Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2017 Fiskhóll

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. janúar 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir tjaldsvæði og íbúðarbyggð á Fiskhóli, Höfn í Hornafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 21. mars 2017, er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 11. október s.á., var framsend kæra eigendur Fiskhóli 11, Höfn í Hornafirði, vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. janúar 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir tjaldsvæði og íbúðarbyggð á Fiskhóli. Er þess krafist að deiliskipulaginu verði breytt á þann veg að landnýtingarflokkur lóðar kærenda verði íbúðar- og atvinnustarfsemi. Verður að skilja málatilbúnaði kærenda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 13. nóvember 2017.

Málavextir: Með bréfi, dags. 23. ágúst 2016, óskuðu kærendur eftir því við bæjarráð Hornafjarðar að annað hvort yrði landnotkunarflokki lóðarinnar Fiskhóls 11 breytt í verslunar- og þjónustuflokk í stað íbúðarbyggðar eða að landnotkunarflokki Fiskhóls í heild yrði breytt í miðsvæði. Á fundi skipulagsnefndar Hornafjarðar 7. september s.á. var bókað að beiðni kærenda um breytingu á aðalskipulagi Hornafjarðar væri synjað. Afgreiðsla skipulagsnefndar var svo samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hornafjarðar 10. nóvember 2016.

Bæjarstjórn Hornafjarðar samþykkti á fundi sínum 8. september 2016 að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir tjaldsvæði og íbúðarbyggð á Fiskhóli. Tillagan var auglýst 22. september s.á. með fresti til að gera athugasemdir til 3. nóvember s.á. Á kynningartíma tillögunnar bárust athugasemdir frá kærendum máls þessa þar sem m.a. voru gerðar athugasemdir varðandi landnotkunarflokk á Fiskhóli 11. Skipulagsstjóri Hornafjarðar sendi kærendum bréf 4. janúar 2017 þar sem athugasemdum þeirra var svarað. Á fundi bæjarstjórnar 12. s.m. var deiliskipulagstillagan samþykkt og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. febrúar 2017.

Málsrök kæranda:
Kærendur krefjast þess að landnotkunarflokki lóðarinnar Fiskhóls 11 verði breytt á þann hátt að hann endurspegli þá starfsemi sem rekin hafi verið þar í tugi ára. Í dag sé lóðin skráð sem íbúðarlóð en með réttu eigi hún að vera skráð sem lóð fyrir íbúðar- og atvinnustarfsemi. Sé hvað það varðar vísað til 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem fram komi að við gerð deiliskipulags skuli taka mið af þeirri starfsemi sem þegar sé fyrir á því svæði sem verið sé að gera deiliskipulag fyrir.

Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærendur séu í raun að fara fram á að úrskurðarnefndin breyti landnotkunarflokki fyrir Fiskhól, sem sé og hafi verið skráður sem íbúðarbyggð (ÍB). Sveitarfélagið geti ekki séð að úrskurðarnefndin hafi heimild til að breyta landnotkun í aðalskipulagi, enda sé vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitastjórnar, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Heimilt sé samkvæmt gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en í aðalskipulagi. Nýtt deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Fiskhóli skilgreini landnotkunarheimildir og eigi kærendur ekki lögvarða kröfu til þess að fá skipulagi breytt. Ákvörðun skipulagsnefndar 7. september 2016 um að synja kærendum um breytingu á landnotkun hafi verið málefnaleg og studd þeim rökum að rétt væri að standa vörð um þegar skipulagða íbúðarbyggð á svæðinu. Jafnframt hafi skipulagsnefnd bent á að gistiheimili sem starfrækt séu allt árið um kring, með tilheyrandi umferð ferðamanna, rúmist ekki í íbúðarbyggð.

Kærendur hafi bent á að mál þeirra sé sambærilegt máli sem hafi varðað breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2030. Þar hafi umsækjendur óskað eftir breytingu á landnotkun úr íbúðarbyggð í miðsvæði á þremur lóðum við Hafnarbraut og Skólabrú og hafi það verið samþykkt. Aðstæður þar og í þessu máli séu ólíkar, þar sem samfellt miðsvæði sé skilgreint við Hafnarbraut auk þess sem verslun og þjónusta hafi verið starfrækt á umræddum lóðum í áratugi. Á Fiskhóli séu sex einbýlishús í grónu hverfi og hafi svæðið ávallt verið skilgreint sem íbúðarbyggð.

Samkvæmt skipulagslögum sé sveitarstjórnum gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags. Það sé mat sveitarfélagsins að markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð séu í 1. gr. þeirra, hafi verið fylgt í hvívetna við meðferð og gildistöku nýs deiliskipulags fyrir íbúðarsvæði á Fiskhól.

Kærendur hafi vísað til þess að samkvæmt 37. gr. skipulagslaga skuli við gerð deiliskipulags taka mið af þeirri starfsemi sem þegar sé fyrir á svæðinu. Þessari túlkun sé sveitarfélagið ekki sammála. Í 37. gr. laganna sé fjallað um innihald deiliskipulags og framsetningu þess. Í 1. mgr. sé skilgreint til hvers konar ákvarðana deiliskipulag taki, svo sem um lóðir, lóðanotkun og byggingarreiti. Í deiliskipulagi sé þannig fjallað með mun nákvæmari hætti um einstaka þætti skipulags en eigi við um svæðis- og aðalskipulag. Í 2. mgr. sé kveðið á um að deiliskipulag taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Með því sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir, þó að slíkt geti stundum átt við. Í 3. mgr. sé áréttað að deiliskipulag skuli vera í samræmi við stefnu aðalskipulags, en hlutverk deiliskipulags sé að útfæra nánar þá stefnu. Það sé mat sveitarfélagsins að málsmeðferð nýs deiliskipulags fyrir íbúðarbyggð á Fiskhóli hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar.

Undanfarin ár hafi kærendur rekið heimagistingu á Fiskhóli 11, en áður hafi tölvuþjónusta verið starfrækt í húsinu. Samkvæmt lögum sé heimagisting skilgreind sem gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hafi til persónulegra nota og sé í hans eigu, sbr. 3. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skuli ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki nema hærri fjárhæð en 2.000.000 króna. Heimagisting falli undir gistiflokk I samkvæmt lögunum. Sveitarfélagið sé þeirrar skoðunar að heimagisting rúmist innan íbúðarbyggðar, enda sé um minni háttar atvinnurekstur að ræða. Beiðni kæranda snúi aftur á móti að rekstri gistiheimilis sem falli undir gistiflokk II, er feli í sér meiri háttar atvinnurekstur árið um kring. Gistiheimilum fylgi umtalsverð umferð vegna ferðamanna sem rúmist almennt ekki í íbúðarbyggð. Samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2030 sé áhersla lögð á að hafa yfirsýn og stjórn á fjölgun gistirýma og staðsetningu þeirra og hafi sveitarfélagið hvatt til uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðum sem skilgreind séu sem verslun og þjónusta eða miðsvæði.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar því lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Í samræmi við það er það ekki á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu, enda fer sveitarstjórn með deiliskipulagsvald innan sveitarfélagamarka samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Af þessum sökum verður ekki tekin til úrlausnar krafa kærenda um að hinu umrædda deiliskipulagi verði breytt, þ.e. að landnotkun lóðar nr. 11 á Fiskhóli verði skráð sem íbúðar- og atvinnustarfsemi.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Við gerð deiliskipulags ber þess að gæta að deiliskipulagið rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Lóðin á Fiskhóli 11 er samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2030 á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB-6. Samkvæmt hinu umrædda deiliskipulagi er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á Fiskhóli og kemur þar fram að lóðirnar séu fullbyggðar. Er því landnotkun lóðarinnar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi í samræmi við aðalskipulag, svo sem áskilið er í fyrrnefndri 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Skipulagslýsing vegna hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu var tekin saman og umsagna um hana leitað í samræmi við 40. gr. skipulagslaga. Hún var auglýst til kynningar með almennum hætti, líkt og kveðið er á um í 41. gr. laganna, og að lokinni kynningu var framkomnum athugasemdum svarað. Tillagan var tekin til umræðu hjá bæjarstjórn sveitarfélagsins að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar í samræmi 3. mgr. 41. gr. laganna. Þá var gildistaka deiliskipulagsins auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, að undangenginni lögmæltri athugun Skipulagsstofnunar, sbr. 42. gr. laganna. Var málsmeðferðin því í samræmi við ákvæði skipulagslaga og samræmist landnotkun íbúðarbyggðar á Fiskhóli gildandi aðalskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið var hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin neinum þeim form- eða efnisannmörkum sem valdið geti ógildingu hennar. Verður kröfu þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. janúar 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir tjaldsvæði og íbúðarbyggð á Fiskhóli, Höfn í Hornafirði.

128/2017 Laugavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., lóðarhafi Laugavegar 59, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. júní 2018.

Málavextir: Haustið 2015 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi, sem fól í sér leyfi til að byggja inndregna hæð ofan á hús félagsins að Laugavegi 59 og til að innrétta íbúðir á 3.-5. hæð þess. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2016. Ágreiningur kom upp um túlkun heimilda skipulagsins í tengslum við umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu og var umsókninni synjað. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 27. júlí 2017

Með bréfi, dags. 6. júní 2017, spurðist kærandi fyrir um hvort leyft yrði að hafa gistiþjónustu á 3.-5. hæð hússins að Laugavegi 59. Erindinu var svarað með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. júní 2017, þar sem tekið var fram að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 væri Laugavegur á landnotkunarsvæði M1a, sem heimilaði fjölbreytta landnotkun. Í skipulagslögum væri heimild til að þrengja heimildir í aðalskipulagi með deiliskipulagi, líkt og gert hefði verið, sbr. 2. mgr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Neikvætt svar skipulagsyfirvalda við umsókn kæranda væri því í fullu samræmi við heimildir í deiliskipulaginu. Þar væri sett skilyrði um að íbúðir í húsinu verði í langtímaleigu en ekki skammtímaleigu, sem félli undir gististarfsemi.

Kærandi krafðist rökstuðnings fyrir niðurstöðu umhverfis- og skipulagssviðs með bréfi, dags. 21. júlí 2017, auk þess að krefjast þess að ákvörðun yrði tekin um kröfu félagsins um leiðréttingu og breytingu á greinargerð deiliskipulags Laugavegar 59 sem hefði ekki enn verið svarað. Kærandi áréttaði kröfur sínar með bréfi lögmanns, dags. 21. ágúst s.á., og með bréfi arkitektastofu, dags. 23. ágúst 2017, þar sem óskað var eftir leiðréttingu á skilgreiningu landnotkunar í greinargerð deiliskipulagsins varðandi Laugaveg 59 á þann veg að vísað yrði í landnotkunarheimild aðalskipulags vegna svæðis M1a í stað M1c. Með bréfi til borgaryfirvalda, dags. 30. ágúst 2017, sótti kærandi síðan um leiðréttingu á gildandi deiliskipulagi, sem hafnað var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. september s.á. með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa frá 8. s.m. Borgarráð staðfesti synjun umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 28. september 2017 og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur villu vera í núgildandi deiliskipulagi sem taki til fasteignar hans að Laugavegi 59. Vísað sé þar til landnotkunar svæðis M1c, blönduð miðborgarbyggð, en hið rétta sé að lóðin tilheyri svæði M1a, miðborgarkjarna. Munur sé á skilgreindri landnotkun á svæðunum, þar sem á svæði M1c sé annars vegar lögð áhersla á íbúðir til heilsársbúsetu, að lágmarki 40% landnotkunar, en hins vegar séu heimildir fyrir skrifstofu- og íbúðarhúsnæði svo og gistiþjónustu.

Röng trú kæranda um að á svæðinu gilti landnotkun M1c hafi haft áhrif á væntingar hans um þá starfsemi sem gæti verið í umræddu húsi. Í greinargerð á upphaflegum uppdrætti að tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins segi að gert sé ráð fyrir að allar íbúðir verði í langtímaleigu. Dragi þessi setning augljóslega dám af landnotkun svæðis M1c sem hönnuðir kæranda hafi talið eiga við. Þessi villa hafi leitt til þess að kærandi hafi fallist á tilmæli starfsmanns skipulagsfulltrúa um að afmarka nánar í skilmálatöflu landnotkun einstakra hæða hússins. Tilmælin hafi verið bæði óþörf og ómálefnaleg enda hafi öll starfsemi sem fyrirhuguð hafi verið í húsinu rúmast innan landnotkunar í miðborgarkjarna M1a og þar með innan landnotkunar gildandi deiliskipulags svæðisins frá 1999. Með afmörkun á landnotkun einstakra hæða hafi landnotkun verið þrengd frá því sem annars gilti á svæðinu og lóðarhöfum þannig mismunað án þess að nokkur rök eða málefnalegar ástæður hafi staðið til þess. Kærandi eigi því lögvarða kröfu til þess að fá þetta leiðrétt og ekki sé lögmætur grundvöllur til að synja erindi hans.

Á lóð sem sé á sama staðgreinireit og fasteign kæranda hafi árið 2013 verið heimilað að auka byggingarmagn verulega og auka nýtingarhlutfall úr 2,51 í 3,5 og tekið fram að heimilt væri að hafa hótel/gistiheimili á lóðinni. Í húsinu séu íbúðir sem leigðar séu skammtímaleigu til ferðamanna þrátt fyrir að lóðin sé á svæði M1c, þar sem í aðalskipulagi segi að styrkja eigi íbúðarbyggð og að íbúðir skuli almennt vera til heilsársbúsetu. Ekki falli saman mörk deiliskipulags fyrir umræddan staðgreinireit og mörk svæða M1a og M1c meðfram Hverfisgötu og sé Hverfisgata 78 innan deiliskipulagsreitsins en utan svæðis M1a. Þá hafi á Laugavegi 55 verið leyft að reisa hótel, væntanlega á þeirri forsendu að heimild væri fyrir því í gildandi deiliskipulagi, sem um landnotkun vísi til aðalskipulags.

Við ýmsar breytingar sem gerðar hafi verið á gildandi deiliskipulagi svæðisins hafi hvergi verið gerð krafa um að landnotkun væri sett í skilmálatöflu eða með öðrum hætti þrengd frá því sem gilti á svæðinu samkvæmt deiliskipulaginu frá 1999. Í raun sé farið á svig við skilmála varðandi Hverfisgötu 79 þar sem það fari í bága við landnotkun M1c, sem gildi um lóðina, að reka þar íbúðir til útleigu fyrir ferðamenn. Hafi borgaryfirvöld með þessu haft rækilega endaskipti á hlutunum og ljóst sé að ekki hafi verið gætt jafnræðis milli lóðarhafa á reitnum við breytingar á deiliskipulagi vegna einstakra lóða. Hafi réttur kæranda verið brotinn með því að knýja hann til að afmarka landnotkun einstakra hæða, svo og með þeirri túlkun á skilmálum skipulagsins sem fylgt hafi í kjölfarið.

Að lokum sé tekið fram að með synjun sinni hafi borgaryfirvöld vegið að stjórnarskrárvörðum  eignarrétti og atvinnurétti kæranda og sé allur réttur áskilinn til skaðabóta vegna þess tjóns sem af hinni ólögmætu afgreiðslu hafi hlotist.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt aðalskipulagi sé lóð kæranda á miðborgarsvæði M1a, þar sem lögð sé áhersla á að styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda, en um leið að efla verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Í gildi sé deiliskipulag reits 1.173.0, sem heimili að byggja inndregna hæð ofan á fjórðu hæð húss kæranda og áskilji að íbúðir verði á 3.-5. hæð.

Kærandi hafi sjálfur staðið að deiliskipulagsbreytingu reitsins í samráði við Reykjavíkurborg og ljóst hafi verið frá upphafi að forsendan fyrir auknu byggingarmagni væri að á umræddum hæðum hússins skyldu vera íbúðir en ekki gististarfsemi. Skýrt komi fram í umsókn kæranda, dags. 29. júlí 2015, að breytingin gangi út á að byggja inndregna þakhæð ofan á núverandi hús og breyta 3. og 4. hæð hússins í íbúðir sem yrðu í langtímaleigu. Skilgreiningu á afmörkun notkunar hússins hafi verið bætt við skilmálana að ósk embættis skipulagsfulltrúa. Hún hafi verið í fullu samræmi við þær forsendur sem lágu að baki deiliskipulagsbreytingunni og óskir lóðarhafa.

Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna hinnar kærðu synjunar hafi komið fram að samkvæmt gildandi deiliskipulagi væri hvergi minnst á gististarfsemi. Forsenda breytingarinnar hafi verið að á umræddum hæðum skyldu verða íbúðir en ekki gististarfsemi. Enga þýðingu hafi að sú villa hafi verið í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar frá 2015 að svæðið hafi verið skilgreint sem blönduð miðborgarbyggð í stað miðborgarkjarna. Heimilt sé að þrengja heimildir aðalskipulags í deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. gr. 5.3.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem segi að heimilt sé að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi og kveða á um mismunandi notkun og tegund á starfsemi á einstökum lóðum, lóðahlutum eða byggingarhlutum. Það hafi verið gert í þessu tilviki og tekið fram að um íbúðir yrði að ræða. Umrætt deiliskipulag sé í gildi og sé bindandi fyrir lóðarhafa og hann eigi enga lögvarða kröfu á að fá því breytt.

Ekki sé hægt að fallast á þau rök að það hafi verið röng túlkun á skipulagi að telja að á 2. hæð eigi að vera bæði verslun og þjónusta. Það standi í skipulagi og því verði ekki annað séð en að skilyrt sé að það skuli vera hvoru tveggja. Ekki sé boðið upp á val um annað hvort og ekki fáist staðist sú túlkun kæranda að um sérstakan landnotkunarflokk sé að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi sem tekur til fasteignar hans að Laugarvegi 59 í Reykjavík.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna borgaryfirvalda um þróun byggðar, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Í skipulagsvaldi sveitarstjórnar felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, líkt og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en gert er að skilyrði að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr.

Í gildi er Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Á bls. 199-201 í skipulaginu er fjallað um skilgreiningu landnotkunar í miðborg Reykjavíkur. Er landnotkun skipt eftir svæðum í M1a, M1b og M1c. Samkvæmt aðalskipulaginu er lóð nr. 59 við Laugaveg á svæði M1a, miðborgarkjarna. Breyting var gerð á kafla aðalskipulags um landnotkun svæðis M1a, sem tók gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 4. september 2017. Með breytingunni voru sett inn sérákvæði sem takmarka uppbyggingu hótela og gististaða í miðborgarkjarna M1a. Var bætt inn ákvæði um að á svæðinu megi ekki breyta núverandi húsnæði, s.s. skrifstofuhúsnæði, íbúðum og verslunarhúsnæði, í gististarfsemi. Mögulegt sé að skilgreina gististarfsemi sem ákveðið hlutfall starfsemi nýrrar uppbyggingar að undangenginni deiliskipulagsgerð svo lengi sem hún skerði ekki gæði, stærð eða magn núverandi húsnæðis. Var tilgangurinn með breytingunni sá að tryggja að íbúðarbyggð í miðborgarkjarna héldist óbreytt og yrði aðeins að takmörkuðu leyti nýtt undir gististarfsemi. Í greinargerð aðalskipulagsins segir um svæðið að íbúðir skuli almennt vera til heilsársbúsetu en hægt sé að heimila í deiliskipulagi íbúðarhúsnæði sem sérstaklega væri ætlað til útleigu fyrir ferðamenn.

Svæði M1c er skilgreint sem blönduð miðborgarbyggð, þar sem lögð sé áhersla á að vernda og styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda en efla um leið verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarsvæðum. Hlutfall íbúðarhúsnæðis skuli vera að lágmarki 40% landnotkunar á svæðinu. Íbúðir skuli almennt vera til heilsársbúsetu en í deiliskipulagi sé þó hægt að heimila íbúðarhúsnæði sem sérstaklega sé ætlað til útleigu fyrir ferðamenn.

Deiliskipulag umrædds svæðis er frá árinu 1999, en breyting er lýtur að deiliskipulagi staðgreinireits 1.173.0, er markast af Laugavegi, Frakkastíg, Hverfisgötu og Vitastíg, tók gildi 3. febrúar 2016. Í greinargerð umræddrar breytingar er m.a. tekið fram að lögð sé áhersla á að styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda en um leið að efla verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Hlutfall íbúðarhúsnæðis skuli vera að lágmarki 40% landnotkunar á svæðinu og skuli íbúðir almennt vera til heilsársbúsetu. Um fasteign kæranda er tekið fram að gert sé ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð, verslun, þjónustu og skrifstofum á 2. hæð og að skrifstofurými á 3. og 4. hæð víki fyrir íbúðum en ný inndregin þakhæð (5. hæð) muni hýsa íbúðir. Gert sé ráð fyrir að allar íbúðir verði í langtímaleigu.

Í gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur fram að heimilt sé að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi og kveða á um mismunandi notkun og tegund starfsemi á einstökum lóðum, lóðarhlutum eða byggingarhlutum.

Framangreind deiliskipulagsbreyting var unnin í samráði við kæranda og er sérstaklega tekið fram í skilmálum með henni að umræddar íbúðir skuli vera til langtímaleigu. Umsókn kæranda um skammtímaleigu íbúðanna var synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, þar sem fram kemur að í umsókninni felist beiðni um breytta notkun á umræddum íbúðum og þar með breyting frá gildandi skilmálum deiliskipulags. Hafi heimild til deiliskipulagsbreytingarinnar m.a. verið veitt á grundvelli þess að aukið byggingarmagn og breytt starfsemi myndi fjölga íbúðum í miðborg Reykjavíkur í samræmi við stefnu aðalskipulags um fjölgun íbúða á svæðinu. Samkvæmt framangreindu lágu því skipulagsrök að baki hinni kærðu ákvörðun og er hún jafnframt í samræmi við stefnu aðalskipulags fyrir umrætt svæði. Breytir misvísun í texta deiliskipulags varðandi landnotkun fyrir svæðið ekki þeirri niðurstöðu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin ágöllum sem áhrif geta haft á gildi hennar og verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg í Reykjavík.

57/2018 Hvalárvirkjun

Með

Árið 2018, föstudaginn 16. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 57/2018, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2018, er barst nefndinni 20. s.m., framsendir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru eiganda Dröngum í Árneshreppi, dags. 13. mars 2018, að því er varðar þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. janúar 2018 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Hvalárvirkjunar. Tillagan var lagfærð og samþykkti hreppsnefndin deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði 30. september 2018. Verður að líta svo á að sú ákvörðun sé kærð í máli þessu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir landeigendur að Seljanesi og við Ingólfsfjörð sömu ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið, sem er nr. 129/2018, sameinað kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árneshreppi 30. apríl og 16. nóvember 2018.

Málsatvik og rök:
Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 15. ágúst 2017 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu ásamt umhverfisskýrslu fyrir Hvalárvirkjun. Var tillagan auglýst frá 1. september til 16. október 2017 og var athugasemdafrestur gefinn til sama tíma. Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 30. janúar 2018 var samþykkt með breytingum tillaga að deiliskipulagi fyrir Hvalárvirkjun og tekin afstaða til þeirra athugasemda sem borist höfðu á athugasemdatíma. Tillagan mun hafa sætt lagfæringum og á fundi hreppsnefndarinnar 30. september 2018 var deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun ásamt umhverfisskýrslu samþykkt. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 18. október s.á.

Kærendur byggja á því að hið kærða deiliskipulag og afgreiðsla þess sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum sem leiði til þess að samþykkt þess af hálfu hreppsnefndar Árneshrepps sé ógild eða ógildanleg.

Af hálfu Árneshrepps er bent á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2018 eða einu ári og tveimur dögum eftir að athugasemdafresti við deiliskipulagstillöguna hafi lokið. Þótt dráttur á auglýsingu skipulags um tvo daga fram yfir ársfrest 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 virðist lítilsháttar formgalli þá verði að telja að í greininni felist afdráttarlaus afstaða löggjafans um að þessi ágalli leiði til ógildis deiliskipulags. Af hálfu Árneshrepps hafi því verið tekin ákvörðun um að endurtaka málsmeðferð um deiliskipulagstillöguna, sbr. ákvörðun hreppsnefndar, dags. 1. nóvember 2018. Líti hreppurinn ekki svo á að deiliskipulagið sé gilt og geti því ekki verið til staðar lögvarðir hagsmunir af því að kæra skipulagsákvörðunina. Geri Árneshreppur því þá kröfu að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun við Ófeigsfjörð.

Í 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að hafi auglýsing um samþykkt deiliskipulag ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti til deiliskipulagsins lauk telst deiliskipulags ógilt og fer þá um það í samræmi við 41. gr. Athugasemdafresti vegna hins kærða deiliskipulags lauk 16. október 2017 og birtist auglýsing um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðina 18. október 2018, eða rúmu ári eftir að athugasemdafresti lauk. Er ljóst með vísan til þess sem rakið hefur verið að hin kærða ákvörðun var ógild þegar auglýsing um hana var birt í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist deiliskipulagið ekki gildi við birtinguna. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er réttarverkan hefur að lögum og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafa kærendur hafa ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

37/2017 Heysholt

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. október 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Heysholt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 21. mars 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigandi Heimalands, eigandi Lækjarbotnum, eigandi Flagbjarnarholti, eigandi Svörtulofta 1 og eigandi Svörtulofta 2, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. október 2016 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Heysholt. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 24. ágúst 2018.

Málsatvik og rök:
Bújörðin Heysholt í Rangárþyngi ytra er 52,5 ha að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Með breytingu síðla árs 2011 á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 var um 18 ha svæði úr jörðinni breytt í svæði fyrir frístundabyggð og um 7 ha svæði breytt í svæði fyrir verslun- og þjónustu, sem tengjast myndi ferðaþjónustu. Hinn 7. júní 2013 tók gildi deiliskipulag fyrir land Heysholts með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er syðst í landi Heysholts og er hverfisvernd á mýri norðan við svæðið. Svæðið er u.þ.b. 25 ha að stærð og tók deiliskipulagið til frístundabyggðar með 24 lóðum og 48 byggingum og verslun og þjónustu á tveimur lóðum með tveimur byggingum þar sem önnur þeirra lóða átti að vera til framtíðarþarfa svæðisins. Vestast á deiliskipulagssvæðinu var gert ráð fyrir svæði til mögulegrar stækkunar frístundarbyggðarinnar til framtíðar.

Á árinu 2016 var af hálfu landeiganda Heysholts lögð til breyting á deiliskipulaginu. Í stað einnar lóðar undir þyrpingu frístundahúsa og lóðar undir þjónustuhús var ætlunin að sameina þær lóðir í eina þar sem gert væri ráð fyrir hótelbyggingu. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu þess efnis var auglýst í Lögbirtingablaðinu 3. ágúst 2016 og í svæðisblaðinu Búkollu 4.-10. s.m. með athugasemdafresti til 15. september s.á. Mun auglýsing einnig hafa verið birt í Morgunblaðinu. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn Rangárþings ytra 12. október 2016 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember s.á. Í febrúar 2017 sendi hópur landeigenda, þ. á m. kærendur, bréf til sveitarstjórnar þar sem deiliskipulagsbreytingunni var mótmælt, en þeir höfðu ekki sent athugasemdir við tillöguna á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 6. mars s.á. voru framkomnar athugasemdir til umræðu og var bókað að breyting hefði verið gerð á aðalskipulagi Rangárþings ytra í nóvember 2011, þar sem skilgreiningu á landnotkun á umræddu svæði hefði verið breytt í verslun og þjónustu. Skipulagsnefnd áréttaði að allra krafna um kynningu tillögunnar hefði verið gætt í auglýsingarferli hennar og að nefndin hefði ekki talið ástæðu til frekari kynninga en lögbundnar væru. Afstaða skipulagsnefndar var staðfest af sveitarstjórn á fundi hennar 8. s.m. Var landeigendum svarað af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra 14. mars 2017 og vísaði hann til framangreindrar afgreiðslu skipulagsnefndar og sveitarstjórnar. Í svari fulltrúans sagði einnig orðrétt „[a]ð gefnu tilefni vil ég benda á að kannað verði hvort hægt sé að kæra samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála“.

Kærendur byggja á því að deiliskipulagsbreytingin hafi ekki verið auglýst með áberandi hætti og því hafi deiliskipulagið komið þeim í opna skjöldu. Hvorki hafi verið sent út dreifibréf né haldinn íbúafundur þótt ljóst væri að um umfangsmiklar framkvæmdir væri að ræða í miðju sveitahéraði. Nágrönnum hafi ekki verið kynnt efni hennar, líkt og kveðið sé á um að eigi að gera í gr. 5.2.1 og 5.2.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Að auki hafi hvorki sveitarfélagið né leyfishafi brugðist við athugasemdum sem borist hefðu frá Umhverfisstofnun varðandi framkvæmdina.

Af hálfu Rangárþings ytra er tekið fram að gætt hafi verið að öllum kröfum um kynningu tillögunnar í auglýsingarferli hennar og að ekki hafi verið talin þörf á frekari kynningum umfram það sem kveðið sé á um í skipulagslögum nr. 123/2010. Að öðru leyti taki sveitarfélagið undir sjónarmið leyfishafa.

Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að skv. 38. og 43. gr. skipulagslaga beri sveitarstjórn ábyrgð á gerð og afgreiðslu deiliskipulags og deiliskipulagsbreytingum. Því svari sveitarstjórn Rangárþings ytra fyrir deiliskipulag Heysholts en ekki leyfishafi. Að auki bendi leyfishafi á að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni þegar meira en mánuður var liðinn frá því að deiliskipulagsbreytingin sætti opinberri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda og því hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra barst, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu auglýst í fjölmiðlum í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember 2016. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 28. s.m., en frá þeim degi mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun. Þrátt fyrir það aðhöfðust kærendur ekki í málinu fyrr en með bréfi til sveitarstjórnar, dags. 27. febrúar 2017, og var þá þegar um mánuður liðinn frá lokum kærufrests. Var þeim þá bent á að kanna möguleika á kæru til úrskurðarnefndarinnar og kærðu þeir til hennar stuttu síðar. Það verður þó ekki fram hjá því litið að kæra í málinu barst hins vegar ekki úrskurðarnefndinni fyrr en um tveimur mánuðum eftir að kærufresti lauk, eða 27. mars 2017. Að því virtu verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna verulegra tafa við gagnaöflun, sem og vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

103/2018 Austurkór

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2018, kæra vegna framkvæmda Kópavogsbæjar við boltavöll og stígagerð við Austurkór, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júlí 2018, er barst nefndinni 30. s.m., kærir eigandi, Austurkór 90, Kópavogi, framkvæmdir Kópavogsbæjar við gerð boltavallar, göngustígs og aðkomuleiðar að fráveitukerfi við Austurkór. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að umræddar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar og að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að færa slóða að fráveitulögnum í fyrra horf og endurskoða hæðarlegu boltavallarins. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 13. ágúst 2018.

Málavextir: Með tölvupósti 11. apríl 2018 til Kópavogsbæjar vakti kærandi athygli á að hafnar væru framkvæmdir við boltavöll neðan við húsin í Austurkór 88-92 og óskaði hann eftir upplýsingum um hvort völlurinn væri rétt staðsettur miðað við gildandi deiliskipulag. Var honum svarað af garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar að boltavöllurinn væri ekki rétt staðsettur þar sem fyrir mistök hefði völlurinn verið staðsettur samkvæmt eldra skipulagi, þ.e. nær lóðunum við Austurkór 88-92 en núgildandi skipulag gerði ráð fyrir. Staðsetning vallarins væri komin í endurskoðun og yrði framkvæmdin í samræmi við gildandi skipulag. Með dreifibréfi Kópavogsbæjar, dags. 12. apríl 2018, var íbúum við Austurkór 76-104 tilkynnt að framkvæmdir væru að hefjast við boltavöll norðan lóðanna Austurkórs 88-90 samkvæmt deiliskipulagi hverfisins. Samhliða yrði unnið að gerð göngustígs vestan lóðanna Austurkórs 76-86. Jafnframt yrði unnið að því að bæta aðgengi að fráveitulögnum norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Með tölvupósti til Kópavogsbæjar 21. apríl 2018 óskaði kærandi eftir upplýsingum varðandi stíginn sem verið væri að útbúa, þ.e. hvort gert væri ráð fyrir honum í samþykktu skipulagi. Í svarpósti garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar 2. maí s.á. vísaði hann í fyrrgreint dreifibréf þar sem fram kæmi að unnið væri að bættu aðgengi að fráveitulögnum. Janframt var vísað í meðfylgjandi loftmynd af svæðinu þar sem sjá mætti lagnirnar og brunnana.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að framkvæmdirnar séu ólögmætar. Lega og hæð boltavallarins sé hvorki í samræmi við deiliskipulag Rjúpnahæðar – Vesturhluta né aðalskipulag Kópavogsbæjar. Þá sé stígana hvorki að finna á skipulagsuppdráttum né um þá fjallað í greinargerð gildandi skipulags. Umræddur sparkvöllur muni hafa í för með sér skert útsýni úr íbúð kæranda og valda honum ónæði.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er byggt á því að vísa eigi málinu frá þar sem kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að kærufresti liðnum. Kærufrestur eigi að miðast við sendingu dreifibréfs, dags. 12. apríl 2018, þar sem íbúum hafi verið tilkynnt að hinar umdeildu framkvæmdir væru að hefjast, en kæranda hafi verið kunnugt um framkvæmdirnar frá þeim tíma. Framkvæmdir við boltavöllinn og göngustíginn séu að fullu í samræmi við gildandi skipulag, en slóði varðandi aðgengi að fráveitulögnum þurfi ekki að koma fram á deiliskipulagi. Þá telji sveitarfélagið að ekki hafi þurft að gefa út framkvæmdarleyfi fyrir framkvæmdunum, sem væru á vegum bæjarins.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 20. september 2018 að viðstöddum kæranda og fulltrúa bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Ekki liggur fyrir í máli þessu með hvaða hætti staðið var að ákvörðun um hinar umdeildu framkvæmdir en ekki er við að styðjast bókanir eða fundargerðir Kópavogsbæjar í því efni. Kæranda varð fyrst kunnugt um framkvæmdirnar er vinna hófst og var hann í kjölfar þess í samskiptum við bæjaryfirvöld vegna málsins. Í tilkynningu um framkvæmdirnar til íbúa, dags. 12. apríl 2018, og í tölvupósti garðyrkjustjóra bæjarins 2. maí s.á. var kæranda ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest í tilefni af ágreiningi um framkvæmdirnar í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálið því tekið til meðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem afsakanlegt verður talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að færa slóða að fráveitulögnum í fyrra horf og að endurskoða hæðarlegu boltavallarins.

Í apríl 2018 hófu bæjaryfirvöld framkvæmdir við boltavöll, göngustíg og bætta aðkomu að fráveitulögnum í næsta nágrenni við íbúð kæranda. Ekki var þó gefið út sérstakt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 heldur var á því byggt að nægilegt væri að framkvæmdirnar ættu stoð í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð – Vesturhluta er gert ráð fyrir boltavelli norðan lóðanna Austurkórs 88-92. Deiliskipulagið var upphaflega samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 13. mars 2007 og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí s.á. Með deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 24. maí 2011 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á. var gerð breyting á deiliskipulaginu. Var boltavöllurinn þar færður fjær lóðunum við Austurkór 88-92 og að hluta til út fyrir mörk þess svæðis sem skipulagið nær til. Aðrar upplýsingar um boltavöllinn en um staðsetningu hans er ekki að finna í skipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti er göngustígur vestan lóðanna Austurkórs 76-86, en ekki er þar gert ráð fyrir lagnastíg eða öðrum stíg norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum og skoðun á vettvangi er umræddur boltavöllur minni en gert var ráð fyrir í deiliskipulagi. Hann mun vera 15,5×33 m að stærð og liggja allur innan þess svæðis sem gildandi deiliskipulag tekur til. Áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust var á svæðinu slóði að fráveitulögnum og hefur hann nú verið breikkaður og hækkaður og tengist nú áðurnefndum göngustíg, sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti og myndar aðkomuleið að boltavellinum.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, s.s. breytingar lands með jarðvegi. Jafnframt skulu slíkar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Við mat á því hvort framkvæmd telst meiri háttar skal hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Eru stígar og breytingar lands með jarðvegi, svo sem efnislosun og landmótun, meðal þeirra framkvæmda sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdir sem teljast óverulegar eru ekki háðar framkvæmdaleyfi en geta þó verið skipulagsskyldar, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt framansögðu fer það eftir aðstæðum, eðli, umfangi og áhrifum framkvæmdar á ásýnd lands og umhverfi hvort hún verði talin framkvæmdaleyfisskyld, þurfi að eiga stoð í skipulagi eða eftir atvikum þurfi ekki slíka stoð. Við það mat er rétt að hafa hliðsjón af ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um framsetningu skipulagsáætlana og hvaða framkvæmda skuli þar getið.

Boltavöllurinn er staðsettur í gróinni og brattri hlíð í næsta nágrenni við fjölbýlishús við Austurkór. Er 15,5 m breidd vallarins milli hæðarlína 105 og 108 m.y.s. Var hann byggður upp með jarðvegsfyllingu í hlíðinni til að ná honum sléttum og án hliðarhalla. Vegna þess mikla landhalla sem er á svæðinu hefur þurft verulegt magn jarðefnis í þá fyllingu og því um verulega landmótun að ræða. Þá er ljóst að boltavellinum fylgir umferð gangandi fólks um svæðið og allnokkur áhrif á næsta umhverfi, svo sem með tilliti til hljóðvistar vegna boltaleikja á vellinum. Í ljósi þessa verður að líta svo á að framkvæmdin við boltavöllinn hafi slík áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess svo verulega að telja verður að framkvæmdin hafi verið framkvæmdaleyfisskyld.

Ekki verður hins vegar talið að framkvæmdir við göngustíg á svæðinu séu háðar slíku leyfi en hann á stoð í gildandi deiliskipulagsuppdrætti og fylgir jarðvegsyfirborði. Lagfæring og uppbygging lagnastígsins eða slóðans sem fyrir var þykir það óveruleg framkvæmd og þess eðlis að ekki hafi verið nauðsyn á að gera grein fyrir honum í skipulagi.

Óheimilt er að hefja framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir nema fyrir liggi samþykki sveitarfélagsins um útgáfu framkvæmdaleyfis og að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Eru sveitarfélög ekki undanþegin reglum um framkvæmdaleyfi vegna eigin framkvæmda.

Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun um framkvæmdaleyfi í málinu er ekki til staðar stjórnvaldsákvörðun sem sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður af þeim sökum ekki komist hjá því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið fengið fyrir henni er eftir atvikum unnt að leita atbeina skipulagsfulltrúa um stöðvun framkvæmda, sbr. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi og 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga. Væri ákvörðun skipulagsfulltrúa þar að lútandi þá kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

35/2017 Brekatún

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 23. mars 2017 um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku á útgáfu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. mars 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Brekatúni 2, Akureyri, drátt Akureyrarbæjar á að svara erindi hans um aðgengi hreyfihamlaðra í fjöleignarhúsinu að Brekatúni 2 ásamt því að óska eftir áliti nefndarinnar á því hvort Akureyrarbæ væri skylt að færa til betri vegar ákveðin atriði er vörðuðu aðgengi hreyfihamlaðra í sameign hússins. Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda 23. mars 2017 og synjaði kröfu hans um endurupptöku á útgáfu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar. Kærandi kom athugasemdum á framfæri við úrskurðarnefndina í kjölfar þess með bréfum, dags. 28. mars, 20. apríl og 7. maí 2017. Eins og málsatvikum er háttað verður málskot kæranda skilið svo að hann fari fram á að nefnd ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 23. mars 2017 verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 25. apríl 2017.

Málavextir: Hinn 28. mars 2007 var samþykkt byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á lóð nr. 2 við Brekatún á Akureyri. Í byggingarlýsingu hússins kom fram að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð miðaði við þarfir fatlaðra, að íbúð nr. 201 á annarri hæð væri hönnuð þannig að hún hentaði hreyfihömluðum í hjólastól og að eitt bílastæði í húsinu og tvö bílastæði á lóð væru ætluð fötluðum. Úttekt á grunni hússins fór fram 2. apríl 2007 en hlé varð á framkvæmdum til ársins 2012. Næsta úttekt á grunni hússins var gerð 22. nóvember 2012 áður en botnplata var steypt og úttektir á botnplötu voru gerðar 18. og 24. júní 2013. Samþykktar voru breytingar á teikningum 12. desember 2012, sem fólu meðal annars í sér að bætt var við nýrri íbúð á 8. hæð, skipulagi 1. hæðar var breytt og bílageymsla stækkuð til vesturs. Þá kom ekki fram í byggingarlýsingu hússins lengur, líkt og hafði gert áður, að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð skyldi miðast við þarfir fatlaðra. Byggingu hússins lauk árið 2014 og 29. apríl 2015 var gefið út vottorð í kjölfar lokaúttektar um að byggingu hússins væri lokið án athugasemda og í samræmi við samþykktar teikningar.

Kærandi gerði kaupsamning um kaup á íbúð nr. 401 í fjöleignarhúsinu 31. júlí 2015 og var afsal undirritað 5. nóvember s.á. Hinn 10. nóvember 2015 sendi kærandi bréf til skipulagsnefndar Akureyrarbæjar þar sem hann var ósáttur með útbúnað dyra úr ytri forstofu inn í innra anddyri hússins og tveggja dyra inn í bílakjallara. Áleit hann að hurðirnar, sem allar væru með pumpu, væru of þungar og að erfitt væri fyrir hreyfihamlaða að komast inn um dyrnar. Taldi hann uppsetningu þeirra ekki uppfylla þau skilyrði sem gera ætti til aðkomu í sameign hússins samkvæmt ákvæðum gr. 77.1, 104.1 og 104.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og því fengi lokaúttekt ekki staðist. Þá áleit kærandi, með stoð í gr. 14.2 í fyrrnefndri reglugerð, að byggingarreglugerð nr. 112/2012 hefði átt að gilda um húsið þar sem úttekt á botnplötu og plötu yfir fyllingu í bílakjallara hússins hefði farið fram 18. og 24. júní 2013 þegar sú reglugerð hefði tekið gildi. Hins vegar hefði ekki verið sótt um að fylgja eldri reglugerðinni nr. 441/1998, líkt og hægt hefði verið að gera skv. gr. 17.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda frá 10. nóvember 2015 hinn 31. nóvember s.á. Í svari hans kom fram að bærinn teldi reglugerð nr. 441/1998 eiga við um byggingu hússins þar sem teikningar hefðu verið samþykktar 28. mars 2007 og úttekt á hluta grafins grunns verið framkvæmd 2. apríl s.á. Húsið hefði verið byggt og frágengið í samræmi við þær kröfur sem gerðar væru í umræddri byggingarreglugerð, ásamt því að höfð hefðu verið til hliðsjónar Rb-blöð sem reglugerðin vísaði til og bókin „Aðgengi fyrir alla“, sem hann tók þó fram að hvorki væri vísað til í reglugerðinni né hefði reglugerðargildi. Við afgreiðslu teikninga að húsinu hefði því ekki verið hægt að gera frekari kröfur en reglugerðin kvæði á um. Í nefndri reglugerð væri hvergi minnst á að dyr í umferðarleiðum skyldu búnar sjálfvirkum opnunarbúnaði. Hins vegar væri gerð krafa um það í reglugerðinni að eldvarnahurðir skyldu vera sjálflokandi og því þyrftu þær að vera með hurðarpumpu. Pumpurnar þyrftu þó að vera þannig stilltar að auðvelt væri að ganga um dyrnar og samkvæmt bókinni „Aðgengi fyrir alla“ ætti hámark tog- eða þrýstikrafts að vera 2,5 kg til að opna hurðir. Oft væri það einungis stilling á pumpum sem vantaði upp á að dyrnar stæðust þau viðmið. Hefði því hvorki verið hægt að hafna framkvæmd lokaúttektar á húsinu né gera frekari kröfur til aðgengismála.

Hinn 1. desember 2015 sendi kærandi bréf til tæknifulltrúa Akureyrarbæjar, sem hafði framkvæmt lokaúttekt á húsinu. Í bréfinu óskaði kærandi eftir að fá upplýst hver væri skilningur hans á 77. og 104. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, með tilliti til þeirra atriða sem kærandi taldi ekki fullnægjandi í sameign hússins, ásamt því að leita eftir svari hans við því hvort hann áliti hreyfihamlaða falla undir 10. kafla reglugerðarinnar með tilliti til þess orðalags sem þar kæmi fram um aðgang fyrir alla. Þá vildi hann vita, með tilliti til aðbúnaðar í sameign hússins, hvort tæknifulltrúi áliti að aðgengið hefði verið nægilega skoðað í lokaúttekt hússins með tilliti til þeirra krafna sem gerðar væru til lokaúttektar skv. gr. 53.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og hvort ekki væri rétt að fara yfir þessi mál að nýju með verktakanum með tilliti til ákvæða nefndrar reglugerðar.

Kærandi leitaði álits Mannvirkjastofnunar 15. og 19. janúar 2016 vegna umbúnaðar dyra úr ytri forstofu inn í innra anddyri hússins og dyra inn í bílakjallara, ásamt því að hann óskaði eftir upplýsingum um hvaða reglur giltu um bílastæði á lóðinni fyrir fatlað fólk. Í áliti stofnunarinnar, dags. 12. júlí 2016, var tekið fram að þegar byggingarleyfi hefði upprunalega verið gefið út fyrir byggingu fjöleignarhússins hefðu skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 verið í gildi. Krafa um að hreyfihamlaðir gætu farið um útidyr hússins og inn í bílageymslu með góðu móti rúmaðist innan ákvæða 77. og 104. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þegar litið væri til þess sem fram kæmi í byggingarlýsingu hússins og bókinni „Aðgengi fyrir alla“. Renna mætti enn frekari stoðum undir slíka túlkun með því að líta til þess að teikningum hafi verið breytt og nýtt byggingarleyfi gefið út vegna breytinganna næstum því ári eftir að ný byggingarreglugerð hafi tekið gildi og hátt í tveimur árum eftir að ný lög um mannvirki hafi tekið gildi, sem væri sérstaklega ætlað að tryggja aðgengi fyrir alla skv. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Varðandi bílastæðið tók stofnunin fram að í gr. 6.2.4. í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri gerð krafa um að bílastæði hreyfihamlaðra væru sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Krafa um lóðrétt skilti hefði ekki verið í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 en væri þó tilgreind í bókinni „Aðgengi fyrir alla“. Með tilliti til þess að byggingarár hússins væri 2014 og krafa um lóðrétt skilti hefði verið í reglugerð síðan 2012 væri ekki hægt að segja að ómögulegt væri að merkja bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt gildandi reglum, þrátt fyrir að húsið hefði verið hannað 2007 og framkvæmdir þá hafist á lóð. Í framhaldi af áliti Mannvirkjastofnunar óskaði kærandi eftir því að stofnunin myndi fylgja máli hans eftir hjá bænum. Stofnunin sá þó ekki ástæðu til íhlutunar skv. 18. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Hinn 4. október 2016 sendi kærandi bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar. Í bréfinu leitaði hann eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda við áliti Mannvirkjastofnunar. Engin svör bárust kæranda frá sveitarfélaginu og leitaði hann því til umboðsmanns Alþingis í þrígang og óskaði eftir aðstoð hans við að fá svör við fyrrnefndu bréfi og bréfi sem hann hafði sent til tæknifulltrúa Akureyrbæjar 1. desember 2015. Hinn 21. mars 2017 sendi kærandi kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hann kærði drátt Akureyrarbæjar á að svara fyrirspurnum hans, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ásamt því að hann óskaði eftir úrskurði nefndarinnar um hvort Akureyrarbæ bæri skylda til að setja upp rafstýrðan búnað á útidyr, á dyr úr ytri forstofu inn innra anddyri og á dyr inn í bílakjallara, sem opnaði og lokaði hurðunum, ásamt því hvort skylda bæri til að merkja bílastæði fyrir fatlaða með skilti í 60-70 cm hæð á staur og merkja flötinn með því að mála hann.

Með bréfi, dags. 23. mars 2017, svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi fyrirspurnum kæranda frá 1. desember 2015 og 4. október 2016. Í bréfinu kom fram að túlkun sveitarfélagsins væri á þann veg að farið hefði verið eftir lögum og engu hefði verið ábótavant, hvorki í tengslum við byggingarleyfið né lokaúttektina. Sveitarfélagið liti svo á að kærandi ætti ekki málsaðild vegna lokaúttektarinnar sem fram fór 27. apríl 2015, þar sem hann hefði eignast hlutdeild í íbúð í húsinu eftir að úttektin fór fram, sbr. c-lið 4. mgr. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Úttektin hefði verið í fullu samræmi við 3. mgr. 36. gr. fyrrnefndra laga og uppfyllt þau skilyrði sem fram kæmu í ákvæðum mannvirkjalaga, reglugerðum og samþykktum hönnunargögnum. Skilyrði endurupptöku lokaúttektarinnar væru því ekki uppfyllt nema í tengslum við byggingarleyfið. Skilyrði endurupptöku byggingarleyfisins skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru hins vegar ekki uppfyllt. Samkvæmt áliti Mannvirkjastofnunar hefði Akureyrarbær mátt gera kröfu til þess í upprunalegu byggingarleyfi, dags. 29. mars 2007, að tekið væri tillit til aðgengis hreyfihamlaðra inn og út úr húsinu og bílageymslu þess án þess þó að sveitarfélaginu hefði verið skylt að setja byggingarleyfishafa framangreind skilyrði um aðgengi hreyfihamlaðra. Um hafi verið að ræða heimild, en ekki ótvíræða skyldu með beina vísun til laga og reglugerða. Kærandi hefði ekki málsaðild að endurupptöku útgáfu byggingarleyfisins og ákvarðanir um aðgengi í húsinu í umræddu byggingarleyfi hefðu ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, eins og gerð sé krafa um í 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Breytt lagatúlkun gæti ekki verið grundvöllur endurupptöku máls. Að auki væru skilyrði endurupptöku byggingarleyfisins ekki uppfyllt þar sem fjögur ár væru frá því að endurskoðað byggingarleyfi hefði verið gefið út 27. febrúar 2013 og athugasemdarlaus lokaúttekt hefði farið fram í apríl 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að aðgengismál í sameign fjöleignarhússins séu ófullnægjandi og í ósamræmi við byggingarlýsingu þess, þar sem fram komi að öll hönnun aðkomu að íbúðum á jarðhæð skuli miðast við þarfir fatlaðs fólks. Bendir hann á að engar íbúðir séu á jarðhæð hússins hins vegar sé á 2. hæð þess gert ráð fyrir einni íbúð fyrir fatlaða, líkt og komi fram í byggingarlýsingu.

Kærandi krefst þess að settur verði upp rafstýrður opnunarbúnaður á útidyr, á dyr úr ytri forstofu inn í innra anddyrri og á dyr inn í bílakjallara. Jafnframt krefst hann þess að bílastæði ætluð fötluðu fólki verði merkt með merki fatlaðs fólks í um 60-70 cm hæð á staur og að flöturinn verði málaður með slíku merki. Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi í heild sinni til álits Mannvirkjastofnunar, dags. 12. júlí 2016, sem fjallað hefur verið um, þar sem fram komi  að þegar eldri skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 séu túlkuð með hliðsjón af bókinni „Aðgengi fyrir alla“ og af byggingarlýsingu umrædds húss hefði átt að haga aðbúnaði í sameign þess á þann hátt sem hann krefjist. Til þess að renna enn frekari stoðum undir slíka túlkun megi líta til þess að teikningum hafi verið breytt og nýtt byggingarleyfi gefið út vegna breytinganna næstum því ári eftir að byggingarreglugerð nr. 112/2012 og hátt í tveimur árum eftir að lög um mannvirki nr. 160/2010 hafi tekið gildi, en þeim sé sérstaklega ætlað að tryggja aðgengi fyrir alla skv. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Því telji kærandi að fullt tilliti eigi að taka til ákvæða um aðgengi í reglugerð nr. 112/2012, enda sé byggingarár hússins 2014.

Varðandi kröfu um bílastæði tekur kærandi fram að sömu sjónarmið gildi og reifuð hafi verið að framan. Í núgildandi reglugerð sé gerð krafa um að bílastæði hreyfihamlaðra séu sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti, sbr. grein 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Við áfanga- og lokaúttekt hafi ekki verið kannað hvernig aðgengi fyrir fatlað fólk í húsnæðinu væri, líkt og skylt sé að gera skv. p-lið 48. gr. og gr. 53.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í gr. 3.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að þáttum sem varði aðgengi skuli ávallt verið lokið við gerð lokaúttektar. Því beri skipulags- og byggingarfulltrúi ábyrgð á ófullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk í fjöleignarhúsinu. Ekkert komi fram á lokaúttekt um að aðgengi fyrir fatlað fólk hafi verið skoðað né yfirfarið.

Hönnuður teikninganna gæti orðið ábyrgur fyrir því að gera ekki nægilega grein fyrir aðgengi á teikningum sínum skv. gr. 26.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem fram komi að hönnuðir sem leggi uppdrætti fyrir byggingarnefnd skuli hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af gáleysi þeirra. Einnig gæti ábyrgð legið hjá byggingarstjóra verksins skv. gr. 32.2 í nefndri byggingarreglugerð, þar sem fram komi að byggingarstjóri beri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.

Kærandi mótmæli því að hann eigi ekki málsaðild að lokaúttekt skv. 15. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Telji hann sig eiga málsaðild með stoð í e-lið 4. mgr. ákvæðisins, þar sem fram komi að til eiganda samkvæmt greininni teljist eigandi mannvirkis eftir að lokaúttekt hafi farið fram. Sé í því sambandi einnig vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 6242/2010.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er litið svo á, með tilliti til aðildar kæranda og skilyrða endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hvorki sé ástæða til að endurupptaka framkvæmd lokaúttektar né útgáfu byggingarleyfis. Farið hafi verið eftir lögum og reglum, en rök bæjaryfirvalda fyrir þessari afstöðu komi fram í bréfi sem sent hafi verið til kæranda 23. mars 2017.

———————

Áður en málið var tekið fyrir hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála lést kærandi. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 6. ágúst 2018, staðfesti eftirlifandi maki kæranda, sem hefur leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann, vilja til að ganga inn í kærumálið og gerast aðili að því.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun Akureyrarbæjar var synjað um endurupptöku á veitingu byggingarleyfis og framkvæmd lokaúttektar vegna aðgengis hreyfihamlaðs fólks í sameign fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

Aðili máls getur ekki gert kröfu um að stjórnvald, sem tekið hefur ákvörðun og birt hana, endurskoði ákvörðunina nema að skilyrði um endurupptöku máls séu fyrir hendi. Ekki er til að dreifa sérstökum lagaákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála sem veita rétt til endurupptöku máls, en 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felur í sér almenna reglu um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana. Samkvæmt nefndri 24. gr. er endurupptaka máls háð þeim skilyrðum að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ekki verður séð að atvik hafi verulega breyst frá því að ákvörðun um byggingarleyfi var tekin og lokaúttekt framkvæmd og kemur því einungis til álita að taka til skoðunar hvort greind ákvörðun og framkvæmd hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Lögmæti byggingarleyfisins sem samþykkt var 28. mars 2007 sætir ekki endurskoðun í máli þessu þar sem eins mánaðar kærufrestur vegna þess er liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá verður ekki séð að 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi við þar sem fram er tekið í greindu lagaákvæði að mál verði ekki tekið upp að nýju ef meira en ár er liðið frá tilkynningu ákvörðunar eða vitneskju um hana nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Í 3. mgr. 36. gr. laga um mannvirki er tekið fram að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við hönnunargögn. Þegar upprunalegt byggingarleyfi var gefið út og framkvæmdir við bygginguna hófust voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í 2. mgr. 37. gr. umræddra laga var tekið fram að í byggingarreglugerð, sem sett sé með stoð í lögunum, skuli mælt fyrir um kröfur sem snúi m.a. að aðgengi fatlaðra. Lög um mannvirki nr. 160/2010 tóku gildi 1. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna, og byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett var með stoð í 1. mgr. 60. gr. nefndra laga og 4. mgr. 24. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000, tók gildi 24. janúar 2012.

Hvorki verður séð að í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 né í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð krafa um að á dyrum í sameign fjölbýlishúss sé rafstýrður opnunarbúnaður. Þá verður ekki séð að ónógar eða rangar upplýsingar um málsatvik hafi legið fyrir þegar lokaúttekt hússins fór fram heldur ber mál þetta með sér að uppi sé ágreiningur um túlkun laga og reglugerðarákvæða er varða aðgengi hreyfihamlaðra í fjöleignarhúsum. Verður endurupptökuheimildum 24. gr. stjórnsýslulaga ekki beitt til þess að fá fram nýja stjórnvaldsákvörðun vegna þess eins að deilt hafi verið um lagatúlkun og beitingu réttarheimilda um ágreiningsefni sem fyrir lá þegar ákvörðun var tekin. Slíkur ágreiningur leiðir ekki einn og sér til þess að skilyrði endurupptöku máls séu uppfyllt.

Í gr. 64.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er sett fram sú krafa að við öll fjölbýlishús með sex íbúðum eða fleiri skuli vera eitt gestabílastæði sem henti þörfum fatlaðra, auk þeirra stæða sem séu fyrir sérhannaðar íbúðir fyrir fatlaða í húsinu. Í 1. mgr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er tekið fram að bílastæði hreyfihamlaðra skuli vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Samkvæmt síðarnefndri reglugerðinni var því skylt að merkja bílastæði hreyfihamlaðra á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Það að slíkt hafi ekki verið gert getur ekki leitt til þess að þörf sé á að framkvæma lokaúttekt að nýju vegna áðurnefnds fjölbýlishúss, enda er slík úttekt ekki nauðsynleg forsenda þess að úr annmörkunum verði bætt.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að skilyrði endurupptöku hafi verið fyrir hendi í máli þessu og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun Akureyrarbæjar um endurupptöku veitts byggingarleyfis og lokaúttektar vegna fjöleignarhússins að Brekatúni 2, Akureyri.

122/2017 Laugavegur 95-99

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2017, kæra á álagningu bílastæðagjalds vegna viðbyggingar við Laugaveg 95-99.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. október 2017, er barst nefndinni 13. október s.á., kærir Rit og bækur ehf., eigandi fasteignarinnar að Laugavegi 95-99, þá ákvörðun starfshóps lögfræðinga um meðferð bótakrafna á hendur Reykjavíkurborg frá 25. apríl s.á. að hafna beiðni um niðurfellingu bílastæðagjalds vegna viðbyggingar við Laugaveg 95-99. Er þess krafist að umrætt bílastæðagjald verði fellt niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. nóvember 2017.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. desember 2016 var samþykkt umsókn kæranda um leyfi til að byggja 548,5 m2 viðbyggingu, samhliða endurbyggingu útveggja og þaks, og að innrétta hótel í flokki V, ásamt verslun og þjónustu á jarðhæð, í húsi á lóð nr. 95-99 við Laugaveg. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 7. s.m. var fundargerð byggingarfulltrúa lögð fram og bókað að hún væri fylgiskjal með fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs. Vegna stækkunar hússins var kæranda með reikningi, dags. 14. s.m., gert að greiða bílastæðagjald fyrir 4,2 viðbótarbílastæði. Var gjaldið lagt á með hliðsjón af reglum nr. 440/2016 um bílastæðagjald í Reykjavík og gjaldskrá nr. 441/2016 fyrir bílastæðagjald í Reykjavík. Með bréfi, dags. 22. desember 2016, fór kærandi fram á niðurfellingu bílastæðagjaldsins, en þeirri beiðni var synjað með bréfi starfshóps lögfræðinga um meðferð bótakrafna á hendur Reykjavíkurborg, dags. 25. apríl 2017. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 2. júní s.á., og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 14. ágúst s.á. Kærandi kærði álagninguna til úrskurðarnefndarinnar 12. október s.á.

Málsrök kæranda:
Kærandi bendir á að 3,1 umframbílastæði tilheyri lóð Laugavegs 95-99 og því skorti ekki bílastæði á lóðinni til að uppfylltar séu kröfur um fjölda bílastæða samkvæmt deiliskipulagi. Samkvæmt 2. gr. reglna nr. 440/2016 eigi ekki að miða við viðbótarfermetra, líkt og borgaryfirvöld hafi gert, heldur við kröfur um fjölda bílastæða samkvæmt deiliskipulagi. Kærandi hafi árið 2007 fengið leyfi til að stækka húsið en til þess hafi hann þurft að afla 34,3 bílastæða utan lóðar, sem hann hafi og gert. Þau bílastæði tilheyri ekki lengur lóðinni en slíkt sé skerðing á fasteignaréttindum hans. Sú skerðing sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þá geti eins mánaðar kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ekki átt við þar sem kærufrestur byrji annað hvort að líða þegar bílastæðagjaldið hafi verið greitt eða þegar Reykjavíkurborg hafi synjað útgáfu byggingarleyfis vegna þess að hið umrædda bílastæðagjald hafi ekki verið greitt.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að ákvörðun um álagningu bílastæðagjalds hafi tekið mið af reglum nr. 440/2016 um bílastæðagjald í Reykjavík, gjaldskrá nr. 441/2016 fyrir bílastæðagjald í Reykjavík og deiliskipulagi svæðisins. Í 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar sé skýrt tekið fram að heimilt sé að synja endurgreiðslu bílastæðagjalds ef liðið sé meira en eitt ár frá greiðslu þess. Gildi einu þótt byggingarleyfi falli úr gildi eða sé fellt úr gildi. Sama gildi ef notkun húss sé breytt þannig að kröfur um fjölda bílastæða vegna þess verði minni en verið hafi vegna fyrri notkunar þess. Lóðarhafi geti ekki dregið frá bílastæðagjöld vegna breyttrar notkunar nú eða myndað inneign vegna bílastæðagjalda sem aldrei hafi verið greidd vegna samþykktar á byggingarleyfi á árinu 2007.

Niðurstaða:
Í samræmi við 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn ákveðið að innheimta bílastæðagjald af lóð nýbyggingar ef á henni er ekki unnt að koma fyrir þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi. Getur sveitarstjórn einnig sett gjaldskrá um bílastæðagjöld sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda. Á grundvelli ákvæðisins hafa í B-deild Stjórnartíðinda verið birtar reglur nr. 440/2016 um bílastæðagjald í Reykjavík og gjaldskrá nr. 441/2016 fyrir bílastæðagjald í Reykjavík. Kemur fram í 4. gr. gjaldskrárinnar að embætti byggingarfulltrúa leggi á bílastæðagjald við samþykkt byggingarleyfis og að gjaldið skuli greitt áður en byggingarleyfi er gefið út. Er það í samræmi við ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem fram kemur að það sé skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að t.a.m. bílastæðagjald hafi verið greitt eða samið um greiðslu þeirra.  Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu fór álagning fram með útgáfu reiknings og hóf kærufrestur að líða þegar kæranda var kunnugt um álagninguna.

Með bréfi, dags. 22. desember 2016, fór kærandi fram á niðurfellingu hinnar kærðu álagningar, en því var synjað 25. apríl 2017. Frekari rökstuðningur var færður fyrir þeirri synjun með bréfi, dags. 14. ágúst s.á., og barst kæra í máli þessu 13. október 2017.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var kærufrestur því liðinn hvað varðar hvoru tveggja hina kærðu álagningu og synjun borgaryfirvalda um niðurfellingu bílastæðagjaldsins þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hvorki í reikningi frá 14. desember 2016 né í rökstuðningi borgarlögmanns frá 14. ágúst 2017 er að finna upplýsingar um kæruheimild eða kærufrest. Aftur á móti er í beiðni lögmanns kæranda til borgarlögmanns um rökstuðning, dags. 2. júní s.á., áskilinn réttur til að skjóta málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er því ljóst að kæranda var á því stigi kunnugt um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og naut hann aðstoðar lögmanns í málinu. Verður að telja að kæranda hafi verið í lófa lagið að gera reka að því að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan lögmælts kærufrests og ber kæran raunar með sér að kærandi hafi verið meðvitaður um hver kærufresturinn væri þótt hann teldi kærufrest ekki hafinn. Verður með vísan til framangreinds ekki séð að fyrir hendi séu þau atvik eða ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli undantekningarheimilda 28. gr. stjórnsýslulaga og verður henni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

46/2017 Sveinbjarnargerði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2017, kæra á ákvörðun sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja varphænsnahús að Sveinbjarnargerði, Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. maí 2017, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigendur, Sveinbjarnargerði III, þá ákvörðun sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 að samþykkja að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu varphænsnahúss að Sveinbjarnargerði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 11. maí 2018, sem móttekið var 18. s.m., gera kærendur jafnframt kröfu um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Svalbarðsstrandarhreppi 15. júní 2017 og 29. maí 2018.

Málsatvik: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Leyfishafi í máli þessu tók við rekstri alifuglabús í Sveinbjarnargerði haustið 2012 og í september 2013 hafnaði heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra kröfu um að stöðva þann rekstur. Felldi úrskurðarnefndin þá ákvörðun úr gildi með úrskurði kveðnum upp 24. apríl 2015 í kærumáli nr. 96/2013. Þá vísaði úrskurðarnefndin frá kærumáli nr. 98/2015 með úrskurði upp kveðnum 24. nóvember 2016, en það mál laut að veitingu starfsleyfis fyrir rekstrinum.

Með umsókn, dags. 16. febrúar 2017, sótti leyfishafi um leyfi til að endurbyggja varphænsnahús í Sveinbjarnargerði II á grunni eldra húss sem þar stóð áður. Til þess að uppfylla kröfur nýrrar reglugerðar um hámarksfjölda varphæna á hvern m2 var sótt um að breikka grunninn um rúma þrjá metra þannig að grunnflötur stækkaði úr rúmum 600 m2 í rúma 800 m2. Mænishæð yrði um 6,5 m.

Á fundi sínum 22. febrúar 2017 samþykkti sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps að grenndarkynna umsóknina. Fór grenndarkynning fram með bréfum, dags. 2. mars 2017, og stóð til 31. s.m. Barst ein athugasemd á þeim tíma, sem svarað var með bréfi, dags. 18. apríl 2017, að undangenginni afgreiðslu sveitarstjórnar á fundi hennar 5. s.m. Í kjölfarið var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis 26. apríl 2017 og er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Leyfishafa var tilkynnt með bréfi, dags. 18. maí 2017, að framkvæmdin félli í flokk B skv. lið 1.10 í viðauka 1 með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Honum bæri því að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, og yrði ekki gefið út byggingarleyfi fyrr en niðurstaða stofnunarinnar lægi fyrir. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að endurbygging alifuglahúss að Sveinbjarnargerði skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 25. ágúst s.á. og hefur hún ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Byggingarleyfi var gefið út 28. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að með endurbyggingu varphænsnahússins verði framleiðsla búsins tvöfölduð, þannig að í stað 8.000 hæna verði þar haldnar um 16.000 hænur.

Í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 sé gert ráð fyrir ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði II og að byggingarmagn ákvarðist með deiliskipulagi. Eigendur Græneggja ehf. og Bjarnargerðis ehf. hafi ávallt komið í veg fyrir að deiliskipulag yrði unnið í Sveinbjarnargerði II, þrátt fyrir ítrekaða beiðni um það af hálfu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Skipulagsstofnunar, auk kærenda. Þau tvö hús sem búið sé að endurgera hafi verið endurbyggð frá grunni og húsið sem til standi að endurbyggja hafi hrunið fyrir nokkrum áratugum. Hefði átt að gera deiliskipulag áður en farið væri í þær framkvæmdir.

Forráðamaður búsins hafi verið í hreppsnefnd og komið að gerð gildandi aðalskipulags með beinum hætti, en engin ósk hafi þá verið um áframhaldandi hænsnarækt í Sveinbjarnargerði II. Fram hafi komið í bréfi Skipulagsstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 18. janúar 2013, að aðalskipulagið myndi líta öðruvísi út væri það ætlun hreppsins að hafa þar hænsnabú og að deiliskipuleggja þyrfti svæðið ef sú væri ætlunin. Að auki hafi komið fram í bréfi Svalbarðsstrandarhrepps til Skipulagsstofnunar, dags. 7. mars 2002, að eftir kosningar yrði gert í því að knýja landeigendur Sveinbjarnargerðis II til að gera deiliskipulag. Þá sé bent á að engin skipulagsnefnd sé starfandi í hreppnum, líkt og gildandi lög kveði á um.

Starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins frá september 2015 hafi verið veitt til fjögurra ára vegna þess að deiliskipulag sé ekki til staðar. Leyfið gildi fyrir allt að 10.000 hænur og því rúmist 16.000 hænur ekki innan þess. Ekki sé hægt að fallast á að sveitarstjórn túlki starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins með þeim hætti að svo sé.

Ekki komi fram í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína hvernig mæla skuli fjarlægðir. Mögulega sé fjarlægðin yfir 50 m sé mælt vegg í vegg. Sé mælt frá vegg hænsnahússins að lóðarmörkum sé fjarlægðin um 43 m. Hún sé mun minni sé mælt milli lóðarmerkja. Ekki sé ljóst hvaða hlutverk verkstæðisbyggingin hafi og hvort hún reiknist með sem hluti af búinu en við fyrirhugaða endurbyggingu verði þetta að einu húsi. Athafnasvæðið nái um 30 m til suðurs og allar afurðir, starfsfólk og gestir fari úr húsi að sunnanverðu og því megi ætla að 50 m mæling sé frá lóðarmörkum athafnasvæðisins að sunnan að mörkum lóðar kærenda. Eldishús megi aðeins byggja á svæðum sem skipulögð séu fyrir landbúnað, iðnað eða þar sem stefna hafi verið mörkuð í aðalskipulagi.

Fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á afgreiðslu mála. Sveitarstjóri sé bróðir eiginkvenna eigenda Græneggja ehf. og eigi sjálfur hluta í Bjarnargerði ehf. Hann hafi um tíma verið framkvæmdastjóri síðarnefnda félagsins, sem aftur eigi hluta í Græneggjum ehf. Þá sitji hann alla fundi hreppsnefndar og geti haft áhrif á niðurstöðu mála með nærveru sinni.

Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps: Af hálfu sveitarstjórnar er á það bent að Sveinbjarnargerði sé á svæði sem merkt sé L1, sem standi fyrir landbúnaðarsvæði. Endurbygging umrædds húss sé í samræmi við aðalskipulag, sem og við 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Hafi umsóknin því verið samþykkt.

Fjarlægð frá fyrirhuguðu eldishúsi að íbúðarhúsi mælist 61,7 m, sem sé umfram þá 50 m kröfu sem gerð sé í b-lið I. liðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Eðlilegt sé að mæla í vegg húss kærenda, enda sé hugtakið „mannabústaður“ notað í tilgreindu ákvæði. Ljóst sé að umfang reksturs Græneggja ehf. aukist. Gerð verði breyting á aðkomu að húsunum, sem verði að norðan þar sem fóðursíló séu staðsett, þannig að þungaumferð aukist ekki við að varphænum fjölgi. Fram komi á uppdrætti að hús sé sunnan við grunninn sem áform séu uppi um að byggja á. Húsið sé nýtt sem geymsla eða verkstæði og ekki standi til að taka það undir eldi. Fjarlægð í það sé 51,1 m samkvæmt uppdrættinum. Fjarlægðarmörkin í framangreindu reglugerðarákvæði gildi um eldi á 40.000-60.000 fuglum og því sé óljóst hvort að þau eigi við um 6.000 fugla eldi. Skilyrði ákvæðisins um fjarlægð sé engu að síður fullnægt.

Meginástæða þess að ekki hafi verið gert deiliskipulag sé sú að ekki náist samkomulag milli eigenda fasteigna í Sveinbjarnargerði. Erindið hafi verið samþykkt á fundi sveitarstjórnarinnar 5. apríl 2017 en leyfishafa hafi verið tilkynnt 18. maí s.á að byggingarleyfi yrði ekki gefið út fyrr en félagið hefði tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar í samræmi við lið 1.10 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hin kærða ákvörðun varði ekki starfsleyfi Græneggja ehf. og feli ekki í sér afstöðu til þess, enda veiti sveitarstjórn ekki starfsleyfi.

Sveitarstjóri eigi ekki sæti í sveitarstjórn og geti því ekki haft áhrif á afgreiðslu mála með atkvæði sínu. Sveitarstjórn geti tæplega verið vanhæf vegna þess að sveitarstjóri sitji fundi, líkt og honum beri að gera. Fjárhagslegir hagsmunir sveitarstjóra í Græneggjum ehf. séu nánast engir, en hann eigi 10% hlut í Bjarnargerði ehf., sem eigi 10% hlut í Græneggjum ehf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hin kærða framkvæmd sé fólgin í því að byggja yfir gamlan grunn með það að markmiði að fjölga varphænum úr tæplega 8.000 í 12.000 að hámarki. Breikka þurfi grunninn um rúma þrjá metra til að gæta fullrar hagkvæmni, m.t.t. varpkassa, vatnsnippla og fóðurlína. Grunnflötur stækki þannig úr rúmum 600 m² í rúma 800 m². Lengd hússins verði sú sama og áður, en það muni breikka til austurs. Byggingin verði hærri en áður, en verði verulega lægri en skemman sem hún muni standa áföst við. Hún verði í 61,7 m fjarlægð frá gamla íbúðarhúsinu í Sveinbjarnargerði III, en fjarlægðin sé 51,1 m sé mælt frá mörkum lóðar kærenda.

Heildarfjöldi varphænsna og unga í uppeldi samanlagt geti að hámarki orðið 15.000, en fjöldinn verði að meðaltali töluvert minni þar sem ávallt þurfi að hreinsa bæði uppeldishús og varphús í hvert skipti þegar skipt sé um fugl, en það sé gert í áföngum. Eggjaframleiðslan geti vaxið um u.þ.b. 35%.

Gildandi starfsleyfi hafi miðað við 10.000 varphænur þar sem það hámark hafi verið í reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, en leyfishafi stundi slíka framleiðslu. Sú reglugerð hafi nú verið felld úr gildi. Leyfið sé yfirleitt endurskoðað á fjögurra ára fresti, sbr. 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Eggjaframleiðsla hafi verið samfellt í Sveinbjarnargerði í yfir 50 ár. Sótt hafi verið um breytingu á starfsleyfi í samræmi við fyrirhugaða stækkun, en það verði ekki gefið út fyrr en að byggingarframkvæmdum loknum.

Deiliskipulagskvöð samkvæmt aðalskipulagi nái eingöngu til ferðaþjónustunnar, en í skipulaginu komi fram að frekari uppbygging á ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði, merkt V3,  sé gerð samkvæmt deiliskipulagi. Ferðaþjónusta hafi fyrst verið heimiluð í Sveinbjarnargerði með bréfi, dags. 13. mars 1998, þar sem Skipulagsstofnun hafi fallist á að veita leyfi fyrir breyttri notkun sláturhúss.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps fari með skipulagsmál sveitarfélagsins án þess að nokkur undirnefnd sé í þeim málum, en slíkt sé heimilt samkvæmt lögum. Með 10% eignaraðild sveitarstjóra að Bjarnargerði ehf. eigi hann óbeint 1% í Græneggjum ehf.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 að samþykkja að veita byggingarleyfi vegna endurbyggingar varphænsnahúss að Sveinbjarnargerði en sveitarstjórn hefur gert það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefndin hafi fjallað um og samþykkt umsókn fyrir leyfinu, sbr. 3. gr. samþykktar nr. 420/2013 um afgreiðslur sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, sbr. og ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hina kærðu leyfisveitingu, undirbúning hennar og málsmeðferð.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi og er það jafnframt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. Er því gert ráð fyrir því að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, en undanþágu hvað varðar ódeiliskipulögð svæði er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar og láti skipulagsnefnd þá fara fram grenndarkynningu. Fór grenndarkynning fram eins og mælt er fyrir um í nefndu lagaákvæði með því fráviki þó að sveitarstjórn annaðist kynninguna á grundvelli lagaheimildar þess efnis að í sveitarfélögum þar sem erfiðlega horfi með að manna nefndir sé sveitarstjórn heimilt að fara sjálf með verkefni lögskipaðrar nefndar, sbr. 4. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Í gildi er Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020. Samkvæmt skipulaginu er Sveinbjarnargerði á landbúnaðarsvæði merkt L1. Um svæðið segir að það sé gott landbúnaðarland sem vel sé fallið til ræktunar og búvöruframleiðslu, sem skuli vera meginlandnotkun á svæðinu. Segir enn fremur að heimilt sé að nýta og reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfi sitt. Fyrst og fremst sé átt við atvinnugreinar sem séu eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verði meginlandnotkun á svæðinu. Innan svæðisins við Sveinbjarnargerði er hringtákn merkt V3 og er það skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði. Er því svæði lýst sem hóteli og veitingahúsi í töflu í kafla 4.6 í aðalskipulagi og tiltekið að uppbygging skuli vera samkvæmt deiliskipulagi. Segir nánar í nefndum kafla að á sveitarfélagsuppdrætti megi merkja þjónustustarfsemi með hringtákni á viðkomandi lögbýli í stað ákveðinnar landfræðilegrar afmörkunar.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar endurbyggingu varphænsnahúss á lögbýli á skilgreindu landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi, en á lögbýlinu má jafnframt vera hótel og veitingahús. Er og heimilt samkvæmt skipulaginu að reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri. Verður að telja ljóst af orðalagi og framsetningu aðalskipulagsins að skilmálar um að uppbygging skuli vera samkvæmt deiliskipulagi séu bundnir við svæðið V3 en að aðallega sé gert ráð fyrir landbúnaði á lögbýlinu í samræmi við skilgreinda landnotkun og áherslur aðalskipulags. Rúmast hin kærða leyfisveiting því innan heimilda gildandi aðalskipulags, en framkvæmdin er í beinum tengslum við þann rekstur sem þegar fer fram á svæðinu. Sömuleiðis voru fyrir hendi skilyrði til grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Samkvæmt 54. gr. sömu laga ræður sveitarstjórn framkvæmdastjóra, þ.e. sveitarstjóra, og er hlutverk hans að sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna skal hann sitja fundi sveitarstjórnar og þar hefur hann bæði málfrelsi og tillögurétt. Hann hefur þó ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni, en það mun þáverandi sveitarstjóri ekki hafa verið.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sveitarstjórinn hafi komið að undirbúningi málsins, þ.m.t. grenndarkynningu. Liggur fyrir að hann tengist eigendum leyfishafa fjölskyldutengslum og eru þeir mágar. Þá mun hann eiga lítinn hlut í fyrirtæki sem á hlut í leyfishafa. Svo sem áður er komið fram er grenndarkynning þáttur í lögboðinni málsmeðferð þegar byggingarleyfi er veitt vegna framkvæmdar á ódeiliskipulögðu svæði. Var sveitarstjóranum því rétt að víkja sæti við undirbúning, meðferð og afgreiðslu byggingarleyfisins vegna vanhæfis í skilningi 2. mgr. 20. gr. sveitastjórnarlaga.

Við mat á því hvort nefndur annmarki á afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfinu teljist svo verulegur að ógildingu varði ber m.a. að horfa til þess að sveitarstjóri gegnir lykilhlutverki í stjórnsýslu sveitarfélaga. Sem slíkur var hann í aðstöðu til að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna sveitarfélagsins til málsins og sveitarstjórnar til grenndarkynningar. Hins vegar verður að líta til þess að hann hafði ekki atkvæðisrétt á fundum og gat því ekki með beinum hætti komið að ákvörðun varðandi grenndarkynninguna, en samkvæmt 2. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga ræður afl atkvæða úrslitum mála. Þá verður ekki séð að aðkoma sveitarstjóra að grenndarkynningunni hafi ráðið úrslitum um lyktir málsins eða leitt til niðurstöðu sem var efnislega önnur en annars hefði orðið, einkum og sér í lagi þegar litið er til þess að byggingarleyfið var samþykkt af sameiginlegri byggingarnefnd Eyjafjarðarsvæðis þar sem sveitarstjóri átti ekki sæti. Verður byggingarleyfið því ekki ógilt af þeim sökum.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína er fjallað um fjarlægðir eldishúsa, m.a. frá mannabústöðum. Þegar um er að ræða m.a. nýbyggingar, meiriháttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum ber sveitarstjórn að ákveða fjarlægð þeirra við m.a. mannabústaði eða svæði sem afmörkuð hafa verið fyrir þá notkun í aðalskipulagi eða með byggingarreitum í deiliskipulagi. Samkvæmt b-lið I. liðar 1. mgr. skal lágmarksfjarlægð vera 50 m fyrir bú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 60.000 stæði fyrir hænur. Meðal gagna málsins er málsett loftmynd, dags. 12. maí 2017, og samkvæmt henni er fjarlægð frá varphúsi að mörkum lóðar kærenda 51,1 m, en fjarlægð að íbúðarhúsi kærenda er 61,7 m. Umrætt bú telur um 8.000 varpfugla og með fyrirhugaðri stækkun er búið enn töluvert undir stærðarviðmiðum tilvitnaðs b-liðar reglugerðarinnar. Engu að síður er skilyrði um lágmarksfjarlægð samkvæmt ákvæðinu uppfyllt hvað varðar hið endurbyggða eldishús.

Loks var gætt að ákvæði 5. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga og byggingarleyfi ekki gefið út fyrr en ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir um að framkvæmdin væri ekki matsskyld.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið eru ekki þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar fyrir hendi sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja varphænsnahús að Sveinbjarnargerði í Svalbarðsstrandarhreppi.

98/2017 Laugarnesvegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017 um að hafna kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir skúr á lóðinni nr. 83 við Laugarnesveg og beitingu þvingunarúrræða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2017, er barst nefndinni 8. september s.á., kærir eigandi, Laugarnesvegi 83, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017 að hafna kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir skúr á lóðinni nr. 83 við Laugarnesveg og beitingu þvingunarúrræða. Gerir kærandi þá kröfu að Reykjavíkurborg verði gert að sjá til þess að skúrinn verði fjarlægður, sem og aðrar óleyfisframkvæmdir í og við húsið á nefndri lóð. Til vara er þess krafist að Reykjavíkurborg verði gert að knýja eiganda eða umráðamann skúrsins til þess að bæta úr því sem áfátt sé í tengslum við ásigkomulag og frágang og fjarlægja og afmá óleyfisframkvæmdir í húsinu. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. október 2017.

Málavextir: Húsið að Laugarnesvegi 83 er þriggja íbúða hús, kjallari, hæð og rishæð. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að deilur hafi staðið milli eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins og kæranda, sem á íbúð í rishæð þess, m.a. vegna 31 m2 skúrs á lóð hússins og frágangs raflagna í og við húsið og skúrinn.

Þáverandi eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 samþykktu eignaskiptayfirlýsingu vegna fasteignarinnar, sem þinglýst var 4. september 1996. Í yfirlýsingunni kemur fram að íbúð merktri 01-0101 fylgi geymsluskúr á lóðinni, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Er tekið fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta hann eða byggja nýjan á lóðinni, að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Í skráningartöflu, dags. 11. desember 1995, er fylgdi eignaskiptayfirlýsingunni, er skúrsins ekki getið. Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur verið skráð 13,5 m2 geymsla á lóðinni Laugarnesvegi 83 og hafði sú matseining númerið 2016845. Kærandi eignaðist íbúð sína að Laugarnesvegi 83 með kaupsamningi, dags. 21. apríl 2001.

Hinn 6. júní 2006 var samþykkt umsókn eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins um byggingarleyfi fyrir áður gerðri 31 m2 bílgeymslu á fyrrgreindri lóð. Þá var hinn 12. janúar 2007 þinglýst á fasteignina yfirlýsingu um samþykki eigenda hennar um að bílskúr, sem hafi staðið á lóð Laugarnesvegar 83 í yfir 10 ár, komi í staðinn fyrir þann sem þar hafi verið á sama stað. Yfirlýsingin er undirrituð af tveimur eigendum tveggja eignarhluta í húsinu en á skortir undirritun kæranda sem eiganda þriðja eignarhlutans. Bílgeymslan var skráð í fasteignaskrá sem 31,0 m2 bílskúr hinn 21. október 2015 sem sama matseining og fyrrgreindur 13,5 m2 skúr. Skráning matseiningarinnar var síðan afmáð 22. september 2016. Ekki liggur fyrir hvenær núverandi skúr var reistur í stað þess sem áður mun hafa staðið á umræddri lóð.

Með bréfi kæranda, dags. 28. janúar 2017, var kært til úrskurðarnefndarinnar aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík „varðandi eldhættu og óleyfisframkvæmdir“ við Laugarnesveg 83. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærufrestur vegna hins veitta byggingarleyfis frá 6. júní 2016 væri liðinn og ekki yrði því tekin afstaða til lögmætis hennar. Aftur á móti taldi nefndin að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu erindis kæranda til borgarinnar vegna framkvæmdanna án þess að fyrir lægi viðhlítandi skýring á drættinum. Var því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka til lögformlegrar afgreiðslu kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða. Hinn 3. ágúst 2018 synjaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða á þeim forsendum að hagsmunir núverandi eiganda skúrsins vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá kröfu sinni framgengt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að á grundvelli 2. mgr. 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi stofnast skylda fyrir byggingarfulltrúa til að grípa til aðgerða vegna óleyfisframkvæmda á lóð fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83.

Í IV. kafla laga nr. 73/1997 hafi verið mælt fyrir um mannvirki. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna hafi ákvæði kaflans tekið til hvers konar bygginga, bæði ofan jarðar og neðan. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. hafi m.a. verið óheimilt að grafa grunn og reisa hús nema að fengnu leyfi sveitarstjórnar. Samkvæmt 4. mgr. sama ákvæðis hafi þeim sem óskaði slíks leyfis borið að koma á framfæri umsókn til byggingarnefndar viðkomandi sveitarfélags ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum, þ.m.t. samþykki meðeigenda ef um sameign væri að ræða. Í VI. kafla laganna hafi verið mælt fyrir um þvingunarúrræði og viðurlög. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laganna hafi byggingarfulltrúa sveitarfélags borið að stöðva tafarlaust framkvæmd sem félli undir ákvæði IV. kafla laganna, án þess að leyfi hefði fengist fyrir henni og hún bryti í bága við skipulag, og í framhaldi þess að fjarlægja hina ólöglegu byggingu og afmá jarðrask.

Að því er varði lagaskil gagnvart skipulags- og byggingarlögum, sem í gildi hafi verið á þeim tíma er byggingarleyfi vegna hins áður gerða skúrs hafi verið veitt, vísi kærandi til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 137/2012 frá 22. nóvember 2012. Þar sé með afdráttarlausum hætti vísað til þess að atvik málsins hafi átt sér stað í gildistíð eldri laga og að þeim lögum yrði beitt við úrlausn málsins án tillits til þess hvort hliðstæð ákvæði væri að finna í nýjum skipulagslögum nr. 123/2010, sem hafi líkt og lög nr. 160/2010 um mannvirki, tekið gildi 1. janúar 2011. Kærandi telji einsýnt að hið sama eigi við í þessu máli.

Í málinu liggi fyrir sú afstaða byggingarfulltrúa að samþykki á byggingarleyfisumsókn eiganda og umráðamanns skúrsins hafi verið alvarlegum vanköntum háð að því leyti að skort hefði á samþykki sameiganda, líkt og 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hefði gert ráð fyrir. Telji kærandi með ólíkindum að ekki hafi verið brugðist við í samræmi við fortakslausa skyldu byggingarfulltrúa samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laganna til að fjarlægja ólöglegar byggingar. Ekki skipti máli að í ákvæðinu sé vísað til þess skilyrðis fyrir aðgerðum byggingarfulltrúa að framkvæmd brjóti í bága við deiliskipulag, enda ljóst að ekki hafi verið til staðar deiliskipulag á svæðinu bæði á þeim tímapunkti þegar skúrinn hafi verið reistur og þegar umsókn um byggingarleyfi hafi verið komið á framfæri. Þegar af þeirri ástæðu að samþykki kæranda sem sameiganda hafi ekki legið fyrir vegna skúrsins, og að eigandi og umráðamaður skúrsins hafi ekki orðið við kröfum byggingarfulltrúa um framvísun þess samþykkis, hafi skylda embættis byggingarfulltrúa til aðgerða stofnast, m.a. með hliðsjón af því að 2. mgr. 56. gr. laganna hafi ekki gert aðkomu aðila máls eða annarra að skilyrði fyrir aðgerðum. Megi hér vísa til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 32/2008 frá 6. nóvember 2008, máli nr. 406/2010 frá 24. mars 2011 og áðurnefndu máli nr. 138/2012 frá 22. nóvember 2012.

Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi sveitarstjórn getað veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem ekki hafi legið fyrir deiliskipulag, að undangenginni grenndarkynningu. Samkvæmt gögnum málsins hafi þess leið verið farin og ekki hafi borist athugasemdir við grenndarkynninguna. Þótt kærandi hafi ekki komið að athugasemdum við kynninguna verði það ekki túlkað sem samþykki hans fyrir framkvæmdunum. Áðurnefnd heimild sveitarstjórnar samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum geti ekki vikið til hliðar ófrávíkjanlegu skilyrði laganna um að til staðar sé samþykki meðeigenda. Hvað svo sem líði því mati Reykjavíkurborgar, og síðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, að byggingarleyfisumsóknin hafi verið samþykkt verði í samhengi við ógildingarfræði stjórnsýsluréttarins að líta á þá samþykkt sem markleysu, sem virða beri að vettugi, óháð því hvort tekin hafi verið sérstök ákvörðun um ógildingu hennar eður ei, enda hafi frá öndverðu skort á fortakslaust skilyrði leyfisveitingarinnar.

Að því er varði kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða sé fyrst og fremst á því byggt að ákvörðun embættis byggingarfulltrúa hafi ekki byggst á forsvaranlegu mati embættisins. Hafi því mat byggingarfulltrúa um að ekki væri nauðsyn á að grípa til aðgerða vegna skúrsins verið ólögmætt. Af ákvörðuninni verði helst ráðið að byggt hafi verið á meintu tómlæti kæranda, hagsmunum nýs eiganda skúrsins, í ljósi þess að um íþyngjandi úrræði væri að ræða gagnvart viðkomandi, og á eignaskiptayfirlýsingu frá 28. ágúst 1996.

Samkvæmt réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins beri stjórnvöldum við ákvarðanatöku sína að byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem leidd verði fram með túlkun ákvæða viðkomandi lagaramma hverju sinni. Samkvæmt a-lið 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé á meðal markmiða laganna að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt. Í athugasemdum greinargerðar við endanlegt frumvarp laganna komi fram að í ákvæðinu sé fjallað um grundvallartilgang löggjafar um mannvirkjagerð. Sé ljóst að önnur ákvæði laganna miði að því að tryggja að þessum markmiðum verði fullnægt, m.a. með virku eftirliti þeirra aðila sem beri ábyrgð á því.

Kærandi geri að þessu leyti athugasemd við það mikilvægi sem hagsmunum núverandi eiganda umráðamanns skúrsins séu fengnir og þá staðreynd að þvingunaraðgerðir séu íþyngjandi gagnvart viðkomandi. Kærandi vísi til þess að á meðal gagna málsins séu tvær skýrslur þar sem gerðar séu athugasemdir við raflagnir í skúrnum og húsinu í heild sinni. Ekki verði séð að í ákvörðun byggingarfulltrúa frá 3. ágúst 2017 hafi verið litið til þessa atriðis. Þrátt fyrir að kærandi geri sér grein fyrir því að sjónarmið sem felist í verndun verðmæta og því að koma beri í veg fyrir óþarfa eyðileggingu eigi sér stoð í löggjöfinni, m.a. með hliðsjón af þeirri breytingu sem orðið hafi á úrræðum byggingarfulltrúa við gildistöku núgildandi laga að um sé að ræða heimild til aðgerða en ekki skyldu, verði ekki séð að þau sjónarmið víki til hliðar sjónarmiðum sem hvíli á lögfestum grundvallarmarkmiðum laganna. Núverandi eiganda séu færar ýmsar leiðir á einkaréttarlegum grundvelli til þess að sækja bætur fyrir tjón sitt hjá fyrrverandi eiganda og eftir atvikum öðrum aðilum. Við sölu eignarinnar hafi bæði fasteignasölu þeirri sem hafi annast söluna og núverandi eiganda verið gerð grein fyrir ágreiningnum sem uppi væri vegna skúrsins.

Hin kærða ákvörðun beri með sér að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar litið sé til tveggja skýrslna vegna raflagna skúrsins og sjónarmiða um að af honum stafi eldhætta. Slík rannsókn sé forsenda málefnalegs mats við ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða.

Að því er varði sjónarmið um meint tómlæti kæranda sé vísað til þess að ekki verði séð að ákvæði X. kafla laga um mannvirki, þar sem mælt sé fyrir um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög vegna háttsemi sem brjóti í bága við lögin, geri ráð fyrir aðkomu aðila sem lögvarinna hagsmuna hafi að gæta af málinu sem skilyrði fyrir því að úrræðum kaflans verði beitt. Þvert á móti telji kærandi umrædd ákvæði laganna gera ráð fyrir ákveðnu frumkvæðiseftirliti af hálfu viðkomandi byggingaryfirvalda. Auk þess sé á það bent að sjónarmið um tómlæti, þegar um sé að ræða nábýlisréttarlegar deilur, séu í eðli sínu einkaréttarleg sjónarmið, sem tilheyri þeim þætti málsins. Vandséð sé að slík sjónarmið eigi við þegar um ákvarðanatöku embættis byggingarfulltrúa sé að ræða.

Hvorki hafi verið gætt að andmælarétti aðila máls við ákvörðunartökuna né tilkynningu komið á framfæri um meðferð málsins, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Slík tilkynning um meðferð máls sé eðli málsins samkvæmt forsenda þess að aðili þess geti nýtt sér ýmis réttindi sem viðkomandi séu fengin með ákvæðum stjórnsýslulaga, t.d. upplýsingarétt, sbr. 15. gr. laganna.

Rökstuðningi ákvörðunarinnar sé ábótavant, enda sé hann ekki í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Í rökstuðningnum sé í engu getið þeirra meginsjónarmiða sem legið hafi að baki mati byggingarfulltrúa á nauðsyn þess að úrræðum laga um mannvirki verði beitt, að öðru leyti en því að vísað sé til meintra hagsmuna núverandi eiganda og umráðamanns skúrsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld benda á að ljóst sé að vegna mistaka hjá embætti byggingarfulltrúa hafi láðst að kalla eftir samþykki kæranda vegna leyfis fyrir þegar gerðri stækkun umrædds skúrs. Á hinn bóginn sé á það að líta að ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvenær stækkunin hafi átt sér stað og mögulegar framkvæmdir við raflagnir. Sé því mögulega um tómlæti af hálfu kæranda að ræða, en eðlilegt hefði verið að kærandi hefði gert athugasemd við framkvæmdirnar þegar þær hófust. Ekki hafi verið leitt í ljós að kærandi hafi eitthvað aðhafst í málinu á þeim tíma. Það sé ekki fyrr en byggingarfulltrúi samþykki stækkun skúrsins eftir á að umræddar athugasemdir hafi borist. Einnig beri að líta til þess að langur tími hafi liðið frá samþykkt byggingarfulltrúa í málinu, nýr eigandi sé að skúrnum og að samkvæmt gildandi deiliskipulagi Teigahverfis frá 2014 sé nú heimilað að byggja bílskúr á lóðinni.

Í eignaskiptasamningi frá 28. ágúst 1996 komi fram að íbúð merkt 01-0101 fylgi geymsluskúr sem standi á lóðinni, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Komi þar fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta geymsluskúrinn eða byggja nýjan á lóðinni, að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Orðalag þessa ákvæðis í eignaskiptasamningnum kunni að orka tvímælis um þær heimildir sem þar séu tilgreindar. Þótt eðlilegt megi telja að hér sé átt við byggingu skúrs af sömu stærð og fyrir hafi verið kunni þetta að sæta ágreiningi sem embættið hafi ekki heimild til að skera úr um.

Sérstök athygli sé vakin á því að engin lagaskylda hvíli á byggingarfulltrúa til að hlutast til um að mannvirki sem byggð hafi verið án leyfis séu fjarlægð. Í rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir synjun um aðgerðir í málinu hafi enn fremur verið tekið fram að ljóst væri að ákvörðun um ógildingu byggingarleyfis nú og e.t.v. niðurrif skúrsins yrði verulega íþyngjandi fyrir núverandi eiganda hans. Það hafi því verið mat embættisins, í ljósi framangreinds og atvika málsins alls, að hagsmunir núverandi eiganda í málinu vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá kröfum sínum framgengt.

Niðurstaða: Hinn 6. júní 2006 var að undangenginni grenndarkynningu samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðum bílskúr á lóðinni Laugarnesvegi 83, en á skorti að uppfyllt væri skilyrði þágildandi 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um samþykki meðeigenda lóðarinnar, eins og rakið er í kafla um málavexti. Krefst kærandi þess að nefnt byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að þvingunarúrræðum verði beitt til þess að skúrinn verði fjarlægður ásamt öðrum óleyfisframkvæmdum við húsið og skúrinn á lóðinni.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Af þeim sökum tekur nefndin aðeins til meðferðar kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfi fyrir skúrnum og synjun um beitingu þvingunarúrræða á nefndri lóð. Aftur á móti telur nefndin það falla utan valdheimilda sinna að taka nýja ákvörðun í málinu með því að leggja fyrir byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á umræddri lóð, fari svo að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda.

Samkvæmt bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 16. júní 2016, andmælti kærandi veitingu fyrrgreinds byggingarleyfis og krafðist þess m.a. að byggingarfulltrúi afturkallaði ákvörðun sína. Í 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að skjóta málum til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærufrestur vegna nefnds byggingarleyfis er því löngu liðinn. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til lögmætis nefndrar ákvörðunar í máli þessu.

Kveðið er á um það í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna getur byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Þá er í 56. gr. laganna, sbr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, m.a. kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Synjun um beitingu á lögheimiluðum þvingunarúrræðum var studd þeim rökum að hagsmunir núverandi eiganda skúrsins vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá skúrinn fjarlægðan. Var einnig vísað til þess að um mögulegt tómlæti væri að ræða af hálfu kæranda, að heimilt væri að byggja bílskúr á lóðinni samkvæmt núverandi deiliskipulagi og að túlkun eignaskiptasamnings frá 28. ágúst 1996 orkaði tvímælis um þær heimildir sem þar væru tilgreindar. Verður að telja hina matskennda ákvörðun byggingarfulltrúa, að synja beitingu þvingunarúrræða vegna fyrrgreinds skúrs, hafa verið studda efnislegum rökum.

Kærandi hefur gert athugasemdir vegna raflagna í og við húsið og skúrinn á lóðinni Laugarnesvegi 83 sökum meintrar eldhættu. Að tilhlutan Mannvirkjastofnunar gerði faggilt skoðunarstofa skýrslu, dags. 8. apríl 2016, um vanbúnað raflagna í sameign þar sem gerðar eru ýmsar athugasemdir, m.a. vegna hættu á hita- og neistamyndun og skammhlaupi í aðaltöflu hússins. Skýrslu sama efnis hafði skoðunarstofan gert árið 2012. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort úr hafi verið bætt í þeim efnum. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga hvílir sú skylda á byggingarfulltrúa að leggja fyrir eiganda eða umráðamann húss eða mannvirkis að bæta úr því sem áfátt er ef af því stafar hætta að hans mati. Ekki er að sjá að byggingarfulltrúi hafi í ákvörðun sinni tekið afstöðu til þess hvort hætta stafaði af ástandi raflagna hússins með hliðsjón af nefndri skýrslu faggiltrar skoðunarstofu. Að þessu leyti skortir því á að í ákvörðun byggingarfulltrúa hafi sá þáttur málsins verið rannsakaður og rökstuddur með fullnægjandi hætti, sbr. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ákvörðun byggingarfulltrúa, um að synja beitingu þvingunarúrræða í tilefni af ástandi raflagna umræddrar fasteignar, hafi verið slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess hluta hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017, um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna ástands raflagna í sameign fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 í Reykjavík.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

135/2017 Gervigrasvöllur, Bæjargarði í Garðabæ

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 7. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 139/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Fyrir var tekið mál nr. 135/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 19. október 2017 um að samþykkja að veita framkvæmdaleyfi fyrir ljósabúnaði á gervigrasvöll í Bæjargarði í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. nóvember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar að samþykkja að veita framkvæmdaleyfi fyrir uppsetningu ljósabúnaðar í Bæjargarði Garðabæjar. Er gerð sú krafa að nefndin úrskurði að vinnulag bæjarins sé ekki í samræmi við skipulags- og stjórnsýslulög. Verður að skilja kröfu kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða leyfis.

Gögn málsins bárust frá Garðabæ 22. mars 2018.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar 12. október 2017 var lögð fram umsókn bæjarverkfræðings um framkvæmdaleyfi fyrir ljósabúnaði tveggja gervigrasvalla, í Ásgarði og Bæjargarði, samkvæmt tillögu, dags. 3. s.m. Lagði skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að framkvæmdaleyfiyrði veitt. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 17. október 2017 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar. Bæjarstjórn samþykkti tillögu skipulagsnefndar á fundi 19. október 2017.

Málsrök kæranda:
Kærandi byggir á því að framkvæmdin sé hvorki í samræmi við gildandi aðal- né deiliskipulag fyrir svæðið og brjóti því gegn skipulags- og stjórnsýslulögum. Kynning bæjaryfirvalda á deiliskipulagsbreytingum gangi í berhögg við það framkvæmdaleyfi sem nú hafi verið gefið út.

Bygging gervigrasvallar í Bæjargarði með öllum tilheyrandi búnaði og frágangi sé augljóslega ein framkvæmd þó hún sé unnin í áföngum. Bæjaryfirvöld hafi kosið að búta framkvæmdina niður og gefa út fjölda framkvæmdaleyfa og þannig komist hjá því að klára hönnun vallarins að fullu, jafnvel þótt framkvæmdir við hann séu nú langt komnar. Með þessu vinnulagi hafi íbúar ekki fengið að vita hvernig endanlegur völlur muni líta út og hvaða áhrif hann muni hafa á umhverfið. Endanleg hönnun framkvæmdar verði að liggja fyrir öllum áföngum framkvæmdar þegar framkvæmdaleyfi sé gefið út, sbr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Endanleg landmótunargögn hafi ekki verið lögð fram af sveitarfélaginu þó skýr ákvæði séu um slíkt, sbr. 4. og 7. gr. sömu reglugerðar. Fullnægjandi hönnunargögn liggi heldur ekki fyrir vegna heildarframkvæmdarinnar. Ekki hafi verið settar reglur um notkun vallarins þótt íbúar hafi ítrekað kallað eftir þeim og Skipulagsstofnun geri kröfu um slíkt. Útgáfa leyfisins sé brot á skipulagslögum þar sem ekki sé um sjálfstæða framkvæmd að ræða heldur óaðskiljanlegan hluta af gervigrasvellinum og því einn áfangi af stærri framkvæmd.

Við kynningu á fyrirhugaðri breytingu á deiliskipulagi árið 2016 hafi bæjarvöld staðfest að ekki stæði til að reisa gervigrasvöll af því tagi sem nú standi til fyrir íþróttafélag í bænum. Íbúum hafi því verið talin trú um að um íþróttavöll fyrir almenning væri að ræða, án flóðlýsingar, og geri deiliskipulag ráð fyrir því. Hvergi á Íslandi finnist þess dæmi að upphitaður flóðlýstur gervigrasvöllur sé hluti af almenningsgarði, heldur sé slíkt eingöngu að finna innan skilgreindra íþróttasvæða.

Ljósamöstur falli undir byggingarreglugerð nr. 112/2012 og séu því byggingarleyfisskyld. Í 1. gr. reglugerðar nr. 112/2012 um framkvæmdaleyfi komi fram að reglugerðin nái eingöngu til framkvæmda sem ekki séu háðar byggingarleyfi.

Garðabær sé bæði leyfisveitandi og framkvæmdaaðili. Við slíkar aðstæður geri skipulags- og stjórnsýslulög sérstakar kröfur um faglegan undirbúning og sanngjarna málsmeðferð af hálfu yfirvalds, enda eigi íbúar ekki kost á að leita ráðgjafar hjá óvilhöllu yfirvaldi telji þeir framkvæmdina ekki í samræmi við lög. Eina úrræði íbúa sé að ganga svo langt að kæra viðkomandi framkvæmd. Kærandi hafi skorað formlega á bæjaryfirvöld að fresta framkvæmdum á meðan íbúar kynntu sér framkvæmdina en því hafi verið hafnað.

Hús kæranda standi rétt hjá umræddum Bæjargarði. Hann hafi kynnt sér aðal- og deiliskipulag svæðisins vel áður en hann festi kaup á húsinu. Ákvæði um Bæjargarð hafi verið mikilvægur þáttur í þeirri ákvörðun. Núverandi umbreytingar á svæðinu þar sem heillandi útivistarsvæði með fjölbreyttum trjá- og runnagróðri sé skipt út fyrir áberandi íþróttamannvirki með skipulögðu íþróttasvæði, sé grundvallarbreyting á þeim gæðum sem kærandi hafi mátt búast við í nágrenni við heimili sitt og auglýst hefði verið af hálfu Garðabæjar.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarstjórnar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Framkvæmdaleyfið sé gefið út með stoð í deiliskipulagi Bæjargarðs líkt og 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga geri kröfu um, en í deiliskipulaginu sé mælt fyrir um sérútbúnar boltaflatir. Í því felist augljós heimild fyrir upplýstan, upphitaðan og afgirtan gervigrasvöll eins og hér um ræði. Í upphaflegri umsókn hafi komið skýrt fram að hluti af heildarframkvæmdinni hafi alltaf verið að hafa alla velli upplýsta. Við samþykkt á upphaflegu framkvæmdaleyfi hafi verið tekið fram að leyfið næði ekki til ljósabúnaðar þar sem ekki lægi fyrir nákvæm útfærsla á tegund og gerð.

Á fundi bæjarstjórnar 19. október 2017 hafi tillaga skipulagsnefndar að veita framkvæmdaleyfi fyrir uppsetningu ljósabúnaðar við nýja gervigrasvelli í Bæjargarði og Ásgarði verið samþykkt. Greinargóð gögn um gerð og tegund ljósabúnaðarins hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins, sem beri skýrt með sér að ljósabúnaðurinn muni á engan hátt geta raskað grenndarhagsmunum kæranda. Líklegra sé að almenn götulýsing, sem logi stanslaust á meðan myrkur sé, muni geta valdið kæranda meira ónæði en ljós á íþróttavelli sem slökkt sé á þegar kvölda taki.

Óumdeilt sé að umræddur gervigrasvöllur sé gerður í samræmi við gildandi deiliskipulag sem gildi fyrir Bæjargarð. Garðabær hafi lagt sig fram um að eiga gott samráð við íbúa og tekið tillit til óska þeirra með það að markmiði að hugsanleg grenndaráhrif verði sem minnst. Það hafi verið gert með samráði um mótun á landslagi með hæð jarðvegsmana sem takmarki sjónræn áhrif af vellinum og jafnframt hafi verið haft samráð um legu gönguleiða. Fyrirhugaður ljósabúnaður sé þannig úr garði gerður og verði stýrt með þeim hætti að hann muni eingöngu lýsa upp viðkomandi vallarsvæði og vera án allrar glýju fyrir næsta nágrenni. Um LED lýsingu sé að ræða og hægt verði að stýra styrk og stefnu ljósanna þannig að óæskileg grenndaráhrif verði engin eða óveruleg. Ekki sé um flóð- eða keppnislýsingu að ræða heldur hefðbundna lýsingu eins og venja sé á afgirtum gervigrasvöllum og battavöllum ýmist innan afmarkaðra og skilgreindra íþróttasvæða eða á opnum svæðum. Ekki hafi tíðkast að gera sérstaka grein fyrir staðsetningu ljósabúnaðar í deiliskipulagi, við slíkar aðstæður, enda jafn eðlilegt að lýsa upp vellina með sama hætti og gönguleiðir um svæðið. Til samanburðar megi benda á að sérstakur ljósabúnaður sé á skólalóðum í þeim tilgangi að lýsa upp leiksvæði en ekki hafi verið kröfur um að slíkum búnaði sé lýst nákvæmlega í skilmálum deiliskipulags sem gildi fyrir svæðið.

Skipulagslög eða reglugerðir áskilji ekki að settar séu reglur um notkun vallarins í skilmála deiliskipulags eða í almennum eða sérstökum skilyrðum fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis. Almennt séu í gildi reglur um notkun íþróttavalla í eigu bæjarins og þar hafi verið kveðið á um að vellir næst íbúðabyggð séu ekki í notkun á kvöldin eftir kl. 20:00 eða 21:00.

Í gerð afgirts íþróttarvallar á opnu svæði eða í almenningsgarði felist ekki grundvallarbreyting á nærumhverfi kæranda sem sé umfram það sem hann og aðrir íbúar hafi mátt búast við. Það sé almennt í þágu íbúa að opin svæði séu nýtt fyrir leiksvæði, opin eða afgirt en með því séu lífsgæði íbúa aukin, m.a. með tilliti til aðstæðna sem geti stuðlað að heilbrigðu uppeldi barna og ungmenna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 19. október 2017 um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir ljósabúnaði á gervigrasvöll í Bæjargarði í Garðabæ. Í málinu liggur fyrir að bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti að afturkalla hið kærða framkvæmdaleyfi á fundi sínum 1. nóvember 2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að bæjarstjórn afturkallaði hið kærða framkvæmdaleyfi hefur það ekki réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þess. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.