynni að gæta á milli aðalskipulags og deiliskipulags. Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og skipulagsreglugerð nr. 400/1998 hafa að geyma ítarleg ákvæði um gerð og framkvæmd skipulags, þ.á.m. um kynningu skipulagstillagna og samráð við skipulagsgerð. Þessum ákvæðum er m.a. ætlað að tryggja vandaða málsmeðferð og réttaröryggi, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Er það álit nefndarinnar að þessum markmiðum laganna verði ekki náð þegar unnið er að gerð, auglýsingu og samþykkt deiliskipulags, sem byggir á tillögu um óverulega breytingu á aðalskipulagi, sem hefur ekki verið samþykkt eða staðfest af ráðherra. Með því móti verður deiliskipulagið háð þeirri forsendu að takist að breyta aðalskipulaginu, án athugasemda þeirra sem hagsmuna eiga að gæta eða fyrirstöðu af hálfu Skipulagsstofnunar eða umhverfisráðherra. Slík málsmeðferð er í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem mælir fyrir um að deiliskipulag skuli gera á grundvelli aðalskipulags, sbr. hér einnig 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Af þessum ástæðum ber að fella hið umdeilda deiliskipulag úr gildi.

Þar sem hið kærða deiliskipulag hefur sætt opinberri birtingu að lögum er lagt fyrir hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að deiliskipulagið hafi verið fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefnd og síðar sumarleyfa.

Úrskurðarorð:

Deiliskipulag fyrir Vogagerði og Akurgerði, Stóru-Vogaskóla og Vogatjörn, sem samþykkt var af hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hinn 2. nóvember 1999 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. janúar 2000, er fellt úr gildi. Lagt er fyrir hreppsnefnd að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að skipulagið hafi verið fellt úr gildi.

34/2000 Skildinganes

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2000; kæra á samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir opnu bílskýli að Skildinganesi 10 í Reykjavík.

Í málinu er nú upp kveðinn svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. föstudaginn 23. júní 2000, er barst í póstkassa nefndarinnar eftir lokun skrifstofu þann sama dag, kærir Stefán Þór Ingimarsson hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar nr. 12 við Skildinganes í Reykjavík, samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir opnu bílskýli að Skildinganesi 10 í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 15. júní 2000.

Kærendur gera kröfu um ógildingu á byggingarleyfi sem veitt var eigendum fasteignarinnar nr. 10 við Skildinganes í Reykjavík, af byggingarnefnd og staðfest með ákvörðun borgarstjórnar 15. júní 2000.  Jafnframt gera kærendur kröfu um stöðvun framkvæmda sem hafnar eru við gerð opins bílskýlis við fasteignina nr. 10 við Skildinganes í Reykjavik, á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. ákvæði II. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum ákvæði 5. mgr. 8. gr. laganna.

Með vísun til 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var krafa kærenda um stöðvun framkvæmda þegar tekin til meðferðar og var byggingarleyfishafa og byggingarnefnd veittur frestur til andmæla og athugasemda um þá kröfu til þriðjudagsins 27. júní 2000.  Hafa nefndinni borist andmæli og athugasemdir greindra aðila og er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Aðeins verður stuttlega gerð grein fyrir málavöxtum og einungis að því marki sem þurfa þykir við úrlausn þess þáttar málsins, sem nú er til úrlausnar.  Hefur kærumál er varðar hið umdeilda bílskýli að Skildinganesi 10 áður komið til úrlausnar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fyrr á þessu ári.  Var í því máli felld úr gildi synjun byggingarnefndar á umsókn um byggingarleyfi fyrir hinu umdeilda bílskýli þar sem á þótti skorta að rannsókn af hálfu byggingarnefndar hafi verið fullnægjandi.  Jafnframt komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að opið bílskýli við Skildinganes 10 samrýmdist skipulagsskilmálum svæðisins og að byggingarnefnd hefði því verið óheimilt að synja umsókn eigenda að Skildinganesi 10 með þeim rökum sem gert hafði verið.  Var ákvörðun byggingarnefndar felld úr gildi og lagt fyrir hana að taka málið til meðferðar að nýju í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og meginreglur stjórnsýsluréttarins.  Í framhaldi af nefndum úrskurði leitaði byggingarnefnd umsagnar skipulags- og umferðarnefndar um álitaefni málsins og veitti síðan eigendum Skildinganess 10 byggingarleyfi fyrir bílskýlinu ásamt skábraut til aðkomu að því.  Þegar kærendur urðu þess varir að framkvæmdir voru að hefjast við bílskýlið leituðu þeir upplýsinga um afgreiðslu byggingarnefndar á málinu, að því er virðist hinn 15. júní 2000, og vísuðu því síðan til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dagsettri 23. júní 2000, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Eftir heildarskoðun á gögnum þeim, sem lögð hafa verið fram við nýja afgreiðslu málsins, segjast kærendur vera þess fullvissir að hvorki hafi verið farið að ákvæðum byggingar- og skipulagslaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 né ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að almennt hafi verið brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum.  Beri því að ógilda hina kærðu ákvörðun.  Í kærunni er málsástæðum kærenda lýst ítarlega en ekki þykir þurfa að rekja þær í einstökum atriðum á þessu stigi máls.  Nægir að árétta að kærendur færa fram allmargar ástæður, sem þeir telja að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að þar sem ákvörðunin sé að þeirra mati bersýnilega haldin ógildingarannmörkum beri að stöðva framkvæmdir sem unnið er að á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök byggingarnefndar:  Í stuttri greinargerð byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda segir, að ekki verði séð að neitt nýtt komi fram í kæru lögmanns eigenda fasteignarinnar á lóðinni nr. 12 við Skildinganes, sem breytt geti ákvörðun byggingarnefndar um að veita leyfi fyrir umræddum framkvæmdum og því sé ástæðulaust að stöðva framkvæmdir við verkið, sem unnar séu samkvæmt byggingarleyfi, sem veitt hafi verið í samræmi við skipulag, sbr. umsögn skipulags- og umferðarnefndar.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa hafa komið fram andmæli við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Kemur þar m.a. fram að stoðveggir sitt hvoru megin innkeyrslu að bílskýlinu hafi þegar verið steyptir og að litla þýðingu hefði því að stöðva framkvæmdir við verkið.  Þær framkvæmdir, sem enn sé ólokið, séu að mestu neðanjarðar og skaði ekki kærendur á neinn hátt, en stöðvun framkvæmda myndi skaða hagsmuni byggingarleyfishafa.  Framkvæmdirnar séu í samræmi við staðfest byggingarleyfi frá Reykjavíkurborg og kærendur rökstyðji ekki kæru sína með neinni beinni tilvísun í lagagreinar, bein ákvæði byggingarreglugerðar né skipulagsskilmála.  Því beri að hafna kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hafa stoðveggir meðfram innkeyrslu að hinu umdeilda bílskýli þegar verið steyptir og eru þær framkvæmdir, sem ólokið er, að mestu undir yfirborði aðliggjandi lóðar.  Yrði fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis myndi það hafa í för með sér að loka þyrfti opi því á kjallaravegg þar sem fyrirhugað er að aka inn í bílskýlið.  Yrði og að fylla að húsinu þar sem innkeyrsla að bílskýlinu á að vera og jafna yfirborð lóðar.  Framkvæmdir við innkeyrslu og bílskýli geta því engin áhrif haft á efnisniðurstöðu málsins og myndu að mestu verða afmáðar ef fallist yrði á ógildingu byggingarleyfisins.  Þykir því ekki ástæða til þess að skylda byggingarleyfishafa, með úrskurði, til þess að stöðva framkvæmdir meðan kærumálið er til meðferðar í úrskurðarnefndinni en framkvæmdir við verkið eru á þeim tíma alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa. 

Með vísan til framanritaðs er kröfu kærenda um stöðvun umræddra framkvæmda hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu eigenda Skildinganess 12 í Reykjavík um að framkvæmdir við bílskýli og tilheyrandi innkeyrslu að Skildinganesi 10 verði stöðvaðar meðan kærumál um byggingarleyfi fyrir umræddum mannvirkjum er til meðferðar í úrskurðarnefndinni.