Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/2007 Fróðaþing

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2007, kæra á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 11. desember 2006 að veita byggingarleyfi í samræmi við breytt deiliskipulag vegna nefndrar lóðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. febrúar 2007, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir S, lóðarhafi Fróðaþings 40, Kópavogi, samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 11. desember 2006 að veita byggingarleyfi  fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð.  Bæjarstjórn staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúa hinn 9. janúar 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.  Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli byggingarleyfishafa og hefur nefndin aflað sér nokkurra upplýsinga varðandi málið.  Þrátt fyrir að umbeðin gögn er málið varða hafa ekki borist frá bæjaryfirvöldum þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka til úrskurðar skipulagsþátt kærunnar og bráðabirgðakröfu um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. 

Málavextir:  Hinn 12. desember 2006 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Fróðaþingi 20, að undangenginni umsókn lóðarhafa þar um.  Mun breytingin hafa falið í sér breytta stöðu fyrirhugaðs húss á lóð, færslu bílastæða og að aðkoma að lóð skyldi vera frá annarri götu en upphaflega var gert ráð fyrir.  Var breytingartillagan grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð í samræmi við fyrrnefnda breytingartillögu hinn 11. desember 2006 er bæjarstjórn staðfesti hinn 9. janúar 2007. 

Málsrök kæranda:  Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð og efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Vafi sé í huga kæranda um hvort ákvörðun bæjarskipulags um grenndarkynningu hafi verið í samræmi við lög og ekki hafi verið færð fram rök fyrir breytingunni.  Áttundi liður deiliskipulagsskilmála, er bæjaryfirvöld vitni til, geti ekki heimilað svo veigamikla breytingu á stöðu húss og aðkomu að lóð er hér um ræði.  Hin kærða ákvörðun fari á skjön við synjun sambærilegs erindis lóðarhafa að Fróðaþingi 22, en eigi sömu sjónarmið eigi við í báðum tilvikum.  Grenndarkynning hafi ekki náð til allra hagsmunaaðila og kynningargögn hafi verið villandi þar sem sýnd hafi verið breytt aðkoma að lóðinni að Fróðaþingi 22 þrátt fyrir synjun um þá breytingu. 

Umdeild breyting og byggingarleyfi raski grenndarhagsmunum kæranda með því að aðkoma að Fróðaþingi 20 sé færð að götu er liggi við suðurlóð kæranda þar sem engin aðkoma sé fyrir að lóðum.  Breytingin hafi því í för með sér aukna umferð og annað ónæði sem raski lögvörðum hagsmunum kæranda auk þess sem snúningur umdeilds húss um 90 gráður eyðileggi fyrirhugaða götumynd. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er krafist frávísunar málsins og að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað.  Byggingarleyfishafi krefst jafnframt kærumálskostnaðar. 

Hið kærða byggingarleyfi styðjist við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og staðfest deiliskipulag sem breytt hafi verið með grenndarkynningu.  Ákvörðunin, sem sé stjórnvaldsákvörðun, hafi verið tilkynnt byggingarleyfishafa með opinberri birtingu hinn 15. desember 2006 og sé bindandi frá þeim tíma, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Kæra í máli þessu hafi því borist að liðnum kærufresti og beri af þeim sökum að vísa málinu frá.  Bent sé á að þeim sem hafi tjáð sig við grenndarkynningu skuli tilkynnt um lyktir máls og ekki sé kunnugt um að misbrestur hafi orðið í því efni. 

Samkvæmt 8. lið skilmála umrædds deiliskipulags komi skýrt fram að á teikningu séu sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílgeymslum en hönnuðum sé heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.  Kæranda, sem lóðarhafa, hafi því átt að vera fullkunnugt um þessa skilmála og að staðsetning bílastæða og aðkoma að bílgeymslum kynni að verða útfærð nánar. 

Framkvæmdir séu hafnar að Fróðaþingi 20 á grundvelli lögmæts byggingarleyfis og hafi byggingarleyfishafi tekist á hendur miklar fjárskuldbindingar í því sambandi og hafi nú þegar selt íbúðarhús sitt.  Ekki fái staðist að réttur byggingarleyfishafa samkvæmt lögmætri ákvörðun eigi að víkja fyrir lítt skilgreindum grenndarhagsmunum.  Í lokamálslið 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að ákvörðun sveitarstjórnar skuli standa við þessar aðstæður en að bótaréttur kunni að skapast þeim til handa sem verði fyrir hagsmunaröskun vegna skipulagsbreytingarinnar. 

Ekki eigi hér að skipta máli hvort útfærsla á deiliskipulagi lóðarinnar að Fróðaþingi 20 hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, enda sé nefnt ákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga undantekningarákvæði frá 1. og 3. mgr. greinarinnar.  Þá verði jafnframt að skýra 2. mgr. 26. gr. laganna til samræmis við stjórnarskrárvarinn sjálfsforræðisrétt sveitarfélaga og á þann veg að Skipulagsstofnun hafi ekki endurskoðunarvald um óverulegar breytingar á deiliskipulagi. 

Krafa um kærumálskostnað sé sett fram í ljósi þess að byggingarleyfishafi hafi verið knúinn til að bregðast við kæru sem sé sett fram að ósekju.  Tafir á byggingarframkvæmdum hafi þegar valdið byggingarleyfishafa tjóni og augljóst að frekari tafir auki þann skaða.  Þótt ekki sé í lögum heimild fyrir kærumálskostnaði í málum fyrir úrskurðarnefndinni geti hún sem sjálfstætt stjórnvald ákvarðað greiðslu kostnaðar á málefnalegum forsendum.  Ennfremur sé minnt á að í 8. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að kostnaður vegna úrskurðarnefndar greiðist úr ríkissjóði. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting var gerð á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi. 

Samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga er meginreglan sú að breytingar á deiliskipulagi sæti sömu málsmeðferð og nýtt deiliskipulag samkvæmt 25. gr. laganna.  Í því felst m.a. að auglýsa skal tillöguna í Lögbirtingarblaði og með öðrum áberandi hætti og skal mönnum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum innan ákveðins frests í samræmi við 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Í 2. mgr. 26. gr. er sú undantekning gerð, þegar um óverulega deiliskipulagsbreytingu er að ræða, að falla má frá auglýsingu en tillagan í stað þess grenndarkynnt samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Skal skipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun ásamt yfirlýsingu um að sveitarstjórn taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Í 3. mgr. 26. gr. er síðan kveðið á um að birta skuli auglýsingu um breytt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda.

Fyrir liggur að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var ekki send Skipulagsstofnun til yfirferðar ásamt fyrrnefndri yfirlýsingu sveitarstjórnar og að auglýsing um gildistöku hennar hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Telur úrskurðarnefndin ótvírætt að birta þurfi gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulagsbreytingar sem farið er með samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tekin eru af öll tvímæli um þetta atriði í 3. mgr. ákvæðisins, sem væri augljóslega óþarft ætti það aðeins við um breytingar samkvæmt 1. mgr. 26. gr., enda er þar vísað til málsmeðferðar nýs skipulags sem sætir slíkri auglýsingu samkvæmt 25. gr. laganna.  Úrskurðarnefndin byggði á þessari lagatúlkun í úrskurði sínum uppkveðnum hinn 2. nóvember 2006 í máli nr. 54/2006 þar sem fallist var á kröfu Kópavogsbæjar um frávísun með þeim rökum að umþrætt deiliskipulagsbreyting í því máli, sem farið hafði verið með samkvæmt fyrrnefndri 2. mgr. 26. gr., hefði hvorki verið send Skipulagsstofnun né auglýsing um gildistöku hennar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt framansögðu er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum ekki lokið og hefur hún ekki tekið gildi.  Ber því að vísa kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar frá með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggingarleyfishafi hefur í máli þessu gert kröfu um kærumálskostnað.  Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eru markaðar í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga en þar er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til að úrskurða um kærumálskostnað á hendur málsaðilum.  Verður ekki fallist á að unnt sé að úrskurða um slíkan kostnað án beinnar lagastoðar og styðst sú ályktun við lögmætisreglu íslensks stjórnarfars- og stjórnskipunarréttar, en hún felur m.a. í sér að hver sú athöfn stjórnvalda sem leggur skyldur á herðar einstaklingum verði að eiga sér ótvíræða lagastoð.  Verður kröfu byggingarleyfishafa um kærumálskostnað af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Áhöld eru uppi í málinu m.a. um það hvort umþrætt byggingarleyfi hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag er það var veitt.  Með vísan til þess, og með hliðsjón af því að úrskurðarnefndinni hafa enn ekki borist umbeðin gögn er málið varða frá Kópavogsbæ, þykir rétt að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um ógildingu á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.

Kröfu byggingarleyfishafa um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni að Fróðaþingi 20, Kópavogi, er byggingarfulltrúi Kópavogs veitti hinn 11. desember 2006 og bæjarstjórn Kópavogs staðfesti hinn 9. janúar 2007, skulu stöðvaðar þar til endanlegur úrskurður gengur í máli þessu varðandi nefnt byggingarleyfi. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
           Þorsteinn Þorsteinsson                                        Geirharður Þorsteinsson

62/2006 Eyrarstígur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2006, kæra á samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 4. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á fundi bæjarráðs hinn 1. ágúst 2006 var samþykkt nefndarinnar staðfest. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfuna um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í málinu. 

Málavextir:  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarveg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar að lóð nr. 2 við Eyrarveg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að lóðarmörkum.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að verði af byggingu bílgeymslu í samræmi við hið kærða leyfi muni það hafa í för með sér birtu- og útsýnisskerðingu þar sem að nokkru yrði byggt fyrir glugga á húsi þeirra. 

Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við ákvæði gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en samkvæmt ákvæðinu skuli lágmarks fjarlægð frá lóðamörkum vera þrír metrar.  Í því tilfelli er hér um ræði sé fjarlægðin aðeins einn metri og einn og hálfur metri sé á milli bílgeymslu á lóðinni nr. 2 við Eyrarstíg og þeirrar er um sé deilt í málinu.  Telji kærendur þetta fyrirkomulag í það minnsta varhugavert með tilliti til sambrunahættu. 

Kærendur gera athugasemd við undirbúning og málsmeðferð hins kærða leyfis og telja að gögn er notuð hafi verið við grenndarkynningu þess hafi ekki verið rétt.  Í þeim hafi m.a. verið vísað til gr. 12.5 í byggingarreglugerð í stað 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ákvörðun umhverfismálaráðs byggi á því að bílskúr á lóð kærenda sé byggður aðeins um hálfan metra frá mörkum lóðanna að Eyrarstíg 2 og 4.  Bílastæði á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg hafi ávallt verið við mörk lóðanna og geti raunar ekki verið annars staðar.  Þegar veitt hafi verið heimild til byggingar bílskúrs á lóð kærenda hafi verið talið að um gagnkvæman byggingarrétt væri að ræða. 

Við ákvörðun um staðsetningu og stærð hinnar umdeildu bílgeymslu sé fullt tillit tekið til kærenda.  Þannig sé hún staðsett á mörkum lóðarinnar nr. 8 við Brekkugötu með samþykki eigenda þess húss ásamt því að hún sé höfð aðeins í 60 sentimetra fjarlægð frá íbúðarhúsi byggingarleyfishafa og sé hófleg að stærð. 

Varðandi birtuskerðingu sé bent á að þeir gluggar á húsi kærenda, er snúi að húsi byggingarleyfishafa og bygging bílgeymslunnar hafi áhrif á, séu á geymslu og þvottahúsi.  Eldhúsgluggi á húsi kærenda sé framan við fyrirhugaða bílgeymslu.  Því sé hafnað að kærendur verði fyrir útsýnisskerðingu enda þurfi að fella tré til að koma bílgeymslunni fyrir. 

Tekið sé fram að byggingarleyfið hafi verið veitt á þeim forsendum að brunakröfur verði í samræmi við ákvæði gr. 113.3, 113.4 og 113.6 í byggingarreglugerð. 

Grenndarkynningargögn hafi verið unnin af byggingarleyfishafa og megi rekja skekkju í þeim til loftmynda af svæðinu. 

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að hin umdeilda bílgeymsla muni uppfylla þær kröfur sem til hennar séu gerðar skv. 113 gr. í byggingarreglugerð og telji hann að ákvæði 75. gr. reglugerðarinnar eigi ekki við í þessu tilviki. 

Staðsetning bílgeymslunnar ákvarðist af því að hún hafi sem minnst grenndaráhrif og sé raunar eini mögulegi staðurinn sem hún geti verið á.  Þá sé bent á að eigendur hússins að Brekkugötu 8 hafi ekki sett fram neinar athugasemdir við byggingaráformin. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeir verði fyrir útsýnisskerðingu sé bent á að eina útsýnið sem þeir verði af sé bakgarður byggingarleyfishafa.  Gluggar á húsi kærenda er um ræði séu gegnt herbergisgluggum byggingarleyfishafa og vísi í vestur.  Skerðing verði ekki á sólarljósi fyrr en sólin sé komin norður fyrir vestur.  Þá sé degi farið að halla verulega, auk þess sem landfræðilegar aðstæður séu þess eðlis að sólargangur í vestri og norðan við vestur sé einungis yfir björtustu sumarmánuðina. 

Ekki sé réttmætt af hálfu kærenda að halda því fram að afstaða íbúðarhúss og bílgeymslu í þeirra eigu komi í veg fyrir byggingu hinnar umdeildu bílgeymslu.  Í hverfinu séu flest húsanna byggð á árunum 1960-1970 og við sum þeirra standi bílgeymslur við lóðamörk og séu sumar þeirra nær þeim en kærendur telji heimilt í kærumáli þessu. 

Að öðru leyti sé tekið undir sjónarmið þau er sett hafi verið fram af hálfu sveitarfélagsins. 

Niðurstaða:  Er hin kærða ákvörðun var tekin var í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 kveðið á um lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum og minnsta bil milli húsa.  Þó var heimilt að víkja frá lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum samkvæmt greininni í skipulagi eða með þinglýstum samningi lóðarhafa. 

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og ekki liggur fyrir þinglýstur samningur lóðarhafa.  Var því ekki fullnægt skilyrðum til þess að heimila staðsetningu hinnar umdeildu bílgeymslu nær lóðamörkum en áskilið var í tilvitnuðu ákvæði svo sem gert var.  Því var hið umdeilda byggingarleyfi í andstöðu við gildandi ákvæði byggingarreglugerðar þegar leyfið var veitt og verður það af þeim sökum fellt úr gildi.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt nú hafi verið gerðar breytingar á umræddu reglugerðarákvæði til rýmkunar, enda verður hinu breytta ákvæði ekki beitt með afturvirkum hætti. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 

Úrskurðarorð:

Samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um byggingarleyfi, sem staðfest var í bæjarráði hinn 1. ágúst 2006, fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði er felld úr gildi. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                      _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

25/2005 Norðurbakki

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2005, kæra vegna byggingarframkvæmda samkvæmt deiliskipulagi fyrir Norðurbakka, Hafnarfirði, sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. mars 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. Hansen ehf., Vesturgötu 4, Hafnarfirði, byggingarframkvæmdir samkvæmt deiliskipulagi fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á greindri deiliskipulagsákvörðun.

Málavextir:  Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015.  Fólst breytingin í því að meginhluta hafnarsvæðis á Norðurbakka var breytt í íbúðarsvæði en svæði næst miðbæ var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Bryggja og hafnarkantur í suðurjaðri svæðisins voru áfram skilgreind sem hafnarsvæði.  Miðsvæði norðan Vesturgötu og vestan Merkurgötu var breytt í íbúðarsvæði en miðsvæði sunnan Vesturgötu og vestan Fjarðargötu var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Samhliða þeirri breytingu var unnið að deiliskipulagi fyrir Norðurbakka þar sem m.a. var gert ráð fyrir fjölbýlishúsum á lóðunum að Vesturgötu 1 og 3 sem liggja sunnan Vesturgötu á móts við fasteign kæranda sem nýtt er undir veitingarekstur.  Á kynningartíma deilskipulagstillögunnar komu fram athugasemdir, þar á meðal frá kæranda.  Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna hinn 8. febrúar 2005 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí 2005.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu fara of nærri fasteign hans að Vesturgötu 4, þar sem fram fari veitingastarfsemi.  Íbúðarhúsnæði og vínveitingastarfsemi eigi illa saman og hætta sé á hagsmunaárekstrum.  Þá séu öll bílastæði við veitingarstað kæranda lögð af.

Fyrirhugaðar breytingar hafi ekki verið grenndarkynntar og kærandi ekki átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að þótt hann eigi beinna hagsmuna að gæta og athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ.  Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi því verið ábótavant samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og andmælaréttar kæranda ekki gætt samkvæmt. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa ekki borist athugasemdir eða sjónarmið vegna kærumáls þessa en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að bæjaryfirvöld telji að breytt landnotkun og íbúðarbyggð sú sem hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir gangi ekki gegn hagsmunum kæranda.  Samkvæmt skipulaginu verði t.d. heimilt að hafa þjónustustarfsemi á fyrstu hæðum bygginga í næsta nágrenni við kæranda.  Skipulaginu sé ætlað að þétta byggð í miðbæ Hafnarfjarðar og koma til móts við óskir fólks sem vilji búa nálægt þjónustu og miðbæjarlífi.

Niðurstaða:  Hin kærða skipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga sem almenn skipulagsbreyting og kom því ekki til grenndarkynningar samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, sem kemur í stað almennrar auglýsingar þegar um óverulega breytingu á skipulagi er að ræða.  Kærandi kom á framfæri athugasemdum við deiliskipulagstillöguna í bréfi til skipulagsyfirvalda bæjarins, dags. 6. desember 2004, og var athugasemdum hans svarað eftir að kæra hans í máli þessu barst en fyrir gildistöku skipulagsins.  Verður málsmeðferð deiliskipulagsins því ekki talin haldin ágöllum að þessu leyti.

Eins og fram er komið tók gildi breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar í janúar 2005 þar sem gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svonefndum Norðurbakka, m.a. gegnt fasteign kæranda við Vesturgötu í Hafnarfirði.  Sætir sú ákvörðun ekki endurskoðun hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem aðalskipulagsbreytingin var staðfest af ráðherra.  Hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði í samræmi við núgildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar og getur sú staðreynd ekki haft áhrif á gildi deiliskipulagsins.  Þá verður ekki séð af gögnum um fyrra skipulag svæðisins að bílastæði hafi fylgt fasteign kæranda að Vesturgötu 4 sem af séu lögð með hinni kærðu ákvörðun.

Að öllu þessu virtu verður ekki talið að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum kæranda með þeim hætti að ógildingu varði eða að aðrir þeir annmarkar séu fyrir hendi sem leitt gætu til slíkrar niðurstöðu.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 8. febrúar 2005 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði.

 

     ___________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

              ________________________               _________________________ 
                      Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson                               

     

 

95/2006 Laugaból

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2006, kæra á bókun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 7. desember 2006 um minningarskjöld á steini að Laugabóli í Súðavíkurhreppi. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 12. desember 2006, er barst stofnuninni hinn 13. sama mánaðar, kærir V, Holtagötu 11, Súðavík, bókun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 7. desember 2006 um minningarskjöld á steini að Laugabóli í Súðavíkurhreppi.  Með bréfi, dags. 18. desember 2006, var kæran framsend úrskurðarnefndinni.  

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða bókun  verði felld úr gildi.  

Málsatvik og rök:  Kærandi máls þessa ritaði bréf til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps, dags. 22. september 2006, í kjölfar þess að eigandi jarðarinnar Laugabóls í Súðavíkurhreppi hafði sett upp minningarskjöld um látna niðja sína á stein einn er þar stendur.  Á minningarskildi þessum eru myndir og nöfn fjögurra látinna barna og barnabarna eigandans, þar á meðal af syni kæranda er lést á árinu 2001.  Í fyrrnefndu bréfi kæranda til byggingarnefndar var óskað eftir því að nefndin léti fjarlægja af steininum nafn og mynd af syni hennar enda hafi hún, sem nánasti aðstandandi, aldrei veitt samþykki sitt fyrir uppsetningu skjaldarins á steininn.  Byggingarnefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi hinn 7. desember 2006 þar sem eftirfarandi var fært til bókar:  „Byggingarnefnd telur að þau ákvæði byggingarreglugerðarinnar sem bréfritari vísar til eigi frekar við um auglýsingaspjöld heldur en minningarsteina o.þ.h.  Byggingarnefnd telur sig ekki geta hlutast til um uppsetningu eða fyrirkomulag minningarspjalda sem einstaklingar setja upp á einkalóðum sínum.  Það er og álit nefndarinnar að það eigi ekki það sama við og ef minningarsteinninn væri á vegum opinberra aðila utan einkalóðar.“  Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 8. desember 2006, var greint frá þeirri niðurstöðu byggingarnefndar að minningarsteinar á einkalóðum féllu ekki undir reglugerð nr. 441/1998 og væru nefndinni því óviðkomandi.   

Framangreindri bókun byggingarnefndar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveði upp úrskurð í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. sömu greinar er áréttað að almennt taki úrskurðarvald nefndarinnar til stjórnvaldsákvarðana þótt frá því sé vikið í einstökum tilvikum sem greind eru í lögunum.  Uppsetning minningarskjaldar á stein á einkalóð getur hvorki talist vera mannvirki eða bygging né meiri háttar framkvæmd í skilningi skipulags- og byggingarlaga og því ekki háð leyfi byggingaryfirvalda eða sveitarstjórnar.  Þar sem hin kærða bókun verður ekki talin stjórnvaldsákvörðun er sæti endurskoðun úrskurðarnefndarinnar  verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

 

8/2007 Suðurströnd

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar  Seltjarnarness frá 11. janúar 2007 um að heimila byggingarfulltrúa bæjarins að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir heilsuræktarstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. janúar 2007, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h.  H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 11. janúar 2007 að heimila byggingarfulltrúa bæjarins að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir heilsuræktarstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti greinda ákvörðun hinn 17. janúar 2007.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerði ráð fyrir gervigrasvelli við Suðurströnd og íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa.  Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Var síðan unnið að gerð deiliskipulagstillagna fyrir íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel og íþróttamannvirki á Suðurströnd sem öðluðust gildi hinn 16. október 2006 og 4. janúar 2007 og hefur kærandi í máli þessu kært þær skipulagsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar.  Eins og fyrr greinir samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins að veitt yrði leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum vegna fyrirhugaðrar heilsuræktarstöðvar skv. deiliskipulagi Suðurstrandar og munu framkvæmdir vera nýlega hafnar. 

Byggir kærandi kröfu sína um stöðvun framkvæmda á því að þær byggi á deiliskipulagi sem sé ólögmætt.  Skipulagið stangist á við niðurstöður bindandi kosninga í sveitarfélaginu og sé auk þess haldið ýmsum öðrum annmörkum sem tíundaðir séu í kærum kæranda vegna umræddra deiliskipulagsákvarðana.  Brýnt sé að stöðva framkvæmdir þar sem úrskurður um ógildi umrædds skipulags yrði ella haldlaus og framhald framkvæmda gæti haft áhrif á lyktir málsins auk þess sem  minni líkur yrðu á að tillit yrði tekið til sjónarmiða og hagsmuna kæranda.  Ljóst sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu enda búi hann í næsta nágrenni við umrætt svæði.

Seltjarnarnesbær krefst frávísunar málsins en ella að stöðvunarkröfu verði hafnað. Vísa beri málinu frá  þar sem kærandi eigi ekki einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hina kærðu ákvörðun og hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulag það sem ákvörðunin styðjist við og teljist því hafa samþykkt það skipulag.  Úrskurðarnefndin sé ekki til þess bær að fjalla um þá málsástæðu kæranda að með skipulaginu hafi verið farið gegn bindandi kosningu samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga enda eigi slíkur ágreiningur undir félagsmálaráðuneytið.  Úrskurðarnefndin geti eingöngu fjallað um hvort málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar og efni sé í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Þessi málsástæða geti því ekki snert gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Skipulagið sé þar að auki í samræmi við þá tillögu, sem samþykkt hafi verið í kosningum í bæjarfélaginu sem grunnur að landnotkun umrædds svæðis við deiliskipulagningu þess, en tillögur þær sem kosið hafi verið um séu ekki ígildi skipulagstillagna.  Tillögurnar hafi ekki tekið til framkvæmda þeirra sem deilt sé um í máli þessu.  Deiliskipulag það sem hin kærða framkvæmd styðjist við hafi fengið lögmæta meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og einungis hafi verið heimilaðar jarðvegsframkvæmdir og færsla lagna sem séu afturtækar framkvæmdir.  Ekki séu því efni til að stöðva umdeildar framkvæmdir en heimildir til slíkra þvingunarúrræða beri að túlka þröngt.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að vísa frá kröfu kæranda um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda, en tekin verður afstaða til frávísunar málsins í endanlegum úrskurði, enda hefur úrskurðarnefndinni ekki gefist tóm til að meta og taka afstöðu til  atriða er haft geta þýðingu í því efni.

Hin kærða ákvörðun felur aðeins í sér heimild til jarðvegsframkvæmda og færslu á lögnum og er því viðurhlutalítið að færa hluti í fyrra horf beri nauðsyn til.  Af þeim sökum  þykir ekki nauðsyn knýja á um að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um stöðvun framkvæmda við jarðvinnu og færslu lagna sem skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness heimilaði hinn 11. janúar 2007, er hafnað.

 

 

_________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
           Ásgeir Magnússon                                Geirharður Þorsteinsson       

18/2005 Hólmgarður

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005 um breytingu á deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. febrúar 2005, er barst nefndinni hinn 1. mars s.á., kærir K, Hólmgarði 28, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005 að breyta deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 19. nóvember 2004 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna bílastæða við Hólmgarð.  Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Hólmgarði 17-46. 

Að grenndarkynningu lokinni var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa hinn 21. janúar 2005, þar sem fyrir lágu framkomnar athugasemdir við tillöguna frá nokkrum fjölda íbúa við Hólmgarð og þ.á m. kæranda.  Á fundinum var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. janúar 2005, og var málinu vísað til afgreiðslu skipulagsráðs sem samþykkti deiliskipulagstillöguna hinn 26. sama mánaðar.  Auglýsing um gildistöku hennar var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2005. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir málskot sitt á því að ekki sé rétt með farið í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum við staðsetningu bílastæða að meirihluti íbúa við Hólmgarð 22-32 og 36-46 hafi viljað hafa stæðin framan við innganga húsa við götuna.  Hið rétta sé að með handauppréttingu á íbúafundi 2. september 2004 hafi meirihlutinn samþykkt að bílastæðin yrðu staðsett til hliðar við inngangana eins og þau hefðu áður verið.  Svar skipulagsfulltúa vegna umdeildrar staðsetningar bílastæðanna eigi því ekki við rök að styðjast. 

Það auki slysahættu að færa stæðin beint ofan í innganga húsanna, mengun aukist þar og fórnað sé grænu svæði framan við hús kæranda, en það svæði hafi ásamt öðru ráðið því að hann hafi keypt íbúð sína við Hólmgarð.  Fyrirhuguð tilkoma trjáa og runna við hlið bílastæða skerði útsýni og auki slysahættu.  Kæranda gruni að það komi í hlut íbúanna að annast þennan gróður, enda hafi þeir slegið grasbletti í eigu borgarinnar fyrir framan húsin.  Breikkun götu um einn metra, svo sem skipulagsbreytingin geri ráð fyrir, auki líkur á hraðakstri með tilheyrandi slysahættu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu á umdeildri samþykkt skipulagsráðs verði hafnað. 

Meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. 

Í umsögn skipulagsfulltúa vegna framkominna athugasemda við skipulagstillöguna segi m.a.:  „Á fyrrnefndum íbúafundi sem haldinn var 2. september síðastliðinn voru kynntar tvær tillögur að bílastæðum fyrir framan umrædd hús. Ein tillagan gerði ráð fyrir því að bílastæðin yrðu staðsett á svipuðum stað og þau voru áður en framkvæmdir hófust þ.e. ekki við innganga húsa heldur til hliðar við innganga. Hin tillagan sem kynnt var á fundinum gerir ráð fyrir að bílastæðin yrðu staðsett við innganga. Það var greinilega vilji meirihluta íbúa að hafa bílastæðin staðsett við innganga húsa og er það ástæðan fyrir því að gert var ráð fyrir því fyrirkomulagi á kynntum uppdrætti.“  Þá segi þar ennfremur:  „Mjög vel var mætt á fundinn og náðist ágæt sátt á honum, en ósk allflestra var að fyrirkomulag bílastæða við Hólmgarð 22-32 og 36-46 yrði eins og það var áður.“ 

Athugasemdir íbúa við grenndarkynningu hafi verið allnokkrar en engin þeirra hafi lotið að staðsetningu bílastæða fyrir framan innganga húsanna nema athugasemd kæranda í máli þessu.  Sé kærandi því einn um túlkun sína á niðurstöðu fyrrgreinds íbúafundar um vilja íbúa.  Ekki hafi sérstaklega verið greidd atkvæði um það hvort bílastæðin ættu að vera framan við inngang húsa eða til hliðar, heldur hafi komið fram sá vilji meirihluta fundarmanna að hafa fyrirkomulagið eins og áður, þ.e. með grænum svæðum á milli bílastæða. 

Varðandi aðrar málsástæður kæranda sé vísað til ofangreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa en þar komi fram að grafík vegna gróðurs á uppdrætti sé ekki bindandi.  Deiliskipulagsbreytingin taki ekki til gróðurs á grænu svæðunum.  Ekki megi gróðursetja á þessum reitum á þann hátt að það valdi skerðingu á útsýni. 

Gert sé ráð fyrir hraðahindrun við Hólmgarð 34 samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem draga muni úr hraðakstri í götunni.  Ekki sé fallist á að breikkun á götunni á svo stuttum kafla sem um ræði leiði til hraðaksturs eða aukinnar slysahættu og ekki hafi verið leidd rök að því að staðsetning bílastæðanna valdi aukinni mengun. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting fól í sér fækkun bílastæða og gerð gróðurreita á milli þeirra auk þess sem göngustígur við götu var færður nær húsum á kafla og þar gert ráð fyrir bílastæðum meðfram gróðurreitum við götu.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins, er tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. júlí 2004, var gert ráð fyrir bílastæðum án gróðurreita framan við húsin að Hólmgarði 22-32 og 36-46, þ.á.m. við innganga þeirra húsa.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að skiptar skoðanir hafi verið meðal íbúa um hvort fækka ætti bílastæðum og skapa þannig rými fyrir gróðurreiti á milli stæða og að tilgangurinn með umdeildri skipulagsbreytingu hafi verið sá að koma til móts við óskir þeirra sem vildu halda í gróðurreiti framan við húsin á kostnað fjölda bílastæða sem ráðgerð voru í skipulaginu frá árinu 2004. 

Hvað sem líður skoðanaskiptum á fyrrgreindum kynningarfundi með íbúum hinn 2. september 2004 hróflar það ekki við gildi skipulagsbreytingarinnar að þar sé gert ráð fyrir bílastæðum framan við innganga húsa, enda var sú tilhögun þegar mörkuð í skipulagi svæðisins. 

Breikkun sú sem verður á götu við það að gangstígur er færður verður ekki talin til þess fallin að auka hraðakstur, enda er sú breikkun á stuttum kafla götunnar og rýmið sem myndast lagt undir bílastæði.. 

Að þessu virtu og þar sem ekki verður séð að þeir annmarkar hafi verið á meðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði verður kröfu kæranda þar að lútandi hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005, um að breyta deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_________________________                                 ___________________________    Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson

7/2007 Helgafellsbraut

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 14. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2007, kæra 19 íbúa og eigenda fasteigna við Brekkuland og Álafossveg í Mosfellsbæ á ákvörðunum bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 13. desember 2006, um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi er tekur til 500 metra kafla tengibrautar milli Helgafellslands og Álafossvegar og um útgáfu framkvæmdaleyfis til Helgafellsbygginga ehf. fyrir gerð tengibrautar með fyrirvara um gildistöku deiliskipulags. 

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2007, sem barst nefndinni 29. sama mánaðar, kærir Katrín Theodórsdóttir hdl., f.h.  19 íbúa og eigenda fasteigna við Brekkuland og Álafossveg í Mosfellsbæ, ákvarðanir bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 13. desember 2006, um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi er tekur til 500 metra kafla tengibrautar milli Helgafellslands og Álafossvegar og um útgáfu framkvæmdaleyfis til Helgafellsbygginga ehf. fyrir gerð tengibrautar með fyrirvara um gildistöku deiliskipulags.

Krefjast kærendur þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að engar framkvæmdir eigi sér stað áður en niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í málinu liggi fyrir.  Þá krefjast kærendur þess að framkvæmdir sem hafnar eru við gerð umræddrar tengibrautar verði stöðvaðar til bráðbirgða þar til dómur um það hvort tengibrautin skuli háð mati á umhverfisáhrifum liggi fyrir.  Er málið nú tekið til úrlausnar um kröfur kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Undanfarna mánuði hefur verið unnið að undirbúningi lagningar tengibrautar frá Vesturlandsvegi að nýrri byggð sem Helgafellsbyggingar ehf. hyggjast reisa í Helgafellslandi við Vesturlandsveg í Mosfellsbæ.  Munu Helgafellsbyggingar ehf. einnig leggja tengibrautina.  Var fyrirhuguð framkvæmd við lagningu brautarinnar tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem komst að þeirri niðurstöðu hinn 22. maí 2006 að tengibrautin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Þessa niðurstöðu kærðu Varmársamtökin til umhverfisráðherra sem staðfesti ákvörðun Skipulagsstofnunar með úrskurði hinn 7. desember 2006.

Á 185. fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar 5. desember 2006 var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi tengivegar og svofelld bókun gerð: „Nefndin leggur til að tillagan svo breytt verði samþykkt ásamt framlögðum drögum að svörum við athugasemdum og skipulagsfulltrúa falið að annast gildistökuferlið“.  Með umsókn frá 8. desember 2006 sóttu Helgafellsbyggingar ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu tengibrautarinnar.   Á 186. fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. desember 2006 var tekin fyrir umsókn Helgafellsbygginga ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir gerð tengibrautarinnar.  Lagði nefndin til að umsóknin yrði samþykkt með fyrirvara um gildistöku deiliskipulags að því er varðar framkvæmdir við tengibraut.  Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, sem haldinn var 13. desember 2006, var tekin fyrir fundargerð 185. fundar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar og var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á deiliskipulagi tengibrautarinnar staðfest.  Þá var tekin fyrir fundargerð 186. fundar skipulags- og byggingarnefndar.  Var þar meðal annars sérstaklega tekin fyrir afgreiðsla nefndarinnar á umsókn um framkvæmdaleyfið fyrir tengibrautinni og var hún samþykkt.  Auglýsing um samþykkt deiliskipulags er varðar tengibrautina var birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. janúar 2007.  Hófust framkvæmdir við tengibrautina í lok janúar sl., en  hinn 31. janúar létu bæjaryfirvöld stöðva framkvæmdir tímabundið og munu þær að mestu hafa legið niðri frá þeim tíma.

Málsrök kærenda:  Krafa kærenda um að framkvæmdir hefjist ekki meðan málið er til  meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni er á því byggð að hið kærða framkvæmdaleyfi sé haldið annmörkum sem leiða eigi til ógildingar þess.  Meðal annars uppfylli það ekki kröfur 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 enda hafi það verið gefið út áður en deiliskipulag tengibrautarinnar hafi öðlast gildi. 

Þá sé fyrirhuguð framkvæmd ekki í samræmi við stefnu um landnotkun og markmið aðalskipulags varðandi íbúarbyggð, atvinnusvæði og náttúruvernd.

Skylt hafi verið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en komið hafi til útgáfu framkvæmdaleyfis í samræmi við 27. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 38. gr. laga nr. 44/1999, vegna jarðrasks í og við Varmá.

Deiliskipulag það sem eigi að vera grundvöllur framkvæmdaleyfisins sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 hvað varði staðsetningu tengibrautarinnar.  Ekki hafi verið gerð grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag eins og boðið sé í 5. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1997 en það gildi almennt um skipulagsáætlanir.  Bæjaryfirvöld hafi þannig brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verklag bæjaryfirvalda hafi verið í andstöðu við reglur stjórnsýslulaga um andmælarétt og um skyldu stjórnvalds til rannsóknar, sbr. 13. og 10. gr. stjórnsýslulaga, meginreglur skipulags- og byggingarlaga, lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og ný lög um mat á umhverfisáhrifum áætlana nr. 105/2006. 
 
Krafa kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabrigða meðan dómstólar fjalli um hvort bygging tengibrautar skuli vera háð mati á umhverfisáhrifum er reist á því að hagsmunir kærenda séu náttúruverndarhagsmunir en þeir verði auðveldlega skertir með því að stórtækar þungavinnuvélar fari inn á hið viðkvæma svæði til að grafa.  Nauðsynlegt sé að láta reyna á fyrir dómstólum hvort meta skuli áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið og að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til dómur gangi í málinu.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hrundið og að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar.  Er vísað til þess að úrskurðarnefndin hafi í fyrri úrskurðum ekki talið efni til að stöðva framkvæmdir við jarðvinnu, enda um afturtækar framkvæmdir að ræða.  Ekkert hafi verið athugavert við að veita framkvæmdaleyfi eftir samþykkt sveitarstjórnar á viðkomandi deiliskipulagi með fyrirvara um gildistöku þess með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda enda hafi framkvæmdir ekki hafist fyrr en eftir gildistöku skipulagsins.

Því er haldið fram að gætt hafi verið allra lagaskilyrða við gerð og undirbúning hinna kærðu ákvarðana.  Ítarlega hafi verið gerð grein fyrir umhverfisáhrifum hinna umdeildu framkvæmda eins og ráða megi af úrskurði umhverfisráðherra frá 7. desember 2006 þar sem staðfest hafi verið sú niðurstaða Skipulagsstofnunar að ekki væri líklegt að framkvæmdin hefði umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Um þá málsástæðu að ekki hafi verið gætt ákvæða 38. gr. náttúruverndarlaga sé tekið fram að vafamál sé hvort úrskurðarnefndin eigi úrlausn um það álitaefni en auk þess megi vera ljóst að Umhverfisstofnun væri bundin af niðurstöðu umhverfisráðherra um umhverfisþátt málsins.

Málsrök framkvæmdaleyfishafa:  Þegar kæra barst í máli þessu varð ekki annað ráðið en að um væri að ræða framkvæmdir á vegum Mosfellsbæjar.  Við frekari gagnaöflun kom í ljós að Helgafellsbyggingar ehf. leggja umrædda tengibraut en munu síðar afhenda Mosfellsbæ hana.  Framkvæmdaleyfishafa var því með stuttum fyrirvara gefinn kostur á að tjá sig um kröfur kærenda í málinu.  Vísar hann til þess að hann styðjist við formlega gilt leyfi Mosfellsbæjar og að við gerð skipulags og undirbúning framkvæmdaleyfis hafi verið vandað til verka og meðal annars verið haft samráð við Skipulagsstofnun við undirbúning framkvæmdarinnar.  Mótmælir framkvæmdaleyfishafi kröfum kærenda og áskilur sér rétt til að koma að frekari  gögnum og málsrökum á síðari stigum málsins.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir kröfum sínum og málsástæðum í máli þessu sem ekki þykir ástæða til að rekja í bráðbirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið samþykkti bæjarstjórn á fundi sínum hinn 13. desember 2006 að veita framkvæmdaleyfi það sem um er deilt í málinu með fyrirvara um gildistöku deilskipulags sem samþykkt hafði verið fyrr á saman fundi.  Bar sveitarstjórn, samkvæmt 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, að gæta þess við útgáfu leyfisins að það væri í samræmi við skipulagsáætlanir.  Verður að telja að leyfið hafi ekki verið í samræmi við gildandi skipulag þegar það var veitt, enda hafði deiliskipulag það sem liggur því til grundvallar þá ekki tekið gildi.  Hins vegar var útgáfa leyfisins skilyrt og hófust framkvæmdir samkvæmt leyfinu ekki fyrr en eftir að gildistaka deiliskipulagsins hafði verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og þykir ekki líklegt að annamarkar á veitingu leyfisins að þessu leyti leiði til ógildingar þess.  Verða framkvæmdir því ekki stöðvaðar vegna þessa annmarka.

Deiliskipulag það sem um er deilt í málinu tekur til hluta tengibrautar er liggja mun frá  Vesturlandsvegi að nýju íbúðarsvæði í landi Helgafells í Mosfellsbæ.  Hefur verið gert ráð fyrir slíkri tengibraut í aðalskipulagi Mosfellsbæjar allt frá því slíkt skipulag var fyrst gert árið 1983.

Seinni hluta sumars 2006 var auglýst tillaga að breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna íbúðarbyggðar í Helgafellslandi sem m.a. fól í sér breytingu á legu fyrirhugaðrar tengibrautar.  Er í greinargerð með breytingunni sett fram áhrifamat þar sem lýst er áhrifum breytingarinnar og tekið fram að ekki sé um neinar grundvallarbreytingar að ræða.  Í bréfi stofnunarinnar til umhverfisráðuneytisins, dags. 8. nóvember 2006, sem fylgdi aðalskipulagsbreytingunni er hún var send til staðfestingar ráðherra, er m.a. vikið að nýlegum lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana en tekið fram að stofnunin telji að aðalskipulagsbreytingin falli ekki undir lögin þar sem ekki sé um að ræða nýja framkvæmd eða grundvallarstefnubreytingu á aðalskipulaginu.  Hlaut aðalskipulagsbreytingin staðfestingu ráðherra án athugasemda hvað þetta varðar hinn 30. nóvember 2006 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda daginn eftir.

Með deiliskipulagi því sem um er deilt í málinu var lagður grunnur að framkvæmd sem fellur undir viðauka 2 við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br., sbr. lið 10c.  Telur úrskurðarnefndin að taka þurfi til úrlausnar hvort deilskipulagstillagan hafi fallið undir 3. gr. laga nr. 105/2006 og þar með hvort vinna hefði þurft umhverfisskýrslu vegna hennar skv. 6. gr. nefndra laga og kynna hana samkvæmt 7. gr.  Verður hvorki talið að mat á áhrifum áðurnefndrar breytingar aðalskipulags sé fullnægjandi í þessu sambandi né að sú niðurstaða að framkvæmdin sé ekki matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. taki af tvímæli um þörf á umhverfisskýrslu vegna deiliskipulagsins.

Auk þess sem nú var rakið telur úrskurðarnefndin að álitamál sé hvort ekki hefði þurft í hinum kærðu ákvörðunum að gera grein fyrir þeim ráðstöfunum sem um er rætt í málsgögnum að grípa eigi til vegna hugsanlegrar mengunar ofanvatns og til verndunar vistkerfis Varmár. 

Samkvæmt framansögðu leikur, að mati úrskurðarnefndarinnar, talsverður vafi á um lögmæti hinn kærðu ákvarðana.  Þykir af þeim sökum, og með tilliti til staðhátta, rétt að stöðva framkvæmdir við umrædda tengibraut meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, jafnvel þótt einungis sé um jarðvegsframkvæmdir að ræða.

Vísað er frá kröfu kærenda um að úrskurðanefndin stöðvi framkvæmdir meðan rekið er fyrir dómstólum fyrirhugað mál til ógildingar á niðurstöðu umhverfisráðherra um matsskyldu framkvæmdarinnar, enda brestur nefndina vald til þess að kveða á um stöðvun framkvæmda vegna meðferðar máls fyrir dómi.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru við gerð 500 metra kafla tengibrautar milli Helgafellslands og Álafossvegar í Mosfellsbæ, samkvæmt framkvæmdaleyfi bæjarstjórnar frá 13. desember 2006, skulu stöðvaðar meðan kærumál um lögmæti leyfisins og tilheyrandi deiliskipulags er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Vísað er frá nefndinni kröfu kærenda um að úrskurðanefndin stöðvi framkvæmdir meðan rekið er fyrir dómstólum mál til ógildingar á niðurstöðu umhverfisráðherra um matsskyldu umræddrar framkvæmdar.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson       

 

   
_______________________________       _________________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson   

 

 

 

 

 

38/2006 Reykjahlíð

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2006, kæra eigenda hússins að Helluhrauni 5, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi á samþykkt sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 27. apríl 2006 um að heimila breytta notkun húsanna nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Rós Rúriksdóttir hdl., f.h. M og S, Helluhrauni 5, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi samþykkt sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 27. apríl 2006 um að heimila breytingu á notkun húsanna nr. 7a, 8 og 8a  við Helluhraun í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 6. febrúar 2006, óskaði eigandi húsanna nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun í Reykjahlíð eftir heimild sveitarstjórnar Skútustaðahrepps til að breyta notkun húsanna úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Sveitarstjórn tók beiðnina fyrir á fundi hinn 9. febrúar 2006 og samþykkti, með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að fela sveitarstjóra að veita hagsmunaaðilum á svæðinu kost á að tjá sig um beiðnina.  Sveitarstjórn bárust tvær athugasemdir, þ.á m. frá kærendum, og á fundi 27. apríl 2006 var eftirfarandi fært til bókar og samþykkt samhljóða:  „Með bréfi dags. 6. feb. s.l. óskaði Eldá ehf. eftir leyfi til að breyta notkun íbúðanna nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti á fundi sínum 9. feb. að fram skyldi fara grenndarkynning sem næði til eigenda og íbúa við Helluhraun. Eftirtöldum eigendum húsnæðis við Helluhraun var sent bréf það sem hér fer á eftir:  Heilbrigðisstofnun Þingeyinga v/ Helluhrauns 17, Birningi ehf v/Helluhrauns 16, Jóni Illugasyni v/Helluhrauns 15, Magnúsi Ómari Stefánssyni og Unni Sigurðardóttur v/Helluhrauns 14, Ásdísi Illugadóttur v/Helluhrauns 13, Rögnvaldi Agli Sigurðssyni v/Helluhrauns 12, Skútustaðahreppi v/Helluhrauns 10 og 18, Landsvirkjun v/Helluhrauns 11, Helluholti v/Helluhrauns 7 og 9, Álfdísi Sigurgeirsdóttur v/Helluhrauns 6, Sigurði Kára Sigfússyni og Margréti Hróarsdóttur v/Helluhrauns 5, Sverri Karlssyni v/Helluhrauns 4, Sparisjóði S-Þingeyinga v/Helluhrauns 3, Karli Viðari Pálssyni v/Helluhrauns 2 og Norrænu Eldfjallastöðinni v/Helluhrauns 1 … Tvær athugasemdir bárust vegna framangreinds bréfs, frá eigendum Helluhrauns 2 annars vegar og frá eigendum Helluhrauns 5 hins vegar. Athugasemdirnar fylgja aftast í fundargerðinni.  Í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags– og byggingarmála frá 24. apríl sl. tekur sveitarstjórn ekki undir athugasemdir íbúa Helluhrauns 2 og 5 og heimilar Eldá ehf. að breyta notkun íbúðanna nr. 7a, 8 og 8a úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Samþykkt samhljóða.“  

Kærendur hafa skotið nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að meðal markmiða skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila sé ekki fyrir borð borinn, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna.  Sama ákvæði sé að finna í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, grein 1.1.  Einnig sé það markmið laganna að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að landnotkun sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Fyrirkomulag í húsum við Helluhraun í Mývatnssveit sé nokkuð sérstakt og því þyki rétt að fara yfir lista eigenda húseignanna. 

Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sé eigandi Helluhrauns 17.  Þar sé rekin heilsugæslustöð og það komi ekki á óvart að beiðni um leyfi til reksturs gistihúss hafi ekki verið hafnað. Starfsemi sé í húsinu virka daga vikunnar og enginn búi þar að staðaldri.

Kísiliðjan sé eigandi Helluhrauns 16 samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar.  Starfsemi Kísiliðjunnar hafi verið lögð af og því enginn til staðar til að koma að mótmælum fyrir hönd eiganda.  Samkvæmt upplýsingum kærenda hafi eigandi fasteigna þeirra er um ræði í máli þessu, keypt húseignina að Helluhrauni 16 og ætli að nota hana undir gistingu.

Jón Illugason, eigandi fasteigna þeirra er um ræði í kærumáli þessu, sé enn fremur eigandi Helluhrauns 15.  Einstaklingurinn Jón Illugason og fjölskylda hans reki Eldá ehf. og sé eigandi Helluholts ehf., sem sé eigandi húseignanna nr. 7 og 9 við Helluhraun.  Því hafi ekki verið að vænta neinna mótmæla frá eigendum húseignarinnar nr. 15 í grenndarkynningu sveitarfélagsins.

Magnús Ómar Stefánsson og Unnur Sigurðardóttir séu eigendur Helluhrauns 14.  Þau búi í húsi sínu en hafi ekki gert athugasemdir.

Ásdís Illugadóttir sé eigandi Helluhrauns 13.  Ásdís sé systir Jóns Illugasonar.  Sterk tengsl séu á milli systkinanna og því hafi mátt búast við að Ásdís mótmælti ekki starfsemi fyrirtækis bróður síns.  Ásdís hafi í gegnum árin leigt út herbergi á sumrin.

Rögnvaldur Sigurðsson sé eigandi Helluhrauns 12.  Hann og fjölskylda hans búi í húsinu og hafi ekki gert athugasemdir.

Skútustaðahreppur sé eigandi Helluhrauns 10 og 18.  Starfsmenn hreppsins búi í húsunum. 

Landsvirkjun sé eigandi Helluhrauns 11.  Þar hafi starfsmenn Landsvirkjunar búið í gegnum árin.  Það komi ekki á óvart þó engin mótmæli hafi borist frá yfirmönnum Landsvirkjunar enda um risafyrirtæki að ræða.

Helluholt ehf. sé eigandi Helluhrauns 7 og 9 en sama fjölskylda sé eigandi að fyrirtækjunum Helluholt ehf. og Eldá ehf.  Ekki sé því unnt að líta öðruvísi á en að þarna sé um sömu aðila að ræða en einungis með sitt hvoru nafninu á félögunum.
  
Álfdís Sigurgeirsdóttir sé eigandi  Helluhrauns 6.  Hún hafi um mjög langt árabil leigt út herbergi til ferðamanna.  Um sé að ræða tvö herbergi.  Vegna þessa hafi ekki mátt vænta nokkurra viðbragða af hálfu Álfdísar.

Kærendur máls þessa séu eigendur Helluhrauns 5.

Sverrir Karlsson sé eigandi Helluhrauns 4.  Engin mótmæli liggi fyrir af hans hálfu.

Sparisjóður S-Þingeyinga sé eigandi Helluhrauns 3.  Starfsemi sparisjóðsins fari fram í þessu húsi á hefðbundnum opnunartíma.  Engin starfsemi sé í húsinu á kvöldin og um helgar.  Engin mótmæli hafi komið fram af hálfu sparisjóðsins.

Karl Viðar Pálsson sé eigandi Helluhrauns 2.  Fyrir liggi mótmæli af hans hálfu til sveitarstjórnar.

Norræna Eldfjallastöðin sé eigandi Helluhrauns 1.  Þar hafi í gegnum árin búið starfsmenn stöðvarinnar á meðan þeir hafi sinnt tímabundnum verkefnum.  Síðustu árin hafi húsið hins vegar verið notað aðallega sem orlofshús.  Engin mótmæli hafi komið fram af hálfu stofnunarinnar.

Af framangreindri upptalningu sé ljóst að samsetning eigenda húsa við Helluhraun í Mývatnssveit sé alls ekki eins og venjulegt megi teljast.  Í húsum nr. 3 og 17 sé starfsemi sem sé í gangi á hefðbundnum dagvinnutíma, virka daga vikunnar.  Starfsemin hafi ekki truflandi áhrif á þær fjölskyldur sem búi í götunni.  Í húsum nr. 1, 10, 11, 16 og 18 hafi fram til þessa búið einstaklingar sem hafi unnið á vegum eigenda húsanna í sérverkefnum í sveitinni og séu eins og hver önnur fjölskylda.  

Í húsum nr. 13 og 15 búi systkinin Jón og Ásdís.  Fjölskyldan hafi stofnað fyrirtækið Eldá ehf. fyrir mörgum árum og hafi starfsemi fyrirtækisins verið öll á sviði ferðaþjónustu.  Starfsemin hafi hafist á jörðinni Bjargi með gistingu, tjaldstæðum og rútuferðum sem boðið hafi verið upp á.  Með árunum hafi fyrirtækið vaxið og því hafi fjölskyldan brugðið á það ráð að færa gistiþjónustu í þorpið.  Það sé afar hentugt að hafa gistinguna í sömu götu og eigendur fyrirtækisins búi.  Húsverð hafi einnig verið lágt og mun hagstæðara að kaupa hús en byggja ný til starfseminnar. 

Í Helluhrauni nr. 6 hafi eigandi hússins alltaf selt gistingu í nokkrum rúmum.  Eigandinn hafi búið þar ein og hafi drýgt tekjur sínar með þessu.

Í húsunum nr. 2, 4, 5, 12 og 14 búi fjölskyldur sem séu ótengdar rekstraraðila Eldár ehf. eða „bara venjulegar fjölskyldur“ sem búi í húsum sínum.  Eftir framangreinda upptalningu sé því auðvelt að segja að reikna hefði mátt með því að eigendur þessara húsa myndu hafa skoðanir á því hvort þeir teldu eitthvað athugavert við að fleiri leyfi yrðu veitt til reksturs gistiheimila í götunni.

Í hinni kærðu ákvörðun geri sveitarstjórnin rökstuðning úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 59/2005 að sínum.  Kærendur mótmæli þessum rökstuðningi fyrir afgreiðslu málsins. 

Af hálfu kærenda sé byggt á því að samkvæmt Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1996-2015 og gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 440/1998 sé heimilt að reka gistiaðstöðu á íbúðarsvæðum ef reksturinn valdi ekki nágrönnum ónæði.  Enn fremur sé byggt á því að ýmis þjónustustarfsemi sé í húsunum við Helluhraun, þ.á m. að nú þegar sé gistiheimili í götunni.  Bent sé á að „gistiheimili“ sem rekin hafi verið í samræmi við skipulag sveitarfélagsins sé einungis í tveimur húsum, þ.e. í húsi Álfdísar nr. 6 og í húsi Ásdísar í húsi nr. 13.  Skynsemd hverrar manneskju geti sagt að það sé sitthvað að nokkur rúm séu leigð út í einu húsi eða hvort rekið sé gistiheimili í skipulögðum rekstri eins og fyrirtæki Jóns Illugasonar og fjölskyldu hans.  Þó að seld hafi verið út nokkur gistirúm í götunni fram til þessa geti það ekki með nokkru móti verið rökstuðningur fyrir því að veita heimild til reksturs gistiheimilis í götunni. 

Rekstur gistiheimila fyrirtækja Jóns Illugasonar og fjölskyldu hans hafi haft veruleg áhrif nú þegar á aðra íbúa götunnar því að hann hafi rekið gistiheimili án heimildar um nokkurt skeið.  Kvartanir íbúa götunnar hafi ekkert haft að segja.  Hins vegar hafi íbúar götunnar orðið varir við bíla er tengist gistiheimilinu auk þess sem ekki hafi verið hikað við að kvarta við íbúa götunnar hafi rekstraraðilar talið að það hefði truflandi áhrif á gesti gistiheimilisins ef íbúar hafi haft of mikinn hávaða við hús sín á sumarkvöldum.

Þeirri röksemd sé harðlega mótmælt af kærendum að rekstur gistiheimilis í húsunum við Helluhraun 7a, 8 og 8a fari ekki í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi aðalskipulagi svæðisins.  Þó að segi í aðalskipulagi svæðisins að heimilað sé að reka gistiaðstöðu geti það átt við um þau tilvik þegar heimili selji út gistirúm í húsum sínum.  Það geti ekki átt við um rekstur gistiheimilis. Það sé allt önnur notkun húsnæðisins og alls ekki hægt að nefna í sömu setningu. 

Kærendur hafni þeim röksemdum fyrir leyfisveitingunni að nú þegar sé ýmiss konar þjónustustarfsemi í götunni við Helluhraun.  Eins og áður hafi verið nefnt sé ekki hægt að líkja rekstri pósthúss, bankastofnunar og heilsugæslu við rekstur gistiheimilis.  Eins og áður hafi verið nefnt séu framangreindar þjónustustofnanir reknar á virkum dögum á dagvinnutíma.  Allt annað eigi við um gistiheimili eins og áður hafi verið nefnt.    

Með því að heimila rekstur gistiheimilis í húsum þeim er um ræði í máli þessu sé farið gegn markmiði 1. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997, þar sem búið sé þá að heimila allt aðra starfsemi í götunni heldur en sé til staðar nú þegar og sem aðalskipulag svæðisins geri ráð fyrir að undanskilinni leyfisveitingu vegna Helluhrauns 9, sem fjallað hafi verið um í úrskurði nefndarinnar nr. 59/2005.

Við Helluhraun séu einungis íbúðarhús öðru megin götunnar.  Þeim megin sem ekki sé byggt sé friðað hraun svo ekki muni verða byggt þar í framtíðinni eða gerð bílastæði.

Málsrök Skútustaðahrepps:  Af hálfu sveitarstjórnar Skútustaðahrepps er vísað til þess að forsaga kærumáls þessa sé sú að á árinu 2005 hafi eigandi hússins að Helluhrauni 9 óskað eftir því við sveitarstjórn að breyta notkun hússins úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Fram hafi farið grenndarkynning og hafi borist athugasemdir frá eigendum tveggja húsa, þ.á m. kærendum máls þessa.  Í framhaldinu hafi sveitarstjórn hafnað beiðni um breytt not hússins og hafi sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði hinn 24. apríl 2006 hafi fellt synjunina úr gildi. 

Í febrúar árið 2006 hafi sveitarstjórn borist erindi frá forsvarsmanni eiganda húsanna að Helluhrauni 7a, 8 og 8a, sem sé sá hinn sami og eigandi hússins nr. 9 við Helluhraun, þar sem sótt hafi verið um leyfi til að breyta notkun hinna fyrrnefndu húsa nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Fram hafi farið grenndarkynning og hafi athugasemdir borist, þ.á m. frá kærendum.  Í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndarinnar hinn 24. apríl 2006 varðandi húsið að Helluhrauni 9 hafi sveitarstjórn talið að sér hafi ekki verið fært að hafna erindinu og því samþykkt það á fundi hinn 27. apríl 2006. 

Sveitarstjórn hafi verið fullljóst að með því að verða við erindi eiganda húsanna að Helluhrauni 7a, 8 og 8a myndi hún kalla yfir sig kæru frá kærendum og í raun og veru alveg sama hver ákvörðun sveitarstjórnar hefði orðið hefði mátt búast við kæru, annað hvort frá kærendum eða eiganda húsanna.  Því hafi verið úr vöndu að ráða.        

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa sé vísað til þess að hann hafi haft leyfi til reksturs gistingar í húsum við Helluhraun um langt árabil.  Leitast hafi verið eftir að sá rekstur væri í samræmi við lög og reglugerðir og hafi byggingarleyfishafi átt gott samband við sveitaryfirvöld, sýslumannsembættið, Vinnueftirlit ríkisins, heilbrigðisfulltrúa og eldvarnareftirlit.  Samband við íbúa Helluhrauns hafi almennt verið gott og nánast engar kvartanir heyrst frá þeim þann aldarfjórðung sem reksturinn hafi staðið yfir.  Ein kvörtun hafi þó borist vorið 2006 vegna hávaða frá kórfélögum í erlendum kór sem þátt hafi tekið í kórastefnu við Mývatn.  Hafi þeir er í hlut hafi átt gleymt sér í blíðviðri og miðnætursól og haft háreisti nokkra við opinn glugga er snúi að húsi kærenda.  Þar hafi verið um réttmæta kvörtun að ræða sem brugðist hafi verið við og séð til þess að háreistinni linnti.  Fullyrða megi að ekkert annað atvik þessu líkt hafi átt sér stað í tengslum við gistihúsareksturinn sl. 25 ár. 

Þess megi geta að ánægjuraddir hafi heyrst frá nokkrum næstu nágrönnum, sem m.a. séu ánægðir með snyrtilega umgengni á lóðum Helluhrauns 7, 7a, 8, 8a, og 9 og geri sér jafnframt grein fyrir mikilvægi þessa reksturs fyrir samfélagið. 

Helluhraun sé friðsæl gata og séu mjög fá dæmi þess að nokkur ástæða hafi verið til kvartana um hávaða á síðkvöldum. 

Bent sé á að bílastæði við húsin að Helluhrauni 7, 7a, 8, 8a og 9 rúmi alls um 20 bíla sem í raun sé meira en þörf sé fyrir vegna reksturs gistingar í húsunum, enda hafi ekki verið nein vandamál til staðar varðandi bílastæði.   

Fullyrðing kærenda um að næst Helluhrauni að vestan sé friðað hraun sé einfaldlega röng, sbr. gildandi deiliskipulag. (sic)

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að heimila breytingu á notkun húsanna að Helluhrauni nr. 7a, 8 og 8a í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Í gildi er Aðalskipulag Skútustaðahrepps fyrir Reykjahlíð 1996-2015 og skv. því standa hús þau sem hér um ræðir á íbúðarsvæði.  Fyrir úrskurðarnefndinni liggur uppdráttur Verkfræðistofu Norðurlands, dagsettur í júlí árið 1977, þar sem lóðastærðir við Helluhraun og Lynghraun eru tilgreindar en ekki liggur fyrir að uppdrátturinn hafi öðlast gildi sem deiliskipulag.  Verður því að styðjast við ákvæði aðalskipulags um landnotkun á svæðinu.

Samkvæmt gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 er heimilt að reka starfsemi á íbúðarsvæðum sem eðlilegt er að þar sé, enda valdi reksturinn ekki ónæði, m.a. vegna hávaða eða óeðlilega mikillar umferðar. Hefur ákvæði þetta verið skýrt svo að rekstur gistiheimila rúmist innan heimilda þess.  Verður með hliðsjón af tilvitnuðu ákvæði að skýra Aðalskipulags Skútustaðahrepps 1996-2015 svo að rekstur gistiheimila samræmist landnotkun umrædds svæðis.  Húsin að Helluhrauni nr. 7a, 8 og 8a standa í gróinni götu þar sem hefðbundin íbúðarbyggð blandast ýmis konar þjónustustarfsemi.  Eru þar m.a. bankastofnun og heilsugæsla auk þess sem nú þegar eru starfrækt gistiheimili í götunni.  Húsin við Helluhraun standa öðru megin götunnar en hinum megin hennar er autt svæði þar sem gert er ráð fyrir blandaðri landnotkun samkvæmt gildandi aðalskipulagi. 

Þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið og umfangs þess gistirekstrar sem byggingarleyfishafi hyggst starfrækja á svæðinu telur úrskurðarnefndin að sú breytta notkun sem hér um ræðir fari ekki í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Þá verður ekki annað séð en að ákvæði 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 séu uppfyllt hvað bílastæðaþörf varðar. 

Samkvæmt framansögðu verður að telja að lagaskilyrðum hafi verið fullnægt og málefnaleg rök hafi legið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilt verði ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 27. apríl 2006 um að heimila breytta notkun húsanna nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson    

 

______________________________        _______________________________
Ásgeir Magnússon   Þorsteinn Þorsteinsson       

 

 

 

2/2005 Melateigur

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2005, kæra stjórnar Hagsmunafélags húseigenda og íbúa við Melateig 1 – 41, Akureyri á bókun umhverfisnefndar Akureyrarbæjar frá 8. desember 2004 um að nefndin sé sammála túlkun skipulags- og byggingarfulltrúa um að byggingarfulltrúi taki ekki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h., eða tryggi aðgengi fatlaðra á svæðinu og nægjanlega afvötnun þess. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2005, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir stjórn Hagsmunafélags húseigenda og íbúa við Melateig 1 – 41, Akureyri bókun umhverfisnefndar Akureyrarbæjar frá 8. desember 2004 um að nefndin sé sammála túlkun skipulags- og byggingarfulltrúa um að byggingarfulltrúi  taki ekki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h., eða tryggi aðgengi fatlaðra á svæðinu og nægjanlega afvötnun þess. 

Kærendur krefjast þess að byggingarfulltrúa verði gert skylt að taka út ofangreinda verkþætti.

Málavextir:  Með lóðarleigusamningi, dags. 22. desember 1999, var Byggingarfélaginu Hyrnunni ehf. úthlutað byggingarlóðinni nr. 1 – 41 við Melateig á Akureyri.  Var lóðinni úthlutað sem einni óskiptri lóð, 20.026 m² að stærð.  Lóðarleiguskilmálar, samkvæmt deiliskipulagi samþykktu í bæjarstjórn hinn 7. september 1999, úthlutunarskilmálum og lóðarleigusamningi, voru þeir að Akureyrarbær skyldi annast tengingu lóðarinnar við gatnakerfi bæjarins en að öðru leyti annaðist byggingarfélagið frágang lóðarinnar, þ.m.t. að fullgera aðkomuleiðir innan lóðar, bílastæði og göngustíga ásamt því að grófjafna lóð og ganga frá opnum svæðum.  Skyldi byggingarfélagið greiða gatnagerðargjald vegna íbúða við götuna í samræmi við gjaldskrá Akureyrarbæjar.  Lóðarhafi samþykkti ofangreinda skilmála og tók til við byggingu húsa á svæðinu sem síðar voru seld. 

Húseigendur og íbúar við Melateig 1 – 41 stofnuðu með sér hagsmunasamtök og hinn 11. maí 2002 var haldinn fundur með þeim og byggingarfélaginu þar sem kærendur kynntu athugasemdir sínar við frágang á götumannvirkinu og lóðum við Melateig og komu á framfæri ósk um úrbætur.  Undirtektir byggingarfélagsins voru jákvæðar og var ákveðið þegar í stað að fara yfir svæðið með verktökum og hönnuðum og lagfæra mörg aðfinnsluefnanna. 

Með bréfi kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2002, komu kærendur þeirri skoðun sinni á framfæri að þeir teldu götumannvirkið og grassvæði við Melateiginn vera byggingarleyfisskylda framkvæmd, sbr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Framkvæmdin væri því bæði eftirlits- og úttektarskyld og um hana giltu ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Með bréfi til bæjarráðs Akureyrar, dags. 20. október 2002, kröfðust kærendur þess að erindi þeirra frá 15. maí sama ár yrði afgreitt og á fundi bæjarráðs hinn 24. sama mánaðar var sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs falið að svara erindinu.  Fundargerð bæjarráðs var afgreidd á fundi bæjarstjórnar hinn 5. nóvember 2002. 

Í bréfi sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs til kærenda, dags. 25. október 2002, til kærenda segir:  „Helstu upplýsingar varðandi lóð eiga að koma fram á byggingarnefndaruppdrætti, en á grundvelli þess uppdráttar er byggingarleyfi veitt.  Almennt eru húsbyggjendur ekki krafðir séruppdrátta af lóðum, nema þess þurfi við, að mati byggingarfulltrúa hverju sinni.  Á þetta við þegar lóðir eru stórar og huga þarf að aðgengi fatlaðra, fjölda bílastæða, tryggja afvötnun og þess háttar.  Varðandi úttektir og eftirlit, þá er við lokaúttekt gengið eftir því að hæðir á lóðamörkum séu innan eðlilegra skekkjumarka sbr. mæliblað lóðarinnar og hvort hætta geti skapast vegna frágangs hennar.  Aðrar úttektir eru ekki viðhafðar á lóð, nema annað eigi við, svo sem lagnir, steypt mannvirki og þess háttar.“ 

Bréfi þessu fylgdu nokkur gögn, þ.á m. stöðuúttekt, dags. 13. nóvember 2001, en þar segir m.a. að sérafnotahlutar lóða par- og raðhúsa og sameignarlóð séu fullgerð nema eftir sé að lagfæra frágang á lóðarmörkum að austan og sunnan. 

Kærendur sættu sig ekki við ofangreind svör sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs og með bréfi, dags. 18. nóvember 2002, mótmæltu þeir fyrrnefndri stöðuúttekt og óskuð eftir svörum bæjaryfirvalda við eftirfarandi:

„1. Viðurkennir Akureyrarbær, byggingareftirlit, að samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga, þá sé götumannvirkið og lóðin Melateigur 1-41 háð byggingarleyfi og því eftirlits- og úttektarskyld þar sem framkvæmdin er ekki á vegum opinberra aðila?  2. Mun Akureyrarbær samkvæmt framansögðu tryggja að aðgengi hreyfihamlaðra varðandi umrætt götumannviki verði tryggt, samanber ákvæði 22. gr. byggingarreglugerðar, en slíkt á að koma fram á lóðaruppdrætti, sem á að vera samþykktur samanber 19. gr.?  3. Mun Akureyrarbær samkvæmt framansögðu, og með tilvísun til ákvæða 61., 66. og 68. gr. byggingarreglugerðar, tryggja bætta og öruggari afvötnun af umræddri götu og lóð, sem og betri frágang lóðar og fyllingu bakvið kantstein?“ 

Með bréfi, dags. 27. desember 2002, svaraði sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs framangreindum spurningum kæranda með eftirfarandi hætti: 

„1. Samkvæmt grein 4.6.15 í ÍST 51 2001 skal lokaúttekt byggingarfulltrúa fara fram þegar byggingarstigi 6, er náð, en byggingarstig 6 er náð þegar bygging er fullgerð án lóðarfrágangs.  Lóðarfrágangur er skilgreindur á byggingarstigi 5 en segir þar:  Jarðvegur á lóð skal frágenginn í rétta hæð undir endanlegt yfirborð.  Jarðvegsskiptum skal vera lokið þar sem þess er þörf undir hellur, malbik eða gróður.  Lagnir í lóð skulu frágengnar, sbr. gr. 4.4.11.  Samkvæmt grein 48 í byggingarreglugerð, um áfangaúttektir, er ekki tilgreint sérstaklega um úttektir á lóð eða bílastæðum.  Með vísan til þess er að ofan greinir er ekki gert ráð fyrir að byggingarfulltrúi taki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h. þrátt fyrir að framkvæmdin sé háð byggingarleyfi sbr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga og 18.14. gr. byggingarreglugerðar. 

Ekki hefur verið farið fram á að séruppdráttum af lóð sé skilað inn með byggingarleyfisumsókn þar sem á afstöðumynd aðaluppdrátta (byggingarnefndaruppdráttum) koma fram þau atriði sem krafist er að komi fram á lóðaruppdráttum sbr. gr. 22 í byggingarreglugerð. 

2. Við lóðarhönnun skal tryggja hindrunarlausar leiðir að inngöngum frá lóð og bílastæðum sbr. gr. 62.2.  Úttekt á þessum atriðum hefur ekki farið fram en verður framkvæmd við lokaúttekt sem mun fara fram strax á nýju ári, að ósk byggingaraðila þann 5. des. sl.

Í byggingarreglugerð er þess hvergi getið að íbúðarhús og leiðir um lóðir þeirra skuli vera aðgengileg fötluðum, nema þar sem um fjölbýlishús með fleiri en 6 íbúðum er að ræða.

Þá er gerð krafa um að hús og lóðir sem ætlaðar eru almenningi eða almenningur þarf að hafa aðgang að séu aðgengileg fötluðum.  Í tilfelli Melateigs er ekki um þessi atriði að ræða þar sem ekkert hús á svæðinu fellur skilyrðislaust undir þau ákvæði að þurfa að vera aðgengileg fötluðum og því ekki gerð sérstök krafa um það við samþykkt aðalteikninga.

3. Frárennslislagnir á lóð eru úttektarskyldar og er gerð krafa um að þær séu teiknaðar.  Þær teikningar eru til og teiknaðar af Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf. og uppfylla að mati embættisins staðla og hönnunarkröfur sem gerðar eru til fráveitu yfirborðsvatns á lóðinni og staðsetningar niðurfalla með tilliti til hæðarsetningar lóðar sbr. samþykkta byggingarnefndaruppdrætti (aðaluppdrætti).“

Framangreint kærðu kærendur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði hinn 14. október 2004 vísaði kærumálinu frá nefndinni með þeim rökum að framangreint svar sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs fæli ekki í sér ákvörðun sem bindi enda á meðferð máls og hefði að auki ekki komið til staðfestingar bæjarstjórnar og væri því ekki um að ræða ákvörðun er sætt gæti kæru til æðra stjórnvalds.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var á fundi umhverfisráðs hinn 8. desember 2004 lagt fram bréf, dags. 19. október 2004, frá Hagsmunafélagi húseigenda og íbúum Melateigs 1 – 41 og í kjölfarið var eftirfarandi fært til bókar:  „Umhverfisráð er sammála eftirfarandi túlkun skipulags- og byggingafulltrúa eins og hún kemur fram í bréfi hans til Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 10. mars 2004:

1.  Embætti skipulags- og byggingafulltrúa á Akureyri hefur ekki farið fram á að séruppdráttum af lóðum sé skilað inn með byggingarleyfisumsóknum þar sem á afstöðumynd aðaluppdrátta (byggingarnefndaruppdráttum) eiga að koma fram þau atriði sem krafist er að komi fram á lóðaruppdráttum sbr. gr. 22 í byggingarreglugerð.  Með vísan til. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga og 18.14. gr. byggingarreglugerðar er gert ráð þrátt fyrir að framkvæmdir við gerð bílastæða og aðkomuleiða innan lóða séu háðar byggingarleyfi, en yfirborðsfrágangur ekki úttektarskyldur sbr. túlkun embættisins sem fer hér á eftir.

Samkvæmt grein 4.6.15 í ÍST 51 2001 skal lokaúttekt byggingarfulltrúa fara fram þegar byggingarstigi 6,  er  náð, en byggingarstigi 6 er náð þegar bygging er fullgerð án lóðarfrágangs.  Lóðarfrágangur, skv. byggingarstigi 6, er skilgreindur í byggingarstigi 5 en þar segir: ,,Jarðvegur á lóð skal frágenginn í rétta hæð undir endanlegt yfirborð.  Jarðvegsskiptum skal vera lokið þar sem þess er þörf undir hellur, malbik eða gróður.  Lagnir í lóð skulu frágengnar, sbr. gr. 4.4.11. 

Skv. grein 48 í byggingarreglugerð, um áfangaúttektir, er ekki tilgreint sérstaklega að byggingarfulltrúi taki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h.  Með vísan til ÍST 51:2001 greinar 4.7.2 telst bygging ekki fullgerð fyrr en byggingarstigi 7 er náð en þá skal lokið ,,gerð og frágangi gangbrauta og bílastæða og öllum frágangi jarðvegs”.  Úttektarskyldu byggingarfulltrúa lýkur við byggingarstig 6 eins og fram kemur í ÍST 51:2001 grein 4.6.15

2.  Í byggingarreglugerð er þess hvergi getið að íbúðarhús og lóðir þeirra skuli vera aðgengileg fötluðum, nema þar sem um fjölbýlishús með fleiri en 6 íbúðum er að ræða.
Þá er gerð krafa um að hús og lóðir sem ætluð eru almenningi eða almenningur þarf að hafa aðgang að séu aðgengileg fötluðum.  Í umræddu tilfelli er ekki um þessi atriði að ræða þar sem ekkert hús á svæðinu fellur skilyrðislaust undir þau ákvæði að þurfa að vera aðgengileg fötluðum og því ekki gerð sérstök krafa um það við samþykkt aðalteikninga.  Úttektir á aðgengi fatlaðra eru ekki framkvæmdar nema þar sem kröfur um slíkt eru gerðar skv. byggingarreglugerð og byggingarskilmálum.

Í gr. 62.2 í byggingarreglugerð eru eftirfarandi ákvæði:  ,,Við lóðarhönnun skal tryggja hindrunarlausar leiðir að inngöngum frá lóð og bílastæðum”.  Ekki er nánari skilgreining á þessu ákvæði í byggingarreglugerð en víða verður ekki komist hjá tröppum eða skábrautum að inngöngum frá lóð og hefur embættið ekki litið svo á að gerðar séu kröfur um aðgengi fatlaðra að öllum inngöngum nema þegar sérstaklega eru gerðar kröfur um slíkt skv. reglugerðum og byggingarskilmálum eins og áður hefur komið fram.

3.  Frárennslislagnir á lóð eru úttektarskyldar og er gerð krafa um að þær séu teiknaðar. Lagnauppdrættir, sem unnir eru af Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf., eru til í vörslu embættisins og uppfylla að mati þess staðla og hönnunarkröfur sem gerðar eru til fráveitu yfirborðsvatns á lóðinni og staðsetningar niðurfalla með tilliti til hæðarsetningar lóðar í samræmi við samþykkta byggingarnefndaruppdrætti (aðaluppdrætti).“

Framangreint hafa kærendur kært til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að götumannvirkið og lóðir við Melateiginn verði afhentar í ásættanlegu formi frá verktakanum og vísa til þess að Akureyrarbær beri fulla ábyrgð á deiliskipulagi götunnar og opnum svæðum.  Kærendur halda því fram að þessi mannvirki séu háð byggingarleyfi og um þau gildi öll ákvæði byggingarreglugerðar, enda komi undanþáguákvæði 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ekki til álita, þar sem framkvæmdin sé að kröfu Akureyrarbæjar unnin og kostuð af verktaka.

Kærendur benda á að í gr. 53.1 byggingarreglugerðar nr. 441/1998 segi að þegar smíði húss sé að fullu lokið skuli byggingarstjóri eða húsbyggjandi óska eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa.  Í gr. 4.7.3 í ÍST 51 sé greint frá því að bygging sé fullgerð þegar allar notaeiningar séu fullgerðar og í lið 4.7.2 segi að lokið skuli gerð og frágangi gangbrauta og bílastæða á lóð og öllum frágangi jarðvegs.

Kærendur vísa og til gr. 4.5.14 í ÍST 51 máli sínu til stuðnings þar sem segi að jarðvegur á lóð skuli frágenginn í rétta hæð undir endanlegt yfirborð.  Jarðvegsskiptum skuli vera lokið þar sem þess sé þörf undir hellur, malbik eða gróður og lagnir í lóð skuli frágengnar.  Byggingareftirliti beri að tryggja að verktakinn/lóðarhafi hafi framkvæmt framangreint áður en byggingarstigi 6 sé náð, sbr. gr. 4.6.1 í ÍST 51.  Þetta hafi byggingareftirlitið ekki framkvæmt þar sem engar hæðarmælingar hafi farið fram á lóðum eða stallaskilum milli húsa, engin jarðvegsskipti hafi farið fram, heldur hafi ísaldarleirnum með grjóti verið jafnað út og annað grjót ekki fjarlægt og engin fínjöfnun verið framkvæmd fyrir þökulagningu.

Kærendur benda á að samkvæmt framlögðum teikningum sé hvergi sýnd niðursneiðing gangstétta með tilliti til aðgengis fatlaðra líkt og kveðið sé á um í 22. gr. byggingarreglugerðar og benda á stærð lóðarinnar því til stuðnings.

Kærendur halda því fram að samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sé götumannvirkið byggingarleyfisskylt og því gildi um þá framkvæmd öll ákvæði byggingarreglugerðarinnar, eftir því sem við eigi.  Sérstaklega sé áréttað að samkvæmt 48. gr. reglugerðarinnar skuli byggingarstjóri við áfangaúttekt óska eftir úttekt byggingarfulltrúa á þáttum er varði aðgengi m.t.t. fatlaðra.  Þá sé í 199.2 gr. fjallað um umferðarleiðir með tilliti til fatlaðra og í 203. gr. sé ákvæði um skábrautir fyrir hjólastóla.  Þá veki kærendur einnig athygli á að samkvæmt gr. 3.1.1 skipulagsreglugerðar skuli við skipulagsgerð ávallt taka tillit til þarfa barna, fatlaðra og aldraðra við ákvarðanatöku um landnotkun og tilhögun mannvirkja, s.s. vegna stíga, bílastæða og varðandi aðgengi að byggingum og opnum svæðum o.s.frv.

Kærendur halda því fram að niðurföllin sem fyrir séu fullnægi ekki fráveitu yfirborðsvatns á lóðinni og tryggi í engu afvötnun hennar og vísa til þess að öll lóðin halli niður í suð-austur hluta hennar. 

Kærendur ítreka að málið varði annars vegar húsin við götuna, ásamt lóðum til sérafnota sem þeir telji úttektarskyldar, og hins vegar götumannvirkið sjálft, skolp, regnvatnslögn, malbik, kantstein, gangstétt og lýsingu ásamt opnum sameiginlegum grassvæðum.  Öll þessi mannvirki séu háð byggingarleyfi samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga og því beri byggingareftirliti að taka þau út.

Kærendur krefjast þess einnig að Akureyrarbær, byggingareftirlit, standi við ákvæði byggingarreglugerðar og taki út eftirfarandi verkþætti og krefjist þess við lokaúttekt að verktakinn gangi fullnægjandi frá þeim svo sem hér segir: 

„1. Gerðir verði fláar á enda gangstétta, eins og lögformlegt er og annars staðar er gert á götum bæjarins, sem tryggi umferð hreyfihamlaðra (hjólastólanotenda) um svæðið.

2. Bætt verði við niðurföllum á neðanverðu svæðinu t.d. framan nr. 9 og 13, sem og niðurfalli á opna grassvæðið ofan húss nr. 2 – 8, til að tryggja örugga afvötnun, og koma í veg fyrir að í leysingum flæði inn í hús.

3. Bæta skal aðfyllingu að kantsteini, sem steyptur var eftir þökulagningu, og stendur því víðast hvar langt upp fyrir grasið og hefur engan stuðning, auk þess sem frágangur er þannig að hirðing er mjög erfið.

4. Taka skal út, annars vegar undirbyggingu lóða, jöfnun, hæðartöku og almennan frágang, og hins vegar það efni (þökur) sem lagt var á lóðirnar, sem er að stórum hluta fullkomlega óboðlegt á húsalóðir, ekkert nema snarrætur, vallhumall og annað illgresi. Á þetta bæði við húsalóðir til sérnota, sem og það svæði (lóð) sem telst til sameiginlegra nota.“

Kærendur líta svo á að um sé að ræða lögformlega stjórnvaldsákvörðun, sbr. samþykkt um stjórn Akureyrarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 895/2003, er félagsmálaráðuneytið hefur staðfest og birt hefur verið í B-deild Stjórnartíðinda, en þar sé skipulags- og byggingarfulltrúa og umhverfisráði heimiluð lokaafgreiðsla mála.   

Málsrök Akureyrarbæjar:  Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar vegna málsins segir að embætti skipulags- og byggingarfulltrúa hafi ekki farið fram á að séruppdráttum af lóðum sé skilað inn með byggingarleyfisumsóknum þar sem á afstöðumynd aðaluppdrátta skuli koma fram þau atriði sem krafist sé að fram komi á lóðaruppdráttum, sbr. 22. gr. byggingarreglugerðar.  Með vísan til 36. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 18.14 í byggingarreglugerð séu framkvæmdir við gerð bílastæða og aðkomuleiða innan lóða háðar byggingarleyfi, en yfirborðsfrágangur sé ekki úttektarskyldur.

Akureyrarbær bendir á að samkvæmt grein 4.6.15 í ÍST 51 skuli lokaúttekt byggingarfulltrúa fara fram þegar byggingarstigi 6 sé náð, en þeim áfanga sé náð þegar bygging sé fullgerð án lóðarfrágangs.  Lóðarfrágangur sé skilgreindur í byggingarstigi 5 en þar segi:  „Jarðvegur á lóð skal frágenginn í rétta hæð undir endanlegt yfirborð.  Jarðvegsskiptum skal vera lokið þar sem þess er þörf undir hellur, malbik eða gróður.  Lagnir í lóð skulu frágengnar, sbr. gr. 4.4.11.“ 

Þá er og vísað af hálfu Akureyrarbæjar til 48. gr. byggingarreglugerðar um áfangaúttektir, en þar sé ekki tilgreint sérstaklega að byggingarfulltrúi taki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h.  Með vísan til gr. 4.7.2 í ÍST 51 teljist bygging ekki fullgerð fyrr en byggingarstigi 7 sé náð, en þá skuli lokið „…gerð og frágangi gangbrauta og bílastæða og öllum frágangi jarðvegs“.  Úttektarskyldu byggingarfulltrúa ljúki við byggingarstig 6 eins og fram komi í gr. 4.6.15 í ÍST 51.

Þá er því og haldið fram af hálfu bæjarins að í byggingarreglugerð sé þess hvergi getið að íbúðarhús og lóðir þeim tilheyrandi skuli vera aðgengileg fötluðum, nema þar sem um fjölbýlishús með fleiri en sex íbúðum sé að ræða.  Samkvæmt reglugerðinni sé gerð krafa um að hús og lóðir sem ætluð séu almenningi eða almenningur þurfi að hafa aðgang að séu aðgengileg fötluðum.  Í umræddu tilfelli sé ekki um þessi atriði að ræða þar sem ekkert hús á svæðinu falli skilyrðislaust undir þau ákvæði að þurfa að vera aðgengileg fötluðum og því hafi ekki verið gerð sérstök krafa um það við samþykkt aðalteikninga.  Úttektir á aðgengi fatlaðra séu ekki framkvæmdar nema þar sem kröfur um slíkt séu gerðar samkvæmt byggingarreglugerð og byggingarskilmálum.  Þá sé í gr. 62.2 byggingarreglugerðar eftirfarandi ákvæði:  „Við lóðarhönnun skal tryggja hindrunarlausar leiðir að inngöngum frá lóð og bílastæðum.“  Ekki sé nánari skilgreining á þessu ákvæði í byggingarreglugerð en víða verði ekki komist hjá tröppum eða skábrautum að inngöngum frá lóð og hafi embættið ekki litið svo á að gerðar væri kröfur um aðgengi fatlaðra að öllum inngöngum nema þegar sérstaklega væru gerðar kröfur um slíkt samkvæmt reglugerðum og byggingarskilmálum.

Bent sé að frárennslislagnir á lóð séu úttektarskyldar og gerð sé krafa um að þær séu teiknaðar.  Lagnauppdrættir lóðarinnar, sem unnir séu af Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf., séu til í vörslu byggingarfulltrúaembættisins.  Þær uppfylli að mati embættisins staðla og hönnunarkröfur sem gerðar séu til fráveitu yfirborðsvatns á lóðinni og staðsetningar niðurfalla með tilliti til hæðarsetningar lóðar í samræmi við samþykkta byggingarnefndaruppdrætti. 

Þá er þess getið í greinargerð Akureyrarbæjar að lokaúttekt hafi farið fram miðað við að byggingarstigi 6 væri náð, en skírteini ekki verið gefið út þar sem mál þetta sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Andmæli kærenda við sjónarmiðum Akureyrarbæjar:  Kærendur árétta að samkvæmt 53. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998 sé það framkvæmdaraðili sjálfur sem óski eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa þegar smíði húss sé að fullu lokið að hans mati.  Slík úttekt geti farið fram samkvæmt ÍST 51/2001 gr. 4.6.15 án þess að það feli í sér að allt ferlið sé fullfrágengið, enda sé í 54. gr. reglugerðarinnar um útgáfu lokaúttektarvottorðs gert ráð fyrir því að við lokaúttektina geti komið fram atriði sem þarfnist úrbóta og verði að lagfæra áður en heimilt verði að gefa út umrætt lokavottorð.

 Kærendur benda á að í áður nefndum staðli segi svo um byggingarstig 7, fullgerða byggingu, í lið 4.7.1:  „Til þess að teljast fullgerð þarf hún að uppfylla þær kröfur sem lýst er í fyrri byggingarstigum og í gr. 4.7.2 o.s.frv.“  en sú gr. hljóði svo:  „Lokið skal gerð og frágangi gangbrauta og bílastæða á lóð og öllum frágangi jarðvegs.“

Kærendur telja að útilokað sé að flokka yfirborðsefnið, þ.e. þökurnar á lóðirnar og opna svæðið, öðruvísi en sem jarðvegsefni, og því lögformlega ákveðið að slíkur frágangur falli undir úttektarskyldu og eftirlit byggingarfulltrúa.  Embættið verði því að sjá um að ákvæðum byggingarstigs 7 sé fullnægt, svo unnt sé að tala um „fullgerða byggingu“, enda sé það í samræmi við ákvæði gr. 53.1 og 54.1 í byggingarreglugerð.  Verði verktakinn ekki við slíkum óskum beri byggingarfulltrúa að láta framkvæma það sem upp á vanti og sækja greiðslu á þeim kostnaði í ábyrgðartryggingu hönnuða, sbr. 26. gr. byggingarreglugerðarinnar.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Með bréfi, dags. 11. ágúst 2004, óskaði úrskurðarnefndin eftir umsögn Skipulagsstofnunar á kæruefninu.  Í bréfi stofnunarinnar, dags. 28. sama mánaðar, segir svo:  „Skipulagsstofnun telur ljóst að skýra beri 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga þröngt.  Tilvísun málsgreinarinnar til framkvæmda sem eru „á vegum“ opinberra aðila verður að skýra þannig að opinber aðili sé með beinum hætti ábyrgur fyrir umræddri framkvæmd.  Í þessu samhengi er rétt að geta þess að líklega er um málvillu að ræða í fyrrnefndri lagagrein, þar sem orðið „framkvæmdar“ kemur fyrir.  Hlýtur að vera átt við „framkvæmdir“, enda er upptalning greinarinnar byggð á mismunandi tegundum framkvæmda. 

Hafi bæjarfélag lýst því yfir að það yfirfæri að öllu leyti ábyrgð vegna framkvæmdar yfir á einkaaðila, sem að öðrum kosti hefði fallið undir ábyrgðarsvið bæjarfélagins, telur Skipulagsstofnun að undantekning 2. mgr. 36. gr. eigi ekki lengur við.  Við það að yfirfæra ábyrgð verks með slíkum hætti breytast forsendur fyrir beitingu 2. mgr. 36. gr. sé tekið mið af orðalagi greinarinnar, sem vísar til umsjónar og þar með ábyrgðar opinbers aðila með framkvæmdinni.  Undantekning umræddrar lagagreinar eigi því ekki lengur við og almenn ákvæði IV. kafla laganna um málsmeðferð byggingarleyfisskyldra framkvæmda gildi.“

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð bókun umhverfisnefndar Akureyrarbæjar frá 8. desember 2004 um að nefndin sé sammála túlkun skipulags- og byggingarfulltrúa um að byggingarfulltrúi taki ekki út endanlegan yfirborðsfrágang lóða, þar með talið malbik, kantsteina, gras o.þ.h., eða tryggi aðgengi fatlaðra á svæðinu og nægjanlega afvötnun þess eins og nánar greinir í bókun ráðsins.  Fundargerð umhverfisnefndar var lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar hinn 14. desember 2004.  Felur bókun ráðsins í sér að staðfest er sú afstaða byggingarfulltrúa að hafna kröfu kærenda um að hann taki út tilgreinda verkþætti við frágang lóðarinnar að Melateig 1 – 41 á Akureyri. Verður að túlka hina kærðu ákvörðun svo að með henni hafi verið staðfest synjun byggingarfulltrúa á erindi kærenda um úttektir og úrbætur sem krafist var af þeirra hálfu.  Umrædd ákvörðun hefur hlotið meðferð í samræmi við gildandi samþykkt um stjórn Akureyrarkaupstaðar.

Í kröfugerð kærenda felst að byggingarfulltrúi hlutist til um úttektir í krafti eftirlitsvalds embættis hans.  Almennt gildir um úttektir við gerð byggingarleyfisskyldra mannvirkja að byggingarstjóra ber að óska einstakra áfangaúttekta samkvæmt 48. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá skal byggingarstjóri, eða byggjandi, óska lokaúttektar samkvæmt 53. gr. nefndrar reglugerðar og samkvæmt 54. gr. reglugerðarinnar skal byggingarfulltrúi setja byggingarstjóra og byggjanda tímafrest til úrbóta komi fram við lokaúttekt að úrbóta sé þörf í einhverjum efnum.

Skilja verður ákvæði þessi svo að þeim sé ætlaða að tryggja eftirlit með öryggi og gæðum mannvirkja og að unnt sé að knýja þá sem ábyrgð bera á framkvæmdum til að bæta úr því sem á kunni að skorta til að mannvirkið fullnægi viðeigandi skilyrðum.  Lúta þessi ákvæði einkum að vörslu almannahagsmuna en ekki verður af þeim ráðið að eigendur fasteigna, sem keypt hafa eignir í byggingu, eignist lögvarinn rétt til þess að krefjast þess að byggingarfulltrúi láti fara fram úttekt að þeirra ósk til þess að staðreyna skilaástand eigna eða knýja á um úrbætur í því efni.  Eru kröfur kærenda er að þessu lúta einkaréttarlegs eðlis og verða þeir að beina þeim að viðsemjendum sínum um eignirnar.

Með vísan til framanritaðs verður að fallast á að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að synja kröfum kærenda um úttekt umræddra verkþátta og að hann hlutaðist til um tilgreindar úrbætur.  Verður kröfum kærenda í málinu því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson 

21/2005 Frakkastígur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 21/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2005 á umsókn um leyfi til að breyta í íbúð verslunarrými, matshluta 03, á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2005, er barst úrskurðarnefndinni hinn sama dag, kærir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl., f.h. I, Baugatanga 1, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2005 um leyfi til að breyta í íbúð verslunarrými,  matshluta nr. 03, á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg.  Er kærandi eigandi framangreinds eignarhluta. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 
 
Málsatvik:  Með umsókn, dags. 10. mars 2004, sótti kærandi um leyfi til byggingarfulltrúa um að breyta verslunarrými á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg í íbúð, en um er að ræða skúrbyggingu við aðalhús það er á lóðinni stendur og hafði þar verið starfrækt fiskbúð.  Byggingarfulltrúi frestaði afgreiðslu málsins með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og vísaði því til skipulagsfulltrúa. 

Í bréfi skipulagsfulltrúa til byggingarfulltrúa, dags. 2. apríl 2004, kom fram að í deiliskipulagi fyrir reitinn sem lóðin Frakkastígur 7 tilheyri sé gert ráð fyrir að skúrar verði fjarlægðir og í þeirra stað verði gefin heimild til viðbygginga við aðalhúsið.  Þetta sé gert með það að leiðarljósi að fækka skúrum á reitnum, en margir þeirra séu ekki vel byggðir og til lýta í umhverfinu.  Það yrði því í andstöðu við þá hugsun sem legið hefði til grundvallar við gerð deiliskipulagsins að heimila að umræddum skúr yrði breytt í íbúð.  Því væri lagt til að erindinu yrði svarað neikvætt.

Hinn 5. apríl 2004 var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og málinu vísað til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu.  Hinn 27. apríl var umsóknin tekin fyrir á ný hjá byggingarfulltrúa og afgreiðslu frestað þar sem skipulagsferli væri ólokið, ekki hefði borist umsögn skipulagsfulltrúa auk þess sem gera þyrfti grein fyrir einangrun útveggja. 

Hinn 9. júlí 2004 vísaði skipulagsfulltrúi málinu til hverfisstjóra.  Hinn 16. júlí s.á. var málið á ný tekið fyrir hjá skipulagsfulltrúa þar sem lögð var fram umsögn hans, dags. 15. júlí s.á.  Í henni kom m.a. fram að í fyrri umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. apríl 2004, hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að synja erindinu ef stjórn skipulagssjóðs samþykkti ekki að kaupa skúrinn.  Hafi þessi niðurstaða verið fengin í samráði við Ívar Pálsson og Magnús Sædal Svavarsson.  Í netpósti frá Ívari Pálssyni sé sú niðurstaða ítrekuð að ekki sé hægt að leggjast gegn þessari breytingu frá „skipulagslegu sjónarmiði“ þar sem í ljós hafi komið að skipulagssjóður hafni uppkaupum á eigninni og verði erindið ekki samþykkt sé að vænta skaðabótakröfu á borgarsjóð.  Þó sé sá varnagli sleginn af hálfu forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu að húsnæðið þurfi að uppfylla kröfur byggingarreglugerðar.  Telji skipulagsfulltrúi að ákvæði í gildandi og staðfestu deiliskipulagi mæli gegn þessari ráðstöfun. 

Var eftirfarandi fært til bókar á fundi skipulagsfulltrúa:   „Neikvætt.  Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa“. 

Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 22. október 2004 var tekið upp að nýju bréf byggingarfulltrúa, dags. 24. mars 2004, vegna umsóknar um leyfi til að breyta í íbúð verslunarrými, matshluta 03, á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg.  Lögð var fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. júlí 2004.  Erindinu fylgdi samþykki meðlóðarhafa, umsögn burðarvirkishönnuðar og viðauki frá í maí 2004.  Þá var og lögð fram umsögn lögfræði og stjórnsýslu, dags. 20. október 2004.  Var erindinu frestað milli funda.  Í fyrrgreindu bréfi forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu sagði svo:  „Sótt hefur verið um leyfi til að breyta notkun húsnæðisins að Frakkastíg nr. 7 úr verslunarhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Umsókn þess efnis barst embætti byggingarfulltrúa í lok mars 2004. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á fundi sínum þann 5. apríl sl. vísaði skipulagsfulltrúi erindinu til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu. Þann 2. apríl óskaði skipulagsfulltrúi eftir afstöðu skipulagsjóðs til þess hvort sjóðurinn væri reiðubúinn til að kaupa skúrinn þar sem deiliskipulag svæðisins gerir ráð fyrir að hann verði rifinn. Hafnaði sjóðurinn að koma að kaupum hússins. Undirritaður óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 5. júlí sl., þegar afstaða sjóðsins lá fyrir, að málið yrði lagt fyrir fund skipulagsfulltrúa og skipulagsfulltrúa myndi ekki gera athugasemd við erindið fyrir sitt leyti. Á fundi skipulagsfulltrúa þann 9. júlí sl. var málið tekið fyrir og vísað til umsagnar hverfisstjóra (málið hafði í millitíðinni verið tekið fyrir á nokkrum fundum byggingarfulltrúa en ekki afgreitt þar sem umsögn skipulagsfulltrúa vantaði). Á fundi skipulagsfulltrúa þann 16. júlí 2004 var málið svo afgreitt neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 15. júlí 2004. Var sú afgreiðsla, fyrir mistök, send umsækjanda í stað byggingarfulltrúa sem átti að fá umsögnina og afgreiða málið. Olli það því að byggingarfulltrúi hefur ekki enn afgreitt málið.

Í kjölfar tilkynningar til umsækjanda um afgreiðslu skipulagsfulltrúa leitaði umboðsmaður hans til embættisins og óskaði munnlega eftir að málið yrði skoðað á ný. Ákvað undirritaður að verða við þeirri beiðni enda málið nokkuð sérstakt. Í fyrsta lagi þar sem fyrir lágu umsagnir tveggja embættismanna um málið þar sem komist var að mismunandi niðurstöðu. Í öðru lagi þar sem í ljós hafði komið að byggingin hafði verið samþykkt með niðurrifskvöð á sínum tíma. Sú kvöð er hins vegar ekki skráð í þinglýsingabækur né var hún skráð eða bókuð vegna reyndarteikninga sem samþykktar voru af húsinu árið 2003. Kvöðin hafði því farið fram hjá undirrituðum.

Fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn lítur að breyttri landnotkun hússins þ.e. að breyta því úr verslunarhúsnæði í íbúð. Ekkert í deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt var í borgarráði 26. október 1999 né í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024,  bannar slíka notkun á jarðhæð við Frakkastíg. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að umræddur skúr verði rifinn, ásamt nokkrum öðrum, til að styrkja verndun byggðamynsturs á þeim hluta reitsins. Á skúrnum hvíli einnig sú kvöð, sem samþykkt var um leið og veitt var byggingarleyfi fyrir skúrnum, að hann skyldi fjarlægður bæjarsjóði að kostnaðarlausu þegar krafist yrði.

Þar sem deiliskipulagið bannar ekki slíka landnotkun telur undirritaður að ekki sé rétt að leggjast gegn umsókninni af skipulagsástæðum enda réttlæti niðurrifskvöðin ein sér ekki að lagst verði gegn breytingu á notkun hans. Telur undirritaður að slík afgreiðsla væri andstæð meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Hafi umrædd kvöð gildi er hægt að krefjast niðurrifs skúrsins án tillits til þess hvaða notkun er leyfð. Vissulega er þó líklega erfiðara gagnvart eigendum húss að krefjast niðurrifs þar sem haldið er heimili en þar sem atvinnustarfsemi fer fram. Yrði fallist á umsóknina væri rétt að ítreka umrædda kvöð við afgreiðslu málsins þannig að núverandi eigendum og þeim sem koma til með að leiða rétt sinn frá þeim sé þessi kvöð ljós. Hér er ekki lagt mat á það hvort húsnæðið uppfyllir ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði en það ber embætti byggingarfulltrúa að meta áður en til afgreiðslu málsins kemur.“

Hinn 29. október 2004 var málinu vísað af skipulagsfulltrúa til skipulags- og byggingarnefndar.

Hinn 16. febrúar 2005 var á fundi skipulagsráðs eftirfarandi fært til bókar:  „Synjað. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, að auki uppfyllir húsnæðið ekki ákvæði byggingarreglugerðar um þvottahús, anddyri og eldhús sbr. gr. 90, 92 og 93 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 m.s.b.“

Framangreindri synjun skipulagsráðs hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða synjun skipulagsráðs með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið ólögmæt enda ekkert í deiliskipulagi svæðisins eða aðalskipulagi sem takmarki slíka nýtingu, þ.e. að breyta hagnýtingu eignarhlutans úr verslunarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.  Beri því að veita byggingarleyfi að uppfylltum ákvæðum byggingarreglugerðar um þvottahús, anddyri og eldhús.  Líta verði til þess að fyrir liggi samþykki sameiganda fyrir þessari breyttu notkun.  Þá sé hvorki grundvöllur fyrir verslunarrekstri í húsnæðinu né vilji hjá borgaryfirvöldum til að kaupa húsnæðið og því sé kærandi í pattstöðu með eign sína.  Eins og fram komi í umsögn forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu, dags. 20. október 2004, þá réttlæti niðurrifskvöð ein og sér ekki að lagst verði gegn breytingum á rýminu.   

Þá byggi kærandi og kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu synjunar á sjónarmiðum þeim er koma fram í bréfi forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu, dags. 20. október 2004. 

Af hálfu kæranda sé einnig vísað til þess að í bókun skipulagsráðs frá 16. febrúar 2005, sem kærð sé í málinu, þar sem byggingarleyfisumsókninni sé hafnað á grundvelli umsagnar skipulagsfulltrúa, sé vísað til þess að húsnæðið uppfylli að auki ekki skilyrði byggingarreglugerðar um þvottahús, anddyri og eldhús.  Verði ekki annað ráðið en að um málamyndaathugasemd sé að ræða, enda sé það fyrst þá þegar málið hafi verið afgreitt, tæpu ári eftir að umsóknin hafi fyrst verið tekin fyrir, að gerðar hafi verið athugasemdir um þessi atriði.  Því til stuðnings sé á það bent að frá og með fundi sem haldinn hafi verið hinn 1. júní 2004 hafi málið verið afgreitt athugasemdalaust og einungis frestað þar sem umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið ókomin.  Greinilegt sé að þessi atriði hafi ekki haft úrslitaþýðingu um afgreiðslu málsins heldur umsögn skipulagsfulltrúa og hafi synjunin byggst á henni fyrst og fremst.  Ráða megi af bókuninni að byggingarleyfinu hefði verið synjað hvort sem umsóknin hefði uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar eða ekki.  Sé því mikilvægt fyrir kæranda að úrskurðarnefndin úrskurði hvort synjun skipulagsráðs á grundvelli umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið heimil eða ekki, enda sé það hlutverk byggingarfulltrúa að meta hvort húsnæðið uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar áður en til afgreiðslu málsins komi en ekki með eftir á gerðum frekari rökstuðningi eins og gert hafi verið.      

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að skipulagsráði hafi verið fullkomlega heimilt að synja umræddri umsókn.  Fyrir liggi umsögn skipulagsfulltrúa frá 15. október 2004 þess efnis að ákvæði gildandi deiliskipulags mæli ekki með því að þessi ráðstöfun verði heimiluð.  Í umsögn skipulagsfulltrúa segi eftirfarandi:  „En ef hægt er að teygja svo á byggingarreglugerð að skúr sem býr við birtugjafa við gangstéttarbrún í liðlega mittishæð til norð-vesturs að umferðargötu, ásamt glugga til norð-austurs út í dimman bakgarð, þá er hægt að samþykkja að þessi húshluti henti lögformlegri skilgreiningu sem íbúð“.  Sé alveg ljóst af umsögninni að skipulagsfulltrúi leggist gegn þessari ráðstöfun skúrsins.

Við afgreiðslu máls þessa hafi einnig legið fyrir upphafleg umsögn skipulagsfulltrúa þess efnis að í deiliskipulagi fyrir reit þann er lóðin Frakkastígur 7 tilheyri sé gert ráð fyrir að skúrar á lóðinni verði fjarlægðir.  Í þeirra stað væri veitt heimild til viðbygginga við aðalhúsið.  Þetta væri gert með það að leiðarljósi að fækka skúrbyggingum á reitnum, en margir þeirra væru ekki vel byggðir og til lýta í umhverfinu.  Leyfi til að breyta skúr í íbúð væri því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og lagt til að erindinu yrði svarað neikvætt.  Þessi umsögn hafi þó aldrei verið send byggingarfulltrúa þar sem málinu hafi í millitíðinni verið vísað til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu, sem hafi talið að ekki væru skipulagslegar forsendur fyrir því að synja erindinu, m.a. með tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Varðandi tilvísun kæranda til umsagnar forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu, dags. 20. október 2004, sé það um hana að segja að hann telji ekki rétt að leggjast gegn umsókninni af skipulagsástæðum enda hafi niðurrifskvöðin, ein og sér, ekki réttlætt að lagst yrði gegn henni.  Í tölvupósti frá 5. júlí, sem skoðist sem hluti umsagnar, telji forstöðumaðurinn að synjun gæti mögulega haft í för með sér bótaskyldu.  Ekki verði nánar fjallað um það á þessum vettvangi.  Ákvörðun um afgreiðslu málsins hafi endanlega legið hjá skipulagsráði og burtséð frá vangaveltum um mögulega bótaskyldu hafi það verið ákvörðun ráðsins að synja umsókninni með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um að breytingin samræmdist ekki deiliskipulagi.

Umræddur skúr hafi verið samþykktur árið 1961 með þeirri þinglýstu kvöð að hann skyldi rifinn ef þess yrði krafist, borgarsjóði að kostnaðarlausu.  Heimilt sé þó að reisa viðbyggingar við íbúðarhúsin í staðinn samkvæmt skipulaginu.  Fjölmargar byggingar séu háðar slíkum niðurrifskvöðum í borginni, en sjaldan reyni á þær.  Ljóst megi þó vera að þrátt fyrir að skipulagið á reitnum geri ráð fyrir íbúðabyggð á svæðinu sé tilgangur skipulagsyfirvalda með niðurrifskvöðum sá að skúrarnir hverfi með tímanum en breytist ekki í íbúðahúsnæði í dimmum bakgörðum.  Slíkir skúrar sem víða megi finna í bakgörðum lóða séu ekki taldir heppilegir íverustaðir fólks, auk þess sem þeir uppfylli sjaldnast ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhús.

Umsókninni hafi því verið synjað af skipulagslegum ástæðum en einnig af þeirri ástæðu að skúrinn hafi ekki uppfyllt ákvæði 90., 92. og 93. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Samkvæmt reglugerðinni sé ekki heimilt að hafa baðherbergi og þvottahús í sama rými auk þess sem baðherbergi þurfi a.m.k. að vera 4,8 m² og þvottahús 3,0 m², en baðherbergi og þvottahús séu sýnd saman 4,3 m².  Allir gluggar snúi í norðurátt (sic) út í bakgarð þar sem lítillar birtu njóti og því sé ákvæðum byggingarreglugerðar um birtuskilyrði ekki fullnægt.  Engir gluggar séu á eldhúsi, eins og áskilið sé samkvæmt  93.2 gr. reglugerðarinnar.  Ekki verði þó annað séð við nánari athugun á uppdráttum en að anddyri fullnægi ákvæðum byggingarreglugerðar.  Athugasemdir byggingarfulltrúa hafi þó verið tæknilegs eðlis og hefði hugsanlega mátt bæta úr því sem þær hafi lotið að, en eins og áður hafi fram komið hafi verið óheimilt að samþykkja íbúð í skúrnum af skipulagslegum ástæðum.

Sú röksemd kæranda að um málamyndaathugasemdir sé að ræða sé því með öllu órökstudd.  Mál séu sjaldnast fullyfirfarin af starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs þegar þau berist afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og því algengt að athugasemdir berist síðar séu tilefni til.  Umsóknarblað kæranda beri auk þess með sér skráðar athugasemdir m.a. um þvottahús.  Byggingafulltrúi vísi til þeirra strax við fyrstu afgreiðslu umsóknarinnar hinn 23. mars 2004.  Sé ekki venjan að reifa athugasemdir í bókun, aðeins látið nægja að vísa til þeirra.  Fullyrðingar kæranda um að málið hafi, frá og með 1. júní 2004, ætíð verið afgreitt athugasemdalaust eigi því ekki við rök að styðjast.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2005 um leyfi til að breyta verslunarrými á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg í íbúð.  Byggir synjunin á því að deiliskipulag svæðisins heimili ekki þess háttar breytingu ásamt því að kröfur byggingarreglugerðar nr. 441/1998 séu ekki uppfylltar.   

Deiliskipulag svæðis þess er hér um ræðir afmarkast af Laugavegi, Frakkastíg, Hverfisgötu og Vitastíg og tók það gildi á árinu 1999.  Markmið þess eru m.a. að hlúa að fjölbreytilegri byggð á svæðinu, að miðbæjarstarfsemi verði áfram ríkjandi landnotkun og að íbúabyggð geti dafnað á efri hæðum og á baklóðum.  Þá er það og markmið deiliskipulagsins að bæta götumyndir, en halda um leið í sögulegt gildi byggðarinnar, ásamt því að viðhalda og tryggja aðstæður fyrir smávöruverslun og umhverfi hennar.  Stefnt sé að því að á götuhliðum jarðhæða verði að stærstum hluta smásöluverslun og hvatt er til að nota efri hæðir verslunarhúsnæðis sem íbúðarhúsnæði.  Í kafla deiliskipulagsins um almenna skilmála þess kemur fram að heimilt sé að vera með á reitunum þá starfsemi sem samræmist landnotkun  aðalskipulags Reykjavíkur.  Ekki sé óheimilt að breyta þeim húsum er falli undir vernd byggðamynsturs en breytingar verði þó að vera í samræmi við skilmála deiliskipulagsins er gildi um hvert hús og taka mið af yfirbragði byggðarinnar í heild.  Settir eru skilmálar fyrir hverja lóð á svæðinu og segir eftirfarandi varðandi lóðina að Frakkastíg 7.  „Verndun byggðamynsturs.  Útbygg. innan byggingarreits.  Niðurrif skúra á baklóð.“  Á uppdrættinum er sýndur stækkaður byggingarreitur aðalhúss lóðarinnar og að fyrirhugað sé niðurrif útbygginga, þ.á.m. á rými því er um ræðir í máli þessu.  Með þessum breytingum lækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 1,09 í 0,7.   

Í tilvísun deiliskipulagsins til ákvæða aðalskipulags Reykavíkur um landnotkun felst að hún ræðst af þeim kafla þróunaráætlunar miðborgar um landnotkun sem tekinn hefur verið upp í aðalskipulagið.  Verður ekki annað af honum ráðið en að ekki sé gert ráð fyrir íbúðum á götuhlið jarðhæða á verslunarsvæðum.  Verður að telja að húsnæði það sem um ræðir í málinu falli þar undir, enda um að ræða verslunarrými við götu þótt það nái nokkuð langt inn í lóð þá er það stendur á.  Jafnframt er húsrýmið þannig auðkennt á skipulagsuppdrætti að það skuli rifið og er sú skipulagsákvörðun ekki tengd meintri kvöð sem borgaryfirvöld telja hvíla á umræddu húsnæði samkvæmt sérstakri yfirlýsingu þar um.

Ekki er að framangreindum atriðum vikið í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun.  Bar þó nauðsyn til að tekin væri afstaða til þess hvort umsókn kæranda samrýmdist tilvitnuðum ákvæðum aðalskipulags um landnotkun og hvaða þýðingu ákvörðun deiliskipulagsins um niðurrif kynni að hafa þegar afstaða var tekin til umsóknar kæranda.  Þessa var ekki gætt og þykir undirbúningi og rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun af þeim sökum svo verulega áfátt að leiða eigi til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2005, um að synja umsókn kæranda um leyfi til að breyta verslunarrými, matshluta nr. 03, í íbúð á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg, er felld úr gildi.

 

__________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

_________________________       ___________________________  
                             Ásgeir Magnússon                        Þorsteinn Þorsteinsson