Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2005 Hamrahlíð

Ár 2005, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2005, kæra fjögurra íbúa og eigenda fasteigna við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. október 2005 um að veita leyfi til þess að byggja tveggja hæða steinsteypta viðbyggingu við austurhlið Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir íþróttir ásamt ellefu kennslustofum og bókasafni.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. október 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hróbjartur Jónatansson hrl., f.h. Ó, Stigahlíð 50, Ó og Þ, Stigahlíð 56 og H, Stigahlíð 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til þess að byggja tveggja hæða steinsteypta viðbyggingu við austurhlið Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir íþróttir ásamt ellefu kennslustofum og bókasafni.  Krefjast kærendur þess í kærunni að framkvæmdir verði stöðvaðar en jafnframt hefur lögmaður þeirra áréttað í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. október 2005, að einnig sé gerð krafa um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Málsatvik og rök:  Málsatvik og málsrök aðila verða hér aðeins rakin stuttlega og að því marki sem nauðsynlegt þykir við úrlausn til bráðabirgða um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  

Mál þetta á sér þann aðdraganda að í ársbyrjun 2005 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð.  Bárust fjölmargar athugasemdir við tillöguna þar á meðal frá kærendum.  Var m.a. bent á að við sölu lóða við Stigahlíð hefði kaupendum verið kynnt deiliskipulag skólalóðarinnar, þar sem gert hefði verið ráð fyrir byggingum sunnan við núverandi skólahús.  Í ljósi þessara athugasemda munu borgaryfirvöld hafa látið fara yfir skipulagsmál lóðarinnar og kemur fram í umsögn borgaryfirvalda í máli þessu að þá hafi fundist nýrra deiliskipulag, frá árinu 1990, sem gert hafi ráð fyrir viðbyggingum austan við skólahúsið.  Í ljósi þessara nýju upplýsinga var ákveðið að auglýsa tillögu að breytingu á eldra deiliskipulagi.  Bárust enn athugasemdir frá nágrönnum.  Einhverjar breytingar munu hafa verið gerðar á tillögunni með hliðsjón af athugasemdum þeirra og var m.a. dregið úr skuggavarpi yfir á grannlóðir.  Var tillagan þannig breytt samþykkt í skipulagsráði og var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarráðs Reykjavíkur 7. júlí 2005.  Birtist auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda þann 29. ágúst 2005.  Skutu kærendur ákvörðun borgaryfirvalda um skipulagið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, og er það mál til meðferðar hjá nefndinni. 

Hinn 22. september 2005 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. september 2005.  Hefur úrskurðarnefndin, með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag, vísað því máli frá með þeim rökum að ekki hafi verið um fullnaðarákvörðun að ræða er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Byggingarleyfi það sem um er deilt í máli þessu var sem fyrr greinir gefið út af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 11. október 2005 og staðfest í borgarráði 13. sama mánaðar.  Telja kærendur að útgáfa téðs byggingarleyfis fari alfarið í bága við þá stöðu sem nú sé uppi vegna ágreinings um lögmæti deiliskipulags þess sem Reykjavíkurborg sé að reyna að knýja fram í mikilli óþökk kærenda, sem keypt hafi eignalóðir af borginni árið 1984 og goldið fyrir hátt verð á þeim forsendum að þágildandi skipulag myndi standa óbreytt.  Augljóst sé að fái byggingarleyfishafinn að hefja framkvæmdir samkvæmt áformum hins ólögmæta deiliskipulags á meðan ágreiningurinn sé til meðferðar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála muni það leiða til þess að hann knýji fram niðurstöðu sér í hag á þeim grundvelli að ekki verði hróflað við framkvæmdum sem þegar hafi risið á lóðinni.  Slík aðstaða sé algerlega óviðunandi og gangi gegn meginreglum stjórnsýslulaga, sem og skipulags- og byggingarlaga, enda við það miðað að ekki verði ráðist í byggingarframkvæmdir nema ótvíræður lagagrunnur sé til staðar fyrir þeim.  Svo sé hins vegar ekki, enda telji kærendur að ógilda beri skipulagsákvörðun þá sem byggingarleyfið styðjist við, þar sem henni sé stórlega áfátt bæði að formi og efni og gangi í berhögg við lögvarin eignarréttindi kærenda.  Bíði það mál úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu kærenda sé lögð á það áhersla að fasteignaréttindi þeirra grundvallist ekki á hefðbundnum leigulóðarréttindum, heldur sé um að ræða eignarlóðir sem geri réttarstöðu þeirra aðra en ella, sem m.a. lúti að þeim skuldbindingum sem Reykjavíkurborg hafi tekist á hendur gagnvart kærendum í samningum um kaupin á téðum lóðum.  Að öðru leyti sé vísað til sjónarmiða í máli kærenda um skipulagsákvörðun borgarinnar, sem sé undanfari máls þessa.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Telja borgaryfirvöld að ekki hafi verið sýnt fram á að form eða efnisgallar hafi verið á skipulagsákvörðun þeirri sem fyrirhugaðar framkvæmdir að Hamrahlíð 10 styðjist við og hafi hið kærða byggingarleyfi verið veitt í samræmi við skipulag og umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.  Endanlegum frágangi leyfa samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga sé og lokið.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt og vísað til þess að framkvæmdir eigi sér stoð í leyfi þar til bærs stjórnvalds.

Niðurstaða:  Sú meginregla gildir að stjórnsýslurétti að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar er kveðið á um að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæli með því.  Sérregla er í 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem segir að kærandi geti krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.

Skýra verður ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 um stöðvun framkvæmda þröngt með vísan til þess að í ákvæðinu felst undantekning frá meginreglu og með hliðsjón af því að með stöðvun framkvæmda er gripið inn í rétt leyfishafa samkvæmt stjórnvaldsleyfi sem ekki hefur verið hnekkt.  Verður almennt að beita umræddu réttarúrræði af varfærni.  Kemur helst til álita að beita því þegar sýnt þykir að frekari framkvæmdir muni raska réttarstöðu aðila kærumálsins. 

Í máli því sem hér um ræðir eru framkvæmdir við fyrri áfanga samkvæmt umdeildu skipulagi nýlega hafnar og tiltölulega skammt á veg komnar.  Á hinn bóginn er meðferð kærumálsins langt komið og er úrskurðar um gildi hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar að vænta áður en langt um líður.  Þykja ekki, eins og atvikum er hér háttað, efni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem hafnar eru að Hamrahlíð 10 í Reykjavík.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á lóð Menntaskólans í Hamrahlíð að Hamrahlíð 10 í Reykjavík.

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                 Ásgeir Magnússon