Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2005 Hamrahlíð

Með

Ár 2005, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2005, kæra fjögurra íbúa og eigenda fasteigna við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. september 2005 um að veita takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. september 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hróbjartur Jónatansson hrl., f.h. Ó, Stigahlíð 50, Ó og Þ, Stigahlíð 56 og H Stigahlíð 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.  Kefjast kærendur þess í kærunni að framkvæmdir verði stöðvaðar en jafnframt hefur lögmaður þeirra áréttað síðar í bréfi til úrskurðarnefndarinnar að einnig sé gerð krafa um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Málsatvik og rök:  Kærendur í máli þessu höfðu áður, með bréfi dags. 10. ágúst 2005, kært ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2005 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 10 við Hamrahlíð, sem er lóð Menntaskólans við Hamrahlíð.  Birtist auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda þann  29. ágúst 2005.  Er það mál til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Hinn 22. september 2005 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík leyfi það sem um er deilt í máli þessu.  Ber umrætt leyfi yfirskriftina Hamrahlíð 10, takmarkað byggingarleyfi, en síðan segir svo í leyfisbréfinu:  „Með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 13. og 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og samþykkt á byggingarleyfisumsókn nr BN032554, sem er í vinnslu hjá Byggingarfulltrúanum í Reykjavík er Menntamálaráðuneytinu kt. 460269-2969 veitt takmarkað byggingarleyfi til þess að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.  Öll framkvæmdin skal unnin eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum og gildandi lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál.“  Síðan er í bréfinu getið byggingarstjóra verksins og tekið fram að þetta takmarkaða byggingarleyfi falli sjálfkrafa úr gildi við útgáfu á endanlegu byggingarleyfi.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að útgáfa téðs byggingarleyfis fari alfarið í bága við þá stöðu sem nú sé uppi vegna ágreinings um lögmæti deiliskipulags þess sem Reykjavíkurborg sé að reyna að knýja fram í mikilli óþökk kærenda, sem keypt hafi eignarlóðir af borginni árið 1984 og goldið fyrir hátt verð á þeim forsendum að þágildandi skipulag myndi standa óbreytt.  Augljóst sé að fái byggingarleyfishafinn að hefja framkvæmdir, samkvæmt áformum hins ólögmæta deiliskipulags, á meðan ágreiningurinn sé til meðferðar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, muni það leiða til þess að hann knýji fram niðurstöðu sér í hag á þeim grundvelli að ekki verði hróflað við mannvirkjum sem þegar hafi risið á lóðinni.  Slík aðstaða sé algerlega óviðunandi og gangi gegn meginreglum stjórnsýslulaga, sem og skipulags- og byggingarlaga, enda við það miðað að ekki verði ráðist í byggingarframkvæmdir nema ótvíræður lagagrunnur sé til staðar fyrir þeim.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Telja borgaryfirvöld að ekki hafi verið sýnt fram á að form eða efnisgallar hafi verið á skipulagsákvörðun þeirri sem fyrirhugaðar framkvæmdir að Hamrahlíð 10 styðjist við og hafi takmarkað byggingarleyfi verið veitt í samræmi við umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.  Hafi sú umsókn verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. október 2005 og staðfest í borgarráði 13. sama mánaðar.  Endanlegum frágangi leyfa samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi loks lokið 2. nóvember 2005.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt og vísað til þess að framkvæmdir eigi sér stoð í leyfi þar til bærs stjórnvalds.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. gr. samþykktar um embættisafgreiðslur byggingarfulltrúans í Reykjavík, nr. 161/2005, afgreiðir hann, án staðfestingar skipulagsráðs, mál er falla undir skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 með síðari breytingum og skilgreind eru sem verkefni byggingarnefnda í lögunum.  Í 4. gr. nefndrar samþykktar er áskilið að afgreiðslur byggingarfulltrúa samkvæmt samþykktinni skuli hljóta endanlega afgreiðslu borgarráðs. 

Byggingarleyfi það sem byggingarfulltrúi veitti hinn 22. september 2005 og um er deilt í máli þessu var veitt með vísan til heimildar í 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Segir þar í 2. mgr. að standi sérstaklega á megi veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkist leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.  Leyfið var veitt milli afgreiðslufunda og verður ekki séð að það hafi fengið frekari meðferð í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Hvorki er í skipulags- og byggingarlögum né í áður nefndri samþykkt heimild til að víkja frá því skilyrði að byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi afgreiðir skuli hljóta endanlega afgreiðslu borgarráðs, jafnvel þótt um takmarkað byggingarleyfi sé að ræða.  Telst hin kærða ákvörðun því ekki hafa hlotið lögboðna fullnaðarafgreiðslu borgaryfirvalda og gat hún því ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni og kemur því ekki til úrlausnar hvort lagaskilyrði voru fyrir útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis eins og atvikum var háttað í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                 Ásgeir Magnússon

 

 

58/2007 Dettifossvegur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 58/2007, kæra SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. apríl 2007 um að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar 1. áfanga nýs Dettifossvegar frá hringveginum til norðurs í átt að Dettifossi eftir veglínu B.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 7. júní 2007, sem póstlagt var sama dag en barst úrskurðarnefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. apríl 2007 að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar 1. áfanga nýs Dettifossvegar frá hringveginum til norðurs í átt að Dettifossi eftir veglínu B.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Lögboðin auglýsing um hana var birt hinn 8. maí 2007. 

Málsatvik:  Þann 6. mars 2006 sendi Vegagerðin Skipulagsstofnun frummatsskýrslu um Dettifossveg í Keldunes- og Skútustaðahreppum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br.  Framkvæmdin og frummatsskýrslan voru auglýst 9. mars 2006 í Lögbirtingablaðinu, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og í Skránni.  Lá frummatsskýrslan frammi til kynningar frá 9. mars til 21. apríl 2006.  Skipulagsstofnun leitaði umsagna Kelduneshrepps, Skútustaðahrepps, Byggðastofnunar, Ferðamálastofu, Fornleifaverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Landgræðslu ríkisins, Samvinnunefndar um miðhálendi Íslands, Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar. 

Á kynningartíma bárust Skipulagsstofnun 11 athugasemdir og að auki barst ein athugasemd eftir að kynningartíma lauk.  Sendi stofnunin fyrirliggjandi umsagnir og athugasemdir til Vegagerðarinnar að kynningartíma loknum. 

Hinn 30. júní 2006 sendi Vegagerðin matsskýrslu um Dettifossveg í Norðurþingi (áður Kelduneshreppi) og Skútustaðahreppi til Skipulagsstofnunar og óskaði eftir áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Kom fram í álitinu að Vegagerðin legði til að leið B2 yrði valin í áfanga I, frá Hringvegi að Dettifossi. 

Lögbundið álit Skipulagsstofnunar um matið lá fyrir hinn 27. júlí 2006.  Er í álitinu gerð grein fyrir hinni matsskyldu framkvæmd, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar. 

Í lokakafla álitsins segir m.a:  „Í samræmi við 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu Vegagerðarinnar sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Matsskýrsla Vegagerðarinnar byggði á auglýstri frummatsskýrslu, umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma frummatsskýrslu og afstöðu Vegagerðarinnar til þeirra.  Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla Vegagerðarinnar hafi í meginatriðum uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar þau atriði sem getið er um í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.  Einnig telur stofnunin að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir athugasemdum og umsögnum sem bárust á kynningartíma frummatsskýrslu og þeim svarað á fullnægjandi hátt.  Fyrirhugað framkvæmda- og áhrifasvæði Dettifossvegar er skilgreint sem náttúruverndarsvæði.  Þar af er stór hluti svæðisins innan þjóðgarðarins í Jökulsárgljúfrum og innan landssvæðis sem ríkisstjórnin samþykkti í ársbyrjun 2005 að unnið verði að undirbúningi á að fella inn í framtíðar Vatnajökulsþjóðgarð.  Jarðmyndanir á svæðinu njóta verndar skv. náttúruverndarlögum og þar eru ummerki um stærstu jökulhlaup sem orðið hafa á jörðinni eftir síðasta jökulskeið. Stór hluti svæðisins hefur mikið landslags- og jarðfræðilegt verndargildi og fjöldi fólks sækir svæðið, sérstaklega yfir sumartímann. Vegir á svæðinu beggja vegna við Jökulsá á Fjöllum, milli Hringvegar og Norðausturvegar eru mjög lélegir. Slæmt ástand vega, sérstaklega kaflinn milli Dettifoss og Hringvegar vestan Jökulsár, hefur til þessa takmarkað aðgang að svæðinu og að þjóðgarðinum að sunnanverðu.  Skipulagsstofnun telur að til að bæta aðgengi að þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum og efla ferðaþjónustu og atvinnulíf á svæðinu sé nauðsynlegt að bæta samgöngur.

1. áfangi. Hringvegur – Dettifoss.  Á 1. áfanga Dettifossvegar mun vegurinn liggja nánast alfarið utan núverandi vegar.  Veglína A mun þó liggja í grennd við núverandi veg á kafla og fara um grónara land en veglína B/B2. Veglína B/B2 mun hins vegar liggja í grennd við Jökulsá á Fjöllum og fara næst henni í um 230-250 m fjarlægð. Veglína B/B2 og námur B-9 og B-10 munu raska svæði með minjum um hamfarahlaupssögu árinnar, ennfremur mun vegurinn raska eldhrauni sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmd náttúruverndarlögum.  Í þessu sambandi er vert að minnast þess að samkvæmt viðauka E4 með skýrslu nefndar um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls frá árinu 2004 kemur fram skýr niðurstaða um að „…Vatnajökull ásamt vatnasviði Jökulsár á Fjöllum með Ódáðahrauni er einstætt svæði á heimsvísu …. Ef t.d. einhverjir hluta svæðisins væru nýttir undir virkjanir eða þar yrði önnur stórtæk röskun af manna völdum myndi heildin glata sérstöðu sinni…“. Ennfremur mun veglína B/B2 hafa samlegðaráhrif á landslag með Hólsfjallavegi, austan Jökulsár, sem liggur nærri ánni á kafla.  Skipulagsstofnun telur að Dettifossvegur samkvæmt veglínu B/B2 ásamt efnistöku þar muni hafa verulega neikvæð áhrif á svæði með hátt verndargildi og vægi sem landslagsheild og aðdráttarafl fyrir ferðamenn, sbr. framtíðarhugmyndir um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls.  Skipulagsstofnun telur að tillögur Vegagerðarinnar um aðlögun leiða B/B2 og náma að landi ásamt verktilhögun og frágang muni ekki draga úr eða bæta fyrir þau neikvæðu áhrif sem munu hljótast af framkvæmdinni á jarðmyndanir, landslag, ásýnd svæðisins og verndargildi þess. Skipulagsstofnun telur í þessu ljósi að ekki sé ásættanlegt að leggja nýjan Dettifossveg samkvæmt leið B/B2 og raska þannig jarðmyndunum, landslagi og ásýnd lands á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum með enn frekari vegagerð en þegar er orðin við ána. 

Eitt af markmiðum með lögum um mat á umhverfisáhrifum er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Á 1. áfanga Dettifossvegar hefur Vegagerðin lagt fram raunhæfan framkvæmdakost sem er leið A.  Skipulagsstofnun telur að það sé ásættanlegra að raska gróðri og beitarlandi á veglínu A en að raska jarðmyndunum og landslagi sem hefur verndargildi á heimsvísu með veglínu B/B2.  Skipulagsstofnun telur að áhrif veglínu A ásamt efnistöku á jarðmyndanir, landslag og ásýnd svæðisins verði ekki verulega neikvæð að uppfylltum skilyrðum um mótvægisaðgerðir, sbr. hér að neðan.“ 

Lagðist Skipulagsstofnun þannig gegn því að 1. áfangi vegarins yrði lagður eftir veglínum B og B2 en féllst á framkvæmdina að öðru leyti með skilyrðum sem getið er um í álitinu.  Í álitinu kom fram að ekki þyrfti að breyta Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 en syðsti hluti fyrirhugaðs vegar liggur innan marka þess.  Jafnframt var tekið fram að Aðalskipulag Skútustaðahrepps 1996 – 2015 næði ekki yfir fyrirhugað framkvæmdasvæði og þyrfti sveitarstjórn að sækja um meðmæli Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 áður en unnt væri að veita framkvæmdaleyfi. 

Með bréfi, dags. 13. desember 2006, sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Dettifossvegar, 1. áfanga, samkvæmt veglínu B en fram kom að fallið hefði verið frá áformum um veglínur B1 og B2.  Í samræmi við 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða með skipulags- og byggingarlögum óskaði Skútustaðahreppur með erindi, dags. 5. janúar 2007, eftir meðmælum Skipulagsstofnunar með lagningu vegarins í samræmi við umsókn Vegagerðarinnar. 

Með bréfi, dags. 24. janúar 2007, synjaði Skipulagsstofnun um meðmæli með vísan til niðurstöðu sinnar varðandi veglínu B í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum.  Á grundvelli sérstakrar kæruheimildar í tilvísuðum tölulið ákvæðis til bráðabráðabirgða skaut sveitarstjórn Skútustaðahrepps niðurstöðu Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 23. febrúar 2007.  Vísaði úrskurðarnefndin því kærumáli frá með úrskurði uppkveðnum 26. apríl 2007 með þeim rökum að ekki hefði verið þörf þeirra meðmæla sem Skipulagsstofnun hefði hafnað að láta í té. 

Að fenginni þessari niðurstöðu veitti sveitarstjórn Skútustaðahrepps Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir fyrsta áfanga að nýjum Dettifossvegi samkvæmt veglínu B á fundi sínum hinn 26. apríl 2007.  Birtist auglýsing um framkvæmdaleyfið í Lögbirtingarblaðinu og Morgunblaðinu hinn 8. maí 2007. 

Kærandi taldi rök sveitarstjórnar ekki hnekkja áliti Skipulagsstofnunar og skaut hann málinu því til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að í áliti Skipulagsstofnunar hafi komið fram að leiðir B og B2  teldust ekki ásættanlegar vegna verulegra neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra áhrifa á jarðmyndanir, landslag og ásýnd svæðisins, auk þess sem þær hefðu samlegðaráhrif á þessa umhverfisþætti með Hólsfjallavegi austan Jökulsár á Fjöllum. Þessu áliti hafi SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, fagnað og skorað á sveitarstjórn Skútustaðahrepps og Vegagerðina að nota fremur veglínu A sem ekki hefði hlotið slíka falleinkunn.

Skútustaðahreppur hafi ritað greinargerðir um málið þar sem úrskurður Skipulagsstofnunar sé gagnrýndur. Rökræða Skútustaðahrepps hnekki hvorki áliti Skipulagsstofnunar né breyti framkvæmdinni nægilega mikið til að vegagerð eftir veglínu B eða B2 verði ásættanleg.  Eina tilvikið þar sem sýnist komið til móts við álit Skipulagsstofnunar sé að hlífa eigi einni af fyrirhuguðum námum.

Það sem mestu máli skipti sé eftirfarandi:

Deilt sé um hvort farin skuli veglína A eða B/B2 frá hringvegi að Dettifossi.  Veglína A sé vestar, fjær Jökulsá.  Hún sé nálægt slóð sem rudd hafi verið um miðja síðustu öld og hafi æ síðan verið farin en lítið verið haldið við.  Veglínan liggi að hluta til um gróið land en gróður þar sé þó ekki vel farinn vegna beitar og uppblásturs um aldir.  Gróðurlendið á þessum kafla sé dæmigert fyrir stóra hluta landsins og ekki síst Þingeyjarsýslur.

Veglína B/B2 liggi samhliða Jökulsá og sé aðeins rúmlega 200 m frá farvegi árinnar eins og hann sé nú.  Landið sé lítt gróið, sandar og melar, enda sé þetta eitt af svokölluðum safnsvæðum hamfarahlaupanna í Jökulsá en á þeim svæðum hafi áin lagt frá sér aurburð af ýmsum gerðum sem hún hafi grafið út á klappar- og gljúfrasvæðum sínum.

Hamfarahlaupin í Jökulsá á Fjöllum séu með stærstu flóðum sem orðið hafa á jörðinni.  Hugmyndin um að leggja nútímalegan, uppbyggðan veg eftir ummerkjum þeirra endilöngum á þessu svæði sé því með ólíkindum, þegar auðvelt sé að vera utan þeirra.  Því sé eðlilegt að Skipulagsstofnun bendi á að slíkt sé óásættanlegt vegna óafturkræfra áhrifa á jarðmyndanir.

Skipulagsstofnun nefni líka varanleg og óafturkræf áhrif á landslag og ásýnd svæðisins og samlegðaráhrif með Hólsfjallavegi austan Jökulsár.  Landslag á safnsvæðum Jökulsár sé eftir eðli málsins flatt.  Uppbyggður vegur á þessum stað og umferð um hann yrði því mjög áberandi. Helstu þústir í landinu séu gígaröðin Sveinar vestan ár og Norðmelsfjöllin, Syðra- og Ytra-, austan ár. Veglína B troði sér á milli Jökulsár og Sveinagígaraðarinnar og rétt austan árinnar sé vegurinn um Hólssand og rétt austan hans Norðmelsfjöllin.

Ganga upp á Syðra-Norðmelsfjall taki t.d. aðeins örfáar mínútur og sé ákaflega auðveld og gefi mjög góða yfirsýn yfir þennan hluta Jökulsár.  Áhrif slíkrar göngu væru hins vegar allt önnur ef þar væri ekki hægt að njóta þess að horfa á ána og farvegi nema að sjá líka umferð bíla renna eftir vegum, báðum megin árinnar.  Þetta sé það sem átt sé við með samlegðaráhrifum vegna vega báðum megin árinnar.

Horft sé fram hjá ofangreindum atriðum í greinargerð Skútustaðahrepps en einblínt á að veglína A sé óásættanleg vegna þess að hún fari um grónara land en veglína B.  Ekki sé að finna önnur rök fyrir áliti hreppsins.  Eins og fram komi hér að ofan séu þau rök haldlítil ef borið sé saman annars vegar einstakt verndargildi landsins meðfram Jökulsá á Fjöllum og hins vegar vegstæði um algenga gerð af gróðurlendi, melum og móum, fjær ánni.

Við þetta megi bæta að vegagerð svo nálægt Jökulsá á Fjöllum gangi gegn því markmiði með Vatnajökulsþjóðgarði í nýsamþykktum lögum að vernda landslagsheildina Jökulsá á Fjöllum frá upphafi til ósa.

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, telji að rökstuðningur Skútustaðahrepps um veglínur B og B2 sé of rýr og að breyting á framkvæmdinni sé of lítilfjörleg til að hnekkja áliti Skipulagsstofnunar.  Því telji SUNN að veiting framkvæmdaleyfisins sé með öllu óásættanleg og fari samtökin því fram á að það verði fellt úr gildi.

Málsrök sveitarstjórnar Skútustaðahrepps:  Af hálfu Skútustaðahrepps er gerð grein fyrir aðdraganda málsins.  Hafi verið skipuð samráðsnefnd á árinu 2001 í því skyni að hyggja að tengingu þjóðvegar 1 við Jökulsá á Fjöllum og niður í Kelduhverfi.  Í upphafi hafi verið nokkuð skiptar skoðanir um hvort vegurinn skyldi lagður vestan eða austan árinnar en alger samstaða hafi loks orðið um málið og hafi verið lagt til að sem fyrst yrði hafist handa við lagningu heilsársvegar með bundnu slitlagi að vestanverðu við Jökulsá með góðum tengingum að Dettifossi, Hólmatungum og Vesturdal.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi, vegna umsóknar Vegagerðarinnar, dags. 13. desember 2006, um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu 1. áfanga Dettifossvegar eftir veglínu B, ásamt endurbyggingu bílastæðis við Dettifoss, lagningu 2,8 km langs vegar að því og gerð áningarstaðar við stöð 1600, kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum nýs Dettifossvegar og telji að um sé að ræða þá framkvæmd sem lýst sé í matsskýrslu.

Sveitarstjórn sé ekki sammála niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Dettifossvegar samkvæmt leið B.  Rök sveitarstjórnar fyrir því að fara ekki að áliti Skipulagsstofnunar séu eftirfarandi:

Í fyrsta lagi.
Í áliti Skipulagsstofnunar og matsskýrslu komi fram að fyrirhugað framkvæmda- og áhrifasvæði sé skilgreint sem náttúruverndarsvæði.  Vitnað sé í Svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015, en þar segi m.a. í kafla 9.1.1:  „Hér er stutt lýsing á afmörkun náttúruverndarsvæða í S.-Þingeyjarsýslu, sem eru auðkennd á skipulagsuppdrætti: 2. Ódáðahraun og Austurfjöll, Skútustaðahr.  Um allan hreppinn gilda sérlög um Mývatn og Laxá frá 1974...“ 

Vegna þessa sé ástæða til að benda á að lögunum um verndun Mývatns og Laxár hafi verið breytt árið 2004.  Nú gildi lög nr. 97/2004 um verndun Laxár og Mývatns í Suður-Þingeyjarsýslu, en þar segi í 2. og 6. gr: 

2. gr. Gildissvið:  Ákvæði laganna taka til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin. Auk þess ná lög þessi til eftirtalinna votlendissvæða, ásamt 200 m bakka meðfram vötnum, ám og lækjum: Sortulækjar, Geirastaðahrauns, Sandvatns ytra, Belgjarskógar, Slýja, Neslandatanga, Framengja, Krákár frá Strengjabrekku að Laxá, Grænavatns, Helluvaðsár og Arnarvatns, ásamt votlendi sem því tilheyrir, sbr. kort í fylgiskjali I með lögum þessum.

Þá taka lögin enn fremur til vatnsverndar á vatnasviði Mývatns og Laxár, sbr. kort í fylgiskjali II með lögum þessum. 

Ákvæði laganna um gerð verndaráætlunar taka til Skútustaðahrepps alls, auk Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin. 

6. gr. Verndaráætlun.  Umhverfisstofnun ber ábyrgð á því að gerð sé verndaráætlun fyrir landsvæði það sem um getur í 3. mgr. 2. gr. Skal þar m.a. fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, friðlýsingu náttúruminja, landnýtingu, umferðarrétt almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu. Verndaráætlunin skal gerð í samvinnu við viðkomandi sveitarstjórnir, hagsmunaaðila og umhverfisverndarsamtök á svæðinu og stofnanir sem starfa lögum samkvæmt á sviði náttúruverndar, vatnsverndar og veiðinýtingar.  Verndaráætlun skal endurskoða á fimm ára fresti. Tillögu að verndaráætlun skal auglýsa opinberlega og skulu athugasemdir hafa borist innan sex vikna frá birtingu auglýsingarinnar. Áætlunina skal birta sem auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þegar hún hefur hlotið staðfestingu umhverfisráðherra.“ 

Umrædd verndaráætlun hafi enn ekki litið dagsins ljós og því líti sveitarstjórn svo á að ekki gildi önnur lög um fyrirhugað framkvæmdasvæði en náttúruverndarlög nr. 44/1999.  Í skýrslu þar sem fram komi tillögur Umhverfisstofnunar að verndarsvæðum í Skútustaðahreppi, sem unnar hafi verið vegna breytinga á lögum um verndun Mývatns og Laxár, sé ekki sérstaklega getið um þetta svæði utan þess að nefnd sé hugsanleg stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls.

Í öðru lagi.
Skipulagsstofnun vitni einnig í viðauka E með skýrslu nefndar um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls frá árinu 2004 þar sem segi:  „…Vatnajökull ásamt vatnasviði Jökulsár á Fjöllum með Ódáðahrauni er einstætt svæði á heimsvísu.  Ef t.d. einhverjir hlutar svæðisins væru nýttir undir virkjanir eða þar yrði önnur stórtæk röskun af manna völdum myndi heildin glata sérstöðu sinni.“  Vandséð sé hvernig vegalagning að núverandi þjóðgarði í Jökulsárgljúfum og bætt aðgengi að honum geti talist stórtæk röskun.  Sveitarstjórn fallist á að landsvæði þetta sé, eins og mörg önnur svæði í Skútustaðahreppi, einstakt en bendi á að umrædd skýrsla hafi ekkert lögformlegt gildi.

Í þriðja lagi.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps telji að það séu ekki rök gegn veglínu B að fyrir sé vegur austan Jökulsár sem liggi nærri ánni á kafla.  Slík rök séu a.m.k. léttvæg þegar metið sé hvaða vegleið verði fyrir valinu vestan árinnar.  Ítrekað skuli að alger samstaða hafi náðst í fyrrnefndri samráðsnefnd um að vegurinn yrði lagður vestan árinnar en vegur austan árinnar yrði, með hliðsjón af öryggissjónarmiðum, lagfærður sem malarvegur.  Við mat á vegstæði vegi byggða- og ferðaþjónustusjónarmið þungt.

Í fjórða lagi.
Veglína B muni liggja næst Jökulsá á Fjöllum í 230-250 m fjarlægð.  Í frumvarpi til laga um Vatnajökulsþjóðgarð sé gert ráð fyrir að friðað verði 150-200 m breitt belti meðfram ánni.  Fyrirhugað vegstæði sé því fyrir utan það.  Tekið sé undir með Vegagerðinni að lagning vegar samkvæmt veglínu B muni ekki hindra aðgengi gangandi ferðamanna meðfram Jökulsá og að unnt verði að ganga meðfram ánni án truflunar af umferð.  Telja verði að upplifun af að ferðast á leið B verði jákvæðari en á leið A og hafi það því jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu að velja veglínu B fremur en A.  Gæta verði þess að hugmyndir um stofnun þjóðgarðs hafi ekki íþyngjandi eða heftandi áhrif á aðra þjónustu eða atvinnustarfsemi í nágrenni við hann.

Í fimmta lagi.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mótmæli því að Dettifossvegur skv. veglínu B hafi neikvæð áhrif á framtíðarhugmyndir um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs heldur telji þvert á móti að bætt aðgengi að helstu náttúrperlum svæðisins, sem gefi fleirum tækifæri til að njóta þeirra, hafi mjög jákvæð áhrif bæði í efnahagslegu tilliti og einnig með tilliti til þróunar ferðaþjónustu á svæðinu sem heilsárs atvinnugreinar.

Í sjötta lagi.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps sé algjörlega ósammála því áliti Skipulagsstofnunar að Dettifossvegur skv. veglínu A hafi mun minni neikvæð áhrif en vegur skv. veglínu B.  Veglína A sé nær Sveinagjá og gígum sem þar séu og skerði vegur þar hugsanlega möguleika til útivistar og kyrrðar á því svæði.  Framtíðar gönguleið milli Dettifoss og Herðubreiðarlinda, á svæðinu milli Dettifoss og þjóðvegar, gæti allt eins orðið meðfram gígaröðinni Sveinum, eins og meðfram Jökulsá.  Í dag séu engar skipulagðar gönguferðir á umræddu svæði. 

Dettifossvegur skv. veglínu A, færi um nær algróið land með tilheyrandi gróðurspjöllum, og sé því engan vegin ásættanlegur kostur þegar hægt sé að fara veglínu B sem liggi um nær ógróið land, mela og hraun.  Hafa beri í huga að úrkoma á svæðinu sé með því allra minnsta sem þekkist á landinu og landeyðing viðvarandi vandamál.  Í umsögn Landgræðslu ríkisins segi:  „…þegar tekið sé tillit til landgræðslusjónarmiða séu veglínur B/B2 mun betri kostur en veglína A sem muni raska að stórum hluta grónu og uppgræddu landi og muni hætta á jarðvegsrofi þar aukast.“  Sveitarstjórn sé ósammála því að unnt sé með þeirri verktilhögun og frágangi sem Vegagerðin leggi til að draga nægilega úr eða bæta fyrir þau neikvæðu umhverfisáhrif sem vegur eftir veglínu A muni hafa. 

Í sjöunda lagi. 
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps bendi á að jarðmyndanir þær sem séu syðst á veglínu B, og séu minjar um hamfarahlaup Jökulsár á Fjöllum, njóti engrar sérstakrar verndar.  Hins vegar sé atburðurinn, sem valdi hafi því að flóðið settist til, merkilegur.  Þá skuli á það bent að vegurinn fari aðeins yfir mjög lítinn hluta af hinu svonefnda flóðaseti.  Mestu umhverfisáhrif vegna náma á leið B séu talin af námum B-9 og B-10.  Fyrir liggi að Vegagerðin hafi fallið frá efnisnámu B-10 en auðvelt sé, að mati Vegagerðarinnar, að laga ummerki eftir námu B-9.

Í áttunda lagi.
Frá því að skýrslan um mat á umhverfisáhrifum Dettifossvegar hafi verið lögð fram hafi Vegagerðin breytt veglínu B og fækkað efnistökunámun.  Breytingin felist í því að búið sé að fella niður veglínur B1 og B2.  Einnig hafi verið felld út efnistökusvæðin B-4, B-6, B-10, B-11, B-12, og B-14.  Í staðin hafi verið bætt inn efnistökusvæðum B-13a og A-6.  Skv. athugasemdum Umhverfisstofnunar hafi verið gerðar verulegar athugasemdir við þessi efnistökusvæði.  Þó segi í áliti Skipulagsstofnunar á bls. 24:  „Skipulagsstofnun telur að tillögur Vegagerðarinnar um aðlögun leiða B/B2 og náma að landi ásamt verktilhögun og frágang muni ekki draga úr eða bæta fyrir þau neikvæðu áhrif sem munu hljótast af framkvæmdinni á jarðmyndanir, landslag, ásýnd svæðisins og verndargildi þess.“  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps sýnist að skv. þessu hafi Skipulagsstofnun verið búin að gefa sér niðurstöðu í málinu fyrirfram og annað en leið A hafi ekki verið til umræðu. 

Skipulagsstofnun taki sér, í áliti sínu á mati á umhverfisáhrifum nýs Dettifossvegar, það vald að kveða upp úr um hvort umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu ásættanleg eða ekki.  Fyrir slíkri niðurstöðu sé ekki lagastoð samkvæmt núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum.  Hlutverk stofnunarinnar samkvæmt 11. gr. laganna takmarkist við að gefa álit á matsskýrslu framkvæmdaraðila vegna mats á umhverfisáhrifum tiltekinnar framkvæmdar.  Jafnframt sé ámælisvert að Skipulagsstofnun skuli ekki í áliti sínu gera tillögur um mótvægisaðgerðir skv. leið B, telji hún þeirra þörf, eins og stofnuninni sé þó skylt skv. landslögum.

Í níunda lagi.
Skipulagsstofnun telji að Dettifossvegur skv. veglínu B, muni m.a. hafa neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins.  Það sé ljóst að fyrirhugaðar framkvæmdir muni breyta ásýnd svæðisins, hvort sem leið A eða B verði fyrir valinu.  Öll vegagerð breyti ásýnd landsins, en það hvort áhrif á ásýnd séu neikvæð byggi á afar huglægu mati og séu því veigalítil rök í þessu tilviki.

Sveitarstjórnarmenn hafi kynnt sér aðstæður á vettvangi og hafi styrkst í þeirri trú að veglína B væri æskilegri kostur en veglína A þar sem meginþorri leiðarinnar liggi um ógróið land, mela og hraun.  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps sé ekki þar með að gera lítið úr jarðfræðisögu svæðisins.  Í sömu ferð hafi einnig verið kannað hvort hægt væri að færa vegstæðið vestur fyrir flóðasetið, ef það mætti verða til þess að sátt næðist milli aðila, þ.e. Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar annars vegar og Vegagerðarinnar og Skútustaðahrepps hins vegar.  Unnin hafi verið tillaga þess efnis og lögð fyrir Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun sem hafi talið hana engu breyta í afstöðu sinni.  Það hljóti að koma mjög á óvart miðað við það vægi sem umræddum jarðfræðiminjum sé gefið.

Það sé engum betur ljóst en Mývetningum í hvers konar náttúruperlu þeir búi. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps geri sér vel ljósa þá ábyrgð sem felist í því að fara með skipulagsvald á svo viðkvæmu svæði.  Ekki sé hægt að einblína á ímyndaða framtíðarhagsmuni sem miði við að vegagerð feli í sér „stórtæka röskun af manna völdum“ en það séu þau rök sem færð séu fram gegn leið B.  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps telji að leið B sé jafngóður kostur og leið A út frá umhverfisverndarsjónarmiðum.  En þegar allt sé talið þá sé leið B betri kostur í stöðunni.  Með breytingu á lögunum um verndum Mývatns og Laxár nr. 97/2004 hafi sveitarstjórn Skútustaðahrepps talið að nú yrði fyrirkomulag skipulagsmála í sveitarfélaginu með sama hætti og í öðrum sveitarfélögum, þ.e. sveitarfélagið hefði skipulagsvaldið.  Ekki sé hægt við það að una ef svo sé ekki í reynd.  Að ganga gegn áliti Skipulagsstofnunar sé engin skyndiákvörðun af hálfu sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, en sveitarstjórn sé sannfærð um að sú ákvörðun sé rétt. 

Málsrök Vegagerðarinnar:  Af hálfu framkvæmdaleyfishafans, Vegagerðarinnar, er tekið fram að sótt hafi verið um leyfi fyrir framkvæmdum við veglínu B ásamt endurbyggingu bílastæðis við Dettifoss, lagningu 2,8 km langs vegar að því og gerð áningarstaðar.  Framkvæmdakafli sá er sótt hafi verið um leyfi fyrir sé samtals um 24 km langur.  Ennfremur hafi umsóknin náð til vinnslu 550.000 m³ jarðefnis til vegagerðar, þar af um 180.000 m³ úr skeringum við veg og 370.000 m³ úr námum.

Deilt sé um það hvort Dettifossvegur skuli lagður eftir veglínu A eða B að sunnan frá Hringvegi að stað nokkru sunnan við Dettifoss. Í umsókn um framkvæmdaleyfi komi fram að veglína A sé vegtæknilega ásættanleg en veglína B sé hins vegar mun betri kostur, bæði hvað varði vegtækni og kostnað.  Helst sé þar nefnt að veglína B liggi um snjóléttara svæði, landið sé jafnara og veghæð að jafnaði minni.  Þá sé undirstaða vegarins betri og hann liggi að mestu um ógróið land.  Leið B sé auk þess talin vera 50 milljónum króna ódýrari en leið A.  Af þessum sökum, og þar sem vilji sveitarstjórnar hafi staðið til lagningar vegarins samkvæmt veglínu B, hafi verið sótt um framkvæmdaleyfi til lagningar vegar samkvæmt þeirri veglínu.  Vísist nánar til matsskýrslu þar sem gerð sé frekari grein fyrir samanburði kosta um legu vegarins. 

Í kæru komi fram að SUNN sé ósammála rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir því að veita leyfi fyrir umræddri framkvæmd þrátt fyrir andstöðu Skipulagsstofnunar.  Vegagerðin telji að það sé á valdi sveitarstjórnar að meta og taka afstöðu til fyrirliggjandi mats á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið lögum samkvæmt.  Ennfremur sé vísað til og tekið undir framkomin sjónarmið lögmanns Skútustaðahrepps hvað varði valdsvið Skipulagsstofnunar samkvæmt núgildandi ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með breytingum samkvæmt lögum nr. 74/2005.

Fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu Dettifossvegar í samræmi við lög nr. 106/2000 með síðari breytingum.  Eins og fram komi í gögnum málsins sé það afstaða sveitarstjórnar að leggja beri umræddan vegarkafla skv. veglínu B.  Fyrir liggi skýr afstaða sveitarstjórnar sem og ítarlegur rökstuðningur fyrir henni, sbr. greinargerð, dags. 2. mars 2007.  Samkvæmt 29. gr. vegalaga nr. 45/1994 og ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, með síðari breytingum, fari sveitarstjórn með ákvörðunarvald um legu vega.  Lagning Dettifossvegar samkvæmt veglínu B sé talin í samræmi við staðfest svæðisskipulag miðhálendisins, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 26. apríl 2007.  Hið kærða framkvæmdaleyfi sé því í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingarlög sem og staðfest svæðisskipulag. 

Með hliðsjón af framangreindu sé það afstaða Vegagerðarinnar að ekki séu lagaleg rök til þess að fallast á kröfu kærenda um ógildingu framkvæmdaleyfis Skútustaðahrepps fyrir lagningu Dettifossvegar samkvæmt veglínu B.  Beri því að hafna kröfu kærenda. 

Athugasemd:  Úrskurðarnefndin tekur fram að aðilar málsins hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki þykir ástæða til að rekja.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Úrskurðarnefndin hefur ekki komið því við að kynna sér aðstæður á vettvangi við úrlausn máls þessa en fyrir nefndinni liggja ítarleg gögn, þar á meðal uppdrættir og ljósmyndir, og þykir því unnt að taka málið til úrlausnar þrátt fyrir að ekki hafi orðið af vettvangsferð. 

Niðurstaða:  Með lögum nr. 74/2005 voru gerðar umtalsverðar breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Var með þessum breytingum m.a. horfið frá því fyrirkomulagi sem áður var bundið í 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum að Skipulagsstofnun skyldi kveða upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum og taka með honum ákvörðun um hvort fallist væri á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, eða hvort lagst væri gegn henni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa.  Voru þess í stað sett ákvæði í 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 um að Skipulagsstofnun skuli gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Er áskilið í ákvæðinu að í áliti Skipulagsstofnunar skuli gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggi til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skuli í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem borist hafi við kynningu á frummatsskýrslu. 

Samhliða þessum breytingum var leitt í lög að við útgáfu leyfis til matsskyldra framkvæmda skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.  Sé um að ræða matsskylda framkvæmd sem háð er framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hvílir þessi skylda á sveitarstjórn sem leyfisveitanda.  Er ákvörðun sveitarstjórnar um leyfi til slíkrar matsskyldrar framkvæmdar kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála skv. 15. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. lög nr. 74/2005. 

Á málskot kæranda til úrskurðarnefndarinnar sér stoð í tilvitnuðu ákvæði, sbr. og 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í málinu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. apríl 2007 um að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar 1. áfanga Dettifossvegar eftir veglínu B.  Var sú ákvörðun í andstöðu við álit Skipulagsstofnunar sem taldi að veglína B væri ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra áhrifa á jarðmyndanir, landslag og ásýnd svæðisins og vegna þeirra samlegðaráhrifa á þessa umhverfisþætti sem veglínur B/B2 hefðu með Hólsfjallavegi austan Jökulsár á Fjöllum.

Rétt er að taka hér fram að í umsókn Vegagerðarinnar og við útgáfu hins umdeilda framkvæmdaleyfis var fallið frá áformum um lagningu vegar eftir veglínu B2 og áformum um sex efnistökusvæði og með því móti komið nokkuð til móts við sjónarmið Skipulagsstofnunar.  Virðist sem kærandi hafi ekki kynnt sér efni hinnar kærðu ákvörðunar til hlítar heldur byggir hann málatilbúnað sinn að hluta til beinlínis á því að nær ekkert tillit hafi verið tekið til álits stofnunarinnar og að einungis hafi verið fallist á að hlífa einu af fyrirhuguðum efnistökusvæðum.  Er sú staðhæfing bersýnilega röng og mun úrskurðarnefndin líta framhjá þessari rangfærslu við úrlausn málsins.

Í 3.-5. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eru í meginatriðum talin þau lagaskilyrði sem sveitarstjórn þarf að gæta þegar tekin er afstaða til umsóknar um leyfi til framkvæmdar sem háð er mati á umhverfisáhrifum.  Verður fyrst að þessum skilyrðum vikið en síðar hugað að öðrum lagaatriðum sem komið geta til álita við úrlausn málsins.

Fyrir liggur að Vegagerðin sótti skriflega um leyfi til framkvæmda við 1. áfanga Dettifossvegar eftir veglínu B, sem lýst er í matsskýrslu um framkvæmdina frá júní 2006.  Þessa matsskýrslu hafði Skipulagsstofnun metið fullnægjandi og kemur sú niðurstaða ekki til endurskoðunar hjá úrskurðarnefndinni.  Þá liggur og fyrir að í Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 er gert ráð fyrir umræddri framkvæmd og hefur úrskurðarnefndin, með úrskurði hinn 26. apríl 2007, metið það fullnægjandi grundvöll fyrirhugaðrar framkvæmdar í skipulagslegu tilliti.  Verður samkvæmt framansögðu að telja að fullnægt hafi verið skilyrðum 3. og 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga við afgreiðslu málsins.

Samkvæmt 5. mgr. nefndrar 27. gr. laganna skal sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu.  Verður ekki annað ráðið en að þessu skilyrði hafi einnig verið fullnægt með viðunandi hætti. 

Í tilvitnaðri 5. mgr. 27. gr. segir jafnframt að sveitarstjórn skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
 
Álit Skipulagsstofnunar er lögbundið álit.  Það er ekki bindandi fyrir sveitarstjórn en áskilið er að hún taki rökstudda afstöðu til álitsins við afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi.  Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 m.s.br. skal vera um að ræða rökstutt álit á því hvort matsskýrslan uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Í áliti Skipulagsstofnunar skal og gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem borist hafi við kynningu á frummatsskýrslu.

Samkvæmt því sem nú var rakið þarf álit Skipulagsstofnunar að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald.  Er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga að álitið fullnægi lagaskilyrðum.  Verður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi að þessu leyti enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Álit Skipulagsstofnunar í máli þessu er að dómi úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum.  Þarf nefndin að taka afstöðu til þess hvort þessir ágallar séu þess eðlis að líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á niðurstöðu sveitarstjórnar í málinu og þá um leið hvort hafna verði álitinu sem ófullnægjandi.  Verður einkum litið til 4. kafla álitsins við mat á gildi þess.  Nánast í upphafi kaflans segir svo:  „Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla Vegagerðarinnar hafi í meginatriðum uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar þau atriði sem getið er um í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.“  Telur úrskurðarnefndin að í þessu orðalagi sé gerður ótilgreindur fyrirvari um að matsskýrsla framkvæmdaraðila kunni í einhverjum efnum að vera ófullnægjandi.  Hvorki orðalag 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 né 24. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 þykja gefa tilefni til slíks fyrirvara.  Jafnframt þykir hér skorta á að fullnægt sé kröfu um rökstuðning. 

Þá segir nokkru síðar:  „Jarðmyndanir á svæðinu njóta verndar skv. náttúruverndarlögum og þar eru ummerki um stærstu jökulhlaup sem orðið hafa á jörðinni eftir síðasta jökulskeið.“  Virðist þessi staðhæfing vera reist á ódagsettri viðbótarumsögn Umhverfisstofnunar þar sem segir m.a: 

Vísað er í bréf frá Skipulagsstofnun dags. 25. apríl [2006] þar sem óskað er eftir frekari umsögn um námur við veglínur B.  Umhverfisstofnun bendir á að stofnunin hefur hafnað veglínum B vegna eftirfarandi ástæðna: … Veglínur B, B1 og B2 liggja mjög nálægt Jökulsá á Fjöllum, raska ummerkjum eftir hamfarahlaup (flóðaset) og raska eldhrauni sem runnið hefur á nútíma og nýtur sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Hamfarahlaupin í Jökulsá á Fjöllum eru stærstu hlaup sem orðið hafa á jörðinni eftir síðasta jökulskeið.  Ummerki þeirra eru mikilvægur hluti af landslagi umhverfis Jökulsár á Fjöllum og mikilvæg í jarðfræðilegu tilliti.“

Úrskurðarnefndin spurðist af þessu tilefni fyrir um gildi framangreindarar staðhæfingar um hamfarahlaupin í Jökulsá og um heimildir henni til stuðnings.  Með bréfi Umverfisstofnunar, dags. 12. febrúar 2008, voru nefndinni send gögn um hamfarahlaup en spurningu nefndarinnar um gildi fullyrðingarinnar var látið ósvarað.  Benda gögnin til þess að dæmi séu um að stærri jökulhlaup hafi orðið á jörðinni eftir síðasta jökulskeið en hlaupin í Jökulsá á Fjöllum og verður því ekki annað séð en að Skipulagsstofnunar hafi í áliti sínu ofmetið sérstöðu hamfarahlaupanna í Jökulsá.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar og að framan er lýst, verður ekki talið að álitið hafi verið ófullnægjandi eða að ágallar á því hafi verið líklegir til að breyta niðurstöðu sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um framkvæmdaleyfið.  Verður því að telja að skilyrði hafi verið til að taka fyrirliggjandi umsókn um framkvæmdaleyfi til afgreiðslu, svo sem gert var. 

Afstaða Skipulagsstofnunar til 1. áfanga nýs Dettifossvegar er alfarið byggð á því að lagning vegarins eftir veglínu B sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra áhrifa á jarðmyndanir, landslag og ásýnd svæðisins og vegna þeirra samlegðaráhrif á þessa umhverfisþætti sem veglínur B/B2 hafi með Hólsfjallavegi, austan Jökulsár á Fjöllum.  Hefur sveitarstjórn Skútustaðahrepps tekið afstöðu til álits Skipulagsstofnunar með ítarlegum rökstuðningi í níu liðum og verður að fallast á að afgreiðsla sveitarstjórnar og röksemdir fullnægi skilyrði 5. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga hvað þetta áhrærir.  Bendir sveitarstjórn þar m.a. á að fallið hafi verið frá áformum um veglínu B2 og um sex efnistökusvæði og þannig komið til móts við álit Skipulagsstofnunar.  Hafa Vegagerðin og sveitarstjórn með þessu móti að eigin frumkvæði gripið til aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sem úrskurðarnefndin telur að líta beri til við úrlausn málsin.

Sveitarstjórn Skútustaðarhrepps telur það léttvæg rök við val á vegstæði á umræddu svæði að vegur austan Jökulsár liggi nærri ánni á kafla.  Fellst úrskurðarnefndin á þau sjónarmið sveitarstjórnarinnar og bendir á að gera megi ráð fyrir að verulega dragi úr umferð austan ár um niðurgrafinn vegslóða eftir tilkomu uppbyggðs vegar með bundnu slitlagi vestan árinnar.  Einnig má benda á að unnt væri að upphefja þau samlegðararáhrif sem Skipulagsstofnun vísar til með því að loka veginum austan ár fyrir almennri umferð og er því ekki um óafturtæk áhrif að ræða. 

Ekki verður séð að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um friðlýsingu eða verndun umrædds svæðis er hefðu getað bundið hendur sveitarstjórnar við ákvörðun hennar í málinu.  Þá liggja fyrir málefnaleg rök, er ganga gegn áliti Skipulagsstofnunar um veglínu B, og varða þau vegtækni, framkvæmdakostnað, gróðurvernd o.fl., en á sum þessara atriða hefur ekki verði lagt mat í áliti Skipulagsstofnunar.  Var sveitarstjórn allt að einu rétt að líta til þessara atriða við ákvörðun sína í málinu. 

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 m.s.br. skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar áður en veitt er leyfi til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun jarðmyndana og vistkerfa skv. 1. mgr., en eldhraun á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði falla þar undir og bar því að gæta þessa ákvæðis við meðferð málsins.  Hins vegar verður að telja að ekki hafi borið nauðsyn til að sveitarstjórn aflaði sérstakrar umsagnar Umhverfisstofnunar við afgreiðslu umsóknar Vegagerðarinnar um margnefnt framkvæmdaleyfi þegar til þess er litið að fyrir lá umsögn Umhverfisstofnunar sem unnin var í tilefni af mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Þá verður ekki talið að sá annmarki að ekki hafi verið leitað umsagnar viðkomandi náttúruverndarnefndar í málinu eigi að leiða til ógildingar enda hafa engar athugasemdir komið fram þar að lútandi við ítarlega umfjöllun um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hafna beri kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Úrskurðarnefndin vill árétta að vald til ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfa samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er í höndum sveitastjórna að uppfylltum lagaskilyrðum og gildir þá einu hvort um er að ræða leyfi til framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum eða ekki.  Hafa hvorki Skipulagsstofnun né Umhverfisstofnun vald til þess að hafna einstökum framkvæmdakostum þótt áskilið sé að fyrir liggi álit, og eftir atvikum umsagnir, þessara stofnana þegar sveitarstjórnir fjalla um afgreiðslu umsókna um slík leyfi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem komið hefur til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. apríl 2007 um að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar 1. áfanga nýs Dettifossvegar frá hringveginum til norðurs í átt að Dettifossi eftir veglínu B. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________            _______________________________
                     Ásgeir Magnússon                                          Geir Oddsson                                     

 

____________________________           _____________________________
Geirharður Þorsteinsson                                Þorsteinn Þorsteinsson

88/2007 Eyrarstígur

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2007, kæra á samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði, samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á fundi bæjarráðs hinn 31. júlí 2007 var samþykkt nefndarinnar staðfest. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í málinu. 

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkra forsögu.  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarstíg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar að lóð nr. 2 við Eyrarstíg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að lóðarmörkunum.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 8. mars 2007 felldi byggingarleyfið úr gildi. 

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var á fundi umhverfismálaráðs hinn 25. júlí 2007 eftirfarandi fært til bókar:  „1. Samþykktir byggingarfulltrúa … Eyrarstígur 4, … sækir um leyfi til að byggja bílskúr við austurhlið hússins.  Liður 1 samþykktur.“  Var fundargerð umhverfismálaráðs samþykkt á fundi bæjarráðs hinn  31. júlí 2007. 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að vinna hefði átt deiliskipulag fyrir svæði það er um ræði áður en veitt var leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg eða að öðrum kosti að grenndarkynna áformin. 

Bent sé á að með byggingu fyrirhugaðs bílskúrs muni gluggar á húsi kærenda byrgjast þannig að útsýni og birta minnki.  Þá sé lítil fjarlægð frá lóðarmörkum Eyrarstígs 2 að hinum umdeilda bílskúr.  Einnig sé bent á eldhættu samfara bílskúrsbyggingunni.

Í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé talað um fjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa.  Kærendur eigi erfitt með að skilja greinina þannig að hún heimili að byggt sé fyrir glugga eldri húsa.  Þá hafi Brunamálastofnun ekki enn gefið út leiðbeiningar um útreikninga á bili milli húsa svo sem áskilið sé í reglugerðinni.  

Kærendur telji að stærð bílskúrsins standist ekki lög.  Í 113. gr. byggingarreglugerðar sé talað um að bílskúr eigi að jafnaði ekki að vera stærri en 36 fermetrar og vegghæð ekki meiri en 2,7 metrar, nema pláss leyfi annað.  Samkvæmt teikningum eigi bílskúrinn að vera 39,5 fermetrar að stærð og vegghæð hans 2,88 metrar, mesta hæð 3,51 metrar og mikið rými fyrir ofan hurð.  Hér hafi því verið lagt upp með teikningu sem ekki passi lóðinni að Eyrarstíg 4.  

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu Fjarðabyggðar er vísað til þess að umsókn byggingarleyfishafa hafi að mati byggingarfulltrúa uppfyllt öll skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, og hafi hún því verið samþykkt af umhverfismálaráði.  Engar útlitsbreytingar eða breytingar á staðsetningu bílskúrsins hafi verið gerðar frá fyrri umsókn sem kallað hafi á nýja eða endurtekna grenndarkynningu.  

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að stærð hins fyrirhugaða bílskúrs ráðist af staðsetningu hans og ætlaðri notkun enda segi í 113. gr. byggingarreglugerðar að bílskúrar skuli að jafnaði ekki vera stærri en 36 fermetrar og hafi mat á aðstæðum verið sett í hendur byggingarnefndar varðandi frávik frá reglunni.  Hæð veggja sé umdeilanleg en með þeirri hæð sem gert sé ráð fyrir náist hurðarop sem sé 2,5 metrar.  Þakhalli sé sá sami og á íbúðarhúsi, nálægt 13%, þannig að vandséð sé að bílskúrinn muni bera umhverfið ofurliði.  Gólfplata íbúðarhúss sé 30-40 cm yfir lóð en ekki sé fyrirhugað að lyfta bílskúr í þá hæð, þannig að efri brún veggjar verði að öllum líkindum neðar en efri brún veggja á íbúðarhúsinu. 

Umhverfismálaráð hafi skoðað málið vandlega á mörgum fundum og á vettvangi með tæknifólki sínu og hafi ekki talið ástæðu til að fetta fingur út í hönnun byggingarinnar.  Byggingarleyfið sé í samræmi við þá þróun sem verið hafi í sveitarfélaginu, þannig að bílskúrar innfluttra húsa sem byggðir hafi verið, séu yfir stærðarmörkum 113. gr. sem og nýbyggðir bílskúrar við eldri hús. 

Hin fyrirhugaða bílskúrsbygging sé staðsett þannig á lóð að áhrifa hennar gæti lítið á lífsgæði nágranna.  Þá hafi við hönnun fullt tillit verið tekið til ítrustu krafna um brunaþol þaks og veggja. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeir verði fyrir útsýnisskerðingu sé bent á að eina útsýnið sem þeir verði af sé bakgarður byggingarleyfishafa.  Gluggar á húsi kærenda er um ræði séu gegnt herbergisgluggum byggingarleyfishafa og vísi í vestur.  Skerðing verði ekki á sólarljósi fyrr en sólin sé komin norður fyrir vestur.  Þá sé degi farið að halla verulega, auk þess sem landfræðilegar aðstæður séu þess eðlis að sólargangur í vestri og norðan við vestur sé einungis yfir björtustu sumarmánuðina. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Þá segir í 2. mgr. sömu lagagreinar að framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Undantekningu frá þessum lagaskilyrðum er að finna í 3. mgr. 23. gr. sömu laga þar sem segir að þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir í þegar byggðum hverfum geti sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.

Samkvæmt framangreindu verður ekki veitt leyfi til byggingar hins umdeilda bílskúrs nema það eigi sér stoð í deiliskipulagi eða að undangenginni grenndarkynningu.

Enda þótt byggingaryfirvöld hafi áður látið fara fram grenndarkynningu vegna fyrri umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum skúr verður ekki talið að þeim hafi verið heimilt að vísa til hennar við undirbúning nýrrar ákvörðunar í málinu eftir að fyrri ákvörðun hafði verið felld úr gildi.  Er þá til þess litið að hin nýja ákvörðun var tekin með stoð í breyttu ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar og hefði því verið rétt að kynna kærendum fyrirætlun byggingaryfirvalda um veitingu leyfisins og gefa þeim þannig kost á að tjá sig um hinar breyttu aðstæður.  Var því ekki gætt réttrar aðferðar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærendur vísa og til þess að byggingarleyfið fyrir hinni umdeildu bílskúrsbyggingu fari gegn ákvæði greinar 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, bæði hvað varði hæð og gólfflatarmál.  Verður að telja að enda þótt tilvitnað ákvæði sé samkvæmt orðalagi sínu ekki ófrávíkjanlegt leiði af lokamálslið þess að byggingarnefnd geti aðeins heimilað stærri og hærri bílgeymslur en ákvæðið gerir ráð fyrir þar sem slíkt valdi ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæður leyfi að öðru leyti.  Þykir á skorta að sýnt hafi verið fram á að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt og var rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun því áfátt, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi og gerð hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að ógildingu varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 25. júlí 2007 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði, sem staðfest var í bæjarráði hinn 31. júlí 2007.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                  _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

90/2007 Hesteyri

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2007, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar frá 22. maí 2007 um breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Sauðárkróki er felur m.a. í sér sameiningu lóða nr. 2 við Hesteyri og nr. 3 við Vatneyri.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 5. júní 2007 um að veita leyfi til byggingar verkstæðishúss á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. ágúst 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Njarðargötu 29, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar frá 22. maí 2007 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Sauðarkróki.  Sveitarstjórn samþykkti fyrrgreinda ákvörðun á fundi sínum hinn 24. maí 2007.  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.  Jafnframt er þess krafist að leyfi frá 5. júní 2007 til byggingar verkstæðishúss á lóðinni verði fellt úr gildi.  Þá fór kærandi fram á að umræddar framkvæmdir á lóðinni yrðu stöðvaðar. 

Úrskurðarnefndin hefur tekið sérstaklega til athugunar álitaefni um lögvarða hagsmuni kæranda í máli þessu og aðild hans að því.  Af þeirri ástæðu hefur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda ekki verið tekin til sjálfstæðrar úrlausnar.  Er málið nú tekið til endanlegrar afgreiðslu.

Málavextir:  Á svæði því sem hin kærða deiliskipulagsbreyting varðar er í gildi deiliskipulag hafnarsvæðis sem samþykkt var á árinu 1995.  Samkvæmt greinargerð með hinni kærðu ákvörðun var árið 1975 byggt hús á lóðinni nr. 2 við Hesteyri fyrir rekstur útgerðar, skrifstofur og verkstæði og er þar nú starfrækt vélaverkstæði.  Á lóð nr. 3 við Vatneyri var fyrir hálfum öðrum áratug hins vegar byggður sökkull fyrir verksmiðju til pökkunar á vatni til útflutnings sem hefur nú verið fjarlægður.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar hinn 22. maí 2007 var tekin fyrir áður auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins er náði til fyrrgreindra lóða og opins svæðis á uppfyllingu neðan við Gránumóa við Hesteyri og Vatneyri og var tillagan samþykkt óbreytt.  Á fundinum kom jafnframt fram að borist hefðu athugasemdir við tillöguna frá kæranda máls þessa og þættu svör skipulags- og byggingarfulltrúa við þeim fullnægjandi.  Samþykkti sveitarstjórn Skagafjarðar fyrrgreinda tillögu að breyttu deiliskipulagi hafnarsvæðisins á fundi sínum hinn 24. maí 2007.  Felur breytingin í sér að lóð nr. 2 við Hesteyri er stækkuð þar sem lóð nr. 3 við Vatneyri er lögð undir hana.  Var jafnframt fyrirhugað að reisa á svæðinu byggingu fyrir bílaverkstæði og fleiri þjónustuþætti.  Var umsókn um leyfi til byggingar verkstæðishúss á lóðinni samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. júní 2007.  Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti fundargerð nefndarinnar á fundi sínum 7. júní 2007. 

Hefur kærandi skotið ofangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi, sem hefur skráð lögheimili við Aðalgötu 20 á Sauðárkróki,  bendir á að framkvæmdir við byggingu bílaverkstæðis séu hafnar og þær beri að stöðva þar sem ekki sé búið að staðfesta breytingu á deiliskipulagi svæðisins í B-deild Stjórnartíðinda.

Telji kærandi m.a. að með úthlutun lóðarinnar til reksturs bílaverkstæðis felist skipulagsslys sem eigi að afturkalla.  Með ólíkindum sé að sveitarstjórnarmenn sjái ekki þá meinbugi sem umrædd starfsemi muni hafi í för með sér á þessu svæði og bendi kærandi á að seint verði talið að þörf sé á hafnaraðstöðu í tengslum við rekstur bílaverkstæðis.

Málsrök sveitarfélagsins Skagafjarðar:  Sveitarfélagið tekur fram að markmið með breytingu á deiliskipulagi svæðisins hafi verið að fá fram lögformlegan grunn til að breyta mörkum lóðanna Hesteyrar 2 og Vatneyrar 3 svo að starfsemi á svæðinu geti þróast.  Framkvæmdir við byggingu húss á lóðinni hafi verið heimilaðar að fenginni brunatæknilegri hönnun byggingarinnar, skriflegri umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra og á grundvelli svarbréfs Skipulagsstofnunar frá 29. júní 2007.  Þá sé því mótmælt að kærandi máls þessa geti talist aðili að málinu enda vandséð með hvaða hætti deiliskipulagsbreytingin geti skaðað hagsmuni hans eða haft áhrif á þá.

Niðurstaða:  Kærandi mun vera búsettur í Reykjavík en hefur skráð lögheimili að Aðalgötu 20 á Sauðárkróki.  Er sú fasteign í talsverðri fjarlægð frá lóðum þeim sem hin kærða ákvörðun tekur til.  Þegar litið er til þessarar fjarlægðar og innbyrðis afstöðu umræddra eigna verður hvorki séð að breyting sú á deiliskipulagi hafnarsvæðisins, sem samþykkt var á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. maí 2007, né framkvæmdir þær er heimilaðar voru á lóðinni með samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 5. júní 2007, raski til muna lögvörðum rétti kæranda.  Verður hann því ekki talinn eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________              _________________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

17/2008 Ánanaust

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2008, kæra á útgáfu skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 4. febrúar 2008 á framkvæmdaleyfi fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum í Reykjavík með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. mars 2008, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir E, Vesturgötu 73, Reykjavík, fyrir sína hönd, annarra íbúa í hverfinu og húsfélagsins að Vesturgötu 69-75, útgáfu skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 4. febrúar 2008 á framkvæmdaleyfi fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum í Reykjavík, með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi en að öðrum kosti að framkvæmdir verði stöðvaðar ef til þeirra komi.

Í málinu liggur ekki fyrir umboð íbúa hverfisins eða húsfélagsins að Vesturgötu 69-75 til að kæra umdeilda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og verður því litið svo á að aðild málsins sé á hendi kæranda persónulega. 

Málsatvik og rök:  Hinn 13. júní 2007 var lagt fram á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs borgarinnar, dags. 10. júní 2007, þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi til að koma fyrir út frá Ánanaustum allt að þriggja hektara landfyllingu með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.  Var afgreiðslu erindisins frestað en það hlaut síðan samþykki ráðsins á fundi hinn 20. júní 2007.  Var þeirri ákvörðun skotið til úrskuðarnefndarinnar sem vísaði kærumálinu frá hinn 14. desember 2007 þar sem ekki var talið að kærandi í því máli hefði einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, sem er skilyrði kæruaðildar að stjórnsýslurétti.  Hinn 4. febrúar 2008 var leyfisbréf vegna umræddrar framkvæmdar gefið út í umboði skipulagsstjóra Reykjavíkur með stoð í samþykkt skipulagsráðs um veitingu leyfisins frá 20. júní 2007.  Hefur kærandi nú skotið þessari útgáfu framkvæmdaleyfisins til úrskurðarnefndarinnar.

Vísar kærandi til bréfs til borgarráðs frá 27. febrúar 2008 með tilmælum um að framkvæmdaleyfið frá 4. febrúar 2008 yrði afturkallað og fallið frá umræddri framkvæmd.  Framkvæmdin snerti grenndarhagsmuni íbúa á svæðinu enda fylgi fyrirhuguðum flutningi á 300.000 rúmmetrum jarðvegs mikill hávaði og rykmengun.  Ógildingarkrafa kæranda byggi m.a. á 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjalli um framkvæmdaleyfi, en álit Skipulagsstofnunar hafi ekki legið fyrir er leyfið hafi verið gefið út.  Jarðvegur sem nota eigi við landfyllinguna sé talinn mengaður og snerti framkvæmdin að því leyti grenndarhagsmuni íbúa með ríkum hætti.  Sé hún ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur og brjóti í bága við lög um mat á umhverfisáhrifum og sé vísað í því sambandi til bréfa Skipulagsstofnunar til borgaryfirvalda, dags. 26. september 2007 og 11. febrúar 2008.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram í fyrra kærumáli um fyrrgreinda framkvæmd að ástæða fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi vegna landfyllingar við Ánanaust sé sú staðreynd að mikið efni komi upp úr grunni vegna byggingar tónlistarhúss við Geirsgötu.  Sé litið til umhverfisáhrifa verði að telja þetta hagkvæmustu lausnina við að losna við efnið jafnframt því að leyst yrði vandamál vegna ágangs sjávar við Ánanaust.  Efnið sem um ræði sé gömul landfylling sem sjór hafi leikið um í áraraðir, en sjávarfalla hafi gætt langt inn í hana. 

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé gert ráð fyrir um 35 hektara landfyllingu við Ánanaust.  Skilgreind landnotkun á fyllingunni sé blönduð byggð og í fyrstu töflu í greinargerð I í skipulaginu segi að þessi uppbygging verði á tímabilinu 2012 til 2024.  Í neðanmálsgrein í sömu töflu segi enn fremur:  „Meginhluti uppbyggingar viðkomandi svæðis fari fram á tilgreindu tímabili.  Nauðsynlegur undirbúningur vegna uppbyggingar á einstökum svæðum, s.s. landfyllingar, getur hafist mun fyrr.  Gert er ráð fyrir að landfylling fyrir framhaldsskóla við Ánanaust verði gerð fyrir 2012.“  Fyrirhuguð framkvæmd fari því ekki í bága við aðalskipulag.  Heildarskipulag svæðisins verði unnið í samráði við íbúa og umhverfismat framkvæmt áður en til uppbyggingar komi á væntanlegri landfyllingu samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Hin heimilaða þriggja hektara landfylling sé ekki tilkynningarskyld eða matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. 

Um sé að ræða afturkræfa framkvæmd en ekki verði ráðist í frekari landfyllingu á svæðinu eða framkvæmdir fyrr en að uppfylltum skilyrðum aðalskipulags Reykjavíkurborgar varðandi fyrirhugaða 35 hektara landfyllingu á svæðinu.

Niðurstaða:  Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er framkvæmdaleyfi skilgreint sem leyfi sveitarstjórnar til framkvæmda sem ekki eru háðar ákvæðum IV. kafla skipulags- og byggingarlaga um byggingarleyfi.  Þá kemur fram í gr. 9.3 í greindri reglugerð að gefa megi út framkvæmdaleyfi þegar sveitarstjórn hafi staðfest samþykkt skipulagsnefndar um veitingu þess.  Ákvörðun sveitarstjórna um veitingu framkvæmdaleyfis er endanleg stjórnvaldsákvörðun í því efni og er unnt að skjóta henni til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Hinn 20. júní 2007 tók skipulagsráð Reykjavíkur lokaákvörðun um veitingu umdeilds framkvæmdaleyfis á grundvelli c- liðar 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð, er staðfest var í borgarstjórn hinn 5. apríl 2005.  Í nefndri grein er skipulagsráði falin lokaákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfa skv. 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga með stoð í 2. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 svo sem henni var breytt með lögum nr. 74/2003.  Eins og fyrr var að vikið var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá á grundvelli aðildarskorts.

Sú embættisathöfn, sem gerð var í umboði skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar, að gefa út framkvæmdaleyfisbréf hinn 4. febrúar 2008 fyrir umdeildri landfyllingu, er gerð með stoð í fyrrgreindri ákvörðun skipulagsráðs.  Hún felur því ekki í sér sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar og markar ekki nýjan kærufrest vegna umdeilds framkvæmdaleyfis frá árinu 2007, sem telja verður að hafi verið löngu liðinn er kæra í máli þessu barst.  Verður kærumáli þessu samkvæmt framansögðu vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

     

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________        ______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

65/2007 Laugar

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 65/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi hluta úr landi Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Björn Þ. Guðmundsson hdl., f.h. S og K, eigenda 2/3 hluta fasteignarinnar Varmahlíðar í Reykjadal, Þingeyjarsveit, samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi hluta lands Laugaskóla í Reykjadal. 

Þriðji eigandi Varmahlíðar, H, bróðir kærenda, leggst ekki gegn kæru þessari.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þá setja og kærendur fram kröfu um greiðslu málskostnaðar.
 
Í kæru kemur fram að hún sé sett fram til að rjúfa kærufrest og frekari rök boðuð síðar. 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til lögmanns kærenda, dags. 30. júlí 2007, var bent á að svo virtist sem hin kærða ákvörðun hefði ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og væri því ekki kæranleg til nefndarinnar.  

Með bréfi lögmanns kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. ágúst 2007, óskaði hann þess að litið yrði á erindi hans sem nýja kæru þar sem nú lægi fyrir að umrædd ákvörðun hefði verið birt hinn 3. ágúst 2007.  Var þess jafnframt farið á leit að kærumálið yrði ekki tekið fyrir fyrr en frekari greinargerð bærist nefndinni.  Barst úrskurðarnefndinni erindi frá lögmanninum hinn 27. ágúst 2007 þar sem sett voru fram rök kærenda í málinu. 

Ekki hafa verið hafnar neinar framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar og ekki hefur komið fram að þær séu yfirvofandi.  Hafa því ekki verið skilyrði til að úrskurða til bráðabirgða um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  

Málavextir:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Þingeyjarsveitar hinn 29. mars 2007 var eftirfarandi fært til bókar í tilefni af tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem gerð hafði verið á árinu 2001 fyrir hluta af landi Laugaskóla í Reykjadal:  „Breyting á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum.  Erindið er samþykkt eins og það kemur fyrir á teikningu … Sá fyrirvari er gerður á samþykkt erindisins að sveitarfélagið sjái ekki um gatnagerð á svæðinu nema sérstaklega sé um það samið.“  Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hinn 12. apríl 2007 var m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 29. mars.  Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu nefndarinnar á liðum 1 til 3 og felur sveitarstjóra að afla gagna, þar sem það á við, og auglýsa … breytingar á deiliskipulagi … við Framhaldsskólann á Laugum í samræmi við fyrirmæli í lögum.“  Í auglýsingu er birtist um tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla sagði m.a:  „Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar, samþykkti á fundi sínum þann 12. apríl 2007, að auglýsa til kynningar tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla, Reykjadal, skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum.  Um er að ræða breytingu þar sem tvær nýjar lóðir fyrir einbýlishús (B8 og B9) eru skipulagðar.“  Gerðu kærendur athugasemdir við tillöguna er aðallega lutu að grenndarsjónarmiðum. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 18. júní 2007 var eftirfarandi fært til bókar:

„Breyting á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum.  Breytingartillagan var send til birtingar í Lögbirtingarblaðinu 25. apríl (útgáfud. 30. apríl).  Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl og í Hlaupastelpunni 2. maí.  Frestur til að gera athugasemdir rann út  12. júní og barst ein athugasemd frá eigendum Varmahlíðar … Athugasemdin gengur út á að verði tvær nýjar lóðir skipulagðar á því svæði sem um ræðir muni það rýra verulega gildi lóðar og húss Varmahlíðar sem hefur staðið í rúm 70 ár.  Þá er rætt um að svipmót byggðarinnar muni gjörbreytast með húsbyggingum á umræddu svæði og útsýni frá Varmahlíð muni skerðast.  Þá nefna eigendurnir að fullyrt hafi verið þegar húsin merkt B5 og B6 voru byggð að ekki yrði byggt ofar í landi Laugaskóla. 

Vandséð er að gildi lóðar og húss Varmahlíðar rýrni við það að skipulagðar verði tvær nýjar lóðir og byggð á þeim einlyft hús, þar sem gólfkóti verður um 8 m lægri en í Varmahlíð.  Þá er byggingareitur a.m.k. 8 m frá lóðarmörkum.  Ekki verður hjá því komist að bygging tveggja einbýlishúsa breyti ásýnd og umhverfi.  Ugglaust mun útsýni skerðast eitthvað frá því sem nú er úr Varmahlíð, en slíkt hefur gerst á umliðnum árum m.a. með skógrækt. … Nefndin mælist til að sveitarstjórn staðfesti deiliskipulagsbreytinguna óbreytta og auglýsi hana í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni athugun Skipulagsstofnunar.“ 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 21. júní 2007 var framangreind tillaga umhverfis- og skipulagsnefndar samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Sveitarstjórn samþykkir tillöguna að breytingu á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum samhljóða og felur sveitarstjóra að sjá um gildistöku hennar.“ 

Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra, dags. 5. júlí 2007, segir m.a. eftirfarandi:

„Vísað er til erindis Þingeyjarsveitar, dags. 22. júní 2007, þar sem breyting á deiliskipulagi í landi Laugaskóla, Reykjadal, er send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn 21. júní 2007 ásamt umsögn sveitastjóra um framkomnar athugasemdir, dags. 10. júní.  Málsmeðferð var skv. 1. mgr. 26 gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Breytingin felst í að bætt er við tveimur nýjum lóðum fyrir einbýlishús.  Ekki er til svæðis- eða aðalskipulag fyrir svæðið. 

Deiliskipulagsbreytingin er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:1000, dags. 8. mars 2007, og er greinargerð á uppdrætti. 

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og telur að áður en birt verði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þurfi sveitarstjórn að gera grein fyrir því hvernig gert er ráð fyrir þróun á Laugaskólasvæðinu í tillögu að aðalskipulagi Þingeyjarsveitar.  Ljóst þarf að vera að deiliskipulag þetta sé í samræmi við stefnu aðalskipulagsins sem nú er í vinnslu.  Stofnunin bendir jafnframt á að leita þarf umsagnar Fornleifaverndar varðandi fornleifar og einnig vantar yfirlitsmynd eða útdrátt úr landakorti til glöggvunar á staðsetningu svæðisins.“ 

Í bréfi sveitarstjóra til Skipulagsstofnunar, dags. 30. júlí 2007, segir m.a. eftirfarandi: 

„Eins og fram kemur í bréfi yðar er unnið að gerð aðalskipulags í Þingeyjarsveit.  Af ýmsum ástæðum hefur vinnan tekið lengri tíma en vonir stóðu til.  Eigi að síður er ljóst að á Laugaskólasvæðinu verða stofnanir (skóla- og íþróttamannvirki) sem og íbúðarhús eins og eru á svæðinu nú.  Á því svæði sem breytingin á deiliskipulaginu tekur til, hljóta að verða íbúðarhús enda íbúðarhús allt um  kring. 

Sveitarstjórn hefur í raun, þ.e. við deiliskipulagsgerð árið 2000/2001 markað þá stefnu og núverandi sveitarstjórn einnig með samþykkt þeirrar breytingar á deiliskipulaginu sem um ræðir.“

Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra, dags. 10. ágúst 2007, segir m.a. eftirfarandi: 

„Með bréfi Þingeyjarsveitar, dags. 30. júlí 2007, er gerð grein fyrir ofangreindum athugasemdum stofnunarinnar og gerir Skipulagsstofnun ráð fyrir því að mörkuð verði stefna um framtíð Laugaskólasvæðisins í aðalskipulagi því sem nú er í vinnslu. 

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og gerir ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.“

Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingar fyrir hluta úr landi Laugaskóla birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. ágúst 2007. 

Skutu kærendur ákvörðuninni um deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekki liggi fyrir aðalskipulag Þingeyjarsveitar og þ.m.t. þess svæðis er hin kærða ákvörðun taki til.  Deiliskipulagsbreytingin sé það veruleg að hún sé aðalskipulagsskyld og raunar viðurkenni sveitarstjórn að svo sé með tilvísun til 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Þá sé bent á að sveitarstjórn hafi ekki sent kærendum svör við athugasemdum þeim er settar hafi verið fram á auglýsingartíma tillögunnar, sbr. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Málsrök Þingeyjarsveitar:  Af hálfu sveitarstjórnar er látið nægja að vísa í fyrirliggjandi gögn í málinu. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi breytingar á deiliskipulagi er sett var á árinu 2001 fyrir hluta úr landi Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit.  Felur breytingin það í sér að aukið er við áður deiliskipulagt svæði og tveimur byggingarlóðum fyrir einbýlishús komið fyrir við suðausturhorn þess, utan marka hins fyrra deiliskipulags.  Aðkomuvegur að þessum lóðum liggur við suðausturhorn fyrra skipulagssvæðis, og að hluta til innan marka þess, en engar aðrar breytingar er að sjá innan marka fyrra skipulags.  Fram kom í auglýsingu sveitarstjórnar á tillögu að umræddri skipulagsbreytingu, að málsmeðferð væri í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þar segir að ákveði sveitarstjórn að breyta deiliskipulagi skuli fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal deiliskipulag gert á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sveitarstjórn getur þó, samkvæmt 3. tl. ákvæða til bráðabirgða með skipulags- og byggingarlögum, auglýst tillögu að deiliskipulagi að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag.

Fyrir liggur að hvorki er til staðar staðfest aðalskipulag Þingeyjarsveitar né svæðisskipulag umrædds svæðis.  Ekki voru því skilyrði til þess að gera deiliskipulag með stoð í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga fyrir það svæði, sem aukið var við áður deiliskipulagt svæði, með hinni kærðu ákvörðun.  Ekki hefur heldur komið fram að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður og að telja að afmörkun hins nýja deiliskipulagssvæðis hafi ekki verið í samræmi við ákvæði um deiliskipulag í gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Loks verður ekki séð að athugasemdum kærenda hafi verið svarað af hálfu sveitarstjórnar svo sem áskilið er í 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 
 
Samkvæmt því sem að framan er rakið var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar áfátt  og að auki skorti hana viðhlítandi lagastoð.  Verður hún því felld úr gildi.  

Kærendur hafa í máli þessu gert kröfu um kærumálskostnað.  Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eru markaðar í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga en þar er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til að úrskurða um kærumálskostnað á hendur málsaðilum.  Verður ekki talið að unnt sé að úrskurða um slíkan kostnað án beinnar lagastoðar og styðst sú ályktun við lögmætisreglu íslensks stjórnarfars- og stjórnskipunarréttar, en hún felur m.a. í sér að hver sú athöfn stjórnvalda sem leggur skyldur á herðar einstaklingum verði að eiga sér ótvíræða lagastoð.  Verður kröfu kærenda um kærumálskostnað af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytt deiliskipulag hluta lands Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit, er felld úr gildi. 

Kröfu kærenda um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________    ____________________________
               Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson

34/2007 Langabrekka

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 3. apríl 2007 um að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. apríl 2007, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 3. apríl 2007 að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku.

Er þess krafist að ofangreind afgreiðsla skipulagsnefndar verði ógilt.  Ennfremur er gerð krafa um að úrskurðað verði að leyfi til stækkunar bílskúrs skuli veitt á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
 
Málavextir:  Á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku stendur tvíbýlishús ásamt bílskúr.  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 16. janúar 2007 var tekið fyrir erindi kæranda um stækkun bílageymslu til suðurs þannig að fjarlægð frá lóðarmörkum yrði einn metri.  Samþykkt var að grenndarkynna málið og var það kynnt lóðarhöfum að Löngubrekku 1, 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63 sem breytt deiliskipulag skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Athugasemdir bárust frá lóðarhöfum að Álfhólsvegi 61 en sú lóð liggur að lóð kæranda.

Hinn 6. mars 2007 var erindið lagt fram að nýju á fundi skipulagsnefndar, ásamt framkomnum athugasemdum, afgreiðslu frestað og bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn um innsendar athugasemdir.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 20. mars s.á. var erindið tekið fyrir á ný ásamt umsögn bæjarskipulags þar sem lagt var til að tillaga að stækkun bílageymslu yrði samþykkt.  Var afgreiðslu málsins frestað.  Hinn 3. apríl 2007 var erindið enn á ný lagt fyrir í skipulagsnefnd og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Skipulagsnefnd telur að núverandi bílgeymsla 80,4 m² sé hæfileg að stærð miðað við aðstæður og hafnar erindi um stækkun bílgeymslu um 15 m² á grundvelli athugasemda.“  Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 4. apríl s.á.

Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsnefndar, dags. 3. apríl 2007, til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að umsókn hans um stækkun bílskúrs, dags. í febrúar 2006, hafi verið hafnað með vísan til 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sem nú hafi verið breytt.  Í ljósi þess, og að höfðu samráði við skipulagsstjóra Kópavogs, hafi aftur verið sótt um stækkun bílskúrs.  Bæjarskipulag Kópavogs hafi lagt til að tillagan yrði samþykkt óbreytt en engu að síður hafi skipulagsnefnd hafnað umsókn kæranda.  Bent sé á að allir lóðarhafar á svæðinu hafi fengið að byggja bílskúr að lóðamörkum við Álfhólsveg og gæta beri jafnræðis.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Þess er aðallega krafist að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum verði hafnað. 

Byggingarnefnd beri að afgreiða mál að lokinni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsnefndar skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 en byggingarnefnd hafi enn ekki afgreitt umsókn lóðarhafa þar sem hann hafi ekki lagt fram fullnægjandi hönnunargögn.  Hin kærða ákvörðun feli ekki í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og sú staðreynd, að fram komi í fundargerð bæjarráðs að ráðið samþykki umfjöllun og tillögu skipulagsnefndar, hafi enga þýðingu að lögum þar sem umfjöllun skipulagsnefndar skuli vísa til byggingarnefndar til afgreiðslu.  Þar sem málið hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu byggingarnefndar beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.  Ranglega hafi verið vísað til ákvæða 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 við kynningu umsóknar en rétt sé að um hafi verið að ræða málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. sömu laga, þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið og hafi öll meðferð málsins borið þess merki.

Varakrafa bæjarins sé á því byggð að umfjöllun skipulagsnefndar við grenndarkynningu hafi verið réttmæt og í samræmi við 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 sem og ákvæði stjórnsýslulaga.  Mótmælt sé að rétti kæranda hafi verið hallað með vísan til jafnræðisreglu.  Vísað sé til þess að ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eigi ekki við líkt og í fyrri ákvörðun nefndarinnar. 

Bílageymsla kæranda sé mjög stór og ekki hafi verið unnt að fallast á umsótta breytingu þar sem ekki yrði séð hvaða rök, sjónarmið, þörf eða nauðsyn lægju að baki stækkuninni sem réttlæta ættu og kæmu til móts við þau neikvæðu grenndaráhrif sem hún hefði.

Andmæli kæranda við málsrökum Kópavogsbæjar:  Kærandi tekur m.a. fram að í bréfi, dags. 12. apríl 2007, þar sem honum hafi verið tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar, hafi verið vakin athygli á því að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Svo hafi einnig verið í bréfi skipulagsstjóra Kópavogs til kæranda, dags. 3. maí s.á., vegna sama máls. 

Síðan sé gerð krafa um frávísun málsins og velti kærandi fyrir sér hvort embættismenn Kópavogsbæjar séu að hæðast að honum og hafa hann að fífli.  Bendi kærandi á að það hafi varla verið ætlan löggjafans að umsækjandi um byggingarleyfi verði að stofna til kostnaðar við hönnun byggingar, sem hafnað hafi verið af skipulagsnefnd, til þess eins að fá málið tekið fyrir af úrskurðarnefnd.  Tæplega geti byggingarnefnd samþykkt teikningu sem hafnað hafi verið af skipulagsnefnd. 

Umsókn hafi verið hafnað á grundvelli innsendra athugasemda en ekki tilgreint til hvaða athugasemda væri vísað.  Þá bendi kærandi á að engin tilraun hafi verið gerð til að kalla eftir „rökum, sjónarmiðum, þörf eða nauðsyn“ fyrir stækkun bílageymslunnar.  Bílageymslur á öðrum lóðum á svæðinu séu upp við lóðarmörk og hér sé um jafnræðissjónarmið að ræða.  Jafnframt sé því andmælt að stækkun bílageymslunnar muni hafa neikvæð grenndaráhrif gagnvart lóðinni að Álfhólsvegi 61.

Niðurstaða:  Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi.  Ekki er í gildi deiliskipulag að svæðinu.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókn kæranda.  Gildir einu þótt það hafi verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn, enda bar nefndinni þá að kynningu lokinni að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin var. 

Fundargerð skipulagsnefndar frá 3. apríl 2007 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 4. apríl 2007 en engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindinu eða samþykkja það.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs.  Var þannig ekki bundinn endi á málið með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar.

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um leyfi til stækkunar bílskúrs að Löngubrekku 5 ekki hlotið lögboðna meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________   
 Hjalti Steinþórsson     

 

____________________________               ___________________________    
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ásgeir Magnússon

97/2006 Langabrekka

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 20. júní 2006 um að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóð nr. 5 við Löngubrekku.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. ágúst 2006, er barst nefndinni 17. sama mánaðar, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 20. júní 2006 að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóð nr. 5 við Löngubrekku í Kópavogi.

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði ógilt og að úrskurðað verði að leyfið skuli veitt á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Málavextir:  Á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 7. mars 2006 var lagt fram erindi kæranda um leyfi til að stækka bílskúr á lóð hans.  Var afgreiðslu málsins frestað og óskað eftir umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs bæjarins.

Hinn 4. apríl 2006 var erindið tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd og samþykkt að kynna málið fyrir lóðarhöfum að Löngubrekku 3 og 7 og Álfhólsvegi 59, 61 og 63. Athugasemdir bárust frá lóðarhöfum Álfhólsvegar 61 og á fundi skipulagsnefndar hinn 20. júní 2006 var umsókninni hafnað á grundvelli umsagnar bæjarskipulags sem taldi ljóst að þinglýst samþykki nágranna fyrir byggingu bílskúrs að lóðamörkum myndi ekki fást.  Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 22. júní s.á.

Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsnefndar frá 20. júní 2006 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Í kæru er vikið að ástæðum þess hversu seint kæra er fram komin og m.a. bent á að í engu sé getið um kærufrest í bréfi skipulagsstjóra þar sem fyrrgreind ákvörðun skipulagsnefndar hafi verið tilkynnt kæranda.

Kærandi bendi á að á umræddu svæði sé ekki í gildi deiliskipulag og því verði að líta til „ríkjandi skipulags“ svæðisins við ákvörðun um veitingu byggingarleyfa en bílskúrar við Löngubrekku og Álfhólsveg séu í nær öllum tilvikum upp við lóðamörk.  Sé þess krafist að jafnræðis sé gætt við úthlutun byggingarleyfa og bent á að veitt hafi verið leyfi til byggingar bílskúrs á Álfhólsvegi 61 við lóðarmörk.  Þá sé bent á að í gr. 75.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segi að ákveða megi í skipulagi að fjarlægð húss frá lóðarmörkum geti verið minni en tilskilin sé í gr. 75.1 í reglugerðinni.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella hafnað.  Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um samþykkt þá sem hann kæri.  Kæranda hafi verið tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 28. júní 2006, en kæra hafi ekki borist fyrr en tveimur mánuðum síðar og kærufrestur því liðinn.

Kópavogsbær byggi varakröfu sína aðallega á því að ákvörðun skipulagsnefndar hafi verið lögmæt og réttmæt.  Ljóst sé að bílageymsla sú sem óskað hafi verið eftir að stækka sé mjög stór.  Tillögunni hafi verið hafnað á grundvelli innsendra athugasemda og einnig með vísan til þess að nefndin hafi talið stærð núverandi bílageymslu hæfilega miðað við aðstæður.  Ekki hafi verið unnt að fallast á breytinguna þar sem ekki yrði séð hvaða rök, sjónarmið, þörf eða nauðsyn lægju að baki stækkuninni sem réttlæta ættu hana og kæmu til móts við þau neikvæðu grenndaráhrif sem hún hefði.

Niðurstaða: Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi.  Ekki er í gildi deiliskipulag að svæðinu. 

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókn kæranda.  Gildir einu þótt það hafi verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn, enda bar nefndinni þá, að kynningu lokinni, að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með efnislegri afgreiðslu svo sem raunin varð.

Fundargerð skipulagsnefndar frá 20. júní 2006 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 22. júní 2006 en engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindinu eða samþykkja það.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs.  Var þannig ekki bundinn endi á málið með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar.   

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um leyfi til stækkunar bílskúrs að Löngubrekku 5 ekki hlotið lögboðna meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

  ___________________________    
 Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________         _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

 

 

66/2006 Álfhólsvegur

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2006, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. nóvember 2006 um að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. desember 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá afgreiðslu byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. nóvember 2006 að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum.

Kærandi krefst þess jafnframt að byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr verði úrskurðað ólöglegt og að þar af leiðandi beri að fjarlægja hann.

Málavextir:  Á lóðinni að Álfhólsvegi 61 í Kópavogi stendur einbýlishús og bílskúr og liggur lóð kæranda að þeirri lóð.

Hinn 20. júní 2006 var erindi kæranda, um stækkun bílskúrs á lóð hans, hafnað með þeim rökum að ljóst teldist að þinglýst samþykki lóðarhafa að Álfhólsvegi 61 um byggingu bílskúrs að lóðamörkum fengist ekki.  Í kjölfarið gerðist það að kærandi óskaði skýringa á því í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 3. júlí 2006, hvers vegna veitt hefði verið leyfi fyrir byggingu bílskúrs að Álfhólsvegi 61 árið 1998, um 30 cm frá mörkum lóðar kæranda, án þinglýsts samþykkis hans og án undangenginnar grenndarkynningar.  Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína í tölvupósti, dags. 8. ágúst s.á.

Í svarbréfi Kópavogsbæjar, dags. 24. október 2006, var beiðni kæranda um rökstuðning hafnað þar sem frestur til að óska eftir rökstuðningi ákvörðunar væri liðinn samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ákvæðið kvæði á um að beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skyldi bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðun.  Andmælti kærandi því með bréfi, dags. 15. nóvember s.á., að honum hefði verið tilkynnt um ákvörðunina.  Með bréfinu krafðist kærandi þess jafnframt að umþrætt bílskúrsbygging yrði fjarlægð eða færð minnst þrjá metra frá lóðamörkum og lækkuð til samræmis við aðrar næstu bílskúrsbyggingar við Álfhólsveg.

Í svari embættis byggingarfulltrúa, dags. 28. nóvember 2006, var vísað til yfirlýsingar sem undirrituð hefði verið af hálfu kæranda hinn 24. júní 1998.  Þar hafi komið fram að kæranda hefðu verið kynntar teikningar að umræddum bílskúr og að engar athugasemdir hefðu verið gerðar.  Þá sagði svo:  „Í ljósi þess að ekki hefur verið sýnt fram á að ákvörðun um útgáfu framangreinds byggingarleyfis hafi verið haldin annmörkum er kröfu yðar um niðurrif hafnað.“  Jafnframt var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.

Hefur kærandi skotið fyrrgreindri synjun, dags. 28. nóvember 2006, til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að þegar byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir byggingu umrædds bílskúrs hafi hvorki skipulags- né byggingarnefnd fjallað um umsókn og engin grenndarkynning farið fram líkt og kveðið sé á um í gr. 12.5 byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá hafi kæranda verið synjað um byggingarleyfi á grundvelli þess að skort hafi þinglýst samþykki lóðarhafa nágrannalóðar en ekki hafi þurft samskonar þinglýst samþykki við útgáfu hins kærða byggingarleyfis og því hafi jafnræðis ekki verið gætt.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá.  Kærufrestur sé samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út í ágúst 1998 og kæra því allt of seint fram komin.

Til vara sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað þar sem ákvörðun sveitarstjórnar um veitingu byggingarleyfis hafi verið lögmæt.  Jafnframt sé bent á að í gögnum málsins liggi fyrir undirskrift kæranda við grenndarkynningu þar sem hann samþykki að bílskúrinn verði reistur.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð sú niðurstaða byggingarfulltrúa frá 28. nóvember 2006 að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum og þar af leiði að synja beri kröfu kæranda um að bílskúrinn verði fjarlægður eða færður frá lóðamörkum og lækkaður. 

Þá krefst kærandi þess jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni að byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr verði úrskurðað ólöglegt og að þar af leiðandi beri að fjarlægja hann.

Hin kærða afstaða byggingarfulltrúa frá 28. nóvember 2006 kemur fram í bréfi til kæranda og er svar við erindi sem skilja verður svo að krafist hafi verið íhlutunar byggingaryfirvalda og beitingar þvingunarúrræða.  Hefði afgreiðsla slíks erindis þurft að koma til kasta bæjarstjórnar og verður svar byggingarfulltrúa ekki talið fela í sér ákvörðun sem bindi enda á meðferð máls.  Sætir hin umdeilda afgreiðsla byggingarfulltrúa því ekki kæru, skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður þessum lið kærunnar því vísað frá.

Byggingarleyfi vegna bílskúrs að Álfhólsvegi 61 mun hafa verið gefið út á árinu 1998.  Var kærufrestur vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda um byggingarleyfið því löngu liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 27. desember 2007, en fresturinn er einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Voru því  ekki lengur skilyrði til þess að bera lögmæti leyfisins undir úrskurðarnefndina, er kæra í máli þessu barst nefndinni hinn 27. desember 2006, enda verður ekki fallist á að síðbúið erindi kæranda til bæjaryfirvalda geti markað upphaf nýs kærufrests varðandi leyfisveitinguna.  Ber því einnig skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa þessum þætti kærumálsins frá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til þess er að framan greinir er málinu vísað í heild frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________         
 Hjalti Steinþórsson        

 

____________________________        ____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson               

 

 

 

 

 

7/2008 Vesturberg

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingu dæluhúss Hitaveitu Reykjavíkur á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík í þriggja íbúða raðhús. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. janúar 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Tryggvi Þórhallsson hdl., f.h. G, Vesturbergi 199, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2007 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingu á dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur, á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík, í þriggja íbúða raðhús.  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 20. september 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og verður sú krafa nú tekin til úrskurðar. 

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að kærandi fékk á árinu 1990 leyfi til að byggja yfir svalir hússins að Vesturbergi 199 með gluggum til suðurs í átt að dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur að Vesturbergi 195.  Í yfirlýsingu sem gerð var af því tilefni, dags. 19. janúar 1990, segir m.a:  „Engar athugasemdir eru gerðar af hálfu Hitaveitunnar við fyrirhugaðar framkvæmdir, enda ekki fyrirhuguð viðbygging við dælustöðina.“  Þar sagði enn fremur að Hitaveitan samþykkti að yfirlýsingunni yrði þinglýst sem kvöð á lóð Hitaveitunnar.  Síðar var dælustöðin aflögð og fasteignin seld. 

Hinn 21. október 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vesturbergi 195, sem fól m.a. í sér heimild til viðbyggingar við hús það sem stendur á lóðinni.  Var deiliskipulagsbreytingin kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi skipulagsbreytinguna úr gildi með úrskurði uppkveðnum 30. ágúst 2006, m.a. með þeim rökum að bil milli heimilaðrar viðbyggingar og hússins að Vesturbergi 199, uppfyllti ekki skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar um. 

Ný tillaga að deiliskipulagsbreytingu varðandi lóðina að Vesturbergi 195 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. október 2006 og málinu vísað til skipulagsráðs, sem samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum hinn 11. október og vísaði málinu til borgarráðs. 

Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 10. janúar 2007 þar sem fyrir lágu framkomnar athugasemdir, m.a. frá kæranda, ásamt umsögn framkvæmdasviðs, dags. 22. desember 2006, og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. janúar 2007.  Var deiliskipulagstillagan samþykkt með svofelldri bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa og Framkvæmdasviðs.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 18. janúar 2007. 

Hin samþykkta tillaga fól í sér heimild til að byggja þriggja íbúða raðhús á þremur hæðum að Vesturbergi 195, byggingarreitur var stækkaður og byggingarmagn aukið úr 213,5 fermetrum í 465 fermetra.  Leyft var að grafa frá bakhlið húss til þess að skapa möguleika á gluggum á bakhlið og göflum kjallara.  Við breytinguna fór nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,6. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. mars 2007 var lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 15. mars 2007, þar sem fram kom að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til gildistökuauglýsingar fyrrgreindrar skipulagstillögu fyrr en fjallað hefði verið um allar athugasemdir sem borist hefðu á auglýsingatímanum.  Var lagður fram viðauki við greinargerð skipulagsfulltrúa um athugasemdir og svör, dags. 27. mars 2007, og sá viðauki samþykktur.  Skipulagsstofnun tilkynnti síðan að ekki væri gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagstillögunnar í B-deild Stjórnartíðinda.  Birtist auglýsing þar um hinn 9. maí 2007.  Skaut kærandi ákvörðuninni um deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 8. júní 2007. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. september 2007 var síðan samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við dælustöðina að Vesturbergi 195 og að breyta henni í þriggja íbúða raðhús.  Hefur kærandi nú skotið veitingu þessa byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er skírskotað til röksemda sem sett séu fram í kæru hans á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar að Vesturbergi 195 sem sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Þá sé byggt á því að útgáfa hins kærða byggingarleyfis standist ekki gagnvart þeirri meginreglu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna.  Kærandi telji ekki heimilt að veita byggingarleyfi sem stoð eigi í deiliskipulagsbreytingu sem sé til efnismeðferðar hjá þar til bæru stjórnvaldi.  Þessi staðreynd renni jafnframt stoðum undir kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda enda gætu byggingarframkvæmdir á grundvelli umdeilds byggingarleyfis raskað réttarstöðu málsaðila og haft áhrif á afdrif mála.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. 

Í gildi sé deiliskipulag fyrir Breiðholt III, er taki til Vesturbergs 195.  Sú staðreynd að breyting á deiliskipulagi skuli vera til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála komi ekki í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis með stoð í þeirri breytingu, enda hafi henni ekki verið hnekkt. 

Kærandi hafi ekki gert efnislegar athugasemdir við byggingarleyfið þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess og ekki séu fyrir hendi ágallar á málsmeðferð.  Séu því ekki rök fyrir ógildingarkröfu kæranda eða kröfu hans um stöðvun framkvæmda

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi var veitt á grundvelli deiliskipulagsbreytingar þeirrar er borgarráð samþykkti hinn 18. apríl 2007, er kærandi máls þessa skaut til úrskurðarnefndarinnar hinn 8. júní 2007. 

Fyrr í dag var kveðinn upp úrskurður í því kærumáli þar sem kröfu kæranda um ógildingu skipulagsbreytingarinnar var hafnað. 

Þrátt fyrir þá niðurstöðu eru áhöld um að umdeilt byggingarleyfi uppfylli skilmála skipulagsins og ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um brunavarnir.  Telur úrskurðarnefndin þörf á að kalla eftir frekari gögnum um það efni.  Með hliðsjón af því, og þar sem útgáfa byggingarleyfis skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er yfirvofandi, þykir rétt að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda þar til mál þetta er til lykta leitt hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir á lóðinni að Vestubergi 195 í Reykjavík skulu stöðvaðar þar til endanlegur úrskurður liggur fyrir í máli þessu.

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson