Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2007 Hverfisgata

Ár 2009, þriðjudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2007, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0, er varðar lóðina að Hverfisgötu 78 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. febrúar 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðfinna J. Guðmundsdóttir hdl., f.h. V ehf., eiganda fasteignanna að Hverfisgötu 80 og Laugavegar 59, og H, Hverfisgötu 76, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0, er varðar lóðina að Hverfisgötu 78.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2007. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi sem felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir og eru því ekki skilyrði til þess að kveða upp úrskurð um stöðvunarkröfuna. 

Málavextir:  Á árinu 2004 lagði eigandi fasteignarinnar að Hverfisgötu 78 fram fyrirspurn til skipulagsyfirvalda í Reykjavík um afstöðu þeirra til áforma um að bæta við fimmtu hæð ofan á framhús á greindri lóð og þremur hæðum ofan á bakhús með fimm litlum íbúðum.  Skipulagsfulltrúi tók neikvætt í erindið en á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. desember 2004 var tekin jákvæð afstaða til málsins og var skipulagsfulltrúa falið að vinna að málinu með lóðarhafanum og mun málið hafa verið til meðferðar hjá skipulagsfulltrúa í janúar 2005. 

Í desembermánuði 2005 var málið aftur á dagskrá skipulagsfulltrúa sem vísaði því til skipulagsráðs.  Á fundi sínum hinn 21. desember sama ár fól skipulagsráð skipulagsfulltrúa að funda með aðilum og var ekki gerð athugasemd við að lóðarhafi Hverfisgötu 78 léti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi reitsins á eigin kostnað sem síðar yrði grenndarkynnt.  Hinn 10. febrúar 2006 var breytingartillagan, er byggði á áðurgreindum byggingaráformum, lögð fram á fundi skipulagsfulltrúa og þar samþykkt að grenndarkynna hana.

Athugasemdir bárust við hina grenndarkynntu tillögu, m.a. frá kærendum, og var málið til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum næstu mánuði.  Urðu lyktir málsins þær að hinn 29. september 2006 var lögð fram breytt skipulagstillaga þar sem gert var ráð fyrir tveggja hæða hækkun bakhúss að Hverfisgötu 78 í stað þriggja samkvæmt hinni kynntu tillögu og samþykkti skipulagsráð tillöguna svo breytta, með fyrirvara um lagfæringu uppdrátta, hinn 18. október 2006, með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir ráðið sem heimilar því lokaafgreiðslu óverulegra breytinga á deiliskipulagi.  Breytingin fól efnislega í sér heimild til byggingar fimmtu hæðar ofan á framhúsið að Hverfisgötu 78 með þremur íbúðum og hækkun bakhúss um tvær hæðir þar sem gert var ráð fyrir fimm litlum íbúðum.  Við þessa breytingu hækkaði nýtingarhlutfall umræddrar lóðar úr 2,5 í 3,5. 

Að lokinni framangreindri afgreiðslu skipulagsráðs var deiliskipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun til yfirferðar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 10. nóvember 2006, var gerð athugasemd við að auglýsing um gildistöku hennar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Samkvæmt bréfinu byggðist sú afstaða á því að framkomnum athugasemdum við grenndarkynningu tillögunnar hefði ekki verið svarað efnislega, ekki yrði unnt að uppfylla kröfur gr. 79.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 hvað varði íbúðir í bakhúsi auk þess sem sá hluti fyrirliggjandi uppdráttar er sýndi gildandi deiliskipulag væri ekki í samræmi við breytingu á deiliskipulaginu frá árinu 2004.  Eftir að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar sendu inn lagfærðan skipulagsuppdrátt ítrekaði Skipulagsstofnun fyrrnefnda afgreiðslu sína á málinu í bréfi, dags. 15. desember 2006.   

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og haldin ógildingarannmörkum bæði að formi og efni til. 

Óheimilt hafi verið að leyfa tveggja hæða íbúðarbyggingu ofan á bakhús að Hverfisgötu 78 þar sem það húsnæði geti ekki uppfyllt þær lágmarkskröfur sem gerðar séu til íbúðarhúsnæðis í byggingarreglugerð, svo sem um birtuskilyrði, enda hafi neikvæð afstaða skipulagsfulltrúa til málsins á sínum tíma m.a. mótast af þeirri staðreynd.  Bygging fimmtu hæðar ofan á framhúsið muni gera það að verkum að byggingin verði mun hærri en nágrannabyggingar og nýtingarhlutfall verði annað en á grannlóðum.  Hvort tveggja brjóti í bága við stefnu og markmið gildandi deiliskipulags fyrir umræddan reit þar sem gert hafi verið ráð fyrir bílageymslum á baklóðum með görðum á þaki og reiturinn talinn nær fullbyggður.  Stuðst hafi verið við rangan uppdrátt við kynningu á hinni kærðu deiliskipulagstillögu hvað varði gildandi skipulag fyrir breytingu og ekki hafi verið tekin afstaða til framkominna athugasemda á kynningartíma fyrr en eftir afgreiðslu breytingartillögunnar.  Málið hafi verið unnið án samráðs við kærendur þótt áform hafi verið um annað samkvæmt minnisblaði skipulagsfulltrúa frá 7. janúar 2005. 

Við skipulagsbreytinguna hafi ekki verið tekið tillit til veitts byggingarleyfis annars kærenda varðandi lóðina að Hverfisgötu 80 og sett sé kvöð á þá eignarlóð um innkeyrslu að baklóð Hverfisgötu 78 án hans samþykkis.  Með tillögunni séu birtuskilyrði í húsnæði kæranda að Laugavegi 59 skert þar sem áformað sé að byggja að því húsi.  Athuganir kærenda hafi leitt í ljós að skuggavarp gagnvart fasteignum þeirra verði annað og meira en framlögð gögn hafi gefið til kynna enda sé þar fjarlægð milli mannvirkja röng og sömuleiðis hæðarafsetning milli Hverfisgötu 80 og Laugavegar 59. 

Kærendur telji að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar og tekið sé undir fyrirliggjandi sjónarmið Skipulagsstofnunar sem mælti í tvígang gegn því að umdeild breyting tæki gildi.  Þá mótmæli kærendur því að um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða.  Þvert á móti sé breytingin veruleg frá fyrra ástandi og gildandi skipulagi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er á því byggt að heimilt hafi verið að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu með tilliti til heimilda sveitarstjórna til skipulagsákvarðana.  Að öðru leyti sé vísað til framlagðra gagna í kærumáli þessu. 

Lóðarhafa Hverfisgötu 78 var gefinn kostur á að tjá sig í máli þessu en úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir eða andmæli frá honum. 

—————

Færð hafa verið fram ítarlegri rök og sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var í deiliskipulagi umrædds reits, sem er frá árinu 1999, gert ráð fyrir bílageymslum á baklóðum Hverfisgötu 76, 78 og 80 með garði á þaki.  Árið 2004 var gerð breyting á skipulaginu hvað varðaði lóðina að Hverfisgötu 78 þar sem heimilað var að byggja yfir meginhluta svala á götuhlið fjórðu hæðar framhússins á þeirri lóð.  Með hinni kærðu skipulagsbreytingu, er eingöngu snertir lóðina að Hverfisgötu 78, er heimiluð bygging fimmtu hæðar ofan á fyrrgreint framhús og tveggja hæða ofan á einnar hæðar bakhús.  Gert er ráð fyrir að í viðbyggingunum verði átta litlar íbúðir og að nýtingarhlutfall lóðarinnar hækki úr 2,5 í 3,5. 

Með nefndri skipulagsbreytingu er vikið í grundvallaratriðum frá áformaðri nýtingu baklóðar Hverfisgötu 78 í gildandi deiliskipulagi og hækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar sem nemur um það bil 40%.  Heimiluð hækkun fram- og bakhúss með tilheyrandi fjölgun íbúða er þess eðlis að vænta má að breytingin hafi töluverð grenndaráhrif.  Af þessum ástæðum verður ekki fallist á að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið óveruleg í skilningi 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og bar því að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna, sem felur í sér meginreglu um málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga. 

Hin kærða ákvörðun hefur samkvæmt framansögðu ekki hlotið lögmæta málsmeðferð og verður hún þegar af þeirri ástæðu felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0, er varðar lóðina að Hverfisgötu 78 í Reykjavík. 

 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________     ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir