Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2009 Hafnarfjörður, aðalskipulag

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2009, kæra á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hinn 17. mars 2009 að auglýsa. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. september 2009, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir Á, Smárahvammi 9, Hafnarfirði, breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hinn 17. mars 2009 að auglýsa.  Gerir kærandi þá kröfu að gildandi aðalskipulag standi óhaggað. 

Málsatvik og rök:  Á fundi sínum hinn 17. mars 2009 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er tók til kafla 2.2.10 sem fjallar um frístundabyggð á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði.  Var þar gert ráð fyrir takmarkaðri uppbyggingu innan svæðisins.  Auglýsing um breytingartillöguna birtist í Fjarðarpóstinum hinn 20. ágúst 2009. 

Bendir kærandi á að í gildandi aðalskipulagi segi að ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á umræddu svæði en í breytingartillögu komi fram að „… takmörkuð uppbygging verði innan svæðisins.“  Nú virðist því vera gert ráð fyrir þeim möguleika að reisa mörg hús á svæðinu í stað þess eina sem úrskurðað hafi verið ólögmætt í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 4/2008.  Ekki komi fram í aðalskipulagstillögunni hversu „takmörkuð“ ráðgerð uppbygging verði og engir uppdrættir fylgi tillögunni.  Það væri vafasamt fordæmi fyrir sveitarfélag ef breyta mætti staðfestu skipulagi vegna þess eins að túlkun í úrskurði úrskurðarnefndarinnar sé ekki í samræmi við ásetning sveitarfélagsins eins og haldið sé fram í greinargerð aðalskipulagstillögunnar.  Rétt sé að úrskurðarnefndin úrskurði um lagalega rétta túlkun á þeim kafla aðalskipulagsins er breytingin taki til. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild aðalskipulagstillaga hefur ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í nefndu lagaákvæði er einnig kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina og verður af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________             ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

166/2007 Furugrund

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 166/2007, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 um að samþykkja deiliskipulag vegna lóðarinnar að Furugrund 44 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2007, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kæra B og G, íbúar að Furugrund 42, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 að samþykkja deiliskipulag vegna lóðarinnar að Furugrund 44 í Kópavogi.  Birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. nóvember 2007. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar 6. september 2005 var lögð fram tillaga lóðarhafa Furugrundar 44 þess efnis að tvíbýlishús sem stendur á lóðinni yrði rifið og þess í stað byggt þriggja hæða fjölbýlishús með sex íbúðum auk bílakjallara.  Samþykkti skipulagsnefnd að tillagan yrði auglýst samkvæmt 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Athugasemdir og ábendingar bárust frá íbúum Furugrundar 40-42, þar með töldum kærendum.  Á fundi skipulagsnefndar 29. nóvember 2005 var tillögunni hafnað á grundvelli innsendra athugasemda. 

Á fundi skipulagsnefndar 5. september 2006 var á ný lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna lóðarinnar Furugrundar 44, sama efnis og að ofan er lýst en með breyttu fyrirkomulagi bílastæða o. fl.  Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna samkvæmt 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 19. september 2006 með athugasemdafresti til 31. október 2006.  Athugasemdir og ábendingar bárust, m.a. frá kærendum.  Á fundi skipulagsnefndar 7. nóvember 2006 var tillagan lögð fram að nýju ásamt athugasemdum og var bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn varðandi innsendar athugasemdir.  Á fundi nefndarinnar hinn 21. sama mánaðar var tillagan samþykkt og hún staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. nóvember 2006.  Með bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsstjóra Kópavogs, dags. 1. febrúar 2007, var greint frá því að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til efnis deiliskipulagsins fyrr en m.a. lægi fyrir hvort um nýtt deiliskipulag væri að ræða eða breytingu á eldra deiliskipulagi svæðisins.  Þá sagði m.a. í bréfinu:  „Í Kópavogi hafa undanfarið verið deiliskipulagðar stakar lóðir í eldri hverfum, þar sem ekki liggur fyrir gildandi deiliskipulag.  Skipulagsstofnun bendir á að í stað þess að skipuleggja eina lóð í einu er réttara að skoða og marka stefnu um skipulag viðkomandi reita/svæða.“  Framhald varð á bréfasamskiptum skipulagsyfirvalda í Kópavogi og Skipulagsstofnunar og með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. nóvember 2007, var greint frá því að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins.  Birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. nóvember 2007. 

Hafa kærendur skotið framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að með hinni kærðu ákvörðun sé aflagður eini göngustígurinn er liggi undir Nýbýlaveg á svæði því er um ræði.  Það sé forkastanlegt þar sem um stíginn fari fjöldi barna á degi hverjum er leið eigi í skóla og á íþróttasvæði í nágrenninu. 

Með hinni kærðu ákvörðun sé enn aukið á bílastæðavanda hverfisins ásamt því að aðgengi sjúkra- og slökkvibíla verði ekki ásættanlegt fyrir íbúa hverfisins.  Í engu sé gerð grein fyrir leiksvæði barna á lóðinni eða hvar koma eigi fyrir tengikössum síma og rafmagns sem þar standi. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að á lóðinni að Furugrund 44 hafi upphaflega verið veitt leyfi til byggingar einbýlishúss og því breytt í tvíbýli árið 1995.  Ekki hafi verið til deiliskipulag fyrir lóðina og af þeim sökum hafi verið ákveðið að tillaga að breytingu yrði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Bent sé á að skipulagsnefnd hafi ekki fallist á fyrri tillögu lóðarhafa.  Með seinni tillögunni hafi byggingarmagn verið minnkað, hæð húss lækkuð og fjarlægð frá lóðarmörkum breytt.  Þá sé nýtingarhlutfall sambærilegt og á öðrum lóðum í nágrenninu ásamt því að kjallarahæð hafi verið felld niður í jörð (sic) og nái nú lengra inn í lóð. 

Í lóðarleigusamningi vegna lóðarinnar frá árinu 1975 sé að finna kvöð um að bílastæði í götu skuli vera sameiginleg sem og aðkeyrsla fyrir lóðirnar við Furugrund 40-54.  Tillaga sú er auglýst hafi verið hafi gert ráð fyrir því að sameiginlegum bílastæðum myndi fækka vegna innkeyrslu í bílageymslu hússins að Furugrund 44.  Skipulagsnefnd hafi samþykkt að innkeyrsla í bílageymslu yrði færð.  Að auki hafi göngustígur milli Furugrundar 44 og 46 verið færður inn á uppdrátt. 

Því sé haldið fram að skipulagsyfirvöld hafi verulega komið til móts við athugasemdir þær er borist hafi er tillagan hafi verið auglýst og að grenndaráhrif hinnar kærðu samþykktar séu óveruleg. 

Hvorki verði séð að málsmeðferð né hin efnislega ákvörðun hafi verið ólögmæt eða óréttlát.  Við ákvarðanatökuna hafi í öllu verið fylgt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Beri því að hafna kröfum kærenda. 

—————

Lóðarhafa að Furugrund  44 var veitt færi á að tjá sig um kæruefnið, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ekkert svar hefur borist frá honum af því tilefni.  Jafnframt var Kópavogsbæ tilkynnt að úrskurðarnefndin hefði tekið það álitaefni til athugunar af sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði hefðu verið til þess að deiliskipuleggja aðeins eina lóð á íbúðarsvæði þar sem ekki hafi verið fyrir hendi deiliskipulag.  Var bæjaryfirvöldum gefinn kostur á að tjá sig um það efni sem þau gerðu ekki. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Samkvæmt skilgreiningarákvæði 2. gr. laganna er deiliskipulag:  „… skipulagsáætlun fyrir afmarkaða reiti innan sveitarfélags, sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess.“  Hugtakið reitur er hvorki skilgreint í lögunum né í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, en orðið kemur fyrir í samsettu heitunum götureitur og landnotkunarreitur, sem skilgreind eru í grein 1.3 í skipulagsreglugerðinni.  Gefa skilgreiningar þessar ekki tilefni til þess að ætla að orðið reitur eigi við um einstaka byggingarlóð, enda væri slík notkun orðsins hvorki í samræmi við orðskýringu né almenna venju um orðnotkun. 

Í skilgreiningarákvæði 1.3 í skipulagsreglugerðinni er einnig skilgreint hugtakið skipulagssvæði en þar segir m.a:  „Deiliskipulag nær til einstakra svæða eða reita innan aðalskipulags og skal jafnan miðast við að ná til svæða sem mynda heildstæða einingu.  Í þéttbýli skal deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.“  Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerðinni, en ákvæðið fjallar um deiliskipulag. 

Telja verður að með tilvitnuðum ákvæðum sé mörkuð sú meginstefna, að deiliskipulag skuli jafnan taka til svæða sem myndi heildstæða einingu og skuli að jafnaði ekki taka til minna svæðis en götureits.  Enda þótt í orðunum „jafnan“ og „að jafnaði“ kunni að felast nokkurt svigrúm til ákvörðunar um mörk svæðis sem deiliskipulag á að taka til veitir það sveitarstjórnum ekki frelsi til þess að ákvarða þessi mörk að eigin geðþótta.  Verður þess í stað að skýra ákvæðin með hliðsjón af þeim markmiðum sem að er stefnt með gerð deiliskipulags, að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði.  Við skipulagsgerðina verður jafnframt að líta til þeirra markmiða sem sett eru fram í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo og til almennra ákvæða í 9. gr. laganna um gerð og framkvæmd skipulags. 

Til þess að fullnægt sé lagaskilyrðum þarf í skipulagsáætlunum að gera grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalds og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og lýsa forsendum þeirra ákvarðana.  Þurfa þessar áætlanir að vera í eðlilegu samræmi innbyrðis og taka til allra þeirra þátta sem varða hagsmuni heildarinnar, jafnframt því sem tryggja ber rétt einstaklinga og lögaðila sem hagsmuna eiga að gæta við skipulagsgerðina. 

Í máli því sem hér er til meðferðar ákváðu skipulagsyfirvöld í Kópavogi að vinna deiliskipulag fyrir eina lóð á íbúðarsvæði þar sem ekki var í gildi deiliskipulag.  Var á þetta bent af hálfu Skipulagsstofnunar og minnt á að í stað þess að skipuleggja eina lóð í einu væri réttara að skoða og marka stefnu um skipulag viðkomandi svæðis. 

Telja verður að við gerð hins kærða deiliskipulags hafi ekki verið tekið tillit til grundvallarsjónarmiða sem líta beri til við skipulagsgerð.  Voru mörk skipulagssvæðisins þannig ekki miðuð við það svæði sem augljóslega myndar heildstæða einingu heldur fólst í hinu umdeilda deiliskipulagi lítið annað en það sem fram hefði komið á aðaluppdráttum við hönnun mannvirkja á lóðinni. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að skort hafi lagaskilyrði til þess að gera deiliskipulag fyrir lóðina nr. 44 við Furugrund án þess að jafnhliða væri unnið og samþykkt deiliskipulag fyrir götureitinn í heild.  Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006, um deiliskipulag vegna lóðarinnar að Furugrund 44 í Kópavogi sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. nóvember 2007, er felld úr gildi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                      Þorsteinn Þorsteinsson

52/2008 Álftanes, miðbær

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Álftaness frá 26. júní 2008 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Álftaness. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir G, Hákotsvör 5, Álftanesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Álftaness frá 26. júní 2008 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Álftaness.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni hafa jafnframt borist 12 kærur mótteknar á tímabilinu 29. júlí til 5. ágúst 2008, þar sem 36 íbúar við Suðurtún, Hólmatún, Norðurtún, Túngötu, Vesturtún, Ásbrekku og Asparholt á Álftanesi kæra fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun.  Málatilbúnaður kærenda í þeim kærumálum er á sömu lund og í máli þessu og verða kærumálin, sem eru nr. 58-67 og 69-70/2008, því sameinuð því. 

Málavextir:  Á árinu 2007 samþykkti bæjarstjórn Álftaness að auglýsa breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.  Í auglýsingu um kynningu tillögunnar kom fram að hún tæki til „taflna 3.1 og 3.2, svæði 24, Sveitarfélagið Álftanes (áður Bessastaðahreppur).“  Í henni fólst að í lok skipulagstímabilsins árið 2024 yrði íbúafjöldi kominn í um 3.850 manns og að íbúðir yrðu 1.350 í stað 1.080.  Fermetrafjöldi atvinnuhúsnæðis yrði 48.000 í stað 28.000 og gert væri ráð fyrir 15.000 fermetrum undir verslunar- og skrifstofuhúsnæði og 26.000 fermetrum undir sérhæfðar byggingar.  Samhliða var auglýst breyting á Aðalskipulagi Álftaness 2005 – 2024, nýtt deiliskipulag fyrir miðsvæði Álftaness, er nefnt var grænn miðbær á Álftanesi, og breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis, Suðurtúns og Breiðumýrar og norðanverðs Sviðholts.  Fólu skipulagstillögur þessar m.a. í sér breytingar á landnotkun, samgöngumannvirkjum og mörkum deiliskipulagssvæða. 

Umhverfisráðherra staðfesti svæðisskipulagsbreytinguna hinn 28. janúar 2008 og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. febrúar sama ár.  Aðalskipulagsbreytingin fékk staðfestingu ráðherra hinn 29. apríl 2008 og tók sú breyting gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2008.  Hin kærða deiliskipulagsákvörðun tók síðan gildi hinn 2. júlí 2008 með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda eru annars vegar gerðar athugasemdir við málsmeðferð hinnar umdeildu skipulagstillögu og hins vegar við einstök efnisatriði hennar. 

Bent sé á að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum kærenda og hafi áhrif á búsetuskilyrði á Álftanesi.  Nærfellt helmingur kosningabærra manna í sveitarfélaginu hafi komið að athugasemdum við tillöguna á kynningartíma hennar en þrátt fyrir það hafi ekki verið leitað sátta eða komið fram með tillögur til úrbóta af hálfu bæjaryfirvalda. 

Kynningu skipulagsbreytinganna hafi verið áfátt í ljósi umfangs þeirra og stöðugra breytinga á vinnslutíma og tilkynning til kærenda um kæruleið og kærufrest hafi fyrst borist þeim hinn 14. júlí 2008, eða 12 dögum eftir að gildistökuauglýsing deiliskipulagsins hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda.  Gagnrýnt sé hversu auðvelt sé að breyta svæðisskipulagi án aðkomu íbúa viðkomandi bæjarfélags þar sem um sé að ræða grundvöll að breytingum á aðal- og deiliskipulagi.  Áhrif svæðisskipulagsbreytingarinnar kunni að vera óveruleg á höfuðborgarsvæðið en þau séu veruleg gagnvart Álftanesi og kollvarpi gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins.  Þá sé sérkennilegt að svæðisskipulagsbreytingin hafi verið afgreidd frá Skipulagsstofnun til umhverfisráðherra á kynningartíma skipulagstillagnanna og hafi ráðuneytið staðfest svæðisskipulagsbreytinguna hinn 28. janúar 2008, eða fimm dögum eftir að athugasemdafresti vegna svæðis-, aðal- og deiliskipulagstillögunnar hafi lokið. 

Margar athugasemdir við hina kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi lotið að því að um grundvallarbreytingu væri að ræða, en í andsvörum bæjaryfirvalda hafi verið vísað til þess að breytingin byggðist m.a. á samþykktu svæðisskipulagi.  Alvarlegar athugasemdir séu gerðar við þá málsmeðferð að virða athugasemdir íbúa við svæðisskipulagsbreytingu að vettugi og vísa svo til þeirrar breytingar, eftir staðfestingu hennar, sem grundvallar að auglýstri aðal- og deiliskipulagsbreytingu.  Vandséð sé í ljósi þessa hvaða tilgangi það þjóni að auglýsa umdeilda breytingu á aðal- og deiliskipulagi. 

Með hliðsjón af umfangi umdeildra skipulagstillagna sé flýtimeðferð þeirra gagnrýniverð.  Umhverfisskýrsla skipulagsins hafi fengið níu daga umfjöllun hjá Umhverfisstofnun, yfirferð Skipulagsstofnunar á aðalskipulagsbreytingunni hafi tekið sex vikur og afgreiðsla breytingarinnar hjá umhverfisráðuneytinu hafi tekið tvær vikur.  Þessi stutti málsmeðferðartími svo umfangsmikillar breytingar, sem vel á áttunda hundrað íbúa hafi mótmælt, sé með ólíkindum en sambærilegar skipulagstillögur hafi að jafnaði tekið mun lengri tíma hjá þessum stofnunum. 

Í umfangsmiklum andmælum fjölda íbúa við auglýstum breytingum á skipulagi hafi verið gerðar sterkar athugasemdir við breytingar á gatnakerfi bæjarfélagsins er hafi falið í sér að leggja niður Breiðumýri að hluta og leggja nýjan veg sunnan Suðurtúns og skólasvæðis og færslu Norðurnesvegar og Suðurnesvegar í því skyni að auka byggð á miðsvæðinu.  Ætla verði að breytingarnar leiði til mjög mikillar umferðar um nefndan veg sunnan skólasvæðis og Suðurtúns með tilheyrandi áhrifum gagnvart íbúum í nálægum hverfum og ekki sé réttlætanlegt að leggja niður hluta Breiðumýrar til þess að koma fyrir aukinni byggð.  Gatnabreytingarnar séu umdeildar eins og fram komi í umferðarskýrslu sem unnin hafi verið fyrir sveitarfélagið og ekki verði séð að umferðaröryggissjónarmið séu höfð að leiðarljósi við þessar breytingar. 

Þá hafi verið gerðar athugasemdir við áform um mikla aukningu verslunar-, atvinnu- og þjónusturýmis.  Aðkoma íbúa að þessum breytingum hafi ekki verið fyrir hendi þar sem bent hafi verið á að þeir hefðu ekkert með breytingar á svæðisskipulagi að gera en breytingar á aðal- og deiliskipulaginu ættu stoð í þeirri breytingu.  Efnislegum og rökstuddum andmælum íbúa hafi í engu verið sinnt við lokayfirferð deiliskipulagstillögunnar þar sem gatnaskipulagi bæjarfélagsins, sem sátt hafi verið um, sé umbylt. 

Málsrök Sveitarfélagsins Álftaness:  Bæjaryfirvöld benda á að hið kærða deiliskipulag hafi verið unnið eftir verðlaunatillögu um skipulag miðbæjar Álftaness, að aflokinni samkeppni um skipulag svæðisins.  Samhliða auglýsingu deiliskipulagstillögunnar hafi verið auglýst breyting á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Álftaness og hafi þær breytingar verið staðfestar og tekið gildi.  Ekki sé talin ástæða til að fjalla um svæðis- og aðalskipulagsbreytingarnar enda falli þær ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar. 

Öll málsmeðferð vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög og stjórnsýslulög.  Rannsóknarskyldu sveitarfélagsins hafi verið gætt eins og fyrirliggjandi skýrslur og greinargerðir, er unnar hafi verið í tengslum við deiliskipulagsgerðina, beri með sér, svo sem greinargerð deiliskipulagsins, greinargerð um samgönguskipulag þess og umhverfisskýrsla skipulagsins, auk skýrslu um þær breytingar sem gerðar hafi verið frá auglýstri tillögu. 

Öllum framkomnum athugasemdum hafi verið svarað og hafi með skýrum hætti verið gerð grein fyrir breytingum sem gerðar hafi verið á skipulagstillögunni í því skyni að koma til móts við athugasemdirnar.  Þannig hafi m.a. verið ákveðið að fækka fjölbýlishúsum við Norðurnesveg úr fjórum í þrjú og húsin lækkuð.  Skólavegur hafi verið færður til suðurs um ca. tvo metra fjær núverandi byggð og skólasvæði, auk þess sem gert væri ráð fyrir hraðalækkandi aðgerðum og 30 km hámarkshraða um veginn.  Fallið hafi verið frá staðsetningu bensínstöðvar við gatnamót Skólavegar og Norðurnesvegar til samræmis við breytingu á aðalskipulagi. 

Það sé aldrei svo að hægt sé að verða við öllum athugasemdum er kunni að koma fram við svo viðamiklar breytingar eins og hér um ræði enda hvíli ekki sú skylda á sveitarfélögum.  Hins vegar beri að taka rökstudda afstöðu til framkominna athugasemda við kynningu skipulagstillögu og það sé mat bæjaryfirvalda að svo hafi verið gert við meðferð deiliskipulags græns miðbæjar á Álftanesi. 

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök og sjónarmið í málinu sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn kærumálsins. 

Niðurstaða:  Samhliða hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun voru gerðar breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins hvað sveitarfélagið Álftanes varðar og á gildandi aðalskipulagi Álftaness.  Greind svæðis- og aðalskipulagsbreyting sætir staðfestingu umhverfisráðherra sem er æðsti handhafi stjórnsýsluvalds á þessu sviði og verða þær skipulagsákvarðanir því ekki bornar undir úrskurðarnefndina, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður efni breytts svæðis- og aðalskipulags fyrir Álftanes af þeim sökum lagt til grundvallar í kærumáli þessu. 

Þeir einir geta skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að skilyrði aðildar að kærumáli sé að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta um úrslit máls.  Þá verður kæra að berast úrskurðarnefndinni innan kærufrests sem er einn mánuður samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði og miðast sá frestur við dagsetningu opinberrar birtingar ákvörðunar þegar um hana er að ræða, sem í umræddu tilfelli var 2. júlí 2008.  Að teknu tilliti til útreiknings frests skv. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 lauk kærufresti vegna hinnar kærðu ákvörðunar hinn 5. ágúst 2008. 

Telja verður að hin umdeilda deiliskipulagsákvörðun, sem m.a. breytir akvegum og uppbyggingu húsnæðis á miðsvæði Álftaness, snerti einstaklega lögvarða hagsmuni þeirra fasteignaeigenda og íbúa í næsta nágrenni, svo sem við Suðurtún.  Verða þeir kærendur sem svo er ástatt um því taldir eiga kæruaðild að máli þessu.  Eins og hér stendur sérstaklega á þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til þess, með rannsókn á högum hvers og eins kærenda, hvort hann teljist eiga kæruaðild, enda verður málið allt að einu tekið til efnismeðferðar, en kærur þær sem til meðferðar eru bárust allar innan kærufrests. 

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skipulagsvaldið er tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi í sveitarfélaginu. 

Hin kærða deiliskipulagsákvörðun hafði nokkurn aðdraganda.  Efnt var til verðlaunasamkeppni um skipulag miðbæjarins og verðlaunatillagan notuð sem grundvöllur deiliskipulagsins.  Fundað var með íbúum um tillöguna, hún auglýst til kynningar lögum samkvæmt, framkomnum athugasemdum svarað og nokkrar breytingar gerðar vegna þeirra.  Sérstakt umferðarskipulag var unnið í tengslum við tillöguna og gert mat á umhverfisáhrifum skipulagsins sem síðar var yfirfarið af Skipulagsstofnum og gildistaka þess auglýst í kjölfarið.  Var málsmeðferð deiliskipulagsins því í samræmi við skipulags- og byggingarlög. 

Með vísan til þess sem framan er rakið og þar sem ekki liggur annað fyrir en að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Álftaness verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunarinnar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulags fyrir miðbæ Álftaness, er bæjarstjórn samþykkti hinn 26. júní 2008.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________          ______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

13/2008 Eyrarbraut

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2008, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júlí 2007 um að veita leyfi til byggingar atvinnuhúsnæðis að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. febrúar 2008, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir A, Eyrarbraut 10, Stokkseyri þá samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júlí 2007 að veita leyfi til byggingar atvinnuhúsnæðis að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri, sem staðfest var í bæjarráði hinn 19. s.m.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá fer kærandi og fram á að úrskurðarnefndin kanni almennt hvernig staðið hafi verið að breytingum á deiliskipulagi á svæðinu og hvort lög og reglur hafi verið brotnar (lóðir nr. 21-53). 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. júlí 2007 var samþykkt umsókn um leyfi til byggingar atvinnuhúss á lóðinni nr. 37 við Eyrarbraut en á svæðinu er í gildi deiliskipulag frá árinu 1996. 

Kærandi máls þessa er búsett að Eyrarbraut 10 á Stokkseyri.  Samkvæmt því sem fram kemur í kæru hafði henni verið tjáð af skipulags- og byggingaryfirvöldum að allt væri eðlilegt og farið hefði verið eftir ítrustu kröfum við úthlutun lóðarinnar nr. 37 við Eyrarbraut.  Hvað raunverulega væri verið að framkvæma á lóðinni hafi hún ekki verið upplýst um.  Heldur kærandi því fram að ekki verði annað ráðið en að framkvæmdir á lóðinni séu í andstöðu við samþykkt deiliskipulag svæðisins frá árinu 1996.  Þá setur kærandi fram athugasemdir er lúta að ónæði og sóðaskap á svæði því eru um ræðir er hljóti að kalla á aðgerðir.  Vegna þess sé þess óskað að úrskurðarnefndin kanni almennt hvernig staðið hafi verið að breytingum á deiliskipulaginu og hvort lög og reglur hafi verið brotin.    

Af hálfu Árborgar er krafist frávísunar málsins.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út 12. júlí 2007 og hafi framkvæmdir á lóðinni hafist strax í framhaldi af því.  Mælt hafi verið fyrir grunngreftri 8. ágúst 2007 og fyrir sökkuluppslætti 10. september s.á.  Sé því ljóst að kæranda hafi mátt vera kunnugt um framkvæmdir á lóðinni fljótlega eftir útgáfu byggingarleyfis. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum. 

Ekki verður séð að fyrir liggi í máli þessu kæranleg stjórnvaldsákvörðun er lúti að breytingu á deiliskipulagi svæðis þess er um ræðir og koma því aðfinnslur kæranda er varða deiliskipulagið ekki til umfjöllunar við úrlausn málsins.  Aftur á móti er byggingarleyfi það sem staðfest var í bæjarráði 19. júlí 2007 kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina.
 
Samkvæmt tilvitnaðri 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Verður ráðið af málsgögnum, m.a. skrá byggingarfulltrúa um úttekt byggingarhluta, að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hið umdeilda byggingarleyfi haustið 2007 og hafi þá borið að kynna sér efni þess og skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma.  Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 21. febrúar 2008 og var kærufrestur þá liðinn.  Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Verður ekki séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu og ber því, með hliðsjón af 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________         ________________________
  Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

70/2007 Hamrabrekkur

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 70/2007, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á beiðni um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðar í Hamrabrekkum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir J, Dísarási 7, Reykjavík, lóðarhafi í Hamrabrekkum, afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 4. júlí 2007 á beiðni um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðar í Hamrabrekkum, Mosfellsbæ. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Gildandi deiliskipulag fyrir sumarhúsabyggð í Hamrabrekkum er frá árinu 1985 þar sem gert var ráð fyrir 30 lóðum, frá 0,29 upp í 0,58 ha að stærð.  Í skilmálum deiliskipulagsins segir eftirfarandi um stærð og gerð húsa:  „Hús skulu ekki vera stærri en 50 m²  að gólfflatarmáli, einnar hæðar en hugsanlega með lofti undir hæsta hluta þaks.  Þök skulu vera söðulþök eða þök með hallandi flötum í tvær gagnstæðar áttir þótt ekki mætist í mæni og skal stefna mænis eða brotlína þakflata vera austur–vestur eða norður–suður.“  Fyrir liggur að byggt hefur verið á nokkrum lóðum í Hamrabrekkum. 

Með erindi, dags. 15. mars 2004, óskuðu eigendur 27 lóða í Hamrabrekkum eftir því að framangreindu deiliskipulagi fyrir Hamrabrekkur yrði breytt.  Þar sagði m.a:  „Við undirritaðir eigendur að lóðum í Hamrabrekkum, deiliskipulagi úr landi Miðdals 2 í Mosfellsbæ, óskum eftir breytingum á deiliskipulagi því sem nú gildir á svæðinu.  Óskum við eftir því að grein nr. 6, sem fjallar um stærð og gerð húsa, verði breytt skv. breyttum lögum í byggingarreglugerð nr. 115 eins og hér segir:  Stærð húsa sem samkvæmt núverandi deiliskipulagi er takmörkuð við 50 m² gólfflatarmál verði breytt og takmörkuð við 160 m² gólfflatarmál.  Í ljósi þess að jarðskjálftar á síðustu árum hafa farið illa með hús og stefnt fólki í hættu þar sem léttar undirstöður hafi verið notaðar, þá verði leyft að steypa undirbyggingu húsa.  Leyft verði að nýta undirbyggingu húsa (kjallara) sé húsið í halla eða þar sem húsið rís ekki hærra en ella vegna nýtingu kjallara.“  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. mars 2004.  Þar kom fram neikvæð afstaða nefndarinnar gagnvart erindinu. 

Með erindi, dags. 30. apríl 2004, var óskað eftir því að deiliskipulagi svæðisins yrði breytt.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 18. maí 2004 var erindið tekið fyrir og kom fram í fundargerð að nefndin væri neikvæð gagnvart erindinu og var ítrekuð sú afstaða nefndarinnar að ekki yrði heimilt að reisa hús sem væru stærri að heildargrunnfleti en 110 m² og geymslu sem væri að hámarki 20 m².  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. júlí 2004 ákvað nefndin að leggja til við bæjarstjórn að tillaga þessa efnis yrði samþykkt til kynningar í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þessi ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs 22. júlí s.á.  Var breytingartillaga deiliskipulagsins auglýst og kynnt.  Þegar frestur til athugasemda var liðinn fjallaði sveitarstjórn um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar.  Athugasemd vegna skipulagstillögunnar barst frá einum aðila þar sem þess var krafist að bæjarstjórn hafnaði henni, m.a. með vísan til þess að aukið byggingarmagn sumarhúsa myndi leiða til varanlegrar búsetu á svæði sem væri óhentugt til íbúðarbyggðar.  Með því væri verið að heimila nýtt íbúðarhverfi í bænum þar sem aðrir og slakari skilmálar giltu en almennt í íbúðarhverfum.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 21. september 2004 var fjallað um málið að nýju að loknum athugasemdafresti.  Í fundargerð var vísað til fram kominna athugasemda og umhverfisdeild falið að kanna hvort og í hvaða mæli heilsársbúseta væri á svæðinu ásamt aðkomu að því.  Var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar lögð fyrir bæjarstjórn 29. september 2004.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. október 2004 var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin féllst á þá athugasemd sem barst á kynningartíma að hætta á heilsársbúsetu á svæðinu aukist til muna með heimild til stækkunar á frístundahúsum sérstaklega með tilliti til legu svæðisins við Nesjavallaveg.  Nefndin leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði ekki samþykkt.“   Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 27. október 2004. 

Á árinu 2006 fjallaði skipulags- og byggingarnefnd að nýju um mögulegar breytingar á deiliskipulagi í Hamrabrekkum og var bókað á fundi nefndarinnar hinn 1. ágúst 2006 eftirfarandi:  „Nefndin getur fallist á að leyfileg stærð frístundahúsa á svæðinu verði aukin í 60 fermetra auk 10 fermetra geymslu.“ 

Með bréfi, dags. 16. apríl 2007, sendi kærandi eftirfarandi erindi til skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar:  „Á árinu 2004 var lagt inn erindi til skipulags- og byggingarnefndar, sem varðaði breytingar á deiliskipulagi við Hamrabrekkur.  Þessar breytingar fólu í sér að heimilt yrði að reisa stærri hús en upphaflegt skipulag svæðisins gerði ráð fyrir.  Ástæða umsóknarinnar var, að úr gildi voru fallin ákvæði um hámarksstærð frístundahúsa og viðtekin venja orðin í skipulagsákvörðunum sveitarfélaga, að heimila stærri byggingar.  Tillaga þessi var samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 22. júlí 2004 en síðan hafnað á 124. fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. október 2004.  Samkvæmt viðtölum við hr. Ásbjörn Þorvarðarson, byggingarfulltrúa, og með tilvísun í fundargerð 195. fundar skipulags- og byggingarnefndar virðast breytt viðhorf nú ríkjandi.  Í samræmi við það viljum við fara fram á það, að fyrri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði endurskoðuð og málið tekið fyrir á nýjan leik. Vísað er í áður innsend gögn.“  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar og var starfsmönnum nefndarinnar falið að skoða málið nánar.  Á fundi nefndarinnar 26. júní 2007 var erindi kæranda enn tekið fyrir og svohljóðandi bókun gerð:  „Nefndin ítrekar afstöðu sína frá júlí 2006, þar sem fallist var á að auka hámarksstærð húsanna í 60 + 10 m².“  Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 4. júlí 2007. 

Hefur kærandi kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður getur. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að í nágrenni svæðis þess er um ræði hafi bæjaryfirvöld veitt heimild til byggingar sambærilegra húsa og farið sé fram á í máli þessu og sé spurt hvort slíkt standist 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá velti kærandi fyrir sér hvort synjunin standist 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem hún leiði til rýrara verðgildis eignar hans en á öðrum svæðum þar sem veitt hafi verið heimild til byggingar húsa af þeirri stærð er kærandi hafi farið fram á.  Með þessu sé líklega verið að ganga á stjórnarskrárvarinn rétt kæranda.  Þá gerir kærandi athugasemdir við rökstuðning ákvarðana þeirra er teknar hafi verið í málinu allt frá upphafi þess, en hann hafi enginn verið og hafi skipulagsyfirvöld fyrirfram tekið ákvörðun um að synja beiðni kæranda án rökstuðnings. 

Þá gerir kærandi athugasemdir við að honum hafi ekki borist afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar þegar hann hafi skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er bent á að kærandi vísi í kæru sinni til þess að öðrum í næsta nágrenni hafi verið veitt heimild til byggingar sambærilegra húsa og hann hafi farið fram á og því hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga verið brotin.  Eigi kærandi við deiliskipulagsbreytingu vegna lóða í Hamrabrekku austan Miðdals, suð- austan Hafravatns, telji Mosfellsbær að það mál sé alls ekki sambærilegt máli kæranda.  Í tilvitnuðu máli hafi verið um að ræða mun stærri lóðir eða 1,0 – 1,9 ha að flatarmáli, þar sé í gildi mun yngra deiliskipulag og þar hafi ekki verið byggt í samræmi við eldra skipulag.  Í máli kæranda sé hins vegar um að ræða 0,29 – 0,58 ha lóðir, deiliskipulag sé í gildi frá 1985 ásamt því að byggt hafi verið á 7 – 8 lóðum í samræmi við það skipulag.  Vegna þess sé því hafnað að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár. 

Mosfellsbær hafni því einnig að ákvarðanir bæjarins hafi brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar eins og kærandi haldi fram.  Deiliskipulag sveitarstjórnar, sem takmarki ráðstöfun eignarréttinda, byggi á almennum hlutlægum sjónarmiðum þar sem stefnt sé að lögmætum markmiðum og fari því ekki í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Í því sambandi sé minnt á ákvæði 1. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga sem mæli fyrir um að sá sem telji að skipulagsaðgerðir leiði til verðrýrnunar fasteignar eigi rétt á bótum úr sveitarsjóði, að því gefnu að sýnt sé fram á tjón. 

Mosfellsbær telji að málsmeðferð á erindi kæranda hafi ekki brotið í bága við ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga.  Að sama skapi telji Mosfellsbær að málsmeðferðin hafi ekki farið gegn ákvæði 26. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að krafist sé ógildingar allra ákvarðana bæjarstjórnar er teknar hafi verið varðandi málaleitan hans allar götur frá árinu 2004.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun er kæran lýtur að.  Eina afgreiðslan sem var innan þessara tímamarka þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 23. júlí 2007 var afgreiðsla bæjarstjórnar frá 4. júlí 2007, en kærufrestur vegna annarra og eldri ákvarðana í málinu var þá löngu liðinn.  Kemur því ekki hér til skoðunar annað en afgreiðslan frá 4. júlí 2007.

Eins og að framan er rakið varðar hin kærða afgreiðsla beiðni um endurskoðun á fyrri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðarinnar í Hamrabrekkum.  Er deiliskipulagið frá árinu 1985 þar sem skipulagðar eru 30 lóðir, frá 0,29 upp í 0,58 ha að stærð og er heimilt að byggja 50 m² sumarhús á hverri lóð.  Beiðni kæranda laut á sínum tíma að því að gildandi deiliskipulagi svæðisins yrði breytt þannig að heimilað yrði að reisa stærri hús á svæðinu en skipulagið gerði ráð fyrir, án þess þó að sérstaklega væri getið um stærðir húsa, en vísað var í fyrri erindi vegna sama máls. 

Skipulags- og byggingarnefnd hafði áður haft erindi um stækkun húsa á svæðinu til umfjöllunar, m.a. á fundi árið 2006.  Var erindið þá afgreitt með þeim hætti að nefndin gæti fallist á að frístundahús á svæðinu yrðu 60 m² auk 10 m² geymslu.  Í hinni kærðu afgreiðslu 4. júlí 2007 var eingöngu vísað til afgreiðslunnar frá árinu 2006 án þess að erindinu væri sérstaklega synjað.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að framangreint verði ekki talið fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og beri því samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                 ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

38/2007 Bakkavör

Með

Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 38/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. apríl 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á garðhýsi, stækkun sólpalls með skjólgirðingu og uppsetningu heits potts á lóðinni nr. 8 við Bakkavör. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. maí 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Bakkavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. apríl 2007 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á garðhýsi, stækkun sólpalls með skjólgirðingu og uppsetningu heits potts á lóðinni nr. 8 við Bakkavör. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en þar sem framkvæmdum var að mestu lokið er málinu var skotið til nefndarinnar var ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kæranda. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness í desember 2006 var lögð fram umsókn frá lóðarhafa Bakkavarar 8 um leyfi til að breyta garðhýsi og stækka sólpall með skjólgirðingu ásamt því að koma fyrir innan lóðarinnar heitum potti.  Var samþykkt að grenndarkynna erindið.  Á fundi nefndarinnar hinn 21. mars 2007 var niðurstaða grenndarkynningarinnar rædd en ein athugasemd hafði borist, frá kæranda máls þessa.  Var málinu frestað og samþykkt m.a. að leita eftir umsögn forvarnardeildar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.  Á fundi nefndarinnar hinn 12. apríl 2007 var erindið á dagskrá að nýju og var eftirfarandi m.a. fært til bókar:  „Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir erindið enda verði þakklæðning á sorpgeymslu og garðhýsi óbrennanleg, án þakpappa ennfremur skulu sorpgeymsla og garðhýsi klædd að innan með klæðningu í fl. 1.  Ennfremur eru framkvæmdirnar skilyrtar því að þær hafi engin áhrif á eðlilega uppbyggingu og nýtingu lóðarinnar að Bakkavör 6.  Skilyrðunum skal þinglýst.“  Var samþykkt nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 25. apríl 2007. 

Hefur kærandi kært þessa samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndarinnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að gögn þau er lögð hafi verið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hafi í öllu verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við samþykktar teikningar af húsinu nr. 8 við Bakkavör.  Kærandi bendir á að framkvæmdir hafi hafist löngu áður en leyfi þar til bærra yfirvalda hafi fengist. 

Málsrök Seltjarnarness:  Af hálfu Seltjarnarness er vísað til þess að grenndarkynnt hafi verið umsókn um leyfi til breytingar garðhýsis, stækkunar sólpalls með skjólgirðingu og uppsetningar heits potts á lóðinni nr. 8 við Bakkavör.  Hafi kærandi komið á framfæri athugasemdum sínum og hafi skipulags- og mannvirkjanefnd talið að með því að verða við flestum athugasemdum kæranda er lotið hafi að grenndaráhrifum hafi náðst sátt í málinu. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi felur í sér heimild til að koma fyrir innan lóðarinnar nr. 8 við Bakkavör heitum potti og stækkun sólpalls með skjólgirðingu.  Þá felur leyfið í sér heimild til breytingar á garðhýsi á norðurhluta lóðarinnar sem er um 140-160 cm á hæð. 

Í gr. 1.6 í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir húsin að Bakkavör 2-44 á Seltjarnarnesi sem samþykktir voru í bæjarstjórn 21. janúar 1987 segir að ef óskað sé eftir því að setja upp skjólvegg og gróðurskála á lóðum sé hugsanlegt að heimila slíkt utan byggingarreits.  Skuli skjólveggir aldrei vera hærri en 1,8 m.  Þá segir ennfremur að skjólveggi og gróðurskála skuli sýna á byggingarnefndarteikningum og sé gerð þeirra háð samþykki byggingarnefndar. 

Telja verður að mannvirki þau er hér um ræðir rúmist innan fyrrgreindra skipulags- og byggingarskilmála og var byggingarleyfi fyrir þeim því ekki háð samþykki annarra lóðarhafa á svæðinu.  Stærð garðskýlisins, sem helst kæmi til álita að hefði áhrif á grenndarhagsmuni nágrannalóða, er í hóf stillt og stendur það í skjóli trjáa á mörkum lóðar kæranda og Bakkavarar 8.  Verður ekki séð að framkvæmdir þær sem heimilaðar voru með hinu kærða leyfi raski svo nokkru nemi grenndarhagsmunum kæranda. 

Ekki þykir eiga að leiða til ógildingar hins kærða leyfis þótt mannvirki þau er um ræðir kunni að einhverju leyti að hafa verið reist áður en leyfið var veitt enda voru þau ekki í ósamræmi við skipulag, sbr. 1. og 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ekki verður heldur fallist á að teikningum hafi verið svo áfátt að synja hefði átt umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi af þeim sökum. 

Með vísan til framanritaðs verður kröfu kæranda um ógildinu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. apríl 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn hinn 25. apríl s.á., um að veita byggingarleyfi fyrir garðhýsi, sólpalli og uppsetningu heits potts á lóðinni nr. 8 við Bakkavör. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                     ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

114/2008 Aspargrund

Með

Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 114/2008, kæra eigenda fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð fyrir 1. desember 2008 og að leggja til við bæjarstjórn að lagðar verði á dagsektir að fjárhæð kr. 5.000 á dag frá 1. desember 2008 verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann tíma. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2008, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kæra G og D, eigendur fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi, framangreinda ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008.  Krefjast kærendur þess að réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði frestað en jafnframt verður að skilja málatilbúnað þeirra svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Fundargerð byggingarnefndar frá 19. nóvember 2008 var samþykkt án umræðu á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. nóvember 2008. 

Málavextir:  Á árinu 2007 var gerð breyting á deiliskipulagi er tók til umræddrar lóðar.  Var með henni heimiluð bygging bílskúrs og viðbygging við hús á lóðinni.  Skúr sá sem kærendum var gert að fjarlægja með hinni kærðu ákvörðun mun þá hafa staðið á lóðinni á öðrum stað en nú, en hvorki var við skipulagsbreytinguna tekin afstaða til þess hvað um hann yrði né heldur annan skúr á skipulagssvæðinu, sem stendur við húsið nr. 11 við Aspargund. 

Kærendur sóttu um byggingarleyfi fyrir skúrnum en þeirri umsókn var hafnað á fundi byggingarnefndar 20. ágúst 2008.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 8. október 2008 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 29. september 2008, varðandi skúrinn.  Óskaði byggingarnefnd eftir því að byggingarfulltrúi sendi bréf til eigenda um að skúrinn yrði fjarlægður af lóðinni eigi síðar en hinn 8. nóvember 2008. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 19. nóvember 2008 var málið tekið fyrir að nýju og eftirfarandi bókað:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 29. september s.l. varðandi garðskúr á lóðinni nr. 9 við Aspargrund. 

Á fundi byggingarnefndar 8. október s.l. var lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 29. september s.l. varðandi skúr á lóðinni nr. 9 við Aspargrund.  Byggingarnefnd óskaði eftir því að byggingarfulltrúi sendi bréf til eigenda, um að skúr verði fjarlægður af lóðinni eigi síðar 8. nóvember 2008.  Skúrinn hefur ekki verið fjarlægður. 

Byggingarnefnd gefur eigendum frest til 1. desember 2008 til að fjarlægja skúrinn.  Verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir 1. desember 2008 leggur byggingarnefnd til við bæjarstjórn að samþykkt verði að leggja á dagsektir að upphæð kr. 5.000,- á eigendur skúrsins er taki gildi 1. desember 2008.“ 

Byggingarfulltrúi ritaði kærendum bréf, dags. 19. nóvember 2008, og tilkynnti þeim um ákvörðun nefndarinnar.  Í bréfinu segir hins vegar að byggingarnefnd gefi eigendum frest til 1. janúar 2009 en verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann dag leggi nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt verði að leggja á dagsektir, kr. 5.000 á dag, er taki gildi 1. desember 2008.  Með bréfi til kærenda, dags. 12. desember 2008, kom byggingarfulltrúi því á framfæri við kærendur að í niðurlagi bréfs hans frá 19. nóvember hafi verið kveðið á um að mögulegar dagsektir tækju gildi 1. desember 2008 en hafi átt að vera 1. janúar 2009.  Væri beðist velvirðingar á þessum mistökum. 

Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. nóvember 2008 voru teknar fyrir fundargerðir nefnda.  Þar á meðal var fundargerð byggingarnefndar frá 19. nóvember 2008 og var gerð um hana svofelld bókun:  „…c)  Byggingarnefndar 1298. fundar 19/11, ásamt fskj. nr. 21/2008.  Fundargerðin samþykkt án umræðu.“ 

Málsrök aðila:  Af hálfu kærenda er aðallega á því byggt að réttmæti hinnar kærðu ákvörðunar hljóti að ráðast af niðurstöðu kærumáls þeirra um byggingarleyfisumsóknina.  Af hálfu Kópavogsbæjar hefur ekki verið skilað greinargerð í málinu en bæjaryfirvöld hafa látið úrskurðarnefndinni í té umbeðin gögn. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar í máli þessu er tvíþætt.  Annars vegar er um að ræða ákvörðun um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð og hins vegar að leggja til við bæjarstjórn að dagsektum verði beitt. 

Hvað fyrri lið ákvörðunarinnar varðar verður að líta svo á að það hafi verið forsenda þess liðar að lokið væri með lögmætum hætti umfjöllun umsóknar kærenda um byggingarleyfi fyrir skúrnum.  Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag fellt úr gildi synjun byggingarnefndar á umsókn kærenda um byggingarleyfið og eru því brostnar forsendur fyrir hinni kærðu ákvörðun um að fjarlægja beri skúrinn af lóðinni.  Þykir rétt að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar um að skúrinn skuli fjarlægður meðan erindi kærenda um leyfi fyrir skúrnum hefur ekki hlotið lögmæta meðferð. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í málinu liggur aðeins fyrir tillaga byggingarnefndar til bæjarstjórnar um að beita dagsektum.  Hins vegar liggur ekki fyrir að bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í máli þessu og breytir engu þótt hún hafi samþykkt án umræðu fundargerð byggingarnefndar þar sem umrædd tillaga er gerð.  Var tillaga byggingarnefndar um dagsektir ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim þætti því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð þeirra að Aspargrund 9 fyrir 1. desember 2008.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um ógildingu á ákvörðun byggingarnefndar um að leggja til við bæjarstjórn að lagðar verði á dagsektir að upphæð kr. 5.000 á dag frá 1. desember 2008 verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann tíma. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

88/2008 Aspargrund

Með

Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2008, kæra eigenda fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. september 2008, er barst nefndinni 2. sama mánaðar, kæra G og D, eigendur fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð.  Framangreind ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 28. ágúst 2008. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag við Birkigrund sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 22. október 1996.  Samkvæmt greinargerð með deiliskipulaginu er um að ræða fjórar lóðir við nýja húsagötu við Birkigrund í Kópavogi.  Fékk gatan heitið Aspargrund og eru umræddar lóðir nr. 1, 3, 5 og 7 við þá götu.  Samkvæmt skipulaginu var heimilt að reisa á lóðunum einbýlishús á tveimur hæðum en efri hæð skyldi vera portbyggð.  Enginn byggingarreitur er sýndur á umræddum lóðum á skipulagsuppdrættinum en byggingarlína markar á hverri lóð hversu langt til suðurs og austurs bygging má ná.  Hámarks grunnflötur er 180 m² og heildarflatarmál bygginga á lóð 280 m². 

Hinn 27. ágúst 2007 var unnin tillaga að breytingu á umræddu skipulagi sem þá var talið taka einnig til lóðarinnar nr. 9-11 við Aspargrund, en umrædd lóð er á skipulagsuppdrættinum merkt nr. 1a, væntanlega við Birkigrund.  Var gerð breyting á skipulaginu á árinu 2007 er tók til umræddrar lóðar.  Var með henni heimiluð bygging bílskúrs og viðbygging við hús á lóðinni og voru byggingarreitir afmarkaðir fyrir umræddar byggingar en ekki tekin afstaða til þess hvað verða ætti um tvo skúra sem þá munu hafa staðið á umræddri lóð.

Skipulagsbreytingu þessa kærðu íbúar og eigendur fasteigna að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 til úrskurðarnefndarinnar, en nefndin hafnaði kröfu þeirra um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 19. júní 2008.  

Umsókn um byggingarleyfi fyrir skúr á lóð kærenda barst byggingaryfirvöldum hinn 13. febrúar 2008.  Samkvæmt teikningu sem fylgdi umsókninni er um að ræða garðhús, byggt úr timbri, 13,4 m² að flatarmáli.  Mun skúrinn hafa staðið á lóð kærenda í nokkur ár en upphaflega á öðrum stað en nú er og um er sótt. 

Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar 5. mars 2008 og þá vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á fundi skipulagsnefndar 15. apríl 2008 var samþykkt að senda erindið í kynningu til lóðarhafa að Aspargrund 1, 3, 5, og 7 og Birkigrund 1, 3, 5, og 9a.  Voru nágrönnum send kynningargögn, en ekki er ljóst hvort kynnt var umsókn um byggingarleyfi eða breyting á deiliskipulagi, eða hvort tveggja, en af málsgögnum verður helst ráðið að bæði hafi fylgt kynningarbréfinu byggingarnefndarteikningar að skúrnum og tillöguuppdráttur að breyttu deiliskipulagi þar sem sýndur er byggingarreitur fyrir skúrinn.  Stóð kynningin frá 16. maí til 16. júní 2008.  Lóðarhafar við Aspargrund 1, 3, 5 og 7 skiluðu inn sameiginlegum athugasemdum þar sem því var meðal annars haldið fram að skúrinn væri stærri en fram kæmi í umsókninni og gerðar voru athugasemdir við að ekki hefði verið getið um skúrinn þegar sótt hefði verið um stækkun íbúðarhúss og byggingu bílskúrs nokkru áður.  Einnig töldu nágrannar það í andstöðu við byggingarreglugerð að byggja fyrst hús, flytja það til eftir þörfum og sækja um leyfi mörgum árum síðar. 

Í framhaldi af grenndarkynningu gerði bæjarskipulag Kópavogs umsögn um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9 og var hún lögð fyrir fund skipulagsnefndar 1. júlí 2008. Niðurstaða umsagnarinnar er að:  „Á skilgreindum byggingarreitum skv. deiliskipulagi lóðarinnar er ekki gert ráð fyrir frekari byggingum en þegar hafa verið samþykktar. Komi fram ósk um það frá lóðarhöfum við Aspargrund að leyfi verði veitt til að staðsetja garðhús á lóðunum, sé fjallað um það sérstaklega og þá með samræmingu útfærslu allra lóða við Aspargrund.“  Á fundinum hafnaði nefndin erindinu fyrir sitt leyti á grundvelli fyrrnefndrar umsagnar.  Staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum hinn 10. júlí 2008. 

Málið var tekið fyrir að nýju í byggingarnefnd þann 16. júlí 2008.  Þar var byggingarfulltrúa falið að tilkynna kærendum að til skoðunar væri að hafna umsókn þeirra um byggingarleyfi á grundvelli afgreiðslu skipulagsnefndar og vegna innsendra athugasemda og gefa þeim kost á að gæta andmælaréttar. 

Andmæli kærenda bárust 18. ágúst 2008 og var málið tekið fyrir að nýju á fundi byggingarnefndar 20. ágúst 2008.  Þar var erindinu synjað og óskað eftir því að skúrinn yrði fluttur burt af lóðinni.  Kærendum var tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 6. ágúst 2008, en ráða má af fundargerð byggingarnefndar að ákvörðunin hafi ekki verið tekin fyrr en 20. ágúst 2008, eftir að andmæli kærenda höfðu borist.  Hafa bæjaryfirvöld upplýst að dagsetning bréfs þeirra til kærenda hafi verið misrituð og hafi bréfið ekki verið sent fyrr en eftir afgreiðslu byggingarnefndar hinn 20. ágúst 2008. 

Kærendur vildu ekki una framangreindri niðurstöðu og skutu því málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að eflaust hefði verið eðlilegt að fjalla um garðskúrinn um leið og fjallað var um byggingu bílskúrs og stækkun á íbúðarhúsnæði.  Skúrinn hafi staðið á lóðinni síðastliðin átta ár og hafi verið ómetanleg geymsla fyrir eigendur Aspargrundar 9.  Garðurinn að Aspargrund 9 sé fallegur og í mikilli rækt og séu garðáhöld og garðhúsgögn geymd í skúrnum.  Ef skúrinn væri ekki fyrir hendi þyrftu kærendur að nota bílskúrinn sem geymslu og yrði þá síður hægt að geyma þar bíl, en það væri nágrönnum til óhagræðis. 

Íbúar að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 virðist vera ósáttir við skilgreindan byggingarreit á lóð Aspargrundar 9.  Þeir hafi ekki eins stórar lóðir og kærendur og þar af leiðandi ekki sömu tækifæri til að gera breytingar.  Nægt lóðarrými sé fyrir garðskúrinn að Aspargrund 9.  Hann sé færanlegur og ef staðsetningin fari fyrir brjóstið á nágrönnum sé auðvelt að færa hann innar í lóðina. 

Á deiliskipulagsuppdrætti fyrir Aspargrund 1, 3, 5 og 7 séu skilgreind ytri mörk mögulegrar stækkunar kringum hús út frá stærð lóða.  Það þurfi því ekki grenndarkynningu ef stækkun sé innan þessara marka, sbr. nýlegar framkvæmdir að Aspargrund 7.  Hins vegar virðist gilda aðrar reglur fyrir eigendur Aspargrundar 9 og hljóti það að vera brot á jafnræðisreglu. 

Varla geti skipt máli hvort skúrinn sé einum fermetra stærri eða minni.  Byggingarfulltrúi hafi mælt hann og því liggi fyrir réttar upplýsingar um stærð hans.  Skúrinn varpi hvorki skugga á lóðir nágranna né skerði birtu eða útsýni.  Vegna girðingar og gróðurs á lóð sé skúrinn lítt áberandi. 

Því sé hafnað að ítrekað hafi verið óskað eftir því að skúrinn yrði fjarlægður.  Engin rök hafi komið fram um að aðrir íbúar við götuna verði fyrir einhverjum skaða af umræddum skúr. 

Í ljósi framanritaðs beri að ógilda hina kærðu ákvörðun. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær telur að rétt hafi verið að hafna umsókn kærenda og byggir það helst á því að staða garðskúrs á lóðinni sé í andstöðu við gildandi skipulag og að breyting á skipulagi til þess að heimila stöðu skúrsins væri í óþökk nágranna og í ósamræmi við skipulag lóða í nágrenninu.  Telja verði að skúr sem þessi þurfi byggingarleyfi og þurfi að vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda séu byggingar sem þessar ekki sérstaklega undanskyldar í lögunum. 

Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á ofangreindri umsókn um byggingarleyfi bæði formlega og efnislega rétta og geri þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni framkominni kæru og staðfesti ákvörðun bæjarins um synjun byggingarleyfis. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð.  Var umsókninni vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu á fundi byggingarnefndar hinn 5. mars 2008 og verður að ætla að sú ákvörðun hafi stuðst við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Bókanir skipulagsnefndar um erindið hafa yfirskriftina „Aspargrund 9, breytt deiliskipulag“.  Ákvað nefndin að senda erindið í grenndarkynningu og virðist m.a. hafa verið kynntur uppdráttur að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 9-11 við Aspargrund þar sem sýndur var byggingarreitur fyrir umræddan skúr.  Hafnaði skipulagsnefnd síðan erindinu með vísan til umsagnar bæjarskipulags.  Virðist málinu eftir það hafa verið vísað aftur til byggingarnefndar. 

Byggingarnefnd tilkynnti kærendum að til skoðunar væri að hafna umsókn þeirra á grundvelli afgreiðslu skipulagsnefndar og vegna innsendra athugasemda og var kærendum gefinn kostur á að neyta andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Synjaði nefndin síðan umsókn kærenda á fundi sínum hinn 20. ágúst 2008, en þá höfðu henni borist andmæli kærenda. 

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er byggingarnefnd skylt að rökstyðja afgreiðslur á erindum sem henni berast.  Leiðir af eðli máls að rökstuðningur þarf jafnframt að vera haldbær.  Í máli þessu færði byggingarnefnd ekki fram rök fyrir niðurstöðu sinni er hún tók hina kærðu ákvörðun og engin afstaða var heldur tekin til andmæla kærenda.  Hins vegar verður ráðið af fyrri tilkynningu nefndarinnar til kærenda að synjun hennar hafi verið byggð á afgreiðslu skipulagsnefndar og innsendum athugasemdum og verður að telja að með því hafi nefndin teflt fram rökum sínum í málinu. 

Afgreiðsla skipulagsnefndar, sem byggingarnefnd vísar til, var byggð á umsögn bæjarskipulags um innsendar athugasemdir.  Umræddri umsögn er hins vegar að því leyti áfátt að ekki fær staðist að hafna tillögu um nýjan byggingarreit fyrir skúr á lóð með þeim rökum að á skilgreindum byggingarreitum samkvæmt deiliskipulagi lóðarinnar sé ekki gert ráð fyrir frekari byggingum en þegar séu samþykktar.  Leiða slík rök til þess að almennt sé ekki hægt að breyta deiliskipulagi að þessu leyti þar sem byggingarreitir hafi verið afmarkaðir.  Á sú niðurstaða sér enga stoð í lögum.  Í umsögn bæjarskipulags er jafnframt tekið fram að komi fram ósk um það frá lóðarhöfum við Aspargrund að leyfi verði veitt fyrir garðhúsum á lóðum þurfi að fjalla um það sérstaklega og þá með samræmdri útfærslu fyrir allar lóðir við Aspargrund.  Við þessa staðhæfingu er það að athuga að vandséð er að ekki hafi verið unnt að taka afstöðu til erindis kærenda án þess að breytt skipulag tæki jafnframt til annarra lóða, enda eru aðstæður ólíkar, m.a. vegna þess að á lóðum nr. 1, 3, 5 og 7 við Aspargrund eru byggingarreitir opnir og byggingarheimildir skipulags ekki að fullu nýttar, svo og vegna þess að umtalverður munur er á nýtingarhlutfalli lóða á svæðinu.  Loks er þess að gæta að ekki var tekin afstaða til skúra sem fyrir voru á lóðinni nr. 9-11 við Aspargrund þegar unnið var deiliskipulag fyrir lóðina, svo sem rétt hefði verið, sbr. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hefði bæjaryfirvöldum verið rétt að taka mið af því við afgreiðslu á erindi kærenda. 

Auk þess að vísa til afgreiðslu skipulagsnefndar vísar byggingarnefnd einnig til innsendra athugasemda.  Um þær er það að segja að hvergi kemur fram af hálfu nágranna með hvaða hætti umræddur skúr skerði hagmuni þeirra.  Er ljóst að skúrinn varpar hvorki skugga á lóðir nágranna né skerðir útsýni enda lúta athugasemdir þeirra  fyrst og fremst að málsmeðferð.  Verður ekki séð að athugasemdirnar hafi átt að ráða úrslitum um niðurstöðu málsins enda var byggingarnefnd ekki bundin af þeim. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun byggingarnefndar hafi ekki verið studd haldbærum rökum og að því hafi ekki verið fullnægt skilyrði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga við afgreiðslu málsins.  Beri því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð nr. 9. við Aspargrund. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

37/2009 Undirhlíð

Með

Ár 2009, þriðjudaginn, 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 37/2009, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2009, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. 30 tilgreindra íbúa við Miðholt, Stafholt, Langholt og Stórholt á Akureyri, þá ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda. 

Málavextir:  Á fundi umhverfisráðs hinn 8. mars 2006 var lögð fram hugmynd að byggingu 60 íbúða fyrir eldra fólk í fjölbýlishúsum á svæði austan Langholts á Akureyri.  Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að skoða málið frekar.  Á fundi skipulagsnefndar 19. janúar 2007 var lögð fram umsókn um leyfi til að deiliskipuleggja svæði sem afmarkast af Langholti í vestri, Krossanesbraut í austri, Undirhlíð í suðri og Miðholti í norðri.  Svæði þetta hefur fram til þessa verið óbyggt en með Aðalskipulagi Aukureyrar 2005-2018 var því breytt úr óbyggðu svæði í íbúðasvæði.  Á fundinum heimilaði nefndin umsækjanda að gera tillögu að deiliskipulagi á grundvelli þeirra gagna sem viðkomandi lagði fram.  Var deiliskipulagstillaga hans kynnt á fundi nefndarinnar 22. ágúst 2007.  Samþykkti nefndin 12. mars 2008 að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Gerði tillagan ráð fyrir fimm einbýlishúsum á einni hæð með aðkomu frá Miðholti og tveimur sjö hæða fjölbýlishúsum, auk bílakjallara, með aðkomu frá Undirhlíð.  Var tillagan samþykkt í bæjarstjórn 18. mars 2008.  Tillagan auglýst til kynningar frá 27. mars til 8. maí 2008 og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. 

Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2008 var gerð sú breyting á auglýstri tillögu að íbúðum var fækkað úr 60 í 57.  Á fundinum var jafnframt fjallað um framkomnar athugasemdir.  Að öðru leyti var tillagan samþykkt.  Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu skipulagsnefndar 1. júlí 2008.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. ágúst 2008, var óskað lagfæringa og skýringa á nokkrum atriðum.  Þannig þyrfti að skýra nánar í greinargerð ábyrgð lóðarhafa á hugsanlegum breytingum á vatnsborði, óskað var eftir nánari skýringum við skuggavarpsmyndir og staðsetningar byggingarreits og bílakjallara.  Á fundi skipulagsnefndar 13. ágúst 2008 voru bókuð svör við athugasemdum og fyrirspurnum Skipulagsstofnunar.  Afgreiðsla skipulagsnefndar og breytingar á greinargerð var samþykkt af meirihluta bæjarráðs 28. ágúst 2008.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. september 2008, var tilkynnt að ekki væri gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um deiliskipulagssamþykktina í B-deild Stjórnartíðinda.  Birtist auglýsing þar að lútandi 23. september 2008.  Kærðu kærendur framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag hafnaði kröfu um ógildingu deiliskipulagsins. 

Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 29. apríl 2009 var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3 og var erindið samþykkt.  Á fundi skipulagsnefndar 13. maí s.á. var fundargerð skipulagsstjóra lögð fram og hún samþykkt og lagt til við bæjarstjórn að hún yrði staðfest.  Á fundi bæjarstjórnar 19. sama mánaðar var afgreiðsla skipulagsstjóra samþykkt. 

Hafa kærendur skotið greindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök aðila:  Til stuðnings kröfu sinni um ógildingu vísa kærendur til þess að hin kærða ákvörðun byggi á deiliskipulagi sem þeir telji ekki gilt að lögum og hafi þeir kært  til úrskurðarnefndarinnar.  Sé vísað til þeirra sjónarmiða er komi fram í því kærumáli. 

Af hálfu Akureyrarbæjar er bent á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í gildu deiliskipulagi sem hvorki sé haldið form- né efnisgöllum. 

Byggingarleyfishafa var veitt færi á að tjá sig í málinu en engin andsvör hafa borist frá honum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3.  Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar 19. maí 2009.  Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt bæjarstjórnar frá 1. júlí 2008 um deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var hafnað kröfu kærenda um ógildingu þess deiliskipulags. 

Af þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina verður ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi eigi sér stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá verður heldur ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið neinum þeim annmörkum öðrum er leiða ættu til ógildingar og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu þess. 

Það athugist að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er það á valdsviði byggingarnefnda að fjalla um byggingarleyfisumsóknir, en með staðfestri samþykkt um embættisafgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúans á Akureyri hefur honum verið falin afgreiðsla þeirra mála.  Hið kærða byggingarleyfi er samþykkt af skipulagsstjóra á afgreiðslufundi hans hinn 29. apríl 2009 og hefur fundargerð þess fundar yfirskriftina „afgreiðslur skipulagsstjóra“.  Er þessi framsetning ónákvæm og til þess fallin að valda misskilningi, en þegar litið er til þess að skipulagsstjóri gegnir jafnframt embætti skipulags- og byggingarfulltrúa þykir þessi ágalli ekki eiga að hafa áhrif á gildi leyfisins. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Undirhlíð. 

___________________________
       Hjalti Steinþórsson

_____________________________          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

2/2008 Gvendargeisli

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2008, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkurborgar varðandi fjölgun bílastæða við Gvendargeisla 106. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. janúar 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir S, Gvendargeisla 106, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs frá 19. desember 2007 varðandi fjölgun bílastæða við Gvendargeisla 106.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 17. júlí 2007 var lögð fram fyrirspurn nokkurra íbúa við Gvendargeisla, þ.á m. kæranda, um fjölgun bílastæða inni á lóðum við götuna.  Var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Lögð fram fyrirspurn, […] dags. 11. júlí 2007 ásamt undirskriftarlista 8 íbúa, dags. 6. júlí 2007, um fjölgun bílastæða inni á lóðum við Gvendargeisla 88-116.  Lögð fram umsögn Framkvæmdasviðs, dags. 2. ágúst 2007.  Neikvætt með vísan til umsagnar Framkvæmdasviðs.“ 

Með bréfi kæranda til skipulagsráðs, dags. 1. október 2007, fór kærandi m.a. fram á leyfi til þess að nýta hluta lóðar sinnar sem bílastæði.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 5. október 2007 var eftirfarandi bókað:  „Gvendargeisli 106, bílastæði, málskot.  Lagt fram bréf […], dags. 1. október 2007, varðandi bílastæði á lóð nr. 106 við Gvendargeisla.  Farið er fram á þrjú bílastæði á lóðinni í stað tveggja.  Sambærilegu erindi fyrir lóðir nr. 88-116 við Gvendargeisla var synjað á afgreiðslufundi skipulagsstjóra þann 17. ágúst 2007.  Vísað til skipulagsráðs.“  Á fundi skipulagsráðs 19. desember 2007 var eftirfarandi bókað:  „Neikvætt með vísan til fyrri afgreiðslu og eldri umfjallana.“  Var fundargerð skipulagsráðs staðfest á fundi borgarráðs 10. janúar 2008. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að í erindi hans til skipulagsyfirvalda hafi falist beiðni um að nýta hluta lóðar hans að Gvendargeisla 106 sem bílastæði og að fjarlægðir verði fimm metrar af fimmtán metra langri merkingu sem sýni bílastæði úti í götu fyrir framan lóð hans.  Bendir kærandi á að víðs vegar í hverfinu séu fleiri en tvö bílastæði á lóðum án þess að við því hafi verið amast af hálfu borgaryfirvalda. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar kærumálsins þar sem skipulagsráð hafi aðeins afgreitt fyrirspurn frá kæranda og því liggi ekki fyrir í málinu lokaákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. 

Niðurstaða:  Erindi nokkurra íbúa við Gvendargeisla, dags. 6. júlí 2007, til skipulagsráðs var meðhöndlað af hálfu ráðsins sem fyrirspurn um fjölgun bílastæða inni á lóðum.  Þegar erindi kæranda sama efnis kom til umfjöllunar í skipulagsráði var tekið fram í bókun ráðsins að um málskot væri að ræða og ber bókunin það með sér að eingöngu hafi verið til umfjöllunar fyrirspurn um hvort tiltekin framkvæmd yrði heimiluð. 

Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson