Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

93/2011 Oddeyrartangi

Árið 2012, þriðjudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 93/2011, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 28. september 2011 á erindi varðandi rýmkun á starfsleyfi fyrir sorphirðu, sorpflutningi, gámaleigu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 við Oddeyrartanga á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. nóvember 2011, er barst úrskurðarnefndinni 14. s.m., kærir Íslenska gámafélagið ehf., Gufunesi, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 28. september 2011 á erindi varðandi rýmkun á starfsleyfi fyrir sorphirðu, sorpflutningi, gámaleigu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 við Oddeyrartanga á Akureyri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 4. mars 2009 veitti Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra kæranda í máli þessu starfsleyfi til 12 ára fyrir starfsemi á sviði sorphirðu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 að Oddeyrartanga.  Það starfsleyfi var endurnýjað til 12 ára hinn 20. október 2010 og tók þá jafnframt til móttöku á flokkuðum endurvinnanlegum úrgangi.  Með bréfi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 10. ágúst 2011, óskaði kærandi síðan eftir rýmkun á starfsleyfinu með því að heimiluð yrði móttaka og umhleðsla á almennu heimilissorpi til flutnings á förgunarstað.  Af sama tilefni hafði kærandi hinn 5. september s.á. samband með tölvupósti við skipulagsyfirvöld Akureyrarbæjar, þar sem gerð var grein fyrir starfsemi kæranda og fyrirliggjandi umsókn um rýmkun leyfisins.  Lýsti kærandi þar von sinni um að skipulagsyfirvöld sæju enga annmarka á starfsemi fyrirtækisins á svæðinu. 

Hinn 28. september 2011 var gerð svofelld bókun á fundi skipulagsnefndar: 

11.  Oddeyrartangi 149144 – umsókn um breytingu á notkun – 2011090064
Erindi dagsett 10. ágúst 2011 frá Birgi Kristjánssyni f.h. Íslenska Gámafélagsins ehf. þar sem óskað er eftir leyfi til móttöku og umhleðslu á almennu heimilissorpi til flutnings á förgunarstað í húsnæðinu að Oddeyrartanga, húsi nr. 6. 
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gaf út starfsleyfi fyrir m.a. móttöku á flokkuðum endurvinnanlegum úrgangi þ. 11. nóvember 2010. 
Fyrir liggur neikvæð umsögn stjórnar Hafnarsamlags Norðurlands bs. dagsett 12. september 2011 fyrir starfseminni þar sem m.a. er bent á að starfsemin brjóti í bága við skilmála deiliskipulags hafnarsvæðisins.
Í gildandi deiliskipulagi er umrætt svæði skilgreint undir matvælaiðnað (M) þar sem m.a. er gert ráð fyrir sláturhúsi, kjötiðnaðarstöð og stórum fiskvinnslufyrirtækjum.
Skipulagsnefnd hafnar erindinu þar sem starfsemin fellur ekki að gildandi deiliskipulagi svæðisins. Ennfremur er óskað eftir því við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra að útgefið starfsleyfi Íslenska Gámafélagsins ehf., dagsett 11. nóvember 2010 verði fellt úr gildi af sömu ástæðum. 

Var kæranda tilkynnt um bókunina í bréfi, dags. 29. september 2011.  

Með bréfi, dags. 10. október 2011, fór kærandi fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun skipulagsnefndar í fyrrgreindri bókun að óska eftir niðurfellingu starfsleyfis hans og var því erindi svarað með bréfi nefndarinnar, dags. 18. s.m.  Kom þar m.a. fram að umrædd starfsemi færi í bága við gildandi deiliskipulag og ekki hefði verið aflað tilskilins byggingarleyfis hennar vegna.  Hefði umrædd ósk um niðurfellingu starfsleyfis því verið sett fram en bæjaryfirvöldum hefði áður verið ókunnugt um umrædda starfsemi kæranda. 

Kærandi vísar til þess að hann hafi haft leyfi lögum samkvæmt fyrir starfsemi sinni á Oddeyrartanga allt frá árinu 2009 og hljóti bæjaryfirvöldum að hafa verið um hana kunnugt.  Í rökstuðningi skipulagsnefndar fyrir hinni kærðu afgreiðslu sé ekki að finna nein lagarök og með henni hafi nefndin farið langt út fyrir lögbundið hlutverk sitt og heimildir skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Umrædd ósk skipulagsnefndar til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra eigi sér enga stoð í lögum og fari því gegn lögmætisreglu íslenskrar stjórnskipunar og meðalhófsreglu þar sem allt of langt sé gengið með íþyngjandi hætti gegn hagsmunum kæranda. 

Af hálfu skipulagsyfirvalda Akureyrar er á það bent að bæjaryfirvöldum hafi ekki verið kunnugt um starfsemi kæranda fyrr en við umsókn hans um útvíkkun leyfisins haustið 2011.  Við útgáfu upphaflegs starfsleyfis hafi þess ekki verið gætt af leyfisveitanda að starfsemin væri í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Á fundi sínum hinn 28. september 2011 hafi skipulagsnefnd hafnað útvíkkun starfsleyfisins af þeim sökum, en umrætt húsnæði kæranda sé í deiliskipulagi á skilgreindu svæði undir matvælaiðnað.  Af framangreindum ástæðum hafi þeim tilmælum jafnframt verið beint til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra að útgefið starfsleyfi kæranda yrði fellt úr gildi.  Hverjum sem er sé heimilt að hafa uppi tilmæli til stjórnvalda um endurskoðun ákvarðana sem kunni að fara gegn lögum eða öðrum settum fyrirmælum.  Starfsleyfið brjóti gegn gildandi deiliskipulagi og hafi kærandi ekki sótt um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun þeirrar fasteignar sem hýsi umdeilda starfsemi.

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 m.s.br. veita heilbrigðisnefndir, eða eftir atvikum Umhverfisstofnun, starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem lögin taka til.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum heyrir afgreiðsla á umsókn kæranda, sem mál þetta er sprottið af, undir Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.  Hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrar, sem fram kemur í bókun nefndarinnar frá 28. september 2011, getur því ekki falið í sér annað en afstöðu eða álit nefndarinnar varðandi umsókn kæranda um breytt starfsleyfi og tilmæli til leyfisveitanda að lögum um að fella úr gildi þegar útgefið starfsleyfi. 

Samkvæmt 1. og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sætir stjórnvaldsákvörðun stjórnsýslu sveitarfélaga samkvæmt nefndum lögum kæru til úrskurðarnefndarinnar enda bindi hún enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í hinni kærðu bókun skipulagsnefndar Akureyrar er, eins og fyrr er rakið, ekki að finna slíka ákvörðun og ber því með vísan til greindra lagaákvæða að vísa máli þessu frá nefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson