Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2011 Laugavegur

Árið 2013, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2011, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2011 á umsókn um leyfi til að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 í Reykjavík með póleruðu graníti. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. mars 2011, er barst nefndinni 1. apríl s.á., kærir M, f.h. Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr, Háskóla Íslands, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2011 á umsókn um leyfi til að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 með póleruðu graníti.  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 8. mars 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 með póleruðu graníti. Umsókninni var synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra frá 3. mars 2011, sem og athugasemda byggingarfulltrúa.  Afgreiðsla byggingarfulltrúa var síðan staðfest í borgarráði hinn 10. mars 2011. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að húsið að Laugarvegi 15, a.m.k. götuhlið þess, sé byggt í tveimur áföngum á árunum 1920 til 1936.  Í fyrri áfanga húsbyggingarinnar sé austari hluti hennar, með mjög breiðum glugga á jarðhæð, þar sem nú sé til húsa úraverslun.  Biti yfir glugganum sé steinsteyptur en ekki sé vitað um innri gerð hans en telja megi víst að í honum séu innsteyptir stálbitar.  Bitinn virðist ekki siginn en í honum séu láréttar sprungur sem virðist á sífelldri hreyfingu og valdi miklum leka.  Einnig séu miklar sprungur á hreyfingu í steyptum veggbút austan við gluggann.  Ítrekað hafi verið reynt að þétta þessar sprungur en það hafi ekki tekist til langframa.  Þá hafi einnig verið reynt fyrir nokkrum árum að gera við sprungur og endursteina en það hafi enst stutt.  Lekinn valdi verulegum vandkvæðum og umtalsverðu tjóni.  Í ljósi fenginnar reynslu sé ljóst að viðgerð sú sem byggingaryfirvöld bendi á muni ekki duga nema í besta falli í skamman tíma. 

Það sé því mat kæranda og tækniráðgjafa hans að eina varanlega lausnin sé að klæða umrætt svæði með sjálfstæðri klæðningu, sem ekki sé háð hreyfingum burðarvirkisins, og lofti á bakvið.  Með vísan til skipulagsskilmála sem vitnað sé til í greinargerð skipulagsstjóra sé hugsanlega um sérstakar aðstæður að ræða. 

Sé varðveisla eldri húsa talin mikilvæg í ljósi þess að þau séu fulltrúar eldri húsagerða, ein sér eða í aldursröð byggðar, þyki kæranda eðlilegt að það byggi á einhvers konar friðun eða reglum fremur en skoðunum einstakra embættismanna.  Varðandi fagurfræðilegt mat um hvað hæfi húsinu vilji kærandi benda á að núverandi steining jarðhæðarinnar sé ekki upprunaleg og verulega ólík þeirri steiningu sem sé á efri hæð hússins, en eftir því sem best sé vitað hafi upphafleg steining á jarðhæð verið sú sama og á efri hæðum.  Tekist hafi að fá granít með kornamynstri og litasamsetningu, sem líkist mjög þeirri steiningu sem sé á efri hæðunum, og hafi verið fallist á að verja auknum fjármunum til verksins til að ná fram því samræmi. 

Þá megi benda á að endurbætur húsa geti verið með ýmsum hætti og ekki sjálfgefið að breytt tækni í útfærslu einstakra atriða skaði sögulegt eða menningarlegt gildi þeirra.  Það sé mat kæranda að sú steinklæðning sem hér um ræði bæti verulega samræmi í útliti hússins og sé nær upphaflegu útliti en núverandi steining.  Auk þess að duga ekki sem tæknileg lausn megi telja óraunhæft og líklega útilokað að fá sama lit og kornasamsetningu steiningarefnis eins og það sé á efri hæðum hússins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda. 

Í umsögn skipulagsstjóra er liggi fyrir í málinu komi fram að í gildi sé deiliskipulag reits 1.171.1.  Á lóðinni Laugavegi 15 sé gefinn kostur á byggingarreit fyrir tveggja hæða viðbyggingu á norðaustur horni lóðar.  Húsið sem snúi að götu sé óbreytt.  Í skilmálum sé tekið fram að vanda skuli mjög til hönnunar viðbygginga og breytinga á miðborgarsvæðinu.  Skuli þær endurspegla nánasta umhverfi sitt og vernda og styrkja heildarmynd svæðisins.  Við hönnunina skuli tekið mið af sérkennum svæðisins.  Meðal þess sem hafa skuli til hliðsjónar sé að stærðarhlutföll, hönnun og efni skuli að jafnaði vera í samræmi við stíl og aldur upphaflegrar byggingar nema sérstakar ástæður og aðstæður leiði til annars. 

Fyrir liggi bókun frá fundi Húsafriðunarnefndar ríkisins 16. desember 2010 vegna hugmynda um að klæða jarðhæð hússins að Laugavegi 15 með steinflísum.  Þar segi m.a. að þó að ekki hafi verið gerð sérstök tillaga að verndun umrædds húss sé það mikilvægur hlekkur í keðju húsa við Laugaveg, sem spanni nær alla byggingarsöguna á Íslandi.  Það sé því mikilvægt að við allt viðhald húsa við Laugaveg verði þessi sögulega skírskotun virt og að við allar framkvæmdir verði unnið í samræmi við aldur og gerð viðkomandi húss.  Húsafriðunarnefnd mæli því eindregið gegn því að jarðhæð hússins að Laugavegi 15 verði klædd með steinflísum. 

Í minnispunktum frá byggingarfulltrúa Reykjavíkur sé tekið fram að það hæfi þessu húsi alls ekki að klæða það allt eða að hluta með plötum.  Því beri að leggja alla áherslu á að það sé endursteinað eftir að viðgerðum hafi lokið og það haldi þannig sínum upphaflega karakter.  Endursteining sé ekki flókið mál með nútímatækni. 

Í samræmi við umsagnir húsafriðunarnefndar og byggingarfulltrúa, sem og ákvæði um hönnun breytinga í skilmálum deiliskipulagsins sem byggi á þróunaráætlun Reykjavíkur, sé lagt til að tekið verði neikvætt í erindið og mælst til þess að hæðin sem óskað sé eftir að klæða verði í staðinn endursteinuð. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 26. júlí 2013. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um réttmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að synja umsókn kæranda um að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 með póleruðu graníti.

Í 3. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun segir að húsafriðunarnefnd stuðli að varðveislu byggingararfs þjóðarinnar og meti hvaða hús sé rétt að friða hverju sinni og geri um það tillögur til ráðherra.  Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. framangreindra laga er eigendum húsa sem reist eru fyrir 1918 skylt að leita álits hjá húsafriðunarnefnd með góðum fyrirvara ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa.  Samkvæmt 9. gr. laganna er óheimilt að gera nokkrar breytingar á friðaðri húseign án leyfis húsafriðunarnefndar og ef nefndin setji það skilyrði fyrir samþykki sínu að verk sé framkvæmt á tiltekinn annan hátt en tilgreint er í umsókn er eiganda skylt að hlíta því en eigandi skal fá greiddan aukakostnað sem leiði af fyrirmælum nefndarinnar.  Húseign sú sem hér er deilt um hefur ekki verið friðuð á grundvelli laga um húsafriðun með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. 

Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 gr. 4.22.1 er tekið fram að um hverfisverndarsvæði gildi sérstök ákvæði í skipulagsáætlunum, sem sveitarstjórnir hafi sett, er kveði á um verndun sérkenna eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja án þess að um lögformlega friðun sé að ræða. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.1 og er þar tekið fram að stefnt sé að því að efla reitinn í borgarmyndinni, bæði starfrænt og formrænt.  Segir í skipulaginu að í því felist m.a. að gefa megi kost á auknu byggingarmagni og styrkja götumyndir við Hverfisgötu, Klapparstíg, Laugaveg og Smiðjustíg.  Heimilt sé að gera minni háttar breytingar á húsum á reitnum, s.s. gera skyggni, svalir, minni kvisti og lagfæringar, án þess að breyta þurfi deiliskipulaginu.  Slíkar minni háttar breytingar skuli vera í samræmi við ákvæði Þróunaráætlunar Reykjavíkur varðandi hönnun breytinga og viðbygginga á miðborgarsvæði Reykjavíkur.  Í Þróunaráætluninni segir að við meðferð byggingaleyfisumsókna á miðborgarsvæði verði lagt til grundvallar m.a. að efnisnotkun sé að jafnaði í samræmi við stíl og aldur upphaflegrar byggingar, nema sérstakar ástæður eða aðstæður leiði til annars. 

Kærandi hefur skírskotað til þess að ástæða umsóknar hans um leyfi fyrir því að klæða ytra byrði fyrstu hæðar umrædds húss með póleruðu graníti hafi verið sú að endursteining með sama hætti og fyrir sé hafi verið reynd en ekki dugað til að koma í veg fyrir leka og varna þannig tjóni á eign kæranda.  Við undirbúning og afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar var ekki vikið að þessari athugasemd kæranda.  Þá kom ekki fram við skoðun á vettvangi að umsótt klæðning breytti að marki götumynd þeirri sem fyrir er við umræddan hluta Laugavegar, en hús og ytra byrði þeirra er með ýmsu móti á svæðinu.  Meðal annars er hús það sem stendur neðan Laugavegar 15 klætt að utan með steinflísum.  Af þessum sökum verður að telja rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun ábótavant.  Með hliðsjón af fyrrgreindum ástæðum kæranda var sérstök þörf á því að taka fram með skýrum og ótvíræðum hætti hvaða almannahagsmunir stæðu því í vegi að samþykkja umsókn hans í ljósi þess sveigjanleika sem felst í orðalagi deiliskipulags svæðisins sem fyrr er að vikið. 

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á kröfu kæranda um ógildingu umdeildrar ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2011 á umsókn um leyfi til að klæða götuhæð hússins að Laugavegi 15 í Reykjavík með póleruðu graníti. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson