Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2010 Laufásvegur.

Með

Ár 2011, þriðjudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 19/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. febrúar 2010 um að eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn frestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Gunnar Ingi Jóhannsson hdl., f.h. V ehf., eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. febrúar 2010 að gefa eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68 frest að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Verði þeirri kröfu hafnað er sú krafa gerð að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felli niður dagsektir sem kunni að vera áfallnar við uppkvaðningu úrskurðar og leggi fyrir borgarráð að mæla fyrir um nýjan frest í málinu og tilkynna kæranda um hann með sannanlegum hætti. 

Til vara er þess krafist, verði ofangreindum kröfum hafnað, að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað til uppkvaðningar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar.

Málavextir:  Eigandi Laufásvegar 68 sótti um breytingu á deiliskipulagi vegna fasteignarinnar með skipulagstillögu, dags. 28. október 2006.  Tillagan var grenndarkynnt og hlaut í kjölfarið staðfestingu borgarráðs.  Var breytingin auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. janúar 2007.  Á grundvelli breytts deiliskipulags var sótt um byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Byggingarleyfisumsóknin var tekin til umfjöllunar í skipulagsráði hinn 21. mars 2007 og hlaut þar samþykki.  Fól samþykktin í sér leyfi til þess að byggja við Laufásveg 68 anddyri við 1. hæð norðurhliðar, stækka nýsamþykktar svalir við suðurhlið 1. hæðar, með geymslurými þar undir, koma fyrir heitum potti á stækkuðum svölum, breyta gluggum og bæta við glugga á 1. hæð norðurhliðar.  Þá voru samþykktar leiðréttar teikningar og breytt stærð bílskúrs á lóðinni.  Af uppdráttum verður ráðið að einnig hafi verið samþykktar tröppur af svölum við suðurhlið niður á suðurhluta lóðar, þótt þess sé ekki getið í bókun. 

Með bréfi lóðarhafa að Smáragötu 11 til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 5. desember 2007, var óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um leyfi til framkvæmda á lóðinni að Laufásvegi 68.  Var krafist stöðvunar framkvæmda sem færu út fyrir veitt byggingarleyfi og að ólögmæt mannvirki yrðu fjarlægð.  Voru kröfur þessar ítrekaðar með bréfum, dags. 21. febrúar og 11. apríl 2008. 

Hinn 23. apríl 2008 barst skipulags- og byggingarsviði bréf umboðsmanns Alþingis þar sem hann óskaði upplýsinga um hvað liði svörum eða öðrum viðbrögðum sviðsins við erindi eigenda Smáragötu 11.  Ritaði byggingarfulltrúa sama dag bréf til eigenda Smáragötu 11, þar sem tilkynnt var að byggingarleyfishafi yrði krafinn skýringa á málinu.  Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. apríl s.á., var greint frá því að embættinu hefði borist ábending um að ekki hefði verið farið eftir samþykktum aðaluppdráttum lóðarinnar og að við skoðun hefðu komið í ljós ýmis atriði sem væru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Var þess krafist að kærandi gæfi nákvæma lýsingu á öllum þeim atriðum sem ekki væru í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og var honum veittur 14 daga frestur til þess. 

Í svari byggingarstjóra til byggingarfulltrúa, dags. 9. maí 2008, var vikið að nokkrum atriðum sem ábendingar embættisins kynnu að eiga við um en áréttað að endurbótum væri ekki lokið og ekki komið að lokaúttekt.  Unnið væri að því að fá samþykki eigenda aðliggjandi fasteignar vegna breyttrar hæðarlegu lóðar og að gerðar yrðu ráðstafanir fengist það ekki. 

Með bréfi lögmanns kæranda til skipulags- og byggingarsviðs, dags. 14. maí 2008, var svo greint frá því að kærandi gæti með engu móti gert sér grein fyrir hvaða atriði það væru sem ekki væru í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. 

Hinn 28. maí 2008 fór byggingarfulltrúi í vettvangsskoðun og lagði í kjölfarið fram bréf til skipulagsráðs, dags. 12. júní 2008, þar sem tilgreint var hvað hefði komið fram við skoðunina ásamt tillögum að meðferð málsins.  Þar kom fram að utan byggingarreits hefði verið byggð útigeymsla og verönd útbúin á þaki hennar.  Jafnframt virtist hæðarlegu allrar suðurlóðar hússins hafa verið raskað með óleyfilegri hækkun og tröppuvirki, sem tengdi nefnda verönd, og að lóð væri ekki eins og á aðaluppdráttum vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefði á lóðinni.  Í bréfi byggingarfulltrúa var einnig vísað til þess að ábendingar vegna málsins hefðu borist frá lóðarhöfum og eigendum Smáragötu 11. 

Með bréfi byggingarfulltrúa til eiganda Laufásvegar 68, dags. 11. júlí 2008, var tilkynnt að skipulagsráð hefði falið byggingarfulltrúa að óska eftir skýringum og afstöðu lóðarhafa að Laufásvegi 68 vegna fyrirætlana byggingaryfirvalda um að krefjast niðurrifs á ólögmætum mannvirkjum á lóðinni.  Bréfinu var ekki svarað og var send ítrekun 13. október 2008 og þar tilkynnt um áform embættisins.  Sagði þar m.a:  „Embætti byggingarfulltrúa áformar því að leggja fyrir skipulagsráð tillögu byggða á ákv. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þess efnis að gefa yður tímafrest að viðlögðum dagsektum til þess að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til þess horfs sem sýnt er á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007, hér er átt við óleyfishækkun lóðar og breytingum á tröppuvirki.“ 

Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 7. nóvember 2008, var fyrirhuguðum áformum mótmælt og var því bréfi svarað með bréfi skipulags- og byggingarsviðs hinn 25. nóvember s.á. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. febrúar 2009 var lögð fram umsókn kæranda um leyfi til að breyta hæðarlegu í suðvesturhorni lóðarinnar, færa heitan pott í garði og bæta dyrum á bílgeymslu einbýlishúss á lóðinni nr. 68 við Laufásveg.  Var málinu frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 6. mars 2009 var erindinu frestað og bókun lögð fram þess efnis að umsækjandi skyldi leggja fram samþykki lóðarhafa Smáragötu 11.  Með bréfi kæranda til skipulags- og byggingarsviðs, dags. 19. mars 2009, var óskað eftir fresti til 1. apríl s.á. til að afla samþykkis lóðarhafa Smáragötu 11 fyrir breytingu á hæðarlegu lóðar. 

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 9. desember 2009, var honum veittur 14 daga frestur til að andmæla áformum byggingaryfirvalda um að beita þvingunarúrræðum í málinu.  Sagði m.a. eftirfarandi í bréfinu:  „Þann 28. apríl 2009 var synjað byggingarleyfisumsókn yðar nr. BN039427, þar sem sótt var um byggingarleyfi fyrir ýmsum óleyfisframkvæmdum á lóð nr. 68 við Laufásveg.  Byggðist synjunin á því að byggt var út fyrir þær heimildir sem fram koma í deiliskipulagi svæðisins.  Áður eða þann 13. október 2008 hafði yður verið kynnt tillaga um að gefa yður tímafrest að viðlögðum dagsektum til þess að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til þess horfs sem sýnt er á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007.  Engin viðbrögð hafa orðið af yðar hálfu til þess að koma fyrirkomulagi mannvirkja og lóð til samræmist við ívitnaða aðaluppdrætti.  Embætti byggingarfulltrúa áformar því að leggja fyrir skipulagsráð tillögu byggða á ákv. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þess efnis að gefa yður tímafrest að viðlögðum dagsektum til þess að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til þess horfs sem sýnt er á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007, hér er átt við óleyfishækkun lóðar og breytingum á tröppuvirki.  Jafnframt verði útigeymsla sem staðsett er utan gildandi deiliskipulags fjarlægð.  Tímafrestur til þess að vinna verkin verði gefinn 70 dagar frá móttöku tilkynningar þar að lútandi og upphæð dagsekta, verði tímafrestur ekki virtur, 25.000 kr. fyrir hvern dag sem það kann að dragast að vinna verkin.  Dagsektir og kostnaður verði innheimt sbr. ákvæði 57 gr. fyrrnefndra laga.  Með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er yður hér með gefinn 14 daga tímafrestur frá móttöku bréfs þessa til þess að tjá yður um málið.  Að tímafresti liðnum verður tillagan lögð fyrir skipulagsráð Reykjavíkur til ákvörðunar.“ 

Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 22. desember 2009, var framangreindum áformum byggingarfulltrúa mótmælt.  Er í bréfinu vikið að þeim meintu óleyfisframkvæmdum sem fjallað er um í bréfi byggingarfulltrúa frá 9. desember s.á. og viðhorfum kæranda lýst til hvers þessara atriða fyrir sig. 

Á fundi skipulagsráðs 3. febrúar 2010 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2010, þar sem sagði m.a. eftirfarandi:  „Byggingarfulltrúi ályktar að málið sé fullrannsakað og staðreyndir þess liggi fyrir.  Í því ljósi er sú tillaga sem fram kemur í bréfi byggingarfulltrúa dags. 9. desember 2009 hér með lögð fyrir skipulagsráð og lagt til að ráðið samþykki tillöguna og vísi henni til meðferðar borgarráðs sbr. ákv. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 73/1997.“  Bókaði skipulagsráð eftirfarandi af þessu tilefni:  „Laufásvegur 68, bréf byggingarfulltrúa.  Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 1. febrúar 2010, varðar lóð nr. 68 við Laufásveg.  Bréfinu fylgir afrit af bréfi dags. 9. desember 2009, bréfi dags. 22. desember 2009, bréfi dags. 22 desember 2009 og bréfi dags. 5. janúar 2010. Bréf byggingarfulltrúa samþykkt.  Vísað til borgarráðs.“  Á fundi borgarráðs 4. febrúar 2010 var eftirfarandi bókað undir lið 3.  „Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 3. febrúar. R10010027. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur“.  Á fundi skipulagsráðs 10. febrúar 2010 var bókað undir lið 20.  „Laufásvegur 68, bréf byggingarfulltrúa (01.197.207) Mál nr. BN041009
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 1. febrúar 2010, varðar lóð nr. 68 við Laufásveg. Bréfinu fylgir afrit af bréfi dags. 9. desember 2009, bréfi dags. 22. desember 2009, bréfi dags. 22 desember 2009 og bréfi dags. 5. janúar 2010.
Bréf byggingarfulltrúa samþykkt“.  Á fundi borgarráðs 11. febrúar 2010 var enn bókað undir lið 3:  „Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 10. febrúar. R10010027 B-hluti fundargerðarinnar samþykktur“. Á fundi borgarráðs 18. febrúar 2010 var eftirfarandi loks bókað:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að eigendum fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn tímafrestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. R10020045.  Samþykkt.“

Hinn 1. mars 2010 ritaði byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem honum var tilkynnt að á fundi borgarráðs 18. febrúar s.á. hefði verið samþykkt tillaga sem honum hefði áður verið kynnt með bréfi, dags. 9. desember 2009.  Samþykkt hafi verið að gefa honum 70 daga frest frá móttöku bréfsins til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðar að Laufásvegi 68 til þess horfs sem sýnt sé á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007 og jafnframt að fjarlægja útigeymslu sem staðsett sé utan byggingarreits í samþykktu deiliskipulagi.  Jafnframt hafi verið samþykkt að yrði frestur ekki virtur yrði beitt dagsektum, 25.000 krónur á hvern dag sem það kynni að dragast að vinna verkið.  Í lok bréfsins var kæranda leiðbeint um málskotsrétt. 

Skaut kærandi áðurnefndri ákvörðun borgarráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að meðferð máls þessa af hálfu borgaryfirvalda hafi verið ólögmæt og með eindæmum ósanngjörn fyrir hann.  Málið virðist hafa hafist með bréfi eigenda Smáragötu 11, dags. 5. desember 2007, þar sem kvartað hafi verið undan ýmsum atriðum sem ekki hafi átt við rök að styðjast og verulegar rangfærslur settar fram um staðreyndir.  Kærandi hafi ekki verið upplýstur um þetta erindi fyrr en með bréfi, dags. 12. júní 2008, en þá hafi verið liðið ár frá lokum framkvæmda.  Þá fyrst hafi kærandi gert sér grein fyrir að borgaryfirvöldum hefðu borist kvartanir á umliðnum mánuðum.  Þegar lóðarhafar Smáragötu 11 hafi hótað borgaryfirvöldum með umboðsmanni Alþingis hafi verið farið af stað með miklum látum gegn kæranda og þess krafist að hann rannsakaði og upplýsti málið sjálfur og léti borgaryfirvöld vita hvaða mannvirki á lóðinni væru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Í kjölfarið hafi verið ákveðið að endurupptaka eða breyta þeirri stjórnvaldsákvörðun sem tekin hefði verið um að samþykkja teikningar kæranda og veita honum leyfi fyrir mannvirkjunum.  Telji kærandi að engin lagaskilyrði séu fyrir hendi sem réttlæti slíkt og að sú málsmeðferð sem viðhöfð hafi verið standist ekki lög.

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar brjóti í nokkrum grundvallaratriðum gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Þannig byggi ákvörðunin einungis á fullyrðingum byggingaryfirvalda, sem engin gögn styðji.  Ákvörðunin brjóti og gegn rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga.  Séu til gögn um málið sem ákvörðunin byggi á og styðji málatilbúnað byggingaryfirvalda sé ljóst að andmælaréttur kæranda hafi gróflega verið brotinn enda hafi kærandi engin slík gögn fengið að sjá, þrátt fyrir beiðnir um að fá öll gögn málsins.  Þá sé hin kærða ákvörðun ekki í neinu samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf.  Hún sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda og feli í sér milljónatjón standi hún óhögguð.  Ekki geti talist réttlætanlegt að taka slíka íþyngjandi ákvörðun til að ná fram léttvægum hagsmunum eigenda Smáragötu 11, einkum þar sem túlkun byggingaryfirvalda um efnisatriði málsins byggi á hæpnum forsendum.  Meðferð málsins hafi tekið tæp þrjú ár hjá borgaryfirvöldum og kærandi hafi ekki verið upplýstur um málið fyrr en löngu eftir að það hafi verið hafið.  Sé því ljóst að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn réttindum kæranda í grundvallaratriðum. 

Sérstaklega sé athugavert að þegar kærandi hafi gert tilraun til að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim atriðum sem að mati byggingaryfirvalda hafi verið talin óleyfisframkvæmd hafi umsókninni verið hafnað á þeim forsendum að samþykki lóðareigenda Smáragötu 11 lægi ekki fyrir.  Kærandi bendi á að hann hafi ekki fengið upplýsingar um það hvaða lagarök lægju til grundvallar þeirri forsendu að samþykki lóðarhafa að Smáragötu 11 þyrfti að liggja fyrir áður en málið fengi frekari framgang, enda sé um að ræða framkvæmdir sem að öllu leyti séu innan lóðar kæranda.  Benda megi á fyrirliggjandi gögn um að lóðareigendur Smáragötu 11 telji sig vel geta sætt sig við hin umdeildu atriði.  Bréf þeirra frá 5. desember 2007 sé uppfullt af rangfærslum og fráleitum fullyrðingum, t.d. um að framkvæmdir á lóð kæranda komi í veg fyrir stækkun hússins að Smáragötu 11 til norðurs.  Kærandi telji að byggingaryfirvöld hafi gert sér far um að leggja stein í götu hans að tilefnislausu og sé hin kærða ákvörðun því byggð á annarlegum og ómálefnalegum forsendum. 

Hvað varði efni hinnar kærðu ákvörðunar þá sé mótmælt öllu því sem borgaryfirvöld hafi fært fram er lúti að verönd og svokallaðri geymslu á 1. hæð hússins við suðurhlið.  Staðreynd málsins sé sú að á samþykktum aðaluppdráttum hússins sé verönd sýnd með sama hætti og hún hafi verið frá því hún hafi verið byggð.  Á uppdráttunum sé breytingarlýsing þar sem fram komi að meðal þess sem sótt sé um séu „… steyptar svalir stækkaðar á 1. hæð (með geymslurými undir)“.  Bæði embætti byggingarfulltrúa og skipulags- og byggingarsvið borgarinnar hafi haldið því fram að „vangá“ byggingarfulltrúa hafi valdið samþykki skipulagsráðs og byggingarfulltrúa á umsókninni, þ.e. því hafi ekki verið veitt eftirtekt að rými væri undir svölunum.  Þrátt fyrir þessa fullyrðingu sé sérstaklega bókað í fundargerð byggingarfulltrúa við meðferð umsóknarinnar að sótt sé um „… að stækka nýsamþykktar svalir með geymslurými undir við suðurhlið 1. hæðar“.  Það stoði því ekki að borgaryfirvöld haldi því fram, líkt og gert sé í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 12. júní 2010, að þetta hafi farið framhjá starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs, eða hafi verið vangá, líkt og komi fram í bréfi lögmanns borgarinnar, dags. 25. nóvember 2008.  Sú vangá geti að minnsta kosti ekki verið á ábyrgð kæranda.  Kærandi telji að byggingaryfirvöld hafi augljóslega verið að fullu meðvituð um að verið væri að samþykkja verönd sem þannig væri úr garði gerð að undir henni væri holrými.  Ekki hafi undir nokkrum kringumstæðum vakað fyrir kæranda að sækja eingöngu um geymslu og nýta þak hennar sem verönd, enda hafi umsókn hans um byggingarleyfi ekki verið þannig úr garði gerð. 

Þrátt fyrir framangreint komi fram í bréfi byggingarfulltrúa til skipulagsráðs, dags. 12. júní 2008, að mat hans sé það að utan byggingarreits hafi verið byggð útigeymsla og á þaki geymslunnar hafi verið byggð verönd í sömu hæð og gólf á 1. hæð hússins.  Með þessu sé öllum staðreyndum snúið á hvolf á þann hátt að í stað þess að um sé að ræða verönd, líkt og kærandi hafi sótt um og sýnd sé á samþykktum uppdráttum, hafi að mati byggingarfulltrúa verið byggð útigeymsla og verönd verið útbúin á þaki hennar.  Kærandi telji þetta mat byggingarfulltrúans ekki standast neina skoðun og sé alls ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Það holrými sem sé undir samþykktum svölum hússins nýti kærandi ekki á nokkurn hátt og sé lokað rými.  Ekki sé innangengt í það rými úr húsinu og teljist það því tæpast vera geymsla. 

Að mati kæranda hvíli á borgaryfirvöldum sönnunarbyrði fyrir því að það holrými sem sé undir samþykktri og teiknaðri verönd, sbr. aðaluppdrætti, sé í raun útigeymsla með verönd á þakinu en ekki verönd með holrými undir.  Borgaryfirvöld hafi hins vegar á engan hátt rökstutt þessa skoðun sína.  Kærandi bendi á og ítreki að umsókn hans hafi lotið að stækkun svala á suðurhlið hússins og að framkvæmdin sé í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti eins og hún sé úr garði gerð.  Kærandi byggi á því að svalirnar, eins og þær séu úr garði gerðar, stangist ekki á við gildandi deiliskipulag, enda sé fullkomlega heimilt að sækja um og stækka svalir með þeim hætti sem gert hafi verið.  Svalirnar séu ekki óleyfisframkvæmd og ákvörðun borgarráðs um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja þær á þeim grundvelli að þær séu útigeymsla sé ólögmæt.  Beri þess vegna að fella ákvörðunina úr gildi. 

Því sé einnig mótmælt sem fram komi í ákvörðun borgarráðs um meinta óleyfishækkun lóðarinnar.  Því sé ekki mótmælt að lóðin hafi verið hækkuð lítið eitt í suðvesturhorni hennar.  Hins vegar sé því alfarið mótmælt sem röngu að allur suðurhluti lóðarinnar hafi verið hækkaður eins og fullyrt sé í bréfi byggingarfulltrúa til skipulagsráðs, dags. 12. júní 2008.  Hin kærða ákvörðun borgarráðs virðist hvíla á þessum ósannindum.  Því sé einnig mótmælt að hæðarlegu lóðar hafi verið breytt frá samþykktum aðaluppdráttum.  Sá hluti suðurlóðarinnar standi 50 cm hærra en áður og geri það vegna þess að hann sé steinsteyptur eins og ráð sé fyrir gert á samþykktum aðaluppdráttum.  Á samþykktum aðaluppdráttum sé umræddur hluti reyndar sýndur hellulagður og sérstaklega merktur þannig.  Hafi því óveruleg breyting orðið frá samþykktum aðaluppdráttum hvað varði það efni sem þeki umræddan lóðarhluta, en ávallt hafi verið gert ráð fyrir að þessi hluti væri þakinn með steyptu efni. 

Kærandi geti ekki fallist á að umrædd hækkun lóðarinnar sé ólögmæt.  Hin kærða ákvörðun byggi á því að suðvesturhorn lóðarinnar hafi verið hækkað umfram það sem sé leyfilegt.  Kærandi bendi hins vegar á að engin fyrirmæli séu um það í byggingarreglugerð eða annars staðar hver þau mörk séu sem kalli á útgáfu sérstaks leyfis fyrir framkvæmdinni.  Umrædd hækkun sé mjög afmörkuð og óveruleg og byggi kærandi á því að hann hafi ekki þurft sérstakt leyfi til hennar.  Bent sé á að engir hæðarkótar mæli fyrir um hæðarlegu lóðarinnar.  Því sé í raun ómögulegt fyrir borgaryfirvöld að byggja á því að lóðin sé ekki í réttri hæð, enda sé „rétt hæð“ lóðarinnar ekki til, hvorki samkvæmt gildandi deiliskipulagi eða samþykktum uppdráttum. 

Hæðarbreyting í horni lóðarinnar sé það óveruleg að langur vegur sé frá því að hún teljist byggingar- eða framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd.  Embætti byggingarfulltrúa hafi engar mælingar framkvæmt á lóðinni við skoðun og hafi ekkert fyrir sér í því um hvaða hæðarbreytingar sé að ræða.  Því sé engu að síður slegið fram í bréfum embættisins að hækkunin nemi allt að einum metra.  Sé sú fullyrðing fráleit.  Sömuleiðis sé fráleit og ósönn sú fullyrðing byggingarfulltrúa að allur suðurhluti lóðarinnar hafi verið hækkaður.  Hæð lóðarinnar sé hin sama og áður.  Byggingarfulltrúi hefði getað gengið úr skugga um þetta með því að skoða ummerki á hinum steinsteypta vegg lóðarinnar og þá séð strax að lóðin sé í dag jafnhá og hún hafi verið fyrir.  Byggingarfulltrúi hafi hins vegar kosið að gera þetta ekki heldur rita bréf til skipulagsráðs þess efnis að líklega væri rétt að álykta, gegn neitun kæranda, að lóðin hafi verið hækkuð sem einhverju nemi.  Þessi ályktun byggingarfulltrúa sé með öllu órökstudd og ósönn.  Á slíkum ósönnum og órökstuddum fullyrðingum hvíli hin kærða ákvörðun, sem meðal annars valdi því að hún sé ólögmæt. 

Umrædd breyting á hæð lóðarinnar í horni garðsins sé að öllu leyti innan lóðar hans og hafi engin grenndaráhrif hvað eigendur Smáragötu 11 varði eða aðra nágranna.  Sérstaklega sé vísað til bréfaskrifa eigenda Smáragötu 11, sem hafi tekið það fram að fyrir þeim sé þessi framkvæmd aukaatriði og trufli þá ekki heldur sé veggur á lóðamörkum aðalatriðið.  Þetta megi m.a. ráð af tölvubréfi annars þeirra til kæranda hinn 26. maí 2010 þar sem segi orðrétt:  „Málið snýst að okkar mati fyrst og fremst um það hvernig frágangi á lóðamörkum verði háttað til að við [H] getum sætt okkur við óleyfilegar framkvæmdir ykkar megin.“  Umrædd hæðarbreyting sé óveruleg en hafi í för með sér að tröppuvirkið sem tengi svalirnar á húsi kæranda við garðinn sé minna í sniðum en ella væri þar sem tröppum í því hafi fækkað um ca. þrjár.  Mat byggingarfulltrúa og skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar, sem hin kærða ákvörðun hvíli á, sé sú að þar sem færri tröppur séu í tröppuvirkinu, og það sé minna í sniðum en ella, sé um óleyfisframkvæmd að ræða. 

Kærandi mótmæli þeim sjónarmiðum sem hin kærða ákvörðun hvíli á.  Hann telji að heimilt hafi verið að hafa tröppuvirki á þeim stað sem samþykktir aðaluppdrættir sýni og þann fjölda trappa sem þar sé sýndur.  Hins vegar hafi kæranda verið fullkomlega heimilt að byggja ekki tröppuvirkið að fullu. Það sé honum í sjálfsvald sett hvort hann nýti þá heimild að fullu sem samþykkt hafi verið. 

Bent sé á að minna tröppuvirki hafi í för með sér minni grenndaráhrif.  Vísað sé til bréfa eigenda Smáragötu 11, sem telji þetta atriði sig engu skipta.  Kærandi telji að þegar litið sé til þess hversu smávægilegt atriði sé um að ræða, og að fyrir liggi skrifleg yfirlýsing eigenda Smáragötu 11 um að þetta atriði skipti þá engu, beri að hafna þeirri ákvörðun borgarráðs að kæranda verði gert að bæta við þeim þremur tröppum sem talið sé að vanti neðst á tröppuvirkið.  Slík niðurstaða væri í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. 

Kærandi telji með ólíkindum hvernig einn lóðareigandi virðist geta þrýst á borgaryfirvöld um að beita þvingunarúrræðum í annarlegum tilgangi, til að knýja fram að kærandi leggi í framkvæmdir sem ekki sé deilt um í málinu, þ.e. að endurbyggja steinvegg sem ekki komi málinu við að neinu leyti.  Þvingunarúrræði þessi séu borgaryfirvöldum fengin með lögum til að beita í þágu almannahagsmuna.  Engir slíkir hagsmunir séu á ferðinni í þessu máli.  Það sé raunar þannig vaxið að þau meintu óleyfismannvirki sem málið lúti að snerti á engan hátt hagsmuni eigenda Smáragötu 11.  Þau hafi hvorki áþreifanleg né sjónræn áhrif á hagsmuni þessara aðila né nokkurra annarra og því séu engir grenndarhagsmunir í húfi í málinu sem réttlæti ákvörðun borgaryfirvalda.  Áréttað sé að eigendur Smáragötu 11 hafi ítrekað lýst því yfir að þeir sætti sig við þau mannvirki sem reist hafi verið, en þeirra markmið sé að knýja fram nýjan steinvegg milli garðanna. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að fullyrðing kæranda þess efnis að honum hafi ekki verið kunnugt um aðfinnslur lóðarhafa Smáragötu 11 fyrr en með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 12. júní 2008, standist ekki neina skoðun.  Ljóst sé að kæranda hafi verið kunnugt um kvörtun eigenda Smáragötu 11 hinn 5. maí 2008, sbr. birtingarvottorð, dags. þann dag, en þá hafi honum verið birt bréf byggingarfulltrúa, dags. 28. apríl 2008, og honum veittur frestur til andmæla.  Hafi lögmaður kæranda sent byggingarfulltrúa bréf, dags. 14. maí 2008, sem svar við bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. apríl s.á. 

Kærandi hafi sjálfur kosið að upplýsa ekki hvaða atriði það væru sem ekki væru í samræmi við samþykkta uppdrætti og hafi lagt þá vinnu á herðar byggingarfulltrúa.  Í því sambandi sé minnt sérstaklega á 32. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem segi að byggingarstjóri beri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.  Með bréfi, dags. 11. júlí 2008, hafi kæranda einnig verið veittur 18 daga frestur til að tjá sig um bréf skipulags- og byggingarsviðs, dags. 12. júní s.á, en í bréfinu hafi verið lagt til að skipulagsráð fæli byggingarfulltrúa að óska eftir skýringum og afstöðu kæranda til fyrirætlana skipulagsráðs um að krefjast niðurrifs ólögmætra mannvirkja á lóðinni og að þeim fengnum yrði málið lagt fyrir skipulagsráð að nýju.  Þá hafi kæranda verið sent bréf skipulags- og byggingarsviðs til skipulagsráðs, dags. 12. júní 2008, þar sem öll efnisatriði málsins hafi komið fram og hann þar með upplýstur um hvaða framkvæmdir væri um að tefla sem teldust ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti.  Það sé því mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð borgaryfirvalda hafi í einu og öllu verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt. 

Þá sé það beinlínis rangt hjá kæranda að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin.  Mál þetta hafi þvert á móti verið rannsakað í þaula af byggingaryfirvöldum, m.a. með tveimur vettvangsrannsóknum byggingarfulltrúa, hinn 21. og 28. maí 2008, þar sem staðreynd hafi verið þau atriði sem ekki hafi þótt vera í samræmi við samþykkta uppdrætti.  Sérstaklega sé vísað til bréfs skipulags- og byggingarsviðs, dags. 12. júní 2008, þar sem skýrt komi fram þau atriði sem í ljós hafi komið við vettvangsskoðun, en í bréfinu segi m.a:  „1. Út fyrir byggingarreit deiliskipulags hefur verið byggð útigeymsla 0002, brúttóflötur 32,2 ferm. Gengur þessi geymsla 4 m út úr byggingarreit. Á þaki geymslunnar og samfellt að húsi er verönd í sömu hæð og gólf 1. hæðar hússins. 2. Í stað þess að útitröppum af verönd var ætlað að tengjast yfirborði lóðarinnar hefur lóðaryfirborð verið hækkað á u.þ.b. 47 ferm svæði þannig að steypt plata liggur nú ofan á lóðarvegg milli Laufásvegar 68 og Smáragötu 11. Er ætluð hækkun u.þ.b. 1 m. Þrátt fyrir neitun eigenda verður ekki annað ráðið af uppdráttum en hæðarlega allrar suðurlóðar hússins hafi verið raskað. Sjá snið A-A á uppdrætti 10-02. 3. Ekki var annað að sjá en stærðir á bílgeymslu séu í samræmi við ákv. deiliskipulags en þar er ekki getið um hæð hennar eða hæðarsetningu.“  Útigeymsla sé því öll utan byggingarreits og tröppuvirki sé í reynd átta tröppur en ekki þrettán eins og samþykktir uppdrættir beri með sér.  Ástæða þess að tröppum hafi fækkað svo sé augljós, þ.e. lóðin hafi verið hækkuð það mikið að ekki sé lengur þörf á þrettán tröppum.  Hafi hækkun lóðarinnar numið fimm tröppum eða sem nemi um einum metra.  Engum blöðum sé um það að fletta að hækkun lóðar og breyting á tröppuvirki sé hrein óleyfisframkvæmd. 

Því sé einnig mótmælt að réttur til andmæla hafi verið brotinn á kæranda.  Þvert á móti hafi hann fengið alla fresti sem óskað hafi verið eftir til að koma að sjónarmiðum sínum og öll gögn hafi verið kæranda aðgengileg.  Sé vandséð hvað kærandi eigi við með fullyrðingu sinni um að hann hafi ekki fengið gögn um málið þrátt fyrir óskir þar að lútandi.  Í gögnum málsins sé ekki að finna ósk frá kæranda um að fá gögn þess send, en embættið hefði að sjálfssögðu sent kæranda þau gögn sem hann hefði viljað fá.  Á það sé þó bent að aðalgögn málsins séu uppdrættir, samþykktir 21. mars 2007, sem stafi frá kæranda sjálfum.  Kæranda hafi ætíð verið haldið upplýstum og honum gerð grein fyrir því í smáatriðum hvaða aðfinnslur Reykjavíkurborg hefði uppi við framkvæmdir hans á lóðinni.  Hafi honum verið gefinn kostur á að svara þeim, bæði bréflega og á fundi með byggingarfulltrúa og lögfræðingi lögfræði- og stjórnsýslu.  Sé því vandséð hvaða gögn það séu sem kærandi telji að hann hafi ekki haft aðgang að.  Fullyrðingum kæranda um að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi verið tekin í annarlegum tilgangi, og á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, sé algjörlega vísað á bug sem ósannri og ósannaðri og eigi hún ekki við nein rök að styðjast.  Staðreynd málsins sé sú að samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri að fjarlægja ólöglegar byggingar sem byggðar hafi verið í bága við skipulag.  Breyti þar engu þótt byggingarleyfi liggi til grundvallar framkvæmdunum, allt að einu beri að fjarlægja óleyfisbyggingar.  Í 3. mgr. 56. gr. laganna sé tekið fram að sveitastjórn sé beinlínis skylt að hlutast til um að óleyfisframkvæmdir séu fjarlægðar innan sex mánaða frá því að henni hafi orðið kunnugt um málið.  Að öðrum kosti beri Skipulagsstofnun að láta fjarlægja hin ólöglegu mannvirki á kostnað sveitarfélagsins. 

Hvað varði þá málsástæðu kæranda að um sé að ræða steyptar svalir með geymslu undir, en ekki útigeymslu eins og byggingaryfirvöld hafi haldið fram, þá breyti það í raun engu hvað rýmið sé kallað, enda sé það allt utan byggingarreits lóðarinnar og því utan skipulags.  Klárlega sé um að ræða steypt rými undir steyptum svölum, staðsett utan byggingarreits.  Ekki sé innangengt í rýmið úr húsinu, heldur sé gengið inn í geymsluna að utanverðu og sé því eðlilegt að álykta að um útigeymslu sé að ræða. 

Ekki hafi tíðkast að kótasetja hæðir lóða á þeim tíma er húsið hafi verið byggt fyrir sextíu til sjötíu árum.  Sú hæð sem lóðin hafi verið í áður en kærandi hafi ráðist í framkvæmdir hafi því verið rétt hæð lóðarinnar og sú hæð sem sátt hafi verið um í umhverfinu.  Ljóst sé að lóðin, eða a.m.k. hluti hennar, hafi verið hækkuð um u.þ.b. einn metra.  Í 66. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé skýrt kveðið á um að óheimilt sé að breyta hæðarlegu lóðar frá samþykktum uppdrætti nema að fengnu samþykki byggingarnefndar.  Verði ákvæðið ekki túlkað öðruvísi en svo en að allar lóðahækkanir séu byggingarleyfisskyldar, enda hvergi í reglugerðinni eða annars staðar kveðið á um neinar undanþágur frá ákvæðinu.  Hækkun á lóð kæranda sé auk þess svo umfangsmikil að ekki leiki neinn vafi á að um byggingarleyfisskylda framkvæmd sé að ræða og óumdeilt sé að kærandi hafi ráðist í að hækka lóðina án byggingarleyfis. 

Byggingaryfirvöldum beri skylda til að fjarlægja óleyfisframkvæmdir skv. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga óháð því hvort framkvæmdir klagi upp á aðra íbúa eður ei.  Ekki sé þó fallist á með kæranda að um framkvæmdir innan lóðar sé að ræða sem ekki hafi áhrif á hagsmuni eigenda aðliggjandi lóðar að Smáragötu 11 enda séu svalirnar beinlínis lagðar ofan á steyptan vegg á lóðamörkum Smáragötu 11 og Laufásvegar 68.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. júlí 2011 að viðstöddum fulltrúum kæranda og fulltrúa byggingaryfirvalda í Reykjavík. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingaryfirvalda í Reykjavík um að beita þvingunarúrræðum gagnvart kæranda vegna framkvæmda við fasteign hans að Laufásvegi 68.  Samkvæmt tilkynningu byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 1. mars 2010, var honum annars vegar gert að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar að Laufásvegi 68 til þess horfs sem sýnt væri á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007 og hins vegar að fjarlægja útigeymslu, sem staðsett væri utan byggingarreits í samþykktu deilskipulagi.  Var veittur 70 daga frestur til að ljúka verkinu að viðlögðum 25.000 króna dagsektum fyrir hvern dag sem verkið kynni að dragast fram yfir veittan frest.  Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar vísaði byggingarfulltrúi til 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt nefndri 56. gr. gat byggingarnefnd ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skyldi ólöglega byggingu eða byggingarhluta og skv. 57. gr. gat sveitarstjórn ákveðið að beita dagsektum væri fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar ekki sinnt innan þess frests sem ákveðinn væri af sveitarstjórn. 

Mjög er óljóst hvernig skipulagsráð Reykjavíkur, sem fer með vald byggingarnefndar samkvæmt lögunum, stóð að töku ákvörðunar um afskipti byggingaryfirvalda af meintum óleyfisframkvæmdum, en í bókun ráðsins um málið hinn 3. febrúar 2010 segir aðeins að lagt hafi verið fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2010, varðandi lóð nr. 68 við Laufásveg.  Bréfinu fylgi afrit af bréfi dags. 9. desember 2009, tveimur bréfum dags. 22. desember 2009 og bréfi dags. 5. janúar 2010.  Síðan segir orðrétt:  „Bréf byggingarfulltrúa samþykkt.“  Málið var aftur tekið fyrir á fundi ráðsins 10. febrúar 2010 og orðrétt bókað um það á sama veg og á fundi ráðsins 3. febrúar 2010.  Verður ekki séð að ráðið hafi með þessum bókunum tekið afstöðu til erindis byggingarfulltrúa um að samþykkja tillögu hans um aðgerðir og vísa henni til borgarráðs, sem fram kom í bréfi hans til ráðsins 1. febrúar 2010.

Á fundi borgarráðs hinn 4. febrúar 2010 var lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 3. sama mánaðar og var B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.  Þá var fundagerð skipulagráðs frá 10. febrúar 2010 lögð fram á fundi borgarráðs hinn 11. sama mánaðar og B-hluti hennar staðfestur.  Sama dag ritaði byggingarfulltrúi bréf til borgarráðs þar sem rakið var að skipulagsráð hefði samþykkt tillögu hans um að eiganda Laufásvegar 68 yrði veittur 70 daga frestur, að viðlögðum 25.000 króna dagsektum að honum liðnum, til þess koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til þess horfs sem sýnt væri á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007 og til að fjarlægja útigeymslu sem staðsett væri utan byggingarreits.  Tók borgarráð þetta bréf fyrir á fundi sínum hinn 18. febrúar 2010 og afgreiddi það með svofelldri bókun:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að eigendum fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn tímafrestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. R10020045. Samþykkt“.  Kemur ekkert fram í bókun þessari um lengd frests eða fjárhæð dagsekta og verður ekki talið að afgreiðsla borgarráðs fullnægi skilyrðum 57. gr. skipulags- og byggingarlaga um að frestur og fjárhæð dagsekta skuli ákveðin af sveitarstjórn. 

Sem meintar óleyfisframkvæmdir nefnir byggingarfulltrúi í bréfi sínu hækkun lóðar og breytingar á tröppuvirki.  Hvað varðar fullyrðingar um breytta hæðarsetningu lóðar í suðvesturhorni hennar skal tekið fram að engin fyrirmæli eru um hæðarsetningu lóða í gildandi deiliskipulagi frá 8. maí 2006, þrátt fyrir ákvæði gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og fór breytt hæðarsetning því ekki í bága við skipulag.  Skortir jafnframt á að skorið sé úr um við hvað miða eigi hæðarsetninguna, en fullyrðingar byggingaryfirvalda um breytta hæðarsetningu suðurhluta lóðar svara því ekki nákvæmlega hvernig hún skuli vera að þeirra mati.  Steinsteypt plan í suðvesturhorni lóðar er sýnt sem hellulagt svæði á aðaluppdráttum og liggur ekki fyrir hver hefði verið rétt hæðarsetning þess svæðis miðað við samþykkta uppdrætti, en auk þess liggur ekki fyrir hver hafi verið hæðarlega lóðar á umræddu svæði áður en framkvæmdir hófust eða samkvæmt eldri uppdráttum.  Hvað svonefnt tröppuvirki varðar þá er það vissulega ekki byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti en ekki hafa komið fram haldbær rök borgaryfirvalda fyrir því að ekki hafi verið hægt að samþykkja umsókn kæranda um þær breytingar sem á því höfðu verið gerðar enda ekki á því byggt af hálfu Reykjavíkurborgar að þessi byggingarhluti fari í bága við deiliskipulag svæðisins. 

Þá er í tillögu byggingarfulltrúa, sem hann telur borgarráð hafa samþykkt hinn 18. febrúar 2010, lagt til að kæranda verði gert að fjarlægja útigeymslu sem staðsett sé utan byggingarreits sunnan við hús hans.  Þessi geymsla er í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og á þeim tíma sem hér skiptir máli var fyrir henni byggingarleyfi.  Gat hin kærða ákvörðun borgarráðs, sem einungis varðaði óleyfisframkvæmdir, því ekki tekið til þessarar geymslu.  Skiptir hér ekki máli þótt leyfi fyrir geymslunni hafi síðar verið afturkallað en mál um lögmæti þeirrar afturköllunar er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Ef framfylgja ætti ákvörðunum byggingaryfirvalda í máli þessu, eins og þær hafa verið kynntar kæranda, fælist m.a. í því að breyta ætti tröppuvirki til samræmis við samþykkta uppdrætti, en jafnframt að fjarlægja þann byggingarhluta, útigeymsluna,  sem tröppurnar tengjast við.  Þá ætti einnig að koma heitum potti fyrir á þeim palli sem myndar þak útigeymslunnar sem fjarlægja á samkvæmt sömu ákvörðun.  Er þannig ljóst að hin kærða ákvörðun væri um margt óframkvæmanleg. 

Hafi hins vegar vakað fyrir byggingaryfirvöldum að aðeins ætti að fjarlægja veggi umræddrar útigeymslu en leyfa áfram svalir þær sem samþykktar voru ofan á geymslunni þá liggur ekki fyrir að gerð hafi verið rannsókn á því hvort burðarþol svalanna væri nægilegt til að slíkt væri mögulegt.  Skortir þannig bæði á skýrleika ákvörðunar og rannsókn máls hvað þetta varðar.

Loks telur úrskurðanefndin að ekki hafi verið rétt að gera kæranda með einni og sömu ákvörðun að færa meintar óleyfisframkvæmdir til rétts horfs og að fjarlægja byggingarhluta sem byggður hafði verið í samræmi við útgefið byggingarleyfi, enda hvíla ákvarðanir um þessi óskyldu atriði á afar ólíkum grunni.  Bar að haga málum svo að kærandi gæti leyst sig undan þeirri skyldu er laut að meintum óleyfisframkvæmdum án þess að þurfa jafnframt að gangast undir ákvörðun um að fjarlægja á eigin kostnað og ábyrgð mannvirki sem reist hafði verið í samræmi við útgefið byggingarleyfi.  Verður ekki fallist á að byggingaryfirvöldum hafi ekki mátt vera ljóst að umræddur byggingarhluti væri utan byggingarreits, enda er lína byggingarreits greinilega merkt á grunnmynd 1. hæðar á aðaluppdrætti, samþykktum 21. mars 2007. 

Eins og að framan er rakið er ákvörðun sú sem kærð er í máli þessu haldin verulegum annmörkum, bæði hvað varðar form og efni.  Verður að gera þá kröfu að íþyngjandi ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða séu skýrar og framkvæmanlegar og studdar málefnalegum rökum.  Þykir mikið á skorta að hin kærða ákvörðun fullnægi þessum skilyrðum og verður hún því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. febrúar 2010 um að eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn frestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti.  Jafnframt falla niður áfallnar og áfallandi dagsektir sem lagðar hafa verið á með stoð í hinni kærðu ákvörðun, svo og vextir og kostnaður af innheimtu þeirra. 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

35/2010 Laufásvegur

Með

Ár 2011, þriðjudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 35/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2010 um að fella úr gildi að hluta byggingarleyfi frá 21. mars 2007 vegna Laufásvegar 68 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. júní 2010, er barst nefndinni 3. s.m., kærir Gunnar Ingi Jóhannsson hdl., f.h. V ehf., eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2010 að fella úr gildi að hluta byggingarleyfi frá 21. mars 2007 vegna Laufásvegar 68.   

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 12. apríl 2010 ritaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík bréf til kæranda þar sem rakið var að samþykkt hefði verið í borgarráði 18. febrúar 2010 að veita honum 70 daga frest til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðar hans að Laufásvegi 68 til þess horfs sem sýnt væri á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007 og jafnframt að fjarlægja útigeymslu sem staðsett væri utan byggingarreits samþykkts deiliskipulags.  Síðan sagði orðrétt:  „En við afgreiðslu byggingar¬leyfis nr. BN035330 yfirsást embætti byggingarfulltrúa það atriði að útigeymslan var öll staðsett utan byggingarreits, enda ekki vakin athygli á því af hönnuði verksins.  Með vísan til þess að borgaryfirvöld hafa gert kröfu til þess að geymslan verði fjarlægð áformar embætti byggingarfulltrúa að ógilda m.v.t. ákvæða 56. gr. laga nr. 73/1997 þann hluta byggingarleyfis BN035330 sem tekur til útigeymslunnar þ.e. matshluta 0002, sem er 32,3 m² og 77,3 m³ að stærð.  Er yður hér með gefinn 14 daga frestur, frá móttöku bréfs þessa, til þess að tjá yður um málið.  Að þeim fresti liðnum verður málið lagt fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa til ákvörðunar.“ 

Framangreindum áformum mótmælti kærandi með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 28. apríl 2010, þar sem m.a. var vísað til þess að úrskurðarnefndin hefði til meðferðar ágreining aðila og lægi niðurstaða nefndarinnar ekki fyrir. 

Í kjölfar þessa var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. maí 2010 eftirfarandi fært til bókar:  „Byggingarfulltrúi leggur til að sá hluti byggingarleyfis nr. BN035330 sem sýnir rýmisnúmer 0002, útigeymslu, verði fellt úr gildi. Útigeymslan er öll staðsett utan byggingarreits og var samþykkt fyrir mistök. Hún er sýnd á aðaluppdráttum samþykktum 21. mars 2007. Málið var kynnt umsækjanda með bréfi dags. 12. apríl 2010. Andmælabréf lögmanns umsækjanda dags. 28. apríl 2010, fylgir málinu ásamt bréfi lögfræði- og stjórnsýslu dags. 3. maí 2010. Stærðir: 32,3 m² og 77,3 m³. Samþykkt. Með vísan til 56. gr. laga nr. 73/1997.“  Var fundargerð afgreiðslufundarins  lögð fram á fundi skipulagsráðs 12. maí 2010 og staðfest í borgarráði 20. s.m.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann telji í fyrsta lagi að ákvörðun borgarráðs byggi á röngum forsendum en borgaryfirvöld fullyrði að svonefnd útigeymsla sé staðsett að öllu leyti utan byggingarreits hússins.  Þessi fullyrðing muni vera forsenda þess að byggingarleyfi hússins hafi verið fellt úr gildi að hluta.  Hún sé hins vegar röng.

Kærandi hafi ítrekað gert byggingarfulltrúa grein fyrir því að lokað rými undir svölum hússins sé ekki sérstök útigeymsla sem nauðsynlegt sé að sækja um byggingarleyfi fyrir.  Svalirnar séu samþykktar og ágreiningslausar.  Þess utan sé það alrangt að holrýmið, sem sé undir samþykktum svölum hússins, sé allt utan byggingarreits.  Kærandi geti ómögulega áttað sig á því hvaðan sú fullyrðing sé komin, en þetta hafi aldrei áður í allri málsmeðferðinni verið sett fram.  Þetta sé röng fullyrðing og telji kærandi ólögmætt að byggja ógildingu byggingarleyfis á slíkri fullyrðingu.  Engin gögn liggi fyrir um að byggingarfulltrúi hafi framkvæmt mælingar eða athuganir sem hljóti þó að vera nauðsynlegt til að taka megi ákvörðun sem byggi á fullyrðingum sem þessum.  Embætti byggingarfulltrúa hafi því í engu sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni við meðferð málsins.

Þá veki furðu sú málsmeðferð að fella hluta byggingarleyfisins úr gildi mörgum árum eftir að sama embætti hafi veitt sama byggingarleyfi án skilyrða.  Kærandi fallist ekki á þau rök sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa að samþykki embættisins á sínum tíma hafi verið mistök.  Í það minnsta sé ekki fallist á að kærandi eigi mörgum árum síðar að bera alla ábyrgð á þessum meintu mistökum embættisins.  Hafi samþykki byggingarleyfisins verið mistök byggingarfulltrúa geti embættið ekki leiðrétt þau mörgum árum síðar á kostnað kæranda.  Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til þess að afgreiðsla byggingarleyfisumsóknar hans og útgáfa byggingarleyfis uppfyllti þau skilyrði sem gera megi til slíkrar málsmeðferðar.  Það sé ekki við kæranda að sakast, sem ávallt hafi komið fram með heiðarlegum hætti í málinu, en eigi nú að gjalda dýru verði fyrir meint mistök embættis byggingarfulltrúa.  Því sé mótmælt.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að það sé mat borgarinnar að um ógildanlega ákvörðun hafi verið að ræða og skilyrði ógildingar hafi verið fyrir hendi þar sem framkvæmdin hafi verið andstæð skipulagi þrátt fyrir að byggingaleyfi hefði verið veitt.

Það sé álit Reykjavíkurborgar að geymslurýmið sé utan ramma deiliskipulags og hafi verið samþykkt fyrir vangá.  Aðalhönnuður hafi ekki vakið athygli á því þrátt fyrir reit þar að lútandi á umsóknareyðublaði og leiðbeiningar byggingarfulltrúa frá júní 2004, en skv. 58. gr. skipulags- og byggingarlaga beri hönnuður fulla ábyrgð á að hönnunargögn séu í samræmi við deiliskipulag.  Í ljósi þessarar forsögu málsins, og þeirrar staðreyndar að kærendur í málinu hafi ekki brugðist við þeim tilmælum sem borgaryfirvöld hafi haft uppi í málinu, hafi þótt nauðsynlegt að fella byggingarleyfið úr gildi að hluta, þ.e. þann hluta er lúti að geymslurýminu.  Hafi ógilding  byggingarleyfisins m.a. verið byggð á 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. júlí 2011 að viðstöddum fulltrúum kæranda og byggingaryfirvalda í Reykjavík. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu, sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að fella úr gildi að hluta byggingarleyfi frá 21. mars 2007 vegna Laufásvegar 68 í Reykjavík.  Tekur ákvörðunin til útigeymslu sem sögð er öll staðsett utan byggingarreits samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi sótt um leyfi til að stækka áður samþykktar svalir við suðurhlið hússins að Laufásvegi 68, en jafnframt að fá að nýta rými sem myndaðist undir svölunum sem útigeymslu.  Kemur greinilega fram á aðaluppdrætti, er sýnir grunnmynd 1. hæðar, samþykktum af byggingarfulltrúa 21. mars 2010, að umræddur byggingarhluti er utan byggingarreits og samkvæmt  byggingarlýsingu á sama skjali eru steyptar svalir stækkaðar á 1. hæð (með geymslurými undir).  Verður ekki fallist á að umrædd útigeymsla hafi verið samþykkt fyrir mistök, eins og borgaryfirvöld hafa haldið fram, þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir lágu við afgreiðslu umsóknarinnar.  

Eftir að fram komu athugasemdir um að umrædd útigeymsla væri utan byggingarreits lagði kærandi fram umsókn, BN039686, þar sem hann sótti m.a. um að loka útigeymslurými og hætta við að nýta það sem geymslu.  Þessi umsókn hefur ekki verið afgreidd og hefur því ekki verið úr því skorið hvort skilyrði séu til að heimila svalir á steyptum sökkli á þeim stað þar sem útigeymslan var.  Leiðir af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins að byggingaryfirvöldum bar að kanna hvort slíkt vægara úrræði væri tækt áður en ákvörðun var tekin um afturköllun hluta ívilnandi leyfis.

Loks er ekki ljóst hvað nákvæmlega átti að felast í hinni kærðu ákvörðun.  Er til þess að líta að kæranda var, með ákvörðun borgarráðs hinn 18. febrúar 2010, gert að færa tröppuvirki til þess horfs sem sýnt var á samþykktum uppdráttum en tröppuvirki þetta tengist þeim svölum sem jafnframt eru loftplata umdeildrar útigeymslu.  Hefði þurft að koma fram í hinni kærðu ákvörðun hvernig kærandi ætti að bregðast við í tilefni af henni.

Loks er aðfinnsluvert að er hin kærða ákvörðun var tekin hafði kæranda þegar verið gert að fjarlægja umrædda útigeymslu og lá ákvörðun borgaryfirvalda því í raun fyrir áður en honum var gefinn kostur á að andmæla áformum þeirra um afturköllun leyfisins.  Er vandséð að slík málsmeðferð geti talist málefnaleg.  

Að því virtu sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið verulega áfátt og að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði hafi verið til að beita heimild 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til afturköllunar þess hluta byggingarleyfisins er tók til umræddrar útigeymslu.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2010 um að fella úr gildi að hluta byggingarleyfi frá 21. mars 2007 vegna Laufásvegar 68 í Reykjavík. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________  ___________________________
Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson

64/2011 Fluggarðar

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 19. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2011, kæra á ákvörðun um afmörkun lóðar og útreikning hlutdeildar eigenda fasteigna í lóðarleiguréttindum við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli sem tilkynnt var í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 12. janúar 2010. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. ágúst 2011, er barst nefndinni 26. s.m., kærir Jón Magnússon hrl., f.h. Byggá-BIRK, hagsmunasamtaka eigenda einkabygginga á Reykjavíkurflugvelli, Fluggörðum 21, Reykjavík, ákvörðun um afmörkun lóðar og útreikning hlutdeildar eigenda fasteigna í lóðarleiguréttindum við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli sem tilkynnt var í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 12. janúar 2010. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt og að hverju húsi á heildarlóðinni verði afmarkaður sérstakur lóðarreitur. 

Málsatvik og rök:  Hinn 12. janúar 2010 sendi byggingarfulltrúinn í Reykjavík fulltrúa kæranda bréf vegna lóðar Fluggarða við Njarðargötu með landnr. 106745.  Í bréfinu var frá því greint að komið hefði í ljós að nefnd lóð Fluggarða, sem væri 45.370 m², væri án fasteignamats og því hefðu ekki verið greidd tilskilin gjöld fyrir afnot af lóðinni í borgarsjóð.  Var og tilkynnt að embættið hefði reiknað út hlutdeild hvers af 59 fasteignareigendum í lóðarafnotum með tilteknum hætti og að sá útreikningur hefði verið sendur Fasteignaskrá Íslands.  Í kjölfarið var ákvarðað fasteignamat fyrir umræddar eignir á grundvelli útreikningsins. 

Kærandi mótmælti útreikningi fasteignamatsins og bar málið undir Fasteignamat ríkisins með bréfi, dags. 23. júlí 2010.  Þjóðskrá Íslands, sem tekið hafði við hlutverki fyrrgreindrar stofnunar, svaraði erindinu með bréfi, dags. 31. desember 2010.  Þar kom m.a. fram að stofnunin teldi sig ekki hafa forsendur til að leggja mat á málsmeðferð Reykjavíkurborgar og ákvörðun um stærðarútreikning umræddra lóðarhluta.  Var kæranda bent á að bera það álitaefni undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Þjóðskrá endurmat hins vegar lóðarmat fasteignanna til lækkunar með hliðsjón af takmörkunum á notkun lóðanna samkvæmt gildandi skipulagsreglum Reykjavíkurflugvallar.

Til stuðnings kröfum sínum bendir kærandi á að enginn lóðarleigusamningur sé fyrir hendi um svæði það sem einkaflugskýli félagsmanna kæranda standi á.  Svæðið sé að stórum hluta notað undir almenna starfsemi flugvallarins en afnot fasteignareigenda séu mjög takmörkuð.  Þeir hafi því í raun aðeins sérafnot af grunnfleti mannvirkja sinna.  Verði samkvæmt þessu að telja umdeildan útreikning og álagningu fasteignagjalda ranga.  Það fari í bága við 27. og 28. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna að draga línu utan um heildarlóð og deila í með fermetrafjölda húsnæðis án tillits til notkunar eða verðmætis þess.  Leggja verði sérstakt mat á hverja fasteign á svæðinu með hliðsjón af nýtingarrétti hennar af lóð. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Kæranda hafi verið tilkynnt skriflega um útreikninga á hlutdeild hvers fasteignareiganda í lóðarréttindum við Fluggarða með bréfi, dags. 12. janúar 2010.  Kæra útreikningsins sé móttekin af úrskurðarnefndinni 26. ágúst 2011, eða rúmlega einu og hálfu ári eftir tilkynningu hinnar kærðu afgreiðslu.  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Frestur til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Þá skuli í öllu falli bera fram stjórnsýslukæru innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í 28. gr. sömu laga sé svo allur vafi tekinn af um að vísa beri kæru þessari frá, en samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin. 

Auk þess liggi ekki fyrir í máli þessu kæranleg stjórnvaldsákvörðun skv. 6. mgr. 52. gr. skipulagslaga, sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  Í málinu hafi einungis verið tilkynnt um útreikning á hlutdeild í lóð, eins og skylt sé samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001.  Þá segi í 3. mgr. ákvæðisins að byggingarfulltrúar, eða aðrir sem sveitarstjórn hafi falið upplýsingagjöf, séu ábyrgir fyrir að upplýsingarnar séu efnislega réttar.  Við niðurdeilingu fermetra heildarlóðarinnar við Fluggarða á hverja fasteign hafi byggingarfulltrúi verið að fullnægja þessari lagaskyldu.  Hér sé því hvorki um skipulagsmál að ræða né byggingarmál sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. 

Hinn kærði útreikningur byggingarfulltrúans í Reykjavík á lóðarhlutdeild fasteigna við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli, sem lagður var til grundvallar við ákvörðun fasteignamats umræddra eigna, var tilkynntur eigendum með bréfi embættisins, dags. 12. janúar 2010.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 26. ágúst 2011 eða um einu og hálfu ári eftir dagsetningu tilkynningarinnar og var kærufrestur samkvæmt framangreindum lagaákvæðum þá löngu liðinn.  Verður kærumáli þessu þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

20/2010 Bræðraborgarstígur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 19. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2010, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2010 um að veita leyfi til að breyta 1. hæð og kjallara fjölbýlishússins nr. 3 við Bræðraborgarstíg í gistiheimili. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. apríl 2010, er barst nefndinni næsta dag, kæra I og Á, Bræðraborgarstíg 4, Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2010 á umsókn um leyfi til að breyta 1. hæð og kjallara hússins nr. 3 við Bræðraborgarstíg í gistiheimili. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 21. apríl 2009 var lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík umsókn um leyfi til að breyta 1. hæð og kjallara fjölbýlishússins nr. 3 við Bræðraborgarstíg í gistiheimili.  Var afgreiðslu erindisins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Á fundi hans hinn 8. maí s.á. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Bræðraborgarstíg 1, 4, 4a og 5 ásamt Vesturgötu 51 og komu kærendur á framfæri athugasemdum með bréfi, dags. 25. maí 2009.  Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 15. júlí 2009 og jafnframt lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 13. s.m.  Var bókað að ekki væru gerðar athugasemdir við erindið með vísan til framlagðrar umsagnar og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.  Á fundi hans hinn 9. mars 2010 var umsóknin samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulagsráðs 10. mars 2010 og staðfest á fundi borgarráðs hinn 11. mars s.á. 

Framangreindri ákvörðun hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að á umræddu svæði skuli samkvæmt aðalskipulagi vera íbúðarbyggð en ekki blönduð byggð og spurt sé hvort þau fáu dæmi sem séu um gistiheimili í nágrenninu eigi að verða fordæmi fyrir alla byggð á þessum slóðum.  Telji kærendur að rekstur gistiheimilis muni valda aukinni umferð vegna flutnings á fólki, aðföngum og öðru sem varði þjónustu þess.  Muni þetta hafa í för með sér aukna hávaða- og rykmengun auk mengunar frá útblæstri bifreiða.  Hús kærenda standi gengt húsinu nr. 3 við Bræðraborgarstíg og viti svefnherbergi þeirra og stofur út að götu.  Einnig telji kærendur að þeir muni verða fyrir verulegum óþægindum vegna alls þessa.  Kærendur viti ekki til þess að bílastæði fylgi húsinu að Bræðraborgarstíg 3 og megi ætla að skortur á bílastæðum geti valdið umferðarvandræðum í götunni.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að Bræðraborgarstígur 3 sé staðsettur á íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu.  Með því sé átt við að heimilt sé að hafa þar verslun, þjónustu, stofnanir, leikvelli og opin svæði.  Flokkist gistiheimili undir þjónustu.  Skipulagsstjóri hafi í kjölfar athugasemda kærenda við grenndarkynningu óskað eftir því að umsækjendur upplýstu nánar um fyrirhugaða starfsemi.  Hafi þar komið fram að áformað gistiheimili yrði með lágmarks þjónustustig og ekki yrði um nein aðföng að ræða umfram það sem gestir kæmu sjálfir með.  Engin umferð flutningabifreiða yrði því tengd rekstri gistiheimilisins.  Einnig mætti ætla að umferð leigubifreiða eða annarra bifreiða yrði í lágmarki sökum þess að gestir heimilisins yrðu að mestum hluta ferðamenn sem ferðist á ódýran máta.  Gera mætti ráð fyrir að gestir gistiheimilisins myndu einkum nota það til næturgistingar þannig að ónæði yrði lítið meira en ef húsið yrði nýtt sem íbúðarhúsnæði.  Þá sé ósennilegt að gestir verði á einkabifreiðum svo að álag á bílastæði nágrennisins ætti að verða u.þ.b. það sama og ef húsnæðið væri nýtt sem íbúðarhúsnæði.  

Loks sé á það bent að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði í næsta nágrenni sem haft geti í för með sér umferðaraukningu eða önnur áhrif.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum, þó áréttað sé að í þessu tilfelli hafi ekki verið leidd í ljós nein slík neikvæð áhrif.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er tekið fram að fyrirhugað gistiheimili verði með lágmarks þjónustu og muni engin umferð skapast vegna flutnings aðfanga fyrir reksturinn.  Ekki sé heldur við því að búast að umferð aukist vegna starfseminnar og verði að teljast ólíklegt að hún verið meiri en ef húsið væri nýtt til íbúðar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr., 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er m.a. óheimilt að breyta húsi eða notkun þess nema framkvæmdin sé í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er svæði það sem húsið nr. 3 við Bræðraborgarstíg stendur á skilgreint sem íbúðarsvæði en þar er ekki í gildi deiliskipulag.  Ákváðu borgaryfirvöld að beita undanþáguheimild 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við undibúning hinnar kærðu ákvörðunar og grenndarkynna áform umsækjanda og verður að telja að skilyrði hafi verið til þeirrar málsmeðferðar. 

Samkvæmt gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er heimilt að reka starfsemi á íbúðarsvæðum sem eðlilegt er að þar sé, enda valdi reksturinn ekki ónæði, m.a. vegna hávaða eða óeðlilega mikillar umferðar.  Hefur ákvæði þetta verið skýrt svo að rekstur gistiheimilis rúmist innan heimilda þess.  Verður með hliðsjón af tilvitnuðu ákvæði að skýra Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 svo að rekstur gistiheimila samræmist landnotkun umrædds svæðis. 

Húsið að Bræðraborgarstíg 3, sem byggt var árið 1911, er í gamalgrónu hverfi, rétt utan við miðborgarsvæði borgarinnar.  Um hefðbundna íbúðarbyggð er að ræða er blandast við ýmiskonar þjónustustarfsemi, en í næsta nágrenni eru m.a. leikskóli, rakarastofa, bókaforlög og ráðgjafarstofur.  

Með hinni kærðu ákvörðun var heimilað að breyta húsinu í gistiheimili með gestafjölda fyrir 15 manns.  Í húsinu eru fyrir þrjár íbúðir, allar minni en 80 m² að stærð, og ættu því að fylgja því þrjú bílastæði skv. gr. 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Samkvæmt  gr. 64.6 í reglugerðinni ættu að fylgja a.m.k. eitt bílastæði fyrir hverja 50 m², miðað við þá notkun sem heimiluð var með hinni kærðu samþykkt, og ættu bílastæði þá að vera þrjú til fjögur, en 1. hæð og kjallari eru 107 m², auk 24,8 m² geymslurýmis.  Hins vegar ber að hafa í huga að samkvæmt gr. 12.8 í téðri reglugerð skal, við umfjöllun um byggingarleyfi vegna húsa sem byggð hafa verið fyrir gildistöku hennar, taka mið af reglugerðarákvæðum sem í gildi voru við byggingu þeirra.  Þá er í gr. 28 í byggingarreglugerð heimild til að víkja frá kröfum um bílastæði gegn greiðslu gjalds í bílastæðasjóð, verði þeim ekki komið fyrir á lóð.

Með hliðsjón af framangreindu, og þegar litið er til þess að ekki liggur fyrir að þörf fyrir bílastæði muni í raun aukast við það eitt að umrætt húsnæði verði nýtt sem gistiheimili í stað íbúða, verður ekki séð að kröfur um fjölda bílastæða hafi átt að  standa því í vegi að umdeilt leyfi yrði veitt.    

Þegar litið er til umfangs umrædds gistirekstrar, auk staðhátta og starfsemi á nærliggjandi lóðum, verður heldur ekki talið að sú breytta notkun sem hér um ræðir fari í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Loks verður að telja að eins og atvikum er háttað hafi ekki verið gengið svo gegn grenndarhagsmunum kærenda að ógilda beri hina kærðu ákvörðun.  Samkvæmt því sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2010 um að veita leyfi til að breyta 1. hæð og kjallara hússins nr. 3 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík í gistiheimili. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                  _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

66/2010 Vættaborgir

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 19. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 66/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2010 um að synja umsókn um að setja glugga og dyr á vesturhlið kjallara hússins að Vættaborgum 27 og innrétta þar fyrir innan kalda geymslu í óuppfylltu rými. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. október 2010, er barst nefndinni næsta dag, kærir S, f.h. E, Vættaborgum 27, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september s.á. að synja umsókn um að setja dyr og glugga á vesturhlið kjallara hússins að Vættaborgum 27 og innrétta þar fyrir innan kalda geymslu í óuppfylltu rými. 

Málavextir:  Fasteignin að Vættaborgum 27 er einbýlishús á tveimur hæðum og er lokað óuppfyllt rými í kjallara.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 21. september 2010 var tekin fyrir áðurnefnd umsókn kæranda.  Afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Á fundi hans hinn 24. s.m. var gerð svohljóðandi bókun:  „Neikvætt.  Erindið samræmist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins.“  Umsóknin var næst tekin til skoðunar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. s.m. og afgreidd með svofelldri bókun:  „Synjað.  Með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Lóð er þegar fullbyggð.“ 

Málsrök kæranda:  Kærandi tekur fram að ekki sé verið að fara fram á aukningu á byggingarmagni hússins að Vættaborgum 27 og að stærð þess verði ekki breytt.  Bendi kærandi á að einungis eitt hús við Vættaborgir 27-35 uppfylli skilyrði skipulagsskilmála um stærð húsa á skipulagsreitnum en hin húsin séu öll stærri en kveðið sé á um í skilmálum.  Skuli hámarksstærð húsa á þessu svæði vera 220 m² með bílgeymslu en hús kæranda sé 248,7 m², hús nr. 29 sé 225,9 m², hús nr. 31 sé 256,9 m² og hús nr. 33 sé 262,9 m².  Verði á engan hátt séð að umsótt breyting skipti máli varðandi skipulag hverfisins því einungis sé verið að fara fram á að nýta óuppfyllt rými og hvergi sé farið út fyrir byggingarreit, eins og þó séu dæmi um í þessari húsaröð. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Gerð er krafa um að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað og synjun byggingarfulltrúa staðfest.  Er vísað til skipulagsskilmála fyrir Vættaborgir 27-35, er samþykktir hafi verið árið 1995.  Þar komi fram að aukaíbúðir séu ekki heimilar og að hámarksstærð húsa sé 220 m², með bílskúr.  Hús kæranda sé nú 248,7 m² með bílskúr og teljist fullbyggt.  Með hinni umsóttu breytingu stækki húsið sem hinu óuppfyllta rými nemi, eða um 7,7 m², og sé því breytingin ekki í samræmi við deiliskipulag. 

Niðurstaða:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag, Borgarholt II, Borgarhverfi, A-hluti, er samþykkt var í borgarráði árið 1995.  Samkvæmt sérákvæði í skipulagsskilmálum um einbýlishús við Vættaborgir 27-35 er hámarksstærð húsa 220 m² með bílskúr.  Þá er m.a. tekið fram að aukaíbúðir séu ekki heimilar.  Hús kæranda er 248,7 m² en verður eftir stækkun 256,4 m² eða um 36 m² stærra en heimilt er samkvæmt greindu skipulagi.  Felur hin umsótta breyting því í sér aukið frávik frá ákvæði fyrrgreinds skipulags um hámarksstærð húsa á skipulagsreitnum og væri samþykkt hennar í andstöðu við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda í máli þessu hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2010 á umsókn um að setja glugga og dyr á vesturhlið kjallara hússins að Vættaborgum 27 og innrétta þar fyrir innan kalda geymslu í óuppfylltu rými. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

82/2010 Hraðastaðavegur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 12. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 82/2010, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg í Mosfellsdal. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2010, er barst nefndinni 22. s.m., kærir M, Hraðastaðavegi 3, Mosfellsdal, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg.  Gerir kærandi þá kröfu að afgreiðsla nefndarinnar verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. desember 2010 var tekin fyrir umsókn kæranda, dags. 2. nóvember s.á., um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg og var hún afgreidd með svohljóðandi hætti:  „Skipulags- og byggingarnefnd er neikvæð fyrir erindinu þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir samræmast ekki gildandi aðal- og deiliskipulagi svæðisins.“  Þá kom fram að afgreiðsla nefndarinnar væri gerð með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og að kæranda yrði gert viðvart yrði afgreiðsla erindisins á annan veg í bæjarstjórn.  Jafnframt var vísað til þess að unnt væri að kæra ofangreinda samþykkt til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Kærandi vísar m.a. til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni að Hraðastaðavegi 3a séu hvorki í andstöðu við aðalskipulag né deiliskipulag svæðisins sem geri ráð fyrir landbúnaðarbyggingu á lóðinni.  Auk þess sé að finna fjölda fordæma í nágrenninu. 

Af hálfu bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi ekki verið lokaákvörðun í málinu.  Bent sé á að umsóknargögnum, sem lögð hafi verið inn hjá embætti byggingarfulltrúa, hafi í ýmsu verið ábótavant með tilliti til gildandi deiliskipulags og hafi kæranda verið gerð grein fyrir því.  Jafnframt sé vísað til bréfs byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 20. janúar 2011, þar sem veittur hafi verið frestur til að bæta úr og undirstriki það að stjórnvaldsákvörðun hafi ekki verið tekin í málinu. 

Niðurstaða:  Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs skipulagsfulltrúans í Mosfellsbæ, dags. 7. desember 2010, þar sem gerð var grein fyrir afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á umsókn kæranda um byggingu fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg, Mosfellsdal.  Samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar greinda afgreiðslu á fundi hinn 15. desember s.á.  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. mars 2011 samþykkt umsókn kæranda, dags. 4. mars s.á., um byggingu fjölnotahús á umræddri lóð.  Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 16. mars s.á.

Miðað við framanritað verður að fallast á að hin kærða ákvörðun hafi ekki bundið endi á meðferð málsins og hafi því ekki verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga 37/1993.  Þá liggur fyrir að umsókn kæranda um byggingu fjölnotahúss hefur nú verið samþykkt af hálfu bæjaryfirvalda og verður því að telja að kærandi eigi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti fyrrgreindrar afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 7. desember 2010.  Leiðir þetta hvort tveggja til frávísunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

27/2011 Uppsalir

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 12. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2011, kæra á synjun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar á beiðni um að taka niður vegvísi við þjóðveg 1 þar sem jarðirnar Uppsalir 1 og 2 liggja. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. apríl 2011, er barst nefndinni 27. s.m., kærir S, f.h. H ehf., eiganda 20% eignarhlutar í jörðinni Uppsalir 2, Sveitarfélaginu Hornafirði, synjun bæjarstjórnar sveitarfélagsins á beiðni um að taka niður vegvísi við þjóðveg 1 þar sem jarðirnar Uppsalir 1 og 2 liggja.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 4. nóvember 2010, skaut kærandi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins ákvörðun Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að fjarlægja ekki skilti með nafninu Sunnuhlíð við þjóðveg 1.  Í bréfinu kemur fram að Vegagerðin hafi sett skiltið niður að beiðni sveitarfélagsins en með tilvist og staðsetningu þess sé verið að breyta nöfnum jarðanna Uppsala 1 og 2.  Sveitarfélagið hafi ekki svarað erindinu en kæranda hafi verið tjáð af starfsmanni þess að ekki væri fyrirhugað að fjarlægja umdeilt skilti. 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið svaraði fyrrnefndu erindi kæranda í bréfi, dags. 1. desember 2010, þar sem látið var í ljós það álit að málið ætti undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með hliðsjón af gr. 209.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Var kæranda bent á kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar, að fenginni formlegri ákvörðun byggingarnefndar.  Í kjölfarið sendi kærandi erindið, sem hann hafði áður beint til ráðuneytisins, til bæjarráðs Hornafjarðar.  Umhverfis- og skipulagsnefnd bæjarfélagsins tók erindið fyrir á fundi hinn 12. janúar 2011 og hafnaði beiðni kæranda um að fyrrnefnt skilti yrði fjarlægt.  Fundargerð nefndarinnar var afgreidd á fundi bæjarráðs hinn 19. janúar s.á. 

Kærandi vísar til þess að umdeilt skilti standi á óskiptu landi jarðanna Uppsala 1 og 2, en um sé að ræða staðlað merki sem Vegagerðin og sveitarfélög noti til að merkja jarðir um allt land.  Engin jörð eða landskiki sé til með nafninu Sunnuhlíð í sveitarfélaginu eða nágrenni þess en Uppsalir 1 og 2 séu einu jarðirnar í sveitarfélaginu sem ekki hafi verið merktar.  Með þessari merkingu sé sveitarfélagið að breyta nafni greindra jarða, sem feli í sér brot á lögum nr. 35/1953 um jarðanöfn, eða gefa það til kynna að jarðirnar Uppsalir 1 og 2 séu ekki til. 

Þá hafi málsmeðferð á erindi kæranda verið í ýmsu andstæð lögum.  Þannig hafi bæjarstjóri og varabæjarstjóri gengt starfi byggingarfulltrúa við meðferð málsins, án heimildar Þjóðskrár, en skráður byggingarfulltrúi hafi verið hættur störfum.  Varði þetta við lög nr. 6/2001 og byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Sveitarfélagið hafi jafnframt brotið gegn nefndri reglugerð með því að skipa ekki skipulags- og byggingarnefnd.  Eftir kvörtun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála hafi mál kæranda verið lagt fyrir svokallaða umhverfis- og skipulagsnefnd, sem kærandi hafni að komi í stað skipulags- og byggingarnefndar sem kveðið sé á um í fyrrgreindri reglugerð. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Hornafjarðar er vísað til þess að nafnið Sunnuhlíð, sem ábúendur jarðarinnar Uppsala 1 hafi gefið húsi sínu og byggt hafi verið árið 1964, sé  alþekkt og fyrir því sé rík hefð.  Finna megi gögn allt frá árinu 1973 þar sem nafnið komi fyrir og hafi það verið notað á landakortum.  Þá megi benda á að í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu frá árinu 1972 sé gerð grein fyrir nýbýlinu Sunnuhlíð á greindum stað.  Ábúendur jarðarinnar hafi engar athugasemdir gert við þá nafngift til þessa. 

Hvað varði meinta ágalla á meðferð máls kæranda sé rétt að taka fram að fyrrverandi byggingarfulltrúi hafi starfað út júlímánuð 2010 og hafi núverandi byggingarfulltrúi hafið störf í byrjun september það ár.  Umhverfis- og skipulagsnefnd, sem afgreitt hafi erindi kæranda, sé markað valdsvið í samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp Sveitarfélagsins Hornafjarðar nr. 586/2010, sem sett sé með stoð í sveitarstjórnarlögum.  Nefndinni sé þar m.a. falið hlutverk skipulagsnefndar og byggingarnefndar samkvæmt 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um staðsetningu vegvísis við þjóðveg 1 sem Vegagerðin setti upp í samráði við Sveitarfélagið Hornafjörð á veghelgunarsvæði þjóðvegarins.  Um slík skilti er fjallað í 12. gr. reglugerðar um umferðarmerki nr. 289/1995, með áorðnum breytingum, sem sett er með stoð í 79. og 84. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Þar kemur fram að vegvísum sé ætlað að leiðbeina ökumönnum um leiðarval.  Ákvörðun um, og umsjón með, uppsetningu umferðarmerkja í dreifbýli er á hendi vegamálastjóra, sbr. 2. og 3. mgr. 85. gr. umferðarlaga. 

Í gildistíð skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 voru m.a. vegir undanþegnir byggingarleyfisskyldu skv. 2. mgr. 36. gr. laganna og voru umferðarmerki ekki talin háð leyfi sveitarstjórnar samkvæmt lögunum.  Á gr. 209.3 í byggingarreglugerð því ekki við um umferðarmerki, enda tekur ákvæðið aðeins til mannvirkja, eða tilgreindara lausamuna og skilta, sem háð eru leyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nú laga um mannvirki nr. 160/2010. 

Í 2. mgr. 2. gr. laga um mannvirki, er tóku gildi 1. janúar 2011, er tekið fram að lögin taki ekki til vega eða annarra samgöngumannvirkja, að undanskyldum umferðar- og göngubrúm í þéttbýli, og er hér um að ræða breytingu frá fyrri byggingarlöggjöf.  Í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga kemur fram að rétt þyki að þau mannvirki sem 2. mgr. 2. gr. laganna taki til falli ekki undir lögin þar sem mannvirkin og eftirlit með þeim falli undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög. 

Samkvæmt 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 er hugtakið vegur skilgreint sem:  „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“  Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum taka lög um mannvirki ekki til mannvirkja við vegi sem þjóna viðhaldi og notkun hans, svo sem umferðarskilta, ljósastaura eða annars eðlilegs og nauðsynlegs búnaðar sem stuðlar að auknu umferðaröryggi og tryggri notkun vega.  Taka lög um mannvirki því ekki til uppsetningar umdeilds vegvísis heldur ákvæði vegalaga og umferðarlaga. 

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveður upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Verður ágreiningsefni máls þessa því ekki borið undir úrskurðarnefndina og verður málinu af þeim sökum vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

25/2010 Fjarðarvegur

Með

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2010, kæra á ákvörðun umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. apríl 2010, er barst nefndinni 28. s.m., kæra A og J, Fjarðarvegi 15, Þórshöfn, þá ákvörðun umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010 að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.  Sveitarstjórn staðfesti þá ákvörðun hinn 22. mars 2010.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Húsið að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn stendur sjávarmegin við Fjarðarveg og samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Þórshafnarhrepps 2003-2023 stendur það á skilgreindu hafnarsvæði.  Var elsti hluti hússins reistur á fyrstu árum tuttugustu aldar og mun vera um að ræða elsta húsið á Þórshöfn.  Fasteign kærenda stendur handan götunnar andspænis umræddu húsi. 

Á fundi umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar 21. janúar 2010 var samþykkt umsókn um leyfi til að klæða húsið að Fjarðarvegi 14 með bárujárni og fjarlægja skúr áfastan því.  Var málið tekið fyrir í sveitarstjórn 28. janúar sama ár en afgreiðslu þess frestað.  Var sveitarstjóra falið að fá umsögn byggingarfulltrúa um ástand hússins og leita upplýsinga um fyrirhugaðar framkvæmdir og notkun þess með tilliti til þess að gert væri ráð fyrir því í gildandi aðalskipulag að húsið yrði rifið.  Urðu lyktir málsins þær að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir klæðningu hússins á fundi hinn 22. mars 2010.  Lá þá fyrir úttektarskýrsla skipulags- og byggingarfulltrúa um ástand hússins þar sem talið var vel mögulegt að lagfæra það. 

Málsrök kærenda:  Krafa kærenda í máli þessu er á því reist að húsið að Fjarðarvegi 14 eigi að rífa samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Húsið skyggi mjög á útsýni yfir hafnarsvæðið, sé mjög ljótt og því sé illa við haldið. 

Á árunum 1993-1994 hafi verið spurst fyrir um framtíð hússins þar sem kærendur hafi haft hug á að byggja við hús sitt að Fjarðarvegi 15.  Hafi þáverandi sveitarstjóri tjáð þeim að ákveðið hefði verið að rífa húsið að Fjarðargötu 14 þá um sumarið.  Í ljósi þeirra upplýsinga hafi verið ráðist í fyrrnefnda viðbyggingu.  Þrátt fyrir endurteknar ítrekanir við sveitarstjórn um niðurrif hússins, og orð fulltrúa eiganda Fjarðarvegar 14 í þá átt, hafi niðurrif þess ekki gengið eftir.  Telji kærendur að úttekt byggingarfulltrúa á ástandi hússins sé ófullnægjandi til að standa undir þeim ályktunum sem þar séu settar fram. 

Málsrök Langanesbyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar er vísað til þess að í Aðalskipulagi Þórshafnar 2003-2023 sé gert ráð fyrir að gömlu húsin þrjú á sjávarbakkanum við Fjarðarveg víki ef þörf krefji vegna uppfyllinga og nýrra bygginga á svæðinu.  Ákvæði um þetta efni í greinargerð skipulagsins sé opið og engin tímamörk sett um niðurrif.  Kæmi til uppfyllingar framan við nefnd hús sé gert ráð fyrir byggingu nýrra húsa á uppfyllingunni sem væntanlega yrðu mun stærri en hús þau sem fyrir séu.  Útsýni frá fasteign kærenda yrði því síst skárra ef greind áform kæmu að fullu til framkvæmda. 

Það sé vandséð að sveitarstjórn geti réttlætt það að synja húseiganda um leyfi til að lagfæra húsið að Fjarðarvegi 14, enda hafi sveitarfélagið ekki boðist til að kaupa húsið til niðurrifs og þörfin fyrir hugsanlega nýtingu svæðisins samkvæmt aðalskipulaginu liggi ekki fyrir.  Það sé hins vegar í þágu almannahagsmuna að umrætt hús verði í ásættanlegu horfi á meðan það standi. 

Í drögum að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 sé gerð sú tillaga að fallið verði frá uppfyllingu framan við húsin þrjú sem standi sjávarmegin við Fjarðarveg, húsin hverfisvernduð og fjaran varðveitt innan hafnarinnar.  Í þeim anda hafi þegar verið samþykkt byggingarleyfi fyrir lagfæringum og lítilli viðbyggingu við Fjarðarveg 12.  Ætla megi að útsýni frá fasteign kærenda að Fjarðarvegi 15 verði betur tryggt með hinu nýja aðalskipulagi en því sem nú sé í gildi. 

Í tilefni af staðhæfingu kærenda um loforð sveitarstjóra á sínum tíma um niðurrif hússins að Fjarðarvegi 14 vísi sveitarstjórn til þess að í aðalskipulagi séu ekki sett tímamörk varðandi niðurrif þess. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Eigandi fasteignarinnar að Fjarðarvegi 14 vísar því á bug að gefið hafi verið loforð um niðurrif umrædds húss og ekki hafi komið til formleg beiðni frá sveitarfélaginu í þá veru. 

Hafi ætlan sveitarstjórnar verið að húsin að Fjarðarvegi 10, 12 og 14 ættu að víkja, megi ætla að þau áform hafi breyst í ljósi samþykktar byggingarleyfis fyrir endurbótum að Fjarðarvegi 12 hinn 29. júlí 2009.  Hafi annar kærenda, sem sitji í sveitarstjórn, samþykkt það athugasemdalaust.  Þá liggi fyrir að við endurskoðun aðalskipulags, sem unnið sé að, eigi fyrrgreind hús að standa. 

Húsið að Fjarðarvegi 14 hafi verið reist árið 1902 og sem elsta húsið á Þórshöfn hafi það mikið varðveislugildi.  Húsið hafi verið tekið út af byggingarfulltrúa að beiðni sveitarstjórnar og niðurstaðan orðið sú að ekkert mælti gegn því að það stæði áfram.  Það séu orð að sönnu að húsið sé nú ljótt og þarfnist viðhalds, en það sé einmitt ætlun eiganda að bæta úr því svo það verði bænum til prýði.  Haft hafi verið samband við Húsafriðunarnefnd ríkisins og verði allar endurbætur á húsinu gerðar í samráði við nefndina. 

Niðurstaða:  Mál þetta snýst fyrst og fremst um það hvort farið hafi verið gegn gildandi skipulagi með því að veita byggingarleyfi til að klæða húsið að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn að utan með bárujárni. 

Í gildandi Aðalskipulagi Þórshafnarhrepps 2003-2023 eru ráðagerðir um að íbúðarhús og mannvirki á hafnarsvæði staðarins gæti þurft að víkja vegna uppbyggingar hafnsækinnar starfsemi í framtíðinni.  Í Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027, sem sveitarstjórn hefur samþykkt og nú er í staðfestingarferli, er hins vegar gert ráð fyrir hverfisverndun húsa þeirra sem standa sjávarmegin Fjarðarvegar, þar á meðal Fjarðarvegar 14.  Umdeilt byggingarleyfi veitir einungis heimild til viðhaldsframkvæmda sem felast í því að klæða húsið að utan.

Að framangreindu verður ekki ráðið að hin kærða ákvörðun fari gegn gildandi aðalskipulagi og ekki liggur fyrir í málinu að bindandi ákvörðun hafi verið tekin af sveitarstjórn um niðurrif umrædds húss innan tiltekins tíma.  Af þessum sökum, og þar sem ekki liggja fyrir aðrir annmarkar sem raskað gætu gildi hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki fallist á ógildingu hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010, er sveitarstjórn staðfesti hinn 22. mars sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

58/2011 Aragata

Með

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 um að synja umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. júlí 2011, er barst nefndinni 22. s.m., kærir I, Aragötu 15, Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 á umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu.  Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 21. júlí s.á. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. apríl 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu.  Byggingarfulltrúi frestaði málinu með vísan til þess að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar vantaði svo hægt væri að grenndarkynna málið.  Málið var að nýju tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. maí s.á. og afgreiðslu þess frestað.  Jafnframt var ákveðið að kynna málið fyrir eigendum Aragötu 13. 

Hinn 8. júlí 2011 var umsóknin tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu þegar samþykki allra lóðarhafa aðlægra lóða lægi fyrir.  Hinn 19. s.m. var umsóknin loks tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og henni synjað með eftirfarandi bókun:  „Synjað. Sótt er um að byggja bílageymslu á lóðamörkum Aragötu 13/15.  Ekki er til deiliskipulag af svæðinu og þarfnast því málið grenndarkynningar, sbr. ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Skipulagsstjóri hefur sett skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða liggi fyrir.  Það hefur umsækjandi ekki getað gert vegna Aragötu 13.  Í því ljósi er málinu synjað.“ 

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst þess að synjun byggingarfulltrúa frá 19. júlí 2011 verði ógilt og að borgaryfirvöldum verði gert að taka málið til meðferðar að nýju og þá í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og mannvirkjalaga nr. 160/2010. 

Af gögnum málsins sé ljóst að það hafi ekki hlotið efnislega umfjöllun byggingarfulltrúa þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning svo sem skylt sé skv. 44. gr. skipulagslaga.  Í ákvörðun byggingarfulltrúa komi fram að málið falli undir 44. gr.   Þar segi jafnframt að skipulagsstjóri hafi sett það skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða lægi fyrir.  Það hafi kærandi ekki getað fengið hjá eiganda Aragötu 13 og því hafi umsókninni verið synjað.  Af þessu megi ljóst vera að þau skilyrði sem skipulagsstjóri hafi sett fyrir því að grenndarkynning færi fram hafi komið í veg fyrir að málið fengi efnislega umfjöllun þeirra stjórnvalda sem að lögum sé falið að taka það til umfjöllunar. 

Með vísan til lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði að gera þá kröfu að stjórnvöld hafi skýra lagaheimild til að binda framkvæmd lögboðinnar skyldu skilyrðum sem komið geti í veg fyrir að mál fái efnislega meðferð í samræmi við lög.  Ekki sé að sjá að skipulagslög hafi að geyma slíka heimild.  Því hafi skipulagsstjóra verið skylt að láta fara fram grenndarkynningu í málinu.  Sú aðferð skipulagsstjóra að setja skilyrði fyrir grenndarkynningu leiði til þess að mál fái ekki eðlilega afgreiðslu og brjóti því gegn rétti leyfisumsækjanda til lögmæltrar málsmeðferðar, enda séu áform hans metin með hliðsjón af áhrifum þeirra á hagsmuni nágranna.  Þegar stjórnvald kjósi að leggja mál í annan farveg en þann sem lögboðinn sé feli það í sér misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls. 

Grein 67.1 í byggingarreglugerð sem Reykjavíkurborg vísi til, varði gerð girðinga á lóðamörkum og séu þær háðar samþykki beggja lóðarhafa.  Slík regla hljóti að teljast eðlileg enda varði girðing á lóðamörkum hagsmuni beggja lóðarhafa jafnt.  Það sé hins vegar hæpið að beita umræddu ákvæði fortakslaust með lögjöfnun um framkvæmdir sem feli í sér nýtingu annars lóðarhafa á eigin lóð og varði því í flestum tilvikum ríkari hagsmuni hans en lóðarhafa aðlægrar lóðar. 

Jafnframt sé bent á að bílskúrar þeir sem séu við Aragötu og Oddagötu séu með ýmsu móti.  Þeir hafi ýmist slétt þak eða hallandi og séu ýmist steyptir eða úr timbri.  Margir bílskúrar nái út í lóðarmörk og sumir séu áfastir eða tengdir húsunum.  Það sé því ekki hægt að segja að götumyndin sé einsleit að þessu leyti.  Rök íbúa að Aragötu 13 standist því ekki þegar hann segi að breytingar frá eldri skúr séu óréttlætanlegar, sem og breytt útlit bílskúrs miðað við ásýnd húsanna í hverfinu. 

Að lokum sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi á árinu 2009 verið afar jákvæð gagnvart áformum um að byggður yrði einnar hæðar bílskúr á lóðinni.  Auk þess sem aðrir nágrannar hafi samþykkt framkvæmdina fyrir sitt leyti. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda um ógildingu synjunar byggingarfulltrúa í máli þessu verði hafnað. 

Það sé rétt hjá kæranda að skipulagsyfirvöld hafi verið jákvæð gagnvart byggingaráformum hans varðandi byggingu bílskúrs á lóðinni en hins vegar verði ekki annað leitt af byggingarreglugerð en að bygging á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa, sbr. gr. 67.1.  Kæranda hafi ekki tekist að afla samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar við Aragötu og því hafi byggingarfulltrúa borið að synja umsókninni.  Bent sé á að hafi sjónarmið hagsmunaaðila komið fram áður, eða ekki hafi fengist lögáskilið samþykki fyrir framkvæmd, megi líta svo á að ekki beri að grenndarkynna framkvæmdina, enda hafi slíkt þá enga þýðingu.  Ekkert hafi komið fram í málinu sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa. 

Niðurstaða:  Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi, og deiliskipulag liggi ekki fyrir, eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.  Skal sveitarstjórn að grenndarkynningu lokinni taka málið til afgreiðslu.

Í máli þessu setti skipulagsstjóri það skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki eigenda aðliggjandi lóða lægi fyrir.  Eftir að gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 var breytt í desember 2006 er þar kveðið á um að bil milli húsa skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út.  Er í reglugerðinni ekki lengur að finna bein fyrirmæli um lágmarksfjarlægð húss frá lóðamörkum og verður ekki fallist á þá túlkun Reykjavíkurborgar að slík regla verði leidd af ákv. gr. 67.1 varðandi girðingar.  Áðurnefnt skilyrði studdist því hvorki við ákvæði byggingarreglugerðar né aðrar settar réttarheimildir og samrýmdist ekki ákvæði 44. gr. skipulagslaga.  Umsókn kæranda hlaut af þessum sökum ekki lögboðna meðferð og verður hin kærða synjun byggingarfulltrúa því felld úr gildi. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 um að synja umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu í Reykjavík.

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

8/2010 Háholt

Með

Ár 2011, föstudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 8/2010, kæra á synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. febrúar 2010, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Ragnheiður Þorkelsdóttir hdl., f.h. K, Háholti 24, Mosfellsbæ, synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Aðdragandi máls þessa er sá að hinn 26. júní 1954 tók kærandi á leigu landsspildu í eigu Mosfellshrepps undir verslunarhús og söluskála.  Hann tók síðan á leigu viðbótarlóð, austan fyrrgreindrar landspildu, hinn 9. maí 1963, sem svarar nú til lóðanna nr. 16, 18, 20, 22 og 24 við Háholt í Mosfellsbæ.  Leigusamningar nefndra lóða voru endurnýjaðir hinn 19. febrúar 1998. 

Með kaupsamningi, dags. 7. apríl 1998, seldi kærandi einbýlishús að Háholti 20, ásamt lóðarréttindum.  Samkomulagi milli kaupenda og seljanda var þinglýst og fól það í sér að seljandi héldi eftir átta metra breiðri spildu á suðurmörkum lóðarinnar.  Í samkomulaginu kom einnig fram að seljandi stefndi að því að fá samþykki bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ til að sameina framangreindan syðsta hluta lóðarinnar að Háholti 20 lóðinni nr. 22 við Háholt.  Kaupendur seldu síðan eignina í nóvember 1999 til núverandi þinglýstra eigenda. 

Með bréfi, dags. 27. september 2007, var kæranda tilkynnt að til stæði að breyta deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar og þyrfti bærinn af þeim sökum að nýta heimild sína í lóðarleigusamningum til að leysa til sín tilteknar lóðir kæranda við Háholt.  Var þessari fyrirætlan mótmælt af hálfu kæranda.  Í ágústmánuði 2008 fór kærandi fram á að lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 yrði breytt á þann veg að fyrrgreind átta metra spilda úr lóðinni að Háholti 20 yrði lögð undir lóðina að Háholti 22.  Hinn 4. september s.á. samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar innlausn lóðanna nr. 16, 18 og 22 við Háholt með stoð í 12. gr. lóðarleigusamninga um lóðirnar en ákvað að bíða með ákvörðun um lóðamörk Háholts 20 og 22 þar til málalyktir lægju fyrir um innlausnina.  Sú ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 10. sama mánaðar. 

Í kjölfar þessa var kæranda tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar og var Sýslumanninum í Reykjavík sent erindi þess efnis að umræddir lóðarleigusamningar yrðu afmáðir úr þinglýsingarbókum á grundvelli 39. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.  Með úrlausn þinglýsingarstjóra, dags. 4. febrúar 2009, var þeirri beiðni hafnað þar sem ekki væru forsendur til þess að aflýsa umræddum lóðarleigusamningnum á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lægju í málinu.  Héraðsdómur staðfesti þá niðurstöðu sýslumanns með úrskurði uppkveðnum 26. mars 2010 og Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð héraðsdóms með dómi uppkveðnum 30. apríl s.á. 

Kærandi fór ítrekað fram á að umsókn hans um áðurgreinda breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 fengi efnislega afgreiðslu og hinn 28. janúar 2010 synjaði bæjarráð umsókninni með sömu rökum og lágu að baki afgreiðslu ráðsins á erindinu hinn 4. september 2009.  Hafa kærendur skotið þeirri synjun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Til stuðnings ógildingarkröfu sinni vísar kærandi til þess að bæjaryfirvöldum sé ekki stætt á að synja erindi hans um breytt lóðamörk á grundvelli þess að til staðar sé ágreiningur milli aðila um beitingu 12. gr. lóðarleigusamninga um lóðirnar að Háholti 16, 18 og 22.  Bæjaryfirvöldum sé skylt að taka efnislega afstöðu til erindisins, óháð öðrum ágreiningi aðila, enda séu málin ótengd.  Beiðni um breytingu á lóðamörkum byggi á kaupsamningi sem gerður hafi verið árið 1998 um einbýlishúsið Háholt 20 ásamt tilheyrandi lóðarleiguréttindum. 

Ómálefnanleg rök liggi að baki synjun bæjarráðs.  Synjunin byggi eingöngu á þeirri staðreynd að annar ágreiningur sé til staðar milli aðila og því sé ekki unnt að fallast á erindið.  Beiðni um breytingu á lóðamörkum byggi á atvikum sem hafi átt sér stað löngu áður en ágreiningur aðila um 12. gr. lóðarleigusamninganna hafi komið upp.  Kærandi sé ennþá eigandi lóðarinnar að Háholti 22 og það varði hagsmuni hans miklu, sem og hagsmuni eiganda fasteignarinnar að Háholti 20, að bæjaryfirvöld taki erindi hans til málefnalegrar skoðunar.  Hin kærða ákvörðun sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti og hafi kærandi óskað eftir frekari rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að ágreiningur um heimild Mosfellsbæjar til að leysa til sín lóðir að Háholti, sem m.a. hafi varðað lóðina Háholt 22, hafi verið kominn upp þegar kærandi hafi óskað þess að lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 yrði breytt.  Á sínum tíma hafi ekki þótt rétt að taka afstöðu til þeirra breytinga á lóðamörkum sem falist hafi í umsókn kæranda og hafi honum verið tilkynnt um frestun á afgreiðslu málsins þar til ferli varðandi nýtingu á 12. gr. umræddra lóðarleigusamninga um innlausn lóða við Háholt væri lokið. 

Mosfellsbær vísar til þess að vegna ítrekana kæranda á að umrætt erindi yrði tekið til efnislegrar meðferðar hafi beiðnin um breytingu á lóðamörkum verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs hinn 28. janúar 2010 þar sem bæjarráð hafi samþykkt að synja erindi um breytingu á mörkum lóðanna Háholts 20 og 22.  Synjunin hafi verið rökstudd með vísan til beitingar Mosfellsbæjar á 12. gr. lóðarleigusamninga vegna lóða nr. 16, 18 og 22 við Háholt, svo og þess útburðarmáls sem þá hafi verið rekið fyrir dómstólum varðandi þær lóðir.  Þegar erindi kæranda hafi verið synjað hafi í raun verið óútkljáð hver færi með réttindi til lóðarinnar nr. 22 og hefði þar með hagsmuni af því hvernig lóðamörkum þar væri hagað. 

Fyrir liggi að beiðni kæranda um breytingu á lóðamörkum varði bæði Háholt 20 og 22.  Ljóst sé að kærandi sé ekki lóðarhafi að lóð nr. 20 svo sem fram komi í kæru.  Jafnframt telji Mosfellsbær að heimild 12. gr. gildandi lóðarleigusamnings til að leysa til sín lóðina að Háholti 22 hafi verið beitt með lögmætum hætti.  Samkvæmt þessu sé staðan sú að kærandi krefjist þess að mörkum á milli tveggja lóða, sem hann eigi ekki réttindi yfir, verði breytt.  Það sé eitt af grunnskilyrðum þess að Mosfellsbær geti orðið við beiðni um breytingu á lóðamörkum að beiðnin stafi frá lóðarhöfum viðkomandi lóða.  Á meðan ágreiningur um það sé óútkljáður hafi Mosfellsbær ekki getað tekið beiðni kæranda til efnislegrar skoðunar og því hafi bærinn orðið að synja erindi hans um breytingu á umræddum lóðamörkum.  Samkvæmt þessu sé því hafnað að um ótengd mál sé að ræða.  Í ljósi málsatvika hafi málefnaleg sjónarmið búið að baki synjunar bæjarins á beiðni kæranda. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 um breytingu á lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ. 

Samkvæmt 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem voru í gildi við töku hinnar kærðu ákvörðunar, ákveður sveitarstjórn skiptingu landa, lóða og breytingar á lóðamörkum.  Stærðir og mörk nefndra lóða koma fram á mæliblaði árituðu af byggingarfulltrúa hinn 21. júlí 1997 og um lóðirnar gilda lóðarleigusamningar, dags. 19. febrúar 1998, þar sem vísað er til nefnds mæliblaðs.

Fyrir liggur að ástæða Mosfellsbæjar fyrir höfnun á erindi kæranda um breytt lóðamörk var fyrirhuguð breyting á deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar og innlausn á lóðunum samkvæmt heimild í gildandi lóðarleigusamningum af því tilefni.  Verður því að telja að hin til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hafi legið lögmæt og málefnaleg sjónarmið.  Þá fólst í raun í erindi kæranda beiðni um breytingu á tvíhliða samningum um leigu umræddra lóða og verður ekki séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að knýja fram breytingar á þeim í andstöðu við vilja viðsemjanda síns.  Var bæjaryfirvöldum einnig af þeirri ástæðu rétt að synja erindi kæranda.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á ógildingarkröfu kæranda í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson