Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

107/2005 Brákarbraut

Ár 2006, þriðjudaginn 24. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2005, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 30. mars 2005 um að veita sveitarfélaginu leyfi til að reisa tengibyggingu á lóðunum nr. 13 og 15 við Brákarbraut í Borgarbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 22. desember 2005 kærir Pétur Kristinsson hdl., f.h. I, Brákarbraut 11, Borgarbyggð, ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 30. mars 2005 um að veita Borgarbyggð leyfi til að reisa tengibyggingu á lóðunum nr. 13 og 15 við Brákarbraut í Borgarbyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. apríl 2005, en leyfi byggingarfulltrúa til framkvæmda samkvæmt hinni kærðu samþykkt var gefið út hinn 20. desember 2005.

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt gerði hann þá kröfu að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við bygginguna þar til efnisniðurstaða lægi fyrir í málinu og var fallist á þá kröfu með úrskurði til bráðabirgða hinn 5. janúar 2006.

Málsatvik og rök:  Hinn 4. ágúst 2004 var auglýst tillaga að deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Lá tillagan frammi til kynningar á bæjarskrifstofum Borgarbyggðar til 2. september 2004, en frestur til athugasemda var til 16. sama mánaðar.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kæranda, en á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 5. október 2004 var gerð svofelld bókun:

„Erindi frá bæjarráði þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um framkomnar athugasemdir við deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Nefndin telur að þrátt fyrir innsendar athugasemdir sé ekki þörf á breytingum á deiliskipulaginu.“

Skipulagstillagan mun síðan hafa verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 14. október 2004 en síðar, eða hinnn 11. nóvember 2004, samþykkti bæjarstjórn þó svör við framkomnum  athugasemdum þar sem fallist var á minni háttar breytingar í tilefni af þeim.

Með bréfi bæjarverkfræðings Borgarbyggðar, dags. 30. nóvember 2004, var skipulagið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.  Gerði stofnunin, með bréfi, dags. 20. desember 2004, verulegar athugasemdir við skipulagið, bæði um form og efni.  Voru þessar athugasemdir teknar til athugunar og breytingar gerðar bæði á uppdrætti skipulagsins og greinargerð að því er helst verður ráðið af málsgögnum, en ekki verður séð að sveitarstjórn hafi fjallað um þessar breytingar.  Var skipulagið, svo breytt, sent að nýju til Skipulagsstofnunar til yfirferðar með bréfi, dags. 2. mars 2005.

Með bréfi, dags. 10. mars 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirra afstöðu sinni að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, en benti þó á að gera þyrfti smávægilegar lagfæringar á skipulagsgögnunum.  Auglýsing um gildistöku skipulagsins var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Skaut kærandi ákvörðun sveitarstjórnar um framangreint skipulag til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. apríl 2005.  Gerði kærandi þar þær kröfur að skipulagið yrði auglýst til kynningar að nýju með áorðnum breytingum, en til vara að ítarleg grenndarkynning færi ella fram á tengi- og viðbyggingu við húsin nr. 13 og 15 við Brákarbraut.

Eins og að framan er rakið skaut kærandi einnig til úrskurðarnefndarinnar, með bréfi, dags. 22. desember 2005, ákvörðun bæjaryfirvalda um að heimila byggingu umdeildrar tengibyggingar, en framkvæmdir við bygginguna voru þá að hefjast.  Krafðist kærandi þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar og var fallist á þá kröfu með úrskurði til bráðabirgða hinn 5. janúar 2006.

Af hálfu kæranda er á því byggt að fyrir liggi krafa um ógildingu deliskipulags umrædds svæðis og af sjálfu sér leiði að byggingarleyfi sem eigi stoð í skipulaginu sæti ógildingu komi til þess að skipulagið verði fellt úr gildi.  Um málsrök sé því vísað til fyrirliggjandi kæru er lúti að gildi skipulagsins.

Af hálfu Borgarbyggðar er kröfum kæranda mótmælt og því haldið fram að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og gerð hinna umdeildu ákvarðana um skipulag og byggingarleyfi.  Skipulagið hafi verið auglýst lögum samkvæmt og hlotið lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar, sem ekki hafi lagst gegn auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda eftir að lagfæringar hafi verið gerðar á því í tilefni af athugasemdum stofnunarinnar.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verði rakin frekar í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við ákvörðun sína í þessum þætti málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15 í Borgarnesi.  Leyfið var veitt með stoð í deiliskipulagi sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag hefur úrskurðarnefndin fellt umrætt skipulag úr gildi að því er tekur til nefndrar tengi- og viðbyggingar.  Leiðir af þeirri niðurstöðu að ekki er í gildandi skipulagi heimild fyrir byggingunni og verður byggingarleyfi fyrir henni því fellt úr gildi.

 
Úrskurðarorð:

Fellt er úr gildi byggingarleyfi fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15 í Borgarbyggð, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 14. apríl 2005.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson     

 

 
_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir