Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

92/2005 Gnitakór

Ár 2006, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2005, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs  frá 6. apríl 2005 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu tveggja hæða einbýlishúss á lóðinni að Gnitakór 9 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. H, eiganda fasteignarinnar að Kleifarkór 19, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 6. apríl 2005 að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða einbýlishúss að Gnitakór 9 í Kópavogi.  Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti þá ákvörðun hinn 12. apríl 2005. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Í ljósi þess að umdeild bygging var þegar risin er kæra barst og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til úrlausnar. þykja ekki efni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2003 tók gildi deiliskipulag fyrir nýbyggingarsvæði sem hin kærða bygging að Gnitakór 9 tilheyrir.  Umdeilt byggingarleyfi var veitt í apríl 2005 og var úttekt gerð á járnabindingu útveggja efri hæðar áður en uppsteypa hófst hinn 13. september 2005. 

Kærandi krefst ógildingar byggingarleyfisins með þeim rökum að það fari í bága við gildandi deiliskipulag með því að húsið að Gnitakór 9 sé hærra en heimiluð hámarkshæð og stöllun gólfplötu efri hæðar eigi ekki stoð í skipulaginu.  Húsið sé yfir 6 metra á hæð miðað við aðkomukóta að ofanverðu við götu en skilmálateikningar deiliskipulagsins heimili aðeins 4,8 metra hæð miðað við þann kóta.  Valdi þetta skerðingu á útsýni kæranda frá annarri hæð húss hans að Kleifarkór 19 sem verið sé að byggja.  Kærandi hafi ekki orðið áskynja um þennan ágalla fyrr en gólfplata á efri hæð húss hans hafi verið steypt um mánaðarmótin október – nóvember 2005 og hafi kæran því borist innan kærufrests.

Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hrundið.  Bent er á að úttekt vegna útveggja efri hæðar hússins að Gnitakór 9 hafi farið fram 13. september 2005 og hafi kæranda mátt vera ljóst frá þeim tíma hver hæð hússins væri.  Hafi kæran því borist að liðnum kærufresti og beri að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.  Þá er á það bent að skipulagsskilmálar heimili hæð húss allt að 7,5 metra frá aðkomukóta en húsið að Gnitakór 9 sé um 6 metra yfir þeim kóta.  Húsið standi lægra en hús kæranda og í nokkurri fjarlægð auk þess sem óbyggð séu hús ofan Gnitakórs milli húss kæranda og byggingarleyfishafa og verði ekki séð að umdeilt hús skerði útsýni frá fasteign kæranda umfram önnur hús á svæðinu.  Vafi leiki á um, í ljósi aðstæðna, að kærandi eigi einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Byggingarleyfishafi hefur mótmælt kröfu kæranda og tekur undir frávísunar- og efniskröfu Kópavogsbæjar í málinu.  Húsið að Gnitakór 9 hafi verið hannað og byggt í samræmi við skipulagsskilmála er byggingarleyfishafa voru látnir í té og hafi húsið verið reist samkvæmt samþykktu byggingarleyfi og veggir efri hæðar steyptir hinn 14. september 2005.  Gæti einhvers misræmis í skipulagsgögnum beri byggingarleyfishafi ekki ábyrgð á því og eigi hann ekki að verða fyrir óþægindum og tjóni af þeim sökum.

Málsaðilar hafa fært fram frekari rök og sjónarmið til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.  Þá hefur nefndin kynnt sér staðhætti á vettvangi.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að útveggir hússins að Gnitakór 9 voru uppsteyptir um miðjan september 2005 og húsið þá komið í fulla hæð og fengið endanlegt form þótt frágangi þaks hafi verið ólokið.  Gólfplata efri hæðar í húsi kæranda er í sömu hæð og aðkoma að húsinu frá götu og mátti kærandi því gera sér grein fyrir frá fyrrgreindum tíma hver áhrif húsið að Gnitakór 9 hefði á útsýni frá húsi kæranda að Kleifarkór 19.

Kæra í máli þessu er dagsett 16. nóvember 2005 og barst hún úrskurðarnefndinni hinn 17. sama mánaðar eða um tveimur mánuðum eftir að uppsteypu hússins að Gnitakór 9 var lokið.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kærð er og verður því að telja með hliðsjón af greindum málsatvikum að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti.

Með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni, enda liggja ekki fyrir atvik er réttlæta að taka málið til meðferðar skv. 1. eða 2. tl . greinds ákvæðis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________     
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon