Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

132/2007 Melabraut

Ár 2008, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 132/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkja¬nefndar Seltjarnarnesbæjar frá 16. ágúst 2007 um að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut á Seltjarnarnesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2007, er barst nefndinni 5. sama mánaðar, kæra 34 íbúar og fasteignaeigendur við Melabraut og Miðbraut á Seltjarnarnesi þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 16. ágúst 2007 að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 16. ágúst 2007 var samþykkt umsókn um byggingu fjögurra íbúða húss á lóðinni nr. 27 við Melabraut.  

Með tölvubréfi byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. október 2007, var tilkynnt að framkvæmdir við byggingu hússins hefðu verið stöðvaðar og að framkvæmdaleyfi hefði ekki verið gefið út og yrði ekki fyrr en skipulags- og mannvirkjanefnd hefði fjallað um málið.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 8. nóvember 2007 var byggingarleyfi það sem um er deilt afturkallað en nýtt leyfi veitt í þess stað.  Hafa úrskurðarnefndinni borist kærur nágranna vegna þess leyfis og eru þau kærumál til meðferðar fyrir nefndinni.   

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Bílskúrar nái út fyrir byggingarreit, hæð hússins sé of mikil ásamt því að bílastæði séu of mörg. 
 
Niðurstaða:  Eins og að framan greinir hefur ákvörðun sú sem kærð er í máli þessu verið afturkölluð af þar til bæru stjórnvaldi.  Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________            _____________________________
   Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson