Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2017 Ásar Húnavatnshreppi

Árið 2017, mánudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2017, kæra á ákvörðun Húnavatnshrepps frá 8. maí 2017 um álagningu á sorphirðugjöldum fyrir árið 2017 vegna fasteignar á jörðinni Ásum með fastanúmer 213-7356 og landnúmer 145277.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2017, er barst nefndinni 31. s.m., kærir A, Brekkubyggð 12, Blönduósi, þá ákvörðun Húnavatnshrepps frá 8. maí 2017 að leggja sorphirðugjöld sumarhúsa á fasteign hennar á jörðinni Ásum með fastanúmer 213-7356 og landnúmer 145277. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Húnavatnshreppi 12. júní og 16. ágúst 2017.

Málavextir:
Álagningarseðlar fasteignagjalda í sveitarfélaginu Húnavatnshreppi fyrir árið 2017 eru dagsettir 8. maí 2017. Var kæranda með slíkum seðli gert að greiða kr. 10.200 í sorpgjald vegna fasteignar sinnar Ása í Húnavatnshreppi, sem ber fastanúmerið 213-7356. Er það ársgjald samkvæmt gjaldskrá vegna sumarhúsa, íbúða og íbúðarhúsa þar sem ekki er sorpílát. Með tölvupósti til skrifstofu sveitarfélagsins, dags. 17. maí 2017, mótmælti kærandi gjaldinu og fór fram á að það yrði fellt niður. Með tölvupósti 22. júlí s.á. var þeirri kröfu hafnað af hálfu sveitarfélagsins, m.a. vegna þess að litið væri svo á að húsið væri notað sem sumarhús þar sem ljósleiðari hefði verið lagður í það á síðasta ári.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður enga búsetu hafa verið á Ásum frá 1984 og sé um eyðibýli að ræða. Íbúðarhúsið sé ekki íbúðarhæft, hvorki rennandi vatn né upphitun, húsið sé skemmt og fengist ekki samþykkt sem vistarvera við úttekt. Sorphirðugjöld hafi ekki verið lögð á fasteignina svo lengi sem hún hafi verið í eigu kæranda, þar til nú. Sá búskapur sem stundaður sé á jörðinni sé með öllu sjálfbær og falli ekki til sorp af þeim sökum.

Við hreinsun á landinu hafi kærandi leigt gáma eða keyrt á Blönduós með sorpið og greitt þar fyrir förgun ef sorpið hafi verið þess eðlis. Þeir gámar sem Húnavatnshreppur staðsetji séu mjög úr leið fyrir kæranda og hafi hann af þeim sökum ekki notfært sér þá.

Málsrök Húnavatnshrepps: Sveitarfélagið byggir á því að gjaldtakan sé lögmæt og óháð notkun þeirra fasteigna sem séu á jörðinni Ásum. Samkvæmt fyrirmælum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs séu það sveitarstjórnir sem fari með ákvörðunarvald um fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Þá sé þeim, skv. 23. gr. sömu laga, heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Í samræmi við þá heimild hafi sveitarstjórn samþykkt gjaldskrá fyrir sorphirðu- og sorpeyðingargjöld í Húnavatnshreppi nr. 35/2017, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 23. janúar 2017.

Sveitarfélagið geri athugasemdir við fullyrðingar kæranda um að umrædd fasteign sé eyðibýli og að þar sé engin búseta. Jörðin hafi verið í notkun sem skógræktarjörð. Hús þau sem standi á jörðinni hafi ekki verið metin óíbúðarhæf og rafmagn hafi verið tengt í einhver húsanna fyrir fáeinum árum síðan. Þá sé óumdeilt að nýlega hafi verið óskað eftir ljósleiðaratengingu og lagt hafi verið fyrir ljósleiðara. Af framangreindu dragi sveitarfélagið þá ályktun að fullyrðingar um að jörðin sé lítið sem ekkert nýtt séu rangar.

Mismunur á álögðum sorpgjöldum og kostnaði sveitarfélagsins af málaflokknum hafi verið eftirfarandi á síðustu árum:

                                                   2016                  2015                2014
Álögð gjöld                          6.159.794    11.374.048           7.780.275
Kostnaður v. sorphr.        17.344.845    19.384.898        12.962.471   
Tap                                     -11.185.051    -8.010.850          -5.182.196    

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Setur sveitarstjórn samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 8. gr., sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Húnavatnshreppur hefur sett sér slíka samþykkt og er hún nr. 56/2008.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en sem nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr.

Húnavatnshreppur setti, með vísan til 25. gr. laga nr. 7/1998, gjaldskrá fyrir sorphirðu- og sorpeyðingargjöld í Húnavatnshreppi, nr. 35/2017, sem birt var 23. janúar 2017. Samkvæmt 1. gr. gjaldskrárinnar er bæjarstjórn sveitarfélagsins heimilt að leggja á árlegt sorphirðu- og sorpeyðingargjald, sem innheimta skal með fasteignagjöldum. Samkvæmt 3. gr. er sorpgjald kr. 10.200 fyrir sumarhús, íbúð og íbúðarhús þar sem ekki er sorpílát og kemur fram að þeir notendur geti losað sig við sorp á gámasvæðum sveitarfélagsins. Með álagningarseðli var kærandi krafinn um sorpgjald sumarhúsa í samræmi við framangreint.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar og er heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og raunar er skýrt tekið fram í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er jörðin Ásar í byggð og skráð lögbýli. Á jörðinni er m.a. að finna íbúðarhús með fastanúmerið 213-7356, sem byggt var 1956. Var sveitarstjórn því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á fasteign kæranda. Samkvæmt þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram eru álögð gjöld að jafnaði ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald samkvæmt áður tilvitnuðum ákvæðum 23. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Húnavatnshrepps frá 8. maí 2017 um álagningu á sorphirðugjöldum fyrir árið 2017 vegna fasteignar á jörðinni Ásum með fastanúmer 213-7356 og landnúmer 145277.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (Sign.)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (Sign.)                                Ásgeir Magnússon (Sign.)