Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2017 Tryggvagata Selfossi

Árið 2017, mánudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2017, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis þar sem krafist er að sveitarfélagið Árborg láti fjarlægja gáma af lóðinni Tryggvagötu 6 á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júní 2017, er barst nefndinni 9. s.m., framsendi Neytendastofa kæru A, Tryggvagötu 4a, Selfossi, sem varðar drátt á afgreiðslu erindis kæranda, þar sem krafist er að sveitarfélagið Árborg láti fjarlægja gáma af lóðinni Tryggvagötu 6 á Selfossi.

Umsögn sveitarfélagsins Árborgar vegna málsins barst úrskurðarnefndinni 27. júní 2017.

Málsatvik og rök: Snemma árs 2014 keypti kærandi fasteign við Tryggvagötu á Selfossi. Síðar sama ár hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar og óskaði eftir upplýsingum um stöðuleyfi vegna tveggja gáma á næstu lóð, Tryggvagötu 6, sem er íbúðarlóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í janúar 2015 fékk kærandi þær upplýsingar frá sveitarfélaginu að stöðuleyfi hefði verið gefið út fyrir staðsetningu gámanna í janúar s.á. og að sú ákvörðun væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi er barst nefndinni 23. janúar 2015. Var á það bent að gámarnir væru staðsettir á lóðinni Tryggvagötu 6, þremur metrum frá lóðarmörkum kæranda og í beinni sjónlínu frá gluggum fasteignar hans. Staðsetning þeirra væri óviðunandi og hefðu þeir mikla sjónmengun í för með sér. Því kærumáli var vísað frá úrskurðarnefndinni hinn 25. október 2016, þar sem hið kærða stöðuleyfi var þá fallið úr gildi og hafði því ekki lengur réttarverkan að lögum.

Kærandi kveðst hafa sent byggingaryfirvöldum Árborgar tölvupóst hinn 2. nóvember 2016 með kröfu um að umræddir gámar yrðu fjarlægðir, en því erindi hafi í engu verið svarað.

Sveitarfélagið tekur fram að ekki hafi verið tekin önnur ákvörðun í málinu síðan 7. janúar 2015, þegar stöðuleyfi fyrir umdeildum gámum hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar, sem tilkynnt hafi verið leyfishafa hinn 12. s.m. Leyfið hafi verið veitt til tólf mánaða, sbr. ákvæði gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Liggi því ekki fyrir stjórnvaldsákvörðun í málinu sem borin verði undir úrskurðarnefndina. Hið veitta stöðuleyfi sé runnið út og hafi ekki verið endurnýjað. Leyfishafa hafi verið tilkynnt um að fyrirhugað sé að taka ákvörðun um hvort gerð verði krafa um að gámarnir verði fjarlægðir af lóðinni í samræmi við gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð, þar sem ekki sé í gildi stöðuleyfi fyrir þá.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Ákvörðun um hvort þvingunarúrræðum samkvæmt 55. og 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 skuli beitt verður eftir atvikum borin undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr. laganna. Ástæða málskots kæranda er sú að erindi hans frá 2. nóvember 2016 til bæjaryfirvalda Árborgar, vegna stöðu gáma á næstu lóð við fasteign hans, hafi í engu verið sinnt. Er kæranda rétt eins og atvikum er háttað að bera drátt á afgreiðslu erindisins undir úrskurðarnefndina samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum stjórnsýslulaga.

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, svo sem greinir í málavaxtalýsingu. Samkvæmt upplýsingum kæranda voru tæpir sjö mánuðir liðnir frá erindi hans þegar hann kærði drátt á afgreiðslu þess. Hefur því ekki verið andmælt af sveitarfélaginu. Umsókn um stöðuleyfi vegna nefndra gáma var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 2. ágúst 2017 og þar samþykkt að grenndarkynna erindið, m.a. fyrir kæranda. Stendur grenndarkynning enn yfir samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin hefur hins vegar ekki verið upplýst um lyktir þess erindis kæranda sem hér um ræðir. Verður því við það að miða að svör við kröfu kæranda, þess efnis að fjarlægðir verði áðurnefndir gámar, hafi ekki borist honum. Þrátt fyrir að umsókn um stöðuleyfi fyrir gámana liggi nú fyrir sveitarfélaginu verður ekki séð að efni hafi verið til að slá á frest ákvörðun um erindi kæranda og tilkynna honum þar um.

Eins og atvikum er háttað verður því að telja drátt á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegan. Verður því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka erindið til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Úrskurðarorð:

Óhæfilegur dráttur hefur orðið á afgreiðslu erindis kæranda frá 2. nóvember 2016 og er lagt fyrir byggingarfulltrúa Árborgar að taka það til efnislegrar afgreiðslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (Sign.)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (Sign.)                               Ásgeir Magnússon (Sign.)