Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96/2007 Heiðaþing

Ár 2007, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2007, kæra á ákvörðunum byggingarnefndar  Kópavogs frá 4. apríl 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir húsunum að Heiðaþingi 2 og 4, Kópavogi

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. september 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. Ö og S, lóðarhafa Heiðaþings 6, Kópavogi, þær ákvarðanir byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007 að veita byggingarleyfi fyrir húsunum að Heiðaþingi 2 og 4, Kópavogi. Bæjarstjórn staðfesti hinar kærðu ákvarðanir á fundi sínum hinn 10 apríl 2007.

Gera kærendur þá kröfu að fyrrgreind byggingarleyfi verði felld úr gildi.  Jafnframt hefur verið gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en eftir atvikum þykir nú rétt að taka málið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar.

Málavextir:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing í Kópavogi.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 er fól í sér frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og að Gulaþingi 1 og 3.

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda kærenda.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni.

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.   Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kærenda í máli þessu.

Hinn 4. apríl 2007 voru umsóknir lóðarhafa að Heiðaþingi 2 og 4 teknar fyrir á fundi byggingarnefndar sem samþykkti byggingarleyfi fyrir Heiðaþing 2 og 4 með vísan til þess að erindin hefðu hlotið afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarráðs í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi gaf síðan út umrædd leyfi hinn 3. maí 2007.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að hin kærðu byggingarleyfi eigi ekki stoð í gildandi skipulagi umrædds svæðis en kærendur hafi efnislegar athugasemdir við greind byggingarleyfi. 

Kærendum hafi ekki verið kunnugt um útgefin byggingarleyfi eða efni þeirra fyrr en með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 6. september 2007.   Þeir hafi enga ástæðu haft til að ætla að byggingarfulltrúi myndi gefa út byggingarleyfi í andstöðu við gildandi deiliskipulag og hafi í raun mátt treysta að svo yrði ekki.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins en að öðrum kosti að umdeild byggingarleyfi standi óröskuð.

Kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu en þar að auki sé kæran of seint fram komin.  Kærendum hafi mátt vera ljóst að leyfi hafi verið gefið út þar sem framkvæmdir hafi byrjað í kjölfar útgáfu byggingarleyfis.  Samkvæmt byggingarsögu hafi úttektir farið fram á jarðvegsgrunni 4. júní 2007 og úttekt á sökklum þann 17. júlí sama ár.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Haldið er fram af hálfu byggingarleyfishafa að kæra kærenda hafi borist að liðnum kærufresti og komi kröfur þeirra því ekki til álita.    Þar að auki verði ekki séð að kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi umdeild leyfi þar sem heimilaðar byggingar raski í engu grenndarhagsmunum þeirra enda hafi ekki verið sýnt fram á það og málið sé vanreifað.  Því sé mótmælt að leyfin eigi ekki stoð í gildandi skipulagi.  Hvað sem líði skipulagsbreytingunni frá september 2006 eigi leyfin stoð í eldra skipulagi þar sem einungis hafi verið um að ræða breytingar á nýtingu kjallara umræddra húsa.

Niðurstaða:  Lóð kærenda liggur að lóðarmörkum Heiðaþings 4.  Ákvörðun um nýtingu húsanna að Heiðarþingi 2 og 4 eða nærliggjandi húsa getur snert lögvarða hagsmuni kærenda enda voru þeim grenndarkynntar fyrirhugaðar breytinga á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4.  Verður máli þessu því ekki vísað frá sökum aðildarskorts.  Þá liggur ekki fyrir í málinu að kærendum hafi verið kunnugt um efni umdeildra byggingarleyfa fyrir þann tíma er þeir sjálfir halda fram enda varð ekki ráðið framkvæmdum þeim sem hafnar voru hvort byggingarleyfin væru í samræmi við gildandi skipulag.  Má og fallast á með kærendum að þeir hafi mátt treysta því að svo væri.  Eins og atvikum er háttað verður því ekki talið að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti og verður frávísunarkröfu af þeim sökum einnig hafnað.

Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð fyrr í dag í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar er m.a. heimilaði breytta notkun kjallararýma húsanna að Heiðaþingi 2 og 4.  Var því kærumáli vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem meðferð skipulagsbreytingarinnar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var ekki talið lokið.

Í hinum umþrættu byggingarleyfum er heimilað að hafa íbúðarherbergi í kjallara umræddra húsa en gildandi skipulag heimilar slíkt ekki.  Liggur því fyrir að hin kærðu byggingarleyfi víkja frá gildandi deiliskipulagi sem fer í bága við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Verða hin kærðu byggingarleyfi því felld úr gildi.  

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007, um að veita byggingarleyfi fyrir húsum að Heiðaþingi 2 og 4, eru felldar úr gildi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                             __________________________
         Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson