Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2009 Rafveitueftirlitsgjald

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 83/2009, kæra Landsvirkjunar frá 10. nóvember 2009 á ákvörðun Neytendastofu og Fjársýslu ríkisins um að hafna því að fella niður dráttarvexti vegna meintra vanskila á rafveitueftirlitsgjaldi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2009, er barst nefndinni 4. sama mánaðar, framsendir fjármálaráðuneytið nefndinni erindi Þórðar Bogasonar hrl., f.h. Landsvirkjunar, dags. 10. nóvember 2009, þar sem kærð er ákvörðun Neytendastofu og Fjársýslu ríkisins um að hafna því að fella niður dráttarvexti vegna meintra vanskila á rafveitueftirlitsgjaldi vegna áranna 2004 og 2005. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verið vísað á ný til Fjársýslu ríkisins til lögmætrar meðferðar.

Málavextir og rök:  Fjármálaráðuneytið vísar í framangreindu bréfi til úrskurðarnefndarinnar til reglugerðar nr. 678/2009 og bendir á að í 9. gr. hennar sé kveðið á um að bera megi ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn rafveitueftirlitsgjalds undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Málsástæður og lagarök kæranda koma fram í stjórnsýslukæru, dags. 10. nóvember 2009.  Byggir kærandi á því að fyrir liggi staðfesting á því að hann hafi verið skuldlaus hvað umrædd gjöld varði hinn 13. ágúst 2008 og því geti ekki verið um að ræða neina ógreidda dráttarvexti frá fyrri tíma.  Þá hafi Neytendastofa sýnt af sér slíkt tómlæti að hið opinbera hafi fyrirgert rétti sínum til að hafa kröfuna uppi, auk þess sem meint krafa sé fyrnd.

Niðurstaða:  Með lögum nr. 29/2009 voru gerðar umtalsverðar breytingar á lögum nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, og var Brunamálastofnun m.a. falið eftirlit samkvæmt lögunum með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum.  Segir nú í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 146/1996 að stjórnvaldsákvarðanir Brunamálastofnunar sem teknar séu á grundvelli laganna séu kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem starfi á grundvelli 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, að undanskildum ákvörðunum um dagsektir.

Að orðnum þeim lagabreytingum sem nú var lýst setti umhverfisráðherra reglugerð nr. 678/2009 með stoð í lögum nr. 146/1996 m.s.br.  Segir þar í 2. mgr. gr. 9.4 að ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn samkvæmt greininni megi bera undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, að því undanskildu að ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn vegna þeirra raffanga er heyri undir markaðseftirlit Neytendastofu megi bera undir áfrýjunarnefnd neytendamála.

Þótt talið væri að tilvitnað reglugerðarákvæði ætti sér fullnægjandi stoð í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 146/1996 m.s.br. er augljóst að álagning þeirra gjalda sem liggja ættu að baki hinni umdeildu vaxtakröfu getur ekki átt rót að rekja til neinnar stjórnvaldsákvörðunar Brunamálastofnunar sem borin verði undir úrskurðarnefndina.  Jafnframt þykir einsýnt að hvað sem líður stjórnskipulegu gildi ákvæðis 2. mgr. gr. 9.4 í reglugerð nr. 678/2009 yrði því ekki beitt afturvirkt um ágreining, sem á rót að rekja til álagningar gjalda vegna áranna 2004 og 2005.  Á ágreiningsefni máls þessa því ekki undir úrskurðarnefndina og verður málinu af þeim sökum vísað frá.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________       ___________________________
         Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

80/2009 Lindarvað

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon hérasdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2009, kæra á álagningu skipulagsgjalds á íbúð að Lindarvaði 6, Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2009, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, framsendi Fasteignaskrá Íslands úrskurðarnefndinni erindi J og P, eigenda íbúðar að Lindarvaði 6 í Reykjavík, dags. 19. nóvember 2009, þar sem farið er fram á breytingu á álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Lindarvaði 6 í Reykjavík.  Skilja verður erindi kærenda svo að þess sé krafist að álagning skipulagsgjaldsins verði felld niður gagnvart þeim. 

Málsatvik og rök:  Samkvæmt kaupsamningi, dags. 29. september 2006, seldi byggingaraðili fjórar íbúðir við Lindarvað nr. 4 og 6 í Reykjavík og mun þ.á m. hafa verið íbúð kærenda.  Fram kemur í kaupsamningnum að áætlað sé að íbúðirnar verði fokheldar þremur mánuðum eftir kaupin.  Nýr eigandi seldi síðan kærendum íbúð að Lindarvaði 6 með kaupsamningi, dags. 2. ágúst 2007.  Íbúðin var virt til brunabóta af  Fasteignaskrá Íslands hinn 29. október 2009 og í kjölfar þess fengu kærendur greiðsluseðla fyrir álögðu skipulagsgjaldi frá Tollstjóranum í Reykjavík með gjalddaga 1. nóvember 2009 og eindaga hinn 1. desember sama ár. 

Skírskota kærendur til þess að þau hafi keypt umrædda íbúð fullbyggða af fyrri eiganda sem hafi keypt íbúðina af byggingaraðila.  Telji kærendur að ekki eigi að leggja skipulagsgjaldið á þau, heldur á fyrri eiganda. 

Fasteignaskrá Íslands tekur fram að upplýsingar um matsvirði umræddrar fasteignar til brunabóta hafi verið sendar Fjársýslu ríkisins að lokinni virðingu ásamt matsvirði annarra nývirtra húseigna auk upplýsinga um skráða eigendur þeirra í samræmi við 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í 7. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 komi fram að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalda og hafi erindi kærenda því verið framsent úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.  Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni. 

Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér ótvíræða lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 737/1997 fellur skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hefur farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins (nú Fasteignaskrá Íslands) hefur tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.  Gjaldinu fylgir lögveð í þeirri fasteign sem það er lagt á og verður að telja að rétt sé að beina innheimtu þess að þinglýstum eigenda fasteignar miðað við það tímamark þegar gjaldið fellur í gjalddaga, enda þótt dráttur kunni að hafa orðið á að eigandi nýrrar eignar sinnti þeirri skyldu sinni að óska brunavirðingar, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna og samsvarandi ákvæði í 2. mgr. 6. gr. eldri reglugerðar um sama efni nr. 484/1994.  Eru því ekki rök til  að fallast á það með kærendum að fella beri skipulagsgjald af íbúð þeirra niður gagnvart þeim. 

Engar athugasemdir hafa komið fram í máli þessu um gjaldstofn eða fjárhæð hins umdeilda gjalds og verður því lagt til grundvallar að álagning þess sé tölulega rétt. 

Tekið skal fram að í niðurstöðu málsins felst ekki afstaða til þess hvort kærendur kunni að eiga endurkröfu á hendur fyrri eiganda vegna skipulagsgjaldsins.  Ræðst það af samningi aðila og reglum og venjum í fasteignakaupum.  Úrlausn um slíkan endurkröfurétt er einkaréttarlegs eðlis og fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að skera úr um hann. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið skal álagning hins umdeilda skipulagsgjalds standa óröskuð. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um að innheimta skipulagsgjalds af eignarhluta þeirra að Lindarvaði 6 í Reykjavík með fastnúmer 2295450 verði felld niður gagnvart þeim. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

110/2008 Ögurhvarf

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 110/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í  Kópavogi frá 29. október 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu veitingahúss á 1. hæð fasteignarinnar að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra M, Dimmuhvarfi 27 og S, Dimmuhvarfi 23, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í  Kópavogi frá 29. október 2008 að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu veitingahúss á 1. hæð fasteignarinnar að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en þar sem engar framkvæmdir hafa verið  á grundvelli hins kærða leyfis hefur ekki verið tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.

Málsatvik og rök:  Að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi er nýbygging og er lóð hússins á  svæði sem skilgreint er sem athafnasvæði í Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Liggur það að íbúðarsvæði þar sem kærendur búa.

Hinn 29. október 2008 samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi umsókn um leyfi til að innrétta veitingastað á 1. hæð hússins að Ögurhvarfi 6.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 11. nóvember sama ár.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Benda kærendur á að veitingarekstur falli ekki að skilgreiningu athafnasvæðis og fari leyfið því í bága við gildandi skipulag svæðisins.  Óeðlilegt sé að staðsetja veitinga- og skemmtistað nánast í bakgarði íbúðarhúsa við Dimmuhvarf, í hverfi sem hafi verið kynnt sem friðsæl „sveit í bæ“.  Búast megi við slíkum hávaða frá umferð fólks og farartækja vegna umdeilds veitingarekstrar að telja verði leyfisveitinguna atlögu að friðhelgi heimila kærenda sem standi aðeins í um 30 metra fjarlægð frá fyrirhuguðum veitingastað.  Þá sé ljóst að íbúðareignir í nágrenninu muni falla verulega í verði.  

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fellur staðfesting sveitarstjórnar fyrir veitingu byggingarleyfis úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út samkvæmt nefndri 44. gr. innan 12 mánaða frá staðfestingunni.

Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti veitingu hins kærða byggingarleyfis hinn 11. nóvember 2008 en samkvæmt upplýsingum frá byggingaryfirvöldum bæjarins hefur byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki verið gefið út fyrir hinum heimiluðu framkvæmdum og engar framkvæmdir átt sér stað.  Liggur því fyrir að staðfesting bæjarstjórnar er fallin úr gildi þar sem meira en ár er liðið frá henni án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út.   

Eins og málum er komið hafa kærendur ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson  

21/2006 Brákarbraut

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 21/2006, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 15. febrúar 2006 um breytt deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi. 

Í málinu er nú til kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. mars 2006, er barst nefndinni samdægurs, kærir Pétur Kristinsson hdl., f.h. I, Brákarbraut 11, Borgarnesi, ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 15. febrúar 2006 um breytt deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi, sbr. auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 20. febrúar 2006. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda og hafa kærur vegna deiliskipulags í gamla miðbænum í Borgarnesi áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, en 4. ágúst 2004 var auglýst tillaga að deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Lá tillagan frammi til kynningar á bæjarskrifstofum Borgarbyggðar til 2. september 2004, en frestur til athugasemda var til 16. sama mánaðar.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kæranda, en á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 5. október 2004 var gerð svofelld bókun:  „Erindi frá bæjarráði þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um framkomnar athugasemdir við deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Nefndin telur að þrátt fyrir innsendar athugasemdir sé ekki þörf á breytingum á deiliskipulaginu.“  Skipulagstillagan mun síðan hafa verið samþykkt í bæjarstjórn 14. október 2004 en síðar, eða 11. nóvember 2004, samþykkti bæjarstjórn þó svör við framkomnum athugasemdum þar sem fallist var á minni háttar breytingar í tilefni af þeim.  Þrátt fyrir að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi ekki talið þörf á að breyta skipulaginu voru gerðar nokkrar breytingar á því og kom fram í bréfi bæjarstjóra til kæranda, dags. 19. nóvember 2004, að tekið hafi verið undir ábendingu hans um mörk skipulagssvæðis og að eðlilegt sé að geta í skipulaginu um umferðarrétt um lóðina Brákarbraut 13 að lóð kæranda.  Þá kom fram í bréfinu að hugmyndir séu uppi um tengibyggingu milli Brákarbrautar 13 og 15 sem meðal annars eigi að þjóna starfsemi Egilsstofu og því ekki óeðlilegt að gert sé ráð fyrir byggingarreit vegna þess, auk lýsingar á þeirri starfsemi sem þar sé fyrirhuguð. 

Með bréfi bæjarverkfræðings Borgarbyggðar, dags. 30. nóvember 2004, var umrætt deiliskipulag sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.  Gerði stofnunin með bréfi, dags. 20. desember 2004, verulegar athugasemdir við skipulagið, bæði um form og efni.  Voru þessar athugasemdir teknar til athugunar og báru málsgögn það með sér að breytingar hefðu verið gerðar bæði á uppdrætti skipulagsins og greinargerð, án þess þó að sveitarstjórn fjallaði um þær breytingar.  Var skipulagið, svo breytt, sent að nýju til Skipulagsstofnunar til yfirferðar með bréfi, dags. 2. mars 2005.  Með bréfi, dags. 10. mars 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirri afstöðu sinni að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, en benti þó á að gera þyrfti smávægilegar lagfæringar á skipulagsgögnunum.  Auglýsing um gildistöku skipulagsins var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Skaut kærandi ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. apríl 2005.  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 24. janúar 2006, var kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar hafnað að öðru leyti en því að felld var úr gildi heimild fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 10. janúar 2006 var ákveðið að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi gamla miðbæjarins er fól í sér stækkaðan byggingarreit lóðanna nr. 13 og 15 við Brákarbraut fyrir viðbyggingu og tengibyggingu á milli húsa á lóðunum.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna þessa.  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 13. febrúar s.á. voru athugasemdir kæranda lagðar fram og tillagan samþykkt.  Á fundi bæjarstjórnar 15. s.m. var tillagan samþykkt og athugasemdum kæranda svarað með bréfi bæjarstjóra, dags. 16. febrúar 2006. 

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. febrúar 2006. 

Kærandi skaut framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að með bréfi, dags. 12. janúar 2006, hafi Borgarbyggð sent kæranda bréf þar sem fram komi að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi ákveðið á fundi 10. janúar að grenndarkynna óverulega breytingu á fyrirliggjandi deiliskipulagi.  Af fundargerð nefndarinnar verði ekki annað ráðið en að byggingarstjóri umræddrar tengi- og viðbyggingar hafi tekið þátt í ákvörðuninni.  Þá liggi einnig fyrir að grenndarkynningin hafi ekki náð til lóðarhafa Brákarbrautar 4, 5, 8, 15 og 16, en þær lóðir séu í næsta nágrenni. 

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé m.a. heimiluð tengi- og viðbygging við og á milli húsanna að Brákarbraut 13 og 15 og með henni sé heimiluð stækkun á veitinga- og skemmtistað.  Það hafi þó ekki komið fram í grenndarkynningunni.  Auk þess sé gert ráð fyrir gangandi og akandi umferð að lóðinni Brákarbraut 11A um lóð kæranda að Brákarbraut 11.  

Krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu samþykktar sé rökstudd með því að um sé að ræða breytingu á gildandi skipulagi og hana beri því að auglýsa sbr. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Grenndarkynning sé aðeins heimil í undantekningartilvikum og þegar um óverulegar breytingar á skipulagi sé að ræða.  Hér sé um að ræða breytingu er varði viðbyggingu við elstu hús bæjarins, sem standi í miðbæ Borgarness, séu í opinberri eigu og hafi sögulegt gildi.  Breytingin geti því ekki talist óveruleg og því beri að auglýsa hana eins og lög geri ráð fyrir.  Það hafi ekki verið gert og því sé skipulagsbreytingin ógild. 

Verði ekki fallist á að breytinguna hafi þurft að auglýsa sé á það bent að grenndarkynningin hafi hafist áður en úrskurður um ógildingu skipulagsins hafi verið uppkveðinn, byggingarstjóri tengi- og viðbyggingarinnar hafi tekið þátt í ákvörðun um grenndarkynningu og hún ekki tekið til allra lóðarhafa í nágrenninu.  Því hafi ekki verið rétt staðið að grenndarkynningunni og hana beri að endurtaka. 

Verði ekki fallist á að endurtaka þurfi grenndarkynninguna sé á því byggt að við meðferð Borgarbyggðar á athugasemdum kæranda hafi ekki verið gætt meðalhófs og ekkert tillit tekið til sjónarmiða hans.  Húsin sem skipulagsbreytingin taki til standi í næsta nágrenni við íbúðarbyggð og séu ekki nema ca. 30 metrar að húsi kæranda.  Hafi hann því beina og lögvarða hagsmuni af því að ekki sé á svæðinu rekinn skemmtistaður, bæði vegna ónæðis af skemmtanahaldinu sjálfu og þeirri umferð sem því fylgi.  Í svari Borgarbyggðar komi fram að frekar verði lögð áhersla á veitingarekstur í húsinu en beint skemmtanahald.  Í þessu ljósi verði ekki séð að neitt sé því til fyrirstöðu að í skipulagskilmálum verði kveðið á um að opnunartími verði takmarkaður á kvöldin með hliðsjón af því að húsin séu í nágrenni við íbúðarbyggð.  Þá sé það sjálfsögð krafa að gert sé ráð fyrir nægum bílastæðum vegna fyrirhugaðrar starfsemi þannig að komið verði í veg fyrir ónæði og átroðning á nærliggjandi lóðum.  Við gerð skipulags verði eins og í annarri stjórnsýslu að gæta meðalhófs, en í því felist m.a. að  taka verði tillit til allra eins og kostur sé en ekki bara til sumra. 

Kærandi hafi gert athugasemd við akandi og gangandi umferð við Brákarbraut 11a, en samkvæmt hinni kærðu samþykkt sé gert ráð fyrir gangstíg og aðkomu að þeirri lóð um lóð kæranda að Brákarbraut 11.  Ljóst sé að aðkomuna megi leysa án þess að lóð kæranda sé skert.  Svar Borgarbyggðar felist í því að umhverfis- og skipulagsnefnd  fallist á að hlutast til um að talað verði við lóðarhafa en skipulagið engu að síður samþykkt og auglýst.  Hér sé ekki gætt meðalhófs og lóð kæranda skert að óþörfu. 

Um lagarök vísist að öðru leyti til skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er vísað til þess að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi metið það svo að hin kærða samþykkt sé óveruleg breyting á deiliskipulagi og því hafi verið nægilegt að grenndarkynna tillögu að henni, sbr. 2. mgr. 26. mgr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fyrir hafi legið umsögn Húsafriðunarnefndar, dags. 10. maí 2005, þar sem fram komi að viðkomandi bygging „… sé í sátt við gömlu húsin og styður þá starfsemi sem kemur til með að vera þar, en starfsemi sé grunnforsenda þess að hægt sé að varðveita húsin.“ 

Sveitarstjórn hafi samþykkt á fundi sínum 12. janúar 2006 fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar frá 10. s.m.  Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 fari sveitarstjórn með endanlegt ákvörðunarvald og starfi nefndir í umboði hennar.  Því hljóti endanlegt ákvörðunarvald að vera í höndum sveitarstjórnar auk þess sem í 6. gr. skipulags- og byggingarlaga komi fram að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar.  Meint vanhæfi nefndarmanns í umhverfis- og skipulagsnefnd komi því ekki til álita. 

Áður en deiliskipulag gamla miðbæjarins hafi tekið gildi hafi verið rekinn skemmtistaður að Brákarbraut 13 með ákveðinn opnunartíma.  Eftir að Landnámssetur hafi tekið til starfa í húsunum að Brákarbraut 13 og 15 hafi húsin fyrst og fremst verið nýtt undir sýningarhald, verslun, veitingastarfsemi og leiksýningar.  Alla jafna sé engin starfsemi í húsunum eftir miðnætti. 

Loks sé mótmælt þeirri fullyrðingu kæranda að gert sé ráð fyrir göngustíg og aðkomu að húsinu að Brákarbraut 11A.  Borgarbyggð hafi eignast húsið og hafi verið ákveðið að rífa það.  Ekki standi til að svo komnu að byggja að nýju á lóðinni. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki veriða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Úrskurðarnefndin hefur með óformlegum hætti kynnt sér aðstæður á vettvangi.  

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 15. febrúar 2006 um breytt deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi er fól í sér stækkaðan byggingarreit lóðanna nr. 13 og 15 við Brákarbraut fyrir viðbyggingu og tengibyggingu á milli húsanna.  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 2005. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hin kærða samþykkt sé þess eðlis að skipulagsyfirvöldum hafi verið óheimilt að fara með hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, heldur hafi borið að auglýsa hana svo sem um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. 

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins frá 2005 er lóðin nr. 13 við Brákarbraut 956 m² að stærð og stendur þar tvílyft hús á háum kjallara, byggt árið 1907.  Nýtingarhlutfall lóðar er 0,3.  Samkvæmt deiliskipulaginu er lóðin nr. 15 við Brákarbraut 300 m² að stærð og er þar einlyft hús með háu risi og kjallara, byggt árið 1887.  Nýtingarhlutfall lóðar er 0,6.  Með hinni kærðu samþykkt er veitt heimild til að byggja einlyfta tengi- og viðbyggingu, á milli og aftan við húsin á lóðunum Brákarbraut 13 og 15, sem mun tilheyra lóðinni nr. 13.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun hin umdeilda bygging, sem heimiluð er með hinni kærðu samþykkt, hvorki varpa skugga á lóð kæranda né hafa áhrif á útsýni úr húsi hans.  Hún raskar ekki götumynd til muna og fellur vel að húsum sem fyrir eru á svæðinu.  Með hliðsjón af því verður hin umrædda breyting talin óveruleg og var skipulagsyfirvöldum því heimilt, eins og þarna stóð á, að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Er því kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað, enda verður ekki fallist á að með henni hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ekki þykir ástæða til að fjalla sérstaklega um göngustíg og aðkomu að lóðinni nr. 11A við Brákarbraut, enda var engin ákvörðun tekin þar að lútandi með hinni kærðu ákvörðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni og vegna sáttaumleitana málsaðila.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 15. febrúar 2006 um breytt deiliskipulag gamla miðbæjarins Borgarnesi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              ____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

24/2009 Flatahraun

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 24/2009, kæra á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2009 á beiðni um breytta skráningu fasteignarinnar að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði og bókun skipulags- og byggingarráðs frá 7. júlí 2009 um rýmingu íbúðar í húsinu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. apríl 2009, er barst nefndinni 15. s.m., kæra G og S, Flatahrauni 29, Hafnarfirði, synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2009 á beiðni um breytta skráningu fasteignarinnar að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði.  Hinn 13. júlí 2009 lögðu kærendur fram hjá úrskurðarnefndinni bréf Hafnarfjarðarbæjar með bókun skipulags- og byggingarráðs frá 7. júlí 2009 um rýmingu íbúðar í húsinu og óskuðu úrlausnar nefndarinnar. 

Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar á framangreindum afgreiðslum. 

Málavextir:  Kærendur eru eigendur eignarhluta nr. 207-4792 og 207-4793 í fasteigninni að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs 24. mars 2009 var lagt fram bréf þeirra, dags. 10. febrúar 2009, og bréf Gústafs Þórs Tryggvasonar hrl., dags. 28. febrúar 2008.  Í bréfi kærenda sagði m.a. eftirfarandi:  „Erindi:  Röng álagning fasteignagjalda ársins 2009 v/207-4792 og 207-4793.  Í bréfi Hafnarfjarðarbæjar (hjálagt) ódagsett undirritað af bæjarlögmanni er þetta staðfest.  Oftekin fasteignagjöld v/207-4792 v/áranna 2004 til og með 2008 er endurgreitt.  Oftekin fasteignagjöld v/207-4793 v/áranna 2004 til og með 2006 er endurgreitt.  Krafa okkar hjóna er! 1.  Skráning fasteignar okkar skal vera rétt.  2. Álagning fasteignagjalda skal vera rétt.  3. Greiðsluseðlar skulu vera réttir.  4. Endurgreiða skal oftekin fasteignagjöld v/207-4793 vegna áranna 2007 og 2008.  5. Greiða skal vexti af ofteknum fasteignagjöldum 2004 til og með 2008 vegna 207-4792 og 207-4793.“  Þá sagði m.a. í fyrrnefndu bréfi lögmanns kærenda að þess væri óskað að skráning vegna eignarhluta þeirra yrði leiðrétt til samræmis við raunveruleg not.  Á fundinum var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram bréf, dags. 24. febrúar sl.(sic), frá Gylfa Sveinssyni og Sigríði Önnu Þorgrímsdóttur vegna fasteignarinnar nr. 29 við Flatahraun.  Lagt fram bréf Gústafs Þórs Tryggvasonar hrl., dags. 28.02.2008, þar sem farið er fram á að skráningu hússins verði breytt til samræmis við raunverulega notkun.  Lóðin er á athafnasvæði skv. Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025.  Beiðni um breytingu á skráningu hússins úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarsvæði er synjað með tilvísun í 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð, skilgreining athafnasvæða.  Þar segir m.a. að almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum.“  Var fundargerð skipulags- og byggingarráðs lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 31. mars 2009. 

Í bréfi embættis byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 30. mars 2009, var þeim greint frá því að framangreind afgreiðsla væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og væri kærufrestur einn mánuður. 

Með bréfi Hafnarfjarðarbæjar til kærenda, dags. 27. apríl 2009 var þeim tilkynnt eftirfarandi:  „Efni:  Flatahraun 29, ólögleg búseta.  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 22. apríl sl. var eftirfarandi mál:  Fram hefur komið að ólögleg búseta er í húsinu.  Umsókn um húsvarðaríbúð var synjað af skipulags- og byggingarráð 23.09.2003 og bæjarráði 21.10.2004.  Skipulags- og byggingarráð synjaði breyttri skráningu 24.03.2009 með tilvísun í 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð.  Skipulags- og byggingarfulltrúi bendir á að ekki er samþykkt íbúð í húsinu, sem er á athafnasvæði.  Íbúðin er því ólögleg og ber að rýma hana án tafar.  Verði það ekki gert innan fjögurra vikna mun skipulags- og byggingarfulltrúi gera tillögu til skipulags- og byggingarráðs um beitingu dagsekta í samræmi við VI. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“ 

Þá var kærendum sent bréf Hafnarfjarðarbæjar, dags. 2. júlí 2009, þar sem þeim var tilkynnt eftirfarandi:  „Efni:  Flatahraun 29, ólögleg búseta.  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 1. júlí sl. var eftirfarandi mál:  Fram hefur komið að ólögleg búseta er í húsinu.  Umsókn um húsvarðaríbúð var synjað af skipulags- og byggingarráði 23.09.2003 og bæjarráði 21.10.2004.  Skipulags- og byggingarráð synjaði breyttri skráningu 24.03.2009 með tilvísun í 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð.  Skipulags- og byggingarfulltrúi benti eiganda 22.04.2009 á að ekki er samþykkt íbúð í húsinu, sem er á athafnasvæði.  Íbúðin væri því ólögleg og bæri að rýma hana án tafar.  Yrði það ekki gert innan fjögurra vikna mundi skipulags- og byggingarfulltrúi gera tillögu til skipulags- og byggingarráðs um beitingu dagsekta í samræmi við VI. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Skipulags- og byggingarfulltrúi vísar erindinu til skipulags- og byggingarráðs með eftirfarandi tillögu:  „Skipulags- og byggingarráð bendir á að ekki er samþykkt íbúð í húsinu, sem er á athafnasvæði.  Íbúðin er því ólögleg og ber að rýma hana án tafar.  Verði það ekki gert innan fjögurra vikna mun skipulags- og byggingarráð gera tillögu til bæjarstjórnar um beitingu dagsekta í samræmi við VI. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.““

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 7.  júlí 2009 var framangreint staðfest og tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 8. s.m.  Á fundi bæjarráðs 9. júlí s.á. var fundargerðin lögð fram til kynningar. 

Með bréfi fostöðumanns úrskurðarnefndarinnar til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 3. september 2009, var óskað upplýsinga um hvort kærendur hafi í skrám á vegum bæjarins, svo sem íbúaskrám og kjörskrám, verið taldir til heimilis að Flatahrauni 29 og hafi svo verið frá hvaða tíma.  Með bréfi Hafnarfjarðarbæjar, dags. 3. október s.á., var greint frá því að annar kærenda hafi verið skráður til heimilis að Flatahrauni 29 frá 8. júní 1993 og hinn frá 14. maí 1999.  Bæði hafi þau verið á kjörskrá vegna Alþingiskosninga 2007 með heimili að Flatahrauni 29. 

Framangreindum afgreiðslum skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau séu bæði skráð til heimilis í íbúðum sínum og hafi verið skráð þar lengst þeirra er búið hafi í hverfinu.  Það hafi þau ásamt börnum sínum gert með samþykki bæjaryfirvalda.  Í engu hafi þau því brotið gegn ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. 

Þá bendi kærendur á að í hinni kærðu synjun frá 24. mars 2009 sé vísað til 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð en þó sé ekki tekið tillit til þess að í ákvæðinu komi fram að unnt sé að gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum svo sem fyrir húsverði. 

Kærendur hafi átt í deilum við bæjaryfirvöld í meira en 10 ár og hafi fengið hluta fasteignagjalda vegna beggja íbúðanna endurgreiddan. 

Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 skuli eignir vera rétt skráðar í samræmi við notkun og eigi álagning fasteignagjalda að taka mið af því.  Það sé hlutverk Fasteignaskrár Íslands að kveða upp fullnaðarúrskurði í deilumálum sem þessu á stjórnsýslustigi. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að mál þetta eigi sér nokkurn aðdraganda.  Árið 2004 hafi kærendum verið synjað um beiðni um skráningu rýmis í þeirra eigu sem húsvarðaríbúð með vísan til samþykktar bæjarstjórnar frá 1989 og laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. 

Með bréfi kærenda til bæjarstjóra, dags. 10. febrúar 2009, hafi þau m.a. farið fram á að skráning fasteignar þeirra skuli vera rétt.  Virðist það bréf ritað í framhaldi af því að bæjarlögmaður hafði fallist á að endurgreiða fasteignagjöld fjögur ár aftur í tímann vegna þess að nýting húsnæðis var ekki í samræmi við skráningu.  Hafi sú niðurstaða bæjarlögmanns verið byggð á dómi Hæstaréttar frá 5. október 2006, mál nr. 85/2006. 

Húsnæði það sem hér um ræði sé á ódeiliskipulögðu svæði og athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar deilt um synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2009 á beiðni um breytta skráningu hluta fasteignarinnar að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði og hins vegar um bókun skipulags- og byggingarráðs frá 7. júlí 2009 um rýmingu íbúðar í húsinu. 

Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna segir að ef óskað sé eftir að breyta fyrirliggjandi upplýsingum um fasteign skuli eigandi sækja um breytingu á skráningarupplýsingum um fasteign í fasteignaskrá hjá viðkomandi sveitarfélagi.  Í 19. gr. sömu laga segir jafnframt að viðkomandi sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því að Fasteignaskrá Íslands berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, sem gerð séu í umdæmum sveitarfélaganna hvers um sig, og um breytingar á þeim og eyðingu þeirra.  Skuli sveitarstjórn að jafnaði fela byggingarfulltrúa upplýsingagjöf um fyrrgreind atriði.  Verður að telja að á grundvelli þessara heimilda hafi kærendum verið rétt að snúa sér til bæjaryfirvalda með erindi um breytta skráningu eignarhluta sinna í Flatahrauni 29 svo sem þau gerðu.  Jafnframt verður að telja að þeim hafi verið heimilt að bera afgreiðslu bæjaryfirvalda undir úrskurðarnefndina þegar litið er til gr. 9.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og ákvæðis 29. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um skyldu sveitarstjórna til að halda landeignaskrár. 

Hin kærða synjun er studd þeim rökum að það samræmist ekki 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að fallast á erindi kærenda, en eign þeirra sé á skilgreindu athafnasvæði þar sem almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum. 

Úrskurðarnefndin telur að tilgreind rök skipulags- og byggingaráðs séu ekki haldbær enda segir í tilvitnuðu ákvæði að á athafnasvæðum sé unnt að gera ráð fyrir íbúðum tengdri starfsemi fyrirtækja, s.s. fyrir húsverði.  Verður því ekki talið að fullnægt hafi verið skilyrði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga um rökstuðning og verður hin kærða synjun því felld úr gildi.  Er þá ekki tekin afstaða til þess hvort unnt hefði verið að fallast á erindi kærenda án undangengins byggingarleyfis og samþykkis meðeigenda. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í máli þessu liggur aðeins fyrir tillaga skipulags- og byggingarráðs til bæjarstjórnar um að beita dagsektum að ákveðnum tíma liðnum.  Hins vegar liggur ekki fyrir að bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í málinu og breytir þar engu um þótt fundgerð ráðsins, þar sem umrædd tillaga er gerð, hafi verið lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar.  Var tillaga skipulags- og byggingarráðs ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarráðs frá 24. mars 2009 varðandi beiðni um breytta skráningu fasteignarinnar að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði er felld úr gildi. 

Kæru á bókun skipulags- og byggingarráðs frá 7. júlí 2009 um rýmingu íbúðar í húsinu að Flatahrauni 29 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________     _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Aðalheiður Jóhannsdóttir

16/2009 Heiðaþing

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2009, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. mars 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Heiðaþingi 6, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi.  Bæjarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi sínum hinn 10. febrúar 2009. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt hefur verið gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Kópavogsbær, sem er byggingarleyfishafi samkvæmt hinu kærða leyfi, kom því á framfæri við úrskurðarnefndina að framkvæmdir stæðu ekki fyrir dyrum að Heiðaþingi 2-4 og hefur því ekki verið tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar. 

Málavextir:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta. 

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi þáverandi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 þar sem farið var fram á frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og Gulaþings 1 og 3. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda lóðarhafa að Heiðaþingi 6.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni. 

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.  Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kæranda í máli þessu. 

Hinn 4. apríl 2007 voru umsóknir lóðarhafa að Heiðaþingi 2 og 4 teknar fyrir á fundi byggingarnefndar sem samþykkti byggingarleyfi vegna lóðanna með vísan til þess að erindin hefðu hlotið afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarráðs í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi gaf síðan út umrædd leyfi hinn 3. maí 2007.  Voru byggingarleyfi þessi einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Hinn 20. september 2007 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði í kærumálunum vegna skipulagsbreytingarinnar og útgáfu byggingarleyfanna.  Var kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar vísað frá, þar sem á skorti að auglýsing um gildistöku hennar hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Þá voru byggingarleyfin fyrir Heiðaþing 2 og 4 felld úr gildi með vísan til þess að þau vikju frá gildandi deiliskipulagsskilmálum. 

Áðurgreind deiliskipulagsbreyting tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007 og skaut kærandi ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 9. nóvember sama ár. 

Hinn 2. maí 2008 birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um afturköllun deiliskipulagsbreytingar varðandi Heiðaþing 2-4 og mun Kópavogsbær hafa leyst til sín umræddar fasteignir. 

Hinn 19. nóvember 2008 samþykkti byggingarnefnd umsókn Kópavogsbæjar um leyfi til að byggja parhús á lóðunum að Heiðaþingi 2-4 og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 25. nóvember s.á.  Kærandi sendi erindi, dags. 2. desember 2008, til bæjarráðs Kópavogs þar sem þess var farið á leit að fallið yrði frá áformum um byggingu tveggja hæða húsa á lóðunum.  Erindinu var vísað til bæjarstjórnar sem sá ekki ástæðu til að falla frá ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins. 

Hefur kærandi skotið veitingu byggingarleyfisins fyrir Heiðaþing 2-4 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Vísað er til þess að samkvæmt hinu kærða byggingaleyfi eigi að nýta útveggi neðri hæðar sem reistir hafi verið í tíð eldra byggingarleyfis sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi. 

Heimilað sé nú að reisa hús á tveimur hæðum með íbúðarrýmum í kjallara auk þess sem útgangur verði úr kjallararými.  Augljóst sé að með hinni kærðu ákvörðun sé brotið gegn gildandi skipulagi með því að heimila þvottahús og/eða önnur íbúðarrými í kjallara og í raun sé verið að byggja á því skipulagi sem fellt hafi verið úr gildi.  Auk þess liggi fyrir að hæð hússins sé meiri en skipulag heimili enda sé hæð milli minnstu hæðar í mestu hæð hússins meiri en heimiluð hámarkshæð, sem sé 4,8 m.  Byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og muni bygging tveggja hæða húss að Heiðaþingi 4 bæði skerða einkalíf og lífsgæði kæranda. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Því er mótmælt að hið kærða byggingarleyfi sé í ósamræmi við gildandi deiliskipulag.  Engin íbúðarherbergi séu í kjallara samkvæmt samþykktum teikningum heldur aðeins geymslur og þvottahús sem séu á allan hátt sambærileg rými.  Deiliskipulag geri ráð fyrir kjallara undir hluta húss þar sem hafa megi geymsluherbergi.  Heimiluð rými í kjallara, sem sé undir um 1/3 hluta aðalhæðar, geti ekki með nokkru móti talist íbúðarherbergi og breyti í engu um eðli herbergjanna þó að útgönguleiðir séu úr kjallaranum út í garð. 

Hæð parhúsanna að Heiðaþingi 2-4 sé innan marka skipulagsskilmála.  Hvort hús um sig sé ekki hærra en 4,8 m frá kóta aðkomuhæðar og miða eigi við gólfkóta við útreikning mestu hæðar hvors húss um sig en hæðarblöð ráði hæðarlegu lóða samkvæmt skilmálum deiliskipulags. 

Telja verði afgreiðslu bæjarins á umdeildri byggingarleyfisumsókn bæði formlega og efnislega rétta og sé því ekki tilefni til að fallast á ógildingarkröfu kæranda. 

Niðurstaða:  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar er varðaði lóðirnar að Heiðaþingi 2 og 4 og tók gildi hinn 12. október 2007.  Var kærumálinu vísað frá með þeim rökum að hin kærða ákvörðun hefði verið afturkölluð af hálfu Kópavogsbæjar með skuldbindandi hætti. 

Samkvæmt uppdrætti gildandi deiliskipulags umrædds svæðis, sem nefnt er Vatnsendi-Þing, og tók gildi hinn 14. júlí 2005, er gert ráð fyrir parhúsum á einni hæð á lóðunum að Heiðaþingi 2 og 4.  Fyrirliggjandi sérskilmálar fyrir reit 1 og svæði 8 á deiliskipulagsuppdrættinum eiga m.a. við um lóðirnar að Heiðaþingi 2 og 4.  Þar kemur fram að heimilt sé að reisa einnar hæðar parhús með einni íbúð á hvorri lóð að hámarks flatarmáli án kjallara 235 m2 að Heiðaþingi 2 og 250 m2 að Heiðaþingi 4.  Sérskilmálarnir heimila kjallara fyrir geymslur undir hluta húss og óheimilt er að hafa þar íbúðarherbergi.  Tekið er fram að hæð húsa sé annars vegar gefin upp sem bindandi hæðafjöldi og hins vegar sem hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta sem mest má vera 4,8 m. 

Grunnmynd neðri hæðar á samþykktum aðaluppdráttum fyrir Heiðaþing 2 og 4 sýnir geymslurými, þvottahús og gang í ætluðum kjallara húsanna.  Hins vegar er í byggingarlýsingu aðaluppdrátta tekið fram að um sé að ræða tveggja hæða parhús með tveimur íbúðum og innbyggðum bílgeymslum og í skráningartöflu er gert ráð fyrir 70 m2 íbúðum í kjöllurum húsanna.  Að þessu leyti gætir misræmis í samþykktum aðaluppdráttum. 

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er lofthæð ætlaðs kjallararýmis meiri en 2,5 m sem telst full lofthæð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, sbr. 78. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Hæðarblöð og sneiðmyndir sýna og að gólfplata ætlaðs kjallararýmis er ekki niðurgrafin með austurhlið húsanna og fellur umrætt húsnæði því ekki undir skilgreiningu gr. 4.25 í byggingarreglugerð þar sem kjallari er skilgreindur á þann veg að gólf sé undir yfirborði jarðvegs á alla vegu. 

Fallast má á að það eigi sér nokkra stoð í samþykktum aðaluppdráttum að ekki séu heimiluð íbúðarherbergi í umdeildu húsrými og að mesta hæð húsanna sé ekki umfram það sem skipulagsskilmálar áskilja.  Hins vegar verða húsin að teljast tveggja hæða með vísan til þess sem áður er rakið og brýtur hin kærða ákvörðun að því leyti í bága við gildandi skipulag svæðisins þar sem kveðið er á um einnar hæðar parhús að Heiðaþingi 2-4.  Verður af þeim sökum að fella ákvörðunina úr gildi með vísan til 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008, er bæjarstjórn staðfesti hinn 10. febrúar 2009, um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir

44/2008 Urðarmói

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2008, er barst nefndinni 2. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem málið telst nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar, og hinum umdeildu framkvæmdum var að mestu lokið er kæra barst, verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir og rök:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt.  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum hinn 6. maí s.á., var leyfið fellt úr gildi með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Á fundi bæjarráðs 25. apríl 2008 var samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa og birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí s.á.  Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. júní 2008 var samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. s.m. 

Hafa kærendur kært ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið eins og að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra. 

Um málsástæður og lagarök fyrir kærunni sé að öðru leyti vísað til rökstuðnings og lagaraka með kæru þeirra til úrskurðarnefndarinnar á samþykkt bæjarráðs um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Sé á því byggt að gildi byggingarleyfisins velti á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar.  Verði hún felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Fyrir liggi að húsið á lóð nr. 6 við Urðarmóa hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. 

Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um kæruaðild.  Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins að Urðarmóa 6 verið breytt.  Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag.  Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra minni en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá.  Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda.  Byggingin sé hvorki hækkuð né henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda.  Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum.  Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Verði ekki á framangreint fallist sé vísað til þess að hið kærða leyfi sé í fullu samræmi við deiliskipulag svæðisins. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009.  Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6.  Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar.  Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt bæjarráðs frá 25. apríl s.á. um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var því máli vísað frá úrskurðarnefndinni með þeim rökum að kærendur ættu ekki lögvarða hagsmuni.  Er rakið í þeim úrskurði að bygging hússins að Urðarmóa 6 hafi ekki haft nein grenndaráhrif er máli skipti gagnvart fasteignum kærenda að Urðarmóa 10 og 12 umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi svæðisins. 

Ekki verður séð að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið gengið gegn lögvörðum hagsmunum kærenda frekar en með áður nefndri skipulagsbreytingu.  Eiga kærendur því ekki lögvarða hagmuni af úrlausn máls þessa og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

152/2007 Heiðaþing

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 152/2007, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. Ö og S, Heiðaþingi 6, Kópavogi ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi, sem fól m.a. í sér að parhús á lóðunum mættu vera tveggja hæða í stað einnar.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing í Kópavogi.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi þáverandi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 þar sem farið var fram á frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og Gulaþings 1 og 3. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda kærenda.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni. 

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.  Skutu kærendur í máli þessu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá hinn 20. september 2007 þar sem á skorti að auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Umrædd deiliskipulagsbreyting tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007 og skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Byggja kærendur á því að hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum.  Ekki sé um óverulega skipulagsbreytingu að ræða, sem unnt sé að framkvæma með grenndarkynningu, auk þess sem kynningunni hafi verið ábótavant.  Skipulagsbreytingin feli í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og byggingarframkvæmdir á lóðunum hafi verið hafnar áður en umdeild skipulagsbreyting hafi öðlast gildi.  Misræmi sé milli uppdráttar og greinargerðar skipulagsbreytingarinnar auk þess sem engin efnisleg rök séu fyrir breytingunni en hún raski grenndarhagsmunum kærenda. 

Hinn 2. maí 2008 birtist í B-deild Stjórnartíðinda svohljóðandi:  „Auglýsing um afgreiðslu bæjarráðs Kópavogs á auglýstri tillögu að deiliskipulagi Vatnsendi – Þing,  Heiðaþing 2-4, breytt deiliskipulag.  Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum, hefur bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkt þann 17. apríl 2008 að afturkalla á grundvelli 2. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðaþing 2-4.“ 

Ekki hafa borist athugasemdir eða umsögn Kópavogsbæjar vegna kærumálsins en í kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni, nr. 16/2009, sem snýst um byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2-4, kemur sú afstaða bæjaryfirvalda fram að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið afturkölluð með áðurnefndri auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs samþykkti á fundi sínum hinn 15. apríl 2008 að afturkalla hina kærðu deiliskipulagsbreytingu er tók til Heiðaþings 2-4.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 17. apríl sama ár þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun í fundargerð ráðsins um afstöðu þess til afturköllunar umdeildrar deiliskipulagsbreytingar.  Hins vegar var fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 22. apríl 2008 og þar bókað:  „Fundargerðin afgreidd án umræðu.“  Auglýsing um afturköllun deiliskipulagsbreytingar vegna Heiðaþings 2-4 birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. maí 2008 eins og áður greinir. 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á málsmeðferð umræddrar afturköllunar, að ekki kom fram í bókunum viljaafstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til hennar og ekki er tilgreint með ótvíræðum hætti í auglýsingu til hvaða skipulagsbreytingar afturköllunin tekur.  Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir að önnur deiliskipulagsbreyting hafi verið gerð er snerti umræddar lóðar en sú sem kærð er í máli þessu og sú afstaða bæjaryfirvalda liggur fyrir að afturköllunin eigi við um hina kærðu ákvörðun verður lagt til grundvallar í máli þessu að Kópavogsbær hafi með skuldbindandi hætti fallið frá hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Þykja kærendur því ekki lengur hafa hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir

35/2008 Urðarmói

Með

Ár 2009, miðvikudaginn, 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 35/2008, kæra á samþykkt bæjarráðs Árborgar frá 23. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2008, er barst nefndinni 26. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, samþykkt bæjarráðs Árborgar frá 25. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2008. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt.  Áður hafði verið grenndarkynnt tillaga að breyttum þakhalla fyrirhugaðs húss á lóðinni en ekki hafði verið gengið frá breytingu á deiliskipulagi til samræmis við þau áform þegar byggingarleyfið var veitt.  Skutu nágrannar ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi leyfið úr gildi, með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2008, með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. apríl 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Við afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókn lóðareiganda að Urðarmóa 6, var samþykkt byggingarleyfi í kjölfar grenndarkynningar, án þess að deiliskipulagi hafi áður verið breytt svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þess vegna má færa rök fyrir því að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Er því nauðsynlegt að samþykkja meðfylgjandi greinargerð að breyttu deiliskipulagi, þar sem heimilað er að þakhalli á lóðinni að Urðarmóa 6, verði 42°.“ Á fundi bæjarráðs 25. sama mánaðar var framangreint samþykkt.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí 2008.

Skutu kærendur þeirri samþykkt bæjaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra. 

Fyrir liggi að húsið á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa hafi verið byggt í ósamræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála.  Af 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 leiði að óheimilt sé að breyta deiliskipulaginu til samræmis við ólögmætar framkvæmdir nema að framkvæmdir verði a.m.k. fyrst fjarlægðar, sbr. 2. mgr. sömu greinar.  Beytingar á nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hagsmunir eins lóðarhafa um aukna nýtingu og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra húseigenda á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið í þessu sambandi.  Breytingin sé því ólögmæt.  Þá samræmist hin kærða breyting ekki reglum stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna.  Ef samþykkja eigi slík frávik frá gildandi deiliskipulagi, sem breyting á þakhalla feli í sér, beri að endurskoða skilmála alls svæðisins í heild.  Loks felist í hinni kærðu breytingu leyfi til byggingar tveggja hæða húss á lóðinni þvert gegn fyrirmælum deiliskipulags.  

Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um aðild máls.  Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins verið breytt úr 14-25 í 42°.  Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag.  Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra lægri en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá.  Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda.  Ekki sé byggingin hækkuð eða henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda.  Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum.  Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. 

Af hálfu lóðarhafa Urðarmóa 6 er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009.  Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6.  Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar bæjarráðs Árborgar frá 25. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa.  Hafa kærendur vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða og eigi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Að mati þeirra sé húsið að Urðarmóa 6 í raun tveggja hæða, en það fari í bága við deiliskipulag og snerti hagsmuni kærenda sérstaklega. 

Sveitarfélagið Árborg krefst frávísunar málsins með þeim rökum að kærendur fullnægi ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um aðild máls. 

Eins og að framan er rakið felldi úrskurðarnefndin úr gildi fyrra byggingarleyfi fyrir húsinu að Urðarmóa 6, með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2008, með vísan til þess að leyfið væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Taldi nefndin þá að kærendur ættu lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu sem væru þó ekki stórfelldir.  Sætti málið flýtimeðferð þar sem krafa var uppi um stöðvun framkvæmda.  Fór ekki fram skoðun á aðstæðum á vettvangi, enda var bygging húsa á svæðinu þá skemmra á veg komin en nú er og því síður hægt að átta sig á aðstæðum við skoðun. 

Eftir skoðun á vettvangi og frekari öflun gagna tók nefndin til endurskoðunar fyrra mat sitt á hagsmunum kærenda.  Verður ekki fallist á að lóðir kærenda séu aðliggjandi að lóðinni að Urðarmóa 6 enda er botnlangagata milli Urðarmóa 10 og Urðarmóa 6.  Þá er húsið nr. 6 ekki í götulínu heldur standast á norðvesturhorn lóðarinnar að Urðarmóa 10 og suðausturhorn lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Vegna afstöðu húsanna og innra fyrirkomulags þakrýmis yfir bílskúr að Urðarmóa 6 er komið í veg fyrir að séð verði út um glugga á því rými yfir á lóðir kærenda, en samkvæmt samþykkum uppdrætti er nærri tveggja metra bil frá geymslupalli í þakrýminu að gafli þeim sem umræddur gluggi er á. 

Ekki verður heldur fallist á að húsið að Urðarmóa 6 geti talist tveggja hæða.  Er miðrými þess að mestu opið upp í þakið en yfir herbergjum eru þakgrindur í öllum rýmum sem koma í veg fyrir nýtingu þeirra til íveru og virðast fullyrðingar kærenda um tveggja hæða hús vera á misskilningi byggðar. 

Þá er í ljós leitt að mænishæð hússins að Urðarmóa 6 er rúmum metra minni en heimilt væri samkvæmt skilmálum upphaflegs deiliskipulags svæðisins.  Jafnframt er óumdeilt að húsið er innan byggingarreits og veldur það því hvorki skuggavarpi ná skerðingu á útsýni umfram það sem búast mátti við samkvæmt skipulaginu.  Loks er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar eftir skoðun á vettvangi að útlit hússins að Urðarmóa 6 sé ekki svo frábrugðið útliti annarra húsa á svæðinu að máli skipti, sérstaklega þegar litið er til þess að á svæðinu eru hús ólíkrar gerðar sem sum eru verulega frábrugðin þeirri húsagerð sem algengust er þar.  Nægir þar að nefna húsið að Urðarmóa 3, sem er í næsta nágrenni kærenda. 

Að öllu þessu virtu, og með hliðsjón af því að hin umdeilda breyting tekur aðeins til þakhalla húss á einni lóð, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærendur hafi ekki sýnt fram á að hin kærða breyting á deiliskipulagi raski verulegum og einstaklegum hagsmunum þeirra sem er skilyrði kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Málsástæða þeirra um að óheimilt hafi verið að samþykkja hina umdeildu skipulagsbreytingu vegna ákvæðis 4. mgr. 56. gr. laganna lýtur að gæslu almannahagsmuna og veitir kærendum ein og sér ekki kæruaðild.  Verður málinu samkvæmt framansögðu vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts kærenda. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

154/2007 Gámasvæði

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 154/2007, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 10. október 2007 um að samþykkja deiliskipulag gámasvæðis á Hellu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. nóvember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir M, framkvæmdarstjóri Reykjagarðs hf., þá ákvörðun hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 10. október 2007 að samþykkja deiliskipulag gámasvæðis á Hellu. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra hinn 14. júní 2007 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi gámasvæðis á Hellu.  Var tillagan tekin fyrir í hreppsnefnd hinn 4. júlí 2007 og samþykkt að auglýsa hana.  Birtist auglýsing um tillöguna m.a. í Lögbirtingarblaðinu og bárust hreppsnefnd athugasemdir.  Á fundi skipulagsnefndar 10. október 2007 var fjallað um athugasemdirnar og á fundi hreppsnefndar sama dag var tillagan samþykkt.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar hefur ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að fyrirhugað gámasvæði sé staðsett beint á móti húsi  sem hann reki í sláturhús og kjötvinnslu.  Um matvælavinnslu sé að ræða og mikilvægt að forðast alla lyktar- og sýklamengun. 

Af hálfu hreppsnefndar er vísað til þess að hin kærða samþykkt hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu þar sem auglýsing um gildistöku hennar hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda eins og gert sé ráð fyrir í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Slík auglýsing sé gildistökuskilyrði og marki upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Því sé ekki unnt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar eða ógilda ákvörðun hreppsnefndar sem ekki hafi öðlast gildi að lögum.  Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umþrætt deiliskipulag, er hreppsnefnd samþykkti hinn 10. október 2007, hefur ekki öðlast gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við lokamálsgrein 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, og styðst sú ályktun enn fremur við 2. mgr. 27. gr. sömu laga, sem kveður á um að upphaf kærufrests miðist við opinbera birtingu ákvörðunar, þar sem slík birting sé lögmælt.  Að þessu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson