Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 30. desember 2022, sjá hér .
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.
Fyrir var tekið mál nr. 59/2016, kæra á ákvörðun Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2016, er barst nefndinni 1. júní s.á., kærir Móabyggð ehf., Skeifunni 17, Reykjavík, þá ákvörðun Snæfellsbæjar frá 5. mars 2016 að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna fasteignarinnar Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Snæfellsbæ 13. júní 2016.
Málavextir: Fasteignin Kólumbusarbryggja 1 í Snæfellsbæ er 8.128 m² límtrésgrindarhús á steyptum undirstöðum og stendur á 62.000 m² lóð. Kærandi keypti eignina af þrotabúi fyrri eiganda á seinni hluta ársins 2015 og var ætlun hans að rífa húsið. Skilyrði af hálfu Snæfellsbæjar fyrir veitingu leyfis til niðurrifs eru m.a. þau að álögð fasteignagjöld fyrir árið 2015 verði greidd, m.a. kr. 689.700 í fráveitugjald. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2016, fór kærandi fram á það við sveitarfélagið að gjöld þessi yrðu felld niður þar sem hvorki væri búið að leggja lagnir né tengja þær og engin starfsemi færi fram í húsinu. Með bréfi, dags. 5. mars s.á., hafnaði Snæfellsbær framangreindri kröfu kæranda þar sem lagnir væru í steyptum plönum við húsið, vatn væri tengt að húsvegg og frárennslislagnir væru komnar inn fyrir vegg þess. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun eins og að fyrr greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi kveður fasteignina Kólumbusarbryggju 1 vera skráða á byggingarstigi 3 í fasteignaskrá Þjóðskrár. Sé ýmsum frágangi við þak og veggi ólokið og hafi gólfplata ekki verið steypt. Fasteignin hafi ekki verið tekin í notkun, enda bíði hún niðurrifs. Ekki hafi verið komið á tengingum, hvorki við vatnsveitu né fráveitu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið skorti lagastoð fyrir álagningu fráveitugjalds, sem sé þjónustugjald, því þrátt fyrir að búið sé að leggja lagnir að húsi þurfi að vera komin á tenging við vatns- og fráveitukerfi sveitarfélagsins. Það sé ekki í þessu tilviki og því sé engin þjónusta innt af hendi sem koma þurfi endurgjald fyrir.
Málsrök Snæfellsbæjar: Af hálfu Snæfellsbæjar er bent á að sveitarfélagið hafi á sínum tíma fengið beiðni um að vatn yrði tengt við vinnuaðstöðu sem reist hafi verið vegna byggingar Kólumbusarbryggju 1 og hafi verið orðið við því.
Lagnir séu í steyptum plönum við húsið, vatn sé tengt að húsvegg og frárennslislagnir séu komnar inn fyrir vegg. Lagnir séu þannig komnar bæði fyrir utan og innan hús og sé sveitarfélaginu þannig fullkomlega heimilt að leggja á fráveitugjöld. Ljóst sé að vatni frá plönum sé safnað saman í þar til gerð ræsi og þurfi vatnið leið til að komast af svæðinu. Jafnframt hafi sveitarfélagið sett niður rotþró til að taka við frárennsli frá vinnubúðum og hafi sú framkvæmd verið kostuð af sveitarfélaginu.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á niðurfellingu fráveitugjalda fyrir fasteignina Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ, vegna ársins 2015.
Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 22. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Samkvæmt 22. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal.
Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Bréf frá Snæfellsbæ til kæranda, þar sem tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun, er dags. 5. mars 2016. Ber kærandi það fyrir sig að bréfið hafi aldrei borist honum heldur hafi honum orðið kunnugt um ákvörðunina með bréfi, dags. 2. maí s.á., frá yfirfasteignamatsnefnd vegna máls sem kærandi reki fyrir henni. Hafi umrætt bréf frá Snæfellssbæ til kæranda verið á meðal gagna þess máls. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til að véfengja staðhæfingu kæranda í þessu efni og verður því að miða við að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun 2. maí 2016. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 1. júní s.á. og telst því vera fram komin innan lögbundins kærufrests.
Uppbygging og rekstur fráveitu telst til grunnþjónustu í sveitarfélagi og mikilvægt er að festa ríki um þá þjónustu, eins og ákvæði laga nr. 9/2009 bera vott um. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu og í 2. mgr. kemur fram að í þéttbýli skuli sveitarfélag koma á fót og starfrækja sameiginlega fráveitu og hefur það einkarétt á þeirri starfsemi samkvæmt 9. mgr. 4. gr. nefndra laga. Jafnframt fer sveitarstjórn með rekstur og stjórn fráveitu á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi verið sérstaklega ákveðið, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Kveðið er á um fráveitugjald í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, en þar segir, eins og ákvæðið var orðað, að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.
Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu fráveitugjalda fyrir árið 2015 á því að húsið sé á því byggingarstigi að engar fráveitulagnir séu fyrir hendi og því hafi skilyrði laga fyrir álagningunni aldrei verið uppfyllt. Samkvæmt gögnum frá Snæfellsbæ eru frárennslislagnir á plönum fyrir utan húsið og einnig komnar inn fyrir húsvegg. Hefur sveitarfélagið því uppfyllt lagalega skyldu sína til að gera kæranda kleift að tengjast fráveitukerfi þess, en skv. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 9/2009 er eigendum húseigna þar sem fráveita liggur skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Í samræmi við áður tilvitnaða 1. mgr. 14. gr. nefndra laga var álagningin því lögmæt og var sveitarfélaginu heimilt að hafna því að fella hin álögðu gjöld niður.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ.