Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

101/2008 Höfðaströnd II

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 8. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 101/2008, kæra á synjun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. september 2008 á umsókn um leyfi til að klæða þrjár hliðar hússins að Höfðaströnd II, Jökulfjörðum, með Steni utanhússklæðningu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. nóvember 2008, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir G, f.h. Ó, Brunngötu 20, Ísafirði, eiganda hússins að Höfðaströnd II, Jökulfjörðum, synjun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. september 2008 á umsókn um leyfi til að klæða þrjár hliðar hússins að Höfðaströnd II með Steni utanhússklæðningu. 

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Með bréfi umboðsmanns kæranda til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 10. ágúst 2008, var m.a. óskað eftir heimild nefndarinnar til að klæða þrjár hliðar íbúðarhússins að Höfðastönd II að utan með 50 mm trégrind, 50 mm steinull og ljósri svokallaðri Steni klæðningu.  Var erindi kæranda tekið fyrir á fundi umhverfisnefndar 19. september s.á. og því hafnað með eftirfarandi bókun:  „Umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við að húsið verði klætt en hafnar steniklæðningu á húsið þar sem hún er ekki í samræmi við byggingarhefð á svæðinu.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 2. október 2008.  Með bréfi umboðsmanns kæranda til umhverfisnefndar, dags. 26. september 2008, var óskað eftir rökstuðningi synjunar nefndarinnar frá 19. september s.á. og sérstaklega bent á að um væri að ræða steinsteypt hús og ef húsið yrði klætt með Steni yrði það líkast því sem það hafi verið í upphafi.  Á fundi umhverfisnefndar 8. október 2008 var erindi kæranda tekið fyrir og eftirfarandi fært til bókar:  „Samkvæmt niðurstöðum skipulagshóps Norðan Djúps vegna Aðalskipulags 2008-2020 er lagt til að útlit sumarhúsa og breytingar á eldri húsum skuli taka mið af þeim byggingarstíl sem tíðkaðist á meðan byggð var á svæðinu, einkum er átt við stærð, efnisval, lit, hlutföll og þakgerð.  Skv. gr. 8.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þá segir að meta skuli útlitshönnun bygginga hvað varðar form, hlutföll, efni og næsta umhverfi.  Samkvæmt byggingarhefð voru hús almennt steypt, timburklædd eða bárujárnsklædd.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 16. október 2008. 

Skaut kærandi samþykkt umhverfisnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að sumarhúsið að Höfðaströnd II hafi verið byggt árið 1930.  Óskað hafi verið eftir heimild umhverfisnefndar til að klæða húsið að utan með Steni klæðingu sem sé viðurkennt byggingarefni.  Heimilað hafi verið að klæða hús að utan með Steni um allt land, þar á meðal á Ísafirði.  Með vísan til þessa heldur kærandi því fram að hin kærða synjun sé brot á jafnræðisreglu. 

Málsrök Ísafjarðarbæjar:  Af hálfu Ísafjarðarbæjar er vísað til þess að búið sé að vinna Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020. 

Fullyrðing kæranda þess efnis að Steni klæðning sé viðurkennt byggingarefni á Ísafirði sé rétt, en einungis á yngri húsum og nýbyggingum sem ekki lúti reglum Húsafriðunarnefndar.  Húsið Höfðaströnd II sé byggt 1930 og sé staðsett í Jökulfjörðum og lúti ákveðnum reglum eins og fram komi í Aðalskipulagi Ísafjarðar 2008-2020 og sé ljóst að Steni klæðning hafi ekki tíðkast á þessum stað á þeim tíma. 

Vísað sé til útdráttar úr aðalskipulagi bæjarins og byggi umhverfisnefnd niðurstöðu sína á því sem þar segi:  „Stór hluti Ísafjarðarbæjar er á náttúruminjaskrá vegna sérstæðrar náttúru og menningarsögu.  Hornstrandafriðland, Snæfjallaströnd og sunnanverðir Jökulfirðir hafa mikla sérstöðu vegna einangrunar, búsetuminja og sögu svæðisins.“  Þá segi eftirfarandi í umhverfismati svæðisins:  „Óheft uppbygging myndi hafa mikla óvissu í för með sér og mögulega mikil áhrif á lífríki, landslag og upplifun þeirra sem sækja svæðið til dvalar eða útivistar.  Sagan og þær búsetuminjar sem finnast á svæðinu eru mikilvægur þáttur í þeirri sérstöðu sem einkennir svæðið.“ 

Þá sé vísað til þess að um frístundahús norðan Djúps og á hverfisvernduðum svæðum gildi, auk almennra ákvæða um frístundahús í aðalskipulagi bæjarins, eftirfarandi skipulagsákvæði:  „Megináhersla er lögð á að viðhalda ásýnd svæðanna eins og þau voru þegar þau voru byggð.  Útlit nýrra húsa og breytingar á eldri húsum skal taka mið af þeim byggingarstíl sem tíðkaðist meðan byggð hélst enn á svæðinu.  Einkum er átt við stærð, efnisval, lit, hlutföll og þakgerð.“  Þá segi eftirfarandi um Höfðaströnd:  „Svæðið er á náttúruminjaskrá, þar má endurbyggja öll íbúðarhús og þjónustuhús sem búið var í eftir 1908.  Hús byggð eftir 1965 teljast nýbyggingar.  Viðhalda skal ásýnd svæðisins eins og það var þegar það var í byggð.  Útlit húsa skal taka mið af þeim byggingarstíl sem tíðkaðist meðan byggð hélst á svæðinu.  Allar byggingar skulu vera í sátt við náttúru og landslag svæðisins og nánar útfærðar í deiliskipulagi og umhverfismati.“ 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð synjun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. september 2008 á umsókn um leyfi til að klæða þrjár hliðar hússins að Höfðaströnd II með Steni utanhússklæðningu. 

Í 8. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 segir m.a. í 5. lið að þyki byggingarnefnd sérstök ástæða til geti hún bundið byggingarleyfi því skilyrði að gengið verði frá húsi að utan með tilteknum hætti, t.d. með ákveðinni klæðningu.  Synjaði umhverfisnefnd umsókn kæranda með þeim rökum að Steni klæðning væri ekki í samræmi við byggingarhefð á svæðinu. 

Verður að telja að tilvísun nefndarinnar til byggingarhefðar feli í sér fullnægjandi málefnaleg rök fyrir hinni kærðu ákvörðun svo sem áskilið er í 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og  verður ekki séð að hin kærða ákvörðun hafi verið haldin neinum þeim annmörkum er ógildingu varði.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað. 

Síðar til komin rök, sem m.a. eiga stoð í nýju aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar, hafa ekki þýðingu við úrlausn málsins og verður því engin afstaða tekin til þeirra í úrskurði þessum. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. september 2008 á umsókn um leyfi til að klæða þrjár hliðar hússins að Höfðaströnd II með Steni utanhússklæðningu. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

78/2008 Sandgerði hafnarsvæði

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 8. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2008, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 7. maí 2008 um deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Sandgerðisbæjar, suðursvæði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kæra S og H, Norðurtúni 6, Sandgerði samþykkt bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 7. maí 2008 um deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Sandgerðisbæjar, suðursvæði.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. ágúst 2008.

Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi húsnæðis-, skipulags- og byggingarráðs Sandgerðisbæjar 22. ágúst 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi hafnarsvæðisins í Sandgerði, svæðis er afmarkast af Miðtúni og Eyrartúni til austurs, friðlýstu svæði til vesturs og suðurs og Eyrargötu til norðurs.  Bæjaryfirvöldum bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum, Fornleifavernd ríkisins, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.  Á fundi ráðsins 12. desember s.á. var bókað:  „Byggingarfulltrúi fór yfir skipulagsuppdrættina og gerði grein fyrir tillögum að svörum við athugasemdum og þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði til að mæta athugasemdum og ábendingum umsagnaraðila og íbúa.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 9. janúar 2008.  Á fundi húsnæðis-, skipulags- og byggingarráðs 23. janúar 2008 var lögð fram umsögn vegna deiliskipulagstillögunnar og var byggingarfulltrúa falið að vinna að úrlausn málsins með skipulagsráðgjöfum.  Á fundi ráðsins 6. febrúar s.á. var bókað að farið hefði verið yfir stöðu mála og kynntar viðræður, sem fram hefðu farið við Vegagerðina o.fl.  Þá sagði m.a. í bókun ráðsins:  „Fyrirliggjandi gögn og uppdrættir með mögulegum breytingum lagðir fram til kynningar.“  Á fundi ráðsins 19. febrúar s.á. var bókað m.a:  „Deiliskipulag Suðursvæðis–Sjávarheimar var auglýst 4. október með fresti til að skila athugasemdum til 15. nóvember.  Eftirfarandi breytingar voru gerðar að auglýsingatíma og athugasemdafresti loknum:  Kafla 2.6 um sjóvarnargarða bætt í greinargerð.  Sjóvörn til athugunar færð inn á uppdrátt.  Kafla 2.7 um fornminjar bætt í greinargerð.  Garðar færðir inn á uppdrátt.  Kröfu um lágmarks gólfkóta aðkomuhæðar bætt í greinargerð og færð inn á uppdrátt.  Lóðir á suðurhluta svæðis felldar út.  Lóðum nr. 28-34 við Strandgötu skipt upp, byggingarreitir minnkaðir og aðkoma skilgreind frá Sjávargötu.  Hámarkshæð húsa lækkuð og/eða samræmd hæð núverandi húsa.  Möguleiki á íbúðum á efri hæðum fellur út.  Þjóðvegur færður til austurs til að uppfylla 30 m veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar.  Hringtorg við Eyrargötu stækkað og hliðrað til austurs.  Þjóðvegur verður skoðaður skv. lið 13.a í 2. viðauka í stað 10.i í 1. viðauka laga 106/2000.  Skipulags- og byggingarnefnd telur að með breytingum hafi verið komið á móts við athugasemdir án þess að tillögum hafi verið breytt í grundvallaratriðum.

Skipulags- og byggingarnefnd setur fyrirvara á afgreiðslu Suðursvæðis – Sjávarheima þar sem svar hefur ekki borist vegna afgreiðslu umhverfisskýrslu sem send var þann. 8. febrúar 2008 til Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Vegagerðar til kynningar í samræmi við 7. gr. í lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.  Byggingarfulltrúa er falið í samráði við skipulagsráðgjafa að ganga frá svörum til athugasemda- og umsagnaraðila í samræmi við Deiliskipulag hafnarsvæðis Sandgerðisbæjar, athugasemdir og svör frá VSÓ Ráðgjöf, dags. 6. febrúar 2008.  Lagt var fram minnisblað frá VSÓ Ráðgjöf ehf. um skipulagið varðandi athugasemdir og svör við þeim.“  Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2008 var framangreint til umfjöllunar og m.a. bókað að Skipulagsstofnun hefði ekki afgreitt umhverfisskýrslu frá 8. febrúar 2008 og biði fullnaðarafgreiðsla því afgreiðslu skýrslunnar.  Var fært til bókar að bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu ráðsins og var bæjarráði falin fullnaðarafgreiðsla þess að fengnu svari Skipulagsstofnunar.  Á fundi húsnæðis,- skipulags- og byggingarráðs 23. apríl 2008 var enn fjallað um deiliskipulagstillöguna og breytingarnar sem gerðar voru á henni.  Þar sagði m.a:  „Gerð hefur verið breyting á greinargerð og bætt inn kafla þar sem gert er grein fyrir hvernig tekið er á umhverfissjónarmiðum í deiliskipulagi Suðursvæðis.  Húsnæðis-, skipulags- og byggingarráð samþykkir skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga deiliskipulag Suðursvæðis með áorðnum breytingum og telur að með breytingum hafi verið komið á móts við athugasemdir án þess að tillögum hafi verið breytt í grundvallaratriðum.  Byggingarfulltrúa er falið í samráði við skipulagsráðgjafa að ganga frá svörum til athugasemda- og umsagnaraðila í samræmi við deiliskipulag hafnarsvæðis Sandgerðisbæjar, athugasemdir og svör frá VSÓ Ráðgjöf, dags. 23. apríl 2008.“  Á fundi bæjarstjórnar 7. maí 2008 var framangreint samþykkt samhljóða.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. ágúst 2008. 

Hafa kærendur skotið framangreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að með hinu samþykkta deiliskipulagi muni útsýni til sjávar frá Norðurtúni og Miðtúni skerðast eða hverfa með öllu er leiða muni til lækkunar fasteignaverðs.  Loforð hafi verið gefið á sínum tíma af þáverandi bæjaryfirvöldum að aldrei yrði byggt á svæðinu og lagt hafi verið að bæjarstjórn að friða þetta fallega útivistarsvæði og varpland, en talað hafi verið fyrir daufum eyrum. 

Bendi kærendur á að svæðið liggi neðar stórstraumsflóði á stórum kafla.  Af þeim sökum þurfi gríðarlega uppfyllingu til að ná fyrirskipaðri grunnhæð væntanlegra bygginga og muni svæðið allt því hækka um meira en fjóra metra.  Þá sé bent á að í fáum sveitarfélögum sé eins gott val á atvinnulóðum og í Sandgerði. 

Málsrök Sandgerðisbæjar:  Af hálfu Sandgerðisbæjar er vísað til þess að hið kærða deiliskipulag eigi sér stoð í Aðalskipulagi Sandgerðisbæjar 1997-2017, með síðari breytingum, og heildarsýn hafnarsvæðisins sem unnin hafi verið af bæjarfélaginu þar sem sett séu fram meginmarkmið um þróun svæðisins.  Heildarsýn um skipulag hafnarsvæðisins hafi verið kynnt á opnum íbúafundi 17. mars 2007 og samþykkt í bæjarstjórn 8. ágúst s.á. 

Hvað varði athugasemd kærenda þess efnis að útsýni þeirra til sjávar muni skerðast sé bent á að samkvæmt aðalskipulagi bæjarins sé svæðið neðan Strandgötu verslunar-, athafna- og iðnaðarsvæði.  Í ljósi athugasemda er borist hefðu á athugasemdartíma hafi breytingar verðið gerðar og fallið frá áformun um að hafa lóðir við Sjávargötu 11-18.  Lóðum og byggingarreitum hafi verið skipt upp í minni byggingareiningar og hámarkshæð húsa á nýjum lóðum lækkuð úr níu metrum í fimm og heimild til íbúðar í risi felld niður.  Á þegar byggðum lóðum sé hámarkshæð húsa takmörkuð við hæð núverandi bygginga.  Með þessu hafi verið komið til móts við kærendur, byggingar lækkaðar og dregið úr byggingarmagni, án þess að tillögunni hafi verið breytt í grundvallaratriðum. 

Þá sé bent á að í samráði við Siglingastofnun hafi lágmarkshæð gólfa í húsum á svæðinu verið færð inn í deiliskipulagið, þar sem tekið hafi verið tillit til hæstu mögulegrar sjávarstöðu, ölduágangs og spár um hækkandi sjávarborð.  Afstaða gagnvart íbúðarbyggð í Miðtúni og Norðurtúni, miðað við lágmarkshæð gólfa í húsum, sé sýnd í sniði á skýringaruppdrætti deiliskipulagsins.  Einnig hafi, að höfðu samráði við Siglingastofnun, verið færð inn á uppdráttinn lega núverandi og fyrirhugaðra varnarmannvirkja. 

Í samræmi við gildandi aðalskipulag sé gert ráð fyrir því að svæðið neðan Strandgötu verði verslunar-, athafna- og iðnaðarsvæði.  Rétt sé að geta þess að samkvæmt eldra aðalskipulagi frá árinu 1991 hafi svæðið verið auðkennt sem iðnaðarsvæði.  Á deiliskipulagsuppdráttinn hafi verið færð inn afmörkum náttúruverndarsvæðis nr. 108, fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, eftir samráð við Umhverfisstofnun og viðmiðun stofnunarinnar um stærð og náttúruverndargildi svæða á náttúrminjaskrá.  Strandsvæði og fjörur séu skilgreind sem svæði sem afmarkist annars vegar af efstu stórstraumsflóðamörkum og hins vegar stórstraumsfjörumörkum. 

Í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir nýjum Sandgerðisvegi úr suðaustri sem tengist nýrri Strandgötu suðaustan fyrirhugaðrar atvinnuuppbyggingar, og Sjávargötu er liggi að hafnarsvæðinu.  Þar með færist þungaumferð suður fyrir núverandi íbúðarbyggð.  Í aðalskipulaginu sé gert ráð fyrir að allri þungaumferð verði beint um Sjávargötu, að Hafnarsvæðinu.  Hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag hvað þetta varði.  Í afgreiðsluferli deiliskipulagsins hafi verulega verið tekið tillit til sjónarmiða íbúa við Miðtún og Norðurtún. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 7. maí 2008 um deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Sandgerðisbæjar, suðursvæði. 

Eins og að framan er rakið samþykkti húsnæðis-, skipulags- og byggingarráð á árinu 2007 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi hafnarsvæðisins í Sandgerði, suðursvæði.  Bárust athugasemdir og í kjölfar þess samþykkti bæjarstjórn tvívegis á fundum sínum að gera breytingar á samþykktinni.  Fólu breytingar þessar m.a. í sér að sérstökum ákvæðum um sjóvarnargarða og fornminjar var bætt í greinargerð og settir fram skilmálar um gólfkóta aðkomuhæða húsa á lóðum nr. 2 og 4-16 við Sjávargötu.  Þá var fallið frá lóðum á suðurhluta svæðisins, lóðum nr. 28-34 við Strandgötu var skipt upp, byggingarreitir minnkaðir og aðkoma skilgreind frá Sjávargötu.  Hámarkshæð húsa var lækkuð og/eða samræmd þeim húsum sem fyrir eru á svæðinu ásamt því að felld var brott heimild til íbúða á efri hæðum.  Ennfremur var þjóðvegur færður til austurs og hringtorg við Eyrargötu stækkað og hliðrað til austurs.  Að síðustu var færður inn í greinargerð sérstakur kafli um umhverfissjónarmið þar sem breyting var gerð á afmörkun svæðis á náttúruverndarská. 

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað um kynningu, samþykkt og gildistöku deiliskipulags.  Í 2. mgr. segir að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik. 

Eins og að framan er rakið gerði bæjarstjórn tvívegis breytingar á tillögu þeirri er auglýst hafði verið eftir að frestur til að koma að athugasemdum var liðinn.  Úrskurðarnefndin telur að framangreindar breytingar sveitarstjórnar á tillögunni séu svo verulegar, þegar litið er til umfangs og eðlis þeirra, að með þeim hafi upphaflegri samþykkt verið breytt í grundvallaratriðum og því hefði þurft að auglýsa að nýju tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins í samræmi við ákvæði 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þessa var ekki gætt og verður hin kærða samþykkt bæjarstjórnar því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 7. maí 2008 um deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Sandgerðisbæjar, suðursvæði. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________   _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

86/2008 Hilmisgata

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 8. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 86/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 17. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyjabæjar vegna lóðar að Hilmisgötu 2-10, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Lilja Jónasdóttir hrl., f.h. B ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 17. júlí 2008 að breyta deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyjabæjar vegna lóðar að Hilmisgötu 2-10 þar í bæ.  Tók ákvörðunin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júlí 2008.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Í aprílmánuði 2008 stóð umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyjabæjar fyrir grenndarkynningu á breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja vegna lóðarinnar að Hilmisgötu 2-10.  Fól hin kynnta tillaga í sér breytingu á notkun lóðarinnar úr íbúðarnotum í blandaða notkun fyrir íbúðir, verslun og þjónustu, stækkun byggingarreits úr 1.180 í 1.450 m2, færslu innkeyrslu á baklóð að norðurlóðarmörkum Hilmisgötu 2A og hækkun hámarkshæðar bygginga úr 8 í 9 m.  Ein athugasemd barst innan athugasemdafrests. 

Að lokinni grenndarkynningu tók umhverfis- og skipulagsráð bæjarins málið fyrir á fundi sínum hinn 14. maí 2008 og samþykkti umrædda tillögu að breytingu á deiliskipulagi og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 5. júní sama ár.  Vegna fjögurra athugasemdabréfa er bárust eftir lok athugasemdafrests, m.a. frá kæranda, tók ráðið málið fyrir að nýju hinn 2. júlí 2008 þar sem tekin voru fyrir áðurgreind athugasemdabréf.  Voru framkomnar athugasemdir ekki taldar snúa að atriðum sem hin kynnta skipulagsbreyting tæki til heldur að innihaldi deiliskipulags svæðisins frá árinu 2005 og voru þær því ekki teknar til efnislegrar afgreiðslu.  Bæjarstjórn staðfesti þessa afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs hinn 17. júlí 2008 og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda eins og áður getur. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi með höndum veitingarekstur að Skólavegi 1 í Vestmannaeyjum og hafi hann nýtt sér aðgengi að baklóð þeirrar fasteignar um lóðina Hilmisgötu 2, en vörur vegna rekstrarins séu bornar inn í húsið bakatil.  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé m.a. innkeyrslu að baklóð breytt og hún færð að norðurlóðamörkum Hilmisgötu 2A. 

Kærandi eigi þinglýstan umferðarrétt um Hilmisgötu 2 að baklóð sinni að Skólavegi 1 samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu síðargreindrar fasteignar.  Farið hafi verið fram á við bæjaryfirvöld að sá umferðarréttur yrði tryggður við deiliskipulagsbreytinguna en það erindi kæranda hafi ekki fengið efnislega umfjöllun hjá umhverfis- og skipulagsráði.  Af þeim sökum verði ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.  Hið kærða deiliskipulag rýri verðmæti eignar kæranda og brjóti því gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. 

Málsrök Vestmannaeyjabæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að misskilnings virðist gæta hjá kæranda um efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.  Þar sé fjallað um stækkun á byggingarreit og tilfærslu á aðkeyrslu að baklóð Hilmisgötu 2-10, en sú lóð hafi orðið til við gerð deiliskipulags svæðisins frá árinu 2005.  Eftir umdeilda skipulagsbreytingu sé sú lóð óbreytt að stærð og lögun og engin breyting sé gerð á aðgengi kæranda að sinni lóð, heldur sé einungis aðkomu lóðarhafa Hilmisgötu 2-10 að baklóð þeirra breytt.  Skipulag svæðisins frá árinu 2005 hafi fengið lögmæta málsmeðferð en þá hafi engar athugasemdir frá lóðarhöfum aðliggjandi lóða, svo sem kæranda, komið fram þótt það skipulag hafi ekki gert ráð fyrir aðgengi í þá veru sem nú sé krafist. 

Varðandi umgengni kæranda um undirgöng inn í kjallara húss hans að Skólavegi 1 samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu sé rétt að líta til þess að undirgöngin hafi verið eyðilögð fyrir 6-7 árum í tengslum við björgunaræfingu á vegum NATO.  Þau hafi á sínum tíma verið notuð til að flytja fisk í kjallara Skólavegar 1 en sú notkun hafi verið aflögð fyrir áratugum.  Telji kærandi sig eiga kröfu á aðgengi um lóðina að Hilmisgötu 2-10 um jarðgöng eða fyrir umferð ökutækja, hefði sú krafa átt að koma fram þegar sú lóð hafi verið afmörkuð og skipulögð á árinu 2005. 

—–

Lóðarhöfum Hilmisgötu 2-10, var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum en þeir hafa ekki talið ástæðu til þess. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Er þar um að ræða undantekningarreglu frá þeirri meginreglu 1. mgr. 26. gr. laganna að auglýsa skuli breytingatillögur á deiliskipulagi til kynningar. 

Hin kærða ákvörðun fól í sér breytta notkun húsnæðis að Hilmisgötu 2-10, stækkun byggingarreits, aukningu byggingarmagns um 22,8%, hækkun heimilaðra bygginga um einn metra og færslu innkeyrslu að baklóð.  Er breytingin þess eðlis að hún getur haft nokkur grenndaráhrif.  Af þessum ástæðum verður ekki fallist á að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið óveruleg í skilningi 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og bar því að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur hin kærða ákvörðun ekki fengið lögmæta málsmeðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og verður hún af þeim sökum felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 17. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyjabæjar vegna lóðar að Hilmisgötu 2-10 í Vestmannaeyjum.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

53/2010 Aðalskipulag Akureyrar

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 2010 um breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2010, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kæra E og S, Lerkilundi 24 á Akureyri, samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 2010 um breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018, er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Kærendur krefjast þess að hætt verði við tengingu Brálundar við Miðhúsabraut og að lagt verði fyrir Akureyrarbæ að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að sá hluti aðalskipulagsins sem varðar tenginguna verði felldur úr gildi. 

Málsatvik:  Í hinni umdeildu aðalskipulagsbreytingu fólst meðal annars að gerð var nánari grein fyrir helstu tengingum innan gatnakerfis Akureyrar við stofn- og tengibrautir.  Þar á meðal var ákvörðun um að Brálundur yrði tengdur inn á Miðhúsabraut og er það sú breyting sem kærendur telja raska lögvörðum hagsmunum sínum.

Skipulagsráð samþykkti tillöguna hinn 12. maí 2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 18. sama mánaðar.  Umhverfisráðherra staðfesti breytinguna á aðalskipulaginu hinn 10. júní 2010 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júlí 2010. 

Ekki þótti tilefni til að leita eftir áliti Akureyrarbæjar í málinu. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sem sæta slíkri staðfestingu ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

3/2009 Bakkasmári

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2009, kæra á synjun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. desember 2008 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 16 við Bakkasmára. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. janúar 2009, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Bakkasmára 16 í Kópavogi, synjun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. desember 2008 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna stækkunar húss á lóðinni nr. 16 við Bakkasmára.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Erindi kæranda varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 16 við Bakkasmára, dags. 10. janúar 2008, var lagt fram í skipulagsnefnd hinn 15. janúar 2008.  Fyrirhuguð breyting fól í sér heimild til byggingar bílgeymslu og glerskála út frá eldhúsi.  Á fundi nefndarinnar 5. febrúar 2008 var skipulagsstjóra falið að kanna afstöðu íbúa hverfisins til breytinganna skv. tillögunni.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. júní 2008 var erindið lagt fram að nýju og samþykkti nefndin að kærandi léti vinna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 16 við Bakkasmára.  Var deiliskipulagstillaga lögð fram hinn 1. júlí 2008 en skipulagsnefnd óskaði þá eftir ítarlegri gögnum.  Á fundi nefndarinnar hinn 26. ágúst 2008 voru umbeðin gögn lögð fram og samþykkti nefndin að tillagan yrði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var tillögunni vísað til afgreiðslu bæjarráðs. 

Á fundi bæjarráðs 28. ágúst 2008 var samþykkt að tillagan yrði auglýst og var hún til kynningar frá 30. september til 28. október, með athugasemdafresti til 11. nóvember 2008.  Ein athugasemd barst.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 18. nóvember 2008 var bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn varðandi innsenda athugasemd.  Hinn 16. desember hafnaði skipulagsnefnd loks erindi kæranda á grundvelli umsagnar bæjarskipulags, dags. 16. desember 2008.  Bréf þess efnis var sent kæranda hinn 22. desember 2008. 

Kærandi telur að athugasemd eins aðila af 51, sem grenndarkynning vegna fyrirhugaðra breytinga hafi náð til, eigi ekki að koma í veg fyrir breytinguna.  Lög um skipulags- og byggingarmál geri ekki ráð fyrir að í grenndarkynningu felist neitunarvald.  Einnig telji kærandi að stærð bílgeymslu hafi ekki áhrif á hvort húseigandi stundi sjálfstæða atvinnustarfssemi eða ekki. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að synjun skipulagsnefndar sé byggð á umsögn skipulags- og umhverfissviðs bæjarins frá 16. desember vegna athugasemdar sem borist hafi við grenndarkynningu.  Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á erindi kæranda bæði formlega og efnislega rétta og geri þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni framkominni kæru og staðfesti ákvörðun skipulagsnefndar í máli þessu. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu, sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði á fundi sínum hinn 16. desember 2008 tillögu að deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 16 við Bakkasmára.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 18. sama mánaðar, þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun ráðsins varðandi afstöðu þess til áðurnefndrar afgreiðslu skipulagsnefndar.  Þá var og fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 19. desember 2008, þar sem hún var afgreidd án umræðu.

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á meðferð málsins að ekki kemur fram í bókunum afstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til þess.  Verður framangreind afgreiðsla skipulagsnefndar ekki talin fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og ber því, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________      __________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

83/2008 Kleppsvegur

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 83/2008, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 90 við Kleppsveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kæra S, Kambsvegi 2 og P, Kleppsvegi 88 í Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 90 við Kleppsveg.  Auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. ágúst 2008.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur hinn 23. maí 2008 var lögð fram tillaga Skipulags, arkitekta- og verkfræðistofunnar ehf., f.h. Félagsbústaða, að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 90 við Kleppsveg.  Í tillögunni fólst m.a. að á 707 m2 lóð yrði byggingarreitur stækkaður um 6,5 m2 og jafnframt yrði bílastæðum fjölgað um þrjú.  Hámarkshæð húss yrði 6,3 m, þó þannig að þakgluggar og frágangur vegna lyftu mættu fara í allt að 6,8 m.  Nýtingarhlutfall yrði 0,45.  Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna tillöguna.  Grenndarkynning stóð yfir frá 30. maí til 7. júlí, en frestur til athugasemda var framlengdur að beiðni kærenda.  Kærendur, ásamt fleiri íbúum við Kleppsveg, skiluðu inn athugasemd við tillögu að breyttu deiliskipulagi 26. júní 2008 og var hún, ásamt umsögn skipulagsstjóra frá 10. júlí 2008, tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 11. júlí 2008.  Á sama fundi var erindinu vísað til skipulagsráðs.  Á fundi skipulagsráðs hinn 16. júlí sama ár var tillagan samþykkt með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsstjóra.  Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt á breyttu deiliskipulagi lóðarinnar og var hún birt þar hinn 25. ágúst 2008. 

Málsrök kæranda:  Kærendur telja að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til mótmæla þeirra við grenndarkynningu á umræddri deiliskipulagsbreytingu.  Lítillega hafi verið komið til móts við kærendur í athugasemdum skipulagsstjóra en hagsmunir þeirra séu enn skertir um of.  Sérstaklega bendi kærendur á að miðað við þá tillögu sem nú liggi fyrir sé gólfkóti nýja hússins 22,16 og mesta hæð upp í mæni 6,7 m í hluta hússins, annars 6,3 m.  Gerð sé sú krafa að gólfkóti verði lækkaður um 50 cm og sé svigrúm til þess nægilegt.  Orðalagið í greinargerð skipulags- og byggingarsviðs um að húsið verði „… hæðarsett eins lágt í landi og möguleg er“ sé of loðið. 

Einnig sé bent á að nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða, nánar tiltekið við Kleppsveg 86 og 88, sé 0,32 og 0,37.  Nýja húsið við Kleppsveg 90 sé hins vegar með nýtingarhlutfallið 0,45 en því til rökstuðnings sé vísað í deiliskipulagið Sundin þar sem nýtingarhlutfallið sé 0,50.  Kærendur telji það fráleita viðmiðun þar sem það deiliskipulag miðist við lóðir fyrir iðnað og aðra atvinnustarfssemi.  Nýtingarhlutfall í nýju deiliskipulagi fyrir lóðina við Kleppsveg 90 hljóti að taka mið af því nýtingarhlutfalli sem sé þar fyrir og telji kærendur annað óásættanlegt. 

Fyrir liggi að í stað lítils húss með tveimur íbúðum sé nú verið að fara af stað með byggingu húss með sex íbúðum.  Rök skipulagsráðs séu á þá lund að sambýli sé eitt íbúðarhús en ekki fjöleignarhús og í slíkum húsum búi alla jafna ekki fleiri einstaklingar en vænta megi að búi í almennu fjölbýlishúsi af sömu stærð.  Kærendur telji hins vegar að ekki sé hægt að treysta því að notkun hússins verði ekki breytt í framtíðinni. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg tekur ekki undir málsástæður kærenda eins og þær birtast í málatilbúnaði þeirra og krefst þess að hin kærða samþykkt verði staðfest. 

Orðalagið í umsögn skipulagstjóra, sem samþykkt skipulagsráðs vísi m.a. til „… að húsið verði hæðarsett í landi eins lágt og mögulegt er“ sé ekki óeðlilegt í deiliskipulagi og sé sett í því skyni að takmarka grenndaráhrif.  Helgist það m.a. af því að hæðarkóti sé sjaldnast fastákveðinn í deiliskipulagi, heldur komi hann fram á hæðarblaði sé það gert í framhaldi af deiliskipulagi eða hann ákvarðaður við meðferð byggingarleyfisumsóknar. 

Á það skuli bent að unnið hafi verið með hæðarsetningu hússins við meðferð byggingarleyfisumsóknar og húsið lækkað í landi frá þeirri tillögu sem fyrst hafi borist byggingarfulltrúa.  Ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi heimildum að núverandi hús hefði mátt víkja og heimilað hafi verið í gildandi deiliskipulagi að byggja nýtt hús í stað þess.  Reikna megi með því að þegar nýtt hús sé byggt þurfi að uppfylla kröfur samkvæmt gildandi reglum, m.a. varðandi salarhæð.  Salarhæð húsa skuli að lágmarki vera 2,7 m.  Miðað við það verði tveggja hæða hús ekki lægra en 6,3 m með þakfrágangi, og sé það sú hámarkshæð sem deiliskipulagsbreytingin leyfi. 

Einhvers misskilnings virðist gæta hjá kærendum varðandi tilvísun til Sundaskipulags, þ.e. að það skipulag eigi við um iðnað og aðra atvinnustarfsemi.  Tilvísun skipulagsyfirvalda til nýlegs Sundaskipulags eigi við um íbúðarbyggðina austan við Langholtsveg.  Þar sé nýlegt skipulag fyrir gróna byggð þar sem verið sé að gefa þróunarmöguleika fyrir byggðina.  Hámarksnýtingarhlutfall í Sundaskipulaginu sé 0,5.  Því sé eðlilegt að nýtt skipulag eða breytingar á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði taki mið af Sundaskipulaginu, þar sem það sé nærliggjandi og hluti af sömu byggð/byggðamynstri. 

Ekki sé verið að samþykkja sex nýjar íbúðir eins, og kærendur haldi fram, heldur sé um að ræða sambýli fyrir einstaklinga og heimili deiliskipulagið enga breytingu á þeirri notkun.  Yrði um breytta notkun að ræða einhvern tímann í framtíðinni yrði að vinna nýja tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Sambýli, eins og þau séu skilgreind í skipulagsáætlunum, teljist vera búseta einstaklinga með sérþarfir eða hömlun af einhverjum toga.  Sambýli séu innréttuð með mismunandi hætti, en öll eigi þau það sammerkt að vera eitt íbúðarhús en ekki fjöleignarhús þar sem samþykktar séu margar íbúðir.  Hér sé því ekki um að ræða hús með sex íbúðum heldur sambýli einstaklinga.  Í slíkum húsum búi alla jafna ekki fleiri einstaklingar en vænta megi í almennu fjölskylduhúsi af þessari stærð.  Ekki sé gert ráð fyrir að umferðarálag verði meira vegna þessarar nýtingar á lóðinni. 

Það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa að gera ráð fyrir því að hvorki óbreytt útsýni né sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti ávallt tekið breytingum í uppbyggingu hverfa og við þéttingu byggðar.  Það sé í samræmi við stefnumörkun borgaryfirvalda varðandi þéttingu byggðar að veita heimild til uppbyggingar á lóðinni. 

Ljóst sé að um tiltölulega stóra byggingarreiti sé að ræða á lóðunum við lóðir kærenda og sé ljóst að þeir hafi mátt búast við einhverjum breytingum á þeim í samræmi við stærð þeirra og nýtingarmöguleika.  Hin kærða samþykkt heimili hús sem ekki sé stærra en búast hefði mátt við ef um stórt einbýlishús væri að ræða, enda sé einungis um að ræða örlitla stækkun á byggingarreit.  Húsið falli ágætlega að þeirri götumynd sem það sé hluti af, þ.e.a.s. húsunum nr. 86, 88, og 90, með tilliti til stærðarhlutfalla og byggingarstíls.  Telji aðilar sig hins vegar geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt megi telja að geti orðið hjá fasteignaeigendum í þéttbýli eigi þeir bótarétt samkvæmt ákvæðum 33. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu, sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var gerð óveruleg breyting á deiliskipulagi Norðurbrúnar frá 1963 hvað varðar lóðina nr. 90 við Kleppsveg, sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Á deiliskipulagsuppdrættinum frá 1963 er sá ágalli að þar eru ekki sýnd mörk skipulagssvæðisins.  Verður helst af honum ráðið að skipulagið taki einungis til lóða við Norðurbrún en ekki við Kleppsveg eða Kambsveg þótt sjá megi einstakar lóðir við þær götur á uppdrættinum, en þar eru þær sýndar með daufari útlínum.  Er lóðin nr. 90 við Kleppsveg þar á meðal.  Þá er í skilmálum skipulagsins einungis gert ráð fyrir parhúsum sem aðeins getur átt við um lóðir við Norðurbrún en ekki við Kleppsveg eða Kambsveg. 

Samkvæmt framansögðu verður að telja að skipulagið taki aðeins til lóða við Norðurbrún og að því hafi ekki verið í gildi deiliskipulag fyrir Kleppsveg 90 er hin kærða ákvörðun um óverulega breytingu á deiliskipulagi var tekin.  Var hún því ekki reist á réttum grundvelli og verður því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 90 við Kleppsveg er felld úr gildi. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

23/2010 Þrastanes

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 5. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2010, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. janúar 2010 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Arnarness varðandi lóðina að Þrastanesi 18, Garðabæ, þar sem heimiluð var viðbygging við austurhlið húss sem þar stendur og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 21. apríl sama ár um að veita byggingarleyfi í samræmi við nefnda breytingu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. apríl 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Lúðvík Örn Steinarsson hrl., f.h. S, Þrastanesi 16, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. janúar 2010 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Arnarness varðandi lóðina að Þrastanesi 18, Garðabæ, þar sem heimiluð var viðbygging við austurhlið húss sem þar stendur. 

Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 29. maí 2010, sem barst úrskurðarnefndinni 3. júní sama ár, gerir kærandi jafnframt kröfu um ógildingu byggingarleyfis, sem byggingarfulltrúi samþykkti hinn 13. apríl 2010 og bæjarstjórn staðfesti 6. maí sama ár, fyrir fyrrgreindum breytingum að Þrastanesi 18.  Er þar jafnframt farið fram á að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Á árinu 1961 var samþykktur skipulagsuppdráttur fyrir Arnarnes þar sem lóðir voru afmarkaðar.  Samkvæmt skilmálum í afsölum fyrir lóðir við Þrastanes var heimilt að reisa á þeim einnar hæðar hús með kjallara þar sem landhalli leyfði.  Stærð húsa mun hafa takmarkast af byggingarreitum samkvæmt mæliblöðum og var ekki sett skilyrði um hámarks nýtingarhlutfall á lóð.  Byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni að Þrastanesi 18 var veitt á árinu 1973.  Nýr skipulagsuppdráttur fyrir Arnarnes tók gildi árið 1975, sambærilegur hinum fyrri, en með fyllri skýringum.  Engin greinargerð fylgdi uppdrættinum.  Árið 1985 heimilaði bæjarstjórn skiptingu lóðarinnar að Þrastanesi 18 í tvær lóðir, nr. 18 og 18a, og var húsinu á lóðinni þá skipt í tvær sjálfstæðar fasteignir.  Fyrsta aðalskipulag fyrir Garðabæ í heild var staðfest á árinu 1987. 

Á árinu 2008 leitaði eigandi Þrastaness 18 eftir leyfi bæjaryfirvalda til að reisa viðbyggingu við austanvert húsið, 11,5 m² að grunnfleti og í minnst þriggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum Þrastaness 16.  Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2008 var ákveðið að grenndarkynna erindið sem óverulega breytingu á deiliskipulagi þar sem umsótt viðbygging færi út fyrir byggingarreit.  Við grenndarkynninguna barst ein athugasemd og var hún frá kæranda í máli þessu.  Skipulagsnefnd ákvað á fundi sínum 21. janúar 2009 að leggja til við bæjarstjórn að hafna hinni kynntu tillögu þar sem ekki næðist sátt um hana og staðfesti bæjarstjórn þá tillögu nefndarinnar 5. febrúar 2009. 

Í framhaldi af afgreiðslu bæjarstjórnar leitaði eigandi lóðarinnar Þrastaness 18 að nýju eftir leyfi bæjaryfirvalda til að byggja við húsið.  Stærð viðbyggingar hafði verið minnkuð frá fyrri umsókn og var nú 7 m² að grunnfleti í stað 11,5 m² áður og fjarlægð hennar frá lóðarmörkum fasteignar kæranda fjórir metrar í stað þriggja.  Skipulagsnefnd samþykkti hinn 3. september 2009 að grenndarkynna hina nýju tillögu og bókaði af því tilefni eftirfarandi:  „Skipulagsnefnd telur að við skiptingu lóðarinnar Þrastanes 18 í Þrastanes 18 og 18a árið 1985 hafi nýtt mæliblað fellt úr gildi byggingarreit sem fyrir var á lóðinni enda hafi sú breyting verið grundvallarbreyting á skipulagi lóðarinnar með tilliti til aðliggjandi lóða. Því beri að líta á breytingar sem fara út fyrir núverandi grunnflöt bygginganna sem breytingar á deiliskipulaginu þó svo að ofangreind tillaga sé innan byggingarreits sem var til staðar áður en lóðinni var skipt.“  Kærandi sendi inn athugasemdir við tillöguna. 

Að lokinni grenndarkynningu samþykkti skipulagsnefnd á fundi sínum 10. desember 2009 hina kynntu breytingu á skipulagi Arnarness vegna lóðarinnar að Þrastanesi 18 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 21. janúar 2010.  Öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. apríl sama ár.  Var byggingarleyfi fyrir viðbyggingunni og stækkun svefnherbergis á annarri hæð síðan samþykkt 21. apríl 2010.  Hefur kærandi skotið þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að hin kærða ákvörðun varði hús á samliggjandi lóð við hans lóð.  Samkvæmt upplýsingum frá bæjarstjórn gildi á svæðinu deiliskipulag fyrir Arnarnes sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn í júlí 1961 þar sem byggingarreitir á hverri lóð hafi verið sérstaklega afmarkaðir.  Með samþykkt skipulagsnefndar Garðabæjar frá 3. júní 1985 hafi síðan verið heimilað að skipta lóðinni nr. 18 í tvær lóðir og virðist byggingarreit lóðarinnar þá hafa verið breytt og heimilað að byggja á lóðunum tvö hús í stað eins sem samanlagt hafi verið að stærð langt umfram það sem deiliskipulagið heimilaði.  Kæranda hafi á þeim tíma ekki verið kynnt þau áform eða gefinn kostur á að gera athugasemdir.  Á lóð sem fengið hafi götuheitið Þrastanes 18 hafi síðan verið reist hús þétt upp að lóðarmörkum og langt út fyrir upphaflegan byggingarreit heildarlóðarinnar og að hluta til innan lóðar kæranda.  Hin kærða breyting lúti að tveimur viðbyggingum, annars vegar að minna stigahúsi en fyrri tillaga gerði ráð fyrir og hins vegar að svokölluðu útskoti á annarri hæð fyrir stækkun svefnherbergis. 

Stækkun byggingarreits fasteignarinnar að Þrastanesi 18, sem hin kærða ákvörðun lúti að, geti ekki talist óveruleg breyting sem bæjarstjórn hafi verið heimilt að fara með skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Um grundvallarbreytingu sé að ræða á gildandi deiliskipulagi Arnarness og snerti ákvörðunin grundvallarbreytingu á deiliskipulaginu við skiptingu lóðarinnar á árinu 1985, sem jafnframt virðist ekki hafa verið lögum samkvæmt þar sem breytingin hafi verið gerð með svokölluðu mæliblaði og nýtingarhlutfall heildarlóðarinnar aukið langt út fyrir mörk deiliskipulagsins.  Telja verði að óheimilt hafi verið að veita hina minnstu undantekningu frá afmörkuðum byggingarreit í þessu tilliti.  Ekki hafi verið færð fram rök fyrir því að heimila nú stækkun byggingarreits lóðarinnar um 7,66 m² þegar ekki hafi þótt fært að stækka hann um 11,52 m².  Enginn eðlismunur sé á þessu enda farið út fyrir byggingarreit í báðum tilvikum.  Þá sé heldur ekki skýrt hvernig svokallað útskot á annari hæð fyrir stækkun svefnherbergis sé ekki talið fela í sér stækkun á byggingarreit.  Ekki verði betur séð en að það útskot nái fram yfir byggingarreitinn um a.m.k. 11 m² þannig að heildarstækkun hans sé samkvæmt hinni kærðu ákvörðun a.m.k. 18,66 m² (7,66 m² + 11 m²).  Stækkunin sé því í raun meiri en sú stækkun sem bæjarstjórn hafi talið of mikla og hafnað.  Þegar af þessari ástæðu beri að fella ákvörðunina úr gildi. 

Þá hafi ekki verið farið að ákvæði 4. mgr. greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sbr. ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um fjarlægðir milli byggingarreita og lóðarmarka.  Óheimilt hafi verið að veita leyfi fyrir byggingu stigahússins og svefnherbergisútskotsins af þessum sökum.  Umfang viðbygginganna sé auk þess umfram heimildir samkvæmt gildandi deiliskipulagi og ekki í samræmi við hæð bygginga í nágrenninu. 

Ef talið verði að nýbyggingarnar verði innan framangreindra lögbundinna marka, beri engu að síður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi vegna almennra grenndarsjónarmiða og með tilliti til hagsmuna kæranda af því að geta nýtt lóð sína til framtíðar.  Auk þess sé á því byggt að viðbyggingarnar hafi í för með sér óásættanlega skuggamyndun á lóð kæranda. 

Loks eigi það að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að bæjarstjórn hafi ekki gætt að reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins, einkum rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr.

Málsrök Garðabæjar:  Bæjaryfirvöld vísa til þess að ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um óverulegar deiliskipulagsbreytingar hafi verið fullnægt við meðferð málsins og einnig að grenndarréttar hafi verið gætt eins og eðlilegt sé.  Vegna athugasemda kæranda um að gangstétt á lóðinni að Þrastanesi 18 næði inn á hans lóð hafi lóðamörkin verið mæld út og í ljós komið að horn stéttarinnar við götu næði um 50 cm inn á lóð kæranda.  Ekki hafi áður verið gerð athugasemd við þá útfærslu svo kunnugt sé.  Tekið hafi verið tillit til athugasemda eiganda Þrastaness nr. 16 og viðbygging minnkuð umtalsvert við síðari grenndarkynningu.  Verði eigi séð að viðbygging af þeirri óverulegu stærðargráðu sem um ræði geti raskað hagsmunum kæranda þegar litið sé til fjarlægðar húss hans frá lóðarmörkum.  Þá verði ekki séð að viðbyggingin hafi nein áhrif á nýtingu lóðar hans. 

Þær fullyrðingar sem fram komi í greinargerð kæranda um að heimilað hafi verið að reisa tvö hús á lóðinni í stað eins eftir að lóðinni hafi verið skipt í tvennt árið 1985 eigi ekki við rök að styðjast enda hafi þegar árið 1973 verið heimlað að reisa stórt einbýlishús á lóðinni.  Við skiptingu lóðarinnar á árinu 1985 hafi svo verið litið á að mæliblað lóðarinnar hafi verið ógilt og að byggingarreitir nýrra lóða takmarkist við þær byggingar sem þar hefðu verið leyfðar, enda sýni nýtt mæliblað útgefið 23. júlí 1985 engan byggingarreit fyrir lóðirnar 18 og 18 a. 

Aðeins einu sinni hafi verið heimiluð stækkun á húsinu að Þrastanesi 18, á árinu 1992, þegar heimilað hafi verið að stækka herbergi á báðum hæðum til norðurs sem numið hafi samanlagt um 9 m² auk útskotsglugga á austurhlið.  Á lóðinni númer 18a hafi tvívegis verið veitt byggingarleyfi fyrir stækkunum frá því lóðinni hafi verið skipt, á árinu 1986 um 78,9 m² til vesturs og á árinu 1990 hafi sólskáli verið stækkaður um 6 m². Þá hafi verið heimiluð breyting á þaki hússins.  Árið 1992 hafi lóðin nr. 18a við Þrastanes verið stækkuð um 42 m² til vesturs með samkomulagi við eigendur lóðar nr. 20 við sömu götu.  Í dag sé á lóðinni nr. 18 byggingarmagn 295,4 m² en stærð lóðar 864 m² og þar með sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,34.  Byggingarmagn lóðar nr. 18a sé 365 m² og lóðin 746 m² og sé nýtingarhlutfallið 0,49.  Samanlagt byggingarmagn lóðanna sé því 660 m² og nýtingarhlutfallið 0,41.  Hafi fyrst og fremst verið byggt við hús númer 18a, sem liggi ekki að lóð kæranda, en stækkun hússins númer 18 hafi verið óveruleg til þessa.  Ekki verði séð að sú stækkun sem hér um ræði hafi neikvæð áhrif á hagsmuni kæranda. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en vísar að öðru leyti til kröfugerðar, málsástæðna og lagaraka svo og til greinargerðar Garðabæjar í málinu.

Frávísunarkrafa byggingarleyfishafa byggi á 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.  Um sé að ræða óverulegar breytingar á deiliskipulagi sem ekki verði séð að raski á nokkurn hátt hagsmunum kæranda eða rýri nýtingarmöguleika á lóð hans.  Umdeild viðbygging sé aðeins 7 m² og eftir breytingu sé hún innan byggingarreits eins og hann hafi upphaflega verið skilgreindur.  Ekki verði annað séð en að málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana hafi verið lögum samkvæmt og hafi m.a. jafnræðisregla og meðalhófsregla verið virtar.

Athugasemdir kæranda við málatilbúnað Garðabæjar og byggingarleyfishafa:  Áréttað er að byggingarreitur að Þrastanesi 18 hafi takmarkast við mæliblað við gerð deiliskipulags árið 1961.  Við skiptingu lóðarinnar í tvær lóðir hafi verið heimilað að reisa hús á hvorri lóð og hafi þá byggingarmagn farið langt út fyrir heimildir samkvæmt upphaflegu mæliblaði.  Við mat á því hvort um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi verði að taka mið af heildarbreytingum frá upprunalegu mæliblaði.  Ekki geti staðist að sveitarfélag geti í áföngum breytt gildandi skipulagi, sem í hvert sinn gæti eftir atvikum talist óveruleg breyting, heldur verði að líta á heimilaðar breytingar heildstætt. 

Því sé mótmælt sem órökstuddu að vanalegt sé að láta einstaka byggingarhluta á efri hæðum ná út fyrir byggingarreit.  Slík frávik frá byggingarreit verði að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Þá sé ekki fallist á að tillit hafi verið tekið til athugasemda kæranda við seinni grenndarkynningu umdeildra framkvæmda.  Umfangið hafi aðeins verið minnkað í sýndum fermetrum á jörðu niðri en byggingarmagn aukið að sama skapi enda sýnist stækkun í rúmmetrum svipuð og í fyrri umsókn.  Hafa verði og í huga að hluti heimilaðrar stækkunar varði aðra hæð hússins að Þrastanesi 18 en skilningur bæjaryfirvalda sé sá að gildandi deiliskipulag heimili aðeins einnar hæðar hús.  Viðbætur við efri hæð séu því í andstöðu við skipulagið.  Það sé ítrekað að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við 10., 11., og 12. gr. stjórnsýslulaga.  Tekin hafi verið íþyngjandi ákvörðun gagnvart kæranda án nægjanlegrar rannsóknar og með því að ekki sé um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi hafi ekki verið gætt jafnræðis gagnvart öðrum fasteignaeigendum á Arnarnesi sem ekki þurfi að sæta slíkri málsmeðferð og eignaskerðingu er henni fylgi.  Meðalhófs hefði verið gætt ef umdeild ákvörðun hefði ekki verið tekin. 

Frávísunarkröfu byggingarleyfishafa sé mótmælt.  Kærandi njóti nú þegar aðilastöðu í málinu að mati Garðabæjar enda hafi grenndarkynning framkvæmdanna náð til hans. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 22. júlí 2010 að viðstöddum kæranda, byggingarleyfishafa og fulltrúa bæjaryfirvalda. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist frávísunar með þeim rökum að hinar kærðu ákvarðanir snerti ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni kæranda, en það sé skilyrði kæruaðildar samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Heimiluð viðbygging að Þrastanesi 18 er við austurhlið hússins og snýr að fasteign kæranda að Þrastanesi 16.  Verður að telja að viðbyggingin geti haft áhrif á nýtingu lóðar kæranda eins og aðstæðum er háttað og verður því talið að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum.  Verður frávísunarkröfunni því hafnað. 

Til grundvallar hinni kærðu ákvörðun um óverulega breytingu á deiliskipulagi lá skipulagsuppdráttur frá árinu 1975 ásamt mæliblaði frá árinu 1985 sem gert hafði verið vegna skiptingar lóðarinnar nr. 18 í tvær lóðir.  Var það skilningur bæjaryfirvalda að byggingarreitur hússins að Þrastanesi 18 næði ekki út fyrir grunnflöt þess og því þyrfti að sýna byggingarreit fyrirhugaðrar viðbyggingar á mæliblaðinu.  Yrði þetta gert með óverulegri breytingu á deiliskipulagi svæðisins. 

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 19/1964, sem í gildi var á árinu 1975, þegar umræddur uppdráttur var samþykktur, var heimilt að gera séruppdrætti fyrir einstök svæði eða hverfi þar sem gerður hefði verið skipulagsuppdráttur samkvæmt 10. gr. laganna. en hann samsvaraði að efni til aðalskipulagsuppdrætti samkvæmt núgildandi lögum.  Skipulag það frá 1975 sem hér um ræðir var hins vegar samþykkt löngu áður en fyrst var staðfest heildstætt aðalskipulag fyrir Garðabæ árið 1987 og gat því ekki hafa öðlast gildi sem séruppdráttur eða deiliskipulag þegar litið er til ákvæða 10. og 11 gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964.  Hefur ekki verið unnið deiliskipulag fyrir umrætt svæði eftir samþykkt uppdráttarins frá 1975 og er áréttað í landnotkunar- og landnýtingarkafla aðalskipulags bæjarins 1995-2015 að deiliskipulag fyrir Arnarnes sé ófullgert.  Verður því ekki séð að í gildi hafi verið deiliskipulag fyrir umrætt svæði er hin kærða ákvörðun um óverulega breytingu á deiliskipulagi var tekin og var hún því ekki reist á réttum grundvelli.  Verður hún því felld úr gildi. 

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildandi deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og verður því jafnframt fallist á kröfu um ógildingu þess. 

Úrskurðarorð:

Kröfu um frávísun máls þessa er hafnað. 

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. janúar 2010 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Arnarness varðandi lóðina að Þrastanesi 18, Garðabæ. 

Jafnframt er felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 21. apríl 2010, sem bæjarstjórn staðfesti 6. maí sama ár, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Þrastanesi 18.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Aðalheiður Jóhannsdóttir

48/2010 Steðji

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 48/2010, kæra á ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja í Borgarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júlí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Jón Ögmundsson hrl., f.h. A, eiganda jarðarinnar Runna í Borgarbyggð, þá ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010 að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja. 

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka megi það til efnisúrskurðar og kemur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda því ekki til úrlausnar.

Málavextir:  Hinn 28. júní 2010 sótti eigandi jarðarinnar Steðja um framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi jarðarinnar.  Var áformað að nota brautina á unglingalandsmóti UMFÍ, sem fram á að fara dagana 30. júlí til 1. ágúst 2010.  Var umsóknin samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 30. júní 2010 með svohljóðandi bókun:  „D[..] f.h. landeigenda sækir um leyfi til framkvæmda við gerð mótorcrossbrautar í landi Steðja.  Samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir mótorcrossbraut til notkunar á unglingalandsmóti, enda sé framkvæmdin á röskuðu landi og afturkræf.“

Afgreiðsla umhverfis- og skipulagsnefndar var tekin fyrir á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 15. júlí 2010 og var svohljóðandi bókun gerð í málinu:  „Framlögð fundargerð frá 1. fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar dags. 30. júní 2010.  Jafnframt framlagt bréf frá Jóni Ögmundssyni hrl. þar sem þess er krafist að framkvæmdaleyfi fyrir motorkrossbraut í landi Steðja verði fellt niður og framkvæmdir stöðvaðar.  Byggðarráð tekur undir með umhverfis- og skipulagsnefnd og samþykkir framkvæmdaleyfi fyrir motorkrossbraut til notkunar á unglingalandsmóti, enda sé framkvæmdin á röskuðu landi og afturkræf.  Byggðarráð ítrekar að þetta leyfi er tímabundið og stendur til lokadags unglingalandsmóts sem er 2. ágúst nk.“ 

Kærandi, sem telur sig eiga hagsmuna að gæta sem eigandi jarðar í nágrenni við framkvæmdastað, vildi ekki una þessum málalokum og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 20. júlí 2010, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur aðfinnsluvert að byggðarráð gefi út tímabundið framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem í eðli sínu sé varanleg gerð kappakstursbrautar fyrir motorcrosshjól.  Ekki sé gert ráð fyrir útgáfu tímabundinna framkvæmdaleyfa í skipulags- og byggingarlögum.  Hvergi komi fram í bókun byggðarráðs að land það sem notað verði undir brautina verði fært til fyrra horfs eftir unglingalandsmótið, og þá innan tiltekins tíma, svo ekki verði um varanlega framkvæmd að ræða.  Eingöngu sé tilgreint að framkvæmdin sé á röskuðu landi og afturkræf. 

Það gefi auga leið að starfsemi sem þessi eigi alls ekki heima á þessu svæði.  Á aðliggjandi jörðum sé hrossahald og tamningastöðvar.  Þá sé frístundabyggð á nálægum jörðum.  Það geti komið sér afar illa fyrir eigendur hrossa á svæðinu að fá motorcrossbraut í nágrennið með þeim gífurlega hávaða sem því fylgi og mögulegri olíumengun sem henni sé samfara.  Svæðið sé skipulagt sem landbúnaðarsvæði og samrýmist framkvæmdin því ekki gildandi skipulagi.  Ekki verði séð hvernig heimild fyrir motorcrossbraut verði felld að núverandi landnotkun á svæðinu, en motorcrossakstri fylgi hávaðamengun. 

Einnig megi telja að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. a lið 11. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, enda komi ekkert fram í bókun umhverfis- og skipulagsnefndar eða byggðarráðs um að afmá eigi brautina að loknu unglingalandsmóti.  Hér vísist því aftur til þess sem fram hafi komið um hávaða- og umhverfismengun sem af slíkri braut stafi. 

Kærandi telji að ekki hafi verið rétt staðið að útgáfu þessa leyfis þar sem hvorki hafi verið tekin afstaða til þess hvort framkvæmdin sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingalaga, né heldur til þess hvort framkvæmdin eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum. 

Þá sé á það bent að á svæðinu sé stofn blesgæsa sem haldi til í Reykholtsdal á haustin, en hún sé alfriðuð.  Allar framkvæmdir sem áhrif kynnu að hafa á lífríki svæðisins séu háðar mati á umhverfisáhrifum og óheimilt hafi verið að gefa út framkvæmdaleyfi án þess að slíkt mat hafi farið fram. 

Reyndar virðist framkvæmdin fremur vera byggingarleyfisskyld en framkvæmdaleyfisskyld, enda séu vegir aðeins undanþegnir byggingaleyfi séu þeir lagðir af opinberum aðilum, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingalaga.  Það hefði því átt að grenndarkynna tillöguna áður en afstaða var tekin til leyfisumsóknarinnar. 

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er á það bent að framkvæmdin sé afturkræf en hún sé á röskuðu landi í gamalli námu.  Leyfi sveitarfélagsins fyrir notkun brautarinnar gildi einungis í tengslum við unglingalandsmót UMFÍ.  Í samþykki byggðaráðs sé áréttað að leyfið sé tímabundið og gildi til lokadags unglingalandsmóts, sem er 2. ágúst.  Því megi reikna með að brautin verði notuð í 4 klst., meðan á sjálfri keppninni standi, en reiknað sé með að 30-40 manns muni keppa í þessari grein.  Af öryggisástæðum gæti þó mögulega þurft að reyna brautina skömmu fyrir mót áður en endanlega verði gengið frá keppnissvæðinu. 

Sveitarfélagið telji það ekki rök í málinu að brautin verði áfram notuð eftir unglingalandsmót UMFÍ því leyfi sveitarfélagsins fyrir notkun brautarinnar gildi ekki nema til 2. ágústs.  Umsækjandi og landeigandi að Steðja sé vel meðvitaður um hvað í samþykki sveitarfélagsins felist. 

Sveitarfélagið telji að mikið hefði verið í lagt fyrir 4 klst. mót að vinna sérstakt deiliskipulag vegna brautarinnar, breyta landnotkun aðalskipulags og meta umhverfisáhrif skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum.  Hins vegar taki sveitarfélagið undir að slíkt bæri að gera væri um framtíðarbraut að ræða á þessum stað. 

Ekki sé að mati sveitarfélagsins ljóst hvort sveitarfélaginu hafi borið skylda til að sækja um leyfi fyrir þessari framkvæmd, þar sem um tímabundna notkun hafi verið að ræða, en engu að síður hafi það verið gert þar sem sveitarfélagið átti hlut að máli sem mótshaldari unglingalandsmóts UMFÍ. 

Um stöðu skipulagsmála á svæðinu sé það að segja að sveitarstjórn hafi samþykkt til auglýsingar aðalskipulagstillögu fyrir allt sveitarfélagið, sem ekki hafi verið fyrir hendi áður.  Skipulagsstofnun hafi gefið jákvæða umsögn með auglýsingu tillögunnar og hafi hún verið kynnt íbúum sveitarfélagsins á almennum kynningarfundum. 

Í þeirri tillögu, sem senn verði auglýst, sé umrædd náma sérstaklega tilgreind nr. E 79.  Náman sé því í samræmi við stefnumörkun sveitarfélagsins og landnotkunarflokkur hennar sé „efnistökusvæði“.  Landnotkun svæðisins í kring sé landbúnaðarland en skammt frá sé svæði, skilgreint sem athafnasvæði (A 3) í aðalskipulagstillögu, þar sem m.a. sé flugbraut og nokkur flugskýli. 

Málsrök framkvæmdaleyfishafa:  Framkvæmdaleyfishafi, sem er ábúandi og eigandi jarðarinnar Steðja, kveður sér ekki kunnugt að sést hafi til blesgæsar á landareigninni eða í nágrenni hennar. 

Hvað varði hávaða verði að minni á að þarna rétt hjá sé mikið notaður flugvöllur og yrði hljóðmengun frá brautinni ekki nálægt því eins mikil og þegar sé frá flugvellinum. 

Umrætt svæði sé skipulagt sem malarnáma í aðalskipulagi og hafi Vegagerðin tekið þarna töluvert efni.  Þarna sé því ekki verið að raska óafturkræfu svæði. 

Loks sé á það bent að fyrihugað mót muni einungis standa í 4 klst.

Ungmennafélagi Íslands var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu en engin andsvör hafa borist frá félaginu. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Í 2.-7. mgr. 27. gr. er nánar kveðið á um gerð og undirbúning framkvæmdaleyfa og kemur þar m.a. fram að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar skuli kveðið á um í reglugerð og að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er ekki í gildi aðalskipulaga fyrir umrætt svæði.  Þar sem svo stendur á getur sveitarstjórn leyft einstakar leyfisskyldar framkvæmdir sem um kann að verða sótt að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.  Að þessu var ekki gætt við afgreiðslu leyfisins og var meðferð málsins að þessu leyti verulega ábótavant. 

Í gr. 9.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er fjallað um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsókna.  Segir þar að meðal nauðsynlegra gagna sé uppdráttur í tilgreindum mælikvarða er sýni framkvæmd og afstöðu hennar í landi, þar sem fram komi mörk viðkomandi svæðis, tenging þess við þjóðveg, hæðarlínur og mannvirki sem fyrir séu á svæðinu.  Auk þess skuli leggja fram fylgigögn þar sem fram komi lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum ásamt öðrum upplýsingum sem skipulagsnefnd telji nauðsynlegar. 

Ekki verður séð að nein af þeim gögnum sem áskilin eru í tilvitnuðu ákvæði hafi legið fyrir við samþykkt hins umdeilda leyfis.  Eru upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd raunar svo takmarkaðar í máli þessu að ógerlegt er að leggja mat á það hvort um sé að ræða meiri háttar framkvæmd, sem háð sé framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, en líta verður til þess að framkvæmdin er á röskuðu svæði.  Þá er hið kærða leyfi tímabundið en tímaskilyrði leyfisins virðist aðeins eiga við um notkun mannvirkisins og hefur það skilyrði því litla þýðingu við mat því hvort umrædd framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar stórlega áfátt og þykja þeir annmarkar sem á málmeðferð voru eiga að leiða til ógildingar hennar.  Verður hún því felld úr gildi. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja í Borgarbyggð, er felld úr gildi. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Aðalheiður Jóhannsdóttir

26/2009 Birkihlíð

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 24. mars 2009 um að veita heimild til útgáfu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 15 við Birkihlíð, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. G, Birkihlíð 17 og T og S, Birkihlíð 11, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 24. mars 2009 að veita heimild til útgáfu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 15 við Birkihlíð.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Hinn 4. febrúar 2009 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja að grenndarkynna umsókn lóðarhafa Birkihlíðar 15 um byggingu íbúðarhúss á lóðinni, en hún er á íbúðarsvæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 20. mars 2009 og lágu þá fyrir tvö athugasemdabréf, þar sem m.a. kærendur andmæltu umsóttum byggingarframkvæmdum að Birkihlíð 15. Tók ráðið afstöðu til athugasemdanna og samþykkti síðan umsóknina og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ábótavant.  Óljóst sé hvort um hafi verið að ræða grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar samkvæmt 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laganna eða nýtt deiliskipulag fyrir eina lóð, sem óheimilt sé að lögum.  Nauðsynlegt hafi verið að deiliskipuleggja umrætt svæði samkvæmt meginreglu 23. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en heimild væri veitt fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og þá sérstaklega í ljósi bókunar eins nefndarmanns umhverfis- og skipulagsráðs um að svipað óleyst álitaefni væri til staðar í götunni.  Þá sé byggingarreitur lóðarinnar að Birkihlíð 15 dýpri en flestra lóða á svæðinu, útlit og form fyrirhugaðs húss víki frá því sem almennt gerist og sama eigi við um nýtingarhlutfall lóðarinnar.  Þá hafi rannsókn máls að hálfu sveitarfélagsins verið ábótavant hvað varði fullyrðingu tveggja kærenda um að þeir hafi öðlast afnotarétt yfir hluta umræddrar lóðar með samkomulagi eða fyrir hefð. 

Fyrir um 23-24 árum hafi starfsmaður bæjarins komið og sett niður lóðarmörk Birkihlíðar 11 gagnvart Birkihlíð 15 með þeim hætti að lóðin næði þrjá metra lengra til austurs en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.  Lóðarhafar að Birkihlíð 11 hafi frá þeim tíma nýtt lóð sína í samræmi við nefnd lóðamörk og sett niður palla og gróðursett tré.  Hafi hið kynnta byggingarleyfi því komið þeim kærendum sem um ræði í opna skjöldu en bent sé á að þótt ekki lægi fyrir formlegt samkomulag við bæjaryfirvöld um stækkun lóðarinnar að Birkihlíð 11 hafi myndast hefðarréttur til núverandi nýtingar lóðarinnar.  Með hinni kærðu ákvörðun sé því verið að taka hluta lóðarinnar að Birkihlíð 11 af lóðarhöfum en slíkt verði ekki gert nema með eignarnámi. 

Grenndaráhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni að Birkihlíð 15 gagnvart kærendum verði íþyngjandi hvað varði rými og útsýni vegna nálægðar lóðar kærenda.  Hafa verði í huga að kærendur hafi búið við fyrra ástand um áratuga skeið og hafi mátt vænta að lóðin yrði ekki nýtt eins og nú sé fyrirhugað.  Draga megi í efa að eðlilegt sé að samþykkja nú byggingu húss á lóð, sem sé lítil og henti illa til byggingarframkvæmda, gegn hagsmunum íbúa í íbúðarhverfi sem byggst hafi upp fyrir mörgum áratugum. 

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Bæjaryfirvöld Vestmannaeyja taka fram að málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar hafi í engu verið áfátt.  Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs um að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi vegna Birkihlíðar 15 komi fram að það sé gert á grundvelli 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hafi verið um að ræða einstaka framkvæmd í þegar byggðu hverfi sem ekki hafi verið deiliskipulagt.  Fyrirhuguð nýbygging falli vel að byggðamynstri götunnar og sé heildarmynd hennar styrkt með jafnri húsaröð, götulínum og samsvarandi byggingarmagni.  Sé nú loks lokið við götumynd Birkihlíðar að norðanverðu.  Að kynningu lokinni hafi verið fjallað um framkomnar athugasemdir, þeim svarað og niðurstaðan send þeim sem athugasemdir gerðu og jafnframt vakin athygli á kæruheimild. 

Fyrir liggi lóðarleigusamningar um lóðirnar að Birkihlíð 11, 15 og 17 og við endurnýjun samninga árið 2004 hafi lóðir verið mældar upp með GPS tækni.  Við þá mælingu hafi lóðin að Birkihlíð 11 verið stækkuð til vesturs svo að bílgeymsla er fylgi þeirri fasteign yrði innan lóðar.  Engin breyting hafi verið gerð á upphaflegum lóðarleigusamningi fyrir Birkihlíð 11 og ekki liggi fyrir gögn um meinta mælingu starfsmanns bæjarins, sem nú sé látinn, á lóðamörkum Birkihlíðar 11 og 15. 

Þá sé því hafnað að réttur til hluta lóðarinnar að Birkihlíð 15 hafi unnist fyrir hefð.  Um þá lóð hafi í þrígang verið gerðir leigusamningar og engin gögn liggi fyrir um hvenær notkun lóðarhafa Birkihlíðar 11 á hluta fyrrnefndrar lóðar hafi átt sér stað og með hvaða hætti hún hafi verið síðan.  Bent sé á að samkvæmt 68. gr. gildandi byggingarreglugerðar beri lóðarhafa að halda vexti trjáa og runna innan lóðarmarka.  Geti hugsanleg ólögmæt notkun, er fari í bága við þá skyldu, ekki skapað hefðarrétt að lögum þar sem slíkur réttur náist ekki fram með óráðvendni.  Ætti fullyrðing um að ætluð notkun styddist við samkomulag um þau not við rök að styðjast kæmi hefðarréttur heldur ekki til álita enda væri notkunin þá samningsbundin.  Loks sé bæjaryfirvöldum ekki kunnugt um dómafordæmi þess að hægt sé að vinna hefð á landi með gróðursetningu trjáa á skipulögðu byggingarsvæði. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Vestmannaeyjabæjar um veitingu byggingarleyfis var tekin hinn 24. mars 2009.  Upplýst hefur verið í málinu að formlegt byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út af byggingarfulltrúa og framkvæmdir því ekki hafnar að Birkihlíð 15 en byggingarleyfisgjöld hafi hins vegar verið greidd. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins og byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd.  Í 4. mgr. sömu greinar segir að staðfesting sveitarstjórnar falli úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.  Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. 

Eins og að framan greinir hefur byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki verið gefið út og framkvæmdir enn ekki hafist á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar, en um 16 mánuðir eru nú liðnir frá staðfestingu sveitarstjórnar á veitingu umdeilds byggingarleyfis.  Er sú samþykkt því úr gildi fallin samkvæmt fyrrgreindri 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Byggingarleyfishafi mun hafa greitt tilskilin byggingarleyfisgjöld í kjölfar afgreiðslu bæjaryfirvalda á umsókn hans.  Jafnvel þótt svo yrði litið á að með því hafi honum verið veitt byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga er það leyfi jafnframt úr gildi fallið, sbr. 1. mgr. 45. gr. laganna.  Eru því úr gildi fallnar allar heimildir til þeirra framkvæmda sem samþykktar voru með hinni kærðu ákvörðun og verður hér eftir ekki í þær ráðist nema að undangenginni nýrri samþykkt sveitarstjórnar.  Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildrar samþykktar sveitarstjórnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________     ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Aðalheiður Jóhannsdóttir

1/2009 Hörðukór

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2009, kæra á breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2009, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kæra S og S, eigendur íbúðar í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1 í Kópavogi breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2009, er barst nefndinni 30. sama mánaðar, kæra eigendur átta íbúða í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1 sömu deiliskipulagsbreytingu og áður greinir.  Ákvað úrskurðarnefndin að sameina síðara kærumálið máli þessu. 

Skilja verður málskot kærenda á þann veg að krafist sé ógildingar á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór og að efsta hæð hússins verði fjarlægð án tafar ásamt svalahandriði sem sé ofan á húsinu. 

Málsatvik og rök:  Árið 2003 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs deiliskipulag Vatnsendasvæðis er m.a. tók til lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór.  Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. október 2005 tók gildi breyting á deiliskipulagi þessu er laut að fyrrgreindri lóð.  Fól breytingin m.a. í sér að heimilað var að stækka byggingarreit,  lyfta þaki um 4,8 m, nýta þakrými sem hluta íbúða á 12. hæð, fjölga íbúðum úr 48 í 52 og auka hámarksflatarmál hússins um 700 m2.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir húsinu 10. október 2005. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að í desember 2008 hafi þau fengið vitneskju um að íbúðarblokkin að Hörðukór 3 hafi verið hækkuð um eina hæð og ca. 1,65 m að auki og að líkindum einnig verið færð til á lóðinni, í átt að Hörðukór 1.  Þá virðist ljóst að reglugerðarkrafa um að minnst helmingur hæðar húss sé að lóðarmörkum hafi verið gróflega brotin.  Þetta hafi verið gert án undangenginnar grenndarkynningar. 

Kærendur, sem séu eigendur íbúða í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1, hafi gert samning um kaup á íbúðum í húsinu áður en bygging Hörðukórs 3 hafi hafist og áður en breyting hafi verið samþykkt á deiliskipulagi.  Hefðu þau haft grun um breytingarnar hefði þeim verið í lófa lagið að kaupa íbúðir annars staðar í húsinu þar sem þau hefðu ekki orðið fyrir skaða vegna breytinganna sem ýmist ræni kærendur umhverfis-, fjalla- eða sólarsýn. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að afgreiðsla bæjarins á breyttu deiliskipulagi lóðarinnar að Hörðukór 3 frá árinu 2005 hafi verið rétt, bæði að formi og efni, og krefst staðfestingar hennar. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu tilgreina kærendur ekki sérstaklega hina kærðu ákvörðun en af málsgögnum verður helst ráðið að um sé að ræða ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 22. september 2005 um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór er tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 31. október 2005.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir húsinu 10. sama mánaðar. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. 

Eins og að framan er rakið bárust kærur í máli þessu úrskurðarnefndinni 8. og 30. janúar 2009 eða rúmum þremur árum eftir lok kærufrests og ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________
Hjalti Steinþórsson

______________________    ________________________
Þorsteinn Þorsteinsson            Aðalheiður Jóhannsdóttir