Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2005 Háteigsvegur

Ár 2005, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2005 um að veita leyfi fyrir byggingu einnar hæðar með þremur íbúðum og rishæðar með þremur íbúðum ásamt hanabjálka ofan á húsið að Háteigsvegi 3 í Reykjavík ásamt breytingu á notkun annarrar hæðar úr atvinnuhúsnæði í þrjár íbúðir, auk leyfis fyrir byggingu svala á austur- og norðurhlið hússins.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. október 2005, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kæra P og M, íbúar að Rauðarárstíg 41 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2005 að veita leyfi fyrir byggingu einnar hæðar með þremur íbúðum og rishæðar með þremur íbúðum ásamt hanabjálka ofan á húsið að Háteigsvegi 3 í Reykjavík ásamt breytingu á notkun annarrar hæðar úr atvinnuhúsnæði í þrjár íbúðir auk leyfis fyrir byggingu svala á austur- og norðurhlið hússins.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 22. september 2005.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við stækkun hússins þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærumáls þessa barst úrskurðarnefndinni hinn 24. október sl. ásamt gögnum, en kærunni fylgdi jafnframt fjöldi fylgiskjala.  Þykir málið enn ekki nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka það til efnisúrskurðar en framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi eru þegar hafnar. Verður hér því einungis tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og málið reifað samkvæmt því.

Málsatvik og rök:  Íbúð kærenda er í fjölbýlishúsi að Rauðarárstíg 41 sem stendur á bak við og norðan megin við húsið að Háteigsvegi 3, sem er tveggja hæða, en ekki liggur fyrir deiliskipulag er tekur til umræddra lóða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. mars 2005 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja tvær hæðir og ris auk hanabjálka ofan á húsið á lóðinni nr. 3 við Háteigsveg og var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa.  Skipulagsfulltrúi afgreiddi fyrirspurnina hinn 12. apríl 2005 á þann veg að ekki væri lagst gegn hækkun hússins um eina hæð og ris.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 5. júlí 2005 var byggingarleyfisumsókn, sem sniðin var að fyrrgreindri afstöðu skipulagsfulltrúa, tekin fyrir þar sem  jafnframt var sótt um leyfi til að breyta atvinnuhúsnæði á annarri hæð hússins í þrjár íbúðir og koma fyrir þremur íbúðum á þriðju hæð og þremur á fjórðu hæð og gerð svala á austur- og norðurhlið og að steina húsið að utan með ljósri steiningu.  Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Samþykkti skipulagsfulltrúi, á fundi sínum hinn 8. júlí 2005, að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Þverholti 30 og 32, Rauðarárstíg 41 og Háteigsvegi 1, 2, 4, 6 og 8.

Grenndarkynning stóð yfir frá 14. júlí til 11. ágúst 2005 og komu fram athugasemdir frá nágrönnum að Þverholti 30 og 32, Rauðarárstíg 41 og Háteigsvegi 4 þar sem kynntri umsókn var mótmælt.
 
Erindið var á næstu vikum til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum Reykjavíkur þar sem sjónum var einkum beint að fyrirhugaðri hækkun hússins og bílastæðamálum og urðu lyktir málsins þær að skipulagsráð samþykkti umsóknina fyrir sitt leyti hinn 14. september 2005 samkvæmt breyttum teikningum, dags. 8. september 2005, þar sem mænishæð hússins hafði verið lækkuð um 1,5 metra.  Var málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsóknina á fundi sínum hinn 20. september 2005 og staðfesti borgarráð þá ákvörðun hinn 22. sama mánaðar.

Kærendur bera fyrir sig að hækkun umrædds húss sé óhófleg og muni hindra birtuflæði og valda því að suðurhlið húss þeirra verði í stöðugum skugga.  Muni breytingin skerða nýtingarmöguleika og rýra verðgildi eigna þeirra.  Fjölgun bílastæða norðan við Háteigsveg 3 og aukin umferð allan sólarhringinn sem fylgi níu íbúðum muni valda auknum hávaða milli húsanna en til þessa hafi umferð vegna starfsemi að Háteigsvegi 3 aðeins verið að degi til.  Þá muni tvöfaldt fyrirkomulag á sorphirðu fyrir íbúðir annars vegar og atvinnuhúsnæði hins vegar auka á ónæðið.  Þá skilji kærendur það svo að lóðamörk að Háteigsvegi 1 og 3 verði að einhverju leyti opin og verði unnt að aka milli húsanna og muni ónæði gagnvart kærendum margfaldast.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur kröfu um stöðvun framkvæmda verið mótmælt.  Ítarleg grenndarkynning hafi átt sér stað á fyrirhuguðum framkvæmdum.  Umbeðin hækkun hússins að Háteigsvegi 3 sé í samræmi við næsta umhverfi og götumyndir Þverholts og Háteigsvegar og umferð muni ekki aukast að neinu ráði. Komið hafi verið til móts við framkomin andmæli á kynningartíma umsóknarinnar með því að  mænishæð umrædds húss hafi verið lækkuð um 1,5 metra frá kynntri tillögu og létt hafi verið á þaki austur- og vesturhliða, þannig að skuggavarps muni ekki gæta á neðri hæðum húss kærenda um miðjan dag á jafndægrum.  Grenndaráhrif heimilaðra framkvæmda séu ekki meiri en almennt megi búast við á miðborgarsvæði (sic), en geti kærendur sannað að svo sé yrði þeim bættur skaðinn skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendur hafi ekki bent á nein rök fyrir ógildingu umrædds byggingarleyfis en miklir hagsmunir séu í húfi fyrir leyfishafa að geta haldið áfram framkvæmdum.  Séu því ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kærenda en úrskurðarnefndinni hafa ekki borist andmæli hans við þeirri kröfu.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild hækkun hússins að Háteigsvegi 3 getur haft  töluverð grenndaráhrif gagnvart húsi kærenda í ljósi þess að húsin standa nálægt hvort öðru og húsið að Háteigsvegi 3 sunnanvert við hús kærenda.  Fyrirliggjandi gögn málsins eru nokkuð misvísandi um hvort lögmæltum kröfum um fjölda bílastæða sé fullnægt og ítarlegri gagna er þörf varðandi skuggavarp.  Þá eru áhöld um hvort heimiluð stækkun og notkunarbreyting sé þess eðlis að heimilt hafi verið að beita undanþáguheimild 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um grenndarkynningu í stað deiliskipulagsgerðar í samræmi við  meginreglu 2. mgr. ákvæðisins.  Nefnd atriði þurfa nánari skoðunar við en þau geta haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Í ljósi þessa þykir rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við stækkun hússins að Háteigsvegi 3 þar til efnisúrskurðar liggur fyrir í málinu en ekki þykja efni  til að stöðva framkvæmdir innanhúss sem heimilaðar hafa verið með hinu kærða byggingarleyfi, enda eru þær alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við stækkun hússins að Háteigsvegi 3 í Reykjavík, samkvæmt byggingarleyfi sem veitt var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 20. september 2005 og staðfest af borgarráði hinn 22. sama mánaðar, skulu stöðvaðar þar til efnisúrskurður gengur í kærumáli þessu.

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ásgeir Magnússon