Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2006 Kiðjaberg

Ár 2006, miðvikudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í sumarhúsi að Heiðarlundi í landi Hallkellshóla, Grímsnesi.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 43/2006, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 28. febrúar 2006 og 28. júní 2005 um að veita leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum að Kiðjabergi 112 og 113 í Grímsnes- og Grafningshreppi.   

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júní 2006, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóð nr. 111 að Kiðjabergi í Grímsnes- og Grafningshreppi, þær ákvarðanir byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 28. febrúar 2006 og 28. júní 2005 að veita leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum að Kiðjabergi 112 og 113 í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og kveðinn upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum þar til niðurstaða liggur fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Hinn 7. desember 2005 samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar á svæði C í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Hinn 28. janúar 2006 og 28. júní 2005 veitti byggingarfulltrúi uppsveita Árnessýslu leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum nr. 112 og 113 í landi Kiðjabergs.  

Hinn 14. júní 2006 barst Skipulagsstofnun erindi sveitarfélagsins vegna fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar og í bréfi stofnunarinnar, dags. 28. sama mánaðar, segir eftirfarandi:  „Skipulagsstofnun hefur farið yfir innsend gögn og til að geta tekið afstöðu til málsins þarf að huga að eftirfarandi atriðum og lagfæra uppdrátt:  Yfirfara þarf skipulag á svæðinu m.t.t. ofangreindra umsagna, merkja fornleifar á uppdrátt og gera þarf grein fyrir kvöðum á lóðum sem eru til komnar vegna fornleifa eða annars.  Skipulagssvæði það sem breytingin nær til þarf að afmarka á yfirlitsuppdrætti.“  Í bréfi byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júní 2006, í tilefni af kærumáli þessu, segir eftirfarandi:  „Nú hefur komið fram að þessi teikning er ekki samþykkt hjá Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda … Ég hef sent handhöfum lóða 112 og 113 beiðni um að stoppa framkvæmdir meðan komist er að samkomulagi.“

Kærendur hafa kært byggingarleyfin til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.    

Kærendur skírskota m.a. til þess að hin kærðu byggingarleyfi séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag frá árinu 1990.  Sveitarstjórn hafi raunar samþykkt breytingar á því deiliskipulagi en málsmeðferðinni sé ekki lokið enda hafi gildistaka breytinganna ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  

Af hálfu byggingarleyfishafa annarrar lóðarinnar er þess krafist að ógildingar- og stöðvunarkröfu kærenda verði hafnað.  Vísað er til þess að byggingarframkvæmdirnar styðjist við leyfi sem veitt hafi verið af þar til bærum yfirvöldum ásamt því að stöðvun framkvæmda hefði í för með sér verulegt fjárhagslegt tjón. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvarðana byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 28. janúar 2006 og 28. júní 2005 um að veita leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum nr. 112 og 113 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Eru framkvæmdir á umræddum lóðum hafnar.  

Þegar litið er til þess að verulegar líkur eru á að hin kærðu byggingaleyfi eigi ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru að lóðunum nr. 112 og 113 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, með stoð í hinum kærðu byggingarleyfum, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

 

 

 

   ___________________________         
                      Ásgeir Magnússon                                 

 

 

_____________________________                              __________________               
           Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir