Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2002 Bleikjukvísl

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2002, kæra eigenda húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um breytingu á aðal- og deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2002, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra Á og E, eigendur húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 að breyta aðal- og deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 30. apríl 2002.

Málavextir:  Húseignin að Birtingakvísl 15, Reykjavík stendur innst í götu og austan og sunnan hennar er lóðin að Bleikjukvísl 10.  Á milli þeirra er göngustígur. 

Samkvæmt aðalskipulagi var svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota.  Deiliskipulag frá árinu 1982 gerði ráð fyrir dagvistarstarfsemi en með samþykkt skipulagsnefndar hinn 5. júní 1989 og samþykkt borgarráðs hinn 6. sama mánaðar var samþykkt deiliskipulag lóðarinnar sem kvað á um að lóðin skyldi nýtt undir gæsluvöll.  Á lóðinni skyldi standa um 60 m² hús og leiktæki en stór hluti lóðarinnar skyldi vera óraskaður.  Rekstri gæsluvallarins var hætt fyrir nokkrum árum og var þá húsið sem stóð á lóðinni flutt burtu. 

Í júlí árið 2001 sótti núverandi lóðarhafi um að fá lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl úthlutað fyrir leikskóla.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 30. sama mánaðar var bókað að það samrýmdist skipulagi að byggja leikskóla á lóðinni og var beiðninni vísað til skrifstofustjóra borgarverkfræðings.  Í kjölfarið var honum úthlutað lóðinni og sótti hann um byggingarleyfi fyrir leikskóla.  Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. janúar 2002. Ákvörðun í málinu var þá frestað en samþykkt að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi þar sem lóðinni skyldi breytt úr grænu svæði í stofnanasvæði.  Jafnframt var bókað að hönnuður hússins skyldi hafa samband við skipulagsfulltrúa vegna breytinga á deiliskipulagi.  Á fundi borgarráðs hinn 5. febrúar s.á. var staðfest afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar og í kjölfarið var þess óskað við Skipulagsstofnun að hún mælti með því við umhverfisráðuneytið að heimilað yrði að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi vegna lóðarinnar.  Skipulagsstofnun lagði ofangreint til við umhverfisráðuneytið sem féllst á beiðnina.  Tillaga að breyttu aðalskipulagi var auglýst til kynningar frá 19. febrúar 2002 með athugasemdafresti til 20. mars s.á.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febúar 2002 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Bleikjukvísl 10 fyrir húseigendum að Bleikjukvísl 1, 2, 6, 8, 12, 14, 16, 18, 24 og 26, Birtingakvísl 11-19 (oddatölur), frá 19. febrúar 2002 til og með 19. mars sama ár. 

Tilkynning um grenndarkynningu á tillögu að breyttu deiliskipulagi var send til hagsmunaaðila með bréfi, dags. 18. febrúar 2002.  Þar var sérstaklega vakin athygli á að samhliða grenndarkynningunni væri auglýst tillaga að breyttu aðalskipulagi og var auglýsing um breytinguna látin fylgja.  Í tilkynningunni var vísað í uppdrátt er fylgdi henni, þar sem kom fram að tillögunni væri ætlað að breyta samþykktu deiliskipulagi frá árinu 1982 þar sem gert var ráð fyrir dagvistun á lóðinni. 

Að lokinni auglýsingu um tillögu að breyttu aðalskipulagi og grenndarkynningu voru tillögurnar lagðar fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. apríl 2002.  Þá voru einnig á sama fundi lagðar fram athugasemdir sem borist höfðu við kynningu þeirra, en athugasemdir bárust m.a. frá kærendum.  Nefndin samþykkti tillögurnar þó með þeirri breytingu að bílastæði leikskólans skyldi einnig komið fyrir sunnan leikskólans með aðkomu frá Streng.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 30. apríl 2002 og var þeim er settu fram athugasemdir kynnt afgreiðsla nefndarinnar með bréfi, dags. 13. maí 2002.  Auglýsingar um gildistöku aðal- og deiliskipulagsbreytinganna birtust í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júní 2002. 

Eftir framangreinda atburðarás áttu sér stað viðræður kærenda og byggingaryfirvalda um sættir málsins og óskuðu kærendur eftir því að Reykjavíkurborg keypti húseign þeirra.  Því var hafnað með vísan til þess að ekki lægi fyrir í málinu bótaábyrgð borgarinnar og tókust ekki sættir með aðilum.

Kærendur hafa skotið ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að breyting sú sem skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á aðalskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl verði felld úr gildi með vísan til þess að málsmeðferð og efnislegur grundvöllur ákvörðunarinnar séu haldin slíkum ágöllum að ógildingu hennar varði.  Í bréfi Borgarskipulags til Skipulagsstofnunar, dags. 4. janúar 2002, sé þess getið að breyting aðalskipulagsins sé gerð til þess að samræmi sé á milli gildandi deiliskipulags og aðalskipulags svæðisins og þess getið að svo virðist sem lóðin hafi í aðalskipulagi verið skilgreind sem grænt svæði fyrir misgáning og því sé aðeins um leiðréttingu að ræða á gildandi aðalskipulagi.  Þá benda kærendur á að hið sama komi einnig fram í greinargerð með aðalskipulaginu og auglýsingu þess. 

Kærendur halda því fram að ákvörðun um breytingu á aðalskipulagi, sem reist sé á ofangreindu, byggist á ómálefnalegum sjónarmiðum og sé því ólögmæt að efni til og ógildanleg.  Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 hafi verið lögfest stigskipting skipulagsáætlana þannig að skipulagsáætlanir af æðra stigi gangi framar skipulagsáætlunum af lægra stigi og sé ósamræmi þarna á milli víki hinar lægra settu.  Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 9. gr. laganna skuli aðalskipulag fela í sér stefnu sveitarstjórnar um landnotkun, þróun byggðar o.fl., en nánari útfærsla þess komi fram í deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 2. gr. sömu laga.  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skuli deiliskipulag grundvallast á aðalskipulagi en ekki öfugt og sé ósamræmi þarna á milli víki deiliskipulagið og þar með sé það ógilt.  Aðalskipulag og tillaga um breytingu á því geti ekki byggst á því að verið sé að færa aðalskipulag til samræmis við deiliskipulag.

Kærendur halda því fram að kynning aðalskipulagstillögu sem beri að með ofangreindum hætti sé til þess fallin að valda misskilningi hjá almenningi.  Misskilningurinn geti leitt til andvaraleysis um hinn mikilvæga rétt til að koma að athugasemdum um aðalskipulagstillögu sem síðan verður forsenda deiliskipulags á svæðinu og þar með bundið skilmála þess.  Við slíka málsmeðferð sé sköpuð rík hætta á því að hagsmunaaðilar missi af möguleikanum á að koma að grundvallarsjónarmiðum sínum um skipulagið sem varði einmitt aðalskipulagið en ekki nánari útfærslur í deiliskipulagi.  Slík málsmeðferð brjóti gegn markmiðum 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem segi að markmið laganna sé að tryggja vandaða málsmeðferð og réttaröryggi, sbr. gr. 3.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Málsmeðferð í máli þessu sé haldin verulegum ágöllum og til þess fallin að valda ruglingi hjá hagsmunaaðilum og því hljóti aðalskipulagið að teljast ógilt. 

Kærendur krefjast þess að breyting sú sem skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl verði felld úr gildi.  Kærendur benda á að eldra deiliskipulag lóðarinnar, sem samþykkt var árið 1982, hafi gert ráð fyrir dagvistun á lóðinni en við endurskoðun Aðalskipulags Reykjavíkurborgar 1990-2010 hafi landnotkun lóðarinnar verið breytt úr íbúðarsvæði í útivistarsvæði til sérstakra nota og síðan þá haldist óbreytt.  Ósamræmi hafi því verið milli aðalskipulags og deiliskipulags lóðarinnar og því teljist eldra deiliskipulagið ógilt, sbr. 1. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Málsmeðferð sú sem viðhöfð hafi verið í málinu hafi því verið röng.  Ekki hafi verið um löglega breytingu deiliskipulags að ræða, skv. 2. mgr. 26. gr laganna þar sem ekkert gilt deiliskipulag hafi tekið til lóðarinnar.  Vegna þessa hafi deiliskipulagið átt að fara eftir 25. gr. laganna og þegar af þeirri ástæðu verði hin kærða deiliskipulagsbreyting að teljast ógild. 

Þessu til viðbótar benda kærendur á að deiliskipulagið verði allt að einu að teljast ógilt með vísan til þess að grenndarkynning deiliskipulagstillögunnar hafi farið fram samhliða auglýsingu aðalskipulagstillögunnar.  Í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé heimild til að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu um samsvarandi tillögu að breyttu aðalskipulagi.  Þessi heimild eigi aðeins við um þá málsmeðferð sem viðhöfð sé þegar deiliskipulagstillaga sé auglýst skv. 25. gr. eða 1. mgr. 26. gr. laganna.  Þegar beitt sé undanþáguheimild 2. mgr. 26. gr. laganna eigi heimild 2. mgr. 23. gr. ekki við og því sé óheimilt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 26. gr. samhliða auglýsingu á tillögu að breyttu aðalskipulagi.  Þessi málsmeðferð fullnægi ekki efniskröfum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og því sé ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar ógildanleg.  Heimild 2. mgr. 23. gr. laganna sé undanþáguheimild sem beri að túlka þröngt eða eftir orðanna hljóðan en ekki rýmkandi skýringu þannig að hún nái einnig til málsmeðferðar skv. 2. mgr. 26. gr. laganna. 

Kærendur vísa einnig til þess að málsmeðferð skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé undanþágumeðferð sem geri minni kröfur til málsmeðferðar en 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. s.l.

Kærendur benda á að í lögskýringargögnum komi skýrt fram að hugtakið „óverulegar breytingar“ á deiliskipulagi, sem sé forsenda beitingar 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, beri að túlka þröngt.  Breyting deiliskipulags geti ekki talist óveruleg þegar sjálfu aðalskipulaginu, grundvelli deiliskipulagsins, sé breytt samhliða og alls ekki þegar aðalskipulagsbreytingin sé breyting á landnotkun úr útivistarsvæði í stofnanasvæði, sem sé grundvallarbreyting efnislega þótt hún varði aðeins lítið svæði.

Kærendur halda því og fram að óheimilt sé að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en eftir að gildistaka samsvarandi aðalskipulagsbreytingar hafi verið auglýst þar og vísa til lögskýringargagna með lögum nr. 170/2000.  Þetta sé til að uppfylla hina ríku kröfu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um að deiliskipulag verði að byggja á gildu aðalskipulagi.  Í máli kærenda hafi þannig háttað til að auglýsing um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júní 2002 og hafi þar með tekið gildi, sbr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð.  Sama dag hafi auglýsing um hina kærðu aðalskipulagsbreytingu verið birt þar og á sama hátt þar með öðlast gildi.  Þessi birtingarháttur valdi því að gildistaka aðalskipulagsbreytingarinnar og deiliskipulagsbreytingarinnar sé nákvæmlega samtímis, sbr. 7. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldserinda, og uppfylli ekki kröfu skipulags- og byggingarlaga um að deiliskipulag byggi á gildu aðalskipulagi.  Þetta sjónarmið komi einnig fram í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 10. júní 2002, þar sem segi að stofnunin geri ekki athugasemdir við að deiliskipulagbreytingin verði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þegar breyting á aðalskipulagi fyrir sama svæði hafi tekið gildi.  Öll málsmeðferð á ákvörðunarstigi í máli þessu sé algerlega samtímis, bæði hvað varðar aðalskipulagið og deiliskipulagið.  Málsmeðferð standist ekki kröfur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um að ákvarðanir um deiliskipulag byggi á gildu aðalskipulagi og því teljist deiliskipulagsbreytingin ógild.

Kærendur byggja einnig á því að við málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið gætt ákvæðis 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þess efnis að sveitarstjórn sendi Skipulagsstofnun hið breytta skipulag, sbr. 3. mgr. 25. gr. laganna, ásamt yfirlýsingu um að hún taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laganna beri að senda Skipulagsstofnun þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við deiliskipulagstillöguna en ekki sé vísað til þeirra í meðsendum gögnum frá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar, sbr. bréf, dags. 31. maí 2002.  Þá sé hvergi að finna yfirlýsingu um bótaábyrgð, hvorki á deiliskipulagsuppdrættinum né í áðurnefndu bréfi, dags. 31. maí 2002.

Kærendur krefjast einnig ógildingar deiliskipulagsins sökum þess að breytingin, sem gerð hafi verið á deiliskipulagstillögunni eftir grenndarkynninguna, varðandi aðkomu viðskiptavina leikskólans frá Streng í stað Bleikjukvíslar, sé grundvallarbreyting og hana hafi þurft að grenndarkynna sérstaklega, sbr. 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Lóðin standi við Bleikjukvísl og eðli málsins samkvæmt hljóti aðkoman að vera frá þeirri götu sem lóðin standi við.  Auk þess standist þessi breyting ekki efnislega þar sem að við gerð hennar hafi ekki verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar gr. 3.1.1 nr. 400/1998 þar sem kveðið sé á um að við skipulagsgerð skuli ávallt taka sérstakt tillit til þarfa barna, fatlaðra og aldraðra við ákvarðanir um landnotkun og tilhögun mannvirkja svo sem vega, stíga, bílastæða o.fl.  Þá hafi heldur ekki verið tekið tillit til umferðaröryggissjónarmiða því mörg börn eigi leið um Streng á sama tíma og mesta umferðin sé í kringum leikskólann.  Bílastæðin sem breytingin geri ráð fyrir séu hornrétt á akstursstefnu við Streng, sem sé mikil umferðargata.  Slík bílastæði séu talin óæskileg vegna umferðaröryggissjónarmiða og vísa kærendur í þessu sambandi til bréfs Borgarverkfræðings í Reykjavík, dags. 21. ágúst 1996, þar sem lagst hafi verið gegn þess háttar bílastæðum við Stakkahlíð.  Með því að kynna ekki breytinguna sérstaklega og kanna nánar en gert var, hvaða áhrif hún hefði á umferðaröryggi og þarfir barna í hverfinu, hafi skipulags- og byggingarnefnd brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997.  Þessi breyting sé ekki bindandi þar sem hún sé sett fram í skipulagsgreinargerð en ekki skipulagsskilmálum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg bendir á að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi ekki úrskurðarvald um gildi hinnar kærðu aðalskipulagsbreytingar.

Varðandi deiliskipulagsbreytinguna þá heldur Reykjavíkurborg því fram að um óverulega breytingu hafi verið að ræða frá gildandi deiliskipulagi svæðisins.  Því hafi verið heimilt að fara með tillöguna samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda hafi samhliða verið auglýst breyting á aðalskipulagi og athygli athugasemdaraðila sérstaklega vakin á því.  Telja verði að heimilt sé, á grundvelli 2. mgr. 23. gr. laganna, að grenndarkynna breytingu samhliða auglýsingu á óverulegri breytingu á aðalskipulagi, sbr. tilgang og markmið þess sem að hafi verið stefnt með lagagreininni.  Reykjavíkurborg bendir á að fyrst hið meira sé heimilt hljóti hið minna að vera það einnig, enda liggi sömu rök til grundvallar hvoru tveggja.  Ákvæði 2. mgr. 26. gr. og 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga verði að skýra í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. laganna.  Í ljósi þessa sé ekkert óeðlilegt við að málsmeðferð tillagnanna hafi farið fram samhliða enda samrýmist það beinlínis tilgangi og markmiðum ákvæða 2. mgr. 23. gr. laganna. 

Reykjavíkurborg fellst á það með kærendum að láðst hafi að lýsa því yfir á uppdrætti eða í bréfi til Skipulagsstofunar að borgarsjóður bæti það tjón sem einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Slíkri yfirlýsingu hafi verið bætt inn á uppdráttinn enda um augljósa villu að ræða.

Hvað varði athugasemdir kærenda um bílastæðin við Streng þá sé því mótmælt að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að gera þessa breytingu á hinni kynntu tillögu við meðferð málsins, enda hafi þess verið krafist af flestum athugasemdaraðilum málsins, þ.m.t. kærendum.  Sérfræðingar Reykjavíkurborgar hafi metið það svo að umferðaröryggi við Streng væri fullnægjandi með tilliti til aðstæðna.  Ekki hafi verið ástæða til þess að fjalla um bílastæðin í skilmálum enda séu þau sýnd á uppdrættinum.  Fráleitt sé að halda því fram að ákvörðun um þau sé ekki bindandi. 

Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar:  Kærendur hafna þeirri fullyrðingu Reykjavíkurborgar að úrskurðarnefndina skorti lagaheimild til að leggja mat á breytinguna á aðalskipulaginu.  Á því sé byggt að það sé of þröng afmörkun á valdsviði nefndarinnar og í andstöðu við tilgang 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttaröryggi, að nefndin geti ekki lagt mat á málsmeðferð og ákvarðanir á sveitarstjórnarstigi þótt þær séu síðan afgreiddar embættisafgreiðslu af umhverfisráðuneytinu.  Auk þess sé á því byggt að það sé of þröng afmörkun á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að hún geti ekki endurskoðað staðfestingu umhverfisráðherra á aðalskipulagi þar sem við afgreiðslu aðalskipulags í ráðuneyti sé ekki gætt þeirrar vönduðu málsmeðferðar sem kærumeðferð geri ráð fyrir.

Málsrök lóðarhafa:  Í bréfi, dags. 10. desember 2002, lýsa lóðarhafar því að aðkoma viðskiptavina leikskólans er komi akandi sé aðallega frá Streng og þeir sem komi gangandi fari sömu leið, en einnig sé göngustígur við Bleikjukvísl notaður. 

Lóðarhafar greina einnig frá því að þeir hafi óskað eftir því við byggingarfulltrúa að hlið inn á leikskólalóðina verði fært.  Þá sé á lóðarmörkum gert ráð fyrir trjágróðri.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin hefur skoðað aðstæður á vettvangi og kom þá í ljós að bílastæði eru við Streng og hlið inn á leikskólalóðina snýr að Streng.  Samkvæmt upplýsingum frá byggingaryfirvöldum hefur verið sótt um leyfi fyrir þeirri staðsetningu en sú umsókn hefur ekki verið tekin til afgreiðslu. 

Niðurstaða:  Kærendur í máli þessu krefjast ógildingar á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar um breytingu á aðalskipulagi borgarinnar vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl og samhljóða deiliskipulags vegna sömu lóðar.  Hefur úrskurðarnefndin áður skorið úr um hliðstæð álitaefni, sbr. m.a. með úrskurði í máli nr. 22/2003, uppkveðnum hinn 20. nóvember 2003.  Með vísan til þess er það niðurstaða nefndarinnar að aðalskipulagsuppdráttur vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl sæti ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar, þar sem hann er staðfestur af ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds.  Samkvæmt framansögðu verður kröfu kærenda um ógildingu samþykktar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um breytt aðalskipulag lóðarinnar vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Kærendur halda því fram að borgaryfirvöldum hafi verið óheimilt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar og auglýsa breytingu á aðalskipulagi hennar á sama tíma.  Hvað þetta atriði varðar verður að líta til tilurðar heimildar sveitarfélaga þess efnis að auglýsa samhliða tillögu að aðalskipulagi og tillögu deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Heimild þessi var sett með lögum um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 170/2000 og var tilefnið úrskurður úrskurðarnefndarinnar þess efnis að sveitarfélögum væri skylt að ganga frá aðalskipulagsbreytingu að fullu áður en deiliskipulagstillaga væri kynnt.  Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 170/2000 kemur fram að heimildin sé sett í lög svo unnt sé að auglýsa deiliskipulagstillögur, samkvæmt 25. og 26. gr. laganna, samtímis auglýsingu samkvæmt 21. gr. á tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Í lagatexta og lögskýringargögnum er einvörðungu getið um tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé auglýst en í engu getið um tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé grenndarkynnt.  Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og skipulagsreglugerð nr. 400/1998 hafa að geyma ítarleg ákvæði um kynningu skipulagstillagna og samráð við skipulagsgerð.  Þessum ákvæðum er m.a. ætlað að tryggja vandaða málsmeðferð og réttaröryggi.  Heimild sveitarstjórna til að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi er undantekning frá þeirri meginreglu að deiliskipulag skuli gert á grundvelli aðalskipulags og hana verður í ljósi framanritaðs að skýra þröngri lögskýringu.  Með vísan til þessa verður ekki talið að sveitarstjórnum sé heimilt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi samtímis og auglýst er tillaga að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.

Kærendur halda því fram að deiliskipulagið verði að ógilda með vísan til þess að gildistaka þess og aðalskipulagsbreyting vegna lóðarinnar hafi verið auglýst samtímis.  Fyrir liggur í máli þessu að um er að ræða tvær ákvarðanir sem teknar eru samtímis í skipulags- og byggingarnefnd borgarinnar.  Aðalskipulagsbreytingin hlaut staðfestingu umhverfisráðherra og að henni fenginni birtust báðar samþykktirnar sama daginn í B-deild Stjórnatíðinda. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags og verður við túlkun lagaákvæðis þessa að miða við að um sé að ræða aðalskipulag sem þá þegar hafi öðlast gildi.  Að öðrum kosti grundvallast deiliskipulagið ekki á gildu aðalskipulagi.  Túlkun þessi á sér stoð í greinargerð lagafrumvarps þess er varð að lögum nr. 170/2000, en þar segir að óheimilt verði að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en auglýst hafi verið gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi.  Verður að telja að heimild 2. mgr. 23. gr. laganna sé undanþáguheimild sem skýra verði þröngt og því uppfylli samtímabirting gildistöku aðal- og deilskipulagsákvarðana ekki skilyrði lagagreinarinnar. 

Í málavaxtalýsingu hér að framan kemur fram að við undirbúning hinar umdeildu deiliskipulagsákvörðunar var kynnt að breytingunni væri ætlað að breyta deiliskipulagi sem tók gildi árið 1982.  Undir rekstri málsins kom í ljós skipulagsuppdráttur frá árinu 1989 af lóð þeirri sem um er deilt í málinu.  Uppdráttur þessi var samþykktur í skipulagsnefnd borgarinnar hinn 5. júní 1989 og í borgarráði hinn 6. sama mánaðar.  Samkvæmt eldra deiliskipulaginu er lóðin ætluð undir dagvistun og er gert ráð fyrir um 420 m² stóru húsi til starfseminnar en samkvæmt yngra deiliskipulaginu er gert ráð fyrir gæsluvelli ásamt 60 m² húsi.  Þá er og á yngri deiliskipulagsuppdrættinum sýnt náttúrulegt holt sem sagt er að ekki megi raska.  Af framangreindu má ráða að verulegur mismunur hafi verið á milli þess deiliskipulags sem í gildi var þegar grenndarkynningin átti sér stað og þess deiliskipulags sem kynningargögn báru með sér að verið væri að breyta.  Þessi ranga kynning gat m.a. haft þær afleiðingar að þeim sem hagmuna áttu að gæta væri ekki gert kleift að koma á framfæri athugasemdum sínum við grenndarkynninguna, byggðum á réttum forsendum.  Telst þessi ágalli á meðferð málsins verulegur.

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar að ógilda beri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. apríl 2002 um deiliskipulag lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um að felld verði úr gildi breyting á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í skipulags- og byggingarnefnd hinn 24. apríl 2002 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 12. júní 2002, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá. 24. apríl 2002 um að samþykkja deiliskipulag vegna lóðarinnar að Bleikjukvísl 10 í Reykjavík er felld úr gildi. 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________       _____________________________
         Þorsteinn Þorsteinsson                            Ingibjörg Ingvadóttir                        

12/2004 Viðarrimi

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2004, kæra eigenda húseignarinnar að Viðarrima 47 í Reykjavík á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. janúar 2004 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 49 við Viðarrima og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2004 um að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta viðbyggingu úr forsteyptum einingum við norður- og austurhlið einbýlishússins að Viðarrima 49.
 

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. febrúar 2004, sem barst nefndinni 23. s.m., kæra H og G, eigendur fasteignarinnar að Viðarrima 47 í Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. janúar 2004 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 49 við Viðarrima og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2004 um að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta viðbyggingu úr forsteyptum einingum við norður- og austurhlið einbýlishússins að Viðarrima 49.  Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest af borgarstjórn Reykjavíkur þann 19. febrúar 2004.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu viðbyggingarinnar.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Reykjavík til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málavöxtum verður hér aðeins lýst stuttlega að því marki er þurfa þykir við úrlausn um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Fasteignirnar að Viðarrima 47 og 49 eru á svæði sem byggst hefur upp á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var í borgarráði hinn 4. júní 1991.  Samkvæmt skipulagsskilmálum er gert ráð fyrir fjölbreytni í gerð húsa á svæðinu.  Byggingarreitir setja staðsetningu húsa á lóðum rúmar skorður en nýtingarhlutfall er ekki tilgreint í umræddu skipulagi.  Á lóðum á því svæði við Viðarrima sem hér skiptir máli er gert ráð fyrir einbýlishúsum á einni hæð.  Á þessu svæði ganga stuttar botngötur norður úr Viðarrima og standa fjögur hús við hverja þeirra, en sunnan götunnar er einföld húsaröð.  Húsin á lóðunum nr. 43-53 við Viðarrima (stök númer) voru reist á árunum 1992 til 1994 og er nýtingarhlutfall þeirra lóða á bilinu 0,2 – 0,27.  Er gerð þessara húsa nokkuð breytileg.

Fyrir liggur að við byggingu hússins að Viðarrima 49 hefur norðvesturhorn bílgeymslu verið byggt nokkuð út fyrir byggingarreit á um 3,5 metra bili miðað við framhlið hússins, en ekki er til þess vitað að fram hafi komið athugasemdir af því tilefni á byggingartíma þess.

Á árinu 2002 óskuðu eigendur Viðarrima 49 eftir leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta, steinsteypta viðbyggingu við hús sitt til norðurs, innan þess byggingarreits sem markaður er á lóðinni í gildandi skipulagi svæðisins.  Var það mat byggingarfulltrúa að umrædd viðbygging samræmdist skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og féllst hann því á að veita umbeðið leyfi á afgreiðslufundi hinn 19. júní 2002.

Framkvæmdir samkvæmt framangreindu leyfi hófust ekki fyrr en tæpu ári eftir útgáfu leyfisins.  Fór úttekt á botni grunns fyrir viðbygginguna fram hinn 16. júní 2003, en með bréfi, dags. 23. sama mánaðar, kærðu kærendur í máli þessu útgáfu umrædds leyfis.  Kváðu kærendur sér hafa verið ókunnugt um tilvist leyfisins fyrr en eftir að framkvæmdir hefðu hafist, enda hefði þeim engin tilkynning borist um útgáfu þess.  Kröfðust þau ógildingar leyfisins, en jafnframt að framkvæmdir við bygginguna yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 10. júlí 2003 hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, enda taldi hún að eins og málið lægi þá fyrir yrði hvorki ráðið af málsgögnum að viðbyggingin færi í bága við skipulag eða byggingarreglur né að hún gengi svo gegn hagsmunum kærenda að leitt gæti til ógildingar byggingarleyfisins.

Með bréfi til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 17. september 2003, kröfðust kærendur þess að framkvæmdir við bygginguna yrðu stöðvaðar þar sem þau töldu að viðbyggingin næði út fyrir byggingarreit, en á þessum tíma var lokið frágangi sökkuls undir útveggi viðbyggingarinnar.  Lét byggingarfulltrúi þegar kanna staðsetningu hennar og kom í ljós við mælingu að hlutar hennar náðu út fyrir byggingarreitinn.  Stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir við viðbygginguna þegar er niðurstaða mælingarinnar lá fyrir.

Í framhaldi af stöðvun framkvæmdanna gerðu byggingaryfirvöld frekari úttekt á málinu og leituðu skýringa á því misræmi sem komið hafði fram milli aðaluppdrátta og raunmælingar á staðsetningu viðbyggingarinnar.  Í kjölfar þessarar athugunar óskuðu byggingarleyfishafar eftir því að deiliskipulagi yrði breytt þannig að þegar hönnuð og samþykkt viðbygging yrði innan byggingarreits.  Kom fram í erindi þeirra að forsteyptar einingar sem nota ætti í viðbygginguna hefðu þegar verið steyptar.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 29. október 2003.  Samþykkti nefndin að grenndarkynnt yrði tillaga að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið.

Í kjölfar þessa var unnin tillaga að breytingu deiliskipulagsins sem skipulagsfulltrúi samþykkti að grenndarkynna á fundi sínum þann 28. nóvember 2003. Tillagan var til kynningar frá 2. desember 2003 með athugasemdafresti til 29. desember s.á.  Athugasemdabréf barst frá eigendum þeirra húsa sem kynningin hafði tekið til og lögðust þeir gegn tillögunni.  Tillagan ásamt athugasemdum og umsögn skipulagsfulltrúa um þær, dags. 12. janúar 2004, var lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd þann 14. janúar 2004.  Samþykkti nefndin tillöguna og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum þann 20. janúar 2004.  Var þeim sem gert höfðu athugasemdir tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 21. janúar 2004.  Tillagan var loks send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar.  Gerði stofnunin ekki athugasemdir við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda, en tók fram að deiliskipulag umrædds svæðis væri ekki til í vörslu stofnunarinnar og benti að auki á ákvæði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. febrúar 2004.  Á afgreiðslufundi hinn 10. febrúar 2004 samþykkti byggingarfulltrúi að veita leyfi til þess að breyta byggingaraðferð áður samþykktrar steinsteyptrar viðbyggingar í forsteyptar einingar.

Kærendur vildu ekki una ákvörðunum byggingaryfirvalda og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. febrúar 2004, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að húsið að Viðarrima 49 hafi að hluta verið byggt utan byggingarreits á sínum tíma.  Þar við bætist að hin umdeilda viðbygging hafi einnig reynst vera að hluta utan byggingarreits þegar unnt hafi verið að mæla staðsetningu hennar.  Úr þessum annmörkum hafi byggingaryfirvöld ætlað að bæta með hinni umdeildu skipulagsbreytingu en það hafi þeim ekki verið heimilt þar sem sú ákvörðun stríði gegn 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Auk þess hafi ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því að skipulagsbreytingin hafi verið réttlætanleg.  Þá hafi verið rangt staðið að framkvæmdum við hina umdeildu viðbyggingu og þær ekki verið í samræmi við byggingarleyfi. 

Kærendur telja sem fyrr að með fyrirhugaðri viðbyggingu og þeim sólpalli sem nú þegar sé á lóðinni verði lóðin ofnýtt.  Búið sé þá að nýta nánast allan byggingarreit hússins og mjög lítið verði eftir af láréttum lóðarfleti.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verið staðfestar og í þessum þætti málsins að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hafna verði því að 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eigi við í máli þessu eins og skýra verði ákvæðið með hliðsjón af lögskýringargögnum og tilgangi þess.

Í máli þessu hafi Reykjavíkurborg, að beiðni lóðarhafa, breytt deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 49 við Viðarrima.  Hafi það verið talið í lagi m.t.t. þess að ljóst sé að breytingin hafi lítil sem engin áhrif á grenndarhagsmuni nágranna, þ.m.t. kærenda.  Reykjavíkurborg hafi verið þetta heimilt, enda gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum, sbr. t.d. 21. og 26. gr. laganna.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér einhverja skerðingu eða breytingu á hagsmunum þeirra.  Verði þeir almennt að sæta því að með slíkum breytingum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir.  Telji aðilar sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist eða þeir hafi mátt búast við eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna.  Umfjöllun um bætur falli hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.  Ljóst sé einnig að sú breyting á deiliskipulaginu, að lengja byggingarreitinn um 0,52 m til vesturs (sic), hafi óveruleg áhrif á grenndarhagsmuni kærenda og geti því ekki leitt til ógildingar breytingarinnar.

Í ljósi framangreinds og þess að málsmeðferð hinnar kærðu breytingar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga ítreki Reykjavíkurborg kröfur sínar um staðfestingu hinna kærðu ákvarðana og kröfu um að ekki verði fallist á stöðvun framkvæmda.
 
Andmæli byggingarleyfishafa:
  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum og sjónarmiðum kærenda mótmælt.  Framkvæmdir þeirra styðjist við gilt byggingarleyfi.  Ákvæði í 56. gr. laga nr. 73/1997 eigi ekki við í þessu tilfelli þar sem það ákvæði eigi við um ólöglegar framkvæmdir, en ekkert ólöglegt hafi verið framkvæmt við hina umdeildu viðbyggingu.  Þá hafi kærendur engin rök fyrir kröfum sínum.  Þeir hafi áður reynt að fá framkvæmdir stöðvaðar en ekki hafi þá verið talin ástæða til að fallast á þá kröfu.  Ekkert hafi breyst í þá veru að önnur niðurstaða ætti að verða nú um þá kröfu.

Byggingarleyfishöfum sé ekki kunnugt um hvaða deiliskipulag kærendur séu að skoða, en vesturgafl húss þeirra standi einungis tvo metra frá lóðarmörkum.  Hús nr. 53 eigi byggingarreit aðeins metra frá lóðarmörkum til austurs, og svo sé um fleiri hús í götunni.

Byggingarleyfishafar taka ennfremur fram að réttindum að Viðarrima 49 hafi verið þinglýst fyrr en að Viðarrima 47, og hafi eldri þinglýsingin forgang.  Því hafi lóðarmörk sem komið hafi fyrr til þinglýsingar forgang fyrir þeim yngri.  Þá hafi hlaðinn grjótgarður sem skilji að lóðir Viðarrima 49 og Viðarrima 47, verið gerður eftir lóðarmörkum samkvæmt teikningum af Viðarrima 49, og hafi hann gilt sem lóðarmörk.  Samkvæmt þeim rökum eigi lóðarmörk samkvæmt teikningum af Viðarrima 49 að gilda.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Vettvangskönnun:  Úrskurðarnefndin hefur áður kynnt sér aðstæður á vettvangi við meðferð fyrra kærumáls en ekki þóttu efni til nýrrar vettvangsskoðunar að svo stöddu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 20. janúar 2004 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 49 við Viðarrima og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2004 um að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta viðbyggingu úr forsteyptum einingum við norður- og austurhlið einbýlishússins að Viðarrima 49.  Er m.a. til úrlausnar hvort borgaryfirvöldum hafi verið heimilt að breyta skipulagi umrædds svæðis í því skyni að laga það að framkvæmdum sem í ljós var komið að samræmdust ekki skipulagi.

Í 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð.  Sá Skipulagsstofnun ástæðu til að vekja athygli borgaryfirvalda á ákvæðum 56. gr. við lögboðna afgreiðslu stofnunarinnar á hinni umdeildu skipulagsákvörðun.

Úrskurðarnefndin telur með hliðsjón af greindu ákvæði og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins að svo mikill vafi leiki á um lögmæti hinna kærðu ákvarðana að rétt sé að fallast á kröfu kærenda um að framkvæmdir við hina umdeildu viðbyggingu verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir nefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru við viðbyggingu að Viðarrima 49 í Reykjavík, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir nefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                         Ingibjörg Ingvadóttir                   

48/2003 Hafnarbraut

Með

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Bjarkarbraut 9, Dalvík, á ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. ágúst 2003, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Hákon Stefánsson hdl., f.h. S og I, Bjarkarbraut 9, Dalvík, þá ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.  Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar staðfesti ákvörðun umhverfisráðs hinn 13. maí 2003.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umdeildar byggingarframkvæmdir fjarlægðar.

Málavextir:  Lóðin að Hafnarbraut 18 er 880 m² að stærð og á lóðinni stendur 165,3 fermetra einbýlishús úr timbri.  Fasteign kærenda að Bjarkarbraut 9 liggur skáhallt frá norðvesturhorni lóðarinnar að Hafnarbraut 18 og mun vera um 5 metra bil milli lóðamarka umræddra lóða.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Í febrúar 2003 var gerð fyrirspurn til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins um hvort heimilaðar yrðu byggingarframkvæmdir á lóðinni er fælust í að reisa 36,14 fermetra bílskúr og viðtengt 37,5 fermetra íbúðarrými auk 37,5 fermetra kjallararýmis eða samtals 111,14 fermetra.  Var umsækjanda tjáð að umsóknina þyrfti væntanlega að grenndarkynna en bent á að komast mætti hjá formlegri grenndarkynningu ef fyrir lægju yfirlýsingar nágranna um að þeir gerðu ekki athugasemdir við fyrirhugðar framkvæmdir.

Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar hinn 2. apríl 2003 þar sem lágu frammi teikningar af fyrirhugaðri byggingu, dags. 14. mars 2003, ásamt yfirlýsingu eigenda Bjarkarbrautar 11 og Hafnarbrautar 16 um að þeir gerðu ekki athugasemdir við hana.  Bókað var á fundinum að umhverfisráð gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 15. sama mánaðar.  Í kjölfar þess mun byggingarfulltrúi hafa heimilað framkvæmdir við gröft á lóðinni til undirbúnings byggingarframkvæmdum og þær þá þegar hafist.

Með bréfi, dags. 2. maí 2003, gerði lögmaður kærenda fyrirspurn til umhverfisráðs bæjarins í tilefni af framkvæmdunum og mun formaður umhverfisráðs hafa átt fund með öðrum kærenda vegna framkvæmdanna hinn 7. maí 2003, eða sama dag og umhverfisráð samþykkti umdeilt byggingarleyfi.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. maí 2003.  Lögmaður kærenda ítrekaði fyrirspurn sína frá 2. maí 2003 með tölvupósti, dags. 5. júní 2003, sem formaður umhverfisráðs svaraði með sama hætti hinn 6. júní það ár.  Í svarinu kom fram að álitið hafi verið að málið væri úr sögunni af hálfu kærenda og fyrrgreind fyrirspurn hafi því ekki verið tekin fyrir.  Jafnframt var lofað svari af hálfu bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda.  Kærandi ítrekaði enn fyrirspurn sína vegna framkvæmdanna með bréfi, dags. 25. júní 2003, og var erindi hans svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á.  Kærendur skutu síðan málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur kveðast hafa haft samband við bæjaryfirvöld er framkvæmdir hófust á lóðinni að Hafnarbraut 18, Dalvík og leitað skýringa bæjarins á þeim framkvæmdum.  Bréf hafi verið sent af því tilefni hinn 2. maí 2003 og aftur hinn 25. júní s.á. þar sem svör hefðu ekki borist.  Upplýsingar um umdeildar framkvæmdir hafi fyrst borist með bréfi hinn 27. júní 2003, sem þó hafi ekki haft að geyma fullnægjandi svör við erindi kærenda.  Í bréfinu hafi komið fram að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir umdeildum framkvæmdum að fengnu samþykki eigenda fasteignanna að Bjarkarbraut 11 og Hafnarbraut 16 en ekki hafi þótt ástæða til að kynna kærendum fyrirhugaða framkvæmd þar sem lóðirnar liggi ekki saman og að aðkoma að lóðunum sé úr gangstæðri átt.  Telja kærendur að sömu rök eigi við um lóðina að Bjarkarbraut 11. 

Kærendur geti ekki fallist á svör bæjaryfirvalda og ófullnægjandi útskýringar á umræddum byggingarframkvæmdum og telja að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við útgáfu byggingarleyfisins.  Grenndarkynning hafi ekki farið fram svo sem lögskylt hafi verið skv. 7. mgr. 43. gr. laganna og komi samþykki tveggja nágranna ekki í hennar stað.  Kærendur eigi hagsmuna að gæta í málinu og nægi að benda á að umdeild framkvæmd skerði útsýni frá húsi þeirra.  Þrátt fyrir skort á fullnægjandi gögnum um aðra þætti leyfisveitingarinnar telji kærendur að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 fari yfir leyfileg mörk með veitingu hins umdeilda byggingarleyfis og við útgáfu þess hafi ekki legið fyrir nauðsynleg gögn.  Bent sé á að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út og það látið afskiptalaust af byggingaryfirvöldum.

Af greindum ástæðum beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi og jafnframt beri að fjarlægja hina ólöglegu byggingu skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga.

Kærendur skírskota til þess að kærufrestur hafi ekki verið liðinn er kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Svarbréf bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda vegna byggingarleyfisins virðist að vísu hafa borist á starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003 en vegna fjarveru í feðraorlofi hafi honum ekki borist svarið fyrr en hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að miða upphaf kærufrests við þann dag, þegar kærendum varð fyrst kunnugt um hina umdeildu ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar, en kærendum hafi ekki enn verið tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á hinu kærða byggingarleyfi.

Málsrök Dalvíkurbyggðar:  Lögmaður bæjaryfirvalda gerir aðallega þá kröfu, fyrir hönd bæjarins, að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni sem of seint fram kominni með vísan til 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina, en ella að kröfu um ógildingu umdeilds byggingarleyfis og kröfu um niðurrif framkvæmda verði hafnað.

Með minnispunktum byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar, dags. 14. október 2003, og tölvupóstssamskiptum formanns umhverfisráðs og lögmanns kærenda í maí og júní 2003 sé í ljós leitt að kærendur fengu upplýsingar um afgreiðslu umhverfisráðs á byggingarleyfisumsókninni hinn 8. maí 2003, eða daginn eftir að hún var samþykkt í ráðinu.  Í síðasta lagi hafi kærendum verið kunnugt um afgreiðslu erindisins við móttöku bréfs Dalvíkurbæjar til lögmanns kærenda, dags. 27. júní 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefndina sé kærufrestur á veitingu byggingarleyfa 30 dagar frá því kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann hyggst kæra.  Kærubréfið til úrskurðarnefndarinnar sé dagsett 20. ágúst 2003, eða að loknum kærufresti, hvort heldur sem miðað sé við 8. maí eða 27. júní 2003.  Ekki sé byggjandi á staðhæfingu lögmanns kæranda, sem fram komi í niðurlagi kærubréfsins, þess efnis að hann hafi fyrst fengið vitneskju um efni þess hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Um efnishlið máls vísa bæjaryfirvöld til þess að kærendur hafi ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir ógildingar- og niðurrifskröfu sinni.  Samkvæmt fyrrgreindum minnispunktum byggingarfulltrúa hafi umsækjanda byggingarleyfisins verið gerð grein fyrir því í febrúar 2003 að hinar fyrirhuguðu byggingarframkvæmdir þyrfti trúlega að grenndarkynna og tæki það sinn tíma, en unnt væri að flýta afgreiðslu málsins ef samþykki nágranna lægi fyrr og gæti umhverfisráð litið svo á að slíkt samþykki væri ígildi grenndarkynningar.  Hafi umsækjanda og verið bent að það að umhverfisráð liti oftast þannig á að næstu nágrannar væru þeir sem ættu lóðir saman.

Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sé heimilað að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd.  Með ákvæðinu sé því lögfest heimild til að afla skriflegra yfirlýsinga þeirra nágranna, sem hagsmuna eigi að gæta, um að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Heimildin verði ekki skilin á annan veg en þann að slíkar yfirlýsingar séu ígildi grenndarkynningar, sem raunar sé ekki skilgreind í lögunum sérstaklega, svo sem gert sé við flest hugtök skipulags- og byggingarlaga í 2. grein laganna.

Samkvæmt þessum skilningi hafi farið fram lögboðin kynning á hinum fyrirhuguðu byggingarframkvæmdum.  Um það megi deila hvort kynningin hafi verið nægilega víðtæk, þ.e. hvort hún hafi tekið til allra þeirra, sem hagsmuna áttu að gæta í skilningi ákvæðisins.  Við mat á því sé óhjákvæmilegt að líta til viðhorfa umhverfisráðs og bæjarstjórnar í þeim efnum og ennfremur þeirrar staðreyndar, að engir húseigendur aðrir en kærendur á umræddum byggingarreit (Hafnarbraut 2-14 og Bjarkarbraut 1-9) hafi gert athugasemdir eða haft í frammi mótmæli við umræddri byggingu á lóðinni Hafnarbraut 18.

Staðhæfing kærenda um of hátt nýtingarhlutfall á umræddri lóð eigi ekki við rök að styðjast.  Leyfilegt nýtingarhlutfall lóðar skv. gildandi aðalskipulagi sé 0,35.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 eftir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis sé 0,314.

Ekki sé fallist á að ófullnægjandi gögn hafi búið að baki veitingu byggingarleyfisins.  Eins og áður hafi verið frá greint haf umhverfisráð talið að fullnægjandi grenndarkynning fyrir hagsmunaaðilum hafi átt sér stað áður en byggingarleyfi hafi verið veitt og vegna ummæla kærenda þess efnis að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út sé rétt að taka fram að gröftur á lóð hafi verið heimilaður fyrir útgáfu leyfisins með stoð í 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar þann 15. apríl 2003.  Sé slíkt leyfi algengur framgangsmáti slíkra mála.

Að lokum sé vakin athygli á því að aðild að kröfugerð um niðurrif skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga sé einvörðungu í höndum skipulags- og/eða byggingarfulltrúa viðkomandi bæjarfélags.  Hér sé um að ræða þvingunarúrræði sem byggingaryfirvöldum sé heimilt að beita með þeim skilyrðum að sýnt sé með óyggjandi hætti fram á að viðkomandi framkvæmd brjóti í bága við gildandi skipulag eða hún hafin eða framkvæmd án leyfis viðkomandi byggingaryfirvalda.  Eigi kærendur enga aðild að slíkri kröfu.

Niðurstaða:  Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hófust framkvæmdir á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut á Dalvík í aprílmánuði 2003 og sendu kærendur af því tilefni bréf, dags. 2. maí það ár, til umhverfisráðs bæjarins með fyrirspurnum af því tilefni.  Fundur mun hafa verið haldinn af hálfu formanns umhverfisráðs með öðrum kærenda hinn 7. maí 2003 vegna málsins og endanlegt svar við fyrirspurnum lögmanns kærenda gefið í bréfi, dags. 27. júní s.á., er að sögn hans barst hinn 7. júlí.  Efni þess bréfs hafi ekki komist til vitundar hans fyrr en hinn 18. ágúst s.á.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einn mánuður frá því að þeim, er telur rétti sínum hallað með þeirri ákvörðun, er kunnugt um hana.  Kærendur og lögmaður þeirra höfðu samskipti við bæjaryfirvöld vegna umdeildra framkvæmda frá maíbyrjun 2003 eða skömmu eftir að þær hófust og var fyrirspurnum kærenda um málsmeðferð og forsendur umdeilds byggingarleyfis svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á., eins og áður greinir.  Af þessum málsatvikum verður ráðið að kærendum hlaut að hafa verið ljós veiting hins umdeilda byggingarleyfis skömmu eftir að framkvæmdir hófust og í öllu falli í kjölfar svarbréfs bæjaryfirvalda við fyrirspurnum lögmanns þeirra er barst starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003.  Enda þótt innihald bréfsins hafi eigi komist til vitundar kærenda fyrr en nokkru seinna þykir hér verða að miða við að kærufrestur hafi byrjað að líða á fyrrgreindum móttökudegi bréfsins, sbr. meginreglu 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.  Ekki þykja þær ástæður vera fyrir hendi í máli þessu að tilefni sé til að víkja frá kærufresti skv. 1. og 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

61/2002 Trönuhraun

Með

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2002, kæra framkvæmdastjóra Billjardstofu Hafnarfjarðar á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. september 2002 um að synja umsókn hans um undanþágu frá kröfu um aðgengi fatlaðra að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. október 2002, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir S, framkvæmdastjóri Billjardstofu Hafnarfjarðar, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 10. september 2002 að synja umsókn hans um undanþágu frá kröfu um aðgengi fatlaðra að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 17. september 2002. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 10. september 2002 var tekið fyrir erindi kæranda þar sem hann óskaði eftir undanþágu vegna aðgengi fatlaðra að Billjardstofu Hafnarfjarðar, Trönuhrauni 10, annari hæð.  Skipulags- og byggingarráð afgreiddi erindið með eftirfarandi hætti:  „Ákvæði byggingarreglugerðar eru lágmarksákvæði og er skipulags- og byggingarráði ekki heimilt að víkja frá þeim.  Að framansögðu getur skipulags- og byggingarráð ekki orðið við erindinu.  “

Undanfari umsóknar kæranda um undanþágu frá ákvæði byggingarreglugerðar um aðgengis fatlaðra að billjardstofunni var að hann óskaði eftir vínveitingaleyfi en var synjað vegna skorts á aðgengi fatlaðra að staðnum sem staðsettur er á annari hæð hússins. 

Kærandi vildi ekki una málalokum þessum og skaut málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og áður segir. 

Málsástæður kæranda:  Kærandi bendir á að fatlaðir einstaklingar, sem ekki séu í hjólastól, hafi sótt staðinn en þeir einstaklingar sem vegna fötlunar sinnar þurfi að vera í hljóastól eigi erfitt með að spila snóker vegna stærðar borðsins sem spilað sé við. 

Kærandi bendir og á þá staðreynd að hús það sem hér um ræðir sé komið til ára sinna og við byggingu þess hafi ekki verið gert ráð fyrir aðgengi fatlaðra í hjólastólum og ekki sé fyrir hendi sá möguleiki að setja lyftu í húsnæðið. 

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin kallaði eftir afstöðu Hafnarfjarðarbæjar til kærunnar með bréfi, dags. 7. nóvember 2002.  Byggingarfulltrúi upplýsti úrskurðarnefndina ítrekað um að til stæði að endurskoða fyrri afstöðu byggingaryfirvalda í málinu.  Það var þó ekki fyrr en hinn 9. september 2003 sem skipulags- og byggingarráð tók umsókn kæranda frá 27. ágúst 2002 fyrir að nýju og samþykkti að verða við henni með tilvísun í gr. 12.8 byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Í síðastgreindri ákvörðun fólst að skipulags- og byggingarráð dró til baka hina kærðu ákvörðun og tók nýja í hennar stað þar sem fallist var á umsókn kæranda.

Í ljósi breyttra aðstæðna á kærandi ekki lögvarða hagsmun af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________       _____________________
   Þorsteinn Þorsteinsson               Ingibjörg Ingvadóttir

14/2003 Ásland

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2003, kæra eiganda byggingarlóðar að Áslandi 24 í Mosfellsbæ á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. mars 2003, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir I ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.

Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. apríl 2003, sem barst nefndinni 16. sama mánaðar, áréttar kærandi að kæra hans hafi einnig átt að taka til byggingarleyfis fyrir húsi á lóðinni og að hann geri kröfu til að engar framkvæmdir fari fram á lóðinni Áslandi 22 meðan úrskurðarnefndin fjalli um kæruna.

Málavextir:   Hinn 8. október 2002 sótti eigandi lóðarinnar að Áslandi 22 í Mosfellsbæ um leyfi skipulags- og bygginganefndar Mosfellsbæjar til að byggja parhús á lóðinni.  Umrædd lóð er í íbúðarhverfi þar sem í gildi eru skipulags- og byggingarskilmálar frá maí 1982 sem gera ráð fyrir að á svæðinu rísi einbýlishús.  Þó er kveðið á um það í skilmálum að tvær íbúðir megi vera í húsum þar sem aðstæður leyfi.  Skipulags- og byggingarnefnd ákvað á fundi sínum sama dag að láta fara fram grenndarkynningu á erindinu, enda fólst í því að vikið yrði frá skipulagsskilmálum um húsgerð.  Grenndarkynning stóð yfir frá 15. október til 18. nóvember 2002.  Bárust athugasemdir frá tveimur aðilum, þar af önnur frá kæranda í máli þessu með símbréfi, dags. 18. nóvember 2002.  Taldi hann fyrirhugað hús m.a. ekki samræmast kröfum um húsgerð á svæðinu, skipting lóðar og fyrirkomulag húss væri í andstöðu við skipulagsskilmála, nýtingarhlutfall væri of hátt og húsið færi út fyrir byggingarreit.  Athugasemdum þessum var svarað en af málsgögnum verður jafnframt ráðið að nýtingarhlutfall hafi verið lækkað vegna athugasemda kæranda.  Málið var tekið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 og afstaða nefndarinnar til framkominna athugasemda færð til bókar.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt yrði að breyta lóðinni úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð „..í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.“  Tillögu þessa samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar á fundi sínum hinn 18. desember 2002 og er það sú samþykkt sem upphaflega var vísað  til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er rakið.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, var kæranda greint frá afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til framkominna athugasemda og ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Var honum, í niðurlagi bréfsins, gerð grein fyrir því að ákvörðuninni væri hægt að skjóta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og að kærufrestur væri einn mánuður.

Hinn 24. desember 2002 gaf byggingarfulltrúinn í Mosfellsbæ út byggingarleyfi fyrir umræddu parhúsi.  Var bókun byggingarfulltrúa um afgreiðslu málsins lögð fram í skipulags- og byggingarnefnd hinn 21. janúar 2003 og staðfest í bæjarstjórn 29. sama mánaðar.  Var kæranda tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi, dags. 4. febrúar 2003, og bent á að ákvörðunina mætti kæra til úrskurðarnefndarinnar innan eins mánaðar.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. mars 2003, sem barst hinn 7. sama mánaðar, kærði kærandi „…samþykki skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar að breyta lóðinni Ásland 22 úr einbýlishússlóð í parhússlóð, sem samþykkt var af bæjarstjórn 18. 12. 2002.“

Hinn 16. apríl 2003 barst úrskurðarnefndinni bréf kæranda, dags. 8. apríl 2003, þar sem hann áréttar að kæra hans frá 4. mars 2003 hafi einnig átt að taka til byggingarleyfisins og að gerð væri krafa til þess að engar framkvæmdir færu fram meðan úrskurðarnefndin fjallaði um kæruna.  Kveðst kærandi í bréfi þessu ekki hafa fengið bréf byggingarfulltrúa frá 19. desember 2002 fyrr en 13. janúar 2003 og að áður en hann hafi sent kæru sína hafi honum borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2003.  Hafi hann skilið það svo að kærufrestur hefði verið lengdur til 4. mars 2003.

Málsrök kæranda:  Málsrök kæranda koma einkum fram í athugasemdabréfi hans dags. 18. nóvember 2002.  Kveðst hann hafa keypt lóð sína að Áslandi 24 beinlínis sem lóð undir einbýlishús í einbýlishúsahverfi samkvæmt samþykktum skipulags- og byggingarskilmálum.  Þótt tvær íbúðir geti verið í einbýlishúsi undir sömu eign sé það ekkert sambærilegt við parhús með skiptingu lóðar, gjörólíkt að útliti og svip, tilheyrandi umferð og umgengni, kaupum og sölum.  Þá sé nýtingarhlutfall of hátt og húsið fari út fyrir byggingarreit.  Óréttmætt sé að vísa til þess að parhús hafi verið leyft að Áslandi 20, enda séu aðstæður þar aðrar, en sú lóð sé innst í botnlanga og nýtingarhlutfall allt annað.
Í niðurlagi athugasemdabréfs kæranda segir m.a:  „Vægt til orða tekið á þetta hús ekkert heima á þessum stað.  Þessir menn eiga ekki að vera að kássast upp á fólk í þessu hverfi, það er nóg til af stöðum fyrir þessa húsagerð.“

Málsrök bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ:  Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn málsins frá byggingarfulltrúanum í Mosfellsbæ.  Telur hann að rétt hafi verið staðið að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og að tillit hafi verið tekið til athugasemda kæranda.  Honum hafi verið tilkynnt um ákvarðanir í málinu með venjubundnum hætti.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að grenndarkynning hafi farið fram eins og lög standi til og hafi íbúar við götuna ekki mómælt fyrirhugaðri byggingu.  Einu efnislegu mótmælin hafi komið frá kæranda, sem búi úti á landi.  Við byggingu hússins séu ákvæði um hæðarkóta og nýtingarhlutfall virt og séu athugasemdir kæranda um þau atriði ekki á rökum reistar.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur hver sá er telur rétti sínum hallað með ákvörðun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan mánaðar frá því honum varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun.  Liggur fyrir að kæranda hafði borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, eigi síðar en hinn 13. janúar 2003.  Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sem honum var kynnt í umræddu bréfi því til 13. febrúar 2003.

Með kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hinn 4. mars 2003 kærði kærandi framangreinda ákvörðun og gerði í kærunni með skýrum hætti grein fyrir því um hvaða ákvörðun væri að ræða.  Var kærufrestur vegna hennar þá liðinn og mátti kæranda vera það ljóst, enda var í framangreindu bréfi byggingarfulltrúa gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og kærustjórnvaldi.

Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. apríl 2003 kom kærandi því fyrst á framfæri að fyrir honum hafi vakað að kæra hans tæki einnig til ákvörðunar byggingarfulltrúa um útgáfu byggingarleyfis sem kæranda hafði verið tilkynnt um með bréfi, dags. 4. febrúar 2003.  Kveðst kærandi hafa skilið málið svo að með síðastnefndu bréfi hefði kærufrestur verið framlengur til 4. mars 2003.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreind sjónarmið kæranda.  Með bréfi byggingarfulltrúa hinn 4. febrúar 2003 var kæranda kynnt ný ákvörðun sem ekki verður séð að hann hafi kært fyrr en með bréfi sínu hinn 8. apríl 2003, sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. sama mánaðar.  Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar því liðinn.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti.  Víkja má frá þeirri reglu ef afsakanlegt verður talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða ef veigamiklar ástæður mæla með því að hún verði tekin til meðferðar.  Verður hvorki talið að kærandi hafi sýnt fram á að afsakanlegt sé að kæra hans barst svo seint sem raun ber vitni né að veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.  Væri það og andstætt hagsmunum byggingarleyfishafa, enda mátti hann með réttu ætlast til að hagsmunaaðilar tækju ákvörðun um það innan lögboðins frest hvort þeir ætluðu að neyta kæruréttar.

Með hliðsjón af framansögðu ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni og koma efnisatriði þess því ekki til úrlausnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ingibjörg Ingvadóttir

63/2003 Langagerði

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2003, kæra eiganda fasteignarinnar að Langagerði 80, Reykjavík á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um að koma fyrir sparkvelli við Réttarholtsskóla í Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. október 2003, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir B, Langagerði 80, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003, um að koma fyrir sparkvelli með gervigrasi austan við og samsíða íþróttahúsi Réttarholtsskóla, Réttarholtsvegi 21 – 25 í Reykjavík. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 15. maí 2003.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 25. mars 2003 var sótt um leyfi til að koma fyrir upphituðum sparkvelli með gervigrasi austan við og samsíða íþróttahúsi Réttarholtsskóla á lóðinni nr. 21 – 25 við Réttarholtsveg.  Skyldi völlurinn vera hluti útileiksvæðis skólans.  Samkvæmt teikningu sem lögð var fyrir byggingarfulltrúa var gert ráð fyrir að umhverfis sparkvöllinn yrði timburgirðing á steinsteyptum sökkli sem væri þriggja metra há bak við mörk en einn metri á hæð á langhliðum.  Völlurinn skyldi upplýstur með tveimur kösturum með tímarofa á íþróttahúsi sem myndu beina ljósi beint á völlinn en lítið umhverfis hann.  Byggingarfulltrúi frestaði erindinu þar sem mæliblað skorti en vísaði því til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. 

Erindi byggingarfulltrúa var tekið fyrir hjá Borgarskipulagi hinn 25. mars 2003 og var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Ásgarði 73.

Erindið var í grenndarkynningu frá 2. apríl 2003 til 2. maí sama ár og bárust engar athugasemdir. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. maí 2003 var erindið samþykkt og hlaut fundargerð nefndarinnar staðfestingu borgarstjórnar hinn 15. sama mánaðar.

Kærandi er ósáttur við framangreinda afgreiðslu skipulags- og byggingaryfirvalda í Reykjavík og hefur kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að garður hennar snúi að lóð Réttarholtsskóla.  Þar hafi ríkt ró og næði en með tilkomu sparkvallarins, sem byggður hafi verið síðast liðið sumar, hafi umhverfinu verið raskað svo um muni.  Þetta telur kærandi alls óviðunandi, því frá vellinum sé töluvert ónæði frá því snemma morguns og langt fram á kvöld og tiltekur sérstaklega flóðlýsinguna sem kviknar á kvöldin. 

Kærandi heldur því fram að þegar hún hafi keypt fasteign sína að Langagerði 80 hafi hún leitað sér upplýsinga um deiliskipulag svæðisins og fengið þau svör að auða svæðið við skólann yrði eingöngu nýtt fyrir skólabyggingar, þar sem starfsemi færi fram innan dyra á virkum dögum. 

Kærandi telur að með tilkomu sparkvallarsins hafi skipulags- og byggingarlög verið margbrotin, þar sem hvorki hafi farið fram grenndarkynning né nýtt deiliskipulag auglýst eða birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Með vísan til þessa sé þess krafist að völlurinn verði fjarlægður hið fyrsta. 

Reykjavíkurborg hefur ekki sett fram sérstakar athugasemdir í máli þessu en sendi úrskurðarnefndinni tölvuskeyti, dags. 28. janúar 2004, þar sem fram kemur að tilboð í völlinn hafi verið opnuð hinn 20. maí 2003 og verkið hafist hinn 10. júní sama ár.  Þá kemur fram að völlurinn hafi verið vígður hinn 7. ágúst 2003 og verklok hafi verið hinn 13. sama mánaðar.  Þá sendi Reykjavíkurborg einnig nefndinni forúttekt verksins, dags. 8. september 2003, þar sem fram koma athugasemdir við verkið og hvað sé áskilið við lokaúttekt. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdir við gerð sparkvallar á lóð Réttarholtsskóla við Réttarholtsveg í Reykjavík.  Fyrir liggur að framkvæmdir við gerð vallarins hófust í júní 2003, vígsla hans fór fram hinn 7. ágúst sama ár og verklok voru hinn 13. sama mánaðar.  Kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 13. október 2003.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd. 

Eins og áður segir hófust framkvæmdir við hinn umdeilda sparkvöll í júní 2003 og þá þegar var kæranda í lófa lagið að leita frekari upplýsinga um verkið.  Allt að einu setti kærandi ekki fram kæru í málinu fyrr en fjórum mánuðum eftir að framkvæmdir hófust og tveimur mánuðum eftir að gerð sparkvallarins var lokið.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi í allra síðasta lagi byrjað að líða hinn 25. ágúst 2003, eða þann dag er skólastarf hófst í Réttarholtsskóla. 

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

8/2004 Lambalækjarflöt

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2004, kærur Daða Ágústssonar og Jóns Otta Sigurðssonar á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Borgarbyggð.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. janúar 2004, sem barst nefndinni 14. s.m., kærir D ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Bogarbyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar hinn 15. janúar 2004. 

Sömu ákvörðun kærir J með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. janúar 2004 og hafa framangreind mál verið sameinuð.  Krefjast kærendur ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfum, dags. 26. og 28. janúar 2004, krefjast kærendur þess að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærendur, sem eru eigendur sumarhúsa í landi Laufáss, hafa áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar um deiliskipulag umrædds svæðis og eru þau mál til meðferðar fyrir nefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til framangreindra kærumála og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og gögn og sjónarmið Borgarbyggðar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Í lok ágúst 2003 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hálsabyggð fyrir frístundahús í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Sagði í auglýsingunni að um væri að ræða stækkun skipulagssvæðis frá gildandi uppdrætti og að rými yrði fyrir fleiri frístundahús.  Kærendur eiga sumarhús á þessu svæði en munu ekki hafa orðið varir við auglýsingu umræddrar tillögu.  Var tillagan samþykkt og hófust framkvæmdir á grundvelli hennar í desember 2003.  Í umræddu skipulagi er m.a. gert ráð fyrir að reist verði smáhýsi til útleigu á svonefndri Lambalækjarflöt, sem er skammt norð-vestan við bústaði kærenda.  Á lóð nr. 5 á flötinni er gert ráð fyrir að reist verði þjónustuhús, allt að 6 metrar að hæð.  Er það einkum bygging þess sem kærendur setja fyrir sig og hafa þeir kært byggingarleyfi fyrir umræddu húsi og krafist stöðvunar framkvæmda við byggingu þess svo sem að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er einkum á því byggt að með hinu umdeilda deiliskipulagi hafi verið leyfð atvinnustarfsemi á svæðinu, en þess hafi þeir ekki mátt vænta.  Ónæði muni verða af starfseminni og að auki verði fyrirhugað þjónustuhús allt of stórt og skerði útsýni.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er kröfum kærenda mótmælt.  Er á því byggt að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við skipulags- og byggingarlög og deiliskipulag sem auglýst hafi verið og yfirfarið af  Skipulagsstofnun.  Að auki hafi starfsmenn tæknideildar bæjarins skoðað aðstæður á vettvangi og mælt fjarlægð milli húsa kærenda og hins umdeilda húss, svo og hæðarmun húsanna.  Sé hið umdeilda hús í um 150 metra fjarlægð frá því húsi kærenda sem nær standi og standi nýbyggingin að auki um 10 metrum neðar í landinu.  Byggingin muni því ekki raska hagsmunum kærenda. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi, dags. 30. janúar 2004, reifar Björn L. Bergsson hrl. sjónarmið byggingarleyfishafa varðandi kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Krefst hann þess að henni verði hafnað.  Telur hann kærendur ekki eiga lögvarða hagsmuni í kærumálinu.  Verði að telja að stöðvunarkrafa þeirra eigi ekki rétt á sér, enda séu hagsmunir byggingarleyfishafa margfalt meiri en hagsmunir kærenda.  Þótt framkvæmdir verði ekki stöðvaðar verði því ekki haldið fram að kærendur verði fyrir óafturtæku tjóni, enda sé engri byggð raskað né trjágróðri.  Yrði endanleg niðurstaða sú að leyfishafa væri framkvæmdin óheimil yrði húsið fjarlægt án vandkvæða.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Eru jafnframt til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni kærumál þar sem deilt er um lögmæti samþykktar um deiliskipulag svæðis þess sem hér skiptir máli og kann niðurstaða í máli þessu m.a. að ráðast af úrslitum þeirra mála.  Ríkir af þessum sökum enn nokkur óvissa um málalok meðan málsrannsókn er ólokið en m.a. er fyrirhugað að kanna aðstæður á vettvangi.  Þykir að öðru jöfnu koma til álita að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda þegar aðstæður eru með þeim hætti sem að framan var lýst.

Á hitt er að líta að hús það sem um er deilt í málinu er færanlegt og verður því með hægu móti fjarlægt verði niðurstaða málsins kærendum í vil.  Ber af þessum sökum ekki nauðsyn til að verða við kröfum þeirra um stöðvun framkvæmda í því skyni að tryggja að þeir nái til fulls rétti sínum í málinu.  Með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað, enda styðjast framkvæmdir byggingarleyfishafa við formlega gilt leyfi þar til bærs stjórnvalds.  Framkvæmdir samkvæmt leyfinu eru hins vegar alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan úrskurðarnefndin hefur ágreining málsaðila um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis til meðferðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skuli stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Ingibjörg Ingvadóttir

70/2000 Bakkatún

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2000, kæra nokkurra íbúa í Hrunamannahreppi á ákvörðun hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 24. ágúst 2000 að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðabyggð á Bakkatúni, Flúðum, Hrunamannahreppi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. nóvember 2000, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir Sigurður Sveinsson hdl., fyrir hönd Þ, T, Þ, E og R, öllum búsettum í Hrunamannahreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 24. ágúst 2000 að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðabyggð á Bakkatúni, Flúðum, Hrunamannahreppi.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinu kærða deiliskipulagi.

Málavextir:  Samkvæmt gögnum málsins hefur hið kærða deiliskipulag nokkurn aðdraganda.  Á árunum 1988 og 1991 leitaði hreppsnefnd Hrunamannahrepps álits skipulagsstjórnar og skipulagsstjóra ríkisins vegna umsókna um byggingu gróðurhúss og grænmetisgeymslu í landi Reykjabakka, sem liggur austan við þéttbýlið að Flúðum.  Skipulag ríkisins benti á að gæta þyrfti að þróun þéttbýliskjarnans að Flúðum og mögulegri vegalagningu á svæðinu við ákvarðanatöku um byggingarframkvæmdir og æskilegt væri að endurskoða aðalskipulag með framtíðarnotkun lands í huga.  Var mælt með því að heimilaðar nýbyggingar á jörðinni yrðu staðsettar sem næst byggingum þeim sem fyrir voru.  Mun ekki hafa orðið af byggingu gróðurhússins en grænmetisgeymslan var reist þar sem hún stendur nú.

Á árinu 1991 var hafin vinna við endurskoðun Aðalskipulags Flúða 1984-2004 í samráði við Skipulag ríkisins og var endurskoðað Aðalskipulag Flúða 1992-2012 staðfest á árinu 1994.  Var þar gert ráð fyrir lagningu vegar austan og norðan við byggðakjarnann að Flúðum og íbúðabyggð austan við þann veg.

Í kjölfar aðalskipulagsbreytingarinnar var hafin vinna við deiliskipulagstillögu fyrir íbúðabyggð á Bakkatúni, Flúðum, og var á því ári haldinn fundur með landeigendum þar sem tillögur að skipulagi voru kynntar.  Vinnsla tillögunnar stóð með hléum allt fram á árið 2000 en fullmótuð tillaga var auglýst til kynningar frá 15. júní til 15. júlí 2000 með athugasemdafresti til 25. júlí sama ár.  Athugasemdir við deiliskipulagstillöguna bárust í bréfi lögmanns kærenda, dags. 23. júlí 2000, er vörðuðu meint misræmi milli aðal- og deiliskipulags, ófullnægjandi upplýsingar í deiliskipulagi, hagsmunaröskun vegna vegalagningar o.fl.  Hreppsnefnd tók málið fyrir á fundi hinn 23. ágúst 2000 og tók afstöðu til framkominna athugasemda en gerði ekki aðrar breytingar á deiliskipulagstillögunni en þá að fella út aðkomu frá fyrirhuguðum vegi að býlinu Reykási þar sem einn kærenda býr.  Skipulagstillagan var síðan send Skipulagsstofnun til umfjöllunar sem lagðist ekki gegn birtingu hennar eftir að hafa farið yfir athugasemdir kærenda sem stofnuninni höfðu verið sendar.  Tilkynning um gildistöku skipulagstillögunnar var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. október 2000.  Kærendur undu ekki þeim málalyktum og kærðu samþykkt deiliskipulagsins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinar.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þeirra athugasemda sem þeir gerðu við kynningu hins kærða deiliskipulags er settar eru fram í ellefu liðum.  Í fyrsta lagi mótmæla kærendur fyrirhuguðum vegi um land jarðarinnar Reykjabakka þar sem einn kærenda búi.  Umræddur vegur muni í engu þjóna ábúendum jarðarinnar en hins vegar valda slysahættu og raska hagsmunum ábúenda verulega þar sem fyrirhugað sé að vegurinn liggi um 6 metra frá kæligeymslu, um trjárækt og matjurtagarða býlisins.  Með þessari vegalagningu sé brotið gegn reglum grenndarréttar.  Bent er á að aðalskipulagsuppdráttur sá sem hangið hafi uppi til kynningar sé ekki sá sami og samþykktur hafi verið sem aðalskipulagsuppdráttur árið 1994 auk þess sem misræmi sé milli aðal- og deiliskipulags hvað varði legu sumra vega og hafi kærendur hafnað fyrirhugaðri aðkomu að Reykási.  Deiliskipulagið sé ófullkomið að því leyti að þar komi ekkert fram um frárennsli frá væntanlegri byggð, alla hæðarkóta vega og húsa vanti og ekki sé getið um ráðstafanir vegna leysingavatns.  Þá vísa kærendur til þess að í deiliskipulaginu séu mörk milli fasteigna Sigurðar Tómassonar og Þóru Tómasdóttur, Reykjarbakka, röng.  Loks benda kærendur á að fyrirhugað íbúðarsvæði á Bakkatúni virðist vera átylla til að réttlæta kostnaðarsaman veg fyrir Hverabakka og Grafarbakka en fyrir hendi séu einfaldari og ódýrari lausnir í því efni.  Hreppsnefnd hafi ekkert tillit tekið til framkominna athugasemda kærenda að öðru leyti en því að fallið hafi verið frá fyrirhugaðri aðkomu að Reykási og því allt á huldu um með hvaða hætti kærandi sem þar búi komist að heiman og heim.

Málsrök Hrunamannahrepps:  Sveitarstjórn Hrunamannahrepps var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en greinargerð af hennar hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.  Svör sveitarstjórnar við framkomnum athugasemdum kærenda við kynningu skipulagsins voru þau að ekki sé fallist á að umdeildur vegur muni hafa í för með sér slysahættu.  Hann sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og hafi þann tilgang að tengja bæina Reykjabakka, Hverabakka, Grafarbakka og Laxárbakka við þéttbýlið á Flúðum og eigi jafnframt að þjóna fyrirhugaðri íbúðabyggð á Bakkatúni.  Við meðferð aðalskipulagstillögu svæðisins á sínum tíma hafi verið gerðar óverulegar breytingar á kynntum uppdrætti  vegna framkominna ábendinga sem ekki hafi gefið tilefni til, að mati hreppsnefndar og Skipulagsstofnunar, að auglýsa skipulagið að nýju.  Af þeim sökum víki staðfestur aðalskipulagsuppdráttur í óverulegum mæli frá uppdrætti þeim sem upphaflega hafi verið kynntur.  Þá séu frávik varðandi vegstubba milli aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags óveruleg ef nokkur og hafi ekki efnislega þýðingu í máli þessu.  Vegurinn að Reykjabakka sé í samræmi við gildandi aðalskipulag en fallist hafi verið á að fyrirhuguð tenging frá nýja veginum að heimreið bæjarins við grænmetisgeymslu verði ekki gerð fyrr en þörf sé á vegna annarra framkvæmda og felld verði út tenging frá veginum að Reykási vegna framkominna mótmæla.  Ekki sé fallist á að í deiliskipulagi þurfi að koma fram upplýsingar um frárennsli frá væntanlegri byggð, ráðstafanir vegna leysingarvatns eða hæðarkóta húsa og vegar.  Þá ákvarði skipulag ekki landamerki.  Bendir hreppsnefnd á að umdeilt deiliskipulag hafi verið kynnt hagsmunaðilum á fundi á sínum tíma og hafi árum saman verið unnið að skipulagstillögunni og ýmsir aðilar komið að þeim málum, s.s. Skipulag ríkisins.  Skipulagstillagan og sú lega vegar sem þar sé mörkuð sé niðurstaða hreppsnefndar að loknu löngu undirbúnings- og skipulagsferli.

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort þeir form- eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að ógildingu varði en aðalskipulagsuppdráttur fyrir Flúðir frá árinu 1994 sætir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar þar sem hann er staðfestur af ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds.  Hefur úrskurðarnefndin áður skorið úr um hliðstæð álitaefni, síðast með úrskurði í máli nr. 22/2003, uppkveðnum 20. nóvember 2003.

Fyrir liggur að í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir vegi austan og norðan við þéttbýlið á Flúðum rétt austan við grænmetisgeymslu jarðarinnar að Reykjabakka og íbúðabyggð austan vegarins.  Deiliskipulag það sem um er deilt í kærumáli þessu tekur til umrædds vegar og íbúðarbyggðarinnar austan hans.  Við samanburð á skipulagsuppdráttunum verður að hafa í huga að umræddur aðalskipulagsuppdráttur er í mælikvarða 1:10.000 svo sem heimilt var skv. grein 3.6 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 318/1985 og verður því ekki gerð krafa um að áætluð lega vega og önnur atriði séu mörkuð með nákvæmni á slíkum uppdrætti.  Eðli máls samkvæmt verður að gefa deiliskipulagi nokkurt olnbogarými við nánari útfærslu fyrirhugaðra mannvirkja í aðalskipulagi, enda fer þá fram frumhönnun og tæknileg útfærsla mannvirkja sem getur kallað á einhverja hliðrun.  Deiliskipulagsuppdráttur skal að jafnaði vera í mælikvarðanum 1:2.000-1:500 skv. 4. mgr. gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og fram kemur í ákvæði reglugerðarinnar nr. 5.4.1 að skipulagsskilmálar deiliskipulags feli í sér bindandi útfærslu stefnu og ákvæða aðalskipulags fyrir viðkomandi skipulagssvæði.  Með hliðsjón af þessu verður ekki annað ráðið af samanburði aðalskipulagsuppdráttar og deiliskipulagsuppdráttar en að samræmi sé milli aðal- og deiliskipulags.

Kærendur halda því fram að umdeildu skipulagi sé að formi til í ýmsu áfátt og nefna til sögunnar að þar sé ekki að finna upplýsingar um frárennsli, hæðarkóta vegna húsa og vegar eða um ráðstafanir vegna leysingarvatns, auk þess sem mörk milli fasteigna tveggja kærenda séu röng á uppdrætti. 

Ekki er að finna ákvæði í skipulags- og byggingarlögum eða skipulagsreglugerð sem kveða á um fortakslausa skyldu til þess að sýna í deiliskipulagi lagnir vegna frárennslis og leysingarvatns eða hæðarkóta.  Slík atriði eru hins vegar sýnd á lóða- og mæliblöðum sem útbúin eru við upphaf framkvæmda.  Samkvæmt 4. mgr. greinar 5.1.2 í skipulagsreglugerð 400/1998 skal sýna lóðamörk á deiliskipulagsuppdrætti.  Ágreiningur er milli kærenda og sveitarstjórnar um hvort tiltekin lóðamörk á umdeildum deiliskipulagsuppdrætti séu röng en engin gögn hafa verið færð fram af hálfu málsaðila er renni stoðum undir skoðanir þeirra.  Skipulagsáætlunum er ekki ætlað að ákvarða skipan beinna eða óbeinna eignarréttinda og eiga deilur í því efni ekki undir úrskurðarnefndina heldur verður að leysa úr slíkum ágreiningi fyrir dómstólum.

Kærendur benda loks á að þeir efnisannmarkar séu á umdeildu deiliskipulagi að fyrirhugaður vegur raski verulega hagsmunum kærenda, hann liggi yfir land þeirra rétt við kæligeymslu og matjurtarækt, en þjóni þeim í engu og auki slysahættu vegna umferðar.  Þá sé engin tillaga gerð um aðkomu að býli eins kærenda og því áhöld um hvernig hann komist að heiman og heim.   

Fyrir liggur að tilgangur títtnefnds deiliskipulags er að tengja nokkur býli og fyrirhugaða byggð við þéttbýlið að Flúðum.  Liggja því málefnaleg rök að baki deiliskipulagsákvörðuninni og verður ekki annað ráðið en lega umdeilds vegar markist af tilgangi þeim sem honum er ætlað að þjóna.  Deiliskipulagsuppdrátturinn ber með sér að gert er ráð fyrir núverandi aðkomu að Reykási svo býlið verði áfram í vegasambandi þótt fallið hafi verið frá tengingu þess við fyrirhugaðan veg vegna mótmæla kærenda.  Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og er í lögunum gert ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á fasteignarréttindum.  Í 1. mgr. 32. gr. laganna er sveitarstjórnum veitt eignarnámsheimild, með leyfi ráðherra og að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, þegar sveitarstjórn er nauðsyn á, vegna áætlaðrar þróunar sveitarfélagsins og samkvæmt staðfestu aðalskipulagi, að fá umráð fasteignarréttinda.  Þá er í 33. gr. laganna gert ráð fyrir að ef gildistaka skipulags hafi í för með sér að verðmæti fasteignar lækki eða nýtingarmöguleikar hennar rýrni frá því sem áður var geti sá sem sýni fram á tjón krafið sveitarsjóð um bætur eða innlausn fasteignar.  Samkvæmt þessu þarf það ekki að raska gildi skipulagsáætlana þótt þær gangi á eignarrétt manna.  Það er hins vegar ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til bótaréttar vegna gildistöku skipulagsáætlana, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir ekki hafa verið sýnt fram á þá annmarka á umdeildu deiliskipulagi sem leitt gætu til ógildingar þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 24. ágúst 2000, að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðabyggð á Bakkatúni, Flúðum, Hrunamannahreppi, er hafnað.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

59/2001 Stigahlíð

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2001, kæra tveggja íbúa við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. nóvember 2001 um að veita byggingarleyfi er fól m.a. í sér heimild til að reka atvinnustarfsemi í  einbýlishúsinu að Stigahlíð 93.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2001, sem barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f. h. G Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. nóvember 2001 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Stigahlíð 93, að því er varðar heimild fyrir atvinnustarfsemi í húsinu.  Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 15. nóvember 2001.  Kærendur gera þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi að því er varðar heimild fyrir breyttri notkun hússins.

Málavextir:  Fasteignin að Stigahlíð 93 í Reykjavík er einbýlishús sem stendur við botngötu þar sem eingöngu eru fyrir einbýlishúsabyggð.  Í gildi er deiliskipulagsuppdráttur fyrir svæðið frá árinu 1961 er ber yfirskriftina „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi.“  Uppdrátturinn sýnir legu gatna á skipulagsreitnum, lóðir og byggingarreiti, en honum fylgir ekki greinargerð.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2001, tilkynnti byggingarleyfishafi nágrönnum sínum um framkvæmdir við fasteignina að Stigahlíð 93 og upplýsti m.a. um fyrirhugaða breytingu á notkun hússins.  Var það upplýst að fyrirhugað væri að reka þar teiknistofu auk þess sem fasteignin yrði nýtt til íbúðar.

Hinn 12. júlí 2001 barst embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík símbréf frá lögmanni kærenda þar sem m.a. var farið fram á stöðvun framkvæmda við breytingar á húsinu nr. 93 við Stigahlíð.  Voru gerðar athugasemdir við breytingar á lóð hússins er fólust í gerð bílastæða og fyrirhugaða nýtingu þess til atvinnustarfsemi.  Byggingarfulltrúi tilkynnti ákvörðun sína um stöðvun framkvæmda við fasteignina með bréfi, dags. 17. júlí 2001, og var sú ákvörðun byggð á 1. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, þar sem ekki hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.

Sótt var um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni hinn 19. júlí 2001 er fólu í sér lítils háttar stækkun og útlitsbreytingar á húsi og framkvæmdum á lóð ásamt fjölgun bílastæða í þrjú.  Var umsóknin tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. júlí s.á. en afgreiðslu frestað og erindinu vísað til umsagnar Borgarskipulags vegna fyrirhugaðrar atvinnustarfsemi.  Í umsögn lögfræðings Borgarskipulags um málið, dags. 30. ágúst 2001, komu fram efasemdir um að umsótt breyting á notkun hússins að Stigahlíð 93 væri í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar og aðalskipulags um landnotkun á íbúðarsvæðum.  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 31. ágúst 2001 var tekið undir skoðun þá er fram kom í greindri umsögn.

Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. október 2001 og var svofelld bókun gerð af hálfu meirihluta nefndarinnar:

„Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu sem samræmast skipulagsskilmálum. Óheimilt er að gera fleiri en tvö bílastæði á lóðinni. Húseigandi skal, áður en byggingarleyfi verður veitt skila inn uppdráttum þar sem hann afmarkar lóðina við götu með svipuðum hætti og gert hefur verið annars staðar í hverfinu.

Hvað varðar atvinnustarfsemi í húsinu er vitnað til bls. 27 í greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur en þar stendur: „Á íbúðasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði*. Þar mega þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi, enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar. Þjónustulóðir og opin svæði sem eru 1500m² eða minni fá ljósgráan lit íbúðasvæða.“

„*Einbýlishús, fjölbýlishús, stakar íbúðir, íbúðir aldraðra, dvalarheimili fyrir aldraða, íbúðir stúdenta, sambýli fatlaðra, heimili fyrir börn og unglinga og annað útirými.“

Skipulags- og byggingarnefnd telur að umrædda auglýsingastofu beri að skilgreina sem vinnustofu sem kalli ekki til sín óeðlilega mikla umferð og samþykkir starfsemi hennar í húsinu.

Nefndin gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og tillögu Reykjavíkurlista.

Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“

Minnihluti nefndarinnar bókaði eftirfarandi um afstöðu sína til málsins:
        
„Með samþykkt sinni er meirihluti skipulags- og byggingarnefndar að heimila rekstur fyrirtækis/fyrirtækja í íbúðarhúsi sem stendur við þrönga húsagötu. Gert er ráð fyrir að 5 manns starfi þar og starfsemin mun því augljóslega valda töluverðri viðbótarumferð. Bílastæðamál eru óleyst. Afar hæpið verður að telja að umrædd starfsemi samrýmist þeim skipulagsskilmálum, sem um hverfið gilda. Við greiðum því atkvæði gegn þessari tillögu.“

Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu meirihluta skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum hinn 18. október 2001.  Byggingarleyfisumsóknin, þar sem gert var ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð í stað þriggja í fyrri umsókn, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. nóvember 2001.  Sú afgreiðsla var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. nóvember s.á. og staðfest í borgarstjórn hinn 15. nóvember 2001.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og  að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja ógildingarkröfu sína á því að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ábótavant.  Kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á því að koma að athugasemdum sínum áður en byggingaryfirvöld hafi tekið hina umdeildu ákvörðun.  Umsögn Borgarskipulags í málinu hafi ekki verið kynnt kærendum og hafi þeim ekki verið um hana kunnugt fyrr en þeim hafi verið tilkynnt um afgreiðslu byggingarleyfisins með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. nóvember 2001.  Í ljósi þess, að kærendur hefðu kært umdeildar framkvæmdir að Stigahlíð 93 til byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2001, verði að telja þessa málsmeðferð fela í sér brot á andmælarétti kærenda sem þeim sé tryggður í stjórnsýslulögum.

Í bréfi eigenda fasteignarinnar að Stigahlíð 93 til nágranna frá 11. júlí 2001 komi fram að fyrirhugað sé að nýta húsið til íbúðar auk atvinnurekstrar.  Hálfu ári eftir að byggingarleyfishafi hafi keypt umrædda fasteign, hafi enginn búið í húsinu eða verið skráður þar til heimilis, en húsið eingöngu nýtt undir atvinnustarfsemi og rekstraraðilinn einn skráður eigandi þess.  Ekki verði séð að byggingaryfirvöld hafi gengið úr skugga um hverjar væru raunverulegar fyrirætlanir um nýtingu hússins og megi ætla að afstaða byggingaryfirvalda til umræddrar byggingarleyfisumsóknar hefði orðið önnur ef fyrir hefði legið að húsið yrði eingöngu nýtt undir atvinnurekstur svo sem af öllum málsatvikum megi ráða.

Þá telja kærendur hina kærðu ákvörðun efnislega ranga og andstæða aðalskipulagi og skipulagsreglugerð.  Fram komi í fyrirliggjandi umsögn lögfræðings Borgarskipulags að í aðalskipulagi sé fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðarsvæðum.  Þar megi þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi sem valdi ekki nágrönnum ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.  Grein 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 geri sömu kröfur til atvinnu- og þjónustustarfsemi í íbúðarbyggð sem einkum sé ætluð til að sinna þörfum íbúa hverfisins.  Þá segi í grein 4.2.2 að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð skuli valinn staður þannig að hvorki valdi hættu né óþægindum vegna umferðar eða annars ónæðis.

Bent sé á að húsið að Stigahlíð 93 standi innarlega í mjórri húsagötu efst við Stigahlíðina þar sem engin bílastæði séu við götu heldur aðeins inni á lóðum húsa og í götunni búi fjölskyldur með börn.  Umferð um götuna hafi hingað til einungis stafað frá íbúum hennar og gestkomandi.  Fyrir liggi að við umdeildan rekstur auglýsingastofu í húsinu að Stigahlíð 93 muni starfa a.m.k. fimm starfsmenn og sé sú starfsemi ekki þess eðlis að hún einskorðist við íbúa hverfisins.  Umferð um hverfið muni aukast vegna starfseminnar og verða meiri en ef húsnæðið væri notað til íbúðar og sé sú þegar raunin.  Starfsmenn aki daglega í og úr vinnu og auk þess megi búast við að þeir þurfi að aka til og frá vinnustað til að sinna erindum utan vinnustaðar.  Þá fylgi umferð þeim aðilum sem sæki þangað þjónustu.  Kærendur taki því undir umsögn Borgarskipulags frá 30. ágúst 2001 þar sem fram komi að umdeild starfsemi geti valdið nokkurri aukningu á umferð og skapað bílastæðavandamál á svæðinu.  Þar komi og fram að vegna aðstæðna á svæðinu, m.a. þar sem um hreina íbúðarbyggð sé að ræða í botngötu með engum almenningsbílastæðum, geti umdeild starfsemi orðið nokkuð íþyngjandi gagnvart nágrönnum.  Sé því varla heimilt með tilliti til ákvæða skipulagsreglugerðar, landnotkunar aðalskipulags og gildandi deiliskipulags að samþykkja umsótta starfsemi í húsinu.  Geri kærendur þessi ályktunarorð lögfræðings Borgarskipulags að sínum.

Telja kærendur að form og efnisannmarkar þeir sem raktir hafi verið eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að því er varði heimild til atvinnustarfsemi í húsinu að Stigahlíð 93.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.

Vísað er til þess að á svæðinu sé í gildi deiliskipulag „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi“, sem samþykkt hafi verið í bæjarráði Reykjavíkur hinn 28. nóvember 1961.  Mat skipulags- og byggingaryfirvalda hafi því einungis lotið að því hvort umrædd umsókn væri í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins og hafi lyktir orðið þær að umdeild umsókn fæli ekki í sér frávik frá deiliskipulaginu og því engar forsendur til þess að grenndarkynna umsóknina skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Við meðferð umsóknarinnar hafi engu að síður legið fyrir  ítarleg greinargerð frá lögmanni kærenda með sjónarmiðum þeirra og hafi byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir á lóðinni að Stigahlíð 93 að kröfu lögmanns þeirra.  Við meðferð málsins hafi framkomin sjónarmið nágranna verið höfð til hliðsjónar eins og sjá megi af fundargerð afgreiðslufundar skipulagsstjóra hinn 31. ágúst 2001 og bókunum meiri- og minnihluta  skipulags- og byggingarnefndar frá 3. október s.á.  Verði því ekki fallist á, eins og málsatvikum sé háttað, að andmælaréttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn.

Í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og ódagsettum skilmálum frá Borgarverkfræðingnum í Reykjavík, fyrir úthlutun einbýlishúsalóða við Stigahlíð sé ekki kveðið nánar á um landnotkun eða starfsemi á svæðinu.  Um landnotkun fari því eftir ákvæðum Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016. Í því skipulagi sé svæðið tilgreint sem íbúðasvæði sem skilgreint sé á eftirfarandi hátt:

„… á íbúðasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar mega þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.“

Framangreinda skilgreiningu aðalskipulags beri að skilja á þann hátt að meginreglan sé sú að á íbúðasvæðum skuli fyrst og fremst vera íbúðarhúsnæði.  Líta verði þó svo á að skipulagsyfirvöldum sé heimilt, innan ákveðinna marka, að leyfa tiltekna atvinnustarfsemi sem valdi nágrönnum ekki ónæði umfram það sem almennt megi búast við á tilteknu svæði.  Takmörkunin geti því aðeins verið grenndarréttarlegs eðlis og háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni.  Þar af leiðandi verði að meta hvert tilvik fyrir sig, meðal annars að teknu tilliti til skipulags hverfisins, fyrirkomulags húsa, væntanlegrar umferðar, fjölda starfsmanna, tegundar starfsemi auk margra annarra þátta.  Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.2.1, sé íbúðasvæði skilgreint á sambærilegan hátt og í aðalskipulagi.

Byggingarleyfishafi hafi lýst því yfir að búið verði í húsinu og sé það í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti að húsinu, en samkvæmt þeim sé gert ráð fyrir teiknistofu auk íbúðar.  Byggingarleyfishafi og kona hans starfi bæði sem grafískir hönnuðir og reki teiknistofu sína í fasteigninni að Stigahlíð 93.  Auk þeirra starfi á teiknistofunni þrír starfsmenn.  Það geti ekki verið á valdsviði skipulags- og byggingaryfirvalda að fullvissa sig um að einstaklingar hafi búsetu á einhverjum ákveðnum stöðum né kanna það sérstaklega hvar þeir hafi lögheimili.  Byggingarleyfi taki einungis afstöðu til þess til hverra nota húsnæði sé ætlað og hafi verið samþykkt að í húsinu yrði íbúð auk vinnustofu.

Telja verði að óveruleg umferð fylgi umdeildri starfsemi og eigi hún ekki að valda öðrum íbúum óþægindum umfram það sem við megi búast með tilliti til stærðar hússins sem sé tæplega 400 fermetrar og gæti auðveldlega hýst töluvert stærri fjölskyldu en sem nemur þeim þremur starfsmönnum sem starfi á umræddri teiknistofu auk eigenda.  Benda megi á að fyrri eigandi hússins hafi verið með skrifstofu í húsinu til langs tíma.  Ekki sé óeðlilegt að rekin sé umfangslítil starfsemi samhliða búsetu í stærri húsum innan íbúðarhverfa svo sem skrif- og vinnustofur hönnuða, verkfræðinga og endurskoðenda.  Litið hafi verið svo á að slík starfsemi sé heimil í íbúðarhverfum valdi hún ekki óeðlilegu ónæði fyrir nágranna.

Með tilliti til ákvæða skipulagsreglugerðar og landnotkunar aðalskipulags verði að telja að borgaryfirvöld hafi óskoraða heimild til að meta það hvort umrædd starfsemi í húsinu sé þess eðlis að hún hafi íþyngjandi áhrif gagnvart íbúum götunnar.

Í ljósi framangreinds, þar sem fyrir liggur mat meirihluta skipulags- og byggingarnefndar að umþrætt byggingarleyfi hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði gildandi skipulags og skipulagsreglugerðar um atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum sé ekki efni til að raska hinni kærðu ákvörðun.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á því að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en greinargerð um það efni hefur ekki borist nefndinni.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér heimild til ýmis konar breytinga á húsi og lóð fasteignarinnar að Stigahlíð 93 í Reykjavík auk heimildar til breyttrar notkunar hússins, en í máli þessu er einungis deilt um það hvort heimild til nýtingar hluta hússins til atvinnustarfsemi hafi verið lögmæt.

Bæjarráð Reykjavíkur staðfesti hinn 28. nóvember 1961 skipulagsuppdrátt fyrir umræddan reit með yfirskriftinni „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi“.  Deiliskipulag þetta er í gildi skv. 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þótt skipulagið sé ófullkomið að því leyti, að  greinargerð skortir um nánari útfærslu uppdráttarins, ber nafngift hans og fyrirkomulag lóða, byggingarreita og bílastæða á uppdrættinum það með sér að gert hafi verið ráð fyrir hreinni einbýlishúsabyggð á skipulagssvæðinu svo sem raunin hefur orðið við uppbyggingu þess.

Byggingarleyfi, m.a. fyrir breyttri notkun húss, skal vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag skv. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Komi fram umsókn er víkur frá gildandi deiliskipulagi verður byggingarleyfi ekki veitt í samræmi við umsókn nema að lokinni deiliskipulagsbreytingu samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða eftir atvikum skv. 2. mgr. ákvæðisins ef um óverulega breytingu frá deiliskipulagi er að ræða. 

Vafi um ákvæði deiliskipulags um landnotkun á íbúðarsvæðum eða skortur á ákvörðun í því efni veitir sveitarstjórnum ekki, án breytingar á deiliskipulagi, heimild til að veita byggingarleyfi á grundvelli áætlaðrar landnotkunar aðalskipulags og skilgreiningar landnotkunarflokka í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Samkvæmt 2. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð skal í aðalskipulagi gera grein fyrir stærð og staðsetningu íbúðarsvæða en í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis kemur fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir notkun einstakra bygginga og byggingarhluta á íbúðarsvæðum sem ekki eru ætlaðir til íbúðar.  Verða reglugerðarákvæði þessi ekki skýrð á annan veg en þann að heimild til nýtingar húsnæðis á skipulögðum íbúðarsvæðum til annars en íbúðar verði að eiga stoð í gildandi deiliskipulagi.  Sú túlkun er jafnframt í samræmi við þá meginreglu skipulags- og byggingarlaga, að  byggingarleyfi skuli vera í samræmi við deiliskipulagsáætlanir, en einungis er heimilt að veita byggingarleyfi á grundvelli aðalskipulags á þeim svæðum sem þegar eru byggð en hafa ekki verið deiliskipulögð, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna.

Hin umdeilda ákvörðun, að heimila atvinnustarfsemi í húsinu nr. 93 við Stigahlíð, á ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þykir því verða að fella hina kærða ákvörðun um breytta notkun umrædds húss úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sú, að heimila atvinnustarfsemi í húsinu nr. 93 við Stigahlíð í Reykjavík, er fólst í byggingarleyfi sem samþykkt var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 6. nóvember 2001, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
       Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

76/2003 Ingólfsstræti

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2003, kæra Atla Gíslasonar hrl., sem eiganda 4. hæðar og f.h. eigenda 2., 3. og 5. hæðar auk rishæðar að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til þess að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara atvinnuhússins á lóð nr. 5 við Ingólfsstræti.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. desember 2003, sem barst nefndinn 16. s.m. kærir Atli Gíslason hrl., sem eigandi 4. hæðar og f.h. eigenda 2., 3. og 5. hæðar auk rishæðar að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til þess að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara atvinnuhússins á lóð nr. 5 við Ingólfsstræti.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 4. desember 2003.

Kærendur krefjast þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að hún verði ómerkt og að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að taka umsóknina til afgreiðslu á nýjan leik.  Loks krefjast kærendur þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málsatvik eru í stuttu máli þau að hinn 21. janúar 2003 sótti Eldhugi ehf. um byggingarleyfi til að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara hússins nr. 5 við Ingólfsstræti í Reykjavík.  Af málsgögnum verður ráðið að umsækjandi hafi vorið 2002 leitað afstöðu byggingaryfirvalda til erindisins og að jákvætt hafi verið tekið í erindið.  Þá liggur fyrir að deiliskipulag umrædds svæðis var tekið til endurskoðunar síðar á því ári og að þeirri endurskoðun lauk skömmu fyrir lok ársins 2002.

Framangreind umsókn var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. janúar 2003 og frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Málið var að nýju tekið fyrir hjá byggingarfulltrúa hinn 1. apríl 2003 og enn frestað.  Var umsækjanda m.a. bent á að leita umsagnar kærunefndar fjöleignarhúsamála um ágreining húseigenda um það hvort fyrirhuguð framkvæmd væri háð samþykki meðeigenda og að hvaða marki ef svo væri. 

Málinu var enn frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa hinn 8. apríl og 27. maí 2003 en á fundi hinn 23. september 2003 vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar.  Var á sama fundi lagt fram álit kærunefndar fjöleignarhúsamála þar sem nefndin lét í ljós það álit sitt að fyrirhuguð hagnýting eignarhluta álitsbeiðanda væri ekki háð samþykki annarra eigenda hússins.

Af hálfu Borgarskipulags var samþykkt að grenndarkynna umrædda umsókn fyrir nágrönnum og stóð kynning málsins yfir frá 1. til 30. október 2003.  Málið var að kynningu lokinni tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. nóvember 2003 og voru á fundinum m.a. lagðar fram fjölmargar athugasemdir sem borist höfðu.  Hinn 26. nóvember var málið tekið að nýju fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar og m.a. lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir.  Var umsóknin samþykkt með áskilnaði um samþykki heilbrigðiseftirlits, svo og um lokaúttekt byggingarfulltrúa og um prófun á hljóðvist staðarins.

Samþykkt þessi var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 4. desember 2003.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 11. desember 2003, svo sem að framan greinir.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hafa henni borist þrjár kærur frá nágrönnum þar sem sama ákvörðun er kærð og í máli þessu.  Ekki eru hins vegar hafðar uppi kröfur um stöðvun framkvæmda í umræddum málum og verða þau því ekki sameinuð máli þessu að svo stöddu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er í stuttu máli á því byggt að ekki hafi verið heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi nema með samþykki þeirra sem meðeigenda byggingarleyfishafa að fjöleignarhúsinu að Ingólfsstræti 5.  Telja þeir niðurstöðu kærunefndar fjöleignarhúsamála um þetta atriði ranga og benda á að álit kærunefndarinnar sé ekki bindandi við úrlausn málsins hjá úrskurðarnefndinni.  Þá halda kærendur því fram að hin kærða samþykkt sé í blóra við ákvæði aðal- og deiliskipulags um landnotkun o.fl.  Þá sé málsmeðferð áfátt, rannsókn m.a. ábótavant og svör við athugasemdum ófullnægjandi.  Fleiri atriði eru tilgreind sem ekki þykir ástæða til að tíunda á þessu stigi málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist í þessum þætti málsins að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað.  Sé ljóst að málsmeðferð umsóknar þeirrar sem kærð sé í málinu hafi verið til fyrirmyndar og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga.  Þar sem uppi hafi verið ágreiningur milli eigenda í umræddu húsi um það hvort samþykki annarra eigenda þyrfti fyrir starfseminni hafi byggingarfulltrúi óskað þess að ágreiningnum yrði skotið til kærunefndar fjöleignarhúsamála. Þá hafi verið óskað eftir greinargerð varðandi hljóðvist hússins.  Þegar álit kærunefndarinnar um að ekki þyrfti samþykki meðeigenda hafi legið fyrir ásamt umsögn um hljóðvist hússins hafi byggingarfulltrúi vísað umsókninni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Þrátt fyrir að til væri deiliskipulag af reitnum, sem leyfi starfsemi þá sem hin kærða samþykkt fjalli um, auk þess sem starfsemin samræmist aðalskipulagi, hafi umsóknin verið grenndarkynnt hagsmunaaðilum á reitnum. Hafi athugasemdunum verið svarað með ítarlegri umsögn skipulagsfulltrúa. 

Í ljósi umsagnar skipulagsfulltrúa hafi umsóknin verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 26. nóvember 2003 með fyrirvörum um að heilbrigðiseftirlit samþykkti frágang framkvæmdanna og að lokaúttekt byggingarfulltrúa færi fram á staðnum, þ.m.t. prófun á því hvort hljóðvistarkröfum hefði verið mætt.  Hafi borgarstjórn staðfest afgreiðslu nefndarinnnar á fundi sínum þann 4. desember sl. og hafi athugasemdaraðilum verið tilkynnt um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar og þeim leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar.

Öðrum sjónarmiðum kærenda er hafnað með rökstuðningi sem frekari grein verður gerð fyrir við efnismeðferð málslins.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi, dags. 18. janúar 2004, hefur Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir hdl. komið sjónarmiðum bygginarleyfishafa á framfæri við úrskurðarnefndina.  Krefst hún þess að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar séu í eign Eldhuga ehf. að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík eigi sér stoð í formlega gildu byggingarleyfi sem ekki hafi verið hnekkt.  Þá hafi kærendur ekki sýnt fram á formgalla á málsmeðferð né fært fram haldbær rök fyrir því að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Af hálfu byggingarleyfishafa er þeim málsástæðum sem fram koma í kæru alfarið hafnað.  Um þá málsástæðu kærenda að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að samþykkja hið kærða leyfi vegna ákvæða laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 vísist til niðurstöðu kærunefndar fjöleignarhúsamála í málinu nr. 33/2002.  Þá sé því alfarið hafnað að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 2/2002 hafi nokkurt fordæmisgildi í máli þessu enda hafi umsókn sú er um hafi verið deilt í því máli ekki hlotið málsmeðferð sambærilega þeirri sem hin kærða ákvörðun hafi fengið. Þá hafi ákvæði deiliskipulags þess reits sem til umfjöllunnar hefi verið í því máli um landnotkun verið allt önnur en gildi á þeim reit þar sem Ingólfsstræti 5 standi. 

Að öðru leyti sé vísað til þeirra málsástæðna og lagaraka sem fram komi í  umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. nóvember 2003, og greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 29. desember 2003.

Þá er að lokum á því byggt að byggingarleyfishafi eigi ríka hagsmuni því tengda að geta haldið áfram framkvæmdum sínum við breytta nýtingu eignarhlutans á næstu vikum svo honum verði fyrr unnt að hagnýta sér eignarhluta sinn sem fram að þessu hafi staðið ónýttur.  Verði að telja hagsmuni kærenda af því að framkvæmdir verði stöðvaðar til muna minni en hagsmuni byggingarleyfishafa af því að fá þeim fram haldið.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Hefur lögmaður byggingarleyfishafa m.a. áréttað sjónarmið sín með bréfi, dags. 28. janúar 2004.  Þá hafa stuttar athugasemdir borist frá talsmanni Reykjavíkurborgar með bréfi sem barst úrskurðarnefndinni fyrr í dag.  Verða röksemdir aðila ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingaryfirvalda um breytingu á innra fyrirkomulagi og notkun eignarhluta byggingarleyfishafa á 1. hæð og í kjallara að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík.  Bera kærendur brigður á fyrirliggjandi álit kærunefndar fjöleignarhúsa og telja hina umdeildu breytingu á notkun eignarhlutans háða samþykki sameigenda að húsinu.  Þá telja þeir vafa leika á um að hin kærða samþykkt eigi sér fullnægjandi stoð í skipulagi.  Fleira hafa kærendur til tekið en öllum málsástæðum þeirra og sjónarmiðum er hafnað af hálfu borgaryfirvalda og byggingarleyfishafa.

Úrskurðarnefndin telur að enda þótt fyrirhugaðar framkvæmdir séu í sjálfu sér ekki stórfelldar geti hin breytta notkun haft í för með sér ærna röskun á högum kærenda komi hún til framkvæmda.  Telur úrskurðarnefndin að þörf sé frekari rannsóknar á réttarstöðu kærenda sem sameigenda að umræddu fjöleignarhúsi og á skipulagslegum forsendum hinnar kærðu ákvörðunar.  Þykir svo mikill vafi leika á um lögmæti hennar að fallast beri á kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefur málið til meðferðar. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________       ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Ingibjörg Ingvadóttir