Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2009 Stórikriki

Ár 2011, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2009, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 10. júní 2009, um breytt deiliskipulag Krikahverfis vegna lóðarinnar nr. 57 við Stórakrika, Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. júlí 2009, er barst nefndinni 4. sama mánaðar, kærir Bjarni Hauksson hrl., f.h. J, lóðarhafa að Stórakrika 59 í Mosfellsbæ, ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 10. júní 2009 um breytt deiliskipulag Krikahverfis, vegna lóðarinnar nr. 57 við Stórakrika. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Samkvæmt deiliskipulagi Krikahverfis frá árinu 2005 var upphaflega gert ráð fyrir stölluðu einnar hæðar einbýlishúsi á lóðinni nr. 57 við Stórakrika.  Hinn 30. apríl 2007 voru samþykktir aðaluppdrættir að einbýlishúsi á lóðinni, sem að hluta til er á tveimur hæðum.  Snýr norðurhlið hússins, sem er tvær hæðir, að lóð kæranda.  Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir neinum inngangi á norðurhlið og gluggar til norðurs á neðri hæð eru allir sýndir í 90 cm hæð frá yfirborði lóðar. 

Hinn 25. júlí 2008 áritaði starfsmaður byggingarfulltrúa séruppdrætti að gluggum sem merktir eru Stórikriki 47, en munu hafa átt að vera fyrir Stórakrika 57 samkvæmt upplýsingum frá embætti byggingarfulltrúa.  Uppdrættirnir sýna gólfsíða glugga með inngöngudyrum og hefur húsið verið byggt þannig að á norðurhlið eru þrír inngangar í herbergi á jarðhæð.  Hvorki verður ráðið af málsgögnum að séruppdrættir þessir hafi verið teknir fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa né að aðaluppdráttum eða samþykktu byggingarleyfi fyrir húsinu hafi verið breytt til samræmis við þá. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 24. mars 2009 var fjallað um umsókn lóðarhafa að Stórakrika 57 um skiptingu húss á lóðinni í tvær íbúðir.  Voru lagðar fram tillöguteikningar að íbúð og var embættismönnum falið að grenndarkynna tillöguna þegar fullnægjandi gögn lægju fyrir.  Var tillagan grenndarkynnt og kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar.  Á fundi nefndarinnar 19. maí 2009 var skipulagsfulltrúa falið að undirbúa svör við athugasemdum kæranda og á fundi hennar 2. júní 2009 var lagt til að tillagan yrði samþykkt en athugasemdum var svarað með eftirfarandi bókun:  „Á samþykktum teikningum af Stórakrika 57 er gert ráð fyrir íveruherbergjum við norðausturhlið, sem snýr að nr. 59, með stórum gluggum og útgöngum úr hverju herbergi á lóð. Í breytingartillögu felst að á þessari hlið verði inngangur í aukaíbúð. Það er mat nefndarinnar að sú breyting hafi ekki í för með sér umtalsverða röskun á friði og næði á lóð nr. 59 umfram það sem gera mátti ráð fyrir miðað við samþykktar teikningar.“  Hinn 10. júní 2009 var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2009. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar mótmælt enda sé það rangt að breytingin hafi ekki í för með sér umtalsverða röskun á friði og næði á lóð nr. 59 „umfram það sem gera mátti ráð fyrir miðað við samþykktar teikningar“.  Hann telji að breytingarnar skerði frið og næði fjölskyldu hans til að njóta útiveru, enda sé gert ráð fyrir að inngangur í aukaíbúðina verði beint fyrir ofan verönd á hans lóð þar sem hann hafi ætlað sér að hafa heitan pott og aðstöðu til útiveru.  Aukaíbúð, sem væntanlega sé hugsuð til útleigu, hafi augljóslega í för með sér aukna umferð fólks enda séu þar engin takmörk sett fyrir fjölda íbúa.  Muni þetta hafa veruleg áhrif á það næði sem kærandi hafi talið að hann gæti vænst á veröndinni „miðað við samþykktar teikningar“.  Skipti auk þess litlu máli þó gert hafi verið ráð fyrir stórum gluggum og útgangi úr hverju herbergi á neðri hæð hússins nr. 57, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 2. júní 2009, enda hafi varla verið gert ráð fyrir að gestir og gangandi fari um þá útganga frekar en almennt tíðkist um útganga út í garð. 

Þá telji kærandi að rökstuðning skipulags- og byggingarnefndar verði að skoða í samhengi við aðra breytingu sem byggingafulltrúi hafi samþykkt á húsi nr. 57 á fundi 30. apríl 2007, en þá hafi eiganda lóðarinnar verið leyft að byggja tveggja hæða hús í stað pallahúss á einni hæð, eins og áður hafði verið gert ráð fyrir.  Sú breyting hafi þýtt að þar sem áður hafi ekki verið gert ráð fyrir íverurými í húsinu nr. 57 skv. deiliskipulagi hafi komið herbergi með stórum gluggum með útgangi í garð.  Breyting þessi hafi ekki verið grenndarkynnt og því hafi kæranda ekki gefist færi á að tjá sig um hana eða mótmæla henni.  Það skjóti því skökku við að halda því fram að breyting nú hafi ekki í för mér sér umtalsverða röskun „miðað við samþykktar teikningar“, þar sem gert sé ráð fyrir „…íveruherbergjum við norðausturhlið, sem snýr að nr. 59, með stórum gluggum og útgöngum úr hverju herbergi á lóð“.  Verði að skoða hvað sé umtalsverð röskun í samhengi við það sem á undan sé gengið. 

Miklu skipti að samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi hafi ekki verið gert ráð fyrir íverurými í þeim hluta hússins að Stórakrika 57 er snúi að verönd kæranda.  Hafi hann því séð fram á að hafa mikið næði og frið á veröndinni þar sem heitum potti yrði komið fyrir.  Þegar kærandi hafi ákveðið að byggja einbýlishús fyrir fjölskylduna í Mosfellsbæ hafi hann lagt mikið upp úr því að um úthverfi væri að ræða sem byði upp á meiri ró og frið en vænta mætti í þéttari byggð eins og í Reykjavík, en það séu væntingar sem bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ megi gera ráð fyrir að nýir íbúar hafi almennt á því svæði sem hér um ræði.  Kærandi hafi talið máli skipta að hverfið væri meira út úr, en í staðinn væri ekki byggt eins þétt og víða annars staðar.  Hann hafi skoðað deiliskipulagið vel og velt fyrir sér stöðu og legu þeirra húsa sem staðið hafi næst húsi hans.  Mál hafi hins vegar öll þróast á versta veg.  Þannig hafi fyrst orðið sú breyting að gert hafi verið ráð fyrir íverurými í húsinu sem snúi að verönd hans og nú sé þar gert ráð fyrir íbúð, þar sem margir íbúar geti búið, með inngangi sem snúi að veröndinni. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er bent á að samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé heimilt að falla frá auglýsingu ef um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða. Fari þá fram ítarleg grenndarkynning og þeim sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að tjá sig um breytingarnar, sbr. 7. mgr. 43. gr. sömu laga.  Kærandi hafi ekki mótmælt þessari málsmeðferð. 

Litið hafi verið svo á að óveruleg breyting á deiliskipulagi feli í sér breytingu sem „hefur lítil áhrif á yfirbragð eða notkun svæðis og snertir fáa, s.s. breyting á byggingarreit, lóðarmörkum eða notkun hluta húss“, sbr. leiðbeiningar Skipulagsstofnunar.  Mosfellsbær telji að breytingar, sem gerðar hafi verið á íbúðarhúsnæðinu að Stórakrika 57, hafi skýrlega talist óverulegar breytingar.  Þær hafi engin áhrif á eign kæranda, þ.m.t. rými, útsýni eða skuggavarp.  Götumynd raskist ekki og falli breytingin vel að húsum sem fyrir séu á svæðinu.  Þegar af þessum sökum verði að telja að um óverulega breytingu sé að ræða. 

Breytingar þær sem samþykktar hafi verið séu í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag.  Í deiliskipulagi frá árinu 2005 sé sérstaklega kveðið á um að aukaíbúðir, allt að 60 m2, séu heimilar þar sem skipulags- og landfræðilegar aðstæður leyfi.  Sem dæmi megi nefna að á lóðinni að Stórakrika 58 hafi verið gert ráð fyrir slíkri aukaíbúð.  Hin kærða samþykkt sé því í fullu samræmi við þá íbúðarbyggð sem þegar sé til staðar.  Stærð lóðarinnar að Stórakrika 57 sé 809,5 m2 og nýtingarhlutfall hennar sé 0,42, en samkvæmt deiliskipulagi megi nýtingarhlutfall vera allt að 0,6-0,9.  Hafi nýtingarhlutfalli því að engu leyti verið raskað.  Hin umdeilda breyting sé vel innan þeirra marka sem búast megi við að gerðar verði á meðan á byggingu húsa standi. 

Því sé mótmælt að breytingin hafi í för með sér umtalsverða röskun á friði og næði á lóð nr. 59.  Fráleitt sé að ætla að umtalsverð röskun verði vegna þeirra breytinga sem deilt sé um.  Fyrir breytinguna hafi verið gert ráð fyrir íverurými með stórum gluggum og dyrum út í garð, þar sem nú sé gert ráð fyrir inngangi í aukaíbúð.  Í ljósi þessa hafi kærandi ekki getað vænst þess að vera í algeru næði á lóð sinni.  Þá verði í þessu samhengi að hafa í huga að eigandi lóðarinnar nr. 57 hafi getað nýtt lóð sína, rétt eins og kærandi, til ýmiss konar útiveru.  Jafnframt verði ekki framhjá því litið að lóðin að Stórakrika 59 standi við enda götunnar, nærri töluverðri umferð bæði fólks og bifreiða.  Sé í ljósi þessa fráleitt að ætla að kærandi hafi mátt gera sér vonir um að vera í algeru næði.  Heildarflatarmál hússins að Stórakrika 57 hafi ekki aukist, heldur hafi því verið skipt í tvær íbúðir.  Sé því gert ráð fyrir færri íbúum í aðalíbúðinni en áður.  Þar sem hin samþykkta aukaíbúð sé jafnframt lítil megi varla vænta fleiri íbúa þar en sem nemi þeim sem fækkaði um í aðalíbúðinni.  Þegar af þessum sökum verði ekki talið að íbúum að Stórakrika 57 muni fjölga til muna. 

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu kæranda að bæjaryfirvöld hafi samþykkt hús á lóðinni Stórakrika 57 sem sé ekki í samræmi við skipulag og skilmála.  Þrisvar sinnum hafi verið grenndarkynntar tillögur að óverulegum breytingum á deiliskipulagi sem varðað hafi fasteignirnar að Stórakrika 57 og 59, en samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að húsið á lóð nr. 57 sé af Ep-Ia gerð (einnar hæðar, stallað) og nr. 59 af E-Ia gerð (einnar hæðar).  Bæði húsin hafi verið án aukaíbúðar.  Hinn 14. september 2006 hafi verið grenndarkynnt tillaga um að húsgerð beggja húsanna breyttist í E-IIa og aukaíbúðir yrðu heimilar í þeim báðum.  Tillagan hafi verið gerð vegna óska eiganda hússins nr. 59 og í sátt og samráði við eigendur beggja fasteignanna.  Borist hafi athugasemdir frá nágrönnum og hafi niðurstaðan orðið sú að falla frá breytingu á deiliskipulagi varðandi lóð nr. 57, en leita að annarri lausn fyrir lóð nr. 59.  Hinn 14. janúar 2007 hafi verið grenndarkynnt tillaga um breytta húsgerð Stórakrika nr. 59 úr E-Ia í Ep-Ia og hækkun inngangskóta um 20 cm.  Athugasemd hafi borist frá lóðarhafa Stórakrika 57, en breytingin hafi verið samþykkt í bæjarstjórn 28. febrúar 2007 og tekið gildi 10. ágúst s.á.  Hinn 27. ágúst 2009 hafi síðan verið samþykktar teikningar að húsi nr. 59 í samræmi við fyrrgreint.  Hinn 27. mars 2009 hafi og verið grenndarkynnt tillaga um að aukaíbúð yrði heimiluð í húsinu að Stórakrika 57.  Athugasemd hafi borist frá lóðarhafa Stórakrika 59, en breytingin hafi verið samþykkt í bæjarstjórn 10. júní 2009 og tekið gildi 15. júlí s.á.

Kærandi haldi því fram að húsið að Stórakrika 57 sé ekki í samræmi við skipulag og skilmála þar sem það sé tveggja hæða en ekki einnar hæðar „pallahús“, og að sú breyting hafi ekki verið grenndarkynnt.  Rétt sé að ekki hafi farið fram nein grenndarkynning í tengslum við þessa afgreiðslu, enda hafi afgreiðslan byggst á þeirri túlkun að húsið væri innan ramma skilmálanna þar sem hæð þess hafi verið undir leyfðri hámarkshæð.  Hafi í því sambandi verið litið á neðri hæðina sem kjallara, þótt hún væri upp úr jörðu á tvo vegu.  Kjallarar séu heimilir í þessum húsum skv. deiliskipulagi.  Hafi því án vafa verið um rétta og lögmæta meðferð að ræða. 

Að lokum sé vert að vekja á því athygli að norðausturhlið húss kæranda, þ.e. húss nr. 59, sé áþekk norðausturhlið húss nr. 57, þ.e. þeirri hlið sem snúi að kæranda.  Þessar hliðar húsanna rísi fullar tvær hæðir upp úr jörðu en húsið nr. 59 sé þó ekki með íverurými niðri.  Bæði húsin séu enn fremur með sömu skilgreiningu í skipulaginu (Ep-Ia).  Ef nr. 57 sé ekki í samræmi við skilmálana vegna þess að það sé tveggja hæða eins og kærandi haldi fram, þá hittir sú athugasemd einnig kæranda sjálfan fyrir. 

Athugasemdir kæranda vegna málsraka Mosfellsbæjar:  Kærandi bendir á að grenndarkynning sú sem bæjaryfirvöld hafi staðið að sé viðurkenning á því að aukaíbúð feli í sér breytingu á deiliskipulagi, jafnvel þótt því sé haldið því fram að hún sé óveruleg.  Því veki það athygli að því sé haldið fram af bæjaryfirvöldum að hin kærða breyting sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag þar sem í deiliskipulaginu sé kveðið á um að aukaíbúðir, allt að 60 m2, séu heimilar þar sem skipulags- og landfræðilegar aðstæður leyfi.  Í kafla 5.5 í deiliskipulaginu segi að kostur sé á aukaíbúðum allt að 60 m2 í tveggja hæða einbýlishúsum þar sem skipulags- og jarðfræðilegar aðstæður leyfi og séu þær lóðir sérstaklega auðkenndar.  Húsið að Stórakrika 57 sé pallahús á einni hæð samkvæmt deiliskipulagi, auk þess sem hin umdeilda aukaíbúð sé rétt yfir leyfðum stærðarmörkum eða 61 m2.

Mál þetta snúist um að kærandi hafi fest kaup á lóð fyrir einbýlishús og samkvæmt deiliskipulagi hafi samskonar hús átt að vera næst hans húsi.  Þegar einbýlishúsi sé breytt í tveggja íbúða hús hljóti að verða að gera ráð fyrir að íbúum fjölgi, auk þess sem umferð fólks um inngang í íbúð verði aldrei jafnað við tilfallandi nýtingu íbúa einbýlishúss á lóð sinni til útiveru.  Þá skipti máli að aðalverönd fyrir húsið nr. 57 við Stórakrika sé teiknuð við vesturhlið þess, en snúi ekki að húsi kæranda.  Um hreina viðbót á röskun á friði og næði sé því að ræða. 

Það hljóti að teljast undarleg afstaða hjá bæjarfélaginu að kærandi þurfi að sætta sig við frekari röskun á friði og næði frá nágranna sínum vegna þess að lóðin sé staðsett á horni og nálægt umferð.  Umferð fyrir framan húsið geri kæranda ekki réttlausan í sambandi við frið og næði fyrir aftan það, eins og haldið sé fram. 

Furðu veki sá rökstuðningur bæjarins að nýrri íbúð fylgi ekki að fólki í húsinu fjölgi og að nú sé gert ráð fyrir færri íbúum í aðalíbúðinni miðað við áður, enda hafi heildarflatarmál hússins ekki aukist.  Virðist þessi rökstuðningur byggja á því að hluti þeirra íbúa sem áður hafi átt að flytjast í húsið muni nú verða í aukaíbúðinni og að aldrei geti komið til þess að aukaíbúðin verði leigð út til annarra en þeirra sem upphaflega hafi átt að flytjast í húsið.  Þessi rökstuðningur gangi ekki upp, auk þess sem breytt aðgengi inn í húsið feli í sér skerðingu á friði og næði fyrir kæranda óháð því hvort íbúum í aðalíbúðinni fækki eða ekki.  Þá sé ekki samband á milli fjölskyldustærðar hjá eiganda hússins og þess flatarmáls sem hann nýti hverju sinni.  Þessi rökstuðningur samræmist ennfremur illa því skilyrði í deiliskipulagi að gera skuli ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð fyrir hverja aukaíbúð, auk þess sem teikning hússins að Stórakrika 57 geri nú ráð fyrir sorpgeymslu fyrir aukaíbúðina á mörkum lóðanna nr. 57 og 59 fyrir aukaíbúðina og afmörkuðu svæði fyrir útiveru íbúa aukaíbúðarinnar. 

Af hálfu bæjaryfirvalda sé mótmælt þeirri fullyrðingu kæranda að húsið að Stórakrika 57 samræmist ekki deiliskipulagi vegna þess að samþykkt hafi verið teikning að tveggja hæða húsi í stað pallahúss á einni hæð.  Sé kærufrestur varðandi þetta löngu liðinn.  Bæjaryfirvöld sleppi því að geta þess að sá frestur hafi liðið vegna þess að kæranda hafi ekki verið kynnt breytingin lögum samkvæmt.  Þetta atriði skipti kannski mestu máli vegna þess að kærandi hefði ekki sætt sig við þessar breytingar.  Þurfi hann nú að verjast öðrum breytingum varðandi aukaíbúð sem ekki hefðu komið til ef upphafleg breyting á húsinu úr pallahúsi á einni hæð í tveggja hæða hús hefði ekki átt sér stað.  Samhengi hlutanna skipti miklu í þessu sambandi og ein mistök bæjarins réttlæti ekki önnur. 

Í bréfi lögmanns bæjarins séu raktar tillögur sem komið hafi fram um breytingar á húsinu að Stórakrika 57, sem og á húsi kæranda á lóð nr. 59.  Rétt sé að á árinu 2006 hafi verið grenndarkynnt tillaga um að húsin á lóðum nr. 57 og 59 við Stórakrika yrði breytt í húsgerð E-IIa í deiliskipulagi, þ.e. tveggja hæða einbýlishús, og að aukaíbúðir yrðu heimilar í báðum húsum.  Þessum breytingum hafi verið mótmælt af nágrönnum og hafi niðurstaðan orðið sú að falla frá þeim í báðum tilvikum.  Það hljóti því að vekja athygli að bæjaryfirvöld hafi samþykkt teikningu fyrir tveggja hæða húsi á lóð nr. 57 stuttu síðar og á árinu 2009 hafi aukaíbúðin bæst við. 

Bæjaryfirvöld hafi áður haldið því fram að húsið að Stórakrika 57 sé ekki tveggja hæða einbýlishús.  Ljóst sé að það sem máli skipti í þessu sambandi sé að deiliskipulag gerir ráð fyrir að umrætt hús sé pallahús á einni hæð, en byggingarleyfi útgefið af bænum verði ekki skilið öðruvísi en svo að um sé að ræða hús á tveimur hæðum.  Í samræmi við það hafi verið bókað af byggingarfulltrúa að stærð 1. hæðar væri 224,4 m2 og 2. hæðar 224,4 m2.  Af byggingarteikningum hússins sé ljóst að hæðirnar séu jafn stórar og gólf séu hvergi stölluð eins og deiliskipulag geri ráð fyrir.  Þá komi fram í byggingarlýsingu á teikningunni að um sé að ræða einbýlishús á tveimur hæðum. 

Bæjaryfirvöld vísi til þess að byggingarleyfi fyrir húsinu á lóð nr. 57 hafi ekki verið grenndarkynnt enda hafi verið litið svo á að húsið væri innan ramma skilmála deiliskipulags.  Hafi sú afstaða bæjarins ekki síst byggst á því að hæð hússins væri undir hámarkshæð og að neðri hæðin væri kjallari, þó hún væri upp úr jörðu á tvo vegu.  Séu kjallarar leyfilegir í þessum húsum skv. deiliskipulagi og hafi því verið um rétta og lögmæta meðferð að ræða hjá bænum.  Hvað þetta varði bendi kærandi á að húsið sé á tveimur hæðum en ekki einni eins og deiliskipulag geri ráð fyrir og með kjallara sé almennt átt við hæð sem sé að miklu leyti undir yfirborði jarðar.  Það eigi varla við neðri hæðina í húsinu nr. 57.  Í kafla 5.5 í greinargerð deiliskipulagsins komi þessi skilgreining á kjallara einmitt fram, en þar segi að heimilt sé að laga hús að landi með stallaðri gólfplötu, háum sökkli eða kjallara, sem að miklu leyti sé niðurgrafinn.  Í byggingarlýsingu á teikningu og bókun byggingarfulltrúa við útgáfu á byggingarleyfi sé auk þess hvergi minnst á kjallara.  Þá sé hæð hússins yfir lágmarkshæð miðað við mælingar sem kærandi hafi látið gera á húsinu.  Sé fullyrðingu um annað mótmælt. 

Undarlegur sé rökstuðningur bæjarins sem virðist ganga út á að hús kæranda kunni að vera í ósamræmi við deiliskipulag.  Sé með ólíkindum að farið sé út í þessa sálma, enda því í raun haldið fram að hafi bærinn gert mistök við útgáfu byggingarleyfis fyrir hús á lóð nr. 57 hafi samskonar mistök verið gerð af hálfu bæjarins við útgáfu byggingarleyfis fyrir hús á lóð nr. 59.  Allt tal um að þessar athugasemdir hitti því einnig kæranda sjálfan fyrir verði að teljast með ólíkindum, en hér kunni hins vegar að vera um atriði að ræða sem gæti skipt máli varðandi hugsanlega skaðabótaskyldu bæjarins vegna ólögmætra byggingarleyfa. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er áréttað að Mosfellsbær hafi í hvívetna farið að lögum við meðferð málsins.  Samþykktar breytingar hafi verið vel innan þeirra marka sem kærandi og aðrir eigendur lóða í þéttbýli megi búast við í nágrenni sínu.  Málið snúist um rétt lóðarhafa til að fá að nýta eign sína án þess að skert séu raunveruleg réttindi þriðja aðila. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 29. apríl 2011. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 10. júní 2009 um breytt deiliskipulag Krikahverfis vegna lóðarinnar nr. 57 við Stórakrika, er fól í sér heimild til að hafa tvær íbúðir í húsinu. 

Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag Krikahverfis frá árinu 2005.  Skiptist svæðið í miðsvæði og íbúðarsvæði en gróðursvæði er þar á milli.  Á íbúðarsvæðinu er gert ráð fyrir fjölbýlis-, rað-, par- og einbýlishúsum.  Í kafla 5.5 í greinargerð deiliskipulagsins, sem hefur að geyma sérákvæði um einbýlishús, segir m.a. að heimilt sé að laga hús að landi með stallaðri gólfplötu, háum sökkli eða kjallara sem að miklu leyti sé niðurgrafinn.  Auk þess sé kostur á aukaíbúðum, allt að 60 m² að stærð, í tveggja hæða einbýlishúsum þar sem skipulags- og jarðfræðilegar aðstæður leyfi.  Þær lóðir séu sérstaklega auðkenndar á skipulagsuppdrætti.  Þá er í skipulaginu gerð sérstök grein fyrir því hvaða húsgerð sé heimiluð á hverri lóð fyrir sig. 

Á gildandi skipulagsuppdrætti er lóðin að Stórakrika 57 auðkennd sem lóð fyrir einnar hæðar einbýlishús á pöllum.  Á árinu 2007 var veitt byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóðinni, en hafna verður þeirri túlkun Mosfellsbæjar að neðri hæð hússins sé kjallari, sbr. gr. 4.25 í byggingarreglugerð nr. 441/1997.  Hefur sú ákvörðun ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar og kemur hún ekki til endurskoðunar í máli þessu.  Við byggingu hússins var í veigamiklum atriðum vikið frá samþykktum aðaluppdráttum og húsið m.a. byggt með þremur útgöngum út á norðurhluta lóðar, sem hvorki samræmist samþykktum aðaluppdráttum að húsinu né byggingarleyfi þess.  Breytir þar engu um þótt gluggateikningar hafi verið áritaðar af  starfsmanni byggingarfulltrúa.

Með hinni kærðu ákvörðun var sú breyting gerð á deiliskipulagi svæðisins að heimiluð var aukaíbúð á neðri hæð í húsinu að Stórakrika 57.  Var sú breyting sett fram á uppdrætti með því að auðkenna lóðina með stjörnu, sem á skipulagsuppdrætti er tákn fyrir lóðir þar sem aukaíbúðir eru heimilaðar.  Engin breyting var hins vegar gerð á skilmálum skipulagsins eða skilgreiningu húsgerðar að Stórakrika 57. 

Við afgreiðslu á athugasemdum varðandi hina umdeildu skipulagstillögu bókaði skipulags- og byggingarnefnd að á samþykktum teikningum að Stórakrika 57 væri gert ráð fyrir íveruherbergjum við norðausturhlið með stórum gluggum og útgöngum úr hverju herbergi á lóð.  Í breytingartillögu fælist að á þessari hlið yrði inngangur í aukaíbúð.  Taldi nefndin að breytingin hefði ekki í för með sér umtalsverða röskun á friði og næði á lóð nr. 59 umfram það sem gera hefði mátt ráð fyrir miðað við samþykktar teikningar. 

Eins og að framan er rakið eru þeir stóru gluggar með útgöngum á lóð, sem skipulags- og byggingarnefnd tilgreinir í bókun sinni, ekki sýndir á samþykktum aðaluppdráttum að Stórakrika 57.  Er ályktun nefndarinnar í málinu því byggð á röngum forsendum og telur úrskurðarnefndin að það hefði getað haft áhrif á niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar í málinu ef fyrir henni hefði legið hvernig atvikum var háttað í raun.  Þá var sá ágalli á samþykkt bæjarstjórnar hinn 10. júní 2009 að aðeins var þar staðfest afgreiðsla 254. fundar skipulags- og byggingarnefndar á málinu en í þeirri afgreiðslu  fólst ekki annað en tillaga um að umrædd skipulagsbreyting yrði samþykkt.  Telur úrskurðarnefndin að í ljósi þess að skipulagsnefndum var ekki falið vald til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, hefði bæjarstjórn þurft að samþykkja skipulagstillöguna sjálfa í stað þess að staðfesta aðeins afgreiðslu nefndarinnar á málinu. 

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar svo verulega áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.  Þá þurfti úrskurðarnefndin að hafa frumkvæði að frekari gagnaöflun í málinu til að það teldist nægilega upplýst og olli það enn frekari töfum á meðferð þess. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 10. júní 2009 um breytt deiliskipulag Krikahverfis vegna lóðarinnar nr. 57 við Stórakrika í Mosfellsbæ. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson