Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2005 Brákarbraut

Ár 2006, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2005, kæra á afgreiðslu Borgarbyggðar á erindi kæranda um leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 11 við Brákarbraut í Borgarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. ágúst 2005, er barst nefndinni 24. sama mánaðar, kærir I, Brákarbraut 11 í Borgarnesi afgreiðslu Borgarbyggðar á erindi hans frá 15. júlí 2004 um að honum verði heimilað að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 11 við Brákarbraut í Borgarnesi.  Kemur fram í bréfi kæranda að þar sem hann hafi í upphafi ranglega sent málið til umboðsmanns Alþingis sé þess óskað að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála taki það til efnislegrar meðferðar.  Bréfinu fylgja tvö yfirlit um umkvörtunarefni kæranda, sem annars vegar lúta að afgreiðslu sveitarfélagsins Borgarbyggðar á erindi hans og hins vegar að vinnubrögðum Skipulagsstofnunar við afgreiðslu tillögu að deiliskipulagi fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi. 

Engin krafa er sett fram af hálfu kæranda önnur en sú að úrskurðarnefndin taki erindi hans til meðferðar svo sem að framan greinir. 

Erindi kæranda fylgir fjöldi fylgiskjala auk bréfs umboðsmanns Alþingis til hans, dags 18. júlí 2005, þar sem kæranda er gerð grein fyrir því að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu.  Er í bréfi umboðsmanns fjallað ítarlega um málskotsrétt til úrskurðarnefndarinnar og um úrskurðarvald hennar og er kæranda bent á að leita úrlausnar úrskurðarnefndarinnar í málinu.

Málsatvik:  Með bréfi til umhverfis- og skipulagnefndar Borgarbyggðar, dags. 15. júlí 2004, bar kærandi upp svofellt erindi:  „Undirritaður sækir hér með um leyfi til að byggja alltað 70 fermetra og 220 rúmmetra Bílgeymslu á lóð nr. 11 við Brákarbraut, Borgarnesi.  Meðfylgjandi er ljósrit af uppdrætti lóðar, þar kemur fram tillaga að staðsetningu fyrirhugaðrar byggingar.“  Bréfið bar yfirskriftina „Umsókn um byggingarleyfi“ og var það undirritað af kæranda.  Fylgdi því ljósrit af hnitasettu mæliblaði lóðar þar sem teiknaður hafði verið inn ómálsettur byggingarreitur merktur „Bílgeymsla“. 

Erindi þetta var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 27. júlí 2004 og eftirfarandi bókað:  „Spurt hvort heimilað yrði að byggja allt að 70m² og 220m³ bílgeymslu á lóðinni nr. 11 við Brákarbraut, samkv. meðf. frumhugmyndum.  Bókun umhverfis- og skipulagsnefndar:  Samþykkt að fresta afgreiðslu málsins.“

Var afgreiðsla þessi staðfest á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar hinn 29. júlí 2004.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2004, krafðist kærandi rökstuðnings fyrir ákvörðun umhverfis- og skipulagnefndar um frestun málsins og áréttaði að um umsókn væri að ræða en ekki fyrirspurn.  Með bréfi bæjarstjóra, dags. 24. ágúst 2004, var kæranda gerð grein fyrir því að nefndin hefði frestað málinu til að afla frekari gagna, enda hefði hún litið svo á að aðeins lægju fyrir frumhugmyndir varðandi umsóknina.  Til að hægt yrði að taka byggingarleyfisumsókn til greina þyrfti að liggja fyrir samþykkt skipulag og tilheyrandi byggingarnefndarteikningar.

Málið var að nýju tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagnefndar hinn 31. ágúst 2004 og eftirfarandi bókað:  „Samkvæmt 11. og 12. gr. byggingarreglugerðar er ekki hægt að líta á erindið sem byggingarleyfisumsókn þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir og hönnunargögn, sem fylgja eiga umsókn, vantar.  Nefndin bendir á að um þessar mundir er deiliskipulag svæðisins í auglýsingu þar sem umsækjandi getur komið athugasemdum á framfæri fyrir 16. september n.k.  Einnig telur nefndin rétt að leita álits Húsafriðunarnefndar í málinu.“  Var þessi niðurstaða umhverfis- og skipulagsnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar hinn 16. september 2004 og kynnt kæranda með bréfi, dags. 17. sama mánaðar.

Kærandi gerði athugasemdir við auglýsta deiliskipulagstillögu með bréfi, dags. 15. september 2005, þar sem hann fór m.a. fram á gert yrði ráð fyrir bílgeymslunni í skipulaginu.  Til þess kom ekki en bæjaryfirvöld leituðu allt að einu umsagnar Húsafriðunarnefndar um byggingu bílskúrs á lóð kæranda og barst umsögn hennar með bréfi, dags. 5. október 2004, þar sem ekki var lagst gegn erindinu en tekið fram að mikilvægt væri að vel tækist til með hönnun bílskúrsins ef af framkvæmdum yrði, þannig að hann félli að húsunum þarna megin Brákarbrautar.

Frekari bréfaskriftir áttu sér stað milli kæranda og bæjaryfirvalda á vordögum 2005.  Má af þeim ráða að kærandi hafi verið ósáttur við afstöðu bæjaryfirvalda til erindis hans og afgreiðslu deiliskipulags umrædds svæðis, en í bréfi bæjarstjóra Borgarbyggðar til kæranda, dags. 31. maí 2005, kveðst hann vilja ítreka þá afstöðu bæjaryfirvalda að þau séu reiðubúin til þess að vinna að því í samráði við lóðarhafa að setja byggingarreit fyrir bílskúr inn á deiliskipulagið.

Ekki virðist hafa komið til frekari viðræðna eða bréfaskrifta milli aðila um mál þetta eftir þetta en þegar hér var komið sögu hafði kærandi skotið ákvörðun Borgarbyggðar um deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 29. apríl 2005.  Sneri kærandi sér jafnframt til umboðsmanns Alþingis með kvörtunum er bárust umboðsmanni hinn 13. júlí 2005 en málunum lauk umboðsmaður með bréfi til hans, dags. 18. júlí 2005.  Barst úrskurðarnefndinni erindi kæranda röskum mánuði síðar, eða hinn 24. ágúst 2005, svo sem að framan greinir.

Málsrök aðila:  Af hálfu kæranda er kvartað yfir því að bæjaryfirvöld í Borgarbyggð hafi með margvíslegum hætti staðið rangt að afgreiðslu erindis hans um leyfi fyrir bílskúrsbyggingu.  Niðurstaða varðandi lyktir máls hafi verið óviðunandi, seinagangur hafi verið við afgreiðslu málsins, rökstuðningi ábótavant, leiðbeiningarskyldu ekki sinnt, rannsóknarregla sniðgengin, erindi ekki svarað með fullnægjandi hætti, misfarið með staðreyndir í rökstuðningi og svörum við fyrispurnum og að starfshættir og málsmeðferð hafi verið óviðunandi.  Þá telur kærandi að Skipulagsstofnun hafi ekki sinnt lögboðnu hlutverki sínu við yfirferð deiliskipulagstillögu fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi og hvorki gengið eftir að ábendingum stofnunarinnar væri svarað né að bæjaryfirvöld svöruðu óskum og athugasemdum kæranda.  Staðhæfingar þessar styður kærandi með tilvísunum í málsgögn.

Í málsgögnum koma fram sjónarmið bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að þau telji meðferð erindis kæranda hafa verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Ekki hefur verið leitað afstöðu Skipulagsstofnunar til umkvörtunarefna kæranda er að henni lúta af ástæðum er síðar greinir.

Niðurstaða:  Í máli þessu krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin taki til úrlausnar þá ákvörðun bæjaryfirvalda Borgarbyggðar að að líta ekki á erindi hans frá 15. júlí 2004 um bílskúrsbyggingu sem byggingarleyfisumsókn.  Verður ráðið af málsgögnum að kæranda hafi mátt vera þessi afstaða bæjaryfirvalda ljós eftir að honum barst bréf byggingarfulltrúa, dagsett 17. september 2004.  Kærandi gerði ekki reka að því að leita réttar síns í þessu tiltekna máli fyrr en undir miðjan júlí 2005 og þá með kvörtun til umboðsmanns Alþingis, en ekki með erindi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, þrátt fyrir að hann hefði þá nokku fyrr, eða í lok apríl 2005, kært til nefndarinnar ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar um deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Verður í raun að telja, með hliðsjón af fyrra erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar og vitneskju hans um hana, að kærufrestur hafi verið liðinn er hann gerði reka að málskoti sínu.

Þrátt fyrir þetta þykir rétt, með stoð í undantekningarreglu 1. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með hliðsjón af því að hin umdeilda ákvörðun snertir ekki hagsmuni þriðja aðila, svo og með tilliti til framangreinds bréfs umboðsmanns Alþingis til kæranda, að taka til umfjöllunar kæru hans að því er varðar afgreiðslu bæjaryfirvalda á erindi hans um leyfi fyrir bílskúrsbyggingu.

Í 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga segir að byggingarleyfisumsókn skuli fylgja nauðsynleg hönnunargögn og skilríki sem nánar sé kveðið á um í byggingarreglugerð.  Í 46. gr. laganna og 12. gr., sbr. 18. gr., byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eru ákvæði um fylgigögn byggingarleyfisumsóknar og um þær kröfur sem gerðar eru til uppdrátta og annarra hönnunargagna.

Fyrir liggur að umrætt erindi kæranda fullnægði ekki lögboðnum skilyrðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar um fylgigögn byggingarleyfisumsókna og var ekki úr því bætt þrátt fyrir að kæranda væri bent á að uppdrættir þyrftu að fylgja byggingarleyfisumsókn, svo sem sjá má af bréfi bæjarstjóra, dags. 24. ágúst 2004. 
Bókun umhverfis- og skipulagnefndar frá 31. ágúst 2004 ber þess og vitni að réttilega hafi verið litið á erindi kæranda sem fyrirspurn, en altítt er að leitað sé afstöðu byggingaryfirvalda til framkvæmdaáforma áður en ráðist er í gerð kostanaðarsamra fullnaðaruppdrátta, sbr. gr. 12.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Verður að skýra ákvæði 3. og 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga svo að byggingarleyfisumsókn verði að uppfylla lágmarkskröfur um aðaluppdrátt og framkvæmdaáform til þess að umsókn verði tekin til efnislegrar meðferðar.

Sú afstaða sem umhverfis- og skipulagnefnd tók til erindis kæranda fól ekki í sér ákvörðun sem batt endi á meðferð máls, enda liggur fyrir viljayfirlýsing bæjaryfirvalda um að setja fyrirhugaðan bílskúr inn í skipulag í samráði við kæranda.  Hafa bæjaryfirvöld þannig lýst jákvæðri afstöðu til málsins og sama máli gegnir um Húsafriðunarnefnd.  Verður ekki annað séð en að kærandi eigi þess kost að sækja með formlegum hætti um byggingarleyfi fyrir bílskúrnum en fráleitt er að líta svo að fyrir liggi synjun bæjaryfirvalda í málinu.

Úrskurðarnefndin er kærustjórnvald á æðra stjórnsýslustigi.  Hefur nefndin, í ljósi þess, túlkað valdheimildir sínar til samræmis við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga á þann veg að ákvörðunum sem ekki bindi endi á meðferð máls á lægra stjórnsýslustigi verði ekki skotið til nefndarinar.  Verður þeim þætti málsins er varðar afstöðu byggingaryfirvalda til erindis kæranda frá 15. júlí 2004 því vísað frá nefndinni.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 24. janúar 2006 lauk úrskurðarnefndin máli kæranda um deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Er í þeim úrskurði fjallað um meðferð bæjaryfirvalda og Skipulagsstofnunar á skipulagstillögunni sem orðið hafa kæranda að umkvörtunarefni.  Voru þær ákvarðanir sem hann kvartar yfir varðandi skipulagið hluti af afgreiðsluferli þess og hefur úrskurðarnefndin þegar tekið afstöðu til þess að hvaða marki þeim hafi verið áfátt og til hvað niðurstöðu annmarkar á meðferð skipulagstillögunnar leiddu.  Verður ekki fjallað um þau álitaefni að nýju í úrskurði þessum og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni í heild sinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og af öðrum óviðráðanlegum orsökum.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Ásgeir Magnússon