Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2009 Vefmyndavél

Ár 2011, fimmtudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Garðs frá 14. október 2009 um að stöðva framkvæmdir við uppsetningu á mastri við Rósaselstorg í Garði og beiðni um úrskurð um leyfisskyldu greindrar framkvæmdar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Vegagerðin þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Garðs frá 14. október 2009 að stöðva framkvæmdir við uppsetningu á mastri við Rósaselstorg í Garði og fer fram á að skorið verði úr um leyfisskyldu greindrar framkvæmdar. 

Málsatvik og rök:  Í októbermánuði 2009 voru framkvæmdir Vegagerðarinnar við uppsetningu mannvirkis fyrir vefmyndavél og fjarskiptabúnað henni tengdri stöðvaðar að kröfu skipulags- og byggingaryfirvalda í Sveitarfélaginu Garði.   Var kæranda tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda með bréfi, dags. 14. október 2009, en skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins hafði fjallað um málið á fundi deginum áður.  Er ágreiningur milli greindra aðila um hvort nefnt mannvirki hafi verið leyfisskylt samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Framkvæmdaaðili vísar til þess að umdeild framkvæmd sé ekki leyfisskyld að lögum.  Um sé að ræða uppsetningu á vefmyndavél til notkunar við eftirlit með færð og ástandi vegar en slíkar vélar hafi verið settar upp víða um land án þess að sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi vegna þeirra.  Úrskurðarnefndin hafi áður í úrskurði komist að þeirri niðurstöðu að uppsetning hraðamyndavéla væri ekki byggingarleyfisskyld enda félli sú framkvæmd undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sem venjulegur búnaður tengdur rekstri og notkun vega.  Ekki hafi komið til álita að uppsetning myndavélanna teldist framkvæmdaleyfisskyld.  Ekki sé fallist á þau rök Sveitarfélagsins Garðs fyrir hinni kærðu ákvörðun um stöðvun framkvæmda að framkvæmdaleyfi þurfi fyrir þeim mannvirkjum sem ekki séu byggingarleyfisskyld.  Ákvæði 27. gr. framangreindra laga, er fjalli um framkvæmdaleyfi, taki til framkvæmda sem vegna eðlis eða umfangs hafi veruleg áhrif á umhverfi, svo sem framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, en því sé ekki til að dreifa í umræddu tilviki. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Garðs er á það bent að í máli þessu sé um að ræða uppsetningu masturs fyrir vefmyndavél, fjarskiptabúnað vegna hennar og hugsanlega veðurstöð o.fl., sem framkvæmdaaðili telji nauðsynlegt að staðsetja í slíkum möstrum.  Hvorki liggi fyrir með ótvíræðum hætti hvaða búnað verði um að ræða né um hæð masturs og umfang þess.  Af fyrirliggjandi mynd af sambærilegu mastri megi hins vegar ráða að hæð þess verði um 12 m, að umfang þess verði umtalsvert og að það muni hafa veruleg sjónræn áhrif og takmarka landnotkun á svæðinu.  Mastrið sé ekki hefðbundið umferðarmannvirki og sé á engan hátt sambærilegt uppsetningu hraðamyndavélar sem um sé fjallað í úrskurði þeim sem framkvæmdaaðili vísi til.  Fyrirhuguð sé ýmis konar þjónusta á svæðinu þar sem aðkoma að sveitarfélaginu liggi og sé mikilvægt að ásýnd þess sé ekki raskað.  Hafa verði og í huga að um svæðið gildi margþætt skilyrði laga vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll. 

Verði ekki talið að umdeilt mastur sé framkvæmdaleyfisskylt hljóti það að vera háð byggingarleyfi samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í 1. mgr. ákvæðisins sé tekið fram að öll mannvirki, ofan jarðar og neðan, séu byggingarleyfisskyld.  Undanþegin þeirri leyfisskyldu séu tiltekin mannvirki sem talin séu upp í 2. mgr. en þar sé þó tekið fram að byggingarleyfi þurfi fyrir fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.  Því sé ótvírætt að umdeilt mannvirki, sem sé fjarskiptamastur sem virðist ná út fyrir umráðasvæði veghaldara, sé háð byggingarleyfi og þurfi að eiga stoð í skipulagi.  Öndverð niðurstaða leiði til þess að unnt verði að reisa stór og umfangsmikil mannvirki við þjóðvegi landsins með tilheyrandi umhverfisáhrifum án aðkomu íbúa eða viðkomandi sveitarfélags.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um leyfisskyldu mannvirkis sem fyrirhugað er að reisa við veg til að hafa þar vefmyndavél og fjarskiptabúnað henni tengdri.  Ekki liggja fyrir hönnunargögn varðandi mannvirkið en hins vegar hefur kærandi lagt fram mynd af sambærilegu mannvirki sem sett hafi verið upp á öðrum stað. 

Í 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um framkvæmdaleyfisskyldu meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Þar er og tekið fram að ekki þurfi slíkt leyfi fyrir framkvæmdum sem háðar séu byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.  Orðalag ákvæðisins ber með sér að framkvæmdaleyfi þurfi að koma til þegar ásýnd lands er breytt, svo sem með jarðvegsröskun eða námuvinnslu, en mannvirkjagerð, þótt áhrif geti haft á umhverfið, falli undir lög um mannvirki.  Kemur því aðeins til álita hvort umdeilt mannvirki sé háð byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. 

Í 2. mgr. 2. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, er tóku gildi 1. janúar 2011, er tekið fram að lögin taki m.a. ekki til vega eða annarra samgöngumannvirkja, að undanskyldum umferðar- og göngubrúm í þéttbýli, og er hér um að ræða breytingu frá fyrri byggingarlöggjöf.  Í greinargerð með frumvarpi laganna kemur fram að rétt þyki að þau mannvirki sem 2. mgr. 2. gr. laganna taki til falli ekki undir lögin, þar sem mannvirkin og eftirlit með þeim falli undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög.  Samkvæmt 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 er hugtakið vegur skilgreint sem:  „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“  Samkvæmt þessum lagaákvæðum taka lög um mannvirki ekki til mannvirkja við vegi sem þjóna viðhaldi og notkun hans, svo sem umferðarskilta, ljósastaura eða annars eðlilegs og nauðsynlegs búnaðar sem stuðlar að auknu umferðaröryggi og tryggri notkun vega. 

Vefmyndavélar eru settar upp við vegi í því skyni að auðvelda veghaldara eftirlit með færð og ástandi viðkomandi vegar.  Slíkur búnaður mun hafa verið settur upp á nokkrum stöðum við vegakerfi landsins í þessu skyni og verður að telja að búnaðurinn falli undir fyrrgreinda skilgreiningu veghugtaksins í 3. gr. vegalaga enda umrætt mannvirki til þess ætlað að þjóna þeim tilgangi sem þar er tíundaður. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeilt mannvirki sé ekki háð framkvæmdaleyfi að skipulagslögum og að lög um mannvirki taki ekki til uppsetningar umræddrar vefmyndavélar og fjarskiptabúnaðar henni tengdri innan umráðasvæðis veghaldara.  Ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda frá 14. október 2009 er bráðabirgðaákvörðun sem bindur ekki enda á mál og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Garðs frá 14. október 2009 um að stöðva framkvæmdir við uppsetningu á mastri við Rósaselstorg í Garði er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Umdeilt mannvirki er ekki háð framkvæmdaleyfi samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010 taka ekki til uppsetningar þess á umráðasvæði veghaldara. 

___________________________
Ómar Stefánsson

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson