Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/2008 Eyrarbraut

Ár 2009, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2008, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júlí 2007 um að veita leyfi til byggingar atvinnuhúsnæðis að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. febrúar 2008, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir A, Eyrarbraut 10, Stokkseyri þá samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júlí 2007 að veita leyfi til byggingar atvinnuhúsnæðis að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri, sem staðfest var í bæjarráði hinn 19. s.m.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá fer kærandi og fram á að úrskurðarnefndin kanni almennt hvernig staðið hafi verið að breytingum á deiliskipulagi á svæðinu og hvort lög og reglur hafi verið brotnar (lóðir nr. 21-53). 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. júlí 2007 var samþykkt umsókn um leyfi til byggingar atvinnuhúss á lóðinni nr. 37 við Eyrarbraut en á svæðinu er í gildi deiliskipulag frá árinu 1996. 

Kærandi máls þessa er búsett að Eyrarbraut 10 á Stokkseyri.  Samkvæmt því sem fram kemur í kæru hafði henni verið tjáð af skipulags- og byggingaryfirvöldum að allt væri eðlilegt og farið hefði verið eftir ítrustu kröfum við úthlutun lóðarinnar nr. 37 við Eyrarbraut.  Hvað raunverulega væri verið að framkvæma á lóðinni hafi hún ekki verið upplýst um.  Heldur kærandi því fram að ekki verði annað ráðið en að framkvæmdir á lóðinni séu í andstöðu við samþykkt deiliskipulag svæðisins frá árinu 1996.  Þá setur kærandi fram athugasemdir er lúta að ónæði og sóðaskap á svæði því eru um ræðir er hljóti að kalla á aðgerðir.  Vegna þess sé þess óskað að úrskurðarnefndin kanni almennt hvernig staðið hafi verið að breytingum á deiliskipulaginu og hvort lög og reglur hafi verið brotin.    

Af hálfu Árborgar er krafist frávísunar málsins.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út 12. júlí 2007 og hafi framkvæmdir á lóðinni hafist strax í framhaldi af því.  Mælt hafi verið fyrir grunngreftri 8. ágúst 2007 og fyrir sökkuluppslætti 10. september s.á.  Sé því ljóst að kæranda hafi mátt vera kunnugt um framkvæmdir á lóðinni fljótlega eftir útgáfu byggingarleyfis. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum. 

Ekki verður séð að fyrir liggi í máli þessu kæranleg stjórnvaldsákvörðun er lúti að breytingu á deiliskipulagi svæðis þess er um ræðir og koma því aðfinnslur kæranda er varða deiliskipulagið ekki til umfjöllunar við úrlausn málsins.  Aftur á móti er byggingarleyfi það sem staðfest var í bæjarráði 19. júlí 2007 kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina.
 
Samkvæmt tilvitnaðri 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Verður ráðið af málsgögnum, m.a. skrá byggingarfulltrúa um úttekt byggingarhluta, að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hið umdeilda byggingarleyfi haustið 2007 og hafi þá borið að kynna sér efni þess og skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma.  Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 21. febrúar 2008 og var kærufrestur þá liðinn.  Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Verður ekki séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu og ber því, með hliðsjón af 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________         ________________________
  Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson