Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2008 Hólmsheiði

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2008, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008 um að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2008, er barst nefndinni næsta dag, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, eiganda landspildu í landi Reynisvatns, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008 að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var í borgarráði hinn 15. nóvember 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 29. nóvember s.á. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú tækt til endanlegs úrskurðar og verður því ekki fjallað um stöðvun framkvæmda í sérstökum úrskurði. 

Málavextir:  Á árinu 2001 beindi gatnamálastjóri erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um nýtingu jarðvegs sem til félli í borgarlandinu til landmótunar á Hólmsheiði, skammt austan og sunnan við heitavatnsgeyma Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu.  Samþykkti borgarráð í kjölfar þessa deiliskipulag 20 ha landsvæðis á Hólmsheiði er heimilaði losun allt að 1,5 milljón m³ jarðvegs á fyrrgreindum stað. 

Á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar 8. mars 2001 var fært til bókar að nefndin féllist á fyrirhugaða landmótun á Hólmsheiði með þeim skilyrðum m.a. að jarðvegsefni sem fyrirhugað væri að nota væru hrein og ómenguð af mannavöldum og að uppgræðsla landmótunarsvæðisins hæfist eins fljótt og kostur væri.  Var fundargerðin lögð fram á fundi borgarráðs 20. mars 2001. 

Hinn 13. júní 2007 tók skipulagsráð fyrir tillögu að deiliskipulagi hluta Hólmsheiðar.  Var um að ræða 12 ha stækkun til suðurs á svæði því er áður hafði verði deiliskipulagt vegna jarðvegsfyllingar og yrði heimilað að urða svæðinu 2,5 milljónir m³ jarðvegs til viðbótar.  Var samþykkt að auglýsa tillöguna.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda.  Á fundi ráðsins hinn 7. nóvember 2007, að lokinni auglýsingu, var tillagan lögð fram að nýju ásamt m.a. uppdrætti svæðisins og svörum við athugasemdum.  Var eftirfarandi fært til bókar:  ,,Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulags- og byggingarsviðs.  Vísað til borgarráðs.“ 

Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi borgarráðs hinn 15. nóvember 2007.  Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 22. nóvember 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þegar uppdráttur yrði leiðréttur.  Birtist auglýsing hinn 29. nóvember 2007.  Var samþykkt skipulagsráðs, um deiliskipulag fyrir Hólmsheiði, kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar hinn 16. apríl 2008 var lögð fram umsókn framkvæmdasviðs, dags. 15. apríl 2008, þar sem farið var fram á að veitt yrði framkvæmdaleyfi á grundvelli fyrrgreinds skipulags.  Var umsóknin samþykkt með vísan til c-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð. 

Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsráðs frá 16. apríl 2008 til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að gefið hafi verið út framkvæmdaleyfi á grundvelli deiliskipulags sem sé ólögmætt og því beri að fella leyfið úr gildi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að afgreiðsla skipulagsráðs verði staðfest enda hafi ekkert fram komið í málinu sem leitt geti til ógildingar þeirrar ákvörðunar.  Vísar borgin í því sambandi til greinargerðar sinnar vegna framkominnar kæru á deiliskipulaginu þar sem þess sé krafist að ákvörðun borgarráðs frá 15. nóvember 2007 standi óhögguð. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kæranda um ógildingu hins umdeilda framkvæmdaleyfis studd þeim rökum að leyfið byggist á deiliskipulagi sem sé ólögmætt og hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag fallist á kröfu kæranda um ógildingu umrædds deiliskipulags.  Á leyfið því ekki stoð í skipulagi, sbr. 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður það af þeim sökum fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008, um að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði, er felld úr gildi. 

 

_________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

167/2007 Hólmsheiði

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 167/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. desember 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, eiganda landspildu í landi Reynisvatns, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007 að samþykkja deiliskipulag á hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á árinu 2001 beindi gatnamálastjóri erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um nýtingu jarðvegs, sem til félli í borgarlandinu, til landmótunar á Hólmsheiði, skammt austan og sunnan við heitavatnsgeyma Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu.  Samþykkti borgarráð í kjölfar þessa deiliskipulag 20 ha landsvæðis á Hólmsheiði er heimilaði losun allt að 1,5 milljón m³ jarðvegs á fyrrgreindum stað.  Á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar 8. mars 2001 var fært til bókar að nefndin féllist á fyrirhugaða landmótun á Hólmsheiði með þeim skilyrðum m.a. að jarðvegsefni sem fyrirhugað væri að nota væri hreint og ómengað af mannavöldum og að uppgræðsla landmótunarsvæðisins hæfist eins fljótt og kostur væri.  Var fundargerðin lögð fram á fundi borgarráðs 20. mars 2001.   

Hinn 13. júní 2007 tók skipulagsráð fyrir tillögu að deiliskipulagi hluta Hólmsheiðar.  Var um að ræða 12 ha stækkun til suðurs á svæði því er áður hafði verði deiliskipulagt vegna jarðvegsfyllingar og yrði heimilað að urða svæðinu 2,5 milljónir m³ jarðvegs til viðbótar.  Var samþykkt að auglýsa tillöguna.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda.  Á fundi ráðsins hinn 7. nóvember 2007, að lokinni auglýsingu, var tillagan lögð fram að nýju ásamt m.a. uppdrætti svæðisins og svörum vegna athugasemda.  Var eftirfarandi fært til bókar:  ,,Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulags- og byggingarsviðs.  Vísað til borgarráðs.“   Breytingar þær sem fram koma í bókun skipulagsráðs eru eftirfarandi:  „Kröfur um uppruna efnis ofl.  Unnar verða verklagsreglur sem taki til skráningar á uppruna þess efnis sem losað er á svæðið.  Losun á svæðinu verði stýrt á fyrirfram ákveðna staði.  Lögð verður áhersla á að rykbinda jarðveg og ganga frá svæðinu um leið og losun er lokið á einstökum svæðum innan losunarsvæðisins og koma í veg fyrir rykmyndun sem framast er kostur.“  Á uppdrætti deiliskipulagsins segir m.a. eftirfarandi:  „Miðað við upphaflega áætlun fer að sjá fyrir endann á nýtingu svæðisins og því hefur verið kannað með aðra staði.  Niðurstaðan er hins vegar að álitlegasti kosturinn er að stækka svæðið og forma landið þannig að hann nýtist til næstu 10 ára.” 

Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi borgarráðs hinn 15. nóvember 2007. Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 22. nóvember 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þegar uppdráttur yrði leiðréttur.  Birtist auglýsing um gildistökuna hinn 29. nóvember 2007.

Hefur kærandi skotið framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að losun jarðvegsefna á svæði því er um ræði sé ólögleg og yfirgengileg svo nálægt lóðarmörkum hans sem raunin sé.  Jarðvegi og úrgangi hafi verið mokað og ýtt í margra metra hæð rétt við lóðarmörkin þannig að útsýni sé skert og landslagi spillt, langt úr fyrir þau mörk sem losunarstaðnum hafi verið sett á sínum tíma.

Ljóst sé að stækkun losunarsvæðisins valdi umferðarónæði og umhverfisspjöllum langt umfram það sem landeigendur í nágrenninu þurfi að sætta sig við.  Afleiðingin sé sú að mörg sumarhús á svæðinu séu ill- og/eða ónothæf.  Þá hafi skilyrði um losunina verið þverbrotin og ekkert eftirlit með urðunarstaðnum, m.a. hvað varði umferð, magn og eftirlit með úrgangi.  Hafi kærandi m.a. orðið vitni að urðun plastíláta, rafmagnsvíra og olíubrúsa þvert á samþykki borgarráðs frá árinu 2001.  Þá sé vothey urðað á svæðinu og leggi fnyk yfir svæðið af þessum sökum.  

Aldrei hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi, sbr. m.a. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og hafi Skipulagsstofnun ekki komið að ferli málsins.  Engin gögn hafi verið lögð fyrir stofnunina og þar af leiðandi ekkert mat verið gert samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Komi þó skýrt fram í lögunum að þess þurfi.  Þá sé það álit kæranda að brotið sé gegn ákvæðum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs en þar séu settar reglur um urðunarstaði, leyfi og eftirlit og hvernig staðið skuli að urðun úrgangs.

Hvergi í gögnum er málið varði komi fram hve mikið magn sé áætlað að urða á svæðinu eða stærð þess.  Skipulagsskilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar, þess efnis að samþykki liggi fyrir um losun á jarðvegi fyrir 1,5 milljón m³ á 20 ha svæði, sé mótmælt enda slíkt samþykki ekki til staðar.  Forsendur hins nýja deiliskipulags séu því beinlínis rangar og í raun verið að sækja um leyfi fyrst núna fyrir 4,0 milljón m³ á 32 ha svæði en ekki 2,5 milljón m³. 

Skilyrði umhverfis- og heilbrigðisnefndar hafi ekki verið staðfest, enda hafi þau öll verið brotin.  Til dæmis hafi verið urðaðir þúsundir rúmmetra af olíumenguðum jarðvegi af mannavöldum.  Ruðst hafi verið yfir allan gróður og reiðleiðir hestamanna. 

Í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota, skógræktarsvæði og innan græna trefilsins svokallaða.  Sé því haldið fram að hin kærða deiliskipulagssamþykkt sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur hvað þetta varði. 

Ljóst sé að það svæði sem hér um ræði hafi aldrei verið deiliskipulagt og kynnt líkt og lög geri ráð fyrir. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kröfur og málsástæður er varði upphaflega staðsetningu og framkvæmd losunarstaðarins séu of seint fram komnar og hafi ekki verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar.  Ákvörðun um losunarstað á Hólmsheiði hafi verið tekin á grundvelli landnotkunarheimilda í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 þar sem gert hafi verið ráð fyrir almennu útivistarsvæði á því svæði sem nýtt hafi verið til jarðvegslosunar.  Hafi það verið afstaða Reykjavíkurborgar að framkvæmdirnar væru í samræmi við heimildir í þágildandi aðalskipulagi.  Bent sé á að einungis sé verið að kæra ákvörðun skipulagsráðs frá 7. nóvember 2007, sem staðfest hafi í borgarráði hinn 15. nóvember 2007, um stækkun á losunarsvæði fyrir jarðveg ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi.

Vísað sé til þess að á fundi borgarráðs 3. apríl 2001 hafi verið samþykkt skilyrði fyrir losun á svæðinu er feli í sér útfærslu losunar auk þess sem mörk hennar hafi verið ákvörðuð.  Þau skilyrði sem samþykkt hafi verið séu að jarðvegsefni sem fyrirhugað sé að nota séu hrein og ómenguð af mannavöldum og að tryggt verði að losun annarra efna eigi sér ekki stað.  Dreifing efnanna verði þar sem enginn eða lítill gróður sé fyrir og að áskilið sé að uppgræðsla landmótunarsvæðisins hefjist eins fljótt og kostur sé.  Ef fyrirhugað sé að nota önnur efni til dreifingar á svæðinu, svo sem lífrænan landbúnaðarúrgang (svína- eða hænsnaskít), verði fyrst leitað eftir samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.  Það sé mat Reykjavíkurborgar að umrædda losun sé innan þeirra marka sem henni hafi verið sett.

Reykjavíkurborg telji að losun jarðefna eins hún fari fram á Hólmsheiði falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. fylgiskjal, dags. 29. febrúar 2007, br. 29. maí 2007.  Ekki sé um að ræða umtalsverð umhverfisáhrif eins og lögin kveði á um heldur eðlilega landmótun enda verði landið grætt upp að losun lokinni.  Auk þess sé vakin athygli á því að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við að Reykjavíkurborg birti auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins.   

Á fundi skipulagsráðs hinn 16. apríl 2008 hafi verið lögð fram umsókn framkvæmdasviðs um framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði á grundvelli deiliskipulagsins, sem samþykkt hafi verið í borgarráði hinn 15. nóvember 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 29. nóvember 2007.  Sú umsókn hafi verið samþykkt með vísan til c-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og framkvæmdaleyfi gefið út í samræmi við áðurgreinda samþykkt.

Reykjavíkurborg vísi því á bug að ekki hafi verið farið eftir lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.  Umrædd losun feli í sér losun jarðefna en ekki úrgangs og falli losunin því ekki undir þau lög, sbr. reglugerð nr. 184/2002 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.  Að sama skapi sé ítrekað að ekki sé fjallað um meðhöndlun úrgangs á skipulagsstigi.

Þau jarðefni sem losuð séu á svæðinu séu hrein og ómenguð af mannavöldum, en það sé eitt af skilyrðunum sem samþykkt hafi verið auk þess að tryggt sé að losun annarra efna eigi sér ekki stað á svæðinu.  Lífrænum landbúnaðarúrgagni hafi ekki verið dreift á svæðinu.  Einungis hafi verið dreift grasi og trjákurli á yfirborði til að auðvelda uppgræðslu og hefta moldrok.  Næst landspildu kæranda hafi verið fylgt þeim mörkum sem ákvörðuð hafi verið árið 2001.  Á hluta svæðisins hafi ekki verið farið út í jaðar þess og upphaflegum mörkum og skilmálum hlítt í hvívetna.

Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir nýrri aðkomu að jarðvegslosunarsvæðinu norðan frá, eftir tengibraut sem liggi upp frá Reynisvatnsvegi í átt að Langavatni.  Lega tengibrautarinnar sé í samræmi við heimildir í Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.  Í framhaldi af umræddri tengibraut sé gert ráð fyrir aðkomu að jarðvegsfyllingu eftir bráðabirgðavegi.  Meðfram þeim vegi sé gert ráð fyrir jarðvegsmön/hljóðmön næst sumarhúsum við Langavatn til að draga úr því ónæði sem verði af aukinni umferð um svæðið.  Sumarhúsin við Langavatn séu öll í meira en eins kílómetra fjarlægð frá umræddri jarðvegfyllingu.  Gagnvart þeim sumarhúsum sem standi næst jarðvegslosunarsvæðinu hafi þegar verið hafist handa við að rykbinda svæðið með því að sá grasfræjum á suðvesturhorn þess, þ.e. á það svæði er næst sé umræddum sumarhúsum.  Framtíðarstækkun jarðvegslosunarsvæðissins sé í suðaustur og austur í átt frá sumarhúsunum.  Einnig sé gert ráð fyrir því að vegir að og frá svæðinu verði rykbundnir.  Þessar aðgerðir séu gagngert framkvæmdar til þess að takmarka ónæði sem stafi af svæðinu og koma til móts við grenndarhagsmuni sumarhúsaeigenda þar.   

Ekki sé fallist á að kærð deiliskipulagstillaga feli í sér ólögmætar framkvæmdir eða að grenndarhagsmunum kæranda sé svo raskað að ólögmætt sé.  Fasteign kæranda sé í nokkurri fjarlægð frá losunarstaðnum.  Losun næst honum sé lokið og land tekið að jafna sig.  Umrædd losun hafi gert það að verkum að meira skjól hafi myndast við fasteign kæranda og þar með aukið verðmæti hennar.  Hagsmunir kæranda séu ekki umtalsverðir, bæði sé fasteign hans í nokkurri fjarlægð frá losunarstað og einungis sé um að ræða losun jarðefna sem ómenguð séu af mannavöldum.  Vert sé að taka fram að kæranda hafi mátt vera ljóst frá upphafi að losun ætti sér stað nálægt fasteign hans.

————————–

Aðilar hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki þykir þörf á að rekja nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 
 
Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 21. maí 2008 að viðstöddum kæranda ásamt lögmanni hans og fulltrúum Reykjavíkurborgar.  

Niðurstaða:   Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Jafnframt segir í 7. mgr. 9. gr. sömu laga að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi.

Í máli því sem hér er til meðferðar er kærð ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi.  Er það megin úrlausnarefni málsins hvort hið kærða deiliskipulag samræmist ákvæðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og gildandi aðalskipulags Reykjavíkur um landnotkun.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er umrætt svæði skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og segir þar að á slíkum svæðum sé gert ráð fyrir útivistariðkun af ýmsum toga og mannvirkjagerð í tengslum við útivistarnotkun á svæðinu.  Jafnframt er svæðið innan hins svonefnda græna trefils en í greinargerð með svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er græni trefillinn skilgreindur sem skipulagt útivistarsvæði þar sem skiptast á skógur og opin svæði.  Segir þar að litið sé á græna trefilinn sem frístundasvæði þar sem lögð sé áhersla á gott aðgengi.  Meginreglan sé að þar skuli ekki reisa frekari byggð nema í sérstökum tilgangi og á völdum stöðum. 

Nánari grein er gerð fyrir landnotkun umrædds svæðis, bæði í greinargerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulags Reykjavíkur, og er áhersla þar lögð á að svæðið sé til skógræktar og útivistar og þröngar skorður reistar við annars konar landnotkun.

Jarðvegslosun sú sem heimiluð er með hinni kærðu ákvörðun felur í sér umfangsmikla starfsemi sem ætlað er að vara næstu tíu ár.  Fylgir henni mikil umferð stórra flutningabifreiða, notkun vinnuvéla, breyting á ásýnd lands, fok jarðefna og hætta á mengun, svo talin séu helstu áhrif starfseminnar á umhverfið.  Hefur starfsemi þessi um margt lík umhverfisáhrif og efnisvinnsla og verður ekki fallist á að hún fái samrýmst ákvæðum svæðis- og aðalskipulags um landnotkun á umræddu svæði.  Verður ekki heldur fallist á að heimila beri starfsemina á svæðinu með þeim rökum að jarðvegslosun sé ekki tilgreind sem sérstakur landnotkunarflokkur í skipulagsreglugerð, enda breytir sá annmarki engu um eðli og áhrif starfseminnar. 

Samkvæmt framansögðu samrýmist hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki tilvitnuðum ákvæðum 2. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður hún því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007, um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg, ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi, er felld úr gildi.

 

_________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________     ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

27/2006 Heiðargerði

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2006, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. apríl 2006, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Marteinn Másson hrl., f.h. G, Heiðargerði 76, Reykjavík, þá samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006 að synja um breytingu á deiliskipulagi svokallaðs Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir skipulagsráð að taka umsókn kæranda fyrir að nýju til löglegrar meðferðar og afgreiðslu.  Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin samþykki umsókn kæranda frá 18. janúar 2006 um breytingar á deiliskipulagi Heiðargerðisreits. 

Málavextir:  Mál þetta á sér langa forsögu.  Lóðinni nr. 76 við Heiðargerði í Reykjavík, sem er 480m² að flatarmáli, var úthlutað til byggingar smáíbúðar snemma árs 1952.  Sama ár veitti byggingarnefnd leyfi til að byggja á lóðinni 80m² einbýlishús með geymslurisi.  Ári síðar veitti byggingarnefnd leyfi fyrir kjallara undir húsinu og hækkun mænis um einn metra.  Jafnframt var þá veitt leyfi fyrir nokkurri hækkun aðalgólfplötu hússins.  Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur árið 1954 var samþykkt portbygging á risi ásamt kvisti á norðurþaki og íbúð samþykkt í rishæðinni.  Á árunum 1962 og 1963 var veitt leyfi til að byggja 40m² bílgeymslu við húsið og til þess að byggja við og stækka verulega aðalhæð og kjallara hússins.  Eftir þessar breytingar á húsinu var heildarflatarmál þess orðið 343,1m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,71. 

Á árinu 1989 sótti eigandi eignarinnar um leyfi til þess að byggja ofan á áður samþykkta viðbyggingu við húsið og hækka gamla risið að hluta.  Þessi áform sættu andmælum nágranna og synjaði byggingarnefnd umsókninni á fundi sínum í ágúst 1989.  Var sú ákvörðun sérstaklega rökstudd síðar eftir að húseigandi hafði bréflega óskað rökstuðnings.  Ítrekaðri umsókn húseiganda um leyfi til svipaðra breytinga á húsinu var synjað í byggingarnefnd í apríl 1992.  Þá lagðist skipulagsnefnd gegn áformum húseiganda um slíkar breytingar á fundi í júlí 1994 og var umsókn hans um breytingarnar þá enn synjað.  Allar höfði þessar umsóknir húseigandans verið kynntar nágrönnum og höfðu þeir ætíð lýst sig mótfallna fyrirhuguðum framkvæmdum. 

Á árinu 1999 sótti eigandi hússins enn um leyfi til að hækka þak og byggja við.  Var erindið fyrst tekið fyrir á fundi byggingarnefndar í júlí 1999 og þá vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar.  Var málið eftir það til meðferðar hjá borgaryfirvöldum og fór grenndarkynning fram í febrúar og mars árið 2000.  Bárust allmargar athugasemdir frá nágrönnum á kynningartímanum.  Eftir að umsögn Borgarskipulags um framkomnar athugasemdir lá fyrir var málið tekið fyrir á ný á fundi skipulags- og umferðarnefndar og varð það niðurstaða nefndarinnar að hún gerði ekki athugasemd við að veitt yrði byggingarleyfi á grundvelli kynntra teikninga.  Með vísun til þessarar umsagnar samþykkti byggingarfulltrúi að veita umbeðið leyfi.  Var ákvörðun þessi staðfest á fundi borgarráðs.  Íbúar í næsta nágrenni vildu ekki una þessari niðurstöðu og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar sem felldi byggingarleyfið úr gildi með úrskurði, uppkveðnum hinn 10. nóvember árið 2000.  Málið kom til kasta dómstóla og var úrskurður úrskurðarnefndarinnar staðfestur með dómi Hæstaréttar hinn 20. september 2001. 

Á árinu 2003 var samþykkt deiliskipulag svokallaðs Heiðargerðisreits þar sem m.a. kemur fram að nýtingarhlutfall fyrir lóð kæranda sé 0,5.  Þó er tekið fram að miðað við samþykkt byggingarmagn, 343,1 m², sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,71 og verður skipulagið ekki skilið öðru vísi en svo að þær byggingar á lóðinni, sem skipulagið nær til, megi standa óraskaðar. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 25. janúar 2006 var lögð fram umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits er varðaði lóðina að Heiðargerði 76.  Laut umsóknin að því að hækka hluta þaks og gera þrjá kvisti á eldra húsi.  Hefði þetta í för með sér stækkun um 6,6 m².  Á fundinum samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna tillögu vegna þessa sem óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Heiðargerði 72, 74, 78, 80, 88, 90, 92 og 94. Ráðið leggur þó sérstaka áherslu á að gerðir eru allir fyrirvarar um endalega afstöðu til tillögunnar þar til hagsmunaaðilar hafa kynnt sér hana.“  Á fundi ráðsins 15. mars 2006, að lokinni grenndarkynningu, var erindið lagt fram að nýju en athugasemdir bárust frá íbúum að Heiðargerði 90, 92 og 94.  Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 15. mars 2006.  Skipulagsráð synjaði umsókninni með eftirfarandi bókun:  „Synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Ráðið felur byggingarfulltrúa að hlutast til um að óleyfisbyggingarmagn umfram heimildir í samþykktu deiliskipulagi verði fjarlægt af húsinu.“ 

Skaut kærandi ofangreindri synjun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreitsins hafi verið í réttu og lögmætu formi og að umsókninni hafi fylgt fullnægjandi gögn til þess að hún hlyti lögmæta meðferð og afgreiðslu. 

Bent sé á þá sérstöðu sem lóðin að Heiðargerði 76 hafi, en í húsinu séu skráðar tvær samþykktar íbúðir.  Það sé því ekki einbýlishús heldur sambýlishús og hafi svo verið allt frá árinu 1954 þegar samþykkt hafi verið að tvær íbúðir yrðu í húsinu.  Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 hafi verið lagðar línur með nýtingarhlutfall lóða eftir húsagerð á hverri lóð.  Að því er sambýlishús varði hafi nýtingarhlutfallið verið ákveðið 0,4-0,8.  Húsið að Heiðargerði 76 hafi því verið fyllilega innan ramma nýtingarhlutfallsins, hvort sem nýtingarhlutfallið á lóðinni væri 0,71, 0,73 eða 0,77. 

Kærandi telji að það hafa verið ólögmæt aðgerð og ákvörðun af hálfu borgaryfirvalda að samþykkja og staðfesta deiliskipulagið fyrir Heiðargerðisreit árið 2003, þar sem nýtingarhlutfall hafi verið ákveðið 0,5 með vísun til þess að húsin á reitnum væru nær öll einbýlishús.  Hafi þannig verið gengið freklega gegn lögmætum réttindum og hagsmunum kæranda og annarra fasteignaeigenda þar sem nýtingarhlutfallið hafi allt í einu orðið of hátt vegna þess hvernig nýtingarhlutfallið hafi verið ákveðið í deiliskipulaginu.  Skyndilega hafi verið komið upp ólögmætt ástand, óþolandi fyrir skipulagsyfirvöld og fasteignaeigendur.  Kærandi telji að skipulagsyfirvöldum borgarinnar hafa verið skylt að leggja sitt af mörkum til að lagfæra ástandið að þessu leyti, að teknu tilliti til réttmætra hagsmuna hlutaðeigandi. 

Bent sé á að kærandi hafi áður sótt um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreitsins vegna lóðar sinnar.  Hinn 7. júlí 2004 hafi umsókn hans verið hafnað með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 24. júní 2004.  Í umsögninni hafi verið lagt til að umsókninni yrði synjað.  Annars vegar með vísan til andmæla nokkurra nágranna og hins vegar með vísan til þess að breytingin, ef samþykkt yrði, samræmdist ekki sjónarmiði um jafnræði borgaranna, þar sem hún hefði í för með sér hækkun á nýtingarhlutfalli lóðar, sem þegar væri með hærra nýtingarhlutfall en aðrar lóðir á reitnum.  Athyglisvert sé að breytingin hafi verið talin hafa óveruleg grenndaráhrif hvort sem litið væri til skuggavarps eða útsýnisskerðingar. 

Tekið sé fram að með umsókn um breytt deiliskipulag sé kærandi að leitast við að koma á lögmætu ástandi vegna lóðar sinnar, auk þess sem honum sé brýn nauðsyn á, vegna lekavandamála, að hafa þakið á húsinu með því lagi sem fylgigögn með umsókninni hafi gert ráð fyrir. 

Umsóknin frá 18. janúar 2006 hafi verið tekin til efnismeðferðar og grenndarkynnt.  Fyrir hafi legið að mjög margir íbúar á Heiðargerðisreitnum væru samþykkir breytingunum sem kærandi hafi sótt um, þar á meðal eigendur aðliggjandi lóða að Heiðargerði nr. 74 og 78.  Í grenndarkynningunni hafi aðeins komið fram athugasemdir frá eigendum þriggja lóða, sem allar liggi sunnan við Heiðargerði 76.  Á engri lóðanna gæti skuggavarps frá húsi kæranda og frá engri þeirra skerðist útsýni vegna breytinganna. 

Af tölvupósti fyrrverandi formanns skipulagsráðs, dags. 1. apríl 2006, megi ráða að skipulagsráð hefði samþykkt umsókn kæranda, hefðu engar athugasemdir borist frá nágrönnum.  Fái þetta stoð í þeirri ákvörðun ráðsins að senda umsóknina til grenndarkynningar.  Verði þessi orð formannsins ekki skilin á annan veg en þann að skipulagsráð hafi talið vera til staðar lagalegar og skipulagslegar forsendur fyrir samþykki umsóknarinnar.  Kærandi bendi á að kynning af því tagi, sem fram hafi farið í tilefni umsóknar hans, hafi ekki falið í sér einhvers konar neitunarvald eins eða fleiri nágranna gegn tillögu um deiliskipulagsbreytingu vegna Heiðargerðis 76, heldur einungis umsagnarrétt.  Af orðum fyrrverandi formanns skipulagsráðs verði þó ekki annað ráðið en að skipulagsráð hafi í raun ákveðið fyrirfram að einstaka fasteignaeigendur á Heiðargerðisreitnum hefðu neitunarvald að því er umsókn kæranda varði.  Slík ákvörðun eigi sér enga lagastoð og sé því með öllu ólögmæt. 

Bent sé á að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. mars 2006, sem skipulagsráð hafi vísað til við afgreiðslu málsins, sé m.a. greint frá því að við kynningu á umsókn kæranda hafi komið fram athugasemdir frá eigendum lóðanna Heiðargerðis 90, 92 og 94.  Skipulagsfulltrúi hafi mælt með því að erindið yrði ekki samþykkt, m.a. með vísan til þessara athugasemda:  „… auk þeirra athugasemda og raka sem fram komu við fyrri málsmeðferð …“  Athugasemdirnar hafi m.a. lotið að því að gerð væri krafa um að dómi Hæstaréttar frá 20. desember 2001 yrði framfylgt og hafi þeir er athugasemdir hafi gert lýst furðu sinni á því að tillagan skyldi kynnt í ljósi dómsins og lýst þeirri skoðun að með henni væri verið að vanvirða réttinn.  Misskilnings virðist hafa gætt hjá eigendum Heiðargerðis 90, 92 og 94, um þýðingu hæstaréttardómsins fyrir þá umsókn kæranda sem kynnt hefði verið.  Viðbrögð borgaryfirvalda við dóminum hafi auðvitað verið þau að deiliskipuleggja Heiðargerðisreitinn.  Á grundvelli deiliskipulags svæðisins yrði síðan hægt að taka afstöðu til byggingarleyfisumsókna, hvort sem þær kæmu frá kæranda eða öðrum íbúum á svæðinu.  Fullkomlega sé heimilt að sækja um breytingar á deiliskipulagi og hafi niðurstaðan í dómsmálinu þar engin áhrif.  Kærandi telji með ólíkindum ef þessar athugasemdir hafi ráðið einhverju um afstöðu  skipulagsráðs þegar umsókninni hafi verið synjað, enda eigi borgaryfirvöld að vita betur um það hvaða þýðingu hæstaréttardómurinn hafi eða hafi ekki í málinu. 

Kærandi haldi því fram að svo lítt upplýsandi sjónarmið og illa ígrunduð geti ekki verið fullnægjandi, lögmætur grundvöllur að stjórnvaldsákvörðun.  Ríkari kröfur verði að gera til borgaryfirvalda um undirbúning og rannsókn máls og rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðun.  Kærandi telji verulega hafa skort á þessi atriði í meðferð skipulagsráðs á umsókn hans og afgreiðslu. 

Kærandi telji jafnframt að vegna þess mikla vægis, sem umsagnir eigenda að Heiðargerði 90, 92 og 94 virðast hafa haft við ákvörðun skipulagsráðs um að synja umsókninni, bæði fyrirfram og eftir kynningu umsóknarinnar fyrir hagsmunaaðilum, hafi ráðinu borið að kynna honum þessar umsagnir og gefa kost á að gera við þær athugasemdir.  Kæranda hafi hvorki verið kunnugt um efni þessara umsagna né gefinn kostur á að andmæla þeim.  Þar sem hann hafi ekki fengið upplýsingar um mikilvæg gögn í málinu, og ekki fengið að tjá sig um þau áður en ákvörðun hafi verið tekin, beri að ógilda hina kærðu ákvörðun. 

Kærandi haldi því enn fremur fram að í hinni kærðu ákvörðun skipulagsráðs felist brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Regla þessi eigi sér m.a. stoð í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hún hafi jafnframt mun víðtækara gildissvið en þar komi fram. 

Kærandi bendi á að hafi skipulagsráð talið vera fyrir hendi lagalegar og skipulagslegar forsendur fyrir því að samþykkja umsókn hans, eins og lesa megi úr orðum fyrrverandi formanns ráðsins, hafi því borið að samþykkja umsóknina nema veigamikil, málefnaleg rök stæðu því í vegi.  Engin slík rök hafi hins vegar komið fram í málinu, hvorki við grenndarkynningu né í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar.  Raunar megi segja að þau rök sem þar sé teflt fram, þ.e. að gæta þurfi jafnræðis að því er nýtingarhlutfall varði, eigi ekki við í þessu tilviki vegna sérstöðu lóðar kæranda sem sambýlishúsalóðar. 

Kærandi bendi einnig á að meginsjónarmiðin að baki meðalhófsreglunni séu þau að stjórnvaldi sé ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs, sem stefnt sé að heldur beri því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra aðila, sem ákvarðanir stjórnvaldsins beinist að.  Hagsmunir kæranda í þessu samhengi séu augljósir.  Hagsmunir eigenda Heiðargerðis 90, 92 og 94 séu það hins vegar ekki.  Að minnsta kosti hafi engin grein verið gerð fyrir þeim.  Í þessu ljósi telji kærandi að skipulagsráð hafi ekki gætt að meðalhófsreglunni þegar ákvörðun hafi verið tekin um að synja umsókn hans.  Telji kærandi að af þeim sökum beri að ógilda ákvörðun ráðsins. 

Kærandi vísi, máli sínu til stuðnings, til grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins um rannsókn og undirbúning fyrir töku stjórnvaldsákvörðunar, upplýsinga- og andmælarétt málsaðila, jafnræði og meðalhóf, m.a. eins og þessar reglur birtist í stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Einnig sé vísað til eignarréttar og ráðstöfunarréttar kæranda á eign sinni, sem njóti verndar samkvæmt stjórnarskrá landsins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að óumdeilt sé að umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits og fylgigögn með henni hafi verið í lögmætu horfi eins og kærandi haldi fram.  Þótt kærandi hafi uppfyllt formskilyrði varðandi uppsetningu og útlit uppdrátta og umsóknar hafi það að sjálfsögðu ekki sjálfkrafa í för með sér að sveitarfélaginu beri skylda til að samþykkja umsóknina.  Slík túlkun á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé í andstöðu við ákvæði sveitarstjórnarlaga um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. 

Því sé vísað á bug að skráningarreglur um fasteignir og ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 hafi nokkurt vægi í máli þessu, hvað þá yfirlýsing um að deiliskipulag Heiðargerðisreits sé ólögmætt.  Í skipulags- og byggingarlögum komi fram sú meginregla að allt landið sé deiliskipulagsskylt.  Í samræmi við þá meginreglu hafi Reykjavíkurborg ráðist í að vinna deiliskipulag reitsins, sem auglýst hafi verið og staðfest í samræmi við gildandi málsmeðferðarreglur, og hafi gildistaka þess verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Deiliskipulag Heiðargerðisreits hafi þar að auki verið kært á sínum tíma og hafi kærandi þá borið fyrir sig sömu röksemdir við meðferð þess máls og nú.  Í úrskurði í máli nr. 45/2003 hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að skipulagsyfirvöldum hafi verið heimilt að ákveða nákvæmlega það nýtingarhlutfall innan reitsins sem talið hafi vera hæfilegt með hliðsjón af markmiðum skipulagsforsagnar og almennri stefnu nýs aðalskipulags Reykjavíkur um þéttleika byggðar.  Úrskurðarnefndin hafi einnig talið að ekki yrði annað ráðið en að málefnalegar ástæður hafi legið að baki ákvörðun borgaryfirvalda um nýtingarhlutfall í deiliskipulagi Heiðargerðisreits og að ákvarðanir skipulagsins fullnægðu lagaskilyrðum.  Úrskurðarnefndin hafi því ekki fallist á að ógilda bæri þá deiliskipulagsákvörðun og sé þess krafist af hálfu Reykjavíkurborgar að svo verði einnig nú. 

Ekki sé fallist á þær skýringar kæranda að skipulagsráð hafi ákveðið fyrirfram að nágrannar kæranda myndu hafa eins konar „neitunarvald“ eins og haldið sé fram.  Bent sé á að samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé það sveitarstjórn á hverjum stað sem fari með skipulagsvaldið.  Það hafi því verið réttur aðili samkvæmt lögum, skipulagsráð Reykjavíkur, sem tekið hafi við umsókn kæranda, ákveðið að um málsmeðferð skyldi fara samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og synjað umsókninni með vísan til framlagðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.  Yfirlýsingar fyrrverandi formanns skipulagsráðs í tölvupóstum til kæranda hafi enga þýðingu að því er varði málsmeðferðina auk þess sem því sé mótmælt nú sem órökstuddri fullyrðingu að synjunin hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum. 

Í ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé kveðið á um málsmeðferð eftir að sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa eða grenndarkynna tillögu að deiliskipulagi, eða breytingu á því.  Í lögunum komi m.a. fram að taka skuli afstöðu til þess hvort breyta skuli skipulagstillögu vegna framkominna athugasemda.  Ekki sé kveðið á um að sú umsögn skuli kynnt hagsmunaaðilum sérstaklega en senda skuli þeim sem athugasemdir hafi gert umsögn sveitarstjórnar um þær eftir að hún hafi afgreitt tillöguna.  Því sé mótmælt að efni umsagnarinnar eða framkominna athugasemda hafi verið þess eðlis að Reykavíkurborg hafi borið einhver umframskylda til að kynna kæranda umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir svo sem kærandi haldi fram, enda sé slík málmeðferð ekki áskilin að lögum. 

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök kröfum sínum til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið grenndarkynntu skipulagsyfirvöld tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi svonefnds Heiðargerðisreits.  Laut tillagan að því að hækka hluta þaks og gera þrjá kvisti á eldra húsi  á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði.  Fól tillagan í sér 6,6 m² stækkun húss, eða um tæp 2%, og samsvarandi hækkun nýtingarhlutfalls.  Verður að fallast á að breytingin hafi verið óveruleg. 

Skipulagsráð hafnaði tillögunni og synjaði umsókn kæranda um breytt skipulag með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Í umsögninni er greint frá því að fram hafi komið fjögur erindi með athugasemdum þar sem þeir er að þeim hafi staðið hafi lýst þeirri skoðun sinni að tillagan færi í bága við dóm Hæstaréttar í máli nr. 114/2001 frá 20. september 2001 og því væri ekki unnt að fallast á hana.  Hvergi er hins vegar vikið að því í þessum athugasemdum hvernig hin kynnta tillaga snerti einstaklega og lögvarða hagsmuni þeirra sem að þeim stóðu og ekki er í umsögn skipulagsfulltrúa tekin nein afstaða til réttmætis framkominna athugasemda en lagt til að erindinu verði synjað. 

Úrskurðarnefndin telur að ekki hafi verið rétt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins sjónarmið um réttarvörslu og gæslu almannahagmuna sem birtust í framkomnum athugasemdum, enda var það ekki hlutverk þeirra sem að þeim stóðu að leggja mat á réttaráhrif tilvitnaðs Hæstaréttardóms eða hvort hann stæði í vegi fyrir samþykkt hinnar umdeildu tillögu.  Verður því ekki talið að umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið reist á málefnalegum grundvelli en hvergi er að því vikið að umdeild breyting hefði raskað einstaklegum hagsmunum þeirra er athugasemdirnar gerðu.  Var skipulagsráði því ekki rétt að leggja umsögn skipulagsfulltrúa til grundvallar við úrlausn málsins og verður að telja að bæði hafi skort á viðhlítandi rannsókn máls og rökstuðning er hin kærða ákvörðun var tekin. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006, um að synja um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76, er felld úr gildi. 

 

_________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

44/2008 Urðarmói

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að endurnýja leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6, Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2008, er barst nefndinni næsta dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, lóðarhafa Urðarmóa 10 og A og B, lóðarhafa Urðarmóa 12, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að endurnýja leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6.  Bæjarráð staðfesti greinda ákvörðun 27. sama mánaðar. 

Kærendur krefjast þess að byggingarframkvæmdir á lóðinni að Urðarmóa 6 verði stöðvaðar þar til efnisúrskurður hafi verið kveðinn upp um lögmæti byggingarleyfisins.  Þá er þess jafnframt krafist að leyfi, sem samþykkt hafi verið til byggingar á umræddri lóð, verði fellt úr gildi og að leyfishafa verði gert að afmá framkvæmdir á lóðinni. 

Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en hinn 6. maí 2008 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 14. febrúar 2008 um að heimila byggingu einbýlishúss á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa.  Niðurstaða nefndarinnar var á því byggð að byggingarleyfið færi í bága við gildandi deiliskipulag umrædds svæðis en veitt hafði verið heimild til byggingar einbýlishúss með 42° þakhalla en samkvæmt skipulagi svæðisins mátti þakhalli einungis vera 14° til 25°.  Hafði því eigi verið gætt lagaskilyrða 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við útgáfu leyfisins og það þar að leiðandi fellt úr gildi. 

Í kjölfar úrskurðarins var hinn 8. maí 2008 birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um breytt deiliskipulag umræddrar lóðar í þá veru að heimilt væri að hafa á lóðinni hús með 42° þakhalla.  Lögð var fram umsókn um endurnýjun á byggingarleyfi á lóðinni að Urðarmóa 6 á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar hinn 12. júní 2008 og var hún samþykkt.  Staðfesti bæjarráð þá fundargerð á fundi sínum 27. júní s.á. 

Kærendur hafa nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir hafi jafnframt kært til úrskurðarnefndarinnar breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Velti gildi byggingarleyfisins á gildi þeirrar breytingar og verði breytingin felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Húsið á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Hafi framkvæmdum verið haldið áfram þrátt fyrir úrskurð nefndarinnar frá 6. maí sl. og húsið ekki fjarlægt. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls. 

Í máli þessu liggur fyrir að einbýlishús það, sem hin kærða samþykkt heimilar, er risið og byggingu þess langt komið.  Verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umrædda byggingu að teljast unnar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan kærumál um lögmæti byggingarleyfisins er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6, Selfossi, skuli stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                    ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson

120/2007 Lækjarbotnar

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 120/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007 um að synja umsókn um leyfi til að byggja við og breyta sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Þ, Bræðraborgarstíg 21b, Reykjavík, eigandi sumarbústaðar á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi í Kópavogi, synjun skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 á umsókn um  leyfi til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi. 

Kærandi krefst þess að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Árið 2002 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóðanna nr. 40 og 43 í landi Lækjarbotna.  Í tillögunni sagði að í henni fælist m.a. heimild til að byggja við núverandi sumarbústað í Lækjarbotnalandi 40.  Var tillagan samþykkt og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2003. 

Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 1. september 2006, óskaði kærandi eftir heimild til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnum.  Var umsókn hans vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu, sbr. bréf byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 7. september 2006.  Var umsóknin lögð fram á fundi skipulagsnefndar hinn 19. september 2006 og erindinu frestað.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. október s.á. var erindið lagt fram að nýju og óskað eftir umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Á fundi hinn 17. október 2006 var umsókninni hafnað þar sem hún var ekki talin vera í samræmi við gildandi skipulag.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 7. ágúst 2007 var erindið enn lagt fram ásamt bréfi kæranda.  Skipulagsnefnd hafnaði erindinu með vísan til samþykktar bæjarráðs frá 26. júlí 2007 þess efnis að ekki væri fyrirhugað að framlengja lóðarleigusamningum í Lækjarbotnum þegar þeir rynnu út. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi hafi verið sumarbústaður allar götur frá árinu 1935 og hafi kærandi eignast hann árið 1984.  Kópavogsbær hafi á sínum tíma samþykkt kaupin og framlengt leigusamningnum tvívegis síðan þá, í seinna skiptið árið 1994 til ársins 2010.  Þá hafi Kópavogsbær tvívegis heimilað stækkun lands til skógræktar.  Árið 1985 hafi byggingarnefnd veitt heimild til viðbótarbyggingar á elsta hluta bústaðarins sem þá hafi verið hruninn.  Þá hafi skipulagsnefnd í október 2002 veitt heimild til endurbyggingar og/eða viðbótabyggingar þess hluta gamla bústaðarins sem ekki hafi verið endurnýjaður árið 1985.  Fram hafi komið að tekið hafi verið tillit til stækkunarbeiðninnar við útfærslu nýs deiliskipulags.  Kærandi hafi þá ekki haft tök á að byggja samkvæmt heimildinni sem hafi verið fyrirvaralaus, bæði skipulagslega og tímalega.  Nú hagi svo til að þak þessa hluta sé illa farið vegna snjóþyngsla á síðasta áratugi liðinnar aldar ásamt því að endurgera þurfi þakið og einn vegg bústaðarins. 

Í ágúst 2006 hafi kærandi sent inn teikningar að endurbyggingu sumarbústaðarins ásamt lítilsháttar stækkun hans.  Teikning þessi hafi af skipulagsyfirvöldum verið túlkuð sem útfærsla skipulags og því haldið fram að með teikningunni væri farið væri út fyrir heimildir deiliskipulags um 1,9 metra.  Að mati kæranda sé um fyrirslátt að ræða enda hafi á árinu 2002 verið samþykkt deiliskipulag þar sem gert hafi verið ráð fyrir endurbyggingu sumarbústaðar hans ásamt viðbyggingu við hann. 

Bent sé á að hinn 3. október 2006 hafi erindi kæranda verið tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd og því vísað til umsagnar skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Málinu hafi aldrei verið vísað til byggingarnefndar heldur í allt annan farveg. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að gróflega hafi verið brotið á áður samþykktum skilyrðislausum rétti hans til að endurreisa gamla og leka byggingu og bæta eilítið við hana. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að afstaða skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 sé ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem með henni sé nefndin að ítreka fyrri afstöðu og vísi til eldri ákvörðunar í málinu.  Sé því ekki um sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun að ræða og beri af þeim sökum að vísa kærumálinu frá úrskurðarnefndinni. 

Verði ekki fallist á framangreint sé bent á að lóðarréttindi kæranda byggi á lóðarleigusamningi sem gerður hafi verið hinn 7. nóvember 1994.  Samkvæmt samningnum sé lóðin leigð til 1. maí 2010.  Í 9. gr. hans segi svo:  „Vilji landeigandi ekki að loknum leigutímanum, með nýjum leigusamningi, endurnýja hann, skal leigutaki fjarlægja mannvirki þau, er á landinu standa Kópavogskaupstað að kostnaðarlausu.“ 

Ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja umsókn kæranda byggi m.a. á því að sveitarfélagið hyggist ekki endurnýja lóðarleigusamninga í Lækjarbotnum að leigutíma loknum, en langflestir samningar á jörðinni séu útrunnir eða renni út þann 1. maí 2010.  Ástæða þess sé sú að gert sé ráð fyrir breytingum á landnotkun á jörðinni. 

Í ljósi þessa sé afstaða Kópavogsbæjar sú að ekki verði veitt frekari leyfi fyrir varanlegum mannvirkjum á svæðinu.  Byggi sú ákvörðun m.a. á framangreindu ákvæði leigusamnings, sem sé staðlað og að finna í öllum samningum. 

Ákvörðun Kópavogsbæjar byggi því annars vegar á því að umsókn kæranda sé ekki í samræmi við skipulagsáætlun og landnotkun sem fyrirhuguð sé á svæðinu, auk þess að réttindi kæranda geri ekki ráð fyrir varanlegum mannvirkjum á lóðinni, líkt og sótt hafi verið um. 

Niðurstaða:  Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í landi Lækjarbotna.  Krefst Kópavogsbær frávísunar málsins þar sem í erindi kæranda felist aðeins beiðni um afgreiðslu erindis er skipulagsyfirvöld hafi áður tekið afstöðu til.  Á þetta verður ekki fallist enda var hin kærða ákvörðun studd nýjum rökum og var kæranda bent á kærurétt og kærustjórnvald er honum var tilkynnt um ákvörðunina.  Verður því að líta svo á að um nýja ákvörðun hafi verið að ræða, sem ekki verði vísað frá á þeim grundvelli sem frávísunarkrafa bæjaryfirvalda byggist á. 

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi vísaði umsókn kæranda um byggingarleyfi til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Virðist skipulagsnefnd hafa tekið til skoðunar hvort erindið samræmdist ófullkomnu deiliskipulagi sem skipulagsyfirvöld munu hafa sett á árinu 2003 fyrir tvær lóðir á umræddu svæði, þrátt fyrir ákvæði gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, en í deiliskipulagi þessu skortir auk þess á að kveðið sé á um stærðir byggingarreita, fjarlægðir frá lóðamörkum og ýmsar aðrar nauðsynlegar forsendur til túlkunar þess.  Lauk nefndin síðar málinu með hinni kærðu ákvörðun án þess að það kæmi til frekari umfjöllunar af hálfu byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar. 

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Heimilt er, með sérstakri samþykkt er ráðherra staðfestir, að fela byggingarfulltrúa afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi en hvergi er stoð fyrir því í lögum að skipulagsnefnd sé bær til þess að afgreiða mál sem eiga undir byggingarnefnd eða byggingarfulltrúa.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn kæranda til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókninni. 

Að auki liggur fyrir að engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindi kæranda eða samþykkja það er fundargerð skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007.  Þá verður heldur ekki séð að bæjarstjórn hafi fjallað um erindið.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs eða bæjarstjórnar og var því ekki bundinn endi á meðferð máls með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Sætir hin kærða ákvörðun því ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar eða til þess hvort hún hafi haft einhverja þýðingu við afgreiðslu á erindi kæranda. 

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um heimild til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í landi Lækjarbotna ekki hlotið rétta meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  _______________________________
         Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

7/2008 Vesturberg

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingu dæluhúss Hitaveitu Reykjavíkur á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík í þriggja íbúða raðhús. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. janúar 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Tryggvi Þórhallsson hdl., f.h. G, Vesturbergi 199, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2007 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingu á dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík í þriggja íbúða raðhús.  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 20. september 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni og var fallist á þá stöðvunarkröfu með úrskurði uppkveðnum hinn 11. mars 2008.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að kærandi fékk á árinu 1990 leyfi til að byggja yfir svalir hússins að Vesturbergi 199 með gluggum til suðurs í átt að dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur að Vesturbergi 195.  Í yfirlýsingu sem gerð var af því tilefni, dags. 19. janúar 1990, segir m.a:  „Engar athugasemdir eru gerðar af hálfu Hitaveitunnar við fyrirhugaðar framkvæmdir, enda ekki fyrirhuguð viðbygging við dælustöðina.“  Þar sagði enn fremur að Hitaveitan samþykkti að yfirlýsingunni yrði þinglýst sem kvöð á lóð Hitaveitunnar.  Síðar var dælustöðin aflögð og fasteignin seld. 

Hinn 21. október 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vesturbergi 195, sem fól m.a. í sér heimild til viðbyggingar við hús það sem stendur á lóðinni.  Var deiliskipulagsbreytingin kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi skipulagsbreytinguna úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 30. ágúst 2006, m.a. með þeim rökum að bil milli heimilaðrar viðbyggingar og hússins að Vesturbergi 199 uppfyllti ekki þágildandi skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar um. 

Ný tillaga að deiliskipulagsbreytingu varðandi lóðina að Vesturbergi 195 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. október 2006 og málinu vísað til skipulagsráðs, sem samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum hinn 11. október og vísaði málinu til borgarráðs. 

Fól tillagan í sér heimild til að byggja þriggja íbúða raðhús á þremur hæðum að Vesturbergi 195, byggingarreitur var stækkaður og byggingarmagn aukið úr 213,5 fermetrum í 465 fermetra.  Leyft var að grafa frá bakhlið húss til þess að skapa möguleika á gluggum á bakhlið og göflum kjallara.  Samkvæmt tillögunni fór nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,6 og var heimilað að reisa fyrirhugað hús í sex metra fjarlægð frá lóðarmörkum kæranda að Vesturbergi 199. 

Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 10. janúar 2007, þar sem fyrir lágu framkomnar athugasemdir, m.a. frá kæranda, ásamt umsögn framkvæmdasviðs, dags. 22. desember 2006, og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. janúar 2007.  Var deiliskipulagstillagan samþykkt með svofelldri bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa og Framkvæmdasviðs.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 18. janúar 2007.   Skipulagsbreytingin tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. maí 2007.  Skaut kærandi deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar þar sem krafist var ógildingar hennar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum hinn 11. mars 2008. 

Hinn 18. september 2007 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við dælustöðina að Vesturbergi 195 og að breyta henni í þriggja íbúða raðhús í kjölfar fyrrgreindrar skipulagsbreytingar.  Hefur kærandi nú skotið veitingu þessa byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Eftir að kæra barst í máli þessu, eða hinn 1. apríl 2008, samþykkti byggingarfulltrúi umsókn byggingarleyfishafa að Vesturbergi 195 um leyfi til að setja eldvarnargler í glugga á norðurhlið fyrirhugaðs raðhúss á lóðinni, er snýr að húsi kæranda að Vesturbergi 199.  Þá barst úrskurðarnefndinni mat VSI öryggishönnunar og ráðgjafar á brunaöryggi með tilliti til sambrunahættu milli umræddra húsa, dags. 19. júní 2008, þar sem ekki var talin þörf á sérstökum aðgerðum vegna brunaöryggis, svo sem eldvarnargleri í gluggum á norðurgafli Vesturbergs 195. 

Hinn 20. júní 2008 leitaði úrskurðarnefndin álits Brunamálastofnunar á því hvort kröfum um brunaöryggi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og byggingarreglugerð væri fullnægt samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Í áliti stofnunarinnar, dags. sama dag, kemur m.a. fram að fjarlægð milli húsa að Vesturbergi 195 og 199 þurfi að vera 7 metrar samkvæmt gr. 75.2 í byggingarreglugerð miðað við þær forsendur að brunamótstaða aðlægra veggja sé REI60 og REI30.  Setja þurfi eldvarnargler E60 í glugga á norðurhlið Vesturbergs 195 og hafa þá óopnanlega til þess að fjarlægð milli húsanna geti farið niður í sex metra. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er skírskotað til röksemda sem settar séu fram í kæru hans á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar að Vesturbergi 195 sem hafi verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Þá sé byggt á því að útgáfa hins kærða byggingarleyfis standist ekki gagnvart þeirri meginreglu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna.  Kærandi telji ekki heimilt að veita byggingarleyfi sem stoð eigi í deiliskipulagsbreytingu sem sé til efnismeðferðar hjá þar til bæru stjórnvaldi. 

Lögð sé áhersla á að í fyrirliggjandi áliti Brunamálastofnunar komi skýrt fram að gera þurfi sérstaklega ráð fyrir því í hönnunarforsendum fyrir hið nýja hús að öryggisfjarlægð milli þess og hússins nr. 199 sé of lítil miðað við kröfur 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þar komi fram að þessi fjarlægð eigi að vera a.m.k. sjö metrar og sé sú niðurstaða studd m.a. útreikningum skv. bandarískum staðli og því að eldvörnum sé háttað eins og best gerist.  Telji kærandi að leggja beri umrætt álit til grundvallar við úrlausn málsins, með þeim fyrirvara þó að hitageislunarþol steniklæðningar á húsinu nr. 199 sé óþekkt og því ekki vitað hvort klæðningin standist viðmiðunargeislunina 12,5 kW/m² eins og gengið sé út frá. 

Fyrir liggi að hin kærða ákvörðun Reykjavíkurborgar byggist á því að fjarlægð milli húsanna tveggja sé einungis sex metrar.  Af þeirri ástæðu beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, enda standist það ekki gagnvart varúðarreglu og öryggissjónarmiðum að veita afslátt af kröfum sem gerðar séu í fyrirmælum og öðrum viðmiðunum útgefnum af stjórnvöldum.  Vísað sé til lögmætis- og réttmætisreglna íslensks stjórnsýsluréttar þessu til stuðnings.  Af eðli máls leiði síðan að lóðarhafi Vesturbergs 195 verði nú að hefjast handa að nýju við hönnun hússins þannig að öryggisfjarlægð milli húsanna sé í samræmi við opinber fyrirmæli og að lágmarki sjö metrar.  Eigandi húss á aðliggjandi lóð eigi ekki að þurfa að sæta því að þessi öryggisfjarlægð sé skert og þar með mikilsverðir lögvarðir hagsmunir hans. 

Verði svo litið á að gera megi bragarbót á hinni kærðu ákvörðun þannig að ekki þurfi að fella hana úr gildi, sé á því byggt að efnisleg ákvörðun um byggingarleyfi að Vesturbergi 195 verði að lágmarki að vera í samræmi við niðurstöðu Brunamálastofnunar, þ.e. að gluggar sem hin kærða ákvörðun geri ráð fyrir á norðurvegg Vesturbergs 195 verði að vera með eldþolnu gleri E60 og óopnanlegir.  Megi raunar halda því fram með gildum rökum að á grundvelli öryggissjónarmiða beri að taka af alla glugga á norðurvegg Vesturbergs 195. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. 

Í gildi sé deiliskipulag Breiðholts III, er taki til Vesturbergs 195.  Sú staðreynd að breyting á deiliskipulagi skuli vera til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála komi ekki í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis með stoð í þeirri breytingu enda hafi henni ekki verið hnekkt. 

Kærandi hafi ekki bent á neina ágallar á málsmeðferð þess.  Séu því ekki rök fyrir ógildingarkröfu kæranda. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi var veitt á grundvelli deiliskipulagsbreytingar þeirrar er borgarráð samþykkti hinn 18. janúar 2007 og kærandi máls þessa skaut til úrskurðarnefndarinnar.  Eins og fyrr er rakið var kveðinn upp úrskurður í því kærumáli hinn 11. mars 2008 þar sem kröfu kæranda um ógildingu skipulagsbreytingarinnar var hafnað og í þeim úrskurði er tekin afstaða til málsástæðna kæranda er teflt var fram gegn skipulagsbreytingunni.  Verður deiliskipulag umrædds svæðis svo breytt því lagt til grundvallar í máli þessu, m.a. hvað varðar heimilaða fjarlægð viðbyggingar á lóðinni að Vesturbergi 195 frá lóðarmörkum Vesturbergs 199. 

Það verður að telja meginreglu í stjórnarfarsrétti að ákvarðanir sem teknar eru af þar til bærum stjórnvöldum hafi réttarverkan og haldi gildi sínu þar til þeim er hnekkt með lögboðnum hætti, eða þær afturkallaðar, nema sérstaklega sé kveðið á um annað í lögum, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki er að finna ákvæði í skipulags- og byggingarlögum þess efnis að kæra á stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar fresti réttaráhrifum hennar og verður því ekki fallist á að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að veita hið kærða byggingarleyfi þótt skipulagsbreyting sú sem það byggðist á hafi þá verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti hinn 1. apríl 2008 umsókn um breytta útfærslu glers í gluggum norðurgafls húsbyggingar að Vesturbergi 195 uppfyllir hið kærða byggingarleyfi þá kvöð í fyrrnefndri deiliskipulagsbreytingu að mögulegir gluggar á þeim gafli skuli vera með öryggisgleri.  Að þessu virtu verður hið kærða byggingarleyfi talið í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.

Kemur þá til skoðunar hvort hönnun og útfærsla heimilaðrar byggingar standist brunaöryggiskröfur byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Í 75. gr. byggingarreglugerðar er kveðið á um að bil milli húsa þurfi að vera nægjanlegt til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra, sbr. gr. 75.1.  Sé ekki sýnt fram á annað, svo sem með brunahönnun skv. gr. 141.2 reglugerðarinnar, skal miða við töflu í gr. 75.2 er tilgreinir fjarlægðir milli bygginga miðað við gefinn brunamótstöðustuðul.

Fyrir liggur í málinu álit Brunamálastofnunar þar sem fram kemur að sex metra fjarlægð milli umræddra húsa teljist nægjanleg að gættum öryggissjónarmiðum gr. 75.1 ef gler í gluggum norðurgafls húss að Vesturbergi 195 sé eldvarnargler með E60 brunamótstöðu og að gluggarnir séu óopnanlegir.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið þykir hafa verið sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að unnt sé, með viðeigandi brunahönnun, að víkja frá viðmiðunarreglum gr. 75.2 í byggingarreglugerð um lágmarksfjarlægðir milli húsa og að bil milli umræddra húsa geti því verið 6 metrar eins og skipulag gerir ráð fyrir og hin kærða ákvörðun felur í sér.     

Samkvæmt framansögðu er fullnægt meginreglu gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og þar sem ekki liggur fyrir að umdeild ákvörðun sé haldin öðrum þeim annmörkum er ráðið geti úrslitum um gildi hennar verður ógildingarkröfu kæranda hafnað.  Jafnframt falla úr gildi réttaráhrif úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 11. mars 2008 um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.      

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis frá 18. september 2007 fyrir viðbyggingu og breytingu á dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík í þriggja íbúða raðhús.  

 

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

55/2007 Lindir IV

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. febrúar 2007 um deiliskipulag fyrir Lindir IV, Skógarlind nr. 1 og 2, og á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. ágúst 2007 um breytt deiliskipulag fyrir sama svæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júní 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir P, Krossalind 35, Kópavogi, samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. febrúar 2007 um deiliskipulag fyrir Lindir IV.  Kærandi hefur jafnframt með bréfi, dags. 2. nóvember 2007, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kært breytingu sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 28. ágúst 2007 á ofangreindu skipulagi.  Þykir ekkert standa því í vegi að það kærumál, sem er nr. 149/2007, verði sameinað máli þessu.  Eru málin því sameinuð.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir og málsrök:  Hinn 19. júlí 2005 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Lindir IV.  Í auglýsingu um tillöguna kom m.a. fram að á umræddu svæði, sem afmarkast af Reykjanesbraut í vestur og norður, Lindarvegi í austur og Fífuhvammsvegi í suður, væri gert ráð fyrir nýju verslunar- og þjónustusvæði og að breytingar yrðu gerðar á umferðarmannvirkjum á svæðinu.

Annars vegar væri um að ræða eins til þriggja hæða byggingu meðfram Lindarvegi, sem áætluð væri um 15.500 m² að flatarmáli.  Við húsið væri gert ráð fyrir 460 bílastæðum og hluti þeirra, eða um 180 stæði, fyrirhuguð á þaki hússins með aðkomu frá Lindarvegi.  Hins vegar væri gert ráð fyrir byggingu meðfram Fífuhvammsvegi sem væri ráðgerð þrjár hæðir auk kjallara, samtals um 9.500 m² að flatarmáli.  Áætluð væru 315 bílastæði við húsið, að stærstum hluta í tveggja hæða bílgeymslu. 

Aðkoma að svæðinu væri fyrirhuguð frá Lindarvegi í austri og af tengirampa milli Fífuhvammsvegar og Reykjanesbrautar úr vestri.  Einnig yrði gert ráð fyrir nýjum akfærum undirgöngum undir Reykjanesbraut sem tengja myndu Dalveg og Lindir IV.  Þá væri gert ráð fyrir nýju hringtorgi á gatnamótum Núpalindar og Lindarvegar og breikkun Lindarvegar milli þess og Fífuhvammsvegs. 

Kom kærandi máls þessa á framfæri athugasemdum við tillöguna.  Málið var til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum næsta árið og á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. febrúar 2006 var tillagan samþykkt að hluta.

Hinn 13. febrúar 2007 var tillaga að deiliskipulagi fyrir Lindir IV, Skógarlind nr. 1 og 2, með nýrri útfærslu vegtenginga samþykkt á fundi bæjarstjórnar Kópavogs ásamt umsögn bæjarskipulags og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. maí s.á.

Stuttu síðar, eða hinn 12. júní 2007, var á fundi bæjarstjórnar Kópavogs samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Lindir IV og gerði kærandi máls þessa athugasemdir við tillöguna.  Að loknum kynningartíma var málið tekið fyrir að nýju á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. ágúst 2007 og var tillaga að breyttu deiliskipulagi samþykkt.

Fól tillagan m.a. í sér að lóðinni yrði skipt upp í tvær lóðir og yrði heildarlóðarstærð 4,5 ha, þ.e. lóð Skógarlindar 1 yrði 1,4 ha og lóð Skógarlindar 2 yrði 3,1 ha. Heildarbyggingarmagn yrði 27.200 m² í stað 25.000 m².  Nýtingarhlutfall yrði 0,6.  Bílastæði er ráðgerð höfðu verið á þaki byggingar Skógarlindar 2 með aðkomu frá Lindarvegi yrðu felld út ásamt aðkomuleiðum og þeim komið fyrir að vestanverðu við bygginguna.  Fyrirhuguð bygging yrði eins að formi til með mestu hæð útveggjar til vesturs allt að 12 metra.  Þak skyldi hallast niður til austurs.  Hæðarskilum í norðurenda hússins yrði breytt.  Þá var jafnframt gert ráð fyrir að á lóðinni að Skógarlind 1 yrði heimilt að nota kjallararými undir atvinnustarfsemi.

Auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. október 2007.

Framangreindum samþykktum bæjarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Kærandi vísar m.a. til þess að við gerð umrædds deiliskipulags hafi ekki verið haft samráð við íbúa svæðisins og að svörum skipulagsnefndar við framkomnum athugasemdum kæranda hafi verið ábótavant.  Umrætt skipulagssvæði beri ekki fyrirhugað byggingarmagn og umferðarmannvirki sveitarfélagsins muni ekki anna þeirri aukningu á umferð sem því muni fylgja, enda hafi við hönnun þeirra verið byggt á þeim forsendum að umferð yrði mun minni um svæðið en nú sé reiknað með.

Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar málsins.  Í fyrsta lagi með vísan til þess að frestur til að skila inn kæru til úrskurðarnefndarinnar hafi verið liðinn er kæra barst nefndinni.  Kærufrestur sé einn mánuðir frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Deiliskipulagið hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 21. maí 2007 en kæra hafi borist rúmum mánuði síðar eða þann 25. júní s.á.

Í öðru lagi byggi frávísunarkrafa á því að kærandi eigi hvorki einstaklegra né verulegra hagsmuna að gæta varðandi deiliskipulag fyrir Lindir IV.  Breytingin feli hvorki í sér veruleg né óveruleg grenndaráhrif fyrir kæranda og leiði ekki til skuggamyndunar, sjónmengunar, útsýnisskerðingar, né annars ónæðis eða skerðingar á beinum hagsmunum kæranda.  Athugasemdir kæranda beinist aðallega að umferðarmálum en fullt samráð hafi verið haft við Vegagerðina.

Til vara sé þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.  Hið kærða deiliskipulag sé í fullu samræmi við gildandi Aðalskipulag Kópavogs 2000-2012 en þar sé umrætt svæði skipulagt sem verslunar- og þjónustusvæði.  Sé byggingarmagn sem og nýting lóðar í samræmi við aðalskipulag og nýtingu á aðliggjandi lóðum.

Niðurstaða:  Kærandi máls þessa er búsettur að Krossalind 35 í Kópavogi.  Frá húsi hans og að svæði því er um er deilt í máli þessu eru um 500 metrar.  Húsið er parhús og er afstaða þess til skipulagssvæðisins þannig að lítilla sjónrænna áhrifa gætir á lóð hans af mannvirkjum þar.

Byggir kærandi málatilbúnað sinn að efni til fyrst og fremst á skipulagslegum atriðum, svo sem að umrætt svæði þoli ekki heimilað byggingarmagn samkvæmt skipulagi eða þá umferðaraukningu sem vænta megi af þeim sökum.

Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags.  Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun.  Hefur og verið áréttað í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvara hagsmuni af úrlausn máls.

Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ekki einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar uppbyggingu á Lindum IV.  Telur nefndin ljóst að deiliskipulagið skerði ekki útsýni eða hafi í för með sér svo verulegar breytingar á umferð eða áhrif á umhverfi kæranda að það geti snert lögvarða hagsmuni hans þegar miðað er við staðsetningu húss hans og afstöðu þess til bygginga þeirra er heimilaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.  Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga slíka hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið sem áskilið er, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________      _______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

19/2007 Bæjarlind

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 19/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 um breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10, sem fól m.a. í sér heimild til byggingar 10 hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæðis ásamt tveggja hæða bílgeymslu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. mars 2007, er barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir P, Krossalind 35, Kópavogi, samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 um breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10, sem fól m.a. í sér heimild til byggingar 10 hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæðis ásamt tveggja hæða bílgeymslu.   Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 10. ágúst 2006 samþykkti bæjarráð Kópavogs að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10.  Fól tillagan í sér að umrædd lóð yrði stækkuð úr 7.700 fermetrum í 17.400 fermetra og heimild til að byggja 10 hæða verslunar- og þjónustuhúsnæði ásamt tveggja hæða bílgeymslu norðan við byggð þá sem fyrir var.  Heildarbyggingarmagn færi úr 3.200 fermetrum í 11.300 fermetra.  Þá var gert ráð fyrir inn- og útakstri að fyrirhuguðu bílgeymsluhúsi frá nýrri hliðargötu, samsíða Fífuhvammsvegi, auk breytts fyrirkomulags bílastæða.  Tvær athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, þ.á m. frá kæranda.  Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti hina auglýstu tillögu óbreytta, ásamt umsögn vegna framkominna athugasemda, hinn 28. nóvember 2006 og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi skírskotar m.a. til þess að umrætt svæði þoli ekki heimilaða stækkun, ekkert tillit sé tekið til nærliggjandi svæða og umferðarmannvirki anni ekki þeirri umferð sem fylgja muni auknu byggingarmagni og fyrirhugaðri uppbyggingu á nærliggjandi svæðum.  Ekki hafi verið haft samráð við íbúa hverfisins sem þurfi að nýta umræddar akstursleiðir og svörum við framkomnum athugasemdum við skipulagstillöguna sé áfátt.

Af hálfu bæjaryfirvalda Kópavogs er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting snerti ekki grenndarhagsmuni kæranda.  Breytingunni fylgi ekki skuggamyndun gagnvart kæranda, sjónmengun, útsýnisskerðing né annað ónæði eða skerðing á beinum hagsmunum hans.  Athugasemdir kæranda beinist aðallega að umferðarmálum en fullt samráð hafi verið haft við Vegagerðina við meðferð tillögunnar. 

Ekki verði séð að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu og skorti hann því kæruaðild samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Niðurstaða:  Hús kæranda að Krossalind 35 er í rúmlega 800 metra fjarlægð frá því svæði sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til.  Húsið er parhús og er afstaða þess til skipulagssvæðisins þannig að lítilla sjónrænna áhrifa gætir á lóð hans af mannvirkjum þar.  Lúta efnisleg andmæli kæranda við skipulagsbreytingunni fyrst og fremst að skipulagslegum atriðum, svo sem auknum byggingarheimildum og umferðaraukningu sem vænta megi af þeim sökum.

Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags. 

Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun.  Hefur og verið áréttuð í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvara hagsmuni af úrlausn máls.

Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður ekki séð að umdeild deiliskipulagsbreyting snerti grenndarhagsmuni kæranda eða aðra lögvarða hagsmuni hans.  Tilhögun umferðar og skipulag umferðarmannvirkja, svo sem stofn- eða tengibrauta í vegakerfi sveitarfélags, verður ekki talin tengjast einstaklegum lögvörðum hagsmunum heldur fremur almannahagsmunum.  Einungis kæmi til álita að telja slíka einstaklega hagsmuni vera fyrir hendi ef um væri að ræða bein grenndaráhrif aukinnar umferðar eða tilhögunar umferðarmannvirkja varðandi einstakar fasteignir. 

Að framangreindum atvikum virtum verður kærandi ekki talinn eiga kæruaðild í máli þessu og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

________________________________     _____________________________
    Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

133/2007 Birnustaðir

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 133/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 4. október 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. október 2007, er barst nefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. M, G, Þ og Á, eigenda sumarhúss í landi Birnustaða, Súðavíkurhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 4. október 2007 að veita Hólmabergi ehf. byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá var þess krafist að úrskurðarnefndin kvæði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu en með úrskurði uppkveðnum 29. október 2007 var þeirri kröfu hafnað með vísan til þess að byggingu hússins væri að mestu lokið. 

Málavextir:  Mál þetta á sér langan aðdraganda en deilt hefur verið um heimildir til byggingar vélageymslu að Birnustöðum í Laugardal í Súðavíkurhreppi.  Hafa deilur þessar staðið milli eiganda jarðarinnar annars vegar, sem óskað hefur eftir heimild til byggingar nýrrar vélageymslu, og hins vegar kærenda sem eru eigendur sumarhúss er á jörðinni stendur. 

Umrætt sumarhús er sagt hafa verið byggt á árinu 1988 og liggur fyrir byggingarvottorð, útgefið af byggingarfulltrúa hinn 16. febrúar 1998, þar sem fram kemur að húsið sé fullgert og byggt með leyfi byggingar- og skipulagsyfirvalda Súðavíkurhrepps, áður Ögurhrepps.  Hinn 13. október 1997 gáfu þáverandi eigendur Birnustaða út yfirlýsingu um að 1.500 m² lóð fylgdi sumarhúsinu samkvæmt uppdrætti, staðfestum af byggingarfulltrúa, auk annarra nánar tilgreindra réttinda.  Er sumarhúsið skammt norðaustan við íbúðarhúsið á jörðinni en auk þess var suðvestan við sumarhúsið gömul vélaskemma, um 10 metra frá lóðarmörkum, sem nú hefur verið rifin til hálfs.  Þá stóð lítill hjallur suðvestan við sumarhúsið, alveg við lóðarmörk þess, en hann hefur verið rifinn.

Nokkuð er síðan þeir eigendur sem ráðstöfuðu umræddri lóð undir sumarhúsið seldu jörðina Birnustaði, en sumarhúsið ásamt tilheyrandi lóð var undanskilið.

Ekki er í gildi deiliskipulag á umræddu svæði en í gildi er Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 1999-2018.  Birnustaðir eru lögbýli og er land jarðarinnar skilgreint landbúnaðarsvæði.  Í greinargerð aðalskipulagsins segir m.a. að sveitarstjórn telji ekki að útiloka eigi byggingu einstakra dreifðra bústaða utan skilgreindra frístundabyggðarsvæða en í þeim tilvikum skuli þeir einungis staðsettir á landbúnaðarsvæðum.  Samkvæmt aðalskipulagsuppdrætti og greinargerð aðalskipulagsins er heimild til að reisa frístundahús í Laugardal. 

Umsókn um leyfi til byggingar nýrrar vélageymslu á jörðinni var fyrst samþykkt í byggingarnefnd hinn 27. október 2004.  Á grundvelli þeirrar samþykktar gaf byggingarfulltrúi út skriflegt byggingarleyfi hinn 23. mars 2005 með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður ráðið af málsgögnum að eftir þetta hafi byggingaryfirvöldum í Súðavíkurhreppi orðið ljóst að ekki hefði verið staðið rétt að undirbúningi ákvörðunar um leyfisveitinguna og var Skipulagsstofnun sent erindi af því tilefni.  Í svari Skipulagsstofnunar til byggingarfulltrúa, dags. 17. ágúst 2005, segir m.a:  „Vísað er til erindis Súðavíkurhrepps, dags. 11. ágúst 2005, þar sem óskað er meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga, með veitingu byggingarleyfis fyrir allt að 245,7 m² vélageymslu í landi Birnustaða.  Hámarkshæð húss er 5,5 m (mælt á uppdrætti) … Áður en Skipulagsstofnun getur afgreitt erindið þarf að liggja fyrir hvort gert hafi verið bráðabirgðahættumat af svæðinu í samræmi við ákvæði aðalskipulags Súðavíkur.  Þar sem um byggingu er að ræða í næsta nágrenni við núverandi frístundahús þarf jafnframt að kynna framkvæmdina fyrir eigendum þess og mælir stofnunin með því að reynt verði að ná sáttum um staðsetningu hennar.  Stofnunin bendir jafnframt á að gæta þarf ákvæða byggingarreglugerðar um fjarlægð frá lóðamörkum og að gera þarf yfirlitsmynd sem sýnir staðsetningu jarðarinnar/framkvæmdarinnar í sveitarfélaginu.“ 

Með bréfi, dags. 20. september 2005, tilkynnti byggingarfulltrúi eiganda Birnustaða að komið hefði í ljós að ekki hefði verið staðið rétt að veitingu leyfisins.  Hefði þess ekki verið gætt að leggja byggingarleyfisumsóknina fyrir Skipulagsstofnun og óska meðmæla samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en auk þess hefði verið að því fundið að ekki hefði farið fram grenndarkynning vegna sumarhúss er stæði nærri vélageymslunni.  Þar sem enn hefði ekki tekist að leggja fram umbeðin gögn, sem um hefði verið rætt við byggingarleyfishafa, væri áður útgefið byggingarleyfi frá 23. mars 2005 fellt úr gildi.  

Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 22. september 2005, var þeim tilkynnt að ákveðið hefði verið, með vísan til 2. mgr. (sic) 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, að grenndarkynna þá ákvörðun eiganda jarðarinnar að byggja vélageymslu á jörðinni.  Í bréfi, dags. 17. október 2005, settu kærendur fram athugasemdir vegna þessa og mótmæltu staðsetningu fyrirhugaðrar vélageymslu.  Á fundi byggingarnefndar hinn 8. nóvember 2005 var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:  „Byggingarnefnd telur ekki nægileg rök fyrir því að banna byggingu vélageymslu á áður samþykktum byggingarreit.“  Var bókunin staðfest á fundi sveitarstjórnar samdægurs og athugasemdum kærenda svarað.  Kærði lögmaður eigenda sumarhússins þessa niðurstöðu byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 7. nóvember 2005, en ekkert byggingarleyfi var þó veitt í framhaldi af framangreindri niðurstöðu byggingarnefndar.  Var kærumálið síðar dregið til baka þar sem engin kæranleg ákvörðun lá fyrir í málinu. 

Í bréfi Skipulagsstofnunar til byggingarfulltrúa, dags. 14. nóvember 2005, segir m.a. eftirfarandi:  „Vísað er til erindis Súðavíkurhrepps, dags. 8. nóvember 2005, þar sem ítrekuð er ósk um meðmæli Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga, með veitingu byggingarleyfis fyrir 246 m² vélageymslu í landi Birnustaða … Skipulagsstofnun undrast að sveitarstjórn skuli fallast á staðarval vélageymslunnar þrátt fyrir augljósa útsýnisskerðingu og réttlát mótmæli eigenda íbúðarhúss sem fyrir er á jörðinni.  Skipulagsstofnun gerir þó ekki athugasemd við að leyfi verði veitt fyrir byggingunni enda verði virt ákvæði byggingarreglugerðar um fjarlægð bygginga frá lóðarmörkum m.t.t. til byggingarefna.“ 

Málið virðist hafa legið niðri um nokkurn tíma eftir þetta en í tölvupósti sveitarstjóra hinn 20. mars 2007 til eins kærenda segir eftirfarandi:  „Sendi þér hér afrit af nýrri tillögu að staðsetningu geymslunnar sem óskað er eftir að fá heimild til að byggja á Birnustöðum.  Heyri frá þér þegar þú hefur skoðað þessa staðsetningu.“  Á fundi byggingarnefndar Súðavíkurhrepps hinn 30. apríl 2007 var tekið fyrir munnlegt erindi um byggingu margnefndrar vélageymslu.  Í gögnum málsins kemur fram að um sé að ræða 246 m² vélageymslu, þar sem vegghæð sé 3,97 metrar og mænishæð 5,51 metri.  Lengd hússins sé áformuð 21,71 metri og breidd þess 11,32 metrar.  Mun vélageymsla þessi koma í stað eldri og umtalsvert minni geymslu.  Segir í bókun byggingarnefndar að um sé að ræða nýja staðsetningu hússins og að erindið sé samþykkt þar sem það sé í samræmi við byggingarlög.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 31. maí 2007 var samþykkt byggingarnefndar tekin til afgreiðslu og lagt fram afrit af kæru kærenda til úrskurðarnefndarinnar og erindi byggingarfulltrúa.  Þá var og lögð fram skrifleg byggingarleyfisumsókn.  Í umsókninni segir m.a. eftirfarandi:  „Áður hefur verið sótt um byggingarleyfi fyrir þessu húsi en það var ógilt vegna ósamkomulags við nágranna um staðsetningu þess.  Nú hefur byggingin verið færð 9 m í SA og skerðir ekki, að okkar mati, lengur útsýni til SV, en það var m.a. það sem nágrannar í sumarhúsinu settu fyrir sig.“  Var afgreiðslu frestað til næsta fundar sveitarstjórnar. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 7. júní 2007 var tekin til afgreiðslu umsókn um byggingarleyfi fyrir vélageymslu á Birnustöðum og var eftirfarandi fært til bókar:  „Lögð fram greinargerð byggingarfulltrúa er varðar möguleg grenndaráhrif vegna byggingarinnar.  Lagt fram álit lögfræðings Súðavíkurhrepps vegna málsins.  Lagðar fram athugasemdir frá Margréti og Þóru Karlsdætrum á greinargerð byggingarfulltrúa.  Byggingarnefnd hefur áður fjallað um sama erindi sem lagt var munnlega fyrir nefndina af byggingarfulltrúa þann 30. apríl sl.  Nú hefur umsækjandi lagt fram skriflega umsókn um byggingarleyfi.  Nefndin hefur farið yfir öll gögn um málið og komist að sömu niðurstöðu og þann 30. apríl sl. þ.e. að nefndin leggur það til við sveitarstjórn að hún samþykki erindið.  Jafnframt átelur byggingarnefndin byggingaraðila harðlega fyrir að hafa ekki farið eftir munnlegum tilmælum byggingarfulltrúa um að hefja ekki byggingarframkvæmdir fyrr en skriflegt leyfi þar um hafi verið gefið út.“  Var framangreind afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 8. júní 2007 með eftirfarandi bókun:  „Sveitarstjórn telur ekki að framkomin sjónarmið um meint grenndaráhrif séu þess eðlis að ekki beri að veita byggingaleyfi vegna byggingarinnar.“ 

Með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 11. júní 2007 fyrir hinni umdeildu vélageymslu en fyrir liggur að byggingarleyfishafi hóf framkvæmdir áður en leyfið var veitt. 

Framangreindum ákvörðunum skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu þeirra og um stöðvun framkvæmda.  Ákvað úrskurðarnefndin, með úrskurði til bráðabirgða uppkveðnum hinn 3. júlí 2007, að stöðva skyldi framkvæmdir við bygginguna meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni.  Felldi úrskurðarnefndin síðan, með úrskurði uppkveðnum 26. júlí 2007, úr gildi hina kærðu ákvörðun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps um að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum.  Í kjölfar úrskurðarins var á fundi byggingarnefndar hinn 27. ágúst 2007 lagt fram erindi þar sem óskað var eftir byggingarleyfi fyrir vélageymslu og ákvað byggingarnefnd að leita meðmæla Skipulagsstofnunar á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 þar sem ekki væri fyrir hendi samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir staðsetningu vélageymslunnar á þeim stað sem umsóknin tæki til.  Ákvað byggingarnefnd á fundi hinn 18. september 2007 að leggja til við sveitarstjórn að umbeðið byggingarleyfi yrði veitt auk þess sem veitt var leyfi til að loka vélaskemmunni, en bygging hennar var þá á lokastigi.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007 samþykkti sveitarstjórn fundargerð byggingarnefndar frá 18. september 2007.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir hafi þegar í stað mótmælt niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 13. september 2007.  Ekki verði séð að hægt sé að byggja útgáfu byggingarleyfis fyrir vélageymslunni á 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem forsenda fyrir hinu kærða byggingarleyfi séu lögmælt meðmæli Skipulagsstofnunar.  Í því sambandi sé bent á að byggingarleyfishafi hafi byrjað framkvæmdir við byggingu vélageymslunnar án þess að hafa til þess tilskilin leyfi.  Byggingarleyfið, sem gefið hafi verið út hinn 11. júní 2007, hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar.  Samkvæmt  2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga beri að stöðva byggingarframkvæmdir sem hafnar séu án þess að leyfi sé fengið fyrir þeim eða ef bygging brjóti í bága við skipulag.  Síðan skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð og jarðrask afmáð.  Hafa beri í huga að 3. tl. til bráðabirgða í lögunum sé undantekningarákvæði.  Samkvæmt því beri að leita meðmæla Skipulagsstofnunar áður en framkvæmdir hefjist enda séu meðmæli stofnunarinnar skilyrði þess að sveitarstjórn geti leyft einstakar framkvæmdir.  Ekki verði séð að hægt sé að beita fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði til að afla eftir á meðmæla frá Skipulagsstofnun þegar fyrir liggi að framkvæmdir hafi verið hafnar án leyfis og byggingarleyfi þegar verið fellt úr gildi. 

Þá bendi kærendur á að í gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um byggingarreiti fyrir sumarhús komi fram að í deiliskipulagi svæða fyrir frístundabyggð skuli þess gætt að byggingarreitir séu ekki staðsettir nær lóðarmörkum en tíu metra.  Í því tilviki sem hér um ræði sé vélageymslan einungis 2,42 metra frá girðingu, sem kærendur hafi hingað til talið að væri á lóðarmörkum, en girðingin sé 7,82 metra frá sumarhúsi kærenda, þannig að einungis 10,24 metrar séu frá sumarhúsi kærenda að vélageymslunni.  Ný afstöðumynd af lóð sumarhússins, sem kærendur hafi látið vinna, bendi til að þess vélageymslan sé byggð langt inn á lóð sumarhússins.  Þó svo að miðað væri við að lóðamörkin væru þar sem núverandi girðing sé, þá séu ekki nema 2,42 metrar frá girðingunni að vélageymslunni og slíkt sé í andstöðu við skýr ákvæði gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð. 

Þá telji kærendur að líta beri til sjónarmiða um meðalhóf þegar tekin sé afstaða til staðsetningar vélageymslunnar og að sumarhús kærenda hafi verið byggt fyrir um 20 árum.  Óumdeilt sé að völ sé á annarri staðsetningu fyrir vélageymsluna þar sem tekið væri jafnt tillit til sjónarmiða kærenda sem og byggingarleyfishafa. 

Kærendur vísi einnig til grenndarsjónarmiða og haldi því fram að byggingin muni valda þeim útsýnisskerðingu, varpa skugga á hús og lóð þeirra, snjósöfnun á lóðinni muni verða veruleg ásamt því að valda þeim miklu ónæði sökum hávaða, vélaumferðar og mengunar frá vélum. 

Málsrök Súðavíkurhrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekki hafi fyrr verið gerð athugasemd við lóðarmörk sumarhúss kærenda, er þeir hafi sjálfir ákvarðað án nokkurra afskipta byggingaryfirvalda.  Byggingaryfirvöld hafi ekkert á móti því að lóðarmörk verði ákvörðuð á annan hátt en verið hafi en slíkt þurfi þó að gerast í samráði við og með samþykki landeiganda. 

Því hafi aldrei verið í móti mælt að hin umrædda bygging hefði nokkur umhverfisáhrif en því sé mótmælt að hún hafi svo mikil áhrif sem kærendur telji og alls ekki svo mikil að leiða eigi til ógildingar byggingarleyfisins. 

Þá sé litið svo á að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í málinu nr. 47/2007, er varðað hafi umþrætt byggingarleyfi, hafi eingöngu byggst á þeim sjónarmiðum að hvorki hafi verið fyrir hendi heimild til útgáfu byggingarleyfis, með stoð í grenndarkynningu, né að leitað hafi verið umsagnar Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti, með vísan til 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.  Ekki hafi af hálfu úrskurðarnefndarinnar verið gerðar efnislegar athugasemdir varðandi byggingarframkvæmdirnar, svo sem að þær brytu í bága við grenndarsjónarmið o.þ.h., og því verði að álykta sem svo að nefndin hafi ekki talið slíka annmarka á framkvæmdunum.  Komið hafi verið til móts við athugasemdir úrskurðarnefndarinnar að þessu leyti, með því að leitað hafi verið umsagnar Skipulagsstofnunar á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis í kjölfar umsóknar um byggingarleyfi vegna umræddrar vélaskemmu.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, hafi ekki verið gerð athugasemd við að byggingarleyfi yrði veitt vegna staðsetningar vélaskemmunnar á þeim stað sem tilgreindur hafi verið í byggingarleyfisumsókn. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa/landeiganda er öllum kröfum kærenda harðlega mótmælt.  Byggingarleyfishafi hafi fullnægt öllum skilyrðum fyrir byggingunni og hafi fengið öll tilskilin leyfi með réttum hætti.  Byggingarleyfið brjóti hvorki í bága við skipulags- og byggingarlög né heldur reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í þeim.  Þá sé tekið er undir sjónarmið Súðavíkurhrepps. 

Kærendur haldi því fram að ekki sé hægt að byggja útgáfu byggingarleyfis fyrir vélageymslunni á 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, því forsenda byggingarleyfis séu lögmælt meðmæli Skipulagsstofnunar.  Fyrir liggi að leitað hafi verið eftir meðmælum Skipulagsstofnunar þann 28. ágúst 2007 og hafi Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að hún gerði ekki athugasemd við umrætt byggingarleyfi.  Séu því lögmælt meðmæli Skipulagsstofnunar fyrir hendi og liggi þau til grundvallar byggingarleyfinu sem hafi verið gefið út þann 5. október 2007. 

Kærendur telji að byggingarleyfishafi hafi byrjað framkvæmdir við vélageymsluna án þess að hafa tilskilin leyfi byggingaryfirvalda og sveitarstjórnar.  Þessu sé harðlega mótmælt.  Framkvæmdir hafi á sínum tíma verið hafnar á grundvelli byggingarleyfis sem hafi verið gefið út af Súðarvíkurhreppi þann 23. mars 2005 (og 8. júní 2007).  Eftir að sú ákvörðun hafði verið kærð og fallist hafi verið á stöðvun framkvæmda hafi engar framkvæmdir átt sér stað.  Það hafi ekki verið fyrr en 18. september 2007, þegar byggingaraðila hafi verið veitt heimild til að loka vélageymslunni til að koma í veg fyrir fokskemmdir, sem framkvæmdir hafi aftur farið af stað og þá aðeins til að loka húsinu en ekki hafi verið unnið við aðra verkþætti.  Framkvæmdir hafi svo byrjað að nýju í kjölfar útgáfu byggingarleyfisins þann 5. október 2007. 

Sú staðhæfing að byggingarleyfishafi hafi beitt 3. tl. bráðabirgðaákvæðisins til að afla eftir á meðmæla frá Skipulagsstofnun sé með öllu órökstudd.  Framkvæmdir hafi áður verið hafnar á grundvelli byggingarleyfis sem veitt hafi verið þann 23. mars 2005 en hafi svo verið stöðvaðar.  Byggingaraðilar hafi þá sótt um byggingarleyfi á ný og hafi öllum formreglum laga verið fylgt.  Það að byggja á því að meðmæli Skipulagsstofnunar hafi verið ólögmæt á grundvelli þess að framkvæmdirnar hafi áður verið hafnar með stoð í byggingarleyfi Súðarvíkurhrepps, er síðar hafi verið talið ógilt, eigi sér enga stoð. 

Meðal tilgangs laga nr. 73/1997 hafi verið að gera meðferð skipulags- og byggingarmála einfaldari og auka frumkvæði sveitarfélaga, sbr. athugasemdir við frumvarp laganna. 

Ákvæði gr. 4.11 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 eigi við um frístundabyggð og taki ákvæði reglugerðarinnar til gerðar deiliskipulags þegar slík svæði séu skipulögð.  Eitt frístandandi sumarhús nálægt lögbýli geti seint talist frístundabyggð.  Samkvæmt Aðalskipulagi Súðavíkur 1999-2018 sé þetta svæði skilgreint sem landbúnaðarsvæði og ekki liggi fyrir neitt deiliskipulag.  Samkvæmt grein 4.14.1 sömu reglugerðar sé að finna skilgreiningu á landbúnaðarsvæði.  Sé það skilgreint svo að slíkt svæði nái yfir allt land jarða eða lögbýla, sbr. ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga um land sem nýtt sé til landbúnaðar.  Skuli á slíku svæði fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni.  Kærendum máls þessa sé ljóst, eða megi hafa verið ljóst, allt frá upphafi, að þeir eigi ekki sumarbústað í frístundabyggð.  Þau ákvæði sem hér reyni á séu ákvæði gr. 75.1 og 75.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Uppfylli byggingin og staðsetning hennar öll ákvæði reglugerðarinnar.  Benda verði á að hinn þinglýsti lóðaruppdráttur með sumarhúsinu sé sú heimild sem miða verði við, en ekki nýir uppdrættir sem kærendur hafi nú látið gera.  Sumarhúsið hafi verið byggt fyrir 20 árum og lóðin afmörkuð út frá sumarhúsinu 10 árum síðar.  Frá þeim tíma hafi kærendur fært girðingu inn á land byggingarleyfishafa og verði því ekki miðað við fjarlægð frá girðingu heldur þeim mældu hælum sem byggingarfulltrúi hafi sett niður og miðað hafi verið við þegar staðsetning skemmunnar hafi verið ákvörðuð. 

Tekið hafi verið verulegt tillit til sjónarmiða kærenda og vélageymslan færð til.  Ekki sé völ á annarri staðsetningu eins og kærendur vilji halda fram.  Landeigandi verði að hafa svigrúm til þess að skipuleggja húsakost á landbúnaðarsvæði sínu eins og best þjóni rekstrinum.  Fyrir ofan einbýlishús hans séu gamlar grafir þar sem miltisbrandssýktar kýr hafi verið urðaðar um aldamótin 1900 og hafi því ekki komið til greina að reisa vélaskemmuna þar.  Ekki hafi verið hægt að hafa skemmuna vestan við einbýlishúsið, þ.e.a.s. milli þess og fjárhúss og hlöðu, þar sem rotþró sé þar á milli og einnig dys.  Þá þurfi að vera þar til staðar aðstaða fyrir heyflutning og aðstaða úti til að geyma hey.  Sé það svo að eina staðsetningin sem komið hafi til greina fyrir vélaskemmuna hafi verið þar sem byggingarleyfið geri ráð fyrir henni.  Eldri vélageymsla hafi staðið á svipuðum stað og sú nýja, reyndar nokkru neðar, og að sjálfsögðu megi gera ráð fyrir hávaða vegna þeirra véla sem notaðar séu til landbúnaðar.  Hafi ekkert breyst í því sambandi frá því að sumarhúsið hafi verið byggt.

—————

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök í málinu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi vegna fyrra kærumáls hinn 20. júlí 2007.  Auk nefndarmanna og starfsmanns nefndarinnar voru á staðnum kærendur og lögmaður þeirra, forsvarsmaður byggingarleyfishafa ásamt lögmanni hans, byggingarfulltrúi Súðavíkurhrepps og sveitarstjóri. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi.  Á svæðinu er í gildi Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 1999-2018.  Samkvæmt byggingarleyfinu á byggingin að rísa á skilgreindu landbúnaðarsvæði sunnan við lóð kærenda, sem er frístundalóð, og stendur á henni sumarhús í eigu þeirra.  Gerir aðalskipulagið ráð fyrir að stök sumarhús geti verið á landbúnaðarsvæðum í sveitarfélaginu og samræmist sumarhúsið því stefnumörkun aðalskipulagsins.  Fyrirhuguð nýbygging er 246 m² að stærð og er langhlið hússins 21,71 metri, samsíða suðvesturmörkum lóðar kærenda.  Mænishæð byggingarinnar er 5,51 metri.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Er landið allt skipulagsskylt og skulu framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 9. gr. nefndra laga. 

Tvær heimildir eru í skipulags- og byggingarlögum fyrir því að vikið sé frá skyldu til að gera deiliskipulag vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Er þar annars vegar um að ræða heimild í 3. mgr. 23. gr. laganna um leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu og hins vegar ákvæði 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga sem kveður á um að sveitarstjórn geti, án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, leyft einstakar framkvæmdir sem um kunni að verða sótt og sé unnt að binda slíkt leyfi tilteknum skilyrðum.  Báðar fela þessar heimildir í sér undantekningu frá meginreglu laganna um deiliskipulagsskyldu og sæta því þröngri skýringu. 

Í máli því sem hér er til úrlausnar var leitað meðmæla Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga enda voru ekki skilyrði til að neyta heimildar 3. mgr. 23. gr. laganna eins og atvikum var háttað í hinu umdeilda tilviki.  Kom fram í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, að ekki væri gerð athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir staðsetningu vélageymslunnar á þeim stað sem umsóknin tæki til og var hið umdeilda leyfi veitt á grundvelli þeirrar afgreiðslu. 

Heimildarákvæði 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var bætt inn í lögin að tillögu umhverfisnefndar Alþingis en sambærilegt ákvæði var ekki að finna í frumvarpi til laganna.  Í áliti nefndarinnar frá 9. maí 1997 segir svo:  „Á ákvæði til bráðabirgða eru lagðar til nokkrar breytingar.  Snúa þær í fyrsta lagi að því að heimila sveitarstjórn að leyfa einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt, án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag. Áður skal sveitarstjórn þó hafa fengið meðmæli Skipulagsstofnunar.  Heimilt er að binda leyfið ákveðnum skilyrðum.“ 

Úrskurðarnefndin telur að túlka verið undantekningarákvæði umrædds 3. tl. til bráðabirgða á þann veg að áskilin meðmæli Skipulagsstofnunar þurfi að liggja fyrir áður en sveitarstjórn geti heimilað þær framkvæmdir sem um sé sótt og af því leiði að ekki sé unnt að leggja ákvæðið til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi fyrir þegar byggðu mannvirki.  Skorti því á að fullnægt væri lagaskilyrðum við útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis og verður það því fellt úr gildi.  Leiðir af þeirri niðurstöðu að ekki þykja efni til að fjalla um aðrar málsástæður, en að sumum þeirra hefur áður verið vikið í fyrri úrskurði nefndarinnar frá 26. júlí 2007. 

Rétt er þó að taka fram, vegna þeirrar nýju málsástæðu kærenda að umdeild vélageymsla nái inn á lóð sumarhúss þeirra, að í málinu hefur verið talið rétt að styðjast við uppdrátt, samþykktan af byggingarfulltrúa 3. september 1997, sem mun vera fylgiskjal með þinglýstu heimildarbréfi kærenda fyrir lóð sumarhússins.  Samkvæmt uppdrættinum eru suðurmörk lóðarinnar 8 metra frá suðurhlið sumarhússins, samsíða henni, og er eðlilegast að lóðin sé mæld út frá sumarhúsinu sjálfu, enda var það þegar risið þegar lóð þess var afmörkuð.  Verða ný sjónarmið kærenda um afmörkun lóðar og um lóðarmörk því ekki talin hafa neina þýðingu við úrlausn málsins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Fellt er úr gildi hið kærða byggingarleyfi fyrir byggingu vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi, sem staðfest var á fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps hinn 4. október  2007. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                   ____________________________
 Ásgeir Magnússon                                                      Þorsteinn Þorsteinsson

12/2008 Dælustöð

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. febrúar 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir dælustöð á lóð Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. febrúar 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, eiganda landspildu í landi Reynisvatns, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. febrúar 2008 að veita byggingarleyfi fyrir dælustöð á lóð Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði.  Var ákvörðunin staðfest í borgarráði hinn 7. febrúar 2008. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem nú er unnt að taka málið til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 11. júlí 2007 var tekin fyrir umsókn Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 5. júlí 2007, um breytingu á deiliskipulagi vegna miðlunargeyma fyrirtækisins á Reynisvatnsheiði skv. fyrirliggjandi uppdrætti, dags. 5. júlí 2007.  Óskað var eftir heimild til að stækka lóð undir miðlunargeyma, stækka mögulega mön og færa og bæta við byggingarreiti á lóð.  Samþykkti ráðið að auglýsa framlagða tillögu og vísaði málinu til borgarráðs er staðfesti afgreiðsluna hinn 12. sama mánaðar. 

Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 21. nóvember 2007.  Þar lágu fyrir athugasemdir frá kæranda við deiliskipulagstillöguna, sem borist höfðu á kynningartíma hennar, ásamt umsögn umhverfisstjóra skipulags- og byggingarsviðs, dags. 15. nóvember 2007, vegna athugasemdanna.  Samþykkti skipulagsráð skipulagstillöguna með vísan til áðurgreindrar umsagnar og staðfesti borgarráð þá samþykkt á fundi sínum hinn 29. nóvember 2007.  Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2008.  Skaut kærandi í máli þessu þeirri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. 

Í kjölfar fyrrgreindrar skipulagsbreytingar hinn 5. febrúar 2008 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að byggja dælustöð úr steinsteypu á lóð Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði og var sú umsókn samþykkt þar sem hún var talin vera í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hefur kærandi skotið þessari leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir og skírskotar hann um málsrök til kæru sinnar vegna fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar fyrir umrætt svæði. 

Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað þar sem umdeilt leyfi sé í samræmi við áðurnefnda breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar en ekki hafi verið gerðar sérstakar athugasemdir vegna byggingarleyfisins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 21. maí 2008 að viðstöddum fulltrúum Reykjavíkurborgar, kæranda og lögmanni hans. 

Niðurstaða:  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli kæranda vegna deiliskipulagsbreytingar þeirrar sem var undanfari veitingar hins kærða byggingarleyfis.  Var kröfu um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar hafnað. 

Þar sem nú liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á stoð í deiliskipulagi umrædds svæðis og ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á umdeildri leyfisveitingu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. febrúar 2008, sem staðfest var í borgarráði hinn 7. febrúar s.á., um að veita byggingarleyfi fyrir dælustöð á lóð Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði. 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson