Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2007 Fífuhvammur

Ár 2007, mánudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar  Kópavogs frá 22. ágúst 2007 um að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni 13. sama mánaðar, kærir Guðmundur Ágústsson hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar nr. 27 við Fífuhvamm í Kópavogi þá ákvörðun byggingarnefndar  Kópavogs frá 22. ágúst 2007 að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 11. september 2007.

Kærendur krefjast þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli Kópavogsbæjar og byggingarleyfishafa og er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsnefndar þann 3. apríl 2007 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa að Fífuhvammi 25 þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr austan við húsið að Fífuhvammi 25.  Í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 samþykkti skipulagsnefnd að senda málið í kynningu til lóðarhafa Fífuhvammi 23 og 27 og Víðihvammi 16, 18 og 20.  Kynningartíma lauk 15. maí 2007 og bárust athugasemdir frá lóðarhafa að Fífuhvammi 27.  Á fundi skipulagsnefndar þann 19. júní 2007 var erindið lagt fram að nýju ásamt umsögn bæjarskipulags.  Skipulagsnefnd ákvað á þeim fundi að fela skipulagsstjóra að ræða við aðila máls. 

Á fundi skipulagsnefndar þann 3. júlí var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt með nokkrum breytingum.

Þann 23. júlí barst erindi til skipulagsnefndar þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar en á fundi bæjarráðs þann 16. ágúst 2007 var ákvörðun skipulagsnefndar samþykkt.

Þessa málsmeðferð skipulagsnefndar kærðu kærendur til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. september 2007, sem barst nefndinni hinn 7. september og er það kærumál jafnframt til meðferðar hjá nefndinni.

Umsókn byggingarleyfishafa var tekin fyrir í byggingarnefnd Kópavogs hinn 22. ágúst 2007 og afgreidd með svofelldri bókun: „Samþykkt, þar sem teikningar eru í samræmi við byggingar- og skipulagslög nr. 73/1997, með síðari breytingum. Nefndin leggur til að bæjarstjórn samþykki afgreiðslu byggingarnefndar.“  Var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn  11. september 2007.

Skutu kærendur þessari ákvörðun byggignarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi sem móttekið var hinn 13. september 2007 svo sem að framan greinir.

Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að málsmeðferð hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.  Grenndaráhrif hinnar umdeildu byggingar séu óveruleg þagar tillit sé tekið til hávaxinna trjáa á lóðamörkum.  Engin efni séu því til þess að fallast á kröfur kærenda, þvert á móti beri að hafna þeim.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Mótmælir hann, sem röngum og órökstuddum, staðhæfingum kærenda um að framkvæmdir muni hafa í för með sér  mikla röskun á svæðinu. Þá mótmælir hann þeirri fullyrðingu kærenda að fyrirhuguð bygging sé veruleg breyting á þegar staðfestu skipulagi svæðisins. Á þessu svæði séu bílskúrar nánast við hvert hús, nema hús byggingarleyfishafa.  Þá muni magn bygginga á lóð hans ekki verða meira eftir byggingu greinds bílskúrs en á öðrum lóðum á svæðinu.

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin í úrskurði þessum en nefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar er ekki tekin með tilvísun til þeirrar grenndarkynningar sem skipulagsnefnd hafði staðið fyrir, en ætla verður að niðurstaða grenndarkynningarinnar hafi átt að verða grundvöllur ákvörðunar um byggingarleyfi.  Ekki er heldur neitt að því vikið í hinni kærðu ákvörðun hvernig staðið skuli að framkvæmdum með tilliti til þeirra trjáa sem eru á lóð kærenda, nærri mörkum hennar gagnvart lóð byggingarleyfishafa.  Kemur þó fram í endurskoðaðri umsögn bæjarskipulags um framkomnar athugasemdir að umrædd tré verði væntanlega til trafala við byggingu bílgeymslunnar.  Er rökstuðningi byggingarnefndar hvað þetta varðar stórlega áfátt og fer það í bága við ákvæði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Af málsgögnum verður einnig ráðið að skipulagsyfirvöld hafi talið að samkomulag væri komið á milli kærenda og byggingarleyfishafa um hinar umdeildu framkvæmdir, en þeirri staðhæfingu hefur verið mótmælt af hálfu kærenda og hefur ekkert undirritað samkomulag verið lagt fram í málinu.  Þá þykja áhöld um það hvort hið kærða byggingarleyfi rúmist innan heimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eins og það ákvæði hefur verið skýrt, en ekki mun vera í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið þykir svo veruleg óvissa ríkja um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar að fallast beri á kröfu kærenda um að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Ber bæjarstjórn að framfylgja úrskurði þessum, sbr. 6. mgr. 8. gr. l. nr. 73/1997.  Jafnframt er lagt fyrir bæjaryfirvöld að hlutast til um að öryggi á verkstað verði tryggt meðan stöðvun framkvæmda varir.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi við byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Jafnframt er lagt fyrir bæjaryfirvöld í Kópavogi að hlutast til um að öryggi á verkstað verði tryggt meðan stöðvun framkvæmda varir.

 

    
__________________________ 
                           Hjalti Steinþórsson                          

 

_____________________________         ____________________________              
      Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson