Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2012 Dalsbraut, Akureyri

Árið 2012, miðvikudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2012, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. febrúar 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lengingu Dalsbrautar á Akureyri, frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. fjögurra íbúa og eigenda fasteigna að Kolgerði 3, Hörpulundi 19 og Grenilundi 11, Akureyri, þá ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. febrúar 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lengingu Dalsbrautar frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut. 

Af hálfu kærenda er gerð sú krafa að hið kærða framkvæmdaleyfi verði fellt úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik og rök:  Hinn 6. desember 2011 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar nýtt deiliskipulag fyrir svæði við Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2012.  Fól skipulagið í sér að tengibrautin Dalsbraut var lengd um 800 metra frá aðkomuvegi Lundarskóla og tengd Miðhúsabraut um hringtorg við Kjarnagötu.  Skipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 9. febrúar 2012, og standa m.a. kærendur í máli þessu að því kærumáli.  Hinn 9. febrúar 2012 sótti framkvæmdadeild bæjarins um leyfi til framkvæmda vegna lengingar Dalsbrautar og samþykkti skipulagsnefnd þá umsókn 15. s.m. 

Vísa kærendur um málsatvik og málsástæður til kærumáls síns vegna fyrrgreindrar deiliskipulagsákvörðunar þar sem höfð er uppi krafa um ógildingu skipulagsins.  Hið kærða framkvæmdaleyfi eigi að mati kærenda stoð í ógildanlegu deiliskipulagi og fari jafnframt gegn skýrum fyrirmælum Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018 um skilyrði framkvæmda.  Í húfi séu miklir hagsmunir kærenda og brýnt sé að ekki verði hafnar framkvæmdir á meðan málið sé óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni.  Verði framkvæmdir hafnar óttist kærendur að ekki verði aftur snúið og að ógilding hinnar kærðu ákvörðunar yrði því haldlaus. 

Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að krafa kærenda í máli þessu sé samofin ógildingarkröfu þeirra í kærumáli vegna deiliskipulags umrædds svæðis.  Á þessu stigi sé því ekki unnt að taka afstöðu til ógildingar umdeilds framkvæmdaleyfis en bæjaryfirvöld hafi enn ekki komið að sjónarmiðum sínum vegna skipulagskærunnar.  Fram komi í 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en kærandi geti þó krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Fyrir hendi sé gilt leyfi fyrir umdeildum framkvæmdum og muni þær hefjast við fyrsta tækifæri.  Verði fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sé farið fram á, með hliðsjón af 2. mgr. 5. gr. laga um úrskurðarnefndina, að kærmál þetta sæti flýtimeðferð. 

Niðurstaða:  Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. 

Fyrir úrskurðarnefndinni liggur óafgreitt kærumál þar sem krafist er ógildingar deiliskipulagsákvörðunar sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðst við.  Gögn vegna þess máls hafa ekki borist úrskurðarnefndinni enda er frestur Akureyrarbæjar til að skila þeim ekki liðinn.  Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir verður þó ráðið að uppi séu álitaefni í málinu sem gætu ráðið úrslitum um gildi hins kærða deiliskipulags.

Eins og atvikum er háttað þykir rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi en málið sætir flýtimeðferð í samræmi við kröfu Akureyrarbæjar þar um, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem heimilaðar voru með ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar 15. febrúar 2012 við lengingu á Dalsbraut á Akureyri, frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut, skulu stöðvaðar á meðan kærumál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson