Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

09/2005 Úrskurður vegna kæru Félags hesthúsaeigenda á Varmárbakka, Mosfellsbæ gegn Mosfellsbæ.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006 miðvikudaginn 8. febrúar kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík.    Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2005  Félag hesthúsaeigenda á Varmárbakka,  Mosfellsbæ  gegn Mosfellsbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Félags hesthúsaeigenda á Varmárbakka  Mosfellsbæ er dags. 25. apríl, 2005.  Kærð er álagning Mosfellsbæjar á meintum ólöglegum holræsagjöldum af hesthúsum í Mosfellsbæ.  Félag hesthúsaeigenda í Mosfellsbæ er hér eftir nefnt kærandi, en Mosfellsbær kærði. Stjórnsýslukæra var send umhverfisráðuneyti, sem framsendi kröfuna til nefndarinnar.   Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. og aftur ítrekað með bréfi dags. 9. júlí 2005.  Að fengnu síðara bréfinu óskaði kærði eftir fresti fram yfir mánaðamót vegna sumarleyfa starfsmanna og var það samþykkt.  Kærði svaraði 2. ágúst.  Var svarbréf það sent kæranda til umsagnar og sendi hann svarbréf .

1)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 22. febrúar, 2005.

2)      Afrit af fasteignagjaldaseðli 2005.

3)      Afrit af skýringaseðli með álagningaseðli.

4)      Reglugerð um holræsagerð í Mosfellshreppi.

Afrit með bréfi kærða:

1)  Afrit af skipulags- og byggingarskilmálum v. hesthúsa á Varmárbökkum.

II.

Í stjórnsýslukæru gerir kærandi þær kröfur að staðfest verði að innheimt holræsagjöld séu ólögmæt og að álögð holræsagjöld undanfarinna ára verði endurgreidd til hesthúsaeigenda.

Vísar kærandi til þess að hinn 22. febrúar s.l. hafi kærandi sent bréf til kærða þar sem vakin hafi verið athygli á því að kærði væri að innheimta ólögleg holræsagjöld af hesthúsaeigendum í bænum.  Kveður kærandi sjónarmið byggð á ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923, sem séu megin lagaheimildin fyrir álagningu holræsagjalds, en þar komi fram í 1. mgr. 87. gr :”Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði.  Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorutveggja.”  Kveður kærandi að fram komi í 4. mgr. 87. gr. vatnalaga að holræsagjald skuli nánar ákveða í reglugerð.  Þá séu nánari fyrirmæli um efni og staðfestingu reglugerðar að finna í 89. og 90. gr. vatnalaga.  Vatnalög nr. 15/1923 mæli ennfremur fyrir um frekari skilyrði fyrir innheimtu holræsagjalds, sem ráðherra sé bundinn af við setningu reglugerðar, en í 1. mgr. 88. gr. segi :  “ Bæjarstjórn leggur holræsi svo, að lóðareigandi hver nái til þeirra í götu, vegi eða opnu svæði, er lóð hans telst til, enda verður maður eigi krafinn um holræsagjald fyrr en svo er”.  Kærandi vekur sérstaka athygli á þessu ákvæði.  Kveður hann að skv. skýru orðalagi sé skilyrði fyrir innheimtu  holræsagjalds vegna húsa og lóða að bæjarstjórn hafi þegar lagt holræsi sem lóðareigandi nái til í götu, vegi eða opnu svæði sem lóð hans nái til.  Vísar kærandi til þess að óumdeilt sé að ekkert holræsi sé í hesthúsahverfinu sem innheimta holræsagjaldsins tekur til. Telji kærandi því ótvírætt að enginn lagagrundvöllur sé fyrir álagningu holræsagjalds vegna hesthúsalóðanna á Varmárbökkum.  Innheimta gjaldsins fari gegn skýru ákvæði 1. mgr. 88. gr. vatnalaga nr. 15/1923.  Kærandi bendir á að fyrrnefnt bréf kæranda til bæjarstjórnar hafi verið afgreitt í bæjarstjórn án niðurstöðu og vísað til embættismanna.  Kærandi áréttar að í hesthúsahverfinu sem um ræði sé ekkert holræsi, en í þeim húsum sem hafi rotþró verði eigendur að sjá um losun á eigin kostnað.  Þá bendi kærandi og á að sú meginregla gildi, að stjórnvöld geti almennt ekki innheimt gjöld af þessu tagi nema þau hafi til þess skýra lagaheimild.  Vegna skilyrða í 1. mgr. 88. gr. vatnalaga um að gjaldið verði ekki innheimt fyrr en holræsi hefur verið lagt, sé ljóst að sveitarstjórn skorti lagaheimild til innheimtu gjaldsins í þessu tilviki  Að sögn kæranda  í stuttu máli : “Ekkert holræsi, ekkert gjald.“  Kærandi bendir á að álagning holræsagjalda á hesthús í Mosfellsbæ hafi átt sér stað árum saman og engum dottið í hug fyrr en nú að þetta væri í trássi við lög.  Bendir kærandi á að hinn 31 mars s.l. hafi verið gerð fyrirspurn um afgreiðslu bæjarstjórnar á holræsamáli hestamanna og svarið hafi verið að ekkert hafi verið gert og borið hafi verið við önnum. Kærandi bendir á að þann dag sem kæran er dagsett hafi ekkert heyrst frá bæjarstjórn kærða vegna málsins.  Telji kærandi að rök hafi verið færð fyrir því að innheimta gjaldsins standist ekki lög og að bæjarstjórn kærða beri að svara erindi og fella niður gjald eða að öðrum kosti lýsa á rökstuddan hátt afstöðu sinni til málsins.

Kærandi kveður að á álagningarseðli fasteignagjalda 2005 frá kærða komi fram að álagning holræsagjalds sé 0.15% af fasteignamati húss.  Hér sé gefið til kynna að innheimta holræsagjaldsins við þessar aðstæður sé lögleg og byggist á staðfestri reglugerð frá ráðherra sem hvíli á gildri lagastoð.  Telji kærandi að innheimta holræsagjalds vegna lóða þar sem ekki er tryggður aðgangur að holræsi, fái ekki  staðist vegna ákvæðis 1. mgr. 88. gr. vatnalaga nr. 15/1923.  Reglugerð sem vísað er til á álagningarseðli geti þar með ekki átt við hesthúsin og þær lóðir sem þau standa á, enda sé þar ekki um neitt holræsi að ræða.  Stjórn kæranda fari fram á að ráðuneyti gæti þess sem eftirlitsaðili, að efni reglugerðarinnar hafi næga lagastoð og sé í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar og að ekki sé verið að innheimta gjald fyrir kostnaði af holræsagerð, sem aldrei hafi átt sér stað og engin lagastoð sé fyrir.  Þá fer kærandi fram á það að ráðuneyti staðfesti skilning á lögunum og taki undir þá sjálfsögðu kröfu að álögð holræsagjöld undanfarinna ára verði endurgreidd til hesthúsaeigenda enda hafi þau verið ólöglega af þeim heimt.  Svo sem fyrr greindi var kæra send til umhverfisráðuneytis sem framsendi hana til úrskurðarnefndar.  Kærandi ítrekaði kröfur sínar í bréfi dags. 22. júní s.l.  Í því bréfi var bent á að ekkert hafi frést af svörum kærða vegna fyrirspurnar kæranda og ennfremur að kærandi telji óásættanlegt að ekkert svar berist. Beðið er um að máli verði hraðað.  Í svarbréfi kæranda við gögnum kærða eru kröfur ítrekaðar.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 2. ágúst, 2005.  Bendir kærði á að farið hafi verið yfir athugasemdir sem fram komi í stjórnsýslukæru kæranda um ólöglega innheimtu holræsagjalds.  Kærði upplýsir að á sínum tíma hafi verið lögð ræsi í allar götur í hesthúsahverfinu við Varmárbakka og hafi það verið gert í samræmi við skipulags- og byggingarskilmála sem samþykktir hafi verið í byggingarnefnd kærða í maí 1981.  Kærði kveður öll hesthús vera tengd þessu holræsi hvað varði yfirborðsvatn/afrennsli svo sem frá taðþróm, enda hafi það verið krafa skv. ofangreindum skilmálum.  Í tilgreindum byggingarskilmálum komi og fram að kostnaði við m.a. ræsi í hverfinu hafi verið jafnað út á leigutaka og reiknað sem “stofngjald” vegna tengingar við ræsið, en heimild til innheimtu tengigjalds sé að finna í 3. gr. gildandi reglugerðar um holræsi í Mosfellshreppi frá 10. ágúst 1980.  Því hafi  verið innheimt holræsagjald á ofangreindum forsendum, mótmælalaust um langan aldur, þó svo eigendur hesthúsa hafi ekki fengið að tengja salerni við ræsið heldur orðið að koma sér upp safntanki hafi þeir kosið að setja salerni í hús sin, enda strax í upphafi aðeins ætlast til þess að yfirborðsvatn/afrennsli og afrennsli frá gerðum og taðþróm væri tengt ræsinu.  Kærði vísar til þess að í reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999 sé skilgreining á hugtakinu “skólp” en þar segi í 3. gr. tl. 3.31 : “Skólp er húsaskólp og iðnaðarskólp eða blanda húsaskólps eða iðnaðarskólps og/eða ofanvatns.”   Kveður kærði því að ekki sé unnt að fallast á að ekkert holræsi sé í hesthúsahverfinu svo sem haldið sé fram í stjórnsýslukærunni og vísar til þess að álagning holræsagjalds eigi sér stoð í gildandi holræsareglugerð frá 1960.

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu holræsagjalds.  Kærandi telur álagningu holræsagjalds óheimila þar sem ekki séu fyrirliggjandi holræsi.  Kærði kveður holræsagerð vera í samræmi við skiplags- og byggingarskilmála fyrir hesthús á Varmárbökkum sem samþykkt hafi verið í byggingarnefnd 5. maí, 1981.  Þeir skilmálar gera ráð fyrir gerð aðalstofns fyrir jarðvatns- og regluvatnslagnir og nauðsynlegar lagnir í götur og stíga.  Þá gerir gjaldskrá ekki ráð fyrir mismunandi gjaldi miðað við mismunandi þjónustu.  Ekki verður því séð að innheimta holræsagjalda í máli þessu sé ólögmæt.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfur kæranda í máli þessu.

 Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 3/31/06