Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2006 Aðalskipulag Ak.

Með

Ár 2006, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2006, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 12. september 2006 á tillögu að Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2005-2018.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 12. október 2006, kærir Eyvindur G. Gunnarsson hrl., fyrir hönd Ötuls ehf., Viðjulundi 2, Akureyri, samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar á tillögu að Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2005-2018.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Með hinni kærðu ákvörðun mun m.a. landnotkun lóðar kæranda að Viðjulundi 2, Akureyri, hafa verið breytt úr athafnasvæði í íbúðabyggð en kærandi hafði mótmælt þeirri breytingu við kynningu tillögunnar.  Telur kærandi að málsmeðferð hinnar kærðu tillögu hafi verið ábótavant og gangi hún gegn hagsmunum hans.  Bendir kærandi jafnframt á að fyrir úrskurðarnefndinni liggi kæra hans frá árinu 2005 vegna synjunar bæjaryfirvalda á umsókn um uppbyggingu lóðarinnar að Viðjulundi 2.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   ___________________________         
                Hjalti Steinþórsson                          

 

      ____________________________               _____________________________
                    Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

51/2005 Bergstaðastr.

Með

Ár 2006, mánudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. júní 2005 um að hafna umsókn um hækkun þaks, byggingu kvista og svala og að taka í notkun rishæð í húsinu nr. 33b við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2005, er barst nefndinni sama dag, kæra L og  T, eigendur Bergstaðastrætis 33b, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. júní 2005 að hafna umsókn kærenda um hækkun þaks, byggingu kvista og svala og að taka í notkun rishæð í greindri fasteign kærenda.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málsatvik og rök:  Að lokinni grenndarkynningu var umsókn kærenda um breytingar og hækkun hússins að Bergstaðastræti 33b tekin fyrir á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 1. júní 2005.  Var umsókninni synjað með vísan til þess að nágrannar hefðu andmælt erindinu en samþykki þeirra væri skilyrði fyrir samþykkt umsóknar vegna fjarlægðar milli húsa.

Kærendur skutu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og boðuðu í kærunni gögn og rökstuðning fyrir máli sínu.  Var afturköllun kærunnar boðuð ef málið yrði endurupptekið og fengi löglega meðferð.  Borgaryfirvöld hafa upplýst að kærendur hafi fengið málið tekið fyrir á ný hjá byggingarfulltrúa hinn 25. október 2005, sem hafi  samþykkt umsóknina, og hafi sú afgreiðsla verið staðfest í borgarráði hinn 27.október s.á..

Niðurstaða:   Fyrir liggur að kærendur hafa fengið leyfi hjá borgaryfirvöldum fyrir umbeðnum breytingum á húsinu að Bergstaðastræti 33b í Reykjavík sem synjað hafði verið um með hinni kærðu ákvörðun.  Hin kærða ákvörðun hefur því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.

Með vísan til framanritaðs og þar sem kærumál þetta hefur ekki verið afturkallað verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

        ___________________________          
 Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

61/2004 Miðvangur

Með

Ár 2006, mánudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2004, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Austur- Héraðs frá 23. september 2004 um að heimila breytt innra skipulag og breytta notkun kjallara fasteignarinnar að Miðvangi 1-3, Egilsstöðum, ásamt því að fjarlægja stiga milli kjallara og fyrstu hæðar hússins, loka stigagati með steinsteypu og bæta við gluggum á norðurhlið.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. október 2004, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Ragnheiður M. Ólafsdóttir hdl., f.h. Í ehf. og H, eigenda að eignarhlutum í fasteigninni að Miðvangi 1-3, Egilsstöðum, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Austur-Héraðs frá 23. september 2004 að heimila breytt innra skipulag og breytta notkun kjallara fasteignarinnar að Miðvangi 1-3 ásamt því að fjarlægja stiga milli kjallara og fyrstu hæðar hússins, loka stigagati með steinsteypu og bæta við gluggum á norðurhlið.  Ákvörðunin var staðfest í umhverfisráði sveitarfélagsins hinn 28. september 2004. 

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Var jafnframt gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en í ljósi þess að framkvæmdum var lokið í kjölfar þess að kæra barst þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu. 

Málavextir:  Með eignaskiptayfirlýsingu, dags. 26. febrúar 1997, var fasteigninni að Miðvangi 1-3 skipt upp í níu eignarhluta.  Í yfirlýsingunni segir m.a. að í kjallara hússins sé verslun með kvöð um umgengi milli útidyra í norðvestur horni og stiga upp á fyrstu hæð og skuli gangvegur fullnægja skilyrðum byggingaryfirvalda á hverjum tíma.  Með kaupsamningi, dags. 15. júní 2004, varð byggingarleyfishafi eigandi að kjallara Miðvangs 1-3.  Samkvæmt greindri eignaskiptayfirlýsingu var hlutfallstala hins selda séreignarhluta 33,93% í húsi og lóð en 15,8% í svonefndum Perlusal, sem mun vera rými það sem greindur stigi lá að á fyrstu hæð hússins. 

Hinn 22. september 2004 var haldinn fundur í húseigendafélagi Miðvangs 1-3 þar sem fyrir lá að ræða fyrirhugaðar breytingar á notkun kjallara hússins í prentsmiðju og lágu fyrir fundinum teikningar að fyrirhuguðum breytingum.  Samkvæmt fundargerð voru 44,67% eigenda mótfallnir því að gera breytingar á eignarskiptayfirlýsingu en eigendur að 32,77% eignarhlutum móttfallnir prentsmiðjurekstri í húsinu.  Aðrir eigendur voru ekki sagðir setja sig upp á móti breytingunum svo framanlega sem þær hefðu ekki í för með sér óásættanlega röskun í húsinu. 

Byggingarfulltrúi Austur-Héraðs samþykkti hið kærða byggingarleyfi „að uppfylltum skilyrðum laga og reglugerða“ á afgreiðslufundi hinn 23. september 2004 og var sú afgreiðsla staðfest á fundi umhverfisráðs hinn 28. september sama ár. 

Eftir að kæra í máli þessu barst, eða hinn 18. nóvember 2004, óskaði byggingarleyfishafi eftir því við byggingarfulltrúa að heimild í umræddu byggingarleyfi fyrir gluggum yrði felld niður og féllst byggingarfulltrúi á það á afgreiðslufundi hinn 3. desember 2004. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að óheimilt hafi verið að gefa út umdeilt byggingarleyfi þar sem samþykki allra eigenda fasteignarinnar að Miðvangi 1-3 skorti, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þeir hafi verið mótfallnir umsóttum breytingum en þeir fari með 44,67% atkvæða í húsfélaginu að Miðvangi 1-3 í skjóli eignarhluta sinna. 

Samkvæmt 16. og 18. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 þurfi samþykki allra eigenda til þeirra breytinga er greint byggingarleyfi heimili.  Í eignaskiptayfirlýsingu komi skýrt fram að í kjallara hússins sé verslunar- og skrifstofuhúsnæði og kvöð sé um umgengi milli útidyra í norðvestur horni og stiga upp á fyrstu hæð.  Þá sé áskilið í 19. gr. laganna að samþykki allra eigenda þurfi fyrir verulegum breytingum á sameign en brottnám sameiginlegs stiga og lokun stigagats sé slík breyting. 

Athugasemdir af hálfu bæjaryfirvalda eða byggingarleyfishafa vegna kærumáls þessa hafa ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi var staðfest á fundi umhverfisráðs Austur-Héraðs hinn 28. september 2004 og var fundargerð ráðsins lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 6. október sama ár.  Fundargerð þess fundar ber með sér að fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 23. september 2004 var ekki staðfest af bæjarstjórn. 

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna.  Sveitarstjórnum er heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af umhverfisráðherra, sem fer með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála skv. lögunum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. 

Ekki liggur fyrir, þrátt fyrir eftirgrennslan, að staðfest og birt samþykkt skv. nefndri 4. mgr. 40 gr. skipulags- og byggingarlaga hafi verið í gildi er hin kærða ákvörðun var tekin og er því, að mati úrskurðarnefndarinnar, ekki fyrir hendi viðhlítandi heimild til þess að víkja frá fyrrgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfum. 

Af framangreindum ástæðum hefur hið kærða byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna staðfestingu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfisins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                           Ásgeir Magnússon

49/2006 Aðalskipulag

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2006, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Leirár- og Melahrepps frá 25. maí  2006 á tillögu að Aðalskipulagi Leirár- og Melahrepps 2002-2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2006, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir Björn Jónsson hrl., fyrir hönd Á og Ö, eigenda jarðarinnar Leirár í Borgarfirði,  samþykkt sveitarstjórnar Leirár- og Melahrepps frá 25. maí 2006 á tillögu að Aðalskipulagi Leirár- og Melahrepps 2002-2014.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 25. maí 2006 mun sveitarstjórn Leirár- og Melahrepps, nú Hvalfjarðarsveitar, hafa samþykkt tillögu að aðalskipulagi hreppsins fyrir 2002-2014.  Á kynningartíma tillögunnar gerðu kærendur athugasemdir við að sá hluti Leirárdals er tæki til lands þeirra yrði gert að fjarsvæði og 100 metra breitt svæði austanvert við Leirá yrði gert að grannsvæði vatnsbóla.  Þá var  farið fram á að nánar tilgreint svæði yrði gert að frístundabyggð.  Var óskum kærenda hafnað af hálfu sveitarstjórnar og framkomnar athugasemdir leiddu ekki til breytinga á umræddri aðalskipulagstillögu.  Telja kærendur aðalskipulagið þrengja með ólögmætum og bótaskyldum hætti nýtingarmöguleika á landareign þeirra og væri samþykkt þess jafnframt brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Vísaði sveitarstjórn til þess að ekki lægi fyrir ósk allra sameigenda að landi fyrir heimild til frístundabyggðar og ákvörðun um grannsvæði væri til varnar vatnslindum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild aðalskipulagstillaga hefur ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í nefndu lagaákvæði er einnig kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________         
            Hjalti Steinþórsson                          

 

 

_______________________________     ____________________________ 
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

17/2006 Fellabrekka

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 7. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2006, kæra vegna breytinga á legu Fellabrekku, Grundarfjarðarbæ, er fela í sér að gatan verði gerð að botngötu, hún færð til suðurs og hækkuð í landi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. mars 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 7. sama mánaðar, kæra F og S, Fellasneið 10, Grundarfirði, breytingar á legu Fellabrekku, Grundarfjarðarbæ, er fela í sér að gatan verði gerð að botngötu, hún færð til suðurs og hækkuð í landi. 

Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að ákvörðun fyrir hinum kærðu framkvæmdum, er fólst í bókun umhverfisnefndar Grundarfjarðar frá 19. september 2005, er bæjarstjórn staðfesti hinn 29. sama mánaðar, verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að kveðinn yrði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu en úrskurðarnefndin hafnaði þeirri kröfu með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 11. apríl 2006. 

Málavextir:  Á árinu 1985 tók gildi aðalskipulag fyrir Grundarfjörð þar sem gert var ráð fyrir að gatan Fellabrekka næði að vestustu byggð við Grundargötu og tengdist henni.  Sama ár mun hafa tekið gildi deiliskipulag fyrir Hjaltalínsholt, sem var að þessu leyti í samræmi við fyrrgreint aðalskipulag.  Deiliskipulagið hafði að geyma heimild fyrir byggingu tveggja hæða húsa þar sem landhalli lóða leyfði.  Mun uppbygging svæðisins hafa hafist um 1990. 

Við endurskoðun aðalskipulags Grundarfjarðar á árinu 2003 var áfram gert ráð fyrir framlengingu Fellabrekku en horfið frá tengingu við Grundargötu og götunni breytt í botngötu. 

Á fundi umhverfisnefndar Grundarfjarða hinn 19. september 2005 var kynnt hönnun nýrrar botngötu fyrir lóðirnar að Fellabrekku 7-19 og var á fundinum gerð svofelld bókun:  „…umhverfisnefnd líst mjög vel á þau hönnunargögn sem byggingarfulltrúi kynnti og óskar eftir að verkið verði fullhannað og auglýst til útboðs. Byggingarfulltrúi sagði frá því að til stæði að halda kynningarfund með íbúum Grundargötu 65 ,67 og 69 í næstu viku.“  Var fundargerðin staðfest í bæjarstjórn hinn 29. september 2005. 

Fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar á fundum með íbúum að Grundargötu hinn 11. nóvember 2005 og með íbúum að Fellasneið og Hellnafelli 17. nóvember s.á.  Fram komu fyrirspurnir og athugasemdir við fyrirhugaða gatnaframkvæmd og var þeim athugasemdum svarað með bréfum skipulags- og byggingarfulltrúa og á fundum fyrirspyrjanda og fulltrúa bæjaryfirvalda í febrúarmánuði 2006  Leiddu þau samskipti ekki til breytinga á umdeildri götuframkvæmd og kærðu nokkrir íbúar framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar, en aðrir en framangreindir kærendur hafa fallið frá kæruaðild sinni í málinu.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja málskot sitt á því að umdeild gatnaframkvæmd feli í sér að Fellabrekka verði hækkuð um 1,5 metra við austurenda nýrrar botngötu og um 0,8 metra þar sem hún endi til vesturs.  Lóðarhafar við Fellasneið og Hellnafell hafi samkvæmt gildandi skipulagi mátt treysta því að tveggja hæða hús sem ráðgerð hafi verið við Fellabrekku, neðan við Fellasneið, gætu ekki skert útsýni frá eignum þeirra svo nokkru næmi, en helstu gæði lóðaanna vegna staðsetningar sé mikilfenglegt útsýni.  Fyrirhuguð hækkun umræddrar götu, sem leiði til samsvarandi hækkunar fyrirhugaðra húsa við götuna, muni skerða verulega útsýni frá fasteign kærenda.  Ákvörðun um framkvæmdina sé ekki í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Sveitarstjórn ákveði nú að breyta götu frá gildandi deiliskipulagi í botngötu og færa hana um breidd sína til suðurs og hækka um 0,8-1,5 metra og með því skerða útsýni íbúa sem hafi fengið lóðir skv. deiliskipulagsskilmálum sem nú standi til að víkja frá.  Grenndarkynning framkvæmda hafi verið í skötulíki og upplýsingar ekki fengist nema með eftirgangsmunum eftir útboð verksins sem synjað hafi verið um að fresta og nú sé hafið.  Hafi öll meðferð málsins verið löglaus og þeir sem hagsmuna hafi átt að gæta aldrei fengið að koma að nýrri hönnun götunnar, kynningargögn hafi ekki fylgt fundarboði sem borist hafi degi fyrir kynningarfund, sem haldinn hafi verið á vinnutíma. 

Málsrök Grundarfjarðarbæjar:  Af hálfu bæjarfélagsins er á það bent að við heildarendurskoðun aðalskipulags bæjarins árið 2003 hafi Fellabrekku verið breytt í botngötu og sé umdeild gatnaframkvæmd því í samræmi við gildandi aðalskipulag Grundarfjarðar. 

Gatnaframkvæmdirnar hafi verið kynntar íbúum á fundum síðla árs 2005 og hafi síðan verið leitast við að koma til móts við athugasemdir kærenda vegna framkvæmdanna.  Hafi umhverfisnefnd bæjarins samþykkt að gera breytingar á kvöðum fyrirhugaðra húsa við botngötuna og þannig komið til móts við sjónarmið íbúanna.  Bæjaryfirvöld hafi fundað með kærendum í máli þessu í því skyni að leita ásættanlegrar lausnar í málinu og hafi skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins fallist á tilteknar breytingar á hönnun fyrirhugaðra húsa við margnefnda botngötu við Fellabrekku gegn því að kærendur féllu frá kæru sinni í máli þessu. 

Telji bæjaryfirvöld umdeilda gatnaframkvæmd í samræmi við gildandi skipulag og verði ekki séð að hún raski svo nokkru nemi hagsmunum kærenda. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 11. október 2006 og voru þar til staðar fulltrúi bæjaryfirvalda og annar kærenda. 

Niðurstaða:  Kærendur styðja málatilbúnað sinn þeim rökum að umdeild gatnaframkvæmd sé ólögmæt þar sem með henni sé vikið frá gildandi deiliskipulagi.  Framlenging Fellabrekku, sem nú sé unnið að, sé færð til suðurs í hækkandi landi og hafi það í för með sér að fyrirhuguð hús við götuna hækki að sama skapi og valdi útsýnisskerðingu til sjávar frá húsi kærenda.  Með hliðsjón af þessu geta hinar kærðu framkvæmdir snert hagsmuni kærenda með þeim hætti að játa verði þeim kæruaðild í máli þessu. 

Óumdeilt er að á sínum tíma hafi verið gert ráð fyrir tengingu Fellabrekku við Grundargötu vestanverða.  Hins vegar var á árinu 2003 gerð breyting á aðalskipulagi Grundarfjarðar þar sem Fellabrekka var stytt og gerð að botngötu, án tengingar við Grundargötu, og er lega götunnar mörkuð á aðalskipulagsuppdráttinn sem er í mælikvarðanum 1:10.000.  Gengur aðalskipulagið, svo breytt, framar hinu eldra deiliskipulagi hvað varðar umdeilda legu götunnar.  Aðalskipulagsuppdrátturinn hefur ekki að geyma hæðarlegu gatna á svæðinu og verður því ekki af honum ráðið hver hæðarkóti Fellabrekku eigi að vera. 

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en margnefnd framlenging Fellabrekku sé í samræmi við gildandi skipulag svæðisins eftir fyrrnefnda aðalskipulagsbreytingu, en hafa verður í huga að vegna mælikvarða aðalskipulagsuppdráttarins getur frávik hvað varðar legu gatna verið nokkrir metrar.  Verða íbúar skipulagssvæðis að sætta sig við framkvæmdir sem stoð eiga í skipulagi sem ekki hefur verið hnekkt, en geta eftir atvikum átt bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 valdi framkvæmd skipulagsins þeim tjóni. 

Tekið skal fram að rétt hefði verið skv. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga að endurskoða deiliskipulag umrædds svæðis í kjölfar áðurgreindrar aðalskipulagsbreytingar til þess að gæta samræmis milli skipulagsáætlana og marka með nákvæmum hætti legu umdeildrar götu á deiliskipulagsuppdrætti áður en ákvörðun um framkvæmdir voru teknar.  Þykja þessi vanhöld þó ekki geta ráðið úrslitum um lögmæti umdeildrar framkvæmdar. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ákvörðun sveitarstjórnar Grundarfjarðar um umdeilda gatnagerð ekki talin fara í bága við skipulag umrædds svæðis og þar sem ekki liggja fyrir aðrir annmarkar er leitt gætu til ógildingar ákvörðunarinnar er kröfu kærenda í máli þessu hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun umhverfisnefndar Grundarfjarðar frá 19. september 2005, er bæjarstjórn staðfesti hinn 29. sama mánaðar, um framkvæmdir við lagningu Fellabrekku í Grundarfirði er hafnað.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________     ____________________________
Ásgeir Magnússon                    Þorsteinn Þorsteinsson

75/2004 Sogavegur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 7. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 75/2004, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar um deiliskipulag Sogavegar.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2004, er barst úrskurðarnefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir G, Hamarsgerði 8, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 22. september 2004 um deiliskipulag Sogavegar.  Á fundi borgarráðs hinn 7. október 2004 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 2. desember 2003 felldi nefndin úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2002 um að veita leyfi til að rífa timburhús og byggja steinsteypt tvílyft fjölbýlishús á lóðinni nr. 112 við Sogaveg í Reykjavík.  Var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á því byggð að óheimilt hefði verið að veita byggingarleyfi á lóðinni án þess að deiliskipulag væri áður unnið fyrir viðkomandi götureit.  Í kjölfar þessarar niðurstöðu ákváðu skipulagsyfirvöld að hefja vinnu við deiliskipulag Sogavegar.  

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 2. júní 2004 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Sogavegar og var samþykkt að kynna hana hagsmunaaðilum á svæðinu.  Að lokinni kynningu var tillagan lögð fram að nýju ásamt athugasemdum vegna kynningarinnar og svörum skipulagsstjóra við þeim og var samþykkt að auglýsa hana.   Að loknum kynningartíma, sem stóð frá  28. júlí til 8. september 2004, var tillaga að deiliskipulagi Sogavegar lögð fram að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. september 2004, ásamt athugasemdum, þar á meðal frá kæranda, og svörum skipulagsfulltrúa við framkomnum athugasemdum.  Á fundinum var eftirfarandi fært til bókar:  „Auglýst tillaga að deiliskipulagi samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.  Vísað til borgarráðs.“  Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 7. október 2004 og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 29. nóvember 2004. 

Hið kærða deiliskipulag tekur til svæðis er afmarkast af Sogavegi, Réttarholtsvegi, lóðamörkum húsa við Langagerði norðaustanvert, Tunguvegi, stíg milli Sogavegar og Skógargerðis og göngustíg að Sogavegi.  Sogavegur er hluti af Smáíbúðahverfinu og var skipulag þess samþykkt árið 1951.  Samkvæmt hinu kærða skipulagi eru lóðirnar á svæðinu alls 63 og er 61 þeirra fyrir íbúðarhús en tvær hornlóðir við Sogaveg eru að hluta ætlaðar verslun og þjónustu.  Byggðin er blönduð, bæði hvað varðar stærð og ástand húsa.  Markmiðið með deiliskipulaginu er að gera húseigendum á svæðinu kleift að stækka, eða eftir aðstæðum, að reisa ný hús á lóðum sínum.

Framangreindri samþykkt hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.      

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hinn 2. desember 2003 hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi ákvörðum skipulags- og byggingarnefndar um að veita heimild til niðurrifs húss á lóðinni nr. 112 við Sogaveg og byggja þess í stað tvílyft fjölbýlishús.  Ætlunin hafi einnig verið að stækka lóðina nr. 112 við Sogaveg úr 638,4 m² í 808 m² til þess að koma húsinu fyrir.  Því sé mótmælt að svo veigamikil breyting sé gerð á skipulagi með umræddri færslu á lóðarmörkum sem gerð sé til að koma húsinu fyrir.  Telji hann að færa eigi lóðina að Sogavegi 112 til fyrra horfs og byggingar á henni eigi að vera í samræmi við íbúðarhúsin í kring, þ.e. einbýli, parhús eða tvíbýli svo sem íbúar í nágrenninu hafi mátt vænta.  Með hinu kærða deiliskipulagi megi búast við að umferð og vandræði vegna skorts á bifreiðastæðum aukist.  Ekki verði séð í gögnum málsins að nein málefnaleg rök séu fyrir hinni umdeildu skipulagsbreytingu.  Ekki geti það talist vera í anda „þéttingar byggðar“ að færa nýtingarhlutfall lóðarinnar að Sogavegi 108 og Réttarholtsvegi 1-3 úr 0,90 í 0,96.  Afleiðing breytingar á lóðarmörkum geri það að verkum að ásókn aukist í bílastæði sem séu í Hamarsgerði, sem frá upphafi hafi verið ætluð íbúum við götuna, en borgaryfirvöld virðist ætla að nota sem skiptimynt við hina kærðu skipulagsbreytingu. 

Hinn 14. júní 2004 hafi kærandi sent skrifstofu skipulags- og byggingarsviðs bréf ásamt fylgigögnum vegna frágangs við endurbyggingu Hamarsgerðis, m.a. vegna auglýsingar um væntanlega tillögu að deiliskipulagi svæðisins.  Í bréfinu segi m.a:  „Bifreiðastæði við enda Hamarsgerðis voru upphaflega 6 á teikningum og reiknað með 1½ stæði á hvert hús, sbr. (3).  Borgaryfirvöld virðast hins vegar farin að líta á þessi stæði sem almenningsstæði, þrátt fyrir fund með íbúum hjá skipulagsyfirvöldum haustið 1983 og bréf Borgarskipulags, dags. 14/6 1988, sem fylgir með í ljósriti (1).  Hvenær var þessi breyting gerð og var hún þá gerð með lögmætum hætti?  Þegar endurnýjun götunnar fór fram voru teiknuð 8 bílastæði við enda götunnar í sama rými og 6 áður, sbr. (4).  Þegar bifreiðastæðin voru máluð hafði verið bætt við einu bifreiðastæði í viðbót þ.e. innfyrir götulínu.  Í tillögu að deiliskipulagi er þetta viðbótarbifreiðastæði sett inn á teikningar og að því er virðist ætlað íbúum Hamarsgerðis 8.  Ég vil vísa til bréfs dags. 14/6 sl. um þetta mál, sbr. (2) og tel framangreinda ráðstöfun algjörlega ófullnægjandi og fer framá eftirfarandi:  a.  Viðbótarstæði næst húsinu sem getið er um hér að ofan, verði lagt niður og gul lína máluð á steinkant og í rennu að lóðinni, hvoru tveggja til að gera aðgang gangandi að lóðinni sem eðlilegastan miðað við aðstæður, sbr. meðfyljandi ljósrit.  b.  Næstu tvö stæði verði merkt Hamarsgerði 8, enda ekki við það búandi að eiga ekki tryggð bifreiðastæði við húsið, sbr. (5).  Í þessu sambandi skal og bent á ljósrit af bréfi Borgarskipulags (2) sem fylgir hér með um bílskúrslóð, sem samræma þarf þessu skipulagi.  Aðgerðir skipulagsyfirvalda og nýlegar framkvæmdir hafa skert aðgang íbúa að Hamarsgerði 8 að götunni, miðað við það sem áður var.  Þegar þar við bætist, að breytt skipulag og byggingarmagn aukið, sbr. hér að ofan, sem verður til þess að auk ann á vandræði með bifreiðastæði, tel eg óhjákvæmilegt að gera athugasemd við umrædda deiliskipulagstillögu.“  Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að samkvæmt byggingarreglugerð sé íbúðum stærri en 80 m² ætluð tvö bílastæði eða fleiri auk gestastæðis. 

Eftir fund íbúa Hamarsgerðis með starfsmönnum borgarskipulags í lok árs 1983 hafi verið samþykkt tillaga að bílskúrslóðum og bílastæðum, m.a. fyrir Hamarsgerði 8.  Eftir fyrirspurn kæranda árið 1988 hafi þetta verið staðfest í bréfi borgarskipulags, dags. 14. júní 1988.  Eftir fyrirspurn, dags. 7. mars 2003, til borgarskipulags hafi m.a. verið óskað eftir nánari útlistun og staðfestingu skipulagsins á staðsetningu bílskúrs fyrir Hamarsgerði 8.  Svar hafi borist frá skipulagsfulltrúa, dags. 14. september 2003, þar sem fyrrgreint sé staðfest, en engin grein gerð fyrir fyrirkomulagi.  Kærandi telji nauðsynlegt að áðurnefnd samþykkt um bílskúra komi fram með einhverjum hætti í hinu kærða deiliskipulagi. 

Að lokum vísar kærandi til þess að við gerð deiliskipulagsins hafi íbúum á svæðinu tvívegis verið gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar.  Hvorugu hafi verið svarað fyrr en deiliskipulagið hafi verið samþykkt. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að stækkun lóðarinnar að Sogavegi 112 hafi verið gerð vegna umferðaröryggissjónarmiða en ekki til að koma fyrir fjórbýlishúsi á lóðinni.  Hvort sem lóðin hefði verið stækkuð eða ekki hefði verið unnt að koma ætluðu byggingarmagni á lóðina enda nýtingarhlutfall hennar undir 0,5 í báðum tilfellum.  Með hinu kærða deiliskipulagi hafi verið komið í veg fyrir að bílastæði hússins að Sogavegi 112 yrðu með þeim hætti að bakka þyrfti úr þeim beint út á Sogaveginn.  Hægt hefði verið að koma stæðunum fyrir norðan við húsið.  Umferðaraukning vegna íbúðanna sé ekki mælanleg og ónæði af umferð að sama skapi ekki heldur.  Þá sé og séð fyrir fullnægjandi bílastæðum fyrir húsið innan lóðar í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Varðandi bílastæði við Hamarsgerði, þá sé á það bent að þau séu á borgarlandi og því ætluð almenningi.  Kærandi hafi ekki sýnt fram á skjöl eða gögn sem styðji að íbúar við Hamarsgerði hafi sérstakan rétt á umræddum bílastæðum.  Ljóst sé að aðgengi að Hamarsgerði 8 sé þrengra en aðgengi að öðrum húsum í götunni vegna staðsetningar lóðar.  Af þessari ástæðu hafi verið reynt að koma til móts við athugasemd þá er kærandi setti fram við grenndarkynningu með því að stækka lóð Hamarsgerðis 8 út á borgarland og gera eigendum þar með kleift að merkja sér þar eitt stæði.

Þá sé og vísað til þess að skipulagsnefnd hafi samþykkt hinn 21. desember 1983 tillögu borgarskipulags að bílskúrslóðum fyrir Hamarsgerði 2-8 og Sogaveg 116 ásamt bílastæðum.  Í tillögunni hafi borgarskipulag m.a. lagt til að bílskúrslóðum verði úthlutað til Hamarsgerðis 2-8.  Svæðið sem ætlað hafi verið til úthlutunar sé og hafi verið borgarland.  Í svarbréfi skipulagsfulltrúa, dags. 14. júní 1988, hafi íbúum við Hamarsgerði 2-8 og Sogaveg 116 verið bent á að sækja sameiginlega um lóðina undir bílskúra og bílastæði.  Slík umsókn hafi aldrei borist.  Það sé því ljóst að 23 ára gömul samþykkt, sem gerð hafi verið til hagsbóta fyrir kæranda á sínum tíma jafngildi ekki því að Reykjavíkurborg sé skuldbundin um aldur og ævi gagnvart kæranda, enda hafi hann á engan hátt nýtt sér efni samþykktarinnar.  Samþykkt skipulagsnefndar frá árinu 1983 hafi því ekki gildi í máli þessu og hafi Reykjavíkurborg verið fullkomlega heimilt að deiliskipuleggja svæðið með þeim hætti sem gert hafi verið.

Sérstaklega sé minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geta ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér breytingar á þeirra nánasta umhverfi.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.
 
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Sogavegar.  Gerð er krafa um ógildingu þess, m.a. með þeim rökum að með stækkun lóðarinnar að Sogavegi 112 hafi grenndarhagsmunum kæranda verið raskað.  Ekki verður fallist á það með kæranda að heimild til byggingar fjölbýlishúss með fjórum íbúðum á lóðinni að Sogavegi 112 og stækkun hennar hafi í för með sér slík neikvæð grenndaráhrif að fella beri hið kærða deiliskipulag úr gildi af þeim sökum.  Er nýtingarhlutfall lóðarinnar í samræmi við það sem gerist á svæðinu og fullnægt er ákvæði byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða innan lóða.  Að auki er gert ráð fyrir átta bílastæðum milli Hamarsgerðis og Sogavegar á spildu sem er í eigu Reykjavíkurborgar og verður ekki annað ráðið af skipulagsgögnum en að þau séu til almennra nota og geti því m.a. nýst þeim er erindi eiga í íbúðarhúsin við Hamarsgerði.  Með hinu kærða deiliskipulagi er breidd götunnar við Hamarsgerði aukin og lóðarmörkum lóðar kæranda breytt þannig að innan lóðar hans er komið fyrir einu bílastæði.  Hin kærða ákvörðun sýnist því að nokkru vera til hagsbóta fyrir kæranda. 

Einnig er krafist ógildingar deiliskipulagsins með vísan til þess að frágangi bílastæða við Hamarsgerði og aðgengi að Hamargerði 8 sé ábótavant ásamt því að í engu sé gerð grein fyrir bílskúrum við hús í Hamarsgerði.  Byggir kærandi á vilyrði borgaryfirvalda honum til handa í því sambandi og að ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir hans um framangreint. 

Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er gerð krafa um að tillaga að nýju deiliskipulagi sé auglýst og er tilgangur þess sá að þeim er hagsmuna eigi að gæta gefist kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um tillöguna en skipulagsyfirvöld eru ekki bundin af þeim athugasemdum er berast vegna fyrirhugaðrar skipulagsgerðar.  Það raskar því ekki gildi hins kærða deiliskipulagsins þó athugasemdir kæranda í þessu efni hafi ekki verið teknar til greina.      

Loks verður ekki fallist á að málsmeðferð við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verði áfátt eða að hún brjóti í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlaga eða viðeigandi reglugerða með neinum þeim hætti er ógildingu varði.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tímafrekrar gagnaöflunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 22. september 2004 um deiliskipulag Sogavegar.     

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson 

31/2006 Höfðavegur

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar, er bæjarstjórn staðfesti hinn 21. febrúar 2006, um að auglýsa til sölu lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík ásamt byggingarrétti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. apríl 2006, er  barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, framsendi félagsmálaráðuneytið kæru K, Höfðavegi 16, Húsavík, dags. 11. apríl 2006, vegna þeirrar samþykktar skipulags- og byggingarnefndar bæjarins að auglýsa til sölu lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík, ásamt byggingarrétti.  Bæjarstjórn Húsavíkur staðfesti hinn 21. febrúar 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 9. febrúar 2006 samþykkti bæjarráð Húsavíkur að taka tilboði í lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík.  Mun kærandi hafa sent skipulags- og byggingarnefnd athugasemdir vegna sölunnar og bent á ákvæði í þinglýstum lóðasamningum vegna lóðanna að Höfðavegi 11-19 frá árinu 1970 þess efnis að ekki yrði leyft að byggja á greindum lóðum þar sem skipulag gerði þar ráð fyrir grænu svæði.  Var erindi kæranda tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. febrúar 2006 þar sem kæranda var þakkað erindið en á það bent að í fyrirliggjandi breytingu á gildandi aðalskipulagi væri gert ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddum lóðum.  Var ákveðið að fela byggingarfulltrúa að sjá um að ljúka deiliskipulagsvinnu, sem væri á lokastigi, á grundvelli gildandi aðalskipulags.  Var þessi fundargerð afgreidd á fundi bæjarstjórnar Húsavíkur hinn 21. febrúar 2006.

Bendir kærandi á að íbúar við Höfðaveg hafi átt að geta treyst því að ekki risi byggð á umræddum lóðum í samræmi við fyrrgreinda lóðasamninga, sem m.a. taki til lóðarinnar að Höfðavegi 15, og sé óásættanlegt að bæjaryfirvöld virði að vettugi þinglýsta samninga með því að leyfa nýbyggingu á nefndri lóð.  Hin kærða ákvörðun sé fráleit í ljósi þess að umrædd gata sé ein af elstu götum Húsavíkurbæjar og ekki hafi verið reist hús við hana í marga áratugi.  Gatan sé þröng og bílastæðamál við austari hluta hennar í ólestri sem unnt væri að bæta úr ef menn héldu sig við fyrri hugmyndir og hættu við fyrirhugaðar nýbyggingar.  Verði byggt á fyrrgreindri lóð minnki verðgildi eignar kæranda verulega.  Telur kærandi að ástæða fyrir hinni þinglýstu kvöð um víkjandi byggð á umræddum lóðum hafi verið sú að um sé að ræða hættulegt byggingarsvæði vegna staðhátta.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun bæjaryfirvalda á Húsavík um að auglýsa til úthlutunar byggingarlóð að Höfðavegi 15 þar í bæ.  Má ráða af málatilbúnaði kæranda að baki kærunni búi andstaða gegn því að byggt verði á umræddri lóð þrátt fyrir þinglýsta kvöð um víkjandi byggð.

Samkvæmt 2. og 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar en heimilt er að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir í þegar byggðum hverfum ef ekki er til að dreifa deiliskipulagi.  Húsbyggingar verða ekki hafnar nema að undangenginni veitingu byggingarleyfis sem samræmist gildandi skipulagi, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna.  Þar af leiðandi getur ákvörðun um lóðarúthlutun ekki ein og sér falið í sér heimildir til byggingarframkvæmda á tiltekinni lóð.  Í máli þessu er hvorki til úrlausnar lögmæti  skipulags né byggingarleyfis er felur í sér byggingarheimildir á lóðinni að Höfðavegi 15 á Húsavík.  

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Í þeim er ekki að finna reglur er varða lóðaúthlutanir og hefur úrskurðarnefndin ekki vald til að úrskurða um meðferð eða afgreiðslu þeirra.  Því verður ágreiningur um slíkt efni ekki borinn undir nefndina og er kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________        _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

        

 

37/2006 Skipholt

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 37/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til byggingar einnar hæðar ofan á bakbyggingu á lóðinni nr. 50A við Skipholt í Reykjavík og að breyta félagsaðstöðu á 1. hæð í íbúðir.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. maí 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra G og G, Skipholti 50, Reykjavík, f.h. eigenda og íbúa að Skipholti 50, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til byggingar einnar hæðar ofan á bakbyggingu á lóðinni nr. 50A við Skipholt í Reykjavík og að breyta félagsaðstöðu á 1. hæð í íbúðir.  

Verður að skilja erindi kærenda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar hinn 28. september 2006, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, settu kærendur fram kröfu um stöðvun framkvæmda en þær voru þá nokkuð á veg komnar.  Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um sjónarmið borgaryfirvalda í málinu og bárust athugasemdir þeirra hinn 24. október 2006.  Var gagnaöflun þá lokið og ákvað úrskurðarnefndin því að taka málið til efnisúrlausnar í stað þess að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.  Hafa óvænt atvik eftir það leitt til þess að uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist þar til nú.  

Málavextir:   Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa í júlí árið 2005 var lögð fram tillaga Þórsafls hf. um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar að Skipholti 50A og var samþykkt að grenndarkynna tillöguna hagsmunaaðilum.  Að grenndarkynningu lokinni var málið tekið fyrir á ný á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og grenndarkynningin felld niður og málinu vísað frá með eftirfarandi bókun:  „Með vísan til þess að skipulagsskilmálar sem taldir hafa verið í gildi fyrir lóðina að Skipholti 50a og tilgreindir voru í grenndarkynntri tillögu að breytingu á deiliskipulagi teljast ekki fullnægja skilyrðum undantekningarákvæðis 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða í lögum 73/1997, er framlögðu erindi vísað frá vegna formgalla auk þess sem grenndarkynning er felld niður.  Umsækjanda ber þess í stað að sækja um byggingarleyfi vegna breytinganna og verður slíkt leyfi grenndarkynnt fyrir sömu aðilum og var gefinn kostur á að tjá sig um fyrri afgreiðslu málsins í samræmi við ákvæði 7. mgr. laga nr. 73/1997.“    

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 20. desember 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja eina hæð úr steinsteypu ofan á bakbyggingu á lóðinni nr. 50A við Skipholt þar sem yrði komið fyrir fimm íbúðum.  Jafnframt var sótt um heimild til að breyta félagsaðstöðu á neðri hæð hússins í fimm íbúðir þannig að samtals yrðu tíu íbúðir í bakbyggingunni.  Byggingarfulltrúi afgreiddi málið með eftirfarandi bókun:  „Vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Að þeim uppfylltum verður málið sent skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.“ 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 27. janúar 2006 var málið tekið fyrir og samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu hagsmunaaðilum.  Stóð kynningin yfir frá 1. febrúar 2006 til 1. mars 2006 og bárust nokkrar athugasemdir, þar á meðal frá kærendum. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 15. mars 2006 var málið tekið fyrir á ný að lokinni grenndarkynningu.  Á fundinum var lagt fram bílastæðabókhald hönnuðar ásamt samantekt á athugasemdum og svör skipulagsfulltrúa vegna grenndarkynningar.  Var eftirfarandi samþykkt færð til bókar:  „Ráðið gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og með vísan til samantektar og svara skipulagsfulltrúa vegna grenndarkynningar.  Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“  

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. apríl 2006 var beiðni um breytingar á bakhúsinu að Skipholti 50A samþykkt. 

Hafa kærendur skotið fyrrgreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.  

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er í upphafi vísað til þess að þeir fagni því að atvinnuhúsnæðinu að Skipholti 50A verði breytt í íbúðarhúsnæði.  Aftur á móti geti þeir ekki sætt sig að öllu leyti við breytingar húsnæðisins, þar sem sumar þeirra séu líklegar til þess að rýra verðgildi eigna að Skipholti 50, m.a. vegna fyrirsjáanlegs ónæðis og óvistlegra umhverfis.

Kærendur benda á að hækkun húsnæðisins að Skipholti 50A valdi mikilli skerðingu á útsýni frá gluggum á austurhlið Skipholts 50, en þar séu á fyrstu og annarri hæð tveir svefnherbergisgluggar ásamt stofuglugga og í kjallara séu þar svefnherbergis-, eldhús- og stofugluggar.  Skerðing útsýnis kjallaraíbúðar nái til 60% glugga (75% ef tillit sé tekið til þess að baðherbergisgluggi á norðurhlið sé með hömruðu gleri).  Skerðing útsýnis á annarri hæð nái til 33% glugga (37,5% ef tillit sé tekið til þess að baðherbergisgluggi á norðurhlið sé með hömruðu gleri) og skerðing útsýnis á fyrstu hæð nái til 37,5% glugga (43% ef tillit sé tekið til þess að baðherbergisgluggi á norðurhlið sé með hömruðu gleri).  Á vesturhlið hússins að Skipholti 50 séu engir gluggar, þar sem húsnæðið sé sambyggt Skipholti 44.  Kærendur leggi til að efsta hæð hússins að Skipholti 50A verði inndregin svo hún skerði ekki útsýni eins mikið. 

Kærendur halda því fram að skuggavarp aukist verulega á austurgafl hússins að Skipholti 50 og yfir garðinn sem snúi í suður.  Á austurgafli hafi tvær íbúðir svefnherbergis- og stofuglugga og ein íbúð svefnherbergis-, eldhús- og stofuglugga.  Mögulega muni austurgafl Skipholts 50 lítið sem ekkert njóta sólar með haustinu.  Aukið skuggvarp muni einnig hafa áhrif á gróður í garði ásamt því að notkunarmöguleikar hans og svala fyrstu og annarrar hæðar rýrni þegar hausta taki.  Kærendur undrist að í gögnum vegna hinnar kærðu ákvörðunar skuli ekki vera miðað við haustjafndægur 22. september eins venja sé, en verulega geti munað um hæð sólar og lengd skugga eftir því sem nær jafndægri dragi. 

Talsvert mikið ónæði verði vegna nálægðar Skipholts 50A, en á vesturhlið hússins séu fyrirhugaðir stofu-, eldhús- og svefnherbergisgluggar ásamt svölum sem snúi að austurhlið Skipholts 50 þar sem m.a. svefnherbergi séu staðsett.  Skipholt 50A standi á lóðarmörkum og telji kærendur mikið ónæði af því að hafa stofu og eldhúsglugga ásamt svölum beint fyrir framan svefnherbergisglugga þeirra.  Ekki sé ljóst miðað við teikningar hvar aðalinngangur eignarinnar eigi að vera en verði hann á vesturhlið sé ljóst að talsvert ónæði muni verða af umgengni þar.  Þá verði kærendur fyrir ónæði af völdum umferðar um göngustíg sem sé við húsgafl Skipholts 50. 

Mótmælt sé sterklega þeirri ákvörðun að leyfa byggingu svala utan byggingarreits en samkvæmt teikningu komi svalirnar inn á almenningsgöngustíg sem skilji að lóðamörk Skipholts 50 og 50A.  Göngustígurinn sé í umsjá borgarinnar og á honum séu kvaðir um lagnir og opinn stíg.  Svalir skuli a.m.k. vera þrjá metra frá lóðarmörkum en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun nái svalirnar út fyrir lóðarmörk.  Útveggur vesturhliðar Skipholts 50A sé nánast á lóðarmörkum og úr því þurfi að skera hvort leyfilegt sé að byggja svalir sem nái yfir almenningsgöngustíg og hvaða reglur gildi um fjarlægð svala frá svefnherbergisgluggum næstu eignar.  Vegna alls framangreinds sé því sérstaklega mótmælt að heimilað verði að byggja svalir á vesturhlið Skipholts 50A. 

Kærendur benda á að óljóst sé af gögnum málsins hvort til standi að færa fyrrnefndan göngustíg.  Þá sé og óljóst hvað hafi orðið af áformum byggingarleyfishafa um sérstakan byggingarreit fyrir bílageymslu sem áður hafi verið kynntur kærendum. 

Ætla megi að við hina kærðu ákvörðun muni söluverðmæti og sölumöguleikar að íbúða Skipholti 50 rýrna verulega. 

Kærendur benda á að framkvæmdir hafi fyrir löngu verið hafnar við breytingar á húsnæðinu að Skipholti 50A.  Byggingarfulltrúa hafi verið tilkynnt þetta í ágúst 2005 en samkvæmt upplýsingum frá fulltrúa byggingarfulltrúa hafi hann ekki séð sér fært að koma og skoða aðstæður og umhverfi.

Þó svo að kærendur fagni því að Skipholti 50A skuli breytt í íbúðarhúsnæði hljóti þeir að leiða hugann að því hvers konar nágranna megi vænta miðað við þá hönnun sem fyrir liggi.  Vegna smæðar þeirra tíu íbúða sem koma eigi fyrir í húsinu og nálægðar fimm þeirra við fjölfarinn göngustíg megi teljast ólíklegt að þær verði vænlegur kostur fyrir fjölskyldufólk.  Eðlilegt sé að benda á að fyrir ofan Skipholt 50 og 50A sé Fjöltækniskólinn og að Háteigsvegi 31-33 séu stúdentagarðar.  Klúbburinn Geysir, athvarf fyrir geðveikt fólk, sé staðsettur að Skipholti 29 og þeim megin götunnar sé einnig Færeyska sjómannaheimilið og Sjómannaheimilið Örkin.  Að Skipholti 27, 50E og 50F séu einnig stúdentagarðar.  Það sé því tilfinning kærenda að frekar sé skortur á stærri íbúðum sem henti fjölskyldum en fleiri litlum einstaklingsíbúðum eða stúdentagörðum, nema það sé stefna borgaryfirvalda að breyta hverfinu í kringum Fjöltækniskólann í stúdentagarða.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa að gera ráð fyrir því að hvorki útsýni né sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti breyst, enda réttur til óbreytts útsýnis ekki bundinn í lög.  Það sé hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja heildarhagsmuni og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun verði að ræða vegna framkvæmda á annarri eign.  Útsýni sé ekki sjálfgefið og taki breytingum eftir því sem borgin þróist.  Því megi alltaf búast við því að einhver skerðing verði á útsýni þegar byggð séu ný hús eða gerðar viðbyggingar við eldri hús.  Telja verði að hagsmunir byggingarleyfishafa af því að byggja ofan á hús sitt á þann hátt sem samþykkt hafi verið séu mun meiri en þeir hagsmunir kærenda sem hugsanlega fari forgörðum vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar.

Í gögnum málsins sé að finna upplýsingar um skuggavarp hússins að Skipholt 50A, bæði fyrir og eftir breytingar þess, hinn 20. júlí kl. 9, 12 og 17 og hinn 18. september kl. 9, 12 og 17.  Jafndægri séu 20. mars og 22. september, þannig að þarna muni fjórum sólarhringum sem teljist óverulegt þegar skoðaðir séu skuggar sólar.  Samkvæmt skuggavarpi hinn 18. september sé ljóst að aukið skuggavarp sé á húsið að Skipholti 50 snemma hausts, fyrir hádegi, en upp úr kl. 12 hverfi skuggi alfarið af húsi og lóð að Skipholti 50.  Aukið skuggavarp yfir sumarmánuði sé eingöngu á bílskúrum og bílastæðum.  Því sé hvorki hægt að fallast á þá fullyrðingu að skuggavarp vegna fyrirhugaðrar hækkunar hússins að Skipholti 50A sé svo mikið að um rýrnun á eigninni að Skipholti 50 sé að ræða né að það sé meiri en búast megi við í þéttbýli sem sé í stöðugri þróun.

Það sé í samræmi við skilgreiningu á miðsvæðum í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 að heimila að skrifstofuhúsnæði í umræddu húsi sé breytt í íbúðir.  Varla verði hjá því komist að útveggir hússins séu nýttir fyrir glugga, bæði til að draga inn dagsbirtu og loftun.  Gert hafi verið ráð fyrir svölum á vesturhlið hússins í fyrri kynningu.  Þær hafi verið grynnkaðar og lengdar lítillega.  Ekki sé gert ráð fyrir breytingum á inngöngum inn í húsið að Skipholti 50A.  Umræddar svalir séu um 2,6 metra frá lóðamörkum og þaðan séu um 8,5 metrar að húsinu að Skipholti 50.  Þetta geti ekki talist óeðlileg nálægð í þéttbýli.  Vesturhlið efri hluta hússins að Skipholti 50A sé um 3,8 metra frá lóðamörkum.  Stígurinn sem á hvíli kvöð um almenna umferð sé inni á lóð Skipholts 50A og sé við lóðamörk Skipholts 50 og 50A.  Umræddar svalir séu því ekki út fyrir lóðamörk.  Samkvæmt byggingarreglugerð sé heimilt að hafa útskagandi húshluta yfir almennum göngustígum, þó ekki í minna en 2,6 metra hæð frá jörðu.  Út frá skipulagslegum forsendum sé því ekki ástæða til að gera athugasemdir við gerð svala á vesturhlið hússins að Skipholti 50A, eins og þær séu sýndar á uppdráttum.

Varðandi staðsetningu göngustígs þá sé samkvæmt gildandi mæliblaði kvöð um göngustíg fyrir almenning á lóðamörkum Skipholts 50 og 50A og að húsinu að Skipholti 50A.  Ekki þurfi því að sækja sérstaklega um legu stígs á því svæði.

Villa hafi verið í fyrri uppdrætti og þar hafi átt að standa byggingarreitur fyrir hús í stað byggingarreitur fyrir bílgeymslu.

Ljóst þyki að áhrif umþrættra breytinga séu ekki svo veruleg að leitt geti til ógildingar byggingarleyfisins.  Telji kærendur sig geta sannað það að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt megi teljast hjá fasteignaeigendum í þéttbýli eigi þeir bótarétt samkvæmt ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Um bótarétt sé úrskurðarnefndin ekki bær til að fjalla um. 

Tekið sé fram að byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir á lóðinni með bréfi, dags. 10. mars 2006, er í ljós hafi komið að framkvæmdir hafi verið hafnar án þess að gefið hafi verið út byggingarleyfi.  Hvað varði þá málsástæðu kærenda að íbúðirnar henti ekki fjölskyldufólki sé bent á að hvergi segi að ekki megi byggja íbúðir sem henti öðrum þjóðfélagshópum auk fjölskyldufólks, en tekið skuli fram að aðeins ein af tíu nýjum íbúðum sé um 80 fermetrar.  Allar hinar séu stærri og henti því fjölskyldufólki jafnt sem öðrum.

Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar:  Kærendur telja fyllilega ljóst að það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Í umsögn skipulags- og byggingarsviðs sé þess getið að hlutverk skipulagsyfirvalda sé að tryggja heildarhagsmuni og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun verði að ræða á eignum vegna framkvæmda á annarri eign.  Það sé mat kærenda að umræddar framkvæmdir séu einmitt „óþolandi skerðing á gæðum eða verðrýrnun“.  Hagsmunir byggingarleyfishafa, sem séu verktakar úr öðru bæjarfélagi, virðist vega þyngra hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar heldur en rök þeirra íbúa Reykjavíkur sem við breytingarnar þurfi að búa.  Kærendur fallist ekki á þá skilgreiningu skipulags- og byggingarsviðs að einungis sé um lítilsháttar útsýnisskerðingu að ræða.  Hún verði að teljast veruleg, sérstaklega fyrir íbúðir á fyrstu og annarri hæð.

Þó svo að skipulags- og byggingarsvið meti aukningu skuggavarps óverulega þá sé það mat kærenda að slík aukning geti, auk þess að draga úr birtu á lóð, rýrt verðgildi eigna.  Sé vanalegt að miða skuggavarp við ákveðnar dagsetningar þá skuli ekki víkja frá þeirri venju. 

Í hinni kærðu ákvörðun sé gert ráð fyrir verönd á jarðhæð sem nái nánast að almennum göngustíg.  Segja megi að Skipholt 50 tilheyri, skipulags- og hönnunarlega séð, Skipholti 30, 32, 34, 36, 38, 40, 42, 44, 46, og 48.  Skipholt 50 tilheyri efri húsaröð þar sem 17-18 metrar séu á milli húsa.  Fjarlægð frá Skipholti 50 yfir í 50A sé, samkvæmt mælingum skipulags- og byggingarsviðs, um 11 metrar.  Að mati kærenda muni hið mikla byggingarmagn í kjölfar hækkunar hússins á lóðinni að Skipholti 50A verða til þess að ónæði aukist til muna.   Ef miðað sé við verönd á vesturhlið Skipholts 50A standi eignin mun nær lóðamörkum en skipulags- og byggingarsvið telji í gögnum sínum.  Steypt eining Skipholts 50A sé, samkvæmt mælingum kærenda, næst lóðamörkum Skipholts 50 um 3,6 metrar.  Samkvæmt upplýsingum, sem fram hafi komið í símtali við Skipulagsstofnun, tilheyri göngustígurinn borginni og því sé rétt að reikna lóðarmörk að stígnum, en kveðið sé á um að hann skuli vera þriggja metra breiður.  Samkvæmt þessari skilgreiningu séu svalir komnar út fyrir lóðarmörk og verönd liggi alveg að lóðarmörkum.  Miðað við áætlað byggingarmagn á lóð megi ljóst vera að gríðarleg aukning verði á mannaferðum sem hafi talsvert ónæði í för með sér.

Ítrekað sé að áhrif umræddra breytinga séu veruleg.  Eðlilegt hljóti því að vera að um málið sé fjallað þannig að byggingaraðili hafi ekki áunnið sér aukin réttindi með því að hafa hafið framkvæmdir og öll gögn látin gilda sem hin sömu og áður en til framkvæmda hafi komið, þ.e. frá því að athugasemdir bárust upphaflega.  

Kærendur hafa rökstutt frekar sjónarmið sín í málinu.  Þykir ekki þörf á að reifa þau frekar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar í kærumáli þessu.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að ekki sé um að ræða skerðingu útsýnis úr kjallara eða íbúð fyrstu hæðar hússins að Skipholti 50 þar sem núverandi bygging að Skipholti 50A skerði nú þegar útsýni til austurs og verði því engin breyting á því útsýni sem fyrir sé.  Útsýni frá annari hæð til austurs skerðist óverulega vegna sólstofu sem sé á þaki núverandi byggingar og skerði útsýni annarrar hæðar um 3/5 til austurs, lengra í austri séu fimm hæða hús sem skerði útsýni enn frekar. 

Varðandi skuggavarp sé vísað til þess að yfir sumartímann muni skuggi vegna ofanábyggingarinnar ná kl. 9 frá miðju bílastæði yfir það allt, en þó ekki upp á húsgaflinn.   Um kl. 12 verði skuggi farinn af lóðinni.  Þann 18. september um kl. 9 nái skugginn lengst frá miðjum garði og yfir hann allan en ekkert skuggavarp sé af bílskúr sem standi í suðaustur horni lóðar, en bílskúr gæti gefið svipað skuggavarp og viðbygging ofan á núverandi bakhús.  Um kl. 12 verði skuggi yfir bílastæðinu sem þó nái ekki upp á húshliðina.  Lóð hússins að Skipholti 50 snúi til suð-suðvesturs með enga byggingu fyrir framan sig og njóti því að fullu sólar þangað til að skuggi myndist af Skipholti 44. 

Misskilnings gæti hjá kærendum um staðsetningu Skipholts 50A gagnvart lóðarmörkum Skipholts 50.  Húsið að Skipholti 50A standi ekki á lóðarmörkum eins og kærendur haldi fram.  Vesturhlið Skipholts 50A, nánar tiltekið útbrún útveggjar, sé 3,77 m frá lóðarmörkum.  Fjarlægð milli húsanna sé 12,92 m.  Svalir ofanábyggingar muni ekki ná inn á göngustíg eins og kærendur haldi fram því fjarlægð frá svalabrún að göngustíg sé 0,97 m.  Fjarlægð frá svalabrún að lóðarmörkum sé 2,57 m sem þýði að svalirnar ná ekki út fyrir lóðarmörk.  Þær séu 1,2 m á breidd.   

Aðalinngangur Skipholts 50A sé á austurhlið og snúi því að bílastæðum og bílageymslu.  Inngangurinn á vesturhlið sé fyrst og fremst ætlaður sem aðgengi að sorp- og hjólageymslu.  Umferðin muni því verða um aðalinnganginn þar sem verði dyrasími og póstkassar fyrir innan.  Umferð um göngustíg muni ekki aukast með tilkomu aðgengis að sorp- og hjólageymslu, þvert á móti muni aðgengi um þennan inngang minnka frá því sem áður hafi verið, en þar hafi verið félagsaðstaða.      

Ekki hafi verið sótt um leyfi af hálfu byggingarleyfishafa til að breyta göngustíg sem liggi innan lóðarmarka Skipholts 50A enda kvöð um almenna gönguumferð um stíginn.  Ekki standi til að færa eða breyta göngustígnum.  

Fyrirhugað sé að sex íbúðir í húsinu að Skipholti 50A verði frá 110 m² til 120 m², minni íbúðirnar séu frá 80 m² til 100 m².  Íbúðirnar henti því fjölskyldufólki og eldra fólki. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til byggingar einnar hæðar ofan á bakbyggingu, sem stendur á lóðinni nr. 50A við Skipholt í Reykjavík, ásamt því að heimilað er að breyta nýtingu hússins í íbúðarhúsnæði.  Krefjast kærendur ógildingar leyfisins vegna neikvæðra grenndaráhrifa byggingarinnar. 

Á svæði því er hér um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag en byggðin er tiltölulega gróin og þétt.  Vestan við hús kærenda er íbúðarbyggð en austan þess eru stórar atvinnulóðir sem teljast vera fullbyggðar og á standa nýleg hús.  Er ekki að vænta mikilla breytinga á byggingum á þessum lóðum.  Telja verður, eins og hér stendur sérstaklega á, að byggingaryfirvöldum hafi verið heimilt að veita hið kærða leyfi án þess að fyrir lægi deiliskipulag að umræddu svæði, enda verður ekki talið að byggðamynstri hverfisins verði raskað til muna með hinni umdeildu viðbyggingu eða að hún muni skera sig úr umhverfi sínu.  Var því unnt að fara með málið eftir 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breyttri notkun, svo sem gert var. 

Lóðirnar að Skipholti 50 og 50A standa við hlið hvorrar annarrar að hluta en inn á lóðinni nr. 50A er göngustígur meðfram lóðarmörkum að mestu þar sem húsin standast á.  Bil milli húss kærenda og bakhússins á lóðinni nr. 50A er tæpir 13 metrar og stendur bakhúsið um 3,8 metra frá lóðarmörkum og er með því fullnægt kröfum um fjarlægð húss frá lóðarmörkum.   Verður ekki heldur talið að það varði ógildingu byggingarleyfisins þótt svalir séu lítillega nær lóðarmörkum en nemur 3,0 metrum.  Er þá litið til þess að bil milli húsanna að Skipholti 50 og 50A er eftir sem áður vel yfir þeim mörkum sem áskilið er í byggingarreglugerð.  Teljast ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 því uppfyllt hvað varðar bil milli húsa og fjarlægðir frá lóðarmörkum. 

Nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 50A við Skipholt verður 0,76 eftir breytingarnar sem verður að telja í samræmi við það sem tíðkast á umræddu svæði.  Ekki verður fallist á það með kærendum að útsýnisskerðing, skuggavarp, birtuskerðing eða aukin umferð vegna hinnar umdeildu ofanábyggingar valdi þeim slíku óhagræði eða röskun að ógilda beri hið kærða byggingarleyfi af þeim sökum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildinu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til byggingar einnar hæðar ofan á bakbyggingu á lóðinni nr. 50A við Skipholt í Reykjavík og að breyta félagsaðstöðu á 1. hæð í íbúðir.  

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

 

45/2006 Ingólfsfjall

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2006, kærur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita Fossvélum ehf. framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 9. júní 2006, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Landvernd ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni barst hinn 14. júní 2006 bréf Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, dags. 10. júní 2006, þar sem sama ákvörðun er kærð, með sömu eða svipuðum rökum og með sömu kröfum og fram koma í kæru Landverndar.  Þykja skilyrði vera fyrir hendi til að sameina framangreindar kærur og verður því fjallað um þær sem eitt kærumál. 

Auk þess að krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar kröfðust kærendur einnig úrskurðar til bráðbirgða um að efnistaka úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs yrði stöðvuð án tafar þar til mál þetta hefði verið til lykta leitt.  Tók nefndin afstöðu til þeirrar kröfu með úrskurði hinn 22. júní 2006 og lagði nokkrar skorður við áframhaldandi framkvæmdum samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi meðan málið væri til með meðferðar, svo sem nánar greinir í nefndum úrskurði.

Málsatvik:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur fyllingarefni verið unnið um áratuga skeið úr Þórustaðanámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli.  Á árinu 2004 hóf rekstraraðili námunnar að vinna efni uppi á fjallinu og var því rutt niður í námu þá sem fyrir var neðan fjallsins.  Skipulagsstofnun taldi þessa efnistöku á fjallinu tilkynningarskylda samkvæmt 6. grein laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði umhverfisráðherra hinn 10. desember 2004. 

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 31. mars 2005, tilkynntu Fossvélar ehf. um fyrirhugaða efnistöku uppi á fjallinu.  Kom fram í bréfinu að framkvæmdinni yrði skipt í áfanga og væri gert ráð fyrir að í fyrsta áfanga yrði um 45.000 m³ efnistöku að ræða á 10.000 m² (1,0 ha) svæði og að dýpt efnisvinnslunnar í þeim áfanga yrði á bilinu 5 til 10 metrar.  Í öðrum áfanga væri gert ráð fyrir töku efnis er næmi 1.000.000 – 2.000.000 m³ á um 25.000 m² (2,5 ha) svæði og mætti gera ráð fyrir að dýpt efnistökusvæðis í þeim áfanga yrði á bilinu 40 – 80 m.  Komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að ekki væri skylt að meta umhverfisáhrif efnisvinnslu í 1. áfanga en að meta þyrfti umhverfisáhrif 2. áfanga fyrirhugaðrar efnisvinnslu.

Að fenginni þessari niðurstöðu lét rekstraraðili námunnar vinna mat á umhverfisáhrifum 2. áfanga fyrirhugaðrar efnistöku á fjallinu.  Var matsferlið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br.  Lá matsskýrsla fyrir hinn 13. mars 2006 og var hún send Skipulagsstofnun hinn 14. mars 2006 með ósk um lögbundið álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. 

Í matsskýrslu kemur fram að valkostur I, sem sé valkostur framkvæmdaraðila, feli í sér efnistöku á allt að 2.000.000 m³ af efni á um 35.000 m² svæði uppi á suðurbrún Ingólfsfjalls, að hluta til á sama svæði og byrjað hafi verið að taka efni á árinu 2004, en að stærstum hluta norðan og austan þess svæðis.  Vinnslutilhögun verði með þeim hætti að svæðinu verði skipt í tvö vinnslusvæði, um 10.000 m² svæði sem þegar hafi verið tekið efni af og um 25.000 m² óraskað svæði.  Námuvinnslunni verði skipt í tvo áfanga.  Í fyrri áfanga verði vinnsla á u.þ.b. 1.200.000 m³ efnis niður um 40 m og í þeim síðari verði haldið áfram niður á 80 m dýpi og teknir um 800.000 m³.  Gert sé ráð fyrir að framkvæmdatími verði 10-15 ár.

Fram kemur að efni verði losað með ripper og ýtutönn og ýtt fram af brún Ingólfsfjalls niður tvær svokallaðar rásir, E1 sem sé vestar og E2 austar.  Við það falli efnið niður á afgreiðslusvæði í núverandi námu.  Vestari rásin hafi verið notuð við efnisvinnslu ofan af Ingólfsfjalli fram að þessu.  Áður en hægt verði að ýta efni niður eystri rásina þurfi að sprengja klappir inn við bergstálið ofarlega í fjallinu.  Fram kemur að unnið verði til skiptis á hvoru vinnslusvæði fyrir sig eftir þörfum og efni afgreitt á meðan, neðan þeirrar rásar sem ekki verði í notkun.  Umfang hvors vinnslusvæðis einskorðist við geira með u.þ.b. 120 m radíus frá hvorri rás. Það sé sú hámarksfjarlægð sem fýsilegt sé að flytja til efni með þessari vinnslutilhögun, m.t.t. til hagkvæmni og efnisverðs miðað við núverandi stöðu á samkeppnismarkaði.

Lögbundið álit Skipulagsstofnunar um matið lá fyrir hinn 21. apríl 2006.  Er í álitinu gerð grein fyrir hinni matsskyldu framkvæmd, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar.  Í 4. kafla álitsins, sem er niðurstaða Skipulagsstofnunar, segir svo:
 
„Í samræmi við 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu framkvæmdaraðila sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga.  Matsskýrsla framkvæmdaraðila byggði á auglýstri frummatsskýrslu, umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma frummatsskýrslu og afstöðu framkvæmdaraðila til þeirra.

Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla framkvæmdaraðila hafi í meginatriðum uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum eftir því sem við á hvað varðar þau atriði sem getið er um í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005. Einnig telur stofnunin að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir athugasemdum og umsögnum sem bárust á kynningartíma frummatsskýrslu og þeim svarað á fullnægjandi hátt. Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir við þá aðferðarfræði í matsskýrslu sem notuð er við mat á áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á sjónræna þætti og landslag.

Fyrir liggur að sjónræn áhrif og áhrif á landslag beggja kosta, 1 og 2 verða sambærileg, eins og vinnslufyrirkomulag er kynnt í matsskýrslu nema að vestari rásin verður ekki notuð samkvæmt valkosti 2. Að mati framkvæmdaraðila er valkostur 2 ekki raunhæfur, m.a. þurfi að vinna utan eðlilegs vinnutíma þar sem einungis verður um efnistilfærslu niður eina rás að ræða og eitt afgreiðsluplan en slíkt fyrirkomulag telur framkvæmdaraðili í raun óásættanlegt við áframhaldandi rekstur námunnar.

Skipulagsstofnun telur að það mat framkvæmdaraðila í kafla 6.3 í matsskýrslu að heildaráhrif fyrirhugaðar framkvæmdar verði jákvæð sé í ósamræmi við umfjöllun í sama kafla um einkenni  og vægi áhrifa á einstaka umhverfisþætti.  Þar kemur fram það mat að sjónræn áhrif og áhrif landslag verði mikil, neikvæð, varanleg og óafturkræf. Einnig kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd hafi mikil, jákvæð áhrif á efnahag og samfélag og töluvert jákvæð áhrif á umferð. Skipulagsstofnun tekur undir ofangreint mat framkvæmdaraðila hvaða varðar sjónræn áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar og áhrif hennar á landslag. Um verður að ræða ásýndarbreytingar á Ingólfsfjalli vegna óafturkræfar skerðingar klettabrúnar fjallsins á um 400 m löngum kafla og lækkun hennar um 80 m auk röskunar og breytinga á yfirbragði klettabeltisins vegna tilfærslu efnis niður tvær rásir. Þessi áhrif munu auka enn á og magna enn frekar upp neikvæð sjónræn áhrif núverandi efnistökustaðar. Þá þarf að hafa í huga að sjónræn áhrif fyrirhugaðrar efnistöku munu ná til fjölda fólks, þar sem svæðið er í næsta nágrenni við þéttbýlisstaðinn Selfoss og fjölfarinn þjóðveg. Auk þess sem er um að ræða fjall sem er jarðmyndun að þeirri gerð að talið er forgangsmál, samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun, að vernda.

Skipulagsstofnun telur að áhrif á aðra umhverfisþætti verði tímabundin enda er hér um tímabundna framkvæmd að ræða til næstu 10-15 ára. Stofnunin telur líklegt að áhrif á umferð og umferðaröryggi verði jákvæð þar sem efnisflutningabifreiðir þurfa að fara sem stutta leið með efni frá námu til notenda. Varðandi efnahag og samfélag þá telur stofnunin líklegt að kostnaður aukist eftir því sem efnistökusvæði er lengra frá markaðssvæði efnisins.  Að því leyti liggur fyrir að fyrirhuguð efnistaka mun hafa jákvæð áhrif á næstu árum fyrir þá aðila í samfélaginu sem þurfa á efni að halda. Skipulagsstofnun bendir hins vegar á að sjónræn áhrif fyrirhugaðrar efnistöku flokkast einnig undir áhrif á samfélag.

Skipulagsstofnun telur að við mat á heildaráhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar, þurfi að vega saman annars vegar það mat að sjónræn áhrif og áhrif landslag verði mikil, neikvæð, varanleg og óafturkræf. Hins vegar verður um tímabundin jákvæð áhrif að ræða vegna styttri aksturs efnisflutningabifreiða og tímabundin jákvæð áhrif framkvæmdarinnar vegna mannvirkjaframkvæmda  í nágrenni efnistökusvæðis. Að mati Skipulagsstofnunar vega hin verulega neikvæðu, óafurkræfu og varanlegu sjónrænu áhrif þyngra.

Eitt af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Framkvæmdaraðili telur að aðrir raunhæfir kostir á efnisvinnslu umfram valkost 1 séu ekki raunhæfir.  Skipulagsstofnun telur að þær aðgerðir til mótvægis sem framkvæmdaraðili hefur kynnt í matsskýrslu um lögun efnistökusvæðisins uppi á Ingólfsfjalli að aðliggjandi landformum megni ekki að draga úr sjónrænum áhrifum efnistökunnar.

Í Aðalskipulagi Ölfuss 2002 – 2014 sem staðfest var 4. janúar 2005 og breytt 2. desember 2005 er gerð grein fyrir Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli. Þar kemur fram að efnistaka úr efri hluta námunnar sé óheimil þar til málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum sé lokið og framkvæmdaleyfi liggi fyrir. Vegna sérstöðu námunnar muni sveitarfélagið beita sér fyrir því að unnið verði deiliskipulag fyrir efnistökusvæðið.

Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð efnistaka úr Ingólfsfjalli eins og hún er kynnt í matsskýrslu, sé ekki ásættanleg vegna verulega neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra sjónrænna áhrifa og áhrifa á landslag sem hún mun óhjákvæmilega hafa í för með sér. Veiting framkvæmdaleyfis bryti því í bága við niðurstöðu stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.“

Á fundi sínum hinn 11. maí 2006 tók bæjarstjórn Ölfuss ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi í samræmi við umsókn Fossvéla ehf., þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar.  Færði bæjarstjórn fram rök fyrir þeirri ákvörðun sem rakin eru í eftirfarandi bókun:

„Samþykkt er að fela byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss að gefa út framkvæmdaleyfi til Fossvéla ehf. til efnistöku úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs í Ölfusi í samræmi við svokallaðan valkost I í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar frá 13. mars 2006.

Bæjarstjórn hefur kynnt sér matsskýrslu um framkvæmdina og kannað hvort framkvæmdin sé sú sama og þar er lýst.

Samþykkt er að ekki verði farið að áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum með eftirfarandi rökstuðningi;

Í fyrsta lagi er í umsókn Fossvéla ehf. um framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs í Ölfusi óskað eftir leyfi til efnistöku í samræmi við svokallaðan valkost I í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar frá 13. mars 2006.
Bent er á að samkvæmt niðurstöðu í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir að sjónræn áhrif og áhrif á landslag beggja valkosta, þ.e. I og II verða sambærileg, eins og vinnslufyrirkomulagið er kynnt í matsskýrslu, nema að vestari rásin verður ekki notuð samkvæmt valkosti II.
Í öðru lagi er bent á að Náttúruverndarsamtök Suðurlands ályktuðu á stjórnarfundi samtakanna þann 22. febrúar sl. að samtökin legðust ekki gegn fyrirhugaðri námavinnslu í Ingólfsfjalli.
Í þriðja lagi leggur Sveitarfélagið Ölfus ríka áherslu á að efnisflutningarbifreiðir fari sem stysta leið frá námu til notenda með tilliti til áhrifa á umferð og umferðaröryggi. Það er mat bæjarstjórnar að núverandi vegakerfi á Suðurlandi beri ekki þá auknu umferð sem fyrirsjáanlega verður þurfi efnistökubifreiðar að fara lengri leiðir frá námu til notenda.
Þá verður einnig að taka tillit til aukinna neikvæðra áhrifa á umhverfið, þurfi efnistökubifreiðar að lengja akstursleið sína, í formi aukinnar brennslu á eldsneyti, sliti á dekkjum, bremsuborðum o.fl.
Í fjórða lagi er bent á að valkostur I miðar við að áætluð efnisvinnsla verði í heildina um 2.000.000 m³. Miðað við núverandi eftirspurn úr námunni er gert ráð fyrir að vinnslan vari í 10-15 ár. Þrátt fyrir að framkvæmdinni sé að þessu leyti afmarkaður ákveðinn rammi, þá felst ekki í þeirri afmörkun að frekari efnistaka úr fjallinu verði ekki heimiluð síðar.
Í ljósi þessa verður ekki á þessu stigi komist að þeirri niðurstöðu að þau miklu efnahagslegu áhrif sem gætir af því að hafa námuna á þeim stað sem hún er nú á séu skammtímaáhrif.
Í fimmta lagi er það mat Sveitarfélagsins Ölfuss að rétt sé að taka ríkt tillit til þeirra jákvæðu efnahagslegu og samfélagsleguáhrifa að hafa námuna á þeim stað sem hún er nú á. Eina náman, utan námu í Ingólfsfjalli sem annað getur efnisþörf fyrir byggð á Suðurlandi er í Lambafelli. Sá kostnaðarauki sem flutningur námavinnslu myndi hafa í för með sér er umtalsverður.
Í sjötta lagi er bent á að þörfin fyrir efnistöku mun að öllum líkindum aukast á svæðinu. Verði námunni í Ingólfsfjalli lokað er fyrirsjáanlegt að opnaðar verði aðrar námur á Suðurlandi.
Í sjöunda lagi er að mati Sveitarfélagsins Ölfuss of mikið gert úr þeim sjónrænu áhrifum efnistökunnar. Bent er á að um er að ræða mjög huglæg áhrif og vandséð er hvernig hægt er að meta þau áhrif þyngra en þau jákvæðu efnahagslegu og samfélagslegu áhrif sem efnistaka í námunni hefur í för með sér.
Bent er á að hin sjónrænu áhrif gætir aðeins á takmörkuðu svæði þar sem landslag ber nú þegar merki efnistöku.
Í áttunda lagi er bent á að Skipulagsstofnun telur að ekki séu líkur á að fyrirhuguð efnistaka hafi neikvæð áhrif á neysluvatn, né heldur á gróður. Þá telur Skipulagsstofnun líklegt m.t.t. framlagðra gagna að áhrif fyrirhugaðra framkvæmdar á fugla verði ekki veruleg.
Fyrirhugað námuvinnslusvæði er í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 sem staðfest var af umhverfisráðherra 4. janúar 2005.

Framkvæmdaleyfið skal gefið út til 15 ára, þá skal þar gerð grein fyrir stærð efnistöku, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði allt í samræmi við svokallaðan valkost I í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar frá 13. mars 2006.“

Kærendur voru ósammála rökum bæjarstjórnar og ákvörðun hennar um útgáfu framkvæmdaleyfisins og skutu þeir málinu því til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Með úrskurði til bráðabirgða hinn 22. júní 2006 ákvað úrskurðarnefndin að takmarka heimildir leyfishafa til framkvæmda meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og hefur því ekki komið til umtalsverðrar röskunar á brún Ingólfsfjalls á námusvæðinu umfram það sem orðið var þegar málinu var skotið til nefndarinnar.

Málsrök kærenda:  Kærur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands eru nær samhljóða og er í þeim byggt á sömu eða sambærilegum lagarökum og málsástæðum.   

Kærendur halda því fram að útgáfa hins umdeilda framkvæmdaleyfis sé í andstöðu við markmið skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en markmið þeirra laga séu m.a:  „Að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Þá telja kærendur að útgáfan leyfisins uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br., en þar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar.  Í skýringum með frumvarpi til þeirra laga segi m.a:  „Lagt er til að leyfisveitandi skuli kynna sér skýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Leyfisveitendum ber þannig að fjalla um álit Skipulagsstofnunar og taka afstöðu til þess og kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila sem því liggur til grundvallar. Sé leyfi veitt þar sem tekið er á einhverjum eða öllum þáttum með öðrum hætti en fram kemur í álitinu þarf leyfisveitandi þannig að geta fært rök fyrir niðurstöðu sinni.“

Þegar lög mæli fyrir um að rök séu sett fram hljóti það að vera vilji löggjafans að röksemdafærslan standist skoðun og að framsett rök séu í það minnsta jafn veigamikil og rökin sem þeim sé ætlað að hrekja.  Það sé mat kærenda að svo sé ekki í þessu tilfelli.

Þá sé útgáfa leyfisins í andstöðu við markmið laga nr. 44/1999 um náttúruvernd en markmið þeirra séu:  „… að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.  Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.  Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.“

Ljóst sé að framkvæmdin muni spilla landi.  Ingólfsfjall beri nafn fyrsta landnámsmannsins og í þjóðsögum Jóns Árnasonar sé Ingólfur sagður hvíla í Ingólfshaugi á fjallinu.  Skírskotun í sögulegan menningararf þjóðarinnar blasi því við.

Samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi sé talið forgangsmál að vernda jarðmyndanir sem séu sjaldgæfar eða óvenjulegar á heimsmælikvarða, þ.á.m. móbergsmyndanir, en Ingólfsfjall sé móbergsstapi og eigi því að njóta þeirrar verndar sem stefnumörkun stjórnvalda kveði á um.

Að lokum sé bent á að samkvæmt 2. mgr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd sé óheimilt að gefa út framkvæmdaleyfi nema að fenginni umsögn Umhverfisstofnunnar og viðkomandi náttúruverndarnefndar, hafi framangreindir aðilar ekki veitt umsögn um aðalskipulag.   Ekki komi fram í rökstuðningi sveitarfélagsins að umsögn þessara aðila liggi fyrir og því virðist útgáfa leyfisins brjóta í bága við ofangreint ákvæði.

Kærendur telja að í röksemdafærslu sveitarfélagsins sé að finna órökstuddar fullyrðingar, rangfærslur og rökvillur.  Telji þeir því að röksemdafærsla sveitarfélagsins uppfylli ekki þær kröfur sem gera þurfi til röksemdafærslu af hálfu stjórnvalda í málum sem þessum.  Rekja kærendur hvern einstakan lið í rökum bæjarstjórnar í þeirri röð sem þeir koma fyrir í bókun bæjarstjórnar frá 11. maí 2006.  Er umfjöllun kærenda um hvern lið all ítarleg og eru þau sjónarmið er þar koma fram öll höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins en aðeins verður hér gerð grein fyrir samandregnum niðurstöðum kærenda um hvern lið fyrir sig sem eru eftirfarandi:

Um lið 1.  Kærendur telja að í fyrsta lið í röksemdafærslu sveitarfélagsins séu ekki sett fram nein rök fyrir framkvæmdinni.  Einungis sé um að ræða yfirlýsingu sveitarstjórnar þar sem fram komi að hún sé sammála áður framkomnum gögnum í málinu.  Úrskurðarnefndinni beri því að vísa þessum fyrsta lið röksemdafærslunnar á bug.

Um lið 2.  Úrskurðarnefndinni beri að hafna rökum af því tagi sem finna megi í öðrum lið þar sem þau geti almennt ekki talist gild og í þessu tilfelli sé heldur ekki rétt farið með staðreyndir.

Um lið 3.  Kærendur telja að með námu á öðrum stað í námunda við þéttbýlið sé hægt að koma í veg fyrir sum þau neikvæðu áhrif sem sveitarstjórn bendi á í þriðja lið röksemdafærslu sinnar.  Önnur neikvæð áhrif sem sveitarstjórnin bendi þar á, einkum þau er varði mengun og umhverfismál, séu að mati kærenda léttvæg samanborið við rök þeirra og Skipulagsstofnunar um sömu mál.

Um lið 4.  Í þessum lið sé rökvilla.  Röksemd Skipulagsstofnunar um að efnahagsleg áhrif þeirrar efnistöku sem hér sé um fjallað séu aðeins skammtímaáhrif standi því óhögguð.  Með vísan í rökvillu og ónógar upplýsingar um meintan efnahagslegan ávinning telji kærendur fjórða lið í röksemdafærslu Ölfuss ekki standast skoðun.

Um lið 5.  Í þessum fimmta lið í rökstuðningi Ölfuss komi fram að hér sé á ferðinni „…mat Sveitarfélagsins Ölfuss…“ og beri úrskurðarnefndinni eðli málsins samkvæmt að líta á þennan lið sem mat en ekki rök í hefðbundinni merkingu þess orðs.  Þá sé umrætt mat sveitarfélagsins á meintum jákvæðum efnahags- og samfélagslegum áhrifum ekki rökstutt með neinum hætti.

Um lið 6.  Bent hafi verið á að kanna þurfi möguleika á efnistöku á svæðinu.  Slík könnun myndi líklega leiða til þess að opnaðar yrðu aðrar námur á Suðurlandi.  Það þurfi út af fyrir sig ekki að vera með öllu vont enda ólíklegt að opnuð yrði náma með ámóta miklum umhverfisáhrifum og fylgi efnistökunni í Ingólfsfjalli.  Efnistaka úr sjó kynni t.a.m. að vera ákjósanlegur kostur sem ástæða væri til að kanna.

Um lið 7.  Í þessum sjöunda lið röksemdafærslunnar komi fram að hér sé á ferðinni „mat Sveitarfélagsins Ölfuss“ og beri úrskurðarnefndinni að skoða þessa framsetningu sem mat sveitarfélagsins en ekki rök.

Um lið 8.  Bent hafi verið á veigamikil rök gegn framkvæmdinni.  Fáar framkvæmdir séu þess eðlis að þær hafi neikvæð áhrif á alla þætti umhverfisins.  Hér séu tíndir til nokkrir umhverfisþættir sem líkur séu á að framkvæmdin muni ekki hafa neikvæð áhrif á.  Slíkt sé hægt að gera með allar framkvæmdir.  Það séu hinsvegar ekki rök í sjálfu sér.

Kærendur telja loks að þeir ríku náttúruverndarhagsmunir sem hér séu í húfi og greint sé frá í afar vel rökstuddu álit Skipulagsstofnunar hljóti að vega þyngra en léttvæg röksemdafærsla Sveitarfélagsins Ölfuss þar sem meintur efnahagslegur ávinningur virðist vera þúfan sem velt hafi hlassinu.

Engar tölulegar upplýsingar eða forsendur útreikninga á meintum efnahagslegum ávinningi liggi fyrir í röksemdafærslu sveitarfélagsins.  Í röksemdafærslu þess sé að finna órökstuddar fullyrðingar, rangfærslur og rökvillur.  Það sé því mat kærenda að röksemdafærsla sveitarfélagsins uppfylli ekki þær kröfur sem gera þurfi til röksemdafærslu af hálfu stjórnvalda í málum sem þessum.

Bent sé á að meintur efnahagslegur ávinningur muni aðeins vara um stutt skeið en náttúruspjöllin séu hinsvegar umfangsmikil og óafturkræf og muni blasa við komandi kynslóðum um ókomin ár.  Þá bendi rökstuðningur Sveitarfélagsins Ölfuss, sbr. 4. lið, til þess að efnistöku verði haldið áfram þegar þessum áfanga ljúki eftir 10-15 ár.  Það sé því viðbúið að áhrifin til lengri tíma litið verði enn meiri en fram komi í mati á umhverfisáhrifum og áliti Skipulagsstofnunnar ef framkvæmdaleyfið fái að halda gildi sínu.

Málsrök bæjarstjórnar Ölfuss:  Af hálfu bæjarstjórnar Ölfuss er áréttað að viðkomandi framkvæmdaleyfi hafi verið var gefið út skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að fengnu áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.  Rökstudd afstaða hafi verið tekin til álits Skipulagsstofnunar eins og 5. mgr. 27. gr. laganna mæli fyrir um.

Í framkomnum kærum sé ekki einu orði vikið að því að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt við töku hinnar kærðu ákvörðunar, enda hafi svo verið og hafi málsmeðferð og afgreiðsla sveitarstjórnar á málinu að öllu leyti verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, náttúruverndarlög nr. 44/1999 og stjórnsýslulög nr. 37/1997.  Allra lögbundinna álita hafi verið leitað.

Um útgáfu framkvæmdaleyfa sé að finna fyrirmæli í 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt því ákvæði sé útgáfa slíkra leyfa í höndum sveitarstjórnar.  Af  4. mgr. þess ákvæðis megi ráða að aðeins sé heimilt að gefa út framkvæmdaleyfi ef framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir.  Þá sé óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir.

Í 5. mgr. 27. gr. segi: „Við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skal sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin er sú sem lýst er í matsskýrslu. Þá skal sveitarstjórn taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.“

Af framangreindu ákvæði megi ráða að skylt sé að leita álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Í stjórnsýslurétti sé þessi þáttur í meðferð stjórnsýslumáls nefndur álitsumleitan.  Í fræðilegri umfjöllun sé gerður greinarmunur á annars vegar lögbundinni álitsumleitan og hins vegar frjálsri álitsumleitan.  Með lögbundinni álitsumleitan sé átt við þau tilvik þar sem mælt sé fyrir um í lögum að afla skuli umsagnar við undirbúning ákvörðunar.  Frjáls álitsumleitan nefnist þær umsagnir sem stjórnvald afli án þess að til þess standi lagaskylda.

Í ljósi þess að skylt sé lögum samkvæmt að leita álits Skipulagsstofnunar teljist framangreind álitsumleitan lögbundin.  Í framkvæmd hafi hins vegar verið talið að enda þótt stjórnvaldi sé að lögum skylt að leita sérstakrar umsagnar utanaðkomandi aðila áður en það taki ákvörðun í máli sé umsögnin ekki bindandi fyrir stjórnvaldið við ákvörðun málsins, nema að svo sé fyrir mælt í lögum.  Slík fyrirmæli sé ekki að finna í lögum nr. 73/1997.

Í ljósi þessa sé álit Skipulagsstofnunar ekki bindandi fyrir sveitarstjórnir við ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis.

Hins vegar sé lögð sú skylda á sveitarstjórnir við útgáfu framkvæmdaleyfa að kynna sér matsskýrslu um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu.  Þá þurfi að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sem og um hvort hún sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Þetta hafi verið gert.  Sveitarfélagið Ölfus hafi tekið upplýsta ákvörðun um útgáfu leyfisins á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem legið hafi fyrir um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

Þá sé einnig vísað til 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en þar segi að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveði.  Sé það því mat sveitarfélagsins að það eigi rétt á að fara eftir þeim rökum sem það telji betri kost heldur en komi fram í áliti Skipulagsstofnunar.

Af hálfu bæjarstjórnar Ölfuss er enn fremur bent á að í kærunum sé einungis farið fram á að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála endurskoði þann rökstuðning sem búi að baki ákvörðun sveitarfélagsins þar sem kærendur séu ekki sammála honum.  Tekið sé fram að úrskurðarnefndina skorti valdheimild til að endurskoða frjálst mat sveitarfélagsins hvað ákvörðun þess varði.

Líkt og fundargerð beri með sér sé það mat sveitarfélagsins að önnur rök séu veigameiri fyrir því að heimila áframhaldandi efnistöku á Ingólfsfjalli en sú huglæga sjónræna röskun sem öll áhersla sé lögð á í ofangreindum kærum.  Þau rök séu m.a. minni áhrif á umferð og umferðaröryggi og minni mengun vegna umferðar ef efnistöku sé haldið áfram á þessum stað.

Enn fremur sé það ljóst að gífurlegur kostnaðarauki fylgi því að þurfa að sækja efni alla leið að Lambafelli sem sé eina náman, utan námu í Ingólfsfjalli, sem annað geti efnisþörf fyrir byggð á Suðurlandi.  Því sé mikilvægt að líta til þeirra jákvæðu efnahagslegu og samfélagslegu áhrifa sem fylgi áframhaldandi efnistöku á þessu svæði.

Þá sé það stefna sveitarfélagsins, líkt og fram komi í gildandi aðalskipulagi, að hafa færri og stærri námur og það að loka svo stórri námu myndi þýða opnun fleiri minni náma með tilheyrandi röskun á landi.

Þá sé á það bent að mikil uppbygging sé á því svæði sem náman þjóni.  Til dæmis sé nú unnið að húsbyggingum í þremur nýjum hverfum á Selfossi og brátt hefjist vinna í því fjórða.  Einnig sé unnið í nýju hverfi í Hveragerði og muni vinna brátt hefjast í fleiri hverfum þar.  Þá sé einnig mikil uppbygging í Þorlákshöfn, á Eyrabakka og Stokkseyri.  Því sé ljóst að lokun námunnar nú muni hafa víðtækar afleiðingar í för með sér.  Þannig muni efnahagslegum hagsmunum verktaka á svæðinu verða ógnað, þar sem þeir muni ekki geta staðið við þegar gerða verksamninga, en fyrir liggi að efnistaka úr öðrum námum á svæðinu muni hafa í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka.

Ljóst sé að Sveitarfélagið Ölfus hafi tekið upplýsta og lögmæta ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis.  Rökstuðningur sveitarfélagsins fyrir ákvörðuninni hafi verið ítarlegur og uppfyllt öll ákvæði laga.  Þessi rökstuðningur sæti ekki endurskoðun að efni til, líkt og gerð sé krafa um.

Loks skuli upplýst að gerður hafi verið einkaréttarlegur samningur milli framkvæmdaraðila og Sveitarfélagsins Ölfuss þar sem framkvæmdaraðili skuldbindi sig til þess að grípa til ákveðinna mótvægisaðgerða um frágang og uppbyggingu svæðisins.

Með hliðsjón af öllu framansögðu beri að hafna kröfum kærenda í málinu.

Málsrök landeigenda og framkvæmdaleyfishafa:  Af hálfu framkvæmdaleyfishafans, Fossvéla ehf., og Helga Eggertssonar og Helgu R. Pálsdóttur, eigenda að 92% eignarhlut í óskiptu landi í Ingólfsfjalli, þar sem efnisvinnsla samkvæmt hinu umdeilda leyfi er fyrirhuguð, er kröfu kærenda um ógildingu leyfisins mótmælt.

Benda þau á að efnisvinnsla í landi Kjarrs í Ingólfsfjalli, sem framkvæmdaleyfið taki til, sé í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014, sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra 4. janúar 2005.  Í greinargerð aðalskipulagsins komi fram það markmið sveitarfélagsins að séð verði fyrir nægu framboði efnistökusvæða fyrir ýmiss konar byggingarstarfsemi og almennt sé gert ráð fyrir sem fæstum en tiltölulega stórum efnistökusvæðum.

Sveitarfélagið Ölfus hafi haft samráð við Umhverfisstofnun varðandi efnistöku og afmörkun efnistökusvæða og hafi umsögn stofnunarinnar frá 24. júní 2003 legið fyrir við gerð aðalskipulagsins, sbr. 33. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.  Ekki þurfti því að leita sérstaklega umsagnar hennar við útgáfu framkvæmdaleyfisins, sbr. 2. mgr. 47. gr. laganna.

Samkvæmt 2. tl. b-liðar 75. gr. samþykktar nr. 727/2004 um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Ölfuss starfi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd einnig eftir 11. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Á fundi nefndarinnar þann 11. maí 2006 hafi hún tekið fyrir umsókn Fossvéla ehf. um efnistöku í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli.  Hafi nefndin lagt til að ekki yrði farið eftir áliti Skipulagsstofnunar með rökstuðningi sem hafi fylgt bókuninni.  Bæjarstjórn Ölfuss hafi samþykkt fundargerð nefndarinnar á fundi síðar þann sama dag og falið byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi til Fossvéla ehf. til efnistöku úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs í Ölfusi í samræmi við svokallaðan valkost I í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar frá 13. mars 2006.  Röksemdir sveitarstjórnar fyrir því að fara ekki eftir áliti Skipulagsstofnunar hafi síðan verið ítarlega sundurgreindar og skýrðar frekar.

Samkvæmt framangreindu liggi fyrir að málsmeðferð og afgreiðsla sveitarstjórnar á útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi að öllu leyti verið í samræmi við 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1999.  Þau lögbundnu álit, sem fyrir sé mælt í náttúruverndarlögum, hafi legið fyrir við afgreiðslu leyfisins.

Þá hafi meðferð og afgreiðsla málsins af hálfu sveitarstjórnar verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Framkvæmdaleyfið sé einnig í samræmi við skipulagsáætlanir, sem og markmið sveitarfélagsins, sem lýst sé í greinargerð með aðalskipulagi.  Athugasemdir kærenda lúti fyrst og fremst að efnisatriðum ákvörðunar bæjarstjórnar og séu kærendur ósammála rökum sveitarfélagsins.  Úrskurðarnefndin hafi hins vegar ekki heimildir til að endurskoða hið frjálsa mat og ákvörðunarvald sveitarfélagsins að þessu leyti. 

Leyfishafinn og landeigendur hafi mikla hagsmuni af áframhaldandi efnisvinnslu.  Vinnslan snerti þó ekki einungis hagsmuni þeirra.  Það sé staðreynd að efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur af áframhaldandi efnisvinnslu sé gríðarlega mikill.  Stöðvun vinnslunnar hefði í för með sér mikil neikvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.  Slík aðgerð myndi því ekki einungis hafa áhrif á starfsemi leyfishafans heldur einnig alla áframhaldandi uppbyggingu byggðar á Suðurlandi.  Eina náman, utan námunnar í Ingólfsfjalli, sem annað geti efnisþörf fyrir byggð á Suðurlandi, sé í Lambafelli.  Kostnaður við að sækja efni þangað sé hins vegar svo mikill að ekki sé verjandi að sækja þangað efni.  Ekki sé um aðra námukosti að ræða fyrir byggðir á Suðurlandi.  Gríðarlegt tjón yrði því ef fallist yrði á kröfu kærenda.

Leyfishafi og landeigendur benda á að af hálfu kærenda hafi verið vísað til sjónrænna áhrifa af efnistökunni, sem séu mjög huglæg áhrif.  Vandséð sé hvernig hægt sé að meta sjónræn áhrif þyngra en það samfélagslega hagræði sem fylgi því að hafa efnistökustað nálægt notkunarstað þegar litið sé til alls þess umróts sem átt hafi sér stað á svæðinu síðustu áratugina.
 
Hafa verði einnig í huga að núverandi efnisvinnsla sé á takmörkuðu svæði þar sem landslag beri nú þegar merki efnistöku.  Ekki sé um að ræða röskun á jarðmyndun sem njóti verndar samkvæmt lögum.  Þá sé svæðið ekki á náttúruminjaskrá og ekki hafi verið lögð til verndun þess í náttúruverndaráætlunum.  Það hafi því ekki sérstakt verndargildi sem taka þurfi tillit til samkvæmt lögum.  Sú breyting sem fyrirhuguð vinnsla hafi í för með sér frá fyrri ummerkjum sé því ekki þess eðlis að um veruleg áhrif sé að ræða og teljist því ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Hagsmunir kærenda séu ekki eins ríkir að þessu leyti og breyti þá engu sjónarmið sem sett séu fram í kærum til nefndarinnar.  Vakin sé sérstök athygli á því að í kærunum sé ekki sé að finna nauðsynlega útlistun á hagsmunum kærenda hvað þetta varði.

Leyfishafi og landeigendur taka loks fram að þann 25. maí 1982 hafi verið undirritaður samningur milli landeigenda og Fossvéla hf. um rétt til námuvinnslu úr Þórustaðanámu og sé sá samningur enn í gildi auk þess sem aðilar hafi, þann 11. maí 2006, gert samkomulag við Sveitarfélagið Ölfus um efnisvinnsluna.  Ljóst sé að skerðing á efnisvinnslu, að hluta eða öllu leyti, samkvæmt þegar útgefnu framkvæmdaleyfi myndi svipta landeigendur ákveðnum og mikilvægum ráðstöfunar- og nýtingarheimildum yfir eign sinni, sem skilað hafi þeim umtalsverðum arði síðastliðin ár og fyrirséð sé að muni gera í framtíðinni að öllu óbreyttu. Slík skerðing stæðist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og færi einnig gegn lögvörðum atvinnuréttindum Fossvéla ehf.

Hagnýting jarðefna sem og námuréttindi séu þáttur í eignarétti landeigenda, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá sé einnig kveðið skýrt á um í 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu.  Almenna reglan sé sú að nýting auðlinda úr jörðu sé háð leyfi iðnaðarráðherra, hvort sem það sé til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða utan þeirra, sbr. 6. gr. laganna.  Regla þessi eigi þó ekki við um öll jarðefni, en landeiganda sé heimilt samkvæmt 8. gr. að nýta á eignarlandi sínu grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mó, mold og surtarbrand.  Sé það óbreytt regla frá fyrri lögum um námuréttindi.  Greint lagaákvæði árétti einfaldlega stjórnarskrárvarin eignar- og atvinnuréttindi landeigenda og framkvæmdaraðila.  Ekkert sem fram komi í kærunum geti falið í sér heimild til skerðingar á þessum réttindum.  Slíkt standist ekki eignarréttar- og atvinnuréttarákvæði stjórnarskrárinnar. 

Hér liggi fyrir lögmæt ákvörðun stjórnvalds um veitingu framkvæmdaleyfis, sem sé í samræmi við skipulagsáætlanir, lögbundin álit hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins, ákvörðunin hafi verið ítarlega og skilmerkilega rökstudd og hafi auk þess uppfyllt öll þau ákvæði laga sem við eigi í málum sem þessum.

Samkvæmt framangreindu beri að hafna kröfum kærenda.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki þykir ástæða til að rekja.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á námusvæðinu í Þórustaðanámu og á fyrirhuguðu efnistökusvæði hinn 8. september 2006.  Mættir voru allir nefndarmenn auk fulltrúa landeigenda, framkvæmdaleyfishafa og Sveitarfélagsins Ölfuss.  Fulltrúi Landverndar, sem er annar kærenda í máli þessu, var einnig viðstaddur. 

Niðurstaða:  Með lögum nr. 74/2005 voru gerðar umtalsverðar breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Var með þessum breytingum m.a. horfið frá því fyrirkomulagi sem áður var bundið í 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum að Skipulagsstofnun skyldi kveða upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum og taka í honum ákvörðun um hvort fallist væri á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, eða hvort lagst væri gegn henni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa.  Voru þess í stað sett ákvæði í 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 um að Skipulagsstofnun skuli gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Er áskilið í ákvæðinu að í áliti Skipulagsstofnunar skuli gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggi til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skuli í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem borist hafi við kynningu á frummatsskýrslu.

Samhliða þessum breytingum var leitt í lög að við útgáfu leyfis til matsskyldra framkvæmda skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.  Sé um að ræða matsskylda framkvæmd sem háð er framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hvílir þessi skylda á sveitarstjórn sem leyfisveitanda.  Er ákvörðun sveitarstjórnar um leyfi til slíkrar matsskyldrar framkvæmdar kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála samkvæmt 15. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. lög nr. 74/2005. 

Tóku framangreindar lagabreytingar gildi hinn 1. október 2005 og eiga þær við í máli þessu.

Allt frá því lög nr. 63/1993 tóku gildi hefur hér á landi verið skylt að meta umhverfisáhrif framkvæmda sem taldar eru geta haft umtalsverð áhrif á umhverfið.  Hefur löggjöfin miðað að því að ekki væri ráðist í slíkar framkvæmdir án þess að fyrir lægju nauðsynlegar forsendur til þess að unnt væri að taka upplýsta ákvörðun um leyfi til framkvæmda.  Í raun hefur stjórnsýsluframkvæmdin verið sú að heyrt hefur til undantekningar að lagst væri gegn framkvæmd í heild en nokkuð hefur verið um að einstökum framkvæmdakostum hafi verið hafnað og algengt hefur verið að skilyrði hafi verið sett fyrir framkvæmdum.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita Fossvélum ehf. framkvæmdaleyfi til efnistöku í Ingólfsfjalli samkvæmt valkosti I í matsskýrslu frá 13. mars 2006.  Var sú ákvörðun í andstöðu við álit Skipulagsstofnunar sem taldi að fyrirhuguð efnistaka, eins og hún væri kynnt í matsskýrslu, væri ekki ásættanleg vegna verulega neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra sjónrænna áhrifa og áhrifa á landslag, sem hún myndi óhjákvæmilega hafa í för með sér. 

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem greininni var breytt með lögum nr. 74/2005, skal afla framkvæmdaleyfis vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Í 2. mgr. sömu greinar segir að öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga sé háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.  Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skuli gefið út til tiltekins tíma þar sem gerð sé grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.

Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð.

Þá segir í 4. mgr. að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.  Óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. 

Í 5. mgr. er svo mælt fyrir um að við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu.  Þá skuli sveitarstjórn taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Í framangreindum ákvæðum 27. greinar skipulags- og byggingarlaga eru í meginatriðum talin þau lagaskilyrði sem sveitarstjórn þarf að gæta þegar tekin er afstaða til umsóknar um leyfi til framkvæmdar sem háð er mati á umhverfisáhrifum.  Verður fyrst að þessum skilyrðum vikið en síðar hugað að öðrum lagaatriðum sem kærendur telja að komið geti til álita við úrlausn málsins.

Fyrir liggur að Fossvélar ehf. sóttu skriflega um leyfi til framkvæmda í samræmi við valkost I í matsskýrslu um framkvæmdina frá 13. mars 2006.  Þessa matsskýrslu hafði Skipulagsstofnun metið fullnægjandi og kemur sú niðurstaða ekki til endurskoðunar hjá úrskurðarnefndinni.  Þá liggur og fyrir að í Aðaskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2002 – 2014 er gert ráð fyrir umræddri efnistöku og að lögboðinna umsagna hafði verið leitað um aðalskipulagstillöguna, m.a. umsagnar Umhverfisstofnunar.  Umdeilt leyfi er tímabundið og er umfang efnistökunnar afmarkað í matsskýrslu og í leyfinu sjálfu, auk þess sem áskilið er í aðalskipulagi að deiliskipulag skuli unnið fyrir svæðið þar sem m.a. verði gerð grein fyrir frágangi þess að vinnslu lokinni.  Verður samkvæmt framansögðu að telja að fullnægt hafi verið skilyrðum 1.-4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga við afgreiðslu málsins.

Samkvæmt 5. mgr. nefndrar 27. gr. skal sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu.  Verður ekki annað ráðið en að þessu skilyrði hafi verið fullnægt með viðunandi hætti.  Þá segir í sömu málsgrein að sveitarstjórn skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. 

Álit Skipulagsstofnunar er lögbundið álit.  Það er ekki bindandi fyrir sveitarstjórn en áskilið er að hún taki rökstudda afstöðu til álitsins við afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi.  Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 m.s.br. skal vera um að ræða rökstutt álit á því hvort matsskýrslan uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Í áliti Skipulagsstofnunar skal og gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem borist hafi við kynningu á frummatsskýrslu.

Samkvæmt því sem nú var rakið þarf álit Skipulagsstofnunar að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald.  Er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga að álitið fullnægi lagaskilyrðum.  Verður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar fullnægi lagaskilyrðum enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Álit Skipulagsstofnunar er að dómi úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum.  Þarf nefndin að taka afstöðu til þess hvort þessir ágallar séu þess eðlis að líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á niðurstöðu sveitarstjórnar í málinu, og þá um leið hvort hafna verði álitinu sem ófullnægjandi.  Verður einkum stuðst við niðurstöðu álitsins í 4. kafla við mat á gildi þess.

Nánast í upphafi niðurstöðukaflans segir svo:  „Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla framkvæmdaraðila hafi í meginatriðum uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum eftir því sem við á hvað varðar þau atriði sem getið er um í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.“  Telur úrskurðarnefndin að í þessu orðalagi sé gerður ótilgreindur fyrirvari um að matsskýrsla framkvæmdaraðila kunni í einhverjum efnum að vera ófullnægjandi.  Hvorki orðalag 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 né 24. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 þykja gefa tilefni til slíks fyrirvara.  Jafnframt þykir hér skorta á að fullnægt sé kröfu um rökstuðning.

Niðurstaða álits Skipulagsstofnunar er alfarið byggð á því að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki ásættanleg vegna verulega neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra sjónrænna áhrifa og áhrifa á landslag sem hún muni óhjákvæmilega hafa í för með sér.  Í umfjöllun í álitinu um þessi áhrif segir m.a. svo:  „Um verður að ræða ásýndarbreytingar á Ingólfsfjalli vegna óafturkræfrar skerðingar klettabrúnar fjallsins á um 400 m löngum kafla og lækkun hennar um 80 m auk röskunar og breytinga á yfirbragði klettabeltisins vegna tilfærslu efnis niður tvær rásir.“  Úrskurðarnefndin telur þessa lýsingu villandi.  Í matsskýrslu kemur fram að land hækki til suðvesturs uppi á fjallinu og að landhalli sé um 6º.  Má af þessu ráða að ný klettabrún að baki vinnslusvæðinu verði um 12 metrum hærri en núverandi fjallsbrún miðað við 120 m vinnsludýpt.

Þá segir nokkru síðar í niðurstöðukafla álitsins:  „Auk þess sem er um að ræða fjall sem er jarðmyndun að þeirri gerð að talið er forgangsmál, samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun, að vernda.“  Við þessa staðhæfingu verður að gera þá athugasemd að þar til bær stjórnvöld virðast hafa tekið þá ákvörðun að framfylgja ekki tilvitnaðri stefnumörkun í því tilviki sem hér um ræðir, enda er ekki vitað til þess að tillögur hafi komið fram um verndun umrædds svæðis í umfjöllun þeirra stjórnvalda sem gefið hafa umsagnir í málinu og fara með málefni náttúruverndar í landinu.

Loks segir í lokamálsgrein í niðurstöðu Skipulagsstofnunar:  „Veiting framkvæmdaleyfis bryti því í bága við niðurstöðu stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.“  Úrskurðarnefndin telur að hér láti nærri að komist sé að niðurstöðu með svipuðum hætti og gert var þegar Skipulagsstofnun kvað upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum í samræmi við eldri ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum.  Þykir á skorta að stofnunin tjái sig um mögulegar mótvægisaðgerðir og annað er máli gæti skipt um fyrirhugaða framkvæmd ef í hana yrði ráðist, en ætla verður að stofnuninni hafi átt að vera ljóst að sveitarstjórn væri heimilt að ganga gegn áliti hennar með rökstuddri ákvörðun. 

Tilvísun í 1. mgr. 24. gr. reglugerðar 1123/2005 verður að teljast óheppileg í ljósi þess að í umræddu reglugerðarákvæði virðist vera misritun og að auki er í ákvæðinu vikið verulega frá orðalagi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, sem reglugerðarákvæðið á þó að styðjast við.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar verður ekki talið að álitið hafi verið ófullnægjandi eða að ágallar á því hafi verið líklegir til að breyta niðurstöðu bæjarstjórnar Ölfuss um framkvæmdaleyfið.  Verður því að telja að skilyrði hafi verið til þess að taka fyrirliggjandi umsókn um framkvæmdaleyfi til afgreiðslu, svo sem gert var. 

Enda þótt fallast megi á það með kærendum að í sumum liðum í röksemdafærslu bæjarstjórnar Ölfuss gæti ónákvæmni og að aðrir liðir eigi jafnvel ekki við, þá þykir ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss nægilega rökstudd einungis með tilvísun til jákvæðra efnahagslegra áhrifa, sem gagna nýtur um í málinu, og með ábendingu um hve huglæg þau umhverfisáhrif eru sem Skipulagsstofnun leggur til grundvallar niðurstöðu sinni.  Telur úrskurðarnefndin að í tilviki sem þessu, þar sem á vegast annars vegar náttúruverndarsjónarmið og hins vegar hagsmunir sem eiga rót í efnahagslegum ávinningi, væri ákjósanlegt að leggja hlutlægan mælikvarða á þá hagmuni sem í húfi eru með kostnaðar-ábatagreiningu.  Má ætla að niðurstöður slíkrar greiningar hefðu lagt traustari grundvöll að ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Er raunar að því fundið í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu umhverfismála hér á landi frá árinu 2001, hve slíkum aðferðum hafi sjaldan verið beitt hérlendis. 

Af hálfu kærenda er vísað til athugasemda sem settar hafi verið fram þegar frummatsskýrslan hafi verið til umfjöllunar þar sem bent hafi verið á að brýnt væri að stjórnvöld á Suðurlandi myndu kanna valkosti til efnistöku til þess að mæta mikilli eftirspurn eftir byggingarefni í landshlutanum.  Á meðan slík könnun hafi ekki farið fram sé ekki hægt að útiloka að finna megi efnistökustaði hæfilega nálægt notkunarstað.  Ekki verður fallist á að þessar ábendingar hafi átt að leiða til þess að framkvæmdaraðili eða bæjarstjórn hefðu frumkvæði að könnun annarra valkosta, enda lá fyrir í aðalskipulagi sveitarfélagsins, staðfestu af umhverfisráðherra hinn 4. janúar 2005, stefna þess um landnotkun og þar með talið um efnistökusvæði.  Hefðu athugasemdir um valkosti til efnistöku fremur getað haft þýðingu við undirbúning og gerð aðalskipulagsins en við mat á umhverfisáhrifum efnistöku sem ráðgerð var í gildandi aðalskipulagi. 

Þykja málsástæður kærenda er lúta að röksemdafærslu bæjarstjórnar fyrir hinni kærðu ákvörðun samkvæmt framansögðu ekki eiga að leiða til þess að fallist verði á kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á með kærendum að veiting hins umdeilda leyfis hafi farið svo gegn markmiðsákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða náttúruverndarlaga að ógildingu varði, enda hefur við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar einmitt verið staðreynt hvort fyrirhuguð efnistaka fái samrýmst heimildum greindra laga.  Er m.a. ítarlega fjallað um þessa þætti málsins í vandaðri matsskýrslu framkvæmdaraðilans, sem er meðal höfuðgagna málsins.

Þegar metið er lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar verður, auk þess sem þegar er rakið, að hafa í huga að bæjarstjórn bar ekki aðeins að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar og gæta að öðru leyti skilyrða 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur bar henni einnig að líta til stjórnarskrárvarinna eignar- og atvinnuréttinda landeigenda og framkvæmdaraðila, sem haft hafa arð af rekstri efnisnámu á umræddu svæði um áratuga skeið.  Þá skipti og miklu að svæðið ber þegar veruleg ummerki efnistökunnar og að í hinni kærðu ákvörðun er áskilnaður um frágang svæðisins og umgengni um það.  Er þannig tryggt að gripið verði til raunhæfra mótvægisaðgerða þrátt fyrir að Skipulagsstofnun hafi ekki neytt heimildar 2. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. til að mæla sérstaklega fyrir um þær í áliti sínu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hafna beri kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Jafnframt falla úr gildi réttaráhrif bráðbirgðaúrskurðar frá 22. júní 2006 um takmörkun á framkvæmdum samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist nokkuð vegna mikils málafjölda sem komið hefur til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita Fossvélum ehf. framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         ____________________________
                           Ásgeir Magnússon                                Geir Oddsson                                     

 

_____________________________         _____________________________
Geirharður Þorsteinsson                                Þorsteinn Þorsteinsson

10/2005 Langholtsvegur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2005, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 22. desember 2004 á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Langholtsvegi 113 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir H persónulega og fyrir hönd húsfélagsins að Langholtsvegi 109-111, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 22. desember 2004 á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Langholtsvegi 113 í Reykjavík.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik:  Hinn 22. október 2004 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Langholtsvegi 113.  Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum.  Málið var í kynningu frá 27. október til 24. nóvember 2004.  Nokkrar athugasemdir bárust, þ.á m. frá kærendum.  Að lokinni grenndarkynningu var málinu vísað til skipulags- og byggingarnefndar, sem samþykkti umrædda deiliskipulagsbreytingu á fundi sínum 22. desember 2004.
 
Byggja kærendur ógildingarkröfu sína á því að deiliskipulagsuppdráttur sá sem kynntur hafi verið sé með rangri og villandi merkingu auk þess sem á honum séu gamlar upplýsingar, rangfærslur í sneiðingum og viðeigandi sneiðingar vanti.  Þá hafi á skort að tekin hafi verið afstaða til athugasemda kærenda sem settar hafi verið fram við grenndarkynningu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Sé sú krafa studd þeim rökum að hin kærða ákvörðun hafi aldrei öðlast gildi og séu því ekki forsendur til þess að hún verði felld úr gildi af úrskurðarnefndinni.  Vekja beri athygli á að þrátt fyrir að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt umdeilda deiliskipulagsbreytingu hafi hún ekki öðlast gildi þar sem breytingin hafi ekki verið send Skipulagsstofnun til skoðunar auk þess sem gildistökuauglýsing hafi ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Beri því að líta á fyrrgreinda samþykkt skipulags- og byggingarnefndar sem markleysu að lögum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umþrætt deiliskipulagsbreyting, er skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti hinn 22. desember 2004, öðlaðist ekki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við lokamálsgrein 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, og styðst sú ályktun enn fremur við 2. mgr. 27. gr. laganna, sem kveður á um að upphaf kærufrests sé við opinbera birtingu ákvörðunar, þar sem slík birting er lögmælt.  Að þessu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________         _______________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson