Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2010 Hvammsgerði

Ár 2011, fimmtudaginn 27. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 21/2010, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík  frá 9. mars 2010 um leyfi til að byggja svalaskýli úr stálstyrktum prófílum með tvöföldu einangrunargleri og einangrandi plötum á milli svala á fyrstu og annarri hæð íbúðarhússins að Hvammsgerði 8 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. apríl 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir E f.h. Þ, Hvammsgerði 8 Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2010 um leyfi til að byggja svalaskýli úr stálstyrktum prófílum með tvöföldu einangrunargleri og einangrandi plötum á milli svala á fyrstu og annarri hæð íbúðarhússins að Hvammsgerði 8.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 11. mars 2010.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Í húsinu að Hvammsgerði 8 eru skráðir þrír eignarhlutar og gildir á svæðinu deiliskipulag frá árinu 2005.  Þar er nýtingarhlutfall lóða við Hvammsgerði ákvarðað allt að 0,5. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja svalaskýli úr stálstyrktum prófílum með tvöföldu einangrunargleri og einangrandi plötum á milli svala á fyrstu og annarri hæð íbúðarhússins að Hvammsgerði 8.  Umsókninni fylgdi samþykki meðeigenda og næstu nágranna frá desember 2009 og janúar 2010.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra Reykjavíkur. 

Málið var síðan á dagskrá á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 12. febrúar s.á. þar sem ákveðið var að vísa því til umsagnar verkefnisstjóra svæðisins.  Hinn 5. mars 2010 var málið afgreitt af skipulagsfulltrúa með eftirfarandi hætti:  „Neikvætt.  Samræmist ekki deiliskipulagi.“  Umsókninni var síðan synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. mars 2010 með svofelldri bókun:  „Synjað. Með vísan til útskriftar úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsstjóra frá 5. mars 2010 sbr. bréf dags. 8. mars og með vísan til gr. 102.1 í byggingarreglugerð er ekki um svalaskýli að ræða, heldur svalalokun.“ 

Undi kærandi ekki greindum málalyktum og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Í kæru er m.a. á því byggt að misskilnings hljóti að gæta í afgreiðslu byggingarfulltrúa á málinu, en þar segi að ekki sé um svalaskýli að ræða heldur svalalokun.  Í byggingarreglugerð sé ekkert sem heiti svalalokun. 

Til sé skráningartafla sem sýni stærðir hússins.  Einnig sé til deiliskipulag sem sé gert eftir að sú skráningartafla hafi verið send inn.  Samkvæmt deiliskipulagi sé byggingar-reiturinn fullnýttur, en þar sem nýtingarhlutfall breytist ekkert við að sett sé svalaskýli á svalir með B-lokun fari það ekki gegn skipulaginu. 

Svalaskýlið sem sótt hafi verið um sé ekkert frábrugðið öðrum svalaskýlum sem samþykkt hafi verið í gegnum árin og fari hin kærða ákvörðun því gegn áralangri venju um afgreiðslu sambærilegra mála.  Áréttað sé að umrætt svalaskýli uppfylli allar kröfur gr. 102 í byggingarreglugerð. 

Efnisatriði fyrirliggjandi umsagnar skipulagsstjóra í málinu eigi ekki við rök að styðjast.  Bent sé á að forvarnardeild slökkviliðs hafi samþykkt svalaskýlið fyrir sitt leyti og að milli húss kæranda og þess húss sem næst sé umræddum svölum sé innkeyrsla í bílskúr og tröppur upp á aðra hæð.  Umsögnin sé í raun einungis reist á því að umsagnaraðila hugnist ekki fyrirhugað svalaskýli. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld gera þá kröfu að ógildingarkröfu kæranda í máli þessu verði hafnað. 

Vísað er til þess að í fyrirliggjandi umsögn skipulagsfulltrúa í málinu komi fram að með umdeildri svalalokun sé húsið að Hvammsgerði 8 stækkað um 11,3 m2 og fari nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,67 í 0,69.  Með því sé farið út fyrir heimilað nýtingarhlutfall í gildandi deiliskipulagi.

Ekki sé fallist á það með kæranda að um svalaskýli sé að ræða en ekki svalalokun.  Þrátt fyrir að byggingarreglugerð nefni ekki svalalokanir berum orðum sé ljóst að verið sé að loka umræddum svölum en á uppdrætti sé gert ráð fyrir einangrandi lokun rýmis milli svala fyrstu og annarrar hæðar með tveimur gluggum og hurð. 

Í umsögn skipulagstjóra komi og fram að fjarlægð húss frá lóðarmörkum við suðurhlið sé ekki sýnd á teikningum, en hún sé rétt rúmir 3 m.  Þar að auki skagi svalirnar 0,8 m í suður frá húsinu þannig að glerveggur svalalokunarinnar yrði þá rúma 2 m frá lóðarmörkum.  Hæð yfir landi yrði um og yfir 3 m.  Hætt sé við að nánd húsanna yrði nokkuð yfirþyrmandi og álitamál hvort það stæðist byggingarreglugerð varðandi fjarlægð glerveggja frá lóðarmörkum.  Ekki verði heldur séð að svalalokunin fari húsinu vel eða sé réttmæt í umhverfinu. 

Niðurstaða:  Hin kærða synjun á byggingarleyfisumsókn kæranda er byggð á útskrift úr gerðarbók embættisafgreiðslufundar skipulagstjóra frá 5. mars 2010 þar sem lagst er gegn lokun svala að Hvammsgerði 8 með þeim rökum að framkvæmdin samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi.  Jafnframt var vísað til gr. 102.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. 

Í umsögn verkefnisstjóra sem skipulagsfulltrúi aflaði kemur fram það álit að nýtingarhlutfall lóðar myndi hækka við breytinguna og verða umfram heimildir gildandi deiliskipulags.  Jafnframt var á því byggt að breytingin yrði nokkuð yfirþyrmandi vegna nálægðar næsta húss og álitamál hvort farið væri að ákvæðum byggingarreglugerðar um fjarlægð glerveggja frá lóðarmörkum. 

Í 9. mgr. 2. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var nýtingarhlutfall skilgreint sem hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits.  Hugtakið er nánar skilgreint í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Þar er nýtingarhlutfall skýrt sem hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga og byggingarhluta í lokunarflokki A og B samkvæmt ÍST 50:1998 á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits, sbr. gr. 4.27 svo sem henni var breytt með reglugerðarbreytingu nr. 425/2002. 

Svalir þær sem hér um ræðir falla undir lokunarflokk B enda mynda svalir annarrar hæðar lokun svalanna að ofan.  Við lokun hliða svalanna fellur innanmál þeirra umdir lokunarflokk A en brúttóflatarmál hússins helst óbreytt þar sem flatarmál byggingarhluta í lokunarflokki B telst til brúttóflatarmáls byggingar.  Umdeild lokun svalanna breytir því ekki nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Hvammsgerði 8.  Auk þess breytast ekki fjarlægðir milli húsa og ekkert liggur fyrir um að farið sé gegn ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um brunavarnir.  Svalskýlið er opnanlegt og aðskilið frá íbúð og samræmist þannig meginskilyrði gr. 102 í nefndri reglugerð. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið stenst ekki sú forsenda hinnar kærðu ákvörðunar að umsótt breyting fari í bága við gildandi deiliskipulag hvað nýtingarhlutfall varðar og hafa borgaryfirvöld ekki sýnt fram á að aðrar ástæður eigi að leiða til umdeildrar niðurstöðu.  Verður hin kærða synjun byggingarfulltrúa því felld úr gildi sökum þessa annmarka á rökstuðningi ákvörðunarinnar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2010, er borgarráð staðfesti hinn 11. sama mánaðar, um leyfi til að byggja svalaskýli úr stálstyrktum prófílum með tvöföldu einangrunargleri og einangrandi plötum á milli svala á fyrstu og annarri hæð íbúðarhússins að Hvammsgerði 8 í Reykjavík. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson