Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

85/2010 Boðaslóð

Ár 2011, föstudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 85/2010, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 9. desember 2010 um að veita stöðuleyfi fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2010, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kærir R, Boðaslóð 5, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 9. desember 2010 að veita stöðuleyfi fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða leyfis. 

Málsatvik og rök:  Síðla árs 2010 var komið fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7 í Vestmannaeyjabæ.  Af því tilefni hafði kærandi samband við byggingaryfirvöld bæjarins með ósk um að gámurinn yrði fjarlægður.  Hinn 22. nóvember sama ár sendi skipulags- og byggingarfulltrúi bréf til eiganda Boðaslóðar 7 þar sem bent var á að gámur utan gámasvæða væri háður stöðuleyfi og var farið fram á að hann yrði fjarlægður innan 14 daga.  Í kjölfarið var sótt um leyfi fyrir stöðu gámsins og veitti umhverfis- og skipulagsráð stöðuleyfi fyrir honum til 1. mars 2011 með því skilyrði að gámurinn yrði færður fimm metra frá lóðarmörkum Boðaslóðar 5.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 12. desember 2010. 

Kærandi telur meðferð hinnar kærðu ákvörðunar óviðunandi gagnvart íbúum að Boðaslóð 5.  Aldrei hafi verið leitað samþykkis íbúanna fyrir staðsetningu gámsins, en hann sé fáránlega staðsettur inni í miðju hverfi.  Ekki hafi verið veitt leyfi fyrir honum fyrr en eftir að kærandi hafi gert athugasemdir við stöðu gámsins og taki leyfi því til tveggja mánaða aftur í tímann.  Færsla gámsins um fimm metra frá lóðamörkum skipti engu, því hann sé til sömu óprýði í hverfinu og áður og skerði enn útsýni úr stofuglugga kæranda. 

Bæjaryfirvöld benda á að veiting hins kærða stöðuleyfis hafi verið lögum samkvæmt, en heimild fyrir veitingu slíks leyfis sé í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Gámurinn hafi verið staðsettur á umræddri lóð í tengslum við fyrirhugaða byggingu bílgeymslu á lóðinni og hafi þótt rétt að veita umsækjanda leyfisins svigrúm til 1. mars 2011 til þess að skila inn gögnum vegna byggingaráformanna.  Leyfið sé til stutts tíma og hafi ekki veruleg grenndaráhrif. 

Niðurstaða:  Hið kærða stöðuleyfi var tímabundið og rann út hinn 1. mars 2011 og samkvæmt upplýsingum byggingaryfirvalda mun umdeildur gámur þegar hafa verið fjarlægður af lóðinni Boðaslóð 7. 

Samkvæmt framansögðu hefur hið kærða stöðuleyfi runnið sitt skeið á enda og hefur það því ekki lengur réttarverkan að lögum.  Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá fram úrskurð um ógildingu leyfisins.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson