Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2007 Heiðaþing

Ár 2007, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2007, kæra á samþykkt skipulagsnefndar Kópavogs frá 5. september 2006, er bæjarráð Kópavogs staðfesti hinn 7. sama mánaðar, um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2-4, Kópavogi, er fól m.a. í sér breytta notkun kjallararýmis í íbúðarherbergi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. júní 2007, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, framsendi Skipulagsstofnun kæru, dags. 29. maí 2007, er móttekin var hinn 30. sama mánaðar, þar sem A og S, lóðarhafar Heiðaþings 6, Kópavogi, kæra samþykkt skipulagsnefndar Kópavogs frá 5. september 2006, er bæjarráð Kópavogs staðfesti hinn 7. sama mánaðar, um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2-4, Kópavogi, er fól m.a. í sér breytta notkun kjallararýmis í íbúðarherbergi.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing í Kópavogi.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 er fól í sér frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit. Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6-8 og Gulaþings 1 og 3.

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6-8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðarmörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðarmörkum vegna athugasemda kærenda.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2-4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni.

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2-4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.   Kærendur skutu nefndri ákvörðun til Skipulagsstofnunar með bréfi, dags. 29. maí 2007, og framsendi stofnunin erindið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 4. júní sama ár, eins og að framan greinir.

Vísa kærendur til þess að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda þeirra við hina kærðu ákvörðun varðandi stoðmúr á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og á það bent að breyting umræddra parhúsa úr einni í tvær hæðir geti ekki talist útfærsla á skipulagi og hefði grenndarkynning átt að vera víðtækari.  Kærendum hafi ekki verið gerð grein fyrir kærurétti sínum og sé kæran því svo seint fram komin sem raunin sé.

Kópavogsbær gerir kröfu um frávísun málsins en ella að kröfu kærenda verði hafnað.  Er á því byggt að kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar sem einungis lúti að innra fyrirkomulagi parhúsanna að Heiðaþingi 2-4.  Þá hafi kæra í máli þessu borist að liðnum kærufresti.

Niðurstaða:  Þegar um óverulega deiliskipulagsbreytingu er að ræða er heimilt samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að falla frá auglýsingu tillögunnar en hún skal þess í stað grenndarkynnt samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Var farið með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu samkvæmt nefndu ákvæði.  Þá skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun ákvörðun um óverulega deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt hefur verið ásamt yfirlýsingu um að sveitarstjórn taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Í 3. mgr. 26. gr. sömu laga er síðan kveðið á um að birta skuli auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda.

Fyrir liggur að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var ekki send Skipulagsstofnun til yfirferðar ásamt fyrrnefndri yfirlýsingu sveitarstjórnar og að auglýsing um gildistöku hennar hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt framansögðu er lögboðinni meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ekki lokið og hefur hún ekki tekið gildi.  Ber því að vísa kæru vegna hennar frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson