Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

150/2007 Hnúksnes

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 150/2007, kæra á ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst hinn 5. nóvember 2007, kæra S og E, eigendur jarðarinnar Hnúks í Dalabyggð, þá ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi, sem er hluti jarðarinnar Hnúkur. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.

Málavextir og rök:  Á fundi byggðarráðs Dalabyggðar hinn 4. júlí 2007 var lögð fram umsókn leigutaka hluta jarðarinnar Hnúks, svokallaðs Hnúksness, um að veita  framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju.  Var umsóknin samþykkt.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun sé tekin án nokkurs samráðs við þá sem landeigendur og að þeim hafi ekki verið gefin kostur á að kynna sér framkvæmdina að nokkru leyti.  Þeim sé t.d. ekki kunnugt um í hverju umrædd framkvæmd sé fólgin, umfang hennar, hvernig mannvirkið komi til með að líta út eða hvar ætlunin sé að staðsetja það, en kærendur hafi augljósa, lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  

Bent sé á að framkvæmdin sé einkaframkvæmd, væntanlega unnin á vegum einkahlutafélagsins Hnúksness, og því ekki unnin á vegum opinberra aðila.  Leiki vafi á hvort framkvæmdin sé ekki byggingarleyfisskyld, sbr. 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Land það sem framkvæmdaleyfið taki til, þ.e. Hnúksnes, tilheyri jörðinni Hnúki og sé því mótmælt að byggðarráð geti heimilað hina umdeildu framkvæmd án nokkurs samráðs eða samþykkis landeigenda, þ.á.m. að virtum grenndar- og nábýlisrétti, svo og að virtum skipulagsskyldum sveitarfélagsins lögum samkvæmt.  Sé m.a. bent á að ekki hafi verið gætt að andmælarétti landeigenda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kanna þurfi hvort fyrirhuguð mannvirkjagerð í Hnúksnesi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr. 6. gr. hafnalaga nr. 61/2003 ásamt því hvort fyrir Siglingastofnun hafi verið lögð gögn um gerð mannvirkjanna til samþykktar áður en framkvæmdir hefjist.   

Málsrök Dalabyggðar:  Af hálfu Dalabyggðar er vísað til þess að Hnúksnes ehf. sé með á leigu land úr jörðinni Hnúki og þar séu mannvirki, þ. á m. bryggja, sbr. leigusamning og afsal, dags. 15. október 1967 og dags. 26. febrúar 1972.  Hnúksnes ehf. muni hafa leitað til Siglingastofnunar og óskað eftir heimild til byggingar flotbryggju við gamla bryggju, sem þar sé, í tengslum við ferðaþjónustu á svæðinu.  Hafi Siglingastofnun samþykkt framkvæmdina og styrk til verkefnisins.  Tekið sé fram að fyrstu hugmyndir hafi gert ráð fyrir því að endurbyggja gömlu bryggjuna en þær síðan breyst í að byggja litla flotbryggju við hana.  Hnúksnes ehf. hafi sótt um framkvæmdaleyfi og hafi það verið samþykkt enda sé Hnúksnes ehf. með land á leigu á umræddum stað og mannvirki á því landi.  Þá sé ekki annað vitað en að öll tilskilin leyfi Siglingastofnunar séu fyrir hendi. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeim hafi ekki verið veittur kostur á að kynna sér málið sé tekið fram að maður sá er hafi ætlað að annast framkvæmdina fyrir Hnúksnes ehf. hafi farið sérstaklega á fund annars kærenda til að kynna honum málið.  Á þeim fundi hafi engar athugasemdir komið fram. 

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir samningur, dags. 15. október 1967, þar sem leigður er á erfðafestu hluti úr jörðinni Hnúki undir verslunarhús, sláturhús, frystihús o.fl.  Með afsali, dags. 26. febrúar 1972, voru mannvirki á lóðinni seld hlutafélaginu Hnúksnesi ásamt því að lóðarréttindum var afsalað.  Þá liggur og fyrir í málinu dómur Hæstaréttar í máli nr. 43/2006 þar sem hafnað er kröfu kærenda máls þessa um uppsögn eða riftun áðurnefnds samnings og verður hann því lagður til grundvallar.   Samkvæmt samningnum er lóðin 1.500 m² að stærð og nær til sjávar.  Er leigutaka heimilt að reisa á lóðinni hver þau mannvirki sem hann óskar.  Verður að telja að flotbryggja sú, sem heimilað var að koma fyrir með hinu kærða leyfi, rúmist innan heimilda leigutaka samkvæmt lóðarleigusamningi og að ekki hafi því borið nauðsyn til þess að afla sérstaks samþykkis kærenda umfram það sem í samningnum fólst.  Þá var hið umdeilda leyfi í samræmi við    Svæðisskipulag Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu 1992-2012, en þar er gert ráð fyrir smábátahöfn og lendingarstað í Hnúksnesi og máttu kærendur vænta þess að mannvirki væru gerð þar í samræmi við skipulag.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi borið að kynna kærendum umsókn Hnúksness ehf. um framkvæmdaleyfið, eða afla samþykkis þeirra áður en leyfið var veitt.  Ekki verður heldur séð að aðrir þeir annmarkar hafi verið á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði og verður kröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________        ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

57/2006 Norðurstígsreitur

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 57/2006, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. maí 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.132.0, svonefnds Norðurstígsreits, er varðar lóðina nr. 24 við Vesturgötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. júlí 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir L, Vesturgötu 23, Reykjavík, auk 34 íbúa við Vesturgötu, fjögurra íbúa við Nýlendugötu og tveggja við Norðurstíg, ákvörðun skipulagsráðs frá 17. maí 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.132.0, svokallaðs Norðurstígsreits, vegna lóðarinnar að Vesturgötu 24 í Reykjavík.  Auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. júní 2006.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.

Málavextir:  Á árinu 2004 tók gildi deiliskipulag fyrir Norðurstígsreit.  Í því var m.a. gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg leysti til sín 346, m² lóð að Vesturgötu 24 er skipt yrði í 151, m² íbúðarhúsalóð, þar sem markaður yrði byggingarreitur fyrir nýbyggingu eða flutningshús, og svæði þar sem afmörkuð yrðu fjögur bílastæði.  Nýtingarhlutfall hinnar nýju byggingarlóðar yrði 1,1. 

Hinn 18. febrúar 2005 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa lögð fram umsókn um breytt deiliskipulag vegna ofangreindrar lóðar og var málinu vísað til umsagnar hverfisarkitekts.  Var það í vinnslu næstu mánuði hjá borgaryfirvöldum og lóðarhafa og í júlí s.á. setti lóðarhafi fram tillögu að breyttu skipulagi lóðarinnar.  Í framhaldi af því fór skipulagsfulltrúi fram á að lögð yrðu fram gögn um breytingar á skuggavarpi auk samþykkis rétthafa þeirra lóða er lægju að byggingarreit fyrir bílastæðakjallara. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 16. september 2005 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi varðandi umrædda lóð og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir hagsmunaaðilum að Vesturgötu 21, 21b, 22, 23, 26a, 26b, 26c, Nýlendugötu 4, 5, 5a, 6 og 9 ásamt Norðurstíg 5 og 5b. 

Með bréfi embættis skipulagsfulltrúa, dags. 20. september 2005, var hagsmunaaðilum gefinn kostur á að tjá sig um tillöguna með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og veittur frestur til að koma að athugasemdum til 20. október s.á.  Fólst breytingin á deiliskipulaginu í því að leyft yrði að byggja á 350 m² lóð 420 m² íbúðarhús fyrir 6-8 íbúðir, fullar þrjár hæðir með hámarksnýtingarhlutfalli 1,2.  Þá var heimilað að gera kjallara undir húsinu fyrir geymslur og 6-8 bíla.  Birt flatarmál skyldi ekki vera meira en 400 m² og byggingarhlutfall ekki hærra en 0,5.  Komu níu aðilar á framfæri athugasemdum við tillöguna. 

Athugasemdir er borist höfðu voru kynntar á fundi skipulagsráðs hinn 11. janúar 2006 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. janúar 2006, og í kjölfar þess voru gerðar breytingar á tillögunni.  Var nú gert ráð fyrir að heimild til að gera kjallara undir framhúsið yrði skilyrt á þann veg að ekki yrði gerður kjallari nær húsinu að Vesturgötu 26a en sem næmi einum metra.  Þá var bakhúsið lækkað um 70 cm.  Að auki var gert ráð fyrir bílalyftu frá Vesturgötu í stað rampa við austurlóðarmörk. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 17. maí 2006 var tillagan lögð fram að nýju.  Einnig var lögð fram fyrrgreind umsögn skipulagsfulltrúa, bréf frá lóðarhafa ásamt uppdrætti, minnisblað skipulagsfulltrúa, dags. 12. maí 2006, umsögn framkvæmdasviðs, dags. 15. maí 2006, ásamt umsögn lögfræði og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs, dags. 16. ágúst 2005.  Var eftirfarandi bókað:  „Kynnt tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á uppdráttum mótt. 25. apríl og með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 12. maí 2006, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð.“ 

Hafa kærendur skotið fyrrgreindri ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðarnefndarinnar eins og áður hefur fram komið. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að byggð á umræddu svæði sé gríðarlega þétt og vísa til deiliskipulags um svæðið frá árinu 2003 þar sem segi svo:  „Áberandi skortur er á útiaðstöðu, bílastæðum og frágangi nær allra útisvæða og lóða.  Sum húsin á reitnum eru nær lóðarlaus.  Óhætt er að fullyrða að um 20% íbúa reitsins hafa enga útiaðstöðu á lóðum sínum, svalir né garðholu þar sem sólar nýtur.“  Byggð sem svo sé lýst þoli ekki frekari þéttingu, lífsgæði þeirra íbúa sem fyrir séu muni skerðast verulega og eignir lækka í verði.  Hafi verið farið út fyrir öll skynsemismörk hvað þéttingu byggðar varði. 

Um sé að ræða byggingu tveggja húsa sem muni skyggja svo rækilega á húsin í kring að dagsbirtu muni varla njóta lengur nema að mjög litlu leyti í sumum þeirra og sú litla sólarglæta sem þó komist að lóðum annarra muni nær alveg hverfa. 

Vesturgatan sé ein af elstu götum borgarinnar og götumyndin á þeim hluta sem um ræði sé friðuð.  Framhlið fyrirhugaðra nýbygginga sé ekki í samræmi við útlit húsanna beggja vegna og húsin auk þess óhóflega umfangsmikil.  Í kringum byggingarnar séu nokkur hús sem byggð hafi verið á 19. öld með hlöðnum grunni og fráveituæðum úr steini.  Fyrirhugað sé að sprengja og/eða fleyga fyrir djúpum kjallara í harða klöpp innan um viðkvæm, gömul hús, aðeins einum metra frá því sem næst standi en ljóst sé að húsin verði ónýt ef hlaðnir grunnar þeirra verði fyrir hnjaski. 

Í svo þéttri byggð sem fyrir sé á svæðinu muni einnig skapast gífurlegur hávaði og óbærilegt ónæði af byggingarframkvæmdum og áskilji kærendur sér allan rétt til skaðabóta vegna þessa sem og vegna þeirra fyrirætlana borgaryfirvalda að skerða verðmæti eigna þeirra. 

Þá sé á það bent að stórhætta myndi skapast ef eldur kæmi upp í einu af timburhúsunum á reitnum en slökkvibílar kæmust hvergi að og öll timburhúsabyggðin væri því í mikilli hættu.  Endanlega yrði lokað fyrir aðgönguleið slökkviliðs að húsum við Nýlendugötu.  Þá hafi í október 2005 verið fluttur háreistur, hálfhruninn timburhjallur á örsmáan reit að Nýlendugötu 5a, en reynslan sýni að mikil brunahætta fylgi auðum timburhjöllum.  Enn sé spurt og þess krafist að svarað verði hver beri ábyrgðina ef tjón verði vegna bruna svo ekki sé minnst á ef einhver deyi af hans völdum. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. 

Bent sé á að það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa á miðborgarsvæðinu að gera ráð fyrir því að hvorki óbreytt útsýni né sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti ávallt tekið breytingum í uppbyggingu hverfa og við þéttingu byggðar.  Það sé aftur á móti hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja hagsmuni allrar heildarinnar og að aldrei sé svo langt gengið að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun á eignum borgaranna verði að ræða vegna framkvæmda á annarri eign. 

Það sé í samræmi við stefnumörkun varðandi þéttingu byggðar að veita heimild til uppbyggingar á lóðinni að Vesturgötu 24.  Þyki til bóta fyrir götumynd Vesturgötu á þessu svæði að byggt verði í núverandi skarð að Vesturgötu 24 í samræmi við framlagða tillögu, sem geri ráð fyrir að umrætt hús sé í sömu hæð og timburhúsið að Vesturgötu 22. 

Reykjavíkurborg bendi á ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 telji aðilar sig verða fyrir tjóni vegna tillögunnar. 

Gert sé ráð fyrir bílastæðakjallara undir húsinu að hluta og ætti skipulagsbreytingin því, að öllu jöfnu, ekki að auka á bílastæðavanda á svæðinu. 

Hvað varði málsástæður kærenda varðandi ónæði af völdum framkvæmda sé tekið fram að haga beri þeim m.t.t. aðstæðna hverju sinni og séu framkvæmdaaðilar ábyrgir ef tjón hljótist vegna þeirra.  Fari um slík mál, sem og um bætur vegna mögulegs brunatjóns, eftir reglum íslensks réttar um skaðabótaábyrgð.  Fullyrðingum kærenda um að slökkvibílum verði ekki komið að húsum verði ekki svarað hér að öðru leyti en því að um brunatæknileg mál sé að ræða sem farið verði yfir þegar byggingarleyfisumsókn berist. 

Minnt sé á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra að einhverju leyti verið skertir með slíkum breytingum. 

Skipulagsráð skuli, samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, taka faglega afstöðu til breytinga á deiliskipulagi og meta hvort breyting sé veruleg eða óveruleg.  Talið hafi verið að ef breytingin sé ekki í ósamræmi við þá byggð sem fyrir sé, t.d. hvað varði notkun, nýtingarhlutfall og yfirbragð, og að hún hafi ekki áhrif á aðra en nágranna, þá megi grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.   Hafi m.a. verið talið að grenndarkynning ætti við þegar byggingarmagni á afmörkuðu svæði væri breytt lítilsháttar, byggingarreit breytt, lóðum fækkað eða lóðamörkum breytt, notkun húshluta breytt, aðkomu breytt sem og ef um fjölgun bílastæða væri að ræða.  Hin kærða ákvörðun hafi falið í sér svo takmarkaða breytingu frá gildandi deiliskipulagi að eðlilegt hafi verið að meta hana sem óverulega, m.a. með vísan til ofangreindra atriða.  

Þá skuli við fyrrgreint mat líta til þess hversu umfangsmikil breytingin sé í hlutfalli við þær heimildir sem fyrir séu og hver grenndaráhrif hennar verði á nærliggjandi eignir.  Í gildandi deiliskipulagi hafi verið heimilt að byggja tveggja og hálfs hæða hús með kjallara en tillaga um breytingu geri ráð fyrir að á lóðinni rísi þriggja hæða hús.  Jarðhæð hússins skuli vera múruð en aðrar hæðir bárujárnsklæddar.  Aðliggjandi byggingar séu allar bárujárnsklæddar og þar séu hæðir frá tveimur upp í þrjár, ásamt risíbúðum.  Einstaka byggingar innan reitsins séu fullar fjórar hæðir.  Talið sé því að hin kynnta breyting sé óveruleg, að teknu tilliti til þeirra heimilda sem nú þegar sé að finna í samþykktu deiliskipulagi, og hafi aðeins áhrif á nánustu grennd.  Hafi ekki verið gerð athugasemd við hæð hússins þegar gildandi deiliskipulag hafi verið auglýst.  Skuggavarp aukist vissulega lítillega með byggingunni, en aukningin þyki ásættanleg í svo þéttri byggð.  

Málsrök lóðarhafa:  Arkitekt lóðarhafa bendir á að á lóðinni að Vesturgötu 24 hafi staðið tvílyft timburhús á hlöðnum grunni í 94 ár en það hafi brunnið 1989.  Meðalnýting lóða á Norðurstígsreitnum, auk lóða meðfram Vesturgötu nr. 15-27 að sunnan, sé 1,43 og því sé nýtingarhlutfall lóðarinnar, þ.e. 1,2, vel innan meðalmarka heildarskipulagsins, að húsaröðinni sunnan Vesturgötu (nr. 15-27) meðtalinni.  Lóðin sé talin vera 350 m² eða nálægt meðaltali og ljóst sé að nýting hennar sé minni en að meðaltali á reitnum  Ef aðeins séu bornar saman lóðir í næsta nágrenni við umrædda lóð sé meðaltal nýtingarhlutfalls 1,21, meðalstærð lóða sé 301,1 m² og meðtalstærð bygginga á lóð sé 365,5 m².  Það sé því ekki með nokkru móti hægt að fullyrða að hið umdeilda skipulag fyrir lóðina nr. 24 við Vesturgötu heimili byggingarmagn umfram það sem hæfilegt sé.  Þá sé bent á að nýtingarhlutfall í hverfinu sé frá 0,5 til 2,7.

Í gildandi heildarskipulagi sé kvöð um varðveislu götumyndar, sem ekki sé útfærð nánar í skilmálum.  Við lauslega húsakönnun á götumyndinni sjáist að hún sé ósamstæð, endurgerð á mismunandi tímum og oftast í hróplegri andstöðu við ríkjandi viðhorf í endurbyggingu gamalla húsa.  Varðveislugildi margra eldri húsa hafi því verið skert með röngum viðgerðum og endurbyggingum.  Annað einkenni sé ófullgerð skipulagshugmynd frá 1920-1930 þar sem fyrirhugað hafi verið að skapa randbyggð þriggja til fjögurra hæða steinsteyptra húsa. 

Fyrirhuguð framkvæmd muni ekki framkalla skugga á nálægar byggingar í sama mæli og byggingar sunnan megin á Vesturgötunni (nr. 15-27) geri nú.  Lega nýbyggingar á lóðinni kasti skuggum á Nýlendugötu 5 eftir kl. 16:00 og skömmu síðar á vesturhlið Vesturgötu 22, en þar sé rými sem nýtt sé sem geymslur. 

Útsýni yfir sundin sé þegar takmarkað og sé aðeins frá efri hæðum hæstu húsa í hverfinu.  Byggingin muni skerða útsýni frá húsunum nr. 21 og 23 við Vesturgötu en þar sem fyrirhugað sé að láta gaflinn snúa að Vesturgötu verði skerðing aðeins á litlum hluta heildarútsýnis.  Ekki sé hægt að fullyrða að fyrirhuguð nýbygging taki fyrir allt útsýni frá áðurnefndum húsum og sé tekið mið af öllum nærliggjandi húsum verði ekki sagt að fyrirhuguð nýbygging skeri sig úr hvað skerðingu útsýnis varði.  Vesturgata 22 og fyrirhuguð bygging séu t.d. með sömu mænishæð.  Bílastæði séu vandamál í hverfinu en hins vegar hafi mótmæli nágranna gefið tilefni til að hætta við smíði bílakjallara.  Fái rökstuðningur kærenda ekki staðist og sé beinlínis villandi.  Þá sé slegið fram fullyrðingum sem séu ósannar og byggist að mestu á huglægu mati en ekki hlutlægum staðreyndum. 

————–

Aðilar hafa fært fram frekari rök sem ekki verða reifuð nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 29. ágúst 2008. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Norðurstígsreits en á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 2004.  Afmarkast skipulagið af Vesturgötu til suðurs, Ægisgötu til vesturs, Tryggvagötu til norðurs og Norðurstíg til austurs, en umdeild breyting tekur einungis til lóðarinnar nr. 24 við Vesturgötu.

Borgaryfirvöld kusu að fara með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða og var breytingin því grenndarkynnt með vísan til undantekningarákvæðis 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt deiliskipulagi Norðurstígsreits frá 20. janúar 2004 er lóðinni að Vesturgötu 24 skipt í tvær lóðir.  Á vestari hluta lóðarinnar er sérgreind 151 m² lóð fyrir flutningshús eða nýbyggingu en austurhluti lóðarinnar er lagður undir fjögur opin bílastæði.  Sé nýtingarhlutfall reiknað fyrir lóðina í heild miðað við fyrirliggjandi gögn er það 0,46.  Skipulag þetta hefur ekki komið til framkvæmda hvað umrædda lóð varðar.  Með hinni umdeildu breytingu var fallið frá áformum um að skipta lóðinni og þess í stað heimilað að byggja á henni 6 – 8 íbúða hús og er hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar eftir þessa breytingu 1,2.  Með breytingunni er jafnframt fallið frá gerð þeirra opnu bílastæða sem áður var gert ráð fyrir.

Þegar litið er til þess að með hinni umdeildu ákvörðun var notkun umræddrar lóðar breytt verulega, og hámarksnýtingarhlutfall meira en tvöfaldað, verður ekki fallist á að aðeins hafi verið um óverulega breytingu að ræða.  Þykir og sýnt að breytingin hafi talverð áhrif til óhagræðis fyrir eigendur og íbúa aðliggjandi húsa.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið heimilt að fara með málið eftir ákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga heldur hafi borið að auglýsa tillöguna svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr.  26. gr. laganna.

Samkvæmt framasögðu var undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki reistur á réttum lagagrundvelli og verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. maí 2006, um breytingu á deiliskipulagi reits 1.132.0, svonefnds Norðurstígsreits, er varðar lóðina nr. 24 við Vesturgötu í Reykjavík, er felld úr gildi. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________             _________________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

 

105/2008 Sléttuhlíð

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 105/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008 um að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. nóvember 2008, er barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kærir K, Reykjavíkurvegi 39, Hafnarfirði, eigandi sumarbústaðar á lóðinni nr. B-6 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008 að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. október 2008. 

Kærandi krefst þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, en ekki er vitað til þess að þær séu hafnar. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 23. september 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð, sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 er svæði fyrir frístundabyggð.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt var á árinu 2007, er þar gert ráð fyrir 37 lóðum undir sumarhús.  Erindið hafði áður verið til umfjöllunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 17. sama mánaðar, sem vísaði því til skipulags- og byggingarráðs.  Var afgreiðslu ráðsins frestað.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 7. október 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Þar sem vafi leikur á túlkun á skilmálum skipulagsins óskar skipulags- og byggingarráð eftir umsögn lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs og umsögn skipulagshöfundar.“  Á fundi ráðsins hinn 13. október 2008 var erindið tekið fyrir og var eftirfarandi bókað:  „Skipulags- og byggingarráð tekur jákvætt í erindið og felur skipulags- og byggingarsviði endanlega afgreiðslu málsins.  Jafnframt er sviðinu falið að gera tillögu að breytingu texta í greinargerð skipulags í kafla 3 til að gera hann skýrari.“  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. október 2008 var erindið samþykkt og tekið fram að umsóknin samræmdist lögum nr. 73/1997.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. október s.á.

Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að með hinni kærðu samþykkt hafi Hafnarfjarðarbær brotið gegn Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og samþykktu deiliskipulagi Sléttuhlíðar frá árinu 2007.  Í greinargerð aðalskipulags segi m.a. um svæðið:  „Svæði fyrir frístundabyggð er á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði.  Tillaga að deiliskipulagi nær til um 230 ha svæðis og er hluti þess ætlaður undir eiginlega frístundabyggð.  Afmörkun svæðisins helgast af því að öll þau frístundahús sem eru í Sléttuhlíð og Klifsholti falli innan þess.  Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir því að núverandi frístundabyggð sé viðahaldið og fest í sessi en ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.   Ákveðið hefur verið að þau örfáu stöku hús sem reist hafa verið utan aðal frístundasvæðisins fái að halda sér en ekki er gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið er.“  Þá segi í auglýsingu um samþykkt bæjarstjórnar á deiliskipulagi Sléttuhlíðar m.a:  „Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að núverandi frístundabyggð verði viðhaldið og fest í sessi en ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.“ 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að deiliskipulagstillaga fyrir Sléttuhlíð hafi verið í vinnslu á sama tíma og textinn í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og þar sé vissulega gert ráð fyrir nýjum byggingum.  Það að „…núverandi frístundabyggð sé fest í sessi og ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu“  vísi til þess að svæðið/frístundabyggðin verði ekki stækkað frá því sem það sé í dag.  Ákveðið hafi verið að bæta mætti við takmörkuðum fjölda sumarhúsa innan svæðisins og hafi öllum sumarhúsaeigendum margítrekað verið gerð grein fyrir því, bæði á kynningarfundum og í bréfum. 

Í greinargerð aðalskipulags varðandi svæðið segi m.a. eftirfarandi:  „…ekki er gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið er.“  Þetta vísi í raun aðeins til þeirra húsa sem séu utan frístundasvæðisins, m.a. húss í Gjánum sem sé á hverfisvernduðu svæði. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafa var veittur kostur á að tjá sig um kæruefnið en hann hefur ekki gert það. 

Niðurstaða:  Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025, sem samþykkt var í bæjarstjórn 12. desember 2006, er í Sléttuhlíð gert ráð fyrir frístundabyggð.  Í greinargerð aðalskipulagsins er vísað til tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið og segir þar að gert sé ráð fyrir því að núverandi frístundabyggð sé viðhaldið og hún fest í sessi en ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.  Ákveðið hafi verið að þau örfáu, stöku hús sem reist hafi verið utan aðal frístundasvæðisins fái að halda sér en ekki sé gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið sé.  Verður ekki annað ráðið af greinargerð aðalskipulagsins en að ekki sé gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu, en afar óheppilegt er að vísa til tillögu að deiliskipulagi í greinargerð aðalskipulags enda á deiliskipulagstillagan að byggja á aðalskipulaginu en ekki öfugt.  Að auki liggur ekki fyrir hvað nákvæmlega fólst í þeirri tillögu að deiliskipulagi svæðisins sem vísað var til þegar greinargerð aðalskipulagsins var samin eða samþykkt, en af gögnum málsins verður ráðið að fleiri en ein tillaga að deiliskipulagi hafi komið fram auk, þess sem breytingar hafi verið gerðar á endanlegri deiliskipulagstillögu meðan hún var til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum.  Leiðir þetta til þess að túlka verður efni aðalskipulagsins eftir orðalagi þess texta sem fram kemur í greinargerð þess.

Misræmi er milli greinargerða aðalskipulags og deiliskipulags svæðisins, en skilja verður ákvæði deiliskipulagsins á þann veg að þar sé gert ráð fyrir nýjum byggingum, þrátt fyrir að kveðið sé á um hið gagnstæða í aðalskipulagi.  Þó segir í gildistökuauglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. ágúst 2007 að deiliskipulagið geri ráð fyrir að núverandi frístundabyggð verði viðhaldið og hún fest í sessi en ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.  Leiðir þessi árétting í auglýsingunni til þess að vafi leikur á um það hvernig skýra beri heimildir deiliskipulagsins um nýjar byggingar á svæðinu.  Hafa ekki komið fram viðhlítandi skýringar á því misræmi sem er í skipulagsgögnum og að framan er lýst, en ákvörðun um deiliskipulag svæðisins hefur hvorki verið borin undir úrskurðarnefndina né dómstóla.  

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu framkvæmdir sem háðar eru byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Verður ekki séð að hin kærða ákvörðun samræmist ákvæðum í staðfestu aðalskipulagi og fullnægir hún því ekki framangreindum lagaskilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Leiðir sá annmarki til ógildingar.

Að auki skortir á að umdeilt byggingarleyfi samræmist skilmálum deiliskipulags um hámarksflatarmál bygginga á lóð, sem má mest vera 100 m², en samkvæmt skráningartöflu er fyrirhugað hús 100 m² auk 20 m² gestahúss og er heildarflatarmál bygginga á lóðinni því 120 m².  Myndi þetta misræmi eitt og sér hafa leitt til ógildingar þótt ekki hefðu verið þeir annmarkar á framsetningu skipulags sem að framan er lýst.

Með vísan til framanritaðs verður hin kærða ákvörðun ógilt. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008, um að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð, er felld úr gildi.   

 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________   ______________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

15/2007 Leiðhamrar

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 15. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2007, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 10. janúar 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 46 við Leiðhamra, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. febrúar 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. H, Leiðhömrum 48, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 10. janúar 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 46 við Leiðhamra.  Hin kærða ákvörðun öðlaðist gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. janúar 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á  embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 16. júní 2006 var tekin fyrir fyrirspurn þess efnis hvort heimilt yrði að byggja við húsið á lóðinni nr. 46 við Leiðhamra sem er einnar hæðar einbýlishús ásamt bílskúr.  Var fyrirhugað að í viðbyggingunni yrði gróðurskáli er kæmi í stað eldri skála.  Á fundinum var jafnframt lagt fram samþykki lóðarhafa Leiðhamra 44 og 48 og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 9. júní 2006.  Var bókað að ekki væri gerð athugasemd við erindið með vísan til skilyrða í umsögn skipulagsfulltrúa. 

Á svæði því er um ræðir er í gildi deiliskipulag Hamrahverfis frá árinu 1988.  Samkvæmt því er heimiluð stærð húsa 190 m² ásamt kjallara.  Tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Leiðhömrum 46 var lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 27. október 2006 og samþykkt að grenndarkynna hana hagsmunaaðilum.  Fól tillagan m.a. í sér að aukið yrði við grunnflatarmál hússins og byggingarreitur stækkaður til vesturs.  Stóð kynning frá 2. nóvember til 30. nóvember 2006 og bárust athugasemdir frá kæranda og íbúum að Leiðhömrum 42.  Í athugasemdum þeirra sagði m.a. eftirfarandi:  „Við hús umsækjanda var sólskáli (byggður í óleyfi) sem nú hefur verið rifinn.  Undirritaður eigandi húss nr. 48 hafði gefið skriflegt samþykki sitt fyrir því að sá skáli yrði endurgerður í svipaðri stærð, en sú samþykkt nær alls ekki til kynntrar tillögu og er hér með afturkölluð.“  Voru athugasemdir kynntar á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 8. desember 2006 og var hverfisarkitekt falið að funda með aðilum.  Á fundi skipulagsráðs 10. janúar 2007 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð og með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.“

Auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. janúar 2007 að undangenginni lögbundinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Hefur kærandi skotið áðurnefndri ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu samþykktar byggir kærandi á því að breytingin sé svo umfangsmikil að hún kalli á nýtt deiliskipulag, sbr. ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997.  Málsmeðferð sé mismunandi eftir því hvort um sé að ræða verulega eða óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Hvorki í tilgreindu ákvæði né í greinargerð með því sé skilgreint hvað teljist veruleg breyting.  Um matsatriði sé því að ræða og sé sveitarstjórn, skipulagsnefnd eftir atvikum, veitt heimild til að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort breyting teljist veruleg eða ekki.  Við mat á því hvort um verulega breytingu sé að ræða beri þó að hafa í huga m.a. stærð og staðsetningu þess sem breytingin nái til, hversu umfangsmikil breytingin sé, hvort hún varði hagsmuni margra og hvaða áhrif hún hafi á nærliggjandi svæði.

Því sé haldið fram að um svo stórfellda breytingu sé að ræða að fara hefði átt með umsókn um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar eins og um nýtt deilskipulag væri að ræða, enda um að ræða verulega breytingu á stærð hússins sem og umfangi.  Breytingin varði þannig hagmuni ekki einungis nærliggjandi húsa heldur einnig ásýnd alls hverfisins enda ljóst að með því að samþykkja breytinguna hafi verið gefið fordæmi fyrir aðra húseigendur við götuna.  Ljóst sé að við meðferð umsókna annarra húseiganda yrði því að gæta meginreglna stjórnsýsluréttar um jafnræði og fara með umsókn um breytingu á sama hátt og gert hafi verið í máli þessu.  Það telji kærandi óeðlilegt og óásættanlegt enda beri að fylgja meginreglum deiliskipulagsins frá árinu 1988.

Um verulega stækkun byggingarreits sé að ræða.  Húsið sé nú þegar 210 m² að grunnflatarmáli auk 57,9 m² kjallara eða alls 268,7 m², en samkvæmt deiliskipulagi svæðisins frá 1988 hafi verið miðað við að flatarmál húsa væri 190 m².  Stækkunin valdi því að byggingarreiturinn verði 40% stærri en gert sé ráð fyrir í samþykktu deiliskipulagi.  Flest húsin við götuna séu í samræmi við deiliskipulag eða 190 m² en Leiðhamrar 46 sé eitt af fjórum stærstu húsunum við götuna.

Með hinni kærðu breytingu sé fallið bæði frá stærðarmörkum og útliti sem gildandi skipulag kveði á um.  Viðbyggingin sem sótt sé um hafi til að mynda þak í gagnstæða átt en samkvæmt skipulagi sé skilyrðislaust talað um pýramídalag þaks.  Breytingin víki því verulega frá fyrirliggjandi skipulagi.  Því til viðbótar megi benda á að stækkunin sé í engu samræmi við þær viðbyggingar sem samþykktar hafi verið hingað til á húsum við götuna. 

Kæranda sé óskiljanlegt hvernig unnt sé að líta á þessar breytingar sem minniháttar.  Um verulegt hagsmunamál sé að ræða fyrir alla íbúa götunnar en með nýju deiliskipulagi sem sett væri í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga væri hægt að tryggja hagsmuni þeirra og gera ráð fyrir stækkun fleiri húsa og samræma þannig hugmyndir um stækkun húsa á svæðinu.

Ljóst sé að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum skuli deiliskipulag gert þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og skuli allar leyfisskyldar framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Fái eigendur Leiðhamra 46 byggingarleyfi í samræmi við hina kærðu breytingu á deiliskipulagi verði byggingarreiturinn liðlega 260 m² eða hátt í 60% stærri en viðmiðunarbyggingarreiturinn sé samkvæmt samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið.  Þá hafi skipulagsfulltrúi í bréfi sínu, dags. 9. júní 2006, talið að fyrirspurn lóðarhafa Leiðhamra 46 væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og að hugmyndin þarfnaðist í það minnsta breytinga.  Hafi sú breyting sem lögð hafi verið til við skipulagsráð hinn 26. október 2006 verið óveruleg og hefði ekki átt að duga til þess að samþykkt yrði að breyta deiliskipulaginu með þeim hætti sem gert hafi verið.
 
Þegar deiliskipulag fyrir svæðið frá 1988 hafi verið samþykkt hafi verið haft í huga að um útsýnisstað væri að ræða og hafi húsin m.a. verið hönnuð með tilliti til þess.  Þannig sé til að mynda gert ráð fyrir sérstökum útsýnisglugga í átt til Esjunnar, eyjanna og út á sundin.  Í samþykktri breytingu sé t.d. gert ráð fyrir stórum útsýnisglugga á húsinu nr. 46 við Leiðhamra til að tryggja eigendum þess hámarksútsýni.  Útsýni kæranda sé aftur á móti verulega skert og minnki það verulega frá norðurhlið hússins, einkum úr svefnherbergi og stofu.
 
Staðsetning húss kæranda, og þar með talið útsýnið sem staðsetningin hafi upp á að bjóða, sé metið eitt og sér á um kr. 10 milljónir við ákvörðun söluverðs.  Fái kærandi með engu móti séð hvernig réttlætanlegt sé að fórna hagsmunum hans til hagsbóta fyrir eiganda hússins nr. 46 við Leiðhamra með þeim hætti sem raun beri vitni.  Á allt þetta hafi verið bent áður en ekkert tillit hafi verið tekið til framlagðra ábendinga og tillagan verið samþykkt.

Verði ekki fallist á framangreint krefjist kærandi þess að breytingin verði engu að síður felld úr gildi þar sem í henni felist slík röskun á meginreglum þess deiliskipulags sem samþykkt hafi verið árið 1988 sem og á hagsmunum kæranda og annarra íbúa við götuna.  Vísi kærandi til áðurgreindra röksemda máli sínu til stuðning.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg hafnar því alfarið að um verulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða sem kalli á nýtt deiliskipulag og þá heildarendurskoðun á skipulagi.  Engin fordæmi séu fyrir því að á einbýlishúsalóðum sé deiliskipulag tekið til heildarendurskoðunar þó fram komi óskir einstakra lóðarhafa um breytingar.  Matsatriði sé hverju sinni hvort breyting á deiliskipulagi teljist veruleg eða óveruleg og sé hin kærða deiliskipulagsbreyting í öllum skilningi minniháttar.  Áhrif breytingarinnar séu lítil á deiliskipulagið í heild og grenndaráhrif hennar óveruleg.  Breytingin varði einungis eina lóð og hafi áhrif á hagsmuni mjög fárra einstaklinga.

Mótmælt sé að framkomnar athugasemdir hafi að engu verið hafðar.  Hámarkshæð hafi t.d. verið lækkuð úr 3,6 m í 3,4 m en einnig hafi verið dregið úr dýpt byggingarreits um 50 cm og þar með byggingarmagni um 6 m².
 
Einnig sé því hafnað að breytingin feli í sér þvílíka röskun á hagsmunum kæranda að það varði ógildingu hinnar samþykktu tillögu.  Ljóst sé að útsýni muni skerðast eða breytast frá aðliggjandi húsum en sérstaklega sé minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geta ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér útsýnisskerðingu, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum að deiliskipulag geti tekið breytingum.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Vert sé að benda á að áður hafi verið sólstofa á þessum stað, um 3,8 m að dýpt, sem hafi haft áhrif á hús kæranda.  Dýpkun byggingar á þessum stað sé því um 1,4 m.  Þá sé bent á að skjólveggir umhverfis hús kæranda hafi töluverð áhrif til útsýnisskerðingar en ekkert í gildandi skipulagi frá 1988 segi að aldrei megi breyta því með tilliti til útsýnis og sólar.

Séu fordæmi fyrir því að sambærilegar breytingar hafi verið heimilaðar, en árið 2004 hafi verið samþykkt breyting á deiliskipulagi fyrir sambærilegt hús að Leiðhömrum 22.  Auk þess séu í borginni mörg fordæmi um breytingar á deiliskipulagi á einstökum lóðum í framhaldi af óskum eigenda og verði skipulagsyfirvöld að gæta jafnræðis gagnvart borgarbúum í þeim efnum.

Málsrök eiganda hússins að Leiðhömrum 46:  Af hálfu eiganda hússins að Leiðhömrum 46 er bent á að áður en ráðist hafi verið í breytingar á húsinu hafi legið fyrir samþykki kæranda fyrir stækkun garðskálans og hafi eiganda hússins ekki verið kunnugt um breytta afstöðu fyrr en langt hafi verið liðið á hönnunarferli breytinganna.  Kröfur kæranda séu þess eðlis að ekki sé unnt að koma til móts við þær nema með því að breyta viðbyggingunni í kjallara eða hætta við hana. 

Bent sé á að samþykki kæranda hafi legið fyrir áður en eldri garðskálinn hafi verið rifinn og því mótmælt að ástand hans hafi verið lélegt.  Fullyrðingum kæranda þess efnis að ekki hafi verið greint rétt frá áætlunum um breytingar hússins sé vísað á bug. 

Stækkun hússins samkvæmt teikningum sem lagðar séu til grundvallar sé innan við 30 m² og fjarri lagi að vera um 83 m² eins og gefið sé í skyn í kæru.

Í kæru sé því m.a. haldið fram að breytingin sé stórfelld, veruleg og svo umfangsmikil að hún kalli á nýtt deiliskipulag ásamt því að fullyrt sé að við breytinguna verði byggingarreiturinn 60% stærri en viðmiðunarbyggingarreiturinn.  Það sé von húseiganda að úrskurðarnefndin láti ekki blekkjast af stóryrðum og ýkjum heldur fari yfir staðreyndir og fyrirliggjandi teikningar.  Það sé mat húseigandans að stækkun garðskálans samkvæmt fyrirliggjandi teikningum sé minniháttar og hægt sé að haga málum þannig að útsýni frá Leiðhömrum 48 skerðist óverulega, ef nokkuð.     

Tekið sé undir með kæranda að haga hefði mátt málum þannig að útsýni skertist óverulega.  Frá byrjun hafi eigandi hússins verið tilbúinn til að koma til móts við kröfur kæranda og hafi teikningum verið margbreytt samkvæmt ábendingum hans og hverfisarkitekts.  Aftur á móti sé ekki unnt að koma til móts við þær kröfur að kærandi sjái yfir viðbygginguna þar sem hús kæranda sé nánast í sömu hæð og Leiðhamrar 46.  Fullyrðing kæranda þess efnis að sjá hafi mátt yfir eldri garðskálann, sem hafi að mestu verið í fullri mannhæð, sé því augljóslega ósönn. 

———–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir rökum og sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.   

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 5. desember 2008.
 
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 10. janúar 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 46 við Leiðhamra í Reykjavík, þar sem m.a. er veitt heimild til að byggja við húsið.  

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hin kærða samþykkt sé þess eðlis að borgaryfirvöldum hafi verið óheimilt að fara með hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, heldur hafi borið að auglýsa hana svo sem um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 1988 og kusu borgaryfirvöld að neyta heimildar í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna greindrar lóðar. 

Samkvæmt deiliskipulagi er heimilaður grunnflötur húsa á svæðinu 190 m² auk kjallara þar sem landhalli leyfir.  Aðalhæð hússins að Leiðhömrum 46 er um 211 m² að grunnfleti og var það því upphaflega byggt nokkru stærra en skipulag gerði ráð fyrir.  Með hinni kærðu samþykkt er veitt heimild fyrir núverandi stærð hússins, auk 41 m² viðbyggingar við vesturhlið þess.  Eftir þá breytingu yrði aðalhæð hússins um 252 m² eða um þriðjung umfram heimildir skipulags.  Við mat á áhrifum þeirrar breytingar verður og að líta til þess að lóðin að Leiðhömrum 46 er 1.070 m² að stærð, staðsett innst í götu, og norðan og vestan hennar er óbyggt svæði og útsýni mikið.  Suðvestan hennar er lóð kæranda en þaðan er einnig mikið útsýni.  Af deiliskipulagi svæðisins má ráða að hús á þessum tveimur lóðum hafi verið staðsett með það fyrir augum að njóta mætti þaðan útsýnis til sjávar en með hinni umdeildu samþykkt mun útsýni kæranda skerðast að nokkru.  Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður hin umrædda breyting ekki talin óveruleg og var því óheimilt, eins og þarna stóð á, að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Þess í stað bar borgaryfirvöldum að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins ef vilji stóð til þess að fallast á erindi eiganda eignarinnar nr. 46 við Leiðhamra.  Verður hin kærða samþykkt því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 10. janúar 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 46 við Leiðhamra, Reykjavík.

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

78/1007 Dverghamar

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 15. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi vesturbæjarins vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar, Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. júlí 2007, er barst nefndinni 3. ágúst sama ár, kærir H, Dverghamri 33, samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytt deiliskipulag vesturbæjar, að því er tekur til lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.  Var auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. júlí s.á.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en lóð kæranda liggur að umræddri lóð.

Málavextir:  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar hinn 4. apríl 2007 var tekið fyrir erindi um úthlutun lóðar nr. 27-29 við Dverghamar til byggingar einbýlishúss á lóðinni.  Var erindið samþykkt enda yrði fullnægjandi teikningum skilað fyrir 1. júní 2007.  Þá var lögð áhersla á að bygging yrði, eins og fram kæmi í umsókn, í samræmi við húsin að Dverghamri 24-42.

Hinn 18. apríl s.á. var lagt fyrir umhverfis- og skipulagsráð nýtt lóðarblað fyrir umrædda lóð.  Var samþykkt að gera óverulega breytingu á skipulagi við Dverghamar og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að grenndarkynna breytingartillögu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga sem hann og gerði með bréfi, dags. 20. apríl 2007.

Barst athugasemdabréf frá 37 aðilum er töldu m.a. að breytingin gæti ekki talist óveruleg en nú væri heimiluð bygging einbýlishúss í stað parhúss, byggingarreiturinn væri stækkaður og að breytt aðkoma að lóðinni fæli í sér aukna slysahættu.

Umhverfis- og skipulagsráð fór yfir framlagðar athugasemdir á fundi sínum hinn 12. júní 2007 og var svohljóðandi bókað:  „Fyrirhugað er að byggja á lóðunum einbýlishús í stað parhúss og telur ráðið það ívilnandi fyrir íbúa svæðisins en ekki íþyngjandi.  Fram kemur í bókun ráðsins frá 4. apríl 2007 að fyrirhuguð bygging skuli taka mið af og vera í samræmi við önnur hús við Dverghamar 24-42, sbr. ákvæði um byggingarefni, útlit, hæðir og þakform hússins í greinargerð deiliskipulagstillögu.  Heildarbyggingarreitur á lóðum Dverghamars nr. 27-29 er minnkaður og færður til suðurs vegna umferðaröryggissjónarmiða.  Innkeyrsla og bílskúr muni taka mið af öðrum byggingum í hverfinu.  Ráðið samþykkir deiliskipulagsbreytinguna.  Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.“  Samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar greinda afgreiðslu hinn 21. júní 2007.

Skaut kærandi áðurnefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að í bænum séu um 70 lausar lóðir fyrir einbýlishús en aðeins tvær parhúsalóðir.  Nú eigi að taka aðra lóðina undir byggingu einbýlishúss þrátt fyrir að þar hafi til margra ára staðið steyptur grunnur fyrir parhús.  Þar með sé ásýnd hverfisins, sem sé eina parhúsahverfi bæjarins, fórnað fyrir minni hagsmuni.  Um einstakt hverfi sé að ræða sem skipulagt sé og hannað af sama arkitekt og hafi byggðin þótt falla einstaklega vel inn í umhverfið.

Kærandi bendi jafnframt á að fjöldi íbúa hafi mótmælt fyrirhugaðri breytingu á deiliskipulagi.  Þá átelji kærandi þau vinnubrögð umhverfis- og tæknisviðs að úthluta lóðinni undir einbýlishús án þess að hafa áður grenndarkynnt málið eða boðað til almenns fundar um það.  Um gerræðisleg vinnubrögð sé að ræða sem angi af einhverju allt öðru en faglegum vinnubrögðum.

Málsrök Vestmannaeyjarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Vestmannaeyjabær bendir á að umrætt hverfi sé íbúðahverfi, skipulagt fyrir einbýlis- og parhúsabyggð, og sé hluti af byggingaráætlun fyrir Vestmannaeyjar sem samþykkt hafi verið árið 1973 en þar hafi verið gert ráð fyrir talsvert meiri byggð en raun hafi orðið á.  Umrædd breyting á notkun lóðarinnar sé óveruleg og hafi grenndarkynning farið fram skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Sé engan veginn talið að heildarmynd hverfisins sé raskað með samþykktri breytingu.

Ekki hafi verið talin rök fyrir því að verða við framkomnum mótmælum íbúa en tekið skuli fram að það skilyrði hafi m.a. verið sett að mannvirkið á umræddri lóð tæki mið af þegar reistum mannvirkjum við Dverghamar.  Því hafi verið talið að ekki væri um íþyngjandi ákvörðun að ræða fyrir hagsmunaðila.  Ítrekað sé að í öllu hafi verið farið eftir ákvæðum tilvitnaðra laga, sbr. sérstaklega 26. og 43. gr. laganna.

Niðurstaða:  Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skal í deiliskipulagi útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði svo sem segir m.a. í 4. mgr. 23. gr. sömu laga.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytts deiliskipulags vesturbæjar vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.  Á svæði því er um ræðir er í gildi byggingaráætlun fyrir Vestmannaeyjar er samþykkt var í bæjarstjórn í desember 1973.  Verður að líta svo á að áætlunin hafi gildi sem deiliskipulag fyrir svæði það sem hér skiptir máli, sbr. ákvæði 11. tl. til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir byggingu allt að 350 íbúða af mismunandi stærðum og í mismunandi húsagerðum í nýju byggðahverfi í hrauninu vestan Illugagötu.  Við Dverghamar er gert ráð fyrir parhúsum og einbýlishúsum og var lóðin nr. 27-29  parhúsalóð en með hinni kærðu ákvörðun er heimilað að reisa á henni eitt einbýlishús í stað parhúsa.  Í samþykkt skipulags- og umhverfisráðs frá 12. júní 2007, er bæjarstjórn staðfesti 21. júní 2007, er áskilið að fyrirhuguð bygging taki mið af og verði í samræmi við önnur hús við Dverghamar 24-42.  Telur úrskurðarnefndin að með þessu ákvæði sé tryggt að ekki sé vikið verulega frá byggðamynstri svæðisins með hinni kærðu ákvörðun og verður hún ekki talin veruleg.  Verður því ekki talið að hagsmunum kæranda sé raskað með þeim hætti að ógildingu varði og ekki verður séð að aðrir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun er leitt geti til ógildingar hennar.  Verður kröfu um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi vesturbæjar vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         ______________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

 

68/2008 Helguvík

Með

Ár 2009, föstudaginn 9. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2008, kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verið felldar úr gildi.  Þá krafðist kærandi þess einnig að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til málið hefði verið til lykta leitt, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafnaði úrskurðarnefndin þeirri kröfu með úrskurði, uppkveðnum 4. september 2008.

Málavextir:  Um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi byggingar álvers í Helguvík á Reykjanesi.  Af því tilefni var tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Gerðahrepps 1998-2008 (Sveitarfélagsins Garðs) auglýst hinn 6. september 2007 og öðlaðist breytingin gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. desember 2007.  Deiliskipulag svæðisins, innan Sveitarfélagsins Garðs, var samþykkt í sveitarstjórn 30. janúar 2008 og öðlaðist það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar s.á.

Jafnframt var tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-2015 vegna framkvæmdarinnar auglýst hinn 1. maí 2007 og öðlaðist sú breyting gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2007.  Deiliskipulag svæðisins, innan Reykjanesbæjar, var samþykkt í sveitarstjórn 5. febrúar 2008 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars s.á.

Á sama tíma og unnið var að gerð framangreindra skipulagsáætlana vegna fyrirhugaðs álvers var unnið að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Var Skipulagsstofnun send frummatsskýrsla um byggingu og rekstur álvers í Helguvík hinn 14. maí 2007 og var hún tekin til lögboðinnar meðferðar hjá stofnuninni.  Hinn 3. september 2007 sendi framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun endanlega matsskýrslu og gaf stofnunin lögbundið álit sitt á matsskýrslunni og efni hennar 4. október 2007.  Kemur m.a. fram í álitinu að ekki hafi verið talið verjandi að krefjast þess að metin yrðu samtímis umhverfisáhrif álverksmiðjunnar sjálfrar og tengdra framkvæmda í ljósi þess hve mikil óvissa ríkti um hvaðan og eftir hvaða leiðum orka bærist álverinu.

Með bréfi, dags. 11. október  2007, kærði Landvernd til umhverfisráðherra þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að krefjast þess ekki að metin yrðu samtímis umhverfisáhrif álverksmiðjunnar sjálfrar og tengdra framkvæmda.  Lauk meðferð þess kærumáls með úrskurði umhverfisráðherra, uppkveðnum 3. apríl 2008, þar sem hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar var staðfest.

Með bréfi, dags. 7. mars 2008, til byggingarnefndar álvers í Helguvík, sem sveitarfélögin tvö höfðu sett á stofn til að annast byggingarmál á svæðinu, sótti Norðurál um byggingarleyfi fyrir álverinu.  Umsóknin gerði ráð fyrir að framkvæmdinni yrði skipt í áfanga og að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir einstökum hlutum hennar á hverjum tíma.  Tók umsóknin til fyrsta áfanga kerskála og tengdra framkvæmda, þ.e. girðingar, nauðsynlegra jarðvegsframkvæmda og byggingar bráðabirgðaraðstöðu og athafnasvæðis fyrir verktaka.

Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á fundi sameiginlegrar byggingarnefndar álvers í Helguvík hinn 10. mars 2008.  Var afgreiðsla byggingarnefndarinnar staðfest á bæjarstjórnarfundum í báðum sveitarfélögunum 12. mars 2008 og bókað um afstöðu sveitarfélaganna til álits Skipulagsstofnunar frá 4. október 2007 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Byggingarleyfi var gefið út 13. mars 2008, og birtu sveitarfélögin auglýsingu um afgreiðslur sínar 27. mars s.á.

Þessar ákvarðanir kærðu Náttúruverndarsamtök Íslands til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 26. mars 2008.  Við frumathugun á því máli kom fram vafi um hvort lagaheimild hefði verið til stofnunar sérstakrar byggingarnefndar vegna álversins með þeim hætti sem gert hefði verið með samkomulagi Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs hinn16. janúar 2007.

Til að eyða óvissu um framangreint var leyfisveitingin tekin upp að nýju hjá báðum sveitarfélögunum.  Var umsókn Norðuráls Helguvík sf. samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs 2. júlí 2008 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar 3. júlí 2008.  Jafnframt var fyrri samþykkt afturkölluð.  Umsóknin var einnig samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 2. júlí 2008 og staðfest á fundi bæjarráðs í umboði sveitarstjórnar 3. júlí 2008.

Skaut kærandi þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 1. ágúst 2008, svo sem að framan greinir.  Fyrri kæru sína afturkallaði hann síðan með bréfi, dags. 13. ágúst 2008.   

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að framkvæmdir hafi verið hafnar á grundvelli byggingarleyfa frá 12. mars 2008 sem síðar hafi verið dregin til baka enda hafi þau verið ólögmæt.  Þar með sé ljóst að framkvæmdirnar hafi í upphafi verið ólöglegar.  Þetta skipti máli við mat á lögmæti ákvarðana leyfisveitenda.

Af hálfu kæranda er einnig á það bent að í áliti Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík séu gerðir þrír fyrirvarar sem leyfisveitendum sé gert að horfa til við útgáfu leyfa.  Fyrirvarar Skipulagsstofnunar varði óvissu varðandi orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir, en til þessara fyrirvara hafi leyfisveitendur ekki tekið fullnægjandi afstöðu er hinar kærðu ákvarðanir hafi verið teknar.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins (byggingarleyfis) uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum en þar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar.  Þegar lög mæli fyrir um að rök séu sett fram hljóti það að vera vilji löggjafans að röksemdafærslan standist skoðun og að framsett rök séu í það minnsta jafn veigamikil og rökin sem þeim sé ætlað að hrekja.  Það sé mat Náttúruverndarsamtaka Íslands að svo sé ekki í þessu tilfelli.

Hvað orkuöflun varði megi ljóst vera að samningur tveggja fyrirtækja geti ekki skuldbundið landeigendur og sveitarfélög til þess að láta af hendi auðlindir sínar.  Orkusamningur Norðuráls og Hitaveitu Suðurnesja breyti engu um þá óvissu sem ríki um orkuöflun og ekki sé því hægt að fallast á rök leyfisveitenda hvað þetta varði.

Um rök er varði orkuflutninga gegni sama máli.  Tilvísun í samning Norðuráls og Landsnets feli ekki í sér fullnægjandi rök til þess að ganga á svig við álit Skipulagsstofnunar.  Samningar þessara tveggja fyrirtækja geti ekki rýrt rétt landeigenda og geri sveitarfélög ekki á nokkurn hátt skuldbundin til þess að breyta skipulagsáætlunum sínum.  Verði að gera ríkari kröfur til röksemdafærslu en hér hafi verið gert þegar ganga eigi gegn áliti Skipulagsstofnunar.

Loks ríki óvissa um heimildir fyrirhugaðs álvers til losunar gróðurhúsalofttegunda og verði að telja hæpið að byggingarleyfi fyrir álver í Helguvík standist lög um losun þeirra.

Málsrök Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs:  Af hálfu sveitarfélaganna er mótmælt þeirri staðhæfingu kæranda að ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Þvert á móti hafi sveitarstjórnirnar tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar með ítarlegum bókunum við afgreiðslu málsins og hafi sú afgreiðsla þeirra verið auglýst.  Bæði sveitarfélögin hafi fallist á þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhugað álver í Helguvík muni ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.

Þó það sé ekki fyllilega skýrt í kæru virðist kærandi byggja á því að sveitarfélögin hefðu þurft að rökstyðja betur afstöðu sína til meintrar óvissu um orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir.  Á þetta verði ekki fallist.  Hvað orkuöflun varði þá hafi Skipulagsstofnun ekki sett skilyrði er lúti að henni en bent sveitarfélögunum á að huga að þessu atriði og hafi það verið gert.  Um flutning raforku segi Skipulagsstofnun í áliti sínu að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggi fyrir.  Fullt tillit hafi verið tekið til þessarar ábendingar við afgreiðslu málsins.  Loks hafi sveitarfélögin ekki talið forsendur til að synja eða fresta afgreiðslu byggingarleyfisins á þeim grunni að starfsemin hefði að svo stöddu ekki losunarheimildir.

Því hafi verið hafnað að meta þyrfti umhverfisáhrif tengdra framkvæmda samhliða áhrifum álversbyggingarinnar.  Að auki sé vandséð að heimilt hefði verið að fresta afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi fyrir álverinu þótt óvissa hafi verið um orkuöflun, orkuflutning og losunarheimildir.  Engin lagastoð hefði verið fyrir slíkri ákvörðun.

Málsrök Norðuráls Helguvík sf:  Af hálfu leyfishafans Norðuráls Helguvík sf. er á það bent að útgáfa byggingarleyfa, dags. 3. júlí 2008, vegna álvers í Helguvík hafi verið í samræmi við aðal- og deiliskipulag sveitarfélaganna Reykjanesbæjar og Garðs, sbr. auglýstar skipulagstillögur 1. maí 2007 og 6. september 2007.  Ekki sé vitað til að athugasemdir hafi verið gerðar við auglýsingar um skipulagstillögur svo sem heimilt sé að gera samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi skipulagstillögurnar hlotið lögboðna meðferð.

Túlka verði kröfu kæranda í málinu á þann veg að hann telji ákvarðanir sveitarstjórna Garðs og Reykjanesbæjar vera haldnar formannmarka hvað varði framsetningu rökstuðnings, sem leiða eigi til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar.  Leyfishafi mótmæli því eindregið að ákvarðanir um útgáfu byggingarleyfa séu haldnar nokkrum þeim annmörkum sem leiða eigi til þess að þær beri að ógilda.  Athygli sé vakin á því sem talið hafi verið gilda í íslenskum stjórnsýslurétti að annmarki á samhliða rökstuðningi stjórnvaldsákvörðunar geti einungis leitt til þess að íþyngjandi ákvarðanir geti sætt ógildingu.  Ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis geti varla talist vera íþyngjandi gagnvart kæranda í málinu, þar sem hann eigi engra annarra hagsmuna að gæta en þeirra sem löggjafinn kunni að hafa veitt honum með sérstakri kæruheimild samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Árétta verði að á grundvelli 78. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. og einkum 16., 23. og 44. gr. skipulags- og byggingarlaga fari sveitarfélög með skipulagsvald hér á landi.  Álit Skipulagsstofnunar sé lögbundið álit sem liggja verði fyrir áður en byggingarleyfi sé gefið út en slíkt álit bindi ekki hendur sveitarfélags samkvæmt 8. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. og athugasemdir í greinargerð með 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.  Í málinu liggi fyrir ákvarðanir sveitarfélaga um útgáfu byggingarleyfis sem teknar hafi verið á grundvelli gildandi aðal- og deiliskipulags.  Þetta vald verði, hvorki af Skipulagsstofnun né öðrum aðilum, tekið af sveitarfélögum nema skýr lagaheimild standi til þess.  Slíka lagaheimild sé ekki að finna að íslenskum rétti.

Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi fallist á framkvæmdina og talið að hún myndi hvorki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi né samfélag.  Hafi sveitarfélögin tekið undir þetta með útgáfu byggingarleyfa.  Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar sé að finna ábendingar eða tilmæli til sveitarfélaganna um að huga að vissum þáttum áður en byggingarleyfi verði veitt fyrir álveri, hvað varði virkjanakosti raforku, flutning hennar til álversins og nauðsyn þess að tryggja losunarheimildir samkvæmt lögum nr. 65/2007.  Í afgreiðslu bæjarstjórna Reykjanesbæjar og Garðs hafi sérstaklega verið tekið á þessum atriðum og rökstutt hvers vegna sveitarfélögin hafi álitið að þessi atriði stæðu ekki í vegi útgáfu byggingarleyfis.

—————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar í úrskurði þessum. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 10. júní 2008 við meðferð fyrra kærumáls um hinar umdeildu framkvæmdir.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Leyfin tengjast framkvæmdum sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum og bar því við töku hinna kærðu ákvarðana að gæta ákvæðis 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum m.s.br. þar sem segir að við útgáfu leyfis til framkvæmdar skv. 1. mgr. skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Við afgreiðslu á umsóknum leyfishafa um hin umdeildu byggingarleyfi lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdaraðila um umrædda framkvæmd, dags. 4. október 2007.  Samkvæmt álitinu telur Skipulagsstofnun að matsskýrsla Norðuráls Helguvík sf. hafi uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað varði þau atriði sem getið sé í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.  Einnig telur stofnunin að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir athugasemdum og umsögnum sem borist hafi á kynningartíma frummatskýrslu og hafi þeim verið svarað.  Segir í lok álitsins að Skipulagsstofnun telji að fyrirhugað álver Norðuráls Helguvík sf., með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi og samfélag.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur jafnframt fram að stofnunin telji að sveitarfélögin þurfi að huga vel að þeirri stöðu sem uppi sé varðandi orkuöflun fyrir álverið þegar komi að leyfisveitingum og að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggi fyrir.  Ennfremur segir að Skipulagsstofnun telji að áður en Norðuráli Helguvík sf. verði veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þurfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fái þær losunarheimildir sem það þurfi eða að það hafi sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda verði mætt.  Er af hálfu kæranda aðallega á því byggt að sveitarstjórnir Garðs og Reykjanesbæjar hafi ekki tekið með fullnægjandi hætti rökstudda afstöðu til framangreindra þátta í áliti Skipulagsstofnunar og því hafi ekki verið fullnægt skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Í áliti Skipulagsstofnunar skal jafnframt gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.  Verður að telja að í fyrirliggjandi áliti hafi Skipulagsstofnun fullnægt þeim kröfum sem settar eru fram í tilvitnuðu ákvæði.

Í 2. mgr. 11. gr. segir síðan að telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar, eða frekari mótvægisaðgerðir en fram komi í matsskýrslu, skuli stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim.

Ekki verður talið að ábendingar Skipulagsstofnunar um að huga þurfi að orkuöflun og línulögnum, og að losunarheimildir þurfi að liggja fyrir, geti fallið undir heimildir stofnunarinnar til að setja skilyrði eða mæla fyrir um mótvægisaðgerðir á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, enda lúta þessar ábendingar að framkvæmdaþáttum sem ekki er fjallað um í matsskýrslu þeirri sem álitið tekur til.  Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar á sínum tíma að krefjast ekki sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álversins og tengdra framkvæmda og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði umhverfisráðherra hinn 3. apríl 2008.  Þykir það ekki samræmast þeirri niðurstöðu að gera síðar, í áliti um matsskýrslu sem einungis tekur til mannvirkjagerðar innan lóðar álversins, áskilnað um að leyfisveitingum verði frestað með vísan til þeirra atvika sem að framan greinir.  Var því ekki þörf á að færð væru fram frekari rök gegn téðum sjónarmiðum Skipulagsstofnunar en gert var við töku hinna kærðu ákvarðana.  Verður þvert á móti að telja að rökstuðningur leyfisveitenda hafi verið fullnægjandi í hinu kærða tilviki, enda lá fyrir að Skipulagsstofnun taldi að þær framkvæmdir við álver Norðuráls Helguvík sf. sem matsskýrslan tekur til myndu ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi og samfélag.  Kemur sú afstaða fram í lokamálsgrein álits stofnunarinnar en þar er jafnframt gerður fyrirvari um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda.  Engin lagaheimild er fyrir slíkum fyrirvara og var leyfisveitendum rétt að líta framhjá honum svo sem gert var.

Ekki skiptir máli þótt leyfi þau sem voru grundvöllur að upphafi framkvæmda við byggingu álversins, og veitt voru hinn 12. mars 2008, kunni að hafa verið ólögmæt, enda voru framkvæmdirnar í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag og féllu því ekki undir 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var sveitarfélögum þeim sem hlut áttu að máli því heimilt að bæta úr hugsanlegum annmörkum á leyfunum og veita þau að nýju með þeim hætti sem gert var og hefur nefndur undanfari hinna kærðu ákvarðana engin áhrif á lögmæti þeirra.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki fallist á að hinar kærðu ákvarðanir hafi verið haldnar neinum þeim annmörkum er leiða eigi til ógildingar og verður kröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Geir Oddsson

 

____________________________                    _____________________________
Geirharður Þorsteinsson                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

81/2007 Lyngborgir

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.   

Fyrir var tekið mál nr. 81/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir B, Heiðarbæ 6 í Reykjavík, eigandi lóðar og húss nr. 48 í Oddsholti í landi Minni-Borgar í Grímsnesi, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.     

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 var  samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. sama mánaðar.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007.  Engar athugasemdir bárust. 

Auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. júlí 2007. 

Framangreindri samþykkt sveitarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er bent á að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi liggi aðalvegur um svæðið um fjóra metra frá mörkum lóðar kæranda og um 20 m frá húsi hans.  Um sé að ræða malarveg með tilheyrandi ryki og grjótkasti.  Í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé talað um 50-100 m fjarlægð vegar frá byggð.  Mikil hætta sé samfara því að hafa veginn svo nærri. 

Hið kærða deiliskipulag hafi í engu verið kynnt kæranda, sem sé afar slæmt, en í 17 ár hafi hann verið íbúi í Oddsholti. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar Lyngborgar í landi Minni-Borgar hafi verið auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007 og hafi engar athugasemdir borist.  Í auglýsingunni hafi m.a. komið fram að hver sá sem ekki myndi gera athugasemd við tillöguna innan tilskilins frests teldist hafa samþykkt hana.   

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að samþykkt var á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. sama mánaðar.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007 án þess að athugasemdir bærust.  Var tekið fram í auglýsingunni að hver sá sem ekki gerði athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests, teldist vera samþykkur henni.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Því er haldið fram af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps að vísa beri kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki komið á framfæri við sveitarstjórn  athugasemdum sínum þegar tillaga að hinu kærða deiliskipulagi var auglýst. 

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en kærandi máls þessa hafi fyrst með kæru til úrskurðarnefndarinnar komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags. 

Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi teljist vera samþykkir henni.  Úrskurðarnefndin er bundin af þessum lagaákvæðum og verða þau því lögð til grundvallar í málinu.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, hafi síðar getað haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar, án breytinga er varðað geta hagsmuni hans.  Verður kærandi því ekki talinn eiga kæruaðild í málinu og ber því að vísa því frá úrskurðarnefndinni.  
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

87/2007 Lyngborgir

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.   

Fyrir var tekið mál nr. 87/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir S, Tungubakka 32, Reykjavík, f.h. stjórnar Félags sumarbústaðaeigenda í Oddsholti í landi Minni-Borgar í Grímsnesi, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.     

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að réttaráhrifum hennar verði frestað.  Með tilliti til þess að vegur sá er kærendur setja helst fyrir sig hafði þegar verið lagður, er kæran barst úrskurðarnefndinni, þóttu ekki efni til að taka kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa til sérstakrar úrlausnar.

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 var  samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.  Í tillögunni fólst að gert var ráð fyrir 30 lóðum á um 35 ha svæði sem liggur að eldri frístundabyggð í Oddsholti, sunnan Búrfellslínu 1 og 2.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. október s.á.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007.  Í auglýsingunni sagði eftirfarandi:  „Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests, telst vera samþykkur henni.“  Engar athugasemdir bárust og var því óskað eftir meðferð Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 20. mars 2007. 

Með bréfi Félags sumarbústaðaeigenda í Oddsholti til Skipulagsstofnunar, dags. 28. mars 2007, var því komið á framfæri við stofnunina að auglýsing um tillögu deiliskipulagsins hefði farið framhjá félagsmönnum ásamt því að gerðar voru athugasemdir bæði við málsmeðferð og efni tillögunnar.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsfulltrúa, dags. 30. mars 2007, kom fram að stofnunin tæki ekki afstöðu til erindis Grímsnes- og Grafningshrepps að svo stöddu og því beint til sveitarstjórnar að taka afstöðu til athugasemda Félags sumarbústaðaeigenda í Oddsholti, þó svo að bréf félagsins hefði ekki borist fyrr en um tveimur mánuðum eftir að athugasemdafresti lauk.

Sveitarstjórn tók bréf kæranda, dags. 28. mars 2007, fyrir á fundi 17. apríl 2007 og bókaði m.a. eftirfarandi:   „Varðandi kynningu á deiliskipulaginu þá bendir sveitarstjórn á að umrætt deiliskipulag hafi verið kynnt á sama hátt og aðrar skipulagstillögur sem hafa verið til meðferðar í sveitarfélögum uppsveita Árnessýslu undanfarin misseri, þ.e. kynnt með áberandi hætti (heilsíðu auglýsingu) í héraðsblaði og blaði sem gefið er út á landsvísu.  Varðandi legu vegarins þá var að sögn landeiganda ákveðið að vera með hann á þessum stað þar sem áætlað er að leggja reiðveg meðfram byggðinni að austanverðu.  Ef bílvegurinn hefði verið að austanverðu hefði reiðvegurinn þurft að vera á þeim stað sem bílvegurinn er núna en ekki var talið æskilegt að beina þeirri umferð í gegnum mitt hverfið.  Vegsvæðið sjálft er einnig tiltölulega breitt og er vegurinn sjálfur í nokkurri fjarlægð frá girðingu við Oddsholt.  Ljóst er að eitthvað ónæði mun skapast fyrir nærliggjandi lóðarhafa á meðan á framkvæmdum stendur en slíkt ástand er einungis tímabundið.  Að mati sveitarstjórnar er ekki tilefni til að breyta deiliskipulaginu í samræmi við óskir félags sumarbústaðaeigenda í Oddsholti.“  Með bréfi sveitarstjóra, dags. 17. apríl 2007, var framangreint tilkynnt kæranda.  Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 4. maí 2007, var afgreiðsla þessi kynnt Skipulagsstofnun og óskað eftir meðferð stofnunarinnar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 25. maí 2007, kom fram að gera þyrfti grein fyrir útivistarsvæði fyrir núverandi byggð og aðgengi að því, auk þess að athuga þyrfti fjarlægð byggingarreita frá Búrfellslínu 1.  Einnig var mælst til þess að sveitarfélagið leitaðist við að ná samkomulagi við kæranda.  Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 4. júní 2007, var m.a. tekið fram að ákvæði í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2002-2014, um svæði fyrir frístundabyggð, ætti ekki við í þessu tilviki því deiliskipulag frístundabyggðar í Oddsholti hefði tekið gildi áður en aðalskipulagið hefði tekið gildi.  Því ættu þessar reglur ekki við á þegar byggðum svæðum, heldur eingöngu um óbyggð og ódeiliskipulögð svæði.  Ekki væri hægt að gera þá kröfu núna að afmarka sérstakt útivistarsvæði fyrir lóðarhafa frístundabyggðar í Oddsholti utan við skipulagssvæði þeirrar byggðar.  Þá kom fram í bréfi skipulagsfulltrúa að 65 m væru frá miðri Búrfellslínu að byggingarreit og væri búið að leiðrétta uppdrætti hvað þetta varði.  Þá var í bréfinu tekið fram að sveitarstjórn hefði tekið afstöðu til athugasemda kæranda á fundi 17. apríl 2007 og ekkert nýtt lægi fyrir í því máli.  Var deiliskipulagið sent til afgreiðslu stofnunarinnar með vísan til 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 26. júní 2007, var lagfærður uppdráttur að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar Lyngborga sendur Skipulagsstofnun.  Í lagfæringunni fólst að göngustígar, sem lágu frá frístundabyggð í Oddsholti, framlengdust yfir á hið deiliskipulagða svæði.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. júlí 2007, var kynnt að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að Grímsnes- og Grafningshreppur auglýsti samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing þess efnis hinn 27. júlí 2007. 

Skaut kærandi framangreindri samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að 27. júlí 2007 hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda deiliskipulag fyrir Lyngborgir í landi Minni-Borgar.  Sé auglýsingin endapunktur ferils sem staðið hafi í sex mánuði sem sumarbústaðaeigendur í aðliggjandi hverfi, Oddsholti, hafi ítrekað gert athugasemdir við.  Telji kærandi að upphafleg auglýsing deiliskipulagsins hafi verið villandi og ekki þar gefið til kynna að um væri að ræða svæði nærri Oddsholti.  Svæðið hafi verið auglýst sem deiliskipulag við Lyngborgir en engin leið hafi verið fyrir félagsmenn eða aðra hagsmunaaðila að átti sig á því að um væri að ræða land það sem lægi að Oddsholti.  Auglýsingin hafi því farið framhjá öllum eigendum á svæðinu og kæranda máls þessa og því hafi enginn gert athugasemdir við tillöguna.  Það hafi ekki verið fyrr en framkvæmdir hafi byrjað við lagningu vegar um svæðið að kæranda hafi orðið ljóst hvað um væri að ræða.  Þá hafi strax hafist bréfaskriftir við sveitarfélagið og Skipulagsstofnun um málið og athugasemdir gerðar við skipulagið og málsmeðferð þess en þær hafi ekki verið teknar til greina.

Lúti athugasemdir kæranda einkum að því að aðkomuvegur að svæðinu sé lagður meðfram lóðum í Oddsholti sem fyrir vikið lendi sumar hverjar á milli tveggja aðkomuvega.  Það valdi óþægindum, ónæði og verðrýrnum á umræddum fasteignum en einfalt hefði verið að skipuleggja svæðið með þeim hætti að hafa aðkomuveg austan við hinar nýju lóðir.  Með skipulaginu hafi verið brotið gegn lögmætum væntingum og grenndarrétti lóðarhafa á svæðinu.

Það sé mat kæranda að hefði skipulagið verið kynnt með eðlilegum hætti, þannig að hagsmunaaðilar hefðu getað komið að athugasemdum við auglýsingu, hefði verið orðið við þeirri sjálfsögðu kröfu að færa veginn.  Telji kærandi að frumhlaup landeiganda við að hefja framkvæmdir á svæðinu, án leyfis, og kostnaður hans við að breyta framkvæmdum í samræmi við óskir kæranda sé í raun ástæða þess að ekki hafi verið tekið tillit til framkominna athugasemda.  Hefði verið leikur einn að laga nýtt skipulag Lyngborga að óskum lóðarhafa í Oddsholti.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps  er aðallega krafist frávísunar málsins.  Byggist krafan í fyrsta lagi á því að kæran sé of seint fram komin, en samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2007.  Kæran sé dagsett 27. ágúst 2007 en ekki móttekin fyrr en 28. sama mánaðar. Kærufrestur hafi því verið liðinn er kærandi skaut máli sínu til nefndarinnar.  Beri því að vísa málinu frá nefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í öðru lagi sé krafa um frávísun studd þeim rökum að tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar hafi verið í kynningu frá 14. desember 2006 til 11. janúar 2007, með fresti til athugasemda til 25. janúar 2007.  Engar athugasemdir hafi borist.  Í auglýsingunni hafi m.a. komið fram að hver sá sem ekki gerði athugasemdir innan tilskilins frests teldist hafa samþykkt tillöguna.  Hinn 26. október 2006 hafi sveitarstjórn samþykkt  deiliskipulagið.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segi að þegar sveitarstjórn hafi  samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið sé á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr.  Þar segi m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Kærandi hafi ekki komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags þó honum, líkt og öðrum íbúum í sveitarfélaginu, hafi gefist kostur á að tjá sig um tillöguna á kynningartíma hennar.

Af greindu ákvæði skipulags- og byggingarlaga leiði að þeir sem ekki komi á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi teljist vera samþykkir henni.  Ljóst sé að kærandi, sem að lögum teljist hafa verið samþykkur skipulagstillögunni, geti ekki síðar í kærumáli haft uppi kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hafi verið á grundvelli tillögunnar án breytinga er varðað geti hagsmuni hans.  Kærandi eigi því ekki kæruaðild að málinu og beri að vísa því frá úrskurðarnefndinni, sbr. úrskurð hennar í máli nr. 6/2007.

Í þriðja lagi sé frávísunar krafist með vísan til þess að kærandi, sem sé Félag sumarbústaðaeigenda í Oddsholti, eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Þá sé ekki gerð grein fyrir því með hvaða hætti umrætt félag geti átt kæruaðild fyrir nefndinni.

Til vara byggir Grímsnes- og Grafningshreppur á því að hafna beri kröfu kæranda þar sem  afgreiðsla og málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi verið fullkomleg lögmæt og í samræmi við 23. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Vakin sé athygli á að í kæru sé ekki vísað til þess að sveitarstjórn hafi brotið gegn tilteknum ákvæðum greindra laga við málsmeðferð sína.  Kynning og auglýsing umræddrar skipulagstillögu hafi verið framkvæmd á sama hátt og tíðkast hafi með aðrar deiliskipulagstillögur sem séu til meðferðar hjá sveitarfélaginu.  Athugasemdir hafi ekki verið gerðar á kynningartíma af hálfu kæranda.  Teljist hann því samþykkur tillögunni að lögum.  Athugasemdir kæranda hafi ekki borist fyrr en um tveimur mánuðum eftir að athugasemdafresti hafi lokið.  Sveitarstjórn hafi svaraði erindi kæranda en ekki talið tilefni til að breyta deiliskipulaginu í samræmi við óskir hans.  Varðandi athugasemdir kæranda að öðru leyti vísist til bókunar sveitarstjórnar frá 17. apríl 2007, þar sem þeim hafi verið svarað efnislega.

Andsvör kæranda vegna málsraka Grímsnes- og Grafningshrespps:  Kærandi mótmælir kröfu Grímsnes- og Grafningshrepps um frávísun málsins og áréttar kröfu um ógildingu hins kærða deiliskipulags. 

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 18. september 2008.

Niðurstaða:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er krafist frávísunar málsins.  Á það verður ekki fallist.  Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. júlí 2007 og degi síðar byrjaði kærufrestar að líða.  Kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 28. ágúst s.á. eða á lokadegi kærufrests, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi setti fram athugasemdir vegna hins kærða deiliskipulags eftir að fresti samkvæmt auglýsingu varðandi deiliskipulagstillöguna rann út.  Voru athugasemdirnar teknar fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 17. apríl 2007 og þeim svarað með bréfi til kæranda, dags. 4. maí s.á.  Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið sé á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni.  Ákvæði þessi eru mjög íþyngjandi og verður að túlka þau þröngt.  Í máli þessu tók sveitarstjórn til meðferðar athugasemdir kæranda sem bárust eftir tilskilinn frest og verður að telja að með því hafi sveitarstjórn firrt sig rétti til að bera tilvitnuð ákvæði fyrir sig.  Verður málinu því ekki vísað frá með þeim rökum að athugasemdir kæranda hafi borist eftir að athugasemdafrestur var liðinn. 

Sumarbústaðareigendur í Oddholti hafa stofnað með sér félag um hagsmunamál sín.  Er félagið skráð í fyrirtækjaskrá og telst lögaðili.  Verður að telja að félagið geti komi fram sem aðili máls fyrir úrskurðarnefndinni í málum er varða hagsmuni félagsmanna eins og í máli þessu.

Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að meðferð málsins hafi verið andstæð lögum ásamt því að grenndaráhrif aðkomuvegar að svæðinu hafi í för með sér óþægindi, ónæði og verðrýrnum á fasteignum félagsmanna. 

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að meðferð þess hjá sveitarstjórn og Skipulagsstofnun hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Þá er efni hinnar kærðu ákvörðunar í samræmi við heimildir aðalskipulags og er tenging svæðisins við samgöngur sýnd í aðalskipulagi.  Ekki verður heldur talið að regla gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkja frá vegum komi til álita í málinu þar sem hún á ekki við um einkaveg sem jafnframt er aðkomuvegur að lóðum.  Þá verður og til þess að líta að hafi félagsmenn kæranda sannanlega orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við gildistöku skipulagsins er þeim tryggður réttur til skaðabóta samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Með vísan til alls framanritaðs verður ekki fallist á ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.     

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

 

22/2006 Melar

Með

 

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2006, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2006 um deiliskipulag Mela, sem tekur til hluta Melahverfis við Hagamel, Grenimel og Reynimel í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. mars 2006, er barst nefndinni 20. sama mánaðar, kæra K og L, Grenimel 44, G og H Grenimel 48, E og V, Reynimel 65, H, J og E, Reynimel 63, B, Reynimel 61, S, F og E, Grenimel 45, K og H, Grenimel 47, og J og V, Grenimel 42 ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2006 um deiliskipulag Mela, sem tekur til hluta Melahverfis við Hagamel, Grenimel og Reynimel í Reykjavík. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs hinn 10. ágúst 2005 var lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi Mela, en skipulagsreiturinn afmarkast af Hofsvallagötu, Hagamel, Reynimel og lóðarmörkum Reynimels 58-68 og Víðimels 55-67.  Var samþykkt á fundinum að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og stóð kynning frá 15. ágúst til 5. september 2005.  Bárust athugasemdir frá nokkrum íbúum á svæðinu. 

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 5. október 2005 og samþykkt að auglýsa tillöguna með þeim breytingum er fram kæmu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 30. september s.á.  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu á fundi sínum hinn 27. október 2005.  Þá gerðu skipulags- og byggingarsvið, byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur og Minjasafn Reykjavíkur húsakönnun fyrir umrætt svæði í október 2005 og var niðurstaðan sú að ekki væri gerð tillaga um verndun svæðis eða friðun húsa. 

Var tillaga að deiliskipulagi Mela auglýst frá 4. nóvember til 16. desember 2005 og bárust athugasemdir frá fjölmörgum aðilum, m.a. listi með undirskriftum 100 aðila. 

Tillagan var enn á ný lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 18. janúar 2006 og hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og málinu vísað til borgarráðs er staðfesti samþykktina á fundi sínum hinn 26. janúar s.á.  Birtist auglýsing um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. febrúar 2006 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Þá samþykkti skipulagsráð leiðréttingu á skilmálum deiliskipulagsins hinn 10. maí 2006, en upplýsingar í skilmálatöflu skipulagsins höfðu víxlast og birtist auglýsing þess efnis 30. maí s.á. í B-deild Stjórnartíðinda.  Skutu kærendur fyrrgreindri ákvörðun borgarráðs frá 26. janúar 2006 til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir. 

Deiliskipulagsreiturinn afmarkast sem fyrr segir af Hofsvallagötu, Hagamel, Reynimel og lóðarmörkum Reynimels 58-68 og Víðimels 55-67.  Skiptist svæðið í tvo götureiti og hluta af þeim þriðja og samkvæmt skilmálum hins kærða deiliskipulags er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á reitunum.  Þó er m.a. gert ráð fyrir að byggja megi við húsin að Grenimel 46 og Reynimel 66 innan byggingarreits, eða að ný hús verði byggð á lóðunum verði hin eldri rifin.  Þá er m.a. heimilt á öðrum lóðum, þar sem nýtingarhlutfall er innan við 0,75, að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna.  Jafnframt er m.a. heimilt að byggja litlar geymslur á baklóðum, og á lóðinni að Hagamel 42 er gert ráð fyrir byggingu bílgeymslu. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að deiliskipulagið taki ekki nægjanlega mikið mið af þeirri byggð sem fyrir sé, en um sé að ræða þegar uppbyggt hverfi og verið sé að leyfa nýbyggingar sem séu mun stærri en hús þau sem fyrir séu á reitnum. 

Nýtingarhlutfall nýbygginga sé of hátt og ekki sé tryggt að útreikningur sá sem nýtingarhlutfallið sé byggt á sé sambærilegur við útreikning nýtingarhlutfalls þeirra húsa sem séu á reitnum.  Setja þurfi inn ákvæði um hámarksrúmmál húsa og/eða hversu stórt hlutfall gólfflata teljist ekki með í nýtingarhlutfalli. 

Gert sé ráð fyrir að nýbyggingar geti verið hærri en aðliggjandi hús og salarhæðin sé ekki tilgreind.  Ekki sé gerður greinarmunur á hæð húsa með flötum þökum og húsa með mæni.  Form og skipulag húsa sem nú þegar séu í hverfinu komi ekki fram í skipulaginu.  Megi þar t.d. nefna hæð lóða miðað við götuhæð og mismunandi húsagerðir sem skipta megi í þrjá flokka. 

Deiliskipulagið virðist taka mið af því að sameina á lóðinni nr. 46 við Grenimel allt það sem stuðli að því að ná sem mestri nýtingu út úr lóðinni.  Þannig eigi að nota nýtingarhlutfall til að ákvarða byggingarmagnið og hafi of hátt hlutfall verið valið þar sem lóðin sé langstærst.  Fyrirhugað hús á lóðinni sé miklu stærra en nýtingarhlutfallið segi til um, með því að taka með svæði þar sem gólffletir teljist ekki með í nýtingarhlutfallinu, og valdi aukin stærð hússins miklu skuggavarpi sérstaklega við Reynimel.  Flatarmál byggingarreits hússins við Grenimel 46 sé 221 eða 247 m² og hússins við Reynimel 66 sé 186 m².  Stærsti grunnflötur húss í húsagerðarflokki 3, Reynimels 59, sé 185 m² og grunnflötur þess húss sem sé á stærstu lóðinni, Hagamel 52, sé 180 m².

Ekki sé hægt að endurreisa hús af sömu tegund á lóðum í fyrstu húsaröðinni við Hofsvallagötu þar sem skipulagið leyfi ekki hærri hús en 9 m.  Þá komi ekki skýrt fram að skipulag nýbygginga og lóða skuli vera í samræmi við þá byggð sem fyrir sé.  Kærendur geri athugasemdir við að málsetningar vanti á reiti og flatarmál byggingarreita nýbygginga til að meta umfang þeirra.  Deiliskipulagið sýni aðeins hvar húseigendur þriggja húsa geti byggt við hús sín en ekki sé sýnt hvar aðrar viðbyggingar geti risið. 

Þá benda kærendur á að árið 2004 hafi verið grenndarkynnt tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðina að Grenimel 46 þar sem nýtingarhlutfall hafi farið úr 0,24 í 0,92.  Hafi íbúar mótmælt þessu en ekkert deiliskipulag hafi verið til fyrir hverfið og því ekki hægt að grenndarkynna nýtt deiliskipulag og þaðan af síður fyrir einungis eina lóð.  Í ársbyrjun 2005 hafi svo verið grenndarkynnt breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 46 við Grenimel þar sem í ljós hefði komið uppdráttur frá 1951 er sagður hefði verið gildandi deiliskipulag fyrir hverfið.  Hafi nýtingarhlutfall lóðar verið lækkað í 0,75 en umfang hafi verið hið sama og áður, en búið hafi verið að gera breytingar á gólfflötum og lækka þannig nýtingarhlutfallið.  Um 45 aðilar hafi mótmælt tillögunni og verði að líta svo á að grenndarkynningin standi enn yfir þar sem íbúar hafi aldrei fengið svör við athugasemdum sínum. 

Málsrök Reykjavíkurbogar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.  Bent sé á að hæð hússins á lóðinni nr. 46 við Grenimel sé svipuð og annarra húsa á reitnum.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,75, en helmingur lóða hafi þegar þá nýtingu eða hærri.  Bílskúr sé af sömu stærð og hæð og aðrir bílskúrar á reitnum. 

Málsmeðferð sé í fullu samræmi við skipulags- og byggingarlög en nýtt deiliskipulag hafi verið unnið þar sem ekki hafi verið til deiliskipulag að svæðinu.  Hagsmunaaðilum hafi verið kynnt niðurstaða skipulagsráðs í málinu, en ekki sé skylt að senda þeim sem athugasemdir hafi gert svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum.  Geti aðilar kynnt sér slík gögn.  Ekki sé rétt að málsetningar vanti á reiti nýbygginga.  Ákvæði í skilmálum, um að neðsta hæð húss sé einum metra undir götuhæð, sé í samræmi við önnur hús á svæðinu en ekki sé þó gert ráð fyrir að öll lóðin sé metra lægri en götuhæð.  Hæðarkótar lóða á lóðarmörkum séu gefnir upp á hæðarblöðum. 

Heimilt sé að byggja innan byggingarreits hús með flötu þaki eða þak með allt að 30 gráðu halla, en þó ekki út fyrir reitinn.  Sé það í samræmi við önnur hús á reitnum.  Við gerð tillögunnar hafi verið leitast við að hafa skilmála nokkuð opna þannig að ákveðið frelsi gæfist við að hanna húsin.  Þó hafi þess verið gætt að hæð þeirra og þakform væru í samræmi við önnur hús á reitnum.  Séu hús á skipulagssvæðinu nokkuð mishá, bæði miðað við vegghæð og efsta punkt þaks.  Þar séu hús sem séu með vegghæð verulega undir því sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu en einnig hús með hærri útveggi.  Þök húsa séu flest einhalla en þó séu nokkur með mænisþaki þar sem mænirinn fari yfir hámarkshæð.  Því sé ekki talið að 9 metra hátt hús muni skera sig úr í umhverfinu. 

Ekki sé venja að gefa upp hámarksrúmmál húsa í deiliskipulagi, enda takmarkist stærðin annars vegar af byggingarreit og hins vegar af brúttóflatarmáli húss á lóðinni.  Þá hafi verið sett ákvæði um frágang lóða og húsa í skilmálum skipulagsins. 

———-

Gerð hefur verið ítarlegri grein fyrir rökum og sjónarmiðum sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir Mela, sem tekur til hluta Melahverfis við Hagamel, Grenimel og Reynimel í Reykjavík.  Á svæðinu er gróin byggð og í skilmálum skipulagsins kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir miklum breytingum á reitnum. 

Umrætt deiliskipulag ber þess merki að megintilgangur þess sé að koma fram áformum um endurbyggingu á lóðinni nr. 46 við Grenimel, en eins og fyrr hefur verið greint frá munu tvisvar hafa verið grenndarkynnt byggingaráform á þeirri lóð áður en tillaga að deiliskipulagi svæðisins kom fram.  Hafa kærendur m.a. haldið því fram að nýtingarhlutfall á lóðum, þar sem nýbyggingar séu heimilaðar, sé of hátt og að ekki sé tryggt að útreikningur sá, er nýtingarhlutfall byggist á, sé sambærilegur þeim er byggt hafi verið á við útreikning á nýtingarhlutfalli annarra lóða á skipulagsreitnum.  Þá sé deiliskipulaginu m.a. áfátt að því leyti að málsetningar vanti á reiti nýbygginga til að meta umfang þeirra. 

Fyrir liggur að byggingarframkvæmdir eru hafnar á lóðinni að Grenimel 46 en leyfi vegna þeirra hefur ekki verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er því ekki tilefni til að meta hvort þær séu í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Í skipulaginu er hins vegar gerð grein fyrir heimildum til nýbygginga þar sem við á og tekið fram hvert sé nýtingarhlutfall lóðanna sem og hámarkshæð fyrirhugaðra bygginga.  Einnig virðist hinu kærða skipulagi ætlað að jafna nýtingarhlutfall lóða á skiplagsreitnum og er þannig heimilt að reisa viðbyggingar á þeim lóðum þar sem nýtingarhlutfall er lægra en 0,75.

Fallast má á það sjónarmið kærenda að skýrara hefði verið að sýna byggingarreiti fyrir viðbyggingar á lóðum, en til þess ber þó að líta að um gróna byggð er að ræða og setur það möguleikum til viðbygginga nokkrar skorður.  Þá er í skipulaginu gerður áskilnaður um fjarlægð viðbygginga frá lóðamörkum og verður að telja að framsetning skipulagsins fullnægi lágmarkskröfum, enda er ákvæði gr. 5.4.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 ekki fortakslaust hvað þetta varðar. 

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu við auglýsta tillögu um deiliskipulag umsögn sína um þær.  Hafa kærendur gert athugasemd við að málsmeðferð hafi m.a. verið áfátt að þessu leyti.  Meðal málsganga er bréf skipulags- og byggingarsviðs til eins kærenda þar sem tilkynnt er um hina kærðu ákvörðun og fylgir bréfinu umsögn skipulagsfulltrúa um framkomar athugasemdir.  Verður að telja að eins og hér stóð á hafi þessi tilkynning verið fullnægjandi enda bera málsgögn það með sér að samráð hafi verið með kærendum um andmæli þeirra við tillögunni.  Verður því ekki fallist á að málsmeðferð hafi verið svo áfátt að þessu leyti að leiða eigi til þess að hið umdeilda skipulag verði fellt úr gildi. 

Um útreikning nýtingarhlutfalls segir í skilmálum skipulagsins að óupphituð rými, s.s. svalalokanir, reiknist ekki með í flatarmáli húsa og teljist því ekki með þegar nýtingarhlutfall lóða sé reiknað.  Var þessari málsgrein bætt við skilmála skipulagsins eftir að þeir voru auglýstir og felur ákvæðið í sér að gólfflötur tiltekins rýmis í lokunarflokki B telst ekki með við útreikning nýtingarhlutfalls.  Ákvæðið fer í bága við skilgreiningu orðsins nýtingarhlutfall í gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, eins og þeirri grein var breytt með reglugerð nr. 420/2002, en í greininni segir að nýtingarhlutfall sé hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga og byggingarhluta í lokunarflokkum A og B, sbr. ÍST 50:1998, á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits.

Skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er staðfest af ráðherra og eru skipulagsyfirvöld bundin af ákvæðum hennar við skipulagsgerð.  Verður ekki frá henni vikið með ákvæðum í skipulagsskilmálum og verður að meta ógild þau ákvæði skipulagsskilmála sem fara í bága við ákvæði reglugerðarinnar, nema sérstök heimild sé til slíkra frávika.  Í tilviki því sem hér um ræðir er slíkri heimild ekki fyrir að fara og var borgarráði því óheimilt að taka upp í skilmála hins umdeilda skipulags ákvæði sem vék frá ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um útreikning nýtingarhlutfalls.  Verður hin kærða ákvörðun því ógilt hvað varðar þetta ákvæði skipulagsskilmála, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hún að öðru leyti látin standa óröskuð, enda þykja ekki slíkir ágallar á hinni kærðu ákvörðun að efni séu til að ógilda hana í heild sinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hin kærða samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2006 um deiliskipulag Mela skal óröskuð standa, að öðru leyti en því að fellt er úr gildi ákvæði í skipulagsskilmálum um að óupphituð rými, s.s. svalalokanir, reiknist ekki með í flatarmáli húsa og teljist því ekki með þegar nýtingarhlutfall lóða er reiknað.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________        _______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

80/2007 Laugavegur

Með

Ár 2008, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2007, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. desember 2006 um breytt deiliskipulag staðgreinireits 1.171.3 er tekur til hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir H, til heimilis að Laugavegi 5 í Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. desember 2007 um breytt deiliskipulag staðgreinireits 1.171.3, þ.e. svæðis er tekur til hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík.  Fundargerð skipulagsráðs var lögð fram til kynningar á fundi borgarráðs hinn 21. desember 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2002 var samþykkt deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3.  Var þar heimilað að fjarlægja húsin á lóðunum nr. 4 og 6 við Laugaveg og reisa í þeirra stað þriggja hæða hús með risi og kjallara.  Á syðri hluta lóðarinnar að Laugavegi 6 var þó aðeins heimilað að byggja einnar hæðar hús með kjallara.  Hinn 31. ágúst 2006 tók gildi breyting á deiliskipulagi umrædds reits.  Fól hún í sér sameiningu lóðanna að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A í eina lóð og að reisa mætti fjögurra hæða byggingu við Laugaveg en byggingarmagn við Skólavörðustíg yrði óbreytt. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðanna að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A.  Í tillögunni fólst m.a. að húsin að Laugavegi  4 og 6 og Skólavörðustíg 1A yrðu tengd saman og þar byggt hótel með móttöku á fyrstu hæð sem tengd yrði veitingastað.  Þá var gert ráð fyrir að hæð hússins við Laugaveg yrði óbreytt, eða 12,5 metrar, hæð þakskeggs þess fylgdi þakskeggshæð hússins að Laugavegi 8 og að heimiluð yrði stækkun hússins um 171 fermetra.  Samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu.  Var tillagan kynnt nágrönnum og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda.  Skipulagsráð samþykkti síðan skipulagstillöguna hinn 20. desember 2006 á grundvelli 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð og með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa.  Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. júlí 2007.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið ábótavant, m.a. hafi kæranda ekki verið kynnt tillagan, öll gögn hafi ekki legið frammi og skort hafi upplýsingar um skuggavarp.  Fjölgun veitingastaða á svæðinu fari í bága við þróunaráætlun miðborgar og muni hin fyrirhugaða bygging hafa veruleg áhrif á eign kæranda, m.a. vegna þess hve há hún komi til með að vera.   

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hámarksnýtingarhlutfall umræddrar lóðar hækki úr 3,96 í 4,20 en hæð húss og skuggavarp taki ekki breytingum frá gildandi deiliskipulagi reitsins.  Unnin hafi verið ítarleg greinargerð um skuggavarp sem sýni með ótvíræðum hætti að frekar sé dregið úr skuggavarpi en gera hafi mátti ráð fyrir samkvæmt elda skipulagi.  Grenndarkynning hafi ekki náð til kæranda þar sem umdeild breyting hafi ekki verið talin hafa grenndaráhrif á fasteignir handan götunnar.  Kærandi hafi engu að síður komið að athugasemdum sínum á kynningartíma tillögunnar og þeim verið svarað af skipulagsyfirvöldum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að eftir að hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi hefur skipulagi umrædds reits verið breytt.  Hinn 2. október 2008 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.3 vegna lóðanna við Laugaveg 4 og 6, þar sem m.a. er gert ráð fyrir verndun þeirra húsa er nú standa á þeim lóðum.  Var auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. nóvember 2008.

Samkvæmt framangreindu hefur deiliskipulagi svæðis þess er hin kærða ákvörðun tekur til verið breytt í svo veigamiklum atriðum að ekki verður séð að kærandi eigi lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar, en slíkir hagsmunir eru skilyrði kæruaðildar samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________ 
Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________       ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson